Af norðurvígstöðvunum

Nokkur liðssafnaður kulda er nú á norðurvígstöðvunum milli Grænlands og Svalbarða - en beinist þó lítið hingað til lands. Þetta sést vel á mynd sem sýnir stöðuna kl. 18 á morgun (föstudaginn 8. júlí) - spá frá dönsku veðurstofunni.

w-blogg080711a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins með heildregnum, svörtum línum, einingin er dekametrar (1 dam = 10 metrar). Það er 5580 metra línan sem liggur við vesturströndina. Mjóu, rauðu strikalínurnar sýna þykktina, einnig í dekametrum. Hún er því meiri eftir því sem loft í neðri hluta veðrahvolfs er hlýrra. Landið liggur á milli 5400 og 5460 metra jafnþykktarlínanna. Það er út af fyrir sig viðundandi eins og íbúar syðri hluta landsins og reyndar víðar máttu reyna í dag. Norðanlands stingur kalt sjávarloft að norðan sér undir hlýja loftið og spillir talsvert fyrir, sérstaklega þar sem skýjað er.

Almennt er lítil næturfrosthætta meðan þykkt er yfir 5400 metrum, nema þar sem nærri því alltaf er hætta á næturfrosti í heiðskíru veðri.

Við norðausturhorn Grænlands er nokkuð snarpur kuldapollur, innsta jafnþykktarlínan sem við sjáum er 5280 metrar - kæmi hún hingað suður frysi víða um sveitir. En svo virðist sem kuldinn blási ekki til sóknar að ráði - slengir þó 5400 metra þykktarlínunni talsvert suður á landið aðra nótt (aðfaranótt laugardags) - vonandi kólnar þó ekki að mun.

Þykka, rauða línan á kortinu sýnir hæðarhrygg sem virðist eiga að stjórna veðri hér á landi næstu daga. Honum fylgir tiltölulega hlýtt loft eins og vant er í háloftahryggjum. Alla vega virðist hann eiga að halda norðankuldanum í skefjum að mestu og á síðan að hleypa næstu tveim lægðardrögum að vestan í gegnum sig svo lítið beri á. Fari svo koma lægðir þessar lítið við sögu hér á landi.´

Útlit er því fyrir að við verðum næstu daga í dæmigerðu sumarástandi - það verður þó ekki beinlínis hlýtt nema yfir daginn þar sem sólar nýtur. Á sumrin gerist það stundum að þrýstikerfi þrífast lítt og þau sem lifa væflast stefnulítið um garða. Þá er oftast skárra að líta á háloftakortin þar sem flest er skýrara.

Við skulum líta á aðra mynd - sem ég held að hafi birst áður á hungurdiskum - en öðruvísi merkt.

w-dp-arstid

Hún sýnir árstíðasveiflu flökts í loftþrýstingi frá degi til dags (í hPa). Athugið að ferillinn nær yfir eitt og hálft ár til að sveiflan sjáist öll vel. Flöktið er mjög í takt við árstíðasveiflu illviðra. Það er miklu minna á sumrin heldur en á vetrum. Lágmarki nær það snemma í ágúst - á þessari mynd nákvæmlega þann 10. Hámarkið er í janúar, þann 11. á þessari mynd.

Við megum taka eftir því að í kringum 1. júlí kemur lítið þrep niður á við í ferlinum. Eftir að farið hefur verið niður þrepið haldast gildin svipuð þar til annað ámóta þrep kemur um 20. ágúst og þá upp á við. Ég hef merkt tímabilið á milli þrepanna með rauðu striki á myndinni. Óvíst er um marktækni þessara litlu þrepa - en við getum vel ímyndað okkur að þarna sé hinn hreini kjarni sumarsins, tíminn þegar veturinn liggur í dvala. En - hann fer sumsé aftur að bylta sér um 20. ágúst - engin miskunn þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://www.wetterzentrale.de/pics/avnpanel1.html

Nú eru þessir stórhöfðingjar að spá kuldapolli fyrir vestan Grænland bjartri framtíð, til viðbótar við þann sem sest að milli Svalbarða og Novaja Zemlja. Ef þeir hafa rétt fyrir sér, kemur það til með að kæla okkur hér á landi?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 8.7.2011 kl. 10:05

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Kuldapolli er spáð vestan Grænlands og gæti komið við sögu hér síðar, en sú saga sést ekki enn í tölvuspám.

Trausti Jónsson, 8.7.2011 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 71
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 1669
  • Frá upphafi: 2350946

Annað

  • Innlit í dag: 64
  • Innlit sl. viku: 1461
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 56

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband