Aldur landsdægurmeta

Stöðugar fréttir berast frá útlöndum um hitametafall, langoftast er verið að tala um met sem tengjast almanaksdegi, hæsti eða lægsti hiti sem mælst hefur viðkomandi almanaksdag, ýmist þá á einstökum veðurstöðvum eða í heilu landi. Það er oft erfitt að ráða í raunverulega merkingu þessara frétta. Þess er til dæmis sjaldan getið hversu löng mælitímabil er miðað við. 

Það gefur auga leið að fyrsta ár sem mælingar eru gerðar á stöð eru hámarks- og lágmarksmet slegin á hverjum degi. Næsta ár verða þau færri - og svo koll af kolli. Á stöð sem athugað hefur í hálfa öld má búast við um 7 hámarks- og 7 lágmarksdægurmetum ár hvert - haldist veðurfar nokkurn veginn óbreytt. Fari veðurfar hlýnandi má búast við því að ný hámarksmet verði flein en lágmarksmetin. Um þetta höfum við fjallað hér á hungurdiskum oftar en einu sinni. „Sæmilegt“ samband reynist milli hlutfalls fjölda nýrra hámarks- og lágmarksdægurmeta á landinu og meðalhita ársins. 

Fyrir allmörgum árum bjó ritstjóri hungurdiska til skrá yfir hæsta og lægsta hita sem mælst hefur á landinu alla daga ársins. Þessi skrá er ekki endilega mjög traustvekjandi. Í henni er fjöldi mælinga sem varla myndu standast nákvæma skoðun. Kemur margt til sem við skulum ekki ergja okkur á hér og nú. Annað sem verður að hafa í huga er að mælihættir hafa breyst á þeim tíma sem lagður er undir. Hámarksmælar voru á fáum stöðvum á árum áður (lágmarksmælar fleiri) auk þess sem mæliskýli hafa breyst. Þrjár aðaltegundir skýla (og fáeinar sjaldgæfari) hafa verið í notkun. Allar tegundirnar hafa kosti og galla, gallarnir koma helst fram einmitt þegar meta er að vænta. Hefðu mælingar verið gerðar á nákvæmlega sama hátt, á sama tíma dags, í eins skýli og með sams konar hitamælum allan tímann væri metaskráin örugglega öðruvísi heldur en hún er - og álitamál önnur (þau yrðu þó alltaf einhver). 

Það sem hér fer að neðan eru ekki harðkjarnavísindi - meira til gamans gert. Ritstjórinn gæti alveg haldið áfram og skrifað fjölmarga pistla um þetta mál - sumir þeirra eru beinlínis að biðja um að vera skrifaðir (og aðrir hafa þegar verið birtir). En það er bara svo margt sem er á biðlistanum. 

Að þessu sinni látum við nægja að líta á tvær myndir (línurit) - nokkuð óvenjuleg. 

w-blogg300423a

Hér má sjá „aldur“ landshámarkshitameta Íslands. Á lóðrétta ásnum eru ártöl, en lárétti ásinn fer í gegnum árið, frá 1. janúar til vinstri til 31. desember til hægri. Við sjáum að elstu dægurmetin hafa haldið út allt frá því á 19. öld, það elsta sett 1885. Yfir veturinn eru mjög fá hámarksdægurmet eldri en 1970 - telja má þau á fingrum beggja handa. Langflest eru þrautseigu metin í kringum sólstöðurnar - og einnig er mikið um gömul met í september. 

Meðalártalið er 1987. 

w-blogg300423b

Lágmarksdægurmetamyndin er nokkuð öðru vísi. Þar eru mjög gömul met talsver fleiri og auk þess má sjá að mjög fá lágmarksdægurhitamet hafa verið sett á síðari árum - en þó eru þau þarna, einna flest í júní og ágúst. Meðalártalið er 1968, 19 árum eldra en hámarksmetameðalárið. Sýnir að meira hefur verið um hámarkshitamet á síðari árum heldur en lágmarksmet. Hér er eingöngu miðað við byggðir landsins. Hálendisathuganir voru fáar fyrr en eftir 1995 og ef við bætum þeim athugunum við fjölgar nýlegum lágmarkshitalandsmetum, meðalárið færist frá 1968 til 1978. Sýnir þetta vel að fjölgun stöðva á köldum stöðvum hefur auðvitað áhrif. 

En minnum aftur á það að saga hámarks- og lágmarkshitamælinga á landinu er ekki einsleit og að sum (eða jafnvel mörg) dægurmetanna standast varla skoðun. 


Snjór á hörpu

Það er ekki mjög algengt að alhvítt sé á athugunartíma að morgni í Reykjavík eftir sumardaginn fyrsta, en gerist þó endrum og sinnum. Eitthvað oftar festir snjó að nóttu sem er svo horfinn að mestu kl.9, þegar mæling er gerð. Sömuleiðis er einhver munur á efri og neðri byggðum höfuðborgarsvæðisins hvað þetta varðar. 

Í morgun (fimmtudaginn 27. apríl) var snjódýpt mæld 11 cm á Veðurstofutúni, en 9 cm í nýja reitnum (Háahlíð). Snjódýptarmælingar hafa verið gerðar reglulega í Reykjavík frá 1921. Svo virðist sem snjór á jörð á þessum tíma árs sé heldur algengari á Veðurstofutúni heldur en var á eldri mælistöðvum (Sjómannaskóli, Reykjavíkurflugvöllur, Landssímahús, Skólavörðustígur). Áður en flutt var á Veðurstofutún hafði snjódýpt aðeins einu sinni mælst 10 cm í Reykjavík svo seint að vori (það var 7.maí 1923). Í þau 50 ár sem stöðin hefur verið þar sem hún er nú hefur það hins vegar gerst 5 sinnum, síðast í morgun. Næsta tilvik á undan var þann 1. maí 2011 (16 cm) - mjög eftirminnilegt tilvik. Þann 27. apríl 1975 mældist snjódýptin 12 cm (svipuð og nú), 13 cm þann 1. maí 1993 og 17 cm þann 1. maí 1987. Það er mesta snjódýpt á hörpu í Reykjavík. Daginn áður, þann 30.apríl 1987 mældist snjódýptin 10 cm. Afskaplega eftirminnilegt. 

Síðast var alhvítt svona seint í Reykjavík 29. apríl 2017, en snjódýpt mældist þá aðeins 2 cm. Eins og áður sagði vitum við um tilvik þar sem alhvítt var í byggðum á höfuðborgarsvæðinu að næturlagi seinna að vori, allt fram í júní. 

Þess má geta að ekki hafði orðið alhvítt í Reykjavík síðan 22. febrúar og voru því - þar til í morgun - smámöguleikar á snjóleysistímameti. En þeir (litlu) möguleikar hafa nú fokið út um gluggann - alauðaskeiðið í ár (hvert sem það svo verður) styttist um rúma tvo mánuði. Ákveðin vonbrigði í heimi metanörda. Í hungurdiskapistli frá því í fyrra má lesa um lengd alauðaskeiðsins í Reykjavík. Má þar sjá að nánast óhugsandi er að slá lengdarmetið frá 1965 (en kannski gerist það einhvern tíma). 


Smálægðaveturinn?

Þegar ritstjórinn horfir út um gluggann á ritstjórnarskrifstofum hungurdiska er jörð orðin hvít. Nokkur viðbrigði frá óvenjulegum hlýindum undanfarinna vikna. Kerfið sem veldur þessari snjókomu er heldur smátt í sniðum - stærðin er sú sem þeir sem vilja flokka allt kalla miðkvarðakerfi (mesóskala). Afskaplega erfið fyrir veðurspámenn - en nákvæm veðurlíkön nútímans eru þó þrátt fyrir allt farin að ráða eitthvað við, eitthvað sem alls ekki var á veðurspárárum ritstjórans fyrir rúmum 40 árum. Það sýndi sig í vetur að smákerfi sem þessi geta haft veruleg áhrif í þjóðfélagi nútímans, jafnvel kostnaðarsamari heldur en á árum áður. Kerfið sem dengdi niður snjó á höfuðborgarsvæðinu skömmu fyrir jól var af þessu tagi (svo tók stærra kerfi við og bjó til hríð úr snjónum). Sömuleiðis má telja kerfið litla sem bjó til snjóinn sem varð aðalefni snjóflóðanna eystra fyrir um mánuði. 

Hvað verður úr því kerfi sem liggur við Suðvesturland einmitt núna er ekki vitað. Það er alla vega mun erfiðara að búa til skafrenning og hríð í apríllok heldur en um hávetur - sólin er orðin dugleg. En veðurlíkön eru samt að gera ráð fyrir mikilli úrkomu næsta sólarhring.

w-blogg260423a

Hér er sólarhringsúrkomuspá uwc-líkansins svonefnda. Sýnir úrkomu sem fellur í líkaninu frá því klukkan 18 í dag (miðvikudag 26. apríl) til kl.18 fimmtudag 27. apríl. Hæsta talan er 64 mm, nærri Garðskaga - það er mjög mikið - og væri feiknamikið ef allt félli sem snjór - sem það gerir varla. Önnur líkön setja hámarksúrkomuna ekki á sama stað - úti á sjó - og hæstu tölur eru ekki þær sömu. Þessar háupplausnarspár eru gerðar á 6 klukkustunda fresti og hvert rennsli flytur hámarkið frá einum stað til annars og sýnir misháar tölur. Ekkert samkomulag um það.

En reikningarnir sýna okkur samt að úrkomumætti loftsins er nokkuð mikið - fái það að lyftast. Mjög lítill vindur er í háloftunum, en svo virðist sem rakt og (til þess að gera) hlýtt loft (sem hefur fengið að malla yfir sjónum við Suður- og Suðvesturland) liggi undir þurru og (til þess að gera) köldu lofti norrænnar ættar.

Viðkvæm jafnvægisstaða - glórulítið fyrir ritstjóra hungurdiska að fabúlera meir um hana. Við sjáum hvað gerist - lýkur smálægðavetrinum mikla með þessu? 

 


Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar

Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar hafa verið óvenjuhlýir að þessu sinni. Meðalhiti í Reykjavík er 6,2 stig, +3,1 stigi ofan meðallags 1991-2020 og +2,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í efsta sæti bæði á aldarlistanum (23 ár) og langa listanum (151 ár). Ólíklegt er þó að mánuðurinn í heild komi til með að hafa úthald á við helstu keppinauta (apríl 2019 og 1974).

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 dagana 6,2 stig, +4,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +3,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Þetta er hlýjasta aprílbyrjun aldarinnar á öllu sunnan- og vestanverðu landinu - og á miðhálendinu, en er næsthlýjust á Norðurlandi og Austurlandi, þriðjahlýjust á Austfjörðum. Miðað við síðustu tíu ár er hitavikið mest á Grímsstöðum á Fjöllum, +4,8 stig, en minnst í Seley, +1,5 stig.

Úrkoma hefur mælst 73,5 mm í Reykjavík og er það um 70 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 18,5 mm og er það nærri meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 84,4 í Reykjavík, um 20 færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 77,4 og er það í meðallagi.


Gleðilegt sumar

Hiti íslenska vetrarmisserisins 2022 til 2023 var afskaplega sveiflukenndur. Nóvember var á landsvísu sá hlýjasti sem vitað er um, desember aftur á móti sérlega kaldur. Janúar var einnig kaldur, en febrúar til þess að gera hlýr. Mars síðan í kaldasta lagi (þó ekki eins og desember). Fyrstu vikur aprílmánaðar hafa síðan verið sérlega hlýjar. Kuldinn hefur þó haft undirtökin. Meðalhiti vetrarins í Reykjavík er +0,8 stig, sá lægsti á öldinni. Veturinn 2000-2001 var þó nánast jafnkaldur (+0,9 stig). Síðan var heldur kaldara veturinn 1999 til 2000 (+0,5 stig). 

w-blogg190423a

Línuritið sýnir meðalhita vetra í Reykjavík aftur til 1920-21. Kaldastur var veturinn 1950 til 1951 (þrátt fyrir almenn hlýindi um það leyti), en hlýjast var veturinn 2002 til 2003, 1928 til 1929 og 1963 til 1964 koma ekki langt þar á eftir. 

Við tökum eftir því að nýliðinn vetur er ekki sérlega kaldur í hinu langa samhengi eldri kynslóðarinnar, aðeins -0,3 stigum neðan meðallags tímabilsins alls og hefði fyrir 40 til 50 árum verið í hópi þeirra hlýrri þess áratugar. Veturnir 1974/75 til og með 1983(84 voru þannig allir kaldari heldur en veturinn nú. 

Leitni tímabilsins í heild er ekki mikil, (+0,2 stig á öld), en hins vegar mjög mikil síðustu 50 ár, hátt í 4 stig á öld. Förum við í hina áttina, til 19. aldar, sýnist leitnin líka býsna mikil - það hefur hlýnað mikið hér á landi síðan þá. Hvað gerist í framtíðinni vitum við auðvitað ekkert um - nema hvað yfirgnæfandi líkur eru á hækkandi hita á heimsvísu. En áður en við freistumst til að framlengja „hlýnun“ síðustu 50 ára hér á landi beint þurfum við að fá slatta af vetrum sem eru ámóta hlýir eða hlýrri heldur en 2002-2003. Ritstjórinn hefur reyndar ekki lent í neinu orðaskaki út af slíkum framlengingum við heimamenn, en aftur á móti hefur því verið illa tekið í orðaskiptum við erlenda bloggara þegar hann hefur bent þeim á að hlýnunin hér á landi eftir 1975 sé kannski ekki alveg dæmigerð og framlengjaleg - þrátt fyrir hina miklu heimshlýnun (sem raunverulega hefur átt sér stað). 

En ritstjóri hungurdiska óskar dyggum lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars. 


Hugsað til ársins 1938

Árið 1938 var tíð hagstæð og hlý lengst af. „Venjulegt ár“, ef eitthvað slíkt er til. Janúar þótti hagstæður framan af, en síðan var nokkuð snjóasamt, gæftir voru stopular. Í febrúar var tíð óhagstæð framan af en síðan talin góð. Mars var nokkuð óstöðugur og stormasamur, gæftir litlar. Í apríl var úrkomusamt vestanlands, en hlýtt á landinu og tíð hagstæð. Maí var hins vegar talinn óhagstæður gróðri og sama má segja um júní, spretta var léleg. Svalt var þá inn til landsins. Í júlí var tíð hagstæð á Suður- og Vesturlandi, en norðan lands og austan var votviðrasamt. Hiti var undir meðallagi. Ágúst þótti hins vegar hagstæður um land allt og sama má segja um september. Í október var óstöðugt veðurlag, talið hagstætt til landsins en síðra til sjávarins. Umhleypingar voru ríkjandi í nóvember og desember, en lengst af var hlýtt í veðri. 

Langmesta hvassviðri ársins gerði aðfaranótt 5.mars og nokkuð skæð snjóflóðahrina gekk yfir í síðari hluta nóvember. Hafís gerði vart við sig í maí. Að öðru leyti var árið fremur veðurtíðindalítið. Gríðarlegt hlaup gerði í Skeiðará seint í maí eftir eldsumbrot undir jökli norður af Grímsvötnum. 

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Blöðin vitna oft til „FÚ“ sem mun vera Fréttastofa útvarpsins. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Sömuleiðis notum við okkur fáeinar tíðarfarslýsingar veðurathugunarmanna. Mikla talnasúpu má finna í viðhenginu. 

Veðurathugunarmenn gefa janúar allgóða einkunn - framan af: 

Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Til þess 20. var ágæt tíð, snjólaust og fremur stillt veður. Síðan hefir verið óstöðug og slæm tíð og reglulegt vetrarveður og allar skepnur á gjöf. Rauð norðurljós sáust hér 25. um kvöldið og fram á nóttina.

Sandur (Heiðrekur Guðmundsson): Góð tíð til þess 13. Sneri þá gjörsamlega við blaðinu. Eftir það snjóasamt og óstillt tíð. Og er í mánaðarlokin jarðlaust víðast hvar hér í grenndinni og allmikil ófærð. En stórfennt er þó ekki, meir jafnfallið.

Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíð yfirleitt góð nema síðustu viku mánaðarins. Þá gerði frost töluverð með snjókomu svo að tók fyrir beit.

Árið hófst með blíðuveðri. Morgunblaðið og Vísir segja almennar fréttir: 

Morgunblaðið 4.janúar; Hvarvetna á landinu er um þessar mundir sögð einmuna veðurblíða. Á Suðurlandi hefir verið rigningasamt undanfarnar vikur, en tíðarfar mjög hlýtt. Víða í lágsveitum á Suðurlandi hefir skotið upp gróðurnál og á nokkrum stöðum eru nýútsprungin blóm í görðum. Á Vestfjörðum hefir einnig verið rigningasamt undanfarið, en tíðarfar afarmilt. Snjór er þar hvergi nema á háfjöllum. Í Húnavatnssýslu er marauð jörð og skaflar aðeins í háfjöllum. Fénaður er hýstur í héraðinu, en mjög lítið er gefið. Bílar ganga viðstöðulaust um héraðið og alla leið til Borgarness. Í Skagafirði og Eyjafirði hefir verið sumarblíða undanfarnar vikur. Vindur hefir jafnan verið sunnan og suðvestan með smáskúrum og veðrátta mjög hlý. Í Þingeyjarsýslum hefir einnig verið langvinn, hæg sunnanátt og hlýindi. Snjólaust er í sveitum, en snjór á heiðum og í fjöllum. Sauðfé er hýst, en mjög lítið gefið. Bílar ganga alla leið milli Akureyrar og Húsavíkur, en Reykjaheiði er talin ófær bílum. Á Austurlandi er einnig sögð einmuna veðurblíða og víðast hvar alautt í byggðum. Víða gengur bæði sauðfé og hross sjálfala. (FÚ)

Vísir 5.janúar: Fréttaritari útvarpsins í Dalvík getur þess að á Völlum í Svarfaðardal séu blóm nýútsprungin. Blómin eru stjúpmóðir og bellis. (FÚ).

Morgunblaðið 9.janúar: En hér úti á Íslandi hafa haldist hin mestu hlýindi, allt fram til síðustu daga, svo Norðlendingar telja, að eigi hafi jafn hlý jólafasta verið í marga áratugi. Hefir jörð víða verið þíð nyrðra allt fram yfir hátíðar, og hitinn oft verið um og yfir 10 stig í lágsveitum. Hér í Reykjavík fannst útsprunginn fífill sunnanundir húsvegg 2. janúar. Svo hlýlega byrjaði þetta ár að veðursæld til, hvað sem það síðar kann að færa.

Helgi Pjeturs jarðfræðingur skrifar grein í Morgunblaðið 15.janúar. Þar varpar hann fram hugmynd sem nú á tímum er jafnvel talin sjálfsögð:

„Oss getur ekki annað en komið til hugar, hvort enn muni verða einsog áður hefir orðið og endurtekist í jarðsögu landsins, að hefjast muni ógurleg gosöld, er hlýnað hefir um hríð og jökulþunga létt af landinu“. 

Upp úr miðjum janúar gerði nokkurn illviðrakafla. Mest kvað að austanveðri þann 18. og suðvestanveðri þann 20.  

Morgunblaðið af illviðrinu aðfaranótt þess 18. í pistli 19.janúar:

Elstu Keflvíkingar segja, að óveðrið í fyrrinótt hafi verið bað versta, sem þeir muna. Tjón varð mikið og a.m.k. tvisvar voru menn hætt komnir. Manntjón varð þó ekkert. Varnargarðar, sem staðið höfðu í áratugi án þess að haggast, skemmdust talsvert. Flestir bátar voru á sjó og í fyrrakvöld fóru þeir inn fyrir hafnargarðinn í Keflavík til þess að losa aflann. Ætluðu þeir að vera þar um nóttina, en milli kl. 4 og 5 í gærmorgun var veðurhæðin orðin svo mikil, að þeir héldust þar ekki lengur við og héldu til Njarðvíkur, í Vogavík og til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Einn báturinn, Reynir, var á leið út úr höfninni er vélin bilaði, og rak hann á land. Allir mennirnir voru í bátnum, en björguðust ómeiddir. Ennfremur slitnaði báturinn Sæborg frá garðinum, en þar var hann vegna vélarbilunar. Tveir menn voru í Sæborg, en þeir björguðust, er báturinn slitnaði, um borð í annan bát. Sæborg rak á land. Þar sem bátana rak upp er stórgrýtisurð og skemmdust þeir því mikið. Mikill hluti af palli hafskipabryggjunnar brotnaði. Skemmdir urðu ennfremur á hafnargarðinum og aðal bátabryggjunni. Nokkur fiskhús löskuðust, t.d. tók alveg gaflinn úr einu þeirra. Í dráttarbraut Keflavíkur brotnaði varnargarður. Fjórir bátar (7—12 smálestir), sem stóðu uppi í brautinni, Ása, Hafaldan, Fram og Egill Skallagrímsson, köstuðust út af garði þeim, sem þeir stóðu á, og skemmdust allmikið. Ennfremur skemmdist bryggja austan til við brautina.

Vísir segir 19.janúar einnig frá tjóni í sama veðri: 

18. jan. FÚ. Aftakaveður gekk síðastliðna nótt yfir allan suðurhluta landsins og olli talsverðu tjóni í verstöðvum á Suðvesturlandi. Í Vestmannaeyjum gerði í gærkveldi afspyrnurok af austri og fylgdi snjókoma. Nokkra þiljubáta, öðru nafni skjökt-báta, tók út úr hrófum og brotnuðu sumir mikið. Íþróttavöllurinn nýi,sem liggur við höfnina, fór allur undir sjó og lá enn undir sjó um nónbil í dag, en það er mjög sjaldgæft að sjór gangi þar svo hátt á land, síðan hafnargarðarnir voru gerðir. Rafleiðslur bæjarins stórskemmdust og víða var í dag ljósalaust í bænum. Á ýmsum stöðum fuku einnig girðingar. Í Keflavik olli óveðrið miklum skemmdum. Tvo báta, Reyni og Sæborg, rak upp í fjöru fyrir innan Vatnsnes, og brotnaði önnur síðan úr Sæborg, en Reynir brotnaði talsvert á báðum hliðum. Menn björguðust úr báðum bátunum. Hafskipabryggjan í Keflavík brotnaði nokkuð, en hvort hafnargarðurinn hefir skemmst, verður enn ekki séð. Á dráttarbrautinni stóðu nokkrir bátar, en sjór og vindur reif þá af sporinu og brotnuðu þeir lítilsháttar. Ýmsar smærri skemmdir urðu á skúrum og bátabryggjum. Í Sandgerði var i gærkveldi aftakaveður af austri og versnaði er á leið nóttina. Varð þar mjög flóðhátt. Bátarnir Óðinn og Ægir, sem lágu við bryggju ásamt fleiri bátum, brotnuðu talsvert en ekki urðu þar aðrar skemmdir. Í Garði varð eitt hið mesta flóð sem menn muna. Á Gauksstöðum braut sjóvarnargarð og í Kothúsum braut aðgerðarhús.

Í Grindavik var í nótt ofsarok af austri með miklum sjávargangi og flóðhæð. Sex opnum vélbátum, sem stóðu í naustunum, kastaði sjór og veður til og skeindi þá meira og minna — þó er hægt að gera við þá alla. Á Hellissandi skemmdust talsvert vélbátarnir Melsted og Grettir og árabátur brotnaði í spón. Sjór féll umhverfis bræðsluhús staðarins og gróf undan því. Húsið ónýttist að mestu og tækin skemmdust en litið eitt. E.s. Edda kom til Englands í dag. Ekkert hafði orðið að skipinu i undanförnu óveðri.

Morgunblaðið segir 26.janúar af norðurljósunum rauðu:

Reykjavík, Vestmannaeyjum, austur í sveitum og sennilega víðar á landinu sáust í gær á lofti rauð norðurljós, sem eru mjög fátíð. Allstaðar þar sem Morgunblaðið frétti til og norðurljósin sáust, óttuðust menn að um bjarma af eldgosi væri að ræða. Hér í Reykjavík studdist sú trú mjög við jarðskjálftakippina, sem urðu í fyrrinótt. [meira]

Ekki er kunnugt um hvar landskjálftakippirnir þrír, sem fundust hér í Reykjavík, áttu
upptök sín. Kippirnir fundust ekki á Reykjanesi og ekki heldur í Hveradölum eða í Borgarfirði. Fyrsti kippurinn fannst kl. 12:36 eftir miðnætti og taldist vera 4—5 stig að styrkleika. Landskjálftamælarnir sýndu hræringar í 12—15 sekúndur. Annar kippurinn kom á sömu mínútu og sá fyrsti. Þriðji jarðskjálftakippurinn kom klukkustund síðar en hinir fyrri. Engar skemmdir urðu af völdum hræringanna, en fólk telur að húsgögn hafi nötrað og brakað hafi í húsum; einnig hrökk fólk upp úr svefni við fyrri kippina.

Morgunblaðið segir 27.janúar frá því að rauð norðurljós hafi sést víðar en hér á landi:

Rauðu norðurljósin sáust á lofti víðast hvar um Evrópu í gærkvöldi. Hér sáust þau um allt land, að því er fréttaritarar Morgunblaðsins úti um land síma. Eins og hér, vöktu norðurljósin víða í Evrópu ýmiskonar misskilning. T.d. var víða kallað á slökkvilið, þar eð álitið var að eldur væri uppi. Þetta kom fyrir í Danmörku, og íbúar í grennd við Windsor-Castle í Englandi, héldu að kastalinn stæði í björtu báli. 

Þann 21. fórst élbátur frá Norðfirði fórst við Norðfjarðarhorn og með honum tveir menn. (Veðráttan).

Allmikill snjór var fyrri hluta febrúar um landið vestanvert, en síðan batnaði tíð. Norðaustan- og austanlands var tíð góð:

Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Febrúarmánuður hefir sýnt okkur í veðurfari það blíðasta og stríðasta, sem þessi vetur hefir haft að bjóða. Tíðin hefir verið mjög breytileg. Fyrrihluta mánaðarins setti niður svo mikinn snjó að vegir urðu ófærir fyrir bíla, nema með miklum snjómokstri, þó varð aldrei haglaust. En seinni partinn gerði svo mikla hláku og blíðutíð að manni gat fundist vera komið vor. Tún og úthagi voru greinilega tekin að grænka, og vegir urðu bílfærir til Norðurlands um Holtavörðuheiði. Mun það einsdæmi á þessum tíma árs. Nú er jörðin aftur alhvít, en snjógrunnt enn, en nú í morgun hleður niður snjó og eykst snjórinn því óðum. Flest hross ganga enn alveg úti.

Lambavatn: Fyrri hluta mánaðarins var hér allstaðar mikill snjór og haglaust. Svo leysti allan snjó úr byggð og nærri alautt á fjöllum. En síðustu daga mánaðarins fennti töluvert.

Reykjahlíð (Jón Á. Pétursson): Febrúar hefur verið með afbrigðum mildur, sérstaklega síðari hlutinn.

Fagridalur (Oddný S. Wiium): Framúrskarandi góð tíð. Úrkomulítið og hægviðrasöm. Snjór hlánaði að mestu og góð beit síðari hluta mánaðarins.

Nokkuð var um ófærðar- og hrakningafréttir framan af mánuðinum. Morgunblaðið segir frá 5.febrúar:

Langleiðir allar frá Reykjavík á bílum, eru nú að teppast vegna snjóa. Bílfært er nú að Álafossi, en ekki að Reykjum eða upp í Mosfellsdal, Austurleiðin er fær um 20 km. frá bænum. Enn er fært til Hafnarfjarðar og suður með sjó að kalla. Þó eru miklir erfiðleikar á að komast á bíl til Sandgerðis og Grindavíkur og í gær var flutningabíll 10 klst á leiðinni frá Njarðvíkum til Reykjavíkur. Mjólk hefir verið flutt austan yfir fjall á snjóbílum og dráttarvögnum, en allir flutningar eru miklum erfiðleikum bundnir og má búast við að þeim verði hætt. Mjólk kemur sjóleiðina frá Borgarnesi, Akranesi og Kjalarnesi.

Um þessar mundir var töluverður áhugi á skíðaferðum í Reykjavík. Morgunblaðið segir 8.febrúar frá hrakningum sem stór hópur þeirra lenti í sunnudaginn 6. febrúar:

Um 800 reykvískir skíðamenn, konur og börn lentu í blindhríð við Lögberg á sunnudaginn og má heita stór mildi að ekkert óhapp eða slys skyldi vilja til. Það voru fjögur félög, sem efndu til skíðaferða á sunnudagsmorguninn: ÍR, Skíðafélag Reykjavíkur, Ármann og KR. Með ÍR voru 240 manns í 15 stórum bílum, en með hinum félögunum voru rúmlega 500 manns í 25 stórum bílum. Veður var hér allsæmilegt á sunnudagsmorguninn um það leyti sem skíðafólkið lagði af stað. Loft var þó þykkt og útlit fyrir snjókomu. Ekki lét fólk hið slæma veðurútlit aftra sér frá að fara í skíðaferðirnar, eftir hinni miklu þátttöku að dæma. Bílarnir komust viðstöðulaust að Lögbergi, þeir sem þangað ætluðu, og voru komnir þangað um kl.10. Austan hvassviðri var þar efra og dálítið fjúk. Strax og bílarnir stöðvuðust á Lögbergi spennti skíðafólk á sig skíðin og hélt í hópum suður fyrir Lögberg upp í Selfell, en þar eru ágætar skíðabrekkur. Vegna þess að vindurinn var norðaustlægur, var erfitt að vera í brekkunum norðan til í Selfelli. Hugðust því margir að fara yfir fjallið og reyna að finna skíðabrekkur sunnan til í fjallinu. Á meðan skíðafólkið var á leiðinni upp Selfell, óx vindurinn stöðugt og klukkan tæplega 11 var skollin á blindhríð, svo ekki sá handa skil. Margir sneru þá strax við að Lögbergi, en flestir munu hafa vonast til þess, að hríðin stæði aðeins stutta stund, og héldu því áfram upp á Selfell eða renndu sér í brekkunum norðan til í fellinu. En hríðin óx í stað þess að minnka, og hríðin var svo svört, að ekki sá út úr augunum, og vindhraðinn var eftir því mikill. Frost var 4—5 stig og frusu því föt og klaki hlóðst í hár og augnabrúnir. Margir höfðu búið sig illa um morguninn og bætti það ekki úr. Klukkan 12 var alveg orðið fullt í íbúðarhúsinu á Lögbergi og stóð þar maður við mann í öllum herbergjum og í fjósinu.

Um klukkan 1 fór fólkið að safnast í bílana og átti þá að leggja af stað í bæinn. Bílstjórarnir vildu helst fara allir af stað í einu, til þess að geta farið hver í hjólför annars. Þurfti þá ekki að moka frá nema fyrsta bílnum. En þegar bílarnir ætluðu að leggja af stað, komust þeir ekki fetið og var tilkynnt, að ekki yrði farið fyrst um sinn, heldur beðið eftir að hríðinni slotaði. Duglegustu skíðamennirnir lögðu þá margir af stað strax gangandi á skíðum til Reykjavíkur. Þótti mörgum það óráð, vegna þess hve hríðin var svört, jafnvel þó undan vindi væri að sækja. Fyrst um klukkan 3 var dálítið lát á hríðinni og þá fór fólk almennt að hugsa til heimferðar gangandi. Margir, sem óvanir voru á skíðum, skildu þau eftir á Lögbergi og fóru fótgangandi í bæinn. Flestir fóru þó á skíðum. Eftir klukkan 3 fór veðrið mjög batnandi, storminn og frostið lægði, en við það versnaði mjög skíðafærið og varð afar þungt. Voru flestir 3—4 klukkustundir frá Lögbergi til bæjarins. Um 60 manns voru eftir á Lögbergi og biðu eftir að bílarnir færu af stað. Bílarnir fóru í tveimur hópum og þurfti að moka undan þeim víða. Bílarnir voru 6 til 8 klukkustundir á leiðinni frá Lögbergi til Reykjavíkur. Á leiðinni til bæjarins tóku bílarnir fjölda fólks, sem var gangandi eða á skíðum og hafði gefist upp. Einnig biðu margir á Baldurshaga eftir bílunum.

Skíðafólk getur margt lært af skíðaferðunum s.l. sunnudag. En fyrst og fremst það, að nauðsynlegt er að búa sig vel út, ekki síst í tvísýnu veðri eins og var s.l. sunnudag. Einnig þurfa forstöðumenn eða fararstjórar félaganna að hafa gát á því, hvert fólkið fer úr bílunum og reyna að sjá til þess, að það haldi sem mest hópinn. Margir voru eflaust hætt komnir á sunnudaginn í hríðinni. Þannig björguðu menn stúlku, sem hafði lagst fyrir í fönninni rétt sunnan við Lögberg. Margir voru villtir og komust ekki að Lögbergi fyrr en hríðinni slotaði. Það var skíðafólkinu almennt til happs að hríðin skall á svo snemma, að fólk var ekki komið langt frá bílunum. Sumir, t.d. ÍR-ingar voru ekki farnir að stíga á skíðin, þegar óveðrið skall á. Þrátt fyrir erfiðleika og nokkra hrakninga hjá sumum, var skíðafólkið allt ánægt með þessa ferð.

Um kl.2:45 síðdegis á sunnudag varð skyndilega allur bærinn ljóslaus og komu ljós ekki aftur fyrr en um kl. 6:25 og þá frá Elliðaárstöðinni. Ástæðan til þess að rafmagnsljósin slokknuðu, var sú, að óvenjumikil ísing hafði sest á einangrara Sogslínunnar og rofið strauminn; þá hafði og brotnað línurofi nálægt Villingavatni og má vera, að þetta hafi einnig verið orsök straumrofsins.

Í hríðarveðrinu s.l. sunnudag hlóð niður svo miklum snjó, hér í bænum, að margar götur urðu ófærar bílum. Strætisvagnarnir hættu að ganga um tíma. Í gær var unnið að snjómokstri og eru nú allar götur orðnar færar. Út úr bænum er bílfært í Hafnarfjörð og að Vífilstöðum. Einnig að Álafossi og austurleiðin að Lögbergi. Þessar leiðir voru mokaðar í gær.

Þann sama dag fórst vélbátur frá Vestmannaeyjum með fimm mönnum, áhöfn og annars báts bjargaðist naumlega við Faxasker. (Veðráttan).

Morgunblaðið segir þann 9.febrúar frá skipbroti við Grímsey mánudaginn 7. febrúar:

Tveir menn úr Grímsey lentu í sjóhrakningum og brutu skip sitt í óveðri og brimi við Grímsey í fyrradag. Á mánudagsmorgun reru 7 bátar úr Grímsey. Veður var þá bjart en brátt tók að hvessa af vestri og kl. 10:30 var komið stórviðri.

Morgunblaðið segir 11.febrúar frá jarðskjálftum á Suðvesturlandi:

Jarðskjálftakippir fundust hér víða við Faxaflóa í gærmorgun og voru, sumir svo snarpir að fólk vaknaði við þá. Fyrstu kippirnir fundust klukkan 4:28 í gærmorgun og héldu þeir síðan áfram öðru hvoru til hádegis. Jarðskjálftanna varð vart víða á Reykjanesi, hér í Reykjavík og á Snæfellsnesi t.d. á Arnarstapa og við Stykkishólm. Morgunblaðið átti tal við dr. Þorkel Þorkelsson Veðurstofustjóra í gærkvöldi. Hafði hann unnið að rannsókn á jarðskjálftunum í gærdag en var ekki búinn að ljúka við rannsóknir sínar í gærkvöldi. Þó taldi hann að upptökin að jarðskjálftakippunum myndu vera um 70—80 km frá Reykjavík og væri ekki útilokað að þeir hefðu átt upptök sín úti í Faxaflóa um 70 km frá landi.

Alþýðublaðið segir þann 11.febrúar frá miklu hríðarveðri á höfuðborgarsvæðinu að kvöldi 10. febrúar: 

Eitt hið versta veður, sem hér hefir komið, skall á í gærkveldi á 10. tímanum. Ekki hefir þó frést ennþá um nein slys af völdum óveðursins, en kl. um 11 í gærkveldi var bílum orðið ófært um göturnar hér innanbæjar, hvað þá í útjöðrum bæjarins og utanbæjar. Margir bílar sátu fastir hér og þar í sköflum í bænum, og sumir skemmdust, en þó ekki mjög mikið. Margir bílar, sem voru á leið um Hafnarfjarðarveginn, sátu fastir í sköflum, og varð fólk að fara gangandi, sumir hingað til Reykjavíkur, en aðrir urðu að gista á leiðinni. Var fólk að koma klukkan að ganga 12 í dag, sem hafði lagt af stað frá Hafnarfirði í gærkveldi. Um kl.4 í nótt var veðrinu svo slotað, að fólk hélt gangandi hingað, sem hafði teppst á leiðinni frá Hafnarfirði. Slysavarnafélaginu hafa ekki borist neinar fregnir um slys utan af landi.

Veðurathugunarmenn tala vel um marsmánuð: 

Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt. Oftast kuldalítið og aldrei mikil snjókoma. Á gjafajörðum hafa skepnur oftast staðið inni. En á beitjörðum alltaf hagar.

Sandur: Mjög gott tíðarfar, lengst af auð jörð eða því sem næst.

Nefbjarnarstaðir: Mjög mild og hagstæð tíð að undanteknu ofviðrinu nóttina milli 5. og 6. [Mesta hvassviðri sem ég man] Kólnaði heldur undir mánaðamótin.

Mikla illviðrasyrpu gerði þann 3. til 5. þegar tvær krappar lægðir fóru yfir landið. Tjón í fyrri lægðinni varð þó miklu minna en í þeirri síðari. Veðráttan segir af tjóni af völdum fyrri lægðarinnar, þann 3:

Smáslys og skemmdir á sjó og landi í hvassviðri. Talsverðar skemmdir á flóði og í brimi í Grindavík, vegurinn að Sandgerði skemmdist í brimi. Mörg færeysk fiskiskip lentu í áföllum undan Suðurlandi, eitt þeirra fórst og með því 17 menn, menn slösuðust á öðrum eða féllu útbyrðis. Togarar fengu á sig áföll og slösuðust nokkrir menn.

Fjallað var sérstaklega um lægðina sem olli illviðrinu þann 5. mars í sérstökum pistli hungurdiska fyrir nokkrum árum og verður það ekki endurtekið hér en heldur ítarlegri grein gerð fyrir tjóninu. Fréttir bárust fyrst af tjóni suðvestanlands, en síðan kom í ljós að það varð mest á Suðurlandi og Austfjörðum.   

Alþýðublaðið segir frá 5.mars:

Eitthvert mesta fárviðri, sem orðið hefir hér í Reykjavík, skall á klukkan tæplega 1 í nótt og olli miklum skemmdum á húsum og mannvirkjum bæði hér í borginni og í nærsveitum. Þær fréttir, sem borist hafa frá verstöðvunum í morgun, benda til þess að það hafi orðið til happs og valdið því að tjónið af veðrinu varð ekki ægilegt, að um það leyti sem veðrið var langverst var fjara. Veðurstofan telur að fárviðrið hafi gengið yfir mestan hluta landsins, en verið mismunandi mikið. Í nótt og í gærkveldi var allhvasst á suðvestan og kl.12 á miðnætti voru 9 vindstig. En um kl.1 snerist áttin skyndilega til vesturs og jafnframt skall yfir eitt hið mesta fárviðri, sem menn muna hér um slóðir. Sagði Veðurstofan í morgun í viðtali við Alþýðublaðið, að veðurhæðin hefði verið frá kl.1—2 að minnsta kosti 12 vindstíg. Gekk jafnframt á með hryðjum, og var í timburhúsum eins og allt ætlaði af göflunum að ganga. Mun mjög mörgum bæjarbúum hafa orðið lítið svefnsamt fyrri hluta næturinnar.

Akranes: Þar var veðrið mest kl. 12—2 og var þá fjara og mun það hafa bjargað mörgum bátum, smávegis skemmdir urðu á einstaka húsi, en hvergi verulegar. Keflavík: Þar var svo vont veður með roki og rigningu að menn muna ekki annað eins um fjölda ára bil. Urðu þó ekki miklar skemmdir. Þak fauk af húsi og járnplötur rifnuðu af þökum. Einn fiskibátur, sem lá á höfninni hvarf, er helst talið líklegt að hann hafi sokkið. Sandgerði: Þar var hið versta veður, sem menn muna og var það ægilegast á tímanum kl. 12 til 2. Varð þó furðu lítið af skemmdum. Einn bát rak á legunni og laskaðist, en þó ekki alvarlega. Grindavík: Þar var mjög flóðhátt og verra veður en menn muna öðru sinni. Skemmdir urðu þó ekki miklar, en í fyrradag [3.] urðu þar miklar skemmdir af flóði og brimi. Stykkishólmur og Sandur. Á báðum stöðunum var veður mjög slæmt, aðallega á tímanum kl. 12—3 í nótt. En engar skemmdir voru kunnar, þegar blaðið talaði við fréttaritara sína. Eyrarbakki: Þar var veðrið meira en menn muna og urðu miklar skemmdir á húsum. Þakið fauk af barnaskólanum og kastaðist langar leiðir. Veiðarfærahjallur Jóns Helgasonar fauk um og skemmdust ýmis tæki. Reykháfar fuku af húsum og ýmsar aðrar smávægilegar skemmdir urðu. Hefði ekki verið fjara þegar veðrið var mest, þá hefði orðið ægilegt flóð og valdið miklum skemmdum. Stokkseyri. Þar urðu hinsvegar litlar skemmdir og sakaði vélbátana ekki.

Ölfusá. Mestar virðast skemmdirnar þar hafa orðið, þaðan sem frést hefir úr sveitunum í Árnessýslu, í Flóa og upp á Skeiðum. Þegar Alþýðublaðið hafði tal af fréttaritara sínum að Ölfusá í morgun voru að berast fréttir um skemmdir á húsum upp um allar sveitir. Sagði fréttaritarinn að svo liti út sem meiri og minni skemmdir hefðu orðið í veðrinu á hverjum bæ í nágrannasveitunum. Voru skemmdirnar aðallega á útihúsum og með þeim hætti að þök rifnuðu af. Á Húsatóftum fauk t.d. bæði fjós og hlaða og eins á Sóleyjarbakka. Telja bændur eystra að slíkt veður hafi ekki komið eystra í manna minnum. Ekkert hefir frést frá Þorlákshöfn, því að sími er bilaður þangað. Í Arnarbæli fauk refabú og sluppu 4 refir; hefir einn refur fundist dauður í morgun. Brúarland: Úr Kjós og Mosfellssveit hefir lítið frést. Að Laxnesi fuku plötur af þaki og að Mosbakka skekktist hlaða á grunni.

Nýja dagblaðið greinir frá 6.mars:

Ofsaveður gerði af vestri litlu eftir miðnætti í fyrrinótt og gekk jafnframt á með krapahryðjum. Áður um kvöldið hafði verið hvassviðri af suðri eða suðvestri með rigningu. Veðurstofan telur að veðurhæðin hafi orðið 12 vindstig. Fylgdu þrumur og ljósagangur. Mest mun veðrið hafa verið hér við suðvesturströndina. Norðanlands og vestan virðist stormur hafa verið vægari, en þó skemmdist rafmagnskerfi Akureyrarbæjar mikið og var þar ljóslaust í gærmorgun, en af Suðausturlandi hafa engar fréttir borist, þar eð símasamband er rofið.

Allmiklar skemmdir hlutust af veðri þessu, en þó minni, en við hefði mátt búast. Hér í
Reykjavík brotnuðu víða rúður og rofnuðu þök á húsum. Meðal annars flettist járnið að
mestu af suðurhliðinni á þaki ÍR-hússins og mikið losnaði af plötum á Arnarhváli. Munu
hafa skemmst eigi færri en tuttugu hús í bænum. Höfðu lögregluþjónarnir nóg að gera að sinna hjálparbeiðnum fyrri hluta nætur. Fiskhersluhjallar í grennd við bæinn urðu fyrir allmiklum skemmdum. Bárujárnsgirðingin umhverfis íþróttavöllinn varð fyrir miklu áfalli. Hefir hún brotnað niður á rúmlega 100 metra löngum spöl meðfram Suðurgötu og sömuleiðis á nokkru svæði suðvestan við völlinn Hefir sumt af af járninu tæst burtu langvegu. Inni á Kleppsholti fauk húsið Klettur, eign Andrésar Andréssonar klæðskera, af grunni og brotnaði í spón. Í húsinu bjó Haukur Eyjólfsson frá Hofsstöðum í Borgarfirði og kona hans Sigrún Steinsdóttir, og tvö börn þeirra. Er hið yngra aðeins þriggja mánaða. Var það mildi mikil, að alvarlegt slys skyldi ekki af þessu hljótast.

Í Keflavík rofnuðu húsþök og opinn vélbátur, er lá á höfninni, hvarf. í gærmorgun lá ókunnur vélbátur fram af Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd og töldu menn, að það mundi vera Keflavíkurbáturinn. Í Sandgerði laskaðist bátur og tvær heyhlöður fuku. Á Akranesi urðu minni háttar skemmdir á húsum og mannvirkjum. Á Fáskrúðsfirði brotnaði vélbáturinn Katla og bryggja skemmdist. Þrjú íbúðarhús urðu þar og fyrir áföllum. Samkvæmt skeyti, sem borist hefir frá skipstjóranum á Ægi, fékk varðskipið beiðni um hjálp i fyrrinótt frá þýskum togara, Zieten, sem hlotið hafði áfall einhversstaðar í grennd við Vestmannaeyjar. Er skipið mikið brotið ofanþilja, vélarreistin rifin frá þilfarinu bakborðsmegin og borðstokkur og skipshlið þeim megin mjög beygluð. Skipstjórinn á Ægi telur togarinn ófæran til heimferðar í því ástandi, sem hann er nú. Þegar  síðustu fregnir bárust af togaranum var hann kominn inn á innri höfnina i Eyjum. Þá herma óljósar fréttir,- er bárust seint í gærkvöldi, að einn eða tvo menn hafi tekið út af færeyskri skútu í grennd við Vestmannaeyjar.

Stórskemmdir á símalínunum austan við Ægissíðu. Símabilanir urðu talsverðar af völdum veðursins, einkum austan við Ægissíðu. Brotnuðu margir staurar milli Ægissíðu og Garðsauka. Ekkert símasamband er við sveitirnar þar fyrir austan og verður því ekkert sagt um skemmdir þar. Samkvæmt fregn frá Seyðisfirði er ekki símasamband lengra suður en til Fáskrúðsfjarðar. Í dag verður sendur maður austur að Ægissíðu til þess að vinna að aðgerðum og koma á bráðabirgðasambandi. Á Hellisheiði og vestan við Ölfusá slógust saman símavírar og í túninu á Kotströnd brotnuðu tveir staurar. Var gert við þessar bilanir í gær. Við Hvalfjörð norðanverðan, milli Kalastaðakots og Vogatungu, flæktust vírar saman.

Morgunblaðið fjallar um veðrið í fréttum 6. mars:

Blaðið átti í gærkvöldi tal við fréttaritara sinn við Ölfusá. Þar mun veðurhæð hafa verið engu minni en hér, enda muna menn ekki snarpara hvassviðri þar eystra. Þó reynt hafi verið í gær að fregna um það, hverjar skemmdir hafi orðið þar í sýslu, má búast við, að fréttir hafi ekki borist frá nærri öllum bæjum, þar sem orðið hafa verulegir skaðar. En um þetta hafði frést að Ölfusá í gærkvöldi. Í Súlholti í Flóa fauk þak af fjárhúsi og heyhlaða. Hross stóðu undir fjárhúsveggnum og rotaðist eitt þeirra til dauða. Á Loftsstöðum fauk þak af heyhlöðu, í Hellnahjáleigu stór heyhlaða, í Gaulverjabæ sömuleiðis hlaða stór. Þar laskaðist íbúðarhúsið. Í Bár fauk þak af fjárhúsi, og í Hróarsholti fauk hlaða og járn af annarri, nokkuð af þaki á íbúðarhúsi og fjárhús. Þar fuku um 100 hestar af heyi. Annars tapaðist óvíða hey svo nokkru verulegu næmi. Að Skeggjastöðum fauk þak af 2 hlöðum, að Hallanda fauk heyhlaða, Langholti geymsluskúr og Langholtsparti hlaða. Á Skeiðum var veðurofsinn síst minni en í Flóa. Að Útverkum fuku öll fénaðarhús nema fjósið, og heyhlaða heima við bæinn. Í Vorsabæ fauk þak af fjárhúsi, að Hlemmiskeiði skemmdust hús mikið. Að Votmýri fauk þak af stóru fjárhúsi og að Háholti fauk hlaða, að Sandlæk þak af fjósi. Að Húsatóftum fauk stór heyhlaða ásamt hesthússkúrum, sem við hana voru byggðir. Að Skarði í Hreppum fauk gamall bær að hálfu leyti, og að Sóleyjarbakka þak af íbúðarhúsi. En annars eru óglöggar fregnir úr Hreppum. Að Kiðjabergi í Grímsnesi fauk stórt fjárhús og hlaða, þak af fjósi að Kringlu og hlaða á Laugarvatni. Járn fauk af þaki íbúðarhúss að Arnarbæli í Ölfusi [átt mun vera við Arnarbæli í Grímsnesi]. Þar fauk og refabú, og drapst einn refanna. Að Syðri Reykjum í Biskupstungum fauk vandað gróðurhús. Á Stokkseyri og Eyrarbakka urðu ýmsir smáskaðar á útihúsum. í Rangárvallasýslu. Ógreinilegri eru fregnir úr Rangárvallasýslu, þegar þetta er ritað. En sennilegt, að veðurhæð hafi verið hin sama og um Árnessýslu. Að Brekkum í Hvolhreppi fauk stór hlaða með skúrum, og eitthvað af heyi, og 2 hlöður á Syðri-Rauðalæk. Ennfremur hefir frést að skemmdir hafi orðið á húsum að Keldum, Þingskálum, Geldingalæk og Heiði. Að Neðri-Þverá í Fljótshlíð fauk hlaða.

Seyðisfjörður: Fréttaritari vor á Seyðisfirði símar í gær, að „hið ógurlegasta fárviðri, sem nokkrir menn muna, hafi gengið þar yfir s.l. nótt af suðvestri“. Um allan fjörðinn eru meiri eða minni skemmdir á húsum og skipum. Á prestssetrinu Dvergasteini fuku þök af tveimur hlöðum og mikið af heyi. Ennfremur féll í rústir fjárhús með 150 fjár, en fénu varð þó öllu bjargað í dag. Tveir vélbátar á Hánefsstaðareyrum slitnuðu upp og rak þá út í Brimsnes, þar sem þeir brotnuðu báðir í spón. Bátarnir hétu „Magnús“ og „Ása“. „Magnús“ var ferðbúinn til Hornafjarðar á vertíð. Hafði hann innanborðs öll veiðarfæri, matvæli og annað, sem til vertíðar þurfti. Á Vestdalseyri fauk stórt fiskipakkhús af grunninum og féll í rúst. Á Daltanga fauk þak af hlöðu og 40 hestar af heyi og íbúðarhúsið skekktist og brotnuðu í því gluggar. Ekki er vitað til, að manntjón hafi orðið af ofviðrinu þar eystra. Fáskrúðsfirði: Vélbátar slitnuðu frá legufærum og rak á land. Tveir þeirra, „Nanna“ og „Hekla“, skemmdust lítið, en „Katla“ brotnaði talsvert; sérstaklega ofanþilja. Rakst hin á Stangelandsbryggju og hraut allan landgang hennar. Járnþök tók alveg af tveimur íbúðarhúsum. Heyhlaða með talsverðu af heyi fauk alveg. Á Kappeyri í  Fáskrúðsfjarðarhreppi fuku 2 hey alveg og ein hlaða ásamt heyi. Á Brimnesi fauk kvisturinn af íbúðarhúsinu. (FÚ)

Akureyri rafmagnslaus. Í afspyrnu roki, er gekk yfir síðari hluta nætur og náði hámarki um kl. 5:20 í gærmorgun, urðu allmiklar skemmdir á rafmagnskerfi bæjarins. Brotnuðu þá staurar í háspennulínunni og var bærinn ljóslaus í gærmorgun. Unnið var að viðgerð í gær.

Alþýðublaðið bætir við 7.mars:

Þessar fréttir bárust síðdegis á laugardag og í gær, og virðist tjón af völdum fárveðursins hafa orðið um land allt og sérstaklega mikið á Austurlandi, bæði á húsum, mannvirkjum og skipum. Fer hér á eftir útdráttur úr þessum fréttum frá fréttariturum Alþýðublaðsins og FÚ.

Frá fréttaritara Alþýðublaðsins Fáskrúðsfirði, laugardag. Aftaka norðanveður gekk hér yfir í nótt. Þrjá vélbáta rak á Stauplandsbryggju og brutu hana, sérstaklega landmegin. Tveir bátanna, Nanna og Hekla. skemmdust fremur lítið. en Katla brotnaði mikið, sérstaklega ofan þilja. Járn fauk af tveimur íbúðarhúsum og hlaða með heyi fauk einnig. Úti í sveitinni fauk kvistur af íbúðarhúsi, 2 hey, ein hlaða og fjárhús. Um fleiri skemmdir er ekki vitað vegna símabilana. 

Vestmannaeyjar. Í ofsaveðrinu aðfaranótt 5. þ.m. skemmdust margir vélbátar á höfninni. Vélbáturinn Ester sökk og vélbáturinn Skuld slitnaði upp og rak hann upp í nyrðri hafnargarðinn og brotnaði báturinn nokkuð. Náðist báturinn út á laugardag. Átta ára bátar — um 500 króna virði hver — ýmist brotnuðu eða töpuðust af höfninni. Skemmdir urðu nokkrar á útihúsum fyrir ofan Hraun. Togarinn Zieten frá Wesermúnde kom inn á innri-höfnina í gær og var mikið brotinn ofan þilja og öldustokkurinn stórskemmdur. Skipið fékk á sig stórsjó kl. 3 á laugardagsnótt suðaustur af Eyjum og lagðist á hliðina. Lá það þannig um eina klukkustund og gekk svo mikill sjór inn í kolaklefa skipsins, að kyndarar stóðu í sjó upp undir hendur er skipið loksins komst á réttan kjöl. Bráðabirgðaviðgerð fer fram í Vestmannaeyjum. Skipið er af nýjustu gerð, aðeins 4 ára gamall.

Frá Seyðisfirði: Aðfaranótt 5 þ.m. var fádæma eða dæmalaust ofviðri í Seyðisfirði og nágrannafjörðum. Urðu þar stórskemmdir á húsum og bátum. í Seyðisfjarðarkaupstað skemmdust einkum húsaþök og gluggar, þó ekki stórkostlega. — Á Dvergasteini fuku þök af tveimur hlöðum. Féll annað hlöðuþakið á fjárhúsþak og braut það. Féð sakaði ekki, en það varð að reka til húsa á næsta bæ. Á Hánefsstöðum, Þórarinsstöðum og Eyrum stórskemmdust mörg hús, bæði íbúðarhús og fjárhús. Vélbátarnir Magnús og Ása lágu búnir til Hornafjarðarveiða í Hánefsstaðahöfn. Sleit þá upp og rak þá á Brimnesfjöru. Óvíst er enn um skemmdir á bátunum. Þök tveggja fjárhúsa á Grund og Dalatanga og tvö hey fuku og íbúðarhúsið stórskemmdist. Tveir bátar úr Seyðisfirði lögðu af stað á föstudagskvöldið til Hornafjarðar. Lá annar í Norðfirði á laugardag, en hinn náði höfn í Seyðisfirði aftur við illan leik. (FÚ.)

Eskifjörður. Fárviðri geisaði hér yfir síðastliðna laugardagsnótt og olli stórfeldu tjóni; braut glugga í flestum húsum í miðju kauptúninu, reif járn víða, af húsum og sums staðar gersamlega; svipti þökum af og jafnaði heil hús við jörðu. Síma- og ljósa-kerfi kauptúnsins eru stórskemmd og kauptúnið símalaust og ljóslaust. Náði veðrið hámarki frá kl. 3—4 um nóttina, en þó hélst ofsaveður fram til kl.9 áð morgni. Mestan hluta þaks rauf af kolahúsi svo nefndrar Andra-eignar. Var það næst stærsta hús þorpsins. Fauk mikill hluti þaksins, bæði járn og viður, um 200 metra langa leið og lenti á ljósastaur vestan við hús Kristrúnar Gísladóttur. Brotnaði staurinn og rakst á endanum gegnum vesturstafn nefnds húss, alla Leið inn í bíósal, sem er í húsinu. Aðalrekaldið breytti stefnu og lenti fyrir ofan íbúðarhús Kristrúnar, skall þar á steinsteyptri útbyggingu og braut fjögra metra breitt og meir en mannhæðarhátt skarð í hana. Er hinn brotni steinveggur þó níu þumlunga þykkur. Ef rekaldið hefði lent á húsinu sjálfu, mundi það sennilega hafa farið í rústir. Tvö hús önnur skemmdust, Íshúsið og svo nefnd Mörbúð. Af hinu fyrr talda, sem er nýlegt, fauk allt járn og rúmlega hálft þakið, eða um 70 plötur. Hið síðar talda er gamalt hús, og reif þakið af nokkrum hluta þess. Af vélahúsi Símonar Jónassonar reif alt þakið á suðvesturhorni þess. Þá lagðist saman síldarhús við framkaupstað. Eru veggir þess hrundir, en þakið stendur eitt á grunni. Mun það hafa haldist niðri vegna þungra veiðarfæra, sem í því voru. Allt járn fauk af húsi Guðmundar Stefánssonar, stóru húsi, nýlega smíðuðu, og mest allt járn af svo nefndu gamla pósthúsi. Á húsi Jóns Brynjólfssonar laskaðist vesturstafn auk járnrifs á þaki og steinsteyptur skúr við hús Leifs Björnssonar jafnaðist við jörðu. Myndasalur Sveins Guðnasonar brotnaði og vélar skemmdust, og skúr ofan við afgreiðsluhús Óskars Tómassonar hvarf gersamlega. Nokkuð af járni fauk úr þaki afgreiðsluhússins; einnig hvarf gersamlega hjallur, eign Emils Magnússonar. — Meðan veðurhæð var mest var fólki ekki vært í herbergjum, sem voru orðin gluggalaus, og leitaði sumt niður í kjallara húsanna. Erfitt er að áætla fjárhagslegan skaða af völdum veðursins, en óefað skiptir hann tugum þúsunda.

Morgunblaðið heldur áfram 8.mars:

Í fárviðrinu aðfaranótt 5. mars fauk á Reynisvatni í Mosfellssveit fjárhúsasamstæða (2 hús sambyggð) og hlaða við þau, ásamt heyi því, er í henni var. Einnig bílskýli, er tók upp í heilu lagi, fauk langa leið. Á Korpúlfsstöðum rauf að mestu þak af húsi, er notað var sem fjós, áður en hið nýja fjós þar var byggt. Á Leirvogstungu rauf þak af hlöðu og nokkuð af heyi fauk. Á Álafossi og Laxnesi fuku nokkrar þakplötur af húsum.

Óveðursskemmdirnar austanfjalls. Í viðbót við það sem sagt hefir verið áður um skemmdir í Árnessýslu, frétti blaðið í gær, að að Hamarshjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi hafi fokið hlaða, og eins í Arabæ og Ferjunesi. Í Fellskoti í Biskupstungum fauk og hlaða og hlaða með tveimur skúrum að Gröf í Ytri-Hrepp. — Í frásögn blaðsins á sunnudag var sú missögn, að talað var um skemmdir á húsum að Arnarbæli í Ölfusi, en átti að vera að Arnarbæli í Grímsnesi.

Alþýðublaðið 8.mars:

Fréttir eru enn að berast um tjón af völdum ofviðrisins. Hér fara á eftir síðustu fréttirnar samkvæmt FÚ. Hallormsstað: Í Jökuldal fauk þak af nýreistu steinhúsi og fólk flutti úr því á næsta bæ. Á Eiðum skemmdist til muna þak og gluggar á skólahúsinu. Í Borgarfirði eystra tók út báta. Heyskaðar urðu í ýmsum nálægum sveitum og víða fuku þök af hlöðum. Nemur það tjón mörgum þúsundum króna. Á Héraði og sums staðar á Austfjörðum stóð veðrið af norðvestri þegar hvassast var.

Eskifirði: Auk þess tjóns, sem getið var í gær, er þetta: Á Sólvangi fauk fjós og hlaða. Fjárhús yfir 20 kindur hvarf alveg. Sjóhús Jóhanns Þorvaldssonar fauk. Sex árabátar brotnuðu í spón. Að Svínaskála fuku tvær hlöður og eitthvað af heyi og sömuleiðis hesthús. Á Búðareyri urðu nokkrar skemmdir, en ekki stórfelldar. Fauk aðallega járn af íbúðarhúsum og útihúsum og eitthvað af hlöðum og heyi, Símakerfi og rafveitukerfi bilaði og eitthvað af bátum skemmdist. Skemmdir á útihúsum hafa orðið á: Eyri, Borgargerði, Sléttu, Stuðlum og ef til vill víðar. Eitthvað hefir líka fokið af heyi.

Sauðárkróki: Hér fauk þak af íbúðarhúsi og geymsluskúr. Símaþræðir og ljósaþræðir slitnuðu. Vélbátur sökk við hafnargarðinn. Var hann dreginn á land eftir óveðrið mjög brotinn. Raufarhöfn: Á laugardaginn var hér ofsarok af vestri og norðvestri. Fylgdi því snjókoma eftir kl.17. Þak síldarverksmiðjunnar skemmdist. Gluggar brotnuðu og símastaurar. Á Rifi fauk þak af hlöðu. Í Höskuldsstaðanesi fauk þak af fjósi og kýrnar hálffennti. Fólk var ekki á bænum sakir húsbruna, er þar varð fyrir skömmu.

Norðfirði: Í ofviðrinu aðfaranótt hins fjórða og að morgni hins fimmta þessa mánaðar urðu hér ýmsar skemmdir, þar á meðal ónýttust fimm bátabryggjur og tveir skúrar, og járn fauk af húsaþökum. Veðurhæð var afarmikil.

Akureyri. Í afspyrnu vestanroki, er gekk yfir síðari hluta nætur og náði hámarki um kl. 5:20 um morguninn, urðu allmiklar skemmdir á rafmagnskerfi bæjarins. Brotnuðu þá staurar í háspennulínunni, og var bærinn ljóslaus um morguninn. Unnið var að viðgerð allan daginn. Í brunanum á Oddeyrartanga 3. þ.m., sem fyrr er getið, brann nýsmíðaður trillubátur, er stóð inni í húsinu. Búið var að ganga frá vél í bátnum. Báturinn var eign Gústavs Andersen.

Skálar. Á Skálum á Langanesi fauk mikill hluti af þaki og gafl úr stóru fiskihúsi, eign hlutafélagsins Tjaldur í Reykjavík. Á Sauðanesi fauk allt járn af annarri þakhlið á íbúðarhúsi prestsins. Í Bakkafirði fauk sláturhús og nokkuð af þaki af vörugeymsluhúsi Kaupfélagsins. Undanfarandi hefir verið auð jörð að mestu og hagstæð tíð.

Hvammstangi. Á 3 bæjum í Miðfirði urðu þessar skemmdir: Á Brekkulæk fauk hlaða og nokkuð af heyi. Í Huppahlíð skekktist hlaða á [afgang fréttar vantar]

Morgunblaðið segir 9. mars fréttir af Borgarfirði og Húsavík eystra. Í viðengi áðurnefndrar umfjöllunar hungurdiska um þetta veður má lesa nánari frásögn um atburði í Húsavík:

Feikna miklir skaðar urðu af fárviðrinu s.l. laugardagsnótt í Borgarfirði og Húsavík eystra, símar fréttaritari Morgunblaðsins á Seyðisfirði. Í Húsavík eystra jafnaði flest hús við jörðu, bæði íbúðarhús og peningshús. Þrír menn meiddust. Í Húsavík má heita að menn og skepnur hafi ekki þak yfir höfuðið á sér. Á Bakkagerði í Borgarfirði eystra fauk fiskgeymsluhús. Þrjá trillubáta, sem geymdir voru í fiskgeymsluhúsinu, tók upp, er húsið var fokið, og brotnuðu þeir í spón. Fjórða trillubátinn, sem var rammlega hlekkjaður niður úti, sleit upp úr hlekkjunum þannig að eftir stóð aðeins stefnið og hluti af kjölnum, en festar biluðu ekki. Báturinn var þungur og með vélinni. Fauk það allt langt út á sjó Eitt íbúðarhús á Bakkagerði, eign Björns Jónssonar söðlasmiðs, fór í rúst með öllum útihúsum, svo sem fjósi, hlöðu og geymsluskúrum. Á öllum húsum í þorpinu urðu meiri og minni skemmdir, svo og á bæjum í sveitinni. Tjónið er geysilega mikið fyrir svo lítið sveitafélag, því ekkert var vátryggt af hinu tapaða, fyrir svona skemmdum eða eyðileggingu.

Morgunblaðið segir enn af tjóni í veðrinu mikla í pistli 10.mars:

Vestur-Skaftafellssýsla hafði sloppið tiltölulega vel í ofviðrinu aðfaranótt 5. þ.m., símaði fréttaritari Morgunblaðsins í Vík í Mýrdal í gær. Mestar urðu skemmdirnar á Flögu í Skaftártungu. Þar fauk stór heyhlaða og nokkuð af heyi. Þak rauf einnig af annarri hlöðu á Flögu svo og fjárhúsi. Á Fossi á Síðu fauk þak af fjárhúsi. Nokkrar skemmdir urðu á hlöðum í Landbroti, en ekki stórvægilegar.

Vísir 10.mars:

Enn hafa borist fréttir af Austurlandi, um eignatjón af völdum veðursins 5. þ.m. Þetta
er helst: Vopnafirði: Í Vopnafjarðarhreppi fuku þök af 7 hlöðum, sem vitað er. Á Hofi fauk dúnhús og 20 hestar af heyi. Á Teigi fuku 25 hestar af töðu. Smáskemmdir urðu víðar í héraðinu. Í Vopnafjarðarkauptúni fauk þak af líkhúsi þorpsins, og fleiri smáskaðar urðu þar. Veturinn hefir til þessa verið óvenju mildur, og héraðið er alautt.

Seyðisfirði: Á Úlfsstöðum í Loðmundarfirði fuku tvær hlöður og mikið hey. Í Stakkahlíð fauk þak af hlöðu. Á Sævarlandi fauk hlaða, og í Neshjáleigu skemmdist íbúðarhús.

Vísir bætir enn við fréttum af óveðrinu í pistli 24.mars:

Auk þeirra frétta, sem útvarpinu hafa borist um tjón af óveðrinu 5. þ.m. hafa borist úr Hjaltastaðahreppi fréttir um meira og minna eignatjón á nær 20 bæjum. — Þetta er helst: Á Ketilsstöðum fauk fjárhús yfir 120 fjár, 2 hlöður og mikið af heyi. — Á Hjaltastað fauk þak af hlöðu og skúr og nokkuð af þaki af hesthúsi og fjárhúsi og mikið af heyi. — Á Bóndastöðum fauk þak af tveimur hlöðum og mikið af heyi og á Hóli nokkuð af þaki af tveimur hlöðum og dálítið af heyi. Á Ásgrímsstöðum og Dratthalastöðum fauk þak af hlöðu á hvorum bæ og dálítið af heyi. Á Ekru fauk þak af hlöðu og bæjardyrum. Í Dölum fauk þak af hlöðu og skúr. Á Kókreksstöðum fauk þak af hlöðu og haughús. Í Sandbrekku fauk þak af skúr, í Gagnstöð þak af haughúsi. — Í Rauðholti fauk hlaða og allmikið af heyi, og á Stóra-Steinsvaði talsvert af heyi og á Svínafelli allmikið af heyi. Hlöðuþak fauk í Þórsnesi, á Hrafnabjörgum og í Jórvík — eitt á hverjum bæ.

Morgunblaðið segir frá óhappi á Akureyri 29.mars:

Akureyri, mánudag. Vélskipið „Hjalteyrin“ sigldi síðdegis á laugardaginn var [26.mars] gegnum lagís á Pollinum og lagðist við bryggju á Oddeyrartanga, en sökk við bryggjuna um kvöldið. Er farið var að aðgæta, kom í ljós, áð ísinn hafði skorið í sundur byrðing skipsins, svo skipið fylltist af sjó. Hjalteyrin átti að flytja farþega frá Akureyri til Siglufjarðar á skíðamótið. Sennilega næst skipið upp, en skaði er töluverður, því óvíst er hvort vátrygging fæst greidd.

Morgunblaðið segir af töfum á landsmóti skíðamanna 30.mars:

Landsmót skíðamanna á Siglufirði átti að halda áfram í gær með skíðastökkkeppni og krókahlaupi (slalom) í Hvanneyrarskál, en sökum óhagstæðs veðurs varð að fresta keppninni í gær. Norðaustan hríðarveður var allan daginn í gær á Siglufirði. Mótið heldur áfram næsta góðviðrisdag.

Apríl var nokkuð óstöðugur, en hlýr. Veðurathugunarmenn gefa honum þó misjafna einkunn: 

Lambavatn: Það hefir verið óhagstætt, sífelldar rigningar og krapaél. Það er nær óminnilegt að aldrei skuli hafa gefið á sjó hér úti í víkunum, nú komið í aðra viku sumars. Gróður er enginn kominn.

Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Mjög hlýtt, en annars óstöðugt. Snjóþungt og haglaust til 9., en þá leysti snöggt allan snjó. Lítilfjörlegt kuldakast um miðjan mánuðinn. Fáar gæftir. Tregur afli.

Sandur: Einmuna gott tíðarfar. Ís leysir af ám og vötnum, frost fer úr jörðu og hún loksins að gróa. Þurrkar svo miklir að með eindæmum má telja um þetta leyti árs.

Reykjahlíð: Aprílmánuður verður að teljast óvenjulega hlýr og úrkomulítill að þessu sinni. Stórfelldar leysingar hófust 9. og lauk þeim eigi fyrr en allur snjór var farinn úr byggð. Seinasti ís fór af Mývatni 21. og það óvenjulega snemma. Síðari hluta mánaðar var nokkuð stormasamt af suðvestri og öll jörð orðin mjög þurr um mánaðamót. Var þá kominn nokkur gróður bæði í tún og þó einkum í mýrlendi en lítil lífsmerki komin í við.

Grímsstaðir á Fjöllum (Sigurður Kristjánsson): Veturinn yfirleitt ágætur hér á Hólsfjöllum og muna menn ekki eins snjóléttan vetur og úrkomulítið. Sauðfé ekki á húsi nema 3 mánuði og lítið gefið af heyjum, en nokkuð af kraftfóðri.

Morgunblaðið segir 8.apríl af mjög stóru snjóflóði í Öxnadal. Flóðið virðist hafa verið afleiðing leysinga. Átt var vestlæg og hiti vel ofan frostmarks:

Aðfaranótt 5. þessa mánaðar féll snjóflóð yfir þrjú samföst fjárhús rétt utan við bæinn Varmavatnshóla í Öxnadal. Í húsunum var 90 fjár — þar af náðust 20 kindur lifandi, en meira og minna meiddar, og óvíst nema sumum verði að lóga. Um helmingur af fé bóndans var í þessum húsum. Stórt hey að mestu ósnert stóð að baki húsanna og sópaði snjóflóðið því gersamlega burtu. Snjóflóðið var 10 metra þykkt þar sem grafið var til húsanna. Mikið af aur og grjóti barst niður á túnið, og má gera ráð fyrir að mikill hluti þess sé eyðilagður fyrst um sinn. (FÚ).

Íslendingur segir af sama flóði í pistli 8. apríl:

Aðfaranótt þriðjudags 5 þ m. var suðvestan rok í Öxnadal og féllu mörg snjóflóð í framanverðum dalnum. Þegar komið var á fætur um morguninn að Varmavatnshólum, sem er næsti bær utan við Bakkasel, gat að líta ömurlega sjón. — Heljarmikið snjóflóð hafði svo að segja strokist með bæjarveggnum, en brotið niður og tekið með sér að nokkru leyti þrjú samliggjandi fjárhús, er voru þar uppi á túninu í húsunum höfðu verið 86 kindur. Tvo næstu daga unnu nokkrir menn að því að grafa upp fjárhúsin. Meiri hluti fjárins var dautt, er það náðist, og sumt svo brotið og lemstrað, að því varð að slátra samstundis, Rúmlega 20 kindur hafa náðst, sem taldar eru óskemmdar. — Bóndinn í Varmavatnshólum heitir Jónas Jónsson. Í húsunum, sem snjóflóðið þraut, átti hann mikinn hluta af sauðfé sínu, Oft hafa smáflóð fallið í landi jarðarinnar, en eigi valdið tjóni fyrr en nú, enda mun þetta flóð hið mesta, er fallið hefir þar í dalnum í tíð núlifandi manna.

Þann 29. apríl slitnaði bátur upp í Ólafsvík, annar bátur sökk við björgunaraðgerðir, en náðist upp síðar. (Veðráttan).

Þau tíðindi urðu helst í maí að nokkuð magn af hafís kom inn undir Norðurland og að gríðarlegt hlaup gerði í Skeiðará - aðeins fjórum árum eftir hlaupið mikla sem tengdist gosinu í Grímsvötnum 1934. Veðurathugunarmenn kvarta undan kulda og snjó festi í Hafnarfirði að næturlagi undir lok mánaðarins. 

Lambavatn: Það hefir verið kalt og þurrt oftast. Töluvert frost með köflum svo gróðri hefir lítið farið fram. Það er nú kominn sem kallað er sæmilegur sauðgróður ... Í fyrradag [30.maí] var hér krapahríð og grátt ofan í byggð, skafmok fram af fjöllum eins og há vetur.

Suðureyri: Kalt og harðneskjulegt. Yfirgnæfandi norðaustan, þó engin stórviðri. Úrkomulítið, þurrakuldi og frost með köflum. Yfirleitt mun verra en 1937. [Þann 28. var 11 cm snjódýpt].

Sandur: Tíðarfar mjög slæmt. Kuldar og gróðurleysi.

Raufarhöfn: (Rannveig Lund): Nokkra daga sást hafíshröngl norður og vestur af Melrakkasléttu. [11. sást hafís útaf Hraunhafnartanga].

Nefbjarnarstaðir: Tíð yfirleitt mjög köld og óhagstæð. Fyrir kuldann var komið gróðurbragð fyrir fénað er hjálpaði mikið er sauðburður hófst. En vegna kuldanna varð algjör kyrrstaða í gróðri til mánaðarloka.

Víðistaðir í Hafnarfirði (Bjarni Eyjólfsson): 29.maí: Kl.4:00 var jörð alhvít og snjódýptin 5 cm.

Morgunblaðið segir hafísfréttir 7.maí:

Mikill hafís er fyrir öllu Norðurlandinu frá Grímsey vestur undir Hornbjarg. Einnig er töluverður ís kominn inn á siglingaleiðir. Upplýsingar þessar eru frá Agnari Kofoed-Hansen flugmanni, eftir símtali við hann á Akureyri í gærkvöldi. Sá hann hafísinn mjög greinilega úr flugvélinni, bæði er hann flaug frá Akureyri í gærmorgun og eins er hann flaug norður aftur síðari hluta dags í gær. Næst landi er íshrafl, en lengra úti eru miklar ísbreiður.

Slide1

Riss Jóns Eyþórssonar af hafísútbreiðslu 7. maí. Ekki er hægt að lesa athugasemdina, en hún er trúlega úr (glötuðu) skeyti af þessum slóðum. Ísinn varð heldur ágengari næstu daga eins og kemur fram í fréttapistlunum hér að neðan. 

Morgunblaðið segir frá 8.maí - og ræðir um „hafískvíða“. Fjöldi manns man hér enn slæm hafísár fyrri tíma. 

Þegar vorið nálgast á Norðurlandi kemur hafískvíðinn. Hvort verður yfirsterkari ísinn, eða sunnanblær og sumarhlýindin. Undanfarnar vikur hefir verið vor í lofti um allt Norðurland. Engir nema Norðlendingar þekkja vonbrigðin sem gagntaka menn á slíku vori, þegar ísafréttir berast. Var vorinu ekki alvara? Kemur vetur í stað sumars, kuldar í stað hlýinda, ísaþokur og ömurleiki í stað gróðurs og grasa? Meðan enginn síminn var, bárust ísafréttir sveit úr sveit, aflöguðust í meðferðinni, og urðu skjótt úreltar. Því ísinn er oft fljótur að breyta um legu og stefnu. En meðan einhverjar flugufregnir heyrðust um ís á einhverri vík eða fyrir einhverju nesi, þá þorði Norðlendingurinn ekki að fagna sumrinu af heilum hug. Síðan síminn kom, hefir þetta mikið breyst. En mest er þó breytingin þegar menn geta hafið sig til flugs í 1000 metra hæð, og séð í einu frá Horni til Melrakkasléttu, eins og Akureyringar gerðu í gær ... Var nú flogið norður að Siglunesi, og þaðan í norðvestur átt til hafs. 17 km frá Siglunesi flugum við yfir ísröndina. Ísinn var ekki þéttur þarna, en virtist þéttari er norðar dró. Veður var bjart til landsins og eins vestur á bóginn, en bakki í hafinu og nálægt norðausturlandinu. Þó sáum við nokkurn veginn austur til Rauðunúpa. En í vestur sást inn yfir Skagafjörð. Húnaflóa og Strandir alla leið til Horns. Ísinn var næst landi þarna út af Siglunesi, nema hvað mjó spöng lá frá Grímsey í áttina til Flateyjar á Skjálfanda. Á siglingaleiðinni vestur um Horn var ekki að sjá nokkurn ís. En Snæfell, sem kom til Akureyrar í nótt sigldi í gegnum íshroða á Húnaflóa. Fyrripartinn i gær flaug Örninn aðra ferð norður yfir ísinn og fór þá alllangt norðaustur fyrir Grímsey. En hafþök voru að sjá af ís þar norðaustur undan svo langt sem augað eygði í allgóðu skyggni. Svo var að sjá, sem ís myndi vera mjög nálægt Langanesi.

Alþýðublaðið segir frá 9.maí:

Hafísinn er orðinn landfastur við Hornbjarg. Þessi fregn barst til Veðurstofunnar í nótt. Ísinn er mjög mikill og breiður, en með stórum vökum. Á Húnaflóa er mikið af íshröngli á siglingaleið frá Horni að Skaga og ísspöngin er enn um 15 km. út af Siglunesi og og liggur í norðaustur vestan Grímseyjar. Frá Dalvík sést allmikill ís. Út af Flatey er hafísinn á 20—30 ferkílómetra svæði. Fréttaritari Alþýðublaðsins á Húsavík skýrði Alþýðublaðinu svo frá í morgun: Hafís kom inn á Skjálfandaflóa á laugardag, en nú virðist hann vera að hverfa. Frá höfðanum utan við þorpið sést þó mikið íshröngl til hafsins fyrir innan Grímsey. Í morgun eru nokkrir jakar í flæðarmálinu. Veðurstofan segir, að þetta sé mesti hafís, sem komið hefir hér að landi í mörg ár. Margir munu setja kuldann í samband við hafísinn. Í morgun var um 5 stiga frost víðast á Norðvestur-, Norður- og Norðausturlandi og víðast hvar hríð. Agnar Kofoed-Hansen flugstjóri sagði við Alþýðublaðið í morgun, að vont veður væri á Akureyri og væru flugskilyrði slæm. Hætta væri á að hann gæti ekki flogið áætlaða ferð til Reykjavíkur, því að snjór og ís settust á flugvélina og gerðu flugið hættulegt. Kvaðst hann þó mundi reyna að fljúga suður upp úr hádeginu. Alþýðublaðið spurði Jón Eyþórsson veðurfræðing um það í morgun, hvort kuldinn stafaði eingöngu af hafísnum. Hann svaraði: „Að nokkru leyti mun hafísinn valda kuldanum, en norðanáttin, sem er víðast um landið, er rakin alt til Jan Mayen og Svalbarða. Þó að enginn hafís væri hér við land, myndi vera frost víða, en það myndi vera um 2 stigum minna. Hér í Reykjavík var 2 stiga frost í morgun, og væri því um það bil frostlaust hér, ef hafísinn væri ekki fyrir Norðurlandi.“ Veðurstofan spáir áframhaldandi norðanátt og kulda og á Norðurlandi, allt frá Horni til Langaness, hríðarveðri.

Morgunblaðið segir enn af ís og kulda 10.maí:

Kuldar miklir og hríðarveður hafa gengið um allt Norðurland og næturfrost tefja mjög fyrir öllum gróðri. Fjöll öll norðanlands eru aftur orðin alhvít af snjó, og víða er snjór yfir öllu í byggðum. Hafísfréttir berast stöðugt víðsvegar að af Norðurlandi, en ísinn rekur hratt til austurs. Á nokkrum stöðum, svo sem á Ströndum og Skagaströnd, hafa smá-ísspangir orðið landfastar. En ísinn er laus og víða vakir á honum. Ísjaka hefir rekið inn á Eyjafjörð, alla leið inn að Dalvík; varð vart tveggja jaka þar í gær. Ísinn, sem hafði rekið upp að landi við Húsavík fyrir helgi, hefir rekið frá aftur, en þó eru jakar eftir í fjöruborðinu. Hafís er kominn inn fyrir Kálfshamarsvík vestan til við Skaga og inn að Ketu að austan. Er ísinn á hraðri ferð inn beggja megin við Skaga. Skyggni var slæmt víðast fyrir Norðurlandi í gær og sást því illa til hafs. Frár Skaga sást, þá að ís er fyrir öllu mynni Skagafjarðar, en er ekki eins mikill að sjá útaf Húnaflóa. Mjó ísspöng er landföst, við Geirólfsgnúp á Ströndum. Skyggni var þarna gott í gær.

Morgunblaðið 11. maí:

Allar hafísfréttir að norðan í gær bentu til þess, að hafísinn væri að fjarlægjast landið, og að bað eru ekki nema einstakir jakar, sem eru komnir inn á flóa og firði norðanlands. Á siglingaleiðinni fyrir Horn var minna um ís í gær en undanfarna daga. Við Gjögur voru nokkrir ísjakar á reki og eins á skipaleið fyrir Reykjarfjarðarmynni. Við Skaga hefir ísinn rekið frá landi aftur og er nú hvergi landfastur þar. Talsverður ís er norður af Skaga og sést ekki útyfir hann norður yfir. Veðurstofan býst við breytilegri átt og mætti þá vænta þess, að ef vindur gengur t.d. til suðurs, þá megi vonast eftir því að ísinn reki frá og austur með landinu.

Enn eru ísfréttir í Morgunblaðinu 14.maí:

Hafísinn er nú aftur kominn fast upp að landinu við Horn og er skipaleið að verða ófær, að minnsta kosti fyrir smærri báta. Þá hefir ísinn skemmt talsímalínuna, sem liggur í sjó yfir mynni Reykjarfjarðar. Vélbáturinn Vébjörn fór í gær frá Siglufirði til Ísafjarðar og segir skipstjóri bátsins, Halldór Sigurðsson svo frá um hafís á siglingaleiðum (skv. FÚ): 45 enskar mílur norðvestur af Sauðanesvita komum við í ísbreiðu og urðum að halda 5 enskar mílur í suðvestur áður en við komumst inn í ísinn. Síðan var haldið gegnum ís alla leið þangað til eftir voru 7 enskar mílur að Horni og mátti víða heita ófært fyrir vélbáta. Meginið er stórir flatir jakar og gisnar spengur, en stórir borgarísjakar innan um.

Morgunblaðið 15.maí:

Hafís var orðinn svo mikill á siglingaleið fyrir Hornbjarg í gærmorgun, að flutningaskipið „Hekla“ komst með naumindum vesturleiðina. Það mun vera vestanáttin, sem rekið hefir ísinn upp að landinu og ef sama átt helst, er hætta á því að siglingaleiðin fyrir Horn teppist alveg. Hinsvegar telja kunnugir menn, að ísinn muni fljótt reka frá landi aftur. ef áttin breytist. Sex ár eru síðan að siglingaleiðin fyrir Horn var illfær vegna íss, eða árið 1932. Þá var það, sem Esja og Dr. Alexandrine komust með naumindum fyrir Horn vegna íss. Algjörlega hefir þessi leið ekki teppst  vegna íss síðan 1918. Veður var gott á Norðurlandi í gær og hlýrra en undanfarna daga. Nokkrir hafísjakar eru á reki í Húnaflóa og við Skaga, en ís virðist vera minni austur með landinu en hann var fyrir nokkrum dögum.

Morgunblaðið segir 17.maí frá því að ísinn sé að hverfa frá:

Tvö farþegaskip fóru fyrir Horn í gær hindrunarlítið. Voru það Dettifoss og Nova.
Svohljóðandi skeyti barst Veðurstofunni frá Dettifossi í gærmorgun; Þykk ísspöng sjö mílur austur af Horni — úr því íshrafl að Kögri. Samkvæmt fréttum, sem borist hafa að norðan um helgina, er ísinn, sem borist hafði upp að landinu, og inn á firði á Ströndum, að mestu að hverfa aftur. Sjávarhiti er svipaður og venja er t.d. um þennan tíma árs og gott veður var um helgina nyrðra. Austur með landinu hefir enginn ís sést undanfarna 4—5 daga.

Enn voru þó tafir við Horn. Morgunblaðið segir frá 18.maí:

Skipaútgerð ríkisins barst í gær skeyti frá Súðinni um það, að skipið hefði ekki komist fyrir Horn í fyrrinótt vegna íss og þoku. Hafði Súðin reynt í 14 klukkustundir að komast fyrir Horn en ekki tekist. Lagðist skipið á Hornvík og var beðið átekta, um hádegi í gær létti þokunni og komst Súðin þá leiðar sinnar. Klukkan 4 í gær barst enn skeyti frá Súðinni þar sem sagt var frá því, að skipið væri komið fyrir Horn og að ísinn væri laus við land á hraðri hreyfingu norðaustur með landinu og að siglingaleiðin væri að verða íslaus.

Þann 23. hófst hlaup í Skeiðará. Þetta varð með mestu hlaupum. Við hugum að fréttum af því:

Morgunblaðið segir frá 25.maí:

Vatnsflóðið sprengir jökulinn með miklum krafti. Í fyrrinótt virtist nokkurt hlé á vexti Skeiðarár. En í gærmorgun byrjaði vöxturinn aftur, og var nú enn mjög mikill og sópaði vatnsflóðið burtu símastaurum austast á sandinum, og var sambandslaust við Öræfi frá hádegi í gær, á austurlínunni. Tíðindamaður Morgunblaðsins átti tal við Odd bónda Magnússon á Skaftafelli á 12. tímanum í gær, og var flóðið þá í nýjum vexti og símasamband vont. Síðdegis í gær átti svo tíðindamaður blaðsins tal við Hannes Jónsson bónda á Núpstað og sagði hann þá, að símasambandið austur í Öræfi hefði slitnað um eða laust fyrir hádegi. Sagði Hannes, að útfallið, sem braust út úr jöklinum nokkuð fyrir vestan hið venjulega útfall Skeiðarár, hefði stefnt á 5 símastaura. Þar hefir síminn slitnað. Þetta útfall er ca. 2—3 km. fyrir vestan útfall Skeiðarár. Skyggni var vont eystra í gær; þoka og móða yfir Skeiðarársandi. En þegar Hannes á Núpstað átti síðast tal við Öræfinga, þóttust þeir sjá nýtt vatnsflóð vestar á sandinum, eða nálægt sæluhúsinu. Hannes á Núpstað fór síðdegis í gær austur að Núpsvötnum til þess að athuga hvort þar sæist nokkur breyting. Taldi hann, að lítilsháttar vöxtur væri kominn í vötnin, en hann gæti vel verið eðlilegur, og þyrfti ekki að standa í neinu sambandi við hlaupið í Skeiðará. Ekki var sjáanlegt neitt vatn vestan til á Skeiðarársandi. Hannes hafði það eftir Öræfingum, að þeir teldu að vatnsflóðið eystra væri byrjun jökulhlaups. Úr þessu fengist væntanlega skorið til fulls eftir daginn í dag. Tíðindamaður Mbl. spurði Hannes hversu lengi Skeiðarárhlaupin stæðu venjulega yfir. Það fer eftir því, hversu ört hlaupin koma, segir Hannes. Stundum koma hlaupin mjög ört og standa þá máske ekki nema vikutíma. En svo kemur hitt einnig fyrir, að hlaupin eru að smákoma, og geta þau þá staðið í hálfan mánuð eða 3 vikur.

Morgunblaðið heldur áfram 26.maí 1938:

Hlaupið í Skeiðará er enn ört vaxandi. Breidd vatnsflóðsins um símalínu héðan að sjá, er nú yfir 3 kílómetrar. Samfellt útfall frá Jökulfelli meira en kílómetri á breidd. Mikil jökulhrönn fram á sandinum. Vatnsflóðið vestur við sæluhúsið virðist einnig í hröðum vexti. Öræfingar eiga 160 fjár á Skeiðarársandi og er það í hættu. Einhverjum kynni að þykja það einkennilegt, að fé skuli vera á Skeiðarársandi. En Öræfingar reka alltaf fé á sandinn á vorin; þótt gróður sé þar ekki mikill, er þar kjarngott og vænt féð, sem gengur á sandinum. Morgunblaðið átti tal við Hannes Jónsson bónda á Núpstaó síðdegis í gær, og sagði hann, að vatnflóðið væri nú einnig komið vestan til á Skeiðarársandi og vöxtur kominn í Súlu og Núpsvötnin. Snemma í gærmorgun var ekki sjáanlegur neinn verulegur vöxtur í Núpsvötnum, en þegar leið fram á morguninn var vöxturinn sýnilegur. Hannes fór austur að Lómagnúp, til þess að athuga betur viðhorfið þar eystra. Skyggni var ekki gott í gærmorgun, þoka og rigningarsúld, svo að ekki sást nema ógreinilega austur á Skeiðarársand. En þegar leið á daginn birti til og hafði Hannes sæmilegt yfirsýn úr Núpnum. Var þá kominn allmikill vöxtur í Núpsvötnin og þau sýnilega i örum vexti. Hannes sá nú, að mikið vatn rann fram um miðbik Skeiðarársands og einnig vestan til á sandinum. En mest virtist vatnsflóðið vera um miðbik sandsins, séð frá Hannesi. Þar sem flóðið rennur fram sandinn, er síminn vitanlega í hættu. Enn er ekki vitað hve mikil brögð eru að skemmdum á símanum. Í síðasta Skeiðarárhlaupi sópaðist síminn burtu á 5 km. svæði. Sæluhúsið, sem er austan til á sandinum sópaðist þá einnig burtu.

Enn verður ekki sagt með neinni vissu um það, hvort vatnsflóð þetta stafar af eldsumbrotum í jöklinum. En það mun nú almennt álit sérfróðra manna, að hin reglulegu Skeiðarárhlaup stafi af eldsumbrotum í jöklinum. Þótt ekki hafi enn orðið vart neinna eldsumbrota eða önnur merki þess, að eldur væri uppi þarna eystra, getur vel verið, að hlaupið stafi frá eldsumbrotum. Oft líða margir dagar frá því að vöxtur byrjar að koma í Skeiðará og þar til menn verða varir við eldsumbrot í jöklinum. Í seinasta Skeiðarárhlaupi (í mars 1934) byrjaði Skeiðará að vaxa 23. mars. En það var ekki fyrr en 30. mars, eða á áttunda degi, að menn urðu varir eldsumbrotanna í jöklinum. Öræfingar munu nú yfirleitt þeirrar skoðunar, að hér sé um reglulegt hlaup að ræða. Sömu skoðunar er Hannes, bóndi á Núpstað, sem þekkir hlaupin í Skeiðará manna best, Er því ekki ósennilegt, að innan fárra daga fari eldsumbrotin að gera vart við sig eystra.

Morgunblaðið segir fréttir af Skeiðará 28.maí:

Skeiðarársandur að mestu í kafi íshrannir um allan sandinn. Flugvélin kom til Hornafjarðar kl. 13:30 í gær, eftir þriggja stunda flug héðan úr Reykjavík. Flogið var yfir Skeiðarársand og inn yfir Vatnajökul. Þokuslæðingur var yfir jöklinum svo Grímsvötn sáust ekki. Ekki sáust nein merki um eldgos, en hlaupið virðist geysimikið. Skeiðarársandur er að mestu í kafi undir vatni og jakahrannir um allan sand. Á fimmtudag (uppstigningardag) símar Oddur svohljóðandi: Hlaupið braust geysimikið út í nótt og tekur yfir allt hlaupfar síðasta Skeiðarárhlaups (1934) og er nú héðan að sjá að heita eyrarlaust. Símalínan öll sópast burtu, nema 4—6 staurar á öldusporði. — Klukkan 4 í nótt virtist hlaupið ná hámarki. Þá var héðan að sjá eitt ölduhafrót 2 km. í vestur og svo stórkostlegt, að annað eins hefir ekki sést. Kl. 9 í morgun var farið að lækka á boðunum. — Flóðið austan við sæluhúsið virtist einnig hafa aukist; breidd þess um útfall 2—300 metrar, en dreifist mikið er fram á sandinn kemur og hefir eitthvað af sauðfé farist þar í flóðinu.

Í gær símar Oddur svohljóðandi: Flóðið hér eystra fór minnkandi í gær, en óx austan við sæluhúsið vestur á sandinn. Þar breiðist nú flóðið mikið út. Verður tæpast séð fyrir jökulhrönn hvort sæluhúsið stendur. Í gær féll hér á málma, kopar varð dökkblár og óvenjumiklar truflanir urðu á viðtæki. Hlaupið er nú sýnilega í rénun. Helgi Arason á
Fagurhólsmýri fór í dag á jökul til myndatöku. Morgunblaðið átti í gærmorgun tal við Hannes á Núpsstað. Var þá gott skyggni austur. Sagði Hannes, að samfeld ísbreiða væri á sandinum frá Sigurðarfitjarálum og austur eins langt og sæist. Væri að sjá einn hafsjór austur á sandinum og næði flóðið til Núpsvatna skammt suður á sandinum. Mikill vöxtur var í Núpsvötnum, en ekki ísframburður þar. Ekki hafði Hannes séð nein merki um eldgos.

Morgunblaðið segir 29.maí af flugleiðangri:

Flugleiðangurinn til eldstöðvanna í Vatnajökli. Áður óþekktar eldstöðvar norður af Grímsvötnum. Engin eldsumbrot sjáanleg ennþá.

Tíðindamaður Morgunblaðsins náði í gærkvöldi tali af Pálma Hannessyni rektor og fékk frá honum eftirfarandi frásögn af fluginu: Við lögðum af stað úr Reykjavík kl. 10 1/2 árdegis á föstudag. Flugum fyrst hér beint austur fyrir norðan Hengil, en svo meðfram Suðurströndinni. Er við komum móts við Skeiðarársand vorum við í 1000 m hæð. Var þá bjart veður og útsýni gott. Skeiðarársandur var þá allur í kafi í vatni, að undanskildum fáeinum tungum út frá jöklinum, efst á sandinum. Fram við sjó voru einnig smáeyjar. Stórfeld útföll voru til sjávar og þar feikna straumur langt út á sjó. Við flugum nú marga hringi yfir Skeiðarársand, tókum myndir og filmuðum. Svo hækkuðum við flugið í 2000 m og héldum inn yfir jökulinn og var nú ferðinni heitið yfir Grímsvötn. En er við komum inn fyrir Grænafjall sást þokukembingur á jöklinum. Snerum við þá við og héldum suður að Öræfajökli, en hann var þá hulinn þoku. Við flugum fyrir norðan Öræfajökul og renndum okkur svo niður yfir Breiðamerkurjökul og héldum síðan til Hornafjarðar.

Veðurútlit var ekki gott á föstudagskvöld, svo við afréðum að bíða með næsta leiðangur þar til seinni part nætur, en þá léttir oft þokunni af jöklunum. Kl. 3 1/2 um nóttina kom tilkynning frá Fagurhólsmýri um að bjart væri veður. Kl. 4 1/2 lögðum við af stað frá Hornafirði. Við flugum strax í 2000 m hæð. Flugum vestur fyrir hornið á Öræfajökli, inn yfir sandinn og Skeiðarárjökul og norður yfir Vatnajökul. Þegar við komum yfir Grímsvötn sáum við mikil missmíði á jöklinum ca. 8—10 km fyrir norðan Grímsvötn. Þar voru miklar hringlagaðar sprungur í jöklinum og jökullinn sokkinn niður. Sást greinilega sprungurás alla leið í Grímsvötn. Þar sem rásin náði NV-horni dalsins var að sjá talsvert umrót og miklar sprungur. Hvergi sást reykur. Syðst í Grímsvatnadalnum, þar sem eldurinn var uppi 1934 var nú allt með kyrrum kjörum, nema hvað dalbotninn virtist lítið eitt siginn. Við höfðum þarna ágætt útsýni. Sáum yfir alla botna upp frá Skeiðarárjökli. Var hvergi annarsstaðar að sjá missmíði, nema suður frá Grímsvötnum á tveimur stöðum. Þar voru að sjá alveg nýjar sprungur í jöklinum.

Aðalhlaupið úr jöklinum hefir komið úr 10 stórum útrásum, auk nokkurra smærri. Sumar útrásirnar eru heljarstórir hellar. Hlaupið hefir lagt undir sig allan sandinn að neðanverðu, aðeins skilið eftir tungur út frá jöklinum. Jakahrönnin er mest austantil
á sandinum. Eru austustu útföllin langstærst Þar hafa hrannir af stórjökum borist alla leið suður á móts við Sandfell. Upp við jökul eru jakarnir á stærð við stórhýsi. Yfirleitt munu þó íshrannirnar á sandinum minni nú en 1934, því að hlaupið virðist hafa komið dreifðara úr jöklinum. [Tilgangur fararinnar] var sá, að athuga hlaupið og eldstöðvarnar. Að við tókum flugvélina í þennan leiðangur stafaði af tvennu, sagði Pálmi: 1) Með því eina móti var unnt að fá nokkra hugmynd um hlaupið meðan það var að gerast og ná af því myndum, en jökulhlaup eru óþekkt annarsstaðar á jörðinni en hér og ekki er til nema ein mynd af jökulhlaupi, þ.e. í Súlu haustið 1935. 2) Nauðsynlegt er að rannsaka jökulinn í námunda við eldstöðvarnar, til þess að geta eftir á séð hvaða breytingum hann tekur. Ef gos kemur nú eftir þetta hlaup hefði ekkert verið til samanburðar, annað en athugun sú, sem gerð var á eldstöðvunum 1934 og 1936. En þá vantaði athugun áður en gosið byrjaði. Nú tókst, þessi athugun vel. Má þakka það því, að við vorum heppnir með veður og ekki síst framúrskarandi dugnaði flugmannsins, Agnars Koefoed-Hansens. Þetta er í fyrsta skipti sem flogið er yfir Vatnajökul og Öræfajökul. Vél og flugmaður stóðust þessa raun vel.

Í gær barst Morgunblaðinu svohljóðandi skeyti frá Oddi á Skaftafelli: Hlaupið fer hægt fjarandi og er nú aðeins í breiðum álum, óreiðum á hestum. — Ekki verður en sagt með vissu um tjónið af völdum hlaupsins, en það hefir orðið mikið. Síminn hefir sópast burtu á allt að 7 km svæði austan Sigurðarfitjar. Vafalaust hefir margt sauðfé, sem var á sandinum farist í flóðinu. Talsvert var af rekavið á fjörunum og hefir hann allur sópast burtu. Þá hefir selveiði Öræfinga eyðilagst á þessu ári, en hún hefir venjulega gefið 150 seli.

Morgunblaðið segir af tæpu flugi í fregn þann 31.maí. Síðustu daga maímánaðar gerði hríðarveður um landið norðvestan- og vestanvert. Alhvítt varð á Vestfjörðum og suður á Snæfellnes - og að næturlagi á höfuðborgarsvæðinu. 

Flugvélin TF—JÖRN lenti í hríð er hún var á leiðinni frá Búðardal hingað á sunnudagsmorgun. Hún varð að fljúga lágt, í 12—15 m. hæð og þræða ströndina inn með hverjum firði og hverri vík. Einu sinni hélt flugmaðurinn að hann hefði villst af réttri leið og lenti til þess að fá upplýsingar um hvar hann væri staddur. „Ef ég flaug upp í 20 m hæð, sá ég ekkert nema hríðina í kringum mig“, sagði flugmaðurinn í gær. Hann var 2 klst og 20 mínútur á leiðinni að vestan, en vestur fór hann á rúmlega 50 mín.

Júní fékk ekki sérlega góða dóma, gekk á með kuldahretum og snjóaði þá í fjöll og jafnvel niður í byggð. 

Ljárskógar (Hallgrímur Jónsson): 28. Fennt á fjöll og niður að bæjum.

Lambavatn: Það hefir verið mjög breytilegt. Stormur og stórrigning um miðjan mánuðinn. Oftast fremur kalt svo grasvöxtur er ekki góður. En sumstaðar er þó verið að byrja að slá.

Sandur: Tíðarfar mjög kalt og úrkomur alltíðar. Gróðri fór afarseint fram og eru sprettuhorfur í allra versta lagi.

Reykjahlíð (Gísli Pétursson): Júnímánuður var með afbrigðum kaldur og hrjóstugur. Andavarp byrjaði ca. viku síðar en vanalegt er og tún eru tæplega hálfsprottin í lok mánaðarins. [Alhvítt var í Reykjahlíð að morgni 28.].

Morgunblaðið segir af orsökum Skeiðarárhlaups bæði 4. og 9. júní: 

[4.] Skeiðarárhlaupið stafar frá eldsumbrotum í Grímsvötnum. Gosið þó ekki náð upp úr jöklinum. Klukkan um 12 í gærkvöldi komu þeir Jóhannes Áskelsson, Tryggvi Magnússon og fylgdarmenn þeirra að Kálfafelli í Fljótshverfi, úr leiðangrinum til eldstöðvanna í Vatnajökli. Þeir félagar komu niður af jöklinum síðdegis á fimmtudag og héldu fylgdarmennirnir þá áfram til byggða, til þess að fá hesta til flutnings á farangrinum. Tíðindamaður Morgunblaðsins átti tal við Jóhannes Áskelsson strax eftir komu hans að Kálfafelli í gærkvöldi og fer hér á eftir frásögn hans. — Ferðin hefir gengið vel, segir Jóhannes Áskelsson. Við komum norður til Grímsvatna á mánudagskvöld. Þar hafa orðið all-stórfeld umbrot í jöklinum, sem bersýnilega stafa af eldsumbrotum og teljum við ekki vafa á, að Skeiðarárhlaupið stafi frá þeim. Þessi umbrot eru á svipuðum slóðum og gosið 1934, en þó lítið eitt norðar. Ekki taldi Jóhannes neinn vafa á, að umbrotin þarna í jöklinum stöfuðu frá eldsumbrotum. Hinsvegar hefir ekki gosið upp úr jöklinum því að þar sást engin aska eða vikur. Tíðindamaður Morgunblaðsins skýrði Jóhannesi frá umbrotum þeim, er þeir flugleiðangursmenn þóttust sjá í jöklinum um 8—10 km. fyrir norðan Grímsvötn, en Jóhannes taldi þau ekki stafa frá eldsumbrotum.

[9.] Úr frétt um ferð í Grímsvötn - rætt er við Jóhannes Áskelsson og Tryggva Magnússon. Hvernig var svo um að litast á eldstöðvunum?, spyr tíðindamaður Morgunblaðsins. Aðalbreytingarnar sem þarna hafa orðið og við urðum varir, eru að ca. 30 ferkílómetra stór jökulspilda í norðvesturhorni Grímsvatnadals hefir sigið niður ca. 100—200 metra. Ekki sáust nein merki þess, að upp úr hafi gosið. Engin aska þarna sjáanleg og enginn vikur. En auk þess lá allbreitt sprungubelti í norðvestur frá jökulsiginu og var þar alófært yfirferðar. Árið 1935 vorum við þarna á ferð, komum frá Kverfjöllum og gengum þá hindrunarlítið þvert yfir, þar sem sprungubeltið liggur nú. Allar sprungurnar þarna í jöklinum voru nýjar og teljum við ekki vafa á, að hlaupið í ánum nú nú hafi staðið í sambandi við þau umbrot, sem orðið hafa þarna undir jöklinum. — En hvernig hefir svo vatnið fengið framrás? spyr tíðindamaður Mbl. Jóhannes Áskelsson. — Það eitt er víst, að framrásin hefir ekki orðið á yfirborðinu, svarar Jóhannes. En að öðru leyti er þetta órannsakað. — Að sunnanverðu takmarkast Grímsvatnadalurinn af móbergsvegg, sem vatnið á einhvern hátt hlýtur að fá framrás gegnum. Ekkert skarð sést á yfirborðinu gegnum þennan móbergsvegg, svo vatnið hlýtur að fá framrás einhversstaðar undir jöklinum. Í þessu sambandi má benda á, að Hvítá hverfur stundum undir Hestfjall. Þetta er staðreynd þótt menn viti ekki hvernig þetta skeður.

Veðráttan segir að þann 6. hafi stór skriða fallið við eyðibýlið Nýabæ í Hörgárdal. Leysing var mikil. Sömuleiðis er sagt frá snjókomu norðanlands og yfir í Dali, sums staðar festi snjó.

Vísir segir 10.júní af gróðureldi nærri Grindavík:

Allmikill eldur hefir komið upp í Grindavíkurhrauni meðfram þjóðveginum, en hraunið er eins og mönnum er kunnugt mosavaxið og lítt upp gróið. Ekki er vitað með vissu hvenær eldurinn hefir komið upp, en líkindi eru til að hann hafi brotist út a mánudaginn var eða þriðjudaginn og hefir hann náð allmikilli útbreiðslu og logar nú í tveimur hekturum lands. ... Eldurinn í hrauninu hefir komið upp í krika milli þjóðbrautarinnar og afleggjara að helli i hrauninu og hefir eldurinn ekki komist yfir veginn, en leitað töluvert á hann með því að vindur hefir verið áð norðvestan undanfarið. Telja má víst að eldurinn hafi komið upp með því móti að menn, sem um veginn hafa farið, hafi kastað vindlingi í mosann eða farið óvarlega með eld að öðru leyti.

Í Morgunblaðinu 14.júní er viðtal við þýskan prófessor, Niemezyk að nafni um jarðeðlisfræðimælingar á Íslandi. Þar segir m.a.:frá fyrirhuguðum mælingum á landreki hér á landi:

Eins og kunnugt. er, er Wegeners-kenningin í aðalatriðum sú, að löndin séu á hreyfingu, á „floti“ að heita má á yfirborði jarðar. Að t.d. Ísland og Grænland annaðhvort nálgist eða fjarlægist um ákveðið bil á ári. Að meginlöndin sitt hvorumegin við Atlantshaf hafi
eitt sinn legið saman, en síðan skilið og úthaf myndast milli þeirra. Nú væri eðlilegt að rannsaka þessa „landflutninga“ með því að gera hnattstöðumælingar og sjá þannig hvort ákveðnir staðir nálguðust eða fjarlægðust. En þó engin hreyfing finnist með þessu móti, er ekki þar með sagt, að engin hreyfing hafi átt sér stað. Hún getur hafa stöðvast, hætt í bili, og byrji máske að nýju seinna meir. Því í jarðmyndun og jarðsögu eru jafnan kyrrstöðu tímabil. Hvergi í heimi eru sprungur í jörð eins og hér á landi, hinar löngu gjár, marga tugi kílómetra á lengd, eldfjallasprungurnar. Að óreyndu er eðlilegt að menn geti sér þess til, að þar sem þær eru, þ.e. í móbergshéruðum, eldfjallahéruðum landsins, þar sé jörðin á hreyfingu, sé „fljótandi“, ef svo má að orði komast. Til þess að fá vissu sína um þetta höfum við ákveðið að gera nákvæmar mælingar, þvert yfir móbergssvæðið í Þingeyjarsýslum. Við byrjum mælingarnar í basaltfjöllunum austanvið Eyjafjörð, og mælum síðan með allri þeirri nákvæmni, sem hin bestu mælitæki leyfa, austur eftir sveitunum og alla leið til Grímsstaða á Fjöllum. En þar tengjum við mælingar okkar við basalthrygg, sem þar stendur upp úr móberginu. Með þessu eins og byggjum við mæliröð yfir móbergssvæðið, milli basaltfjalla. Síðari mælingar og rannsóknir eiga svo að leiða það í ljós, hvort basaltfjöllin sitt hvoru megin við móbergssvæðið nálgast eða fjarlægjast hvort annað, hvort landið er að gliðna eða
hvort það dregst saman, eða hvort þetta alt er hugarburður, eða svo lítið, að engar mælingar nái því. En það tel ég ólíklegt. Jafnframt því, sem við mælum þessar fjarlægðir, og ákveðum legu ótal margra staða á þessari 120 km leið, svo samanburðurinn verði sem gleggstur við seinni mælingar, rannsökum við jarðlögin á ýmsan hátt. T.d. athugum við með sérstökum verkfærum eðlisþyngd jarðlaganna, svo við getum gert okkur grein fyrir því, hve móbergið eða annað gosgrjót er þykkt ofan á hinu eldra bergi. Ennfremur ætlum við m.a. að rannsaka segulmagn hraunanna, en eftir því er hægt að ráða um aldur þeirra o.fl. En það er of flókið til að fjölyrða um að þessu sinni. Nú er að vita hve vel okkur gengur með hinar nákvæmu mælingar, sem við vitaskuld byggjum á mælingum herforingjaráðsins danska. Forstjóri þeirra mælinga, Nörlund prófessor, segir að þær séu ekki nákvæmari en svo, að skeikað geti 30—40 sentímetrum á 20—30 kílómetrum. En við verðum að hafa okkar mælingar mikið nákvæmari. ... En sem sagt. Í sumar verður þetta aðeins undirbúningsverk. Þegar við komum eftir 5—10 ár, og mælum að nýju, fáum við að sjá, hvort alt er með kyrrum kjörum, fjarlægðin milli Grímsstaða og Akureyrar er hin sama, ellegar minni en hún var. Spurningin er þessi: Eru Þingeyjarsýslur að verða breiðari? Eða eru þær að ganga saman? Niðurstaðan á þessu verður mikilsverður þáttur til að sanna eða afsanna kenningu Wegeners um „landflutningana“.

Nýja dagblaðið segir 22. júní af skriðuföllum í Eyjafirði:

Aðfaranótt sunnudagsins 19. þ.m. hljóp skriða úr Kleifargarðsfjalli í Eyjafirði og féll skammt fyrir sunnan Hleiðargarð — allt niður í Eyjafjarðará. — Skriðan er um 300 metra
breið sumstaðar og nálægt þriggja metra þykk þar sem mest er. Skemmdir urðu bæði á túni, engjum og girðingu. — Akvegurinn hefir og tekist af, svo að þar er ófært bifreiðum uns við verður gert. Óvíst er enn hvort fé hefir farist. Skriðuhlaup og vatnarennsli hélst alla nóttina og öðru hvoru á sunnudag. — FÚ.

Stöðugar fréttir eru í blöðum af gangi síldveiða. Hér er dæmi úr Morgunblaðinu 24.júní:

Þrátt fyrir gott veður fyrir Norðurlandi, varð lítil sem engin síldveiði. Telja sjómenn
að síldin vaði ekki vegna kuldatíðar. Þegar síldin veður, er hún strjál og stygg.

Alþýðublaðið segir frá 27.júní:

Um miðjan dag í gær fór að snjóa á Siglufirði og hélt áfram að snjóa, þegar blaðið átti tal við Siglufjörð í morgun. Var orðið hvítt ofan að sjó á Siglufirði.

Júlí þótti slakur, en batnaði undir lokin. Veðurathugunarmenn segja frá:

Síðumúli: Veðráttan yfirleitt köld og vætusöm. Tún og engi illa sprottin. Taðan gulnaði og hraktist á túnunum, en síðustu daga mánaðarins var þerrir, og þá þornaði mikið af því sem laust var. Að því leyti skildi júlímánuður vel við heyskapinn. Tvo fyrstu dagana af ágúst var líka þerrir og var þá taðan hirt.

Lambavatn: Það hefir verið hagstætt fyrir heyskap. Gengur heyskapur fremur vel. Tún víða alhirt og sumstaðar töluvert búið að slá á engjum.

Suðureyri: Stillt, úrkomulítið, hlýtt. Kyrr sjór. Óvenjugóðar gæftir og meiri afli á færi en í nokkrum einum mánuði s.l. 8-10 ár. Mjög hagstætt til lands og sjávar.

Sandur: Tíðarfar lengst af mjög kalt og slæm sprettutíð enda er grasvöxtur í allra minnsta lagi víðast hvar. Tín hafa þó náð sér talsvert undir mánaðamótin, en engjar eru mjög lélegar.

Fagridalur: Framúrskarandi óþurrkasöm tíð og jafnaðarlegast þykkvíðri. Óstillt en þó sjaldnast stórviðrasamt. Yfirleitt hefir þessi mánuður verið eins og allt vorið, kaldur og úrkomusamur svo til vandræða horfir.

Hallormsstaður (Guttormur Pálsson): Sólarleysi og þokur allan mánuðinn.

Morgunblaðið segir 5.júlí af kuldum og snjó á Siglufirði:

Siglfirðingar segjast ekki muna annan eins kulda á þessum árstíma, eins og var í fyrri viku. Flesta dagana snjóaði í fjöll, og 2 morgna var hvítt ofan í sjó, segir Óskar [Halldórsson].

Morgunblaðið segir 16.júlí frá dálitlu jökulhlaupi úr Fjallsá í Öræfum:

Flokkur Ferðafélags Íslands, sem fór til Hornafjarðar og þaðan landleiðina suður, um Öræfi, strandaði í gær í Suðursveit, vegna þess að jökulhlaup kom í smásprænu á Breiðamerkursandi, svo að hún varð alófær yfirferðar og er búist við að hún verði ófær í 2-3 daga. Spræna þessi er Fjallsá, nokkru fyrir austan Kvísker á Breiðamerkursandi. Venjulega er áin kornlítil, en þó kemur í hana jökulhlaup við og við, en sjaldan svo stórfeld, að hún verði ófœr, því að hún dreifir sér þá um sandinn. En nú breytti áin um farveg um leið og jökulhlaupið kom í hana og rann miklu þrengra en venjulega og varð alófær yfirferðar. Hafði áin fellt 2 símastaura og menn óttuðust að hún myndi slíta símasambandið austur.

Ágúst bjargaði málum. En snörp næturfrost spilltu þó fyrir í garðlöndum.  

Síðumúli: Veðráttan yfirleitt góð. Heyskapartíð sæmileg. Síðustu dagarnir yndislega sólríkir, en frost um nætur.

Suðureyri: Mjög hlýtt og kyrrt. Engin stórviðri. Þó snjóaði tvisvar í fjöll. Kyrr sjór. Hélunótt spillti kartöflukáli. Góðar gæftir. Allhagstæð tíð og nýting góð.

Sandur: Gott tíðarfar. Hagstæð heyskapartíð. Nýting góð.

Nefbjarnarstaðir: Tíð góð og þurrkar fram um miðjan mánuð, síðan mjög óþurrkasamt.

Morgunblaðið segir 4. ágúst frá góðri tíð í Vestmannaeyjum:

Fréttaritari Morgunblaðsins í Vestmannaeyjum símar, að þar hafi verið frámunalega góð tíð það sem af sé sumars. Fiskur sé nú nærri allur þurrkaður og fyrri sláttur langt kominn.

Morgunblaðið segir 24. ágúst af næturfrostum: 

Um síðustu helgi [20.-21.] voru næturfrost víða um Norðurland og skemmdist þá kartöflugrasið í görðum og munu sumstaðar svo mikil brögð að þessu, að hætt er við að uppskeran eyðileggist með öllu. Hafa borist fregnir um slíkar skemmdir í görðum í Skagafirði, Svarfaðardal í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslu. Varð kartöflugrasið víða í görðum, er hátt liggja kolsvart að ofan og fallið mjög. Vegna vorkuldanna s.l. vor gekk sprettan í görðum mjög seint framan af. Þess vegna er nú — enda þótt áliðið sé — ekki það vel sprottið í görðunum, að grasið megi falla. Er því hætt við tilfinnanlegum uppskerubresti víða í þessum héruðum.

Þann 21. ágúst varð alhvítt í heiðabyggðum norðaustanlands (Veðráttan). 

September var hagstæður mánuður:

Lambavatn: Það hefir verið milt og stillt. En nokkuð votviðrasamt. Heyfengur yfir sumarið er í meðallagi og sumstaðar meiri. Hey eru allstaðar ágæt. Vöxtur í görðum er í meðallagi.

Suðureyri: Óvenju hlýtt og stillt. Lengstum blíðviðri. Úthagi algrænn allan mánuðinn sem er sjaldgæft. Úrkoma lítil, nema 3 daga, þó mikil. Fannir í háfjöllum með allra minnsta móti.

Sandur: Yfirleitt gott tíðarfar, milt og úrkomur óvenju litlar. Hvassviðrið 8. og 9. gerði nokkurn skaða á heyjum sumstaðar. Heyfengur er með minnsta móti yfir sumarið, en nýting hefir yfirleitt verið góð. Uppskera úr görðum helmingi minni en í meðalári. Dilkar eru með vænna móti.

Nefbjarnarstaðir: Mjög góð og hagstæð tíð.

Tíminn segir 20.september af kornrækt á Hvanneyri:

Á Hvanneyri var í vor sáð korni, bæði byggi og höfrum, í 7—8 dagsláttur lands. Tíð var köld í vor og hamlaði það sprettunni. Kornakrarnir hafa nú verið slegnir að mestu og kornið stakkað, en þresking hefir ekki enn farið fram. Byggið er talið hafa náð sæmilegum þroska, en hafrarnir eru heldur illa þroskaðir.

Október var einnig hagstæður, en talsvert illviðri gerði þó þann 23.

Lambavatn: Það hefir verið hagstæð tíð, nema seinustu viku mánaðarins hefir verið stórgerðir umhleypingar. Jörð alltaf auð nema nú 2 síðustu dagana.

Sandur: Tíðarfar milt en mjög úrkomusamt. Jörð þíð og snjólaus því nær allan mánuðinn.

Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Mývatn hefir ekki lagt í mánuðinum og er það sjaldgæft.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar yfirleitt gott en nokkuð votviðrasamt.

Morgunblaðið segir í leiðara af veðráttu sumarsins í byrjun vetrar 23. október:

Fyrsti vetrardagur var í gær. Sumarið, sem nú hefir kvatt, var að mörgu leyti hagstætt. Gróður kom að vísu seint til, og byrjaði sláttur með seinna móti. En þrátt fyrir það hefir heyfengur orðið sæmilegur víðast hvar. Þurrkar voru að vísu daufir og urðu margir því að hirða nokkuð djarft, enda hefir sumstaðar hitnað svo í heyjum, að tjón hefir af hlotist. En þrátt fyrir þetta má telja að nýting heyja hafi yfirleitt verið fremur góð í sumar. Spretta í görðum hefir orðið sæmileg á Suðurlandi, þrátt fyrir kuldana í vor. En á Norðurlandi ollu næturfrost um mitt sumarið miklum kyrkingi í allan gróður, einkum í görðum. En þrátt fyrir bærilega uppskeru úr görðum hér syðra, er talið að kartöfluuppskeran sé ekki meiri en það, að t.d. hér í Reykjavík muni þurfa að flytja inn erlendar kartöflur upp úr nýári. Er hörmulegt til þess að vita, hve seint sækist að því marki, að fullnægt sé þörfum landsmanna með innlendum kartöflum. Fé hefir reynst óvenjulega vænt til frálags í haust, en svo mun það jafnan vera, þegar seint sprettur en grös haldast ósölnuð lengi fram eftir.

Morgunblaðið segir þann 25.október af illviðrinu þann 23.:

Stormurinn í fyrrinótt olli miklu flóði á Stokkseyri og Eyrarbakka, og hefir ekki annað
eins flóð komið þar í mörg ár, símar fréttaritari vor á Selfossi. Sjóvarnargarðurinn brotnaði á nokkrum stöðum og flóðið gekk upp á veginn, sem liggur gegnum þorpin. Ekki urðu neinar skemmdir á húsum af völdum flóðsins, en bátar losnuðu frá festum og rak á land. Í gær var brimið farið að minnka mjög og ekki talin hætta á flóði aftur að þessu sinni. Flóðið var einna mest austan við Hraunsá og þar braut sjórinn stórt skarð í sjóvarnargarðinn og bar sand á engjar. Á Stokkseyri sleit upp bát sem rak á land. Var það „Sísí“, eign Guðmundar Böðvarssonar. Tveir bátar, sem lágu úti á höfninni, slógust saman og var hætta á að þeir myndu brotna. Báturinn, sem rak á land, skemmdist nokkuð. Á Eyrarbakka sleit einnig upp bát, „Ingu“, en það tókst að bjarga bátnum áður en hann skemmdist.

Suðvestan hvassviðri gerði hér á Suðvesturlandi í fyrrinótt og komst veðurhæðin upp í 11 vindstig í Reykjavík kl. 3—5 í fyrrinótt. Suðvestanáttin náði langt suður í haf og skip, sem stödd voru vestur af Skotlandi um hádegi í gær sögðu Veðurstofunni að vindur væri þar allt upp í 10 vindstig. Í Englandi var aftur á móti lygn suðvestan-átt 2—4 vindstig. við vesturströnd Noregs var í gær sunnan hvassviðri og norður í hafi hvöss átt, allt að 11 vindstig á Jan Mayen. Búist er við að veðrið lægi í dag hér á Suðvesturlandi. Nokkrar skemmdir hafa orðið af veðrinu, einkum á Eyrarbakka, Stokkseyri og Grindavík.

Skemmdir í Grindavík. Í Grindavík var sunnan stórviðri með stórbrimi og flóði og gekk sjór viða upp um tún og skemmdi þau, einkum á bænum Hópi. Einnig tók sjórinn báta er stóðu fyrir ofan naustin, kastaði þeim til og braut suma. Nokkrar skemmdir urðu líka á bryggjum og lendingum.

Alþýðublaðið segir af sama veðri í pistli 25.október:

Ofsaveður af suðlægri átt gekk yfir mestan hluta landsins í fyrrinótt og stóð langt fram á dag í gær. Stórbrim var af völdum veðursins við suðurströnd landsins. Grindavík: Þar gerði afspyrnu rok af suðsuðvestri með stórbrimi og flóðhæð. Gekk sjórinn sumstaðar langt upp á tún og bar á þau sand. Sjórinn náði og til nokkurra vébáta, sem stóðu efst í naustum, kastaði þeim til og skemmdi meira og minna. Vestmannaeyjar: Aftaka brim var þar í fyrrinótt og í gær. Opinn vélbát tók út — en bátinn rak upp á Eiðið lítt skemmdan. Eyrarbakki: Ofsaveður var þar einkum síðdegis í fyrradag, um nóttína og í gær — og fylgdi því stórbrim og sjávarflóð. Á Eyrarbakka féll sjór inn um hliðin og upp í kálgarða og upp á akveginn í gegnum þorpið. Á milli þorpanna — Eyrarbakka og Stokkseyrar — austan Hraunsár, braut brimið talsvert af sjóvarnargarðinum. Á Stokkseyri varð enn meira brim. Vélbátinn Sísí, 12 til 13 smálesta — rak á land og brotnaði hann talsvert og tveir aðrir — Haukur og Inga — slógust saman og löskuðust eitthvað. Sjór gekk upp í garða og tún. Um miðaftan í gær var farið að draga úr briminu og veðrið að lægja. FÚ

Morgunblaðið segir 27.október af slysi á Síðuafrétti og öðru við Kjalarnes:

Leitarmenn á Síðuafrétti hrepptu aftaka veður s.l. sunnudag [23.] og varð einn þeirra úti. ... Um hádegi gerði austan storm með kraparigningu og snjókomu á hálendinu.

Enginn vafi leikur á því, að bátur Sigurþórs Guðmundssonar hefir farist á sunnudaginn og bæði Sigurþór og Albert Ólafsson farist með bátnum. Slysavarnafélag Íslands gerði í gær út leitarmenn til að leita að bátnum, bæði í Andriðsey og meðfram fjörum á Kjalarnesi. Fundu leitarmenn rekald úr bátnum í Andriðsey og í fjörunni milli Brautarholts og bæjarins Bakka ... Talið er víst, að báturinn Hafi farist syðst í Músarsundi.

Morgunblaðið segir af strandi togara 1. nóvember:

Breski togarinn Lincolnshire frá Grimsby strandaði aðfaranótt sunnudagsins [30. október] út af Keldudal við Dýrafjörð. Norðan stormur og hríð var er togarinn strandaði. Hafði skipið legið fyrir festum í Dýrafirði en rekið upp í veðrinu. Skipshöfnin hefir haldið sig um borð í skipinu síðan það strandaði.

Tíð í nóvember þótti góð um landið sunnan- og vestanvert og fram yfir miðjan mánuð nyrðra, en þá gerði þar víða mikinn snjó og illviðri gengu yfir.  

Lambavatn: Það hefir verið óvenju gott, úrkomulítið og nær alltaf kuldalaust. Þegar hefir komið snjór hefir það ekki verið nema fjúk. En það hefir verið nokkuð vindasamt.

Suðureyri: Stirt og stórgert. Óvenju frostvægt. Úrkoma mikil og óhemjufannkynngi 21.-26. með mestu snjókomu sem hér gerist.

Sandur: Tíðarfar umhleypingasamt og úrkomur tíðar og allstórfelldar með köflum. Snjólítið lengst af, en gerði áfreða og víða jarðlaust þ.20., einkum nálægt sjó. Um það bil rak í ár.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar mjög umhleypingasamt og úrkomur talsverðar, einkum rigning. Kuldar ekki miklir.

Þann 2. nóvember gerði mikið illviðri á Halamiðum. Þá fórst þar togarinn Ólafur. Enginn veit hvað gerðist. Aðrir lýsa veðri, um það er fjallað í frétt Morgunblaðsins 8. nóvember:

Mörg skip voru á Halamiðum þennan dag, þegar veðrið skall á. Meðal þeirra var togarinn „Hannes ráðherra“. — Hefir Morgunblaðið átt tal af Guðmundi Markússyni skipstjóra á „Hannesi ráðherra“ og fengið hjá honum eftirfarandi frásögn af veðrinu og því, sem fyrir bar (mikið stytt hér). Á mánudag, 31. október var svo mikill ís á Halamiðum, að þar var þá ekki unnt að fiska. En ísinn var á reki út, og seinnipart þriðjudags, 1. þ.m. var ísinn rekinn það út, að skip gátu farið að fiska. Var þá hrafl af ís austan til á Halanum, og til djúpsins; sáum við vel til íssins en íslaust var þar sem skipin voru. Eftir að veðrið skall á, urðum við ekki varir við ís. Þriðjudaginn 1. nóvember vorum við að toga á Halanum. Veður var sæmilegt um daginn, austnorðaustan kaldi og úrkomulaust framan af. En um kvöldið þykknaði upp með snjókomu, og snjóaði mikið um tíma, en frostlaust var allt af. Þegar komið var fram undir miðnætti aðfaranótt miðvikudags 2. þ.m. minkaði snjókoman, en þó var áfram mjög dimmt í lofti. Vindur fór þá líka heldur vaxandi af austnorðaustri. En ekki mun vindur hafa verið yfir 5—6 stig um nóttina, fram undir birtu. Svo um klukkan 7 á miðvikudagsmorgun [2.] versnar veðrið skyndilega. Gerði þá ofsa rok, sem helst allan daginn. Veðrið gekk á með nokkrum hrinum og mun veðurhæð hafa verið um 10 vindstig að jafnaði, en 11 vindstig í hrinunum. Snjókoma var ekki mikil, og frostlaust. Um kl.7 á miðvikudagskvöld fór að draga úr veðrinu, og um miðnætti aðfaranótt fimmtudags 3. þ.m., var orðið fært að sigla.

Strax og veðrið skall á, hafði ég hug á að komast burt af Halanum, segir Guðmundur Markússon. Það er reynsla okkar sjómanna, að hvergi eru sjóirnir eins stórkostlegir og
illir viðureignar og úti á Hala. Er líkast því, sem þar sé stórkostleg röst, þar sem straumar mætast. En sé komið ca. 14 mílur upp að landi, þá er eins og komið sé á nýjan sjó allt gerbreytist.

Vísir segir 10.nóvember frá óvenjulegri ísingu á Suðurlandi:

Aðfaranótt síðastliðins sunnudags gerði afarmikla og óvenjulega ísingu á Suðurláglendinu, einkum í Ölfusi og Flóa. — Á svæðinu framanvert við Ingólfsfjall og vestur að Hveragerði brotnuðu nálega 50 staurar og allar línur slitnuðu og lögðust niður á þeirri leið. Einnig varð innanbæjarkerfið á Eyrarbakka fyrir miklum skemmdum. Þá urðu allmiklar skemmdir í Mýrdal fyrir vestan Vik — brotnuðu þar einnig staurar og línur slitnuðu og lögðust niður. Loks urðu skemmdir á línum milli Ölfusár og Minni-Borgar og staurar brotnuðu nálægt Kiðjabergi. Viðgerðir hafa staðið yfir undanfarna daga, en er ekki lokið til fullnustu. FÚ.

Slide2

Þann 20. nóvember urðu talsverð umskipti í veðri. Lægð dýpkaði mikið fyrir suðaustan land og olli norðanátt hér á landi og mikilli snjókomu nyrðra. Kortið sýnir stöðuna síðdegis þann 20. Lægðin grynntist næstu daga, þó þannig að norðanhríð og hvassviðri hélst á Vestfjörðum og inn um vestanvert Norðurland. Í öðrum landshlutum ver mun betra veður.  

Alþýðublaðið segir frá 21.nóvember:

Norðan og norðvestan stórhríð gekk yfir Norðurland í fyrrinótt. Hefir hlaðið niður geysimiklum snjó um Norðurland, og hefir verið óslitin stórhríð á Siglufirði síðan í fyrradag. Hefir þessi mikla hríð á Siglufirði stöðvað síldarútskipun í Kötlu. Óbrotinn sjór gekk yfir sjóvarnargarðinn um háflóð í gærmorgun, og flæddi sjórinn yfir eyrina og alla leið suður að Austurgötu. Flóðgáttirnar, sem gerðar voru þarna eftir flóðin miklu um árið [1934], fylltust af snjó, svo að sjórinn flæddi yfir götuna, og varð fólk að flýja úr nokkrum húsum. Þegar í gærmorgun voru skurðirnir ruddir og tók þá flóðið að réna. Litlar eða engar skemmdir hafa þó orðið á Siglufirði af þessu flóði. Tjón á Húsavík: Á Húsavík slitnaði vélbátur af legunni í fyrrinótt, Skallagrímur, eign Stefáns og Þórs Péturssona, hrakti bátinn upp að steinstétt utan við hafnarbryggjuna og eyðilagðist. Í nótt slitnaði uppskipunarbátur af legunni, var hann eign Einars Guðjohnsens, lenti hann á sömu stétt utan hafnarbryggjunnar og brotnaði allmikið. Aftaka brim var á Húsavík í fyrrinótt og bleytuhríð á norðvestan. Í gærkveldi var kominn allmikill snjór og í dag er hríð og vegir orðnir ófærir fyrir snjó.

Slide3

Þremur dögum síðar var enn norðanstrengur yfir Vestfjörðum. Gríðarkröpp lægð gekk þá austur um Bretlandseyjar. Blaðafregnir segja að veðrið þar hafi verið það mesta í 12 ár og tjón gríðarlegt. 

Slide4

Íslandskortið að morgni 23. sýnir vel skiptingu veðursins á landinu. Þéttar þrýstilínur vestra, en annars gisnar. Dró nú aftur til tíðinda á Siglufirði.

Vísir segir frá 23.nóvember:

Siglufirði í dag. Undanfarna þrjá sólarhringa hefir hlaðið niður feikna snjó á Siglufirði. Klukkan tólf í dag féll snjóflóð ofan úr sunnanveðri Hvanneyrarskál og lenti á einu íbúðarhúsinu og nokkrum hænsnahúsum. Stórskemmdir urðu á íbúðarhúsinu. Kona og barn, sem voru ein heima, björguðust nauðuglega. Barnið meiddist á höfði. Hænsnakofarnir mölbrotnuðu, en nýbúið var að flytja hænsnin úr þeim. Eigandi íbúðarhússins var Stefán Kristjánsson. Þráinn.

Morgunblaðið segir frá snjóflóðunum í pistli daginn eftir, 24.nóvember:

Frá fréttaritara vorum á Siglufirði. Um hádegisbilið í gærdag hlupu snjóflóð víða úr fjallinu fyrir ofan Siglufjörð. Lenti eitt þeirra á tveggja hæða steinhúsi, eign Stefáns Kristjánssonar. Stendur húsið efst sunnanvert við Þormóðsgötu. Snjóflóðið braut gluggana á efri hæð hússins og hálf fyllti það. Íbúar hússins sluppu ómeiddir, nema barn Stefán Kristjánssonar og konu hans, sem skarst lítilsháttar á höfði á rúðubroti. Barnið lá í vöggu, er flóðið skall á og bjargaði móðir þess því með naumindum. Fanndyngjan liggur upp að þakskeggi efri hæðar hússins fjall-megin. Í svonefndu Skriðuhverfi, í suðurhluta bæjarins, hlupu snjóflóð og gerðu talsverðar skemmdir. Hús Jónasar frá Hrappstaðakoti fór að mestu í kaf. Skekktist það og brotnuðu sperrur í því. Reykháfurinn brotnaði af húsinu. Snjódyngjum hlóð að fleiri íbúðarhúsum, en án þess að valda verulegum skemmdum á þeim. Fólk allt flúði úr einu húsi í Skriðuhverfinu og víða er fólk óttaslegið. Í Skriðuhverfinu tók flóðið gripahús Helga Daníelssonar með 5 kindum, sem allar drápust. Einnig hænsnahús með um 30 hænsnum og var um tvær mannhæðir af snjó niður á það. Eitthvað af hænsnunum lifði. Þá braut snjóflóð einnig fleiri hænsnahús í fjallinu ytra, sem Hinrik Thorarensen átti, en þar fórst ekkert af alifuglum. Óttast er um snjóflóðsskaða í Héðinsfirði, en þangað er ekki neitt símasamband og fréttir því engar borist um það. Geysimikil snjókoma hefir verið á Siglufirði síðan s.l. sunnudag, og í gærmorgun var kominn mittishár snjór á jafnsléttu. Skömmu fyrir hádegi tók að rigna og þá um leið byrjuðu snjóflóðin.

Og Vísir aftur og betur 24.nóvember:

Undanfarna þrjá daga hefir kyngt niður óhemju af snjó á Siglufirði, og það svo mjög, að slíks munu fá dæmi í manna minnum. Um hádegisbilið í gær gerði skyndilega bleytuhríð i og þvínæst rigningu upp úr miðjum degi. Þegar bleytuþyngslin komu í snjóinn tóku skriður að falla um alla fjallshlíðina, en þær voru flestar smáar og ollu litlu tjóni. En rétt upp úr hádeginu féll skriða úr sunnanverðri Hvanneyrarskál ofan í kaupstaðinn. Lenti hún á nokkrum hænsnahúsum, sem Hinrik Thorarensen læknir hefir látið byggja ofan við kaupstaðinn, og sópaði þeim í burtu, en því næst skall hún á íbúðarhúsi, sem er eign Stefáns Kristjánssonar, en það er nýbyggt hús úr járnbentri steinsteypu, kjallari og tvær hæðir, og var snjófargið svo mikið, sem á því lenti, að það var jafnhátt húsinu að ofanverðu gegnt fjallshlíðinni, en rann þó ekki fram yfir húsið. Snjóskriðan braut alla glugga í húsinu að ofanverðu, og fylltust þar öll herbergi af snjó. Kona Stefáns Kristjánssonar var ein heima í húsinu og var hún í eldhúsinu og hafði hjá sér ungbarn 9 mánaða, er lá i vagni. Snjóflóðið braut eldhúsgluggann og fyllti það af snjó og braut og fyllti barnavagninn. Konunni tókst þó að bjarga barninu, og gat skriðið yfir snjódyngjuna í eldhúsinu í gegn um borðstofuna og yfir i neðri hlið hússins, en þar komst hún út um glugga og gat þannig forðað sér og barninu. Var það flumbrað á höfði, en er fréttaritari Vísis átti tal við blaðið í gærkveldi, leið því vel, þannig að meiðsli þess eru ekki alvarleg. Stefán Kristjánsson hefir orðið fyrir miklu tjóni af völdum snjóflóðsins, þótt ekki sé vitað um hvert það verður endanlega, fyrri en búið er að hreinsa burtu snjóinn. Innanstokksmunirnir hafa skemmst af vatni, auk skemmda þeirra. sem orðið hafa á húsinu sjálfu. Laust eftir kl.1 féll annað snjóflóð úr Hvanneyrarskál yfir svokallað Skriðuhverfi i kaupstaðnum. Lenti það á timburhúsi, sem er eign Jónasar Jónssonar verkamanns á Siglufirði og var þunginn svo mikill, að húsið skekktist allt á grunninum og múrpípa þess brotnaði á tveimur stöðum. Þótt fólk væri i húsinu meiddist enginn svo vitað sé. Hinsvegar lenti snjóflóðið á kindakofa, sem er eign Helga Daníelssonar verkamanns og mölbraut hann og drap fimm kindur. Sprungu þær af snjóþyngslunum, þannig að innyflin lágu úti og var hörmulegt að sjá hvernig þær voru leiknar. Þá braut flóðið einnig hænsnakofa og drap 17 hænsni, en 11 náðust lifandi og varð bjargað. Í gær voru menn mjög kvíðandi á Siglufirði um frekari snjóflóð með því að búast má við að það kólni með kvöldinu og hlaði þá niður snjó að nýju.

Síðan gekk þetta veður niður. En ekki var friður nema stutta stund. Því ný lægð dýpkaði mjög fyrir sunnan landi þann 27. og olli stórviðri um mikinn hluta landsins. Lægðin dvaldi þó ekki lengi við, fór allhratt til austurs og síðar austsuðausturs.

Slide5

Morgunblaðið segir frá 29.nóvember:

Austan stórviðri gerði á Siglufirði á sunnudagskvöld [27.] og helst til morguns. Urðu nokkrar skemmdir á húsum af völdum ofveðursins, símar fréttaritari vor á Siglufirði. Talsverðar skemmdir urðu á ljósakerfi bæjarins og húsið Indriðabær brann kl. 5 í gærmorgun. Um kl.1 leytið um nóttina í hafði þakið fokið af húsinu og flúði þá húsfreyjan með barn sitt í næsta hús. Húsráðandi lagði sig fyrir í húsinu, en vaknaði í morgun við reyk og var þá eldur kominn í húsið. Hús þetta var gamall steinbær, vátryggður fyrir 3000 krónur. Engu var bjargað af innanstokksmunum. Eldsupptök eru ókunn og er málið í rannsókn.

Snjóskriða á Sólbakka. Í fyrradag [27.] hljóp snjóskriða milli Sólbakka og Hvilfta. Braut hún nokkra símastaura og ónýtti að mestu vatnsgeymi ríkisverksmiðjunnar á Sólbakka. Geymirinn var úr járnbentri steinsteypu, en stóð allmikið upp úr jörð. Viðstöðutaus hríð hefir verið að heita má í 9 undanfarna sólarhringa á þessum slóðum og miklum snjó hefir hlaðið niður. (FÚ).

Vísir segir af bilunum á símalínum og snjóflóðinu við Flateyri 29. nóvember:

Miklar bilanir hafa orðið á símalínum um land alt um seinustu helgi og hafa m.a. orðið miklar bilanir á símalínunum til Seyðisfjarðar, norðanlands og sunnan og eru skeyti frá Seyðisfirði hingað afgreidd loftleiðis, uns viðgerðinni á landlínum er lokið. Vísir spurði landsímastjóra Guðmund J. Hlíðdal um símabilanirnar og sagðist honum frá á þessa leið: Í ofviðrinu undanfarna daga hafa orðið allvíðtækar skemmdir á símalínum á Vestur-, Norður- Austurlandi, allt suður til Fáskrúðsfjarðar. Þannig er nú sem stendur ekki línusamband við Austfirði, en skeyti eru afgreidd loftleiðina. Mestar bilanir urðu á hinni nýju Hesteyrarlínu við Jökulfirði og á línunni til Flateyrar við Önundarfjörð, þar sem snjóflóð sópaði burt símanum á um 200 metra breiðu svæði. Viðgerðir á skemmdum fara nú fram hvarvetna, en veður hefir verið óshagstætt og viðgerðirnar því gengið hægara en ella myndi. Í gær hljóp snjóflóð milli Sólbakka og Hvilfta. Braut hún nokkra símastaura og ónýtti að mestu vatnsgeymi ríkisverksmiðjunnar á Sólbakka. Geymirinn var úr járnbentri steinsteypu, en stóð allmikið upp úr jörð. Fleiri snjóflóð hafa og hlaupið ofan við Flateyrarkauptún, en ekki gert skaða svo teljandi sé. — Viðstöðulaus hríð hefir verið að heita má i 9 undanfarna sólarhringa á þessum slóðum og miklum snjó hefir hlaðið niður. (FÚ.)

Í þessu sama veðri urðu fjárskaðar í Þistilfirði (Veðráttan). 

Tíð þótti hagstæð í desember: 

Síðumúli: Í desember var yndisleg tíð fram í síðustu vikuna. Þá kólnaði og snjóaði og var skafhríðarkóf síðustu daga ársins. Það er mjög snjólétt og góðir hagar fyrir hross og fé. 

Lambavatn: Það hefir verið óminnileg tíð. Nær óslitin hlýja og stillt veður. Yfirleitt hefir fé og hestar gengið sjálfala, þar til nú um jólin að víðast er farið að hýsa.

Suðureyri: Úrkomusamt og snjóþungt mjög. Leysti þó nokkuð fyrir og um jólin. Hagi þó víðast sama og enginn. Fönnin var krapakennd og þung. Frostmilt. Óvenjuleg stilla og gæftir á jólaföstu frá 6. desember. Hefir eigi verið svo mörg undanfarin ár.

Sandur: Tíðarfar yfirleitt gott til jóla og jörð snjólítil, en oft mjög svelluð, einkum fyrri hluta mánaðarins. Í mánaðarlokin setti niður mikinn snjó og sléttaði yfir allt, mishæðir, vötn og lindir. Tók þá gjörsamlega fyrir alla jörð.

Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar má telja ágætt nema fjóra daga fyrir mánaðamótin. Alautt til 26. Tíð mild.

Tíminn segir haustfréttir að austan 8.desember:

Á Fljótsdalshéraði hefir tíð verið venju fremur góð, það sem af er vetrarins. Gengur fénaður manna sjálfala og er mjög óvíða búið að taka lömb á gjöf. Snjólaust hefir verið niðri í byggðinni fram að þessu, en dálítil fannalög í fjöllum. Um Fagradal var fært bifreiðum fram undir síðastliðin mánaðamót, en þá tepptist leiðin vegna snjóa. Heyfengur manna í sumar var í minna lagi og stafar það af því, hve heyskapurinn byrjaði seint og grassprettan var treg lengi sumars. Nýting heyjanna var hinsvegar ágæt. Síðan í októberbyrjun hefir tíðarfar verið mjög umhleypingasamt, en ekki komið snjór til muna fyrr en um næstsíðustu helgi [illviðrið 27.nóvember]. Þá kom norðanstórhríð og fennti fé á nokkrum stöðum í Þistilfirði. Misstu menn þó ekki fé til muna nema á elnum bæ, Hermundarfelli. Þar fennti í einum skafli 23 kindur, og er þær fundust voru 10 þeirra dauður.

Morgunblaðið minnir á skíðamennsku 10.desember:

Undanfarna daga hefir verið ágætis skíðafæri í nærliggjandi fjöllum, þar sem bæjarbúar
eru vanastir að iðka skíðaíþróttina. Hefir ekki betra skíðafæri komið á þessum vetri, Veður hefir verið eftir því gott. Á Hellisheiði eru nú t.d. ágætis brekkur fyrir þá, sem það kjósa, og einnig er hægt að fara í langar eða stuttar gönguferðir eftir vild.

Um miðjan desember þóttust menn sjá til eldsumbrota úr Mývatnssveit. Við förum hér yfir blaðafréttir þar um - þótt flestir (eða allir) virðist nú sammála um að ekkert eldgos hafi orðið á þessum tíma. Sýnir bara hversu erfitt var í raun að fylgjast með hálendinu á þessum árum. 

Alþýðublaðið segir frá 16.desember:

Eldsumbrot eða eldgos eru að því er fullvíst er talið í Dyngjufjöllum, sennilega í Öskju, sama gígnum, sem gaus hinu ógurlega gosi árið 1875 og aftur smágosum árin 1923 og 1924. Eldsbjarmi og leiftur hafa sést frá mörgum bæjum í Mývatnssveit og fremsta bænum í Bárðardal, dynkir heyrst frá Námaskarði og jarðskjálftar fundist í nótt alla leið norður á Raufarhöfn. Jarðskjálftamælirinn hér sýndi veika jarðskjálftakippi síðastliðinn laugardag [10]. Í morgun bárust svo nánari fréttir að norðan um eldsumbrotin. Átti Þorkell Þorkelsson þá símtal við Pétur Jónsson í Reykjahlíð og skýrði Pétur þá svo frá, að bjarminn hefði sést frá fleiri bæjum í Mývatnssveit og frá Mýri í Bárðardal, sem er fremsti bærinn þar. Hefði bjarmann verið að sjá í suðaustur frá Mýri og benti það ótvírætt til þess, að eldurinn væri í Dyngjufjöllum, og þá að líkindum í Öskju. Kvaðst Pétur ennfremur hafa í gærkveldi haft tal af mönnum, sem vinna í Námaskarði, sem er austur af Reykjahlíð, við brennisteinsvinnslu þar, og kváðust þeir í gær hafa orðið varir við dynki. Ennfremur hefði hann sjálfur séð í morgun klukkan 7 bjarma í sömu átt, sem honum sýndist greinilega vera af jarðeldi eða glóandi hrauni. Í nótt kl.1 höfðu fundist greinilegir jarðskjálftakippir á Raufarhöfn, en þar er enginn  jarðskjálftamælir, svo að ekki var hægt að greina stefnu þeirra, eða segja nákvæmlega
um styrkleika þeirra. Eftir því sem næst verður komist, að svo stöddu, er talið líklegast, að gosið sé í gígnum í Öskju, þar sem gosin voru 1923 og 1924, en Askja gaus eins og kunnugt er miklu gosi árið 1875. Voru gosin 1923 og 1924 úr þeim sama gíg. Engar ráðstafanir hafa ennþá verið gerðar til þess, að menn fari inn á öræfin að rannsaka gosin.

Þjóðviljinn segir líka fréttir af meintum eldsumbrotum 17.desember:

Fregnir um eldsumbrot bárust norðan úr Þingeyjarsýslu í gær. Sást eldbjarmi frá mörgum bæjum í Mývatnssvelt og frá innstu bæjunum í Bárðardal. Var talið, samkvæmt upplýsingum frá Pétri Jónssyni bónda í Reykjahlíð víð Mývatn, að eldur vært kominn upp í Dyngjufjöllum. Þjóðvílfínn átti í gær tal víð Víðiker í Bárðardal, en þaðan er skemmra til Dyngjufjalla og sést betur. Frá Víðikeri höfðu sést talsverðir glampar síðastliðinn miðvikudag [14.], og hafði þá borið vestanvert yfir Dyngjufjöll, svo vestarlega, að gosið gat tæplega verið úr Öskju og þá sennilega í Vatnajökli.

Og Morgunblaðið líka - 17.desember:

Úr Mývatnssveit hafa menn undanfarna daga séð bjarma á suðurlofti í stefnu á Dyngjufjöll, sem þeir hafa talið að kynni að stafa af eldsumbrotum. En ekki hafa menn orðið varir við þetta frá öðrum stöðum, svo blaðinu sé kunnugt, t.d. ekki á Grímsstöðum á Fjöllum. Sé um eldsumbrot að ræða þarna í öræfunum eru þau sennilega í Öskju, því að þar eru þau tíðust á þessum slóðum. En komið hefir fyrir, að menn hafa í skammdeginu þar nyrðra orðið varir við bjarma, er þeir hafa sett í samband við eldgos, og ekki reynst vera, þegar að hefir verið gáð. Svo var árið 1933 síðast. Annars eru smágos tíð í Öskju, þar gaus lítilsháttar árið 1922, 1924 og 1926 svo menn viti, og er jafnvel talið, að fleiri gos hafi þar verið á síðari árum, sem hafi verið svo lítil, að menn hafa ekki orðið varir við þau. En seint á árinu 1933 var gerður leiðangur fram á öræfin til þess að athuga gos, sem menn þóttust hafa séð, og reyndist ekki að hafa verið. Jarðskjálftahræringar smávægilegar hafa fundist undanfarna daga norður á Raufarhöfn, og styður það heldur þá trú manna, að einhver eldsumbrot séu á öræfunum. En annars hafa smáhræringar verið þar nyrðra við og við síðan í sumar. Síðan Dyngjufjallagosið mikla var 1875, hafa menn á norðausturlandinu alltaf illan bifur á því, þegar einhver eldsumbrot verða þar, sem eðlilegt er. En gosin sem voru í Öskju á árunum 1922—26 voru ekki á sama stað og hið mikla gos 1875.

Slide6

Þann 17. og 18. desember gerði mikið landsynningsveður um landið suðvestanvert með gríðarmikilli úrkomu. Sólarhringsúrkoma í Reykjavík að morgni þess 18. mældist 55,1 mm, það mesta sem mælst hefur þar í desembermánuði og það þriðjamesta frá upphafi mælinga (næsthæsta mælingin, 55,7 mm (frá 26. janúar 18929 gæti þó náð til meira en sólarhrings. Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í Reykjavík er 56,7 mm (5. mars 1931). Kortið að ofan sýnir stöðuna. Hægfara kuldaskil eru við landið vestanvert og mikill og rakur strengur ber loft langt úr suðri norður til landsins.  

Alþýðublaðið segir af illviðri í frétt 17.desember:

Ofsaveður gekk yfir Suður- og Suðvesturland í nótt, en það hefir ekki valdið teljandi skemmdum svo að vitað sé. „Við vissum af því að von var á þessu veðri í gærmorgun,“ sagði Jón Eyþórsson veðurfræðingur í viðtali við Alþýðublaðið í morgun. Aðfaranótt föstudags á miðnætti var þessi lægð milli Nýfundalands og Suður-Grænlands og var þá mjög slæmt veður á þessum slóðum. Síðan höfðum við litlar fregnir af því, aðallega vegna þess að veðurfregnir frá Grænlandi hafa verið af mjög skornum skammti undanfarin kvöld, aðallega vegna sendinga á jólakveðjum. Það byrjaði að hvessa hér í gærkveldi laust fyrir miðnætti og vindur fór vaxandi til kl. 8 í morgun, en þá fór að lygna. Þá voru 10 vindstig á Hellissandi, hér í Reykjavík voru 8 vindstig innanbæjar, en a.m.k. 9 utan bæjarins og í úthverfunum. Veðrið náði um allt Suður- og Suðvesturland, en var þó verst hér á horninu við Reykjanes. Annars er mjög gott veður um allt Norðurland og asahláka um allt land. Á Austfjörðum hefir verið hellirigning undanfarna daga, en svo að segja um alt land er meðalhiti um 6 stig.“ Alþýðublaðið hafði í morgun tal af nokkrum símastöðvum á Suður- og Suðvesturlandi. Alls staðar frá voru sömu fregnir. Afspyrnuveður hafði gengið yfir í nótt, svo að sums staðar var alls ekki fært á milli húsa, eins og t.d. í Sandgerði, á Hellissandi, í Keflavík og á Eyrarbakka, en ekki var vitað um verulegar skemmdir. Bátar eru enn lítið farnir að stunda sjó. Á Eyrarbakka standa bátar enn uppi á þurru landi. Einn bátur reri í gær frá Sandgerði, en kom að í gærkveldi vegna veðurútlitsins og fór ekki út aftur. Á Sandi hafa bátar róið undanfarna daga og fiskað vel, en enginn bátur réri í gær. Engar skemmdir urðu hér við höfnina. Á nokkrum stöðum í bænum höfðu vírar slitnað, en við það var gert, þegar snemma í morgun.

Það hefði ekki verið ólíklegt að yngstu börnin, sem áttu að mæta kl. 8—10 í morgun í barnaskólunum, létu sig vanta, því að fullorðnir menn áttu fullt í fangi með að komast um göturnar fyrst í morgun. En þau létu ekki standa á sér. „Þau hafa mætt mjög vel í morgun,“ sagði Elías Bjarnason yfirkennari við Miðbæjarskólann. „Það er yfirleitt reynsla okkar, að börnunum þyki gaman að því að brjótast áfram í slæmu veðri, þá koma þau alt af brosandi að skóladyrunum, þar sem tekið er á móti þeim.“

Morgunblaðið 18.desember:

Hvassviðri með úrhellisrigningu gerði hér um vestur og suðvesturhluta landsins í fyrrinótt og hélst í allan gærdag. Mest var veðurhæðin í Vestmannaeyjum og Sandi á Snæfellsnesi, 10 vindstig, en annars staðar var veðurhæð 7—9 vindstig. Veðrið kom svo snemma, að engir bátar munu hafa róið og litlar sem engar skemmdir hafa orðið á mannvirkjum af völdum óveðursins, nema lítilsháttar símabilanir. Jón Eyþórsson veðurfræðingur sagði blaðinu svo frá í gær um veðurofsann: [nánast orðrétt sama og í Alþýðublaðinu daginn áður - nema]: Rakin hvöss sunnanátt var í gær alla leið frá Íslandi suður í Norðursjó og á Svalbarða var í gær 3 stiga hiti og rigning, og er það sjaldgæft á þessum tíma árs.

Talsvert kvað að símabilunum í fyrrinótt og í gær. Sagði verkfræðingadeild Landssímans blaðinu svo frá, að mest brögð hefðu orðið að símabilunum á Reykjanesskaga. Línan til Grindavíkur var slitin í gærmorgun, en komst fljótt í lag aftur. Hafna-línan slitnaði einnig en kemst sennilega í lag í dag. Þá var slæmt samband á Sandgerðislínunni í gær. Sambandið milli Reykjavíkur og Akraness bilaði í Mosfellssveitinni, en var fljótlega lagfært og loks bilaði línan skammt fyrir norðan Borgarnes. Nokkrar bilanir urðu á símakerfi bæjarins í úthverfum í gær svo og nokkrar á rafmagnslínum.

Alþýðublaðið segir enn af meintum eldgosum nyrðra 20.desember:

Mývetningar sjá ennþá leiftur og gosmekki í stefnu á Öskju og álíta þeir, að þar sé um eldsumbrot að ræða. Alþýðublaðið átti í morgun tal við Reykjahlíð í Mývatnssveit og fékk þær fréttir, að frá Reykjahlíð sæjust á hverjum morgni á sama tíma, um kl. 7, leiftur og reykjarmekkir, sem líktust gosi, í stefnu austanvert við Bláfjall, en það er í stefnu á Öskju. Dynkir hafa ekki heyrst frá því um daginn, er menn, sem vor að vinna í Námaskarði, heyrðu þá. Í morgun, þegar fólk var að koma á fælur í Reykjahlíð, sáust tvö leiftur í sömu stefnu og áður og enn fremur reykjarmökkur, sem virtist leysast upp, þegar ofar dró. Leiftur þessi standa stutt yfir. Nýlega voru menn áð sækja hey suður fyrir Skútustaði, en þeir eru fyrir sunnan Mývatn. Sáu þeir þá reykjarmekki í stefnu á Öskju, en engin leiftur sáu þeir. Sáu þeir greinilega, að þetta var reykjarmökkur en ekki ský. Mývetningar eru farnir að tala um það sín á milli, að fara rannsóknarför suður á öræfin, en engin ákvörðun hefur þó verið tekin um það enn þá, enda ekki að búast við því, að þeir fari, án þess að fá styrk héðan að sunnan. Tíð er ágæt um þessar mundir í Mývatnssveit, hlákur á hverjum degi og jörð að verða auð. Mikil snjóþyngsli voru komin, og hafði fé verið tekið á gjöf, en nú er komin svo góð jörð, að fé hefir verið sleppt aftur.

Tíminn segir 22.desember almennar tíðarfréttir af Ströndum:

Sigmundur Guðmundsson bóndi í Árnesi, hefir skrifað Tímanum ýmsar fréttir úr byggðarlagi sínu. Segir hann heyfeng manna á Ströndum yfirleitt lítinn eftir sumarið, en góðan. Síðastliðið vor var eitt hið versta, er þar hefir komið. Um miðjan maímánuð gerði frost og snjókomu, en áður höfðu verið blíðviðri og jörð tekin að gróa. Kuldarnir héldust fram undir miðjan júlímánuð. Snjóaði svo mikið, að stundum var klofsnjór á túnum á þessu tímabili. Varð að gefa nautpeningi inni fram í júlí, víða dó mikið af unglömbum og æðarvarp stórspilltist. Varð dúntekjan aðeins röskur helmingur miðað við meðalár. Þegar á leið sumarið, gerði ágæta tíð, þurrviðri og hlýindi, og spratt útengi lengi fram eftir sumri. Bætti þetta stórum um og hafa bændur á þessum slóðum ekki þurft að fækka skepnum að mun, vegna lítilla heyja.

Morgunblaðið segir 31. desember:

Starfsmenn Veðurstofunnar hafa veitt því eftirtekt, að stundum kvartar fólk um óvenjulega kulda á síðari árum, þó hitastigið sé ekki lægra en meðaltal tilsvarandi mánaða síðan veðurathuganir hófust hér. Stafar þetta af því, hve tíð hefir verið hér óvenjulega hlý síðasta áratuginn.

Hafís var fyrir Norðurlandi um vorið. Varð vart við hann frá Hornströndum í febrúar. Í byrjun mars var hann út frá Súgandafirði og í apríllok var kominn allmikill ís á siglingaleiðina út af Horni. Framan af maí var allmikil ísbreiða úti fyrir Norðurlandi, oft skammt undan landi. En ekki hafði Veðurstofan fregnir af að hann hefði orðið landfastur nema við Horn 8. maí.

Mannskaðaveður. Mesta veður, sem skall yfir landið á þessu ári, var 5.mars. Þá urðu engir mannskaðar á sjó, en miklar skemmdir á mannvirkjum víðsvegar um land, og langmest á Austfjörðum. En mesta manntjónið varð hér þ. 2. nóvember, er togarinn „Ólafur“, með 21 manni innanborðs, fórst vestur á Hala. Það óveður náði ekki yfir nema tiltölulega lítið svæði.

Síðustu daga mánaðarins gerði mikla hríð um landið norðanvert. Morgunblaðið segir frá 3.janúar 1939:

Norðan stórhríð hefir verið um alt Norðurland undanfarna daga -og hefir hlaðið niður miklum snjó. Samgöngur hafa víða teppst alveg og sumstaðar hefir ferðafólk verið veðurteppt á bæjum í 3—4 daga.

Veðráttan getur þess að hafnargarðurinn á Sauðárkróki hafi skemmst dálítið af brimi. Húnvetningar lentu í hrakningum innansveitar á leið frá skemmtun. Á gamlaársdag féll enn snjóflóð á Siglufirði, úr Hafnarfjalli og eyðilagði túngirðingar og fleira.

Lýkur hér yfirferð hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1938. Í viðhenginu eru fjölbreyttar tölulegar upplýsingar að vanda.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrri hluti aprílmánaðar

Fyrri helmingur aprílmánaðar var óvenjuhlýr að þessu sinni. Meðalhiti í Reykjavík er 5,3 stig, +2,5 stigum ofan meðallags sömu daga 1991-2020 og +2,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er hlýjasta aprílbyrjun aldarinnar í Reykjavík, en kaldastir voru sömu dagar árið 2006, meðalhiti þá +0,4 stig. Á langa listanum er hiti nú í 7. hlýjasta sæti (af 151). Hlýjast var 1929, meðalhiti sömu daga þá +6,6 stig, en kaldast 1876, meðalhiti -4,1 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú 4,8 stig, +3,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +3,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Þetta er hlýjasti fyrri hluti mánaðarins um allt sunnan- og vestanvert landið og á Miðhálendinu, en í 2. til 3. hlýjasta sæti á Norður- og Austurlandi. Miðað við síðustu tíu ár er jákvætt hitavik mest í Sandbúðum, þar er hiti +4,6 stig ofan meðallags, en svalast, að tiltölu, hefur verið á Garðskagavita og Hornbjargsvita þar sem hiti hefur verið +1,7 stig ofan meðallags.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 55,5 mm og er það um 60 prósent umfram meðallag sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 17,7 mm, en það er í meðallagi.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 77,5 í Reykjavík og 52,3 á Akureyri, hvort tveggja nærri meðallagi.

Fyrstu tíu dagar aprílmánaðar

Fyrstu tíu dagar aprílmánaðar hafa verið óvenjuhlýir. Meðalhiti í Reykjavík er 5,8 stig, +3,1 stigi ofan meðallags 1991-2020 og 3,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er næsthlýjasta aprílbyrjun aldarinnar í Reykjavík, hlýjastir voru dagarnir tíu 2014, meðalhiti 6,0 stig, en kaldastir 2021, þegar meðalhiti var aðeins -0,9 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 5. til 6. hlýjasta sæti. Hlýjast var 1926, meðalhiti þá 6,6 stig, en kaldast 1886, meðalhiti -4,4 stig.
 
Á Akureyri er meðalhitinn nú 5,6 stig, +,4,4 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +4,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Á spásvæðunum er þetta hlýjasta aprílbyrjun aldarinnar, nema á Suðausturlandi þar sem hitinn er í 2. sæti og á Austfjörðum, þar sem hann er í 5. hlýjasta sæti.
Jákvætt vik (miðað við síðustu tíu ár) er mest í Sandbúðum, +6,3 stig, en minnst 2,3 stig á Vattarnesi og Kambanesi.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 47 mm, hátt í tvöföld meðalúrkoma, en aðeins 6,5 mm á Akureyri og er það um helmingur meðalúrkomu.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 34,4 í Reykjavík, 13 færri en að meðaltali. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 36,8 og er það nærri meðallagi.
 
Eru þetta mikil umskipti frá kuldanum í mars.
 

Tólfmánaðahitinn

Eftir þennan kalda vetur er rétt að líta á stöðu 12-mánaðahitans í Reykjavík og þróun hans á öldinni. Myndirnar eru kannski ekki í skýrara lagi, en látum það gott heita að sinni.

w-blogg050423a

Í kringum aldamótin síðustu hlýnaði verulega frá því sem verið hafði áratugina á undan og hafa nær öll ár síðan veri hlý. Hlýnunin kom eiginlega öll í einu þrepi á árunum 2002 til 2004. Síðan hefur ekkert hlýnað, en köld ár hafa þó ekki látið sjá sig og kaldir mánuðir hafa verið sárafáir. Grái ferillinn á myndinni sýnir 12-mánaða keðjumeðaltöl hitans á þessum tíma. Fyrsta gildið er sett við janúar 2001, það er hiti tímabilsins febrúar 2000 til janúar 2001. Síðan er haldið áfram. Síðasta gildið nær til apríl 2022 til mars 2023. 

Rauði ferillinn er settur inn til gamans (gerir myndina ólæsilegri að vísu). Þetta er samskonar ferill fyrir 22 ár rúm á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld. Hann byrjar á meðaltali mánaðanna febrúar 1925 til janúar 1926, en endar á febrúar 1947 til mars 1948. Síðara hlýja tímabilið er lítillega hlýrra en það fyrra - rauði ferillinn er oftast neðan við þann gráa. 

Á fyrra tímabilinu er hlýjast um 1929, 1939, 1941 og 1946, en á því síðara 2003, 2004, 2010, 2014, 2016 og 2019. Stærð sveiflna á milli ára er ekkert ósvipuð á tímabilunum tveimur - ræðast aðallega af tíðni vindátta og uppruna þess lofts sem um landið leikur á hverjum tíma. 

w-blogg050423b

Síðari myndin sýnir 30 ára keðjumeðaltal hitans eins og það blasir við í baksýnisspeglinum á hverjum tíma. Síðasta gildið á bláa ferlinum tekur til tímabilsins apríl 1993 til mars 2023, en það fyrsta á við febrúar 1971 til janúar 2001. Á rauða ferlinum á fyrsta gildið við febrúar 1896 til janúar 1926, en það síðasta frá apríl 1918 til mars 1948. Á báðum tímabilunum er 30-ára hitinn smám saman að hrista af sér kulda fortíðarinnar og hækkar eftir því sem á líður, heldur örar á því síðara heldur en því fyrra.

Við vitum auðvitað um framhald rauða ferilsins, hann toppaði í júnílok 1961 (frá júlí 1931) - eftir það fór hann niður á við og náði lágmarki í októberlok 1995, en hefur hækkað síðan. Hann fór framúr fyrra hæsta hámarki í ágúst 2016, og hefur verið ofan við það síðan. 

Við vitum ekkert um framhald bláa ferilsins. Við vitum þó að hin köldu ár 1993 til 1995 eru enn inni í honum. Það þarf ekkert sérstök hlýindi til að slá þau út - og þar með valda hækkun ferilsins. Eftir það fer að verða erfiðara að kreista út frekari hækkun, sérstaklega þá eftir 2031. Hæsta gildi rauða ferilsins kom 13 árum eftir endann sem er sýndur hér.

Hvernig eða hvort heimshlýnun (sem við skulum ekkert vera að efast sérstaklega um) skilar sér hér (umfram það sem þegar er orðið) vitum við ekki. 

 


Smávegis af mars

Meðan við hinkrum eftir mars- og vetrartölum Veðurstofunnar lítum við á tvö meðalkort úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar (með aðstoð BP).

w-blogg020423a

Fyrra kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum (heildregnar línur), meðalþykktina (daufar strikalínur) og þykktarvikin (litir). Af jafnhæðarlínunum ráðum við ríkjandi vindátt í miðju veðrahvolfi. Hún var norðvestlæg. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, mikil köld þykktarvik teygja sig til Íslands, hluti af stóru köldu svæði. Aftur á móti var sérlega hlýtt í sunnanáttinni vestan Grænlands. Fregnir hafa borist af því að þetta sé langhlýjasti mars sem vitað er um á Ellesmereyju, en mælingar hófust þar fyrir rúmum 70 árum. Þetta er ekki mjög ósvipuð staða og var á svæðinu í mars 1962 og 1947, enda keppa þeir mánuðir við þann nýliðna í þurrki og sólskinsstundafjölda í Reykjavík. Mars 1979 hefur einnig sömu einkenni, en þá var þó kjarni kalda loftsins nær landinu en nú (neikvæð þykktar- og hæðarvik meiri). 

Þetta þráviðri olli úrkomuleysi um stóran hluta landsins.

w-blogg020423b

Úrkomudreifingin kemur vel fram á vikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar. Sjávarmálsþrýstingur er heildreginn, þar má sjá hæð yfir Grænlandi teygja sig til Íslands og norðaustanátt ríkjandi. Litirnir gefa úrkomuvik til kynna. Brúnu litirnir sýna hvar úrkoma hefur verið lítil. Það á við um meginhluta landsins. Á litlum bletti austanlands (snjóflóðasvæðinu) er úrkoma í líkaninu um þrefalt meðaltal áranna 1981 til 2010. Endanlegar tölur frá úrkomumælistöðvum eystra liggja ekki fyrir, en Dalatangi hefur líklega mælt um 150 prósent meðlúrkomu. 

Við bíðum svo spennt eftir hinum opinberu mars- og vetrartölum Veðurstofunnar. Þær ættu að verða tilbúnar á þriðjudag eða miðvikudag.


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2023
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 80
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband