Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Síðasti mánuður í háloftunum

Það er ómaksins vert (finnst veðurnördum) að líta á ástandið í veðrahvolfinu miðju síðasta mánuðinn og líta á höfuðdrætti loftstrauma. Okkur til aðstoðar höfum við bandarísku veðurstofuna og teiknitól hennar - þau eru ekki sérlega flott en virka.

w-blogg250112a

Við sjáum hér hálft norðurhvel norðan 38. breiddarbaugs. Óþarflega mikið fer fyrir ríkjaskiptingu á kortinu (Júgóslavía og Sovét lifa þar enn - Þýskaland þó sameinað) en aðalatriðið felst í mýkri heildregnu línunum sem sýna hæð 500 hPa-flatarins í metrum. Þar er 5160 metra línan sem liggur um Ísland. Við sjáum kuldapollinn mikla vestan við Grænland en hann hefur samt ekki verið mjög ógnandi í vetur.

Það þarf nokkuð vant auga til að sjá hvað er óvenjulegt á þessu korti. Einkum vekur athygli að flöturinn stendur neðarlega yfir Íslandi og er um 80 metrum undir langtímameðaltali. Með öðrum orðum þá hefur kuldapollurinn breitt úr sér til suðausturs í átt til Íslands meira heldur en algengast er. Þetta þýðir að landið hefur verið meira í leið lofts frá Kanada heldur en venjulega. Meginstrengur vestanvindabeltisins er líka lengra fyrir sunnan land heldur en að meðaltali.

Ameríska endurgreiningin sem oft er minnst á gerir það mögulegt að leita að ættingjum síðasta mánaðar. Við förum þó ekki sérlega nákvæmlega í það en þuklum á heilum janúarmánuðum (það er auðveldara) frekar en þessu ákveðna tímabili sem tekið er fyrir á myndinni.

Leit letingjans finnur fjóra umsækjendur, janúarmánuði áranna 1957, 1925, 1903 og 1887. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa verið illviðrasamir - illviðrasamari heldur en núlíðandi janúar. Umsagnir þeirra eru svona:

1957: Sæmilega hagstætt framan af, en síðan mjög óhagstætt á S- og V-landi, með mikilli ófærð, illviðrum  og slæmum gæftum. Hlýtt.

1925: Óstöðug tíð og stormasöm. Fremur úrkomusamt, einkum v-lands. Gæftir slæmar. Hiti var yfir meðallagi.

1903: Umhleypingar um miðjan mánuð. Snjór síðari hlutann. Fremur kalt.

1887: Hagleysur og stirð tíð. Mikil útsynningshryðja með mikilli snjókomu sunnan- og vestanlands síðustu vikuna.

2012: Umhleypingar, hagleysur og stirð tíð?


Lægð dettur í sundur

Nú er tækifæri til að sjá lægð detta í sundur fyrir suðvestan land. Við lítum á það.

w-blogg240112b

Kortið er spá hirlam-líkansins um sjávarmálsþrýsting (hPa, heildregnar svartar línur), 3 stunda úrkomumagn (mm, litaðir fletir) og vinda (vindörvar) sem gildir kl. 21 mánudagskvöldið 23. janúar. Þessi tími er liðinn hjá þegar pistillinn er skrifaður (um miðnætti á mánudagskvöldi) en þjónar vel sem byrjunarstaða. Allmikið austsuðaustanhvassviðri nálgast hér landið með snörpu úrkomusvæði. Við getum kallað þetta samskil. Á eftir „skilunum“ fylgir vestsuðvestanátt með hefðbundnum éljum.

Við vesturjaðar kortsins má greina jaðar á litlum lægðarsveip sem hreyfist austur. Þetta er allt saman harla snyrtilegt (þótt veðrið sé subbulegt um hríð á undan „skilunum“). En í spánni sem gildir kl. 18 á morgun (þriðjudag) hefur orðið mikil flækjubreyting. Það sýnir næsta mynd.

w-blogg240112c

Hér eru lægðarmiðjurnar allt í einu orðnar að minnsta kosti sjö. Svarta örin sýnir hreyfingu lægðarinnar sem var alltumlykjandi á fyrra korti en sú bláa sýnir hreyfingu smálægðarinnar rétt vestan kortsins inn á það. Allar þessar lægðir hreyfast nú í bogum utan um eins konar þyngdarpunkt sem er einhvers staðar í flatneskjunni milli þeirra. Þar mun vera miðja háloftalægðarinnar (sem var sýnd í pistlinum í gær).

Það er algengt að lægðir detti í sundur á þennan hátt. Það er varðveisla iðunnar sem hér er á ferðinni. Svo lengi sem þrýstibrattinn norðan við skilin helst mikill heldur stóra sveigjan í kringum lægðina sér. Þegar lægðin fer að grynnast missir lægðin tökin á sveigjunni og hún rúllast upp í marga smáhvirfla - ekkert ósvipað því þegar kappakstursbifreið í stórri beygju missir viðnám og fer að snúast í hringi í kringum sjálfan sig í stað þess að beygja skikkanlega í stóra sveignum. Um leið og þrýstibrattinn minnkar verða til margir smáhvirflar sem sjá um varðveislu snúningsins (iðunnar). Menn geta svo velt vöngum yfir því hvernig samskilin fara að því að detta í sundur. 

Nú má ekki taka tölvuspár af þessu tagi allt of bókstaflega. Reynslan sýnir að þær ráða ekki allt of vel við raunveruleikann sem fellst í því að búa til hvirfla af réttri stærð á réttum stöðum. Greiningarkort á þessum tíma (kl. 18 á þriðjudag) sýnir því e.t.v. ekki nákvæmlega þessa mynd. Margt getur truflað smálægðamyndun af þessu tagi og flókin tölvulíkön þarf til að spá því hvort iðan fer yfir í smáhvirfla eða nýtist í eitthvað annað. Ekki gott að segja.

Háloftalægðin á um síðir að fara norðaustur fyrir land - spurning hvað hungurdiskar fylgjast með því.


Fyrirstöðulítið

Bylgjur vestanvindabeltisins ganga nú fyrirstöðulítið yfir Atlantshaf - misstórar að vísu og misþroskaðar en lítið lát virðist á. Við lítum á norðurhvelsspákort frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir það um hádegi þriðjudaginn 24. janúar.

w-blogg240112a

Rétt er að fara með skýringaþuluna að vanda. Kortið sýnir megnið af norðurhveli jarðar norðan við 30. breiddargráðu, norðurskaut nærri miðju. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið. Lægðirnar í fletinum eru kallaðar kuldapollar og hæðirnar eru hlýir hólar - sem gegna yfirleitt nafninu fyrirstöðuhæðir.

Á kortinu eru tvær slíkar, önnur er í námunda við Úralfjöll og sér hún um að hlýindin norður í Barentshafi og austur með Síberíuströnd halda áfram. Hin fyrirstaðan er við Kamtsjaka og beinir lofti úr Norður-Íshafi suður til Alaska. Hún hefur nú - ásamt lægðinni yfir Alaskabugtinni valdið miklum illviðrum á vesturströnd Norður-Ameríku. Eitthvað hafa fréttir af því borist hingað til lands. Um tíma var neyðarástandi lýst yfir í nokkrum sýslum Oregon- og Washingtonfylkja í Bandaríkjunum. Ótrúleg snjókoma hefur verið á Alaskaströndum.

Við Norðurpólinn stendur flöturinn tiltölulega hátt og lítið þar að gerast í bili. Á Norður-Atlantshafi er nokkuð öflug bylgja - reyndar alveg lokuð lægð - að valda leiðindaveðri hérlendis (þriðjudagur). Sjá má næstu bylgjur í röð þar fyrir vestan, samt tekur væntanlega þrjá daga (þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag) að hreinsa þriðjudagslægðina og afkomendur hennar frá Íslandssvæðinu þannig að næsta bylgja komist að. Of snemmt er að ræða um hana.


Snjóhula í janúar 1924 til 2011

Fylgst hefur verið með snjóhulu hér á landi samfellt síðan síðustu dagana í janúar 1921. Fyrst var aðeins athugað í Reykjavík en síðan bættust fleiri stöðvar við. Landsmeðaltöl eru til aftur til 1924 - auðvitað er óvissa alltaf talsverð og því meiri eftir því sem athugað er á færri stöðvum. En við látum sem ekkert sé og lítum á línurit sem sýnir snjóhulu allra janúarmánaða síðan 1924. Snjóhula er reiknuð í prósentum. Við alhvíta jörð er snjóhulan talin 100%, en 0% sé jörð alauð.

w-blogg220112

Við tökum fyrst eftir því að snjóhula í byggð hefur aldrei orðið 100% í janúar öll þessi ár. Einhverjir auðir eða flekkóttir dagar hafa komið í hverjum mánuði. Þrír mánuðir eru jafnir á toppnum: 1949, 1976 og 1984. Allir þessir janúarmánuðir voru mjög erfiðir. Ekki er alveg víst að þeir hafi þó verið snjóþyngstir sé miðað við snjóhulu og snjódýpt. Gott samband er þó á milli séu stöðvar margar. Það má líka vekja athygli á því að snjóhula getur ekki orðið meiri en 100 prósent, kvarðinn mettast.

Snjóléttast var í janúar 1998, snjóhula í byggð var aðeins 30%, hún var 33% í janúar 1964 og 2002.

Meðalsnjóhula tímabilsins alls er 65%, en meðaltal síðustu 15 ára er aðeins 53%. Bláa línan sýnir eins konar útjafnaða snjóhulu. Áberandi er hversu mjög hún hefur minnkað. Hún virðist hafa verið mun meiri á hlýindaskeiðinu um og fyrir 1940 heldur en á hlýindaskeiði síðustu ára.

Gott samhengi er á milli ársmeðalhita og snjóhulu - en ekki eins gott í einstökum mánuðum. Kemur það ekki síst af áðurnefndri kvarðamettun sem ekki gætir eins mikið í vor- og haustmánuðum eins og um hávetur.

Varla er því að treysta að þessi langtímaleitni haldi áfram - það væri fremur með ólíkindum ef hún gerði það. Við sjáum af línuritinu að mikill áratugamunur er á snjóhulu janúarmánaðar. Tímabilið 1960 til 1973 er t.d. mjög lágt miðað við það sem á undan kom og því sem fylgdi.

En janúar er ekki nema lítill hluti vetrarins, hvað snjóalög varðar er hann varla hálfnaður í lok mánaðarins.

Snjóhula hefur einnig verið metin í fjöllum (500 til 700 metra hæð) frá 1935. Einu sinni náði hún 100 prósentum, það var í janúar 1949, en var minnst í janúar 2010, 67%.

Landinu má skipta í norður- og suðurhluta. Norðurhlutinn nær hér frá Dýrafirði í vestri austur um til Fáskrúðsfjarðar, afgangur landsins telst til suðurhluta þess. Á Suðurlandi er snjóhulan aðeins 49 prósent að meðaltali allt tímabilið, en 76 prósent fyrir norðan.

Snjóhula norðurhlutans hefur fimm sinnum komist í 98 prósent í janúar, 1930, 1939, 1951, 1975 og 1976, en minnst var hún í janúar 1933 og 1947, 39 prósent. Langminnugir ættu að minnast allra þessara sérstöku mánaða.

Snjóhula suðurhluta landsins hefur mest orðið 93 prósent. Það var 1984. Minnst varð hún 10 prósent 1998.  


Heiðasti janúardagurinn (langt er síðan)

Leitin að heiðustu dögum hvers mánaðar síðustu 60 árin rúm er fastur liður á hungurdiskum um þessar mundir. Myndefnið hefur hingað til verið úr góðu safni gervihnattamynda í Dundee í Skotlandi. Þegar heiðasti janúardagurinn er leitaður uppi bregður svo við að fara þarf niður í sjötta sæti á lista heiðustu daga til að finna dag sem myndasafnið nær til. Myndir eru þar til aftur til haustsins 1978. Þessi dagur í sjötta sæti er 23. janúar 1988.

Heiðasti dagurinn er hins vegar 8. janúar 1961. Þrátt fyrir miklar hugarflettingar man ritstjórinn ekki eftir honum. Við leitum því í skjól amerísku endurgreiningarinnar sem hungurdiskar flýja oft í. Í þeirri fullvissu að fastir lesendur (þetta lesa varla aðrir) kunni að lesa í kortið, því það er 500 hPa kort. Í þetta sinn er ekkert á því nema jafnhæðarlínur sem merktar eru í metrum.

w-blogg210112

Ísland  er rétt ofan við mitt kort. Þar er háþrýstisvæði eins og búast mátti við eftir heiðríkjufréttirnar. Hæðin er ekki sérlega veigamikil - aðeins ein jafnhæðarlína umlykur hana og ekki sérlega ofarlega í rófinu - aðeins 5280 metrar. Heimskautaröstin (þéttar jafnhæðarlínur) æðir austur um Atlantshaf til Vestur-Evrópu og grunn lægðarenna er á milli hennar og hæðarinnar.

Hæðir sem þessar geta verið furðu þaulsetnar en svo var ekki með þessa. Rúmum tveimur sólarhringum síðar hafði öflugt lægðdrag sem þarna er rétt utan við kortið í vestri rutt öllu um koll og hér á landi gerði vitlaust veður. Næstheiðasti dagurinn er 14. janúar 1971 og 11. janúar 1963 í þriðja sæti.

Við leitum líka upp daginn sem státar bestu meðalskyggni (enn verri vísindi leitin sú). Það er 30. janúar 2010 - aðeins tvö ár síðan. Munum vér eftir því?

Leitin að skýjaðasta deginum er enn vafasamari - en til er hann - 6. janúar 2009. Skyggnið var að sögn verst 29. janúar 1966 en þá geisaði fádæma norðaustanillviðri á landinu með miklum sköðum. Þar sem ekki snjóaði skóf sjó, sand og mold. Olli særokið ekki raflínuísingu á Suðurnesjum? Það minnir mig.


Af afbrigðilegum janúarmánuðum 2 (austan- og vestanáttir)

Fyrir nokkrum dögum var hér fjallað um þrautseigustu norðan- og sunnanáttarmánuðina sem vitað er um hér á landi. Lítum nú á austan- og vestanáttirnar. Eins og áður er flokkað á fimm vegu - með mismunandi gögnum. Þetta efni er varla áhugavert fyrir aðra en mestu veðurnörd. Alla vega man ég ekki eftir neinum sem hefur viljað fá að vita um hvernig ástandið hefur verið í vindáttarýminu þegar þeir fæddust, þótt það ætti að vera jafnlíklegt til áhrifa og blessaðar stjörnuspárnar. - Ja, kannski ætti maður að fara að gera út á þetta í ellinni - eða hvað?

1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1878. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin  verið. Þrýstingur er langoftast hærri norðanlands heldur en sunnan. Af þeim 134 janúarmánuðum sem hér eru teknir til rannsóknar var þrýstingur hærri sunnanlands aðeins 19 sinnum.

En janúar 1943 er mestur austanáttarjanúarmánaða. Vestanlands var mjög þurrt þrátt fyrir að loftþrýstingur hafi verið lágur. Úrkomusamt var eystra.  Síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst árið 1943 og margir muna sjálfsagt enn eftir þessum mánuði. Þetta ár varð að mörgu leyti erfitt hvað tíðarfar varðaði. Janúar 1948 er í öðru sæti og 1969 í því þriðja.

Tveir janúarmánuðir eru jafnir í efsta vestanáttarsætinu, 1935 og 1992. Mjög hlýtt var í þessum mánuðum báðum og státar janúar 1992 af hæsta meðalhámarkshita á veðurstöð, 8,27°C á Seyðisfirði. Þetta þykir manni ótrúlega há tala en almennt má þakka fyrir ef hámarkið nær slíkum hæðum einn til tvo daga í janúar.

2. Styrkur átta eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Hér eru austanáttarmánuðirnir miklu 1943 og 1948 ekki með, en 1969 er í fyrsta sæti ásamt janúar 1994. Vestanáttin var mest 1983 í sérlega eftirminnilegum illviðra- og umhleypingamánuði með endalausum samgöngutruflunum, snjó og hálku. Næstir koma janúar 1957 og 1949 sem báðir eru einnig frægir fyrir snjó og illviðri. Janúar 1992 er í fimmta sæti.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan-, og suðaustanátta lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874 en hugmynd um ríkjandi áttir höfum við alveg aftur til 1823. Vestanáttin er metin á sama hátt, summa tíðni áttanna suðvesturs, vesturs og norðvesturs.

Hverjir eru mestu austanáttarmánuðirnir? Jú, 1948 og 1943 sem báðir hafa áður komið við sögu. Þá kemur janúar 1883. Í þeim mánuði var góð tíð og snjó leysti af láglendi. Vestanáttin var aftur á mót mest 1933 og síðan 1935, síðarnefndi mánuðurinn kemur hér aftur í toppsæti.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Enn eru 1948 og 1943 í efstu austanáttarsætunum, en mest var vestanáttin 1935 og síðan er 1992 í öðru sæti. Þetta eru óvenjuskýrar línur.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Janúar 1948 heldur sínu í austanáttinni, en janúar 1974 er í öðru sæti - ekki nefndur áður. Mest var vestanáttin í háloftunum í janúar 1923 og litlu minni 1935.

Enn er minnt á að vestanátt ríkir í háloftunum yfir Íslandi en austanátt við jörð. Þetta þýðir að yfir landinu er mikill þykktarbratti - það er að segja að mikill munur er á hita neðri hluta veðrahvolfs sunnan og norðan við land. Allgott samband er á milli háloftavestanáttarinnar og þykktarbrattans þannig að því meiri sem vestanáttin er því meiri er þykktarbrattinn. Sé vestanáttin væg - eða þá að austanátt er ríkjandi í háloftum er hann vægari.

Af þeim 140 árum sem endurgreiningin nær til hefur austanátt verið ríkjandi í háloftunum aðeins átta janúarmánuði. Þykktarbrattinn hefur aldrei verið öfugur, það er að segja að alltaf er hlýrra í janúar sunnan við land heldur en fyrir norðan. Varla eru það mikil tíðindi, munurinn var minnstur í janúar 1972, en mestur 1923.


Aukin kortalæsi (eitt markmiða hungurdiska)

Eitt af áhugamálum hungurdiska er aukin veðurkortalæsi þeirra sem fylgjast með pistlunum. Enn er áhugamálinu vægðarlaust fylgt eftir með litlu sýnidæmi. Það er úr veðurkorta- og tunglmyndahrúgu dagsins í dag. Fyrst tunglmyndin.

w-blogg190112a

Myndin (frekar óskýr) er tekin úr jarðstöðuhnetti 36000 kílómetra yfir miðbaug kl. 23 í kvöld (miðvikudag). Hún birtist á vef Veðurstofunnar en myndir af þessu tagi birtast þar á klukkustundarfresti - séu sambönd í lagi.

Lægðin djúpa sem olli illviðri síðastliðna nótt og síðan frameftir degi er merkt sem L1. Þegar þetta er skrifað (um miðnætti) er veðrinu ekki alveg slotað alls staðar á Austurlandi. Lægðin hefur nú hringað sig upp á hefðbundinn máta langt genginna lægða og má sjá að minnsta kosti tvöfaldan skýjasveip í kringum lægðarmiðjuna.

En lægðin missti hluta af kerfinu til vesturs, til lægðar sem merkt er L2. Á milli þeirra er skýjalindi og er sem þær togist á. L2 grynnist ört. Suður í hafi er smálægðin L3 á hraðri leið til austurs. Lægðir af því tagi eru gjarnan kenndar við lögun skýjakerfisins en því svipar til greinarmerkisins kommu. Lögunin ræðst m.a. af því að loft sem er á leiðinni upp og norður tekur á sig hæðarbeygju (kommuhausinn) en það loft sem er á leið til suðurs og niður fer í lægðarbeygju undir hitt (kommukrókurinn). Ég vil helst kalla þetta riðakommu (en það er sérviska).

Yfir Skotlandi er mjótt hvítt (kalt og hátt) skýjaband. Þar er háloftaröst, vindurinn stefnir eftir langás bandsins.

Hin myndin er spákort ættað frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir hún á miðnætti (nánast á sama tíma og gervihnattarmyndin). Á kortið er hæð 500 hPa-flatarins merkt sem svartar heildregnar línur (í dekametrum) - 504 dam línan liggur í kringum L2  en  L1 er dýpri. L3 sést sem væg bylgja, jafnhæðarlínurnar mynda grunna bylgju. 

w-blogg190112b

Heildregnar litaðar línur sýna hæðarbreytingu síðustu 6 klst, blátt táknar fallandi flöt, en rautt hækkandi. Við sjáum t.d. að L2 er að grynnast (ekkert nema rauðar línur þar) en flóknara mynstur er í kringum L1. Skyggðu fletirnir sýna iðuna (hverfiþunga á flatareiningu) í fletinum. Bleikgrátt táknar lægðariðu (snúning - hægragrip - þumall upp) en blágrátt er hæðariða.

Dæmi dagsins fellst í lauslegum samanburði á gervihattarmyndinni og iðumynstrinu. Við sjáum að skýjavöndullinn í kringum L1 og snúningurinn í kringum L2 falla furðuvel að iðunni í kringum lægðirnar. Lindinn á milli þeirra fellur einnig vel að iðuborðanum sem tengir lægðirnar. Röstin við Skotland kemur - eins og vera ber fram sem borðapar, lægðaborði norðan rastar, en hæðarborði sunnan hennar. Iðan við L3 er óræðari - en þar er þó iðuhnútur.

Af þessu dæmi má vonandi sjá að samband er á milli iðusvæða og veðursins. Meira síðar?

 


Norðaustur með suðausturströndinni

Illviðrislægðin sem hungurdiskar hafa nú fjallað um í tvo daga er að ná fullum þroska og fer til norðausturs með suðausturströndinni í nótt (aðfaranótt miðvikudags). Myndin hér að neðan er tekin kl. 23 að kvöldi þriðjudags og sýnir lægðarmiðjuna skammt suður af landinu. Loftvog féll um 3-5 hPa á klukkustund á undan lægðinni og um tíma var mjög hvasst af austri og norðaustri syðst á landinu. Aðalillviðrið er þó sunnan við lægðarmiðjuna í því sem oft er kallað lægðarsnúður - en líka broddur eða stingur. Vonandi festist eitthvað íslenskt nafn við fyrirbrigðið um síðir.

w-blogg180112

Að sögn tölvulíkana er fárviðri sunnan lægðarmiðjunnar, meira en 32 m/s meðalvindur og vindhviður eru yfir 40 m/s, gríðarmikið yfir opnu hafi þar sem engar þvinganir svosem fjöll verða á vegi vindsins. Enn er ekki alveg ljóst hversu langt norður á bóginn þessi vindstrengur fer, en nái hann inn á land munu fjöll gera enn meir úr hviðunum. Litlu minni vindur er suðvestan lægðarinnar.

Af uppeldislegum ástæðum bendi ég sérstaklega á svæðið sem gula örin liggur yfir. Hvíti skýjabakkinn (háskýin) eru þar farin hjá, en eftir stendur grá þekja lægri skýja. Loftið sem leggst ofan á lágskýin er komið langt að ofan, jafnvel úr neðstu lögum heiðhvolfsins - það er því mjög þurrt. Fyrirbrigðið kallast oft „þurra rifan“. Hún er eitt af einkennum mikillar og skyndilegrar lægðadýpkunar. Hér er þróunin langt gengin.

Sunnan kerfisins eru miklir éljaflókar í köldu lofti frá Kanada. Það streymir til austurs yfir hlýjan sjó og þykktin er innan við 5160 metrar. Þetta loft sækir ekki aðeins til austurs heldur einnig til norðausturs í átt til Íslands. Skilaglaðir myndu e.t.v. segja að þar séu kuldaskil sem sækja fram, ekki fjarri bláleitu strikalínunni á myndinni. Þar er eins konar lindi milli lægðarinnar sunnan Íslands og þeirrar sem liggur við Grænlandsströnd.

Norðanmegin í lindanum er frekar hæg norðaustanátt (nema í ofsanum næst lægðarmiðjunni), en í kalda loftinu er nú vestnorðvestan rok eða ofsaveður sem þokast nær. Til allrar hamingju dofnar að mun yfir þessu veðri eftir því sem það kemur nær Íslandi, en samt er búist við því að kalda loftið falli inn Faxaflóa í fyrramálið - hér verður ekki sagt nákvæmlega hvenær. Ef snjór liggur þá á lausu (vonandi ekki) gerir snarpan byl af vestri. Fylgist með veðurspám og veðri - hungurdiskar spá ekki, munum það.


Hvoru tveggja? Austan- og vestanvið? Eða hvað?

Illa gengur spám að negla niður endanlega braut lægðarinnar sem á að fara hjá annað kvöld (þriðjudagskvöld) og aðra nótt. Hún hefur ýmist verið send til norðurs með vesturströndinni eða þá norður með austurströndinni eða jafnvel tvískipt, grynnri hlutinn vestanvið en sá krappari austanvið land. Ekki verður úr því skorið hér. En við lítum á spá grófasta Hirlam-líkansins, nú kemur Hirlam-spáin í þremur útgáfum til Veðurstofunnar. Það skal tekið fram að í þessu tilviki ber þessum þremur gerðum allvel saman. - Og evrópureiknimiðstöðin og afleiðuspár hennar eru einnig á svipuðu róli. Kortið gildir kl. 18 síðdegis á þriðjudag 17. janúar.

w-blogg170112

Kortið sýnir þrýsting við sjávarmál sem svartar heildregnar línur. Vindur er sem hefðbundnar vindörvar og lituðu svæðin sýna úrkomuákefð, blái liturinn táknar 10 til 15 mm á þremur klukkustundum.

Þegar kortið gildir er lægðin 976 hPa í miðju beint suður af landinu á leið norðnorðaustur. Hún er í foráttuvexti, á að dýpka um 18 hPa á næstu 9 klst (til kl. 3 aðfaranótt miðvikudags). Hirlam reiknar með að um það leyti verði hún yfir Meðallandinu en fari síðan norðaustur með landi til Austfjarða.

Á kortið er einnig merkt lægðardrag (með stóru X). Þessi tvö kerfi rétt missa hvort af öðru - sé að marka spána. Hefðu þau verið nákvæmlega i fasa hefði lægðin krappa farið norður með Vesturlandi, álíka öflug. Þá hefði meginillviðrið hitt á Reykjanes og Faxaflóa.

Á milli lægðarmiðjanna L og X liggur síðan eins konar naflastrengur - úrkomubakki sem ganga á inn á land á aðfaranótt miðvikudags eða undir morgun. Nú er helst útlit fyrir að snarpur hríðarbylur af vestri gæti fylgt bakkanum um suðvestanvert landið, jafnvel þótt hvorug lægðarmiðjan fari þar yfir.

Taka verður fram að í raunveruleikanum eru brautir kerfanna alls ekki fullráðnar þegar þetta er skrifað. Vel má vera að lægðin verði ekki jafnöflug og hirlam-líkanið gerir ráð fyrir, enda hefur hún varla myndast ennþá. Vissara er að fylgjast vel með veðurspám þriðjudagsins.


Tveir dagar - tvær lægðir

Enn stefna lægðirnar í átt til landsins og fara mikinn. Gallinn er sá að óvissa virðist enn með mesta móti í veðurspám - meira að segja er ekki samkomulag um veður eftir tvo daga - á þriðjudaginn. Rétt er fyrir þá sem eiga eitthvað undir veðri eða hafa í huga ferðalög að fylgjast vel með veðurspám frá Veðurstofunni.

En lítum örstutt á næstu tvær lægðir. Sú fyrri er orðin nokkuð þroskuð og á að fara hér hjá strax á morgun (mánudag) - um 300 kílómetra fyrir vestan land. Ætli við sleppum ekki við versta veðrið - en fátt er öruggt í þeim efnum. Ekki er heldur ljóst hvort einhver hríðargusa er í suðurjaðri lægðarinnar. Við lítum nú á gervihnattamynd sem fengin er af vefsíðu Kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada).

w-blogg160112a

Örvar benda á Ísland og Nýfundnaland. Fyrri lægðarmiðjan er merkt sem L1 og eins og sjá má hefur hún náð allgóðum snúningi. Hér tákna gulir og rauðir litir háskreið skýjakerfi. Síðari lægðin er suðaustur af Nýfundnalandi og er reyndar varla orðin til. Þó sjást nú þegar tvö af megineinkennum snarpdýpkandi lægða - brúnin skarpa í norðvesturjaðri skýjaflókans og við sjáum einnig aðkenningu að hausmyndun ofan við staðinn þar sem L-ið hefur verið sett. Þarna er greinilega mikil vindröst í háloftunum með vindsniða til beggja átta.

Það sem spár greinir nú á um er kraftur lægðarinnar L2 - en þær eru nokkurn veginn sammála um braut hennar sem á að liggja yfir vestanvert Ísland á þriðjudagskvöld. Ósamkomulag er því um það hversu hvasst verður og hvort hún veldur vestanhríð á landinu eða ekki. Ekki vita hungurdiskar heldur um það.

En hvers vegna þetta ósamkomulag? Hér er aðeins hægt að giska - og ætli við gerum það ekki þótt jafnliklegt sé að ágiskunin sé mesta bull.

w-blogg160112b

Hér er kort frá evrópureiknimiðstöðinni sem sýnir stöðuna nú þegar pistillinn er skrifaður (um miðnætti aðfaranótt mánudagsins 16. janúar). Þetta er hefðbundin 500 hPa og þykktarspá sem fastir lesendur hungurdiska ættu að vera orðnir vanir. Jafnhæðarlínur eru svartar, heildregnar, í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Rauðar strikalínur sýna þykktina, einnig í dekametrum. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Línan við suðurströnd Íslands sýnir þykktina 5340 metra - ef loftið er blandað gefur hún um 5 stiga hita við jörð. Minna en það þar sem loft blæs yfir frostkalda jörð eða bráðnandi snjó.

Braut lægðanna er sýnd með grænum örvum (athugið að alls ekki er vist að brautirnar verði svona).

Einnig má á kortinu sjá bleikgráa fleti - þeir sýna hvar lægðaiða er mest. Þar eru ýmist borðar eða hnútar. Borðar fylgja háloftavindröstum - afleiðing þess mikla vindsniða sem fylgir röstunum. Hnútarnir koma fram nærri lægðarmiðjum. Hnúturinn við L1 sýnir okkur að þar er lægðarhringrás jafnvel þótt við sjáum ekki lokaða lægð á kortinu. Enginn hnútur er enn við L2 - bara borðar.  

Bláa örin sýnir stefnu kaldasta loftsins á svæðinu það á stefnumót við L2. Þróun hennar virðist fara eftir því hvernig þetta stefnumót heppnast. Hvernig skyldi fara með það? Reiknimiðstöðvar eru ekki sammála.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 227
  • Sl. sólarhring: 334
  • Sl. viku: 1445
  • Frá upphafi: 2485910

Annað

  • Innlit í dag: 207
  • Innlit sl. viku: 1261
  • Gestir í dag: 198
  • IP-tölur í dag: 198

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband