Færsluflokkur: Vísindi og fræði
18.1.2023 | 19:17
Óvenjulegt útlit himins
Þeir sem hafa augun úti hafa efalítið tekið eftir óvenjulegum litbrigðum himinsins í heiðríkjunni þessa dagana - ástandið er nánast óeðlilegt. Mest ber á þessu við sólarupprás og sólarlag, en sést líka á öðrum tímum. Langlíklegasta ástæðan er sú að vatn úr eldgosinu mikla á Tonga-eyjum fyrir ári (15. janúar 2022) hefur loksins náð til heiðhvolfsins hér á norðurslóðum. Hugsanlega eru einhver gosefni önnur einnig á ferð. Sem kunnugt er var sprengingin sérlega öflug (heyrðist til Alaska) og þrýstibylgjan fór mörgum sinnum kringum jörðina.
Sagt er að heiðhvolfið verði mörg ár að jafna sig - þar er að jafnaði mjög lítið af vatni, en það sem þangað berst er lengi að hverfa - enn lengur en aska. Gosið mikla sem varð í Pinatubofjalli á Filippseyjum í júní 1991 olli miklum breytingum á útliti himinsins hér á landi - strax í október það ár og var útlitsbreytingin greinanleg hátt á annað ár - en þá var mikið magn ösku líka á ferð, auk vatnsgufu. Samskipti suður- og norðurhvela jarðar ganga hægt fyrir sig - tæpa fjóra mánuði tók að koma efninu úr Pinatubo hingað norður, en það hefur tekið um ár fyrir efnið úr Tonga-gosinu.
Við höfum meiri reynslu af ásýndarbreytingum himinsins eftir stór öskugos heldur en gos eins og á Tonga. Því er vel þess virði að gefa þessu náttúrufyrirbrigði gaum - og láta það ekki framhjá sér fara.
Ritstjóri hungurdiska stundar myndatökur lítt nú orðið, en sjálfsagt eru margir með myndavélar/síma á lofti þessa dagana.
16.1.2023 | 11:28
Fyrri hluti janúarmánaðar
Fyrri hluti janúar hefur verið óvenjukaldur. Meðalhiti í Reykjavík er -3,2 stig, -3,9 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020. Þetta er langkaldasta janúarbyrjun á öldinni í Reykjavík, en hlýjast var aftur á móti í janúar 2002, meðalhiti þá +4,2 stig. Á langa listanum er hitinn í 131. hlýjasta sæti (af 151) og er sá lægsti síðan 1984. Þá var hins vegar nokkuð illviðrasamt, en nú hefur lengst af farið allvel með veður um meginhluta landsins - að minnsta kosti. Hlýjastur var fyrri hluti janúar 1972, meðalhiti þá +5,9 stig, en kaldast var 1918, meðalhiti -9,5 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú hærri en í Reykjavík, eða -2,5 stig, -1,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -2,5 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
Þetta er kaldasta janúarbyrjun aldarinnar við Faxaflóa, á Ströndum og Norðurlandi vestra, og á Suðaustur- og Suðurlandi. Á Norðausturlandi, Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum er hitinn í 20. hlýjasta sæti (af 23) (fjórðakaldasta).
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, Mest er vikið á Þingvöllum, -6,9 stig, en minnst á Streiti -1,2 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 15,8 mm, ríflegur þriðjungur meðalúrkomu, fjórðaþurrasta janúarbyrjun aldarinnar. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 19,8 mm, rúm 60 prósent meðalúrkomu.
Sólskinsstundir hafa mælst 29,8 í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri í fyrri hluta janúar, það var 1959. Á Akureyri er enn sólarlaust.
14.1.2023 | 16:23
Óvenjumikill munur á mánaðameðalhita
Margir hafa nefnt við ritstjóra hungurdiska hið óvenjulega meðalhitafall milli nóvember- og desembermánaða síðasta árs (2022). Sérlaga hlýtt var í nóvember en kalt í desember. Munur á milli meðalhita mánaðanna var allvíða um og yfir 10 stig, mestur þó á Þingvöllum. (9,0 stig í Reykjavík).
Meðalhiti á Þingvöllum var +4,6 stig í nóvember, en -7,1 stig í desember. Þetta var næsthlýjasti nóvember sem vitað er um (heldur hlýrra var 1945). Desember er aftur á móti sá kaldasti sem vitað er um þar um slóðir. Munurinn á meðalhita mánaðanna tveggja nú var 11,7 stig. Sýnist í fljótu bragði (en þó ekki að alveg óathuguðu máli) að þetta sé mesta hitafall milli meðalhita tveggja mánaða á Íslandi. [Hiti féll um 10,2 stig við Mývatn á milli október og nóvember 1996].
Þetta slær þó ekki út mestu breytingu í hina áttina - meðalhiti í mars 1881 var -19,8 stig á Siglufirði, en +0,1 stig í apríl (munur 19,9 stig). Munurinn milli hita þessara mánaða var 16,3 stig í Stykkishólmi og 15,5 stig í Grímsey (áreiðanlegri meðaltöl heldur en þau frá Siglufirði).
Að meðaltali er munur á hita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins á Þingvöllum 14,8 stig, var mestur 1936, 20,2 stig, en minnstur 10,4 stig, 1972. Árið 2022 var hann 17,5 stig. Samfelldar mælingar á Þingvöllum og nágrenni ná aftur til sumarsins 1934.
11.1.2023 | 10:39
Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar
7.1.2023 | 00:07
Litlar efnislegar breytingar
Ekki er að sjá afgerandi breytingar á veðurlagi á næstunni. Að vísu er ekki alveg jafnkalt framundan eins og hefur verið og eitthvað verður um vind og snjóhraglanda - aðallega þó fyrir norðan og á Vestfjörðum. Vonandi ekki mikið um stórviðri á þessum stórviðrasamasta tíma ársins.
Kortið sýnir spá everópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á morgun (laugardag 7.janúar). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim ráðum við vindstefnu og styrk í miðju veðrahvolfi, en litir sýna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Þykktin yfir Íslandi á að vera nærri meðallagi árstímans á morgun (eða lítillega yfir því) - og því ekki sérlega kalt (víðast hvar).
Við sjáum að heimskautaröstin er nær alls staðar í suðlægri stöðu. Í kringum hana er gjarnan illviðrasamt. Stóru kuldapollarnir eru ekki nærri okkur. Sá vestari (sem við höfum gjarnan til gamans kallað Stóra-Bola er harla aumingjalegur og hefur lengst af verið það það sem af er vetri. Hann hefur að vísu gert einhverjar skyndisóknir til suðurs, bæði um vestanverða Norður-Ameríku og einnig langt suður um Bandaríkin - en þær hafa ekki staðið lengi. Góður kraftur er hins vegar í bróður hans - sem við köllum stundum Síberíu-Blesa. Hann er (eins og oftast) víðs fjarri okkur. Illviðri fylgja oft þessum kuldapollum - fari þeir úr sínum venjulegu bælum - en ekki verður það á okkar slóðum næstu daga.
Þegar svona stendur á eru það helst tvenns konar illviðri sem geta plagað okkur. Annars vegar er það þegar hlýrra loft (ekki endilega mikið hlýrra) sækir fram úr austri eða suðaustri í átt að Grænlandi. Þá þrengir að kalda loftinu þar og það vill þrýstast suðvestur um Grænlandssund - og jafnvel Ísland (ekki fer það í gegnum jökulinn). Þannig staða virðist koma upp nú um helgina og einhverjar gular hríðarviðvaranir eru í gildi í spám Veðurstofunnar - rétt fyrir þá sem eitthvað eiga undir - eða eru á ferðalögum að gefa þeim gaum.
Í stöðu sem þessari getur hins vegar komið upp sú staða sem ritstjórinn kallar öfugsniða - lítillega almennara hugtak heldur en hinn gamalgróni hornriði - en sama eðlis. Norðaustanátt er í neðstu lögum (jaðarlaginu) en suðvestanátt efra. Þá snjóar á Suður- og Suðvesturlandi. Ekki þarf mikið til að þessi staða komi upp hér langt norðan rastarinnar - harla tilviljanakennt og erfitt fyrir líkön og veðurspámenn. Kom þó upp fyrir nokkrum dögum - alveg án nokkurra vandræða.
Reiknimiðstöðvar eru í dag aðallega sammála um að margar næstu lægðir muni halda til austurs fyrir sunnan land - án mikilla áhrifa hér á landi - nema í formi áðurnefndar Grænlandsstíflu. Rétt að taka fram að slíkar stíflur geta orðið mjög illskeyttar - en vonandi erum við ekki að tala um neitt slíkt að þessu sinni. Látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila um spárnar - á hungurdiskum eru ekki gerðar spár.
3.1.2023 | 22:15
Meira af desember
Eins og fram er komið í yfirliti Veðurstofunnar var desember 2022 sá kaldasti í byggðum landsins frá 1973 að telja og sá kaldasti frá 1916 í Reykjavík. Munur á Reykjavíkurhitanum nú og 1916 er ómarktækur. Við þykjumst vita af nokkrum eldri mánuðum enn kaldari. Þrýstifar var óvenjulegt í mánuðinum, gríðarmikil og þaulsetin hæð var við landið og síðar yfir Grænlandi. Meðalþrýstingur mánaðarins varð lítillega hærri í desember 2010, en síðan þarf að leita aftur til 1878 til að finna eitthvað ámóta eða hærra. Við getum kennt óvenjuþrálátri háloftanorðanátt um kuldann. Á tímabili áreiðanlegra háloftaathugana (frá 1949) virðist hún aðeins einu sinni hafa verið ámóta sterk í desember og nú. Það var 2010, en þá nutum við meira skjóls af Grænlandi heldur en nú - (niðurstreymis austan jökuls og tíðari vinda af Grænlandshafi). Endurgreiningar þykjast líka sjá svipaða stöðu og nú bæði 1880, 1925 og 1878. Veðurlag í hinum kalda desember 1973 var með nokkuð öðrum hætti.
Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í desember 2022 og hæðarvik (kortin tvö í pistlinum gerði Bolli Pálmason). Mikill - og óvenjulegur - hæðarhryggur er yfir Grænlandi og beinir hann hingað norðlægum vindáttum. Við Vestur-Grænland er meðalhæðin nærri 260 m yfir meðallagi 1981-2010. Norðvestanátt er ríkjandi yfir Íslandi.
Síðara kortið sýnir einnig hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mesta þykktarvikið er við Austurland meir en -80 metrar. Þar er hiti í neðri hluta veðrahvolfs því um -4 stig neðan meðallags. Almennt er mjög gott samband á milli þykktar og hita á veðurstöðvum, en þó alls ekki fullkomið. Inn til landsins er blöndun oft léleg í neðstu lögum, sérstaklega á hægum dögum og vanmeta þykktarvik þá hitavik stöðva.
Desember í ár var einnig óvenjuþurr, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert og alveg sérlega sólríkur (þar sem fjöll ekki skyggja á), sá langsólríkasti sem við vitum um. Vindhraði var einnig undir meðallagi (þó ekki mjög mikið). Þetta ýtir undir vanmat þykktarinnar á hitavikum. Á Vestfjörðum og við Breiðafjörð þar sem einnig var þurrt og bjart eru áhrif sjávar meiri. Í Bolungarvík og í Stykkishólmi var þannig ekki jafn kalt að tiltölu og í Reykjavík og á stöðum inn til landsins á Suður- og Vesturlandi - meira í ætt við þykktarvikin á kortinu.
Eins og fram hefur komið var nóvember sérlega hlýr á landinu - og þrátt fyrir það varð desember jafnkaldur og raun ber vitni. Lítið samband er á milli hita samliggjandi mánaða hér á landi (nema helst í júlí og ágúst).
En þetta er einn sárafárra kaldra mánaða hér á landi á þessari öld. Vonandi gefst ritstjóra hungurdiska færi á því síðar að sýna það á þessum vettvangi - (en hann vonar líka að aðrir verði fljótari til).
Síðari hluti þessa pistils er ívið erfiðari. Við gerum tilraun til að reikna meðalhita mánaðarins í Stykkishólmi út frá háloftavindáttum og hæð 500 hPa-flatarins eingöngu. Vindurinn er þáttaður í vestan- og sunnanþætti. Reikningarnir sýna að því stríðari sem vestanáttin er, því kaldara er veður, því meiri sem sunnanátt er því hlýrra er (því meiri norðanátt því kaldara) og því hærri sem 500 hPa-hæðin er því hlýrra er í veðri. Myndin skýrist sé hún stækkuð.
Reynt er að giska á hita í desember eftir háloftastöðunni allt aftur til 1921. Ákveðin samfelluvandamál eru í gögnunum, en við gleymum áhyggjum af þeim (í bili). Lárétti ásinn sýnir ágiskaðan desemberhita í Stykkishólmi, en sá lóðrétti þann mælda. Í aðalatriðum er býsna vel giskað (fylgnistuðull er um 0,8 - sem þykir gott í mörgum fræðum). Desember 2022 er meðal þeirra köldustu - um -1,3 stigum kaldari heldur en giskað er á, ásamt desember 1925 og 1974. Ágiskunin fyrir 1973 er mun síðri. Sennilega má finna ástæðu með því að líta á einstaka daga þess mánaðar.
Sams konar rit má gera fyrir Reykjavík.
Svipaðar myndir - nema hvað hér er 2022 á svipuðum stað og 1973 - talsvert kaldari heldur en reiknað var með - varla nokkur mánuður annar jafnlangt frá aðfallslínunni (kannski svipað og desember 1976). Eitthvað hefur því verið kuldanum sérlega hagfellt í þessum nýliðna mánuði. Sennilega er það bjartviðrið og þurrkurinn. Við lítum e.t.v. á það mál síðar (ef eitthvað kemur í ljós).
Jú, desember 1916? Hvernig var hann? Í heimildum hungurdiska segir:
Þurrviðrasöm og lengst af góð tíð suðvestanlands, en harðari með nokkrum snjó norðaustanlands. Kalt. Bátur fórst á Breiðafirði, en ekki eru fréttir af öðrum sköðum (Goðafoss strandaði reyndar við Straumnes þann 30.nóvember). Þann 22. kvarta bæði Morgunblaðið og Suðurland um norðanstorm og kulda. Morgunblaðið segir: Ofsastormur af norðri var hér í gær með hríð á stundum og frosti. Versta veður um land allt. Suðurland: Hér sífelldur norðanstormur og kuldi. 14 stiga frost í dag.
1.1.2023 | 18:19
Áramót
Við höfum mörg undanfarin ár alltaf byrjað nýtt ár hér á hungurdiskum með því að líta á ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 og áfram. Röðin er nú orðin 225 ára löng. Nokkur óvissa er að sjálfsögðu í tölunum fyrstu hálfa öldina - sérstaklega þó fyrir 1830. En við látum okkur hafa það. Línuritið er að sjálfsögðu mjög líkt því sem hér birtist fyrir nokkrum dögum og sýndi meðalhita í byggðum landsins - Stykkishólmshitinn er góður fulltrúi landshitans.
Lárétti ásinn sýnir ártöl, en sá lóðrétti hita. Meðalhiti ársins 2022 er lengst til hægri. Reiknaðist 4,5 stig. Það er -0,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, en nákvæmlega í meðallagi tímabilsins 1991 til 2020, +1,0 stigi ofan meðallags 1961 til 1990 og +0,3 stigum ofan meðallags 1931-1960, +0,7 stigum ofan við meðallag 20. aldar og +1,6 stig ofan meðallags 19. aldar.
Rauða línan sýnir 10-ára keðjumeðaltöl. Það stendur nú í 4,73 stigum, -0,05 stigum lægra en við síðustu áramót og -0,12 stigum lægra en það var fyrir 5 árum, en +0,31 stigi hærra en það var hæst á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld.
Græna línan sýnir 30-ára keðjumeðaltal. Það stendur nú í 4,48 stigum og hefur aldrei verið hærra, +0.28 stigum hærra heldur en það varð hæst á hlýskeiðinu mikla á 20.öld - en nú eru 60 ár síðan það reis (tölulega) hæst. Ekki er ólíklegt að 30-ára meðaltalið hækki enn frekar á næstu árum vegna þess að árið 1993 og þau næstu á eftir voru köld. Til að 30-ára meðaltalið hækki marktækt fram yfir 2030 og þar á eftir þarf hins vegar að bæta í hlýnunina - annað hlýnunarþrep þarf að bætast við til að svo megi verða.
Um slíkt vitum við auðvitað ekki, jafnvel þótt hlýnun haldi áfram á heimsvísu. Meðalhlýnunarleitni fyrir allt þetta tímabil er um +0,8°C á öld - en í smáatriðum hefur hún gengið afskaplega rykkjótt fyrir sig. Sé hlýnun reiknuð á milli toppa hlýskeiðanna tveggja (og séum við nú í toppi) fáum við út töluna +0,5°C á öld. Reiknum við hins vegar hlýnun síðustu 40 árin er hún miklu meiri. Um leitnisveiflur var fjallað nokkuð ítarlega í tveimur pistlum á hungurdiskum fyrir um 6 árum. [Hve mikið hefur hlýnað] og [Hve mikið hefur hlýnað - framhald] - þrátt fyrir árin 6 stendur sá texti í öllum aðalatriðum.
En ritstjóri hungurdiska óskar lesendum árs og friðar á nýju ári. Hann heldur vonandi eitthvað áfram að fjalla um veður og veðurfar, þó aldur og þreyta færist óhjákvæmilega yfir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2022 | 21:24
Fremur hlýtt ár (kaldur desember)
Þótt nú lifi þrír dagar af árinu reiknar ritstjóri hungurdiska meðalhita ársins í byggðum landsins (sér til hugarhægðar). Hann verður nærri 4,2 stigum, +0,1 stigi ofan meðallags áranna 1991 til 2020 (en +1,0 stigi ofan meðallags 1961-1990).
Myndin sýnir reiknaðan meðalhita frá ári til árs (ásamt 10-ára keðjumeðaltali) aftur til ársins 1874 (en eldri meðaltöl eru harla óviss). Við sjáum að árið í ár getur talist í hlýja hópnum sem tók völdin um aldamótin síðustu - og ekki mjög mörg ár á 20. öldinni voru hlýrri en þetta - og enn færri á 19.öld. Þessi fortíð öll segir ekkert um framtíðina - þótt við reiknum hlýnun upp á +1,1 stig á öld.
Heildardesembermyndin er ekki ósvipuð (leitnin sú sama), en aftur á móti var desember nú óvenjukaldur - við vitum ekki enn hvar hann lendir í röðinni, en alla vega nokkuð ljóst að við þurfum að fara aftur til desember 1973 til að finna kaldari. Mjög litlu munar á desember nú og sama mánuði 1974, og desember 2011 er ekki langt undan (þó ívið hlýrri). Svipað var líka 1936, og síðan eru nokkrir desembermánuðir fyrr á öldinni sem eru kaldari, þar á meðal 1916 og 1917. Hinum fyrrnefnda fylgdi hlýr janúar 1917, en gríðarkaldur janúar 1918 elti hinn kalda desember 1917. Langkaldastur er hins vegar desember 1880 - undanfari kaldasta vetrar sem við vitum um.
24.12.2022 | 15:55
Köld háloftalægð
Nú, á aðfangadag jóla er mjög köld háloftalægð að ganga til suðurs skammt fyrir vestan land. Henni fylgja dimmir snjókomubakkar, orðnir til yfir hlýjum sjó sem kyndir undir djúpri veltu í veðrahvolfinu öllu. Leið lægðarinnar liggur þannig að mestur vindur virðist lítt eiga að ná inn á land.
Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl.18 í dag og sýnir hæð 500 hPa-flatarins, hita í honum og vind (hefðbundnar vindörvar). Fjólubláir litir sýna meira en -42 stiga frost og sá dekkri meir en -44 stiga frost. [Ef menn vilja má með góðum vilja sjá jólasvein í mynstrinu] Um hádegi í dag var frostið yfir Keflavíkurflugvelli um -38 stig - og gæti farið niður í -42 til -43 stig í nótt eða á morgun. Desembermetið er -48 stig (frá 1973). Ritstjóranum sýnist að frost hafi síðast farið í meir en -45 stig í 500 hPa-fletinum í desember árið 2010 - þá rétt fyrir jól - og er staðan nú ekki svo ólík stöðunni þá (sjá t.d. hungurdiskapistla frá þeim tíma). Það kuldakast stóð hins vegar ekki í nema rúma viku.
Svo virðist sem spár geri nú ráð fyrir enn einu köldu háloftalægðardragi með snjókomubökkum snemma á þriðjudag. Þeir sem eru á ferð ættu að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar.
Gleðileg jól.
22.12.2022 | 21:33
Ekki lát á kuldatíð
Svo virðist sem ekkert lát sé á kuldatíðinni, staðan nokkuð læst. Norðvestanátt er ríkjandi í háloftum. Með henni berst hvert kuldalægðardragið á fætur öðru yfir Grænland, en þau draga síðan á eftir sér slóða af köldu lofti langt úr norðri meðfram Norðaustur-Grænlandi og í átt til okkar. Ákveðin óvissa er í spám þegar þessi drög fara hjá. Margt kemur þar til. Grænland aflagar vindáttir í mestöllu veðrahvolfinu - en stíflar jafnframt fyrir loft beint úr vestri eða norðvestri. Síðan er birgðastaða kulda við Norðaustur-Grænland nokkuð misjöfn frá degi til dags.
Um síðustu helgi tókst lægðardragi vel upp í úrkomumyndun. Það sauð á kalda loftinu yfir hlýjum sjónum, það drakk í sig raka sem það síðan gat skilað sér aftur niður sem snjókoma á Suðvesturlandi. Úrstreymi í efri lögum varð til þess að uppstreymið gat náð hátt í loft og komist undan til austurs í lofti. Síðan gerðist það að lægð vestur af Bretlandseyjum var að reyna að koma hingað hlýju lofti úr austri á sama tíma (sem olli skriðuföllum og snjóflóðum í Færeyjum). Árekstur varð á milli kalda loftsins (sem þá hafði skilað megninu af úrkomunni aftur frá sér) og þess hlýja - og úr varð mikið norðaustanhvassviðri sem reif upp mestallan þann snjó sem fallið hafði, bjó til ógurlegt kóf og barði hann í skafla - alls staðar þar sem vindur var hægari en annars, t.d. á hringtorgum og við leiðara í vegköntum. Beinlínis undravert hversu mikið efnismagn er hér á hreyfingu. Hættulegar aðstæður.
Í dag (fimmtudaginn 22. desember) hefur slaknað á og morgundagurinn virðist ætla að verða svipaður. Eitthvað snjóar þó í hafáttinni á Norður- og Austurlandi. En nú er annað lægðardrag að koma úr norðri og norðvestri.
Kortið sýnir stöðuna á norðurhveli, eins og evrópureiknimiðstöðin vill hafa hana síðdegis á morgun, Þorláksmessu. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af henni ráðum við vindhraða og stefnu í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykkt, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er, því kaldara er loftið. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Þykktin yfir miðju landi er um 5100 metrar, um 120 metrum lægri en að meðallagi. Það þýðir að hiti er um 6 stigum neðan meðaltalsins. Talsvert kaldara er norðurundan - og sá kuldi sækir heldur að í kjölfar lægðardragsins - sem þarna er ekki fjarri Scoresbysundi á suðurleið. Örin bendir á lægðardragið. Þegar kalda loftið kemur yfir hlýjan sjó myndast strax éljaklakkar (svipað og skúraklakkar yfir hlýju landi síðdegis að sumarlagi). klakkarnir raða sér oft í samfellda garða - séu vindáttarbreytingar (vindsniði) með hæð hagstæðar verður uppstreymið og úrkomumyndunin auðveldari og skipulegri. Þá vex vindur sem auðveldar uppgufun. Allt þetta er háð ýmsum smáatriðum, t.d. getur kalt, grunnstætt loft yfir landinu - og fjöll þess flækst fyrir. Margar ástæðar til þess að jafnvel hin bestu veðurlíkön eiga ekki alveg létt með að benda á hvar og hvenær úrkoma fellur.
Þegar litið er á kortið í heild má sjá að vestanáttahringrásin um norðurhvelið er talsvert trufluð. Sérstaka athygli vekur mjög hlý hæð norður af Síberíu. Hún tekur talsvert rými - og ekki getur kalda loftið verið þar á meðan. Hæðin fer að vísu minnkandi næstu daga - loftið í henni kólnar, en hún flækist samt fyrir þar til tekst að hreinsa leifarnar burt. Mjög snöggt kuldakast leggst nú suður yfir mestöll Bandaríkin - austan Klettafjalla og veldur ábyggilega miklum vandræðum. Það er víðar en hér sem flugfarþegar lenda í vanda og umferð á vegum lendir í steik - slíkt er þrátt fyrir allt nær óhjákvæmilegur hluti veðráttunnar - gerist endrum og sinnum á hverjum einasta bletti jarðarkringlunnar - þótt ýmislegt sé e.t.v. hægt að gera varðandi afleiðingarnar.
Efnislega virðast ekki eiga að verða miklar breytingar næstu viku til tíu daga í nánd við okkur. Þeir sem leggja í ferðalög eiga auðvitað að fylgjast mjög náið með veðurspám - við skilyrði sem þessi er nákvæmni þeirra marga daga fram í tímann mjög ábótavant. Veðurstofan gerir veðurspár (en ritstjóri hungurdiska ekki). Það skapar svo aukna óvissu að ratsjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði virðist í lamasessi - og háloftaathuganir hafa ekki sést frá Keflavíkurflugvelli í meir en viku - hvort tveggja auðvitað algjörlega óviðunandi fyrir þá sem eru að berjast við að gera sem bestar og öruggastar veðurspár. - Ritstjóri hungurdiska hefði einhvern tíma orðið meiriháttarpirraður í þessari stöðu - en hann liggur nú gamall og blauður í sínu fleti og rausar út í loftið - kemur þetta víst ekki við lengur.
En ljúkum þessu með því að líta á úrkomuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl.18 á aðfangadag jóla.
Svo virðist nú sem háloftalægðardragið ætli að gangsetja tvær smálægðir seint á Þorláksmessu. Aðra úti af Vestfjörðum, en hina fyrir norðaustan land. Úrkomubakkar hrings sig um báðar þessar lægðir. Sú fyrir norðan hreyfist til suðvesturs í stefnu á Vestfirði, en hin til suðaustur rétt fyrir suðvestan land. Auk þessa er úrkomubakkinn sem sést á kortinu yfir Suðurlandi nokkuð sjálfstæð myndun. Hans á að byrja að gæta þar um slóðir seint annað kvöld - spurning síðan hvort lægðin suðvesturundan grípur hann upp. Úrkomuóvissa er mest í kringum þennan sjálfstæða bakka - fylgjast ber vel með honum (en ratsjárbilunin gerir að mun erfiðara). Sé þessi spá rétt verður vindur mestur á miðunum - en minni á landi. Allur er þó varinn góður í þeim efnum, því ekki þarf mikinn vind til að búa til kóf úr nýjum snjó sem fellur í miklu frosti.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 68
- Sl. sólarhring: 369
- Sl. viku: 1777
- Frá upphafi: 2484039
Annað
- Innlit í dag: 61
- Innlit sl. viku: 1586
- Gestir í dag: 59
- IP-tölur í dag: 57
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010