Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Köldustu nóvemberdagarnir

Umfjöllunarefnið hæfir ekki hlýindunum þessa dagana og alvörukulda er ekki að sjá í námunda við okkur eins langt og tölvuspár ná (en þær bregðast nú stundum - munum það).

En tíu köldustu nóvemberdagar síðustu 62 ára eru, gildin í °C:

lægsti landsmeðalhiti í byggð
ármándagurmeðalhiti
19731123-9,70
20061118-9,59
19711116-9,27
19731116-9,07
19811119-9,04
19781126-8,81
19731115-8,69
19961123-8,58
19731125-8,53
19731124-8,51

Nóvember 1973 hirðir fimm sæti á listanum - þar á meðal það fyrsta og er það setið 23. degi mánaðarins það ár. Nærri tíu stiga frost að meðaltali á öllu láglendi landsins. Nóttina eftir fór hiti á Staðarhóli í Aðaldal niður í -27,1 stig og fékk sú tala að standa sem mesta frost í nóvember allt fram til ársins 1996 að frostið fór í -30,4 stig á sjálfvirku stöðinni í Neslandatanga við Mývatn aðfaranótt 24. En þar voru ekki mælingar 1973 og því allt mögulegt í þeim efnum. Neslandatanginn er sérlega lágmarksmetagæfur staður því eftir 1996 hefur það gerst tvisvar að frost þar hefur orðið meira heldur en Staðarhólsmetið. Kuldinn 1996 er í 8. sæti á meðalhitalistanum.

Nýlegur dagur, 18. nóvember 2006 er í öðru sæti á listanum. Þá var mesta frost í byggð -25,3 stig í Möðrudal  en -26,1 stig á Brúarjökli.

Næst eru lægstu meðallágmörkin:

lægsta landsmeðallágmark í byggð
ármándagurmeðalhiti
20061118-12,79
19731123-12,70
19731124-12,21
19731116-12,09
19731125-11,60
19671129-11,50
20061119-11,48
19781127-11,38
19641117-11,26
19781126-11,26

Hér treður 18. nóvember 2006 sér í fyrsta sætið - en munurinn á honum og 23. nóvember 1973 er auðvitað ekki marktækur. Þarna birtast dagar sem ekki eru á meðalhitatopplistanum, t.d. 29. nóvember 1967 og 17. nóvember 1964. Síðastnefnda deginum á ég að muna eftir (einhver gloppa þar) - en ég man hins vegar allvel eftir næstu tveimur dögum á eftir en þá gerði snarpan hríðarbyl og síðan hláku af austri, urðu bæði fokskaðar og samgöngutruflanir. Ung veðurnörd hlustuðu á þessum árum alltaf á laugardagsútvarpspistla Páls Bergþórssonar veðurfræðings en þar kom veður gjarnan við sögu. Í pistlinum laugardaginn 21. nóvember fjallaði hann um kastið og kallaði Ólafsbyl eftir Ólafi Friðrikssyni verkalýðsleiðtoga og frumkvöðli jafnaðarstefnunnar á Íslandi. Ólafur var jarðsettur þann 18. Einkennilegt hvernig svona nokkuð situr í manni í nærri hálfa öld.

Bitrustu dagarnir eru gjarnan þeir sem eiga lægstan hámarkshita. Þá vermir hvorki sól né sjór svo heitið geti - heimskautaloftið eitt ríkir. Sá kuldalisti lítur svona út:

lægsta landsmeðalhámark í byggð
ármándagurmeðalhiti
19711117-7,36
19731116-7,13
20061118-6,96
19711118-6,75
19811119-6,62
19731117-6,51
19731125-6,51
19731124-6,15
19631116-6,03
19651129-5,98

Þar er efstur 17. nóvember 1971 - þá var ég ekki á landinu. Í amerísku endurgreiningunni er þessi dagur með einna lægsta þykkt á öllu tímabilinu sem hér er undir (1949 til 2010). Hinn 18. nóvember 1947 (utan tímabilsins) er svipaður eða aðeins lægri - um 4940 metrar.

Stundum fylgja eftirminnilegir veðuratburðir óvenjulágri þykkt, lítið gerðist 1971, en mikla hríðarsyrpu gerði um og í kjölfar þykktarinnar lágu 1947. Þá féll m.a. snjóflóð á bæinn Gunnsteinsstaði í Langadal, gjöreyðilagði fjárhúsin og stórskemmdi íbúðarhús, mannbjörg varð. Þegar minnst er á Langadal kemur manni snjóflóðahætta ekkert sérstaklega í hug. Ef marka má endurgreininguna fór þessa daga þverskorinn kuldapollur suður yfir landið - við þau skilyrði er eins gott að hafa aðgátina í lagi.

Hér klóra menn sér væntanlega í höfðinu yfir hugtakinu þverskorinn kuldapollur - enginn veit hvað það er nema sérvitur ritstjóri hungurdiska. Kannski upplýsist um það síðar - ef tækifæri gefst til.


Af norðurhvelsstandi rúma viku af nóvember

Kortið hér að neðan sýnir 500 hPa spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir fimmtudaginn 10. nóvember kl. 12 og nær um norðurhvelið allt suður undir 30. breiddarstig.

w-blogg091111a 

Fastir lesendur kannast við táknfræði kortsins en vegna hinna er rétt að koma hér með fastan kynningartexta: Höfin eru blá og löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, syðri mjóa rauða línan sýnir hæðina 5820 metra en sú nyrðri merkir 5100 metra. Sú fyrrnefnda er að nokkru komin suður úr kortinu, en 5100 metra línan er hægt og bítandi að breiða úr sér. Vantar ekki mikið upp á að faðma allt Norður-Íshaf.

Ísland er þarna í mikilli sunnanátt milli kröftugrar fyrirstöðuhæðar yfir Skandinavíu og nokkuð öflugrar lægðar nærri Suður-Grænlandi. Rétt sunnan við Ísland er nokkuð snarpt smálægðardrag sem í þennan mund hreyfist til norðvesturs. Sjá má önnur lægðardrög sunnar - þau eiga ekki að koma nema óbeint við sögu hjá okkur - og þá þannig að þau sleppa skömmtum af hlýju lofti norður í átt til okkar.

Því er spáð að fyrirstöðuhæðin styrkist lítillega fram á föstudag og nái þá upp í 5820 metra. Það er óvenjulegt svo norðarlega á þessum tíma árs. Metið yfir Keflavíkurflugvelli í nóvember sýnir svipaða hæð og endurgreiningin ameríska sem hér er oft til vitnað er sammála, þetta gerðist fyrstu daga nóvembermánaðar 1956. Þótt fyrirstaðan eigi aðeins að linast eftir þetta á hryggurinn sem við sjáum á kortinu yfir Labrador á að teygja sig austur um Ísland og endurnýja fyrirstöðuna - líklega vestar en hún nú er - en þá ekki eins öflug og hún nú er. Allt eru það vangaveltur og sýnd veiði en ekki gefin. Fyrirstöður hafa verið algengar yfir Skandinavíu nú í haust - ætíð komið aftur þótt þær hafi horfið - dularfullt mál.

Aðalkuldapollur norðurhvelsins er um þessar mundir yfir Austur-Síberíu - eiginlega eins langt frá okkur og hugsast getur á þessum árstíma. Gríðarlega snörp smábylgja er á kortinu yfir Alaska. Hún tengist fárviðrislægð sem þar er í þessum skrifuðum orðum að dýpka niður fyrir 950 hPa. Vindhraða í 850 hPa þar spáð upp í meir en 50 m/s.

Hluti vesturstrandar Alaska verður fyrir þessu mikla veðri. Bærinn Nome hefur nokkrum sinnum orðið fyrir veðrum af þessu tagi. Frægast þeirra gerði í október 1913. Svo slæmt varð það veður að fréttir af því bárust inn á siður íslenskra fréttablaða (sjá timarit.is). Erlendar bloggsíður segja illviðrið sem nú skellur þar á ekki eiga sinn líka síðan þá (er okkur bloggurum treystandi fyrir slíku mati?). En 1913 eyðilögðust 500 hús á sjávarkambinum í Nome en þá var þar nýlega gengið yfir gullæði - og fólksflótti var hafinn áður en veðrið gerði. Verslunarhverfi bæjarins rústaðist gjörsamlega (sjálfsagt tómt að hluta eftir bóluna). Að sögn eru strendur Alaska sérlega viðkvæmar fyrir sjávarflóðum á þessum tíma árs. Athyglisvert.

Fárviðri eru algengari á haustin og síðvetrar heldur en yfir háveturinn við norðanvert Kyrrahaf, Menn hafa þó mismunandi skoðanir á ástæðum þessa.

Einnig má á kortinu sjá öflugan kuldapoll í námunda við Kaspíahaf og Volgubakka. Hann hreyfist til vestsuðvesturs í stefnu á Balkanlönd - útlit er fyrir snarpa vetrarbyrjun þar um slóðir í kringum helgina. Hvort fréttist af því hér á landi fer eftir gúrkutíðinni á fjölmiðlunum - Balkan er það langt í burtu frá kastljósinu. Það er styttra til Kaliforníu á fjölmiðlakortinu - þeirra kuldapollur veldur væntanlega rigningum þar um helgina þegar hann fer hjá eða gengur á land - en of snemmt er nú að spá þar flóðum. Skammvinnt kuldakast gerir einnig í norðausturríkjum Bandaríkjanna næstu daga samfara lægðardraginu sem sjá má á kortinu. Svo er stafrófsstormurinn Sean í námunda við Bermúda - en er óttalegt örverpi.

Nóg er því um að vera víða um norðurhvel og sjálfsagt ekki nærri því allt talið. En hér á landi er spennandi að fylgjast með vinda- og hitafari næstu daga og síðan hvort til verður háþrýstibrú yfir Ísland, á milli hæðarhryggjarins í vestri og fyrirstöðunnar í austri eftir helgina.

 


Hlýjasta loftið fer hjá

Þau óvenjulegu hlýindi sem hafa verið yfir landinu í dag - mánudag og verða yfir Austurlandi fram eftir þriðjudegi (8. nóvember) virðast því miður ekki ætla að skila sér með jafn óvenjulegum hætti niður á veðurstöðvar landsins. Staðbundin hitamet nóvembermánaðar hafa þó allnokkur fallið og þegar þetta er skrifað (um miðnætti aðfaranótt þess 8.) eiga þau eftir að falla á fleiri stöðvum. Hlýtt loft verður áfram yfir landinu - sérstaklega því austanverðu - næstu daga.

Á miðnætti (aðfaranótt 8. nóvember) var frostmark yfir Keflavíkurflugvelli í nærri 3 km hæð, langt ofan við hæstu fjöll á landinu. Það er svipað og það hefur hæst orðið áður í mælingum í nóvember. Enn hlýrra hefur trúlega verið austar. Tölvuspár minnast þar á 6 stiga hita í þessari hæð - en við tökum þeim tölum með varúð. Á miðnætti var hiti á öllum láglendisveðurstöðvum landsins 10 stig eða meira nema á litlu svæði frá Hornafirði og austur á sunnanverða Austfirði. Það er ekki algengt í nóvember.

Hitaskilin sem fóru á undan hlýja loftinu í dag voru óvenjuleg að því leyti að þau bjuggu til þrumuveður á Suðurlandi. Erfitt er að segja nákvæmlega hvernig á þrumuveðrinu stóð þótt nokkrar mislíklegar skýringar komi til greina. Rýna þarf nánar í gögn til að skera úr um það hvað var á seyði í þetta skipti. Þrumuveður samfara hitaskilum eru sjaldgæf - algengari þó á sumrin heldur en á vetrum.

Á Snæfellsnesi norðanverðu var gríðarlegt úrhelli - sennilega tengt sama fyrirbrigði og bjó til þrumuveðrið. Klukkustundarúrkoma mældist mest 19,8 mm í Grundarfirði og litlu minni í Ólafsvík. Úrkomuákefð af þessu tagi myndi trúlega valda umferðaröngþveiti í Reykjavík. Ákefðin í Reykjavík varð mest 4,3 mm á klukkustund (milli kl. 14 og 15). Þetta er svipað og mesta ákefð sem mælst hefur áður á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík í nóvember - en höfum í huga að mæliröðin er ekki löng.

Víða hefur verið mjög hvasst á landinu. Á Hólmsheiði rétt ofan Reykjavíkur fór vindur í 29 m/s í kringum miðnætti. Það eru 11 gömul vindstig. Vindhviða fór ar í 40 m/s. Ekki var nærri því eins hvasst við Veðurstofuna en þar fóru hviður þó yfir 30 m/s og sömuleiðis á Reykjavíkurflugvelli. Reynslan sýnir að tjón fer að verða á fastamunum (eins og t.d. húsþökum) víða um bæinn ef vindhviður fara yfir 40 m/s. Lausamunir fjúka við minni vindhraða.

Viðbót 8.8. kl.10. Pistlinum fylgir nú viðhengi sem sýnir mesta vindhraða á sjálfvirkum veðurstöðvum í veðrinu. Hann nær til kl.9 að morgni þess 8. Hugsanlegt er að einhverjar stöðvar nái hámarki veðursins síðar um daginn.

Viðbót 8.8. kl.11. Hámarkshiti næturinnar var 20,6 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Svo sýnist sem það sé nýtt dægurmet og hefði dugað í landsnóvembermet þar til í hitabylgjunum tveimur í nóvember 1999. Því miður er sjálfvirka stöðin á Skjaldþingsstöðum ekki tengd sem stendur.

Viðbót 8.8. kl.22. Ný stöðvamet nóvembermánaðar eru komin í sérstakt viðhengi. Í listanum eru einungis þær stöðvar sem athugað hafa í meir en þrjú ár. Nokkrar stöðvar sem athugað hafa tíu ár eða meira settu ný nóvembermet. Á sumum stöðvum komu metin fyrir nokkrum dögum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Getur þetta verið rétt?

Þykktarspáin fyrir tímann frá mánudagskvöldi 7. nóvember til þriðjudagsmorguns er óvenjuleg. Evrópureiknimiðstöðin segir þykktina yfir Norðausturlandi fara þá yfir 5600 metra og hita í 850 hPa-fletinum (1300 m yfir sjávarmáli) fara í +13 stig. Hirlam-líkanið er aðeins neðar, þykktin þar á að fara yfir 5580 metra á sama stað á sama tíma. Frostlaust á að verða upp í rúmlega 3 km hæð og hitinn í 500 hPa á að fara í -12°C. Allt er þetta mjög óvenjulegt í nóvember.

w-blogg081111

Heildregnu línurnar á kortinu sýna þykktina (á milli 500 og 1000 hPa-flatanna) í dekametrum (1 dam = 10 metrar) og litakvarðinn sýnir hita í 850 hPa-fletinum. Við sjáum að hlýja loftið þekur mjög stórt svæði suðaustur og austur af landinu. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið.

En nú eru þessar spár ekkert endilega réttar og harla óvíst hvort hlýja loftið berst óspillt hingað til lands í raun og veru. En hlýtt loft er létt og getur auðveldlega flotið ofan á kaldara lofti sem er undir því. Það er því langt í frá gefið að þessa mikla hita gæti á veðurstöðvum landsins á þessum tíma - jafnvel þótt þessi spá eigi við rök að styðjast. Ef hægt væri að koma 13 stiga heitu lofti í 1300 metra hæð niður til sjávarmáls væri hitinn í því þar +26°C. Líkurnar á slíku meti eru ekki núll en hins vegar afskaplega litlar - en samt ábyggilega umtalsvert meiri heldur en líkur á öllum tölum réttum í lottóinu.

En það verður gaman að fylgjast með hitamælingum á landinu meðan hlýja loftið fer hjá. Það gerist á tímabilinu frá mánudagskvöldi og fram undir hádegi á þriðjudag. Spár gera ráð fyrir mikilli þykkt næstu daga - en ekki alveg svona óvenjulegri.

 


Hlýjustu nóvemberdagarnir (með utanefnisinngangi)

Fyrst eru nokkur orð utan meginefnis pistilsins. Lægðirnar sem fjallað var um í pistli hungurdiska í gær (föstudagskvöld) eru við góða heilsu. Sú fyrri hefur reyndar dottið í sundur (óvænt?) og sendir frá sér mjög snarpan afleggjara sem spár segja að muni fara yfir landið austanvert á morgun (sunnudag). Gert er ráð fyrir hvassviðri þar um slóðir fyrir og fram yfir miðjan dag. Þeir sem vilja fylgjast með því ættu að líta við á vef Veðurstofunnar - þar eru spár endurnýjaðar eftir þörfum.

Hungurdiskum er ómögulegt að fylgjast með í þeim smáatriðum sem raunverulegar veðurspár krefjast. Áhrifasvæði síðari lægðarinnar er á áætlun hér við land síðla mánudags. Henni á að fylgja óvenjuhlýtt loft - hvort það fýkur yfir höfðum okkar eða nær til jarðar er enn óljóst en við fylgjumst betur með því þegar nær dregur.

En snúum okkur að meginefninu, hlýjustu dögum á Íslandi í nóvember frá 1949 til 2010. Hér er litið á landið í heild - en ekki einstakar veðurstöðvar, methiti þeirra var tíundaður á hungurdiskum fyrir nokkrum dögum.

Fyrst er listi yfir hæsta meðalhita sólarhringsins.

hæsti landsmeðalhiti skeytastöðva
ármándagurmet
1999111111,00
1999111010,14
19561179,97
20041169,68
199911199,55
19751179,42
195611169,36
19561169,32
195811229,32
19561128,85
195511208,76
19641188,65
´

Hlýjasti dagurinn er 11. nóvember 1999 og dagurinn áður, sá 10. er næsthlýjastur. Þessir dagar eiga líka hæsta hita sem nokkru sinni hefur mælst á landinu í nóvember. Trúlega eru þeir í raun og veru hlýjustu nóvemberdagar mun lengra tímabils heldur en þeirra 60 ára sem hér eru undir. Meðalhitinn þann 11. hefði nægt í 6. hæsta sæti októberhlýinda. Annar dagur úr sama mánuði, sá 19. er hér í 5. sæti. Þá var settur fjöldi stöðvameta, eins og áður hefur verið fjallað um.

Í þriðja sæti er 7. nóvember 1956 - fáir ef nokkrir lesendur hungurdiska muna hann sem slíkan - enda 55 ár síðan. En því fleiri muna vikurnar á undan sem eina af spennuþrungnustu stundum kalda stríðsins. Meira að segja þeir sem voru fimm ára þá - eins og sá sem þetta ritar.

Hlýindin í nóvember 1999 hirða fjögur af efstu sætunum á meðalhámarkshitalistanum.

hæsta landsmeðalhámark
ármándagurmet
1999111112,65
1999111912,54
1999111212,14
1999111011,86
200411611,75

Um þetta leyti stóð hér yfir fundur norrænna veðurgagnahirða - verst að hann skyldi ekki vera haldinn fyrir austan en ekki í súldinni og myrkrinu í Reykjavík.

Nóvember 1999 einokar ekki listann yfir hæsta lágmarkshitann. Að sumarlagi segir listi um hæsta lágmark til um það hver er hlýjasta nóttin. Þegar komið er fram í nóvember eru lágmarks- og hámarkshiti ekki jafn bundin sólargangi. Hæsti hiti sólarhringsins getur jafnt orðið að nóttu sem degi. Þar ræður vindur og brot vindstrengja við fjöll mun meiru en sólarhæð. Lágmarkshitinn í nóvember ræðst einnig frekar af stöðu lægða- og hæðaumferðar heldur en sólargangi.

hæsta landsmeðallágmark
ármándagurmet
199911118,95
19561178,31
19871157,60
19931127,24
19561117,16

Ellefti nóvember 1999 er þarna enn á toppnum, en 7. nóvember 1956 er kominn í annað sæti og 1. nóvember 1956 er í fimmta sætinu.


Nokkrar ólíkar lægðir (í spilunum)

Landið er nú í lægðabraut (rétt einu sinni) en einhvern veginn gengur samt illa að ná útsynningi á strik og það hefur oftast gengið illa undanfarin ár. Þegar lægðir hafa farið hjá fyrir vestan land hefur hægur vindur af suðri oftast fylgt á eftir landsynningshvassviðri og rigningu sem fer á undan lægðunum. Í sumum árum er útsynningur aftur á móti algengur, landsynningurinn þá stundum hægur á undan suðvestanhvassviðrum. Vetur með þrálátum útsynningum eru þó ekkert sérstaklega algengir. Frekar er að nokkurra vikna kaflar stingi sér inn í annars konar vetrarveðráttu. En við förum e.t.v. á útsynningsvetraveiðar síðar - ef tilefni gefst til.

En síðasta lægð kom úr suðaustri með óvenjulegum hlýindum einkum um sunnan- og vestanvert landið. Útsynningur hennar er ósköp vesæll - en skýst þó á vettvang suðvestanlands í fáeinar klukkustundir undir morgun á laugardegi (5. nóvember). Skúrirnar eða élin sem að jafnaði einkenna hann verða þó nærri því strax barin niður af hlýju háskreiðu lofti framan við næstu lægð.

Lægðarmiðjan á að fara hjá á aðfaranótt sunnudagsins (6. nóvember). Lítum á kort.

w-blogg051111a

Það sýnir veðurspá sem gildir kl. 18 síðdegis laugardaginn 5. nóvember. Gamla lægðin (merkt L6) liggur í bæli vestur við Grænland á þeim slóðum þar sem er einna vinsælast elliheimili djúpra lægða hér á jörð. Þegar lægið sem merkt er L1 fer hjá togar hún í gömlu lægðina sem þá missir mátt og verður úr sögunni á mánudag.

Lægð 1 á kortinu er mjög hraðfara og fer eins og að ofan sagði hjá á aðfaranótt sunnudags eða á sunnudagsmorgun. Sumar spár gera ráð fyrir snörpu suðvestankasti sums staðar vestanlands í kjölfar lægðarinnar (snúð hennar eða broddi). Einnig segja þær sömu spár að hvesst geti í öðrum landshlutum (fylgist með því á vef Veðurstofunnar). Fyrr í vikunni höfðu sumar spár gert ráð fyrir ofsaveðri á landinu samfara þessari lægð. Þá var helst að sjá að hún gripi með sér lægðina sem á kortinu er merkt sem L3. Þar er gnægð af hlýju lofti - en stefnumótið virðist hafa misfarist og L3 straujast út suðaustan við land. Það er svona þegar lægðir fara fram úr sjálfum sér.

Þarnæsta lægð er á kortinu austur af Nýfundnalandi, merkt L2. Henni fylgir nokkuð eindregin háloftabylgja sem bæði heldur aftur af lægðinni (hlýtt loft getur þá sloppið norðaustur úr henni og þar með nýst illa) - en jafnframt grefur lægðardragið sig til austurs og grípur upp meira af enn hlýrra lofti í stað þess sem sleppur út. Þetta þýðir að lægðin verður allt öðru vísi en sú fyrri þegar hún fer að hafa áhrif hér á landi síðla á mánudaginn (7. nóvember). Stór og svo feit að miðjan kemst e.t.v. ekki lengra heldur en í dvalarheimilið ljúfa við Grænlandsstrendur. Mjög hlýtt loft fylgir lægðinni og spennandi að sjá hversu hátt hitinn fer á þriðjudaginn í hvassri sunnanáttinni.

Hér er ástæða til að benda á form þrýstilína í kring um lægðina á kortinu (L2). Eftirtektarvert er að norðaustanáttin vestan lægðarinnar er hvassari heldur en suðvestanáttin austan hennar, það sjáum við af því hversu þétt þrýstilínur liggja. Þetta bendir til þess að lægðin sé að grafa um sig frekar en að hún sé á miklum hraða. Enda segja spár að hún eigi ekki að hreyfast nema um 10 breiddarstig til austurs næsta sólarhringinn á eftir þeirri stöðu sem kortið sýnir - en á jafnframt að dýpka um 23 hPa.

Gangi þessar spár eftir fáum við enn að bíða eftir útsynningnum. En suðlægir vindar eru líka miklu betri.

Ein lægð til viðbótar er sérmerkt á kortinu (L4). Hún er yfir Miðjarðahafi og veldur úrhelli þar um slóðir. Þar er að nokkru hægt að draga til ábyrgðar útsynninginn sem við vorum snuðuð um aftan við gömlu lægðina sem hér er nýfarin hjá. Kalda loftið sem við hefðum geta búist við var þess í stað sent á miklum hraða til suðausturs um Pýreneaskaga og inn á Miðjarðarhaf. Sú framrás leiðir til mikilla átaka þar um slóðir - en það er önnur saga.


Þyturinn (eða suðið) í vestanáttinni síðustu 60 árin

Nördalegt, já. Finnist engin marktæk tíðnihámörk í tímaröð sem er til athugunar er talað um að hún sýni ekkert nema hvítt suð, engir litir skera sig úr. Tilviljanakennd gildi elta hvort annað í endaleysu. Um það er deilt hversu hvítar hinar fjölbreyttu tímaraðir veðursins séu. Er engin langtímaregla í veðurfari?

Það er þó ekki alveg rétt að segja að veðurfarið sé hvítt. Bæði dægur- og árstíðasveiflan eru fastnegldar á ákveðin tíðnibil, sólarhringinn og sólarárið - um það deilir enginn. Menn eru síðan nokkuð sammála um að svonefndir brautarþættir jarðar (t.d. möndulhalli) marki tilvist sína inn í veðurfarið líka. En þar er um að ræða sveiflur á tíuþúsundárakvarða. Þótt þær breytingar séu hægfara gætu þær valdið því að veðurfar hrökkvi stundum til - svona eftir því hvernig stendur á spori í öðrum þáttum sem þar koma við sögu, t.d. geislunareiginleikum lofthjúpsins eða þá gróðurfari og landnýtingu.

Langt er síðan farið var að greina reglulegar veðurfarssveiflur á kvarðanum þarna á milli, milli árslengdar og tíuþúsundára. Flestir leitendur hafa fundið sveiflur við sitt hæfi - en við í sveifluvantrúnni látum okkur fátt um finnast - allar spár byggðar á reiknisveiflum hafa hingað til brugðist. Líklega munu þær gera það áfram.

En við vitum hins vegar að veðurfar sveiflast stórlega frá ári til árs og á milli áratuga og alda. Spurningin er bara hversu reglulegur breytileikinn er. Lítum á myndina.

w-blogg041111-A-comp

Hún sýnir styrk vestanáttarinnar í 500 hPa (í m/s) frá því 1949 til okkar daga sem 12-mánaða keðjumeðaltöl. Það tímabil er valið í þeirri von að árstíðasveiflan bælist. Það sem situr eftir eru óreglulegar (mjög óreglulegar) sveiflur. Þær eru reyndar mjög stórar. Á þessu tímabili varð vestanáttin minnst 1960, það liðu síðan um 25 ár þar til hún varð ámóta lin (1985) en síðan hafa komið tvö nokkuð myndarleg lágmörk, bæði á þessari öld. Aðallega góðviðrakaflar.

Mestum styrk náði vestanáttin á fyrri hluta áttunda áratugarins, fyrstu árum þess níunda og síðan í kringum 1990. Veðurminnugir minnast þessa tímabila fyrir skakviðri og skít. Enga reglu er að sjá. Að vísu koma tímabil innan um þar sem toppar og dældir skiptast á með nokkuð reglulegum hætti. Sveiflusinnar geta ef til vill fundið eitthvað við sitt hæfi - ekki síst með þeirri nýjustu tækni að láta sveifluþættina sveiflast að styrk í misvægum sveiflum (þessi setning er grín eða útúrsnúningur).

Reiknuð leitni er örlítið niður á við frá upphafi til enda tímabilsins. Ekki segir það neitt um framtíðina frekar en venjulega - en ætli sé samt ekki líklegt að vestanáttin hressist á næstu árum og tíðni skakviðra og skíts aukist frá því sem verið hefur næstliðin 10 ár eða svo. Ekki má þó treysta þeim „spádómi“.

Mesta gagnið sem hafa má af línuritum af þessu tagi er að þau leggja niður stikur um það hvað er venjulegt og hvað er óvenjulegt. Þar með getum við betur áttað okkur á því hvort veðurfar er raunverulega að breytast eða ekki. Við það mat nægir okkur varla einvíð sýn hitafarsins eins og sér.

Vestanáttin virðist býsna stöðug í sveiflum sínum. Toppar í styrk hennar virðast ekki standa samfellt í mörg ár - alltaf dúrar á milli. Samband milli vestanáttarinnar og illviðra er ekki einhlítt. Ákveðnar tegundir þeirra veðrast upp með styrk hennar en önnur sæta lags og eru meira áberandi þegar hún er lin.

Voru þetta hálfgerðar ekki-fréttir eða er hér um djúpan grundvallarsannleika að ræða?


Stöðvahámarkshiti í nóvember

Þótt það loft sem yfir okkur verður á fimmtudag (3. nóvember) og fram eftir föstudegi (4. nóvember) sé ekki sérlega líklegt til mikilla hitaafreka er samt vissara að líta á stöðvahámörkin í nóvembermánuði. 

Á austan- og norðanverðu landinu eru þau trúlega nokkuð langt utan seilingar að þessu sinni en suðvestanlands eru hæstu hámörk mánaðarins furðulág. Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í nóvember er aðeins 12,6 stig (19. nóv. 1999). Sama dag fór sjálfvirka stöðin í 13,2 stig - mætti halda að hlýja loftið hefi verið á svo mikilli hraðferð að það hafi ekki haft tíma til að brjótast inn í skýlið með kvikasilfurshámarksmælinum. Allur hiti yfir 11 stigum er óvenjulegur í nóvember í Reykjavík. Við gefum því hitanum á þeim slóðum gaum þegar þykktinni er spáð upp í 5460 til 5480 metra samfara austlægri átt.

Tölvuspár eru í sveiflugír þessa dagana og segja í óspurðum fréttum að nokkrar vænar bylgjur af óvenjuhlýu lofti eigi að renna hjá - aðallega þó án viðkomu hér á landi. Sem dæmi má nefna að þykktinni er spáð upp í 5600 metra yfir Færeyjum á þriðjudaginn kemur (við trúum því þó ekki í bili að svo fari).

Hæsta þykkt sem ameríska endurgreiningin nefnir er svo forn að við vitum vart hvort taka á mark á þeirri tilgátu, 5583 metrar síðdegis þann 15. nóvember 1887. Sá atburður hefur farið alveg framhjá íslenskum hitamælaskýlum. Endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar sem nær aftur til haustsins 1957 nefnir 18. nóvember 1967 sem frambjóðanda með 5574 metra. Þá komst hiti í 16,6 stig á Seyðisfirði - býsna gott.

Það eru tvær miklar hitabylgjur í nóvember 1999 sem best skila sér til mæla hér á landi - þær strauja flestar aðrar og það um stóra hluta landsins. Landsmetshitinn er 23,2 stig og mældist á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga í fyrri bylgjunni, 11. nóvember. Samkvæmt reglugerð bókar mannaða stöðin sinn hámarkshita að morgni dagsins eftir, þann 12., 22,7 stig.

Hinn 19. nóvember 1999 á einnig fjölmörg stöðvamet. Þar á meðal er hæsti hiti á vegagerðarstöð í nóvember, 19,2 stig á Fagradal milli Reyðarfjarðar og Fljótsdalshéraðs. Stöðin mun vera í 350 metra hæð yfir sjó. Þykktin í þessum hitabylgjum báðum var yfir 5520 metrum. Til að ná góðum árangri á þessum árstíma þarf talsverðan vind sem blandar hlýju lofti að ofan niður í loftið næst jörð. Sé vindur lítill flýtur hlýjan bara ofan á.

En við munum síðar líta á hlýjustu nóvemberdagana á landinu í heild. Þangað til geta nördin grafið sig í listann í viðhenginu. Hann sýnir hæsta hita á öllum veðurstöðvum í nóvember, hverri fyrir sig. Listinn er fjórskiptur eins og flestir fyrri stöðvametalistar hungurdiska, fyrst eru almennar sjálfvirkar stöðvar, síðan vegagerðarstöðvarnar, mannaðar stöðvar 1961 til 2010 og loks þær mönnuðu 1924 til 1960. Með því að afrita í töflureikni (velja allt, afrita og líma) geta menn raðað að vild.

Á öllu tímabilinu 1874 til 1923, á öllu landinu. fréttist mest af 14,3 stigum á Teigarhorni þann 19. nóvember 1922.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýtt loft á leið til landsins

Þriðjudagskvöldið (1. nóvember) er frekar kalt. Sömuleiðis er vindur víða hvass. Sagt er að áfram verði hvasst víða um landið vestanvert á morgun (en vefur Veðurstofunnar upplýsir lesendur um það. Við lítum hins vegar hærra til lofts í átt að hlýrra lofti. Til þess mun væntanlega sjást á morgun (miðvikudag) í líki skýjabakka (bliku og fleira) sem kemur úr suðri og suðaustri yfir landið. Við jörð er hlýja loftið lengur á leiðinni.

Fyrri mynd dagsins sýnir 300 hPa hirlam-spákort á miðnætti aðfaranótt miðvikudags. Þar má sjá jafnhæðarlínur flatarins merktar í hefðbundnum dekametramáli (1 dam = 10 metrar). Línan sem liggur um Snæfellsnes sýnir 8660 metra. Lituðu fletirnir sýna hvar vindur er mestur (háloftarastir), litakvarðinn er lengst til hægri á myndinni og sýnir vindhraða í hnútum (að hætti flugvéla sem eru þarna á ferð).

w-blogg021111b

Efni dagsins lýtur að lægðinni fyrir vestan Írland og strengnum mikla austur af henni. Þessi strengur beinir lofti til norðurs en hann tekur síðan sveigju til norðausturs og austurs suðaustan Íslands. Syðst í strengnum er lægðabeygja (hægrihandargrip) en smám saman réttir úr og leggst yfir í hæðarbeygju þegar komið er norður undir á að giska 57 gráður norðlægrar breiddar. Þar er sem sagt hæðarhryggur. Þessi hryggur er í framsókn til norðurs - um það bil þvert á vindinn.

Lokaðar háloftalægðir eins og sú sem við horfum þarna á eiga erfitt með að færast í norður - óstuddar. Líflína þessarar felst í því að lægðardragið sem er á Grænlandshafi grefur sig suður á bóginn og krækir að lokum í lægðina en hörfar jafnframt lítillega undan framsókn hryggjarins.

Við lítum líka á hitamynd sem er tekin kl. 23 á þriðjudagskvöldi 1. nóvember - á um það bil sama tíma og spákortið hér að ofan gildir. (Erfiður biti framundan).

w-blogg021111a

Flestir lesendur átta sig væntanlega á merkingu grálitum myndarinnar. Hvítustu svæðin eru köldust en hlýrri svæði eru dekkri. Það hvítasta nær alveg upp í 300 hPa vindinn á fyrri mynd. Ég hef (glannalega og ónákvæmt) merkt miðju háloftarastarinnar (skotvindinn) með rauðri ör. Þar er einnig það sem kallað er hlýtt færiband lægðarinnar. Lægðardragið á Grænlandshafi er merkt sem blásveigð ör. Lægðin suður í hafi samanstendur af nokkrum minni lægðasveipum.

Brúnlituðu, sveigðu línurnar eiga að fylgja skýjaformum færibandsins. Færibandið streymir ekki til norðurs jafnt og þétt heldur koma eins og gusur af lofti úr suðri. Þær rísa hver um sig hátt til lofts um leið og þær hreyfast norður en jafnframt breiða þær úr sér, þó aðallega til austurs, út úr meginstrengnum. Hægri endi brúnu línanna (austurendinn) er ætíð sunnar heldur en vesturendinn, sem hreyfist hraðast til norðurs. Austurendarnir dragast því afturúr - þrátt fyrir að vera á hraðri leið til norðurs. Nyrst í færibandinu er minni munur á hraða vestur- og austurhluta gusunnar.

Á myndina eru einnig grænleitir sveigir, sennilega eiga þeir uppruna sinn í undanskotum færibandsins. Þaðan koma líka gusur, bara ekki eins háskreiðar og hinar.

Þetta er ekki mjög augljóst - og eru lesendur beðnir velvirðingar á flækjunni. En átök af þessu tagi milli framsóknar hlýlofts úr suðri (í hæðarbeygju) og kaldlofts úr vestri (í lægðarbeygju) er alltaf mjög áhugaverð - og jafnvel spennandi.


Veðrasveiflur síðustu áratuga (4)

Nú lítum við á sveiflur í úrkomumagni síðustu áratugina. Mikil fylgni er í úrkomutíðni um allt sunnan- og vestanvert landið - austan frá Fáskrúðsfirði suður og vestur um land og allt norður í Skagafjörð. Magnfylgni er ekki eins mikil og munur á meðalúrkomu ársins er auðvitað gríðarmikill á þessu svæði. Norðausturland frá Tröllaskaga í vestri og austur á Hérað og norðanverða Austfirði er fylgnislítið við suður- og vestursvæðið bæði í úrkomutíðni og magni.

Þessi tvískipting landsins í tvö úrkomusvæði er auðvitað mikil einföldun en á þó þann stuðning að á suður- og vestursvæðinu er það sunnanþáttur vindsins (bæði við jörð sem og í háloftum) sem hefur hvað mest áhrif á breytileikann frá ári til árs.

Í fljótu bragði skyldi maður því ætla að norðaustanlands væri það þá norðanáttin sem mestu réði um breytileikann þar. Hún ræður auðvitað miklu - en þó virðist sem áhrif loftþrýstings séu meiri. Norðanátt í háum loftþrýstingi er áberandi þurrari norðaustanlands heldur en í lágum. Í háþrýstingi er hæðarbeygja ríkjandi í þrýstisviðinu þannig að þá er norðanáttin af vestrænum (þurrum) uppruna. Í lágþrýstingi er hún hins vegar af austrænum uppruna, loftið oft upphaflega komið að sunnan, kringum lægð skammt austur eða norðaustur af landinu.

Úrkoma í lágum þrýstingi og norðanátt á Akureyri er gróflega tíföld miðað við meðallag - og þeir fáu dagar á´árinu sem bjóða upp á slíkt ástand eiga því stóran hluta í meðaltalinu.

Á landinu í heild er úrkoma meiri í lágþrýstingi heldur en þegar þrýstingur er hár en um landið sunnanvert skiptir meira máli að áttin sé af suðri heldur en hver þrýstingurinn er.

Vegna vægis einstakra stórra úrkomuatburða í ársúrkomunni er þó mun erfiðara að tengja úrkomuna við almenna hringrás í námunda við landið. En lítum á tvær myndir.

w-blogg011111a

Sú fyrri sýnir 12-mánaða keðjusummur úrkomu í Reykjavík (blár ferill) og á Akureyri (grár ferill) frá 1949 og til loka árs 2010. Ferlarnir eru mjög órólegir en þó sést greinilega að úrkoma í Reykjavík (ársmeðaltal um 800 mm) er að jafnaði mun meiri heldur en á Akureyri (um 490 mm). Þó er mesta úrkoma 12-mánaða á Akureyri meiri heldur en minnsta 12-mánaða úrkoma í Reykjavík.

Fyrstu gildi myndarinnar (lengst til vinstri) ná yfir janúar til desember 1949, næsta gildi tekur til febrúar 1949 til og með janúar 1950 og síðan koll af kolli í mánaðarlöngum skrefum alveg til enda. Síðustu gildin ná til tímabilsins janúar til desember 2010.

Ef við lítum nánar á Reykjavíkurferilinn (þann bláa) sýnist okkur að topparnir liggi gjarnan nokkrir saman ekki svo mjög langt frá hvor öðrum, en síðan komi nokkurra ára bil með lægri gildum. Á að giska 12 til 18 ár eru gjarnan á milli dýpstu dalanna (úrkoma innan við 600 mm). Enga reglu er að sjá og leitni er engin.

Hinar stóru sveiflur Reykjavíkurferilsins valda því að sveiflurnar á Akureyri sýnast minni. Þær eru samt hlutfallslega ámóta stórar. Úrkoma á þurrasta 12-mánaða tímabilinu á Akureyri (febrúar 1965 til janúar 1966) var aðeins um 60% meðalúrkomunnar, en það votasta um 60% ofan meðallags (merkt á myndinni). Í Reykjavík var úrkoma á þurrasta 12-mánaða tímabilinu (september 1950 til ágúst 1951) um 65% meðalúrkomu, en það votasta um 55% ofan meðallagsins.

Það vekur einhverja athygli hversu flatt línuritið fyrir Akureyri er síðustu 12 árin eða svo meðan sveiflurnar í Reykjavík eru með allra mesta móti. Ekki ber að leggja neina sérstaka merkingu í það. Taka má eftir því að hafísárin svonefndu (1965 til 1971) voru tiltölulega þurr á Akureyri þrátt fyrir miklar norðanáttir á þeim tíma. En loftþrýstingur var þá lengstum hár og norðanáttin því af tiltölulega vestrænum uppruna eins og bent var á að ofan.

Hin myndin sýnir hluta Reykjavíkurlínuritsins, frá 1996 til 2010. Þar má einnig sjá sunnanáttina á sama tíma.

w-blogg011111b

Úrkoman í Reykjavík er sýnd með bláum ferli og kvarða til vinstri, en sunnanáttin er rauð og er á kvarða til hægri. Norðanáttin 2010 (neikvæð sunnanátt) er auðvitað áberandi óvenjuleg og er þurrkurinn það ár greinilega í tengslum við hana. Önnur hámörk og lágmörk línuritsins falla nokkuð vel saman, það er helst að árin 1996 til 1997 séu óþekk.

Má af þessu ráða að fyrri þurrk- og úrkomutímabil á Suðvesturlandi tengist líka háloftavindáttum? Tengjast þurrktímabil á Norðausturlandi háum loftþrýstingi?

Lesendur mega búast við framhaldi í svipuðum dúr síðar.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 264
  • Sl. viku: 1633
  • Frá upphafi: 2349593

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 1480
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband