2.7.2024 | 00:01
Hugsað til ársins 1952
Að ýmsu leyti óvenjulegt ár með fjölmörgum athyglisverðum veðuratburðum. Hin stutta uppgjörssetning Veðráttunnar kemur á óvart: Tíðarfarið var hagstætt meiri hluta ársins því allskonar illviðri og áföll dundu yfir, óvenjuhart hret gerði seint í maí - og stóð kuldinn síðan áfram mestallan júnímánuð, mikil áfelli gerði líka seint í ágúst með hríðarveðri niður í sveitir. Ekki var árið heldur snjóflóða og vatnsflóðalaust. En þegar upp var staðið varð haustið mjög gott, hægviðrasamt, þurrt og fremur hlýtt lengst af. Meðalstaðan í háloftunum sker sig úr, meðalvigurvindátt úr hávestri, slíkt gerðist ekki aftur fyrr en árið 2010. Úrkoma var talsvert undir meðallagi.
Tíðarfar var óhagstætt í janúar, þá gengu mikil illviðri og samgöngur voru erfiðar. Gæftir voru tregar. Febrúar var hins vegar hægviðrasamur og mildur, samgöngur voru erfiðar framan af, en síðan batnandi. Gæftir góðar. Í mars var tíð hagstæð og gæftir góðar. Apríl var sömuleiðis hagstæður, einkum síðari hlutinn. Mikil aurbleyta tafði samgöngur, gæftir voru góðar. Í maí var hlýtt um miðjan mánuð, en annars óhagstætt og hvassviðrasamt miðað við árstíma. Mikið hret gerði síðast í mánuðinum. Gróðri fór lítið fram. Gæftir þóttu þó góðar. Í júní var tíð talin mjög óhagstæð, þrátt fyrir að óvenju sólríkt væri sunnanlands. Gróðri fór lítið fram vegna kulda og þurrka. Víða var kal í túnum. Óvenjukalt var í veðri. Oft snjóaði norðanlands og snjó festi á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Í júlí voru þurrkar og tún seinsprottin, tíð þótti því fremur óhagsstæð. Ágúst var hagstæður til heyskapar nema síðari hluti mánaðarins um landið norðanvert, þá gerði tvö óvenjuhörð norðanveður. September var nokkuð hagstæður framan af, óvenjuleg hlýindi kringum þann 10., en var síðan talinn óhagstæðari. Þurrviðrasamt var lengst af. Garðauppskera brást víðast norðanlands, en var í meðallagi syðra. Október var hagstæður landbúnaði, en gæftir stirðar. Tíð þótti óvenjuhagstæð í nóvember, unnið var að jarðrækt og jurtir stóðu í blóma. Gæftir góðar. Desember var einnig óvenjuhagstæður og þurrviðrasamur, gæftir voru góðar.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is), hjá veðurathugunarmönnum og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að færa stafsetningu til nútímahorfa (að mestu), sömuleiðis eru textarnir oft styttir. Vonandi sætta höfundar sig við það. Í þetta sinn sækjum við langmest til dagblaðsins Tímans sem var áberandi duglegast blaðanna við miðlun veðurupplýsinga þetta ár. Hungurdiskar hafa áður fjallað um fjögur illviðri á árinu áður. Þrjú fárviðri í janúar auk hrets sem gerði í maílok. Í þeim pistlum má finna veðurkort - og almenna umfjöllun um eðli þessara veðra. Verður það ekki endurtekið í þessu yfirliti, en skaðaumfjöllun er hér heldur ítarlegri.
Árið byrjaði illa, gekk á með fárviðrum og snjóþyngslum í janúar, samgöngur voru erfiðar og gæftir tregar. Best var þó á Austfjörðum. Við lítum á álit nokkurra veðurathugunarmanna:
Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Janúarmánuður var einn sá erfiðasti sem menn muna, miklar snjókomur og aftaka rok, sem hafa valdið slysum og tjóni á sjó og landi. Hér í grenndinni urðu sama og engar skemmdir í mikla rokinu þ. 5. Fuku aðeins nokkrar járnplötur af þökum.
Flatey (Eyjólfur E. Guðmundsson): Þann 6. fauk þak af fjósi og hlöðu hér í Flatey í stórviðri. [6. Veðurhæð sennilega allt að 12. Mesti éljagangur er getur verið]
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Það hefir verið stórgert tíðarfar og breytilegt. Hér hefir allstaðar verið jafn jarðlaust allan mánuðinn. Eins á þeim jörðum sem vanalega er úthýst. Fyrst var djúp fönn, en svo gerði blota og allt hljóp í gadd. Það var svo að rjúpur voru hér heim að bæ, sem er óvanalegt.
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíðarfar var umhleypinga- og stormasamt með tíðum hríðarbyljum og rokveðrum. Smáblotar komu við og við á milli bylja. Snjór allmikill og víðast hagbönn, en beitarveður engin þó snapir væru.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Stormasamasti mánuður sem ég man eftir. [5. Fauk allt sem fokið gat].
Þorvaldsstaðir (Haraldur Guðmundsson): [Þann 5. þessa mánaðar gerði hið mesta fárviðri af suðri en snerist svo til suðvesturs. Veður þetta olli sköðum og skemmdum á allmörgum stöðum hér í hreppi. Á Bakka fauk þak af fjárhúsi. Fylgdu með stafnar og stoðir og færði veðrið allt á sjó út. Á Bakkafirði fuku 2 bátar og brotnuðu. Á Lindarbrekku fauk fiskiskúr. Á Djúpalæk þak af hlöðu, járnplötur rauf víða af húsum. Rúður brotnuðu í íbúðarhúsum. Skemmdust víða þök á peningshúsum. Þá urðu og heyskaðar á nokkrum stöðum.
Gunnhildargerði (Anna Ólafsdóttir): Veðráttan hefir verið mjög breytileg og óhagstæð. [5. Hey fauk á nokkrum bæjum og gluggar brotnuðu víða í húsum, 9. Ægilegt óveður alla nóttina.]
Hallormsstaður (Páll Guttormsson): Í hvössu veðrunum um nóttina og morguninn þann 9.janúar og nóttina 25. janúar var svo hvasst hér að lá við að greinar slitnuðu af trjánum. Hvassasta veðrið í mánuðinum var hér 5.janúar af suðaustri. Af völdum þess urðu skemmdir hér á Héraði. [5. Járnþak fauk af hesthúsi í Vallanesi. Þakið fauk út á Fljót].
Teigarhorn (Jón Lúðvíksson): Janúar má teljast fremur góður, hagar ágætir.
Janúar byrjaði með kulda og snjóum, síðan kom sérlega erfiður kafli, ein mesta illviðrasyrpa sem við þekkjum. Í þremur eldri pistlum var henni skipt á sex veður (fylgið tenglunum). Það fyrsta þann 4. af suðaustri, næsta (og versta) þann 5. af suðaustri og síðan suðvestri, það þriðja 6.-7. af suðvestri (má telja sama veðrið). Í kjölfarið fór gríðarlega kröpp lægð hratt norður með Austurlandi þann 8. (fjórða veðrið), önnur fór svo hjá þann 10. (en veigaminni) og loks kom mikil lægð að landinu þann 12. og olli fyrst austanveðri, en síðan miklu vestanveðri daginn eftir.
Mikið snjóaði um og fyrir áramót og byrjaði árið 1952 með ófærðarfréttum. Takið eftir því að Hellisheiði var kolófær lengi og samgöngur við Suðurland lágu um Krýsuvíkurleiðina löngu og seinförnu. Tíminn segir frá 3.janúar:
Mjög mikill snjór er kominn víða austan fjalls, og eru flestar leiðir lokaðar vegna fannar, en snjóýtur eru að verki að ryðja hinar helstu leiðir. Er snjórinn mjög jafnfallinn, en hvessi, mun víða leggja mikla skafla á vegina. Átti fréttamaður frá blaðinu tal við þá Helga Ágústsson og Jón Ingvarsson á Selfossi í gær.
Mjólkurbílarnir frá Selfossi sem fóru til Reykjavíkur að morgni gamlársdags, komu ekki aftur austur fyrr en klukkan þrjú á nýársnótt eftir erfiða ferð um Krýsuvíkurveg. Var snjór mikill á leiðinni frá Selfossi út fyrir Selvogsheiði, en nú er búið að ryðja veginn upp í Hveragerði, og þrjár ýtur voru í gær á Krýsuvíkurvegi, ein í Krýsuvík, ein á leiðinni milli Krýsuvíkur og Selvogsheiði og ein í Ölfusi. Niðri í Flóa er minni snjór en í Ölfusi, en þó ófært til Eyrarbakka og Stokkseyri. Uppi í Biskupstungum og Skeiðum er mikill snjór, en þó enn meiri í Hreppum, þar sem hann er víða í kvið á hestum á jafnsléttu. Uppi í Tungum eru þrír mjólkurbílar, sem brotnað hafa í ófærðinni, en í allar þessar sveitir hefir þó verið brotist eftir mjólk með ýtuhjálp. Í Laugardalnum er snjór nokkuð minni. Í Rangárvallasýslu er snjórinn þó kannski hvað mestur sums staðar. Er þjóðvegurinn austur ófær með öllu, en í dag áttu ýtur að ryðja hann. Verða fjórar ýtur notaðar til þess, enda er þetta mikið verk, því að 110 kílómetra leið er austur að Skógum. Hliðarvegir, svo sem upp á Land og niður í Þykkvabæ, verður ekki hægt að ryðja að sinni.
Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Haglaust er nú með öllu hér í Mýrdalnum og er allmikill jafnfallinn snjór á jörðu. Illfært hefir verið bifreiðum vestur á bóginn.
Nú fór að gæta áhrifa næstu lægðar, byrjaði með skafrenningi og frekari ófærð áður en hlánaði. Tíminn 4.janúar:
Í gærkveldi [3.] mátti heita að öngþveiti ríkti í umferðinni á ýmsum vegum í nágrenni Reykjavíkur. Mikill skafrenningur hafði verið og fennt í slóðir, svo að bílar sátu víða fastir. Áætlunarbílar Hafnarfjarðar áttu í erfiðleikum og litlir bílar sátu fastir sem hráviði á Hafnarfjarðarveginum og nálægum vegum. Áætlunarbíllinn til Vífilsstaða, sem fór úr bænum kl. átta í gærkveldi varð að snúa við og komst í bæinn laust eftir kl. 10 aftur. Um kl. 10 var leitað aðstoðar Slysavarnarfélagsins vegna bíla á Hafnarfjarðarveginum og nágrenni, og sendi það stóra bifreið með drifi á öllum hjólum til að tína fólk upp úr smábílum, sem sátu fastir. Hafði sumt fólk orðið að sitja þar lengi. Einnig voru miklir örðugleikar í umferðinni i útjöðrum bæjarins.
Morgunblaðið segir frá sama dag, 4.janúar:
Færð á vegum hér sunnanlands var enn mjög erfið í gær. Krýsuvíkurleiðin var sú eina, sem opin var austur í sveitir, en þar var þó þungfært á köflum. Þá var og allmikill snjór á vegum á Suðurlandsundirlendi, og voru mjólkurflutningar til Flóabúsins erfiðleikum bundnir. Í gær var enn ófært fyrir Hvalfjörð, og í gærkvöldi var búist við að Keflavíkurleiðin myndi lokast og féll síðasta áætlunarferðin þangað niður. Ekki er þó ósennilegt að hægt verði að gera þá leið færa aftur í dag, ef ekki snjóar eða skefur því meira.
Þegar blöðin komu út þann 5. var aðalillviðrið ekki byrjað, og áfram var haldið með ófærðarfréttir. Tíminn 5.janúar:
Einkafrétt Tímans úr Holtum. Miklar samgöngutruflanir hafa orðið hér í Rangárþingi, eins og víðar á Suðurlandi, vegna snjóalaga, og bifreiðarstjórum reynst harla örðugt að brjótast áfram í ófærðinni. Í fyrradag voru þrjár ýtur að ryðja snjó af þjóðvegum frá Þjórsá og austur yfir, en í fyrrinótt fyllti slóðina aftur, svo að hálfu verra var en fyrr.
Síðan kom að illviðrinu mikla þann 5. Eru fregnir af því langur listi mannskaða og tjóns á mannvirkjum, skipum og samgönguerfiðleikum. Styttra yfirlit um tjón má lesa í fyrri pistli. Tíminn segir frá 6.janúar:
Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk hjá Veðurstofunni síðdegis í gær skall á austan og suðaustanveður mikið síðla nætur í fyrrinótt. Um kl. fimm í fyrrinótt var veðurhæð orðin 13 vindstig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og var þá um 11 vindstig í Reykjavík og víða sunnanlands og austan. Í gær morgun lægði veður hér í Reykjavík nokkuð og snerist vindur til sunnan og suðvestan áttar. Var þá orðið frostlaust um allt land. Vindhraðinn varð um 160 km á klukkustund eða 85 hnútar og er það mjög óvenjulegt hér á landi.
[Vélskipið Eldborg lá við bryggjuna í Borgarnesi og slitnaði frá henni og lenti upp í fjöru] .Eldborg hefir undanfarnar vikur verið í dráttarbraut í Reykjavík til gagngerðs eftirlits og viðgerðar. Nú var þessari viðgerð lokið. Fór það frá Reykjavík heim til Borgarness í fyrradag og kom þangað í fyrrakvöld. Stóð til að það tæki þar útbúnað svo sem skipsbáta og fleira er útgerðinni heyrir til og geymt var í Borgarnesi meðan skipið var til viðgerðar í dráttarbrautinni. Eldborgin lá við hafskipabryggjuna í fyrrinótt, eins og venja er til í Borgarnesi, þegar skip eru þar um nætursakir. Í gærmorgun voru nokkrir skipverja um borð í Eldborg, þótt ekki væri hægt að vinna vegna veðurofsans. Með flóðinu tók aftur að hvessa, en aftakaveður hafði verið um nóttina og lægt heldur með morgninum. Nokkru fyrir kl. 11 var komið háflóð eitt með mestu stórstraumsflóðum er koma í Borgarnesi [þó var smástreymt]. Vindur stóð þá inn Borgarfjörðinn og jók það mjög á flóðið. Kalla Borgnesingar það áhlaðanda þegar þannig stendur á. Var svo komið, er flóðið var hæst, að ekki stóð nema um hálfur metri upp úr af bryggjunni en sjórinn gekk yfir hana viðstöðulítið í brimi og særoki. Þegar þannig var komið slitnaði Eldborgin skyndilega frá bryggjunni, og rak hana stjórnlaust frá. Skipti það engum togum, að skipið rak á land, án þess að nokkuð væri hægt að gera til hjálpar. Rak Eldborgina yfir sandeyri, sem er innan við Brákarey, og út á sundið milli Brákareyjar og lands. Flaut skipið yfir eyrina, sakir hins mikla flóðs og rak upp í fjöru neðan við mjólkursamlagið. Liggur Eldborgin þar hátt uppi í fjöru um 30 metra framan við dyr mjólkursamlagsins og snýr stefni upp í fjörubakkann, og stendur á þurru um fjöruna. Skipið virðist ekki vera skemmt að ráði og ekki í yfirvofandi hættu, þar sem það liggur í leirborinni sandfjöru. Öldubrot ná heldur ekki að ráði þarna inn á voginn, innan við Brákarey. Hins vegar getur reynst erfitt að ná skipinu út, sökum þess hve hátt var í sjó, er það rak upp. Eins og áður er sagt voru flestir skipverjar um borð í Eldborg, er skipið slitnaði frá bryggjunni. Losnaði það fyrst að aftan og sló því flötu og slitnaði þá einnig að framan og rak frá landi. Var það rétt að komast undir brúna milli Brákareyjar og lands, er skipverjum tókst að koma vélinni í gang. Tókst þeim þá að beina skipinu vestur frá klettunum og Brákareyjarbrúnni og lenti það upp í fjörunni framan við mjólkursamlagið. Stefni Eldborgar yfir götu í Borgarnesi Í gær mátti ganga kringum skipið á fjörunni. Stefni þess vissi á land og gnæfði yfir eina af fjölförnustu götu bæjarins, sem liggur með sjávarbakkanum fyrir framan mjólkursamlagið. Í gær var unnið að því í fjörunni að koma taugum í Eldborg að aftan, til að reyna að koma í veg fyrir það, að skipið berðist til, ef hreyfing kæmist einhver á það á flóðinu í nótt sem ekki er þó talið líklegt.
Í gær slitnaði vélbátur upp á legunni á Hólmavík og rak hann fyrir vindi og sjó, uns hann strandaði, sennilega norðan Steingrímsfjarðar í grennd við Hellu eða þar um bil, eftir vindstöðu að dæma.
Einkafrétt til Tímans frá Hvolsvelli í gær. Aftakaveður gerði hér síðastliðna nótt og hafa orðið ýmsir skaðar en þeir mestir, að þak hefir tekið með öllu af íbúðarhúsi og að mestu af tveim hlöðum. Snemma í morgun tók þakið af íbúðarhúsinu á Kanastöðum í Austur-Landeyjum. Tók þakið af að mestu í einu lagi. Þar býr Diðrik Sigurðsson og var íbúðarhúsið nýlega byggt steinhús með járnþaki. Tók af bæði járn og súð. Fólkið reynir þó að búa á neðri hæð hússins. Á Kanastöðum tók einnig þak af hlöðu að mestu, en heyskaði varð lítill. Hjá Óskari bónda Sæmundssyni í Garðsauka i Hvolhreppi tók einnig að mestu þak af heyhlöðu, en heyskaði varð ekki teljandi þar heldur. Allvíða hér um slóðir mun vera um smáskaða að ræða á húsum og verkfærum, en þó mun víðast hvar hafa tekist að bjargá frá stór tjóni. Er veður þetta eitthvert hið mesta, sem hér hefir komið lengi.
Í fárviðrinu urðu miklar skemmdir á húsum víða um byggðir Borgarfjarðar og Mýrasýslu. Einkum eru það þök útihúsa, og hlutar af þeim, sem fokið hafa. Í gær hafði fréttaritari Tímans í Borgarnesi spurnir af því, að þak hafði með öllu fokið af fjósi í Álftatungu og af hlöðu í Álftárósi á Mýrum. Hluti af þaki Hvanneyrarskólans fauk. Þá var vitað um, að þök hefðu fokið af húsum á Hvítárbakka, Hvanneyri, Bæ og fleiri bæjum i Andakílshreppi, ennfremur í Reykholtsdal og í Skorradal að Grund og Vatnsenda.
Einkafrétt Tímans úr Holtum. Hér um vesturhluta Rangárvallasýslu var geysilegt fárviðri, og hafa menn víða um byggðir verið á verði síðan snemma í morgrun til þess að forða tjóni, festa þök, sem farin voru að láta á sjá og annað þess háttar. Samt sem áður hefir sums staðar orðið tjón. Hjá Ólafi bónda Markússyni í Bjóluhjáleigu fauk þak af hlöðu og viðbyggður skúr, allt í heilu lagi, þakið og skúrinn. Missti hann 4050 hestburði af heyi. Í Bjólu vildi það til happs, að menn voru viðstaddir, er þakið á fjósinu var í þann veginn að losna, og tókst að bjarga því. Í Kálfholti hjá Ásgeiri bónda Jóhannssyni fauk mikill hluti af húsþaki, og þar fauk einnig þak af votheysgryfju. Að Þjórsártúni sleit einnig járn af húsþökum. Víða eystra hafa verið truflanir á rafmagni, sökum þess að línum hefir slegið saman, en algerðar bilanir á línum eru ekki í vesturhluta Rangárvallasýslu, nema í austurhluta Þykkvabæjar. Þar var rafmagnslaust í gær. Víða hafa bifreiðir farið út af vegum.
Fregnir úr sjávarþorpunum i Árnessýslu voru óljósar í gær, þar sem símalínur þangað voru bilaðar og litlar samgöngur þaðan upp yfir vegna veðursins. Í gær var stórstraumsflóð [ekki rétt], og þegar við þættist ofsastormur af hafi, er ekki að undra þótt sjór gengi á land. Hafrótið var líka svo mikið, að sjávardrif gætti á gluggarúðum og bílrúðum alla leið upp að Selfossi. Hefir því brim verið óskaplegt. Óstaðfestar fregnir voru af því í gær, að þegar klukkan ellefu, tveimur tímum fyrir háflóð, hafi sjór verið tekin að flæða upp á göturnar á Stokkseyri, og litlu síðar hafi verið tekið að renna inn í kjallara húsa á þeim svæðum, þar sem lægst er og aðrennsli mætir minnstri fyrirstöðu.
Í Hveragerði urðu nokkrar skemmdir á gróðurhúsum þar eð víða brotnaði nokkuð af gleri í ofviðrinu. Stórvægilegar munu þær skemmdir þó ekki hafa verið.
Morgunblaðið segir einnig frá 6.janúar:
Fárviðri hið mesta, sem komið hefur hér á landi á þessum vetri, gekk yfir Suðvesturland í fyrrinótt og gærdag. Sex bátar voru á sjó er stórviðrið skall á. Voru tveir þeirra ókomnir að landi í gærkvöldi. Á háspennulínunni frá Sogi varð bilun. Þá brotnuðu staurar í háspennulínunni til Hafnarfjarðar og þar með urðu Suðurnesin rafmagnslaus. Þegar veðurofsinn var mestur, komst veðurhæðin upp í 14 vindstig. Illstætt var á götum bæjarins. Fjöldi fólks fékk slæma byltu, því að víða var flughálka á götunum. Þrjár konur meiddust, svo að þær voru fluttar í sjúkrahús. Bærinn var svo til hitaveitulaus í gær. Miklar truflanir urðu á samgöngum, einkum þó við úthverfin, en ferðir féllu niður í sum þeirra. Veðrið skall á milli klukkan þrjú og fjögur í fyrrinótt. Var þá slydduhríð, en þar eð vindur var suðaustanstæður, gerði brátt rigningu.
Með því að vindur fór ört vaxandi tók brátt að bera á rafmagnstruflunum vegna samsláttar á háspennulínunni, en um kl.5 varð skyndilega straumrof. Háspennulínan að Sogi hafði bilað. Þá var Hafnarfjörður og Suðurnesin orðin rafmagnslaus fyrir nokkru, en veðurofsinn hafði brotið staura í háspennulínunni, einnig Kópavogurinn. Rafmagn kom á aftur hér í Reykjavík um klukkan sex. Það rafmagn var frá Eimtúrbínustöðinni og Elliðaárstöðinni. Varð eðlilega að taka upp rafmagnsskömmtun milli íbúðarhverfanna, en hvert þeirra hafði rafmagn í tvær til þrjár klukkustundir í senn. Vegna veðurs var ógerlegt að fást við viðgerð á háspennulínunni í gærdag. Víða biluðu rafmagnslínur í úthverfum. Afleiðingar rafmagnsleysisins urðu margvíslegar, svo sem jafnan. Dælustöðvar Hitaveitunnar urðu óvirkar, en þá tæmdust geymarnir á Öskjuhlíð. Urðu lítil sem engin not af heitavatninu í gær. Eldamennska mun meira og minna hafa farið út um þúfur vegna rafmagnsleysisins. Skemmtunum var aflýst víða í samkomuhúsunum.
Strax með morgni tóku lögreglunni að berast tilkynningar um skemmdir af völdum veðurofsans á húsum og mannvirkjum. Þakplötur.tók af mörgum húsum, bæði gömlum og nýjum. Óhugsandi var að senda menn upp á húsþök, því að slíkt var lífshættulegt. T.d. voru íbúðarhús við Eiríksgötu í hættu, er þakplötur tók af þvottahúsi Landsspítalans. En betur fór en á horfðist. Plöturnar fuku ekki svo langt að þær lentu á húsunum. Reykháfur á hús einu við Hverfisgötu hrundi, en slys varð ekki á vegfarendum. Suður í Skerjafirði og víðar um bæinn tók þakplötur af, rúður brotnuðu í gluggum, grindverk og flaggstengur brotnuðu og við Iðnskólabygginguna brotnuðu háir vinnupallar. Suður í Kópavogi urðu skemmdir á húsi, sem er 1 smíðum. Það losnaði af grunni, Því var lagt við ankeri". Miklar truflanir urðu á samgöngum, með því að tíu strætisvagnar á utanbæjarleiðum runnu út af flughálum vegunum, er stórviðrisbyljir skullu á þeim. Slys urðu ekki á farþegunum. Á götum bæjarins var illstætt milli kl. 10 og 11:30, en þá mun veðurhæðin hafa náð hámarki, 14 vindstigum. Neðst í Bankastræti var flughálka og greip þá lögreglan til þess besta ráðs, er völ var á. Kaðall var strengdur fyrir vegfarendur að halda sér í. En lögregluþjónar voru þar og víða annarsstaðar á götunum, fólki til hjálpar. Vindbyljirnir skelltu stórum og stæðilegum mönnum í götuna, hvað þá heldur ungum stúlkum og eldri konum. Fengu margir slæma byltu og sumir lítilsháttar meiðsl. Sjúkraliðsmenn fluttu þrjár konur í Landsspítalann, er allar höfðu slasast í fárviðrinu. Ólöf Jónsdóttir, Vesturgötu 58, hafði skollið í götuna og lærbrotnað. Ólöf er fullorðin kona. Eins varð Auður Einarsdóttir, Sörlaskjóli 92, fyrir því slysi að vindhviða skellti henni á grindverk. Skaddaðist hún á brjósti og víðar. Auður er einnig fullorðin. Í byggðinni Blesugróf við Elliðaár fauk ung stúlka, Jórunn Oddsdóttir, á ljósastaur og skaddaðist hún í andliti. Skömmu eftir hádegi fóru lögreglumenn upp í Selásbyggð fólki til hjálpar þar, en plötur fuku þar af nokkrum húsum. Þar uppfrá fóru lögreglumenn sjö manna fjölskyldu til hjálpar og flutti hana hingað til bæjarins, þar eð hús hennar var ekki lengur íbúðarhæft. Snemma í gærmorgun hafði járnið af þaki hússins sópast burtu og um leið þyrlaðist allt stopp undir járninu út í veður og vind. Út um rifurnar í loftinu í stofu heimilisfólksins mátti sjá stjörnurnar þegar rofaði til milli byljanna. Börn hjónanna eru 5 að tölu á aldrinum 10 til hálfs annars árs. Nokkru eftir að lögreglumenn höfðu komið með fólkið á lögreglustöðina, lét varðstjórinn færa því heitt kaffi og mjólk. Lögreglan flutti fjölda fólks í úthverfin meðan strætisvagnar gátu ekki haldið uppi ferðum í úthverfin. Skátar aðstoðuðu lögregluna. Sendiferðabifreiðin, sem var á leið frá hænsnahúsi vestur á Seltjarnarnesi, hlaðin eggjum, hvolfdi, fór heila veltu, kom á hjólin aftur og skemmdist lítið sem ekkert. Bifreiðastjórinn fékk hins vegar eggjafarminn yfir sig en slapp ómeiddur. Kom hann út úr bílnum eins og lifandi eggjakaka, útataður eggjahvítu og eggjarauðu. Stórtíðindalaust er hjá okkur sögðu hafnsögumenn í símtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.
Tveir vélbátar slitnuðu í gærmorgun upp. Þeim var bjargað áður en skemmdir urðu á þeim. Á Kleppsvík liggja fjórir gamlir togarar. Þeir höfðu allir dregið legufærin. Tveir þeirra, Tryggvi gamli og Þórólfur, höfðu dregið legufærin svo, að þeir voru farnir að skellast saman. Þá bárust fregnir um að togari væri rekinn upp í Geldinganes, Vegna særoks var skyggni inn á Eiðisvíkina frá Kleppi mjög slæmt. Þó töldu menn sig ekki hafa greint þaðan togarann Helgafell frá Vestmannaeyjum, sem þar hefur legið við festar. Hann rak upp í fyrravor í Gufunes. Þegar kom fram yfir hádegi fór veðurhæðin minnkandi. Mátti þá sjá menn á húsþökum við að festa plötur. Eftir því sem á daginn leið, varð vindur vestanstæðari og með 89 vindstigum, en meira í hryðjunum því með snörpum hryðjum gekk er komið var að miðaftan.
Borgarnesi, 5. janúar. Stórviðri geisaði hér um allt héraðið í dag. Vélskipið Eldborg, sem lá við bryggju í Borgarnesi, slitnaði frá henni um ellefuleytið og rak upp í fjöru skammt frá mjólkur1 samsölunni. Eftir því sem næst verður komist, er skipið lítið brotið, en líkur eru til að erfiðleikum verði bundið að ná því á flot aftur, svo hátt hefur það borist á land upp. Heyrst hefur um stórskaða viða upp um Borgarfjarðarhérað, en fregnir eru óljósar þaðan vegna þess hve símasambandið hefur verið slæmt. Vitað er um að þök hafa tekið af gripahúsum og miklar skemmdir hafa víða verið á gróðurhúsum eins og t.d. í Bæjarsveit. Í Borgarnesi gekk sjór alveg yfir bryggjuna og sá ekki í hann. Lágstreymi er nú, en flóðið var meira en mesta hástreymisflóð.
Hafnarfirði, 5. janúar. Í ofviðrinu í fyrrinótt slitnaði togarinn Faxi upp, þar sem hann lá á legunni í Hafnarfirði, en hann er einn af gömlu togurunum. Til hans hefur ekkert spurst og ekki rekið neitt úr honum í nágrenninu svo vitað sé. Sennilegt er talið, að hann hafi rekið út úr firðinum. Vindur var mjög austanstæður fyrst eftir að hvessti um nóttina. Með morgninum snerist vindur til suðvestan áttar og gerði þá mikinn sjógang í höfninni í Hafnarfirði og jafnframt var afspyrnuveður. Vélbáturinn Guðbjörg slitnaði þá frá bryggju og rak upp að grjótuppfyllingunni fyrir sunnan syðri bryggjuna. Hásjávað var og lagðist báturinn alveg upp að uppfyllingunni svo hægt var að ganga út í hann. Það vildi svo vel til, að togarinn Júlí lá við syðri bryggjuna. Var komið fyrir vír frá honum í Guðbjörgu og hún dregin þannig út aftur. Ekki er vitað, hve mikið báturinn skemmdist, en leki kom ekki að honum. Fleiri bátar munu hafa brotnað eitthvað við bryggjurnar.
Í fárviðrinu í fyrrinótt og í gær, brotnaðu alls 45 háspennulínustaurar. Um 60 starfsmenn Rafmagnsveitunnar voru að störfum í gærkveldi við viðgerðir á raftaugakerfunum sem urðu fyrir skemmdum í veðrinu. Háspennulínan frá Sogi bilaði þar sem hún liggur við botn Grafarvogs. Slitnuðu þar 2 vírar af þrem. Þegar fór að draga úr veðrinu í gærdag, fóru starfsmenn Rafmagnsveitunnar á staðinn. Fyrr um daginn, höfðu þeir gengið meðfram línunni, þó illstætt væri og kannað hana. Um kl. 10 í gærkveldi munu þeir hafa lokið viðgerðinni. Skammt frá þessum stað, upp við tilraunabúið að Keldum, brotnaði staur í háspennulínunni, en frá þessari línu fær dælustöðin að Reykjum í Mosfellssveit rafmagn. Stóðu vonir til að viðgerð yrði lokið með morgni í dag, en vinna þurfti í alla nótt. Kl. 8:30 í gærkveldi, var lokið viðgerð á háspennulínunni til Hafnarfjarðar. Um klukkan 3 í fyrrinótt brotnaði einn stauranna, en háspennulínan sjálf varð fyrir skemmdum á sex stöðum, vírarnir slitnuðu og drógust til. Mestar skemmdir urðu á Vífilstaðaháspennulínunni en frá henni fær Vífilsstaðahæli og Kópavogsbyggð rafmagn, 26 staurar brotnuðu. Bráðabirgðaviðgerð verður hraðað eftir því sem unnt er. En langan tíma mun taka að setja nýja staura í stað þeirra brotnu. Loks brotnuðu 11 staurar á Lögbergslínunni, en frá henni fær Selásbyggð rafmagn. Viðgerð á henni til bráðabirgða verður eðlilega hraðað eins og föng eru á.
Seint í gærkvöldi bárust þær fregnir hingað til Reykjavíkur, að breskur togari hefði strandað í Önundarfirði. Óvíst var þá um mannbjörg. Veður var allhvasst, sjö til átta vindstig, að því er talið var, með snörpum éljum. Hinn breski togari heitir Barry Castele og er frá Grimsby. Skipstjórinn virtist hinn rólegasti, er hann talaði við togara, er komnir voru á strandstað, en þeir gátu víst ekkert aðhafst mönnunum á hinum strandaða togara til hjálpar.
Tíminn fer að segja frá tjóni víðar um landi í pistli 8.janúar:
Einkaskeyti til Tímans frá Akureyri. Fárviðri af suðvestri geisaði hér á laugardaginn [5.] og er það talið eitt hið mesta í manna minnum. Jafna Svarfdælir því við kirkjuveðrið 1901, er Urða- og Upsakirkjur fuku og talið hefir verið til algerðra aftaka. Margháttaðir skaðar hafa orðið og slys á mönnum. Á Svalbarðsströnd fúk þak af sundlaug sem þar hefir verið komið upp og stafnar brotnuðu. Á Leifsstöðum fauk hluti af þaki á fjósi. Í Höfðahverfi urðu heyskaðar að Skarði og Grund og þak fauk af hlöðu á Bárðartjörn.
Í framsveitum Eyjafjarðar urðu þessir skaðar: Á Æsustöðum fuku 100 hestburðir af útheyi. Járnþök fuku af útihúsum að Möðrufelli og Merkigili. Heyskaðar urðu að Villingadal, Finnastöðum, Jódísarstöðum og ef til vill víðar, en hvergi talið mikið tjón. Í Svarfaðardal varð heyskaði að Hvarfi og þök fuku af útihúsum að Urðum og Ytra-Garðshorni. Í Dalvík fauk 340 fermetra bráðabirgðaþak af verslunarhúsi KEA, sem var í smíðum, og lenti það í heilu lagi á hafnaruppfyllingunni og mölbrotnaði. Í Hrísey fauk þak af hlöðu. Í Fnjóskadal varð nokkurt heytjón. Hálft þakið fauk af íbúðarhúsinu á Stóru-Völlum í Bárðardal og sömuleiðis járn af íbúðarhúsinu að Vatnsenda í Ljósavatnsskarði. Skemmdir urðu á gróðurhúsum á Hveravöllum í Reykjahverfi og verulegir heyskaðar í Kinn, Reykjadal, Aðaldal, Kelduhverfi og á Framengjum hjá Mývetningum.
Einkaskeyti til Tímans frá Þórshöfn. Um hádegi á laugardaginn gerði hér ofsarok af suðvestri og rak þá 4 land þrjá þilbáta af höfninni. Þrír opnir bátar, sem lágu á höfninni sukku allir, og aðeins einn bátur, sem þar var stóðst óveðrið. Í ofviðrinu urðu einnig allmiklar skemmdir aðrar. Stórt stykki tók sjórinn úr trébryggju hér á Þórshöfn, og skemmdir hafa orðið á nokkrum húsum hér í kauptúninu. Þá hafa einnig orðið nokkrir skaðar á heyjum hér í Þórshöfn og í nágrenninu, en sem betur fer er ekki vitað um! neitt manntjón hér um slóðir.
Einkaskeyti til Tímans frá Búðardal í gær. Undanfarna daga hefir verið hér hvassviðri á sunnan og suðvestan og í dag er hér bylur, hvassviðri og mikil snjókoma. Aðfaranótt sunnudagsins fauk hluti af heyhlöðuþaki á Háafelli og helmingur af þaki á íbúðarhúsi á Fellsenda og nokkrar járnplötur tók af þaki íbúðarhúss á Breiðabólstað. Allir þessir bæir eru í Miðdalahreppi. Símasamband er sæmilegt innan héraðs eftir óveðrið.
Í ofviðrinu á laugardaginn fauk þak af hlöðu í Hagavík í Grafningi, og að Nesjavöllum í Grafningi urðu allmiklar skemmdir á gróðurhúsi. Munu um 100 rúður hafa brotnað.
Einkaskeyti til Tímans frá Vopnafirði. Í ofsaroki, sem gerði hér um Vopnafjörð á laugardagskvöldið, fuku þök af tveimur fjárhúsum að Fagradal, og margar rúður brotnuðu úr íbúðarhúsunum. Að Hámundarstöðum fauk bátur og brotnaði, og í Ytri-Hlíð sviptist hluti af þaki af fjárhúsi. Auk þess brotnuðu víða rúður í veðrinu.
Frá fréttaritara Tímans á Hólmavík. Nokkrar skemmdir urðu hér um slóðir í veðrinu á dögunum. Að Smáhömrum og Hrófá fuku þök af fjárhúsum og í Hólmavík og víðar sleit járnplötur af húsþökum.
Morgunblaðið segir einnig frá 8.janúar:
Akranesi, 7. janúar: Um kl.6 á sunnudagskvöld [6.] kom vélbáturinn Sigrún hingað til Akraness, i fylgd með varðskipinu Þór. Hafði báturinn lent í miklum hrakningi fárviðrinu og laskast mjög. Þrisvar riðu brotsjóir yfir bátinn, sem er 65 brúttólestir. Tveir skipverjar höfðu meiðst. Einn hafði tekið út, en honum tókst að halda £ér á sundi í stórsjó uns skipsfélögum hans tókst að bjarga honum.
Hinir óvenjulegu langvarandi stormar hafa valdið víðtækum bilunum á talsímakerfi landsins. Í gærkvöldi var sambandslaust við mikinn hluta landsins. Aftur á móti var ritsímasamband við allar helstu ritsímasambandsstöðvarnar á landinu. Á Norðurlandi var talsímasamband við Blönduós, en sambandslaust við allar símastöðvar þar fyrir austan, Sauðárkrók, Siglufjörð, Akureyri, Húsavík og Raufarhöfn. Þá var talsímasambandslaust við Austfirðina, frá Reykjavik. En línan milli Víkur í Mýrdal og Seyðisfjarðar var í lagi er síðast fréttist. Símasamband var við Selfoss en ekkert samband við stöðvarnar þar fyrir austan, nema þá að Minni-Borg og tveim öðrum smástöðvum. Þá rofnaði talsímasambandið við Ísafjörð og miklar truflanir á Barðastrandarlínunni, en um Hrútafjarðarstöðina var samband til Stykkishólms. Vegna rafmagnstruflana var stundum talsímasambandslaust við Vestmannaeyjar í gær. Ekki er kunnugt um enn hve alvarlegar bilanir um er að ræða, hvort heldur eru brotnir staurar eða víraslit. Hefur veður hamlað að viðgerð hafi getað farið fram.
Húsavík, 7. janúar. Óveðrið, sem fór yfir landið s.l. laugardag, olli engum skemmdum sér í Húsavík, en í sveitunum hér í kring, urðu skemmdir á húsum og hey fuku. Mestu skaðar munu hafa orðið á Hjalla í Reykjadal, en þar fuku 70 vættir af heyi og í Stafni 40 vættir. Járnplötur fuku víða af húsþökum. T.d. mun allt járnið af prestsetrinu að Vatnsenda í Ljósavatnsskarði hafa fokið. Í Mývatnssveit fauk eitthvað af heyjum og járnplötur tók af húsþökum. Skaðar á mönnum og skepnum munu ekki hafa orðið. Rafmagnslítið hefir verið frá Laxárvirkjuninni sökum vatnsskorts, og hefir rafmagn verið skammtað í dag, þannig, að bærinn hefir verið alveg rafmagnslaus á tveggja tíma fresti. Fréttaritari.
Rétt í þann mund er fréttalestur skyldi hefjast í hádegisútvarpinu í gær, þagnaði Útvarp Reykjavik skyndilega. Loftnetið fyrir stöðina á Vatnsendahæð bilaði. Við athugun á því kom í ljós, að fjórir vírar höfðu snúist saman og brunnið sundur og slitnað. Þurfti því að taka loftnetið niður úr þeirri hæð, sem það er í, 140 m, til þess að framkvæma viðgerðina. Tók það verk þrjár klst. Um bráðabirgðaviðgerð var að ræða, en verkið var unnið við hinar erfiðustu aðstæður, því þar efra var miklu hvassara en hér í Reykjavík, svo illstætt var fyrir viðgerðarmennina.
Blönduósi, 7. janúar. Í fyrrinótt var mikil snjókoma og rok hér um slóðir, en ekki hefir snjóað mikið í dag. Þó hefir gengið á með éljum. Snjór er nú orðinn allmikill. Skemmdir hafa ekki orðið hér teljandi, en leiðindaveður.
Síðastliðinn sunnudagsmorgun urðu menn þess varir í Borgarfirði, að togarinn Faxi, sem slitnaði upp af legunni í Hafnarfirði aðfaranótt laugardags, var þar lentur á Rauðanesi, sem er vestan fjarðarins nokkru utar en Borgarnes. Stóð togarinn þar á sandrifi á réttum kili. Var ekki hægt að sjá, að hann væri hið minnsta skemmdur, að minnsta kosti ekki ofansjávar. Þegar togarinn slitnaði upp, hefir hann rekið í suðaustanáttinni út úr Hafnarfirði og verið kominn út í Flóa, þegar snerist til suðvestan áttar. Þá hefur hann hrakið undan veðrinu upp í Borgarfjörð. Það þykir undrum sæta, hvernig togarinn hefir komist stjórnlaust á sandfjöruna þar, sem hann er, þar sem siglingaleiðin inn Borgarfjörð er hættuleg öðrum en kunnugum. Á leiðinni þangað hefir hann sneitt hjá fjölda skerja og grynninga. ... Faxi liggur alllangt frá landi, en aðgrunnt er þarna og víða klettótt. Eftir að hann strandaði fyrst, hefir hann færst nokkuð nær landi. Gefur það til kynna að skipið sé létt og litill leki sé kominn að því. Ekki er viðlit að komast út í Faxa meðan stormur er af þessari átt og sjórinn gengur hátt á land, en ósennilegt er ekki að ganga mætti út í hana á fjöru við venjulegar aðstæður.
Akureyri, mánudag. Afspyrnurok af suðvestri gekk yfir Akureyri og Eyjafjörð 5. janúar s.l. Veðurhæð mun hafa verið um 1012 vindstig. Urðu ýmsar skemmdir hér: Loftnet eyðilögðust og fánastengur brotnuðu. Bifreiðir fuku og járnplötur af húsum. Hluti af þaki á hinu nýja húsi prentverks Odds Björnssonar, fauk. Má því búast við, ef rigning kemur, að pappírsvörur skemmist þar, ef ekki tekst að gera við skemmdirnar sem fyrst. Hér var um bráðabirgðaþak að ræða. Nálægt mótum Eyrarlandsvegar og Spítalavegar, rétt austan við Lystigarð bæjarins, fauk stór yfirbyggð bifreið út af veginum og valt niður fyrir brekkuna, sem er allhá og staðnæmdist á bak við húsið 47 í Hafnarstræti. Í bifreiðinni voru Bragi Eiríksson, forstjóri Dagverðarverksmiðju og synir hans tveir Böðvar 13 ára og Eiríkur á þriðja ári. Komst Bragi og eldri sonurinn út á leiðinni, en hinn drengurinn fór alla leið niður. Sakaði hann þó ekki. Þeir feðgar voru fluttir í sjúkrahús, en drengirnir síðan heim til sín, þar sem meiðsli þeirra voru lítil. Bragi er aftur á móti enn í sjúkrahúsi. Er hann meiddur neðarlega á baki. Í Grafarholti, sem er hús vestan Akureyrar, var ungur maður, Björn Þorvaldsson, staddur úti í skúr, sem fauk. Er Björn meiddur á höfði og baki og liggur í sjúkrahúsi. Öldruð kona, Filippia Kristjánsdóttir, Ránargötu í, er úti var í veðrinu, handleggsbrotnaði. Þetta veður mun vera eitt hið versta, er komið hefir hér um slóðir í mörg ár. Ennþá hafa litlar fréttir borist annars staðar úr héraðinu. H. Vald.
Í gærkvöldi gerðu menn sér litlar vonir um að Akranesbáturinn Valur væri enn ofansjávar, en hann var á heimleið er síðast spurðist til hans, nokkru eftir hádegi á laugardag. Leitarflokkur, sem gekk fjörurnar vestur á Mýrum, hefur fundið þar tvo bjarghringi er bera nafn bátsins, svo og brak. Valur fór í róður á föstudag [4.]. Er veðrið skall á aðfaranótt laugardags og bátar frá Akranesi, er á sjó voru, fóru að halda heim á leið, hafði Valur samflot við vélbátinn Ásmund.
Keflavík, 7. janúar Vatn kom hér aðeins í gærkveldi, en annars hefir verið vatnslaust hér síðan snemma á laugardag. Stafar það af því, að dælan, sem vatninu er dælt með upp úr vatnsbólinu, gengur fyrir rafmagni. Einnig eru margar olíukyndingar í húsum rafknúnar, þannig að þar er einnig engin upphitun. Hér er því allsstaðar rafmagnslaust og vatnslaust, en annað hvert hús óupphitað að segja má. Eitt frystihúsið hér í bænum hefir sér vatnsból. Ná nú margir í neysluvatn þangað.
Aðfaranótt sunnudags voru tveir bílar skildir eftir á Holtavörðuheiði, en 15 manns hafði dvalið þar í sæluhúsinu nær sólarhring áður en því tókst að brjótast sömu leið af heiðinni og það hafði komið. Áætlunarbifreiðin norður lagði af stað frá Akranesi á föstudag. Var komið í Fornahvamm þá um kvöldið og gist þar. Á laugardagsmorgun lagði Páll Sigurðsson í Fornahvammi á heiðina með farþegana. Á undan áætlunarbílnum fór snjóbíll, er var í Fornahvammi. Seint á laugardagskvöld komst fólkið í sæluhúsið á heiðinni, en þar stöðvaðist vél snjóbílsins og varð eigi lengra komist. Veðurofsinn var gífurlegur og sagðist Páll í Fornahvammi, sem alvanur er vetrarferðum á þessum slóðum, ekki hafa lent í öllu verra.
Enn voru fregnir af illviðrinu í Tímanum 9.janúar:
Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki. Allmiklir heyskaðar urðu hér í Skagafirði í veðrinu á dögunum og meira tjón á, mannvirkjum en áður hefir verið sagt frá. Að Reykjaborg féll niður gróðurhús. Að Reykjarhóli fauk þak af íbúðarhúsi og Reykjum á Reykjarströnd tættist þak af hlöðu og fjósi.
Að Skútustöðum í Mývatnssveit varð talsvert tjón í veðrinu um helgina. Reif járn af þökum, bæði af bæjarhúsum og útihúsum. Á Melgerðisflugvelli í Eyjafirði urðu talsverðar skemmdir í ofviðrinu. Eyðilögðust raflínur, flugskýli Flugfélags Íslands skemmdist og þak tók af geymsluhúsi, sem er í smíðum. Járn sleit einnig af bröggum.
Keflvíkingar búa enn við kertaljós og vatnsleysi. Varla til vatn í mat og kaffi og fólk hefir aðeins getað þvegið sér sér úr snjó.
Einkafrétt til Tímans frá Hofsósi. Tveir trillubátar á Hofsósi löskuðust af sjógangi í stórviðrinu á laugardaginn, og minni háttar skemmdir urðu á húsum, svo sem að rúður brotnuðu og pappa reif af.
Í ofviðrinu á dögunum fuku fjárhúshlöður að Efri-Brúnavöllum og Löngumýri á Skeiðum. Að Húsatóftum á Skeiðum fauk þak af hesthúsi og vindmyllur fuku að Andrésfjósum og Brautarholti, skólahúsi Skeiðamanna. Víða á Skeiðum voru mannvirki hætt komin. Að Galtafelli í Hrunamannahreppi fauk að nokkru leyti þak af fjósi.
Einkaskeyti til Tímans frá Kópaskeri. Talsverðir heyskaðar urðu hér um slóðir í ofviðrinu síðastliðinn laugardag og allvíða skemmdust þök á húsum. Hins vegar er snjór ekki mikill, og bílfært er um héraðið. Heyskaðarnir urðu einkum í Kelduhverfi, og munu þar hafa fokið um 350 hestburðir af heyi. Mest varð heytjón Jóns bónda Ólasonar í Garði, sem missti 100 hestburði, og Þórarins Jóhannessonar í Krossdal, sem missti 75 hestburði. Á Kópaskeri sukku tveir uppskipunarbátar í hinu mikla ölduróti, sem fylgdi þessu veðri. Í Öxarfirði og Presthólahreppi urðu hvergi stórskaðar af völdum veðursins.
Morgunblaðið segir einnig frá 9.janúar:
Akureyri, 8. janúar: Fregnir hafa nú borist hingað úr Eyjafirði um skemmdir af völdum óveðursins 5. þ.m. Á Dalvík fauk bráðabirgðaþak af verslunarhúsi KEA, 340 fermetra stórt. Tók það af í heilu lagi. Svarfaðardalur: Heytjón varð á Ytra-Hvarfi og skemmdir urðu á húsum á Urðum og Ytra-Garðshorni. Svalbarðsströnd: Þak fauk af sundlauginni á Svalbarðseyri, og sjór gekk yfir nýju hafnarbryggjuna þar, en hún er þó talin óskemmd. Fram-Eyjafjörður: Þar urðu víða heyskapur og skemmdir á peningshúsum. Um 100 hestar útheys fuku á Æsustöðum. Þá fauk járn af þökum að meira og minna leyti af útihúsum í Möðrufelli, Grund, Merkigili, Litlahamri og Öxnafellskoti. Heyskaðar urðu í Villingadal á Finnastöðum og Jódísarstöðum og sennilega víðar, enda þótt nánari fregnir hafi ekki borist enn. Höfðahverfi: Heyskaðar urðu á Skarði og Grund. Hlöðuþak fauk á Barðatjörn, og á Árskógssandi fauk árabátur út á sjó. Hrísey: Þak fauk af hlöðu, en annars mun veðrið ekki hafa verið eins mikið þar og hér innra. Sama er að segja um Möðruvallasókn og Hörgárdal. Á Melgerðismelum eyðilagðist ljósaútbúnaður vallarins. Skemmdir urðu á flugskýli, þak fauk af húsi í smíðum og einhverjar fleiri skemmdir urðu þar. H. Vald.
Siglufjörður, 8. janúar: Síðastliðinn laugardag brast hér á stórviðri af suðvestri, eitt með hörðustu veðrum sem hér koma. Veðurhæðin var mest um hádegisbilið. Var þá með öllu óstætt á götunum í mestu hryðjunum. Skemmdir urðu þó ekki tilfinnanlegar. Plötur tók af húsþökum og gluggarúður brotnuðu. Vitað er um einn mann, sem fótbrotnaði. Hann var í stiga utan á húsi sínu við að loka glugga, er vindhviða feykti stiganum með manninum um. Einn trillubátur sökk hér i höfninni við bryggju. Vegfarendur urðu að halda sér í staura og girðingar, þegar vindbyljirnir gengu yfir, en flughálka var á götunum. Á sunnudaginn bilaði háspennulínan frá Skeiðfossvirkjun, svo að bærinn hefur nú rafmagn frá síldarverksmiðjunum á meðan. Viðgerð mun fara fram strax og veður lægir og fært þykir. Guðjón.
Sauðárkrókur: Engar teljandi skemmdir urðu hér í fárviðrinu. Að Lundi, en þar býr Sigurpáll Árnason, garðyrkjubóndi, brotnuðu um 100 rúður í gróðurhúsi Talsvert mun hafa fokið af heyjum, en einkum urðu Hegranesbændur fyrir heytjóninu. Niður á láglendinu urðu litlar truflanir á mjólkurflutningunum hingað til Sauðárkróks, þrátt fyrir versta veður undanfarna daga. Jón.
Sauðárkrókur Um hádegisbil á laugardag, er fárviðrið náði hámarki hér um slóðir, mölvaði grjótfok margar rúður í húsi einu og börn skárust af glerbrotum. Þetta gerðist heima hjá Halli Jónassyni mjólkurbílstjóra, er býr skammt frá Varmahlíð. Grjótfokið buldi á suður- og vesturhlið hússins. Allar rúðurnar í gluggunum á þessum hliðum hússins brotnuðu. Við glerbrotin, sem öll fuku undan veðrinu inn í húsið, skárust tvö börn Halls bílstjóra allmikið á fótum. Þriðja barnið sakaði ekki og eins slapp móðir þeirra, sem var ein heima með þau, ómeidd. Var Hallur í mjólkurflutningi til Sauðárkróks er þetta gerðist. Konu hans tókst að koma boðum til hans um síma, hvernig komið væri. Var Hallur þá á Sauðárkróki. Brá hann þegar við, náði í héraðslæknirinn og flutti hann heim, en hann gerði að sárum barnanna. Jón.
Valdastöðum [í Kjós], 6. janúar: Í fyrrinótt gerði hér aftakaveður af austsuðaustri. Gekk síðan með morgninum í suðsuðvestur. Er þetta með meiri veðrum, sem hér hafa komið. Nokkurt tjón hefur það gert. Hér á Valdastöðum tók af þak á tveim kvistherbergjum og hefir ekki tekist að lagfæra það enn vegna veðurs. Í Eyjum fauk hey, sem búið var um úti. Eitthvað hefur fokið af járni af útihúsum á stöku stöðum. Hvergi mun mikið tjón hafa orðið það ég best veit. Rúður brotnuðu og sitthvað fleira gekk úr lagi. St.
Í fyrrinótt er viðgerð lauk á háspennulinunni til Hafnarfjarðar, en þá var komið fram undir morgunn, kom enn bilun í ljós. Varð Hafnarfjörður straumlaus klukkan rúmlega sex í gærmorgun [8.]. Var bærinn rafmagnslaus í allan gærdag. Við athugun kom í ljós fjórar bilanir á háspennulínunni. Voru það slit og einangrunarbilanir. Var auðvitað strax hafin viðgerð og unnið sleitulaust uns viðgerð var lokið um kl. 10 í gærkveldi. Höfðu þá verið gerðar ráðstafanir til að bræða allan sjó af vírunum. Þá hafa athuganir verkfræðinga Rafmagnsveitunnar leitt í ljós að sjávarselta hefur sest á háspennulínuna frá Sogi og eins til Hafnarfjarðar og hefur seltan haft í för með sér að bilanir hafa orðið í einangrun, þannig að skammhlaup hefur myndast. Fyrir miðnætti í nótt mun Keflavík hafa fengið rafmagn. Þá er enn unnið við Vífilsstaðarlínuna. Í fyrrinótt voru 15 staurar reistir. Kópavogsbyggð verður fyrsti áfanginn. Eins er unnið við Lögbergslínuna og miðar því verki allvel áfram. Lokið er til fulls viðgerð á Reykjalínunni.
Eins og áður sagði fór mjög kröpp og djúp lægð hratt til norðurs með Austurlandi þann 8. og aðfaranótt 9. Tíminn segir frá 10.janúar:
Einkaskeyti til Tímans frá Reyðarfirði. Norðvestan ofsaveður skall yfir hér um slóðir um miðja aðfaranótt miðvikudagsins [9.] og varð harðast milli klukkan sex og níu í gærmorgun, en var heldur lægjandi í gærkvöldi. Varð af því margvíslegt tjón, en ekki skaðar á fólki, svo að kunnugt sé. Var ófært milli húsa á Reyðarfirði, er það var harðast. Flutningaskipið Reykjanes lá við aðalskipabryggjuna á Reyðarfirði í veðrinu. Slitnaði það frá bryggjunni í gær og rak suður yfir fjörðinn og strandaði í sandfjöru hjá bænum Strönd. Mun skipstjóri freista þess að ná skipinu út með morgninum, og telur góðar horfur á, að það takist. Sjólaust er innfjarðar, og skipshöfn ekki í neinni hættu. Reykjanes er leigu skip á vegum SÍS, en skoskra aðila. Þak sviptist af einu húsi í Reyðarfirði og flúði fólkið úr því. Úr öðru brotnuðu rúður og símalínu og raflínur slitnuðu. Járn tættist af herskálum og tættist víðs vegar um þorpið, fauk á hús og girðingar og olli miklum skemmdum. Tíu til tólf manna flokkur vann að nauðsynlegustu viðgerðum. Svo hart var veðrið, að bifreiðir fuku. Þrír stórir bílar, eign kaupfélagsins ýmist fuku um eða sviptust til í veðrinu og urðu fyrir skemmdum. Jeppa bifreið tók á loft, og kom hún niður á hvolfi, fimm metra frá þeim stað, þar sem hún hafði staðið. Hænsnabú varð fyrir skemmdum um í veðrinu, og fórust um þrjátíu hænsni af þeim sökum. Víðs vegar um sveitina urðu bilanir á símalínum.
Bátur í hættu í Neskaupstað. Í Neskaupstað losnaði vélbáturinn Goðaborg frá legufærum og lá við, að skipið ræki upp. En fyrir snarræði og harðfengi tókst að forða því og bjarga skipinu.
Í gær var reynt að sprengja með dýnamíti klaka og krap úr farvegi Andakílsár ofan við virkjunina til að auka vatnsrennslið til stöðvarinnar, en það hefir tregðast mjög vegna þess að farveginn hefir fyllt. Blaðamaður frá Tímanum átti í gærkvöldi tal við Óskar Eggertsson stöðvarstjóra, sem þá var að koma heim frá þessu verki og erfiðum viðgerðum á rafmagnslínunum. Sagði Óskar, að tregðan á rennslinu væri svo mikil, að búast mætti við því að grípa yrði til einhverrar lítils háttar rafmagnstakmörkunar, sem aðallega myndi þá koma niður á næturupphitun húsa á orkusvæðinu, þar sem rafmagnið yrði, ef til kemur, helst tekið af að nóttunni. Í fárviðrinu hlóðst mikill snjór, sem síðan hefir orðið að krapi og klaka, í árfarveginn. Er þetta klaka- og krapalag víðast hvar eitthvað á þriðja metra að þykkt. Stórar dýnamítsprengjur, sem þeyttu klakanum upp allmikið voru notaðar, en hroðinn vildi falla aftur ofan í vakirnar og reyndist því þessi aðferð illa og gaf ekki mikinn árangur. Bjóst Óskar við því, að þetta yrði ekki reynt aftur.
Einkaskeyti til Tímans frá Húsavík. Í aftakastórviðrinu, sem gerði hér um helgina urðu þær skemmdir m.a. að brennisteinn, sem fluttur hafði verið ofan úr Námaskarði í haust til útflutnings frá Húsavík og geymdur var í stórum haug á Húsavíkurhöfða, fauk mjög til í. veðurofsanum, og verður allmikið verk að safna honum saman og hætt við að hann hafi nokkuð ódrýgst. Heyskaðar urðu allvíða um héraðið og þök tók af húsum, eins og áður hefir verið skýrt frá hér í blaðinu. Í gær var norðvestan stórviðri á Húsavik og stórsjór.
Morgunblaðið segir einnig af austurlandsveðrinu í pistli 10.janúar:
Fárviðri af norðvestri gekk yfir Austurland í gær, en vegna mikilla bilana á talsímakerfinu, voru litlar fregnir af veðurofsanum og tjóni því, er hann hefur valdið. Þó bárust fregnir um það frá Reyðarfirði, að leiguskip Sambands ísl. samvinnufélaga, Reykjanes, hafi slitnað upp á höfninni þar og rekið á land. Vitað var, að áhöfnin var óhult um borð, en um skemmdir á skipinu sjálfu var ekki kunnugt. Í gærkvöldi var talið, að veðrið færi batnandi. Þá var 9 stiga frost á Möðrudal á Fjöllum og stórhríð, Veðurhæðin komst upp í 13 vindstig á Dalatanga á hádegi í gær. Í Neskaupstað var vélbáturinn Goðaborg, 100 rúmlestir hætt kominn, er hann slitnaði frá bryggju, en bátnum tókst að bjarga.
Morgunblaðið segir 11.janúar frá tjóni og hrakningum á sjó:
Hér í Reykjavíkurhöfn eru nú fjögur erlend skip, sem orðið hafa fyrir sjósköðum í veðrunum undanfarið. Þrjú skipanna eru bresk, tveir línuveiðarar og einn togari. Annan línuveiðarann kom Þór með, en hinn kom í fylgd með öðru bresku skipi. Hafði þessi línuveiðari fengið á sig sjó og laskast. Togarinn kom hingað inn í gær, og lagðist að Grófarbryggju. Hann hafði fengið brotsjó á sig suðvestur af Vestmannaeyjum. Hafði sjórinn stórskemmt radartækið, brotið annan björgunarbát inn og sjór hafði komist í neysluvatnið. Fjórða skipið er svo þýski togarinn Buxta, sem Fylkir bjargaði í hafi.
Seyðisfirði, fimmtudag. Í fyrrinótt og fram eftir degi í gær [9.], var hér norðan fárviðri. Tjón varð þó ekki verulegt. Þó fuku járnplötur af húsum, og vélskipið Víking sleit frá bryggju og rak norður yfir höfnina og í land, en mun ekki vera mikið skemmt.
Veðrið sem gekk yfir Reyðarfjörð í fyrradag, er með verstu veðrum, sem þar hafa komið. Var veðurhæðin svo mikil, að vindhviðurnar rifu upp úr fjörunni hnefastóra steina og feykti þeim langar leiðir. Flutningaskipið Reykjanes, sem slitnaði frá bryggju, og rak upp í fjöru, komst á flot af eigin rammleik í gærmorgun. Þar í þorpinu tók þak af húsþökum og veðurofsinn hvolfdi stórum bílum, en minni bílar fuku til. Mjög mikið af rúðum brotnaði. Þrjátíu metra hátt mastur ritsímans þar eyðilagðist. Í hænsnabúi einu í Reyðarfirði svipti vindurinn upp hurðinni og 30 varphænur úr því týndust. Rafmagnið bilaði og sitthvað annað gekk úr skorðum og var fyrir skemmdum af völdum fárviðrisins.
Svo virðist sem nokkur íshroði sé kominn upp að Vestfjörðum og norður af Horni. Hinsvegar er ekki að sjá af fregnum sem borist hafa, hverskonar ís þetta sé, enda er skyggni slæmt þar. Ef ekki er um samfellda ísbreiðu að ræða, þá telja kunnugir að ísinn muni nú í norðaustanáttinni lóna aftur frá landinu. Í gærdag bárust fregnir um að hafís væri kominn mjög nálægt siglingaleið á Ísafjarðardjúpi. Jakar á stangli voru skammt frá landi í Látravík.
Vestanveðrin í Grænlandssundi rifu íshrafl úr meginísbrúninni og rak til austurs. Þetta íshrafl bráðnaði þó fljótt. Tíminn segir frá þessu og fleira 11.janúar:
Í gær höfðu borist fregnir um hafís úti fyrir Vestfjörðum frá fimm íslenskum togurum. Auk þess barst í gær sú fregn frá Látravík að hafísjaki hefði sést þar þrjú hundrum metra undan landi.
Grindvíkingar fóru ekki varhluta af fárviðrinu. [Hér er væntanlega átt við veðrið þann 5.] Þar fuku næstum alveg tvö fiskihús og þök af öðrum byggingum, einkum útihúsum. Hin nýja bátahöfn reyndist hins vegar vel og sakaði báta ekki þar. Annað fiskihúsið ónýttist með öllu. Fauk af því þakið og veggirnir lögðust saman. Var það eign vélbátsins Hrafns Sveinbjarnarsonar. Vildi til, að búið var að byggja nýtt fiskihús handa þeim bát í sumar, en annar bátur átti að fá þetta til afnota. Hitt fiskhúsið var eign Rafns Sigurðssonar skipstjóra og leigt vélbátnum Óðni. Standa veggir þess uppi, en þakið og viðir fuku á haf út, Að Hópi í Grindavík fauk þakið ofan af fjósinu og stóðu kýrnar eftir undir berum himni í óveðrinu. Allvíða fauk eitthvað af þökum útihúsa, en hvergi urðu teljandi spjöll á íbúðarhúsum.
Í fyrramorgun [9.] veittu menn því athygli að geysilega mikið jakahröngl hafði safnast í þrengslin í Soginu, þar sem fellur það úr Þingvallavatni og neðan við Kerið, sem er neðan þrengslanna, er klakastífla. Er jakaburður í Soginu gífurlegur. Neðan við Kerið, niður frá Kaldárhöfða, er bugða á fljótinu, áður en það breikkar út í Úlfljótsvatn, og heitir Torfnes. Yfir þetta nes flæðir Sogið vegna klakastíflunnar neðan við Kerið. Kunnugir menn, sem komnir eru vel á miðjan aldur, minnast þess ekki að slíkt hafi gerst nema einu sinni áður. Orsök þessa jakaburðar er sennilega sú, að í sunnanveðrinu hafi brotnað ísskörin á Þingvallavatni upp frá auðum strengnum, þar sem Sogið byltist niður í þrengslin. Er líklegt, að ísjakarnir hafi hlaðist undir skörina, en síðan sprungið fram með jakaburði, er haft hefir þær afleiðingar, sem lýst hefir verið.
Frá fréttaritara Tímans í Reyðarfirði. Bóndinn á Hólmum í Reyðarfirði, missti í veðrinu í fyrradag nýkeyptan, þriggja lesta vélbát. Báturinn var í nausti, bundinn við spil með vírkaðli, en ekkert er eftir, nema slitur úr vírnum og brot úr bátnum, sem fauk út á sjó.
Frá fréttaritara Tímans á Suðureyri. Rétt fyrir jólin byrjaði að snjóa hér, en áður var snjólétt, og um sjálfa hátíðina var iðulaus stórhríð með miklum fannburði. Á annan dag jóla hljóp snjóflóð úr fjallinu norðan fjarðarins, og gekk flóðbylgjan undan því þvert yfir fjörðinn og fast upp að dyrum þeirra húsa í kauptúninu, sem standa neðst á eyrinni. Skemmdir á bryggjum urðu þó litlar og minni en stundum áður, er hlaupið hefir á Norðureyri.
Tíminn segir af snjóflóði í Skriðdal í pistli 12.janúar:
Einkaskeyti frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Í ofviðrinu, sem gekk yfir Austurland á þriðjudaginn [8.], féll snjóflóð á bæinn Geitadal í Skriðdal og stórlaskaði húsið, en heimilisfólkið, sex manns, slapp heilt á húfi. Er það talið því að þakka, að snjóflóðið klofnaði á nýbyggðri votheyshlöðu, sem stóð nær fjallinu. Á þriðjudaginn var ofsaveður í Skriðdal og hríð. Um hádegisbilið var húsbóndinn með eldri börnin við gegningar, en húsfreyja heima með yngsta drenginn. Var hún niðri við, í svokölluðu frameldhúsi, en í Geitdal var nýlegt timburhús, tveggja hæða, og sofið á efri hæð. Er það byggt við gamla baðstofu. Vissi Gróa ekki fyrr til en snjóflóðið skall á húsinu með ógurlegum dunum og brothljóði, og lék allt á reiðiskjálfi. Hrundi snjórinn niður stigann, þar sem gengið var upp á efri hæðina, skilrúm brotnuðu og loft svignaði. Hafði flóðið skollið á stafni timburhússins, er að fjallinu sneri. Við áfall þetta fylltist efri hæðin gersamlega af snjó, og brotnaði mjög en sjálft húsið skekktist á grunni. Hefði fólkið sennilega allt beðið bana ef snjóflóðið hefði komið að næturlagi þegar fólk var í rúmum í svefnherbergjunum á efri hæðinni. Í öðru lagi hefði húsið sennilega gerbrotnað og jafnvel sópast brott í snjóflóðinu, ef það hefði ekki klofnað á votheyshlöðu, sem byggð var við stafn timburhússins síðastliðið sumar. Er það votheysgryfja steinsteypt er stendur allhátt úr jörðu, og nógu hátt til þess að draga úr afli flóðsins og tvístra því. Útihús öll sluppu í snjóflóðinu. Það kom einnig á daginn að fleiri snjóflóð hlupu úr fjallinu og eyðilagði eitt þeirra girðingu á allstóru svæði. Í minnum manna hefir aldrei fallið snjóflóð í Geitdal, en svo vill til, að til eru fornar heimildir um skriðufall á þessum bæ. Hrafnkelssaga segir, að á þessum bæ hafi búið Hallfreður, faðir Hrafnkels, og dreymdi hann þann draum, að hann var beðinn að standa upp og halda brott hið skjótasta. Er hann var farinn féll skriða á bæinn. Kunnugir telja þó, að bærinn standi nú á nokkuð öðrum stað en skriðan féll.
Á miðvikudaginn [9.] urðu allmikil spjöll af völdum fárviðris á Eskifirði. Tveir bátar fóru upp í fjöru og þrjár bryggjur skemmdust. Vélbáturinn Hólmaborg slitnaði frá bryggju og braut að talsverðu leyti bryggjuna, sem hann lá við um leið. Fór báturinn upp í fjöru, skemmdist lítið og náðist út fyrir hádegi í gær. Brot úr bryggju rak á gamla bryggju þar utar með ströndinni og braut hana og einnig aðra gamla bryggju, sem þar var skammt frá. Vélbáturinn Leó fór einnig á land, er hann slitnaði frá bryggju í sama fárviðri. Sá bátur er ekki heldur mikið skemmdur, en liggur ennþá í fjörunni, þar sem ekki hefir tekist að ná honum út enn sem komið er. Í gær var komið gott veður og kyrrt eystra. Snjó hafði ekki hlaðið mikið niður í fárviðrinu, og vegurinn milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar er vel fær, þar sem snjór hefir fokið af honum jafnóðum.
Í ofsaveðrinu á dögunum fauk að mestu leyti hey, sem úti stóð undir striga við beitarhús að Hrísdal. Er það mikið tjón fyrir bændurna í Hrísdal, og þeim mun fremur sem þar var grasbrestur mikill í sumar og heyöflun því með erfiðasta móti.
Einkaskeyti til Tímans frá Bakkafirði. Í ofviðrinu 5. janúar fauk þak af fiskgeymsluhúsi hér á Bakkafirði, og skemmdir urðu á bryggjunni. Nokkur heyskaði varð að Bakka og þak fauk af fjárhúsi. Fleiri minni háttar skemmdir urðu hér i þorpinu og sveitinni.
Í ofviðrinu fauk þak af nýbyggðu íbúðarhúsi að Haugum í Skriðdal og að Vallanesi á Völlum tætti þak af hesthúsi. Fjósinu var bjargað á síðustu stundu, og við sjálft lá, að gamla, stóra íbúðarhúsið i Vallanesi fyki. [Hér er líklega átt við veðrið þann 8. til 9.].
Morgunblaðið segir frekari fréttir af togaranum Faxa 12.janúar:
Borgarnesi 10. janúar. Togarinn Faxi er talinn óskemmdur þar sem hann stendur kjölréttur á sandeyri undan Rauðanesi. Farið hefur verið um borð í togarann. Var engan sjó að sjá í lestum. Vélarúmið var harðlæst og ekki komist þangað niður, en talið Víst að þar sé enginn sjór. Vátryggjendur munu hafa hug á að ná skipinu á flot, en aðstaða til þess er ekki góð vegna grynninga. F.
Tíminn rekur ófærðarfregnir 13.janúar:
Fyrsti bíllinn úr Vík. Í fyrrakvöld náðist sá áfangi í þessari baráttu við snjóinn, að fyrstu bílarnir austan úr Vík komust til Reykjavíkur. Kom sá fyrsti um eittleytið til Reykjavíkur, en hafði lagt af stað að austan um klukkan 11. Í gær var lokið við að ryðja snjó af veginum frá Þjórsá að Rangá en á þeim kafla var mikill og jafn snjór. Voru notaðar til þess verks stórar og þungar ýtur. Reyndist það nokkru erfiðara fyrir það, að áður voru þarna ruddar snjótraðir, svo að snjórinn á veginum var helmingi meiri en annars hefði orðið, ef ekki hefðu verið traðir til að fenna í og fylla. Nú hefir hins vegar verið tekinn upp sá háttur að reyna í lengstu lög að komast hjá djúpum tröðum, með því að ýta jafnóðum uppgreftrinum vel til hliðar og dreifa honum. Þó að þessar tvær stórvirku vélar lykju við að moka veginn milli stóránna á fjórða degi verksins í gær, voru þar með ekki úr sögunni allar hindranir á leiðinni austur til Víkur. Fyrir austan Landvegamót var tveggja kílómetra kafli eða svo, sem mátti heita ófær ölturn bílum sakir snjóhleðslu. Í gær var verið að vinna að því að ljúka mokstri á þessum kafla. Bílarnir, sem voru komnir að austan, komust ekki hjálparlaust þar yfir og var þeim hjálpað til að komast leiðar sinnar eftir mýrum og móum utan við þjóðveginn. ... Hvalfjarðarleiðin er nú fær öllum venjulegum bifreiðum þótt ekki hafi þær drif á öllum hjólum. Var lokið við að moka leiðina fyrir hádegi í gær. ... Þykkastur var snjórinn í skriðunum hjá Hvítanesi en þar voru um 4 metrar niður á veginn sums staðar. Ennfremur var mikill og jafn snjór á leiðinni frá Ferstiklu að Hrafnabjörgum og á köflum nálægt Þyrli. Sú ruðningsvinna sem nú er af hendi leyst í Hvalfirði til að opna veginn er sú umfangsmesta sem sögur fara af þar og hefur aldrei verið lagt í að moka jafn mikinn snjó þar.
Af öðrum vegum hér syðra er það helst að segja, að Krísuvíkurleiðin hefir verið lífæðin milli höfuðborgarinnar og sveitanna fyrir austan síðan fyrir jól. Hellisheiði lokaðist 22. desember og komust þann dag ekki nema nokkrir þeirra bíla, sem yfir þurftu að komast. Hinir urðu að snúa við og fara Krísuvíkurleiðina. Krísuvíkurleiðin varð mjög erfið í fárviðrinu, þegar flestar leiðir lokuðust, en nú er búið að moka, þar sem þurfti, sem einkum var við Kleifarvatn og í Ölfusinu.
Frá fréttaritara Tímans á Hólsfjöllum. Undanfarna viku hafa verið veðurtepptir á Grímsstöðum á fjöllum fjórir leitarmenn úr Mývatnssveit. Brutust þeir úr gangnamannakofa á Mývatnsöræfum í ofviðrinu fyrra laugardag [5.], þar sem þeim þótti ófýsilegt að verða veðurtepptir þar. Mývetninga vantar enn nokkuð af fé, og fóru fjórir leitarmenn austur á öræfin. Voru menn þessir frá Reynihlíð, Vogum, Ytri-Neslöndum og Vindbelg. Þeir höfðu verið tvo daga á öræfunum, er stórviðrið skall á, og tóku þá þann kost að yfirgefa gangnamannakofann sem þeir voru í, og halda til Grímsstaða. Er það 1012 kílómetra leið, en undanhallt veðrinu.
Símasambandslaust hefir verið með öllu við Kirkjubæjarklaustur frá Reykjavík í viku síðan í ofviðrinu um síðustu helgi, þar til í fyrradag. Veðurofsinn var mikill þar sem annars staðar á landinu, en þó tæplega eins mikil veðurhæð sem hér suðvestanlands. Skemmdir urðu ekki teljandi í nærsveitum Kirkjubæjarklausturs. Mikill snjór er nú á þessum slóðum og alger jarðbönn. Ófært er með öllu bifreiðum vestur á bóginn.
Morgunblaðið segir frá illviðrinu að kvöldi 12. janúar í pistli 13.janúar:
Í gærkvöldi brá til hláku með suðaustan átt, slyddu og síðar rigningu. Veður fór versnandi eftir því sem á daginn leið. Í gær kvöldi voru 11 vindstig hér í bænum, en veðurhæðin komst upp í 13 vindstig í stormbyljunum. Í dag mun svipað veður verða, með öðrum orðum fárviðri en af suðvestri með miklum hríðaréljum þegar fram á daginn kemur.
Í gærkvöldi var skíðafólk hætt komið í stórhríð og stormi á leið upp að Kolviðarhóli. Voru í þessum hópi þrír piltar og þrjár stúlkur. Tveir piltar aðrir sneru við, en voru ókomnir til byggðar, er síðast fréttist.
Tíminn segir frekar af veðrinu þann 12. til 13. í pistli 15.janúar:
Í hvassviðrinu á sunnudaginn [13.] urðu miklar truflanir á rafmagninu frá Sogsvirkjuninni. Síðdegis á sunnudaginn voru sífelldar breytingar á straumnum, svo að taka varð rafmagnið frá Sogsvirkjuninni af bæjarkerfinu, Reykjavík og nágrenni.
Á sunnudaginn og í fyrrinótt lentu mjólkurbílstjórar austanfjalls í hinum mestu erfiðleikum og hrakningum sakir snjókomu og fárviðris. Höfðu margir bílar lagt upp í ferðir frá Selfossi um Árnes- og Rangárvallasýslur snemma á sunnudagsmorguninn og komu sumir til baka í gærkveldi, en aðrir voru ókomnir.
Í hvassviðrinu á sunnudag [13.] urðu nokkur spjöll í Reykjavíkurhöfn á flóðinu. Segja hafnsögumenn að ókyrrðar hafi meira gætt innan hafnarinnar í hvassviðrinu á sunnudaginn, en í fárviðrinu á dögunum. Vestur við verstöðvarbryggjur slitnuðu 4 bátar frá bryggjum og rak misjafnlega mikið um höfnina. Tveimur bátanna tókst að bjarga áður en þá rak frá bryggjunum út á höfnina, en Hermóð og Hvítá rak út úr bátavíkunum og út á höfn. Staðnæmdust þeir við Norðurgarðinn. Tókst að bjarga þeim þaðan í öruggt lægi, án þess að til teljandi skemmda kæmi. Þá hugsaði Hæringur til hreyfings í rokinu á sunnudaginn, en ekki varð útþrá öldungsins þó það sterk, að hann hefði það af með hjálp náttúruaflanna, að losa allar landfestar sínar. Var það ekki nema afturendi skipsins, sem komst á hreyfingu að þessu sinni. Slitnaði skipið frá að aftan og rak frá bryggjunni sá endinn, þannig að stafn sneri að bryggjuhlið. Festingar skipsins að framan héldu, en mjög var óttast um að skipið myndi losna um tíma á sunnudaginn, þegar afturfestarnar voru slitnar. Hefði Hæringur getað gert hin mestu spjöll í höfninni ef hann hefði komist af stað og rekist á bryggjur, báta og skip. Í gærdag var svo unnið að því að binda skipið aftur að aftan og mun nú örugglega gengið frá því að Hæringur hugsi ekki til frekari hreyfings fyrstum sinn, hverju sem tautar. Tveir bátar urðu fyrir nokkrum skemmdum af Hæringi, eða öllu heldur festum skipsins er þær slitnuðu. Voru það Sigríður og Sæbjörg. Í mestri hættu voru þó bátar þeir, sem lágu við Ægisgarð í storminum en síðdegis á sunnudag var vindhraðinn 14 stig í byljunum, eða svipuð aftöku og í fárviðrinu um daginn. En sá var munurinn nú, að það var styttra og menn betur undir það búnir.
Í dag ráðgera Þykkvabæingar að flytja mjólk sína á stórum sleðum yfir Þjórsá á veginn hjá Fljótsdalshólum í Gaulverjabæjarhreppi. Sleðafæri er talið gott og traustur ís á Þjórsá og er þetta eina leiðin fyrir þessa bændur að koma mjólkinni frá sér þar sem vegurinn er með öllu ófær vegna snjóa.
Tíminn segir frá rafmagnsleysi á Akranesi 16.janúar. Það kemur á óvart að þetta er nokkru eftir að versta veðrinu lauk - en vonandi eru dagsetningar samt réttar:
Í gærmorgun [15.} slitnaði niður rafmagnslínan, sem er aðaltaug orkuveitunnar frá Andakílsárvirkjuninni til Akraness. Fóru báðir strengir háspennulínunnar í sjóinn, þar sem línan liggur í löngu hafi milli stálgrindarvirkja yfir ósa Grunnafjarðar frá Súlunesi að norðan, að Hvítanesi að sunnan. Reyndist ekki unnt að gera við þessa bilun í gær, og er Akranesbær því rafmagnslaus eins og sakir standa. Frá því í fárviðrinu um helgina hefir verið ólag á rafveitunni sökum ísingar, sem sest hefir á þræði háspennulínunnar. Hefir þó verið hægt að skipta rafmagni niður á bæjarhluta á Akranesi, þar til þessi síðasta bilun kom til sögunnar snemma í gærmorgun, en þá var allt rafmagn rofið. Gekk heldur treglega að finna þessa bilun, þar sem mönnum kom ekki til hugar, að um svo alvarleg slit væri að ræða, en héldu, að ísing á vírunum ylli truflunum og straumrofi. Eftir hádegið í gær kom svo í ljós, að báðir aðalþræðir háspennulínunnar höfðu slitnað á hinu langa hafi yfir ósunum og fallið í sjóinn. Snjór er mikill efra og illt að komast áfram á bifreiðum. Mun vera ófært að kalla að Ósakjöftunum að norðanverðu, Súlunesmegin, en þangað komu viðgerðarmenn frá virkjuninni gangandi í gær. Hins vegar er fært frá Akranesi inn að Hvítanesi, sem er stutt leið, um fimm kílómetrar. Var farið þangað á stórum viðgerðarbíl strax og vitnaðist um bilunina í gær. Hins vegar var ekki hægt að komast að Ósakjöftunum, þar sem aka þarf eftir sandeyrum til að komast að stálmöstrunum við ósana. Er einungis hægt að aka þann veg, þegar fjara er. Viðgerðarmenn urðu því að hætta frekari aðgerðum í gær, en strax á fjörunni í dag verður reynt að gera við línuslitin þarna og standa vonir til, að það megi takast, svo að rafmagn komist aftur á til Akraness.
Frá fréttaritara Tímans í Stöðvarfirði. Tíð hefir verið heldur hagstæð til landsins í Stöðvarfirði, það sem af er vetrar. Lítill snjór er á jörð og víðast nokkrir hagar.
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Umferð um fjallvegi er nú stöðvuð með öllu sökum snjóalaga, en veður eru heldur góð og varð á Reyðarfirði vart við illviðri það, sem gekk yfir um síðustu helgi. Póstflutningar um Fagradal fara nú fram á hestasleðum. Þótt ekki sé nærri eins mikill snjór og í fyrra, er samt haglaust á Héraði og eins niður í fjörðum. Snjór er þar ekki mikill, en illt á jörð, sökum þess að frost festi í krapi. Er snjór við sjó ekki meiri en svo, að bílfært er milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Í gær kom farþegaflugvél til Reyðarfjarðar í fyrsta sinn um langt skeið.
Einkaskeyti til Tímans úr Mývatnssveit. Rosatíð hefir verið hér frá nýári, og fauk víða ofan af heyjum í veðrinu 5. janúar, svo að þau ódrýgðust mjög, þótt ekki yrðu stórskaðar. Þá fauk einnig gufubaðsstofan í Jarðbaðshólum af grunni og brotnaði.
Í fyrrinótt og fram eftir degi í gær [15.] geisaði eitthvert hið mesta aftakaveður, sem komið hefir um mörg ár við vesturströnd Noregs sunnanverða. Hefir orðið margvíslegt tjón af veðrinu á skipum og mannvirkjum. [Mjög kröpp lægð fór til austurs um Mæri og Þrændalög].
Mikill norðaustanstrengur byggðist upp milli Vestfjarða og Grænlands þann 15. og fór síðan suður yfir landið með enn einu vandræðaveðrinu. Síðdegis þann 17. var það þó að mestu gengið niður vestanlands og síðan eystra líka. Tíminn segir frá 17.janúar:
Í aftakaveðri, sem geisaði fyrir Vestfjörðum í fyrradag [15.] hlaut vélbáturinn Bangsi frá Bolungarvík mikið áfall á miðum út af Rit, brotnaði mjög að ofan og tók út tvo skipverja, þá Magnús Jónsson og Ólaf Steinsson og fórust þeir báðir. Maríu Júlíu tókst að bjarga hinum skipverjunum þremur áður en báturinn sökk.
Frá fréttaritara Tímans á Staðarfelli. Í gær [16.] var hér hvassviðri með allmikilli snjókomu og hefir tíð verið mjög umhleypingasöm að undanförnu. Nokkur snjór er og hefir verið mjög haglítið. Samgöngur eru erfiðar og fáir vegir bílfærir. Brattabrekka er og ófær núna. Nokkur lagís hefir verið á innanverðum Hvammsfirði eins og oft er þegar frost ganga, en líklega mun eitthvað af honum hafa brotið upp í þessu veðri, svo að hann minnkar. Í ofviðrinu á dögunum varð veðurhæð á þessum slóðum ekki eins mikil og annars staðar á landinu, og sluppu þessi byggðarlög því að mestu við skemmdir. Skaðar urðu þó lítils háttar í Saurbænum.
Geysimikill snjór er nú kominn í Rangárvallasýslu, einkum um miðbik héraðsins, og mun ekki hafa verið þar annað eins fannfergi um langt skeið. Eru allar samgöngur stöðvaðar, og daglegt tjón fyrir bændur héraðsins nemur tugþúsunda. Oft hefir einnig verið frosthart, og var í gær 1214 stiga frost. ... Vegna samgönguteppunnar er einnig að verða þrot á sumum tegundum matar handa mönnum og skepnum, þar eð aðdrættir hafa fallið niður, en birgðir yfirleitt ekki á heimilunum. Þar sem olíu er brennt til upphitunar, er hætt við, að erfiðleikar geti orðið við að halda híbýlum hlýjum, ef ekki auðveldast með aðflutninga. Sex ýtur eru að verki a vegunum í Rangárþingi en þær hafa unnið fyrir gýg, því allt hefir fyllst af snjó jafnóðum er vindað hefir.
Morgunblaðið segir frá stíflu í Soginu í pistli 17.janúar:
Í fárviðrinu á dögunum myndaðist stífla í Soginu vegna krapa- og jakaburðar úr Þingvallavatni. Ísinn á vatninu, sem var 5 tommu þykkur, brotnaði allur í veðrinu. Bárust jakarnir um Þrengslin, í Kerið, þar sem silungurinn er mest veiddur. Þar hlóðust jakarnir upp og mynduðu stíflu. Í gær hafði vatnið brætt sig niður úr klakastíflunni. Sogið rann að mestu út úr farvegi sínum og inn á túnblett frá Kaldárhöfða, sem þar er, og í Kaldárkvíslina. Flóðið hefur skilið eftir rúmlega mannhæðarháa jakahrannir á túnblettinum og túnið grafist í sundur bæði af vatni og eins hafa jakarnir rótað jarðveginum upp. Óskar Ögmundsson, bóndi í Kaldárhöfða, sagði Morgunblaðinu í gær, að hann teldi hættuna af klakastíflunni liðna hjá. Þingvallavatn væri nú allt lagt á ný. Slíkar jaka- og krapastíflur eru svo sjaldgæfar í Soginu, að ekki er getið um verulega stíflu í því frá árinu 1632 og þar til nú. Þá lokaði hún alveg rennslinu úr Þingvallavatni í Sogið, og þornaði það í nokkra daga. Smávegis stífla myndaðist í því fyrir 60 árum, en hún var ekki nærri eins alvarleg og sú, er nú var þar. Ingólfur Ágústsson verkfræðingur hjá Rafmagnsveitunni sagði Morgunblaðinu að austur við Ljósafoss hefði allt verið tilbúið til þess að setja sprengiefni í stífluna og sundra henni. Slíkar krapastíflur myndast nú í frostum daglega við Elliðaárstöðina. Og hafa suma dagana verið sprengdar allt að 80 túbur af sprengiefni til þess að sundra stíflunni. Hafa starfsmenn Rafmagnsveitunnar fengið mikla æfingu í að sprengja slíkar stíflur og vita vel, hvernig haga ber sprengingunum.
Að kvöldi 18. og aðfaranótt 19. gerði allmikinn austan- og suðaustanbyl. Veður var þó ekki eins slæmt og fyrr í mánuðinum. Þá strandaði flóabáturinn Laxfoss hið síðara sinni (og endanlega). Mannbjörg varð. Tíminn segir af þessu þann 19.janúar:
Laxfoss strandaði laust fyrir miðnætti í nótt, er hann var á leið frá Akranesi til Reykjavíkur. Mun hann hafa villst af leið í dimmviðri og austanroki, og lent á grunni, sennilega við Kjalarnes eða við eyjar eða sker út af því.
Í sama veðri fórst bátur í innsiglingunni í Grindavík. Tíminn segir frá því og hrakningum á landi í pistli 20.janúar:
Þau hörmulegu tíðindi hafa gerst, að vélbáturinn Grindvíkingur fórst við landtöku í Grindavík, er hann var að koma úr róðri í fyrrakvöld í hvössu hríðarveðri. Með bátum fórust fimm ungir og duglegir sjómenn. Grindvíkingur var stærsti báturinn í Grindavík, 66 smálestir, hið besta skip. Grindavíkurbátarnir fóru í róður í góðu veðri, hægri austlægri átt um klukkan 4 aðfaranótt föstudagsins. Þegar á daginn leið, hvessti og gerði blindbyl, sem stundum var svo svartur, að skipverjar sáu varla út fyrir borðstokkinn.
Í fyrrinótt [aðfaranótt 19.] voru þrír stórir bílar, sem í voru 7080 manns, flest verkamenn frá Soginu, á leið til Reykjavíkur. Austanhríð var á, og er kom að Hlíðarvatni, komust bílarnir ekki lengra, enda bilaði þar einn þeirra og ekki tiltækilegt að gera við hann í hríðinni. Þá var það ráð tekið, að þrír menn fóru gangandi til Krýsuvíkur til þess að biðja um ýtuhjálp, en aðrir létu fyrirberast í bílunum. Um morguninn var því veitt athygli, að einn mannanna var horfinn úr bílunum. Hugðu menn í fyrstu, að hann kynni að hafa slegist í för með þeim þremur, sem fóru gangandi til Krýsuvíkur, eða farið á eftir þeim. Þegar bílarnir komust til Krýsuvíkur í gær, kom í ljós að maðurinn hafði ekki þangað komið. Við Kleifarvatn stöðvuðust bílarnir aftur vegna fannfergis, og voru þar saman komnir um tuttugu bílar áætlunarbílar, mjólkurbílar, olíubílar og fleiri farartæki. Fór þar könnun fram, og fannst maðurinn eigi heldur þar.
Lögreglan í Reykjavík átti harla annríkt í fyrrinótt [aðfaranótt 19.] við að hjálpa fólki, sem lenti í vandræðum, er austanbylurinn teppti allar leiðir, og bjarga drukknum mönnum og heimilislausum, sem lágu víða í húsasundum og sköflum á götunum. Margur borgarinn var líka vakinn í fyrrinótt af mönnum sem ekki komust leiðar sinnar og báðu um húsaskjól. ... Þær aðalgötur bæjarins, sem mest voru farnar, voru nokkurn veginn færar bifreiðum um nóttina, en annars staðar ófært með öllu. Mátti í gærmorgun víða sjá fjölda yfirgefinna bifreiða í sköflum og snjóbeðjum. Þannig voru um tuttugu bílar á litlu svæði við mót Miklubrautar og Rauðarárstígs, og tíu á Suðurlandsbrautinni frá mjólkurstöðinni fyrir Tungu.
Veðráttan segir að þann 20. hafi ísrek lokað Stykkishólmshöfn. Tíminn er síðan enn með fregnir af sama veðri í pistli 22. janúar:
Á laugardagsnóttina síðastliðna var ofsarok af austri á Kjalarnesi, og varð tjón af sums staðar. Í Hjarðarnesi fauk þak af súrheystóft, hlöðu og skúr, gluggar brotnuðu í íbúðarhúsi og járn tættist af bragga. Segir Kristmann Sturlaugsson, bóndi í Hjarðarnesi, að íbúðarhúsið hafi bókstaflega gengið í bylgjum við hamfarir veðursins. Í Saurbæ sleit járn og pappa af heilli húshlið, og í Dalsmynni brotnuðu margar rúður í íbúðarhúsi. Áætlunarbifreið, sem gengur í Kjósina, fauk út af þjóðveginum í Melahverfi á laugardaginn. Voru í henni tveir farþegar, og hlaut annar smávegis ákomu á andlit.
Í fárviðrinu á laugardagsnóttina [19.] brotnuðu 7-8 steyptir staurar háspennulínunnar til Grindavíkur. Hafa staurar þessir staðið af sér öll veður árum saman og aldrei látið á sjá, þótt veður hafi verið ill, fyrr en nú. Var Grindavík rafmagnslaus af þessum sökum í tvo sólarhringa og eins slitnaði síminn niður á mörgum stöðum og staurar brotnuðu.
Morgunblaðið segir af hrakningum í pistli 22.janúar:
Maðurinn sem villtist frá bílunum austur við Hlíðarvatn í stórhríð aðfaranótt laugardagsins [aðfaranótt 19.], er talinn af. Hans hefur verið leitað árangurslaust af miklum fjölda manns frá því á sunnudaginn. Í gær tóku um 100 manns þátt í leitinni.
Árnesi 21. janúar Í gær hljóp Laxá yfir þjóðveginn hjá Knútsstöðum í Aðaldal vegna klakastíflu í ánni. Hlaupið heldur áfram, en hefur ekki vaxið frá í gær og er vatnið hálfur metri, þar sem það er dýpst á veginum. Þíðviðri hefur verið undanfarna daga. Ef það helst, standa vonir til að áin nái sér fram. Annars er hætt við samgönguerfiðleikum, sem geta lokað veginum til Húsavíkur.
Eins og áður sagði fór þessi veðrahamur betur með sunnanverða Austfirði en aðra landshluta. Tíminn segir frá 23.janúar:
Frá fréttaritara Tímans á Breiðdalsvík. Jörð er auð að kalla út við sjó á Breiðdalsvík og þar hefir ekki fest snjó á láglendi, að heitið geti, síðan um miðjan desember. Öllu verra er til jarðar þegar fjær dregur sjó og efra í dölum eru víða mikil svellalög og jarðlítið af þeim sökum. Veður hafa ekki verið jafnill þar eystra og sögur fara af annars staðar á landinu. Stormar hafa að vísu verið talsverðir, en engin aftök.
Nú var (nokkurn veginn) friður í rúma viku. Undir mánaðamótin dró aftur til tíðinda. En frost var töluvert. Tíminn segir 30.janúar fréttir bæði frá Siglufirði og frá Reyðarfirði.
Vetrarríki er nú mikið í Siglufirði, eins og oft er þar á þessum tíma vetrarins. Snjóalög eru mikil, en umferð er þó um allar helstu götur. Er þar ekið ofan á þykkum snjóalögum, sem þjappast hafa saman og troðist undan umferðinni.
Í fyrsta sinn um langt skeið er Reyðarfjörður allur ísilagður svo að skipaferðir eru eins og sakir standa, eða voru í gær erfiðar af þeim sökum. Um hádegi í gær var kominn nokkurra stiga hiti á Reyðafirði og útlit fyrir að ísinn bráðnaði af firðinum, ef veður breytist ekki aftur til frosta. Það er orðið heldur óalgengt að fjörðinn leggi, eins og nú er og gerist slíkt ekki nema í langvarandi frostum og stillum. Þegar stormar eru og rysjótt tíð er ekki hætta á að fjörðinn leggi þótt frost séu mikil. Undanfarna daga hefir verið 1012 stiga frost á Reyðarfirði og logn, svo að báran hefir ekki getað brotið af sér ísinn jafnóðum. ... Var fjörðurinn lagður alveg út fyrir svonefnd Björg og ekki talið nema fært stærstu skipum inn að Reyðarfirði gegnum ísinn. Í gær [29.] brá svo til þíðviðris og var kominn 24 stiga hiti í Reyðarfirði í gær. Var strax byrjuð að koma hreyfing á lagísinn og útlit fyrir að hann leysist að verulegu leyti sundur í dag, ef þíðan helst.
Kropp háloftalægð kom inn á Grænlandshaf úr vestri. Sópaði hún svellköldu heimskautalofti austur um Atlantshaf og ruddi heldur hlýrra lofti norður yfir Ísland. Ekkert eiginlegt hlýtt loft kom þó við sögu. Úr varð nokkuð óvenjulegt veður. Kortið sýnir stöðuna að morgni þess 30. Daginn eftir dýpkaði lægð skammt sunnan við land og þokaðist norður.
Um kvöldið var lægðin, innan við 960 hPa djúp við Suðurland. [Kortið sýnir hæð 1000 hPa-fk-flatarins - með 40 m hæðarbili, en það samsvarar 5 hPa] Norðan við var mjög hvöss austlæg átt, en hiti rétt ofan við frostmark. Nærri lægðarmiðjunni var vindur hægur og rigning fyrst, en síðan kólnaði og um miðjan dag tók við óvenjuleg fannkoma í vestanátt, um landið sunnan- og suðvestanvert. Kortið hér fyrir neðan sýnir stöðuna í 500 hPa á sama tíma og kortið að ofan.
Kuldinn að vestan hefur leitað langt til austurs fyrir sunnan land. Þar er loft gríðarlega óstöðugt og fullt af snjókomu- og éljagörðum.
Tíminn segir 31.janúar frá umskiptunum:
Óvenjulega mikla snjókomu gerði hér við Faxaflóa síðdegis í gær [30.] og kyngdi niður að mestu í logni þvílíkum firnum af snjó á fáeinum klukkustundum, að fádæmi voru. Á Þingvöllum var hinsvegar rigning síðdegis i gær og 2ja stiga hiti. Fram til kl.2 í gær var rigning, sem mátti kallast stórrigning hér í Reykjavík. Þá skipti allt í einu um og tók að snjóa. Snjóaði síðan stanslaust fram eftir öllu kvöldi, og mun snjólagið hafa verið orðið 5060 sm þykkt seint í gærkveldi, en snjórinn var mjög laus. Klukkan fimm í gær mældist snjóþykktin 23 sm hjá Veðurstofunni. Veðurstofan gerði ráð fyrir norðan ofstopaveðri og verður þá undireins komin stórhríð, er lausamjöllin tekur að fjúka. Í gærkveldi var umferð um göturnar hér í Reykjavík orðin mjög treg bæði vegna blindu og ófærðar. Um aðalgötur voru þó víðast troðnar slóðir en erfitt að mætast. Strætisvagnar gengu þó á flestum leiðum fram eftir kvöldi og Hafnarfjarðarbílar gengu a.m.k. fram um kl. tíu þótt seinfarið væri.
Morgunblaðið segir svipaða sögu sama dag, 31.janúar:
Í gærdag um nónbil tók skyndilega að snjóa hér í bænum. Hafði fram að þeim tíma verið hláka. Í gærkvöldi klukkan 10 eftir að snjó hafði kyngt niður látlaust í hálfa áttundu klukkustund, var snjódýptin 35 cm, þar sem snjór var jafnfallinn. Hefur aldrei fyrr á þessum vetri jafnmikið snjóað, á jafn skömmum tíma. Í dag er spáð slíku veðri að ástæða er til að ætla að samgöngur allar muni komast á algjöra ringulreið. Svo snögglega hætti að rigna og tók að snjóa, að maður nokkur er var á gangi í Austurstræti, sagði er hann kom af Lækjartorgi vestur í Aðalstræti: Á torginu var rigning, en hér er snjókoma.
Kortið sýnir að síðdegis þann 31. var lægðin enn yfir Suðurlandi, en hafði grynnst nokkuð. Vindur norðan lægðarinnar var farinn að slakna. Frostlaust er á láglendi um Norðurland, en vægt frost syðra, það var kaldara á Reykjanesvita heldur en á Raufarhöfn.
Fannfergi þetta varð mörgum minnisstætt - þótt þeir sem það muna séu nú varla yngri en 76-77 ára nú. En þegar ritstjórinn var ungur bar fannfergi þetta jafnan á góma þegar mikið snjóaði í Reykjavík. Að morgni 31.janúar mældist snjódýptin 42 cm í Reykjavík og 48 cm næstu 2 daga (1. og 2. febrúar). Var hærri talan lengi talin snjódýptarmet í Reykjavík - þar til hærri tala fannst (55 cm, frá því í janúar 1937). Snjórinn 1937 stóð þó mun styttra við heldur en 1952 og varð sá síðarnefndi mönnum því minnisstæðari. Það var svo 26. febrúar 2017 sem snjódýpt í Reykjavík mældist 51 cm - eins og margir muna enn.
Tíminn fjallar 1.febrúar um fannfergið og breytingar á bæjarlífinu. Sömuleiðis læðast að fregnir úr öðrum landshlutum, af hvassviðri og rigningu m.a. er sagt frá því að tvö norðaustanveður hafi gert á Patreksfirði - en lægt á milli. Væntanlega komst skilasvæðið þangað norður um tíma, en hörfaði svo aftur til suðurs:
Hið óvænta fannfergi breytti á margan hátt bæjarlífinu í gær. Snjórinn var að vísu víðar mikill en í höfuðstaðnum, en hvergi eru menn jafn ósjálfbjarga við slíkar kringumstæður og í borgunum, þar sein lifnaðarhættir fólksins eru bundnir við snjólausar götur. Þeir, sem á annað borð vöknuðu heima hjá sér í Reykjavík í gærmorgun og höfðu verið svo heppnir að þurfa ekki að leita sér gistingar að heiman kvöldið áður, ætluðu varla að þekkja sitt eigið umhverfi og hefðu getað haldið, að þá dreymdi um hvít jól, er þeir nudduðu stírurnar úr augunum. Mörg dæmi eru þess, að menn féllu óforvarandis niður í djúpa snjóskafla upp við húsveggi eða fram af dyraþrepum og áttuðu sig er þeir fundu kaldan snjóinn við andlitið. Allt að axlardjúpur snjór var víða við íbúðarhúsin, einkum í úthverfunum. Á þeim tíma, sem fólk er venjulega á leið til vinnu mátti sjá hvar fólk staulaðist út um snjógöngin, sem það hafði grafið út úr húsunum. Viða voru bílar fenntir bókstaflega í kaf upp við húsgarða og á götunum. Þar sem tekist hafði að losa farartækin, stóðu djúpar og gapandi gryfjur og krakkarnir notuðu veggi þeirra til að grafa inn úr þeim snjógöng og heilar töfrahallir þar sem þau bjuggu sér ævintýraheima.
Vegir máttu heita alófærir hér suðvestan lands í gær, enda náði hin mikla snjókoma um Suðurlandsundirlendið allt austur undir Eyjafjöll en bar austan við var snjórinn töluvert minni. Tíu mjólkurbílar, sem lögðu af stað frá Selfossi í gærmorgun voru ekki komnir til Reykjavíkur í gærkveldi. Að því er fréttaritari Tímans í Hornafirði sagði, gerði nokkra snjókomu þar í fyrrakvöld og stóð hún fram eftir nóttu, en í gærmorgun var komin hellirigning og síðdegis í gær mátti heita að allur snjór væri horfinn. Versta veður var þar, stórrigning, þoka og norðaustan stormur. Á Kirkjubæjarklaustri var svipaða sögu að segja, snjór var þar lítill en svellalög og áfreðar miklir. Í Vík í Mýrdal var snjókoma nokkur en ekki fannkynngi í gær. Ófært var þó bifreiðum vestur frá Mýrdal. Á Hvolsvelli og nærsveitum var snjókoma mikil. Nokkrir mjólkurbílar lögðu þaðan af stað austur undir Eyjafjöll í gærmorgun en sneru við, er skammt var farið, því að alófært var um alla vegi. Mun því nær engin mjólk hafa komið frá bæjum í Rangárþingi í gær og ófært var vestur á bóginn að Þjórsárbrú. Í Árnessýslu var í gær ófært í sumar sveitir frá Selfossi, en mjög erfið færð í aðrar. Komist varð austur að Þjórsárbrú, en verið fjóra tíma að aka tíu kílómetra leið austur að Skeggjastöðum í Flóa. Yfirleitt var hægt að brjótast niður í Flóann, nema í Villingaholtshrepp, og mjög var seinfarið og urðu bílstjórarnir að fara út til þess að kanna, hvar vegurinn væri og þoka bílunum þannig áfram spöl og spöl. Upp á Skeið og Hreppa varð komist, og er snjórinn minni, er upp í Hreppa kemur. Hins vegar var með öllu ófært í Grímsnes, Laugardal og Biskupstungur.
Ófært var með öllu frá Reykjavík upp í Kjós og komust bílar ekki lengra en að Elliðaám og kom því engin mjólk til bæjarins úr Kjós eða af Kjalarnesi.
Einkafrétt til Tímans frá Flateyri. Í fyrrakvöld [30.janúar] gerði hér aftakaveður af norðaustri og var veðurhæð 1112 vindstig. Fylgdi veðrinu hellirigning. Urðu af veðrinu nokkrir skaðar í höfninni. Strandferðaskipið Hekla var hér við bryggju í gærkveldi og ætlaði að leggja frá og halda förinni áfram um. kl. 10:30 í gærkveldi. Þegar skipið var að losa sig frá bryggjunni og komast út á fjörðinn var veðrið svo mikið, að skipið hrakti upp í fjörusand framarlega á Flateyrarodda. Komst það ekki á flot sjálfkrafa og sat þar fast í fyrrinótt. Klukkan 10:30 i gærmorgun kom varðskipið Þór hingað til aðstoðar og tókst að ná Heklu á flot um kl. 11:40 í gærmorgun. Skipið hafði legið í mjúkum ægissandi og skemmdist ekki neitt, sá ekki einu sinni á því eftir viðkomuna. Vélbáturinn Garðar, sem er 15 smálestir að stærð og var á legunni, dró legufærin og hrakti út á grynningar. Náðist hann þó út í gær en var með brotið stýri og eitthvað meira laskaður. Vélbáturinn Fríða sem er fimm smálestir að stærð slitnaði einnig upp og rak upp í fjöru. Tókst þó að draga hann á land undan sjó, en önnur hlið hans ver allmikið brotin.
Frá fréttaritara Tímans á Patreksfirði. Aftaka norðaustanveður var hér um slóðir í fyrrinótt [aðfaranótt 31.]. Um hádegi í gær var komið indælt veður og blakti ekki hár á höfði, en klukkustund síðar skall aftur á ofsaveður af norðaustri. Tjón af veðrinu er ekki vitað um hér um slóðir. Fjöldi skipa, erlendra og innlendra liggur hér inni, og þeirra á meðal strandferðaskipið Herðubreið, sem varðskipið Þór fylgdi hingað norðan úr Höfðakaupstað.
Morgunblaðið segir einnig af fannfergi og svo norðaustanillviðri norðanlands í pistli 1.febrúar:
Fjöldi Reykvíkinga varð að moka sig út úr húsum sínum í gærmorgun vegna hinnar miklu snjókomu í fyrrakvöld og fyrrinótt, sem er hin mesta, sem hér hefur komið í áratugi. Snjórinn var víða hátt upp á hurðir. Urðu menn að moka frá þeim og traðir í gegnum snjóinn út á götuna.
Mjólkur- og áætlunarbílar sem lögðu af stað um sexleytið í fyrrakvöld upp á Kjalarnes og Kjós, komust ekki nema að Kleifum við Kollafjörð, og höfðu þá verið tólf klukkustundir á leiðinni. Fólkið úr bílunum kom gangandi að Móum á Kjalarnesi í gærmorgun. Hefir það nú raðað sér á bæina þar í kring og bíður átekta.
Ólafsfirði, 31. janúar. Aðfaranótt fimmtudags [31.] gerði hér eitt mesta norðaustanhvassviðri, sem komið hefir um langan tíma. Járnplötur fuku af þökum nokkurra húsa, raftaugar slitnuðu og rúður brotnuðu á stöku stað, en ekki er vitað um annað tjón. Snjókoma var engin og hefir heldur sigið. Fréttaritari.
Höfn í Hornafirði, 31. janúar. Hér snjóaði mikið í morgun [31.] á skömmum tíma, en snjórinn varð þó aldrei meiri en um 20 cm jafnfallinn. En síðar í dag tók að rigna og er nú mikið krap hér. Það vakti athygli manna og undrun í sambandi við þessa snjókomu, að þótt snjóaði hér um miðjan Hornafjörð, féll aldrei snjókorn úr lofti á Almannaskarð hér fyrir austan og er það alveg autt. Norðar á Austfjörðum snjóaði heldur ekki.
Leigubílstöðvarnar sáu sig neyddar til að loka í gær vegna ófærðarinnar. Margir bílstjórar vildu ekki eiga það á hættu að skemma bíla sína í hinni þungu og erfiðu færð. Þá var og ekki mögulegt fyrir leigubíla að aka eftir fjölmörgum götum, og leiðin var jafnvel lokuð að sumum afgreiðslustaurunum í úthverfunum. Bílstöðvarnar opna ekki aftur fyrr en færðin batnar.
Tíminn segir frá illviðri á Héraði í pistli 2.febrúar:
Einkafrétt til Tímans frá Egilsstöðum. Yfir hundrað fjár hrakti á miðvikudaginn [30.] úr högum tveggja bæja á Jökuldal, Hákonarstaða og Skjöldólfsstaða, sem báðir standa vestan Jökulsár, og hefir ekkert af fénu fundist, þótt leitað hafi verið. Stórhríð af austan skall yfir á Jökuldal á miðvikudaginn, og var þá beitarfé í högum. Á Hákonarstöðum og Skjöldólfsstöðum tókst ekki að ná öllu fénu í hús. Vantar yfir 80 kindum á Hákonarstöðum hjá Sigvalda bónda Torfasyni og sonum hans, en 23 á Skjöldólfsstöðum hjá Þorsteini bónda Snædal. Niðri á Fljótsdalshéraði hefir jörð verið marauð, en uppi á Jökuldal hefir ekki hlánað og er það orðið jarðlítið eða jarðlaust eftir þennan síðasta byl.
Morgunblaðið segir enn af illviðrinu fyrir norðan í pistli 2.febrúar:
Siglufirði, 1. febrúar. Eitt af mestu veðrum, sem hér koma, geisaði síðustu nótt [31.?] af norðaustri með skúrum. Skemmdir urðu allmiklar hér í kaupstaðnum. Þök fuku af húsum og gluggar brotnuðu. Þak tók af hluta af tunnuverksmiðju ríkisins, m/s Sigurður slitnaði frá bryggju og rak inn í fjöru utan svonefndrar Ásgeirsbryggju. Hann náðist aftur út á flóðinu óskemmdur. Fjölda margir urðu fyrir tilfinnanlegu tjóni af völdum þessa fárviðris. Þurrkgrindur við nótarhjalla, sem standa inni í firði, fuku með öllu. Rafmagnslaust var í ýmsum bæjarhlutum í nótt vegna bilunar á innanbæjarkerfi. Símasambandslaust var út úr bænum vegna bilunar. Harðast mun veðrið hafa verið um og eftir miðnætti. Þari og annað rusl frá sjónum er suður um alla Eyri. Í dag er norðaustan stormur og bleytuhríð. Guðjón.
Eftir hríðina hlánaði. Morgunblaðið segir frá 5.febrúar
Í hlákunni í gær féllu víða snjóhengjur af húsþökum, en ekki er kunnugt um að slys hafi hlotist af, þó víða hafi legið nærri. Hér í Austurstræti var snjó mokað af þökum nokkurra húsa, t.d. Reykjavíkur Apóteki. Í Landsbankanum féll snjóhengja gegnum glugga í afgreiðslusal og munaði þar litlu að slys hefði orðið á afgreiðslustúlku.
Í Tímanum 5. febrúar er grein eftir Jón Dúason: Veðurskeytin frá Grænlandi. Jón var sem kunnugt er áhugamaður um réttindi íslendinga þar um slóðir. Margt er sagt í greininni en m.a.: En hví er þér kappsmál, að við veiðum við Grænland að vetrinum? Af því að með ofveiði á undanförnum vetrarvertíðum á grunnmiðunum við Suðvesturland og aðra tíma árs á djúpmiðunum og öðrum íslandsmiðum og á Djúpálsrifinu, er búið að strádrepa svo íslandsfiskinn og Austur-Grænlandsfiskinn, er virðist ganga hingað um Djúpálsrifið til að hrygna, að ekkert fiskmagn virðist vera til í sjónum við Ísland til að skapa annað en fisklausa vertíð. Aflalaus vetrarvertíð virðist vera framundan og þær fleiri en ein í röð.
Einnig segir blaðið frekari tíðindi af illviðrinu um mánaðamótin:
Frá fréttaritara Tímans á Hólsfjöllum. Síðastliðinn fimmtudag [31.] skall á ofsaveður af austri um Öxarfjörð. Í þessu veðri brotnuðu sjötíu staurar í símalínunni frá Kópaskeri inn í Öxarfjörðinn.
Féð, sem týndist frá Hákonarstöðum og Skjöldólfsstöðum á Jökuldal í austanhríðinni í fyrri viku, er nú fundið, allt lifandi nema fáar kindur. Margt af því var þó mjög hart leikið og allt fellt í klakabrynju.
Blaðið átti í gær símtal austur á Hérað, og var því skýrt frá, að hreindýr væru nú komin til byggða, enda mun haglaust orðið inni á öræfum og heiðum, þar sem hreindýr halda sig, meðan þau geta satt þar hungur sitt.
Febrúar varð öllu hagstæðari heldur en janúar, en þó ekki tíðindalaus. Óvenjulegast er úrhelli um hluta Vesturlands þ.18. til 20. Úrkoma mældist 94,8 mm í Síðumúla í Borgarfirði að morgni þ.19 og 62,5 mm daginn eftir. Þetta eru tvær hæstu tölur alla mælitímabilsins þar (1934-1986). Veðurathugunarmenn lýsa tíð í febrúar:
Síðumúli: Febrúar var sá mesti votviðramánuður, sem ég man, svo það má segja að á ýmsu gangi þennan vetur síðan á nýári. Þ. 18.,19. og 20. varð úrkoma svo mikil og vatnavextir, að menn muna ekki annað eins. Olli það miklu tjóni á vegum og síma. Staurar brotnuðu og varð ekki við gert fyrr en flóðin sjötnuðu niður. Við vorum símalaus til Borgarness tæpa 2 sólarhringa, frá kl. rúmlega 17 þ. 19. til kl. tæplega 16 þ. 21., höfðum þá 7 veðurskeyti ósend eins og bókin ber með sér. Brýr brotnuðu af læk og síki, svo mjólkurbíllinn komst ekki nema fram undir næsta bæ hér fyrir framan. Hvítársíða var því öll þar fyrir framan samgöngulaus nokkra daga, þar til hægt var að gera við þessar brýr.
Reykhólar (Sigurður Elíasson): [19. Geysilegir vatnavextir. Fyrir voru svellalög og snjór í driftum. Vatn hljóp í útihús, votheystóftir, kartöflugeymslukjallara o.fl. Í Bæ í Króksfirði drukknuðu 4 ær í húsunum. Öðru var bjargað með naumindum].
Lambavatn: Það hefir verið sæmilegt tíðarfar yfir mánuðinn. Oftast snjólítið í byggð, nema skaflar. En svell mikil svo hér hefir alltaf verið jarðlaust að mestu en þar sem er útbeit er komin upp sæmileg jörð um miðjan mánuðinn.
Skriðuland (Kolbeinn Kristinsson): Óstillt veðurfar og úrkomur stórlega miklar. Var það einkenni þessa mánaðar að skammvinnum blotum lauk jafnan með snjókomu og oft rækilegri. Hefur svo til gengið frá áramótum. Haglaust með öllu.
Sandur: Tíðarfarið var fremur milt og veðurgott. Hláka kom þ.17 sem og grynnti til muna á snjó sem var orðinn allmikill. Komu þá upp talsverðir hagar og gerði hjarn og ísalög.
Reykjahlíð: Meiri stillingar en í janúar fyrri hluta mánaðarins. Seinni hluti mánaðarins ágætur. Í lokin rifahjarn og bíl-(jeppa-)fært yfir allt land hér hvaða torfærur sem það geymir í auðri jörð.
Þorvaldsstaðir: [6. Í dag kl.12:30 gekk í áhlaupa vestanhvassviðri með snjókomu og renningi. Þar sem spakt veður hafði verið að morgni höfðu menn almennt rekið fé sitt á beit. Gekk víða erfiðlega að finna féð og koma til húsa. Urðu á nokkrum stöðum hrakningar á fé. T.d Gunnarsstöðum þar sem hartnær helmingur fjárins lá úti um nóttina. Fórust þar nokkrar kindur. Í Saurbæ og Miðfirði hrakti og fé, en hafðist allt daginn eftir.]
Hof í Vopnafirði (Jakob Einarsson): Sama tíðin hélt áfram fyrri hluta mánaðarins sem var í janúar; umhleypingar með illviðrum og jarðbönnum (víða). Hinn 6. gerði manndrápsbyl er byrjaði upp úr kl.1 e.m. í meiri hluta sveitarinnar, en hér með hallandi degi. Varð maður úti
í þeim byl, Stefán Benediktsson bóndi á Þorvaldsstöðum í Selárdal.
Gunnhildargerði: Veðráttan í mánuðinum var mjög óstöðug og harðleikin, en um miðjan mánuð brá til þíðviðra og komu sæmilegir hagar en var mjög svellað.
Teigarhorn: Febrúar má teljast fremur góður. Hagar góðir allan mánuðinn. Þann 7. gerði norðanrok (stórveður), engir skaðar urðu af völdum veðursins.
Þann 5. og 6. fór lægð til norðurs yfir landið eða rétt vestan við það. Í kjölfarið gerði mikið veður af norðvestri um landið norðaustan- og austanvert.
Morgunblaðið segir enn af illri færð í Reykjavík 6.febrúar:
Mjög vond færð var um götur bæjarins í gær [5.], bæði bílum og gangandi mönnum. Djúp hjólför hafa myndast á öllum götum og hryggirnir víða svo háir, að litlir bílar komast þar alls ekki um. Heita mátti, að aðalumferðagöturnar væru þær einu, sem voru nokkuð greiðfærar. Gátu strætisvagnar t.d. ekki ætíð haldið áætlun.
Tíminn segir frá tjóni sem fannfergið er talið valda trjágróðri í pistli 6.febrúar:
Víða í görðum, þar sem trjágróður er í uppvexti, munu hafa orðið verulegar skemmdir af völdum snjóþyngslanna, þar sem þau eru mest. Toppgreinar hafa brotnað og hliðargreinar bælst niður og rifnað frá stofninum. Snjórinn, sem féll síðast, var yfirleitt mjög laus, og þegar blotnaði í honum, seig hann mjög og skemmdi að meira eða minna leyti ungan trjágróður, sem undir honum var. Munu plönturnar því koma bældar og brotnar undan snjónum, þegar hann leysir.
Morgunblaðið birti 7.febrúar fróðlegt yfirlit um veðurlag í Fljótsdal árið áður, 1951. Við leyfum því að fljóta með hér (svo ritstjórinn týni því ekki - en flytur það á rétt ár ef honum endist aldur og þrek í aðra annálsumferð):
Úr fréttabréfi úr Fljótsdal: Árferði 1951 var í lakara lagi hér í sveit. Janúar var sæmilega góður, en úr því, til sumarmála, illviðrasamt með afbrigðum. Fannalög voru í mesta lagi í Norðurdal og einnig frá Bessastaðaá og út með Lagarfljóti að vestan. Fönn tók aldrei til fulls um sumarið úr gili ofan við Bessastaðagerði. Úr túninu á Brekkugerði hvarf síðasta fönnin um miðjan júlí. Haglaust var að mestu á innstu bæjum í Norðurdal þar til batinn kom með sumarkomunni. Sól vann aðeins á hæstu tindum og hnjótum og voru þeir orðnir margsorfnir til rótar. Langbest var hér um miðjan dalinn og í Suðurdal, einkum í Múlanum. ... Snjór var hér um miðjan dal furðulega lítill, miðað við það sem var, er skammt dró út á Héraðið. Í fjöruborði Lagarins hjá Hreiðarsstöðum, var snjóskafl fram í miðjan júlí, og rétt ofan við bæina á Skeggjastöðum í Fellum mun fönnin hafa horfið nokkru eftir miðjan ágúst. Batinn á fyrstu sumarhelgi var hægur og samfelldur, og gerði hér aldrei frostnótt, svo að ég yrði var. Tíðaríar á sauðburði var ákjósanlegt. Gerði aldrei hret. Klaki var mjög mikill í jörðu, vorið þurrt og ekki hlýtt, og spratt mjög hægt. Á stöku bæ var þó ögn slegið á túnum síðari hluta júní, en almennt hófst sláttur 5.10. júlí. Heyskapartíð hagstæð fram í miðjan ágúst, en grasspretta almennt léleg. Var jörð þá orðin ákaflega þurr. Neysluvatnsskortur tekinn að gera vart við sig á bæjum. Frá miðjum ágúst samfelldir óþurrkar um nær mánaðarskeið. Ekki gerði stórfelldar rigningar hér nema 14. september. Var þá norðaustan og norðan rok, með stórfelldri rigningu og krapa til fjalla, svo að fáir mundu þvílíkt veður á þeim tíma. Ágæt vika fyrir göngur og hirtust þá mest öll hey, þá orðin talsvert hrakin og misjafnlega hirt, eins og verða vill, er mikið liggur fyrir og áliðið er sumars. Heyskapur varð að lokum í tæpu meðallagi. Gras spratt þó mjög allan óþurrkakaflann. Kartöfluspretta var í meðallagi, en nokkuð misjöfn. Gras féll fyrst hér á Skriðuklaustri 7. september, svo að til muna drægi úr sprettu. Göngum var frestað. Réttardagur í Fljótsdal 30. september. Göngur mjög erfiðar fyrir þokur. Stóðu göngur yfir einum degi lengur, en átti að vera á vesturafréttum vegna þoku. Í Múla og Suðurdal varð að hætta við göngur á fyrirhuguðum tíma. Haustveðrátta allgóð. Harður frostakafli síðustu viku sumars, en lítil snjókoma. Stóð þá yfir síðasta leit á Vesturöræfum og í Rana en ekki þó allvel. Með vetrarkomu kom þíðviðri er hélst fram um 20. nóvember. Nóvember með besta móti. Fé almennt tekið til hýsingar síðast í nóvember. Dimmviðrishríðar og frosthörkur i desember til 10. en úr því allgott til áramóta. Spillti þó jörð síðustu daga mánaðarins, einkum í dölunum. Fé var mjög misjafnt til frálags, yfirleitt tæplega í meðallagi í Fljótsdal. Heimtur af fjalli víða slæmar og einkum heimtist seint. Áttu þokurnar í göngunum mestan þátt í því. Fullorðið fé mun hafa verið í rýrara lagi. Nokkuð mun hafa fallið af hreindýrum s.l. vor. Hræ og beinagrindur hafa allvíða fundist, t.d. á Fljótsdalsheiðinni. Það sem af er þessum vetri hefir ekki frést um hreindýr í nágrenni bæja. 15. janúar 52. J.P. [Jónas Pétursson].
Nú bárust fregnir af norðvestanveðrinu á Austurlandi. Tíminn segir frá 8.febrúar:
Í fyrrakvöld [6.] gerði aftaka hvassviðri á Austfjörðum. Urðu talsverðar skemmdir af veðrinu. Þök fuku af húsum og íbúar tveggja húsa á Reyðarfirði urðu að yfirgefa hús sín meðan mest gekk á. Á Norðfirði hvessti skyndilega síðari hluta dags. Strandferðaskipið Hekla hafði farið þar frá bryggju um kl. 5:30 og mátti ekki tæpara standa, því að skömmu síðar jók storminn um allan helming. Á Norðfirði urðu þær skemmdir helstar, að þak fauk alveg af nýbyggðu húsi, en auk þess fuku járnplötur fleiri eða færri af mörgum húsum og skúrum niður við sjóinn. Báta sakaði hins vegar ekki, enda flestir farnir suður til vertíðar. Mesti veðurhamurinn stóð til kl. 89 um kvöldið og fór þá heldur að lægja. Er þetta eitt með allra sterkustu veðrum, er komið hafa á Norðfirði um langt skeið. Á Reyðarfirði hvessti nokkru síðar og gerði fljótlega hið mesta illviðri með stormi og snjókomu. Raflínur fuku saman og varð mikill hluti kauptúnsins rafmagnslaust í fyrrinótt. Þak fauk af húsi og annað hús skemmdist mikið. Urðu fjölskyldur þessara húsa að flýja úr þeim meðan veðurofsinn var sem mestur. Aðrar skemmdir urðu, en þær stórvægilegastar, sem taldar hafa verið. Ferð Heklu seinkaði um 12 tíma, þar sem skipið komst ekki frá bryggju í Eskifirði meðan hvassast var.
Og heldur áfram 9.febrúar:
Einkaskeyti til Tímans frá Vopnafirði. Í aftaka norðan stórhríðarveðri, sem gerði hér um slóðir á miðvikudaginn, varð Stefán Benediktsson, bóndi á Þorvaldsstöðum i Vopnafirði úti, er hann var á leið heim til sín frá Ljótsstöðum.
Einkaskeyti til Tímans frá Vopnafirði. Í stórhríðinni, sem gerði hér í Vopnafirði á miðvikudaginn [6.] , lentu bændurnir á Hámundarstöðum, sem eru lítið eitt út með firðinum að norðan, í miklum hrakningum með fé sitt og misstu það út í veðrið, en komust sjálfir heim við illan leik. Þeir bændur voru að koma fé sinu heim, er stórhríðin skall á, en urðu á einum stað að fara yfir mikla svellbólstra þar í brekkunum. Féð hvarf út í bylinn. Yfir þessa svellbólstra urðu þeir að hjálpa nokkrum lömbum, sem ekki komust yfir af sjálfsdáðum. Meðan þeir voru að því, rann féð áfram og skall veðrið þá á á meðan og svo skyndilega og glórulaust, að þeir fundu ekki féð aftur. Urðu bændurnir frá að hverfa og komust við illan leik heim til bæjar. Á fimmtudaginn, er veðrinu slotaði, var leit hafin að fénu. Fannst það flest, en nokkrar kindur voru dauðar og féð allt mjög hrakið og þjakað. Voru sumar kindurnar svo illa á sig komnar, að það varð að flytja þær heim á sleðum.
Frá fréttaritara Tímans á Eskifirði. Í fárviðrinu, sem gekk yfir Austfirði á miðvikudagskvöldið [6.], urðu allmiklar skemmdir á Eskifirði. Strandferðaskipið Hekla kom í byrjun veðursins og lá við bryggju um nóttina. Skipverjar mældu veðurhæðina, og reyndist hún vera 14 stig. Skemmdir urðu einkum á bryggjum. Ein þeirra, bryggja Halldórs Árnasonar, sem búið var að endurbyggja eftir fárviðrið 9. janúar, eyðilagðist nú aftur og einnig það, sem eftir var af bryggju kaupfélagsins. En hún skemmdist einnig mikið í fyrra veðrinu.
Nú kom loks sæmilega rólegur tími. Tíminn segir frá 16.febrúar:
Frá fréttaritara Tímans á Húsavik. Mjög mikill snjór er nú kominn hér í sýslunni, einkum fram til dala, enda hefir snjóað öðru hverju að undanförnu. Af og til er þó brotist á bílum framan úr Aðaldal og Reykjadal með mjólk, en bílarnir fara mjög troðna slóð ofan á snjónum. Ekkert er róið frá Húsavík um þessar mundir, enda er algert aflaleysi á næstu miðum og gæftir mjög stirðar.
Í gær var mjög gott veður í Reykjavík, lygnt, en úrkomulaust fram á kvöldið, að gerði sallarigningu, sem minnti á vorúða. Hiti var þó ekki að ráði yfir tvö stig
Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli. Orðið er sæmilega fært um flesta aðalvegi i Rangárþingi og hefir verið nokkra daga. Snjóalög eru geysimikil í sýslunni og meiri en venjulegt er. Snjórinn er hlaupinn í gadd og þarf mikla þíðu til að vinna á honum svo að um munar. Eru ísalög og meiri en venjulegt er. Alger jarðbönn hafa verið í sýslunni síðan um hátíðar, og veturinn orðinn mjög gjaffrekur, miklu harðari til beitar en verið hefir um langt skeið.
Þann 17. til 19. var mikil hæð vestur af Bretlandseyjum. Beindi hún mjög hlýjum loftstraumi langt úr suðri til landsins með mikilli úrkomu og vatnavöxtum.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa að kvöldi þess 18.febrúar. Lægðardragið vestan Grænlands mjakaðist síðan austur yfir og þann 20. gekk vindur í vestur á landinu og þornaði upp. Síðan gerði skammvinna norðanátt.
Hér má sjá veðrið að morgni 19.febrúar. Þá er þriggja og fjögurra punkta rigning á fjölmörgum veðurstöðvum á landinu suðvestanverðu og norður í Skagafjörð. Frostlaust er á láglendi um land allt, en á Hornbjargsvita er stutt í kalda loftið, hiti rétt yfir frostmarki.
Tíminn segir af hlákunni 19.febrúar:
Síðustu dægur hefir verið þíðviðri um allt land, og er von til þess, að þíðviðrið haldist enn fyrst um sinn. Enn er þó ekki komin upp jörð í mörgum héruðum, og er allt grátt yfir að líta af krapi og svellum, sem þíðan er lengi að vinna á. Dagana áður en þíðan kom hafði í ýmsum sveitum farið fram fóðurbirgðaskoðun, og mun sums staðar hafa komið í ljós, að ekki yrði nægt hey handa bústofninum, ef harðindi héldust til vors, en aftur á móti aðrir verið aflögufærir, svo að ástand í þeim efnum var yfirleitt ekki talið ískyggilegt, þótt sums staðar á landinu yrði síðastliðið sumar heyfengur í rýrara lagi vegna kals.
Tíminn segir af vatnavöxtum 20.febrúar:
Í fyrrinótt hljóp stórflóð í allar ár í Borgarfjarðarhéraði, á Mýrum og í Hnappadalssýslu, vegna geysilegrar rigningar og örrar leysingar og í gærmorgun var sums staðar farið að renna yfir vegi, svo að umferð tepptist, og ágerðist þetta í gær. Þó virtist sem flóðin myndu hafa náð hámarki sínu seint í gær og voru þá komnar krapahryðjur upp í Norðurárdal og árnar hættar að vaxa. Fréttaritari Tímans í Borgarnesi, Jón Guðmundsson, átti tal við menn víðs vegar um það svæði, þar sem vatnavextirnir voru mestir, og fer hér á eftir frásögn hans: Í hvern læk í héraðinu hefir hlaupið geysilegur vöxtur á skömmum tíma, og stórárnar flæða viða yfir bakka sína, svo að sums staðar er eins og hafsjó yfir að horfa. Fregnir úr Reykholtsdal segja, að ekki vanti nema eitt fet til þess að vatnið nái brúnni á Reykjadalsá hjá Kleppjárnsreykjum, og svipað borð er undir brúnni á Norðurá hjá Hlöðutúni. Foraðsvöxtur er í Grímsá, Flókadalsá, Þverá og öðrum vatnsföllum. Vöxtur í Norðurá er ógurlegur og sagði Tómas Jónasson bóndi í Sólheimatungu að þetta flóð væri með því mesta sem hann minntist. Tveir bæir í Stafholtstungum Flóðatangi og Melkot eður algerlega umflotnir. ... Einn staur í rafmagnslínunni hefir brotnað og er rafmagnslaust í Stafholtstungum. í Sólheimatungu standa fjárhúsin nokkuð frá bænum, og var farið ríðandi á þau í gær. Liggur leiðin yfir mýrarsund, og tók vatnið í kvið á hestinum. Sjálf standa fjárhúsin það hærra, að vatn náði þeim ekki.
Þórdís Fjeldsted, húsfreyja í Ferjukoti, sagði að bærinn þar væri algerlega umflotinn, og komið vatn í kjallarann, en þó ekki meira en svo, að ganga mætti þar um á hnéháum stígvélum. Í gærmorgun var Hvítá þegar tekin að renna yfir veginn Hvítárvallamegin við brúna, svo að mjólkurbílar komust ekki leiðar sinnar, og í gær fór einnig að renna yfir veginn vestan Ferjukots við Síkið svonefnda, svo að sú leið lokaðist einnig. Klaki er enn í vegunum, svo að þeim er síður hætt við skemmdum, en mæði vatnið lengi á, hljóta þeir að grafast sundur á stórum köflum. Sesselja, húsfreyja í Dalsmynni sagði að Norðurá rynni þar yfir þjóðveginn og sömuleiðis við Litluá fyrir framan Hvamm. Páll Sigurðsson, veitingamaður í Fornahvammi, var í fyrrakvöld á heimleið úr Reykjavík, og komst hann ekki yfir torfærurnar. Jón frá Múla var einnig á leið norður i land í gær, og komst hann fram hjá Dalsmynni, er snjóýta hafði ýtt jakahrönn af veginum. Það er talið mesta happ, að Norðurá hefir ekki náð að ryðja sig, nema á köflum. Hefir hún yfirleitt lyft ísnum eða rennur ofan á honum, en hefði hún brotið hann af sér, hefðu sennilega myndast klakastíflur, er valdið hefðu enn ægilegra flóði og sjálfsagt stórtjóni, er áin sprengdi þær.
Vestur á Mýrum og í Hnappadalssýslu hafa ár einnig hlaupið úr farvegi sínum. Sigurður Brynjólfsson mjólkurbílstjóri, er fór vestur í Miklaholtshrepp, segir, að Núpá í Eyjahreppi hafi flætt yfir veginn, og sömuleiðis Urriðaá í Álftaneshreppi. Varð hann þar að fá jarðýtu til þess að hreinsa jakahrönn af veginum, áður en hann komst leiðar sinnar. Síðdegis í gær var yfirleitt að stytta upp á þessum slóðum og vindur að snúast til vestlægari áttar, svo að þess má vænta, að úr flóðunum hafi dregið í nótt, og brátt muni fara að fjara í ánum.
Morgunblaðið segir einnig flóðafréttir þann 20.febrúar:
Reykhólum, 19. febrúar. Þíðviðri og mjög mikil rigning hefur verið hér um slóðir undanfarna tvo sólarhringa. Þannig rigndi hér á Reykhólum frá hádegi í gær til jafnlengdar í dag 63,4 mm. Þetta hefir orsakað, ofan á mikinn snjó og svell, sem fyrir er, óvenjulega vatnavexti, þannig að skapast hafa af því margvíslegir erfiðleikar. Hér á Reykhólum hafa kartöflugeymslur fyllt af vatni og vatn hefir einnig komist í heyhlöður, svo að menn hafa þurft að standa í stöðugum vatnsaustri um leið og reynt hefir verið að bægja vatnsflóðinu frá húsunum. Þó hafa erfiðleikarnir verið mestir í Bæ í Króksfirði. Þar flæðir vatnið inn í fjárhúsið og hlöðuna, sem hvorttveggja eru nýjar og vandaðar byggingar. Vann þar fjöldi manns í gærdag við að veita vatninu frá húsunum. Tókst þannig að bjarga heyinu, sem annars var í hættu. Sennilegt er að hér hafi víðar skapast erfiðleikar vegna þessara snöggu og óvenju vatnavaxta. J. G.
Þykkvabæ, 19. febr. Þykkvibærinn er nú umflotinn vatni. Stafar það af því að ís hefur enn ekki tekið af Djúpánni neðanverðri, en er ofar dregur er allur ís af henni horfinn. Er svipað umhorfs í Þykkvabænum nú og er vatnsflóðin gerði þar i fyrra. Öll Safamýrin allt upp að Bjóluhverfi er undir vatni en frá Þykkvabæ að Bjóluhverfi er um 10 km leið. Á veginum til Þykkvabæjar er vatnið víða um metri á dýpt. Ófært er með öllu að Þykkvabæ og hafa mjólkurflutningar því lagst niður. Tjón af völdum vatnsflóðsins hefur orðið hjá Sigurði Sigurðssyni bónda í Miðkoti í Þykkvabæ. Komst vatn i heyhlöður hans, en ekki er vitað hve miklum skemmdum það hefur valdið. Um 80 hestar af heyi voru í hlöðunni. Ekki er talið fært að sprengja ísinn af ánni, en haldi leysingunum áfram mun vart líða á löngu áður en stíflan hverfur. Geri hins vegar frost getur leitt til erfiðs og alvarlegs ástands fyrir Þykkvabæinga. M.
Tíminn segir enn af flóðunum 21.febrúar:
Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli. Geysimikill vatnselgur hefir verið hér um slóðir í hlákunni undanfarna daga. Hefir orðið ofurlítið tjón af því bæði hér á Hvolsvelli og eins eyðilagðist ein brú í Fljótshlíð. Mikið uppistöðuvatn safnaðist á flatlendinu umhverfis Hvolsvöll og braut sér leið fram í gegnum kauptúnið. Kom vatn í nokkur hús og varð af smávægilegt tjón. Úr geymsluhúsum kaupfélagsins varð að bera allmikið af vörum þar sem vatn komst inn í þau og grafa frá þeim til að veita vatninu framrás. Eitthvað skemmdist af vörum en þó ekki svo mikið að telja mætti brögð að. Klakastífla var undir brúnni á Þverá og rann vatn á breiðu svæði beggja megin hennar. Bílar komust þó leiðar sinnar eftir veginum en urðu að aka í alldjúpu vatni á köflum. ... Í gær var nokkuð farið að sjatna. Á Merkiá sem er á milli bæjanna Múlakots og Hlíðarendakota í Fljótshlíð féll brúin niður og brotnaði. Þetta er steinbrú fremur lítil og hafði vatnið komist fyrir enda hennar og grafið undan öðrum stöplinum. Er því ófært bílum fram í Fljótshlíð sem stendur. Vatn sprengdi hlöðuvegg á einum bæ í Fljótshlíð, rann inn í hlöðuna og skemmdi nokkuð af heyi. Í Þykkvabæ urðu og mikil vatnsflóð frá Djúpá og var mestur hluti Þykkvabæjarins umflotinn og láglendi allt undir vatni. Var ófært þar um alla vegi um skeið. Vatn komst og í heyhlöður á einum tveim bæjum og eyðilagði nokkuð af heyi.
Frá fréttaritara Tímans í Öræfum. Hér í Öræfum hefir verið óvenjulegt hagleysi í vetur af völdum snjóa og ísalaga. Hefir verið haglítið af og til síðan í síðari hluta desembermánaðar og fram undir þetta, og því eiga menn ekki að venjast hér í sveit. Nú er jörð allgóð, en þó var þíðan ekki svo mikil, að ár ryddu sig. Einkafrétt Tímans úr Öræfum. Séra Eiríkur Helgason, prestur í Bjarnanesi í Hornafirði, þjónar öllum Söfnuðum í Austur-Skaftafellssýslu, og er það allvíðlent svæði til prestsþjónustu og getur verið örðugt yfirferðar, bæði vetur og sumar. Nú í þessum mánuði varð séra Eiríkur að fara vestur í Öræfi til þess að jarða aldraða konu. Fór hann þessa för ríðandi. Þegar presturinn ætlaði að halda heimleiðis úr þessari embættisferð varð meira en lítil töf. Hann var sjö daga að brjótast austur í Hornafjörð og þar af var hann þrjá daga veðurtepptur.
Frá fréttaritara Tímans í Staðarsveit. Er birti í gærmorgun var láglendið hér eins og hafsjór yfir að lita eftir rigningarnar, og var alltilkomumikið að horfa yfir þetta mikla flóð. Ár og lækir höfðu hlaupið úr farvegum sinum og runnu viða yfir vegi, en ekki mun hafa orðið tjón að því vegna þess, að jörð var freðin. Ís brotnaði yfirleitt ekki af ám, og enn er svell yfir nær allt, er jörð kemur upp úr vatninu. Víða á bæjum, einkum miðsveitis, rann vatn í fjárhús og hlöður, en verulegt tjón mun ekki hafa orðið af því.
Frá fréttaritara Tímans á Blönduósi. Í gær [20.] var hér mikil snjókoma í logni fram eftir degi og mátti búast við iðulausri stórhríð ef hvessti eins og við mátti búast. Undanfarna þrjá daga hafði verið afbragðsgóð hláka og var komin góð jörð upp um allar sveitir. Mikill vöxtur var í öllum vatnsföllum í héraðinu og flóðu þau sums staðar yfir bakka. Vatnsdalur var sem einn fjörður og flóði þar yfir allt láglendi, en hvergi mun hafa orðið tjón að ráði og vatn ekki farið í hús svo að til skaða yrði.
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Um allt Fljótsdalshérað eru nú góðir hagar og svo mun einnig vera inni í dölunum. Um mið-héraðið er alautt.
Frá fréttaritara Tímans í Reykhólasveit. Óhemjurigning var hér í þrjá daga, og mældist úrkoman alls 103 millimetrar, en fyrir var mikið af snjó og svellalög, svo að afrennsli varð geipilegt. Vatn hljóp víða í kjallara íbúðarhúsa, gripahús, heyhlöður og kartöflugeymslur, og er ekki vitað til fulls um skemmdir á heyi og öðru. Í Bæ í Króksfirði var um tíma ískyggilegt ástand. Þar flæddi vatn á 300 kinda fjárhús og sambyggða hlöðu, og náði vatnið í hlöðunni karlmönnum í mitti. Fyrir atorku Bæjarmanna og nágranna þeirra tókst að bjarga fénu brott og lækka vatnið í hlöðunni. Á Reykhólum komst kalt vatn saman við heita vatnið, sem notað er til upphitunar, svo að kalt varð í flestum húsum.
Frá fréttaritara Tímans á Fosshóli. Ágæt hláka var hér um slóðir síðustu daga en í gær brá til ofurlítillar snjókomu, en þó var veður sæmilegt. Hláka þessi nægði þó ekki til að góð jörð kæmi upp í uppsveitum, og í Bárðardal til dæmis er enn lítil jörð nema helst á fremstu bæjum. Ófært hefir verið yfir Vaðlaheiði um langan tíma og hefði þó verið ódýrt og auðvelt að gera hana færa núna í þíðunni með því að fara yfir hana með ýtu. Eru miklir erfiðleikar á ferðum milli Húsavíkur og Akureyrar og úr sveitunum austan Vaðlaheiðar, því að skipaferðir eru litlar milli Akureyrar og Húsavíkur og þurfa menn margoft að fara þá leið landveg. Nokkur vöxtur hljóp í Skjálfandafljót í hlákunni en ekkert jakahlaup kom. Ekkert hlaup kom heldur í Laxá og hefir verið gott lag á rafveitunni að undanförnu, en fram eftir janúar var vatnsskortur nokkur.
Morgunblaðið segir sömuleiðis vatnafréttir 21.febrúar:
Akureyri, 20. febr. Mikil hlýindi hafa verið hér í Eyjafirði í nokkra daga og hefir hlaupið mikill vöxtur í árnar hér um slóðir. Á þriðjudaginn var Akureyrarpollur morandi af framburði Eyjafjarðarár og flæddi áin yfir bakka sína á láglendinu í Eyjafjarðardalnum, svo sem fjörður væri á að líta. Hörgá óx einnig mikið og flæddi hún yfir bakka sína neðarlega. Einnig hljóp mikill vöxtur í Svarfaðardalsá svo áin ruddi sig og hlóð upp íshröngli og rofnaði símsambandið hjá bænum Bakka á línunni sem liggur frá Akureyri um Heljardalsheiði til Skagafjarðar. Ekki var vitað í gær um hve mikla bilun væri að ræða þarna, en aðstaða erfið til viðgerða, því Svarfaðardalsá flæðir langt yfir bakka sína. Í dag hefir veðurátt breyst og kólnað með norðanátt. H. Vald.
Siglufirði 20.febrúar: Hér hefur verið óhemju hláka undan farna þrjá daga, Hefur snjó tekið svo upp, að líkast er sem verið hafi vorleysingar. Í dag brá til stórhríðar af norðri með stormi, en úti fyrir er stórsjór og því nokkurt brim hér inni. Hér er Hvassafell og ætlaði það til Hofsóss. En vegna veðurs úti fyrir hefur skipstjórinn frestað brottför skipsins. Götur hér í bænum voru orðnar allgreiðfærar er hríðin brást á, en hætt er við að fljótlega verði ófært aftur. Guðjón.
Í blaðinu í gær var skýrt frá flóðum vegna hláku, bæði vestur á Barðaströnd og eins í Þykkvabænum. Í gær höfðu flóð þessi sjatnað mjög, enda var snjókoma og kaldara veður um land allt í gær. Skemmdir á vegum hér í nærsveitum Reykjavíkur hafa ekki orðið teljandi af völdum vatnavaxtanna og var unnið að lagfæringum þeirra í gær. Vegurinn á Miðnesheiði skemmdist á kafla og einnig urðu lítilsháttar skemmd á vegaspottanum niður í Þorlákshöfn.
Valdastaðir í Kjós, 20. febrúar. Í gær urðu hér í Laxárdalnum meiri vatnavextir en orðið hafa um margra ára skeið. Vegna hlákunnar hljóp mikill vöxtur í Laxá og flæddi hún yfir bakka sína og eins varð af mikið vatnsflóð er snjóinn tók upp. Var Laxárdalur allur undir vatni í gær. Skemmdir hafa orðið nokkrar á veginum, bæði norðan Laxár og eins við Bugðubrú. Vegna vatnavaxtanna fór engin mjólkurbíll úr Kjósinni í gær. Mikill vöxtur hljóp í Bugðu og varð jakaburður mikill. Brotnaði við það einn símastaur og er því símasambandslaust í sunnanverða Kjósina. Býlið Káranes var allt umflotið í vatnavöxtum og sumarbústaður Eggerts Kristjánssonar. Í dag hefur flóðið rénað mikið, en Laxá er þó ekki enn komin í sinn venjulega farveg.
Tíminn segir 22.febrúar fyrst frá tíð í Skagafirði 1951 (við leyfum því að fylgja með) - en síðan er getið um hvassviðri eystra:
Í blaðinu er fréttabréf úr Skagafirði - m.a. er rakin tíðin árið áður, 1951: Árið 1951 verður að teljast í röð harðindaára til landbúnaðar. Veturinn var snjóþungur og miklir erfiðleikar um alla flutninga, svo að þeir hafa ekki verið svo erfiðir síðan mjólkursamlagið var stofnað, eða laust eftir 1930. Haglaust mátti teljast í öllu úthéraðinu, en nokkur léttir fyrir hross í Blönduhlíð og Dölum fram. Allmikið var notað af fóðurbæti og allt komst vel fram. Þó voraði heldur seint. Sauðburður gekk ágætlega. Gróður kom seint og grasspretta á túnum varð rýr, mest vegna kalskemmda. Aftur voru flæðiengjar góðar og sumstaðar ágætar. Heyskapur varð yfir leitt fyrir neðan meðallag og heyskapartími langur og leiðinlegur. Þó voru aldrei stórrigningar. Stóð heyskapur allt fram í október. Þegar kom fram í september, kom fyrst góð heyskapartíð og stillur, sem stóðu óslitið framyfir miðjan nóvember. Snjókomu nokkra gerði fyrir og um mánaðamótin nóvember/desember, en tók fljótt af aftur. Héldust snjóleysur og gott tíðarfar fram til áramóta.
Í fyrradag [20.] gerði ofsaveður á Norðfirði og í fyrrinótt rak vélbátinn Björgvin NK 26 upp af legunni þar. Hann skemmdist þó lítið og hafa verið gerðar ráðstafanir til að ná honum út aftur sem fyrst. Björgvin er sex lestir að stærð.
Tíminn segir 23.febrúar frá merkilegu flóði í Svínadal í Austur-Húnavatnssýslu:
Einkafrétt Tímans frá Blönduósi. Síðdegis í gær [22.] ruddi Sléttá í Sléttárdal, framan við Svínavatn í Húnaþingi, sig eftir tveggja daga alihart frost, og skall hlaupið á samkomuhúsinu, sem stendur á áreyrunum við suðurenda Svínavatns. Bjargaðist fjölskylda, sem bjó í kjallaranum, á síðustu stundu upp í samkomusal hússins. Vöxtur hafði verið í Sléttá um daginn, en síðan dottið niður, er frysti, að því er virtist. Furða menn sig þeim mun meira á þessu skyndilega hlaupi í gær. Venjulega er þessi á aðeins lítill lækur. Sléttá rennur milli Stóradals og Litladals röska tvo kílómetra fyrir framan Svínavatn. Milli klukkan fjögur og fimm í gær sá fólkið í Litladal, þar sem feðgarnir Karl Þórólfsson og Haraldur Karlsson búa, að hlaupið kom í háum hrönnum og með ógurlegum hraða niður dalinn. Var það um tvo kílómetra ofan við Litladal, er það sást fyrst. Í kjallara samkomuhússins á eyrum Sléttár við syðri enda Svínavatns bjó Sigurbjörn Sigurðsson, kona hans og þrjú börn, hið yngsta á fyrsta ári og hið elsta fjögurra ára. Þótti Litladalsfólkinu þegar sýnt, að samkomuhúsið væri í hættu, hljóp í símann og hringdi þangað. Sigurbjörn var ekki heima, en kona hans kom í símann. Er hún hafði heyrt hvers kyns var, hraðaði hún sér sem mest hún mátti með börnin upp í samkomusalinn á efri hæðinni. Í sömu svifum og hún hafði komið börnunum upp, skall vegghá flóðalda á húsinu. Svo ótt bar hana að. Flóðaldan braut á svipstundu glugga og hurðir í húsinu og kjallarinn fylltist af íshroða og krapaelg, en húsið allt nötraði við, er vatnið beljaði á því. Innanstokksmunir í íbúðinni í kjallaranum munu hafa skemmst stórlega, og matvara ,sem þar var geymd, eyðilagst. Fólk af næstu bæjum kom á vettvang skömmu eftir að flóðaldan náði samkomuhúsinu ,og var í gærkvöldi hafist handa um að koma ánni aftur í réttan farveg, enda rénaði ofsi flóðsins fljótlega, eftir að fyrsta flóðaldan var komin hjá. Þykir sýnt, að áin hafi stíflast af mikilli jakahrönn uppi í Sléttárdal, en vatnsþunginn síðan sprengt hana.
Frá fréttaritara Tímans í Holtum. Í rigningunum á dögunum gróf vatn undan brú á Saurbæjarlæk í Holtum, svo að hún er ófær. Þá rann Rangá einnig gegnum veginn fyrir neðan Djúpós, en viö þær skemmdir var verið að gera í fyrradag.
Frá fréttaritara Tímans á Sauðarkróki. Í síðustu stórhríðinni fyrir hlákuna á dögunum fennti hóp hrossa í Sæmundarhlíð í Skagafirði í gili sunnan við bæinn Fjall. Munu þetta hafa verið útigönguhross. Hrossin, sem fennti, voru sjö talsins, og hafa tvö þeirra fundist lifandi, þrjú dauð, en tvö eru ófundin. Halldór Benediktsson, bóndi á Fjalli, átti bæði hrossin, sem fundust lifandi, og tvö af hinum, tvö átti Pálína Konráðsdóttir á Skarðsá og eitt Skarphéðinn Eiríksson í Vatnshlíð. Það er fátítt, að hross fenni þannig í byggð. [Spurning hvaða dag þetta hefur verið - líklegast er átt við hríðina þ.6.].
Tíminn segir nánar af flóðinu í Sléttá 24.febrúar:
Tíðindamaður blaðsins átti í gær tal við Sigurbjörn Sigurðsson er býr ásamt fjölskyldu sinni í samkomuhúsinu við Sléttá, við suðurenda Svínavatns, er flóðaldan skall á í gær. Sagði hann, að skemmdir á innbúi hefðu orðið minni en ætlað var í fyrstu og búið væri nú að hreinsa vatn og krap úr kjallara hússins. Sigurbjörn sagði að flóðaldan hefði skollið með miklu afli á horn hússins sem er úr steini og hefði flóðið klofnað á horninu. ... Gluggar brotnuðu á hlið hússins og streymdi vatnið og krapið inn í kjallarann. Kona hans var á leiðinni upp stigann með börnin í fanginu og sér við hönd er flóðbylgjan skall á og lék allt húsið á reiðiskjálfi. Ef hún hefði ekki verið vöruð við frá Litladal hefði flóðið skollið yfir hana og börnin í kjallaranum. ... Flóðið hlóð fljótt upp hárri krapahrönn við húsvegginn og bægði þannig sjálfu sér að nokkru frá. ... Í gær var búið að hreinsa allt vatn og krap úr kjallaranum og hafa skemmdir ekki orðið mjög miklar. ...
Frá fréttaritara Tímans í Dýrafirði. Mikill snjór hefir verið hér að undanförnu. Hvergi hefir verið beitarjörð og allar skepnur því á fullri gjöf.
Tíminn segir af krapaflóði við Ytri-Hraundal í pistli 2.mars:
Fyrir nokkru, þegar leysingin var sem áköfust og flóðin mest í Borgarfirði og víðar, munaði minnstu, að til alvarlegra atburða dregi að bænum Ytri- Hraundal í Hraunhreppi. Mikill snjór hafði safnast fyrir í fjallinu fyrir ofan bæinn, Svarfhólsmúla. Þegar bleytti í fannferginu, munu snjóhengjur hafa brostið fram, og vissi heimilisfólkið í Ytri-Hraundal ekki fyrr til en túnið var að mestu komið undir hrönn úr snjóskriðu, sem brotist hafði ofan úr fjallinu. Snjóskriðan bar með sér mikið grjót, og er túnið því mikið skemmt, þótt ekki sé hægt að átta sig til fulls á skemmdunum, fyrr en snjórinn er horfinn og grjótið eitt eftir. Það forðaði því, að skriðan skylli á bænum, að húsin standa á hól. Klofnaði skriðan á hólnum, og sakaði því hvorki fólk né byggingar. Að Ytri-Hraundal býr danskur maður, er þangað i flutti síðastliðið vor frá Borgarnesi, en áður hafði býlið verið í eyði um skeið.
Nokkuð hart veður gerði fyrstu vikuna í mars, en síðan var tíð mun betri og tíðindaminni. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Marsmánuður var indæll, nema fyrstu 9 dagana, þá var rok og kuldi. Eftir það var mild og þurrviðrasöm veðrátta, og jörð er að mestu auð á láglendi.
Lambavatn: Það hefir verið stillt og úrkomulítið mestan hluta mánaðarins. Oftast snjólítið.
Sandur: Tíðarfarið var staðviðrasamt, fremur milt og mjög úrfellalítið. Snjólétt var yfirleitt og nægir hagar nema á stöku stað þar sem snjór var mestur í gömlum gaddi frá skammdeginu.
Gunnhildargerði: Veðráttan í mánuðinum var fremur hæg og úrfelli ekki teljandi eftir miðjan mánuð, síðari hluta mánaðarins var miklu jarðgrynnra.
Teigarhorn: Mjög góð tíð allan mánuðinn.
Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Mánuðurinn óvenju þurrviðrasamur með allmiklu sólfari. Snjólaust að kalla varð allt fram til 20., þá féll töluverður snjór og hélst sú snjókoma fram að 23., en leysti svo upp við sólbráð.
Fyrstu viku marsmánaðar gerði snarpa norðanátt þegar heimskautaloft ruddist til suðurs um landið og fyrir austan það. Þetta tók nokkra daga. Tíminn segir frá 5.mars:
Í gær [4.] var stórhríð um allan nyrðri hluta landsins, og hafði þá sums staðar verið hríð í tvo daga. Var víða kominn allmikill snjór og bifreiðasamgöngur tepptar. Í hvassviðrinu í gær urðu umferðartruflanir á Hvalfjarðarvegi sakir særoks sem rauk yfir veginn þar sem hann liggur næst sjónum í Kjósinni. Olli þetta miklum óþægindum bílstjóra sem áttu leið um fjörðinn, þar sem saltleðjan settist á bílrúðurnar og byrgði útsýn að mestu milli þess sem það var þurrkað af. Einkum var þetta illt síðari hluta dags, en þá varð það til hjálpar að vindátt snerist heldur til austurs svo særokið stóð ekki eins á veginn. Auk óþægindanna veldur sjávarseltan skemmdum á bílunum og spillir mjög lakkhúð þeirra og festist á gljáfægða.
Í gær var afspyrnuhvassviðri sunnanlands og stórhríð víðast hvar nyrðra. Hefir kuldinn sunnanlands verið afar bitur síðustu dagana sakir hins þráláta storms sem honum hefir fylgt.
Úr fréttabréfi frá Þórshöfn: Snjólétt hefir verið hér um Þórshöfn og á Langanesi öllu, það sem af er vetri, en meiri snjór, þegar kom lengra inn í Þistilfjörð og þó sérstaklega á fjallabæjum og í víkunum, Kollavík og Krossavík. Tíðarfar hefir þó verið mjög óstöðugt og bændur ekki getað notað beitina sem skyldi af þeirri ástæðu, þó að hagar væru. Veðrin hafa stundum verið geysi hörð, en ekki staðið lengi í einu. Hefir stundum reynst erfitt að koma fénaði í hús, þegar brostið hefir á bylur, eftir að búið var að reka hann í haga, en fjárskaðar hafa þó ekki orðið teljandi af þeim ástæðum.
Tíminn segir af hrakningum 6.mars:
Einkafrétt Tímans frá Patreksfirði. Síðastliðna laugardagsnótt lenti maður um sextugt, Jón Teitur frá Bíldudal, í hrakningum á Tunguheiði, milli Tálknafjarðar og Arnarfjarðar. Komst hann til byggða morguninn eftir, þrekaður og illa til reika, og hefir hann legið rúmfastur síðan þetta gerðist.
Morgunblaðið segir af lagnaðarís á Eyjafirði 6.mars:
Akureyri, miðvikudag [5.]. Lagís er nú inn allan Eyjafjörð, allt frá Svalbarðseyri að austan og að Hörgárgrunni. Hefir slíkt ekki átt sér stað síðan árið 1918, en þá var lagís lengi vetrar frá Hjalteyri og inneftir. Er ísinn nú orðinn 6 þumlunga þykkur á Pollinum, en hann er þynnri þegar kemur út fyrir Oddeyrina. Póstbáturinn hefir tafist af þessum sökum. Í gær braust báturinn frá Torfunesbryggju að Oddeyrartanga og var 5 klst á þeirri stuttu leið. Ef ekki bregður til hlýinda á næstunni, má búast við, að þykkur ís á Pollinum geti skapað örðugleika fyrir skipaferðir. H. Vald
Tíminn segir af óhappi á Húsavík í pistli 7.mars:
Frá fréttaritara Tímans á Húsavík. í gær bar svo við, að lítill drengur á Húsavík grófst í fönn er snjóhengja féll úr sjávarbakka, en fyrir einstaka heppni og snarræði manns er koma á vettvang, tókst að ná drengnum á síðustu stundu, er hann var kominn að köfnum.
Tíminn segir 8.mars frá snjóflóði:
Frá fréttaritara Tímans á Dalvík. Síðastliðinn miðvikudag féll snjóflóð úr Bæjarfjalli við Upsadal, upp frá Dalvík, og komst nítján ára piltur, Stefán Árnason frá Staðarhóli, með naumindum undan. Lenti jaðar snjóflóðsins á honum, en það vildi honum til lífs, að hann flaut ofan á.
Morgunblaðið segir aftur ísfréttir af Eyjafirði 8.mars:
Akureyri 7. mars: Skipaferðir hafa legið niðri hér um Akureyrarhöfn síðan um helgi, en í gær hófust þær á ný. Flóabáturinn Drangur, braut sér leið gegnum ísinn, en í hægviðri undanfarna daga hefir ísinn þynnst mjög. Er auður sjór nú á Krossavíkinni.
Tíminn segir 12.mars síðbúnar fréttir af hríðinni rúmri viku áður:
Frá fréttaritara Tímans á Raufarhöfn. Fyrir hálfri annarri viku síðan gerði mjög harða norðanstórhríð á Norðausturlandi. Fyrra sunnudag var Anton bóndi Jónsson á Harðbak á Sléttu að beita fé sínu á mýrum suðvestan bæjarins. Brá hann sér heim frá fénu, en á meðan skall veðrið á og fann hann ekki féð, er hann kom aftur að vitja þess. ... Daginn eftir hélst veðrið enn, en Anton fékk hjálparmenn af næstu bæjum og hófu þeir leit. Fundur þeir slóðir eftir féð og lágu þær fram heiðina. Þar fundu þeir þrjár kindur en héldu síðan áfram. ... Liðu svo tveir dagar en um miðja vikuna er til rofaði var leit hafin að nýju og fannst þá meginhluti fjárins vestur undir Kópum, fjallgarðinum sem er vestast á Sléttunni austan Kópaskerf. Þeir fundu og eina kind uppétna af tófum og fleiri bitnar. Undir síðustu helgi var féð fundið nema 23 kindur og var talin hætta að það eitthvað af þeim hefði drepist í veðrinu.
Þann 12. varð allsnarpur jarðskjálfti á Suðvesturlandi. Tíminn 13. mars:
Klukkan rúmlega 13 mínútur yfir 11 í gærmorgun varð snöggur og harður jarðskjálftakippur í Reykjavík og nágrenni, og mun ekki hafa komið annar harðari kippur hér síðan 1929. Kippurinn var svo harður, að nál eins jarðskjálftamælis veðurstofunnar gekk úr skorðum. Blaðið átti í gær tal við Eystein Tryggvason, veðurfræðing, sem hefir umsjá með jarðskjálftamælunum. Eftir að kippurinn varð óskaði Veðurstofan eftir upplýsingum frá ýmsum stöðum, þar sem hann hefði fundist, og bárust brátt margar upplýsingar frá ýmsum stöðum, svo að hægt var að átta sig betur á upptökum og stefnu. Harðastur virtist kippurinn hafa verið í Krísuvik og virtist mönnum þar hann koma úr norðri. Kemur þetta allvel heim við athugun veðurstofunnar, og mætti þá ímynda sér, að upptök hans hefðu verið einhvers staðar suðvestur af Kleifarvatni á Reykjanesskaganum. Kippsins varð ekki vart austan við fjall í Hveragerði og Selfossi svo að orð væri á gerandi, en allvíða um Borgarfjörð og Snæfellsnes. Í Rauðanesi við Borgarnes var kippurinn svo harður, að fólk flytti sér út úr húsi. Í Hvammi i Norðurárdal fannst hann, en mjög ógreinilega. Á Svelgsá í Helgafellssveit varð hans einnig var og á Arnarstapa og í Búðardal mun það vera einna lengst frá upptökustaðnum.
Nú varð veður hæglátt, en þó ekki alveg tíðindalaust. Lægð kom að landinu þann 19. og í kjölfar hennar snjókomubakki. Morgunblaðið segir frá 20.mars:
Valdastöðum í Kjós 19.mars: Í nótt urðu skemmdir nokkrar á brúnni yfir Laxá, hjá Hálsi. Mun brúin verða lokuð uns fullnaðarviðgerð er lokið, en hún hófst þegar í dag. Brúarstöpulsvængur annar, sunnan árinnar, skemmdist nokkuð, en allstórt stykki úr vængnum brotnaði. Við það féll allmikið úr veginum sjálfum við brúna, en ekki urðu skemmdir á brúnni. Mjólkina úr sveitum hér munu menn hafa flutt á hestvögnum yfir brúna. Þeir sem oft hafa átt leið yfir brúna, höfðu veitt því eftirtekt að sprunga var komin í vænginn, nú í hlákunni.
Laust fyrir klukkan sex í gærkvöldi [19.] skall snögglega á hríð af suðvestri og lokuðust þá báðir flugvellimir hér í Reykjavík og Keflavík. Fimm flugvélar voru þá í loftinu hér við bæinn og suður við Keflavík. Meðal þeirra var Gullfaxi. Voru allar horfur á að hann reyndi þurfa að lenda norður á Sauðárkróki. Allar flugvélarnar komu hér inn yfir bæinn rétt í þann mund er hríðin var að skella á. Þrjár þeirra, þ.á.m. flugvélin frá Grænlandi, gátu lent. Fjórða flugvélin varð frá að hverfa, en hún mun hafa lent eftir radar á Keflavíkurflugvelli.
Ég var kominn að Álftanesi á Mýrum þegar ég sá hríðarvegginn koma á móti mér og sá þann kostinn vænstan, að lenda tafarlaust á túni einu þar skammt frá, sagði Björn Pálsson er Morgunblaðið átti tal við hann í gærkvöldi, en hann var þá að koma úr sjúkraflugi frá Ólafsvík.
Morgunblaðið heldur áfram 21.mars:
Patreksfirði 20. mars. Grummanflugbátur frá Flugfélagi Íslands varð að lenda hér vegna veðurs í fyrradag, er hann var á leið til Reykjavíkur með mjög veikan mann. Þegar flugbáturinn kom hér yfir, var framundan mjög slæmt flugveður og að baki var ófært veður. Höfðu veður skipast svo mjög snögglega. Flugstjórinn Jóhannes Snorrason, mun hafa talið þann kostinn vænstan að lenda hér, þó ekki hafi hann áður komið hingað. Hér var þá allhvasst orðið, 67 vindstig. En lending tókst vel, sem var þó mjög vandasöm. ... í gær, á miðvikudaginn um nónbil var komið gott veður og lagði Jóhannes þá upp í lokaáfangann til Reykjavíkur.
Tíminn lofar tíð 21.mars:
Undanfarið hefir verið einstök vorblíða norðan lands, og er þar vorlegt um að litast þar sem varla sést snjór á jörð í byggðum og meðfram sjó.
Tíminn segir 23.mars frá hlaupi í Skjálfandafljóti:
Frá fréttaritara Tímans á Fosshóli, Suður-Þingeyjarsýslu. Um miðja síðustu viku gerði allmikla hláku hér um slóðir, er nú er aftur kominn snjór. Í lok hlákunnar kom mikið og snöggt hlaup í Skjálfandafljót og óvenjulegt að því leyti, að það fór ekki um aðalfarveg fljótsins. Það var s.l. föstudagskvöld, sem hlaupið kom. Hljóp vatnsflóðið og jakahrönnin, sem því fylgdi upp á vestri bakka fljótsins í Bárðardal við Eyjadalsá og rann þar eftir gömlum farvegum. Hlaupið fór og yfir neðri hluta túnsins á Hvarfi, næsta bæ norðan við Eyjadalsá, en olli þó ekki teljandi skemmdum. Síðan fór jakahlaupið norður gamla farvegi og kvíslar úr fljótinu allt norður að Hrútey, sem er vestan og norðan Goðafoss. Vestan Hrúteyjar rennur allstór kvísl úr fljótinu og er þar allstór brú yfir hana á þjóðveginum inn í Ljósavatnsskarð. Fór jakahlaupið eftir þeirri kvísl, og var brúin í hættu. En skammt sunnan við brúna er bugða á kvíslinni og gengur þar eyjarsporður fram. Mun sporðurinn hafa borið hlaupið af brúnni, svo að það hljóp að mestu austan við hana. Fór það þar upp úr farveginum, sem er alldjúpur og yfir veginn á kafla. Gróf það úr honum, en skemmdi hann ekki verulega, enda er hann þar á hrauni, brúna sakaði hins vegar ekki. Hlaup þetta er talið mjög sérkennilegt og óvenjulegt, og muna menn ekki eftir því, að svo snöggt og mikið jakahlaup hafi farið eftir Kvíslarfarveginum, þótt jakahlaup í fljótinu eftir aðalfarveginum séu hins vegar alltíð og valdi stundum skemmdum.
Tíminn segir af samgöngum 27.mars:
Í gær var ruddur vegurinn niður í Þykkvabæ, en hann hafði verið ófær bifreiðum. Vegurinn er sums staðar niðurgrafinn og sat þar í vatn, og þegar snjór settist í það, varð ófært.
Sól sást í hjálmaböndum. Tíminn segir frá 30.mars:
Húsvíkingum þótti kynlega við bregða fyrir fáum dögum er þeir gátu ekki betur séð, en þrjár sólir væru á lofti í einu. Ekki mun þetta þó hafa verið vegna þess, að Húsvíkingar hafi gert sér venju fremur glaðan dag, því þetta sáu allsgáðir menn. Þetta var laust eftir kl. 2 að degi til og himinn skýjalaus, en blika i lofti og einkennilegir rosabaugar kringum sólina, og mynduðu geislarnir sveiga um hverfis hana, svo að engu var líkara en sólirnar væru þrjár mismunandi stórar. Fjórði baugurinn var yfir þessu öllu saman eins og regnbogi, sem snýr öfugt. Þykjast Húsvíkingar ekki hafa séð kynlegri geislabrot umhverfis sólina í annan tíma.
Þann 1. apríl hóf Veðurstofa Íslands starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Voru veðurfræðingar hennar þar á vöktum allt fram til 1.júlí 1979. Þetta var fyrsti starfsvettvangur ritstjóra hungurdiska á Veðurstofunni. Tíminn segir frá þessum tímamótum í frétt 1.apríl:
Í dag byrjar Veðurstofa Íslands starfrækslu flugveðurstofu í Keflavik, og verður hún aðalveðurstofa á Íslandi fyrir millilandaflug. Yfirmaður hennar verður Hlynur Sigtryggsson, veðurfræðingur. Íslenska veðurstofan mun starfa i sömu húsakynnum og bandaríska veðurstofan á Keflavikurflugvelli, og verður náið samstarf milli þeirra, Fyrst um sinn verða tveir íslenskir starfsmenn á samfelldum vöktum, einn veðurfræðingur og einn aðstoðarmaður. Ráðgert er þó að siðar starfi tveir aðstoðarmenn í Keflavík á samfelldum vöktum og verður annar þeirra aðallega við háloftaveðurathuganir. Samtals munu 15 íslendingar fá atvinnu við veðurstofuna og háloftastöðina. Loftskeytamenn Veðurstofunnar í Reykjavík munu sjá veðurstofunni í Keflavík fyrir veðurfréttum og verður loftskeytamönnum nú fjölgað þannig að þrír menn vinna á samfelldum vöktum. Veðurfréttir verða sendar til Keflavikur á fjarritvél. Yfirvarðstjóri loftskeytamanna verður Geir Ólafsson. Alþjóðaflugmálastofnunin mun bera allan kostnað vegna starfsmanna veðurstofunnar í Keflavik og 60% af kostnaði við loftskeytamannahald. Starfsemi veðurstofunnar í Reykjavík minkar töluvert, veðurfræðingur verður aðeins á vakt frá morgni til miðnættis, en um nóttina mun veðurstofan í Keflavík bera ábyrgð á almennri veðurþjónustu.
Tíminn segir almennar fréttir af Ströndum 3.apríl:
Frá fréttaritara Tímans i Trékyllisvík. Hér um slóðir hefir verið haglaust síðan í lok nóvembermánaðar, nema á einstaka útnesjabæjum, að undanskildum fáum hlákudögum 1 febrúar og miðjan mars, er notaðist litið sökum þess, hve veður breyttist fljótt aftur til hins verra. Hefir veturinn því verið nokkuð strangur, þótt ekki sé hann jafnharður og veturinn í fyrra. Hey eru víða lítil og léleg, en mikið gefið af fóðurbæti. Útkoman mun mjög fara eftir því, hvernig úr rætist með tíðarfarið fram úr sumarmálum.
Apríl var þótti heldur hagstæður. Þó gerði athyglisvert veður þann 4., gætti að vísu ekki mikið á landi, en fjöldi norskra skipa fórst eða lenti í hrakningum við Vestfirði og fyrir norðan land. Veðurathugunarmenn segja af tíð:
Síðumúli: Í aprílmánuði var ágæt veðrátta. Jörð er alauð í byggð og byrjuð að grænka.
Flatey: Snjóasamt fyrri hluta mánaðararins, en annars yfirleitt góð tíð.
Lambavatn: Góð og hagstæð veður yfir mánuðinn, einkum nú seinni hluta hans. Hefir mátt heita blíðviðri og stillur. Jörð er að verða klakalaus. [4. Stórviðri um nóttina og framan af degi, um 11 vindstig eða meira. Það er með mestu hvassviðrum sem hér koma].
Kvígindisdalur (Snæbjörn Thoroddsen): Hinn 3. hvessti hér mjög á NNA með nokkru frosti. Hámarki náði veðrið hinn 4. eða 10-11 vindstigum með miklu sandroki. Skemmdi hér tún með sandáfoki, braut símastaura og staura í rafleiðslum. Á höfninni (Vognum) á Bíldudal sökk vélbátur dekkaður, Egill Skallagrímsson, er hafði stundað fiskveiðar á vertíðinni. Annars má heita ágætt veðurfar í mánuðinum og um sumarkomuna (24.) er jörð hér talin alauð í byggð og þíð. Í lok mánaðarins mun allstaðar verið búið að sleppa hestum og á einstaka bæ einnig sauðfé, annars það víða hýst og gefið allt fram að sauðburði. Síðari hluti desember, janúar, febrúar og mars voru harðir og mikið vetrarfar. Haustið fram til desember var ágætt. Eins má heita ágæt tíð frá marslokum og virðist frekar útlit fyrir áframhaldandi milt veður.
Skriðuland: Norðlæg átt með nokkurri snjókomu fram um miðjan mánuð. Þrengdist þá æ meir um haga. Frá miðjum mánuði voru veður mild og hæg, en aldrei hláka nema fyrstu sumardagana.
Sandur: Tíðarfar var fremur milt en úrkomu- og snjóasamt. Víða var haglítið og sumstaðar haglaust meiri hluta mánaðarins.
Reykjahlíð: Hægviðrasamt og fremur mild veðurátta þennan mánuð. Mikil snjókoma stundum enda mikill snjór á jörð um mánaðarlok. Engin stórleysing komin ennþá.
Gunnhildargerði: Veðrátta mánaðarins var hæg og fremur hlý og eftir miðjan mánuðinn tók að miklu leyti hinn mikla svellgadd og vorgróðurs fór að verða vart.
Teigarhorn: Apríltíð mjög hagstæð. Sífellt góðir hagar.
Tíminn segir þann 5.apríl af illviðrinu þann 4.:
Í gær var hið versta veður um norðvesturhluta landsins og á Norðurlandi allt austur fyrir Eyjafjörð. Var veður hvasst og allmikil snjókoma sums staðar. Skip gátu ekki lagst að bryggju á Siglufirði og mjólkurbáturinn komst þangað ekki innan úr Eyjafirði.
Í Veðráttunni kemur fram að í illviðrinu þann 4. hafi fjárhús og hlaða fokið á Fremra-Ósi í Bolungarvík. Sömuleiðis kemur þar fram að 98 menn hafi farist með norsku skipunum.
Ekki ljóst hvort þessi atburður hér að neðan tengdist einstöku veðri - eða bara tímans tönn. Tíminn 6.apríl:
Frá fréttaritara Tímans á Kirkjubæjarklaustri. Seinni hluta dags í fyrradag veittu menn því athygli, að brúin yfir Geirlandsá var farin að síga nokkuð að vestanverðu, og við athugun kom í ljós, að áin hafði grafið allmikið frá stöpli þeim, sem er næst landstöplinum að vestan.
Tíminn segir 8.apríl fréttir úr Borgarfirði og frá Hofsósi:
Á föstudaginn brá til kulda og hríðarfjúks í Borgarfirði, einkum þó efri byggðunum, og hefir verið kalt síðan og snjókoma öðru hvoru. Jörð er víða alhvít, en hvergi teljandi snjór á vegum, svo til umferðatruflunar komi. Áður en kuldakastið kom, hafði haldist góðviðri um langt skeið, og græn strá farin að skjóta upp kolli á stöku stað.
Frá fréttaritara Tímans á Hofsósi. Mjög mikill snjór er nú kominn hér, og var norðanhríð fyrir helgina, ein hin versta, sem komið hefir i vetur. Yfirleitt mun hafa kyngt niður miklum snjó í útsveitum.
Nú fóru að berast fregnir af vandræðum norsku skipanna. Morgunblaðið segir frá 8.apríl:
Bæ á Höfðaströnd 7. apríl. Um nónbil í dag komu hingað heim að bænum norskir selveiðimenn, en skip þeirra hafði verið að veiðum í vesturísnum er fárviðri brast á á föstudaginn. Þegar þeir komu hingað, vissu þeir ekkert hvar þeir voru staddir. Skipið hafði brotnað nokkuð. Skipverjar, 13 að tölu, voru þó allir ómeiddir, en einn með kalsár í andliti. - Hér bíða þeir veðurs til að komast til Siglufjarðar, til að endurnýja þar matvælabirgðir sínar, en í fárviðrinu hafði öllum birgðum skolað fyrir borð. Ferðasaga þessa norska selveiðiskips, en það heitir Ungsel, er um 60 rúmlestir og er frá Hammerfest, er í stuttu máli eitthvað á þessa leið, eftir því sem skipstjórinn sagði mér: Fyrir þrem vikum fór skipið á veiðar á selamiðin við vesturísinn, en það eru um 70 km fyrir norðan Ísland. Á föstudaginn er skipverjar voru búnir að veiða um 500 seli, brast á þvílíkt ofsaveður að skipið var í bráðri hættu, en það var nokkuð inn í sjálfri ísröndinni.
Tíminn segir einnig frá 10.apríl:
Í gær leituðu fjórar flugvélar á hafinu norðan og vestan við Ísland að hinum norsku selveiðiskipum, sem saknað er, eða mönnum af þeim á ísnum. Veðurskilyrði voru slæm og skyggni illt, enda varð leitin árangurslaus. Síðustu flugvélarnar komu úr leitinni um klukkan ellefu í gærkveldi. Óráðið var um leit í dag, enda var spáð dimmviðri í dag. ... Skip þau, sem enn vantar eru fimm. Eru það Brattind, Burkö og Pals öll frá Álasundi, og Ringel og Várglimt frá Tromsö. Á þessum skipum munu að meðaltali vera 15 eða 17 menn, svo að þarna eru um að ræða milli 80 og 90 menn, sem óttast er um. Fréttaritari blaðsins á Bíldudal átti í gær tal við skipstjórann á norska selveiðiskipinu Arild, sem þar kom inn mjög brotið í fyrradag, og var þar enn í gær við bráðabirgðaviðgerð áður en það heldur til Ísafjarðar og fær þar meiri viðgerð. Þetta er eitthvert allra versta veður, sem ég hefi hreppt í íshafinu þau 15 ár, sem ég hef stundað þar selveiði, sagði hann. Þegar ofviðrið skall á á föstudaginn, vorum við staddir nokkuð inni í ísnum, og þar voru ná lægt okkur tvö eða þrjú selveiðiskip, og vantar enn tvö þeirra. Við sáum þau ekki eftir að veðrið skall á, en heyrðum í öðru þeirra, og sögðu skipverjar, að skipið væri að liðast sundur, og mennirnir ætluðu að reyna að bjarga sér út á hafísjaka. Má því búast við að sú skipshöfn sé að hrekjast á ísnum, ef mennirnir eru enn á lífi.
Arild fékk á sig geysimikinn brotsjó í veðrinu og braut mjög hásetaklefa ofan þilja og bátaþilfar. Skolaði þá út tveim mönnum, en annar þeirra náðist inn aftur, hinn drukknaði, sem fyrr hefir verið frá skýrt. Lagðist skipið þá á hliðina en rétti sig aftur. Var þá allt brotið og bramlað, stórsiglan brotin og yfirbyggingin einnig. Selveiðiskipið Selfisk kom til Ísafjarðar seint í fyrra'kvöld og hafði skipið orðið hart úti. Fréttaritari blaðsins þar átti tal við skipstjórann. Við vorum staddir við 68. breiddargráðu þegar óveðrið skall á, sagði hann. Þetta er eitthvert mesta fárviðri, sem ég minnist og stóð það þrjá sólarhringa. Við vorum svo hætt komnir og skipið svo laskað innan um stórísinn í brimrótinu, að við vorum að því komnir að yfirgefa það. Vorum við búnir að búa okkur undir að fara út á hafísjaka með þær vistir, sem auðið væri. Stýrið var þá brotið og vélin í ólagi. Af því varð þó ekki og losnuðum við úr ísnum. Tel ég það ganga kraftaverki næst að við skulum nú vera komnir hingað til Ísafjarðar. Þegar veðrið skall á, sagði skipstjórinn ennfremur, voru nokkur selveiðiskip í nánd við okkur. Vitum við ekki hvernig þeim reiddi af, en eitt skipið sáum við og var það svo illa komið, að ég tel víst, að það hafi farist, hvort sem áhöfninni hefir tekist að komast á ísinn eða ekki. Selfisk er 49 lestir að stærð og er frá Tromsö.
Síðastliðinn laugardag [5.] hrakti um sextíu fjár frá Bjargarstöðum í Austurdal í Miðfirði suður á afrétt, og hafa ekki fundist nema sex kindur, þrátt fyrir leit. Á Bjargarstöðum er um 399 fjár, og eiga Jón Hannesson í Deildartungu, Halldór Pálsson sauðfjárræktarráðunautur og fleiri þetta fjárbú. Er féð var á beit á laugardaginn, skall á hríðarveður, sem þó stóð stutt og var ekki mjög hart. Fundust ekki nema um sextíu kindur, og hefir þeirra verið leitað langt suður á afrétt. Benedikt Líndal á Núpi skýrði blaðinu svo frá í gær, að lengst hefði verið leitað suður fyrir miðjan afrétt Húnvetninga, en talið, að féð mundi komið enn lengra suður. Í fyrradag var veður tiltölulega gott, og þá leituðu fimm menn suður á heiðarnar. Fundust þá kindurnar sex, og voru þær lítt hraktar og ekki brynjaðar. Í gær leituðu tveir menn fyrir framan Austurá. Hjarn er yfir öllu á heiðunum, hvergi skjól og færi gott, svo að kindurnar getur hafa borið langt undan.
Frá fréttaritara Tímans i Ólafsfirði. Aðfaranótt sunnudagsins [6.] eða á sunnudagsnótt [7.] féllu snjóflóð í Garðsdal og Skeggjabrekkudal, og mun breidd snjóflóðanna vera um 400 metrar. Rufu þessi snjóflóð aðfærsluæð hitaveitu Ólafsfjarðar. Skemmdir hafa orðið miklar á hitaveitunni, og meðal annars hafa tvær eða þrjár lengjur af leiðslum sópast brott og finnast ekki, en aðfærsluæðin mun hafa skaddast víðar en á einum stað, því að snjóflóð' kom þvert á hana, þar sem hún liggur ofan jarðar. Snjóflóðin eru á svipuðum slóðum og í fyrra, er hitaveitan rofnaði, en meiri umfangs nú.
Páskadag bar upp á 13. apríl árið 1952. Blöð komu ekki út hátíðisdagana (frekar en venjulega). Tíminn segir frá sjóslysi við Vestmannaeyjar í frétt 16.apríl:
Á laugardaginn [12.] fórst vélbáturinn Veiga frá Vestmannaeyjum í róðri og með honum tveir menn, en hinir komust lífs af og var þeim bjargað af öðrum bát. Vestmannaeyjabátar voru í róðri aðfaranótt laugardagsins og lögðu net sín á venjulegum miðum vestan við Einidrang. Veður var hvasst, en um hádegisbilið á laugardaginn, þegar bátarnir voru í óða önn að draga netin, bráðhvessti og gerði mikinn sjó, enda er heldur grunnt og slæm brot þarna á hraununum.
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Á skírdagskvöld [10.] varð fólk að Kalmanstungu þess vart, að stór kindahópur var kominn þar heim á tún. Vissi fólkið þar engra kinda von, og þéttu þetta kyndugir gestir. Er að var gáð, kom í ljós að þarna voru 54 ær, og reyndust það vera féð, sem hvarf frá Bjargarstöðum í Miðfirði í hríðargusu laugardaginn næstan á undan. Hefir féð því verið sex sólarhringa á leiðinni þvert suður yfir Arnarvatnsheiði og Tvídægru. Mun nú vanta eitthvað fjórar kindur af þeim, sem hurfu frá Bjargarstöðum, og hafa þær sennilega orðið viðskila við aðalhópinn einhvers staðar á heiðunum.
Morgunblaðið segir af blíðviðri 20.apríl:
Vorlegt var hér í bænum í gærdag, logn og 10 stiga hiti, enda var mjög mannmargt á öllum götum fram á kvöld. Það var sannkallað vor í lofti og á barnaleikvöllunum mátti sjá litlar telpur í boltaleik. Veðurstofan gerir ráð fyrir að veður verði gott hér í bænum í dag. Sum vorblóm í skrúðgörðum eru nú sprungin út.
Þann 20. [sunnudag] og 21. gerði allmikið norðankast. Tíminn segir frá 24.apríl:
Frá fréttaritara Tímans á Húsavík. Í áhlaupinu um og eftir helgina hlóð niður miklum snjó hér í sýslunni, og mun snjórinn hafa orðið hnédjúpur á jafnsléttu, en snjór þessi er laus og mun síga fljótt. Ófært var bifreiðum í gær um vegi í sýslunni og komst mjólk ekki til Húsavíkur í fyrradag og gær. Í gær var komið afbragðs veður, sólbráð og hiti, og hjaðnaði snjór töluvert. Ekki hefir gefið á sjó eftir helgina fyrr en í gær.
Tíminn birtir fréttir af Ströndum 1.maí:
Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík. Bændur í Árneshreppi eru nú yfirleitt orðnir mjög heylitlir og sumir að verða heylausir, en tíð enn hin versta, kafaldsslitringur flesta daga og lítið sem ekkert hefir leyst, að hagasnapir eru ekki komnar nema á útnesjum. ... Þessi vetur er í Árneshreppi litlu gjafaminni en harðindaveturinn mikli í fyrra, þótt veður hafi ekki verið eins vond. Síðastliðið sumar var gífurlegt kal í túnum og þar bættist svo við frámunanlega vond heyskapartíð.
Maí var nokkuð skiptur. Fyrst gekk á með hretum, en síðan kom góður kafli sem fyllti menn bjartsýni. Undir lok mánaðarins gerði hins vegar illskeytt kuldakast, með þeim verri svo seint að vori. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Maímánuður var indæll að veðurfari þar til kom fram í seinustu vikuna, þá var norðan kuldi með frosti. Tún eru græn en lítið sprottin, útjörð hvít og gróðurlítil.
Lambavatn: Það hefir verið breytilegt veður. Oftast þurrt og kaldir norðannæðingar. Öll jarðvinna hefir gengið seint. Hér hefir verið þurrt og hvasst svo ekki var til neins að hefja ávinnslu á túnum, eins er með garða að það er nú verið að setja niður.
Sandur: Tíðarfar var kalt, þurrviðrasamt og mjög óhagstætt gróðri. Stórviðri og hríð gerði aðfaranótt þ.27. sem gerði tjón á lambfé og sumstaðar fennti fé í innsveitum.
Reykjahlíð: Óvenju góð veðurátta frá 12. til 25. maí. Stórhríð 26. eins og um hávetur. Fé fennti hér í sveit, einkum þó unglömb sem úti voru. Sá snjór að mestu ófarinn um mánaðamót. Ís fór alfarinn af Mývatni 25.
Þorvaldsstaðir: Að kvöldi 26. gekk í kulda og snjókomu og hefir verið snjóhreytingur daglega til mánaðarloka. Allar nætur hefir verið alhvítt út að sjó. En tekið af lægsta láglendi um daga, þó éljagarri hafi verið. Hálendi alhvítt sem um hávetur væri.
Möðrudalur (Jón Jóhannesson): [26. Lömb og fullorðið fennti, mikill lambadauði]
Gunnhildargerði: Fyrri hluta mánaðarins var tíðin hæg, en heldur köld og fór gróðri lítið fram. En um miðjan mánuð brá til hlýinda og bjarta hlíð lífsins blasti við, en í mánaðarlokin var frost og snjór.
Heldur hryssingslegt var með köflum fyrsta þriðjung mánaðarins og gekk á með hretum. Tíminn segir frá 7.maí:
Undanfarna þrjá daga hefir gengið yfir landið, svo að segja allt hið versta kuldahret með mikilli snjókomu norðaustanlands. Hefir vorhret þetta orðið hinn versti vágestur, kippt úr gróðri, teppt samgöngur og valdið innistöðu sauðfjár, og kemur það sér illa í þeim sveitum, er sauðburður er í þann veginn að byrja. Að því er Veðurstofan telur, mun þó draga úr kuldanum næstu dægur og lægja og jafnvel bregða til rigningar. Austan lands mun teljandi snjór ekki hafa fallið nema í uppsveitum. ... Í Þingeyjarsýslum hefir snjóað mikið. Þar var frostlaust að kalla í gær, en allmikil snjókoma. Í Suður- Þingeyjarsýslu var kafaldsveður í gær og kominn og kominn mikill snjór. Vestar á Norðurlandi mun hafa snjóað minna, en verið hið versta veður, norðangarri og hraglandi. Mikil snjókoma mun hafa verið á heiðum, og fennti svo i traðirnar á Holtavörðuheiði, að vegurinn yfir hana varð ófær. Tepptust bílar þar og sátu fastir í fyrrinótt. Snjóbíllinn komst ekki heldur yfir heiðina vegna veðurvonsku í fyrradag, en fór yfir hana með fólk í gær. Skólafólk frá Reykjaskóla hefir ekki komist heim suður yfir heiði, þótt skóla sé lokið. Einna kaldast mun hafa verið á Ströndum í hretinu og einhver snjókoma þar, og var þó varla á bætandi gaddinn og harðindin í norðanverðri sýslunni. Á Vestfjörðum hefir verið kalt og hvasst en ekki teljandi snjókoma.
Í gær var mjög hvasst hér í Reykjavík og í nágrenni hennar. T.d. var rokið slíkt á Kjalarnesi, að stormurinn reif vélarhlíf af bifreið. Bifreiðin, sem er leigubifreið frá BSR var á ferð þar og vissi bifreiðarstjórinn ekki fyrr en vélarhlífin fauk upp og rifnaði af festingunni og hvarf. Vélarhlífin þeyttist eitthvað út í buskann og tókst bifreiðarstjóranum ekki að ná henni og varð hann að aka til bæjarins með opna vélina.
Tíminn segir af slakri tíð fyrir norðan í pistli 14.maí:
Þótt vortíðin hafi verið góð hér sunnan lands, eru margar sveitir á landi hér, sem enn eiga við mikil harðindi að stríða, þótt hálfur mánuður sé af sumri, og verða að gefa fé að mestu inni, þótt sauðburður sé að hefjast. Í Siglufirði er ennþá vetrarríki og jörð hulin klaka og snjó að mestu. Síðustu dagana hefir þó hlánað nokkuð á daginn, en frosið um nætur. Langt verður þess að bíða að vorstörf geti hafist við jarðvinnslu. Eru ekki nema fáar nætur síðan snjóaði í Siglufirði.
Þann 16. varð enn jarðskjálfti á Reykjanesi. Tíminn 17.maí:
Snarpur jarðskjálfti varð á Reykjanesi í gær og var mestur í Krísuvík, þar sem nokkrar skemmdir urðu af völdum hans. Jarðskjálftinn var og snarpur í Reykjavík, Hafnarfirði og fannst víða á Suðurnesjum, en annars staðar gætti hans lítið eða ekki. Það var klukkan 14:32, sem snarpasti kippurinn varð, að því er Eysteinn Tryggvason, veðurfræðingur, sem annast gæslu jarðskjálftamælanna, tjáði blaðinu. Var styrkleiki hans svipaður hér í Reykjavík og jarðskjálfta þess, sem varð hér 12. mars s. l. Gekk einn gömlu jarðskjálftamælanna úr skorðum eins og þá. ... Blaðið átti tal við fólk í Krísuvík í gær, og höfðu orðið þar nokkrar skemmdir. Vatns- og gufuleiðslur í gróðurhúsum höfðu sprungið og gengið sundur, svo að vatn flæddi í gróðurhús. Skemmdust og eyðilögðust gróðurhúsaplöntur við það. Einnig brotnuðu nokkrar rúður í gróðurhúsunum. Inni í íbúðarhúsinu urðu nokkur spjöll. Rafmagnseldavél, sem verið var að sjóða á í eldhúsinu, og stóð uppi á lágum palli, hentist fram af honum á gólfið, og pottar hrutu fram á gólf og helltist úr þeim. Bakaraofninn opnaðist og plötur, sem í honum voru þeyttust fram á gólf. Leirtau og hlutir úr skápum og hillum hrutu niður og brotnaði allmikið af leirtaui, og fleiri smáhlutir skemmdust. Ekki varð séð, að skemmdir höfðu orðið á húsunum sjálfum, nema sprunga kom í einn skilrúmsveg.
Nokkuð hlýr kafli kom um og upp úr miðjum mánuði. Tíminn 20.maí:
Undanfarna þrjá til fjóra daga hafa verið hlýindi á Norðurlandi og miklar leysingar til fjalla, raunar hinar fyrstu á vorinu. Hefir hlaupið allmikill vöxtur í vötn öll. Gróður er að koma og víða farið að sleppa fé. Í Húnavatnssýslum hefir verið geysivöxtur í öllum ám síðustu tvo dagana enda hafa hlýindin verið meiri vestan til Í gær var Vatnsdalur einn fjörður milli hlíða. Flóði þar yfir allar engjar og upp á tún á sumum bæjum. Af þessu mun þó ekki hafa hlotist neitt tjón. Í fyrradag sprakk skurðbakki aðveituskurðarins við Blönduósvirkjunina við Laxá, og féll vatnið þar út i mýrina fyrir neðan, en rafstöðin stansaði í sólarhring. Unnu 20 menn og 2 jarðýtur að því að fylla skarðið og veita vatninu aftur í aðrennsli stöðvarinnar. Hefir þetta aldrei komið fyrir áður við virkjunina.
Í gær var mikill vöxtur í Héraðsvötnum, og flóðu þau víða yfir bakka sína, Ein þverá braut skarð í veg, en það var fyllt von bráðar. Í gær var tekinn að færast allmikill vöxtur í Skjálfandafljót, en þó talið að aðalvöxtur þess væri eftir, enda var skemmra síðan hlýindin komu þar eystra.
Þann 26. skall á hret, með þeim verstu á þessum árstíma. Um það er fjallað sérstaklega í gömlum pistli hungurdiska (Af hreti í maílok 1952) og verður það ekki endurtekið hér - ekki heldur þær blaðafréttir sem þar er beint vitnað til úr Tímanum og Morgunblaðinu 28. maí.
Við bætum aðeins við úr Tímanum 29.maí:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Í gær hélst enn versta vetrarveður um mikinn hluta landsins, kuldi og hvassviðri og snjókoma, þar sem úrkomu var vart. Vegna víðtækra símabilana komu fregnir af veðrinu norðanlands ekki ljósar fyrr en í gær. Um allt Norðurland var veðrið ákaflega hart og snjóaði þar víða töluvert. Í Þingeyjarsýslum var veðrið illt og fylgdi því geysilegt brim við ströndina og snjókoma um allt héraðið. Vaðlaheiði varð ófær og í veðurofsanum gekk erfiðlega að ná í hús lambám, sem búið var að sleppa. Ekki er þó talið, að margt af lömbum hafi farist. Á Akureyri brast stórviðrið á aðfaranótt þriðjudagsins, en olli ekki verulegu tjóni á mannvirkjum, sem vitað var um í gærkveldi. Á háspennulínunni til Akureyrar varð samsláttur, svo að rafmagnslaust varð á Akureyri í hálfan sólarhring. Allvíða var búið að sleppa lambfé. Var fé frá Akureyringum komið í Glerárdal, Svarfdælingum í Skriðdal og Ólafsfirðingum í Hvannadal. Ekki er ennþá vitað, hvernig lambám hefir reitt af, en óttast er um að eitthvað af lömbum hafi fallið. Í gærmorgun var alhvítt í sjó fram í útsveitum Eyjafjarðar og snjóalag á jörð í Ólafsfirði.
Frá fréttaritara Tímans á Blönduósi. Aðfaranótt þriðjudagsins gerði aftakaveður með mikilli fannkomu í Húnavatnssýslu. Fé var víðast búið að sleppa og fennti bæði fullorðnar kindur og lömb. Bændur voru almennt alla nóttina við björgun sauðfjár og náðist það að mestu í hús.
Frá fréttaritara Tímans á Patreksfirði. Ofsarok var á Patreksfirði á þriðjudagsnóttina og urðu nokkrar skemmdir af völdum þess, m.a. fuku tvær skekktur og brotnuðu þær mikið, og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Fjöldi skipa leitaði þar skjóls undan veðrinu, sem var mikið harðara fyrir utan, voru þetta norsk, ensk og færeysk skip. Í óveðrinu snjóaði niður að sjávarmáli, en í gær var snjóinn að taka upp.
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi. Um ellefuleytið í fyrrakvöld fannst jarðskjálftakippur á Selfossi og um hádegið í gær varð aftur vart nokkurra jarðhræringa.
Tíminn segir frá 30.maí:
Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Hér hefir verið norðaustan hríðarveður síðustu dagana og allt að fimm stiga frost um nætur. Nokkur snjór er og hlífir hann gróðri sem orðinn var nokkur fyrir áhlaupið. Óttast er að garðagróður hafi skemmst mjög, kálplöntur eyðilagst og kartöflur frosið í mold. Sauðburður stendur sem hæst, og er óttast, að lömb hafi króknað því að lambær voru sloppnar til fjalla og hafa ekki allar fundist enn.
Frá fréttaritara Tímans í Höfn i Hornafirði. Á þriðjudagsmorgun gerði hér afspyrnurok af norðri og hélst það allan daginn. Um tjón er lítið vitað hér um slóðir enn, því að símalínur slitnuðu í veðrinu. Í Suðursveit munu þó hafa orðið nokkrar skemmdir í gripahúsum.
Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki. Í stórhríðarveðrinu sem á skall hér aðfaranótt 27. þ.m. urðu símaskemmdir allmiklar. Slitnuðu línur víða um héraðið af ísingu og átta símastaurar brotnuðu á símalínunni milli Skagafjarðar og Akureyrar. Brimið var geysimikið og trillubátur sem lá við bryggjuna hér á Sauðárkróki brotnaði mjög. Nokkrir símastaurar brotnuðu einnig hjá Hnausum í Þingi og hjá Lækjamóti og línur slitnuðu víða í Húnavatnssýslum.
Hvítasunnan var 1. og 2. júní, þannig að ekki bárust frekari fregnir af illviðrinu fyrr en þann 4. Eins og áður sagði hélt kuldinn áfram. Veðurathugunarmenn lýsa tíð:
Síðumúli: Júnímánuður var hræðilega kaldur og þurrviðrasamur, svo að jarðargróður er mjög lítill. Jörðin er þurr og skrælnuð og þyrstir í vatn. Sláttur hvergi nálægur hér í grennd. Kýr eru enn á matargjöf og geta ekki legið úti um nætur, sakir kulda.
Lambavatn: Það hefir mátt heita óslitin norðanátt, oftast þurrt og bjart veður. Hefir allur gróður verið óvenjuseinsprottinn og öll vorverk seinunnin.
Suðureyri: Veðrátta köld fyrri hluta mánaðarins og gróður sáralítill, en seinni hlutann miklum mun hlýrra svo jörð má nú heita algræn. Þótt víða séu snjóskaflar við sjó í firðinum.
Skriðuland: Norðanátt algengust. Mjög kalt og gróður lítill, en hretalaust að kalla. Víða kal í túnum til stórskemmda. Snjór í mesta lagi til fjalla. Þ.17. var enn óleystur nýr snjóskafl af túni á Hrafnhóli í Hjaltadal og gamall skafl niður við Hjaltadalsá, milli Kálfstaða og Hlíðar fór ekki fyrr en undir mánaðarlok.
Sandur: Tíðarfar var með afbrigðum kalt og næðingasamt, þurrt og gróðurlaust. Kal var mikið í túnum og varla gat talist sauðgróður fyrr en undir mánaðarlok. Vanhöld voru yfirleitt mikil á lömbum vegna gróðurleysis og vondrar veðráttu.
Þorvaldsstaðir: Júnímánuður hefur verið mjög kaldur. Oftast norðaustlæg átt með snjókomu og slyddu, svo snjó festi út að sjó flestar nætur. Sjaldan sá til sólar fyrri hluta mánaðarins. Alltaf hefur verið lágskýjað og þokur, einkum síðari hluta hans. Tún sem græn yfir að líta, en graslaust. Úthagi grár.
Gunnhildargerði: Tíðin var með öllu mót mjög köld og leiðinleg. Tún virtust grá og varla hægt að segja að úthagi sé algrænn í mánaðarlokin. [21. Hér um slóðir var ægilegt hvassviðri með köflum allan daginn og fauk þak af hlöðu á Galtarstöðum-Ytri í heilu lagi um 200 metra og jarðvinnsluverkfæri fuku einnig.]
Hallormsstaður: Öllum gróðri fór aftur og hélst kuldinn óslitið í einn mánuð. Var kuldinn oft svo mikill að menn þurftu að klæðast vetrarbúningi úti við vinnu. [29. skógurinn útsprunginn.]
Teigarhorn: Júní kaldur og gróðurlítill. Óhagstæður bæði til lands og sjávar.
Sámsstaðir: Mánuðurinn hagstæður öllum útistörfum en gróðri fór lítið fram. Kal í túnum allmikið þar sem flatlendast var.
Júní 1952 er einn af köldustu júnímánuðum mælisögunnar um landið norðaustanvert - þó var enginn hafís á ferð. Meðalhiti á Akureyri var aðeins 5,9 stig (2,2 stigum lægri en í hinum kalda júní 2024) og er þar aðeins vitað um tvo kaldari júnímánuði (1907 og 1882). Enn kaldara var við ströndina. Meðalhiti í Skoruvík á Langanesi var 2,5 stig og 3,4 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði (sjá annars meðalhitatölur í viðhenginu). Alhvítt var 11 daga mánaðarins í Möðrudal og sjö á Grímsstöðum á Fjöllum.
Að morgni 2. var alhvítt á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, snjódýpt að vísu ekki nema 2 cm, einnig snjóaði á Kirkjubæjarklaustri. Slydda var í Vík í Mýrdal, en snjó festi ekki.
Kortið sýnir stöðuna í háloftunum þennan kalda morgun. Risastór kuldapollur þekur mestallt svæðið milli Grænlands og Noregs. Inni í honum er smærri pollur við Vesturland á leið suðaustur - um leið gerir snjókomu syðst á landinu.
Næstu daga bárust frekari fréttir af hretinu og kuldanum í kjölfarið. Tíminn segir 4.júní:
Hvítasunnuhretið mikla, sem gekk yfir mikinn hluta landsins og var harðast á Norðurlandi, varð ekki svo skammvinnt sem menn vonuðu. Síðustu dagana hefir verið vetrarveður um allan norðurhluta landsins, snjóað flestar nætur svo að snjó festi ofan að sjó og grimmdarfrost verið um nætur. Í gær virtist helst byrjað að svífa til og veður að mildast, en þó voru hríðarél víða fram eftir degi. Fréttaritarar blaðsins um gervallt Norður- og Austurland hafa allir sömu sögu að segja um geysilega erfiðleika bænda við lambfénað, hættuna á skemmdum í görðum, visnuðum gróðri og hið alvarlega útlit ef svo heldur lengi fram. Hætt er og við miklu kali í túnum og margs konar öðru tjóni. Er þetta eitthvert hið versta vor sem menn muna eftir að fénaður er komin á græn grös. Einna mestar hafa þó frosthörkurnar verið á Hólsfjöllum. Fréttaritari blaðsins þar sagði að frost hefði verið þar 5-6 stig undanfarnar nætur. Lambamissir var nokkur, fé fennti og lömb fundust frosin niður og dauð. Hríðarveður hefir verið það flesta undanfarna daga og erfiðleikar miklir.
Ýmsir fréttaritarar blaðsins norðan lands hafa bent blaðinu á það, að bændur telji sig hafa verið illa svikna af veðurskeytunum daginn, sem stórhríðin skall á. Kvöldið áður var yfirleitt spáð rigningu eða slyddu og engu aftakaveðri, en um nóttina gerði sem fyrr segir grimmdarstórhríð eins og verst verður á þorra með mikilli snjókomu og frosti. Voru bændur því óviðbúnir og smöluðu ekki fé sínu í hús um kvöldið.
Morgunblaðið kvartar einnig 4.júní:
Ennþá er norðanátt um allt land og hiti víða um frostmark. Hefir kuldakast þetta þegar valdið miklu tjóni. Hafa bændur á Norður-, Vestur- og Austurlandi misst allmikið af lömbum, en þar að auki tefur það mjög fyrir öllum gróðri. Líkur eru til a0 veðrið verði óbreytt í dag.
Tíminn segir 5.júní frá hretinu í Skagafirði - og að hross hafi þá fennt:
Frá fréttariturum Tímans í Skagafirði. Hvítasunnuhretið, var allhart í Skagafirði og muna elstu menn þar, ekki annað eins óveður svo seint á vori. Í framdölum Skagafjarðar varð fannkyngið slíkt, að hross fennti auk þess mun fé hafa fennt, en þar sem það er heima við á þessum tíma vegna sauðburðarins, mun hafa verið nærtækara að bjarga því í hús en ella.
Til marks um fannkyngi er það að fáein hross fennti munu tvö þeirra hafa kafnað. Standa þó hross lengi upp úr og þarf engar smáræðis fannir til að hylja þau. Bændur voru alla þriðjudagsnóttina við að reyna að bjarga bæði fé og hrossum í hús, en gekk það illa vegna kafalds og hríðarmyrkurs. Snjóinn hefir heldur verið að taka upp síðustu daga, en frost er á hverri nóttu og horfir til stórvandræða með allan gróður ef ekki breytist til batnaðar næstu daga.
Morgunblaðið segir einnig fréttir úr Skagafirði 6.júní:
Sauðárkróki, 5. júní. Undanfarna daga hefir mikið af fé því, sem saknað var eftir ofveðrið síðast í fyrra mánuði, komið í leitirnar. Margt hefir samt farist ,en færra en búast hefði mátt við. Þó er nú vitað með vissu, að milli 10 og 20 hross hafa fennt úti í Lýtingsstaðahreppi innarlega í Skagafirði. Hafa mest brögð orðið.að þessu með fjallgarðinum að vestan. Þar innfrá er nú mikil fönn og mun hana ekki taka upp fyrr en hlána fer fyrir alvöru. Allt fé, sem náðst hefir, er nú á gjöf, en búast má við að heybirgðirnar gangi til þurrðar, ef langvarandi kuldatíð helst. Í dag var veður hér nyrðra heldur mildara en að undanförnu.
Tíminn segir frá tjóni í varpi í Bjarnarey í pistli 11.júní:
Einkafrétt Tímans frá Vopnafirði. Afleiðingar stórhríðarinnar um daginn eru enn að koma í ljós og sýna þær gerst, hve veðrið hefir verið afskaplegt enda af mörgum talið norðan og austanlands, að þetta sé versta áhlaup svo síðla vors, sem komið hefir um áratugi. Það hefir nú komið i ljós, að um 500 æðarkollur hafa drepist á hreiðrum sínum í einu varpi eftir veðrið. Þetta er í æðarvarpinu í Bjarnarey út af Vopnafirði, en varp þetta er í eigu Fagradals. Þegar veðrið skall á voru flestar æðarkollurnar búnar að verpa og lagstar á. ... Þegar eftir veðrið tóku að finnast dauðar kollur á hreiðrunum. Veðri var svo háttað þarna, að slydda var fyrst og síðar snjókoma og frost nokkrar nætur á eftir. Fundust sumar kollur blátt áfram frosnar niður. Næstu daga héldu kollurnar áfram að drepast og fór vaxandi og hafa kollur fundist dauðar allt fram til þessa. Eru dauðar kollur, sem fundist hafa, nú orðnar um eða yfir 500. Hefir slíkur fellir ekki orðið af völdum veðurs í æðarvarpi svo vitað sé síðustu áratugi. Það hefir nú komið í ljós að verulegir fjárskaðar hafa orðið eftir veðri að tveim bæjum í Vopnafirði. Er það á Leifsstöðum og Hámundarstöðum. Á þessum bæjum hafa farist um 30 fjár.
Lítið hafði linast þegar kom fram undir 20. Tíminn 19.júní:
Vorhörkurnar, einkum Norðanlands og austan mega enn heita hinar sömu, og er nú svo komið, að á þessum slóðum er útlit fyrir hið mesta grasleysisár, ef ekki bregður til afbragðstíðar hið bráðasta. Fregnirnar eru einna kuldalegastar af Norðausturlandi og af Héraði. Þar eru næturfrost enn tíð og kuldasteytingur dag hvern. Gróðri fer því nær ekkert fram. Græn slikja er á túnum, en ekkert gras enn, og úthagi grár. Í fyrradag varð jörð hvít af snjó á Héraði, og víðar á Norðausturlandi gránaði í rót niður undir sjó. Eru bændur mjög uggandi um sprettuna í sumar. Komið er nú fram undir sláttartíma í sæmilegum árum, en auðséð er nú að sláttur getur vart hafist að ráði næsta mánuðinn. Vestan lands eru einnig næturkuldar og gróðri fer mjög hægt fram, þótt ástandið sé ekki eins ískyggilegt og norðanlands og austan.
Tíminn segir 19.júní frá gróðureldi við Hólm ofan Reykjavíkur:
Í fyrradag [17. júní] var símað frá Hólmi til Skógræktarfélags Reykjavíkur og sagt, að eldur væri kominn upp í mosa í svonefndu Hólmshrauni innan Heiðmerkurgirðingarinnar. Var þetta á 10. tímanum um morguninn, og var slökkviliðinu gert aðvart. En þegar í stað fór Karl Norðdahl bóndi í Hólmi á vettvang ásamt Ólafi Þórarinssyni, bakara, og þriðja manni. Tókst þeim að hefta útbreiðslu eldsins að mestu áður en slökkviliðið og hjálparlið úr Reykjavík kom, en slökkvistarfið sjálft gekk mjög seint, enda var eldurinn orðinn mikill í mosanum. i Var ekki búið að ráða niðurlögum eldsins fyrr en kl. 5 um daginn, og hafði eldurinn þá farið yfir um 5600 fermetra lands.
Tíminn segir 25.júní loks frá batnandi veðri:
Frá fréttaritara Tímans á Grímsstöðum. Veður hina síðustu tvo daga hefir verið mjög gott, fimmtán stiga hiti annan daginn og tólf stiga hiti hinn. Undanfarnar fjórar vikur hefir verið mikil ótíð og frost á hverri einustu nóttu, oft allt að fimm stigum. Jörð var farin að grænka nokkuð, áður en kuldakastið skall á, en nú er allur úthagi grár, eins og á vetrardegi, og aðeins grænir blettir hér og þar í túnum. Vanhöld urðu nokkur á lömbum og hætta er á að þau lömb sem eftir lifa, nái ekki fullum þroska. Snjór er enn á öllum fjallvegum og hefir vegurinn yfir Möðrudalsöræfi verið á kafi í snjó og því ekki fært bifreiðum austur á firði, en um næstu helgi mun verða reynt að ryðja veginn.
Tíminn segir 26.júní frá rjúpnadauða í Þórsmörk - ekki er ljóst hvað var á seyði:
Ferðafólk, sem fór inn í Þórsmörk um síðustu helgi varð eigi lítið undrandi, er það sá fjölda rjúpnahama liggja þar á víð og dreif, og er það heldur óvenjuleg sjón. Virðist augljóst, að fellir hafi orðið á rjúpunni þar með einhverjum hætti í vetur eða vor. ... Ekki er gott að sjá, hvað hefir orðið rjúpunni að falli þarna, en það gæti hafa verið fár eða algert hagleysi, og er hið síðara þó miklu ólíklegra ... Langlíklegast virðist, að hér sé um fár að ræða, enda halda ýmsir náttúrufræðingar því fram, að rjúpan falli á svo sem tíu ára fresti úr fári, þegar fjölgun hennar hefir náð vissu marki.
Tíminn segir af harðindum í Mývatnssveit í pistli 27.júní:
Frá fréttaritara Tímans í Mývatnssveit. Enginn miðaldra maður eða yngri man eftir öðrum eins kulda og vetrarbrag á öllu um sólstöður eins og nú. Þótt allt væri seint á ferð 1924 var kominn meiri gróður á tún þá um sólstöður. Nú eru túnin víða grá enn, þótt þau hafi ofurlítið litkast síðustu dagana. ... Sumstaðar eru miklir kalblettir í túnum. Eitt merkið um hina óvanalegu kulda, merki sem þó er hið eina góða, sem er þeim samfara, er það, að mývargs hefir ekki orðið vart hér enn og er þó kominn sá tími sem hann er venjulega farinn að láta mjög á sér kveða. Flugurnar hafa þó skriðið úr púpunum, en fljóta í hrönnum niður Laxá, en komast ekki á loft. ... Nokkur lömb fórust í stórhríðinni, en þó hvergi meira en 4-5 lömb á bæ og sumstaðar ekkert. Góður silungsafli hefir verið á sumum bæjum hér við vatnið í vor, t.d. á prestssetrinu á Skútustöðum þó að þar virðist nú enginn prestur vilja vera. Til marks um vorkuldana má geta þess að frostnætur hafa verið fleiri í júnímánuði en menn vita dæmi um með vissu, eða alls 12 það sem af er mánuðinum.
Vart varð við ís norður af Horni - en það var ekki teljandi. Tíminn 28.júní:
Skip, sem áttu leið um norður af Horni í gær sáu allmikinn ís um 10 mílur norður af Horni. Á þessum slóðum var um þéttan rekís að ræða, og var hann að reka saman í samfasta breiðu, er rak allhratt nær landi og austur á bóginn að því er virtist. Til norðvesturs var að sjá samfellda ísbreiðu á stóru svæði.
Tíminn segir af skammvinnri sumarblíðu í pistli 1.júlí:
Sumarblíðan, sem heimsótti Norðurland um fyrri helgi eftir margra vikna heljarkulda og ótíð, varð ekki langæ. Stóð hún vart nema fjóra daga, en á laugardaginn var aftur kominn norðaustansteytingur og rigningarsúld og var svo enn í gær. Spratt mjög vel þessa fáu góðviðrisdaga, og gerðu bændur sér vonir um, að þeir gætu byrjað slátt um e3a fyrir 10. júlí ef svo héldi fram, en nú virðist sú von að engu orðin, þar sem auðvitað tekur fyrir sprettu á ný. Hér hefir varla komið dropi úr lofti síðustu vikurnar, sagði Sigurður Elíasson tilraunastjóri á Reykhólum við fréttamann blaðsins í gær. Í rúma tvo mánuði hefir úrkoman aðeins verið 31 mm og er það svo að segja ekkert regn. Jörðin virðist sums staðar vera að skrælna af þurrki, og hefir þetta kippt stórkostlega úr gróðri. Lítur hér óskaplega út með sprettu.
Tíminn segir af gróðurleysi 3.júlí:
Frá fréttaritara Tímans á Raufarhöfn. Gróður allur er enn svo lítill hér um slóðir, að hörmung má teljast. Jafnvel trjágróður í skjólsælli sveit eins og Öxarfirði getur varla talist sæmilega laufgaður enn. Túnin þar og víðast annars staðar í Norður-Þingeyjarsýslu eru aðeins með grænni slikju, en stórskellótt af kali. Er augljóst, að enginn túnasláttur verður hér að marki í júlí, en verði góð sprettutíð þennan mánuð, getur orðið nokkur slægja i ágúst.
Frá fréttaritara Tímans á Bíldudal. Spretta er enn mjög treg hér um slóðir, enda hefir tíð verið köld og þurrkar hafa verið svo miklir að stórlega hafa dregið úr sprettu. Er ekki útlit fyrir, að sláttur hefjist almennt fyrr en seinni hluta júlí.
Tíð þótti viðast sæmileg í júlí - alla vega mun betri heldur en í júní. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Júlímánuður var kaldur og óhagstæður til heyskapar, en sláttur var yfirleitt hafinn seinnipart mánaðarins, en ekkert þornaði sem teljandi var fyrr en 1.-2. ágúst.
Lambavatn: Það hefir verið fremur stillt veður. En ekki hagstætt fyrir heyskap. Það var víðast seinsprottið fyrir þurrki og kulda og er sumstaðar rétt farið að slá. Nú um hálfan mánuð hefir verið óslitin vætutíð og þurrkleysa. Óvíða er búið að heyja neitt að ráði. Nú lítur út að þurrkur sé að koma.
Sandur: Tíðarfar var sæmilegt, hvorki kalt né óþurrkasamt að undantekinni vik um miðjan mánuð og þessum síðustu dögum. Gras spratt seint, kalskemmdir voru miklar á túnum og sláttur hófst yfirleitt ekki fyrr en um þann 20. og var spretta þá enn rýr.
Hof í Vopnafirði: Mánuðurinn mátti yfirleitt kallast fremur erfiður. Þó komu 2 góðir kaflar.
Gunnhildargerði: Tíð hefur verið fremur hagstæð. Grasspretta var mjög rýr og töðufengur lélegur en nýting hennar sæmileg.
Sámsstaðir: Mánuðurinn hagstæður fyrir heyskap, en kalt og svalt flesta daga.
Tíminn segir frá því 4.júlí að verið sé að ryðja veginn yfir Möðrudalsöræfi:
Undanfarið hefir vegurinn [yfir Möðrudalsöræfi og Jökuldalsheiði verið ruddur og hefir það verið erfitt og alltorsótt verk. Hafa snjóýtur unnið á veginum yfir Jökuldalsheiði og í fjallgörðunum. Þær hafa orðið að ryðja af veginum miklum snjó og oft orðið fastar í miðju verki sakir snjóþyngslanna og erfiðrar aðstöðu.
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Í gær kom loksins sólarsumarveður á Akureyri. Var þá sunnanandvari og hiti. Er þetta fyrsti eiginlegi sumardagurinn um langt skeið. Undanfarið hefir verið kalt og dumbungsveður nyrðra.
Þegar hlýnaði urðu auðvitað nokkrir vatnavextir. Tíminn 8.júlí:
Frá fréttaritara Tímans á Fosshóli. Allmikill vöxtur er nú í ám og lækjum hér vegna mikilla leysinga á öræfum í hitaveðrunum, sem verið hafa á norðaustanverðu landinu undanfarna daga. Vegurinn frá Grímsstöðum á Fjöllum austur að Möðrudal og yfir Jökuldalsheiði er mjög erfiður yfirferðar, og Skarðsá sem er á milli Möðrudals og Víðdals á Fjöllum má heita ófær minni bifreiðum vegna vaxtar. Grasspretta er ennþá mjög lítil en þó eru einstöku bændur að hefja slátt. Talið er að sláttur almennt hefjist ekki fyrr en um 20.júlí.
Talsvert hret gerði enn og aftur í kringum 10. júlí og kalt var í veðri fram yfir 20. Tíminn 13.júlí:
Hret það, sem gengið hefir yfir norðanvert landið undanfarna tvo daga var hið versta. Var stórrigning um allt Norðausturland og sumstaðar slydda í byggðum, svo að við lá að festi snjó. Víða gránuðu fjöll ofan í miðjar hlíðar, og snjóföl var á mörgum fjallvegum. Á Siglufjarðarskarði snjóaði svo mikið, að ýta varð að hætta störfum þar, og var sums staðar kominn kálfasnjór.
Blaðamaður frá Tímanum hafði í gær tal af manni, sem komið hafði vestan af Snæfellsnesi þá um daginn. Er áberandi, hvað gróður er kominn skemmra á veg þar vestra en hér um slóðir, enda er víða farið að slá bletti á túnum í nágrenni Reykjavíkur og austanfjalls. Sumstaðar er sláttur jafnvel hafinn fyrir alvöru. En strax og kemur vestur fyrir Borgarfjörð dregur úr gróðri og vestur á Snæfellsnesi mun sláttur varla nokkurs staðar hafinn. Hafa kuldarnir nú upp á síðkastið stöðvað þá framför.
Morgunblaðið segir frá sama hreti 15.júlí:
Vopnafirði, 12. júlí. Norðanátt hefur verið hér um allt Norður- og Austurland, síðustu tvo sólarhringa, rigning í lágsveitum en hríð til fjalla. Síðdegis í gær var blauthríð með hvössum norðanstormi á Vaðlaheiði. Talsverður snjór hafði fallið á heiðum Hér í Vopnafirði er snjór niður undir bæi. Fjallvegir eru þó allgreiðfærir hingað til Austurlandsins og ár litlar. Sláttur er ekki hafinn hér nema lítils háttar á einum bæ, enda grasspretta léleg, nema smáblettir eru sæmilega sprottnir.
Tíminn segir 16.júlí af ófærð á Möðrudalsöræfum. Í júlí var alhvítt 3 morgna í Möðrudal:
Frá fréttaritara Tímans. Allmikið hefir snjóað á fjöllum norðaustanlands undanfarna kuldadaga, og var grátt ofan í hlíðar víða þar til í gær, er heldur var tekið að hlýna í veðri. Áætlunarbifreiðar á Austurlandsleiðinni, sem fóru austur í fyrradag, urðu að fara þæfingssnjó víða á fjallvegunum. og sums staðar á Möðrudalsöræfum var snjórinn svo mikill, að moka varð skafla af nýjum snjó til að komast leiðar sinnar. Mun það vera einsdæmi í ferðum í miðjum júlí síðan bílferðir hófust um þessa landshluta, að svo mikill nýr snjór hafi fallið, að bifreiðar kæmust ekki hindrunarlaust leiðar sinnar. Að öðru leyti er vegurinn að verða sæmilegur á þessum slóðum. Á öllu hálendinu var snjófjöl og þæfingur á veginum.
Mun betra hljóð var í mönnum í Mýrdal. Tíminn segir frá 17.júlí:
Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Afbragðstíð hefir verið hér í Mýrdal undanfarna daga, og hafa nú þeir bændur, sem fyrst hófu sláttinn, alhirt tún sín eða eru að ljúka við það. Aðrir eru langt á veg komnir með túnasláttinn og keppast nú við sem mest þeir mega. Grasspretta er orðin ágæt og virðist ætla að verða ágætt heyskaparsumar. En á sama tíma sem bændur hafa alhirt tún í Mýradal með ágætum töðufeng, er sláttur ekki hafinn í ýmsum öörum héruðum landsins og spretta enn sáraléleg svo að einsætt er grasleysissumar. Þannig er gjöfum veðráttunnar misskipt á Íslandi eins og löngum fyrr.
Á þessum árum var Siglufjarðarskarð snjóþyngsti fjallvegur landsins. Hann opnaðist ekki fyrr en seint um síðir, og lokaðist stundum að sumarlagi vegna snjóa. Eins og við var að búast var opnunin seint á ferð 1952. Tíminn segir frá 19.júlí:
Frá fréttarritara Tímans á Siglufirði. Í gær mátti heita að lokið væri að ryðja snjónum á veginum yfir Siglufjarðarskarð, og mun aldrei hafi orðið að ryðja þar svo miklum snjó. Ýta hefir alls unnið 350 klukkustundir að verkinu. Verkið var hafið 25. júní, og var það allmikið síðar en í fyrra. Var oft unnið nótt og dag með ýtunni, og um síðustu helgi kom önnur ýta, sem verið hafði að ryðja Lágheiði, til liðs við fyrri ýtuna og byrjaði Fljótamegin. Snjórinn í skarðinu var óskaplegur. Þar sem snjógöngin eru hæst, eru þau nú 1516 metrar, en jafnar traðir um veginn í háskarðinu eru um 5 metrar en víða allt að tíu metrum.
Tíminn segir fréttir af Ströndum 23.júlí:
Frá fréttaritara Tímans i Trékyllisvík. Aðfaranótt 11. júlí síðastliðinn gerði hér allhart hret og snjóaði niður í mið fjöll. Bændur höfðu nýlokið við að rýja fé sitt og urðu því nokkur brögð að því að fé króknaði um nóttina og munu sjö kindur hafa drepist á einum bænum.
Þann 23. júlí kom mjó tunga af mjög hlýju lofti skyndilega úr suðri - og fór mjög fljótt yfir. Í ers5-endurgreiningarsafninu (frá og með 1940) hefur þykktin (sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs) aldrei orðið jafnmikil yfir miðju landinu í júlí eins og þennan dag, 5640 metrar. Met voru líka sett í háloftaathugun yfir Keflavíkurflugvelli - en í þeim er þó trúlega villa, þykktin er sögð 5710 metrar og hiti í nokkrum flötum meiri en hægt er með góðu móti að taka trúanlegan - samt er athyglisvert að villan sé ekki meiri en svo að endurgreiningar staðfesta hlýindin (og þær geta líka verið rangar). Tíminn segir af hitanum í frétta 24.júlí - við skulum hafa í huga að alskýjað var og enga hjálp frá sólinni að hafa til methita. Hæsti hiti sem mældist var í Möðrudal, 25,7 stig.
Frá fréttariturum Tímans á Húsavík og Akureyri. Dagurinn í gær var einhver heitasti dagur, sem komið hefir á Norðurlandi í mörg ár. Á Húsavík var hitinn 24 stig lengi dags og hefir slíkur hiti ekki komið þar síðan 1939. Hægviðri var en sólarlaust að mestu. Hefir hiti verið töluverður í lofti undanfarna daga, enda þótt ekki hafi hann fyrr komist jafnhátt og í gær. Á Akureyri var líka mikill hiti í gær og var lengst af um og yfir 20 stig. Sólarlaust var þar þó allan daginn. Síðdegis kólnaði nokkuð og komst hitinn þá niður fyrir 20 stig, og hélst svo fram undir kvöld.
Nokkuð meinlaust veður hélst til mánaðamóta og þannig áfram fyrstu þrjár vikur ágústmánaðar. Síðasta vika ágúst varð hins vegar mjög erfið. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Ágústmánuður var mjög indæll og þurrviðrasamur fram til 19., þá var fyrsta úrkoma mánaðarins. Höfðu þá allir hirt töður sínar sem lausar voru. Eftir það var óþurrkasamt og er enn (3.9.), ekki búið að ná inn allri töðunni. En búið að slá og þurrka talsvert úthey, sem stendur í sætum. Aðfaranótt 28. var 2,5 stiga frost hér. Féll þá kartöflugras í görðum og rabarbari einnig.
Lambavatn: Fyrri hluta mánaðarins var sífellt blíðviðri og þurrkur. En seinni hlutann votviðri og síðustu dagana norðanrok og rigning hvað eftir annað. 31. var hér með mestu rokum sem hér koma, seinni hluta dagsins var veðurhæð víst nálega 11 vindstig eða meir. Heyskapur gengur ekki vel. [26. Bleytu kafaldshrannir, versta veður; 28. Svell á pollum og bleyta freðin um morguninn; 31. Aftakarok og krapahríð frá hádegi].
Flateyri (Hólmgeir Jensson): Veðurfar í þessum mánuði má teljast fremur hagstætt til sjós og lands. Úrkoma mikið minni en oft er í þessum mánuði. Sólskin hefir verið lengur eða skemur daglega í 17 daga. Hvassviðri gerði af norðaustlægri átt þann 26. Fennti þá í fjöll. Þann 30. og 31. snjóaði niður fyrir miðjar hlíðar. Tepptist þá akvegur til Ísafjarðar.
Suðureyri: [31. Hríðarveður frá kl.10. Snjór niður á láglendi].
Skriðuland: Ágæt heyskapartíð frá byrjun mánaðar til þess 18. Með og frá 19. var hið versta tíðarfar til mánaðarloka. Stórfelldar rumbur og illviðri. Kartöflugras kolféll í görðum þann 28.
Sandur: Tíðarfar þurrviðrasamt en þó daufir þurrkar til þess 18. Síðan úrkomu- og óþurrkasamt.
Gunnhildargerði: Veðráttan var fremur hæg en mjög þrálátar þurrkleysur og varð nýting heyja því ekki í meðallagi.
Sámsstaðir: Mánuðurinn óvenjukaldur og með hitasveiflum er ollu skaða á kartöflugrasi og hálfþroskuðu korni. Hins vegar var tíðin hagstæð til heyskapar fyrstu 3 vikurnar, en votviðrasamt síðasta þriðjung mánaðarins.
Tíminn segir heyskaparfréttir að norðan 8.ágúst:
Frá fréttaritara Tímans í Höfðahverfi. Kal í túnum er hér hið mesta, sem þekkst hefir um áratugi, þótt mismunandi mikið sé á bæjum. Veldur þetta mestu um að töðufengur verður undir meðallagi. ... Þurrkar hafa verið stopulir, en þó var sæmileg þurrkvika í lok júlímánaðar, en þó skúrir við og við. Síðan var súld síðustu dagana í júlí og fyrstu daga ágústmánaðar.
Óvenjuþurrt var á sunnanverðum Austfjörðum - og víðar um land var tíð í þurrara lagi. Tíminn segir frá 12.ágúst:
Nú biðja allir á Djúpavogi um rigningu, því að þar hefir varla komið dropi úr lofti síðan í maímánuði. Eru hinir langvarandi þurrkar farnir að valda ýmsum óþægindum og skaða, og þess vegna vilja menn gjarnan fá vel útilátna rigningu, þótt það sé sjaldgæf ósk um sláttinn hjá jafn sólskinselsku fólki og íslendingum. Óskin um regn kemur ekki til af góðu. Hinir langvarandi þurrkar hafa haft þær afleiðingar, að brunnar eru nú flestir þrotnir og hörgull á neysluvatni. Gróðri fer lítið fram og harðlendi, sem snýr mót sólu er illa sprottið, svo að nú er það ekki ljábært, þótt í venjulegu árferði sé þar mikið gras. En heyskapur hefir gengið vel og örugglega í þurrkunum, og hafa bændur getað hirt hey sín hvanngræn jafnóðum og sólin hefir þurrkað þau af ljánum.
Frá fréttaritara Tímans í Stykkishólmi. Hér hefir verið alveg einmunaþurrkur allan ágústmánuð og sérstök heyskapartíð. Hefir ekki þurft annað en losa grasið af jörðinni, en síðan þornar það sjálfkrafa. Þannig hefir það verið um allan Breiðafjörð, en þó kannski eitthvað vindasamara um norðanverðan fjörðinn.
Í Svarfaðardal hefir nú verið um skeið þurrkur og góð heyskapartíð, og spretta er orðin sæmileg, þar sem ekki er kal. Síðustu næturnar hefir verið frost þar nyrðra, og hefir kartöflugras sums staðar fallið, einkum þar sem garðar eru í dældum, er hið kalda næturloft hefir safnast í.
Dauft var yfir heyskap á norðausturhorninu. Tíminn 13.ágúst:
Frá fréttariturum Tímans í Þórshöfn og Raufarhöfn. Það eru allar horfur á því, að ofan á mjög tregan grasvöxt, sem nú er um Melrakkasléttu og Langanes, bætist slæm nýting heyjanna. Eru menn orðnir áhyggjufullir yfir þessum horfum.
Tíminn segir 14.ágúst undarlegar fréttir - af meintu eldgosi á Norðaustur-Grænlandi. Síðar kom önnur fregn um sama mál:
Samkvæmt skeytum, sem loftskeytastöðin í Tromsö í Norður-Noregi hefir fengið frá Grænlandsleiðangri Johns Giævers, er á sinum tíma stjórnaði norska leiðangrinum til suðurheimskautsins, telja leiðangursmenn sig hafa orðið áskynja um eldgos á austurströnd Norður-Grænlands. Þykir það eigi litlum tíðindum sæta, þar sem engar sögur fara af eldgosum á Grænlandi og það talið útkulnað land. John Givæver og förunautar hans voru á laugardagskvöldið á siglingu inn Norðfjörð, sem er nær hánorður af Íslandi á milli 70. og 75. breiddarstigs, er þeir sáu reykjarmekki mikla langt inni yfir norðurhluta Waltershousenjökuls. Þakti mökkurinn fjöllin og jöklana í norðri, og telur Giæver mökk þennan stafa frá eldgosi. Reykurinn virðist stíga upp frá tveimur stöðum inni
á jöklinum með hálftíma millibili. Á sunnudaginn sveipaðist allur innri hluti Norðfjarðar og mynni Sauðnautafjarðar. Var eitt reykjarhaf, svo ekki sást til fjalla. Sigldu leiðangursmenn upp undir jökulinn, og lagði fyrir vit þeirra sterka brennisteinslykt og þef af brunnu grjóti, en sviða setti að augum.
Tíminn ræddi við Sigurð Þórarinsson jarðfræðing um fregn þessa. Sagði hann, að svo hefði ávallt verið talið, að Grænland væri löngu útslokknað land; enda ekki vitað um aðra jarðelda í Grænlandi en jarðbruna, er varð eitt sinn á Vestur-Grænlandi, er eldur i olíublandin jarðefni. Svæði það, þar sem eldgos þetta er talið hafa orðið, er hins vegar mjög lítið þekkt, og má vel vera, að þar séu ungar bergmyndanir, enda vitað, að á Austur-Grænlandi eru blágrýtisfjöll, sem ekki eru ýkjaforn. Reynist hér um eldgos að ræða, sé það hinn merkasti viðburður, er vekja muni stórkostlega athygli meðal jarðfræðinga. Samkvæmt nýjustu fregnum í gærkvöldi telur Grænlandsstjórn Dana að ekki sé um eldgos að ræða, heldur hafi Norðmennirnir séð rykmökk yfir landinu.
Í gær var góður þurrkdagur á Fljótsdalshéraði, en þar hefir annars verið þungbúið og kalt í veðri um skeið Hefir í hálfan mánuð aðeins skinið sól tvo daga eftir hádegi, en alla jafnan verið þokuloft og kuldanæðingar. Ekki voru nein hlýindi að ráði í gær, þó sólskin væri.
Tíminn segir jákvæðar heyskaparfréttir 19.ágúst:
Síðasta vika varð ágæt heyskaparvika á Norður- og Norðausturlandi og björguðust þá mikil hey í hús með allsæmilegri verkun. Hefir sú vika valdið því, að ekki verður um mikinn heybrest að ræða í þessum héruðum, þótt graslítið væri víða.
Hinir löngu þurrkar hafa þegar valdið Þykkbæingum miklu tjóni og eru kartöflugrösin mjög illa farin á stórum svæðum og sumstaðar fallin. En mikið mun nú rétta við ef garðlöndin vökna að ráði.
Tíminn segir 20.ágúst frá slætti á flæðiengjum í Borgarfirði:
Í sumar hafa bændur sótt langt að til heyskapar á flæðiengjarnar við Hvítá í Borgarfirði. Þeir, sem þar eru lengst að komnir og búa í tjöldum alla vikuna, eru alla leið ofan úr Fornahvammi í Norðurárdal og frá bæjum framarlega í Skorradal og Lundarreykjadal. Það er treg spretta, sem rekur menn svo langt að á hinar gróðurmildu og safamiklu flæðiengjar við Hvítá. Enda þótt tún séu viða allvel sprottin í Borgarfirði, er á sumum bæjum mun minni töðufengur nú en venjulega og því þörf aukins heyskapar á útengi. Túnasláttur gekk vel vegna hagstæðs tíðarfars og því ágætur tími hjá mörgum að stunda útengjaheyskap, meðan verið er að bíða eftir því að sæmileg spretta komi upp á túnum í síðari slægju. Engjar eru hins vegar víða ákaflega illa sprottnar og er svo um flæðiengjarnar, að þar er mun minna gras en í góðum árum. Undanfarna viku og raunar fyrr, fóru tjöld aðkomufólks og mikið annríki fólks með vélar og hesta að setja svip sinn á hinar víðlendu og hvanngrænu flæðiengjar niður með Hvítá. Var heyjað þar af kappi alla síðustu viku, svo að þar hlóðust upp myndarlegir heybólstrar, sem biðu flutnings heim. Þeir, sem heyja þarna, eru einkum úr uppsveitunum og Borgarnesi. Framan af engjaslættinum við Hvítá gáfu menn sér varla tíma til að flytja heyið heim jafnóðum, en miklir flutningar áttu sér stað fyrir helgina, þegar veður fór að verða tvísýnna, hvað þurrk snerti. Fyrst var lögð áhersla á að heyja það af engjunum, sem var i hættu við stórstraumsflóð, svo að nú, þegar höfuðdagsháflæðið nálgast eftir rúma viku, er ekkert eftir á þeim hlutum engjanna, sem þá er hætta búin.
Eftir 23. versnaði tíð og gerði erfiða og hretasama viku. Meginillviðrin voru tvö. Það fyrra var verst 26.ágúst. Þá kom lægðardrag úr norðvestri og myndaðist öflug lægð skammt fyrir norðan land. Þegar hún fór hjá gerði hvassa norðanátt og kólnaði verulega.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis þann 25. Allar líkur á að nútímatölvuspár hefðu náð þessu veðri vel.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins síðdegis þann 26. þá var norðankastið um það bil í hámarki. Hæðarlínurnar samsvara jafnþrýstilínum með 5 hPa bili.
Tíminn segir frá veðrinu 28.ágúst:
Í fyrradag [26.] skall á um norðurhluta landsins hið mesta foraðsveður svo að víð hefir ekki komið öllu verra norðanveður í ágústmánuði um langt árabil en var í fyrrinótt. Hefir orðið sumstaðar verulegt tjón af þessu áhlaupi einkum á heyjum. Í byggð var víðast stórrigning, en slydduveður er hærra dró og hríð á fjöllum. Vaðlaheiði var ófær litlum bifreiðum í gær og var einkum mikill snjór austan til á heiðinni og skafrenningur. Á Akureyri er allur fjallahringurinn hvítur.
Um Vestfirði, Húnaþing, Skagafjörð og Eyjafjörð, Þingeyjarsýslur og Múlasýslur snjóaði í fjöll og víða niður í miðjar hlíðar og sumstaðar niður undir bæi. Í Gönguskörðum í Skagafirði voru tún til dæmis alhvít í gærmorgun, er fólk kom á fætur. Vitað er um að sumstaðar hafa orðið skaðar á heyi í veðrinu. Hefir það bæði fokið, þar sem veðurhæðin var mest og eins hafa jafnlendar engjar farið undir vatn og hey skolast á brott. Í Skagafirði var geysimikil úrkoma og eylendið blotnaði mjög og Húsabakkaflói var í gær eins og fjörður yfir að líta. Þar var mikið af heyi úti, bæði í sæti og flatt. ... Í Seyðisfirði fauk eitthvað af heyi og einnig munu einhverjar skemmdir hafa orðið á heyi á héraði. ... Í Þingeyjarsýslum snjóaði ofan undir láglendi og festi snjó í uppsveitum. Þar kom mjög illa ofan í hey bænda fyrir hádegi í fyrradag því að framan af degi var bjart og þurrt, en síðan gerði snögglega stórrigningu og hvessti þegar leið á kvöldið. Er hafrót mikið en ekki hefir frést um verulega skaða. Í Seyðisfirði var hið mesta stórviðri og er það til marks að í skrúðgarði í Seyðisfjarðarkaupstað brotnaði 5-6 m hátt tvístofna reynitré. ... Á Vopnafirði var stórrigning og ofsarok í fyrrinótt og gær, en ekki var vitað um teljandi skaða nema lítils háttar heyfok og skemmdir af vatni. Þar snjóaði niður fyrir miðjar hlíðar og var krapahríð í byggð, en festi þó ekki.
Morgunblaðið segir einnig frá 28.ágúst:
Í fyrrinótt gerði norðan hvassviðri með úrhellisrigningu við ströndina, en snjókomu til fjalla og allt niður í Byggð um gjörvallt norðanvert landið. Þá tepptust og fjallvegir, eða færð varð þar erfið. Þannig varð áætlunarbílinn austan af fjörðum að snúa við aftur á Jökuldalsheiði vegna stórhríðar og bílaumferð um Siglufjarðarskarð tepptist einnig, þar til ýta hafði rutt leiðina að nýju. Er líða tók á daginn í gær gekk norðanáttin niður. Í Skagafirði snjóaði víðast hvar í byggð, og það jafnvel svo, að tún voru þar alþakin snjó, eins og t.d. að Hólum í Hjaltadal. Var þar heldur kuldalegt um að litast.
Veðrið gekk fremur fljótt niður, það birti til og við tók björt og köld nótt. Tíminn segir frá 29.ágúst:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 28.] var frost um mikinn hluta landsins, og sums staðar mikill gaddur. Mun víða hafa fallið kartöflugras, bæði á Suðurlandi og Norðurlandi og víðar, og líklegt, að þessi frostnótt hafi valdið stórtjóni. Það mun vart ofsagt að tjónið af þessari frostnótt nemi milljónum, því að um verulegan hluta landsins, þar á meðal í mestu garðyrkjubyggðunum er kartöflugras gerfallið eða stórlamað. Um meginhluta Suðurlandsundirlendisins var frost, og mikið í uppsveitum. Á Rauðalæk í Rangárvallasýslu var í gærmorgun þumlungsþykkur ís á vatni í ílátum er staðið höfðu úti um nóttina. Á Þingvöllum var fjögurra stiga frost og þriggja stiga frost á Hæli í Hreppum. Í Mýrdal var ekki frost til tjóns, en hætti við skemmdum í uppsveitum austar. Í Öræfum var við frostmark er kaldast var og í Hornfirði sluppu kartöfluakrar óskemmdir að mestu eða öllu leyti. Á Eyrarbakka, Stokkseyri og Þykkvabæ, þar sem kartöflurækt er geysilega mikil, urðu einnig miklar skemmdir á kartöflulendum, og hætt við, að vöxtur stöðvist, þótt aftur bregði til betri tíðar. Á Stokkseyri var svo mikið frost, að stirðnað var í gærmorgun mjólk í krúsum, sem staðið höfðu úti á dyrapalli. Á Selfossi eru kartöflugarðar svartir yfir að líta, og um allar uppsveitir Árnes- og Rangárvallasýslna er kartöflugrasið gerfallið.
Um Þingeyjarsýslur og Norðausturland var víða verulegt næturfrost. Á Grímsstöðum á Fjöllum varð frost 4 stig og allir lækir ísilagðir í gærmorgun. Í gær var ekki hægt að snúa heyi á Grímsstöðum enda þótt þurrkur væri vegna þess hve mikið af snjó sat í því frá því í norðanáhlaupinu. Í allan fyrradag var túnið á Grímsstöðum alhvítt af snjó og þegar hærra kom var skafrenningur og dró í skafla.
Um Skagafjörð og Eyjafjörð var talsvert næturfrost og í Húnaþingi mun viða hafa verið nokkurt næturfrost og víða um Vestfjarðakjálkann mun hafa fryst um nóttina að því best er vitað. Suður um Dali mun einnig hafa fryst og á Síðumúla í Borgarfirði var þriggja stiga frost. Frost var allt út á Akranes og sá þar sumstaðar á kartöflugrasi.
Í stærstu kartöfluræktarhéruðum við Eyjafjörð, Svalbarðsströnd og Höfðahverfi, kolféll kartöflugras, og mun tjón af þessari frostnótt skipta hundruðum þúsunda í þessum tveimur byggðarlögum. Talið er, að á Svalbarðsströnd muni tjónið nema 1020 þúsund krónum á hvert heimili, miðað við fullan vaxtartíma. Þar voru horfur á góðri kartöfluuppskeru, en nú tekur fyrir allan vöxt, er grasið er gerfallið.
Tíminn segir enn af frostinu 30.ágúst:
Tjón á kartöflulendum í Árnessýslu og Rangárvallasýslu í frostinu aðfaranótt fimmtudagsins mun jafnvel hafa verið enn meira en búist var við í fyrstu. Blöð á kartöflugrasi er alls staðar gerfallið, og víðast eru stönglar svartir niður fyrir miðju og jafnvel alveg fallnir sums staðar.
Kornið á Sámsstöðum hefir sprottið heldur í seinna lagi að þessu sinni, sagði Klemenz Kristjánsson við blaðið í gær. Veldur því að meðalhiti hefir verið heldur neðan við meðallag, en sérstaklega hefir þó verið kaldara um nætur í sumar en er að jafnaði á sumrin. ... Kartöflur skemmdust hins vegar mikið. Í lægðum og á sléttlendi gerféll grasið, en á hólum og þar sem hærra dregur stendur það skár, en þó skaddað.
En síðan kom annað óveður. Lægðardragið að vestan fór heldur suðlægari leið en það fyrra og framhaldið ekki eins dæmigert og varð þá. Lægðin sneri upp á sig og dýpkaði við landið og herti þá mjög á vindi og áttin snerist í hánorður um landið vestanvert.
Kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 31. Eins og þegar var nefnt sagði Ólafur á Lambavatni að um hádegi þann 31. hefði gert þar krapahríð og aftakarok. Úrkoma var gríðarleg á norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum, mældist 139,8 mm á Suðureyri að morgni 1.september og 93,1 mm í Kjörvogi á Ströndum. Um landið austanvert varð veðrið þann 1. september. Veðráttan getur þess að í þessu veðri hafi ísing brotið símastaura milli Grímsstaða og Vopnafjarðar.
Tíminn segir fréttir af ófærð 2.september:
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Áætlunarbifreið Kaupfélags Héraðsbúa, sem gengur milli Akureyrar og Reyðarfjarðar mun hafa orðið að snúa aftur á Jökuldalsheiði eða Möðrudalsfjallgarði á leið sinni austur í gær [1.], enda var stórhríð að kalla þar á fjöllunum.
Morgunblaðið segir frá 3.september:
Akureyri 3. september. Í úrfellinu, sem gekk yfir Norður- og Austurland síðastliðinn mánudag [1.september], var stórhríð á fjallvegunum milli Norður- og Austurlandsins. Tíðindamaður blaðsins hafði í dag tal af Sigfúsi Kristinssyni bifreiðarstjóra, sem ekur áætlunarbil Kaupfélags Héraðsbúa hingað til Akureyrar. Sigfús kom hingað kl.3 í nótt eftir 23 klst. akstur frá Norðfirði. Var hann 9 klukkustundir frá Skjöldólfsstöðum á Jökuldal til Grímsstaða á Hólsfjöllum. Tíu hjóla trukkur lagði af stað á undan áætlunarbílnum og var sums staðar ekið ofan á 23 m djúpum sköflum, en bylgjusnjór var, svo að hann tróðst sæmilega. Bílarnir fóru beint ofan fjallgarðana, austan Möðrudals, en þræddu ekki veginn. Var því um algert vetrarferðalag að ræða. Engin snjóýta er á þessum slóðum, þótt merkilegt sé, og er nú verið að moka með skóflum, svo að hægt verði að komast austur yfir fjallgarðana á morgun.
Alhvítt er niður á mið Mývatnsöræfi eða niður að Hrossaborgarlind. Þykkur snjór er á Hólsfjöllum og í Möðrudal. Má þar víða sjá heyhrúgurnar eins og stærðar þúfur undir snjónum, enda voru mikil hey úti, er hríðina gerði. Sigfúsi finnst eins og áreiðanlega öllum öðrum, er ferðast þurfa þessa illfæru en einu samgönguleið, sem til er á landi til Austurlandsins, að lítið sé fyrir hana gert og aumlega um hana hirt. Er það til háborinnar skammar, að ekki skuli vera bílfært þarna nema þrjá mánuði af árinu, þegar best gegnir. Sigfús kveðst þó muni halda áfram ferðum til Austurlandsins, svo lengi sem mögulegt er. Vignir
Tíminn segir einnig frá illviðrinu 4.september:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Á laugardaginn [30.ágúst] var gerði svo mikla úrhellisrigningu hér í Eyjafirði, að mýrar fóru í vatn og flæddi þá undir mikið af uppsettu heyi á engjum, einkum í Staðarbyggðarmýrum og varð af mikið tjón. ... Á laugardag var spáð þurru veðri, jafnvel björtu, og hugðu menn þá til hirðingar, en á laugardagsmorgun brá til stórrigningar, og rigndi svo ofboðslega þann dag og fram eftir sunnudegi [31.], að mýrarnar fóru á flot á svipstundu, og stóðu heybólstrarnir upp úr vatninu eins og smáeyjar. Blotnuðu þá bólstrarnir mjög að neðan og hefir þetta valdið miklu tjóni, þótt úr geti ræst, ef þurrk gerir brátt en mikil vinna verður að þurrka heyið á ný. Nú er vatnið sjatnað og sigið brott. Tvær harðar frostnætur komu um daginn, eins og fyrr hefir verið skýrt frá, og gerféll þá allt kartöflugras og hefjast menn handa um upptöku sem fyrst, en hinar miklu rigningar og síðan kuldar tefja það starf enn. Snjór sá, sem.hér kom um daginn í fjöll, er ófarinn enn og eru öll nærliggjandi fjöll hvít ofan í miðjar hlíðar.
Frá fréttaritara Tímans á Sauðárkróki. Mikil rigning hefir verið Skagafirði, og eylendið orðið svo forblautt, að illmögulegt er að vera þar við vinnu. Hins vegar er snjór í fjöllum, og hefir enn á ný snjóað niður undir bæi á Vatnsskarði og í Gönguskörðum.
September var býsna blandaður. Óvenjuleg hlýindi gerði um stund í kringum þann 10., en síðan kom enn eitt hretið. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: September var frekar erfiður að veðurfari og gekk seint að hirða hey. Þó náðust þau að lokum og kartöflur náðust lítið eða ekkert skemmdar, þrátt fyrir næturfrostin, en víðast var uppskeran rýr.
Lambavatn: Það hefir verið votviðrasamt og gengið seint með heyþurrkun mesta hluta mánaðarins. Yfirleitt hefir sumarið verið fremur óhagstætt nema fyrri hluta ágúst var óslitinn þurrkur og stilla. En hey hafa samt ekki skemmst neitt sem teljandi sé.
Kvígindisdalur: Heybirgðir eru hér víðast hvar undir meðallagi. Garðauppskera einnig með minna móti. Lömb eru einnig rýrari en undanfarin þrjú haust.Sumstaðar eru þau allt að 5 kg léttari, meðalvigt (líflömb seld á fjárskiptasvæði) en undanfarin þrjú haust. Allt er þetta kennt köldu vori og hversu seint og illa úthagi spratt. Næturkuldi í ágúst mun mestu hafa valdið um slæma garðauppskeru og svo það, hversu seint var hægt að setja í vor vegna vorkulda.
Sandur: Góð tíð fyrrihluta mánaðarins, bæði hlýtt og þurrt. Kalt með úrfellum af og til eftir þann 15.
Gunnhildargerði: Fyrri hluti mánaðarins var með ágætum góður, en um miðjan mánuð brá hins verra.
Hallormsstaður: Eitthvað hvassasta norðanveður er menn mun eftir hér kom 1.september með rigningu í byggð og snjókomu á fjöllum.
Sámsstaðir: Mánuðurinn mjög sólríkur og þurr.
Tíminn segir 5.september af kaldri nótt í Reykjavík:
Í fyrrinótt var svo kalt í Reykjavík, að kartöflugras féll að verulegu leyti og sumstaðar algerlega. Heiðskírt var um nóttina og fram eftir morgni, en þykknaði síðan í lofti en of seint.
Morgunblaðið segir 5.september frá illviðrinu eystra:
Skriðuklaustri 2. september: Ennþá gekk hér yfir s.l. sólarhring norðvestan ofsaveður með stórfelldri rigningu framan af. Veðrið byrjaði aðfaranótt 1.september og stóð fram undir birtingu í morgun. Voru hörðustu byljirnir skömmu áður en veðrið datt niður, en dúnalogn á milli. Úrfellið var mest fyrst, en lítið hér í Fljótsdal eftir hádegi í gær. Úthéraðsfjöllin eru snjóhvít orðin. Heyskaðar hafa orðið víða nokkrir, en flestir áttu lítið úti nema helst í slægju. Hér skóf burtu nýslegna há eins og mjöll á vetri. Þetta veður var stórum verra en miðvikudaginn 27. ágúst og nær einstakt á þessum tíma.
Tíminn segir af slakri berjasprettu og fleira 6.september:
Frá fréttaritara Tímans í Húsavík. Svo má heita, að berjalaust sé með öllu hér um slóðir í sumar, og er það mjög tilfinnanlegt, því að oftast eru hér góð berjalönd og menn hafa þeirra mikil not. Bláber náðu ekki þroska að ráði í sumar, og lítið er um krækiber. Mun sömu sögu að segja hér fram um sveitir og víðast á Norðausturlandi.
Frá fréttaritara Tímans í Húsavík. Undanfarna tvo daga hefir verið bjartviðri, sólskin og sæmilegur þurrkur hér í sýslunni og hafa menn þurrkað allmikið af heyi, er enn var úti. Hey voru mjög illa farin eftir hrakviðrið á dögunum. Kartöflugras er að sjálfsögðu algerlega fallið eftir hinar hörðu frostnætur, og snjór er ofan í miðjar hlíðar fjalla enn. Mun hann ekki hverfa í haust nema góður hlýindakafli komi.
Tíminn talar um hart sumar í pistli 7.september:
Gamlir menn og glöggskyggnir sjá þess nú víða merki, að óvenjulega hart sumar gengur yfir Ísland. Snjór er nú meiri í fjöllum en elstu menn muna, og komið hefir kafsnjór á hálendi í hverjum mánuði sumarsins. Aldraður maður, sem horft hefir til fjalla flest sumur á þessari öld frá Hólum í Hjaltadal, leit inn í skrifstofu blaðsins í gær og sagði, að nú hefði ekki á þessu sumri leyst að fullu skaflana úr Hólabyrðu, hinu kunna fjalli, sem rís yfir Hólastað, og bændur í Hjaltadal væru sammála um það, að það hefði ekki komið fyrir á þessari öld, að Hólabyrða væri ekki snjólaus með öllu einhvern hluta sumars.
Frá fréttaritara Tímans í Vopnafirði. Þrátt fyrir heitt sólskin í þrjá síðustu daga er nýi snjórinn ekki enn farinn af heiðum og öræfum hér. Í gær urðu bílar, sem fóru vestur um að sneiða hjá snjósköflum á veginum á Möðrudalsöræfunum, enda var nýi snjórinn, sem þarna kom um daginn, geysimikill.
Tíminn segir 9.september af óvenjugóðu sumri í Mýrdal:
Þetta sumar sem nú tekur senn að halla, mun ekki fá sömu eftirmælin alls staðar. Víða verður það talið með verstu sumrum um marga ára tugi, en í Mýrdal man enginn jafn veðurblítt sumar. Enn dregur þar ekki fyrir sól dag eftir dag, og þannig hefir það lengstum verið í sumar. Heyskap er þar að ljúka, og eru heygæði eftir slíkt sumar óvanaleg, þótt heyfengur sé á hinn bóginn ekki ýkjamikill.
Dagana 7. til 13. gerði mikil hlýindi á landinu. Á Suður- og Vesturlandi voru þau mest 7. til 9., en 10. til 12. fyrir norðan. Óvenjuhlýtt loft barst langt sunnan úr höfum og háþrýstisvæði í námunda við landið. Vestur af gætti fellibylsins Baker, sem var mjög öflugur um tíma en olli hvergi tjóni nema lítilsháttar á Nýfundnalandi.
Kortið sýnir háloftastöðuna um hádegi þann 9. september. Þá voru leifar fellibylsins við Suður-Grænland og mjög hlýr loftstraumur langt sunnan úr höfum umlék Ísland.
Morgunblaðið segir af tíð eystra 10.september - það er nú orðum aukið að góðviðrið hafi staðið í hálfan mánuð, því viku áður var þar hið versta veður eins og áður er getið:
Seyðisfirði 9. september. Fádæma góð tíð hefir verið hér um nær hálfsmánaðar tíma, eftir heldur hretviðrasamt sumar. Þeir sem búskap stunda, hafa hirt inn öll sín hey og nýting þeirra verður góð. Hér er blíðalogn og sólskin og hlýtt í veðri. Hitinn um miðjan daginn í dag var t.d. 22 stig í forsælu. B.
Tíminn segir af hlýindunum 11.september og bætir aðeins í. Mesti hiti sem mældist á Akureyri var þann 10., 20,7 stig, en hæsti hiti á landinu 22,4 stig á Hallormsstað daginn eftir, þann 11.. Hæsti hiti sunnanlands mældist þ.10. í Andakílsárvirkjun, 19,3 stig:
Síðustu daga hefir verið ágætis tíð norðanlands, og á Akureyri hefir verið tuttugu stiga hiti suma daga. Sums staðar inn til dala hefir hitinn jafnvel orðið fast að þrjátíu stiga. Eru þetta einhverjir bestu dagar sumarsins, sem ekki hefir verið sérlega blítt norðan lands að þessu sinni, eins og kunnugt er.
Tíminn segir 14.september af hlýindum og þurrkum í Vestur-Skaftafellssýslu:
Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Allan septembermánuð hefir varla dregið ský fyrir sólu í Vestur-Skaftafellssýslu. Þó var aðeins dumbungur í Mýrdal í gær. Í Skaftártungu komst hiti upp í 25 stig í síðustu viku og þar eru brunnar víða að þorna og vatnsskortur yfirvofandi og jafnvel einnig í Álftaveri. Víða er erfitt um vatn handa skepnum þar sem eru ekki öruggar uppsprettulindir og verður að reka þær langar leiðir til vatnsbóls.
Tíminn segir 17.september enn fréttir af eldgosinu á Grænlandi. Velta má vöngum yfir því hvað það var í raun og veru sem leiðangurinn sá. Giska má á svarðelda, þó svæsnir svarðeldar verði á Grænlandi er erfitt að sjá hvernig þeir kvikna af sjálfsdáðum, eldingar eru sárasjaldgæfar. En við látum það liggja á milli hluta - lesum bara fréttina:
Það þóttu óvænt og ótrúleg tíðindi, þegar sú fregn barst frá rannsóknarleiðangri norska könnuðarins, Jons Giæver, sem staddur var í Franz-Jósefsfirði á austurströnd Grænlands, að þeir félagar hefðu séð eldgos inni í landi. Var af jarðfræðingum talið, að Grænland væri með öllu útdautt land, eða svo jarðfræðilega gámalt, að þar gæti ekki verið um eldgos að ræða. Komu þegar fram ýmsar tilgátur um sandrok, moldar, eða rykmekki og lagði nær enginn trúnað á fregnina, enda fengust ekki nákvæmar lýsingar á atburðum þegar í stað.
Fyrir viku síðan kom leiðangur Jons Giæver heim til Noregs með rannsóknarskipinu Polarbjörn, og fullyrðir hann nú með enn meiri þunga en fyrr að um eldgos hafi verið að ræða. Við erum ekki í neinum vafa um það, að þetta var eldgos, segir hann við fréttamenn. Ég er að vísu enginn eldgosasérfræðingur, en sandstorma hef ég komist í kynni við og ég fullyrði, að þetta var ekki slíkt fyrirbrigði. Sandmekkir rísa heldur ekki hátt til himins í kyrru veðri. Reykjarsúlurnar komu upp í hnyklum og stigu beint upp og mjög hátt, svo ekki var um að villast að þær stöfuðu af sprengingum. Við vorum staddir í Franz-Jósefsfirði þegar Marö skipstjóri tók eftir þessum gosmekkjum og við gengum langt inn með firðinum til að reyna að rannsaka þetta nánar. Breski jöklafræðingurinn Charles Swithinebank sem var í Maudheimleiðangrinum og fór með okkur til Grænlands var einnig sannfærður um að þetta væri eldgos Hann vildu umfram allt reyna að rannsaka þetta og komast í nánd við eldstöðvarnar, en það var okkur því miður meinað, því að áfram varð að halda áður en ísinn lokaði leið skipsins suður með landi. Lyktin sem barst til okkar frá gosmekkinum. villti heldur ekki á sér heimildir. Hún var sem af sviðnu grjóti og brennisteini. Sterkjuna lagði í augun, svo að okkur sveið undan og tárin tóku að renna. Þetta er heldur ekki í fyrsta sinn, sem menn.verða eldgosa varir á þessum slóðum, þótt ekki hafi orðið svo greinilega fyrr. Egeberg firðritari hefir áður séð slíka gosmekki og haft orð á. Í fyrsta sinn sá hann slíkan gosmökk í janúar í fyrra, og ekki geta þó sandstormar geisað um miðjan vetur í Grænlandi, segir Giæver. Sú tilgáta er alveg fráleit. Breski jöklasérfræðingurinn mældi skriðjökla i Franz-Jósefsfirði og komst að raun um, að Fröya-jökullinn hefir styst um 30 metra á 13 árum.
Veðráttan getur þess að þann 15. hafi hvassviðri gert usla í garðlöndum í Eyjafirði, hvasst var á vestan. Tíminn segir 17.september frá hreti - en um miðjan september nálgast haustið óðfluga og hretið því kannski ekki svo mjög óvenjulegt miðað við þau fyrri:
Í fyrrinótt gekk norðan hvassviðri fyrst með úrhellisrigningu og síðan slyddu og snjókomu yfir Vestfirði og norðurhluta landsins allt til Austfjarða. Hafði sums staðar sett niður nokkurn snjó á fjallvegum og víða var snjóföl í sveitum eða grátt niður að sjó. Hefir enn orðið ein stökkbreytingin á tíðarfarinu á þessu sumri, þar sem fyrir fáum dögum var einmuna blíða og miðsumarhiti á þessum slóðum. Á Vestfjörðum var orðið alhvítt alveg ofan að sjó víða síðdegis í gær, en þá var veður að birta. Þar var og stórbrim. Á Mið-Norðurlandi var víðast hvítt ofan í miðjar fjallshlíðar og grátt í uppsveitum en slydda svo að lá við að festi niður að sjó. Á Siglufirði var grátt á götum í gærmorgun og allmikill snjór kominn á Siglufjarðarskarð en þó fært að kalla.
Bílstjórar, sem fóru yfir Öxnadalsheiði í gær fyrir hádegið, sögðu þar allmikinn snjó kominn og hefði legið við borð, að setja þyrfti á snjókeðjur. Í Ólafsfirði var grátt niður að sjó og haugabrim. Á Vaðlaheiði var kominn nokkur snjór, og alhvítt í uppsveitum Þingeyjarsýslna. Þegar austur á Vopnafjörð kom, var úrkoman minni, en þó hvítt ofan í hlíðar. Á Melrakkasléttu voru allar hæðir gráar en festi ekki á láglendi.
Morgunblaðið segir fréttir úr Fljótsdal 18.september:
Skriðuklaustri 17. september: Í gær gerði hér norðan hlaup með rigningu og krapa og gránaði niður undir bæi í dölunum. Í gærkveldi létti í lofti og s.l. nótt var talsvert frost. Undanfarinn hálfan mánuð hefir verið samfelld veðurblíða og kom aldrei dropi úr lofti. Hey þornuðu oft sama daginn og slegin voru. Flestir eru hér enn við heyskap, en nú líður að fjárleitum. Verður lagt af stað í göngurnar frá 23.-25. sept. Fé hefir haldið sig með besta móti á afréttum í sumar. Kartöfluuppskera verður alls staðar léleg og sums staðar nær engin. J.P.
Tíminn rekur tíð á Ströndum 19.september:
Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík. Frá því sláttur hófst hér í Árneshreppi, sem ekki var almennt fyrr en um mánaðamótin júlí og ágúst, hefir heyskapartíð lengst af verið hin ákjósanlegasta. Framan af var þó þurrklaust, en það, sem náðist þá af túnunum, var látið í vothey, sem verkað er á hverjum bæ, svo að hrakningur varð enginn. Frá 3. til 18. ágúst var einstök veðurblíða og mikill hiti flesta daga, og fór gróðri þá svo vel fram, að engjar urðu yfirleitt sæmilega sprottnar og sums staðar ágætar, þegar kom fram í miðjan mánuðinn. ... Allan fyrri hluta septembermánaðar hefir einnig verið hagstætt til heyskapar, hægur vestanþurrkur og nýting eins góð og verið getur. ... Jafngóð heyskapartíð hefur varla komið síðan 1939 og hefðu tún verið góð væri hér um slóðir mikill og góður heyskapur. Stórviðri með mikilli veðurhæð og snjókomu ofan undir láglendi gengu þó tvívegis yfir í lok ágústmánaðar, en gerðu engan skaða, en aðfaranætur 28. og 29. ágúst eyðilögðust kartöflugrös af frosti víðast hvar.
Tíminn segir 30.september - í lok mánaðar:
Í snjókomunni um og fyrir helgina lokuðust fjallvegir á Austurlandsvegi. Á Möðrudalsöræfum varð talsverð fönn og svo mikil að stór bíll með drif á öllum hjólum sem kom að austan á laugardag ætlaði vart að komast leiðar sinnar, en komst þó við illan leik til Akureyrar.
Október fékk almennt góða dóma. Þó gengu nokkrir umhleypingar og snemma í mánuðinum gerði talsverð illviðri - en þau urðu síðan meinlausari. Fyrsta vikan var nokkuð hráslagaleg, en síðan var lengst af hlýtt. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Októbermánuður var mildur og þurrviðrasamur, indæl hausttíð. Kýr gengu úti til 28., hafði þá um tíma verið gefin hálf heygjöf og dálítill matur. Þetta sparaði mikið hey.
Lambavatn: Það hefir verið fremur hagstæð tíð. Kuldalaust og ekki stórgerð úrkoma. Kúm var víðast beitt að vetri. Nú síðustu dagana hefir verið snjókoma, 28. gerði hér mikinn byl og hvassviðri um nóttina og snjókomu allan daginn 29., var kominn hér svo mikill snjór að erfitt var að reka fé um jörðina. Nú er þíðviðri og snjór óðum að hverfa á sléttu landi.
Kvígindisdalur: Fimmtudaginn 2. gjörði suðvestan rok er snerist svo í norðvestan hvassviðri, og losnuðu bátar í Patreksfjarðarhöfn og lá við skemmdum á þeim. Laugardag 4. og aðfaranótt sunnudags 5. endurtók þetta veður sig af sömu áttum en með mikið meiri ölduróti en áður. Brotnuðu þá og sukku fjórir bátar í höfninni á Patreksfirði og munu þrír þeirra hafa orðið alveg ónýtir.
Sandur: Mild og hagstæð tíð með alauðri jörð í byggð allan mánuðinn.
Reykjahlíð: Mildur október að þessu sinni. Aldrei hefur Mývatn lagt enn og er það óvenjulegt.
Gunnhildargerði: Veðráttan var óvenjuhlý og hagstæð í mánuðinum.
Teigarhorn: Nóttina milli 17. og 18. rigndi það mikið að vegir skemmdust allmikið hér um slóðir.
Sámsstaðir: Þerrisöm tíð. Lítið sólfar en oftast skýjað loft.
Dagana 2. til 7. gerði töluverða illviðrasyrpu samfara tveimur lægðum sem komu vestan yfir Grænland (eins og ekki var óalgengt þetta árið). Tíminn segir af því fyrra 4.október:
Á fimmtudagsnóttina [2. október] og fram eftir degi á fimmtudaginn var vestanrok og úrhellisregn um Vestfirði, og var úrkoman víða svo mikil, að skýfall mátti kalla. Urðu af þessum sökum víða skriðuhlaup. sem lokuðu vegum og sums staðar urðu nokkur landspjöll. Þegar kom fram á fimmtudaginn snerist vindur hins vegar til norðurs og tók að snjóa, og á fimmtudagskvöld var komin norðaustanátt og frost. Í Önundarfirði hlupu miklar skriður úr fjallinu Þorfinni á veginn milli Valþjófsdals og Hjarðardals. Sagði fréttaritari Tímans á Flateyri, að sex skriður blöstu þar við í Hjarðardalshlíð hinum megin fjarðarins, sumar mjög breiðar. Féllu þr á milli klukkan tíu og eitt á fimmtudaginn. Bílflutningar á sláturfé stóðu yfir, er skriðurnar féllu og var ekki búið að flytja nema helming lambanna inn fyrir, er vegurinn lokaðist, en hinn helmingurinn var rekinn yfir skriðurnar þegar um kyrrðist. Fréttaritari blaðsins í Dýrafirði sagði, að á Keldudalsveginn, sem gerður var í sumar, hefðu fallið miklar skriður í Sveinseyrarhlíð. Þar er þegar byrjað að ryðja með jarðýtu, og er búist við, að það verði fjögurra daga verk að gera veginn færan aftur. Víða um Dýrafjörð féllu minni háttar skriður, og á milli Hvamms og Þingeyrar urðu skriðuföll, sem höfðu í för með sér spjöll á engjum. Lausafregnir hafði blaðið einnig af því i gærkveldi, að einhverjar skemmdir hefðu orðið að Brekku í Brekkudal í Dýrafirði. Í Arnarfirði brotnaði trillubátur, sem Gunnlaugur Sigurjónsson í Tjaldansi átti. Lá báturinn við festar fyrir landi en stormurinn bar hann upp í fjöru, þar sem hann mölbrotnaði.
Frá fréttaritara Tímans í Þingvallasveit. Mjög lágt er i Þingvallavatni, svipað og í fyrra eða jafnvel enn lægra, og eru upp úr sker sem venjulega er hægt að róa yfir og svo til aldrei bólar á. Mun ekki fjarri lagi að giska á, að yfirborð vatnsins sé 6070 sentímetrum lægra en það er iðulega á haustin, þegar tíð er votviðrasöm. Má vera að þetta eigi sinn þátt í því, hve veiðin er treg. Þótt allmikið rigndi á dögunum, munaði það engu hvað magnið í vatninu snertir. Til þess að hækka yfirborð vatnsins, svo að nokkru nemi, þarf langvarandi úrkomur, auk þess sem vatnið er lengi að síga af vatnasvæðinu gegnum hraun og jarðveg út í vatnið.
Tíminn segir af sama veðri 5.október:
Frá fréttaritara Tímans á Patreksfirði. Í ofsarigningu af vestri og suðvestri á fimmtudagsnóttina og fimmtudaginn [2.] urðu miklar skemmdir á vegum í nágrennum Patreksfjarðar af skriðuföllum og vatnagangi og hefir verið ófært til Barðastrandar og Patreksfjarðar. Vegurinn til Tálknafjarðar stórskemmdist af vatnsrennsli, sem gróf veginn sundur, og Botnsá í Norðurbotni hljóp úr farvegi sinum og gróf sér nýjan. Var enn illfært milli Bíldudals og Patreksfjarðar í gær, svo að jeppi var þá leið á þriðja tíma, er annars er farin á klukkutíma. Rafnseyrarheiði, milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, varð einnig alófær, og var vegurinn yfir hana sérstaklega illa farinn að norðanverðu. Á Brekkudal féll m.a. skriða í gil er yfir var fjögurra metra brú og fyllti opið undir brúna.
Frá fréttaritara Tímans á Bíldudal. Geysimikil rigning og vestan stormur var hér á fimmtudagsnóttina og daginn og féllu þá skriður víða úr fjöllum. Allstór skriða féll á Dalaveg hér norðan Bíldudals úr svokölluðum Innriskriðum. Tepptist vegurinn alveg, en í gær var búið að gera hann akfæran, en aka varð yfir skriðuna á kafla.
Kortið sýnir háloftaaðdraganda síðara illviðrisins og gildir kl.18 þann 4. október. Snarpt háloftadrag er milli Vestfjarða og Grænlands á leið suðaustur - í kjölfar þess gekk í hvassa norðanátt - sem sjá má á kortinu hér að neðan.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins um hádegi 5.október. Mjög hvöss norðanátt var þá um landið vestanvert - þó lægðin hafi ekki verið sérlega djúp.
Tíminn segir frá 7.október:
Frá fréttaritara Tímans á Patreksfirði. Á sunnudagsnóttina [5.] gerði ofsaveður af norðvestri, og slitnuðu þá upp fjórir bátar í nýju höfninni og sökk einn þeirra en þrjá rak upp.
Miklar skemmdir urðu í Reykjavík á sunnudaginn [5.] af norðanveðrinu, enda var veðurhæð mjög mikil. Mest varð tjón á trillubátum, en ýmsar skemmdir urðu einnig á húsum og mannvirkjum í þessu veðri. Í gærmorgun hringdi Pétur Hoffmann til lögreglunnar og tjáði henni, að trillubátar vestur í Selsvör væru að brotna. Hafði hann.vaknað við brimganginn, og voru þá fjórir bátar brotnir í spón, en hinn fimmti sökk. Velti brimið honum upp, og náðist hann ekki mikið skemmdur. Fjórir bátar voru þá eftir og björguðu Pétur og annar maður tveimur þeirra, en héldu hinum tveimur, uns lögreglan kom á vettvang. Inni í Vatnagörðum rak upp bát, og var fenginn kranabíll til þess að hefja hann upp og forða honum undan brimi. Víða um bæinn tók þakplötur af húsum, og var lögreglan hvað eftir annað kvödd á vettvang, þar sem svo stóð á. Einnig tvístruðust vinnupallar við hús, og í mörgum húsum brotnuðu rúður. Átti lögreglan mjög annríkt af þessum sökum fram eftir degi, og var fenginn vinnuflokkur frá bænum henni til aðstoðar.
Frá fréttaritara Tímans í Stykkishólmi. Klukkan átta á sunnudagsmorgun skall á aftakaveður hér um slóðir. Stórstreymt var og varð mjög flóðhátt, þar sem sjór var áveðra. Trillubátar í Stykkishólmshöfn voru hætt komnir, og þakplötur reif af húsum, þar á meðal 2030 plötur af sjúkrahúsinu, og hefði þar orðið meira tjón, ef veðrinu hefði ekki slotað fljótlega.
Síðan fréttist ekki af veðurtjóni fyrr en í Tímanum þann 22.október. Mjög djúp lægð var alllangt suður í hafi og olli nokkuð stríðum vindi í nokkra daga meðan hún þokaðist austur til Skotlands og grynntist. Önnur lægð kom síðan heldur nær og sneri áttinni meira til norðurs undir mánaðamótin:
Í fyrrakvöld [20.] gerði mikið hvassviðri við Faxaflóa, og varð veðrið í Reykjavík um stund, svo mikið að járnplötur reif af húsþökum á nokkrum stöðum, og ýmislegt, er lauslegt var fauk, einum í nýbyggðum í Kópavogi og við Suðurlandsbraut. Fólk, sem var á ferli utan við bæinn, varð einnig fyrir lítilsháttar hrakningi.
Mjög hvasst varð á Siglufirði (rétt einu sinni). Tíminn segir frá því 25.október - en einnig af jarðskjálftum á Reykjanesi:
Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði. Allhvass austanstormur með úrkomu var hér í fyrrinótt og urðu dálitlar skemmdir af völdum veðurofsans. Í gær hafði veðrið lægt nokkuð, en var þó enn hvasst. Í óverðinu fór ýmislegt lauslegt á kreik og slitnuðu rafmagnslinur að húsum, við við að brak lenti á þeim, var því rafmagnslaust í nokkrum húsum um tíma. Stór hluti járnþaks af húsi Guðmundar Sigurðssonar, Höfn, fauk i óveðrinu og ollu lausar og fjúkandi plöturnar nokkrum skemmdum, fuku t.d á girðingu og brutu hana eitthvað. Nokkuð var einnig um það, að rúður brotnuðu. Þrettán ára gömul telpa dóttir Hjörleifs Magnússonar, bæjarfulltrúa, fékk stein í höfuðið og meiddist lítilsháttar. Mun telpan hafa verið að snúast eitthvað í kringum húsið, er steininn lenti í enni hennar.
Í fyrrinótt laust eftir klukkan eitt varð vart allsnarps jarðskjálftakipps í Grindavík, en ekki þó svo að nokkurt tjón yrði að. Jarðskjálftamælar í Reykjavík sýndu þrjá kippi síðasta sólarhring, og var hinn fyrsti, sá sem fannst í Grindavík, harðastur. Hinir kippirnir hafa komið klukkan rúmlega þrjú í fyrrinótt og klukkan 13:47 í gær. Upptök jarðskjálftans munu vera í nánd við Reykjanes.
Tíminn segir af haustblíðu 26.október:
Í gær var fyrsti vetrardagur. Haustið er á enda, og það hefir reynst drjúgur sumarauki í flestum landshlutum sakir veðurblíðu sinnar síðustu vikurnar, og eru bændur því betur búnir undir veturinn en áhorfðist fyrstu dagana í október. Hin góða hausttíð hefir og verið vel notuð til margvíslegra og nauðsynlegra framkvæmda. Fyrstu dagarnir í október voru kaldir og hretviðrasamir, snjó setti í fjöll, fjallvegir lokuðust í bil, kom jafnvel snjór í byggðir. Veturinn virtist vera að setjast að með fyrra móti og kviðu menn þungum búsifjum. En ekki var langt liðið á mánuðinn er brá til hlýinda á ný, einkum norðanlands. Snjóinn tók upp fjallvegir opnuðust og menn gátu tekið til við ýmis nauðsynleg hauststörf og framkvæmdir. Jarðýtur og skurðgröfur hafa sífellt verið að verki og eru enn. Kúm hefir verið beitt fram undir þetta. ... Veðurstofan telur að þetta sé milt haust og í heild sé þessi októbermánuður hlýrri en venjulega. Hitinn var dögum saman 8-10 stig á Norðurlandi. ...
Tíminn segir af jökulframgangi 28.október:
Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Skriðjökullinn, sem gengur fram úr Mýrdalsjökli norður af Hafursey hefir gengið allmikið fram í sumar og líklega meira en venjulegt er. Þó hefir jökullinn ekki hækkað á þessum slóðum. Hefir skriðjökulinn í sumar gengið fram yfir mæðiveikigirðinguna á ofurlitlum kafla þar sem girðingin var lögð yfir sandinn skammt framan við jökulinn.
Morgunblaðið birti 31.október hugleiðingu um að nú mætti fara að búast við Kötlugosi. Höfundur hennar er Kjartan L. Magnússon í Suður-Hvammi í Mýrdal. Mikið var til Kötlu hugsað og ritað um yfirvofandi Kötlugos næstu árin - og raunar allar götur síðan - en enn lætur hún bíða eftir sér (eða höfum við bara ekki séð gosin?)
Morgunblaðið talar 31.október um erfiðar flugsamgöngur - hvasst var í lofti þessa daga:
Stormasöm tíð undanfarið hefur bitnað á flugsamgöngunum hér innanlands. M.a. hefur ekki verið hægt að fljúga til Vestmannaeyja síðan á laugardaginn. Í gær var send ein vélfluga til Akureyrar, en þangað hafði verið ófært flugveður undanfarna daga. Eins hefur verið ófært veður um Vestfirði og engin flugferð farin þangað síðan um helgi. Flugbátarnir hafa ekki getað flogið til Austfjarða vegna hvassviðris, en í gærdag var flogið til Egilsstaða. Gullfaxi kom í fyrrinótt klukkan 1:30. Flutti hann rúmlega 30 farþega. Meðal þeirra allmarga Dani, sem halda ferðinni áfram til Grænlands strax og veður leyfir.
Tíminn segir fréttir frá Siglufirði 1.nóvember:
Í nokkra daga hefir verið hrakviðri hið mesta í Siglufirði og viðar norðanlands og er talsverður snjór á jörð. ... Í Siglufirði var meir en ökkladjúpur snjór á láglendi og var mikið krap á götum þar í gær.
Nóvember var bæði hlýr, hagstæður og nánast skaðalaus. Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Nóvembermánuður var dásamlega góður. Tvisvar sinnum var jörð hvít af snjóföli og tvisvar flekkótt.
Lambavatn: Það hefir verið mjög hagstætt veður. Sífelld hlýindi og stillur. Allar skepnur ganga úti umhirðulítið nema kýrnar. Heiðlóur og þrestir hafa verið hér fram um miðjan mánuðinn. Jörð alltaf alþíð nema tvo eða þrjá síðustu dag fraus dálítið en varla svo að mýrar héldu manni.
Kvígindisdalur: Þessi mánuður hefir verið óvenju hlýr og mildur, svo er jörð lítið freðin að allan mánuðinn hefir verið unnið að vegagjörð, húsabyggingum (steinsteypu) og jarðrækt með jarðvinnslutækjum. Enn er hvergi farið að hýsa sauðfé og vegir mega allir heita færir bifreiðum.
Sandur: Einmuna gott tíðarfar allan mánuðinn. Alauð og þíð jörð fram um þann 20. Síðan lítilsháttar föl og frost. Sauðfé gekk sjálfala.
Gunnhildargerði: Veðráttan var mjög hlý og hagstæð allan mánuðinn. [10. Í kvöld sáust björt ljós svífa um himingeiminn svo bjart varð allt um kring].
Tíminn fjallar um hina góðu tíð 16.nóvember:
Enn þá er hlýtt úðaregn í Reykjavík, vortíð á haustdegi. Segja má, að sama veðurblíðan sé um allt land, enda hefir þetta haust margt óvenjulegt að bjóða. Ingólfur Davíðsson, grasafræðingur, sem er flestum mönnum athugulli á gróður jarðar, hefir verið að líta í kringum sig hér í Reykjavík og nágrenni undanfarna daga og taka eftir því, hvaða jurtir hann sæi í blóma. Hann lét blaðinu vinsamlegast í té ofurlítið yfirlit um þessar athuganir sinar, og fara þær hér á eftir. Ingólfur segir, að þetta sé óvenjulega seint, sem svo margar jurtir sjáist í blóma. Hann segist ekki minnast hliðstæðu nema eitt sinn þau 16 ár sem hann hefir verið hér í Reykjavik. Haustið er einmuna gott um það er ekki að villast og margir munu andvarpa og segja sem svo: Gott hefði nú verið að fá eitthvað af þessari blíðu á vordögum. Já, vorið var hart, það er ólíku saman að jafna. Sem dæmi um það hversu seint voraði segir Ingólfur að í blómagarðinum að Stóru-Hámundarstöðum við Eyjafjörð tók ekki snjó upp að fullu fyrr en 20.júní og úr brekku við fjárhúsin þar ekki fyrr en 22. júní.
Tíminn heldur áfram 18.nóvember:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Alltaf er sama veðurblíðan hér, hitinn 910 stig þessa dagana. Blóm springa út og mönnum finnst sumarið vera að koma á ný. Við erum að vísu ekkí farnir að slá á þessu nýja sumri, sagði bóndi úr Öngulsstaðahreppi gær, en við látum kýrnar alltaf út á hverjum degi. Það gerum við nú að vísu flesta daga vetrarins, en það er sérstaklega þægilegt og ánægjulegt þessa haustdaga.
Frá fréttaritara Tímans í Grundarfirði. Einmuna hausttíð hefir lengi haldist og eru tún ennþá hvanngræn sem á vordegi.
Tíminn segir enn af haustblíðu 23.nóvember:
Það væri hægt að fara á berjamó uppi við Hreðavatn og tína krækiber í saft, svo mikið er enn af þeim óskemmdum, sagði Vigfús Guðmundsson gestgjafi við blaðamann frá Tímanum í gær svona mild hefir hausttíðin verið í Borgarfirði eins og raunar annars staðar á landinu.
Tíminn segir af góðri tíð í Fljótum í pistli 5.desember:
Frá fréttaritara Tímans i Haganesvík. Fljótin eru ein af snjóþyngstu sveitum landsins og undanfarin ár hafa verið vetrarharðindi í byrjun desembermánaðar. Nú í haust hefir hins vegar verið veðurblíða viku eftir viku, og í gær var logn og hlýindi. Enn er algerlega snjólaust á láglendi, og fönn er ekki nema hátt í fjallahlíðum. Slíkt veðurfar má einstakt kallast í Fljótum. Við sjó gengur sauðfé allt úti sem um sumardag, en inn til dalanna er það hýst um nætur, þótt snjólaust sé, og aðeins hárað á jötur, svo að það sæki að húsunum. Þessi einstaka haustíð hefir líka orðið til þess, að mönnum hefir notast miklu betur tíminn til ýmis konar starfa, svo sem byggingar og annars, er þurft hefir að gera. Eru enn engar horfur á veðurbreytingu. Þessi fádæma haustblíða er raunar um land allt, og er í fjölmörgum byggðarlögum enn unnið að jarðabótum og margs konar framkvæmdum af fullu kappi þótt ekki sé nema á þriðju viku til jóla. Mun aldrei hafa verið slíkt jarðabótahaust sem þetta, og nýtur vélakostur sá, sem nú er fyrir hendi, sín vel í slíkri tíð.
Desember þótti óvenjuhagstæður og vandræðalítill. Nokkuð hríðarkast gerði þó norðanlands fyrir miðjan mánuð en það gekk hjá. Veðurathugunarmenn segja frá:
Lambavatn: Það hefir verið sama blíðviðrið þennan mánuð eins og af er vetrinum. Sífellt góðviðri, dálítið frost um miðjan mánuðinn. Var þá byrjað að hýsa hér fé. En víðast hefir fé gengið sjálfala úti þar til nú um jólin. Jörð er alauð nema rétt grámi á fjöllum og er hér farið um alla fjallvegi á bílum eins og sumardaginn. Ég held að það sé óminnileg tíð það sem af er vetrinum hér því það er alltaf jafnt blíðviðri, kuldalítið og hægvirðri nema dagana um og fyrir jólin var hér norðaustan hvassviðri, en ekki nein aftök og alveg kuldalaust.
Kvígindisdalur: Þessi desembermánuður hefir verið einn hinn allrabesti og mildasti sem menn hér muna. Við lok mánaðarins má jörð heita alauð í byggð og fjallvegir allir hér í grennd færir bifreiðum. Enn er ekki allstaðar farið að hýsa sauðfé og hestar ganga hér víðast hvar úti. Að fráteknu norðaustan hvassviðri 23., 24. og 25., en í því fórst þýskur togari (23.) út af Látrabjargi, má segja að mánuðurinn hafi verið stillu- og staðviðrasamur.
Suðureyri: Sama góðviðrið og var í nóvember stóð til 9. desember. Þá gerði kuldakast er stóð fram um miðjan mánuð og urðu snjóþyngsli töluverð. Síðan sæmileg veðrátta og leysti töluvert á láglendi.
Sandur: Tíðarfar ágætt. Milt, úrfellalítið og snjólétt. Hagar góðir og samgöngur hindranalausar.
Gunnhildargerði: Mánuðurinn var yfirhöfuð snjóléttur, en illviðri um miðbik mánaðarins. [11. Í þessum óveðrum gekk mjög illa að taka sauðfé í hús og fennti einhverjar kindur á flestum bæjum og sumstaðar hefur ekki fé fundist til þessa].
Sámsstaðir: Mild og hlý tíð fram að 11. Úr því varð veðráttan veðrasöm og köld fram að 21. Þá hlýnar aftur og mjög væg frost fram að áramótum. Snjókoma varð engin svo teljandi væri. Tíðarfarið í heild má teljast óvenjugott.
Tíminn segir af hríð í pistlum 12., 13. og 14. desember:
[12.] Nú hefir brugðið til miklu kaldari veðráttu hér á landi, og voru viðbrigðin töluvert snögg. Í fyrrakvöld skall á með norðan stormi og snjókomu um norðurhluta landsins, og í gærkvöldi var allmikil snjókoma þar og spáð svipuðu veðri í nótt og dag.
[13.] Í hríðaráhlaupinu, sem gerði á Norðausturlandi í fyrradag mun hafa fennt eitthvað af fé í uppsveitum Þingeyjarsýslna að minnsta kosti. Fé hafði yfirleitt gengið úti fram undir þetta og náðist ekki allt inn fyrir hríðina. Ekki mun þó nafa fennt fé í stórum stíl, en frá nokkrum bæjum 26 kindur, og hafa þegar nokkrar kindur fundist í fönn en aðrar vantar enn. Svo er þetta til dæmis á sumum bæjum í Bárðardal og syðst í Ljósavatnshreppi. Fé nokkurra bænda í Mývatnssveit gekk að venju á Austurfjöllum og í þann mund, sem hríðin brast á, voru bændur að smala þar og gátu komið meirihluta fjárins ofan í sveit áður en snjóinn setti niður. En þá vantar enn margt fé, líklega nær 200 fjár, en símasambandslaust var við Reykjahlíð í gær og gat blaðið ekki aflað sér nákvæmra upplýsinga um þetta. Meðan veðrið var verst, var mjög hvasst og allmikil snjókoma, en í gær var veður batnandi.
[14.] Frá fréttaritara Tímans í Neskaupstað. Undanfarna þrjá sólarhringa hefir verið svo til stanslaus stórhríð með frosti og hörku á Norðausturlandi. Skall veðrið skyndilega á, og hafa menn staðið í ströngu við að ná fé sínu í hús og vantar víða margt, til dæmis í Norðfirði, þar sem veðrið hefir verið einna harðast. Snemma dags á fimmtudag skall veðrið á með stormi og mikilli snjókomu. Sauðfé var þá alls staðar úti, þar sem ekki hafði verið tekið á gjöf í einmuna haustblíðu undanfarið. Snjólaust var líka upp í eggjar fjalla og umskiptin því sneggri en venja er til, þegar bregður til snjókomu, jafn mikillar og nú. ... Í Neskaupstað hefir hlaðið niður miklum snjó ,svo að ýtur hafa orðið að ryðja götur til þess að umferð stöðvaðist ekki.
Frá fréttaritara Tímans í Hornafirði. Kaldara er nú í veðri hér og hefir snjóað í fjöll, en snjólaust við sjó fram. Vatnsleysi sverfur nú illa að hér í Höfn, því að brunnar allir eru þrotnir, og vatnsleiðslan um kauptúnið er ekki tilbúin. Er búið að leggja aðalleiðslu að mestu og byggja vatnsgeymi, en enn vantar nokkuð á, að bæjarkerfið sé komið í það lag, að hægt sé að taka vatnsveituna til afnota.
Nokkuð hvasst var á landinu rétt fyrir jólin og á aðfangadag. Þann 22. fórst þýskur togari með 20 manna áhöfn út af Látrabjargi. Sama dag fórst prammi á Patreksfirði, mannbjörg varð. og á gamlárskvöld varð ungur maður frá Ísafirði úti á Breiðdalsheiði (Veðráttan).
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1952. Þakka Úrsúlu Sonnenfeld fyrir uppskrift lýsingar veðurathugunarmanna í Síðumúla og Kvígindisdal. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu. Þar má finna sitthvað sem ekki er minnst á í textanum hér að ofan.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.11.): 6
- Sl. sólarhring: 395
- Sl. viku: 1432
- Frá upphafi: 2407437
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 1278
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.