Köldustu nóvemberdagarnir

Umfjöllunarefnið hæfir ekki hlýindunum þessa dagana og alvörukulda er ekki að sjá í námunda við okkur eins langt og tölvuspár ná (en þær bregðast nú stundum - munum það).

En tíu köldustu nóvemberdagar síðustu 62 ára eru, gildin í °C:

lægsti landsmeðalhiti í byggð
ármándagurmeðalhiti
19731123-9,70
20061118-9,59
19711116-9,27
19731116-9,07
19811119-9,04
19781126-8,81
19731115-8,69
19961123-8,58
19731125-8,53
19731124-8,51

Nóvember 1973 hirðir fimm sæti á listanum - þar á meðal það fyrsta og er það setið 23. degi mánaðarins það ár. Nærri tíu stiga frost að meðaltali á öllu láglendi landsins. Nóttina eftir fór hiti á Staðarhóli í Aðaldal niður í -27,1 stig og fékk sú tala að standa sem mesta frost í nóvember allt fram til ársins 1996 að frostið fór í -30,4 stig á sjálfvirku stöðinni í Neslandatanga við Mývatn aðfaranótt 24. En þar voru ekki mælingar 1973 og því allt mögulegt í þeim efnum. Neslandatanginn er sérlega lágmarksmetagæfur staður því eftir 1996 hefur það gerst tvisvar að frost þar hefur orðið meira heldur en Staðarhólsmetið. Kuldinn 1996 er í 8. sæti á meðalhitalistanum.

Nýlegur dagur, 18. nóvember 2006 er í öðru sæti á listanum. Þá var mesta frost í byggð -25,3 stig í Möðrudal  en -26,1 stig á Brúarjökli.

Næst eru lægstu meðallágmörkin:

lægsta landsmeðallágmark í byggð
ármándagurmeðalhiti
20061118-12,79
19731123-12,70
19731124-12,21
19731116-12,09
19731125-11,60
19671129-11,50
20061119-11,48
19781127-11,38
19641117-11,26
19781126-11,26

Hér treður 18. nóvember 2006 sér í fyrsta sætið - en munurinn á honum og 23. nóvember 1973 er auðvitað ekki marktækur. Þarna birtast dagar sem ekki eru á meðalhitatopplistanum, t.d. 29. nóvember 1967 og 17. nóvember 1964. Síðastnefnda deginum á ég að muna eftir (einhver gloppa þar) - en ég man hins vegar allvel eftir næstu tveimur dögum á eftir en þá gerði snarpan hríðarbyl og síðan hláku af austri, urðu bæði fokskaðar og samgöngutruflanir. Ung veðurnörd hlustuðu á þessum árum alltaf á laugardagsútvarpspistla Páls Bergþórssonar veðurfræðings en þar kom veður gjarnan við sögu. Í pistlinum laugardaginn 21. nóvember fjallaði hann um kastið og kallaði Ólafsbyl eftir Ólafi Friðrikssyni verkalýðsleiðtoga og frumkvöðli jafnaðarstefnunnar á Íslandi. Ólafur var jarðsettur þann 18. Einkennilegt hvernig svona nokkuð situr í manni í nærri hálfa öld.

Bitrustu dagarnir eru gjarnan þeir sem eiga lægstan hámarkshita. Þá vermir hvorki sól né sjór svo heitið geti - heimskautaloftið eitt ríkir. Sá kuldalisti lítur svona út:

lægsta landsmeðalhámark í byggð
ármándagurmeðalhiti
19711117-7,36
19731116-7,13
20061118-6,96
19711118-6,75
19811119-6,62
19731117-6,51
19731125-6,51
19731124-6,15
19631116-6,03
19651129-5,98

Þar er efstur 17. nóvember 1971 - þá var ég ekki á landinu. Í amerísku endurgreiningunni er þessi dagur með einna lægsta þykkt á öllu tímabilinu sem hér er undir (1949 til 2010). Hinn 18. nóvember 1947 (utan tímabilsins) er svipaður eða aðeins lægri - um 4940 metrar.

Stundum fylgja eftirminnilegir veðuratburðir óvenjulágri þykkt, lítið gerðist 1971, en mikla hríðarsyrpu gerði um og í kjölfar þykktarinnar lágu 1947. Þá féll m.a. snjóflóð á bæinn Gunnsteinsstaði í Langadal, gjöreyðilagði fjárhúsin og stórskemmdi íbúðarhús, mannbjörg varð. Þegar minnst er á Langadal kemur manni snjóflóðahætta ekkert sérstaklega í hug. Ef marka má endurgreininguna fór þessa daga þverskorinn kuldapollur suður yfir landið - við þau skilyrði er eins gott að hafa aðgátina í lagi.

Hér klóra menn sér væntanlega í höfðinu yfir hugtakinu þverskorinn kuldapollur - enginn veit hvað það er nema sérvitur ritstjóri hungurdiska. Kannski upplýsist um það síðar - ef tækifæri gefst til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ski nú ekki hvers vegna í ósköpunum var verið klessa sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga fremur en Reykjahlíð þar sem svo lengi voru mannaðar athuganir. Það er ekki bara að meira frost verði á Neslandatanga en í Reykjahlið heldur eru hitar þar einnig minni. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.11.2011 kl. 00:25

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er nú gaman að ná í kuldametin líka. Hver veit nema að Neslandatanginn nái einhvern tíma fjörutíu stiga frostinu sem við höfum beðið eftir síðan 1918.

Trausti Jónsson, 11.11.2011 kl. 00:32

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, og það vonandi fyrr en seinna!

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.11.2011 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 545
  • Sl. sólarhring: 573
  • Sl. viku: 1054
  • Frá upphafi: 2351845

Annað

  • Innlit í dag: 513
  • Innlit sl. viku: 950
  • Gestir í dag: 499
  • IP-tölur í dag: 483

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband