Bloggfærslur mánaðarins, október 2013
31.10.2013 | 00:21
Hindranalítill hringakstur á norðurhveli
Háloftaspákortið hér að neðan gildir um hádegi á föstudag. Þar má sjá að lítið sést til mikilla hryggja norður úr heimskautaröstinni. Hún hringar sig hindranalítið um allt norðurhvelið.
Ísland er rétt neðan við miðja mynd, norðurskautið þar fyrir ofan. Myndin batnar mjög við stækkun. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Hneppi af þéttum línum liggur umhverfis blálitaða svæðið - það er röstin. Litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra - í þetta sinn skammt suður og austur af Íslandi.
Norðan við röstina er aðallega flatneskja í háloftunum, jafnhæðarlínur eru t.d. ekki mjög þéttar við Ísland. Ef vel er að gáð sést samt að þar í grennd eru tvær jafnhæðarlínur. Lega þeirra gefur til kynna að vindur sé af norðaustri í 5 km hæð yfir landinu. Á milli línanna eru 60 metrar, það samsvarar um 8 hPa bratta.
Eini kuldapollurinn sem nær að hringa sig svo heitið geti er sá fjólublái, skammt norður af Síberíu. Þéttar jafnhæðarlínur eru allt í kringum hann. Fjólublái liturinn hefur varla sýnt sig til þessa í haust en ætti að fara að leggjast í fasta búsetu - af stærð hans má ráða hvernig veturinn hefur það. En þetta er bara fyrsti fjólublái liturinn af fjórum. Hinir sýna sig síðar.
Svo virðist sem það dragi nú úr hlýindunum óvenjulegu sem verið hafa í Alaska mestallan mánuðinn. Röstin liggur enn beint úr vestri inn yfir Evrópu og þótt nú sé ekki beinlínis spáð frekari stórviðrum þar um slóðir er allur varinn góður ef röstin fer að hnykla sig. Sömuleiðis er röstin mjög sterk yfir Bandaríkjunum (er það oft) og má sjá krappa bylgju við vötnin miklu. Hún gæti valdið vandræðum.
Þeir sem ekki treysta sér til að rýna í kortið geta sér að skaðlitlu sleppt tveimur næstu málsgreinum.
En víkjum aftur að stöðunni við Ísland. Þar er eins og áður sagði hófleg norðaustanátt í háloftunum. Ef við rýnum í smáatriðin á kortinu má sjá að þykktarbrattinn er töluverður norður af landinu, þar tekur hver blái liturinn við af öðrum. Það er 60 metra bil á milli jafnþykktarlitanna og hvert þeirra samsvarar líka um 8 hPa þrýstibratta.
Ef við teljum bláu litina frá og með þeim sem er yfir Íslandi og norður á bóginn til Norðausturgrænlands fáum við út 6 liti eða 5 bil. Það eru þá um 300 metrar, safnast þegar saman kemur. Undir þessu til þess að gera flata háloftasviði er sum sé efni í töluverðan vind. Norðaustanátt hæðarsviðsins gefur þar að auki viðbót á vindinn norður af landinu. - Á móti kemur hins vegar að þar sem kaldast er við Norðausturgrænland er kuldapollur, sunnan við hann er suðvestanátt sem jafnar þykktarbrattann út (úff - dálítið snúið - en við látum ekki deigan síga).
Síðara kort dagsins (einnig frá evrópureiknimiðstöðinni) sýnir legu 925 hPa-flatarins á sama tíma og sömuleiðis hita og vind í fletinum.
Hæð flatarins við Vestfirði er um 600 metrar, en um 480 metrar við Langanes. Munurinn er um 120 metrar (15 hPa). Því þéttari sem jafnhæðarlínurnar eru því meiri er vindurinn. Hann flaggar á stóru svæði norðan við land og úti fyrir Vestfjörðum. Þar sem flagg birtist á vindör er vindurinn 25 m/s eða meiri. Nú er vindur við sjávarmál minni en þetta (vegna núnings) - en samt er ekki hægt að segja annað en að um vonskuveður sé að ræða.
Vindur er væntanlega enn minni inni yfir landi og svo er hæðarsviðið flatt um landið sunnanvert. Litla lægðin við Norðausturland er komin úr austri og fer væntanlega suður um landið austanvert - eða eyðist við að rekast á landið. Við skulum þó hafa í huga að nærri tveir sólarhringar eru í þessa stöðu þegar skrifað er (um miðnætti á miðvikudagskvöldi) og varla hægt að búast við því að smálægðir eins og sú sem hér um ræðir skili sér í réttri stærð eða verði á réttum stað um hádegi á föstudag. En nútímareiknilíkönum er alveg trúandi til að hitta rétt í - alla vega er ekki hægt að ganga út frá því að rangt sé reiknað.
Takið eftir hitabrattanum - litur við lit á stormsvæðinu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2013 | 00:39
Enn af langtímahitameðaltölum
Hér er fjallað um samanburð á langtímameðaltölum hita og þykktar. Við berum saman hita í Stykkishólmi og þykktina á 65°N og 20°V eins og hún reiknast í bandarísku endurgreiningunni.
Við getum ekki farið eins langt til baka og endurgreiningin nær (1871) vegna þess að hún ofmetur þykkt á ársgrundvelli fram undir 1920. Fleira er úr skorðum í endurgreiningunni á þeim tíma. Það hefur verið rakið að einhverju leyti áður á þessum vettvangi.
En fyrri mynd dagsins sýnir 360-ára keðjumeðaltöl hita og þykktar.
Kvarðinn til vinstri sýnir þykktina í dekametrum en sá til vinstri hitann. Lárétti ásinn sýnir tíma. Hann er merktur þannig að t.d. sýnir 1930 meðaltal áranna 1901 til 1930, meðaltal áranna 1981 til 2010 sker 2010-línuna. Ferlarnir tveir falla ótrúlega vel saman - nokkru munar þó í upphafi meðan greiningargallinn stóri hefur áhrif (tímabilið 1891 til 1920 er í jaðri myndarinnar). Myndin batnar við stækkun.
Lágmarkið er á sama stað (1995: árin 1965 til 1994) og sömuleiðis hámarkið (rétt um 1960: 1931 til 1960). Hér gefur þykktin 533 dekametrar hitann 3,7 til 3,8 stig. Nú er það svo að þessi þykkt gefur ekki sama hita alls staðar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - en ekki niður við sjávarmál. Þar sem loft er vel blandað (hitahvörf ekki mjög öflug) er betra samband á milli sjávarmálshita og þykktarinnar. Vindur og upphitun að neðan sjá um blöndun. Samband þykktar og hita er því best þar sem bæði er hvasst og sjór eða land er hlýrra en loftið ofan við. Hér á landi er blöndun mun betri á vetri en sumri. Yfir meginlöndunum er blöndunin betri að sumri heldur en að vetri.
Höfum í huga að bandaríska greiningin notar hitann í Stykkishólmi ekki neitt - gott samband táknar það að reiknilíkaninu tekst vel til.
Hin myndin er alveg eins nema hvað á henni eru meðaltölin 120-mánaða löng (10 ár).
Hér er fylgnin einnig býsna góð. Það er reyndar eftirtektarvert að hlýindin í kringum 1940 og áratuginn þar á eftir skera sig miklu betur úr í þykkt heldur en hita. Minni munur er á þeim þykktartopp og þeim nýlega heldur en á hitatoppunum tveimur. Sömuleiðis er núverandi þykktartoppur talsvert feitari heldur en núverandi hitatoppur og fyrri þykktartoppur.
En ekki er efni til að velta sér upp úr smáatriðum myndarinnar - sérstaklega vegna þess að þykktargreiningin er ekki negld niður með háloftaathugunum nema aftur til 1950 eða svo (um 1960 á myndinni). Reyndar eru háloftaathuganir ekki notaðar í greiningunni á fyrri hluta myndarinnar.
29.10.2013 | 00:55
Illviðrið í Danmörku og víðar
Í dag (mánudaginn 28. október) gerði mikið illviðri um England sunnanvert, við Norðursjó sunnanverðan, í Danmörku og Suður-Svíþjóð - og kannski líka í Eystrasaltslöndum.
Þegar þetta er skrifað er danska veðurstofan (DMI) nánast búin að gefa út heilbrigðisvottorð á mestu vindhviðu sem mælst hefur þar í landi. Mesta hviðan sem hún nefnir á vef sínum er 53,5 m/s. Það er mjög mikið. Við sjáum reyndar alloft hærri tölur hér á landi - en þá með fjallalandslag til aðstoðar bæði til að styrkja vindstrengi og rífa þá sundur í skrúfvinda. En við bíðum frétta af því hvort hviðan danska hefur mælst í löglegri 10 metra hæð eða í einhverju stórmastri eða vindmyllu (líklegt).
Við skulum nota tækifærið og líta á 500 hPa hæðar- og þykktargreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar um hádegi. Kortið batnar ekki mikið við stækkun - en rýnum í það.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin sýnd með litum. Mörkin milli grænu og gulu litanna er sett við 5460 metra. Þykktin breytir um lit á 60 metra bili og jafnhæðarlínurnar eru dregnar jafnþétt.
Svo kemur mun erfiðara efni. Þeir sleppi sem vilja - takk fyrir innlitið.
Við tökum í fyrsta lagi eftir því hvað fyrirferð háloftalægðardragsins sem ber lægðina er lítil. Þetta er mjög stutt bylgja (og fer ógnarhratt yfir). Í öðru lagi sést vel hvernig fleygur af hlýju lofti stingur sér inn til móts við bylgjuna, jafnþykktarlínurnar eru mun gisnari heldur en jafnhæðarlínurnar. Slíkt fyrirkomulag er ávísun á mikinn vind þegar bæði hæð og þykkt hallast á sama veg. (Bæði svið hallast til norðvesturs). Því gisnari sem jafnþykktarlínurnar eru og því þéttari jafnhæðarlínur því meiri verður sjávarmálsvindurinn.
Það er hægt að telja út á þessu korti hversu mikill vindauki við sjávarmál fæst út úr mun hæðar- og þykktarbratta yfir Danmörku - en það nennir auðvitað enginn að telja, það þarf þá líka að vita nákvæmlega hversu hver breiddargráða er löng á kortinu. Einhverjir eiga kannski hentuga tommustokka til að mæla lengdir á skjánum. Lægðin er þar að auki svo lítil um sig að viðbúið er að við sjáum versta vindstrenginn alls ekki á þessu korti - jafnvel ekki þeir sem stunda prjónaskap eða útsaum.
Við sjáum hér á landi öðru hvoru illviðri sem ganga fyrir þessu sama - gisnu (samvísandi) þykktarsviði í miklum hæðarbratta. Séu þykktar- og hæðarsvið jafnbrött (samvísandi) eyðist vindur við sjávarmál - sé þykktarbratti meiri heldur en hæðarbrattinn (enn samvísandi) snýst vindur við sjávarmál í öfuga átt miðað við háloftavindinn.
27.10.2013 | 00:35
Staða hitameðaltala
Fyrir tæpu ári síðan (21. nóvember 2012) birtist pistill sama efnis á hungurdiskum. Hér er hann uppfærður til mánaðamótanna september/október 2013.
Hlýindin miklu sem einkennt hafa veðurlag hér á landi undangengin 15 ár halda enn sínu striki. Síðustu 12 mánuðir (október 2012 til september 2013) eru að vísu 0,5 stigum kaldari í Reykjavík heldur en 12-mánaða tímabilið sem endaði með september í fyrra. Lítillega kaldara var á 12-mánaða tímabilinu mars 2006 til febrúar 2007 heldur en nú. Október 2012 og 2013 virðast ætla að enda með ámóta meðalhita. Nóvember í fyrra var ekki sérlega hlýr en það var desember hins vegar. Ef hitafar verður svipað (miðað við meðallag) síðustu tvo mánuði ársins 2013 og verið hefur undanfarna mánuði verður árið í ár kaldara heldur en 2013.
Hér að neðan er miðað við meðalhitatölur úr Stykkishólmi, en meðalhitasveiflur þar eru oftast nærri því sem gerist fyrir landið í heild. Við tökum landsmeðalhitann fyrir síðar. Við leyfum okkur til gamans að skarta 2 aukastöfum - en varlega skal tekið mark á þeirri nákvæmni.
Meðalhiti síðustu 12 mánaða í Stykkishólmi er 4,42 stig, á sama tíma í fyrra var talan 5,03 stig. Hér munar 0,61 stigi í Stykkishólmi 2012 í vil. Tólf mánaða meðalhitinn náði upp í 5,19 stig í lok febrúar en hefur verið á siglingu niður á við síðan þá. Mjög líklegt er að 12-mánaða hitinn hrapi talsvert í janúar og febrúar 2014 því þessir tveir mánuðir 2013 voru sérlega hlýir.
Meðalhiti síðustu sextíu mánaða (5 ár) stendur nú í 4,80 stigum en á sama tíma í fyrra var hann 4,91 stig hefur lækkað lítillega.
Meðalhiti síðustu 120 mánaða (10 ár) stendur nú í 4,75 stigum, á sama tíma í fyrra var 10-ára meðalhitinn 4,89 stig. Meðalhitinn í september 2002 til ágúst 2012 var hæsta 10-ára meðaltal allra tíma í Stykkishólmi, 4,90 stig. Við erum því nú aðeins komin framhjá toppnum. Á næstunni harðnar á dalnum fyrir 120-mánaða meðaltalið því út úr því eru að detta ólíkindaárin 2003 og 2004 og ólíklegt er að næstu mánuðir eða jafnvel ár nái því að verða jafnhlý og þessi ofurár.
Það var í lok apríl 2008 sem 120-mánaða hitinn fór í fyrsta sinn yfir hæsta gildið á hlýindaskeiðinu fyrir miðja 20. öld (4,45 stig) og er nú 0,30 stigum hærri en sú tala.
Á sama tíma í fyrra stóð 360-mánaða (30-ára) meðalhitinn í 4,14 stigum. Nú hefur hann þokast upp í 4,20 stig. Kaldir mánuðir ársins 1983 hafa verið að detta út og hlýrri mánuðir 2013 komið í staðinn.
Þó hlýindin nú séu orðin langvinn hafa þau ekki staðið nema í um hálfan annan áratug. Þrátt fyrir það er 360 mánaða hitinn í Stykkishólmi nú búinn að jafna hæsta 360-mánaða gildi fyrra hlýskeiðs Það var frá og með mars 1931 til og með febrúar 1961 að hitinn varð hæstur þá.
Hlýjasta 12-mánaða tímabilið í Stykkishólmi var september 2002 til ágúst 2003 með 5,88 stig. Sama tímabil var einnig það hlýjasta í Reykjavík með 6,61 stig og á Akureyri með 5,77 stig. Árið í ár verður kaldara en hlýjast hefur verið.
Fleiri pistlar um langtímameðaltöl eru í pípunum (en hvert þær liggja er ekki vitað).
25.10.2013 | 00:31
Þungskreið lægð (meinlítil fyrir okkur)
Næsta lægð fer til austurs fyrir sunnan land um helgina. Hún er stór um sig og talsvert djúp en hefur aðallega óbein áhrif hér á landi. Sjá má tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um ástandið á hádegi á laugardag hér að neðan. Laugardagurinn er líka fyrsti vetrardagur í ár samkvæmt íslenska tímatalinu. Hann er í tilfinningunni ískyggilegastur fyrir að sýna svart á hvítu að sex mánuðir séu eftir til vors - að minnsta kosti. Veturinn hér á landi er miklu lengri heldur en blessað örstutt sumarið.
Við sjáum hvernig aðallægðin hefur slitnað frá úrkomubakkanum sem fer hraðar til austurs heldur en lægðarmiðjan. Ef vel er að gáð má sjá mun minni lægð við bakkann norðanverðan - sú verður aðeins nærgöngulli við okkur heldur en aðallægðin - en fer líka til austurs. Eins og við er að búast snýst vindur á landinu meira til norðurs á sunnudaginn.
Breskir og danskir veðurfræðingar fylgjast vel með lægðinni suðaustur af Nýfundnalandi. Í sumum spám fer hún býsna kröpp yfir Bretland og síðan norðaustur um Skagerak á mánudag. En þetta er sýnt illviðri en ekki gefið. Þriggja til fjögurra daga spár hafa haft tilhneigingu til þess að undanförnu að mála veðrið nokkuð sterkum litum - sem síðan vatnast út þegar nær dregur. En allur er varinn góður.
24.10.2013 | 00:09
Hægviðrasamur mánuður - það sem af er
Októbermánuður hefur verið hægviðrasamur það sem af er. Enn eru þó átta dagar eftir þegar þetta er skrifað (á miðvikudagskvöldi 23.) og hlutirnir fljótir að breytast.
Hér má sjá landsmeðalvindhraða fyrstu 23 daga októbermánaðar 1949 til 2013. Bláa línan sýnir meðaltal mannaðra stöðva en sú rauða meðaltal sjálfvirkra í byggð. Mjög hægviðrasamt var einnig á sama tíma í fyrra en síðan þarf að fara aftur til októbermánaðar 1982 til að finna ámóta. Síðan var einnig mikið hægviðri á sama tíma 1960 og 1961.
Október 1961 sprakk reyndar á limminu því illviðrasamt var síðustu vikuna og svipað má segja með október 1982. Október 1960 stóð vaktina til enda og verður erfitt fyrir núlíðandi mánuð að ná sama árangri - að enda innan við 3 m/s. Þess verður þó að gæta að logn var yfirleitt oftalið á fyrri hluta þessa tímabils sem hér er sýnt. Ritstjórinn hefur ekki athugað hvort svo var haustið 1960.
Mjög þurrt hefur nú verið um stóran hluta landsins og fáir októbermánuðir sem byrjað hafa á jafnrýrri úrkomu um landið vestanvert og nú.
23.10.2013 | 00:37
Enn af því sama
Rétt er að fylgja enn miðvikudagssyrpunni sem grasserað hefur á hungurdiskum undanfarna daga - en nú fer að verða nóg komið. Í dag (þriðjudag) náði norðanillviðri um Vestfirði og allt suður á Snæfellsnes. Sá stormur virðist nú þokast vestur - kemur síðan aftur - en er þá að ganga endanlega niður.
Spáin um legu 500 hPa-flatarins, vind í honum og hita sem gildir um hádegi á morgun (miðvikudag) sýnir kuldapollinn nærri Suðvesturlandi.
Hann kemur að vestan en svo er að sjá að hann skilji kaldasta loftið eftir við Grænland. Vestanháloftastrengurinn fer fyrir sunnan land - en yfir landinu er suðaustanátt í 5 km hæð. Hún liggur til Grænlands en undir ríkir norðanáttin - býsna hvöss, jafnvel fárviðri undan Brewsterhöfða sunnan við Scoresbysund. Það sést á 925 hPa-kortinu sem gildir á sama tíma.
Á kortinu er flöturinn í um 500 m hæð yfir Reykjavík. Háloftasuðaustanáttin þokar vindstrengnum til vesturs í bili en þegar háloftalægðin er komin lengra verður vindáttin yfir svæðinu austlægari og hægari. Þá slaknar á aðhaldinu. Vindur í 925 hPa-vindstrengnum snýst þá úr norðnorðaustri í norðaustur og jafnvel austur og hann fellur aftur inn á Vestfirði - en vegna þess að aðhaldið hefur minnkað dregur fljótt úr vindhraða.
Að lokum ná vindar í neðri og efri lögum saman og búa til sameiginlega hringrás í kringum kuldapollinn. Hann á síðan að fara austur með Suðurlandi og til norðausturs úti af Austfjörðum. Sögu þessa kerfis verður þá lokið hér við land og eitthvað annað tekur við. Mikil lægð á að fara til austurs fyrir sunnan land - en kalda loftið sem skilið var eftir yfir Grænlandi gerir aðra tilraun til að komast hingað á sunnudag/mánudag - en það er önnur saga - og svo önnur og önnur og önnur og ...
22.10.2013 | 00:57
Linast enn
Reiknimiðstöðvar linast enn á veðrinu á miðvikudaginn. Kannski svipað og búast mátti við þegar harkan birtist frekar óvænt í miðvikudagsspánum á laugardaginn. Það er þó heldur ankannanlegt að gera spár um það hvernig veðurspár muni þróast. Það er þó sá raunveruleiki sem spáveðurfræðingar þurfa að fást við. Ritstjóri hungurdiska getur þó meldað pass - hann spáir engu [þótt hann þurfi stöðugt að vera að ítreka þá ritstjórnarstefnu]. Ætli raunveruleikinn sé ekki sá að oftar sé hér fjallað um vitlausu spárnar heldur en þær réttu.
En hvað um það - lesendur eru enn þreyttir með miðvikudagshádeginu. Þar var komið sögu í gær að reiknimiðstöðvar höfðu linast umtalsvert á illviðraspánni. Sú þróun hefur haldið áfram í dag - en veðrið er samt ekki búið. Það er ekki kominn miðvikudagur og því síður fimmtudagur.
Þetta er 500 hPa hæðar- og hitakort sem gildir á hádegi á miðvikudaginn (23. október). Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum. Háloftalægðin er 20 metrum grynnri heldur en í spánum í gær og 80 metrum grynnri heldur en hún var í spám á laugardaginn. Hér er hún við Snæfellsnes og nærri því orðin kyrrstæð í bili. Alla vega á hún að fara stutt til hádegis á fimmtudag (framhaldsörin). Hún hefur skilið kaldasta loftið eftir vestast á Grænlandshafi.
Við tökum eftir því að bæði hiti og flatarhæð hækka til austurs yfir Íslands. Hitamunurinn á milli Vestur- og Austurlands nýtist því ekki til að búa til vind að ráði á þeirri leið. Fyrir norðan lægðina hagar öðruvísi til. Þar ganga jafnhitalínur alveg þvert á jafnhæðarlínurnar og léttir hvor brattinn um sig ekkert af hinum. Þar er því rúm fyrir mikinn vind neðar í veðrahvolfinu.
Þetta sést vel á hinu kortinu sem sýnir hæð 925 hPa-flatarins auk vinds og hita í fletinum. Það gildir líka á hádegi á miðvikudag. Kortið skýrist mikið við stækkun.
Þarna sést illviðrið úti af Vestfjörðum og í Grænlandssundi norðanverðu mjög vel og gott væri að sleppa alveg við það. Rauða x-ið er sett um það bil þar sem miðja háloftalægðarinnar er á sama tíma. Svarta örin hins vegar hreyfistefnu lægðarinnar norðan við land. Það er eins og háloftalægðin dragi hana til sín - og sveifli rétt vestur fyrir sig. Ef trúa má spám hafa lægðirnar sameinast um hádegi á fimmtudag og þá yfir landinu sunnan- eða suðvestanverðu. Fari svo fer illviðrið að mestu framhjá landinu.
En litlu má muna og gæti hvesst bæði á Vestfjörðum og Snæfellsnesi með hríðarbyl á heiðum. Gusa af köldu lofti kemur að norðan eins og sjá má á 925 hPa-kortinu og gæti kastað éljum víðar á landinu.
En fyrir alla muni takið eftir því að hér er ekkert fjallað um veður þriðjudagsins og aðfaranætur miðvikudags og hér er ekki verið að spá miðvikudagsveðrinu - fylgist með spám Veðurstofunnar og sjónvarpsspánum ef þið eigið eitthvað undir veðri.
21.10.2013 | 00:41
Nær samkomulagi
Reiknimiðstöðvar eru nú nær samkomulagi um miðvikudagsveðrið heldur en í gær. Hvor um sig hefur gefið nokkuð eftir. Spá evrópureiknimiðstöðvarinnar er mun linari heldur en var en sú bandaríska aftur harðari á því. Þrátt fyrir það má enn segja eitthvað um efnið.
Kortið að neðan sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar, svartar línur) og hæð 500 hPa-flatarins (ekki þykktina) í lit.
Kortið gildir á sama tíma og kortin sem sýnd voru í pistli gærdagsins, kl. 12 á hádegi á miðvikudag 23. október. Háloftalægðin (litirnir) er áberandi en ekki eins snörp og sýnt var í gær, munar að minnsta kosti 60 metrum - hún er heldur ekki komin alveg jafnlangt og í spá gærdagsins. Örvarnar eiga að sýna hreyfistefnu og leið lægðarinnar.
Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting og má sjá að þær liggja nánast beint í gegnum háloftalægðina - eins og hún sé ekki til. Þetta er það sem ritstjórinn hefur kallað þverskorinn kuldapoll. Almennt má segja að þetta séu verstu kuldapollarnir á markaðnum. Þessi er kannski hvorki sérlega stór né djúpur en sýnir samt ættarmótið.
Það er ekkert af ástæðulausu að illviðrið sem var í spám evrópureiknimiðstöðvarinnar í gær varð svo slæmt - mjög lítið má út af bregða í stöðu sem þessari. Vonandi sleppum við þó að mestu í þetta sinn.
Hér er umhugsunar- og eftirtektarvert að vegna þess að kuldapollurinn sést ekki á venjulegum sjávarmálskortum er hans ekkert getið í veðurfréttum - þrátt fyrir að hann sé (annað) aðalatriðið í stöðunni. En svona eru reglurnar.
20.10.2013 | 01:26
Hringlandi spár (enn og aftur)
Hungurdiskar fjalla að jafnaði lítið um spár meir en einn til tvo daga fram í tíma - en nú birtist ágætt dæmi um mjög misvísandi 4 daga spár. Rétt að líta á það.
Fyrsta kortið er sjaldan sýnt. Það sýnir hæð 400 hPa-flatarins, form hans, lægðir og hæðir eru svo líkar 500 hPa-fletinum að ástæðulítið er að hanga yfir honum. En á kortinu hér að neðan má auk hæðar flatarins einnig sjá svonefnda mættisiðu í fletinum. Við skulum ekki hafa áhyggjur af því hvað það í ósköpunum er - en hér notum við það til að sjá legu snarpra háloftalægðardraga og krappra lægða í sjónhendingu.
Í pistli gærdagsins var fjallað um tvö lægðardrög á leið suðaustur um Grænland. Þau sjást mjög vel á þessu korti sem gildir um hádegi á þriðjudag (22. október). Það fyrra er þá yfir Vesturlandi en það seinna - og öflugra er rétt að komast yfir Grænland á leið til okkar.
Það er þetta seinna lægðardrag sem virðist vera sérlega erfitt fyrir spárnar í framhaldinu. Lítum nú á tvö 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem gilda um hádegi á miðvikudag - sólarhring eftir kortinu hér að ofan.
Kortið til vinstri sýnir reikninga evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þar má sjá lægðardragið orðið að mjög krappri háloftalægð skammt undan Suðurlandi, miðjuhæð hennar er 5090 metrar. Svarta örin markar stefnuna. Rauðar strikalínur sýna þykktina. Fleygur af köldu lofti (minna en 5220 metra þykkt) liggur til austurs rétt suðvestur af landinu. Lægðinni hefur tekist að ná í hlýtt loft sem á kortinu stefnir til vesturs yfir Norðurland, býsna hlýtt með þykktina 5400 metra skammt undan Norðausturlandi.
Jafnþykktarlínurnar liggja samsíða í stafla yfir Norðurlandi - alveg hornrétt á jafnhæðarlínurnar. Þetta lítur ekki vel út. Þykktarmunur á Vestfjörðum og Norðausturlandi (þykktarbrattinn) er um 180 metrar - það samsvarar 22 hPa í sjávarmálsþrýstingi. Við látum lesendum eftir að breyta því í vind.
En - kortið til hægri sýnir reikninga bandarísku veðurstofunnar fyrir sama tíma. Hér er lægðardragið bara lægðardrag - kannski er um 5210 metra lægð við Suðvesturland. Alla vega munar hér 120 metrum á dýpt lægðarinnar í spánum tveimur - það er um 15 hPa. Lægðardraginu hefur ekki tekist að ná í neitt hlýtt loft - vægt kalt aðstreymi er ríkjandi á svæðinu. Þykktin við Miðnorðurland er um 5160 metrar - en er um 5320 metrar í hinni spánni. Hér munar 160 metrum, það eru um 8°C. Býsna mikið. Undir þessu 500 hPa-veðri er þó norðaustanátt - ekki þó svo mjög hvöss.
Ekki er nóg með að reiknimiðstöðvarinnar tvær séu ósammála heldur er evrópureiknimiðstöðin hrikalega ósammála sjálfri sér 12 klukkustundum áður. Við sjáum það á kortinu hér að neðan. Það sýnir sjávarmálsþrýsting á miðvikudagskvöld (heildregnar línur) og mismun spárunanna tveggja (á miðnætti og hádegi 19. október) í lit.
Græna örin bendir á stað þar sem þrýstingur í hádegisspánni er 31,7 hPa lægri heldur en í næstu spárunu á undan. Ekki traustvekjandi það.
En hvað verður svo? Allar spár virðast sammála um að norðanátt verði á miðvikudaginn og að sennilega verði hún leiðinlega hvöss. Trúlega slaknar eitthvað á evrópureiknimiðstöðinni aftur - eftir reglunni almennu um að taka eigi óvæntum og öfgakenndum spám af mikilli varúð - en fyrir 36 tímum var hún reyndar að spá austanhríðarveðri á Suðvesturlandi á miðvikudaginn - hætti svo snarlega við það - bauð svo upp á .... Hver verður matseðill miðvikudagsins á morgun?
Munið það að alvöruspár má finna á vef Veðurstofunnar og í almennum veðurfréttum. Hungurdiskar spá engu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 265
- Sl. viku: 2382
- Frá upphafi: 2434824
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2113
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010