Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Skemmtileg hægfara skil yfir landinu - snjóar - eða ekki?

Nú (að kvöldi föstudagsins 30. apríl) eru skemmtileg skil yfir landinu. Austan þeirra er hæg suðlæg átt og hlýtt, en vestan skilanna er hæg breytileg átt rigning og hiti á bilinu 0 til 5 stig. Það sem gerir skilin skemmtileg er spurningin um hversu lágt frostmarkið fer í úrkomunni vestan skilanna - nær að snjóa á láglendi seint í nótt eða í fyrramálið? Líkurnar eru mestar í morgunsárið, milli kl. 5 og 8. Ef ekki snjóar á þeim tíma er tækifærið liðið hjá - ég veit þó ekki með aðra nótt.

Nú er lag til að koma á framfæri einföldu veðurfræðilegu atriði: Það kostar varma að bræða snjó. Nærtækast er að nota varma úr loftinu þar sem úrkoman fellur - við það kólnar loftið. Nærri því öll úrkoma sem fellur hér á landi byrjar líf sitt sem snjór - líka á sumrin. Það er (nærri því) alltaf frost þar sem úrkoma myndast. Á leið sinni til jarðar fellur snjórinn um síðir oft niður í frostlaust umhverfi og byrjar að bráðna. Bráðnunin kostar varma og loftið kólnar - eins og áður sagði.

Þetta gerist reyndar alltaf þegar rignir, þar sem úrkoman er áköfust er hiti að jafnaði lægri heldur en í sömu hæð umhverfis úrkomusvæðið. Venjulega tekur maður ekki svo mjög eftir þessu - stundum þó í skúrum - en þar eiga sér líka stað allskonar sviptingar aðrar sem flækja málið.

Greinilegast sést þetta þegar úrkomusvæði er mjög hægfara, vindur hægur og úrkoma er stöðug og mikil. Ég get ekki sagt til um það nákvæmlega hversu mikið mikið er, látum það því liggja á milli hluta. Úrkomusvæðið sem nú er yfir landinu er dæmi - rigni nógu mikið og samfellt í nótt - gæti snjóað á láglendi. Þótt ég hafi ekki af því beinar fréttir sýnist mér að snjókoma sé nú á Hellisheiði og haldi úrkoman í nótt áfram (sem ég ekki veit) nær snjókoman efstu byggðum í Reykjavík og jafnvel niður í borgina.

Linni úrkomunni hlýnar trúlega og þegar sól fer að hækka á lofti minnka líkur á snjókomu mjög mikið - hættan liðin hjá.

En til þess að þessi pistill skilji eitthvað eftir eru hér tvær skýringarmyndir.

w-blogg300411-2

Við sjáum hér þversnið af neðstu þremur kílómetrunum af lofthjúpnum frá vestri (vinstra megin) til austurs (hægra megin). Skilin eru skissuð inn sem græn punktalína í gegnum eitthvað sem á að tákna skýjakerfi skilanna. Hægra megin er hlýtt og frostmark í um 1500 metra hæð, en vestan skilanna er kalt og frostmarkið í um 600 metra hæð. Inni í skýjakerfinu liggur frostmarksflöturinn lægra, það fer eftir úrkomuákefð, aðstreymi lofts úr vestri og hreyfingu skilanna hversu neðarlega flöturinn fer. Þegar þetta er skrifað (upp úr miðnætti aðfaranótt laugardagsins 30. apríl) er frostmarkið suðvestanlands komið niður í 300 metra hæð yfir sjó, það sést á hitamælingum í Bláfjöllum, á Hellisheiði og á miðnætti var hiti á Keflavíkurflugvelli ekki nema 2 stig.

Það er reynsla mín í gegnum árin að tölvuspár ná lækkun á frostmarksfleti vegna úrkomuákefðar ekki alltaf vel. En það er þó batnandi með nákvæmari líkönum. Hirlam-líkanið spáir  frostmarkslækkun í 950 hPa fletinum kl. 9 í fyrramálið, en þá verður sá flötur í rúmlega 500 metra hæð yfir Vesturlandi.

w-blogg300411-3

Hér má sjá venjulegar vindörvar - reyndar hringi undan Vesturlandi en þeir tákna stafalogn. Rauðu línurnar eru jafnhitalínur hita ofan frostmarks. Við sjáum að 10 stiga línan er skammt suðaustur af landinu. Grænu línurnar tákna frostmark. Meðfram vesturströndinni má sjá svæði þar sem hiti er neðan frostmarks (ég hef krotað í það með blárri strikalínu til að það sjáist betur). Á þessu svæði er frostmarkið neðar heldur en 500 metrar. Grænar frostmarkslínur eru til beggja handa og vestur af landinu er svæði þar sem frostmarkið er ofan við 600 metra, því frostlaust er þar í 500 metra hæð. Hvort þetta verður svona er annað mál - en kemur í ljós.

Skilin eiga síðan að hreyfast fram og til baka um landið, en smám saman mun draga úr úrkomumagni og þar með minnka líkur á snjókomu.

Veltið síðan fyrir ykkur hvað gerist með hitann þegar úrkoma fellur niður í þurrt loft. Tilefni gefst vonandi síðar til að greina nánar frá því.


Jafnvægi á föstudegi? (+ fræðainnskot)

Föstudagurinn (29. apríl) lítur út fyrir að verða einn þeirra daga þar sem vindur á landinu verður hægur þrátt fyrir það að uppi í 5 km hæð sé breiður og mikill vindstrengur þar sem vindhraði er yfir 40 m/s. Við skoðum þetta nánar með því að líta á spákort um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um hádegi. Í framhaldinu leitum við upp eina tröppu eða svo í fræðabrekkunni.

w-blogg280411b

Lesendur hungurdiska eru vonandi farnir að venjast korti sem þessu. Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum, en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar).

Á kortinu falla hæðar- og þykktarlínur yfir landinu nærri því saman og í báðum tilvikum hækka tölurnar til austurs. Mismunur hæðar- og þykktarsviðs sýnir hæð 1000 hPa-flatarins. Sá flötur er eins í laginu og hið hefðbundna þrýstisvið venjulegra veðurkorta. Ef við drögum þykktartölurnar frá hæðartölunum fáum við út 18 dekametra við Austurland, en útkoman er 12 dam við vesturströndina. 

Við Austurland er 1000 hPa-flöturinn því í 180 metra hæð yfir sjó, þrýstingur við sjávarmál er hærri en 1000 hPa sem þessum mun nemur, hvert hPa er um 8 m að þykkt. Þrýstingur við sjávarmál austanlands er því 180/8 = 22,5 (+1000 = 1022,5 hPa) - en 120/8 = 15 (+1000 = 1015,0 hPa) undan Vesturlandi. Aðeins munar því um 7 hPa á þrýstingi austanlands og vestan. Það gefur sunnangolu eða kalda á landinu að jafnaði.

Þetta var e.t.v. ekki allt of skýrt en ef ég endurtek þetta í nægilega mörgum pistlum fara þeir þrautseigari að átta sig - hinir taki þessu létt eins og hverju öðru stagli um kostnaðarbókhald sem engu máli skiptir.

En við staglarar stöglum okkar leið áfram og lítum á erfiða(?) mynd.

w-mishitun_a_2-loftsulum

Að grunngerð er myndinni stolið úr ágætri Suður-Afrískri kennslubók í veðurfræði. Vinstri rammi hennar sýnir tvo þrýstifleti, p0, og efri flöt, p1. Við látum p0 vera 1000 hPa-flötinn (við jörð), og p1 vera 500 hPa-flötinn. Hornklofarnir sýna fjarlægð milli flatanna tveggja. Súlurnar tvær, a og b eru jafnheitar að meðaltali (Tm = meðalhiti). Þykktin milli flatanna er sú sama í báðum súlunum.

Færum okkur yfir í hægri rammann. Þar höfum við kælt súlu a (nú blá), við það minnkar fyrirferð loftsins og 500 hPa-flöturinn (p1) lækkar sem því nemur. Við vitum að þegar loft kólnar minnkar þykktin. Við höfum jafnframt vermt súlu b, fyrirferð hennar hefur aukist við það (þykktin vex). Við þessar aðgerðir kemur halli á 500 hPa flötinn og loft fer að renna niður frá súlu b yfir að súlu a. Svigkrafturinn grípur þá loftið og keyrir það inn úr myndinni (til hægri ef horft er ofan á flötinn). Á Suður-Afrísku frummyndinni keyrði svigkrafturinn loftið útúr myndinni (til vinstri ef horft er á að ofan).

Takið nú eftir því að þrýstingur við jörð breyttist ekki neitt við þetta varmaofbeldi sem við beittum súlurnar og bjuggum til hallann. Á veðurkortinu sem fjallað var um hér að ofan er súla a í kalda loftinu við vesturströndina en súla b í því hlýja austanlands. Mikil brekka er í 500 hPa-fletinum rétt eins og á skýringarmyndinni, en þrýstingur svipaður við jörð.

Breytingar verða á halla 500 hPa-flatarins yfir landinu næstu daga - loft er sífellt að berast til landsins og frá því. En - hluti þessara breytinga fellst í því að sjórinn hitar köldu súluna upp að neðan, við það vex fyrirferð hennar og það dregur úr hallanum í 500 hPa þegar hitamunur a og b minnkar. 

Raunveruleikinn er auðvitað margslungnari heldur en þetta og munu þeir smámunasömustu af lesendum vera með nokkurn hiksta eftir lesturinn. En við látum sem ekkert sé.


Fimmtudagsillviðrið?

Þegar þetta er skrifað (um miðnætti á miðvikudagskvöld 27. apríl) er enn spáð SA 18-23 m/s suðvestanlands - á fimmtudegi. Sunnanveður virðast í tísku nú í apríl. Þetta verður víst aðeins suðaustlægara en hin fyrri og vonandi ekki eins útbreitt - en hver veit. Staðan á veðurkortinu er nokkuð flókin - en lítum á gervihnattarmynd. Hún er af vef móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi frá því fyrr í kvöld.

w-dundee-270411-20

Ég hef sett in slatta af merkingum. Sjá má miðju öflugs kuldapolls sem hringar sig suður af Grænlandi. Hann sækir til austurs. Þekkja má kalt loft yfir hlýju hafi á skýjunum, éljaklakkar eru eins og doppur á víð og dreif í kringum kjarna sveipsins. Þar má sjá allsamfelldan éljagarð.

Ef vel er gáð má sjá tvö rauð L á myndinni. Annað þeirra er skammt norðaustur af Hvarfi á Grænlandi en hitt er suður í hafi ekki langt frá þar sem eru settar gular línur. Sú lægð veldur hvassviðri hér á fimmtudag.

Talan 2 er sett við gulrauða punktalínu sem á að sýna sveigjur í skýjakerfinu. Ég hef sérmerkt þrjár slíkar sveigur. Þetta eru ekki hitaskil, þau eru grafin einhvers staðar eða hvergi undir skýjakerfinu. Hér á sérstaklega að taka eftir sveigjunni á línunum, loftið fer þar um skýjakerfin í hæðabeygju. Til þess að átta sig á því þarf að vita að loftið kemur að sunnan - en sveigir síðan til austurs og síðar jafnvel aftur í suðlægari stefnu. Loft sem kemur að sunnan hefur tilhneigingu til þess að fara í hæðabeygju - það er „lögmál“ sem vænlegt er að leggja á minnið til notkunar næstu árin. Á sama hátt hefur loft á suðurleið tilhneigingu til þess að leggjast í lægðabeygjur. Fleira getur þó ráðið.

Ef vel er að gáð má sjá örmjó skýjabönd liggja til suðurs og norðurs til hægri við tölustafinn 3. Hvernig skyldi þetta form varðveitast, mörg hundruð kílómetra langir, örmjóir bandspottar? Svar er til - en varla tímabært.

Við gulu línurnar neðst á myndinni ekki langt frá tölustafnum 4 má líka sjá mjó bönd liggja til norðurs og suðurs. Þau mjókka reyndar áberandi til suðurs úr breiðu færiböndunum norðurundan. Þarna má líka sjá fleiri en eina þurra rifu sem reyna að myndast, en ekki er ljóst hvort hver eða þá nokkur þeirra nær yfirhöndinni sem aðalrifa lægðarinnar - ekki gott að segja.

Lengst til vinstri, neðarlega, er rautt strik. Þar er bútur úr hlýju færibandi. Það þekkjum við af hnífskarpri brúninni á hvíta (kalda svæðinu).

Þegar myndin er tekin (milli kl. 20 og 21) virðist lítið samband vera á milli lægðarinnar vaxandi og kuldapollsins. Ákveðin kuldaskil eru á milli. Á morgun munu pollurinn og lægðin komast að samkomulagi. Lægðin við jörð étur þá lægð sem fylgir kuldapollinum, en í staðinn verður lægðin étin af hringrás stóru háloftalægðarinnar sem kuldapollinum fylgir. Lægðin sem nú stefnir beint norður í átt til Íslands mun þá sveigja snögglega til norðvesturs og lenda vestur undir Grænlandi. Það að lægðin sveigir frá lengir þann tíma sem hvassviðrið stendur.

Gusa af köldu lofti kemur til Íslands á eftir lægðinni, en mun rétt aðeins sleikja vesturströndina aðfaranótt föstudags. Þá verður mikill þykktarbratti (hitamunur mikill) yfir Ísland frá vestri til austurs og væntanlega einhver skil yfir landinu - kuldaskil, hitaskil, kyrrstæð skil? Skemmtiatriðið frá 1. maí 1987 verður þó varla endurtekið nú. Þá snjóaði heil ósköp (17 cm) í Reykjavík í svipaðri stöðu hægfara skila yfir landinu.


Enn um aprílmánuð og háloftin (nördapistill)

Ég verð var við það að mörgum finnast þessir háloftapistlar hungurdiska harðir undir tönn - en látum slag standa með von um að þeir þrautseigari í hópi lesenda átti sig. Hina bið ég forláts - ég veit að þetta er á jaðri þess boðlega.

Í pistli í gær var fjallað um háloftaástandið í þeim aprílmánuði sem nú er að líða og hversu mjög það víkur frá því sem venjulegt er. Til að upplýsa það aðeins betur birtast hér tvær myndir.

w-c20v2-trvk-h500

Hér má sjá meðalhæð 500 hPa-flatarins yfir Íslandi í apríl á láréttum ás, en meðalhita aprílmánaðar í Reykjavík á þeim lóðrétta. Háloftatölurnar eru fengnar úr merkri háloftaendurgreiningu bandarískri sem nær nú aftur til 1871. Fyrir 1947 er ekki hægt að bera hæðartölur úr greiningunni saman við háloftaathuganir en eftir það er greiningin góð. Eldri gögn sýnast líkja furðuvel eftir veðurathugunum við sjávarmál. Gæðin versna þó eftir því sem aftar dregur og verður að hafa það í huga þegar horft er á gögnin.

Þrátt fyrir að punktarnir á myndinni hér að ofan séu dreifðir um stórt svæði er þó greinileg fylgni milli hæðarinnar (lárétti ásinn) og hitans í Reykjavík. Hlýju mánuðirnir eru t.d. allir ofarlega til hægri. Köldu punktarnir eru óþægari, langverstur þó apríl 1876 - kaldasti apríl í Reykjavík, meðalhiti var -1,9 stig, hefði átt að vera +3,5 miðað við ágiskaða hæð 500 hPa-flatarins í þessum mánuði. Ekki gott samræmi það.

Meginvillan í greiningunni á 19. öld virðist vera sú að giskað er á of háan 500 hPa-flöt og raunveruleg hæð í þessum ákveðna mánuði hefur væntanlega verið nokkru lægri - punkturinn því lengra til vinstri á myndinni. Reiknaður fylgnistuðull er 0,39, ef 19. öldinni er sleppt alveg hækkar fylgnistuðullinn i 0,50 - umtalsverð bót.

Ég hef einnig giskað á stöðu núverandi aprílmánaðar - hann virðist ætla að vera nærri 2 stigum hlýrri heldur en 500 hPa hæðin giskar á.

w-c20v2-trvk-delta

Á hinni myndinni hefur hæðinni verið skipt út fyrir þykkt. Við sjáum að samband þykktarinnar og hitans er miklu betra heldur en samband hæðar og hita, fylgnistuðullinn er kominn upp í 0,83. Sýnir það vel hversu góð endurgreiningin er - því hitinn í Reykjavík er ekkert notaður í greiningunni. Apríl 1876 er enn nokkuð einmana neðst en lítið þyrfti að færa punktinn til vinstri til þess að hann komist inn í aðalsveiminn kringum línuna. Við sjáum að hitinn hækkar um 0,4 stig fyrir hvern dekametra í þykkt í mánaðarmeðaltalinu.

Ég hef sett bókstafinn X þar nærri sem apríl í ár virðist ætla að lenda. Hann er ofan við fylgnilínuna, talsvert hlýrri en hann „ætti“ að vera, en ekkert út úr myndinni.


Veður í apríl - vont eða gott?

Ég get auðvitað ekki svarað spurningunni í fyrirsögninni. Sérstaklega af því að mánuðurinn er ekki búinn. Ljóst er þó að hitinn er í góðu lagi, en hvað með annað?

Eitt af því sem vekur athygli þegar litið er yfir veðurlag í apríl fram til þessa er hinn lági loftþrýstingur. Við liggur að met verði slegið - kannski verður það þannig? Lítum til gamans á stöðuna í veðrahvolfinu miðju - í 500 hPa-fletinum í rúmlega 5 kílómetra hæð frá sjávarmáli.

w-h5000411-0123

Myndin er fengin af teiknisíðum bandarísku veðurstofunnar og sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins fyrstu 23 daga aprílmánaðar í ár (heildregnar línur - metrar). Meðalhæðin yfir landinu er 5220 metrar. Þetta er ekki alveg met - en samt 130 metrum undir meðallagi á þessum árstíma. Þetta er svipuð hæð og finna má í nokkrum alþekktum skítaaprílmánuðum, 1949 og 1990 kannski þeirra þekktastir fyrir hríðarbylji og vetrarveðráttu, en líka 1943, 1947 og 2006. Við finnum meðalhæðina sem á að vera, 5350 metra, fyrir suðaustan land.

En lítum á meðalkortið líka.

w-h500-04-0123-m

Við sjáum strax að það er allt öðru vísi, jafnhæðarlínurnar ekki líkt því eins þéttar og hæðin 5220 metrar er sú sem að meðaltali er yfir Norður-Grænlandi. Við getum ímyndað okkur að við drögum þá línu til suðausturs eins og bláa örin sýnir, 5340 línan hörfar undan - en ekki lengra heldur en að stjörnunni á fyrri mynd. Við þessa ágengni 5220-línunnar og andstöðu 5340-línunnar herðir á brattanum og vindáttin snýst aðeins til suðlægari stefnu. Berið saman stefnu og lengd rauðu örvanna á myndunum báðum.

Þegar farið er í saumana á styrk og stefnu vindsins og hvort tveggja borið saman við fortíðina kemur í ljós að svona mikil sunnanátt hefur aðeins sárasjaldan orðið í apríl áður. Þar eru fremstir aprílmánuðirnir hlýju 1974 og 2003. Í apríl 1974 var meðalhæð 500 hPa-flatarins var uppi í hæstum hæðum, 5470 metrar og litlu lægri 2003. Þá mátti segja að 5460-línan sem er við Skotland á meðaltalskortinu hafi þrengt sér til Íslands, þrengt að kuldanum og úr orðið óvenjuleg sunnanátt. Nú þrengir kuldinn sér til austurs og býr til óvenjulega sunnanátt.

Það er þessi óvenjulega sunnanátt sem haldið hefur hitanum uppi þrátt fyrir ágengan kuldann í vestri. Kuldinn hefur verið mun ágengari allra vestast á landinu heldur en eystra.

En mánuðurinn er ekki búinn og ekki verður hægt að gera hann upp fyrr en eftir næstu helgi. Þá kemur í ljós í hvaða sæti meðalhitinn lendir, sunnanáttin hefur valdið óvenjumikilli úrkomu syðra og loftþrýstingur er eins og áður sagði nærri lágmarki allra tíma.

En ég vona að það sem sagt er hér að ofan varpi einhverju ljósi á hið tvískipta eðli aprílmánaðar 2011.


Páskalægðin pakkar saman

Ekki hef ég samantekt um vindhraða og þess háttar við höndina en mér sýnist að þrýstivindur á Faxaflóa við hámark páskaveðursins hafi e.t.v. verið um 45 m/s. Þetta er há tala, en þó mun lægri heldur en varð mest fyrir hálfum mánuði þegar þrýstivindur á flóanum varð mestur um 60 m/s. Þetta var samt býsna mikill sunnan- og suðvestanhvellur miðað við árstíma. Norðanillviðri eru algengari síðast í apríl og í maí.

En nú er lægðin að pakka saman og er spáð til austurs yfir landið á morgun um leið og hún grynnist umtalsvert. En fyrst þarf hún að hleypa þeim hraðskreiða spákuldapolli framhjá sem minnst var á hér á hungurdiskum í gær og fyrradag. Þykktarkortið af brunni Veðurstofunnar sýnir hann sérlega vel.

w-blogg250411-1

Svörtu línurnar eru jafnþykktarlínur í dekametrum, því lægri sem tölurnar eru því kaldara er loftið í neðri hluta veðrahvolfsins. Lituðu svæðin sýna hita í 850 hPa fletinum - sjá kvarðann til hægri við myndina. Bláa örin sýnir miðju kuldapollsins, 5140 metrar, það nægir til þess að úrkoma sem fellur að næturlagi á þessum árstíma er snjór frekar en regn. Hvíta strikaða örin sýnir svo hreyfistefnu kuldans. Hann gengur mjög hratt hjá.

Rauða örin bendir á hlýjan kjarna páskalægðarinnar, en hún bíður hreyfingarlítil þar til hraðlestin er komin hjá. Síðan tekur hún á skrið austur fyrir land. Talsvert er eftir af vindi sunnan við hana og gæti orðið leiðindaveður sunnanlands um tíma á morgun (annan páskadag) meðan lægðarmiðjan skýst hjá, en síðan á veðrið að skána.

Við skulum líka sjá kuldapollinn á (óskýrri) gervihnattarmynd á miðnætti.

w-blogg250411-2

Kuldapollar yfir mjög hlýjum sjó einkennast af gríðarlegum éljaklökkum - enda er loft sérlega óstöðugt. Eldinganemar hafa í dag numið fjölda eldinga sem fylgja þessum klökkum. Mest er þrumuveðrið í austurjaðri svæðisins - en vel gætu einhverjir lesenda hafa orðið varir við eldingar eða þrumur nú síðdegis eða í kvöld (páskadags). Það snjóar varla mjög mikið úr þessu kerfi því það fer svo hratt hjá og kalt landið slær heldur á uppstreymið nema í námunda við brött fjöll. Vonandi bráðnar snjórinn á morgun - enda kemur hlýrra loft yfir landið með leifunum af lægðinni vestur undan þegar kuldapollurinn er farinn hjá.

Næsta lægðarkerfi á síðan að koma á miðvikudaginn og varla lát að sjá á umhleypingunum því stóri kuldapollurinn er enn á sveimi vestan Grænlands. Kuldinn sem við höfum fengið frá honum hefur þó nær eingöngu falist í skamvinnum sleikjum, snjóað hefur stund og stund. Í heildina litið hefur hins vegar verið hlýtt - og óvenjuhlýtt um landið austanvert - mánuðurinn gæti þar orðið einn hinna hlýjustu sem vitað er um. En enn er hátt í vika eftir af mánuðinum og ekki ljóst fyrr en um lýkur í hvaða hlýindasætum hann lendir.  


Mynd af páskalægðinni

Þótt myndir berist nú stöðugt frá gervihnöttum eru þær af misjöfnum gæðum - en maður þakkar þó fyrir það sem er. Skásta myndin sem ég fann af páskalægðinni var höluð niður í Dundee í Skotlandi fyrr í kvöld (laugardagskvöldið 23. apríl) og verð því að notast við hana. Mun betri mynd veður vonandi fáanleg seint í nótt (en þá verð ég löngu farinn að sofa).

w-dundee230411-20ch5

Myndin var tekin klukkan 20 að kvöldi 23. apríl, útlínur Íslands og Grænlands eru merktar inn á myndina. Þetta er hitamynd, því hvítari sem skýin eru því kaldari og hærri eru þau. Meginskýjabakkinn er yfir Íslandi og undir honum er austanillviðri með rigningu eða slyddu (snjókomu til fjalla). Þegar þetta er skrifað (uppúr miðnætti) er þessi bakki kominn langleiðina norður af og skýlitla svæðið tekið við. Þar eru skúraklakkar á stangli þar sem uppstreymi hefur tekist að brjótast í gegnum teppi af hlýju niðurstreymislofti sem liggur ofan á.

Lægðarmiðjan er ekki fjarri suðvesturjaðri þessa skýlitla svæðis. Skammt sunnan við hana eru tveir krókar eða sveipir. Ég ætla ekki að ræða uppruna þeirra hér en krókar af þessu tagi koma og fara, en ganga hver á fætur öðrum kringum lægðarmiðjuna og vefjast smám saman alveg kringum hana.

Veðrið er trúlega verst austan við austari krókinn sem merktur er á myndina. Nú er engar vindmælingar að hafa frá þessu svæði. Slík staða er óþægileg í meira lagi og verður að treysta á tölvuspár sem nær aldrei eru alveg samhljóða. Síðan er að fylgjast með vindhraða, vindátt og loftþrýstingi í Grindavík, Keflavíkurflugvelli og á Garðskagavita og bera þær upplýsingar saman við myndirnar sem berast frá sístöðuhnettinum yfir miðbaug. Þær myndir hafa þann kost að koma oft en þann ókost að þær eru ekki mjög greinilegar hér á norðurslóðum. Þær má þó nota til samaburðar við ratsjármyndirnar, en því miður er vindhraðamælieining veðursjárinnar á Miðnesheiði biluð sem stendur.  

Já, bláa örin á myndinni sýnir áætlaða braut smákuldapolls sem enn er vestan Grænlands en á að styrkja og kæla suðvestanáttina hér á landi annað kvöld og aðra nótt. Ekki er það sérstakt áhyggjuefni að öðru leyti en því að hálkan gæti heimsótt okkur aftur skamma stund. Varla þarf að taka fram að veður er langoftast mun verra á fjallvegum heldur en á láglendi. Það ætti að vera almenn regla ferðamanna að líta á vef Vegagerðarinnar þegar ekið er um heiðar, ekki aðeins þegar spáð er illu eins og nú er, heldur yfirleitt. Sömuleiðis að líta á vef Veðurstofunnar, þar eru nýjustu spárnar.


Smáfroða um páskalægðina

Á laugardagskvöld (23. apríl) á að hvessa af suðaustri um landið vestanvert rétt einu sinni. Allkröpp lægð fer síðan framhjá á páskadag. Lesendum sem vilja fá nánari spá er bent á vef Veðurstofunnar. Lítum á gervihnattamynd sem tekin var um miðnætti á föstudagskvöld. Þetta er hitamynd. Því hvítari sem svæðin eru því kaldari eru þau.

w-seviri230411-00

Lægðin sem olli illviðrinu í gær (sumardaginn fyrsta) og hlýindum norðaustanlands í dag er á hringsóli á Grænlandshafi. Nýja lægðin er suðvestur í hafi og stefnir til Íslands eins og svarta örin sýnir. Hún rétt missir af stefnumóti við vetrarkalt loft (lítinn kuldapoll) sem nú er yfir Hudsonsundi og æðir austur um (bláa örin). Gaman verður að fylgjast með skeiði hans þar til að kvöldi páskadags að hann kemur að Suðausturlandi með miðjuþykktinni 5140 metrar - gangi tölvuspár eftir.

Þykktarvandir lesendur hungurdiska vita að þessi þykkt táknar að snjór eða él falla úr lofti og hálku er von á vegum. En tölvuspár vanmeta oft þá hlýnun sem verður þegar kalt loft streymir út yfir hlýjan sjó - e.t.v. einnig í þetta sinn.

En lægðin djúpa á annað stefnumót, við leifar gömlu lægðarinnar (græn ör). Kannski að afl útsynningshvellsins á páskadag eigi eftir að ráðast af því stefnumóti.

En þessi texti er bara froða - alvöruspárnar eru annars staðar.


Hvassviðri á sumardaginn fyrsta

Mjög hvasst var víða um landið vestanvert í dag (21.apríl). Vindhraða var þó mjög misskipt eins og verða vill þegar loft er mjög stöðugt. Í stöðugu lofti hafa fjöll sérlega mikil áhrif á vind og búa til vindstrengi, hviður og skrúfvinda baki brotnu. Ég var staddur í Borgarnesi og þar gekk sjórokið yfir neðri hluta bæjarins þegar vindhryðjurnar fóru hjá. Meðalvindur var þó ekki mjög mikill. Vonandi hefur ekki orðið mikið foktjón á landinu, en veðrið hefur alveg gefið tilefni til þess.

Landið hefur verið í hlýjum geira lægðar á Grænlandshafi undir miklum vindstreng sem legið hefur beint úr suðri og norður fyrir. Þessi vindstrengur þokast austur og sjáum við hann á spákortinu hér að neðan sem gildir klukkan 9 í fyrramálið (föstudaginn langa). Kortið sýnir hæð 300 hPa flatarins í dekametrum og svæði þar sem vindur er yfir 40 m/s eru lituð. Einnig má sjá hefðbundnar vindörvar. Kortið er fengið af brunni Veðurstofunnar úr smiðju hirlam-líkansins.

w-hirlam300hPa-220411_09

Klukkan 9 í fyrramálið verður vindhámarkið yfir vestanverðu landinu. Það þýðir þó ekki að þar verði hvasst þá því kalt loft úr vestri á þá að hafa fleygast undir háloftaröstina og kippt sambandi milli hennar og vinds við jörð í sundur. Austanlands gæti hvesst frekar.

Meginkjarni kuldapollsins (K-ið) hefur hörfað heldur til vesturs frá því sem verið hefur en athygli vekur mikil vindkryppa austan Nýfundnalands. Þar ryðst áfram hæðarhryggur á undan næstu lægð. Hún á að valda illviðri hér á laugardagskvöld eða síðar. Við sjáum lægðardragið vestan við hrygginn. Það fylgir lægðinni hingað til lands. 

Þótt lægðin stefni rakleiðis hingað rétt eins og fótbolti á leið frá miðjum velli og í mark á samt eftir að leggja hana fyrir markskotið. Hvar miðja hennar og mesti vindhraði lendir fer nokkuð eftir því hvernig það tekst. Vonandi að hún hitti ekki eins vel og illviðrislægðin fyrir rúmri viku. Á gervihnattamyndum sem teknar voru í kvöld eru ekki mikil illindi á ferðinni. En við lítum e.t.v. á það hvernig hún lítur út á myndum á morgun (föstudag) þegar hún nálgast mjög mikilvægt stefnumót við kalda loftstrauma sunnan Grænlands og leifar lægðarinnar sem veldur blæstrinum í dag. Þeir sóknarmenn þurfa að vera á réttum stöðum þegar boltinn berst til þeirra.


Kalt eða hlýtt?

Nánast hvar sem ég hef komið undanfarna daga hef ég verið spurður að því hvort vorið sé að koma og hvort kuldunum fari ekki að linna. Tilfinning flestra virðist því benda til þess að kalt hafi verið í veðri - en mælarnir sýna allt annað - vel að merkja ef tekin eru nokkurra daga meðaltöl. Þessar köldu sleikjur kuldans í vestri hafa einhvern veginn vakið meiri athygli heldur en allir hlýju dagarnir. Þeir hlýjustu svo hlýir að nokkur dagshitamet voru slegin fyrr í mánuðinum. Enn hafa engin kuldamet verið nálægt því í hættu.

En hvers konar veðurlag er þetta þá eiginlega? Eins og margoft hefur verið rakið hér á hungurdiskum á undanförnum mánuðum hafa mjög skæðir kuldapollar verið óvenjuþrálátir skammt vestan Grænlands. Kuldinn á Vestur-Grænlandi hefur þó ekki keyrt um þverbak fyrr en núna í apríl. Mér sýnist við smáþukl að mánuðurinn eigi möguleika á einhverjum af toppsætum (botnsætum?) kulda í apríl. Frostið hefur að meðaltali verið nærri -10 stig í Nuuk það sem af er mánuðinum. Hafa verður í huga að enn eru 10 dagar eftir sem gætu lyft mánaðarmeðaltalinu rækilega.

Ágengum kuldapollum í vestri fylgir venjulega sunnanátt hér á landi og mjög órólegt veðurlag - eins og við höfum svo sannarlega fengið að kynnast. Við skulum líta á tvær myndir úr smiðju bandarísku veðurstofunnar. Þær taka báðar yfir tímabilið frá 1. febrúar til 15. apríl á þessu ári og eru vikakort. Vikakort sýna hversu langt frá meðallagi viðkomandi veðurstiki er.

w-ncep-hanomal1000020411

Myndin sýnir vik hæðar 1000 hPa-flatarins frá meðallagi umrætt tímabil. Jafnvikalínur eru dregnar fyrir 8 metra bil, en 8 metrar samsvara 1 hPa. Sjá má að þrýstingur á Snæfellsnesi hefur verið 8 hPa undir meðallagi (64 metra). Kortið er býsna líkt að formi til eins og þau sem sýna meðalþrýsting. Lægðin suðvestan við Ísland er sterkari en hún á að sér og þrýstingur yfir Evrópu er yfir meðallagi. Þetta þýðir að sunnan- og suðvestanáttir eru sterkari en að meðaltali hér á landi. Sunnanáttin er nærri því alltaf hlý, en suðvestanáttin bara stundum. Hvernig því er háttað sést betur á næstu mynd.

w-necp-hanoma500-020411

Hún sýnir hæðarvikin í 500 hPa-fletinum. Hér sést hversu ágengur kuldapollurinn er (L-ið) og að suðvestanáttin er talsvert sterkari en vant er á N-Atlantshafi austanverðu. Ég hef sett rauða (hlýtt) og bláa (kalt) ör til að sýna mismunandi uppruna suðvestanáttarinnar hér á landi að undanförnu. Ef við fylgjum vikalínunum má sjá að bilið milli línanna minnkar úr suðvestri og í átt til Íslands. Hér hafa tekist á hlýtt loft (í hæðarbeygju) og kalt loft (í lægðarbeygju). Í þeim átökum hefur oft verið hvasst.

Þetta með lægðar- og hæðarbeygjurnar er mjög mikilvægt. Lægðarbeygjuloftið er óstöðugt og kalt, en það í hæðarbeygjunni er stöðugt og hlýtt. Lægðarbeygjum á háloftakortum fylgir að jafnaði kalt loft, en hlýtt hæðarbeygjum. Suðvestanátt í hæðarbeygju er mun líklegri til að koma ís til Íslands heldur en suðvestanátt í lægðarbeygju eins og hefur verið fram að þessu í vetur. Suðvestanátt í lægðarbeygju er orðin að sunnanátt skammt norðan Íslands, en í hæðarbeygju verður hún að vestanátt fyrir norðan land og munar miklu á sunnan- og vestanáttinni við að koma ís hingað til lands. En við verðum auðvitað alltaf að hafa í huga að á þessum tíma árs er ísinn sjaldan meira en í 10 daga fjarlægð frá Íslandi - og oft minna - miðað við rétta vindátt.

Þessi staða platar nao mælingar dálítið. Venjulega þegar þrýstingur er lágur við Ísland er hann óvenju hár við Asóreyjar. Nú bregður svo við að þrýstingur er í meðallagi á Asóreyjum þótt hann sé lágur við Ísland, hvað þá með nao? Rétt er að taka fram að vikin á kortunum hér að ofan eru ekki mjög stór miðað við hvað vik geta orðið á stundum.

En átökin milli suðvestanáttanna tveggja halda áfram næstu daga með skakviðrum sínum. Kannski að fólki haldi áfram að finnast kalt þótt í raun sé býsna hlýtt. Svo er hækkandi loftþrýstingi spáð eftir helgi - það verður spennandi að sjá hvort af verður eða hvaða stöðu möguleg háþrýstisvæði velja sér.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 10
  • Sl. sólarhring: 272
  • Sl. viku: 2389
  • Frá upphafi: 2434831

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2118
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband