Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Í flatneskjunni miðri

Nú stefnir í margra daga flatneskju á veðurkortum sem sýna Ísland og hafsvæðin umhverfis það. Langt er í hlýtt sumarloft en styttra er í kalda loftið, alla vega það sem liggur á fleti yfir hafinu norðaustan og austan við land. Ef skýjað er verður fátt til bjargar, hitinn er þá aðallega á bilinu 6 til 12 stig (eða svo) dag og nótt, en sé veður bjart að deginum nær sólin að koma hitanum ofar - jafnvel í 16 til 18 stig - ef ekki er þá hafgola. Nóttin er mjög stutt en samt kólnar mjög í heiðu veðri og næturfrost þá viðloðandi.

En við lítum á spá frá evrópureiknimiðstöðinni um stöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis á sunnudag 10. júní.

w-blogg100612a

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar og eru dregnar með 6 dekametra bili (1 dekametri jafngildir 10 metrum). Yfir Íslandi er flöturinn í meir en 5580 metra hæð, en það er um 100 metrum hærra en að meðaltali í júní. Hæglátt niðurstreymi ríkir í háþrýstisvæðinu og dregur það úr líkum á myndun skúraklakka sem stundum eru áberandi þegar þrýsti- og hæðavið eru flöt.

Þykktin er mörkuð með rauðum strikalínum, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Meðalþykkt um 10. júní er um 5400 metrar. Það er einmitt 5400 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir Austurlandi og þykkt yfir Vesturlandi því aðeins yfir meðallagi. Þeir sem eru reikningslega sinnaðir geta nú reiknað út þrýsting við sjávarmál (við leyfum þeim að gera það).

En á kortinu er eftirtektarvert að flatneskjan nær næstum yfir það allt. Jafnhæðar- og jafnþykktarlínur eru þó þéttari sunnan Bretlands, yfir Frakklandi og Spáni. Þar er stöðugur lægðagangur - flóð hafa verið á Bretlandi síðustu daga. Spár segja að lítilla breytinga sé að vænta þar um slóðir.

Yfir norðurodda Labrador er býsna krassandi kuldapollur sem ber í sér leifar vetrarins. Hann ógnar okkur ekki - en alltaf er rétt að gefa villidýrunum auga.

Þótt þetta veðurlag sé hvað næst veðurleysunni er það ekki auðvelt viðfangs fyrir veðurspámenn. Nú skipta hin minnstu smáatriði máli fyrir fólk í fríi - skín sól eða ekki? - hvernig verður hafgolan í dag? Svör eru ekki auðveld - helst að spá sama á morgun og var í dag? En þetta er auðvitað eitt besta veðurlag sem fyrirfinnst hér á landi til útivinnu og gönguferða.


Tvö hitakort (sýnidæmi)

Sæmilegur hiti er nú í landáttinni yfir hádaginn - en kaldara áveðurs. Kortin tvö sýna spár sem gilda síðdegis á laugardag (9. júní) og eru gerðar af evrópureiknimiðstöðinni. Það fyrra nær til hita í 2 metra hæð (mælaskýlahæð) og vinds í 10 metrum (vindmöstrum). Bæði kortin batna við stækkun.

w-blogg090612a

Við sjáum Ísland í miðju, Grænland til vinstri og Bretlandseyjar í neðra hægra horni myndarinnar. Lituðu fletirnir sýna hita í 2 m hæð frá yfirborði jarðar í líkaninu. Grænlandsjökull er kaldur eins og vera ber og við sjáum töluna mínus 3,5 stig yfir Vatnajökli líkansins (sem er bæði stærri og lægri heldur en sá raunverulegi). Örvar sýna vindátt og vindhraða.

Yfir sjónum er lofthiti oftast svipaður og sjávarhitinn - en ekki er því samt alveg að treysta. Stöku lesendur muna e.t.v. eftir umfjöllun hungurdiska um skynvarmaflæði (orðið hræðilega) þar sem hitamunar lofts og sjávar hefur þráfaldlega verið getið. Blái liturinn byrjar við frostmark en síðan er skipt um lit á tveggja stiga fresti. Tveggja til fjögurra stiga hiti er við norðausturströndina í hafáttinni en mun hlýrra er vestanlands. Jafnhitalínur fylgja lögun landsins að nokkru þar sem hlýjast er - enda er um laugardagssíðdegi að ræða. Þar má ef vel er að gáð sjá töluna 15,0 stig. Sæmilegt á júnídegi - en auðvitað viljum við hærri tölur, þær eru bara ekki á lager í bili.

Hitt kortið sýnir hins vegar mættishita í 850 hPa-fletinum. Flötur þessi er í um 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Mættishiti sýnir hversu hlýtt loftið sem í fletinum er yrði tækist að draga það niður að jörðu (strangt tekið niður í 1000 hPa þrýsting). Hér erum við komin upp úr sjávaráhrifum.

w-blogg090612b

Enda er talsverður munur er á lögun jafnhitalína á þessu korti og því fyrra. Kaldasta loftið (bláa örin) sækir fram mun lengra fyrir austan land en á hinu kortinu - en sveigir síðan vestur með Suðurlandi. Áberandi hlýr blettur er fyrir norðan landið - þar er hlýjasta loftið í námunda við landið. Með góðum vilja má ímynda sér að hér sé um framlengingu á hlýja fleygnum sem stefnir frá Skotlandi og í átt til Íslands (gula örin) að ræða. Yfir Siglufirði má sjá (stækkið kortið) töluna 17,2 stig. Þetta er það hlýjasta á markaðnum í dag - nema við sækjum loft enn ofar að. Það er erfitt.

Jú, það getur orðið hlýrra í sólinni sunnan undir vegg. Sumir gætu haft áhuga á því að rifja upp gamlan pistil hungurdiska  þar sem garðhiti kemur við sögu (vonandi er viðhengið ennþá virkt).


Köldustu júnídagarnir

Enn er fastur liður á dagskrá: Köldustu og hlýjustu dagarnir í hverjum mánuði á landinu síðustu 60 árin rúm. Komið er að júnímánuði og fyrst lítum við á köldustu dagana. Allar tölur eru í °C.

Þeir eru gríðarkaldir og ekki laust við að manni bregði við að sjá tölurnar. Fyrst er það meðalhitinn:

röðármándagurmeðalh.
11975620,81
21975631,04
31975611,13
41997671,14
51952621,79
61975641,88
719736102,20
81975652,21
91983612,30
101956672,35
111952632,40
121977662,47
1319736112,49
141952612,57
151956662,58

Það er reyndar eitt kuldakast sem er sérlega áberandi, fyrstu fimm dagar júnímánaðar 1975 eru allir á listanum, þar af í fyrsta til þriðja sæti. Svo vildi til að vindur var víðast hægur og fór ekki margt úrskeiðis nema ef telja á sigur Íslendinga á landsliði Austur-Þjóðverja i knattspyrnu á Laugardalsvellinum til úrskeiða.  

Dagurinn í fjórða sæti er frægur fyrir það að hiti var þá ekki nema 3,6 stig klukkan 15 í Reykjavík. Daginn eftir var alhvítt á Eyrarbakka og á fleiri stöðum í lágsveitum Árnessýslu.

Í fimmta sæti er 2. júní 1952 - þá var alhvítt á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, snjódýpt 2 cm. Hvítasunnuhretið 1973, þann 10. til 11. júní var eftirminnilegt. Þá (þ. 11.) mældist lægsti hiti sem vitað er um á veðurstöð á landinu í júní, -10,5 stig. Það var í Nýjabæ (á hálendisbrúninni suður af Eyjafirði). Tvennum sögum fór af ánægju með unglingamótið „Vor í Dal“ sem haldið var í Þjórsárdal þessa hvítasunnuhelgi.

Listi yfir lægstu meðallágmörkin er svipaður:

röðármándagurmeðallágm.
1197562-1,88
2195262-1,38
3197564-1,38
4199767-1,17
51973611-0,96
6197563-0,91
7195263-0,74
8197561-0,70
9195261-0,52
10197566-0,26

Þetta eru nærri því sömu dagarnir (sömu hret), röðin hefur hnikast lítillega. Listinn yfir lægsta meðalhámarkshitann er alltaf athyglisverður. Flestir sofa á nóttunni og koma út í kaldan lágmarkshita morgunsársins, en síðan tekur dagurinn allur við. Stundum þegar kalt er að morgni hlýnar vel í sól yfir daginn - en ekki alltaf jafnvel þótt í júní sé. En - við mætum að mestu sömu dögum. Þeir eru kaldastir hvernig sem á málið er litið.

röðármándagurmeðalhám.
11975633,51
21975623,89
31997674,09
41975644,73
51952624,86
619736114,92
719736124,92
81956674,96
91983614,99
101975655,11

En við tökum eftir því að langt er síðan júnídagar hafa verið svona kaldir. Nýjasta dæmið á listunum er frá 1997 - fyrir 15 árum. En einhvern tíma kemur að því að nýsleginn kaldur júnídagur mætir á svæðið og treður sér inn á listana.

Annars skulum við hafa í huga að talsverður munur er á meðalhita fyrstu og síðustu júnídaganna, í Reykjavík er hann t.d. hátt í 2,4 stig. Dagur síðast í mánuðinum sem er álíka langt undir meðallagi og þeir á listunum hér að ofan á litla möguleika á að komast inn - þótt hann sé að tiltölu jafnvel kaldari. Júní síðustu 15 ára er ekki alveg kuldakastalaus.


Aftur í hæðarbeygju - en mun veikara kerfi

Kuldapollar eins og sá sem nú er yfir landinu bera langoftast með sér háloftalægðir. Þar með hreyfist loft í kringum þær í lægðabeygju. Lægðabeygja ýtir undir uppstreymi og þar með verður skýjað og jafnvel fylgir úrkoma. Þessa hjálparreglu má þó ekki taka alveg bókstaflega - margt fleira kemur við sögu. En gott að hafa bak við eyrað samt þegar engin hefðbundin skila- eða úrkomusvæði eru á ferðinni til að auðvelda veðurmatið. Rita má hvort sem er lægðar- eða lægðabeygja - eftir smekk og samhengi.

En útlit er fyrir að áhrif lægðabeygjunnar hverfi til suðurs og við taki hæðarbeygja - dálítil háloftahæð á að myndast fyrir norðan land fram til föstudags. Hún ræður síðan veðri í nokkra daga. Þessi hæð er hins vegar ekki til stórræða - og miklu veigaminni heldur en hæðin mikla sem hér réði ríkjum alla síðustu viku. En sjáum þetta á mynd (hún batnar ekki mikið við stækkun).

w-blogg070612

Til hægri má sjá ástandið eins og það er þegar pistillinn er skrifaður nærri miðnætti á miðvikudagskvöldi 6. júní. Til vinstri er komið hádegi á föstudag. Báðar myndirnar eru fengnar frá evrópureiknimiðstöðinni og eiga við ástand í 500 hPa og þar neðan við. Jafnhæðarlínur flatarins eru svartar og heildregnar, en litafletir sýna þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Guli liturinn nær niður í 5460 metra og síðan eru nýir litir á 60 metra bili. Dekksti græni liturinn sýnir þykkt á bilinu 5280 til 5340 metra. Það er of kalt fyrir flestra smekk á þessum tíma árs.

Á föstudaginn hefur ástandið aðeins lagast og þykktin yfir landinu komin upp í nærri 5400 metra, ekki gott - en samt í lagi og alls ekki óvenjulegt í júní. Gróflega þremur stigum hlýrra heldur en var í dag (miðvikudag). Við sjáum líka að vindurinn (ræðst af legu jafnhæðarlína) ber hlýrra loft með sér í átt til landsins (ekki þó mjög hlýtt).

En af myndunum má einnig sjá að það skiptir um beygjulag milli korta. Á kortinu til vinstri er býsna kröpp lægðabeygja. Beygjulagið þekkjum við best á því að leggja hægri lófa þannig ofan á örina að langatöng vísi í örvarstefnu. Bendi þumallinn inn í beygjuna (kortið til vinstri) er um lægðabeygju að ræða - bendi hann út úr beygjunni (kortið til hægri) er hún hæðarbeygja.

Fyrirsögnin vísar í samanburðinn milli hæðarinnar stóru í síðustu viku og þeirrar litlu og veiku sem nú tekur við.


Enn hitar hafið

Sjávarhiti er að meðaltali hærri en lofthiti hér á landi megnið af árinu. Þetta snýst við stuttan tíma á sumrin - aðeins í fáeinar vikur. En þetta er meðaltal - á öllum árstímum geta komið dagar - jafnvel nokkrir í röð þegar loftið er hlýrra en sjórinn. Sömuleiðis er hitamunurinn landshlutabundinn.

En nóg um meðaltöl að sinni - við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um skynvarmaflæði á Íslandi og nálægum hafsvæðum síðdegis á miðvikudag 6. júní. Vitað er að orðið „skynvarmaflæði“ hefur ekki góð áhrif á alla - en þar er ekkert að óttast.

w-blogg060612

Rauði liturinn þýðir að varmi streymir frá yfirborði til loftsins fyrir ofan. Við sjáum að varmaflæðið er mest yfir landi - langmest yfir Vesturlandi þar sem landið verður hlýjast þegar kortið gildir. Á kortinu má sjá töluna 287. Einingin er Wött á fermetra, þrjár 100 kerta perur á fermetra. Við tökum smáatriðum í spám sem þessari ekki mjög hátíðlega.

Skynvarmaflæðið er því meira eftir því sem hitamunur milli lofts og yfirborðs er meiri og því meiri eftir því sem vindur er meiri. Það síðarnefnda er ekki mjög áberandi yfir landi en við sjáum dökkrauða flekki bæði undan Suðausturlandi (þar sem er vindstrengur) og sömuleiðis í vindi úti af Vesturlandi og Vestfjörðum. Þarna hitar sjórinn kalt norðanloftið - ekki veitir af.

Sennilega hefur yfirborð sjávar hlýnað drjúgmikið í heiðríkjunni að undanförnu. Það er því trúlega enn gæfara heldur en annars væri. En norðaustan við land er gulgrænt svæði þar sem loftið er að hita sjóinn. Þarna undir er kaldur Austur-Íslandsstraumurinn, kaldari heldur en loftið sem yfir hann streymir.

Örvarnar sýna vindátt og því stærri sem þær eru því meiri er vindhraðinn. Svörtu heildregnu línurnar sýna mun á milli yfirborðshita og hita í 925 hPa-fletinum. Hann er gjarnan í um 600 metra hæð. Munur allt að sex stigum er því „eðlilegur“. Sé hann meiri er loft óstöðugt og leitar upp allt upp að mörkum jaðarlagsins - hvar sem þau nú liggja hverju sinni. Vestur af Breiðafirði stendur örsmáu letri talan 11,8 og er sýnir að þar er munur á hita yfirborðs og 925 hPa 11,8 stig. Mun meira heldur en stöðugleikinn ber.


Skúrir

Á morgun (þriðjudag) verður allmikill skúrabakki við suðurströndina - ef marka má tölvuspár. Ekki taka hungurdiskar sérstaka afstöðu til spádóma, en lítum samt á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir 5. júní kl. 15.

w-blogg050612

Það er margt sýnt á kortinu. Þrýstilínur (í hPa) eru svartar og heildregnar, 1016 hPa línan hringar síg um Reykjavík. Við sjáum einnig hefðbundnar vindörvar þær eiga að sýna vind í 10 m hæð. Á Faxaflóa er spáð norðaustan 15 hnútum (um 7 m/s). Strikaða fjólubláa línan sýnir -5 stiga jafnhitalínu í 850 hPa en sá flötur er nú í 1500 metra hæð frá jörðu. Það þýðir að frost er á háum fjöllum.

Lituðu fletirnir sýna úrkomumagn. Dekksti græni liturinn yfir suðurströndinni sýnir að spáð er 3 til 5 mm úrkomu á þremur klukkustundum (milli kl. 12 og 15). Það úrkomumagn bleytir vel í, samsvarar því að helt sé úr þremur til fimm mjólkurfernum á fermetra. Spurning er hversu trúverðug spáin er í smáatriðum. Ólíklegt er að bakkinn verði nákvæmlega svona.

En litlu merkin inni á úrkomusvæðunum hafa líka merkingu. Mest er af litlum þríhyrningum en þeir tákna að úrkoman sé af klakkakyni (skúrir eða dembur). Þar sem er litur og engir þríhyrningar er um jafnara uppstreymi að ræða (breiðu- eða stórkvarðaúrkomu). Litlu krossarnir tákna snjókomu - eitthvað er af þeim á fjalllendi norðaustanlands á kortinu, en hafa verður í huga að landslag í líkaninu er ekki sérlega nákvæmt. Til dæmis er Vatnajökull bæði stærri og lægri í líkaninu heldur en í raunveruleikanum. En úrkoman er sjálfsagt velþegin hver sem hún verður.

Hér að neðan er erfiðari texti - sem flestir lesendur geta sleppt alveg sér að skaðlausu.

Allra eftirtektarsömustu veðurnörd hafa sjálfsagt tekið eftir því hversu hlýtt hefur verið (að deginum) á Suðvestur- og Vesturlandi allra síðustu daga undir tiltölulega lágri þykkt. Í dag (mánudag) var hámarkshiti á landinu t.d. 21,6 stig (á Þingvöllum) en þykktin yfir Keflavík á hádegi ekki nema um 5470 metrar. Ekki vantar mikið á að loft í neðstu lögum nái að brjóta sér leið upp um allt veðrahvolf. Sennilega er þurrkurinn meginástæða þess að það gerðist ekki. Hefði loft verið „eðlilega“ rakt hefði uppstreymið myndað ský, sem að minnsta kosti hefðu dregið fyrir sól þannig að ekki hefði orðið jafnheitt - eða þá losað það mikinn dulvarma að risastórir skúraklakkar hefðu myndast. En það vitum við auðvitað ekki.

En núna á miðnætti er þykktin yfir Keflavík komin niður í 5430 metra og á morgun á hún að hafa hrapað niður í 5320 metra. Spennandi verður að sjá hversu hátt sól og þurrkur geta keyrt hitann suðvestanlands upp undir þeirri þykkt - án þess að skýjaflókar eða skúrir myndist. Bestu líkön nefna 12 stig sem hámarkshita þriðjudagsins á landinu. Þau gætu vanmetið niðurstreymið suðvestanlands þannig að árangurinn yrði aðeins betri.

En aðstreymi kaldara lofts er meginástæða skúrabakkans á kortinu að ofan. Miðja kuldapollsins á að fara hratt hjá og þykktin fer fljótlega aftur upp fyrir 5400 metra - og kannski meira.


Norðurhvel í júníbyrjun

Nú skiptir um veðurlag frá því sem verið hefur undanfarna viku til tíu daga. Sé að marka tölvuspár gengur snarpur kuldapollur yfir landið úr norðaustri og ræður veðri í tvo daga eða svo (þriðjudag og miðvikudag) en síðan tekur við það sem við getum e.t.v. kallað venjulegt sumarveður, eitthvað misskipt á milli landshluta.

Á norðurhvelskortinu sem gildir um hádegi á þriðjudag sést að kuldapollurinn fer einn og sér - jú hann hrakti hæðina góðu allt vestur yfir Kanada en vonandi koma ekki fleiri sendingar úr norðri í bili. Myndin skýrist talsvert við stækkun.

w-blogg040612

Jafnhæðarlínur (500 hPa) eru svartar og heildregnar, litafletir sýna þykktina. Við höfum að undanförnu verið vel inni í gulu litunum (sumarlitir) en á kortinu eru við allt í einu langt inni í grænu og meira að segja er blár blettur yfir landinu sjálfu. Þar er þykktin minni en 5280 metrar. Hæðin sem í dag (sunnudag) var yfir Grænlandi er hér hrokkin vestur til Labrador og deyr þar trúlega.

Við sjáum að jafnhæðarlínur eru nokkuð þéttar kringum kuldapollinn en þegar hann er farinn hjá (til suðurs) tekur við flatneskja í hæðarsviðinu sem er algeng hér á land á þessum árstíma.

En það verður auðvitað ekki alveg veðurlaust - en tilviljanir sem erfitt er að fjalla um marga daga fram í tímann ráða. Vonandi hjálpar sólin til með hitann.

Annars er nú lítið orðið eftir af vetrinum á norðurslóðum. Bláir blettir sjást þar á stangli og alltaf er rétt að fylgjast með þeim þótt þeir fari aðallega í hringi yfir Norðuríshafinu. Lægðir berast ótt og títt inn yfir meginland Evrópu og halda sumrinu þar í skefjum. Býsna háreistar hlýjar bylgjur ganga austur um Bandaríkin, kannski fréttist eitthvað af hitum þar á bæ.


Hæðin hörfar

Nú er útlit fyrir að hæðin sem hefur ráðið veðri hér síðustu vikuna sé að gefa eftir. Hún hörfar til vesturs undan leiðindakuldalægð úr norðri. - En ekki þó fyrr en á mánudag eða aðfaranótt þriðjudags.

w-blogg030612

Þetta kort sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar svartar línur), þykktina (rauðar strikalínur) og iðu (bleik og bleikgráir borðar og hnútar).

Í framhjáhlaupi er rétt að minnast á lægðina miklu langt suðvestur í hafi. Hún varð til á sunnudagskvöld við samruna hlýja loftsins úr hitabeltisstorminum Beryl og lægðardrags (iðuhnúts) úr sem kom suðaustur yfir Nýfundnaland. Lægðinni er spáð niður í 965 hPa (eða neðar). Það er óvenju lágur þrýstingur í júníbyrjun. Þetta kerfi kemur ekki við sögu hérlendis næstu daga að minnsta kosti.

En á sunnudag (þegar kortið gildir) er hæðin enn býsna öflug en þykktartölur farnar að lækka yfir Íslandi. Fyrir norðaustan land er háloftalægð sem dylst vel á venjulegum veðurkortum. Hún er samt það veðurkerfi sem okkur kemur mest við á kortinu því hún hreyfist beint í átt til landsins. Ef vel er að gáð sjáum við að innsta jafnþykktarlínan (rauðstrikuð) sýnir 5280 metra og kjarnakuldinn er enn meiri eða um 5230 metrar.

Rætist þessi spá mun snjóa niður á heiðar á norðan- og austanverðu landinu þegar kaldasta loftið fer hjá. Ekki er enn tímabært að fjalla meira um það - spár rætast ekki alltaf. - En hæðin hörfar til vesturs.

Annars hefur verið ansi kuldalegt við norðaustur- og austurströndina þessa síðustu daga og næturfrost allvíða. Að sögn (óstaðfestar fréttir) mun sjávarhiti vera talsvert undir meðallagi úti af Austurlandi.


Sólskinið í maí

Nýliðinn maímánuður er einn hinn sólríkasti sem vitað er um bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík er hann í fimmta sæti en næstsólríkastur á Akureyri. Hér er sá tími einnig talinn með þegar mælt var á Vífilsstöðum í nágrenni Reykjavíkur en þar hófust sólskinsstundamælingar árið 1911. Fáein ár og mánuði vantar fram til 1923. Skýjahula hefur verið metin í Reykjavík (og Vífilsstöðum) allt frá 1885 en fáein ár vantar þar einnig.

Gott samband er á milli sólskinsstundafjölda og skýjahulu í flestum mánuðum ársins nema yfir háveturinn. Við lítum hér á mynd sem sýnir þetta samband í Reykjavík í maí. Við getum ef til vill notað það til að meta hvort einhverjir maímánuðir á árunum frá 1886 og ekki eiga sólskinsstundamælingar séu líklegir til afreka. Athugið að hægt er að stækka myndirnar nokkuð og verða þær þá læsilegri.

w-blogg020612

Lárétti ásinn sýnir meðalskýjahulu maímánaðar en sá lóðrétti sólskinsstundafjölda. Við sjáum að langflestir punktarnir fylgja reiknaðri aðfallslínu mjög vel, enda er fylgnistuðullinn -0,92. Mínusmerkið þýðir að því meiri sem skýjahulan er því færri eru sólskinsstundirnar. Ef allir punktarnir fylgdu línunni nákvæmlega væri fylgnistuðullinn -1,0. Væru punktarnir jafndreifðir um alla mynd væri fylgnistuðullinn 0,0. Fylgnin er hér glæsileg, en eitt spillir útliti myndarinnar - ´væri alskýjað allan mánuðinn ættu sólskinsstundirnar samt að vera 30 - eitthvað grunsamlegt það ekki satt.

Örin á myndinni bendir á nýliðinn maí, 2012. Hann er í fimmta hæsta sæti sólskinsstundafjöldans eins og áður var minnst á, en með sjöundu lægstu skýjahuluna. Stendur sig sem sagt ívið betur en skýjahulan ein hefði giskað á. Ef öll árin sem eiga meðalskýjahulu (frá og með 1885) eru tekin með lendir maí 2012 í 11. sæti. Við vitum að hann stóð sig betur í sólarkeppninni heldur en bæði 1955 og 1924 - hugsum ekki meir um þau. En það eru fjögur ár á fyrri tíð sem eiga minni skýjahulu heldur en 2012. Það eru 1885, 1886, 1887 og 1921. Satt best að segja er grunsamlegt að þrjú áranna skuli vera í röð - einmitt þegar sami maður athugaði - en hætti síðan.

Minnst var skýjahulan í maí 1886, 2,8 áttunduhlutar. Ef það er rétt - skyldi það hafa dugað í 410 sólskinsstundir eins og línan bendir til?

En annað er eftirtektarvert á myndinni. Árin 1922 og 1923 - einmitt þegar athuganir voru að flytjast frá Vífilsstöðum til Reykjavíkur. Stappar nærri vissu að segja að hér vanti sólskinsstundir eða skýjahulu - hvort? Þar til málið er upplýst er varla hægt að taka mark á maísól þessara tveggja ára.

Og ekki skiljum við Akureyri eftir úti í kuldanum.

w-blogg020612b

Ásar myndarinnar eru þeir sömu og á fyrri mynd. Fylgnistuðullinn er hér ekki eins hár, -0,84. Það er samt mjög mikið - mjög mikið. Maí í ár er klesstur upp við maí 1968 - en nær honum ekki alveg. Lægstur er maí 1983 - það fræga endemis ár. Hér eru nærri 50 sólskinsstundir í alskýjuðu og fáein ár eru svífandi utan við meginskýið, sérstaklega 1941 og 1943 - þar vantar sól eða ský og 1975 hinu megin. Kannski að þá hafi bara verið léttskýjað á daginn.

Þrátt fyrir allt sólskinið var ekkert nýtt sólardægurmet sett í Reykjavík í maí, en þrjú á Akureyri, langglæsilegast þann 31. en þá mældust stundirnar 17,6. Það er 2,2 stigum lengur en fyrra met dagsins. Aðeins einu sinni hafa mælst fleiri sólskinsstundir á dag í maí á Akureyri. Það var 28. maí 1998 að sól skein í 17,8 stundir.

Séu tölur dægurmetalistanna lagðar saman fæst einskonar áætlun um hugsanlegan sólskinsstundafjölda á stöðunum ef heiðskírt væri allan mánuðinn. Fæst þá talan 520 fyrir Reykjavík (aðfallslinan segir 610) og 497 á Akureyri (aðfallslínan segir 538). Í maí 2012 skein sólin 57 prósent af mögulegum tíma í Reykjavík, en 58 prósent á Akureyri. Hér ríkir jöfnuður.

Að lokum: Engin marktæk fylgni er á milli sólskinsstundafjölda í Reykjavik og á Akureyri, stundum er mikið sólskin á báðum stöðum samtímis (eins og nú) og stundum mikið á öðrum en lítið á hinum - allir möguleikar. Fylgnistuðullinn í maí er +0,26.

Í viðhenginu er listi yfir skýjahulu og sólskinsstundir í Reykjavík og á Akureyri í maí - eins og heimildir greina.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dægurhámörk í júní

Nú er allt í einu kominn júní. Maí stendur í járnum hvað hita varðar. Kuldinn um og fyrir miðjan mánuð reið honum á slig en hlýindin síðustu vikuna rúma hefur togað hann upp aftur. Veðurstofuyfirlitið kemur væntanlega innan skamms.

Í kuldunum um þetta leyti í fyrra fjölluðu hungurdiskar oftar en einu sinni um dægurlágmörk júnímánaðar - en skildu hámörkin eftir. Úr því er nú bætt en rétt að minna á að listar af þessu tagi eru sjaldnast alveg skotheldir.

Annars lítur fyrsta vinnuvika júnímánaðar ekkert sérstaklega vænlega út núna á fimmtudagskvöldi með leiðindakuldakasti í kortunum. Auk þess gerir mánaðarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar ráð fyrir hálfs mánaðar norðaustanþræsingi. Við huggum okkur við það að hún er oft vitlaus. En meir um það síðar ef af verður.

tx_landid_juni

Hæst trónir íslandshitametið frá Teigarhorni 22. júní 1939. Um það má fræðast í pistli á vef Veðurstofunnar. Víða var hlýtt á landinu í nokkra daga, m.a. náði Akureyri 28,5 stigum daginn áður.

Dagurinn heiti 23. júní 1974 er veðurnördum enn minnisstæður, en þá fór hiti á Akureyri í 29,4 stig. Hiti hefur náð 22 stigum á landinu alla daga júnímánaðar. Lægst situr sá 13. en hann á aðeins 22,4 stig og hefur beðið í nærri hundrað ár eftir hærri tölu - hún hlýtur að fara að koma. Í viðhengi má sjá tölur allra daga ásamt því hvaða stöðvar eiga metin.

Ámóta línurit fyrir Reykjavík er óttalega ámátlegt í samanburðinum. Það eru aðeins 9 af 30 dögum sem geta státað sig af 20 stigum ög ansi fornir sumir, m.a. hæsti júníhitinn. Hann er 24,7 stig og mældust þau þann 24. 1891.

tx_rvk_juni

Reykjavík er þannig í sveit sett að á heiðríkum sólardögum blæs frekar köld hafgola utan af Flóanum. Hlýjustu stundirnar koma þegar einhver þrýstivindur er til staðar úr austri og hafgolan nær ekki inn. Annars er það eftirtektarvert hvað hitinn í Reykjavík getur endrum og sinnum skotist hátt í tiltölulegra lágri þykkt - aðalatriðið er að halda hafgolunni úti. Sömuleiðis stendur mikil þykkt sjaldnast undir væntingum í Reykjavík vegna hafgolunnar. Um þetta má lesa á bls. 14 í ritgerð ritstjórans Hitabylgjur og heitir dagar(sem fer nú að þarfnast endurskoðunar). Hún er fáanleg á vef Veðurstofunnar. 

Í viðhenginu er listi yfir dægurhámörk í júní í Reykjavík og ártöl þeim fylgjandi. Þar er einnig sambærilegur listi fyrir Akureyri. Þar virðist vera slæðingur af tvöföldum hámörkum auk þess sem hámarksmælingar voru ekki gerðar þar fyrr en um 1935.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 2412633

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband