Hugsað til ársins 1943

Við hugsum nú aftur til ársins 1943 og rifjum lauslega upp veður, veðurfar og fáeina atburði því tengda. Heimsstyrjöld geisaði, landið hernumið, veðurfréttir bannaðar. Veðurathuganir voru þó gerðar - en væri ekki um fastar símalínur að ræða þurfti að nota dulmálslykla. Fáeinir veðurathugunarmenn á útnesjum sendu og sérstök njósnaskeyti vegna skipaferða (um þau veit ritstjóri hungurdiska lítið). Þann 16. mars tók Lögreglan á Akureyri við veðurathugunum þar og hefur sinnt þeim síðan, fyrst við Smáragötu. Næst áður hafði verið athugað við símstöðina við Hafnarstræti 84. 

Á Íslandi skiptast hlý og köld skeið á. Breytingarnar gerast furðusnögglega. Tilfinningin stundum sú að þær gerist á einum degi. Erfitt er þó að finna þá daga - og trúlega eru þeir ekki til. Það er jafnvel erfitt að sjá breytingu þegar hún gerist, en hún verður greinilegri eftir því sem frá líður, ljóst er að nýtt veðurlag hefur tekið völdin. 

Það er ekki auðvelt að finna nákvæmt upphaf hlýskeiðsins mikla sem ríkti á landinu um og fyrir miðja síðustu öld. Einhvers konar veigamikil breyting varð þó á árinu 1920, eftir það er varla hægt að segja að komið hafi kaldur vetur um langt skeið. Sumarhlýindi létu þó bíða eftir sér. Fyrstu sumur þriðja áratugarins voru heldur hráslagaleg og haustin líka. Þó hlýskeiðið sé gjarnan látið hefjast með árinu 1921 má með nokkrum rétti líka halda því fram að það hafi ekki hafist fyrr en 1927. 

Meira að segja eftir það voru ekki allir mánuðir hlýir. Fremur kalt var á árinu 1930 og stakir kaldir vetrarmánuðir komu bæði árið 1935 og 1936. Þó sumur væru flest hlý voru þau mörg hver býsna votviðrasöm, ýmist fyrir sunnan eða norðan - hlýskeiðið var varla samfelld blíða. 

Þegar kom fram um 1940 höfðu menn þó áttað sig á hlýindunum. Jöklar höfðu í lok 19. aldar verið mjög framgengnir, e.t.v. meiri heldur en áður í Íslandssögunni. Sú lítillega hlýnun sem varð undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. olli því að þessi framrás stöðvaðist og jöklarnir tóku að rýrna. Rýrnunin var þó mjög hæg allt þar til sumarhlýindi byrjuðu fyrir alvöru eftir miðjan þriðja áratuginn. Árið 1940, þegar hlýindin höfðu staðið í meir en áratug voru jöklar farnir að láta á sjá svo um munaði. 

Þetta var þó ekki langur tími. Menn bjuggust stöðugt við að veður tæki aftur að kólna, annað hvort til þess horfs sem verið hafði fyrir 1920 - eða jafnvel til þess sem venjulegt var á síðari hluta 19. aldar. Þá rann upp árið 1943 og reyndist þegar upp var staðið vera kaldasta ár hlýskeiðsins fram til þessa - og þar með fyrsti verulegi hikstinn í hlýindunum. Sannleikurinn er hins vegar sá að gæsalappir þarf utan um orðið „kuldi“ í þessu samhengi, því hiti á landsvísu var +0,1 stigi ofan meðallags áranna 1901 til 1930. En samt - . Að auki varð vart við hafís á siglingaleiðum við Norðurland. Hafís var reyndar stutt undan Norðurlandi vorið 1938 en hvarf fljótt á brott. Árið 1943 varð íssins vart við Langanes í febrúar, við norðanverðar Strandir í mars og síðan við Hornstrandir og langt inni á Húnaflóa í júlí og var landfastur um tíma. Árið eftir var enn meiri ís við Norðurland. Fréttir af þessum ís voru hins vegar nokkuð stopular vegna styrjaldarinnar - fregnir af veðri takmarkaðri en venja var, daglegar veðurfréttir bannaðar. Ritstjóri hungurdiska hefur stundum nefnt þessi ár „litlu hafísárin“ til aðskilnaðar frá „hafísárunum“ 1965 til 1971. 

En árið í heild fékk þann dóm að vera heldur óhagstætt hvað tíð og veður snerti. Janúar var kaldur í fyrstu, en síðan hlýr. Nokkuð óstöðugt veður einkum til sjávarins. Slæmt tíðarfar var í febrúar. Fyrst norðaustanátt og kuldar, en síðan miklir rosar. Hiti í tæpu meðallagi. Mars var fyrst kaldur og tíð var óstöðug, en síðan gerði milt og gott veður. Hiti yfir meðallagi í mánuðinum í heild. Í apríl var kalt með köflum og umhleypingasamt. Slæmar gæftir. Fremur kalt var lengst af í maí, óvenjukalt um tíma og tíðarfar talið afskaplega óhagstætt. Gróður var sáralítill og gæftir tregar. Júní var kaldur framan af, en hlýindi síðustu vikuna og rættist þá úr grassprettu. Fremur úrkomusamt. Júlí var fremur hráslagalegur með köflum og votviðrasamur, einkum fyrir norðan. Á Vestfjörðum snjóaði í sjó seint í mánuðinum. Mjög kalt var í ágúst, sérstaklega norðanlands. Mjög þurrt nema norðaustanlands, þar voru miklir óþurrkar. Gæftir misjafnar. Fremur votviðrasamt og kalt var í september, einkum síðari hlutann. Garðuppskera rýr. Gæftir stopular. Norðanlands gerði slæma hríð seint í mánuðinum. Í október var kalt og umhleypingasamt í fyrstu, síðan mildara. Úrkomusamt og gæftalítið. Í nóvember var óstöðugt veðurlag, þó ekki illviðrasamt. Snjólétt. Svipað hélst í desember og var mánuðurinn hlýr. 

Mikið var um sjóslys á árinu, sum tengd veðri, önnur tengd styrjöldinni á einhvern hátt. Langmannskæðasta slysið varð aðfaranótt 18. febrúar þegar strandferðaskipið Þormóður fórst í ofsaveðri úti af Garðskaga með 31 um borð, 7 manna áhöfn og 24 farþega, flestir þeirra voru búsettir á Bíldudal. Nokkrum dögum áður, þann 13. fórst vélbáturinn Draupnir frá Súðavík með 5 mönnum í ofsaveðri og þann 4. mars fór Ársæll úr Njarðvík og með honum fjórir, einn bjargaðist. Enn var það útsynningsofsi sem grandaði skipinu. Fleiri drukknanir urðu. Um haustið fórst annað flutningaskip, Hilmir frá Þingeyri, það var við Snæfellsnes aðfaranótt 27. nóvember, 11 manns voru um borð, þar af fjórir farþegar. Ekki þykir alveg ljóst hvort veður eða eitthvað annað grandaði skipinu. Hilmir var alveg nýtt skip. Þormóðsslysið vakti sérstakan óhug og enn er um það talað þó liðin séu nærri 80 ár. Fyrir nokkrum árum kom út bók þar sem því voru gerð sérstök skil. [„Allt þetta fólk: Þormóðsslysið 18.febrúar 1943“ / Jakob Ágúst Hjálmarsson, 2017]. 

Vísir segir þann 20. febrúar frá slysinu: 

Vísir segir frá þann 20. febrúar:

„Þormóður" var að koma norðan frá Húnaflóa, en þangað fór hann í vöruflutningaferð fyrir Skipaútgerð ríkisins, er hafði það á leigu. Eigandi þess var Gísli Jónsson alþingismaður. Á heimleið kom skipið við á Bíldudal og Patreksfirði, tók þar farþega og eitthvað af vörum. Um hádegi á þriðjudag (16.) lagði skipið af stað frá Patreksfirði, áleiðis til Beykjavíkur. Undir eðlilegum kringumstæðum átti það að vera hér snemma á miðvikudagsmorgun (17.). Á miðvikudaginn reyndi loftskeytastöðin að ná sambandi við „Þormóð", en tókst það ekki fyrr en kl.7 um kvöldið. Sendi „Þormóður" þá svo hljóðandi skeyti: „Slóum Faxabugt. Get ekki sagt um það núna" (þ. e. hvenær skipsins megi vænta til Reykjavíkur). Um líkt leyti sendu tveir farþegar skeyti til ættingja hér syðra - um að öllum liði vel á skipinu, og að þeir væri væntanlegir morguninn eftir. Framkvæmdarstjóri Skipaútgerðar ríkisins, Pálmi Loftsson, bað „Sæbjörgu", sem þá var stödd úti í Flóa, að setja sig í samband við „Þormóð". En um kl. hálf ellefu um kvöldið (17.) sendi „Þormóður" neyðarskeyti frá sér, svohljóðandi: „Erum djúpt úti af Stafnesi. Mikill leki kominn að skipinu. Eina vonin er að hjálpin komi fljótt." Allar ráðstafanir voru gerðar til að fá skip „Þormóði" til hjálpar, en veður var þá svo afskaplegt, að ekki var viðlit að fara út. Eftir þetta heyrðist ekkert framar til „Þormóðs", og er sennilegt, að hann hafi farist skömmu síðar. Á fimmtudagsmorgun (18.) fóru skip og flugvélar að leita ,,Þormóðs" og síðari hluta dags fundu togararnir Gyllir og Arinbjörn hersir brak úr skipinu um 7 sjómílur undan Garðskaga, ennfremur lík af konu. Fór Sæbjörg með líkið og tvo hluti, er fundust úr skipinu, til Reykjavíkur.

Afskaplega órólegt veður var mestallan febrúarmánuð, lægðir gengu hver á fætur annarri nærri landinu eða yfir það. 

Slide1

Myndin sýnir loftvogarsíritann úr Reykjavík vikuna 15. til 22. febrúar 1944. Skaðar urðu af völdum allra þriggja lægðanna sem þrýstiritinn greinir frá. Erfitt er að greina af fréttum nákvæmlega hvenær sumt tjónið var, en Þormóðsslysið varð af völdum þeirrar fyrstu. Lægðarmiðjan fór norðaustur um Grænlandssund og olli miklu hvassviðri af vestri - eins og sjá má af korti hér að neðan. Næsta lægð fór yfir landið norðvestanvert, gríðarkröpp og sú þriðja kom að rétt um sólarhring síðar, en fór fyrir vestan land eins og sú fyrsta. 

Slide2

Íslandskortið hér að ofan gildir að morgni 16. febrúar. Þá var að gera allmikið landssynningsveður. Appelsínugular viðvaranir hefðu nú verið gefnar út. Mikið frost - en skammvinnt var á undan lægðinni - en hlákan sem fylgdi henni var mjög snörp. Síðla nætur 16. fór frost á Akureyri í 16,5 stig [er -12 stig á kortinu], enn var frost kl.15 (1,5 stig), en 5 stiga hiti kl.18 og hiti fór í 8,6 stig kl.3 aðfaranótt 17., hafði þá stigið um 25,1 stig á sólarhring. Þetta er einhver mesta hitabreyting milli sem við vitum um milli sólarhringa á Akureyri. Kl.15 þ.17. var aftur komið frost. 

Hlákan sagði til sín og þann 17. féll snjóflóð úr brekkunni syðst í Fjörunni á Akureyri og skemmdi íbúðarhús. Sömu nótt féll snjóflóð við Skjaldarstaði í Öxnadal og lenti á fjárhúsum og drap 25 kindur. Sólarhringsúrkoma þ. 17. mældist 59,0 mm á Mælifelli í Skagafirði. það mesta sem vitað er um þar á bæ, síðar í sama mánuði, þ.28, mældist sólarhringsúrkoman á Mælifelli 58,0 mm. Þegar mælingar hættu þar 1945 var stöðin flutt að Nautabúi þar sem mælt var til 2004. Mesta sólarhringsúrkoma sem vitað er um þar er 48,0 mm (2. janúar 1954).  

Slide3 

Kortið sýnir stöðuna síðdegis þann 17. Þá er lægðin komin langt norðaustur í haf, um 955 hPa í miðju, en gríðarmikil hæð er suður í hafi, hátt í 1050 hPa í miðju. Bandaríska endurgreiningin nær þessu veðri furðuvel. Þó erfitt sé um það að fullyrða er líklegt að kalt loft ofan af Grænlandsjökli hafi ætt austur um Grænlandshaf til landsins, sjór hefur verið mjög krappur og erfiður. Hvassast varð í Reykjavík kl. 3 aðfaranótt þess 18. 10 vindstig, en hélst síðan í 9 vindstigum þar til eftir kl. 8 að morgni þess 18.

Símabilanir, rafmagnsbilanir og aðrar skemmdir urðu miklar í ofviðrinum Þak fauk af fiskhúsi í Sandgerði. Tjón varð á barnaskólanum á Þingeyri og heyskúrar fuku þar. Ófærð varð víða um land. Veðurkort eru nokkuð tómleg suma dagana vegna símabilana.

Slide4

Næsta lægð var eins og áður sagði mjög kröpp og fór yfir landið að morgni þess 19.  Greiningin nær henni nokkuð vel. 

Þann 16. mars gerði mikið illviðri. Margir vélbátar lentu í hrakningum, ófærð varð mikil á vegum og víða urðu símabilanir. Flutningaskip fórst við Stakkhamarsnes á Snæfellsnesi, mannbjörg varð. Snjóflóð féll úr hlíðinni utantil við Patreksfjarðarkauptún og tók með sér allstórt, steinsteypt hænsnahús, öll hænsnin fórust. Ytri-Rangá stíflaðist af krapi og flæddi yfir bakka sína.

w-blogg090422-april1943

Þann 20.apríl varð mikil ófærð á Hellisheiði syðra, snjódýpt 10 cm í Reykjavík og 28 cm í Grindavík. Kortið sýnir veðrið síðdegis þennan dag. Mikil hríð er á Reykjanesi og norður í Borgarfjörð, sömuleiðis snjóar víða í öðrum landshlutum, en þó minna. Allhvöss suðvestanátt er hins vegar á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og reyndar hægur vindur, andvari af suðvestri á Reykjanesvita - vindur einnig að ganga niður í Grindavík. Skíðamennska var óvenjumikið í fréttum þennan vetur á Suðvesturlandi. Áhugi á skíðamennsku jókst eftir nokkur snjórýr ár. 

Við skulum láta nokkur bréf úr blöðunum lýsa hinu almenna tíðarfari vetrar og fram yfir sumarmál:

Morgunblaðið birti 13. apríl fréttir úr Skagafirði - þar á meðal um tíðarfar:

Tíðarfar hefir verið afleitt síðan í byrjun febrúar, en sérstaklega var þó góunni viðbrugðið, umhleypingarnir og rosarnir þeir sömu og hér syðra, en frostin meiri svo tók fyrir jörð víða í héraðinu. Héraðsvötnin ólguðu yfir Vallhólminn og eylendi Skagafjarðar og færðu allt á kaf, svo vatn gekk í hús og hlöður á nokkrum bæjum. Varð af því stórtjón, drekkti t.d. nær 30 fjár í Syðra-Vallholti. Víða voru öll hross komin á gjöf. Hey eru yfirleitt nægileg, en margir bændur kvörtuðu mjög um að hirðing hrossanna hefði ætlað að verða þeim ofurefli vegna mannfæðar á heimilunum. Nú eru víðast komnir nægir hagar nema á sléttlendi héraðsins. Þar er allt ein klakaþilja yfir að lít, en bæir og peningshús eins og smá eyjar í gaddinum.

Dagur á Akureyri segir 21. apríl:

Tíðarfar var hér mjög erfitt. Umhleypingar meiri en menn muna. Stórfenni hafa skemmt girðingar og sligað og brotið tré í Leyningsskógi. Síðar, þegar hlákur komu, gerði mikil vatnsflóð, sem ollu skemmdum á stöku stað, rann vatn undir hey og inn í hús, og lækir báru möl á engjar.

Í Tímanum 18.maí eru nokkur bréf úr sveitum, skrifuð í apríllok - í lokin er fjallað um kuldatíðina síðast í apríl og framan af maí:

Úr Skaftafellssýslu er skrifað í apríl: — Veturinn, sem senn fer að kveðja, hefir verið mjög umhleypingasamur, jörð hefir notast beitarpeningi illa, og hey gengið mjög til þurrðar. Heybirgðir í haust voru þó undir meðallag, því þó að fólk væri fátt við heyskap síðastliðið sumar, voru víða fyrningar frá undanförnum árum, er bættu það upp er minna heyjaðist í fyrra en venjulega. Fóðurbætir hefir verið hér af skornum skammti í vetur, því menn fengu ekki nærri allt það síldarmjöl, sem þeir báðu um, og töldu víst að fá, og því hefir ekki verið hægt að spara hey eins og ella hefði verið gert. Enn hafa þó allir hey, en knöpp eru þau orðin víða, og engin til að mæta vorharðindum, ef þau skyldu koma.

Úr Múlasýslu er skrifað í apríl: — Veturinn hefir verið misjafn hér um Hérað, og er það ekkert nýtt. Gjafafrekur hefir hann verið alstaðar, þrátt fyrir það þó jarðbönn og snjóalög hafi verið lítil. Olli því ótíð, og misviðri. Á nokkrum stöðum á Úthéraði heyrist talað um að hey muni vera af skornum skammti, enda hafa fáir getað sparað þau með fóðurbætisgjöf, eins og allur fjöldinn þó ætlaði sér að gera, þar sem menn fengu ekki nema nokkurn hluta þess fóðurbætis, er þeir báðu um og töldu víst að fá. Verði gott vor, mun þó fénaður ganga vel undan, en vorharðindi þola fáir, og aflögufærir með hey, ef til vorharðinda kæmi, eru engir svo, að nokkuð dragi heildina.

Af Vesturlandi er skrifað síðast í apríl: — Veturinn hefir verið sá snjóaþyngsti, sem hér hefir komið síðan 1919—1920. Hey hafa því gefist mjög, enda lítill fóðurbætir til að spara þau með, og sjaldan hægt að beita sauðfé. Nú er tíð góð, margir búnir að sleppa fé sínu, og túnavinnsla að byrja. Virðist því allt ætla að enda vel, en tæpara mátti það ekki standa, þar sem alls staðar var orðið lítið um hey, og sumir. alveg búnir.

Úr Norðurlandi er skrifað seint í apríl: — Hér kom áfreði svo taka varð hross öll og gefa inni um tveggja mánaða skeið. Voru þá sums staðar nær hundrað hross á húsi, og þurfti þá tuggu. Hey hafa því mokast upp. Allar gömlu fyrningarnar eru nú uppétnar, svo að ekki koma þær til uppfyllingar á lítinn heyskap í sumar, er kemur, og ekki hjálpa þær yfir næsta vetur. Vonandi þá líka, að núverandi stjórn hafi þann manndóm í sér, að hún þori að gera ráðstafanir til að minnka framkvæmdir á lítt nauðsynlegum nýbyggingum, en það virtist fyrrverandi stjórn ekki hafa, sbr. brot á samningunum við setuliðið í fyrra. Nú er búið að sleppa hrossum og víða líka fé, og vona ég, að allt gangi vel, ef ekki kemur nú harðindakast, en þau hafa svo sem oft komið, þótt sumar hafi verið komið á pappírnum. En við vonum, að svo verði ekki nú, enda geta menn ekki mætt því.

Eftir að ofanritaðir bréfritarar hafa skrifað þessi bréf, hefir svo sem kunnugt er komið kulda- og harðindakast. Norðan lands og austan er kominn mikill snjór, og er þar víða haglaust með öllu. Geta menn því getið sér til um ástandið. Síldarmjöl hefir ekki verið til lengi, og eins og kunnugt er fengu bændur ekki almennt, nema hluta af því síldarmjöli er þeir báðu um, og reiknuðu með að þeir fengju, þegar þeir settu á hey sín síðastliðið haust. Og maísmjölið, sem sumarþingið fól ríkisstjórninni að sjá um að flutt yrði til landsins.og búið var að kaupa í ágúst, var 3/4 hlutum ókomið til landsins um áramót. Menn gátu því ekki sparað hey með fóðurbætisgjöf eins og þeir höfðu ætlað, og því er nú ástandið eins. og það er. Geta þeir nú vart miklast af, er þetta ástand hafa skapað. Ef veðurfarið tekur ekki skjótum breytingum til bata úr þessu, virðist óhjákvæmilegt að stjórnarvöldin fylgist vel með.

Slide5

Snemma í maí gerði verulegt kuldakast. Kortið hér að ofan sýnir upphaf þess, að kvöldi þriðjudags 4.maí. Vestanátt hafði ríkt á landinu þá um daginn en undir kvöld snerist vindur til norðausturs á Vestfjörðum með kólnandi veðri. Nokkuð hvasst varð þann 5. og 6. Í kastinu var vindur fremur hægur köldustu dagana, 7. og 8., en þann 9. fór að hvessa og náði hvassviðrið hámarki að síðdegis þ.10. og fram eftir þann 11. Aftur hvessti um stund þann 12. Síðan fór batnandi. 

Þetta er merkilegt kuldakast. Við eigum til upplýsingar um sólarhringsmeðalhita í Reykjavik flest ár aftur til 1871. Á þeim tíma öllum er 8. maí 1943 kaldastur maídaga. Næstir koma svo 1. maí 1979 og 3. maí 1982. Í Stykkishólmi eru athuganir nær samfelldar aftur til 1846. Þar eru fimm maídagar á 19. öld kaldari heldur en 8. maí 1943, (3.maí 1866 kaldastur), 1. maí 1982 er í tíundakaldasta sæti. Á Akureyri eigum við daglegar upplýsingar á lager aftur til 1936. Þar er 8. maí 1943 líka kaldastur maídaga, næstir koma svo 3. maí 1982 og 1. maí 1979. Lágmarkshiti hefur 2 sinnum verið lægri í Reykjavík í maí en 1943, það var þann 9. árið 1892 og þann 5. árið 1982. Árið 1943 var hámarkshiti sólarhringsins neðan frostmarks 3 daga í röð (7,, 8. og 9.), rétt eins og 1982 (þá 1., 2. og 3.). Slíkir dagar voru líka 3 í maí 1979, en ekki samfellt. 

Hlýjasti kafli sumarsins kom seint í júní og byrjun júlí. Gott var þá um land allt. En síðan kólnaði aftur og afgangur sumarsins varð erfiður fyrir norðan sökum kulda. 

Þann 6. ágúst var eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu:

Þó daglegar veðurfregnir séu bannaðar í blöðunum mun eigi saknæmt að birta þau tíðindi, sem blaðinu hafa borist. Ekki alls fyrir löngu gerði svo mikla snjókomu vestur í Aðalvík að kindur fennti heima við túngarð á bæjunum. Er slíkt fátítt, sem betur fer á þessum tíma árs.

Slide6

Þegar farið er í saumana á veðurathugunum kemur í ljós að síðustu viku júlímánaðar var hríðarhraglandi allmarga daga á Hornströndum. Kannski var hríðin verst þann 27. - kortið sýnir veðrið þá um morguninn. Á Horni í Hornvík er hríð og 2 stiga hiti. Satt best að segja er þetta eitt kuldalegasta veðurkort sem ritstjóri hungurdiska man eftir að hafa séð í júlímánuði. Morguninn eftir, þ.28., var alhvítt í Hornvíkinni.

Eins og áður sagði var ágúst kaldur, einkum þó fyrir norðan. Ekki hefur jafnkaldur ágúst komið síðan á Akureyri og á flestum stöðvum á Norður- og Austurlandi sem hafa athugað síðan þá. Þó var hann hlýrri heldur en ágústmánuðir áranna 1882, 1903, 1907 og 1912. 

Einnig var kalt suðvestanlands, þó ekki jafn afbrigðilega og fyrir norðan. Kvartað var undan næturfrostum í nágrenni Reykjavíkur í fyrri hluta mánaðarins. Ágústmánuður varð einn sá sólríkasti í Reykjavík. 

Morgunblaðið segir þann 13. ágúst:

Svo kalt hefir verið hér undanfarnar nætur að næturfrost hafa stórlega spillt kartöflugrasi. Einkum hefir kartöflugras farið illa, sem náð hefir minnstum vexti er þetta áfall kom. — Má búast við að í sumum görðum verði kartöfluuppskera sáralítil. Þar sem grasið stóð vel, áður en þessi frost komu, stendur það mikið af því, að enn getur ræst úr uppskerunni, ef vel viðrar hér á eftir til haustsins. Eftir veðurfregnum að dæma af Norðurlandi, má búast við, að kartöfluuppskera bregðist alveg í mörgum sveitum.

Miklar rigningar voru austanlands uppúr 20. ágúst. Ekki fréttist þó af tjóni af þeirra völdum. 

Enn var tíð óróleg -  

Alþýðublaðið segir frá brimtjóni í Hnífsdal í frétt 4. september:

Mjög mikið brim var við Vesturland undanfarna sólarhringa og olli það geysilegu tjóni á hafnarmannvirkjum í Hnífsdal. Undanfarið hefir verið unnið að bryggjugerð í þorpinu. Var í fyrradag verið að vinna að því að setja niður 2 steinker, sem eru um 10 metrar á lengd hvort. Var búið að setja annað þeirra niður, þegar veðrið skall yfir og sópaði brimið grjóti langt inn á bátaleguna. Er talið að við þessar hamfarir hafi orðið tjón, sem skiptir tugum þúsunda króna. Hitt kerið mun verða flutt inn til Ísafjarðar — verður það geymt þar í vetur, en síðan sett niður í vor.

Undir lok september gerði mikið hríðarkast, sem náði hámarki þann 24. Mikil línuísing var í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Fé fennti víða á Norðurlandi. Bátar löskuðust í bátalegunni á Litla-Árskógssandi. Alhvítt varð á Eyrarbakka og á Þingvöllum einhvern þessara daga. 

Tíminn segir frá 1. október:

Í fyrri viku gerði mikla stórhríð á Norðurlandi og Vestfjörðum. Mest var hríðin í Húnavatnssýslum og Skagafirði og fennti þar víða fé í stórum stíl í heimahögum. Mörgu af því tókst að bjarga. Vegna þess hvað fréttir eru enn óglöggar, m.a. vegna símabilana, er enn ekki hægt að segja um, hversu mikið tjónið hefir orðið á þennan hátt, en búast má við, að það hafi orðið mjög verulegt. Í Eyjafirði mun hríðin ekki hafa verið eins mikil, en þó mun fé hafa fennt þar; Norðaustanlands var fannkoma minni og hefir ekki frést um fjárskaða þar. Víðast á Norður- og Austurlandi varð allmikið hey úti, skiptir vafalaust samanlagt mörgum þúsundum hesta. Eldsneyti mun og yfirleitt hafa verið úti og kartöflur víðast óuppteknar. Símabilanir urðu miklar, en þær hafa nú verið bættar að mestu. Fjallvegir urðu ófærir, en þeir hafa nú verið mokaðir og eru flestir orðnir bílfærir. Aðrar skemmdir munu hafa orðið nokkrar. Þannig slitnuðu upp fjórir opnir vélbátar á Litla-Árskógslandi, er ráku á land og skemmdust meira og minna.  Kunnugir menn telja sig ekki muna eftir slíkri hríð um þetta leyti árs í marga áratugi.

Í október gerði miklar rigningar, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum. Mælingar sýna meir en 100 mm sólarhringsúrkomu á Seyðisfirði og á Dalatanga kringum þann 20. - en ekki fréttist af tjóni. Aftur á móti fréttist af skriðuföllum og vatnavöxtum á Vestfjörðum þann 10. Mikil skriðuföll urðu í Gilsfirði. Brú yfir Laugadalsá skemmdist og skriðuföll ollu nokkrum skemmdum víðar á Vestfjörðum, m.a. í nágrenni Ísafjarðar. Úrkoma í Stykkishólmi var með því mesta sem gerist þessa daga. 

Aftur urðu vatnavextir og skriðuföll í desember. Morgunblaðið segir frá þann 16.:

Stórrigningar hafa gengið yfir Suðurland undanfarið og hafa víða orðið skemmdir á vegum af völdum vatnsflóða. Skriðuhlaup hafa einnig valdið tjóni víða. Undir Eyjafjöllum braust Kaldaklifsá fram aurana fyrir vestan Hrútafell. Holtsá braut einnig skarð í garðinn vestan árinnar. Samgöngur tepptust í bili á báðum þessum stöðum, vegna vatnsflóðs. En nú hefir fjarað það mikið, að bílar komast áfram. Austur á Síðu hljóp skriða á þjóðveginn austan í Fossnúp. Svo mikið vatn var í Geirlandsá, að bílar komust ekki á brúna. Ekki skemmdist þó brúin. Í Suðursveit í Austur-Skaftafellssýslu urðu víða mikil skriðuhlaup og tjón tilfinnanlegt. Þannig hljóp skriða á túnið á Kálfafellsstað og eyðilagði 2/3 af túninu.

Og nokkrum dögum síðar féll mikil skriða í Bitrufirði á Ströndum: 

Vísir segir frá þriðjudaginn 21. desember:

Tíðindamaður Vísis á Hólmavik skýrir svo frá: „Á laugardaginn [18.] kl. 3:30 féll ægileg grjót- og vatnsskriða á Óspakseyri. Skriðan rann úr holtunum fyrir ofan verslunarhúsin þar á staðnum. Þegar skriðan féll var Þorsteinn kaupfélagsstjóri staddur i búðinni, ásamt mörgu fólki, en það forðaði því frá tortímingu, að fyrir ofan verslunarhúsin, í á að giska 200 metra fjarlægð, stóð fjárhúshlaða úr steinsteypu, 27x28 álnir að ummáli, er tók af þyngsta höggið. Hlaðan færðist til um 4—5 álnir [að 3 m] og mölbrotnaði inn í 200 kinda fjárhús, sem er áfast við hana og gereyðilagðist það einnig. Sem betur fór var ekkert fé i húsinu. Skriðan nær yfir 2—3 hundruð metra breitt svæði og þekur yfir mikinn hluta túnsins, og er allt að 50 álna [30 m] þykk. Mikill hluti skriðunnar rann í sjó fram og orsakaði á að giska 3ja álna [1,8 m] háa flóðöldu, sem gekk á land og flutti burt tvo skúra, sem áfastir voru við sölubúðina. Tveir bátar, sem lágu á kambinum fyrir neðan verslunarhúsin, fóru á flot og fluttust langt til. Brotnaði annar þeirra i spón. Hér er um stórkostlega eyðileggingu á jörðinni og tjón að ræða. Ennfremur urðu símaskemmdir miklar. Útlit er fyrir að ný skriða renni fram þá og þegar“.

Í viðhenginu má finna ýmsar tölur, meðaltöl og útgildi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 34
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 675
  • Frá upphafi: 2351236

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 605
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband