Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Fjórar lægðir á einni viku?

Ef marka má spár virðist næsta vika ætla að verða mjög lægðasöm og er gert ráð fyrir því að fjórar lægðir fari hjá. Enn lengri spár bæta síðan 2 til 3 við á nokkrum dögum - en það er aðeins uppástunga. Ekki er heldur alveg víst að spár um næstu daga séu réttar, en við skulum nú líta á ástandið í háloftunum, svona til að hafa náð áttum ef einhver tíðindi verða. Taka skal fram að engin lægðanna er sérlega illileg þótt vara skuli hafa á í hraðakstri sem þessum. Kortið er fengið af brunni Veðurstofunnar og er vonandi að þeir reyndari af lesendum hungurdiska séu farnir að átta sig á táknmáli þess.

w-hirlam500-062811-06

Sem fyrr eru svörtu, heildregnu línurnar hæð 500 hPa flatarins í dekametrum. Það þarf dálítið að rýna í kortið til að sjá tölurnar. Vindar blása nokkurn veginn samsíða hæðarlínunum og eru því meiri eftir því sem þær eru þéttari. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina milli 500 og 1000 hPa flatanna og er hún því meiri sem loftið á milli flatanna er hlýrra. Ég hef sett örvar og tölur við þau atriði sem ég ætla að benda sérstaklega á á kortinu.

Ör númer 1 bendir á kuldaskil sem eiga að vera yfir vesturlandi kl. 6 að morgni mánudags 28. febrúar. Við vitum að þetta eru kuldaskil af því að þykktarlínurnar eru þéttar og að vindurinn ber þær til austurs þannig að yfir landið koma smátt og smátt þykktarlínur með lægri gildi. Við sjáum að 528 línan liggur á milli 534 og 522 dekametralínanna (522 dam = 5220 metrar). Þar sem 20 metrar eru ekki langt frá því að samsvara 1°C í hita ætti að kólna um 5340-5220= 120 metra = 6°C þegar skilin fara yfir. Ekki er víst að það verði alveg svo mikið þar sem vindur stendur af hafi og er nokkuð sterkur. Þegar vindur stendur af hlýjum sjó á Vestur- og Suðurlandi þarf þykktin að komast niður undir 5200 metra til þess að það snjói. Þessi tala hefur tilhneigingu til að hækka þegar líður á veturinn vegna kólnunar sjávar.

Ör númer 2 bendir á svæði þar sem mjög kalt loft skýst eins og fleygur inn á milli hlýrri svæða. Þar sem örin endar er þykktin á milli 5040 og 5100 metrar. Þetta er alvöru heimskautaloft sem streymir frá Labrador út yfir hlýtt Atlantshafið og í átt til Íslands. Heimskautaloft yfir hlýjum sjó er í uppskrift að óstöðugu éljalofti. En vegna þess hversu hafið er hlýtt verður þykktin í þessu lofti komin upp í 5120 til 5160 metra þegar það kemur hingað á mánudagskvöld. Séu spárnar réttar þýðir þetta að það snjó festir í éljunum með tilheyrandi hálku.

Ör númer 3 bendir á lokaðan „hlýjan hól“ þar hefur hlýtt loft lokast af yfir lægðarmiðjunni sem stýrir kuldaskilunum og éljaloftinu. Þetta heitir seclusion á ensku - að mér vitandi hefur ekki fundist heppilegt nafn á íslensku - ég nota því hlýja hólinn eitthvað áfram. Þetta var myndarlegasta lægð fór niður fyrir 950 hPa um miðjan dag þ. 27., en grynnist ört og hreyfist allhratt til norðausturs.

Ör númer 4 vekur athygli á litlum kuldapolli sem nú fer suður um Spán austanverðan, þar er þykktin innan við 5280 metra sem er lágt á þeim slóðum. Á Spáni er nú væntanlega ófærð á fjallvegum og snjóar jafnvel talsvert niður í hlíðar. Vonandi að menn séu undir það búnir.

Ör númer 5 bendir á næstu lægðabylgju. Hún er eins og sjá má miklu styttri en sú sem fylgdi fyrstu lægðinni. En þarna er greinilega eitthvað í gerjun því mikið misgengi er á milli hæðar- og þykktarlína, þar sem bylgja af hlýju lofti skýtur sér inn í það kalda. Þetta er óvissulægð næstu daga. Spár eru ekki alveg sammála um hvað hún á að gera í smáatriðum. Hún gæti farið mjög hratt til norðausturs skammt fyrir suðaustan land og ekki komið mikið við sögu hér á landi, en hún gæti líka farið vestar, þá yfir landið mjög kröpp og valdandi skammvinnu stormviðri af norðvestri um landið austanvert. Það verður að fylgjast vel með þessari lægð.

Ör númer 6 bendir á næstu bylgju í fullri stærð, lægð á að koma með henni hingað til lands síðdegis á miðvikudag. Lægð sem væntanleg er á laugardag sést ekki á þessu korti. - Kannski kemst hún aldrei hingað.

Ör númer 7 bendir á miðju í stórum kuldapolli sem allt þetta snýst um. Hann er þó mun vægari en bolarnir tveir sem við hittum um daginn.

Þó nokkuð má mala um eitt háloftakort.


Nokkrar landfræðilegar staðreyndir (hringrásarhjal 5)

Ísland er norðarlega á jörðinni. Frá norðurströnd Íslands eru um 2600 km til norðurpólsins, rúmlega 7000 km frá Suðurlandi til miðbaugs. Tuttuguþúsund kílómetrar eru milli jarðskautanna tveggja.

Heildarflatarmál jarðaryfirborðsins er nærri 510 milljón ferkílómetrar. Flest kort af heiminum ýkja mjög hlut norðurslóða og veldur því að furðumörgum kemur á óvart að helmingur heildarflatarmálsins skuli liggja á milli 30°N og 30°S. Þó okkur kunni í fljótheitum að þykja heimsskautasvæðin bæði stór og mikilvæg þekja þau samtals aðeins um einn áttunda hluta yfirborðs jarðar (6% hvort um sig), en hlutur þeirra er þó enn minni í heildarorkubúskap lofthjúpsins.

w-jardflatarmal

Myndin sýnir þann hlut sem hringrásareiningar jarðar þekja. Lítið fer fyrir heimskautasvæðunum. Kortagrunnurinn er eftir Þórð Arason.

Um 71% jarðar eru þakin sjó, en aðeins tæp 29% eru land. Hafið þekur um 81% suðurhvels jarðar, en 61% norðurhvels. Þetta veldur ósamhverfu í orkubúskap hvelanna tveggja. Kyrrahafið er langstærst heimshafanna, þekur um 35% yfirborðs jarðar. Atlantshafið (ásamt N-Íshafi) þekur um 19% og Indlandshaf um 14%. Ýmis innhöf þekja svo um 3%. Meginhluti Indlandshafs er á suðurhveli, en norður af því er stærsta meginlandið, Asía. Ósamhverfan milli hvelanna er þar mest. Haf þekur meira af vesturhveli jarðar en austurhveli. Sú staðreynd skapar einnig ósamhverfu í orkubúskap lofthjúpsins.

Sólarhæð ræður mestu um hitafar á jörðinni, en snúningur jarðar ræður mestu um það hvernig varmi jafnast um jarðaryfirborðið. Snúningur jarðar sér til þess að hringrásin er að mestu breiddarbundin sem kallað er. þ.e. vindur blæs aðallega samsíða breiddarbaugum. Meðalvindhraði í stefnuna austur/vestur (bæði austan- og vestanátt) u.þ.b. 10 sinnum meiri heldur en til norðurs eða suðurs. Ríkjandi vindar á 45°N eru vestlægir, alveg sama á hvaða lengdarstigi við berum niður. Austlægir staðvindar ríkja við 20°N langvíðast hvar í heiminum, svipað á við á sömu breiddarstigum á suðurhveli. Í fyrstu nálgun má segja að varmaflutningur frá 20°N norður á það 50°N sé svipaður allan hringinn. En dreifing hafs og meginlanda spilla þó þessari einföldustu mynd.

Þar má greina milli tveggja megináhrifaþátta:

(i) Tilvera meginlanda veldur því að hringrás bæði lofthjúps og hafs er lengdarbundnari en annars væri. Orðið „lengdarbundnari“ þýðir að hlutur norðan- og sunnanátta er meiri en væru engin meginlönd auk þess sem staðsetning þeirra veldur því að þessar áttir eru misríkjandi eftir stöðum. Munum að stefna lengdarbauga er norður/suður.

(ii) Tilvera meginlandanna veldur því einnig að dreifing upp- og niðurstreymis er annað en ella væri. Meir um það í síðari pistli.

Það flækir hins vegar málið að hlutur þessara áhrifaþátta meginlandanna hvors um sig og saman er ekki jafn allt árið. Möndulhalli jarðar og meginfylgifiskur hans, árstíðahringurinn valda því að „veðurbeltin“ og einingarnar sex (þrjár á hvoru hveli, munum það) leitast við að færast til eftir árstímum, með sólarhæð. Það gengi sjálfsagt nokkuð vel ef allt yfirborð jarðar væri einsleitt, t.d. þakið hafi. En svo er ekki og því blasir mismunandi yfirborð við sólu (og þar með hringrásareiningunum) eftir því hvaða árstími er. Grundvallarorkunám veðrakerfisins er því ólíkt á sumri og vetri, árstíðirnar eru ekki samhverfar um miðbaug og árstíðasveiflan verður flókin og samsett.

Ég hef, óformlega, kallað þá hringrás sem fylgir beltaskiptingunni og árstíðagangi þeirra fyrstu hringrás. Hún er borin uppi af Hadleyhringjunum og vestanvindabeltinu. Ósamhverfa norður- og suðurhvels aflagar hana, árstíðasveiflur eru meiri á norðurhvelinu og er munurinn mestur milli hvela þar sem stórt meginland er norðan miðbaugs (Asía) en heimshaf sunnan hans (Indlandshaf). Mikil upphitun Asíu á norðurhvelssumri og kuldinn þar á vetrum búa til misserishringrásina, alþjóðlegt heiti hennar er monsún. Þetta kalla ég aðra hringrás, misserishringinn.

En eins og áður var bent á er einnig mikil ósamhverfa milli austur og vesturhvels og myndar hún það sem á alþjóðamáli heitir Walkerhringur, ég freistast til að kalla hana þriðju hringrás - en nota samt alltaf Walkernafnið. Gangur misserishringsins og áhrif hans á fyrstu hringrás fylgja árstíðasveiflunni. Hún mótar líka Walkerhringinn - en sá hringur gengur ekki alveg upp í árstíðasveiflunni, gæti sjálfsagt gert það ef skipan meginlanda væri með öðrum hætti. En óregla í Walkerhringnum holdgerist í veðurfyrirbrigðunum El nino  og La nina.  Flestir kannast við þau nöfn, en fæstir vita mikið um þau.

Vestanvindabeltin tvö og staðvindabeltin bæði ráða hringrás heimshafanna að mestu leyti, knýja alla mestu hafstraumana en meginlöndin valda því að straumarnir geta ekki alls staðar fylgt vindi og verða að taka á sig króka og hlykki.

Öll stóru veðurbeltin hafa allaf verið til og verða áfram svo lengi sem jörðin snýst. Aftur á móti veldur landaskipan því að mjög litlar breytingar á þeim geta haft gríðarlegar afleiðingar. Af fornum veðurvitnum að dæma hafa slíkar smábreytingar orðið mjög oft. Eru slíkar breytingar hugsanlegar í framtíðinni og hvað gæti þá valdið þeim?


Af meginhringrásinni (pistill númer um það bil 4)

Lesendur mega vera ansi mikil nörd til að komast í gegnum það sem hér fer á eftir. Við lítum á mynd úr gamalli kennslubók (Palmen og Newton) sem sýnir nokkur atriði í meginhringrás lofthjúpsins. Ég kasta hér myndinni fram - blogggrófa - en ætlunin er að lesendur geti náð í hana í betri upplausn á pdf-sniði þegar ég hef lagað hana aðeins betur til - eftir nokkra daga eða viku.

megnihringras-palmenognewton

Reynum nú að átta okkur aðeins á myndinni. Þetta er þversnið af lofthjúpnum frá miðbaug lengst til hægri og norður að norðurskauti - lengst til vinstri, 30. og 60 breiddarstig eru merkt við lárétta ásinn efst á myndinni. Lóðrétti ásinn sýnir upp, sjá má 6 og 12 kílómetra hæð merkta lengst til hægri.

Neðan við neðri lárétta ásinn er kassafargan (rauðbrúnt) þar eru helstu veðurbeltin tíunduð. Frá vinstri eru: Heimskautasvæðið, þvínæst vestanvindabeltið, hvarfbaugshæðabeltið, staðvindabeltið og loks hitamiðbaugur lengst til hægri. Þar undir eru hornklofar þar sem þrjár hringrásareiningar eru merktar, heimskautaeining lengst til vinstri, síðan svonefndur Ferrelhringur (gefum honum gaum síðar) og lokst Hadleyhringurinn syðstur.

Hadleyhringurinn er langmestur þessara hringrásareininga enda skulum við hafa í huga að svæðið milli miðbaugs og 30°N er að flatarmáli helmingur yfirborðs norðurhvel alls (þó þessi mynd sýni það ekki).

Mjóa, grámerkta svæðið sem nær næstum frá jörð og upp í 12 km næst miðbaug táknar hina risavöxnu skúraklakka hitabeltiskjarnans. Rauða örin þar í táknar uppstreymið á þeim slóðum, sem stundum bítur sig upp í 18 km hæð en þar eru veðrahvörfin í hitabeltinu.

Veðrahvörfin eru hér rauðar línur sem aðallega liggja lárétt ofarlega á myndinni, en áberandi lægra yfir norðurslóðum heldur en sunnar. Hér eru veðrahvörfin sýnd slitin á tveimur stöðum í námunda við tvo hringi þar sem merktur er bókstafurinn R. R-in tvö sýna tvær meginrastir norðurhvels. Sú syðri og efri er hvarfbaugsröstin en hún markar nokkurn veginn norðurmörk Hadleyhringsins. Ástæður þess að hvarfbaugsröstin er þar sem hún er er flókin en hér má upplýsa að hinn illræmdi svigkraftur jarðar kemur við sögu ásamt enn illræmdari ónefnanlegum ættingjum. En við þurfum ekkert að vita af því.

En hvers vegna er nauðsynlegt að kannast við Hadleyhringinn? Ástæðurnar eru reyndar ýmsar en hér gæti nægt að nefna að þeir bræður, hann og bróðirinn á suðurhveli eru stærstu veðurkerfi í heimi. Það gengur varla að ræða um veðurfar án þess að menn kannist við það mesta. Hvernig kerfið svo vinnur er miklu flóknara mál og ekki er hægt að ætlast til að kunnátta á þvi sé almenn. Ég hef í fyrri pistli minnst á það einfaldasta - uppstreymi í iðrum hitabeltisins, hvarfbaugsröstina, niðurstreymið undir henni og staðvindalegg hringrásarinnar.

Niðurstreymið mikla sem býr m.a. til Saharaeyðimörkina og fleira magnað má sjá sem feitlaga örvar sem stefna niður á við á myndinni. Þarna verða til gríðarlega öflug niðurstreymishitahvörf. Hvað skyldi það svo vera? En mjög fíndregin punktalína sem byrjar við neðri enda niðurstreymisörvanna og hækkar síðan til hægri eftir því sem nær dregur miðbaug á að tákna hitahvörfin. Þar undir eru litlar gráar klessur sem eiga að tákna staðvindaskýin. Þau bældustu kannast menn við frá norðurströndum Kanaríeyja, sunnar er fellibyljasvæðið þar sem fellibyljavísar berjast við hitahvörfin og hafa stundum betur.

Nyrðra R-ið á myndinni sýnir góðkunningja okkar heimskautaröstina sem stundum skýtur upp kryppum í átt til okkar. Norðan við hana eru oft brot eða faldar í veðrahvörfunum, þau hin sömu og birtast okkur stundum í líki þurru rifunnar sem gælir við riðalægðirnar sem hér hafa stundum komið við sögu.

Ferrelhringurinn (bylgjubeltið) er fyrirbrigði sem við skulum geyma til betri tíma. Hann reyndist alla vega vera allt öðru vísi útbúinn en menn vildu halda á 19. öld þegar fyrst var á hann minnst.

Bláa, þykka svæðið á miðri mynd sem hallast aðeins upp til hægri táknar meginskilin sem oft eru kennd við pólinn þótt algengasta lega þeirra á vetrum sé við 40 til 50 gráður norður.

Ef vel er að gáð má sjá annað blátt svæði neðarlega á myndinni ekki langt frá norðurskautinu. Þetta er óstöðugt fyrirbrigði í suðurjaðri  stórra kuldapolla svosem Stóra-Bola þess sem við fjölluðum um á dögunum. Hér hef ég sett nafnið norðurskil við svæðið, en það er ekkert fast nafn, á ensku er það kallað arctic front og á sumum ámóta skýringarmyndum er rastarmerki einnig sett þar, norðurröstin. Í ensku er nefnilega hægt að gera greinarmun á polar og arctic, þetta heitir hvoru tveggja heimskautaeitthvað á íslensku. Hér virðist vera ákveðinn vandi sem leitar lausna.

En ég kem vonandi aftur að myndinni síðar, hef reyndar hugsað mér að sýna margar ámóta en rétt er að vera ekki með of stór fyrirheit á þessu stigi málsins.


Eru framandleg veðurfræðihugtök vandamál?

Ekki hefur mikið verið útgefið af veðurfræðilegu efni á íslensku. Sennilega hafa 40-ára sjónvarpsveðurfréttir þó komið í veg fyrir fullkomið þekkingarleysi annarra en æstustu áhugamanna. Það er trúlega sjónvarpinu að þakka að nokkur fjöldi fólks veit hvað hæðir og lægðir eru og að úrkoma getur bæði verið skúrakennd eða fallið úr úrkomusvæðum. Sumir vita meira að segja að landfræðileg dreifing veðurs í hæðum og lægðum er furðu kerfisbundin. Þeir fróðari vita að lægðir og hæðir fæðast og deyja og að til er auðlæranlegt kerfi sem segir til um þróun kerfanna og algengustu dreifingu veðurs í þeim. Þar með fylgja upplýsingar um þau tengsl úrkomu og hitafars sem lýst er með veðraskilum (hitaskilum, kuldaskilum og samskilum). Sömuleiðis að samband er á milli loftþrýstings og vinda og að vindur leitar sólarsinnis kringum hæðir og andsólarsinnis í kringum lægðir.

Það sem talið er hér að ofan er þó nokkuð. Ég þekki það hins vegar vel að hlustendur og lesendur tapa fljótt þræði ef farið er mikið út fyrir það sem nefnt er hér að ofan. Í dag ætlaði ég t.d. að byrja að fjalla um svonefnda innri mótunarþætti veðurfars í söguslefspistlaröðinni. Uppkast að örstuttum pistli um landrek og veðurfar jarðar gerði hins vegar ráð fyrir því að lesendur könnuðust við bæði Hadley- og Walkerhringrásirnar. Jú, ef ég gúggla orðið walkerhringrás fæ ég þó tvær niðurstöður. Í annarri er vísað í pistil um El ninoeftir sjálfan mig á Vísindavefnum og í hinni í bloggpistil eftir Einar, félaga okkar i blogginu, Sveinbjörnsson. Á ensku eru tilvísanirnar hins vegar margar - en dugar það?

Ég á sumsé skrif um bæði Hadley- og Walkerhringrásirnar á lager, en ef ég gaumgæfi þau finn ég að þar er fjallað um bæði mættishita og votinnræna hitafallið (VIH) auk þess sem talað er um svigkraft jarðar eins og sjálfgefinn hlut. Ég verð líklega að tala aðeins um þessar hringrásir á næstunni og jafnvel minnast á mættishitann líka. Langur verður lopinn.

Lærifaðir minn sagði mér á dögunum að svona kvein væri ámótlegt - það væri alltaf hægt að einfalda mál sitt svo að allir sem á annað borð lesa geti skilið.


Næsta færibandaskýringarmynd - takk

Fyrir nokkrum dögum bar færibönd hér á góma. Orðið færiband er leiðindahráþýðing úr ensku - en hér á hungurdiskumeru vond íslensk orð miklu betri heldur en ensk og því nota ég þetta þar til annað birtist. Ef til vill náðu færibandafræðin hápunkti í bókinni eftir Bader og félaga (1997) sem má sjá í listanum undir pistlinum. Þar er greint á milli 6 mismunandi færibandakerfa og hvert þeirra sýnt á þremur þróunarstigum - 18 færibandamyndir alls - hálfgert flokkunarfyllerí - ágætt samt. Bókin hefur því miður verið ófáanleg um margra ára skeið. Boðin notuð á Amazon fyrir 400 dollara - ekki kaupi ég hana fyrir það verð hvað sem öðru líður.

Í grein sem birtist í ritinu Meteorolocial Applications (Semple, 2003) er fjallað um lægðamyndun og þróun eins og hún birtist í nokkrum mismunandi huglíkönum auk þess sem tilraun er gerð til þess að sameina nokkur líkön í eitt. Lægðategundirnar verða þá sjö. Færibönd fá þar hófstillta meðferð. Greinin skilar sér vonandi til áhugamanna í tenglinum hér að ofan. En titillinn (sjá neðar) finnst einnig í gúgli.

En lítum á færibandamynd:

w-faeriband2

Sá er munurinn á þessari mynd og hinni fyrri er að lítið ber á kalda færibandinu. Hlýja færibandið (H1) byrjar í 600 hPa (um 4 km hæð) og lyftist upp í 300 hPa (9 km). Annað hlýtt færiband (H2) flagnar undan því efra. Á þessari mynd greinist það í tvennt, annar hlutinn gengur upp og lyftist úr 900 hPa (1 km) og upp í 400 hPa (7 km) en hinn hlutinn fer til vesturs og síðan í kringum lægðarmiðjuna án þess að lyftast að ráði. Þurra rifan er ekki alveg jafn afgerandi í þessu kerfi eins og í því líkani sem við litum á fyrir nokkrum dögum.

Semple greinarhöfundur notar orðið extrusion um neðra bandið, við getum þar til annað er ákveðið kallað það útskotsband. Annars er þessi nafnasúpa tilgangslítil - en orð eiga víst að vera til um allt og þetta er sannarlega ákveðið velskilgreint fyrirbrigði.

Hlýja færibandið H1 nær sjaldnast til Íslands á leið sinni með lægðinni. Algengt er að teikna samskil ofan í vesturhluta H2. Þegar lægðir dýpka mjög mikið og verða hægfara má oft sjá hvert útskotsbandið á fætur öðru skjótast undan hlýja færibandinu H1 og ganga ýmist vinstrileiðina (algengara) eða upp og til hægri. Þetta tekur furðustuttan tíma og var nánast útlokað að fylgja þessum fyrirbrigðum eftir fyrir tíma gervihnattamynda.

Vitnað var til:  

Images in Weather Forecasting: A Practical Guide for Interpreting Satellite and Radar Imagery,
M. J. Bader (Editor), G. S. Forbes (Editor), J. R. Grant (Editor), R. B. E. Lilley (Editor), A. J. Waters (Editor) Cambridge University Press, 1997

Semple, A.T. (2003). A review and unification of conceptual models of cyclogenesis, Meteorol. Appl. 10, 39–59.


Olli sunnanátt hlýindunum 2010?

Þegar ár er hlýtt má eðlilega spyrja hvort það sé vegna þess að sunnanáttir hafi verið algengari en venjulega. Stundum er það þannig - en stundum ekki. Við lítum nú á mynd - eða öllu heldur tvær gerðir sömu myndar. Sú fyrri er einskonar æfing til undirbúnings síðari myndinni.

t178-av(p)-1

Við lítum fyrst á ásana: Lárétti ásinn sýnir þrýstibratta ársins yfir landinu. Hann finnum við með því að draga meðalþrýsting á Vesturlandi frá meðalþrýstingi austanlands. Sé þrýstingur hærri eystra má gera ráð fyrir því að sunnanátt hafi verið ríkjandi á landinu en norðanátt sé ríkjandi sé þrýstingurinn hærri á Vesturlandi heldur en fyrir austan. Við sjáum að gildi vinstra megin við núllið benda til norðanáttar, en þau til hægri benda til sunnanáttar, því meiri eftir því sem tölurnar eru hærri.

Lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhita í Stykkishólmi. Litla kassadreifin sýnir gildi einstakra ára frá og með 1881 til og með 2010. Við sjáum að í einhverjum aðalatriðum er tilhneiging til þess að hlýrra sé þegar sunnanáttin er sterk og meðalhiti í norðanáttinni er greinilega eitthvað lægri heldur en í sunnanáttinni. Rauða línan sýnir reiknað línulegt samband - það er ekkert sérlega gott, en slæðingur af því sem ég nefni spilliár eru langt frá línunni. Ef við hendum 8 til 10 þeim verstu burt batnar sambandið talsvert.

Spilliárin hegða sér illa í þessu sambandi. Verst eru þau sem ég hef sett rauðan og bláan hring utanum. En lítum nú á síðari myndina - þar hef ég bætt ártölum inn á. Það veldur því að myndin verður talsvert ólæsilegri - en spilliárin eru ekki lengur í felum.

t178-av(p)-2

Þá upplýsist það hér með að það eru 1881 og 2010 sem eru verstu spilliárin á þessari mynd. Árið 1881 var sunnanátt að meðaltali ríkjandi á landinu en samt var árið það næstkaldasta á öllu tímabilinu. Köldu árin 1882, 1892, 1918 eru öll slæm spilliár og nokkur fleiri. Árið 2010, árið í fyrra er langmesta spilliárið á hlýja vængnum. Við sjáum að hlýjasta ár sögunnar, 2003, er hins vegar nokkurn veginn á sínum stað efst til hægri. Þar er líka draumaár norðlendinga, 1933.

Við sjáum að 1921 er mesta sunnanáttaárið. Úrkomusamt, ekki satt? En 1916 er mesta norðanáttaárið enda var þurrt.

En hver er svo skýringin á þessari illu hegðan spilliáranna? Talnaglöggir menn ættu að geta sett fram tilgátu sem gæti skýrt köldu spillinguna að nokkru leyti. Hlýja spillingin er heldur erfiðari viðfangs. Ég er ekki alveg viss, en ligg með höfuðið í bleyti.

Svarið við spurningunni í titli pistilsins er alla vega stórt NEI.


Grænlandshitinn 2010 - með ólíkindum

Nú eru komnar staðfestar tölur um hita á Grænlandi á síðastliðnu ári, 2010. Þá sést svart á hvítu að hiti á Vestur-Grænlandi var með ólíkindum. Þetta má vel sjá á línuriti sem sýnir ársmeðalhita Nuuk frá 1873 til 2010. Tölurnar eru fengnar af vef dönsku veðurstofunnar.

t04250-ar-dmi

Meðalhitinn í Nuuk 2010 var 2,6 stig. Það er um 4,2 stigum ofan meðallagsins 1961-1990 og 3,7 stigum ofan meðallagsins 1931-1960. Í Narsarsuaq var meðalhiti ársins 2010 5,4 stig og er það 4,4 stigum ofan meðallagsins 1961-1990 og 4,0 stigum ofan meðallagsins 1931-1960. Þetta eru auðvitað dæmalausar tölur á þessum slóðum. Í Ammasalik (Tasiilaq sem nú heitir) á austurströndinni varð árið 2010 það næsthlýjasta eins og sums staðar hér á landi. Þar var 2003 lítillega hlýrra eins og hér.

Ef við ímyndum okkur hitavik upp á 4 stig hér, t.d. miðað við 1961-1990 væri Reykjavík í yfir 8 stigum í ársmeðalhita. Ekki er þó rétt að nota slíkt viðmið því breytileiki hitans er allnokkuð minni hér á landi heldur en á Vestur-Grænlandi. Mér reiknast þó til að 6,8 stiga ársmeðalhiti hér í Reykjavík sé nokkuð samsvarandi því sem Vestur-Grænland upplifði á síðasta ári og um 6,4 stig á Akureyri.

Tölur sem eru svona langt út úr kortunum hljóta að koma til af því að einstök hlýindi hitta vel í árið. Ég hef ekki greint það í tölunum frá Vestur-Grænlandi, en hef hins vegar gert það fyrir íslenskar stöðvar. Hlýjasta 12-mánaða tímabilið sem vitað er um í Reykjavík stóð frá september 2002 til og með ágúst 2003. Þá var meðalhitinn í Reykjavík 6,6 stig, rúmum 0,5 stigum hærri heldur en hæsti ársmeðalhiti hefur orðið. En það er samt 0,2 stigum neðar að tiltölu heldur en Grænlandshitinn 2010. Hæsti 12-mánaða hiti á Akureyri er um 5,8 stig. Það var á sama tíma og hæsti 12-mánaðahitinn í Reykjavík, 0,6 stigum að tiltölu neðan við Vestur-Grænlandshitann 2010.

Hitastökkið á Grænlandi er langt umfram það sem búist er við af hnattrænni hlýnun næstu áratugi. Svipað má segja um hlýindin hér á landi undanfarin ár. En það verður áfram spennandi að fylgjast með þróuninni.


Dægursveifla hita í febrúar - farið er að muna um sólina

Reglubundin dægursveifla hita er lítil yfir háveturinn hér á landi. Hæsti og lægsti hiti sólarhringsins er þá ekkert frekar að degi en nóttu. Í febrúar er sól farin að hækka það mikið á lofti að hennar sér stað í dægursveiflunni. Lítum á meðaltal í Reykjavík:

w-rvk-D-sveifla-hita-feb

Lárétti ásinn sýnir tíma sólarhringsins en sá lóðrétti hita í °C. Dægursveiflan er lítil aðeins um 1,4 stig. Þó er hiti greinilega hæstur frá kl.14 til 15 og lægstur í kringum sólarupprás eða frá kl. 7 til 9.

Önnur smáatriði eru varla marktæk, t.d. virðist hiti hærri kl. 1 en kl. 24. Ég veit ekki hvort borgar sig að leita skýringa á því. Það er þó þannig að þegar léttskýjað er kólnar áberandi frá upphafi sólarhrings til enda hans. Í því gagnasafni sem hér var notað var 1,7 stigi kaldara um síðara miðnætti dagsins heldur en var við það fyrra í léttskýjuðu veðri. Í alskýjuðu veðri er munurinn hins vegar nær enginn. Munur á meðalhita 1. febrúar og 28. er mjög lítill.

Á sólardögum förum við nú að finna yl sólarinnar í björtum húsum. Skrifstofumenn fara þá að kveina um hita. Á fyrri tíð var talað um að vermisteinninn kæmi í jörðina í mars. Sveinn Pálsson sagði svo frá:

„Ad vermisteinninn sé kominn í jördina, meina þeir med því þá lífshræríngu sem kémr í jördina vid nálægd vorsins, hvaraf bædi fer ad jeta af snió og ís nedan frá, líka grasræturnar ad lifna úr dái sínu. Hvert þessi vermisteinn er endrnýadr rafkraptr jardarinnar /:jordelectricitæt:/ vid þá hæckandi sól, edr sá svokalladi elementariski jardhiti, edr eintóm verkun sólar geislanna, sem jördin þar hún er snióber nú er farin ad inndrecka. Sýnir þetta auk margs annars, ad ecki er, múgi manns jafnvel á Íslandi þánka laus um fyriburdi náttúrunnar, þá er máské einskis metaz af ödrum þeim ord hafa fyri meiri upplýsing.“

Hér er vitnað í handrit Sveins frá 1793 sem Veðurstofan er að gefa út um þessar mundir í tilefni 90-ára afmælis stofnunarinnar.


Af færiböndum

Lægðahringrás má lýsa á margvíslegan hátt. Flestir rótgrónir áhugamenn um veður kannast við Björgvinjarlíkanið. Það var notað um áratugaskeið í sjónvarpsveðurfregnum hérlendis og ýtti það mjög undir skilning almennings á veðurfræði þrýstikerfa. Eins og flest sem er notað hugsunarlítið hefur hefur það slitnað með árunum og er á síðustu árum orðið ansi útvatnað. Þegar líkanið var sett fyrst fram um 1920 voru engar háloftaathuganir fyrir hendi í daglegum spám, engar gervihnattamyndir og auðvitað engar tölvuspár.

Þegar gervihnattamyndir fóru menn að troða því sem þar sást inn í líkanið - stundum gekk það vel en stundum illa. Ljóst varð að e.t.v. var best að reyna að túlka myndirnar á annan hátt. Það hefur svosem gengið upp og ofan og ný sjónarmið hafa aldrei alveg komið í staðinn fyrir gamla skilahugsunarháttinn.

Við skulum nú líta á tillögu sem kom fram fyrir rúmum 30 árum og hefur verið talsvert notuð í fræðilegri umræðu. Það skal þó tekið fram að sumir veðurfræðingar eru ekkert hrifnir og víst er að sú mynd sem hér er sýnd á ekki við nema um hinar dæmigerðustu riðalægðir. Þetta er kallað færibandalíkanið, ég er ekki hrifinn af nafninu en nota það þar til betra finnst. En skoðum myndina:

w-færiband-carlson

Myndin sýnir einfaldaða hringrás í kringum riðalægð, sjá má staðsetningu hefðbundinna kulda- og hitaskila. Loft af þrennum uppruna kemur við sögu og leitar saman yfir lægðarmiðjunni:

(i) Hlýr, mjög rakur loftstraumur í hlýja geiranum (rauðlitaði flöturinn), loftið í honum hreyfist hraðar en lægðarmiðjan og lyftist yfir kalda loftið framan við hitaskilin, úrkoma fellur úr þessu lofti þegar það lyftist, hvort sem það er upp eftir skilafletinum eða fjöllum á leið þess. Þetta er „hlýja færibandið“ (e. warm conveyor).

Taka má eftir því að í upphafi er þetta loft í hæðarbeygju, fer síðan í væga lægðabeygju, en endar aftur í hæðarbeygju í háloftahryggnum framan við lægðakerfið. Tölurnar sem lesa má á fletinum er hæð loftstraumsins í hPa. Hann kemur inn í lægðarhringrásina í 800 hPa - um tveggja kílómetra hæð lyftist síðan og endar framan og ofan við lægðina í 300 hPa (um 9 kílómetrum). Sjö kílómetra lyfting getur skilað gríðarlegri úrkomu.

(ii) Kaldur, en einnig rakur loftstraumur á undan hlýju skilunum og neðan þeirra, loftið í honum hreyfist inn í átt að lægðarmiðjunni, en áður en þangað er komið fer það að leita upp um leið og það sveigist fyrst til suðurs, vestan við miðjuna, en uppstreymið er svo mikið að það er óðar komið í suðvestanáttina yfir lægðinni og fer þaðan út til norðausturs í svipaða stefnu og loftið í hlýja færibandinu. Þessi loftstraumur er kallaður „kalda færibandið“.

Dæmigert er að lyftingin í kalda færibandinu sé frá um 900 hPa upp í 500 hPa eða svo. Kalda loftið er ekki eins rakt og það hlýja, en samt rennur mikil úrkoma úr loftinu við þessa 4 kílómetra hækkun.

Takið eftir því að hér greinir mjög á við hina hefðbundnu Björgvinjarþróun. Í því líkani fer kalda loftið á undan lægðinni aldrei upp og í „gegnum“ skilin, enda er þar litið á skil sem nokkurn veginn „efnislegan“ flöt sem ekkert fer í gegnum. Uppstreymið í færibandalíkaninu verður m.a. vegna útstreymis (divergence) í efri hluta veðrahvolfsins, í stað þess lofts sem leitar í sundur verður að koma loft að neðan. Ég vona að tækifæri gefist síðar til að skýra ástæður útstreymisins.

(iii) Háloftavindröst eða hes hennar (oftast pólröstin) sem fer einnig í gegnum lægðakerfið, eftir niðurstreymi sem gerir það mjög þurrt, leitar þetta loft aftur upp nærri nærri lægðarmiðjunni og myndar þar þurru rifuna (dry slot) sem má sjá á gervihnattamyndum af vaxandi lægðakerfi.

Öll þessi einkenni þrjú sáust mjög vel á illviðrislægðunum sem hér voru til umfjöllunar fyrir rúmri viku. Við skulum halda þessum þremur hugtökum til haga: Hlýja færibandið, kalda færibandið, þurra rifan.


Stórtækur 18. febrúar

Veðrahamur vetrarins á Íslandi nær að meðaltali hámarki frá því um áramót og fram til um 20. febrúar.  Varla er hægt að segja að marktækur munur sé á illviðratíðni yfir þennan tíma. En frá og með góu fer vetri að halla þótt hægt gangi í fyrstu. Í uppkasti að skrá um illveður sem ég er að taka saman kemur fram að 18. febrúar hafa orðið nokkur minnisverð stórslys hér á landi og í skrá minni falla nú 18 atburðir á þann dag. Þeim á sjálfsagt eftir að fjölga þegar fleira kemur í ljós.

Ég ætla ekki að telja upp alla 18 atburðina en nefna fáeina þá minnisstæðustu.

Árið 1885 biðu 24 bana þegar gríðarlegt snjóflóð féll úr Bjólfinum á Seyðisfirði ofan í byggðina. Fjórtán hús tók af og um 80 manns lentu í flóðinu. Fleiri hús urðu fyrir skemmdum. Víðar fóru hús og hjallar í snjóflóðum á Austfjörðum um svipað leyti enda voru snjóþyngsli óvenjuleg þennan vetur.

Sama dag árið 1910 fórust 20 manns í miklu snjóflóði úr Búðargili í Hnífsdal í sjó fram. Tólf til viðbótar slösuðust en fáeinir lifðu flóðið af. Flóðið var hluti af gríðarlegri og langri snjóflóðahrinu á Vestfjörðum. Þennan vetur voru feykileg snjóþyngsli víða um land.

Þriðja stórslysið 18. febrúar varð 1959 þegar vitaskipið Hermóður fórst með 12 mönnum undan Höfnum á Reykjanesi í aftakaútsynningsveðri. Tíu dögum áður hafði togarinn Júlí farist á Nýfundnalandsmiðum með 30 mönnum og grænlandsfarið Hans Hedtoft við Hvarf á Grænlandi með 95 manns innanborðs. Flestir sem þennan febrúar muna gleyma aldrei óhugnaðinum sem fylgdi þessum atburðum. En veðrið 17. til 18. febrúar olli gríðarlegu tjóni, mestu þó norðanlands. Hér má telja það helsta:

Þak tók af hluta íbúðarhúss á Sauðárkróki og járnplötur af mörgum húsum, þar varð einnig tjón í höfninni. Hluti hlöðuþaks fauk á bænum Reykjavöllum í Tungusveit. Fjárhús á bænum Kotá í útjaðri Akureyrar fauk og drápust 3 kindur, mikið af járni fauk af húsum á Akureyri og heil og hálf þök af húsum í byggingu, tré rifnuðu upp með rótum, m.a. mörg velvaxin í Gróðrarstöðinni, bátur fauk þar út á sjó og vegagerðarskúr fauk og skemmdi nokkra bíla. Jeppi fauk út af vegi í nágrenni Akureyrar og gjöreyðilagðist, lítil slys urðu á fólki.

Járnplötur fuku af allmörgum húsum á Húsavík og rúður brotnuðu, þar slösuðust tvær stúlkur er þær fuku um koll. Allmiklar skemmdir urðu á Árskógsströnd, þak tók af hlöðu á Stærra-Árskógi og braggi fauk í Hauganesi. Skemmdir urðu á verksmiðjunni á Hjalteyri og þar fuku skreiðarhjallar og fleira. Þak fauk af íbúðarhúsi á Búlandi í Arnarneshreppi. Skemmdir urðu á þökum á Dalvík. Járnplötur fuku og rúður brotnuðu í Hrísey, sömuleiðis á Grenivík. Þak tók af hlöðu á Litla-Gerði þar í grennd. Hálft þak tók af íbúðarhúsi á Svalbarði á Svalbarðsströnd, þar í sveit varð víða foktjón. Allmiklar rafmagns- og símabilanir urðu í Eyjafirði.

Meir en helmingur þaks á íbúðarhúsi á Stöng í Mývatnssveit fauk og víðar fauk járn þar í sveit. Talsverðir heyskaðar urðu í Aðaldal og minniháttar tjón varð á nokkrum bæjum í Bárðardal. Minniháttar foktjón varð í Mýrdal og á Ströndum. Ekkert hafði verið flogið innanlands í 6 sólarhringa þegar hér var komið.

Það má taka fram að talsvert tjón varð í fleiri veðrum vikuna á undan i óvenjusnarpri illviðrasyrpu.

Tvö eftirtektarferð fokveður hafa gengið yfir Seyðisfjörð þennan mánaðardag. Hið fyrra 1889 í vestan- og norðvestanofsa eins og stundum gerir í firðinum. Stórt síldveiðihús brotnaði. Í því eyðilögðust eða skemmdust 10 til 20 bátar og  mörg hundruð síldartunnur. Fleiri hús urðu fyrir skemmdum.

Síðara fokveðrið á Seyðisfirði er nýlegt, 2003. Mikið tjón varð á a.m.k. 30 einbýlishúsum í sunnan ofsaveðri. Þrjú húsanna stórskemmdust, fjöldi bíla dældaðist og tré rifnuðu upp með rótum. Kerra fauk á björgunarsveitarmann sem höfuðkúpubrotnaði. Skemmdir urðu víðar á Austfjörðum, en minniháttar að sögn. Þak losnaði á fiskmarkaðshúsi á Vopnafirði. Sunnanofsaveður munu vera sjaldgæf á Seyðisfirði


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband