Gleðilegt sumar

Hiti íslenska vetrarmisserisins 2022 til 2023 var afskaplega sveiflukenndur. Nóvember var á landsvísu sá hlýjasti sem vitað er um, desember aftur á móti sérlega kaldur. Janúar var einnig kaldur, en febrúar til þess að gera hlýr. Mars síðan í kaldasta lagi (þó ekki eins og desember). Fyrstu vikur aprílmánaðar hafa síðan verið sérlega hlýjar. Kuldinn hefur þó haft undirtökin. Meðalhiti vetrarins í Reykjavík er +0,8 stig, sá lægsti á öldinni. Veturinn 2000-2001 var þó nánast jafnkaldur (+0,9 stig). Síðan var heldur kaldara veturinn 1999 til 2000 (+0,5 stig). 

w-blogg190423a

Línuritið sýnir meðalhita vetra í Reykjavík aftur til 1920-21. Kaldastur var veturinn 1950 til 1951 (þrátt fyrir almenn hlýindi um það leyti), en hlýjast var veturinn 2002 til 2003, 1928 til 1929 og 1963 til 1964 koma ekki langt þar á eftir. 

Við tökum eftir því að nýliðinn vetur er ekki sérlega kaldur í hinu langa samhengi eldri kynslóðarinnar, aðeins -0,3 stigum neðan meðallags tímabilsins alls og hefði fyrir 40 til 50 árum verið í hópi þeirra hlýrri þess áratugar. Veturnir 1974/75 til og með 1983(84 voru þannig allir kaldari heldur en veturinn nú. 

Leitni tímabilsins í heild er ekki mikil, (+0,2 stig á öld), en hins vegar mjög mikil síðustu 50 ár, hátt í 4 stig á öld. Förum við í hina áttina, til 19. aldar, sýnist leitnin líka býsna mikil - það hefur hlýnað mikið hér á landi síðan þá. Hvað gerist í framtíðinni vitum við auðvitað ekkert um - nema hvað yfirgnæfandi líkur eru á hækkandi hita á heimsvísu. En áður en við freistumst til að framlengja „hlýnun“ síðustu 50 ára hér á landi beint þurfum við að fá slatta af vetrum sem eru ámóta hlýir eða hlýrri heldur en 2002-2003. Ritstjórinn hefur reyndar ekki lent í neinu orðaskaki út af slíkum framlengingum við heimamenn, en aftur á móti hefur því verið illa tekið í orðaskiptum við erlenda bloggara þegar hann hefur bent þeim á að hlýnunin hér á landi eftir 1975 sé kannski ekki alveg dæmigerð og framlengjaleg - þrátt fyrir hina miklu heimshlýnun (sem raunverulega hefur átt sér stað). 

En ritstjóri hungurdiska óskar dyggum lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gleðilegt sumar meistari.

Helga Kristjánsdóttir, 20.4.2023 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1762
  • Frá upphafi: 2348640

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1543
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband