Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Hæðarhryggurinn mildi þokast austur og deyr

Norðanlands hefur enn andað af norðri þannig að íbúar landshlutans hafa lítt notið hins milda hæðarhryggjar sem yfir landinu hefur verið. Nú á hryggurinn að þokast austur - það eru góðar fréttir fyrir norðlendinga - en svo virðist sem næsta lægð straui hann flatan. Kortið sýnir norðurhvelsstandið eins og evrópureiknimiðstöðin spáir því um hádegi á þriðjudag.

w-blogg110711a

Fastir lesendur kannast vonandi við kortið, það sýnir hæð 500 hPa-flatarins og má sjá norðurhvel langleiðina suður að hvarfbaug, höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar eru hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Ég hef merkt inn helstu lægðir og nokkrar hæðir og sömuleiðis reyni ég að sýna hæðarhrygginn með grænni punktalínu sem liggur til vesturs og suðurs frá Íslandi. Á þriðjudaginn verður nokkuð myndarleg lægð suðaustan Grænlands og stuggar hún hryggnum til austurs og bælir hann síðan. En meðan það gerist ætti að hlýna norðanlands. Næsta lægðardrag (það sem á kortinu er yfir Labrador) fer hratt austur. Liggi leið þess til austurs fyrir sunnan land mun nýr hæðarhryggur byggjast upp yfir Grænlandi í kjölfarið - það er þó ekki víst.

Þann 13. júlí byrja hundadagar, að sögn kenndir stjörnumerkinu Stóra-Hundi með Hundastjörnuna sjálfa, Síríus,  í fararbroddi. Þetta er sá tími árs þar sem 5820 metra þykktarlínan er að jafnaði í sinni norðlægustu stöðu við Miðjarðarhaf. Stöku sinnum sér Miðjarðarhaf jafnvel næstu línu fyrir ofan, 5880 metra í boði Saharaeyðimerkurinnar eða Miðausturlanda. Rómverjar hinir fornu vissu víst lítið um þykktarlínur - en hafa ábyggilega þekkt þær samt - alla vega brjáluðust hundar af þykktinni miklu.  

Fyrir 20 til 30 árum - meðan veðurfar lá í öðrum farvegi heldur en hin síðari ár var upphaf hundadaga kvíðatími á Suður- og Vesturlandi - skyldi hann leggjast í rigningar? Á sama tíma greip von um hlýja laufvinda norð- og austlendinga. Enda ríktu endalaus rigningasumur sunnanlands. En skiptir um veðurlag nú? Ekki spá hungurdiskar neinu um það.


Dægursveifla í júlí - mest og minnst

Hér er, til gamans, listi yfir þær sjálfvirkar veðurstöðvar sem mæla mesta og minnsta dægursveiflu í júlí. Dægursveifluna er hægt að skilgreina á tvennan hátt. Annars vegar sem mismun á lágmarkshita og hámarkshita sólarhringsins [köllum það aðferð A] en hins vegar út frá svonefndum klukkumeðaltölum. Þá er reiknaður meðalhiti á klukkustundarfresti allan sólarhringinn og munur reiknaður á hæsta og lægsta meðaltalinu [köllum það aðferð B].

Á þeim tíma árs sem sólargangur ræður mestu um dægursveifluna (sumar) er ekki mjög mikill munur á aðferðunum tveimur, en hins vegar er hann mjög mikill á vetrum, einkum í svartasta skammdeginu. Á þeim tíma árs ræður tilfallandi staða veðurkerfa mestu og hámarkshiti getur allt eins verið að nóttu frekar en degi. Útkoma úr aðferð A er alltaf stærri en útkoman úr aðferð B. Hlutfallið B/A getur því mest orðið 1,0 - en er oftast minna. Við getum þess í framhjáhlaupi að það má kalla festu dægursveiflunnar. Ef til vill má fjalla nánar um hana síðar.

Hér að neðan er miðað við aðferð B. Töflurnar sýna minnstu og mestu dægursveifluna í júlímánuði. Fyrst eru stöðvar minnstu sveiflu. Dálkarnir eru, röð, hæsta klukkumeðaltal, lægsta klukkumeðaltal og munur þeirra beggja, allt í °C. Nafn stöðvarinnar er síðan aftast.

röðhæstlægstmismStöð
18,137,220,91Seley
28,016,871,14Fontur
39,338,131,20Bjarnarey
48,747,481,26Papey
510,018,671,34Straumnesviti
69,528,151,37Skagatá
75,974,531,44Brúarjökull
89,377,901,47Hornbjargsviti
99,287,771,51Dalatangi
1010,348,801,54Bjargtangar
1111,109,541,56Ingólfshöfði
128,747,111,63Kambanes

Hér sést að allar stöðvarnar nema ein eru á eyjum og annesjum. Austurlandsstöðvarnar sem eru nærri því ofan í köldum Austuríslandsstraumnum taka fjögur efstu sætin, síðan koma stöðvar við sjóinn á norðanverðum Vestfjörðum ásamt Skagatá. Á milli þessara stöðva er síðan stöðin á Brúarjökli, í sjöunda sæti. Jökulyfirborðið stelur mestöllum sólarvarma dagsins bæði við stöðina og einnig yfirborðs ofar á jöklinum þaðan sem loftið sem streymir hjá stöðinni er oftast komið. Í 9 til 12 sæti eru síðan aðrar nesjastöðvar.

Takið líka eftir hitatölunum sjálfum. Þegar þær eru skoðaðar verður að hafa í huga að mishlýir júlímánuðir eru í safni hverrar stöðvar, alla vega er mikið óráð að fara út í mikinn samanburð sem byggir á aukastöfum. Ingólfshöfði er þó trúlega hlýjastur þessara staða og Brúarjökull kaldastur.

röðhæstlægstmismStöð
113,506,167,34Brú á Jökuldal
214,717,387,33Reykir í Fnjóskadal
315,768,717,05Hjarðarland í Biskupstungum
414,657,686,97Húsafell 
513,476,626,85Möðrudalur
614,647,816,83Þingvellir
714,247,626,62Bjarnarflag
814,567,946,62Básar á Goðalandi
914,838,236,60Ásgarður í Dölum
1014,547,986,56Hallormsstaður
1114,948,416,53Torfur í Eyjafirði
1215,108,606,50Kálfhóll á Skeiðum

Dálkarnir eru þeir sömu og í fyrri töflunni. Brú á Jökuldal er efsta stöð listans, ekki munar þó nema 0,01 stigi á henni og stöðinni í öðru sæti sem er Reykir í Fnjóskadal. Ekki skulum við taka þennan mun hátíðlega - vanda þarf reikningana betur ef greina á milli - kannski er það ekki hægt. Síðan kemur hver stöðin á fætur annarri, langflestar á sléttlendi eða í dalbotnum í öruggri fjarlægð frá ströndinni. Rita mætti langt mál um áhrif landslags á hverjum stað og gaman væri að líta nánar á það - en verður auðvitað ekki gert hér. En takið samt eftir því að enginn þessara stöðva er inni á sjálfu hálendinu. Hvernig stendur á því?


Af afbrigðilegum júlímánuðum - fyrsti áfangi

Sumum finnst hungurdiskar horfa fullmikið í baksýnisspegilinn og meira heldur en á veginn framundan. En við erum bara farþegar í ökutækinu sem ráðum engu um það hvar farið er um. Gott er því að líta til allra átta - líka afturábak. En byrjum þá heldur þurra upptalningu.

Mér fannst freistandi að hafa titil pistilsins: Af afbrigðilegum júlímánuðum - fyrsti áfangi af þrjátíu og sjö. Það var hins vegar full yfirþyrmandi - ætli áfangarnir verði fleiri en tveir eða þrír.

Hlýjustu júlímánuðirnir? Auðvitað álitamál en fyrir landið allt fær júlí 1880 að vera í fyrsta sæti. Fjölmargir afbrigðilegir veðuratburðir urðu á árunum kringum 1880, ekki bara hér á landi heldur víða um heim. Svo virðist sem öflugar fyrirstöðuhæðir hafi leikið lausum hala á norðurslóðum í meira mæli en oftast annars. Hæðarmiðjunum fylgja þá hlýindi en kuldar eru ríkjandi á austurhliðum þeirra.

Á Norðurlandi vill 1855 vera talinn hlýjastur júlímánaða, en við tökum varlega mark á því - enda aðeins ein stöð til vitnis, Hvanneyri í Siglufirði. Ætli við látum því ekki júlí 1933 fá fyrsta sætið nyrðra. Suðvestanlands er toppsætið óvænt - júlí 1917. Það er út af fyrir sig merkilegt að hann var undanfari frostavetursins mikla 1918 - rétt eins og júlí 1880 var undanfari frostavetursins 1880 til 1881. Tilviljun? Árin 1915 til 1919 var einnig mikið fyrirstöðufyllerí hér á norðurslóðum. Við verðum að láta þess getið að upp á síðkastið hefur enn einn fyrirstöðufagnaðurinn riðið yfir. Fílar í glervörubúð?

Kaldastur júlímánaða á landsvísu var 1882 - kuldinn norðanlands og austan var með miklum ólíkindum - sérstaklega í lág- og útsveitum. Sami mánuður á auðvitað mesta kulda norðaustanlands, en suðvestanlands fær júlí 1874 að vera kaldastur mánaða.

Júlí 1926 fær sæti sem úrkomusamastur júlímánaða á landinu. Sá samanburður nær því miður aðeins aftur til 1924, - unnið er að gerð lengri raðar. Mjög hlýtt var víða norðaustanlands, í Möðrudal var mánaðarmeðalhitinn 13,6 stig (að nýrri reiknihætti).

Júlí 1993 telst úrkomusamastur norðaustanlands, vonandi muna margir enn þann skít. Vestanlands er það júlí 1955 sem fær að teljast úrkomusamastur. Ég veit með vissu að margir muna þann mánuð enn þótt 56 ár séu liðin síðan - en man hann ekki sjálfur (enda ekki búinn að norma árstíðasveifluna eins og það gæti kallast á fræðsku). Sunnanlands er aðeins sjónarmunur á júlí 1955 og 1935.

Þurrastur júlímánaða á landinu telst mánuðurinn mikli 1939 - árið sem alltaf var nefnt sem besta ár allra tíma í þeirra minni sem það lifðu. Margir muna enn. Sami mánuður telst þurrastur bæði á Suður- og Vesturlandi, en júlí 1944 telst þurrastur norðaustanlands - annar gæðamánuður skreyttur óvenjulegri hitabylgju.


Af norðurvígstöðvunum

Nokkur liðssafnaður kulda er nú á norðurvígstöðvunum milli Grænlands og Svalbarða - en beinist þó lítið hingað til lands. Þetta sést vel á mynd sem sýnir stöðuna kl. 18 á morgun (föstudaginn 8. júlí) - spá frá dönsku veðurstofunni.

w-blogg080711a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins með heildregnum, svörtum línum, einingin er dekametrar (1 dam = 10 metrar). Það er 5580 metra línan sem liggur við vesturströndina. Mjóu, rauðu strikalínurnar sýna þykktina, einnig í dekametrum. Hún er því meiri eftir því sem loft í neðri hluta veðrahvolfs er hlýrra. Landið liggur á milli 5400 og 5460 metra jafnþykktarlínanna. Það er út af fyrir sig viðundandi eins og íbúar syðri hluta landsins og reyndar víðar máttu reyna í dag. Norðanlands stingur kalt sjávarloft að norðan sér undir hlýja loftið og spillir talsvert fyrir, sérstaklega þar sem skýjað er.

Almennt er lítil næturfrosthætta meðan þykkt er yfir 5400 metrum, nema þar sem nærri því alltaf er hætta á næturfrosti í heiðskíru veðri.

Við norðausturhorn Grænlands er nokkuð snarpur kuldapollur, innsta jafnþykktarlínan sem við sjáum er 5280 metrar - kæmi hún hingað suður frysi víða um sveitir. En svo virðist sem kuldinn blási ekki til sóknar að ráði - slengir þó 5400 metra þykktarlínunni talsvert suður á landið aðra nótt (aðfaranótt laugardags) - vonandi kólnar þó ekki að mun.

Þykka, rauða línan á kortinu sýnir hæðarhrygg sem virðist eiga að stjórna veðri hér á landi næstu daga. Honum fylgir tiltölulega hlýtt loft eins og vant er í háloftahryggjum. Alla vega virðist hann eiga að halda norðankuldanum í skefjum að mestu og á síðan að hleypa næstu tveim lægðardrögum að vestan í gegnum sig svo lítið beri á. Fari svo koma lægðir þessar lítið við sögu hér á landi.´

Útlit er því fyrir að við verðum næstu daga í dæmigerðu sumarástandi - það verður þó ekki beinlínis hlýtt nema yfir daginn þar sem sólar nýtur. Á sumrin gerist það stundum að þrýstikerfi þrífast lítt og þau sem lifa væflast stefnulítið um garða. Þá er oftast skárra að líta á háloftakortin þar sem flest er skýrara.

Við skulum líta á aðra mynd - sem ég held að hafi birst áður á hungurdiskum - en öðruvísi merkt.

w-dp-arstid

Hún sýnir árstíðasveiflu flökts í loftþrýstingi frá degi til dags (í hPa). Athugið að ferillinn nær yfir eitt og hálft ár til að sveiflan sjáist öll vel. Flöktið er mjög í takt við árstíðasveiflu illviðra. Það er miklu minna á sumrin heldur en á vetrum. Lágmarki nær það snemma í ágúst - á þessari mynd nákvæmlega þann 10. Hámarkið er í janúar, þann 11. á þessari mynd.

Við megum taka eftir því að í kringum 1. júlí kemur lítið þrep niður á við í ferlinum. Eftir að farið hefur verið niður þrepið haldast gildin svipuð þar til annað ámóta þrep kemur um 20. ágúst og þá upp á við. Ég hef merkt tímabilið á milli þrepanna með rauðu striki á myndinni. Óvíst er um marktækni þessara litlu þrepa - en við getum vel ímyndað okkur að þarna sé hinn hreini kjarni sumarsins, tíminn þegar veturinn liggur í dvala. En - hann fer sumsé aftur að bylta sér um 20. ágúst - engin miskunn þar.


Dægurhámörk og lágmörk í júlí

Júlímánður er að jafnaði hlýjasti mánuður ársins (64% tilvika í Reykjavík) og hámarkshiti ársins á landinu hittir í rúmlega 50 prósent tilvika á júlímánuð.

w-landsdaegurlagmork_juli

Hér var fyrir nokkrum dögum skrifað um hæstu tölurnar og það verður ekki endurtekið hér. Rauða línan á að sýna leitnina, að rauða línan liggur hærra í upphafi mánaðarins heldur en í endann segir okkur að sólstöður séu liðnar hjá. Munurinn á upphafi og enda mánaðarins er þó ekki nema um 0,6 stig.

Það vekur athygli að einn dagur sker sig úr, hiti hefur aldrei náð 25 stigum þann 16. dag mánaðarins. Þetta er auðvitað tilviljun og liggur dagurinn því sérlega vel við höggi fyrir nýju landsmeti. Það verður hins vegar að játa að upplýsingagrunnurinn sem myndin er gerð eftir er ekki alveg þéttur og verður greinilega sérstaklega að athuga þennan dag 1946 því hitamet júlímánaðar var sett daginn eftir á Hallormsstað, metið þann 16. er hins vegar frá Teigarhorni. 

Í viðhenginu er listi þar sem tíunduð eru met hvers dags í júlí og á hvaða stöð og hvaða ár þau eru sett. Þar má einnig finna lista um lægsta hita á landinu og lægsta hita í byggð alla daga mánaðarins.

Júlí 1991 á flest metin, sjö talsins, hreinsar næstum upp fyrstu vikuna. Júlí 2008 tekur að sér síðustu fjóra daga mánaðarins. Hallormsstaður á sjö dægurhámörk og Kirkjubæjarklaustur þrjú.

Í lágmarkalistanum má sjá að frost hefur mælst í byggð alla daga mánaðarins, sá dagur sem er með minnsta frostið er 26., -1,1 stig, sú tala er frá Barkarstöðum í Miðfirði 1965.  

Þess má geta að hæsti hiti sem mælst hefur í júlí á vegagerðarstöð er 27,7 stig. Það var í Skálholti hitadaginn mikla 30. júlí 2008.

Lægsti hiti í júlí á vegagerðarstöð er -1,9 stig. Það var á Fagradal 25. júlí 2009. Þetta var nóttina þegar kartöfluskaðinn mikli varð í frosti á Suðurlandi.

Frést hefur af minniháttar villu í listanum í viðhengi, þar sem stendur Skriðuland í hámarkaskránni á að standa Hraun í Fljótum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlíhiti í Stykkishólmi 1803 til 2010

Enn skal litið til baka. Það er eitthvað fullnægjandi við að geta litið hitafar meir en 200 júlímánaða á einu bretti jafnvel þótt skyggni til þeirra sem fjarlægastir eru sé mætti vera betra. Við sjáum þó móta fyrir landslaginu.

w-sth-julihiti

Lóðrétti kvarðinn sýnir júlímeðalhita í Stykkishólmi í gráðum, lárétti kvarðinn sýnir árin, þau elstu lengst til vinstri. Gráu súlurnar sýna einstök ár, bláa línan er létt sía sem notuð er til að sýna helstu áratugasveiflur og rauða línan er reiknuð leitni. Hún er lítil, aðeins 0,2 stig á öld, væri meiri ef við byrjuðum reikningana um 1860. Mælingar fyrir þann tíma eru frekar óvissar aftur til 1830 og mjög óvissar fyrir þann tíma.

Í júlí er vestanvindabelti jarðar næst því að komast í hvíldarstöðu, lægðagangur hér við land er þá minnstur og sólin, snjófyrningar og sjávarhiti ráða mestu um hitafar. Júlímánuður er eini heili mánuður ársins þegar sjórinn er að meðaltali kaldari heldur en loftið. Sýnir það vel hversu sólin er öflug á þessum árstíma minnsta aðstreymis lofts annars staðar að. Ekki er það þó svo að allt aðstreymi leggist af. Við höfum undanfarinn mánuð t.d. séð norðanaðstreymið hafa undirtökin í baráttunni við aðstreymi hlýlofts að sunnan. Hér sunnanlands jafnaði sólin nærri því metin - hún gæti það ekki við sambærileg skilyrði á öðrum tímum árs - en norðanlands naut sólar ekki og kuldinn var þá eftir því.

Á myndinni sjáum við að júlíhitinn var oftast sæmilegur á tímabilinu 1820 til 1860, hlýju mánuðirnir hafa betur, 1826 og 1827 eru þó undantekningar. Tímabilið frá 1860 og fram yfir 1890 er aðallega kalt, þó er þar hlýjasti júlímánuðurinn, 1880, undanfari frostavetursins einstaka 1880 til 1881. Stöku gæðamánuðir koma síðan snemma á 20. öld, en þrír skítkaldir júlímánuðir í röð, 1921, 1922 og 1923 ljúka kuldaskeiðinu.

Síðan tekur tuttugustualdarhlýskeiðið mikla við. Allra mestu júlíhlýindunum er þó lokið eftir 1945 og fyrsta syrpa af vondum júlímánuðum hefst 1961, 1962 og 1963 þó verstur. Sumur þessi voru þannig boðberar kuldakastsins mikla sem plagaði landsmenn síðan áfram næstu áratugina, einkennilegt hvernig hlýskeiðið mikla byrjar og endar á kuldajúlímánuðum þvert ofan í hlýja vetur sömu ára - báðu megin hlýskeiðsins. Hvernig stendur á þessu?

Júlí 1970 var síðan sá kaldasti frá 1887. Var litla-ísöld að byrja að nýju? Kuldinn hélt áfram, stundum einn og sér en oftar studdur af endalausri rigningu, veður norðanlands var þó stundum skárra í landáttinni. En 1991 kom allt í einu júlímánuður á fullum hita og var sá hlýjasti í Stykkishólmi síðan 1933. Hvað var á seyði? Lengi leit út fyrir að þetta væri bara eitthvað stakt og einmana, en síðan fóru 11 stiga mánuðir að detta inn með aukinni tíðni, fyrst 1997, síðan þrír í röð, 2003, 2004 og 2005, 2006 var ívið lakari en þó betri heldur en flestir höfðu verið á kuldaskeiðinu. Loks komu fjórir 11 stiga mánuðir í röð 2007, 2008, 2009 og 2010.

Ekki hefur neitt þvílíkt gerst í meir en 200 ár. En hvað nú - í júlí 2011?


Æskilegur hæðarhryggur

Til greina kom að kalla þennan pistil „kraftaverk yfir norðurpólnum“ - en við nánari umhugsun fannst mér það of langt gengið. Mér er ekki um að draga lesendur að á fyrirsögninni einni saman þótt hún sé ekki alveg úr lausu lofti gripin eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

w-blogg050711

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins í spá reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa um hádegi  miðvikudaginn 6. júlí. Kortið sýnir norðurhvel langleiðina suður að hvarfbaug, höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar eru hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Við höfum undanfarnar vikur fylgst með því hvernig svæðin innan 5460 metra jafnhæðarlínunnar hafa þrengst eftir því sem hlýnað hefur á hvelinu. Innan hennar eru nú aðeins 4 þröngir hringir, einn er við Bretlandseyjar, annar nærri Svalbarða, sá þriðji nærri Beringssundi og sá fjórði, sem varla sést, er við Labrador.

Rauður hringur er líka nærri norðurpólnum - en inni í honum er H en ekki L. Þarna er 5820 metra jafnhæðarlínan á ferðinni, sú sem venjulega heldur sig suður við Miðjarðarhaf og við landamæri Kanada og Bandaríkjanna. Það er hálfgert kraftaverk að línan skuli birtast á þessum stað. Verra er að þetta er hálfgerð sóun á veðurblíðu, fáeinir staðir á heimskautaeyjum Kanada njóta að vísu óvenjulegra hlýinda þessa dagana en annars er hiti þarna (undir) bara við sitt venjulega frostmark. Hugsanlega er mikið sólskin sem þá bræðir ís baki brotnu en gæti líka verið þoka til verndar ísnum. Ekki vitum við um það, en betra hefði verið að fá þessi góðu hlýindi hingað til lands frekar en að eyða þeim engum til gagns við norðurpólinn.

En ástandið hér við land er þó talsvert betra en verið hefur, æskilegur hæðarhryggur á að vera yfir okkur á miðvikudaginn (6. júlí). Þeir sem sjá vel mega taka eftir því að söðull er í hæðarsviðinu við vesturströnd Íslands. Austan hans er loft af suðaustlægum uppruna, en fyrir vestan er loft frá Grænlandi - líka fremur hlýtt. Þykktinni er spáð í kringum 5500 metra á miðvikudaginn - það telst nokkuð gott miðað við ástandið að undanförnu.

Nú er auðvitað spurningin hvað kuldapollurinn við Svalbarða gerir af sér. Á þessu korti er hann á leið vestur. Framtíðarspár hafa verið afskaplega ósammála um framhaldið, sumar þeirra hafa af algjöru miskunnarleysi sent hann suður til Íslands - með kulda og skít, en í öðrum spám hefur hæðarhryggurinn sem á kortinu er á Grænlandshafi og þar suður af styrkst og bægt kuldanum frá. Á þessari stundu (mánudagskvöldi) er sú framtíð talin líklegri. En ástæða er til að fylgjast með.


Þuklað á júlí - helstu júlímet - sett á daga

Í upphafi júlí 2011 er ágætt að líta á helstu landsmet mánaðarins. Við ættum þó að hafa óvissu í huga, en metalistar eru alltaf til skemmtunar, rétt eins og úrslit íþróttamóta.

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í júlí (svo viðurkennt sé) eru 30,0 stig, mælt á Hallormsstað 17. júlí 1946. Á Hallormsstað var hámark yfirleitt ekki lesið nema með 0,5 stiga nákvæmni þannig að ákveðin óvissa fylgir af þeim sökum. Hæsti hiti sem var lesinn af aðalmæli stöðvarinnar var 27,0 stig. Þann 11. júlí 1911 varð jafnhlýtt á Akureyri þegar hitinn mældist 29,9 stig. Gríðarleg hitabylgja var á norðan- og austanverðu landinu þennan dag og hiti kl. 17 var 28,9 stig á Seyðisfirði en þar voru engar hámarkshitamælingar. Hitans gætti ekki suðvestanlands í suddaveðri sem þar var.

Geta má þess að um svipað leyti (1911) fór hiti yfir 20 stig í Færeyjum og mánuði síðar gerði gríðarlega hitabylgju í Danmörku (yfir 35 stig) og á Bretlandseyjum (yfir 37 stig).

Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í júlí var hinn minnisstæða 30. árið 2008, 25,7 stig. Þá mældist hiti á Þingvöllum 29,7 stig, það mesta sem mælst hefur á sjálfvirkri stöð á Íslandi. Er tími kominn á að 30 stiga múrinn verði rofinn að nýju.

Lægsti hiti sem mælst hefur á landinu í júlí er -4,1 stig í Möðrudal þann 21. árið 1986. Ámóta lágur hiti, -4,0 stig, mældist í Núpsdalstungu í Miðfirði þann 27. árið 1944. Miðfjörðurinn er þekktur meðal veðurnörda fyrir lágan lámarkshita í júlí og ágúst (án þess að þar sé sérlega kalt að öðru leyti). Frost mældist á fleiri stöðvum nóttina köldu 1944 en viku áður var yfirstandandi einhver besta og mesta hitabylgja sem vitað er um um landið suðvestan- og vestanvert.

Þær miklu hæðir sem valda hitabylgjunum hafa tilhneigingu til að færast til vesturs og austan við þær er þá miskunnarlaus norðanátt beint úr Norðuríshafi. Lægsti hiti sem vitað er um á Akureyri í júlí er -1,0 stig. Þetta var 1. dag mánaðarins 1915. Rúmri viku síðar gerði mjög hart norðanveður með snjókomu í byggðum norðaustanlands og sunnanlands lömdust kartöflugrös og skemmdust.  

Lægsti hiti sem mælst hefur í júlí í Reykjavík er 1,4 stig. Það var þann 25. árið 1963. Persónulega minnist ég þessa dags sérstaklega því þá snjóaði niður í Brekkufjall við Borgarfjörð en það er aðeins 400 metra hátt.

Mesta snjódýpt sem mælst hefur á veðurstöð í byggð í júlí er 10 cm, þann 24. 1966 í því veðri sem sennilega hefur verst orðið allra júlíveðra síðustu 90 árin. Þá fuku þök af húsum bæði sunnanlands og norðan, trillur sukku í höfnum og gróður stórspilltist. Mesta snjódýpt á veðurstöð mældist við Snæfellsskála 17. júlí 1995, 15 cm, en það er hátt til fjalla og ekki sambærilegt við byggðastöðvar.

Mesta sólarhringsúrkoma í júlí á veðurstöð mældist á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð þann 4. árið 2005, 201,1 mm. Þá urðu miklir vatnavextir eystra og fokskaðar bæði í Hornafirði og á Snæfellsnesi.

Loftþrýstiútgildin eru bæði úr Stykkishólmi. Lægsti þrýstingur í júlí mældist í Stykkishólmi þann 18. árið 1901, 974,1 hPa. Þá urðu skaðar í ofsavestanveðri austanlands. Mjög fátítt er að þrýstingur fari niður fyrir 980 hPa í júlí. Þrýstihámarkið mældist þann 3. árið 1917, 1034,5 hPa.

Við nefnum afbrigðilega júlímánuði vonandi eftir nokkra daga. Annars má geta þess í framhjáhlaupi að fimm daga tölvuspár og lengri eru með eindæmum óstöðugar þessa dagana, ýmist spáð miklum hlýindum eða afbrigðilegum kuldaköstum eða skakviðri. Sennilega rétt að trúa engu. En við fylgjumst með.


Þrjár veðurstöðvar á Akureyri - hver er munurinn?

Titill pistilsins lofar meiru heldur en hægt er að standa við í stuttum bloggpistli. En hér er svar við talsvert þrengri spurningu: Hver er meðalmunur hita á stöðvunum þremur á athugunartímum í júní? Stöðvarnar þrjár eru: Sú mannaða við lögreglustöðina (mælt er á þriggja tíma fresti, það er átta sinnum á dag) og sjálfvirku stöðvarnar á flugvellinum og við Krossanesbraut. Við notum mælingar á klukkustundarfresti frá sjálfvirku stöðvunum.

Ég verð að játa að langminnst veit ég um flugvallarstöðina, t.d. þekki ég ekki hæð hitamælisins yfir jörð - hún skiptir máli, auk þess berast hitamælingar stöðvarinnar aðeins með einnar gráðu nákvæmni í gagnagrunn Veðurstofunnar. Af einhverjum ástæðum er útilokað að fá nákvæmari upplýsingar. En látum sem ekkert sé.

Hér eru júnímánuðir áranna 2006 til 2011 teknir til athugunar. Á bak við hverja tölu sem sést á línuritunum hér að neðan eru því 180 athuganir - nokkuð gott. Sé maður ekki því óheppnari með tímabil mælinga neglist dægursveiflan nokkuð vel á 5 árum eða meira. Hér er heppilegt að mælingarnar á stöðvunum þremur ná yfir nákvæmlega sama tímabil. Væri svo ekki þyrfti fyrst að reikna meðaltal sólarhringsins og taka vik frá því meðaltali til rannsóknar. Upplýsingar af því tagi eru til fyrir fleiri staði á Akureyri - en aldrei samtímis. Að tíunda það í bloggpistli er fullleiðinlegt - en hver veit nema mig grípi einhver nördasamúð og ég fjalli um það síðar í slíku kasti.

Og þá er það myndin:

w-blogg030711

Lárétti ásinn sýnir klukkustundir sólarhringsins - í júní, en sá lóðrétti sýnir hita. Blá tákn og línur sýna hitann við Krossanesbrautina, rautt á við flugvöllinn, en grænt við lögreglustöðina. Aðeins 8 punktar eru í ferli lögreglustöðvarinnar.

Við sjáum strax að flugvöllurinn er áberandi kaldasti staðurinn yfir nóttina, en hinir tveir staðirnir eru svipaðir. Trúlegasta skýringin er sú að þunnt lag af köldu, óblönduðu lofti leki frá láglendi Eyjafjarðar út yfir flugvöllinn að næturlagi. Þegar loftið kemur út yfir Pollinn hlýnar það að neðan og blandast einnig á þykkara hæðarbil. Meiri blöndun verður svo yfir bænum.

Milli klukkan 8 og 10 jafnar flugvöllurinn muninn við Krossanesbrautina og er kominn framúr í hita klukkan 11. Klukkan 18 hefur flugvöllurinn náð lögreglustöðinni, en sígur síðan niðurfyrir aftur kl. 21. Við vitum ekki hver munurinn er klukkan 16 og 17 því á þeim tíma er ekki mælt við lögreglustöðina.

Stöðin við Krossanesbrautina er áberandi kaldari mestallan daginn heldur en hinar stöðvarnar báðar. Klukkan 18 munar 0,7 stigum á hita þar og á lögreglustöðinni. Þetta er óþægilega mikill munur. Áhugi er á því að setja upp eina sjálfvirka stöð í bænum til viðbótar þannig að úr því fáist skorið hvort Krossanesbrautin er köld eða lögreglustöðin hlý miðað við það sem almennt er á svæðinu. Kostnaður við viðbótarstöð er talsverður þannig að ólíklegt verður að telja að þessi áhugi breytist í eitthvað fast í hendi. Nei, Ráðhústorgið kemur ekki til greina, en tillögur eru vel þegnar.

Athuga þarf hitamun stöðvanna þriggja mun betur heldur en hér hefur verið gert. Þá yrði munur athugaður við mismunandi vindátt og skýjahulu og auðvitað í öllum mánuðum ársins. Ýmislegt til viðbótar kemur þá trúlega í ljós.

Já, meðalhitinn á stöðvunum þremur í sex júnímánuðum. Krossanesbraut: 9,34 stig, Flugvöllurinn: 9,46 stig, Lögreglustöðin: 9,73 stig, áberandi hlýjust stöðvanna þriggja.


Frá júní yfir í júlí

Margir hafa áhyggjur af því að kuldi fylgi kulda, kaldur júlí komi á eftir köldum júní. Sannleikurinn er sá að júní segir nærri því ekki neitt um júlí. Hlýr júlí getur fylgt köldum júní - en munum líka að kaldur júní getur líka verið undanfari kulda í júlí. En lítum á mynd sem sýnir hitabreytingu frá júní yfir til júlímánaðar í Stykkishólmi. Fyrsta árið sem við getum reiknað er 1808. Mælingar áranna 1798 til hausts 1807 byggja eingöngu á mælingum Sveins Pálssonar náttúrufræðings og læknis í Kotmúla í Fljótshlið. Sveinn var oft að heiman að sumarlagi og mælingar á þeim tíma árs því stopular hjá honum. Við vitum meira um vetrarhita á þeim tíma.

w-blogg020711

Lóðrétti ásinn sýnir hitamun júlí og júní, því hærri sem talan er því hlýrra var í júlí miðað við mánuðinn á undan. Punktalínan sýnir meðalhækkun hita, 1,8 stig, sem júli er að jafnaði hlýrri heldur en júní. Á myndinni má sjá að á 19. öld er meðalhlýnunin meiri heldur en síðar. Ég held að það sé rétt. þótt óvissa sé að vísu allmikil í mælingum fyrir 1850. Skýringin væri sú að heimskautaloftið hafi verið heldur þyngra í vöfum á þessum hafísatímum heldur en síðar var, - sólin hins vegar jafndugleg.

Sumarið 1917 sker sig úr fyrir mikla hlýnun, þá kom mjög hlýr júlí á eftir köldum júní. Nokkur ár fyrir 2000 sýna einnig mikla hlýnun, síðast 1997. Eftir aldamót hefur munurinn verið nærri langtímameðaltalinu. Við sjáum einnig að nokkrum sinnum hefur júlí verið kaldari heldur en júní. Síðast gerðist það 1970 og 1963. Eldri lesendur muna sumir volæði þessara tveggja júlímánaða, ótrúlegir veðuratburðir.

Á 19. öld  eru tilvikin þannig að venjulegir eða svalir júlímánuðir komu á eftir fádæma hlýjum júnímánuðum. Þannig var það alla vega 1871, en tölunum frá 1831 fylgir talsvert meiri óvissa.

Síðari mynd dagsins sýnir meðalhita í júní og júlí á Akureyri. Henni er ætlað að upplýsa að engin fylgni er milli hita mánaðanna tveggja.

w-blogg020711b

Lárétti ásinn sýnir meðalhita í júní, en sá lárétti hita júlímánaðar. Þeir sem vanir eru myndum af þessu tagi sjá að sáralítil fylgni er á milli. Kaldasta júní fylgdi þó kaldasti júlí (hryllingssumarið 1882). Sömuleiðis virðist tilhneiging vera til þess að óvenju hlýjum júnímánuðum fylgi ekki óvenju kaldir júlímánuðir. Tökum lítið mark á júlí 1855 - hann fær þó að fylgja með, hér er ekkert falið.

Niðurstaðan er því sú að næsti mánuður, júlí 2011, ber ekki með sér neinar kuldaerfðasyndir yfir í júlí, hann er óskrifað blað. Svo sjáum við bara til.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 406
  • Frá upphafi: 2343319

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 367
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband