Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Norðurhvel í júlibyrjun

Við lítum á ástandið í 500 hPa-fletinum eins og reiknimiðstöð evrópuveðurstofa reiknar það út á laugardaginn kemur (2. júlí). Þessi flötur er um það bil í miðju veðrahvolfinu, á þessum tíma árs í 5,4 til 5,9 kílómetra hæð frá jörðu. Hér sjást vel ráðandi straumar og stefnur hverju sinni.

w-blogg010711a

Við sjáum landaskipan norðurhvels, höfin eru bláleit, lönd ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins með 60 metra bili, merkt er við þær í dekametrum (dam=10 metrar). Flestar línurnar eru bláar, þykk rauð lína sýnir hæðina 5460 metra og önnur rauð heldur þynnri sýnir 5820 metra hæðina, sunnan hennar er mjög hlýtt að jafnaði - Miðjarðarhafsloftslag.

Enn er að hlýna á norðurhveli og gerir í um það bil 3 vikur í viðbót en nú hefur dregið mjög úr hlýnunarhraðanum frá því sem var fyrir mánuði síðan. Það er ekki útséð um það hvort 5460 metra línan (sú þykka, rauða) hverfur alveg - ég held að hún geri það yfirleitt ekki þótt hásumar sé. En það gæti þó gerst.

Þegar hlýnar á jörðinni, t.d. vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa lyftist 500 hPa-flöturinn um sem nemur 20 metrum fyrir hvert stig sem hlýnar, veðrahvolfið bólgnar lítillega. Hlýnun upp á t.d. 2 gráður ætti því að lyfta fletinum að meðaltali um 40 metra, 3 stig þarf til að lyfta fletinum um 60 metra en það er bilið milli hæðarlína á kortinu. Í hlýrra loftslagi væri 5820 metra línan því um það bil þar sem 5760 metra linan er í dag - og svo koll af kolli.

Á kortinu hér að ofan sjáum við lægðaband liggja eins og í perlufesti allt frá Alaskabugtinni í vestri og austur um inn í miðja Evrópu. Nokkuð ákveðin vestanátt (þéttar jafnhæðarlínur) er fyrir sunnan lægðabeltið, en norðan þess er átt óráðin, jafnvel austlæg norður af lægðarmiðjunum. Nú bregður svo við að enginn kuldapollur (lægðarmiðja) ógnar landinu úr norðri þótt rétt sé að fylgjast með lægðinni nærri Svalbarða. Spár reiknimiðstöðvarinnar segja hana koma suður yfir landið eftir rúma viku - en ástæðulaust er að ræða spár svo langt fram í tímann af nokkurri alvöru.

Ég hef merkt tvo myndarlega hæðarhryggi inn á kortið með grænum punktalínum (sem vonandi sjást). Önnur liggur frá Kaspíahafi norðvestur um Rússland og Finnland. Þar eru gríðarleg hlýindi - en eiga að hörfa smám saman. Hinn hæðarhryggurinn liggur sunnan frá vötnunum miklu í Norður-Ameríku allt norður til norðurpóls og þaðan til suðurs til Austur-Síberíu. Hæðarmiðja er sem stendur yfir Ellesmereyju norðan Kanada. Þar er líka hitabylgja að hætti þeirra landsvæða, þykktin er yfir 5520, en bráðnandi ís og snjór halda hitanum auðvitað niðri víðast hvar. Ég veit þó að hiti komst í 17 stig á veðurstöðinni Eureka í dag (fimmtudag) - hærra en víðast hvar hér á landi.

Lægðin suður af Íslandi á öllu að ráða í nokkra daga, fyrst ein og sér, en síðan á lægðin sem á kortinu er við Labrador að ganga inn í hana og framlengja líf hennar. Lægðin verður óþarflega nærri okkur, þannig að við verðum lengst af í lægðarbeygju þrýstilína en slík beygja ýtir undir skýjamyndun og úrkomu. En það er varla hægt að kvarta yfir þessu miðað við það sem ríkt hefur að undanförnu.

Við skulum líka líta á sneið úr myndinni, okkur til almenns fróðleiks.

w-blogg010711b

Sneiðin sýnir stækkaðan hluta kortsins og hafa Bandaríkin verið valin. Hér sjáum við vel ástandið sunnan 5820 metra jafnhæðarlínunnar (þeirrar rauðu). Ekki er nema ein lína sem sýnir hærri tölu, 5880 metra línan. Hún umlykur mikla hæð sem nær yfir mestöll Bandaríkin. Hæðinni fylgir aðallega niðurstreymi og þar með bjart veður. Þykktin er líka meiri en 5820 metrar á allstóru svæði austan Klettafjalla, allt frá Kanadísku landamærunum og suður til Oklahóma. Hiti í Winnipeg fór í 34 stig í dag og hefur ábyggilega verið yfir 40 stig víða í Bandaríkjunum.

Á þessum tíma árs ræður svona hæð gjarnan ríkjum í Bandaríkjunum og tilbreytingin fylgir lægðardrögum sem berast til austurs með vestanáttinni norðan hæðarinnar og teygja sig stundum suður á bóginn, þá gjarnan með miklum þrumuveðrum. Nákvæm staða hæðarmiðjunnar ræður einnig aðstreymi af röku lofti sunnan úr Mexíkóflóa. Þar er á þessum árstíma vaxtarsvæði hitabeltisstorma eða fellibylja.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 72
  • Sl. sólarhring: 328
  • Sl. viku: 2839
  • Frá upphafi: 2427391

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 2542
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 52

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband