og óvenjuhlýr hæðarhryggur tekur við

Kalsalægðardragið er nú (á þriðjudagskvöldi) um það bil komið austur af. Snjókoman hér á höfuðborgarsvæðinu var óvenjumikil miðað við það sem gerist snemma í október. Þó má rifja það upp að í október 2008 og 2009 snjóaði hér mjög snemma í mánuðinum - en hitti þá ekki eins vel í mælitímann eins og nú. En hvað um það - kalsinn er að fara hjá og hlýrra tekur við.

Hlýja loftið á ekki eins auðvelt með að stugga því kalda á brott og það kalda að stugga við hlýju. Best gengur það í hvössum vindi - annars vill hlýja loftið bara renna yfir það kalda. Þannig verður það að mestu á morgun (miðvikudag). Kalda loftið ræður langt fram eftir degi - og sólin er farin að lækka svo á lofti að hún hjálpar lítið til. En mjög hlýr hæðarhryggur nálgast samt úr suðvestri.

Við lítum á tvö kort sem gilda kl. 18 síðdegis á fimmtudag. Það fyrra er þykktarkort frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg091013a

Hér nær breið hlý tunga um mestallt kortið. Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Yfir Austurlandi er hámarksþykktin meiri en 5560 metrar en það þykir bara nokkuð gott að sumarlagi. Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Ef vel er skoðað má sjá 12 stig norðan Vatnajökuls - það er í 1500 metra hæð. Enda er mættishitinn þar 27 stig. Við bíðum með að trúa því að þetta sé rétt - enda um smáatriði í líkaninu að ræða.

Októbermet í þykkt yfir Keflavíkurflugvelli er rúmlega 5580 metrar - á kortinu er hún um 5530 metrar þar um slóðir þannig að nokkuð er í met. Mesti hiti sem frést hefur af í 850 hPa yfir Keflavík í október er 10,8 stig. Svo hátt fer hann varla nú.

Framhaldið ræðst svo á föstudag/laugardag. Þá kemur í ljós hvort hryggurinn heldur og verður að nokkurra daga fyrirstöðu. Það hefur ekki verið mikið um slíkt upp á síðkastið.

En síðari myndin sýnir hæð 500 hPa-flatarins og hita í honum á sama tíma og kortið að ofan gildir, kl. 18 á fimmtudag. Er þetta kort fyrst og fremst sett hér til samanburðar við kalsakortið sem fylgdi pistli gærdagsins.

w-blogg091013b

Hæsti hiti í námunda við landið er -13 stig. Októberhitametið yfir Keflavíkurflugvelli er -11 stig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Photo: Fáránlegt veður hér á Reyðarfirði! 19 stiga hiti kl 20.00

Fáránlega hlýtt hér eystra í kvöld. Undarlegt að standa úti í golunni í þessum hita kl. 20.00

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.10.2013 kl. 20:19

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrir þá sem ekki vita er Oddsskarð í 600 m. hæð

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.10.2013 kl. 20:20

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hvað segir Hilmar við þessu?

Pálmi Freyr Óskarsson, 10.10.2013 kl. 23:04

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Gunnar. Við njótum aldrei svona hlýrra októberkvölda í Reykjavík - alla vega er langt á milli slíkra atvika - mun lengra heldur en á Reyðarfirði.

Trausti Jónsson, 11.10.2013 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 189
  • Sl. sólarhring: 296
  • Sl. viku: 1763
  • Frá upphafi: 2350390

Annað

  • Innlit í dag: 121
  • Innlit sl. viku: 1570
  • Gestir í dag: 117
  • IP-tölur í dag: 116

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband