Allmargar loðnar setningar um hitahneigð

Það er auðvelt að reikna það sem kallað er leitni eða hneigð hita. Verra er hins vegar að finna slíkum reikningum merkingu - og allraerfiðast að nota útkomuna til spádóma um framtíðina. Það er þó hægt ef við höfum fullvissu um ástæður. Við vitum t.d. hvers vegna er almennt hlýrra að degi en að nóttu og hvers vegna sumarið er hlýrra en veturinn. 

Erfiðara er við langtímabreytingar á hita (og veðurlagi) að eiga. Vindáttatíðni ræður að minnsta kosti helmingi hitabreytinga frá ári til árs (hvað svo sem veldur mismunandi vindáttatíðni). Við vitum líka að aukning gróðurhúsalofttegunda ein og sér veldur líka miklum breytingum. Þær breytingar eru þó staðbundið ekki auðgreindar frá ýmsum sveiflum á áratugakvarða - sem almennt eru kallaðar „náttúrulegar“. Slíkur breytileiki er býsna mikill bæði hér á landi sem og annars staðar. 

Hungurdiskar hafa oft áður fjallað um þetta málefni - svo oft að ritstjóranum finnst stundum einfaldlega nóg komið - lesendur geti bara grafið sig niður í gamla pistla - sem þeir gera sjálfsagt fáir. Fyrir þremur árum (nánast upp á dag) birtust tveir pistlar undir fyrirsögnunum „Hversu mikið hefur hlýnað?“ og „Hversu mikið hefur hlýnað? (framhald)“. Í þessum pistlum var fjallað um hitaleitni á Íslandi, bæði ársmeðalhita og einstakra mánaða. Niðurstaðan var sú að menn geti nánast að vild valið sér hitaleitni eftir þörfum hverju sinni. Þær tvær myndir sem hér birtast eru sömu ættar - en við lítum aðeins á meðalhita mánaðanna júní til ágúst.

Sumarhitinn er ekki nærri því eins breytilegur og vetrarhitinn. Það er því fleira sem gæti truflað mæliraðir sumarhitans heldur en mælinga sem gerðar eru að vetrarlagi. 

Áratugasveiflur sumarhitans eru líkar vetrarsveiflunum - þó ekki eins. Til dæmis stóð hlýskeiðið mikla sem kennt er við 20.öld nokkru styttra að sumri en vetri. Segja má að vetrarhlýindi hafi hafist strax 1921 eða 1922 og þeim ekki lokið fyrr en 1965, en sumarhlýindin hófust síðar - ekki fyrr um 5 árum síðar og þeim lauk (að mestu) miklu fyrr, eða um 1950. Sumarið var hins vegar að mestu samstíga vetrinum í upphafi þess hlýskeiðs sem enn stendur. Sumum finnst sumarið ekki hafa sýnt alveg sama úthald og veturinn á núverandi hlýskeiði - og slíkt má líka reikna með leitnileikfimi. 

w-blogg210120b

Myndin hér að ofan á að sýna „tilgangsleysi“ 30-ára leitnireikninga. Hér er meðalhiti mánaðanna júní til ágúst hvert ár í Stykkishólmi notaður. Jú, fyrstu áratugirnir - þeir fyrir 1850 eru býsna óvissir - ættu e.t.v. ekki að vera með (en tilvist þeirra má þó rökstyðja með öðrum og sjálfstæðum hætti). Hér stöldrum við við á 5-ára fresti allt tímabilið og reiknum leitni „síðastliðinna“ 30 ára - og hversu mikið myndi hlýna héldi sú sama leitni áfram í 100 ár. 

Fyrsta tímabilið sem við reiknum er 1809 til 1838. Þá virðast sumur hafa farið mjög hlýnandi - hefði haldið áfram að hlýna jafnmikið í heila öld hefði sumarhitinn hækkað um 3,6 stig - en gerði það auðvitað ekki. Aðeins 10 árum síðar, 1848, virtist hitinn hafa náð „jafnvægi“ - ekkert hafði hlýnað í um 30 ár. Landið var inni í því sem við viljum kalla 19.aldarhlýskeiðið. Síðan kólnaði. Tuttugu árum síðar, 1868, hafði kólnað svo að héldi ámóta kólnum áfram myndu sumur verða -3,4 stigum kaldari eftir 100 ár. 

Við getum haldið áfram að rekja okkur í gegnum myndina. 19.aldarkuldaskeiðið var langt - leitnin varð aldrei mjög mikil - en við sjáum þó að sumur hlýnuðu nokkuð frá 1875 til 1905 - en aftur kólnaði. Svo tók 20.aldarhlýskeiðið snögglega við - á árunum 1909 til 1938 reiknast hlýnunin +3,8 stig á öld. Í raun og veru varð hún á örfáum árum eftir 1925. Hlýskeiðið var  komið í „jafnstöðu“ 1954 (hiti var svipaður allan tímann 1925 til 1954). Svo tók 20.aldarkuldaskeiðið við - sem margir lesendur muna. 

Hlýnun - á 30-ára grunni fór að koma fram 1998 - en virtist í hámarki 1979 til 2008. - Um leið og köldu árin 1979 til 1983 duttu út úr 30-ára tímabilinu virtist sem það hægði á hlýnuninni. Síðasta tímabilið sem við sjáum er 1989 til 2018 - þá hlýnaði sumarið um tæp 4 stig (reiknað til aldar). Við sjáum að hlýnunin mun trúlega sýnast minnka næstu 10 árin - á þeim tíma detta 1990 til 1999 út. Það þýðir þó ekki að veður fari kólnandi. 

Við lítum líka á aðra mynd - aðeins auðveldari.

w-blogg210120c

Hún sýnir 100-ára keðjumeðaltöl mánaðanna júní til ágúst í Stykkishólmi. Fyrsta gildið lengst til vinstri á myndinni nær til tímabilsins 1808 til 1907. Þá var meðalhitinn 9,1 stig, síðasta tímabilið er 1920 til 2019, meðalhiti 9,6 stig. Hefur hækkað um 0,5 stig á 100 árum. Það vekur athygli að eftir 2000 breytist halli línunnar, 0,2 stig hafa bæst við á síðustu 20 árum - aukalega að því er virðist miðað við fyrri leitni. 

En við getum ekki endilega farið að leggja einhverja ákveðna merkingu í hallabreytinguna. Við sjáum að fyrri hlýskeið og kuldaskeið þurrkast út á þessari mynd. Það stafar af því að 19. og 20.aldarhlýskeiðin - og kuldaskeiðin sem þeim fylgdu voru nokkurn veginn í takt. - Eins konar 100 ára sveifla hita (ekki 60, 70 eða 8ö ár, heldur 100). Það hlýskeið sem við nú búum við kom um 20 árum „of snemma“ til að falla inn í þennan takt. Þetta er þó enginn raunverulegur taktur - það er engin regluleg sveifla sem við þekkjum. Hlýskeið og kuldaskeið koma inn í taktleysi - svo miklu að menn geta nánast fundið þann takt sem þeir vilja. 

En upp úr stendur að við þekkjum ekki önnur eins hlýindi og þau sem við nú höfum búið við í um 20 ár - þau eru meiri en áður á mælitímabilinu. Einföldustu skýringuna á því þarf vart að nefna - svo mikið er um hana rætt. Við vitum hins vegar ekkert um framhaldið - kannski sýnir þriðja hundraðárasveiflan sig ofan á þetta - og sumarhlýindi taki frekara stökk upp á við eftir svosem 5 til 7 ár. Kannski er núverandi hlýskeið að hluta snemmbært 30-ára skeið eins og ættingjar 19. og 20.aldar - en sé svo hljótum við að viðurkenna í leiðinni að slík skeið séu langt í frá reglubundin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 132
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband