Aftur í hæðarbeygju - en mun veikara kerfi

Kuldapollar eins og sá sem nú er yfir landinu bera langoftast með sér háloftalægðir. Þar með hreyfist loft í kringum þær í lægðabeygju. Lægðabeygja ýtir undir uppstreymi og þar með verður skýjað og jafnvel fylgir úrkoma. Þessa hjálparreglu má þó ekki taka alveg bókstaflega - margt fleira kemur við sögu. En gott að hafa bak við eyrað samt þegar engin hefðbundin skila- eða úrkomusvæði eru á ferðinni til að auðvelda veðurmatið. Rita má hvort sem er lægðar- eða lægðabeygja - eftir smekk og samhengi.

En útlit er fyrir að áhrif lægðabeygjunnar hverfi til suðurs og við taki hæðarbeygja - dálítil háloftahæð á að myndast fyrir norðan land fram til föstudags. Hún ræður síðan veðri í nokkra daga. Þessi hæð er hins vegar ekki til stórræða - og miklu veigaminni heldur en hæðin mikla sem hér réði ríkjum alla síðustu viku. En sjáum þetta á mynd (hún batnar ekki mikið við stækkun).

w-blogg070612

Til hægri má sjá ástandið eins og það er þegar pistillinn er skrifaður nærri miðnætti á miðvikudagskvöldi 6. júní. Til vinstri er komið hádegi á föstudag. Báðar myndirnar eru fengnar frá evrópureiknimiðstöðinni og eiga við ástand í 500 hPa og þar neðan við. Jafnhæðarlínur flatarins eru svartar og heildregnar, en litafletir sýna þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Guli liturinn nær niður í 5460 metra og síðan eru nýir litir á 60 metra bili. Dekksti græni liturinn sýnir þykkt á bilinu 5280 til 5340 metra. Það er of kalt fyrir flestra smekk á þessum tíma árs.

Á föstudaginn hefur ástandið aðeins lagast og þykktin yfir landinu komin upp í nærri 5400 metra, ekki gott - en samt í lagi og alls ekki óvenjulegt í júní. Gróflega þremur stigum hlýrra heldur en var í dag (miðvikudag). Við sjáum líka að vindurinn (ræðst af legu jafnhæðarlína) ber hlýrra loft með sér í átt til landsins (ekki þó mjög hlýtt).

En af myndunum má einnig sjá að það skiptir um beygjulag milli korta. Á kortinu til vinstri er býsna kröpp lægðabeygja. Beygjulagið þekkjum við best á því að leggja hægri lófa þannig ofan á örina að langatöng vísi í örvarstefnu. Bendi þumallinn inn í beygjuna (kortið til vinstri) er um lægðabeygju að ræða - bendi hann út úr beygjunni (kortið til hægri) er hún hæðarbeygja.

Fyrirsögnin vísar í samanburðinn milli hæðarinnar stóru í síðustu viku og þeirrar litlu og veiku sem nú tekur við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll. Ég hef prófað nokkrar veðurstöðvar á netinu og finnst mér furðu mikill munur á spám þeirra. Hvernig getur staðið á því? Langtímaspár virðast sjaldnast rætast og finnst mér það svo sem eðlilegt en hvað er hægt að spá langt fram í tímann með sæmilegri vissu nú til dags? Ég var á heimleið áðan ásamt syni mínum og sagði að nú færi að rigna þegar við værum komnir inn í stofu. Sú spá rættist enda sá ég skúrabakkann í fjarska. Finnst þér að ég ætti að sækja um stöðu á Veðurstofunni?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 7.6.2012 kl. 17:02

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Langtímaveðurspár eru orðnar furðugóðar. Mikið vit er oftast í þeim 3 til 5 daga fram í tímann - og stundum jafnvel lengra. En matreiðslan er misjöfn þótt hráefnið sé gott - oft þarf að vita hver kokkurinn er - og hvers konar eldhús hann rekur. Skyndibitar geta verið góðir séu þeir vel framreiddir - en það má ekki búast við staðgóðri máltíð í einum bita. Vel má vera að þú fengir vinnu á Veðurstofunni Benedikt - . Það má líka benda á að veðurfræðingsheitið er ekki lögverndað og hver sem er getur sett upp sína eigin ráðgjafarstofu - þannig á það líka að vera.

Trausti Jónsson, 8.6.2012 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 37
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 546
  • Frá upphafi: 2351337

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 467
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband