28.9.2022 | 14:18
Hugsað til ársins 1953
Árið 1953 var talið hagstætt og hlýtt. Úrkoma var talsvert yfir meðallagi. Janúar var sérlega hagstæður og það var óvenju snjólétt. Gæftir voru góðar og vorblóm sprungu út í görðum. Febrúar var umhleypingasamur, en áfram var snjólétt og samgöngur greiðar, gæftir góðar fyrri hlutann, en síðri síðari hlutann. Mars var úrkomusamur og gróður lifnaði. Aurbleyta var mikil á vegum. Síðustu viku mánaðarins gerði hins vegar óvenjuhart hret með samgöngutruflunum, miklu fannfergi og snjóflóðum. Gæftir voru tregar. Apríl var sérlega óhagstæður, snjór var mikill og samgöngur erfiðar. Gróður kulnaði aftur. Apríl var víða kaldasti mánuður ársins og vetrarins. Er þetta í eina skiptið sem apríl er kaldasti mánuður ársins. Hagstæð og þurrviðrasöm tíð var í maí og tók gróður aftur við sér. Júní þótti sérlega hagstæður og hlýr, sömuleiðis júlí. Spretta með afbrigðum góð. Ágúst var einnig hagstæður, en þurrkar þó daufir austanlands. Hin hagstæða tíð hélt áfram í september, en október þótti umhleypingasamur og tíð fremur óhagstæð. Nóvember var umhleypinga- og illviðrasamur. Mikil úrkoma. Í desember var sérlega umhleypinga- og illviðrasamt, en mjög hlýtt var í veðri, einkum austanlands. Úrkoma vel yfir meðallagi.
Árið 1953 er fyrir minni ritstjóra hungurdiska, hann var rétt að læra að tala. Tveir veðurtengdir atburðir ársins voru alloft nefndir meðal manna, mörgum árum síðar. Annars vegar svonefnt Edduslys á Grundarfirði en hins vegar fok barnaskólahússins í Hnífsdal. Er þeirra beggja getið hér að neðan, þar sem farið verður lauslega yfir helstu veðuratburði ársins. Notast er við fréttir dagblaða (timarit.is), Veðráttuna og önnur gögn Veðurstofu Íslands. Fréttapistlar eru oft styttir og stafsetning oftast færð til nútímahorfs, vonandi með samþykki höfundarréttarhafa. Textahöfundum öllum er þakkað þótt nafna sé sjaldnast getið. Í viðhengi má finna fjölda tölulegra upplýsinga (meðalhita, úrkomumagn, met og samanburð af ýmsu tagi, flest úr gagnagrunnum Veðurstofunnar og hungurdiska).
Lítið var um fréttir af veðri í janúar, nema að hin góða tíð var lofsungin. Þess er getið þann 25. að aurskriður hafi stöðvað umferð í Hvalfirði. Tíminn hrósar tíðinni í pistli þann 8.janúar:
Vetrartíðin er svo frábær, að enn vinna skurðgröfur hindrunarlítið að skurðagerð og jarðabótum á nokkrum stöðum í landinu, því að frost er sáralítið i jörðu ... Á sama tíma og skurðgröfurnar eru hér við vinnu eins og á sumardegi berast þær fréttir erlendis frá, að allt sé snævi þakið suður um miðja Evrópu og jafnvel allt til Miðjarðarhafs og fyrir skemmstu var England alhvítt frá nyrstu tá og til syðsta odda. Hér norður undir heimskautsbaug hefir lengst af verið svo til alautt i vetur víðast hvar. Um flesta fjallvegi hafa bifreiðar ekið viðstöðulaust rétt eins og um hásumar, og ennþá hefir enginn snjór sést á Suðurlandi, nema lítils háttar tilsýndar í háfjöllum. Þótt norðan lands og austan hafi komið hret og dálítil kuldaköst, hefir það aðeins varað skamma hríð.
Heldur kólnaði stutta stund seint í mánuðinum og getur Tíminn um þæfingsfærð í pistli þann 28.:
Torfæri af snjó á vegum í fyrsta skipti í ár. Þæfingsfærð er nú komin á vegum sums staðar suðvestanlands, þótt snjór sé enn lítill. Hefir snjóinn dregið saman í smáskafla, þar sem vindur hefir náð sér. Er þetta í fyrsta skipti á vetrinum, að snjór helst degi lengur, og nú eru horfur á éljagangi áfram.
Rétt um mánaðamótin gekk fádæma mikið skaðaveður um Norðursjó. Gríðarlegt manntjón varð af völdum sjávarflóða í Hollandi og Bretlandi. Oft var um þetta veður rætt í æsku minni - og minnisstæðar yfirprentanir frímerkja sem seld voru á yfirverði i landssöfnun vegna hamfaranna. Tíminn segir frá þessu þann 3.febrúar (fréttin er miklu lengri):
Skæðasta fárviðri og flóð í Vestur-Evrópu um aldir. Á fimmta hundrað farast í Hollandi og sjöttungur landsins er undir sjó. Um Um 300 lík fundin í Austur-Englandi og mörg hundruð manna saknað. 100 lík fundin á eyju í Thamesármynni.
Þann 8. var djúp lægð á Grænlandshafi sem olli mikilli sunnanátt og rigningu. Henni fylgdu skörp skil og snjóaði mikið á Austurlandi í kjölfar þeirra.
Tíminn segir frá þann 10.febrúar:
Fréttaskeyti frá Reyðarfirði. Á sunnudaginn [8.febrúar] gerði hér austan rok með hellirigningu, er hélst fram eftir degi. Alauð jörð hafði verið, en snjóhrafl til fjalla. Á sunnudagskvöldið kólnaði og tók að snjóa og kyrra, en lítið frost var. Snjóaði svo mikið í fyrrinótt, að í gærmorgun var kominn 40 sentímetra jafnfallinn snjór. Snjórinn hlóðst mjög á rafmagns- og símalínur, og hafa þær slitnað allvíða vegna snjóþungans.
Í austurhluta Vestur-Skaftafellssýslu gerði stórrigningu um helgina og mældist úrkoma á Kirkjubæjarklaustri um 60 mm á einni nóttu. Í vatnsveðri þessu hljóp mikill vöxtur í allar ár svo að þær flóðu yfir bakka. Í vatnavöxtum þessum skekktist og seig brúin yfir Tungufljót í Skaftártungu, svo að hún er nú ófær öllum farartækjum, en þó manngeng. Fljótið ruddi sig í vextinum og hlóð jakaburði að undirstöðum brúarinnar, svo að þær létu undan. Seig brúin um hálft annað fet annars vegar.
Enn voru fréttir af úrkomu. Tíminn segir frá:
[17.] Mikil rigning hefir verið austan fjalls og vatnavextir, svo að ár hafa sums staðar hlaupíð úr farvegum sínum, þar sem jakastíflur hafa myndast og flætt yfir flatlendi. Skemmdir hafa þó ekki orðið af þessum sökum.
[18.] Frá fréttaritara Tímans á Kirkjubæjarklaustri. Í stórrigningu, sem hér gekk yfir um síðustu helgi [sunnudagur 15.], hljóp mikill vöxtur í ár og læki, Skaftá flóði yfir bakka, og var mikill vatnselgur á söndunum. Í vatnavöxtum þessum skemmdust stíflur við tvær heimilisrafstöðvar á bæjunum Seglbúðum og Skaftárdal. Stíflur þessar eru úr torfi og grjóti, og urðu á þeim mikil spjöll.
Allmikið illviðri gerði þann 23. febrúar. Þá lenti fjöldi báta í hrakningum, fimm menn drukknuðu af bát við Vestmannaeyjar þegar brast á með suðaustanroki.
Tíminn birti þann 24.febrúar fregnir af slysi á Snæfellsnesi og hrakningum í kjölfar þess:
Það ætlaði ekki að ganga fyrirhafnarlaust að koma særðu fólki vestan af Snæfellsnesi í sjúkrahús á Akranesi í gær. Fólk þetta hafði meiðst í bílslysi á sunnudagskvöldið. En á leiðinni á sjúkrahúsið lenti það í öðru bílslysi. Nánari atvik eru þau, að á sunnudagskvöldið varð bílslys í Kolbeinsstaðahreppi. Flutningabíll frá Tröð fór út af veginum, og þríbrotnaði á handlegg pilturinn, sem ók bílnum, Rögnvaldur Guðbrandsson, og Guðrún Guðjónsdóttir Mýrdal, húsfreyja að Mýrdal í Kolbeinsstaðahreppi handleggsbrotnaði líka, þegar bíllinn valt út af veginum. Var hún í framsæti hjá bílstjóra. Maður hennar, Gísli, stóð á palli, og sakaði hann ekki í byltunni. Aðstoðarlæknir héraðslæknisins í Borgarnesi fór á slysstaðinn og gerði að beinbrotunum, en í gærmorgun var svo lagt af stað með sjúklingana til frekari aðgerða í sjúkrahúsinu á Akranesi. Var lagt af stað í sterkum, yfirbyggðum herbíl að vestan. Veður var hið versta og hvassviðri mikið. Þegar komið var fyrir Hafnarfjall, skipti það engum togum, að vindhviða svipti bílnum út af veginum og hvolfdi honum neðan við vegkantinn. Aksturinn var þó hægur og gætilegur, en hálka var. Bílstjórinn, sem er ungur maður og hraustur, þurfti á karlmennsku sinni að halda til að brjótast á móti fárviðrinu heim að bænum Höfn í Melasveit, sem er næsti bær við slysstaðinn. Var símað til Akraness, en bílar fengust þar ekki til að koma á slysstaðinn, þar sem ekki var talið ökufært í fárviðrinu.
En einnig voru áframhaldandi fréttir af hagstæðri tíð. Tíminn segir frá 25.febrúar:
Benedikt H. Líndal, bóndi á Efra-Núpi í Miðfirði, skýrði blaðinu frá því í gær, að á mörgum bæjum þar fram til dalanna nyrðra, væri ekki farið að gefa fullorðnu fé nokkra tuggu af heyi, enda þótt komið sé fram á góu. Benedikt sagði, að slíks væru engin dæmi í Miðfirði á sinni tíð né í minni þeirra manna, sem þar eru nú uppi.
Snarpt sunnanveður gekk yfir landið þann 27.febrúar. Þá fauk barnaskólahúsið á Hnífsdal. Tíminn segir frá daginn eftir, 28.febrúar, einnig segir af flóði í Reykjavík:
Um klukkan ellefu í gærmorgun fauk barnaskólahúsið í Hnífsdal af grunni og gjöreyðilagðist. Þrjátíu og sex börn voru stödd í húsinu, er það fauk, ásamt báðum kennurum skólans, Kristjáni Jónssyni, skólastjóra, og Jónínu Jónsdóttur, kennslukonu. Um klukkan níu um morguninn skall á sunnan hvassviðri, hélst síðan mjög hvöss sunnanátt fram eftir morgninum, þar til um klukkan ellefu, að hvirfilvindur reið skyndilega á suðurstafn skólahússins. Skipti þá engum togum, að allar rúður brotnuðu á suðurgafli og húsið lyftist af grunni. Barst brakið út um allt þorp, braut rúður í húsum og olli töluverðum öðrum skemmdum. Er skólahúsið svo gereyðilagt, að annað stendur ekki eftir af því en grunnurinn og gólfið og nýlega byggt anddyri, en sjálf byggingin er ekki annað en spýtnabrak á víð og dreif.
Kennt er í tveimur deildum í skólanum og varð það til láns, að öll börnin voru í kennslustund. Var enginn á ferli í göngum skólans þegar hvirfilvindurinn reið á húsin, því annars má ætla, að þarna hefði orðið um alvarlegri slys raun varð á. Er húsið fauk, féll reykháfurinn inn í gang skólans. Ef einhver hefði verið á ganginum, þegar reykháfurinn hrundi, hefði sá hinn sami tæplega sloppið lífs. Er því, eins og áður er sagt hrein mildi, að svo hittist á, að kennslustund stóð yfir og börnin voru ekki á ferli. Samt sem áður meiddust fjögur börn og skólastjórinn slasaðist alvarlega, fékk slæman heilahristing. Fréttaritar i Tímans á Ísafirði hafði tal af fólki í Hnífsdal sem var sjónarvottar að því, er skólinn fauk. Staðhæfðu sjónarvottar, að skólinn hefði. lyfst af grunninum, er hann fauk. Er hægt áð ímynda sér, hvað hvirfilvindurinn hefir verið snarpur, þegar þess er gætt, að húsið er um hundrað og sextíu fermetrar að stærð. Þeir, sem voru staddir í skólanum, þegar reiðarslagið dundi yfir, sögðust litla grein geta í gert sér fyrir því, hvernig þetta hefði borið að höndum. Rúðurnar í suðurgaflinum hefðu brotnað og síðan hefði allt verið um garð gengið á örskammri stundu. Brakið úr skólanum lenti á öðrum húsum og braut í þeim rúður og skemmdi þau. Annar gafl skólahússins og hluti af þakinu lenti á húsi Sigurðar Elíassonar, og fór brakið inn úr þakinu á húsi hans og braut mikið af rúðum.
Í gærmorgun var mikil úrkoma og slagveður hér í Reykjavík og olli það skyndilegu flóði í lækjum í úthverfum bæjarins og einnig safnaðist mikið vatn á þau nýbyggðasvæði, þar sem enn hefir ekki verið gengið frá niðurföllum við göturnar. Umhádegið í gær voru menn, sem eru að byggja vestan Grensásvegar í Smáíbúðahverfinu í óðaönn að veita vatni frá opnum húsgrunnum. Hefðu margir grunnar fyllst á svipstundu, hefði ekki verið höfð gát á vatninu og því veitt i burtu. Var þó þarna heldur óhægt um vik, því mikill vatnsflaumur var niður með Grensásveginum. Austast í bæjarhúsahverfinu við Bústaðaveg var ástandið þó enn alvarlegra. Mikið vatn safnaðist í kringum austustu húsin, sem standa niðri í dálítilli lægð, en þarna er ekki um nein niðurföll að ræða og ekki hefir verið gengið frá lóðum í kringum húsin. Urðu brögð að því, að olíugeymar flutu upp, eða þá að vatnið gróf undan þeim og þeir stungust á endann niður í vatnið.
Þann 4. gerði allmikið þrumuveður á Suðurlandi og varð nokkuð tjón. Morgunblaðið og Tíminn segja frá 5. mars:
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi. Fólk á Selfossi og í ýmsum sveitum í Árnessýslu vaknaði af værum blundi rúmlega sex í gærmorgun við ógurlegt haglél, sem gekk yfir, ásamt þrumum og eldingum. Munu þrumurnar, sem yfir gengu, hafa verið 68, og voru þær svo miklar, að hús nötruðu víða. Stóð þetta yfir í hálftíma.
Morgunblaðið 5.mars:
Selfossi, 4. mars: Hér austan fjalls varð vart við óvenjulega miklar þrumur og eldingar um sexleytið í morgun. Kvað svo mikið að þeim, að menn vöknuðu almennt hér á Selfossi við skruðningana. Að Stóru-Reykjum í Hraungerðishreppi sló eldingu niður í skorstein íbúðarhússins. Tættist hann allur sundur, það sem upp úr þakinu stóð og gat kom á hann neðst í miðstöðvarklefa í kjallara hússins. Í öðrum herbergjum komu sums staðar sprungur. Á þeim bæjum, þar sem rafmagn er komið frá Soginu, sprungu öryggi, en skemmdir urðu ekki aðrar. Þá er vitað um að fjórir símastaurar brotnuðu við Ásgarð í Grímsnesi, og er eldingunum kennt um. Hér var um allmargar eldingar að ræða, en það var aðeins ein þeirra, sem sló niður svo að tjón varð af.
Þann 8. mars tók þök af þremur hlöðum í Fljótsdal (2 á Arnaldsstöðum og einni í Glúmsstaðaseli). Kringum þann 12. og svo aftur eftir 20. urðu allmikil flóð, bæði í Borgarfirði og á Suðurlandi. Á þessum tíma voru blöðin full af fregnum af andláti Stalíns.
Tíminn segir frá 13.mars:
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Í fyrradag og gær uxu borgfirsku árnar, Norðurá og Hvítá mjög og flóðu yfir bakka og vegina á allmörgum stöðum, svo að sums staðar var ófært en annars staðar djúpur vaðall fyrir bíla. Í gærmorgun sjatnaði vatnið nokkuð, en síðdegis í gær, þegar rigning hafði aftur aukist, uxu flóðin að nýju. Teljandi skemmdir munu ekki hafa orðið.
Morgunblaðið sama dag, 13.mars - og segir einnig frá einmunatíð fyrir norðan:
Selfossi, 12. mars. Í hinum látlausu rigningum undanfarna daga hefur vöxtur stöðugt verið að færast í Ölfusá. Í dag var vatnsborð hennar orðið um 250 sentímetrum hærra en það er undir venjulegum kringumstæðum.
Siglufirði, 12. mars. Einmunatíð hefur verið hér undanfarið, og hefur nú allan snjó úr plássinu tekið upp. Eru götur bæjarins alauðar eins og að sumri til, og er slíkt óvanalegt á þessum tíma árs. En þrátt fyrir góða tíð í landi, eru gæftir til sjávarins mjög stirðar, og þá sjaldan gefur á sjó er afli afar tregur. Guðjón.
Trjárunnar eru byrjaðir að springa út í görðum suður í Hafnarfirði, en þar hafa stjúpmæður verið að springa út í hinum skjólgóðu görðum, í allan vetur. Fyrir nokkru tóku menn eftir því bæði hér í Reykjavík og eins í skógræktarstöðinni í Fossvogi og í Hafnarfirði, að margs konar runnatré voru farin að lifna við. En um útsprungna brumhnappa hefur ekki frést um fyrr en í gær. í garði Hermanns Guðmundssonar, fyrrverandi formanns verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði, voru ripstrén tekin að laufgast í gærmorgun. Skógræktarmaður sem Morgunblaðið átti tal við í gær um veðurlagið, sagði að runntré væru alltaf fljótari til en önnur tré. Hafi runnatré sem notuð eru í limgerði lifnað i janúar síðastliðnum Hann kvað hina miklu tíð sannarlega vera ískyggilega. Margir óttuðust að þetta kynni ekki góðri lukku að stýra.
Næstu daga voru fleiri fréttir af flóðum. Þau urðu þó ekki jafnmikil og 1948.
Tíminn segir frá 14.mars:
Í allan gærdag var enn að hækka í Ölfusá, og var yfirborð árinnar orðið í gærkvöldi þremur metrum hærra en venjulega. Var þá farið að renna inn í kjallara nokkurra húsa upp úr skolpræsum. ... Við Ölfusárbrú rennur áin upp á bakka sína og á milli brúarstöplanna, sem eru á landi og á kafla rennur hún upp á veg sem þar er ármegin við túnin.
Tíminn 21.mars:
Sigurjóni Rist hefir nú borist mæling Karls Jónssonar í Gýgjarhólskoti á hækkun vatnsborðs Hvítár í þrengslunum hjá Brúarhlöðum í vatnavöxtunum á dögunum. Reyndist það hafa hækkað um níu metra frá venjulegri hæð, en tíu metra frá því sem það verður lægst. Í flóðunum 1948 hækkaði vatnsborðið um 12 metra frá venjulegri hæð, en 13 metra frá því, sem það verður lægst.
Tíminn 22.mars:
Frá fréttaritara Tímans á Húsavík. Veðurblíða er hér einmuna mikil, og snjólaust á láglendi og mjög lítill snjór á heiðum. Sem dæmi um það má nefna, að bíll fór yfir Reykjaheiði í gær, en sú heiði er mjög snjóþung, oftast ófær níu mánuði ársins og aðeins ruddir troðningar yfir hana.
Tíminn 24.mars:
Eftir stórrigningu á föstudaginn og laugardag kom mikið flóð í ár í Rangárvallasýslu á laugardaginn [21.mars], einkum Markarfljót og Þverá. Var Þykkvibær einangraður á laugardaginn og flaumurinn gróf þrjú mikil skörð í veginn. Markarfljót braut hvergi garða, en á því var nokkur hætta.
Aurbleyta var nú farin að hamla samgöngum. Tíminn segir frá 27.mars:
Undanfarna daga hafa vegir verið mjög illfærir [vegna aurbleytu] og víða ófærir á Suðurlandsundirlendinu og hefir það tafið mjólkurflutninga. Í gær voru vegirnir þó vel færir vegna frostanna. Skemmdir eru víða allmiklar á vegum eftir hina hlýju og vætusömu tíð. Hafa þeir grafist mjög og myndast í þá slörk og pyttir. Vegurinn í Biskupstungum frá Tungufljótsbrú að Bræðratunguhverfi var ófær með öllu fyrir tveim eða þrem dögum, og varð að fá kranabíl til að hjálpa mjólkurbílum, sem þar festust. Í Hrunamannahreppi var vegurinn ófær frá Túnsbergi og upp úr, og varð að hjálpa bílum þar. Landsveitarvegur var víðast illfær eða ófær. Hafa mjólkurflutningar torveldast og tafist af þessum sökum. Eftir tveggja daga frost voru vegirnir orðnir vel færir alls staðar í gær, en nú eru hins vegar líkur til, að aftur bregði til þíðu og rigningar, og sækir þá í fyrra horf, að vegirnir verða ófærir, og getur það tafið eða teppt mjólkurflutninganna mjög úr sumum sveitum.
Morgunblaðið segir 27.mars frá vatnavöxtum í Borgarfirði:
Allmiklir vatnavextir urðu í Borgarfirði s.l. þriðjudag og miðvikudag [25.], en flóðin hafa nú sjatnað aftur. Nokkur brögð urðu að því, að vatn flæddi inn í kjallara húsa og einnig í hlöður og peningshús. Var vatninu dælt þaðan með dælum, eftir því, sem við var komið. Á meðan á mestu flóðunum stóð urðu vegir víða illfærir og skemmdust nokkuð.
Þann 24. breytti algjörlega um veðurfar. Þá tókust á yfir landinu hlý, suðlæg átt með rigningu á Suðurlandi og jökulköld norðaustanátt fyrir norðan. Norðaustanáttin náði smám saman undirtökunum og næstu daga gerði mikið hríðarveður um meginhluta landsins, mest þó á Vestfjörðum og Norðurlandi. Samgöngur fóru úr skorðum og snjóflóð féllu ótrúlega víða, að lokum með manntjóni. Veðrið kom í nokkrum hrinum. Fyrir nokkrum árum fjölluðu hungurdiskar um síðastu hrinuna, þá sem gekk yfir rétt eftir mánaðamótin, bænadagana (skírdag og föstudaginn langa, 2. og 3. apríl) - eðli hennar og afleiðingar. Sömuleiðis var þar lítillega fjallað um upphaf kastsins. Verður það efni ekki endurtekið hér - aðeins vísað á það.
Veðrið um hádegi þriðjudaginn 24.mars, fyrsta dag einmánaðar. Mígandi rigning og hlýviðri er á Suðurlandi, hiti 9,4 stig á Kirkjubæjarklaustri, en norðaustanátt norðanlands, hvöss á Vestfjörðum og þar má sjá -7,4 stiga frost á Hornbjargsvita. Í Reykjavík er hvöss sunnanátt, rigning og súld og 8 stiga hiti. Í Borgarfirði er hiti um frostmark og snjókoma. Skilin þokuðust löturhægt til suðurs og suðausturs.
Kort amerísku endurgreiningarinnar sýnir stöðuna, skarpt lægðardrag er yfir Íslandi, hægt dýpkandi lægð við Suðvesturland, á austur- og norðausturleið. Mikil hæð yfir Bretlandi og önnur yfir Grænlandi. Leið sunnanáttarinnar vestan hæðarinnar er um það bil að lokast - norðaustanáttin að ná undirtökunum.
Kort sem sýnir stöðuna í 500 hPa á sama tíma. Það er suðvestanátt í háloftunum, líka yfir norðaustanáttinni á Vestfjörðum, en kuldapollurinn norðvesturundan sækir á.
Sólarhring síðar voru skilin enn yfir landinu, enn var 5 stiga hiti í Öræfum, en kominn norðanstormur og -4 stiga frost í Reykjavík, blindhríð er í Borgarfirði og vestur á Fjörðum er -10 stiga frost. Næstu daga versnaði veður og náði (fyrra) hámarki laugardaginn 28. Þá var þrýstimunur yfir landið um 30 hPa. Veðrið náði svo öðru hámarki 2. og 3. apríl. Um það var fjallað í sérstökum pistli (tengill hér að ofan).
En lítum á helstu fréttir af þessu mikla hreti: Byrjum á Tímanum sunnudaginn 29. mars (pálmasunnudag):
Frá fréttaritara Tímans í Ísafirði. Í fyrrinótt og gær geisaði um Vestfirði mesta stórhríð vetrarins með feiknamikilli fannkomu, svo að öll umferð um Ísafjarðarkaupstað og nágrenni hans tepptist. Í gær var bílstjóri, einn í stórum áætlunarbíl á leið Krýsuvíkurveg austur í Árnessýslu. Afspyrnurok var og er bifreiðin kom austur undir Geitahlíð, skall ofsahörð vindkviða á hann flatan og feykti honum út af veginum.
Morgunblaðið segir frá sama dag (29. mars):
Fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri símaði blaðinu í gær, að nær allar götur þar í bænum væru orðnar alófærar bílum. Þar hefur verið sleitulaus stórhríð frá því í fyrrakvöld. Síðasta sólarhring hefur snjóað þar 42 millimetra, í jafnföllnum snjó væri snjódýptin 42 sentímetrar. Á Akureyri var samkomum frestað í gær og rafmagnstruflanir voru tíðar, vegna veðurs. Norðurleiðavagnar eru tepptir á Blönduósi og Sauðárkróki. Frá Akureyri verður snjóbíll sendur til móts við vagnana þegar veðrinu slotar. Búist er við að vegir á Norðurlandi séu yfirleitt orðnir ófærir.
Snjóflóð sópar verkfærahúsi burt. Ísafirði 28. mars: Í nótt féll snjóflóð úr hliðinni fyrir ofan bæinn Kirkjuból í Skutulsfirði. Sópaði flóðið burtu áhaldahúsinu þar við bæinn, en íbúðarhúsið sakaði ekki, en áhaldahúsið stendur aðeins fáa metra frá því. Flóðið sópaði áhaldahúsinu niður fyrir veginn, ásamt öllum áhöldum og verkfærum búsins. Einnig tók flóðið með sér mjólkursleða og annað lauslegt, sem var á hlaðinu.
Í gær komst veðurhæðin upp í 11 vindstig hér í Reykjavík. Ekki var kunnugt um neitt verulegt tjón af völdum veðurofsans, en þakplötur munu hafa losnað á húsum. Mikið særok var í Miðbænum frá höfninni. Esja sem kom úr strandferð, komst inn á höfnina síðdegis, eftir að hafa andæft fyrir utan alllanga stund.
Tíminn heldur áfram 31.mars:
Í gærkvöldi komu tuttugu kaldir og þreyttir langferðamenn til Akureyrar, sem verið höfðu nær því heila viku á leiðinni með áætlunarbíl frá Reykjavík til Akureyrar. Hafði margt á dagana drifið hjá þessum ferðalöngum, sem farnir voru að líta á áætlunarbílinn sem sitt annað heimili. Við lögðum af stað með Norðurleiðabílnum frá Rvík á þriðjudagsmorguninn [24.mars]. Ferðin hófst í öskurigningu og aurbleytu á vegum. Þegar komið var upp að Hvítá í Borgarfirði, urðu fyrstu farartálmarnir á vegi okkar, því að þar var allt eins og hafsjór yfir að sjá. Með gætni og lagni tókst þó að aka veginn yfir flóðin og komast upp að Fornahvammi. En þar var byrjað að hríða. Var síðan lagt á Holtavörðuheiði, en veðrið versnaði eftir því sem lengra var haldið, og þegar komið var upp á miðja heiði var kominn svartur bylur og mikil fannkoma og ekki talið viðlit að halda ferðinni áfram. Var nú tekinn sá kosturinn að snúa við og halda aftur ofan að Fornahvammi. Var komið þangað seint um kvöldið og tekin gisting. Allan næsta dag hélst vonskuveður og ekki talið viðlit að halda ferðinni áfram. En á fimmtudagsmorgun [26.] hafði rofað svo til, að lagt var upp að nýju. Talsverður snjór var yfir allt þar efra, en einnig fokið í skafla. Páll í Fornahvammi fór á gamla snjóbílnum, sem dugað hefir lengi og vel, og tók í hann konur, börn og gamalmenni og ók á undan áætlunarbílnum. Flutti hann sína farþega ofan í Hrútafjörð, þar sem þeir fengu húsaskjól í símstöðvarhúsinu nýja. Öllu erfiðara gekk að koma áætlunarbílnum yfir heiðina, og þurftu menn að moka bílnum slóð í gegnum marga skafla. Hjálpuðust allir þar að og gerði hver það sem hann gat. Tók það okkur fimm klukkutíma að komast yfir heiðina. Verkfæri voru ekki önnur en handskóflur og sóttist verkið því heldur seint í stærstu sköflunum. Bílar bættust öðru hvoru í lestina á fjallinu, og voru þeir síðast orðnir átta talsins, þegar búið var að moka
Símabilanir hafa orðið víða um land af völdum snjóflóða, einkum í fjalllendinu milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Skammt frá Bakkaseli í Öxnadal féll snjóflóð á símalínuna og braut nokkra staura. Á Heljardalsheiði milli Svarfaðardals og Kolbeinsdals rauf einnig snjóflóð símalínu og þriðja snjóflóðið féll á símalínu milli Svarfaðardals og Ólafsfjarðar við Grímubrekkur upp frá Upsadal. Enn mun snjóflóð hafa fallið. á símalínuna í Kollafirði í Barðastrandarsýslu.
Morgunblaðið sama dag, 31.mars:
Ísafirði 30. mars, Þegar skíðamenn héðan úr bænum komu fram á Seljalandsdal, blasti við þeim ömurleg sjón. Skíðaskálinn var í rústum. Snjóflóð hafði skollið á skálann. Tvö ystu herbergi hans stóðu uppi, en meginhluti skálans sópast burtu og brotnað í spón. Skálinn var gott hús, 18 sinnum 10 að flatarmáli. Snjóskriðan hefur fallið úr fjallshlíðinni fyrir ofan skálann, og hefur flóðið verið milli 200300 m á breidd. Ytri jaðar flóðsins hefur komið á skíðaskálann. Sennilegt þykir að snjóflóðið hafi hlaupið fram úr fjallinu niður í dalinn um kl. 9 á laugardagskvöldið [28.]. Þá heyrðust miklar drunur út að Grænagarði og þykir sennilegt, að þær drunur hafi komið frá snjóflóðinu. Ekki er vitað að snjóflóð hafi áður hlaupið á þessum slóðum og virðist hafa verið mjög mikill kraftur á því, þar sem það fyllir fyrst hvolf, sem er fyrir ofan skálabygginguna og rennur síðan fram um 200 metra leið eftir sléttu landi. Skíðaskálinn var byggður 1939 og síðan hefur tvívegis verið byggt við hann. Skíðaskóli var jafnan starfræktur í skálanum og tók hann til starfa veturinn 1943, eða fyrir 10 árum. Og er þetta í fyrsta sinn, sem skólinn starfar þar ekki. Hrein tilviljun var, að fjöldi manns skyldi ekki vera í skálanum, svo sem jafnan um þetta leyti árs. Og þetta var fyrsta helgin frá því á áramótum, sem næturgestir voru ekki i skálanum. Skíðafélag Ísafjarðar, sem átti skálann, hefir orðið fyrir mjög miklu og tilfinnanlegu tjóni, þar sem skáli af svipaðri gerð, yrði varla byggður nú fyrir minna fé en 23 hundruð þúsund krónur.
Seyðisfirði 30. mars: Stórhríð hefur verið hér undanfarna þrjá daga. Hefur kyngt hér niður miklum snjó og erfiðleikum hefur verið bundið að halda rafstöðinni í gangi vegna mikilla og óvenjulegra krapastíflu í ánni. Tjón hefur annars ekki orðið mikið af völdum óveðursins, en vélbát á Hánefsstaðaeyrum sleit upp og rak á land. Báturinn er þó sagður eigi mikið skemmdur.
Húsavík 30. mars. Hinni einmuna veðurblíðu, sem verið hefur hér í vetur, lauk síðastliðinn fimmtudag. Byrjaði þá að hríða, og þegar komið var fram á föstudag var komin stórhríð með mikilli fannkomu. Stóð veðurofsinn allan laugardag, en á sunnudaginn fór heldur að draga úr veðurofsanum. Og í dag hefur verið lítil hríð, þó hafa verið allsnörp él öðru hverju Hér eru nú komnir miklir skaflar, sem ekki hafa áður sést í vetur. Eru þeir sumstaðar allt að hálfri annarri mannhæð. Sem dæmi um veðurofsann má geta þess, að héraðslæknirinn, Þorgeir Björnsson, var um tvær klukkustundir að brjótast tæpa kílómetersleið. en hann hafði farið í lækniserindum út á Tjörnes.
Tíminn segir þann 8.apríl (miðvikudag eftir páska) frá mannskaðasnjóflóði í Svarfaðardal - og síðan af fleiri flóðum (hér er textinn almikið styttur):
Frá fréttaritara Tímans á Dalvík. Á föstudaginn langa gerðist sá atburður í Svarfaðardal, að geysimikið snjóflóð féll á bæinn Auðnir og braut hann. Fórust í snjóflóðinu Ágúst Jónsson bóndi, aldraður maður, og Rannveig Valdimarsdóttir, unnusta sonar Ágústs, frá Teigi í Vopnafirði. En upp úr fannbeðjunni náðust lifandi Snjólaug Flóventsdóttir, kona Ágústs heitins, og Jón sonur þeirra, sem var nýtekinn við búi að Auðnum. Auðnir eru innarlega í Svarfaðardal og stóð bærinn undir löngum, aflíðandi brekkum niður undan skarði því, sem verður milli Hreiðarsstaðarfjalls og Sýlingarhnjúks. Hefir ekki fallið þar snjófljóð í mannaminnum og ekki talin á því nein hætta. Að Auðnum var timburhús, en viðbygging úr holsteini, og stóð bærinn á ofurlitlum hóli, en að baki bænum, milli hans og fjallsins, voru fjárhús. Lenti flóðið, sem talið er yfir hundrað metra breitt og féll í mörgum hlykkjum langt ofan úr fjalli, fyrst á fjárhúsin og molaði þau og lagði síðan bæinn í rúst, en stöðvaðist skammt neðan við hann. Áður en snjóflóðið féll, hafði verið hríðarveður af og til í tíu dægur, en fram að því var jörð auð. Frásögn Klemensar Vilhjálmssonar, bóndi í Brekku, af þessu atburðum, er sem hér segir:
Þegar snjóflóðið féll, var fólkið að Auðum allt statt i sömu stofu. Snögglega.heyrði Jón Ágústsson þyt mikinn frá fjallinu, og laust þá niður í hug hans illum grun. Sagði hann konu sinni, er stóð hjá honum við gluggann, að hún skyldi færa sig frá, en í sömu andrá skall snjóflóðið á húsinu, og vissu þau sem björguðust lifandi, ekki hvað síðan gerðist fyrr en alllöngu síðar.
Á skírdag [2.apríl] féll snjóflóð skammt frá Flateyjarkauptúni í Önundarfirði og lenti það á kirkjugarðinum þar og olli spjöllum. Svo stóð á, að Finnur bóndi í Hvilft á Hvilftarströnd átti þennan dag erindi. á Flateyri, en varð fyrir litlum töfum. Hefði hann verið örfáum mínútum fyrr á ferð en varð, hefði hann lent í flóðinu, og er þá tvísýnt, hversu honum hefði reitt af.
Enn segir Morgunblaðið af hretinu í pistli þann 8.apríl
Árnesi, S.-Þing., 7. apríl Hér hefir kyngt niður snjó síðan í norðaustanhríðinni fyrir mánaðamótin. Í síðustu viku mátti heita óslitin snjókoma, oft með miklu frosti og hvassviðri. Laugardaginn fyrir páska stytti upp, og síðan hefir veður verið stillt, en ekki klökknað af sól um hátíðina. Þetta mun vera einhver mesti snjór, sem komið getur á skömmum tíma á auða jörð. Vegir hafa verið ófærir bifreiðum að mestu, og bændur hafa engri mjólk komið frá sér í vikutíma. Laxá stíflaðist af krapi. Hjá Grenjaðarstöðum hljóp áin úr farveginum og flæddi inn í nýja stöðvarhúsið við Laxá og vélar fóru í vatn. ... Er þetta talið mesta hlaup sem komið hefir síðan gamla Laxárvirkjunin var byggð.
Tíminn segir 10.apríl frá eldsvoða í (óvenjulegu) hríðarveðri í Borgarnesi:
Um klukkan 9 í gærmorgun varð eldur laus í góðtemplarahúsinu í Borgarnesi og voru miklir erfiðleikar á slökkvistarfinu vegna illviðris og fannfergis. Tókst það þó vonum betur og urðu brunaskemmdirnar minni en áhorfðist um tíma. Snjór var mikill í Borgarnesi í gærmorgun og snjóaði þar mikið lengst af í gær. Slökkviliðið hefir dælu, sem dregin er á handvagni. Ekki reyndist unnt að draga vagninn með handafli og var því fengin bifreið til hjálpar. Var þá hægt að koma dælunni á áfangastaðinn. Þá var erfiðleikum bundið að koma dæluvélinni í gang, þar sem snjóaði inn á vélina. Þegar það tókst var hægt að breiða yfir hana og gekk hún þá meðan þurfti við slökkvistörfin.
Enn segir af snjóflóðum í frétt í Morgunblaðinu þann 13. apríl:
Bær, Höfðaströnd,. 11. apríl. Fyrir fáeinum dögum féll snjóflóð á útihúsin að Þrastarstöðum hér á Höfðaströnd. Féll snjóflóðið á hesthús og hænsnahús sem sambyggð voru. Hænsnin köfnuðu, en hestarnir sluppu. Flóðið skall á hús þessi, sem voru úr timbri og grjóti, að nóttu til. Var það jaðar flóðsins, sem á húsin kom og braut þau bæði niður. Fjárhús bóndans var líka í sömu húsasamstæðunni, en það varð ekki fyrir neinum skemmdum.
Hæð 500 hPa-flatarins, þykkt og þykktarvik (litir) í apríl 1953. Vikið er um 100 metrar við Norðausturland, hiti í neðri hluta veðrahvolfs um -5 stigum neðan meðalhita aldarinnar. Eins og áður var nefnt nægði þetta (eftir hlýindi vetrarins) til að gera apríl að kaldasta mánuði ársins.
Vísir er með þýdda frétt af veðurfarsbreytingum þann 11.apríl. Þótt örugglega hafi eitthvað misfarist í þýðingu fréttarinnar er bakgrunnur hennar samt ekki algalinn - miðað við þá þekkingu (eða þekkingarleysi) sem þá var til staðar um veðurlag í heiðhvolfi og miðhvolfi lofthjúpsins og enn ofar. Spurningin í fyrirsögn fréttarinnar er hins vegar sígild og kunnugleg.
Hvað veldur hamförum í veðráttunni undanfarið. Eru það geislavirk svið í háloftunum sem valda fárviðrunum?
Síðan birtust loks fréttir af batnandi veðri. Morgunblaðið segir frá 15.apríl:
Húsavík, 14. apríl. Loksins hefur hríðinni létt. Iðulaus stórhríð hefur verið hér svo að segja síðasta hálfan mánuð, en í dag var skyndilega komið besta veður, sól skín í heiði og er frostlaust. En fannfergið er orðið svo mikið hér að snjóýtur verða nú að ryðja veginn fyrir starfsmönnum á leið til Laxárvirkjunarinnar. Vinna var hafin í gærdag við að opna leið suður að Laxárvirkjun með snjóýtum. Eru notaðar við það tvær jarðýtur, sem hafa unnið stanslaust, en enn um kl.7 í kvöld voru þær aðeins komnar um 7 km frá Húsavík og eru víða löng göng meira en mannhæðar há á veginum.
Tíminn birtir ófærðarfréttir úr Húnaþingi 19.apríl:
Frá fréttaritara Tímans á Blönduósi. Mikill snjór er nú hér um slóðir og vegir hafa verið ófærir. Sem stendur fara áætlunarbifreiðar að sunnan ekki lengra en hingað til Blönduóss, en verið er nú að opna leiðina lengra norður. Gífurlega mikill snjór hefir hlaðist niður að undanförnu og mátti heita að jarðbönn væru. Til marks um snjóþyngslin má geta þess, að á Skagaströnd voru skaflarnir jafnháir húsunum, sums staðar. Hafa þar verið mældir skaflar, sem eru níu metrar á hæð.
Og þann 20. eru fréttir í Tímanum af flóði í fjárhúsi á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu, þann 19. féll svo skriða á túnið í Hvammi í Dölum og brú skemmdist. Maður drukknaði í Grafará á Kjalarnesi, var áin í vexti.
Frá fréttaritara Tímans í Vatnsdal. Aðfaranótt laugardagsins fórust tuttugu kindur í húsi að Sveinsstöðum af völdum vatns, sem flóði inn í fjárhúsið. Þrjátíu kindur voru i húsinu, en aðeins tíu þeirra lifandi, er að var komið um morguninn. Kindur þær, sem fórust voru átján ær og tveir hrútar, eign Ólafs Magnússonar, bónda á Sveinsstöðum. Geysilega mikill snjór var á jörðu í Húnaþingi, jafnvel með.því mesta sem verður. Síðan kom asahláka og vatn flóði yfir allt. Fjárhúsið á Sveinsstöðum, sem kindurnar fórust í, var fornt, og stóð það skammt frá veginum. Vatnið rann niður með þjóðveginum og stíflaðist við túngarðinn, svo að uppistaða myndaðist, og náði að renna úr henni inn í fjárhúsið. Það var geysimikið vatn, sem rann inn í fjárhúsið, og mun það hafa náð upp á jötustokka, þar sem dýpst var. Féð mun þó ekki beinlínis hafa drukknað, heldur króknað í köldu vatninu um nóttina. Atburður þessi er einsdæmi í Húnaþingi, og yfirleitt mjög fáheyrt að slíkt gerist, þótt bráð leysing komi á mikinn snjó.
Enn eru fréttir af kuldatíð í Tímanum 1.maí:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Vetur konungur ríkir ennþá í almætti sínu í Eyjafirði. Snjóar þar flestar nætur, enda frost talsvert á hverjum degi. Alger ófærð er á fjallvegum og þungfært um byggð, þar sem ekki er ófært með öllu. Viða eru miklir erfiðleikar með mjólkurflutninga úr héraðinu til Akureyrar og fennir fljótt í traðirnar, sem ruddar eru á veginum. Einna verst er þó færðin til Akureyrar. Mjólkurbílar, sem koma þaðan til Akureyrar, eru marga klukkutíma og stundum meira en hálfan sólarhring, að brjótast leið, sem ekin er á tæpum klukkutíma í skaplegri færð. Öllu skárri færð er frammi í Eyjafirði og er þar akfært að mestu eftir fjölförnustu leiðinni, en þó viða seinfært. Þar sem ekki er snjór til ófærðar, er aur, sem blotnar upp í veginum, þegar sólin skín að deginum.
Frá fréttaritara Tímans á Fáskrúðsfirði. Snjór er yfir allt á Fáskrúðsfirði og víða um Austfirði og miklar vetrarhörkur, enda þótt sumar sé komið samkvæmt almanakinu. Heyleysi, hinn illi förunautur vorharðindanna, er farið að gera töluvert vart við sig á nokkrum stöðum.
Vegna kuldans hafa menn áhyggjur af hafís. Tíminn segir frá 3.maí:
Það eru allar líkur til þess, að miklar hafísbreiður séu norður í hafi, og hafa togarar orðið hafíssins varir á tveimur stöðum. Ekki er þó vitað, hve samfelldar ísbreiðurnar eru né hve langt þær ná norður, enda erfitt að fá yfirsýn um slíkt af skipsfjöl. Veðurstofunni bárust í gærmorgun ísfregnir af hafinu norðan Horns og frá Kolbeinsey, sem er norður í hafi, í hánorður frá Eyjafjarðarmynni. Ísinn norður af Horni er tiltölulega skammt undan landi, aðeins tíu sjómílur; með öðrum orðum hálfan nítjánda kílómetra frá landi. Ekkert er þó um það vitað, hversu mikill ís er þarna né hvort hann er á reki. Fregnir þær sem bárust frá Kolbeinsey herma að ísinn sé við eyna sjálfa og eins langt austur og vestur og sést frá skipinu.
Næstu daga koma fréttir af hagstæðari tíð og mjög hlýtt var í nokkra daga. Við leyfum okkur að birta eitthvað af þeim hér (þó ekki séu efnismiklar):
Tíminn segir frá 6.maí:
Frá fréttaritara á Akureyri. Nú er sumarið loksins komið norðanlands. Á Akureyri og við Eyjafjörð er búið að vera reglulegt sumarveður í tvo daga. Snjórinn, sem var mikill, er strax farinn að hverfa og er víða að mestu horfinn af láglendi, eftir þessa tvo sumardaga. Í gær var 15 stiga hiti á Akureyri, þegar heitast var.
Íslendingur 6.maí:
Frá Höfðaströnd er skrifað: Vetur hér austan fjarðar hefir verið eins og alls annars staðar óvenju mildur, þó nokkuð óstilltur hafi verið. Um miðjan mars var jörð farin að grænka og klaki víða farinn úr jörðu. Höfðavatn var orðið íslaust með öllu. Þótti gamla fólkinu það ills viti, því gamlar sagnir herma, að ef Höfðavatn leysi á miðjum vetri boði það harðindi á útmánuðum. Hverju sem trúa skal, þá er nú Höfðavatn aftur ísi lagt, og síðan um 23. mars hafa verið hörkuveður, stórhríðar eins og við eldri menn munum þær verstar og fannkynngi mikið, svo að erfitt var að komast bæja á milli nema á skíðum. Mjólkurflutningar hafa því gengið mjög erfiðlega héðan úr austurfirðinum til Mjólkursamlagsins á Sauðárkróki. Þó að mokað hafi verið annað slagið, hafa traðirnar fyllst strax aftur og moksturinn stundum orðið að vafasömum notum. Undanfarna daga hefir verið þíðviðri og snjó mikið tekið. Sumarið byrjar þó með frosti, kulda og hryssingsveðri. Þessi dagur vekur þó vonir í hugum allra um að Vorið góða, grænt og hlýtt sé á næstu grösum færandi okkur Norðlendingum sem öðrum aukna björg í bú, gróður og yl, sem við öll þráum.
Vísir 6.maí:
Í morgun var bjartviðri og úrkomulaust um land allt að heita má og mikil hlýindi sunnan lands og vestan. Veðurfar undanfarna daga minnir helst á hlýindin í júní 1949, sem tóku þá við af óvenju köldu vori, að því er Vísi var tjáð í Veðurstofunni í morgun.
Vísir 7.maí:
Frá fréttaritara Vísis Selfossi í morgun. Mikill vöxtur er nú í Ölfusá og stafar hann af því, að snjó hefur leyst ört í uppsveitum og til fjalla undangengna sólar- og hlýindadaga. Slíkur vöxtur í ám er ekki óvanalegur um þetta leyti og var það kallað vorflan" hér í sveitum fyrrum, þegar mikið leysingavatn hljóp í árnar. Hvarvetna er komin nál í mýrar og gras farið að spretta. Klaki var lítill í jörð og mun víða horfinn.
Tíminn 7.maí:
Frá fréttaritara Tímans í Mývatnssveit. Nú er sumarið loksins komið í Mývatnssveit. En ekki byrjaði það fallega því átta fyrstu dagana eftir sumardaginn fyrsta rofaði varla til fyrir norðan hríðarveðri. Hlóð niður miklum snjó í byggð og eru víða stórar fannir þó snjó hafi ört tekið upp síðustu dagana í sól og hita. Vegir eru þó ýmist illfærir, eða ófærir, vegna snjóa, eða aurbleytu, eins og oft vill verða á vorin, einkum þegar leysingar eru örar. Tjón varð ekki af hríðarveðrinu, nema hvað innistöður voru algerar og óþægilegt að heilsa sumrinu með slíku veðri.
Í gær var mjög hlýtt svo að segja um allt land, nema sums staðar á Austfjörðum, þar sem aðeins var fárra stiga hiti, Annars var hiti í gær yfirleitt 1017 stig, og af veðurathugunarstöðvum var hlýjast á Akureyri og í Bolungarvík, 17 stig. Norður í Grímsey var 12 stiga hiti. Yfirleitt er nú mjög hlýtt, miðað við það, sem tíðast er svo snemma í maímánuði. Þar sem jörð er nú nýkomin undan snjó eða að koma undan snjó, fer gróðri ört fram, en jörð sem legið hefir ber í alllöngum kuldanæðingum, er mun seinni til.
Tíminn segir 13.maí frá fyrirlestri um hafís. Schell þessi var þekktur á sinni tíð, reyndi að ráða í samband sjávarhita, hafíss og veðurfars:
Dr. Irving Schell frá haffræðistofnuninni í Woods Hole flytur 3 fyrirlestra á vegum Veðurstofu Íslands í 1. kennslustofu háskólans miðvikudag 13., föstudag 15. og
laugardag 16. maí kl. 20:30. Fyrirlestrarnir verða fluttir á ensku og fjalla um rannsóknir hans varðandi veðurspár og spár um ísrek á vestanverðu Atlantshafi. Þessar spár eru gerðar fyrir alllöng tímabil.
Þann 17. maí birti Tíminn fregnir af miklum skriðuföllum í Svartárdal í Húnavatnssýslu:
Sjötta maí urðu mikil skriðuföll í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu, og ollu þau sums staðar verulegu tjóni, einkum að Bergsstöðum, þar sem stór hluti túnsins varð undir skriðu. En auk þess féllu víða skriður á veginn fram Svartárdal. Um þetta leyti var úrfelli mikið nyrðra og gífurlegur vatnsagi. Skriðan sem féll á túnið á Bergsstöðum kom úr hálsinum fyrir ofan bæinn, en þar eru grasigrónar brekkur. Mun jarðvegsfyllan hafa sprungið fram. ... Þessa sömu daga var ógurlegur vöxtur í Svartá, og segja kunnugir að þeir hafi aldrei séð hana jafn vatnsmikla sem um þetta leyti. Flæddi hún vítt yfir bakka sína þar sem þeir eru ekki þeim mun hærri.
Morgunblaðið birti 31.maí einkennilega frétt af veðurfarsbreytingum. Örugglega er eitthvað misskilið - síðasta setningin bendir til þess. Hlýskeiðið sem átt er við er örugglega hlýnunin mikla upp úr 1950 og síðan:
Einkaskeyti til Mbl. frá NTB-Reuter. New Haven, 30. maí. Af fyrirlestrum heimsfrægra vísindamanna, sem sitja alþjóðaþing vísindamanna í háskólanum í New Haven um þessar mundir, hefur það komið í ljós. að mesta hítabylgja um aldaraðir gengur nú yfir Norður-Atlantshafið. Hins vegar hafa vísindamennirnir leitt hjá sér að spá um, hvort hitabylgja þessi, sem hófst hinn 17. mal s.1., verði langvarandi eða ekki. Forstjóri dönsku fiskirannsóknastofnunarinnar sagði, að ísinn á Grænlandi hefði minnkað svo mjög upp á síðkastið, að ekki væri hægt að líkja því við neitt, nema þegar hitabylgjan gekk yfir norðurhvel jarðar á 15. og 16. öld og bræddi ísinn á Grænlandi til stórra muna. Forstjóri hafrannsóknastofnunarinnar norsku sagði, að fundist hefðu nýlega ýmis steinaldaráhöld á Grænlandi, sem komið hefðu upp úr snjó og ís vegna hins óvenjulega hita. Kvað hann það von fornleifafræðinga, að þeim tækist að finna ýmsar minjar fornrar byggðar á Grænlandi, ef hitaskeiðið héldist um nokkur ár. Einnig kom það fram af fyrirlestrum vísindamannanna, að einna mikilvægustu afleiðingar þessarar hitabylgju séu áhrif hennar á lífið í sjónum. Hafa t.d. fundist við Grænland ýmsar fiskitegundir, sem áður fyrr lifðu einungis í suðlægari höfum.
Vísir birti fréttir af hitabylgju 25.júní. Hiti komst hæst í 26,2 stig á Sandi í Aðaldal þann 23. Það var hæsti hiti ársins á landinu. Mikil og hlý sunnanátt lék um landið þessa daga.
Í gær var langheitasti dagur sumarsins til þessa og komst hitinn upp í 24 stig á Raufarhöfn. Hæg suðaustan og austanátt var víðast og úrkomulítið. Á Akureyri var 22 stiga hiti og í Fagradal í Vopnafirði 23, á Blönduósi 21, Síðumúla i Borgarfirði 18, en Reykjavík 15, og hefir hitinn áður komist upp í 15 stig hér í sumar.
Fréttir af tíð og heyskap voru yfirleitt jákvæðar næstu mánuði. Þó er stöku sinnum kvartað um þurrkleysi - og alltaf stutt í óþurrkakvíðann.
Tíminn segir frá 1.júlí:
Í Kjós er sláttur hafinn fyrir nokkru sums staðar. Fyrst var ljár borinn í gras fyrir Jónsmessu, en það var í Láguhlið og Minna-Mosfelli. Þeir, sem fóru fyrst að slá, létu heyið í vothey. Sláttur mun nú almennt vera að hefjast.
Frá fréttaritara Tímans í Mývatnssveit. Hér er alltaf afbragðs tíð. Hiti hefir orðið hér mestur 24,5 stig hinn 23. júní. Regnskúrir öðru hverju, svo að gras þýtur upp. Túnin eru orðin vel sprottin. Fyrsta tún var slegið hér í sveitinni 18. júní og hirt hinn 23. Nokkrir bændur eru byrjaðir heyskap.
Vísir segir frá mikilli úrkomu 8. júlí:
Geysimikil úrkoma hefur verið sunnan lands og vestan að undanförnu og a.m.k. allt norður í Vatnsdal. Vatnsmagn í ám er mjög mikið og vegir yfirleitt slæmir. Bændum þykir þunglega horfa með sláttinn. Spretta er í besta lagi, svo að víða hefði verið unnt að byrja slátt fyrir 10 dögum og jafnvel fyrr, sprettu vegna, en óþurrkar hömluðu, auk þess sem rúningur fjár dróst hjá mörgum, af því að vart kom þurr dagur, og er ekki lokið enn, t.d. í Borgarfjarðarhéraði. Gras á túnum er víða sprottið úr sér og allt svo haugblautt, að jafnvel þeir, sem eiga vorheysgryfjur, hafa dregið slátt, en mundu ella hafa slegið og sett í vothey af fyrra slætti eftir því sem gryfjurnar leyfðu, í von um góða framhaldssprettu og þurrk og góða verkun á há. Þjóðvegir eru færir, en sums staðar holóttir og blautir sem í haustrigningum, en á öðrum vegum kemur það daglega fyrir, að bílar festast, og sums staðar orðið illfært og jafnvel ófært fyrir jeppa. Ferðamenn segja það algenga sjón nú, að sjá nýrúið fé standa í höm undir börðum og annarsstaðar, þar sem skjól er.
Tíminn segir af bændaáhyggjum 7.júlí:
Bændur víða um land eru nú farnir að bera allþungar áhyggjur vegna óþurrka, sem nú ganga. Gras er víða farið að spretta úr sér og tréna, og það sem slegið hefir verið og ekki hirt sem vothey eða í súgþurrkun farið að stórskemmast.
Jón Sigurðsson, bóndi í Felli í Suður-Þingeyjarsýslu er staddur hér í bænum, og spurði tíðindamaður blaðsins hann frétta úr héraði í gær. Fram í aprílbyrjun var veturinn einmuna góður, en þá brá til mikillar snjókomu, og féll á fáum dögum svo mikill snjór, að fannir jöfnuðust á við það, sem safnast á heilum snjóavetri. Þrátt fyrir hlýindi í maí mátti í júnílok sjá mannhæðarháa skafla við veginn á Tjörnesi, og er það til marks um hinn mikla aprílsnjó. Maí hófst með hlýindum og tók þá snjó nema stórfenni. Um miðjan maí brá til kulda og var þá um skeið frost á hverri nóttu. Í seinustu viku maí komu hlýindi á ný, gróður dafnaði og síðan hafa verið samfelld hlýindi.
Og Morgunblaðið 8.júlí:
Borg, Miklaholtshreppi, 5. júlí: Sláttur hófst hér víðast hvar fyrir mánaðamót. Spretta er með langbesta móti, liggja túnin undir skemmdum vegna þess að grasið er orðið úr sér sprottið. Stöðugur óþurrkur hefir verið undanfarna daga, það sem búið er að ná inn af heyjum hefir verið látið í vothey. Samfara þessum sífelldu rigningum hefir verið mjög hlýtt í veðri, hiti 1215 stig daglega. Hey skemmist því óvenjufljótt í svona tíðarfari. Engjar líta einnig mjög vel út með að spretta.
En síðan eru menn aftur bjartsýnir. Morgunblaðið 22. júlí:
Heyskapur hefur yfirleitt gengið með ágætum hér á landi það sem af er sumrinu, enda hafa verið stöðugir þurrkar núna síðustu vikurnar að heita má um land allt. Bregður bændum mjög við eftir undanfarin óþurrkaár. Þá hefur sprettan verið sérstaklega góð, t.d. víða tvöföld á við það, sem hún var í fyrra. Það eina. sem amað hefur að er, að gras var allvíða farið að spretta úr sér, og hefur því komið sér vel að nýtingin er hin besta víðast hvar.
Og Tíminn segir 23.júlí að sumarið verði mesta heyskaparsumar íslandssögunnar:
Þetta sumar verður mesta heyskaparsumarið í þúsund ára sögu íslendinga. Aldrei hefir annað eins verið heyjað á einum mánuði og nú í júlí, enda má segja, að saman fari mikið gras og ágæt nýting heyja um landið allt. Það má því telja mjög líklegt, að heyfengur íslenskra bænda í sumar verði meiri eg betri en nokkru sinni fyrr.
En vatnsskortur fór að gera vart við sig austu á Héraði. Morgunblaðið 23.júlí:
Skriðuklaustri 21. júlí. Vegna lítillar úrkomu í vor og sumar, er vatnsskortur að gera vart við sig á bæjum og bruni farinn að sjást á harðvelli. Væri þörf á duglegri rigningardembu. Vegir eru svo þurrir, að rykmekkir stíga í loft upp frá hverri bifreið, sem er á ferð. Annars er umferð hér lítil og fátt um ferðafólk.
Nokkuð virðist hafa rokið úr Heklu árum saman eftir stórgosið 1947 til 1948. Höfum það í huga eftir næsta stórgos. Vísir segir af því 28.júlí:
Mikið rauk úr Heklu í morgun, að því er fréttaritari Vísis á Eyrarbakka skýrði blaðinu frá í símtali. Rauk meira úr axlargígnum og alla leið upp á hátind í morgun, en gert hefur um langt skeið, en oft líður svo langur tími, að enginn reykur sést úr fjallinu. Sést því af þessu, að Hekla gamla er ekki alveg dauð úr öllum æðum, þótt engin hætta sé á því, að hún rumski neitt á borð við það, sem hún gerði 1947 þegar gosið mikla hófst.
Alþýðublaðið segir af litlum hafís 9.ágúst:
Líkur þykja benda til þess að mikið bráðni af hafís hér fyrir norðan og norðvestan landið, að því er Jón Eyþórsson veðurfræðingur skýrði blaðinu frá í viðtali í gær. Segir hann, að ísinn hafi brotnað upp og dreifst á óvenjulega skömmum tíma í sumar. Ísinn segir Jón muni vera með minna móti yfirleitt hér fyrir norðan. Geti hann ekki verið minni milli Íslands og Grænlands en nú. Að vísu sé alltaf nokkur rekís meðfram ströndum Grænlands, en hann sé laus og dreifður.
Jöklafrétt er í Alþýðublaðinu 12. ágúst:
Eysteinn Tryggvason veðurfræðingur hefur undanfarið verið að athuga jökla á hálendinu milli Skagafjarðar og Eyjafjarðarár. En jöklarnir þar hafa ekki verið mældir nema einu sinni áður. Gljúfurárjökull er eini jökullinn, sem mældur hefur verið áður. Setti Jón Eyþórsson upp merki við jökulsporðinn sumarið 1939, en síðan hefur jökullinn styst um 56 metra. Eysteinn telur líklegt, að hann hafi snemma á því árabili, sem síðan er liðið, gengið fram, en þó ekki nema að því marki, sem hann var við 1939. Jökulsporðurinn er í 550 metra hæð yfir sjó, aðaljökullinn í um 1100 m. hæð, en fjallatindarnir í kring um 1300 m. háir. Eysteinn telur þennan skriðjökul hafa verið miklu lengri hér áður fyrr. Hafi hann þá, sennilega á 18. eða 19. öld, verið tæpum km. lengri en nú og 115 m. þykkur, þar sem jökulsporðurinn.n er nú. Þennan skriðjökul álítur hann nú mestan í hálendinu milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar.
Svo kom óþurrkakafli á Suður- og Vesturlandi, Tíminn segir af honum 16.ágúst:
Með ágúst má segja, að hin afbragðsgóða þurrkatíð um allt land væri úti, en síðan hafa verið þrálátir óþurrkar í ýmsum héruðum, svo að nú eru hey byrjuð að skemmast, og er hætt við að heyskaparlokin verði ekki eins glæsileg og fyrri hluti sláttarins, ef ekki bregður nú til þurrka. Óþurrkarnir þennan hálfan mánuð munu hafa verið einna verstir á Suðurlandsundirlendinu og i Borgarfirði. Betra hefir heyskaparveðrið verið á Austurlandi og um austanvert Norðurland og mun hey ekki vera farið að safnast fyrir til skemmda á þeim slóðum enn.
Rjúpan getur orðið að meindýri - ólíklegt en satt. Alþýðublaðið segir frá 18.ágúst:
Rjúpur hafa valdið tjóni á matjurtum í görðum í Suður-Þingeyjarsýslu. Leggjast þær á hreðkur og alls konar káltegundir, svo sem hvítkál, rauðkál og gulrófukál, og éta það upp til agna. Hefur þetta að minnsta kosti gerst á bæjunum við Laugar. Í Suður-Þingeyjarsýslu er nú óvenjulegur fjöldi af rjúpum. Eru þær í hópum niður í dölum, skammt frá veginum, og eru hinar spökustu. Þegar t.d. er ekið inn Bárðardal, fljúga þær upp í hópum af veginum sjálfum.
Nokkrir jarðskjálftar urðu á Hellisheiði og nágrenni 20. og 21. ágúst. Vísir segir af þeim 21.ágúst:
Frá Eyrabakka var símað til Vísis laust fyrir klukkan 12 á hádegi, að þar hefðu fundist miklir jarðskjálftakippir um hádegið í gær og aftur klukkan 4 í nótt. Setja menn þar eystra þessa jarðskjálfta í samband við það, að umbrot kunni að eiga sér stað í Heklu, en undanfarna daga hafa miklir mekkir verið yfir fjallinu, og leggur hvítleitar gufur upp úr allri sprungunni neðan frá hlíðum og upp í brúnir fjallsins. Í morgun var strókurinn langmestur úr toppgígnum. Hafa menn veitt því eftirtekt að reykir þessir hafa aukist mjög síðustu daga. [Upptök jarðskjálftanna voru reyndar nærri Hveragerði, og fundust líka í Reykjavík].
Tíminn segir þann 20.ágúst frá hlaupi í Múlakvísl:
Um helgina kom allmikið jökulhlaup í Múlakvísl og mikill vöxtur hefir verið í öllum vötnum. Fór kvíslin yfir brúna, sem er orðin mjög sandgrafin og varð ófært um hana um tíma, en brúin stóðst árásina. Þá hljóp einnig allmikil kvísl úr Múlakvísl vestur í Kerlingardalsá og er svo enn.
Allt haustið var mjög úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi og einnig var mjög úrkomusamt nyrðra í október og nóvember. Nokkuð var um skriðuföll og flóð. Tíminn segir frá 8.september:
Frá fréttaritara Tímans á Kirkjubæjarklaustri. Síðdegis á föstudag og fram um hádegi á laugardag var hér slík úrhellisrigning að fádæmi eru. Hljóp geysilegur vöxtur í allar ár og læki eins og mest verður í vorleysingum. Flóði vatn yfir vegi, gróf frá brúm og skriður féllu víða. Skaftá óx mjög og hljóp yfir bakka austan svonefnds Dalbæjarstapa. Myndaðist þar mikið lón, þar sem vegurinn liggur, því að þar er lægð í hraunið. Mun vatnið hafa verið á annan metra að dýpt á veginum og því alófært um hann, þar til síðdegis á laugardag, er nokkuð tók að sjatna. Hörgsá gróf frá brúnni austan landstöpuls og gerði þar 78 metra breitt skarð og 67 metra djúpt. Allan sunnudaginn unnu tvær jarðýtur að því að fylla skarðið og var vegurinn aftur orðinn fær í fyrrakvöld. Skriður hlupu víða úr fjöllum en ollu ekki teljandi tjóni, nema á einum eða tveim stöðum. Skriða hljóp rétt vestan við bæinn í Hörgsdal á Síðu og yfir horn á túninu og kálgarð. Eyðilagði hún túnblett, garðinn og girðingarspotta. Austur við Foss á Síðu hljóp skriða yfir veginn og skemmdi hann nokkuð á kafla. Regnið var svo óskaplegt þarna eystra, að frá því klukkan sex síðdegis á föstudaginn til klukkan níu á laugardagsmorgun mældist regnið 85 millimetrar. Nokkrar skemmdir urðu á ! veginum norðan í Selfjalli, þar sem rann töluvert úr honum. Rigningin var mest á sunnudagsnóttina í Mýrdal og rigndi þá 92 millimetra þar.
Og síðan kom að Austfjörðum. Tíminn 22.september:
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði í gærkvöldi. Um síðustu helgi [sunnudagur 20.] var úrhellisrigning á Austfjörðum. Miklar skemmdir urðu á vegum og er víða ófært vegna skriðuhlaupa. Þannig var með öllu ófært að og frá Reyðarfirði í gær og fjöldi fólks þar tepptur, og komst ekki leiðar sinnar. Einna mestu tjóni hafa skriðuhlaupin valdið hjá Hólmum. Hafa nokkrar smáskriður og ein stór fallið á veginn, svo að hann var með öllu ófær bílum í gær. Víða eru rennur stíflaðar og liggur vegurinn þar undir vatni. Á túninu á Hólmum var mikill skaði. Skriður féllu á nýrækt og eyðilögðu með grjótframburði 23 hektara af nýju túni. Í gær var unnið að því að ryðja stærstu skriðunum af veginum með jarðýtum og búist við að seint í gærkvöldi yrði hægt að komast milli Reyðafjarðar og Eskifjarðar á stórum bílum. Vegurinn frá Reyðarfirði og upp á Hérað varð einnig ófær vegna skriðufalla.
Dagana 24. til 26. september var óvenjulegur sjávargangur við Faxaflóa og Breiðafjörð. Loftþrýstingur var ekki sérlega lágur, en vindalda virðist hafa verið töluverð í vestanáttinni og mikið stórstreymi.
Morgunblaðið segir frá 26.september:
Milli kl. sex og sjö í gærmorgun vaknaði fólk á mörgum bæjum á Álftanesi við mikinn brimgný. Stórstraumur var og hvassviðri og sjógangur af vestri. Flæddi sjórinn mörg hundruð metra á land upp og bar með sér sand og möl. Á a.m.k. þremur bæjum varð allmikið tjón á túnum og engjum af þessum orsökum. Morgunblaðið fékk þessar upplýsingar í gærkvöldi hjá Sveini Erlendssyni hreppstjóra Bessastaðahrepps, en hann býr á Breiðabólsstöðum á Álftanesi. Kvað bann sjó hafa gengið upp að bæjardyrum á jörð sinni. Nýi varnargarðurinn, sem gerður hefur verið norðan til á nesinu bilaði þó ekki og forðaði það stórskemmdum. Hins vegar mun hafa brotnað skarð í varnargarðinn vestan til á Álftanesi, norður af Gesthúsum. Sunnan til á því, hjá Hliðsnesi gekk sjór einnig langt á land upp. Var stórt landflæmi þar undir sjó í gærmorgun. Flóðið sópaði einnig burtu löngum kafla af veginum milli Akrakots og Landakots að Breiðabólsstöðum. Var sú leið því með öllu ófær í gær. Eitthvað var í gær byrjað að gera við varnargarðinn, sem bilaði. Á forsetasetrinu á Bessastöðum urðu engar skemmdir. Flóð þetta er talið eitt hið mesta, sem menn muna á Álftanesi. En bændur þar hafa undanfarið haft töluverðar áhyggjur af landbroti af völdum sjávargangs á þessum slóðum. Álíta þeir að brýna nauðsyn beri til þess að gera frekari ráðstafanir til þess að varna stórfelldum landspjöllum.
Í lok september hófust (nú þjóðsagnakenndar) heræfingar Atlantshafsbandalagsins á Hornströndum. Æfingarnar gengu ekki sem skyldi sökum illviðris, en upplýsingar þar um liggja auðvitað ekki á lausu. Alþýðublaðið sagði þó svo frá 27.september, þar segir einnig af hrakningum á Breiðafirði:
Heræfingar Atlantshafsbandalagsins fyrir Hornströndum áttu að hefjast í gær eða fyrrinótt, en stórastormur af norðri eða norðaustri var þar í gær og haugabrim, samkvæmt þ.ví, sem Alþýðublaðið frétti að vestan í gær. Sú saga gekk manna í milli í Bolungavík við ísafjarðardjúp í gær, að 1000 manna lið hefði átt að gera innrás í Hælavík í fyrrinótt, en ekki var hægt að afla neinna áreiðanlegra heimilda um þennan orðróm. Fyrir Hornströndum er brimasamt í norðanátt, og illlendandi bátum ef mikið brimar. Svo slæmt var veðrið, er farið var með gæslumennina tvo, er hafast eiga við meðan æfingarnar fara fram, á Kögri, að þeim varð nauðulega skotið á land. Það mun hafa verið á fimmtudag eða föstudag, og síðan hefur veðrið versnað. Vestfirðingar telja, að skilyrði hljóti að vera slæm til allra heræfinga við Hornstrandir eins og nú viðrar. Skyggni er afleitt, svo að illa mundi sjást til flugvéla, og hættuspil geti orðið að gera innrás á prömmum.
Fregn til Alþýðublaðsins. Stykkishólmi í gær. Vonskuveður er hér í dag. Tveir fjárflutningabátar, sem ætluðu með fé frá Vestfjörðum til Reykjavíkur, leituðu hér hafnar vegna óveðurs. Féð var orðið mjög slæpt og aðframkomið eftir volkið á sjónum, og varð ekki komist hjá að slátra fjórum kindum, er það var tekið hér á land.
Vísir segir einnig fréttir af heræfingunum þann 29. september:
Þær fregnir hafa borist, að eitt af herskipum þeim, sem verið hafa að æfingum undan norðvesturströnd Íslands, hafi rekist á hafísjaka, og laskast eitthvað. Undanfarna daga hefur veður verið slæmt undan Vestfjörðum, hvassviðri, slydda og krapaél. Hefur það ugglaust torveldað æfingar þær, sem herskip Atlantshafsbandalagsins hafa verið að á þessum slóðum. Vísir hefur frétt, að bandaríska beitiskipið Worcester hafi rekist á hafísjaka undan í Íslandsströndum, laskast eitthvað, en nokkrir af áhöfn skipsins hlotið meiðsl. Ekki er kunnugt, að neinn hafi beðið bana við áreksturinn, né heldur, að skipið hafi orðið fyrir alvarlegu tjóni.
Þá var komið að úrhelli og skriðuföllum á Vestfjörðum. Alþýðublaðið 7.október:
Miklir og snöggir vatnavextir urðu á Vestfjörðum á sunnudagskvöld og mánudagsnótt [aðfaranótt mánudagsins 5.október], og fylgdu þeim skriðuföll víða, þótt óvíða yrðu að tjóni. Allan snjó, sem var orðinn talsverður og sums staðar lá allt niður að sjó, ökkladjúpur, leysti á skammri stundu í ofsalegri rigningu og hvassviðri. Olli þetta vatnavöxtunum. Í Önundarfirði féllu skriður yfir vegi á tveimur stöðum aðfaranótt mánudags. Þykk, en ekki breið, aur- og grjótskriða féll yfir veginn á Selabólsurð í Önundarfirði og lokaði hún veginum einn dag. Önnur féll á Tannaneshlíð. ... Þá féll aurskriða hjá Mosvöllum í Bjarnardal í Dýrafirði, en ekki varð vegurinn þó alófær þar. Vegurinn milli Ísafjarðar og Hnífsdals lokaðist um tíma á mánudaginn, af því að allmikil skriða féll þar yfir veginn. Einnig féll skriða úr Búðarhyrnu, fjalli því, sem frægt er vegna tíðra snjóflóða, niður á svonefnt Búðatún og barst leir og grjót þar yfir allstórt svæði til mikilla skemmda. Skriðan stöðvaðist við veginn.
Vísir segir 7.október af miklum hlýindum norðanlands:
Sumarhiti var í morgun á Akureyri og víðar norðanlands. Hlýtt Atlantshafsloft var í morgun yfir öllu landinu og óvanalega hlýtt miðað við árstíma, einkum norðanlands, en kl. 9 í morgun var 15 stiga hiti á Akureyri og 14 á Fagradal, 12 á Raufarhöfn o.s.frv. Með ströndum fram var 810 stiga hiti. Búist var við, að kaldara loft streymdi inn yfir landið um eða upp úr hádeginu úr suðvestri og að heldur færi að létta í lofti.
Dagana 10. til 12. október gerði úrhelli og hríð á Norðurlandi. Einna mestum vandræðum olli hún í Suður-Þingeyjarsýslu og hlutust blaðaskrif af. Jónas Þorbergsson ritaði grein þar sem Veðurstofan var gagnrýnd fyrir leiðinlegar veðurfréttir og fleira og Theresía Guðmundsson veðurstofustjóri svaraði með harðorðu bréfi. En lítum fyrst á fregnir af veðrinu. Í upphafi var ekki mikið gert úr veðrinu:
Tíminn segir frá 13. og 14. október:
[13.] Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Í fyrrinótt og gær var hér á Akureyri og í nærsveitum hið versta veður með mikilli snjókomu, og er kominn þæfingssnjór víða um héruð og vegir tepptir. Hér á Akureyri er þæfingssnjór á götum.
[14.] Fréttaritari Tímans á Siglufirði símaði í gær, að þar hefði verið foraðsveður á sunnudag [11,október] og fram eftir mánudegi og væri kominn mikill snjór. Fé fennti í firðinum, og höfðu fjórar kindur fundist dauðar þar í gær, tvær þeirra höfðu farist í krapastíflu í Skútuá. Enn vantaði 20 kindur og búist við að þær hefði fennt, hvort sem þær eru lífs eða ekki. Fréttaritari Tímans á Haganesvík sagði, að snjórinn þar væri geysimikill. Símasambandslaust er inn eftir sveitinni. Í fyrradag voru bændur að reyna að ná saman fé en gekk illa og vantar margt fé enn, og er óttast að eitthvað af því fé hafi fennt og hefir enda þegar fundist þar nokkuð fé í fönn.
Alþýðublaðið segir af illviðri og fjársköðum í pistli 14. október:
Siglufirði í gær. Allmargt fé fennti hér á Siglufirði í gær. Í dag hafa fjáreigendur verið að leita og grafa það upp úr fönn, og vitað er um, að eitthvað af því hefur farist. Enn vantar hér um 20 kindur. Snjór er hér talsverður, en þó er nálega ófært um göturnar með bifreiðar. Hafa varla aðrar bifreiðir verið hreyfðar en stórar vörubifreiðir með drifi á öllum hjólum, og veldur ófærðinni klaki, sem myndaðist eftir að krapaelgurinn fraus á götunum. Engin mjólk kom hingað í dag frá Akureyri, og er ekki til mjólk á staðnum fyrir aðra en sjúklinga, börn og aldrað fólk, en veður lítur út fyrir að verða gott, og mun þá fljótt úr rætast.
Hofsós í gær: Fé hefur fennt hér í nærsveitum, en ekki hafa borist fregnir um skaða. Hafa bændur verið að draga fé úr fönn í dag. Skaflar eru orðnir 2-3 metra djúpir, þar sem saman hefur drifið, og ófært er um alla vegi hér í grennd.
Skagaströnd í gær: Eftir hríðina, sem staðið hefur undanfarin dægur er talsverður snjór, og tiltölulega lítil beit vegna klaka. Er það með öllu óvenjulegt, að beit spillist að ráði fyrir miðjan október.
Alls staðar þar, sem Alþýðublaðið hafði fréttir um norðurhluta landsins, var ófærð á vegum, fjallvegir yfirleitt ófærir, og víða hafði fé fennt. Þannig munu allir vegir hafa verið ófærir á Vestfjörðum nema frá Ísafirði til Hnífsdals. Símasambandslaust var enn í dag við allan norðausturhluta landsins frá Fnjóskadal til Austfjarða og einnig allar stöðvar út með Eyjafirði.
Tíminn heldur áfram 17.október:
Frá fréttaritara Tímans í Miklaholtshreppi. Í óveðrinu upp úr síðustu helgi fennti hér fé, enda var nokkuð af því á fjalli. Vantar enn nokkurt fé af bæjum hjá Seljafelli, en undanfarna daga hefir verið leitað að kindum, þar sem búist er við að þær hafi fennt. Sjö kindur fundust frá Dal og höfðu þær grafist í fönn. Voru sex þeirra dauðar, þegar þær náðust upp, en ein var með lífsmarki. Einnig fennti nokkrar kindur frá Ytra-Lágafelli og hafa þrjár fundist dauðar þaðan. Víða hafa kindur fundist í fönn og náðst lifandi upp úr þeirri prísund. Hefir hríðin verið svo hörð, að sums staðar hefir féð fennt í hópum. Undanfarið hafa átta kindur frá Hnífsdal verið grafnar upp úr sama skaflinum. Fannst síðasta kindin í skaflinum í gær og var hún dauð. Hinar höfðu náðst upp lifandi fyrr í vikunni. Hér um slóðir telja menn, að þetta sé heiftugasta haustveður, sem komið hefir lengi.
Og enn eru fregnir í Tímanum 18.október:
Frá fréttaritara Tímans í Gnúpverjahreppi. Um síðustu helgi gerði versta áhlaup í Gnúpverjahreppi og setti niður allmikinn snjó, svo að bílar áttu erfitt með að komast áfram. Fé mun ekki hafa farist svo vitað sé, en á einstaka stað fennti þó, og á tveim bæjum varð að draga fé úr fönn, Hamarsheiði og Stóru-Mástungu.
Alþýðublaðið birti 23.október frétt af veðrinu:
Fregn til Alþýðublaðsins. Hofsósi í gær. Eftir norðangarðinn á dögunum hefur talsvert fundist af fé í fönn, sem farist hefur. Á einum bæ fennti hest, fullorðinn og taminn, og fannst hann dauður fyrir nokkrum dögum. Bændur segja. að hrossin þoli skemmri tíma í fönn en fé, ef þau á annað borð fennir, sem er sjaldgæfara en með kindur. Þetta óhapp varð á bænum Háleggstöðum í Deildardal. Óvíða hafa orðið miklir skaðar á sauðfé, en á Höfða á Höfðaströnd hafa fundist fenntar 16 kindur á sama skaflinum framan í Þórðarhöfða. Voru 13 dauðar, en 3 með lífsmarki. ÞH
Þann 18. fór öflug lægð til norðurs skammt fyrir vestan land og olli slæmu veðri. Vísir segir frá 19.október:
Um tvö-leytið síðdegis í gær slitnaði togarinn Óli Garða upp, þar sem hann lá á ytri höfninni í Hafnarfirði, og rak á land. Óli Garða lá fyrir utan hafnargarð ásamt tveim öðrum togurum, Maí og Venus. Í hvassviðrinu í gær slitnaði togarinn upp, og skipti engum togum, að hann rak upp á rif fyrir utan svonefnda Dysjarfjöru í Garðahverfi, fyrir vestan Hafnarfjörð. Um skemmdir á skipinu var ekki vitað, er Vísir átti tal við skrifstofu Hrafna-Flóka, eiganda skipsins, í morgun. Óli Garða var gamalt skip, 316 brúttólestir að stærð, smíðaður árið 1922.
Þótt undarlegt megi virðast, urðu engin spjöll á skipum eða mannvirkjum í Reykjavíkurhöfn í ofsaveðrinu í gær. Hins vegar þurfti norskt olíuflutningaskip, Linde, sem lá við legufæri í Hvalfirði að flytja sig vegna veðurofsans, og liggur það nú í Kollfirði. Skip þetta, sem mun vera um 17 þúsund lestir að stærð, er hér með farm af olíu frá Rússlandi, í samræmi við verslunarsamningana við þá, en olíufélögin þrjú, BP, Esso og Shell, eiga farminn. Annað olíuflutningaskip, ítalskt, lá við festar undan Laugarnesi, og haggaðist það ekki í veðurofsanum. Legufæri þar hafa nýlega verið flutt út fyrir skerin, og var staður þessi heppilegur, eins og kom í ljós í gær.
Í gærkveldi gerði þrumuveður hér í bænum með roki og rigningu. Óveður þetta átti rót sína að rekja til djúprar lægðar, sem myndaðist yfir Grænlandshafi og fór hér yfir í gær. Hvassviðrið komst allt upp í 10 vindstig hér suðvestanlands og hélst fram á s.l. nótt. Úrkoma og hlýindi voru mikil og var m.a. 11 stiga biti hér í Reykjavík um miðjan dag í gær og 16 stig á Akureyri. Þrumuveðrið hér í bænum stóð stutt yfir. Eru þrumuveður yfirleitt svo fátíð hér að telja má þau til nokkurrar nýlundu.
Enn féllu skriður á Vestfjörðum. Tíminn 20.október:
Ísafirði: Hellirigning var hér í fyrradag [18.október]. Þrjár aurskriður féllu á veginn til Hnífsdals og tepptist umferð um veginn af þessum sökum um nokkurn tíma. Óshlíðarvegur er einnig ófær vegna skriðufalla.
Þá kemur að gagnrýni Jónasar útvarpsstjóra á Veðurstofuna. Hún birtist í Tímanum 20.október (við styttum hana nokkuð - vonandi ekki til tjóns þó):
Jónas Þorbergsson: Fjárskaðarnir á Norðurlandi og veðurþjónustan. Upphaf fjárskaðaveðurs. Laugardaginn 10. þ.m. snerist veður til norðanáttar á landi hér og varð af fjárskaðaveður. Fréttaritari Morgunblaðsins í Aðaldal telur óhætt að fullyrða, að stórhríð þessi hafi verið eitt hið mesta fjárskaðaveður, sem komið hafi þar um slóðir á þessari öld. Hann lýsir veðrinu á þá leið, að það hafi byrjað á laugardag með hægri norðanátt og krapahríð. Aðfaranótt sunnudags og mánudags hafi veðrið faríð harðnandi með vaxandi úrkomu. En svo hlýtt hafi verið í veðri, að ekki hafi fest snjó í byggð svo teljandi væri. En snemma á mánudagsmorgun herðir frost með miklu kafaldi og veðurhæð og urðu vegir þegar ófærir. Fátt af fé náðist í hús stórhríðardaginn. Vegna undangenginnar krapahríðar gerðist féð svo klakabrynjað, þegar stórhríðin skall á, að það varð að leggjast á gaddinn, þar sem það var komið. Þennan dag fennti margt fjár í Þingeyjarsýslu og víðar um norðan og vestanvert landið. Fréttaritari Tímans í Bárðardal skýrir frá því, að undanfarna daga hafi til þess vandir hundar leitað í fönn með góðum árangri. Hafa bændur á þessum slóðum verið að draga fé sitt úr fönn bæði dautt og lifandi. ...
Veðurfregnirnar íslensku eru svo óhagnýtar, svo sálarlausar og óskemmtilegar, að þær láta í eyrum flestra manna eins og vindgnauð á þekjunni. Og þó eigum við allt undir veðrinu; lífsafkomu okkar og lífsöryggi manna og dýra. Á þessu þarf að verða breyting. Við þurfum að fá lifandi frásagnarþátt um veðurfarið hvern dag; veðurfræðslu sem nær til skilnings manna og áhuga. Og landsmenn þurfa að læra að meta veðurþjónustuna, skilja örðugleika hennar og takmörk, en hagnýta sér hana til gagns og öryggis. Þau ágætu erindi sem Páll Bergþórsson veðurfræðingur hefir flutt í útvarpið, varðandi vísindi veðurfræðinnar liggja á hærra sviðið og geta ekki leyst þá þörf fræðslu sem veðurfar og veðrabrigði hvers dags kallar á.
Ég, sem þetta rita, mun vera álíka ófróður um veðurvísindi og allur þorri manna á landinu. En ég hefi leitast við að fylgjast með og átta mig á fyrirbærum veðurfarsins í sambandi við þær ófullkomnu veðurlýsingar og veðurspár, sem Veðurstofan lætur í té. Ég veit, að er lægð nálgast suðvestan úr hafi, eins og flestar lægðir gera, þá er von veðrabrigða. Sé lægðin djúp og kröpp, má vænta storma eða fárviðris með mikilli úrkomu. Sé lægðin enn fjarlæg, getur orkað tvímælis um það, hvort hún leggi leið sina vestan við landið, yfir landið sjálft eða austan við það. En á því veltur veðurfarið af völdum þessarar umræddu lægðar. Fari hún vestan við landið, er von suðvestan og sunnanvinda. Fari hún yfir landið, er von breytilegra vinda. Fari hún austan við land er vís norðanátt. Þessar vindstöður eru í samræmi við það lögmál, að vindar blása andsælis kringum lægðir. Ég veit ennfremur, að ef staðbundin hæð er yfir Grænlandi, blása þrálátir norðaustanvindar hér á landi í samræmi við það lögmál, að vindar blása réttsælis kringum hæðir lofthvolfsins. Loks veit ég það, að margt óvænt getur gerst í fari lægða, þær geta stöðvast í rás sinni og tekið að grynnast. Þær geta snardýpkað, aukið ferð sína og valdið snöggum fárviðrum og þær geta breytt um stefnu og valdið óvæntum veðrabrigðum....
Lítum svo að lokum á fjárskaðana á Norðurlandi í ljósi þessarar leikmannsveðurfræði. Þetta gerðist í stuttu máli sagt: Snemma á laugardagsmorgun [10.] fréttist til lægðar suðvestur í hafi með aust-norðaustlæga stefnu á landið. Líkur benda til, að hún fari austan við landið og valdi norðanátt, enda gerir hæga norðaustanátt a Norðurlandi með krapahríð þann dag. Á sunnudagsmorgun er lægðin suðaustan við landið enda fer vindur og úrkoma vaxandi á Norðurlandi. Síðan virðist það hafa gerst, að lægðin dýpkar skyndilega og veldur hvassri norðanátt með frosti og gífurlegri fannkomu. Veðurstofan birtir sínar venjulegu innihaldslitlu og sálarlausu veðurfregnaþulur, sem ekki hreyfa við hugum landsmanna fremur en endranær. Hún fæðir ekkert við landsmenn um það, hvað fyrir geti komið í sambandi við þessa lægð. Birtir engar aðvaranir um hugsanlegar hættur af hennar völdum. Allur þorri landsmanna er tómlátur gagnvart veðurfregnunum og vanrækir að draga af þeim þá lærdóma, sem þó er unnt að gera í ljósi reynslu og athugunar. Af öllum þessum ástæðum gerist sú harmsaga, að bændur vanrækja að nota tvo daga, sem þeir hafa upp á að hlaupa, til þess að bjarga sauðfé sínu undan kvalræði og dauða af völdum stórhríðar, sem skellur á það bjórvott með þeim afleiðingum, að það, sem ekki skeflir yfir, gerist svo klakabrynjað, að það verður að leggjast í gaddinn, þar sem það var komið.
Eitthvað virðist þessi gagnrýni hafa tekið á starfsmenn Veðurstofunnar. Theresía Guðmundsson veðurstofustjóri svarar Jónasi Þorbergssyni í harðorðri grein sem birtist í Tímanum 31. október. Hún bendir á ýmsar mótsagnir sem hún telur vera í málflutningi Jónasar (við styttum þessa grein einnig - en þeir sem kunna að hafa áhuga geta lesið greinarnar báðar í heild á timarit.is):
Þann 20. þessa mánaðar birtist í Tímanum heilsíðugrein eftir herra Jónas Þorbergsson, sem hann nefnir: Fjárskaðarnir á Norðurlandi og veðurþjónustan. Þótt greinin sé næsta ómerk þykir rétt að gera við hana nokkrar athugsemdir. ... Höfuðsök Veðurstofunnar á, að sögn hr. J. Þ., að vera fólginn í því, hversu veðurfregnaflutningur útvarpsins sé óskemmtilegur, óhagnýtur, innihaldslítill og sálarlaus! Slík eru lýsingarorðin sem hann notar um þennan þátt veðurþjónustunnar. Til úrbóta vill svo herra J.Þ. láta segja mönnum veðurfregnir með athugsemdum og skýringum" eins og gert var á fyrstu árum útvarpsins. Þann flutning á veðurspám lét dr. Þorkell Þorkelsson, fyrrverandi veðurstofustjóri leggja niður. Mun dr. Þorkeli hafa þótt hann ærið varhugaverður og þá auðvitað stuðst við fengna reynslu. Það liggur og í augum uppi, að skýringarnar og athugasemdirnar gætu orðið til þess að villa hlustendur í notkun veðurspánna. Meira að segja benda sterkar líkur í þá átt, að málalengingar ofnar um veðurspárnar yrðu oftar til ills en góðs. Það er og hrein óhæfa, að nokkrar þær málalengingar fylgi veðurspánum, sem ekki eru bókfærðar áður en þeim er útvarpað. Alltaf geta komið upp þrætur í blöðum og fyrir dómstólunum um það, hvað sagt hafi verið í veðurfréttaflutningi útvarpsins. Verður þá veðurstofan að geta skorið úr slík um deiluatriðum.
En nú er það svo, að sökum tímaskorts myndi það oft reynast ókleift að bóka hinar umræddu athugasemdir og skýringar", því veðurfræðingurinn verður að sjálfsögðu ætíð að láta samningu veðurspánna sitja í fyrirrúmi og freista þess til hins ýtrasta að hafa þær sem best úr garði gerðar. Ef það er gert, eru allar athugasemdir og skýringar jafnan ónauðsynlegar. Einnig frá þessu sjónarmiði séð er úrbótatillaga hr. J.Þ. fávísleg. Jafnframt má svo geta þess, að veðurstofan er krafin um greiðslu fyrir hverja mínútu, sem hún hefir til ráðstöfunar í ríkisútvarpinu til flutnings á veðurfregnum.
Telja má víst, að hver meðalgreindur maður geti hagnýtt sér veðurþjónustuna til gagns og öryggis". Tökum til dæmis sjálfan greinarhöfundinn. Hann kemst svo að orði. Ég sem þetta rita, mun vera álíka ófróður um veðurvísindi og allur þorri manna í landinu. En ég hefi leitast við að fylgjast með og átta mig á fyrirbærum veðurfarsins í sambandi við þær ófullkomnu veðurlýsingar og veðurspár, sem Veðurstofan lætur í té". Að undanteknu því atriði að hr. J.Þ. hefir komist að þeirri niðurstöðu í grein sinni að krappar lægðir fari hraðar hjá en grunnar" virðist hann hafa aflað sér hagnýts skilnings, á fyrirbærum veðurfarsins". Því skyldu þá ekki þeir, sem eiga afkomu sína undir veðrinu, einnig geta aflað sér þessa skilnings á sama grundvelli og hr. J.Þ.? Það er engu líkara en hr. J.Þ. vilji koma því á framfæri, að hann sé miklu gáfaðri en allur þorri landsmanna. Fyrir okkur hérlendis er það áreiðanlega hagkvæmast að fara að dæmi annarra menningarþjóða um það, að hafa veðurspárnar gagnorðar, skýrar og umbúðalausar þegar þær eru kynntar almenningi.
Hitt er svo annað mál, að ákjósanlegt væri að fá birtan í útvarpinu eins og hr. J.Þ. orðar það lifandi frásagnarþátt um veðurfarið hvern dag". Í uppkasti að samningi milli Veðurstofunnar og Ríkisútvarpsins, sem ég sendi útvarpsstjóra 18.mars 1952, tók ég upp þessa grein: 12. gr.. Ríkisútvarpíð tekur að sér að útvarpa, Veðurstofunni að kostnaðarlausu, sérstökum veðurfregnum fyrir bændur. Verða slíkir fréttatímar eigi fleiri en tveir á dag og samtals eigi meira en 10 mín. að lengd og þeim komið fyrir í dagskrá útvarpsins skv. samkomulagi". Í svarbréfi Jónasar Þorbergssonar, útvarpsstjóra, dags. 22. apríl 1952 segir svo: 12. gr. Þessi grein er einnig burtu felld. Í fyrsta lagi virðist hér vera um ráðagerð eina að ræða, og kæmi þá til mála, að gera um það viðbótarsamning. Í öðru lagi fæ ég ekki séð, hversvegna þjónusta Ríkisútvarpsins vegna bænda ætti að vera ókeypis fremur en þjónusta vegna sjómanna". Þessu svaraði ég þannig 14. maí 1952: Þar sem hér er eingöngu um fréttaútvarp að ræða, en ekki öryggisþjónustu getur Veðurstofan ekki kostað slíkt útvarp, en telur rétt, vegna óska bænda, að sjá um efni þess. Ef ríkisútvarpið vill ekki samstarf við Veðurstofuna á þeim grundvelli, sem getur í nefndri grein, eru möguleikar fyrir slíkt útvarp úr sögunni". Lokasvar Jónasar Þorbergssonar, útvarpsstjóra, í þessu máli hljóðar þannig: Ég tel ekki rétt að fella inn í þennan samning nein ákvæði varðandi ráðgert útvarp veðurfregna. Komi útvarp slíkra sérstakra veðurfregna til framkvæmda, yrði að gera um það viðbótarsamninga, samkvæmt þeim nánari ákvörðunum, er þá kunna að liggja fyrir".
Snemma í grein sinni segir hr. J.Þ.: Oft hættir mönnum til að skella skuld á Veðurstofuna, er miklar slysfarir vera af völdum ofviðra á sjó eða landi. Að þessu sinni mun það þó ekki takast". Það er sannmæli. Samt er meginefni greinarinnar illkvittnislegar árásir á veðurþjónustuna, sem berlega eru skrifaðar í þeim tilgangi að skella skuld á Veðurstofuna" í fjárskaðamálinu. Meira að segja farast greinarhöfundi þannig orð um veðurfregnir þær, sem fluttar voru í útvarpinu dagana áður en fjárskaðaveðrið skall á: Veðurstofan birtir sínar venjulegu innihaldslitlu og sálarlausu veðurfregnaþulur, sem ekki hreyfa við hugum landsmanna fremur en endranær". Meðal annars af þessum ástæðum gerist sú harmsaga, að bændur vanrækja að nota tvo daga, sem þeir hafa upp á að hlaupa, til þess að bjarga sauðfé sínu undan kvalræði og dauða" segir hr. J.Þ. ennfremur.
Þannig er rökvísin hjá þessum manni. Þótt hann hafi sýknað Veðurstofuna, þá skal hún samt sakfellast. Grein sína endar hr. J.Þ. með því sem hann kallar varnaðarorð sín til bænda og annarra landsmanna og hefst sú klausa þannig: Heimtið fyllri og hagnýtari veðurþjónustu". Þetta ritar sá hinn sami, sem fyrir ári tregðaðist við, að tekinn yrði að staðaldri til flutnings í Ríkisútvarpinu veðurfregnaþáttur, er miðaður væri við atvinnuöryggi og aðstæður bænda. Að minnsta kosti skyldi gjald kom fyrir þáttinn, ef upp yrði tekinn. Mætti þó herra Jónasi Þorbergssyni vera það manna kunnast, að þær eru ekki smáar fjárfúlgurnar, sem árlega renna til ríkisútvarpsins frá bændastétt landsins. Reykjavík, 27. okt. 1953.
En hvernig var þessu veðri spáð? Nú á tímum þætti okkur spáin hafa mistekist hrapalega. Hér er ekki rúm til að gera grein fyrir því, en að kvöldi laugardagsins 10. (daginn áður en veðrið skall á fyrir alvöru) var eftirfarandi spá lesin í útvarp (fyrir Norður- og Austurland):
Kl. 22:00: Alldjúp lægðarmiðja skammt suður af Vestmannaeyjum á hreyfingu norðaustur-eftir. Breiðafjörður til Norðurlands, Breiðafjarðarmið: Stinningskaldi norðaustan. Úrkomulaust að mestu. Vestfjarðamið og Norðurmið: Allhvass norðaustan. Dálítil snjókoma. Austurland og Austfirðir, Austurmið. Allhvass norðaustan. Snjókoma eða slydda.
Spáð er úrkomulausu að mestu á Norðurlandi - og bændur virtust geta verið fremur rólegir. Veðrið varð allt annað. Spjallið sem Jónas ræðir og gerir tillögur um var raunar hluti af langvinnum innanhúsdeilum á Veðurstofunni - en leystist - vonandi farsællega - þegar farið var að fjalla um veðurspár í sjónvarpi rúmum 13 árum síðar. Hjá Theresíu kemur einnig greinilega fram að málið er hluti af langvinnu þrasi Ríkisútvarpsins og Veðurstofunnar um greiðslur og önnur peningamál. Báðar stofnanir bjuggu við naum fjárráð.
Veðurkort mánudag 12. október. Þá var fjárskaðahríðin um það bil í hámarki. Lægðarmiðjan hefur þrengt sér inn yfir Norðausturland - en reiknað var með að hún færi alveg austan við land og áttin yrði hægari, norðaustlægari og hlýrri en raunin varð.
Um miðjan nóvember gerði enn eftirminnilegra illviðri. Grein var gerð fyrir því í fyrri pistli hungurdiska: Fárviðrið 16.nóvember 1953. Má þar finna veðurkort og ýmsan fróðleik, en lítið er fjallað um tjón. Við lítum hér nánar á blaðafregnir um það.
Fyrir veðrið hafði gert töluverða snjóa. Tíminn segir frá þann 14.nóvember:
Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli. Mikill snjór er hér um allar sveitir svo að óvenjulegt má teljast í byrjun vetrar. Er snjórinn víðast hnédjúpur, að minnsta kosti í uppsveitum, en ekki hefir rennt í skafla og helst því slarkfært bílfæri á helstu vegum. Fénaður allur er kominn á gjöf, enda má heita jarðlaust með öllu. Áður en þessi nýi snjór féll var bleytuhríð og frysti, svo að storka kom á jörð, og veldur það hagleysinu. Jarðleysi er meira að segja svo mikið, að hross fá ekki í sig, og verður að gefa þeim. Þykir þá nokkuð hart að gengið á þessum slóðum á haustdegi er jarðlaust verður fyrir þau.
Vísir var fyrstur með fréttir af veðrinu þann mánudaginn 16.nóvember:
Sunnan stórviðri var í nótt. Hér í Reykjavík var átt SSV og 10 vindstig kl. 8. Í Vestmannaeyjum komst veðurhæðin upp í 12 vindstig. Gengur stórviðrið yfir allan vesturhluta landsins og verður sennilega hvassviðri næsta sólarhring þótt veðurlag breytist með kvöldinu. ... Útlit er fyrir suðvestan hvassviðri í dag með éljum, hvasst í hryðjunum, en hægari á milli. Sennilega verður hvassviðri næsta sólarhring. Í nótt slitnuðu Sogslínurnar báðar í ofsaveðrinu sem gekk yfir Suðvesturland. Nýja Sogslínan mun hafa slitnað skammt frá stöðinni, en Vísi er ókunnugt um, hvar hin slitnaði. Í morgun var unnið að viðgerð á línunum, en á meðan er rafmagn skammtað frá Elliðaárstöðinni og varastöðinni (Toppstöðinni). Ekki urðu verulegar skemmdir hér í bænum.af völdum óveðursins í gær. Kvartað var undan því til lögreglunnar í gærkveldi og nótt að gluggar hefði víða fokið upp og frá einu húsi var beðið um aðstoð vegna þess að járn væri að byrja að fjúka af þaki. Sömuleiðis höfðu víða slitnað raftaugar. Í gærdag var lögreglunni tilkynnt um tvo báta sem væru að slitna upp á höfninni ... Lítill trillubátur mun hafa sokkið á höfninni í gær, en í nótt bar þar ekkert til tíðinda.
Amerísk flugvél ferst með 5 manns á Grænlandshafi. Var á leið héðan til Grænlands og Bandaríkjanna. Talið er víst, að bandarískur Flugbátur af Keflavíkurvelli hafi hrapað í sjó niður og farist vestur af Íslandi í gærmorgun.
Tíminn segir frá 17.nóvember:
Aftakahvassviðri gekk hér yfir suður- og vesturhluta landsins á sunnudaginn og mánudagsnóttína. Komst vindhraði víða upp í 1011 vindstig og jafnvel upp í 14 vindstig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Austur undir Eyjafjöllum var vindhraði 1011 vindstig en það þykir ekki tiltökumál á þeim slóðum. Svipaður mun stormurinn hafa verið um Suðvesturlandið og allt vestur á Barðaströnd, en kyrrara þegar norður dró á Vestfirði. Í Árnessýslu var veðurhæðin slík, að talið er með hvössustu veðrum, sem þar koma. Tjón varð þó litið sem ekkert af völdum veðursins. Á Norðurlandi var veðrið hægara, en mun þó hafa hvesst þegar á daginn leið.
Frá fréttaritara Tímans i Vestmannaeyjum. Óskaplegt fárviðri gekk yfir Vestmannaeyjar í fyrrinótt og mun veðurhæðin hafa komist upp í 11 stig á Stórhöfða. Bátar voru sem betur fer enginn á sjó, en litlu munaði að skemmdir yrðu á þeim, þar sem þeir lágu við bryggjur í höfninni. Sogið var svo mikið, þegar mest gekk á, að sjórinn hækkaði um 183 cm. Nokkrir bátar slitu landfestar, en þeir voru bundnir strax aftur. Engrar teljandi skemmdir urðu.
Frá fréttaritara Tímans í Ólafsvík. Vélbáturinn Ottó var í fyrradag á leið til Stykkishólms frá Reykjavík með tvo olíugeyma í eftirdragi. Hreppti hann hið versta veður og út af jökli fékk hann á sig brotsjó mikinn. Brotnaði hann nokkuð ofan þilja og lunningin að framan. Einnig brotnaði siglan alveg af. Ottó skildi annan geyminn eftir út af Hellissandi en hélt með hinn inn til Ólafsvíkur. Náði hann þangað í gærmorgun og lá þar í gær.
Frá fréttaritara Tímans i Stykkishólmi. Aftakaveðurr var víða á Snæfellsnesi í fyrrinótt, og hefir síldarflotinn í Grundarfirði orðið" fyrir miklu tjóni, einkum á bátum og nótum, Voru flest skip þar í mikilli og yfirvofandi hættu um tíma.
Í fárviðrinu í fyrrinótt fuku fjárhús að Grund í Skorradal. Eru þar fjögur fjárhús hlið við hlið, sem stóðu spölkorn ofan við íbúðarhúsið. Húsin eru með steyptum veggjum en járnþaki og eru orðin nokkuð gömul. Í veðrinu tók rokið þakið af þremur húsunum og tætti einnig í burtu hluta af veggjum þeirra, þegar tóftirnar voru orðnar eftir. ... Guðrún Þorsteinsdóttir sem býr á Grund hefir orðið fyrir mjög miklu tjóni. Segir hún þetta veður sé engu minna en febrúarfárviðrið alkunna fyrir tveimur árum. Þegar rokurnar voru sem mestar var Guðrún hrædd um að íbúðarhúsið myndi fjúka líka. En það er stórt tveggja hæða timburhús.
Frá fréttaritara Tímans á Stokkseyri og Eyrarbakka. Aftaka veður var á Stokkseyri í fyrrinótt og fram eftir degi í gær. Vélbáturinn Þorri ... lá á legunni við Stokkseyri. Sökk hann og er talið að hann sé verulega brotinn. Vikurplötur hjá Pípu- og steinverksmiðjunni á Stokkseyri brotnuðu og skemmdust. Voru þær til þurrks í hjalli og skekktist hjallinn og fauk til. Á legunni við Eyrarbakka lá vélbáturinn Hafsteinn ... Var hann 67 lestir að stærð og yfirbyggður að nokkru. Sökk báturinn og búist við að hann sé mjög skemmdur. Báturinn var óvátryggður. Brimið við suðurströndina var óskaplegt.
Snæfellsnes: Afspyrnurok var hér um síðasta sólarhring. Skemmdir urðu lítils háttar hér og hvar en þó hvergi miklar. Þakplötur fuku af íbúðarhúsi á Stakkhamri. Úrkoma var mikil, slydda og rigning til skiptis.
Vísir 17.nóvember:
Í ofviðrinu í gærmorgun losnaði um tvo Hafnarfjarðarbáta, Fiskaklett og Hafdís og
rak þá upp að gömlu bryggjunni í innri króknum í Hafnarfjarðarhöfn. Einhver brögð voru að járnplötufoki af húsaþökum í firðinum í fyrrinótt, en hvergi munu þau hafa orsakað slys. Togarinn Maí dró legufæri sín í rokinu í fyrrinótt, en ekki það langt að kæmi að sök.
Alþýðublaðið segir frekar af tjóni 17.nóvember:
Báðar Sogslínurnar biluðu í gærmorgun vegna veðurs. Féll nýja línan niður á kafla við útivirki skammt frá Írafossi. Hafði klemma brotnað á útivirkinu, en við það féll strengur niður á kaflanum frá útivirkinu að næsta staur. Bilunin á nýju línunni varð um kl.6:40 í gærmorgun. Voru nokkrir línumenn fljótt sendir austur til þess að gera við bilunina. Erfitt mun þó hafa verið að athafna sig í óveðrinu fyrir austan og gátu mennirnir ekkert aðhafst fyrr en upp úr hádeginu. Er nýja línan bilaði, var straumi þegar hleypt á toppstöðina við Elliðaár. Rétt fyrir klukkan níu bilaði gamla línan þó einnig vegna samslátts. Komst hún þó í lag eftir um það bil tvo tíma. Tekin var strax upp skömmtun á rafmagni er bilunin varð og var toppstöðin látin miðla hverfunum á víxl. Í rökkurbyrjun gærkveldi var viðgerð á nýju línunni lokið og var þá skömmtun hætt.
Allmiklar skemmdir urðu af völdum óveðursins í Kópavogi ú fimm húsum, sem eru í byggingu. Fuku þök af 4 húsanna, en fimmta húsið, sem var í uppstillingu, hrundi algjörlega til grunna. Í Fossvogi fauk skúr út á miðjan veg til móts við kirkjugarðinn og varð af því umferðarteppa. Í Reykjavík urðu ekki miklir skaðar af óveðrinu. Af nokkrum húsum fuku þó þakplötur og rúður brotnuðu víða í húsum. En slys urðu engin. Þó munu hafa orðið skemmdir á hálfbyggðum húsum í Smáíbúðahverfinu. Allmargir smábátar drógust til í höfninni og lá við að tvo ræki upp, en því vár þó afstýrt. Einn trillubátur sökk og hafði honum ekki verið náð upp síðast er til fréttist.
Bolungarvík í gær. Snjóflóð féllu hvað eftir annað á Óshlíð á laugardag og sunnudag og tepptu umferð um veginn héðan til Ísafjarðar.
Grindavík í gær. Sjór tók lítinn trillubát er var hér uppi á landi. Þetta gerðist í nótt. Var þá aftakaveður og mikið brim. Hátt var í sjó og náði brimið að skola bátnum út, og hann hefur ekki fundist. Skúrar skemmdust hér í ofviðrinu og bárujárn í búntum fauk.
Og Morgunblaðið líka 17.nóvember:
Keflavík, 16. nóvember. Nokkurt tjón hefur hlotist af því ofsaroki, sem gengið hefur yfir síðasta sólarhring. Kaupfélag Suðurnesja varð fyrir verulegu tjóni, en það átti allmikið af asbestplötum úti. Stór hluti þeirra fauk og brotnaði mélinu smærra. Þá varð maður nokkur fyrir því slæma tjóni, að steypumót er hann hafði reist að væntanlegu íbúðarhúsi fuku niður. Lögðust tvær hliðarnar gersamlega niður, en það, sem enn stendur, er allt úr lagi fært og mun verða að rífa allt niður og byggja mótin upp að nýju. Þá hafði annar maður lokið við að reisa þaksperrur á húsið sitt og fuku þær allar niður. Þá skemmdist fiskaðgerðarskúr töluvert í veðurofsanum. Við höfnina varð ekkert tjón, enda vöktuðu sjómenn bátana og voru til taks ef eitthvað skyldi koma fyrir. Allvíða rifnaði og fauk þakpappi af nýbyggðum húsum og á nokkrum stöðum losnuðu þakplötur af húsum, en þær munu ekki hafa valdið neinu verulegu tjóni. Þá brotnuðu rúður á nokkrum stöðum. Rafmagnslaust var hér í bæ frá kl.9 til hádegis. Ingvar.
Í Sandgerði urðu nokkrar skemmdir á húsum fiskiðjuveranna Miðness og Garðs, er allmargar þakplötur sópuðust burtu.
Akranesi 16. nóv. Hér er foráttubrim í dag, enda stormur. Í fárviðrinu í nótt sópuðust þakplötur af elsta húsi síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar. Grjótprammi hafnarinnar slitnaði upp og rak upp í kletta, en hann mun ekki stórskemmdur. Hafnarferjan dró legufærin, og sleit eina keðju af þrem. Í Hótel Akranes braut veðurofsinn stóra rúðu og skeljasand skóf stormurinn upp úr skeljasandsþrónni. Í íbúðarhúsinu Skagabraut 46 brotnuðu 3 rúður og skarst Aðalgeir Halldórsson á glerjum á handlegg. Hann býr á efri hæð hússins. Oddur.
Eitt af mörgu óhuggulegu varðandi Edduslysið er hversu seint menn gerðu sér grein fyrir því. Skipið hvarf af legunni í Grundarfirði og allir virðast hafa haldið að það hafi einfaldlega hörfað út á Breiðafjörð - en það var eitthvað annað:
Tíminn segir frá 18.nóvember:
Þau sviplegu tíðindi gerðust síðan á mánudagsnóttina, að vélskipið Edda frá Hafnarfirði fórst í Grundarfirði og með henni níu menn af áhöfninni. Átta komust lífs af eftir mikla hrakninga í opnum bát. Skipinu hvolfdi skammt framan við bryggjuna í Grafarnesi án þess að nærstödd skip eða fólk í landi veitti því athygli. Fimmtán skipverjar komust á kjöl og ellefu í nótarbátinn. Sex drukknuðu við skipið, en mennirnir í bátnum hröktust út fjörð, steyttu á skeri fram af Bárarbæjum sátu þar fastir þrjár stundir og bar síðan að landi. Í þeim hrakningum létust þrír menn. [Síðan kemur frásögn af hrakningunum sem við sleppum hér].
Aftakaveður í Hornafirði. Á mánudagsnóttina og fram eftir mánudegi var hér aftakaveður og var veðurhæð talin 11 vindstig en var meiri í hviðunum. Ekki hefir frést um skemmdir hér i héraðinu af völdum veðursins.
Frá fréttaritara Tímans á Seyðisfirði. Ofsaveður á suðvestan gerði á Seyðisfirði aðfaranótt mánudagsins og hélst veðrið lengi dags á mánudag. Hvassast var utarlega í firðinum. Stormbyljirnir náðu ekki með fullri orku inn í fjarðarbotninn. Í fárviðrinu fauk fjós á Vestdalseyri og einnig fauk þar af þak af samkomuhúsi. Lítil hlaða brotnaði einnig í rokinu og rúður fóru mélinu smærra á nokkrum stöðum.
Alþýðublaðið greinir enn frá tjóni í veðrinu í pistli 18.nóvember:
Í ofviðrinu um helgina fauk hlaða á Króki í Ölfusi. Eitthvað af heyi mun hafa fokið líka. Þá fauk á öðrum bæ í Ölfusi herskáli, sent hafður var fyrir hesthús, en engin skepna var í honum. Rúður brotnuðu lítils háttar í gróðurhúsum í Hveragerði. Þykir furðu gegna hve lítið brotnaði þar eins vont og veðrið var.
Seyðisfirði í gær. Talsverðir skaðar urðu hér á Vestdalseyri. Þar fauk allt járn af þaki samkomuhússins og lenti mest allt úti í sjó. Í gærkveldi fuku einnig tvö fjós og ein hlaða á Vestdalseyri. Í öðru fjósinu voru tvær kýr. Tók fyrst þakið ofan af þeim, en síðan hrundu veggirnir, sem að. einhverju leyti voru steyptir, að mestu, og stóðu kýrnar eftir óvarðar á túninu. Í hinu fjósinu var ein kýr. Tók þar af þakið og einnig þak á hlöðu, er stóð við fjósið. Tættist eitthvað talsvert af heyinu, er þakið var farið. Veðrið var hér verst um fjögurleytið í gær, og mátti þá kalla aftakaveður, eftir kl. 8 fór að lægja. en var þó mjög hvasst fram á nótt.
Og Þjóðviljinn 19.nóvember:
Grindavík. Frá fréttaritara Þjóðviljans. Um síðustu helgi gekk fárviðri hér yfir eins og annarstaðar á Suðurlandi. Þakplötur fuku af nokkrum húsum og vegurinn á bryggjuna er ófær. Sjórinn gekk óvenjuhátt, en svo vildi til að ekki var stórstreymt. Bátana sakaði ekki í höfninni, en bryggjan er full af þara og grjóti sem brimið fleygði inn yfir varnargarðinn. Er vegurinn niður á bryggjuna enn ófær vegna grjóts sem sjórinn bar á land.
Alþýðublaðið enn 19.nóvember:
Dalvík í gær. Í ofviðrinu um helgina fauk þak af nýbyggðu íbúðarhúsi á Þorsteinsstöðum í Svarfaðardal. Þurrkaðist þakið alveg af með sperrum og klæðningu. Húsið er steinsteypt og nýlega flutt í það. Mun ekki hafa verið íbúð í rishæð, og hlutust engin slys af þessum atburði. Steinsteypt loft er í húsinu. Ekki hefur hér í nágrenninu orðið annað tjón af veðrinu, nema eitthvað fauk af heyi á Bakka í Svarfaðardal og á Þorsteinsstöðum.
Akureyri í gær: Frést hefur hingað, að um helgina hafi fokið þak af fjárhúsi að Auðnum í Öxnadal. Stóðu kindurnar eftir í tóftinni, en sakaði ekki. Á Krossastöðum á Þelamörk fauk herskáli, sem notaður var fyrir áhaldageymslu. Voru vinnuvélar geymdar í honum og stóðu þær eftir á bersvæði.
Um þessar mundir upphófst umræða um fækkun veðurskipa á Norður-Atlantshafi. Þau voru algjörlega ómissandi fyrir flugumferð á árunum eftir stríð, en bandaríkjamenn reyndust hafa minni og minni áhuga á dýrum rekstri þeirra eftir því sem flugvélar urðu öflugri og langfleygari. Heldur fækkaði þó strax um þetta leyti - en aðalfækkunin varð ekki fyrr en upp úr 1970 og loks lögðust skipin alveg af. Hér er kort sem birtist með frétt í Alþýðublaðinu 14. nóvember.
Morgunblaðið greinir þann 27.nóvember frá áföllum á sjó:
Akureyri 26. nóv. Um lágnættið í nótt reru nokkrar trillur frá Dalvík. Þrjár þeirra réru út fyrir minni Eyjafjarðar og norðfrá Dalvík. Þrjár þeirra réru út fyrir mynni Eyjafjarðar og norðaustan stórveður og sneru bátarnir þá heim á leið. Einn þessara þriggja báti náði til Hríseyjar, annar kom til Dalvíkur kl. rúmlega sex í kvöld, en hins þriðja er saknað og er óttast um hann. Tveggja manna áhöfn er á bátnum.
Ísafirði 26. nóv. Í gær var hér besta veður og fóru flestir bátar, sem byrjaðir eru róðra, á sjó í gærkveldi. Upp úr kl. 3 í nótt gerði norð-vestan áhlaupaveður með snjókomu. Urðu bátarnir þá fljótlega að yfirgefa lóðir sínar, en þeir voru þá rétt byrjaðir að draga línuna. Héðan frá ísafirði voru tveir bátar á sjó, Pólstjarnan og Valtýr. Pólstjarnan missti um 100 lóðir, en Valtýr um 6070. Einnig munu bátar í verstöðvum hér í kring hafa misst meira eða minna af veiðarfærum, eða frá 50100 lóðir hver. Bátarnir munu alls vera um eða yfir tíu.
Veðurlag í Suður-Þingeyjarsýslu er tekið saman í Morgunblaðinu 2.desember:
Fréttabréf úr Suður-Þingeyjarsýslu. Síðasta sumars mun að sjálfsögðu verða minnst, sem eins hins besta og uppskeruauðugasta sumars fyrir íslenskan landbúnað, sem komið hefur á síðari öldum. Vorið var milt svo að aldrei gerði illviðriskarl fram yfir sauðburð. Gróður kom þó ekki snemma og stafaði það af miklu leyti af úrkomuleysi, enda kom varla dropi úr lofti allan sauðburðinn, nema helst inn til dala og í Mývatnssveit, kom gróður þar því dálítið fyrr. Gekk sauðburður framúrskarandi vel og voru lambahöld hvar vetna með ágætum. Er kom fram í júní gerði gróðurtíð svo góða, að jafnvel heyrðist um það talað að grasið sæist spretta á jörðinni. Sláttur byrjaði því hér með fyrra móti eða um 20. júní, næstum því mánuði fyrr en sumarið 1952. Um mánaðamótin júní-júlí komu nokkrir óþurrkadagar. Hraktist hey því nokkuð sums staðar. Hitt var þó verra, að þessa daga varð hlé á túnaslætti og taðan spratt úr sér til stórtjóns á einni viku eða tveimur. Júlímánuður var að öðru leyti þurrviðrasamur og framúrskarandi hagstæður til heyskapar. Það sama má segja um ágúst. Hirtust hey eftir hendinni, sem kallað er, með ágætri verkun. Í september var ennfremur mjög gott tíðarfar, þótt nokkur úrkomuköst gerði í þeim mánuði á köflum.
Fyrir göngurnar komu ágætir þurrkdagar og hirtu þá bændur upp hey sín með bestu verkun. Varð heyskapur hvarvetna meiri en nokkru sinni fyrr og gátu bændur því með ósýnilegri öryggistilfinningu hugsað til ásetningsins á komandi hausti. Telja bændur töðufenginn allt að þriðjungi meiri eftir sumarið, en sumarið næsta á undan. Eins og kunnugt er gerði óvanalegt fjárskaðaveður mánudaginn 12. október. Fram að þeim tíma hafði haustveðráttan verið hlý. Með stórhríðinni 12. október má segja að veturinn hafi tilkynnt komu sína án lítillar vægðar. Snjó hlóð niður í þessari stórhríð. Fé fennti í hundraða tali. Bændurnir lögðu nótt við dag til þess að reyna að bjarga hinu fennta fé og því sem uppistandandi var, hrakið og bjargarsnautt í gaddinum. Þeir vinnudagar voru ekki taldir í stundum. Fjárskaðar urðu tilfinnanlegir hjá mörgum bændum einkum í Aðaldal og Reykjadal, en alls mun hafa týnst og farist um 300 fjár um miðausturhluta héraðsins. Það var óneitanlega óyndislegt fyrir þá bændur, sem hér áttu hlut að máli, að draga bæði dautt og hálfdautt fé sitt upp úr fönninni, jafnvel á túnunum, að hinu ógleymdu, sem aldrei fannst, en kvaldist til dauða undir fannbreiðunum. Flestir telja þetta fjárskaðaveður illvígast sinnar tegundar, sem komið hefur síðan um aldamót. Var það mikið ólán að bændur skyldu ekki sýna þá fyrirhyggju, að smala fé sínu sunnudaginn fyrir hríðina. Máltækið segir: Til þess eru vítin að varast þau. Er nú vonandi að þessi dýrkeypta áminning verði bændum til varnaðar eftirleiðis, er hausta tekur og veður gerast válynd.
Tíminn segir frá hlýindum í frétt þann 10.desember:
Eins og menn muna var svo mikil veðurmildi um þetta leyti i fyrra, að tugir jurta stóðu blómgaðar í görðum og á víðavangi. Blaðið átti í gær tal við Ingólf Davíðsson, grasafræðing, sem manna best fylgist með grösum jarðar, og spurði hann um það, hvort nokkurs staðar sæist blómguð jurt núna. Kvað hann miklu minna um það en í fyrra, en þó hefði hann t.d. séð útsprungna fífla við Tjarnarbrúna í gær.
Enn eitt þrumuveðrið gekk yfir landið suðvestanvert þann 10.desember. Tíminn 11.desember:
Síðdegis í gær gekk hér yfir Suðvesturlandið eitt hið mesta úrhellisregn, sem lengi hefir komið. Gekk á með þrumum og eldingum um tíma, svo að mörgum þótti nóg um. Stafaði þetta af því, að snögg veðraskil gerðust um þetta leyti, og er slíkt ekki ótítt á þessu svæði um þetta leyti árs. Blaðið átti tal við Jónas Jakobsson veðurfræðing um þetta í gærkveldi. Sagði hann að þessi kuldaskil hefðu færst hér yfir Reykjavík um klukkan þrjú. Eftir hádegið hefði rigningin verið geysimikil eða allt að 15 mm. Hiti var þá um 7 stig, en var kominn niður í 2 stig um klukkan níu í gærkveldi. Hér í Reykjavík og nágrenni heyrðust margar þrumur og fylgdu þeim allmiklar eldingar. Fréttaritari blaðsins í Hveragerði sagði, að um klukkan þrjú hefðu gengið þar svo miklar þrumur, að rúður nötruðu og fylgdu þeim miklar eldingar. Ekki var vitað um skemmdir, en rafmagnslaust var í Hveragerði um stund í gær. Síðdegis stytti upp, kyrrði og kólnaði. Í Mosfellssveit og Kjós var þvílíkt steypiregn, að menn muna vart annað eins á skammri stundu. Þrumur og eldingar voru þar miklar. Þegar mest gekk á voru til dæmis konur tvær að talast við í síma milli nágrannahúsa i Mosfellssveit, og vissu þær ekki fyrri til en eldglæringar gneistuðu frá símtækinu. Varð þeim hverft við og lögðu tækin frá sér.
Tíð þótti nú sérlega góð norðanlands og austan. Tíminn segir frá 16.desember:
Einmuna veðurblíða er nú dag hvern á Norður- og Austurlandi Snjó leysir í fjöllum sem á vori, allir fjallvegir frir og mikill vöxtur í ám. Hitinn hefir stundum ver& um 10 stig þessa daga, og leysir snjó ört úr fjöllum og inn til heiða. Hefur vöxtur hlaupið í ár, einkum Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót, og hafa þessi vötn orðið eins og þau verða mest í vorleysingum, sumir segja meira að segja, að ekki hafi eins mikill vöxtur hlaupið í þau síðan 1903.
Tíminn segir af skriðuföllum í Saurbæ 18.desember:
Frá fréttaritara Tímans í Saurbæ. Aðfaranótt miðvikudags [16.desember] var suðvestan hvassviðri í Dölum. Hlupu þá miklar skriður á veginn milli Fagradals og Tjaldaness. Urðu skriðuhlaupin aðallega á fimm kílómetra svæði og er nú vegurinn ófær bifreiðum. Ráðstafanir hafa verið gerðar til að ryðja veginn. Verður byrjað á því í dag eða morgun. Vegurinn er ekki talinn hafa skemmst að ráði.
Og flóð voru austur á Héraði. Morgunblaðið 18.desember:
Skriðuklaustri 14. desember Ennþá haldast stórflóð í vötnum hér í Fljótsdal, enda rigning daga og nætur, og hlýindi svo mikil að leysing er inn til jökla. T.d. hefur hitinn verið um 10 gráður í gær og í dag. Er nú að verða öríst með öllu upp undir heiðabrúnir. Vatnsflaumurinn í Jökulsá og Kelduá er með eindæmum mikill. Gamlir menn muna að um aldamótin síðustu hafi gert svipað flóð, svonefnt Bjarnheiðarflóð, en það er nefnt svo eftir meybarni er þá fæddist í Fljótsdal og þurfti þá að vitja læknis. Nokkurt tjón er orðið af vatnavöxtunum. Í flóðinu aðfaranótt 12. þ.m. fór vatnsflaumurinn yfir veginn á stóru svæði milli brúnna á Jökulsá og Kvíslinni svonefndu og gróf hann sundur, svo að nú er hann ófær bifreiðum, nema að klöngrast má á jeppa. Þá flóði allmikið yfir bakka og upp á Vanþjófsstaðanesið og þar yfir veginn á breiðu svæði, sem liggur þvert niður nesið að brúnum, en haggaði honum ekki nema að þvo burtu það fínasta úr ofaníburðinum. Jökulsá gróf meðfram stíflu í áveituskurði, sem liggur út nesin og féll þar allmikið í. Brúin á Kelduá er eins og dálítil eyja í vatnsflaumnum og er hætt við að áll myndist austan við brúarsporðinn og uppfyllinguna við endann. Sáust merki þeirrar byrjunar eftir minni flóð fyrr í haust. Á vesturbakka Jökulsár við stóru brúna var ýtt upp miklum garði, þegar brúin var byggð og snidduhlaðinn straummegin. Náði hann frá brúarendanum og að hábakkanum, sem er um 80100 m frá ánni að jafnaði. Nú lá vatnsflaumurinn á þessum garði og vatnaði aðeins yfir upp við bakkann. En garður þessi stóðst með ágætum. Víst er, að ef þessi garður hefði ekki verið kominn nú, hefði flóðið gjörsamlega sópað veginum burtu norðvestan við brúna á um 80100 m kafla. Vegurinn hér í Fljótsdal er víða nær ófær fyrir aur og bleytu Jörð öll er orðin ákaflega vatnsmettuð, svo að jafna má til þess er var sumarið 1950 hér í Fljótsdal. En utar í Héraðinu hafa úrkomur verið miklu minni, eins og ávallt er þegar áttin er suðaustlæg og suðlæg. J.P.
Vatnavextir voru einnig á Suðurlandi. Alþýðublaðið 19.desember:
Ölfusá hefur verið í miklum vexti undanfarna daga, og svo mikið var í Hvítá, að í fyrrinótt tók hún að flæða yfir bakka sína á Skeiðum. Var bærinn Útverk umflotinn í gær og engi margra bæja undir vatni.
Milli jóla og nýárs gerði töluvert illviðri. Grein er gerð fyrir því í gömlum hungurdiskapistli: Fárviðrið 30.desember 1953. Verður það ekki endurtekið hér.
Tíminn segir af hárri stöðu Þingvallavatns í pistli þann 30.desember:
Frá fréttaritara Tímans í Þingvallasveit. Undanfarið hefir verið mikil úrkoma hér í Þingvallasveit og vatnavextir að sama skapi. Hefir vatnsborið hækkað mjög í Þingvallavatni og mælist nú hærra vatn i því en nokkru sinni áður, svo vitað sé. Af þeim sökum er nú land við vatnið orðið harla torkennilegt, enda hefir vatnið myndað nýja voga og eyjar við landið, svo landslagi er allt öðruvísi háttað en áður. Þar sem áður voru lægðir og hólar, standa nú aðeins hólkollarnir upp úr og kannast búendur í Þingvallasveit varla orðið við sig, ef þeir koma að vatninu. Yfirborð Þingvallavatns hefir aldrei orðið eins hátt í mannaminnum og nú. Símon Pétursson í Vatnskoti, sem er á áttræðisaldri og fæddur og uppalinn í Þingvallasveit, hefir aldrei séð eins hátt í vatninu. Hann hefir alltaf öðru hverju mælt vatnsborðið og nú mældist honum vatnsborðið vera þrjátíu og tveimur sentímetrum hærra en hæsta vatnsborð, sem mælst hefir áður.
Alþýðublaðið segir af fjölda slysa á árinu 1953 í pistli þann 31.desember:
Árið 1953, sem nú er að líða, hefur verið óvenjumikið slysaár. 78 manns hafa farist af íslendingum hér við land og á landi, þar af eru drukknanir og sjóslys 39, nálega helmingi fleiri en venjulega, og ýmis dauðaslys á landi 24 eða miklu fleiri en venjulega, enda umferðarslys ekki talin þar með. Samkvæmt skýrslu sem Slysavarnafélagið lét Alþýðublaðinu í té í gær fórust með skipum 18, útbyrðis féllu vegna brotsjóa 6, af slysförum dó einn og 14 drukknuðu við land eða í ám og vötnum.
Lýkur hér umfjöllun hungurdiska um árið 1953. Margskonar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 29
- Sl. sólarhring: 128
- Sl. viku: 2476
- Frá upphafi: 2434586
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 2200
- Gestir í dag: 26
- IP-tölur í dag: 25
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Afar fróðleg samantekt, hjá þér að vanda. Hætt er við að í dag væri mikið talað um manngert hamfaraveður, um marga þá veðurhvelli sem gengið hafa yfir landið á því herrans ári 1953. Hafðu góðar þakkir fyrir skrifin.
jakob jónsson (IP-tala skráð) 28.9.2022 kl. 20:58
Eitthvað eru minningar mínar frá þessu ári brotakenndar, þótt ég hafi orðið tólf ára á því herrans ári! Eina sem ég man alveg örugglega til að rifja upp þetta ár er í fyrsta lagi Eddu-slysið, sem var auðvitað það skammt frá okkur að það var mjög mikið um það rætt og verður minnisstætt. Svo var það dauði félaga Stalíns, fróðlegt er að rifja upp hver eftirmæli fékk í Þjóðviljanum sáluga. Svo man ég ekki síst eftir því að hafa fengið í jólagjöf upptrekktan bíl, framleiddan í Austur-Þýzkalandi, sem ég á enn og freistar mjög langömmusnúðanna þar sem hann trónir hér hátt uppi á hillu! - En þakka þér kærlega fyrir þennan stórfróðlega pistil um veðurfar ársins, sem er gott að vita að sé til einhversstaðar.
G.Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 30.9.2022 kl. 10:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.