6.3.2020 | 23:08
Skemmtideild evrópureiknimiðstöðarinnar með nýtt atriði
Vikulangar spár (og þaðan af lengri) eru oftast vitlausar og það fer í taugarnar á mörgum að þær skuli yfirleitt vera til umræðu á netinu. Jú, óheppilegt er að flíka slíku - en stundum má samt nota þær til að skemmta sér. Hér á hungurdiskum tölum við um sýningar skemmtideildarinnar í þessu samhengi. Allar reiknimiðstöðvar eiga sínar skemmtideildir.
Atriði dagsins er tengt kuldapolli í norðurhöfum - kannski sameiginlegum dansi þeirra félaga Stóra-Bola og Síberíu-Blesa.
Hér er klippa úr norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti næstkomandi föstudagskvöld, 13.mars - eftir 7 daga. Ísland er neðst á myndinni, en norðurskaut rétt ofan við myndarmiðju. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins. Lægðin sem örin bendir á er fádæmaöflug - (en ekki til enn nema í iðrum tölvunnar). Miðjuhæðin er 4550 metrar - alveg við met (alla vega síðustu 40 árin rúm).
Rétt að taka fram að bandaríska veðurstofan er öllu hógværari - er þó með sömu lægð en lægst fer 500 hPa-flöturinn í 4610 metra. Það er sérlega lágt líka - en ekki alveg jafn krassandi.
Við sjáum vel á myndinni að meginkuldinn (fjólubláu litirnir) hringa sig ekki utan um háloftalægðina - heldur liggja til hliðar við hana. Það þýðir að þetta er ekki stöðugt ástand - þarna er líka óvenjuöflug lægð við sjávarmál - sjálfsagt nærri lágþrýstimeti marsmánaðar yfir Norðuríshafi.
Þó kalt veður verði ríkjandi næstu daga hér á landi (sé að marka spár) er samt vonandi að þessi ruðningur í norðurhöfum (hver sem hann verður) láti okkur alveg í friði - við megum varla við slíkum ofsóknum til viðbótar á erfiðum vetri.
6.3.2020 | 02:15
Falleg vetrarmynd
Myndin hér að neðan er ættuð af vef Veðurstofunnar - og tekin í dag (fimmtudag 5.mars 2020) kl. 13:50.
Landið alhvítt að kalla. Óregluleg klakkakerfi fyrir sunnan land og austan - gamalt skilasvæði að trosna fyrir norðan - og teygir sig inn á land, - fáein korn náðu meira að segja til höfuðborgarsvæðisins undir kvöld. Éljagörðum úti af Vestfjörðum er haldið í skefjum af hitahvörfum - líkön tala um að þau séu í um 1500 metra hæð. Bjart að mestu yfir kalda sjónum - en hafísröndin við Grænland ósköp aumingjaleg.
2.3.2020 | 18:03
Enn af febrúar
Við lítum nú á þrýstivikakort febrúarmánaðar. Eins og fram hefur komið var sjávarmálsþrýstingur óvenjulágur hér á landi. Mánaðarmeðaltalið í Reykjavík var 981,9 hPa, það sjöttalægsta í febrúar síðustu 200 árin og það lægsta síðan 1997. Munurinn á meðaltali lægstu mánaðanna er svo lítill að hann er ekki marktækur - nema gagnvart allra lægstu tölunni, meðaltali febrúarmánaðar 1990, 976,3 hPa (hefði hann verið 29 dagar eins og sá nýliðni hefði meðalþrýstingur hans orðið 976,7 - samt 5,2 hPa neðar en nú. Hinir þrír eru allir aftur á 19.öld og þekking okkar á mánaðarmeðaltali á þeim tíma getur hæglega skeikað 1 hPa og jafnvel rúmlega það - á hvorn veg sem er.
Kortið sýnir meðalþrýsting í febrúar (heildregnar línur) og vik frá meðaltali áranna 1991 til 2010 (litir). Þó þetta sé lægsti meðalþrýstingur á landinu í febrúar síðan 1997 (eða 1990) er samt styttra síðan stærri vik sáust í þessum almanaksmánuði a svæðinu. Það var í febrúar 2014 - þá var þrýstingur hér á landi lítillega hærri en nú (marktækt þó) - en enn meiri vik voru fyrir suðaustan land en nú var.
Kortið sýnir stöðuna í febrúar 2014. Fjólublái liturinn var jafnvel enn meiri að útbreiðslu 1990, en 1997 var útbreiðsla hans hér við land svipuð og nú. Þaulreyndir lesendur hungurdiska hafa séð þetta kort áður - það birtist í pistli sem ritaður var 2.mars 2014. Þar var fjallað um óvenjulegan febrúarmánuð. Daginn áður hafði verið fjallað um óvenjuþrálátar austanáttir þá um veturinn.
Meðalhiti í byggðum landsins var -0,6 stig, -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, febrúar 2016 var heldur kaldari en nú. Sé litið til lengri tíma er hitinn -0,3 stigum neðan meðallags síðustu 30 ára, en +0,2 ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Mánuðurinn raðast í 60. hlýjasta sæti í 147-ára röð.
Annars bíðum við uppgjörs Veðurstofunnar.
1.3.2020 | 21:25
Af þrálátum lágþrýstingi
Loftþrýstingur hefur að meðaltali verið mjög lágur hér á landi síðastliðna þrjá mánuði, sérstaklega í janúar og febrúar. Í fljótu bragði sýnist sem þrýstingur í janúar hafi verið meðal þeirra 10 lægstu síðustu 200 árin - formlega í 9. til 10.sæti á lista ritstjóra hungurdiska og í febrúar lendir hann í sjöttalægsta sæti á sama lista. En saman ná mánuðirnir þrír næstlægsta meðalþrýstingnum - sjónamun ofan sömu mánaða 2013 til 2014 - en ómarktækt og veturinn 1989 til 1990 var þýstingur líka jafnlágur og nú þessa sömu almanaksmánuði.
Myndin sýnir meðalloftþrýsting í desember til febrúar allt frá 1821. Nákvæmnin lengi framan af er þó ekki nema 1 til 2 hPa. Breytileikinn frá ári til árs er hins vegar svo mikill að óvissan skiptir í raun litlu máli nema þegar að kemur að smámunasamri röðun í sæti. Reikna má lítilsháttar þrýstifall, um 1 hPa á öld - en það verður að teljast ómarktækt. Breyting frá ári til árs virðist afskaplega tilviljanakennd - en þó gætir þyrpinga lítillega þannig að drjúg sveifla er í 10 ára keðjumeðaltölum (sem rauði ferillinn sýnir).
Þrýstisveiflur á Íslandi ráða að mestu NAO-vísinum svonefnda og sömuleiðis er fylgni þeirra við AO (Arctic Oscillation - (bjarnarilluna (bein þýðing))) mjög mikil. Fyrrnefndi vísirinn var mjög í tísku fyrir um 30 árum, sérstaklega í kringum 1990. Eins og glögglega kemur fram á myndinni var þá mjög langt síðan þrýstingur hafði verið jafnlágur við Ísland og NAO vísirinn því í hæstu hæðum. Á sama tíma gengu sérlega hlýir vetur yfir Evrópu. Margir töluðu um þetta sem veður framtíðar en gættu ekki að því að ámóta ástand hefði verið nokkuð algengt um 70 árum áður. Hvað um það - ótrúlega gott samband er á milli vetrarhita í Evrópu norðanverðri og þrýstings á sama tíma á Íslandi.
Á síðari árum er farið að bera meira á tali um AO-vísinn. Kannski er það vegna þess að menn eru smám saman að átta sig betur og betur á tengslum vindafars heiðhvolfs annars vegar og veðrahvolfs hins vegar. Hugmyndin kannski sú að vegna einfaldari hringrásar í heiðhvolfinu sé einfaldara að spá veðri þar til lengri tíma heldur en niðri í veðrahvolfi. Séu samskipti hvolfanna á einhvern hátt reglubundin megi e.t.v. nota heiðhvolfsspár til að ráða í stóru drættina í veðurlagi veðrahvolfs jafnvel 2 til 3 vikur fram í tímann. Eitthvað er trúlega til í þessu - jafnvel þó það séu í raun stórir atburðir í veðrahvolfi sem setja af stað stærstu heiðhvolfsbreytingarnar - en ekki öfugt.
Umræður um AO - bæði í veðra- og heiðhvolfi hafa verið sérlega fyrirferðarmiklar í vetur - enda hefur ástandið verið óvenjulegt. Eins og venjulega þegar þrýstingur er viðloðandi lágur á Íslandi er hringrás heiðhvolfsins öflug - skammdegisröst þess öflug og lítt aflöguð.
Háloftaathuganir hófust almennt á norðurhveli um 1950. Hinar opinberu mæliraðir AO ná ekki lengra aftur í tímann. Á þessu tímabili hefur hiti í heiðhvolfinu lækkað lítillega - rétt eins og vænta má með auknum gróðurhúsaáhrifum. Á sama tíma virðist AO hafa styrkst og sést hafa myndir sem sýna eiga ákveðna leitni frá 1950 og er þar með gefið í skyn að aukin virkni AO tengist auknum gróðurhúsaáhrifum líka. Slíkt er auðvitað hugsanlegt - ritstjóri hungurdiska er ekki dómbær um það. En hann hvetur þó til ákveðinnar varúðar gagnvart víðtækum ályktunum - vitandi að þó hinir opinberu vísar nái ekki nema aftur til 1950 eru miklar líkur til þess að ámóta samband hafi verið á milli AO og þrýstings við Ísland fyrir 1950 - rétt eins og síðar. Sé svo hafa ámóta AO-skeið komið áður - að líkum ótengd auknum gróðurhúsaáhrifum. Útilokum þó ekki að samspil sé eitthvað - en kannski flóknara en virðist við fyrstu sýn. [Svo geta menn líka rifjað upp gamlan pistil hungurdiska um þrýsting í febrúar - gömlu pistlarnir eru nú orðnir 2600 talsins - og ritstjórinn mann engan veginn lengur um hvað hann hefur skrifað og hvað ekki - en margt mun óskrifað enn].
29.2.2020 | 02:48
Alþjóðaveturinn 2019 til 2020
Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga.
Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum aftur til 1823 bætt við (en landsmeðalhiti fyrstu áranna er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti í byggðum landsins síðustu 3 mánuði er -0,2 stig og telst það nokkuð hlýtt á langtímavísu (eins og sjá má á myndinni), en er samt 0,6 stigum lægri en í fyrra.
Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,5 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 20. Fari svo fram sem horfir verða 45 vetur ofan frostmarks á 21.öld. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil) á 78 árum.
En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 45 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar tekið út meiri hlýnun en okkur ber og talan orðið nær 45 - jafnvel lægri.
Reiknuð leitni á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld. Minni munur er á hlýskeiðunum en samt voru kuldaköst 20.aldarhlýskeiðsins snarpari heldur en skyldulið þeirra á síðustu árum - eins og glögglega má sjá á myndinni. Er þetta allt í samræmi við ísrýrnun í norðurhöfum.
Febrúarmánuður hefur reyndar verið furðunærri meðallagi síðustu 30 ára, en almennt rúmu 1 stigi kaldari en meðallag síðustu tíu ára. Úrkoma hefur verið vel yfir meðallagi á Norður- og Austurlandi, en undir því suðvestanlands. Sólskinsstundir eru nærri meðallagi í Reykjavík. Vindhraði er yfir meðallagi í febrúar, en þó sker mánuðurinn sig ekki eins úr hvað vind varðar eins og janúar gerði. Alþjóðaveturinn hefur í heild verið vindasamur hér á landi, en þó var meðalvindhraði ámóta og nú 2013 til 2014 og 2014 til 2015. Þar með er þessi hluti vetrarins orðinn einn af þremur þeim vindasömustu í 25 ár. Illviðradagar hafa líka verið óvenjumargir - en við látum uppgjör á slíku bíða þar til allar tölur hafa borist.
Loftþrýstingur hefur verið óvenjulágur, í hópi þeirra tíu febrúarmánaða sem lægstir eru síðustu 200 ár og meðalloftþrýstingur mánuðina þrjá virðist ætla að verða sá lægsti í 200 ár - að vísu er ómarktækur munur á því sem lægst er vitað um áður og þrýstingnum nú. Merkileg tíðindi samt. Hin miklu hlýindi sem ríkjandi hafa verið í Evrópu og langt austur í Síberíu eru fyrst og fremst afleiðing þessa óvenjulega ástands - hvað sem svo aftur veldur því.
En eins og áður sagði telst mars til vetrarins hér á landi og stöku sinnum hefur hann sýnt á sér vægari hliðar en hinir vetrarmánuðirnir - en stundum er hann kaldastur og verstur þeirra allra.
27.2.2020 | 21:12
Kannski ekki óalgengt
Ritstjórinn varð (vægt) undrandi þegar hann sá kortið hér að neðan (eða öllu heldur fyrirrennara þess) fyrir nokkrum dögum. Kannski er það bara vegna minnisleysis - en einhvern veginn þykir honum þetta ekki mjög algeng sjón (en kannski er hún ekki óalgeng).
Nú verður að skýra út hvað kortið sýnir.
Litafletirnir sýna norska pólarlægðavísinn [mismunur sjávarhita og hita í 500 hPa]. Verði vísirinn 43 eða hærri eru taldar góðar líkur á myndun lægða af þessu tagi. Fleira þarf þó að koma til, við förum ekki út í það hér. Jafnþrýsilínur við sjávarmál eru gráar, heildregnar, 500/1000 hPa, jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar og einnig má sjá vínrauðar heildregnar línur afmarka svæði þar sem veltimætti (CAPE) er meira en 50 J/kg.
Það sem er óvenjulegt er að sjá nær allt hafsvæðið sem kortið nær til þakið gulum og brúnum litum. Á þessum svæðum er munur á sjávarhita og hita í 500 hPa-fletinum (í um 5 km hæð) meiri en 40 stig. Þetta kalda loft er mestallt komið úr vestri (melta úr kuldapollinum Stóra-Bola) - en líka beint úr Norðuríshafi - það sem er austarlega á kortinu. Þetta þýðir að loft í neðri hluta veðrahvolfs er mjög óstöðugt á öllu svæðinu - allt fullt af éljaflókum sem sums staðar raðast upp í garða eða sveipi. Reynslan sýnir að veðurlíkön eiga ekki gott með að ná smáatriðum í þróun slíkra kerfa - sérstaklega þegar þau eru í myndun. Heldur betur gengur að fylgja þeim eftir að þau eru orðin til.
Pólarlægð er samheiti yfir fremur litla lægðasveipi sem verða til er kalt loft streymir út yfir hlýrra haf. Við að hitna að neðan verður kalda loftið mjög óstöðugt og myndar háreista skúra- og éljaklakka. Þessi sameiginlegi uppruni leynir þó því að eðli þeirra að öðru leyti er misjafnt. Þvermál lægðanna er yfirleitt á bilinu 100 til 500 km, dýpt oft í kringum 5 hPa, vindhraði á bilinu 10 til 20 m/s þar sem mest er og úrkoma talsverð. Þó Ísland sé ekki stórt hefur það veruleg áhrif á lægðir sem ekki eru stærri en þetta. Þó pólarlægðir séu mjög algengar á hafinu umhverfis Ísland er það ekki algengt að þær gangi á land. Þá sjaldan það gerist valda þær oft verulegri snjókomu og samgöngutruflunum en varla teljandi foktjóni. Vindhraði getur þó verið mjög hættulegur minni bátum á sjó.
Lægðin sem olli snjókomu og hálfgerðum leiðindum víða um landið suðvestanvert í dag er þó öllu stærri en svo að ritstjórinn sé fáanlegur til að tala um hana sem eiginlega pólarlægð, en bakkar hennar minna þó á slíkt.
En víst er að suðaustanáttin var með kaldasta móti í dag (fimmtudag 27.febrúar).
21.2.2020 | 01:56
Fyrstu tuttugu dagar febrúarmánaðar (og fleira)
Meðalhiti 20 fyrstu daga febrúarmánaðar er +0,8 stig í Reykjavík, +0,1 stigi ofan meðallags áranna 1991 til 2020 en -0,4 neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 13.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2017, meðalhiti +4,1 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -2,3 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 50.sæti (af 146). Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 1965, meðalhiti +4,8 stig, en kaldastir voru þeir 1892, meðalhiti þá -4,8 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins -1,3 stig, -0,7 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hitavik raðast svipað um land allt, einna hlýjast að tiltölu á Vestfjörðum og Suðausturlandi (11.sæti af 20). Að tiltölu hefur verið hlýjast á Ingólfshöfða og Breiðdalsheiði, +0,2 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast á Egilsstaðaflugvelli, -1,4 stig neðan meðallags.
Úrkoma hefur mælst 37,6 mm í Reykjavík, nokkru minna en í meðalári. Á Akureyri hefur verið meiri úrkoma, 65,7 mm, um 50 prósent umfram meðallag. Úrkoma hefur á fáeinum stöðvum mælst meiri en áður sömu daga, t.d. í Hnífsdal, á Reykjum í Hrútafirði, Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi og í Dalsmynni í Hjaltadal. Á öllum þessum stöðvum hefur verið athugað í meir en 20 ár.
Sólskinsstundir hafa mælst 34,2 í Reykjavík, má það heita í meðallagi.
Loftþrýstingur hefur verið óvenjulágur, í Reykjavík 980,3 hPa, -17,8 hPa neðan meðallags 1991 til 2020 og hefur aðeins 5 sinnum verið lægri sömu daga síðustu 199 árin. Lægsta meðaltalið er frá 1990, 972,4 hPa.
Mánaðarvindhraðamet var sett á Bláfeldi í morgun (20.febrúar), 10-mínútna meðalvindur fór í 33,7 m/s.
Eins og talað hefur verið um undanfarna daga er ekki afgerandi breytingar að sjá í spám reiknimiðstöðva. Þó virðist þær gera ráð fyrir því að næsta vika verði heldur kaldari en þær að undanförnu.
Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og vik frá meðaltali í næstu viku (24.febrúar til 1.mars). Þetta er nokkuð óvenjuleg staða og óráðin og rímar ekki við margt í (götóttu) minni ritstjórans. Þessu fylgir svo spá um hitafar 4 til 5 stig neðan meðallags árstímans. Þó þessu fylgi ekki neinar spár um veruleg illviðri er samt allur varinn góður. Þetta fer að verða að ýmsu leyti óvenjulegt - rétt eins og ástandið á meginlandi Evrópu og austur um.
19.2.2020 | 00:17
Umhleypingar áfram
Ekkert lát virðist á lægðaganginum. Þær eru að vísu misillskeyttar og nokkrar þær næstu fara kannski að mestu fyrir sunnan land - eða strjúka landið. Lægðin sem kemur að landinu síðdegis á morgun (miðvikudag 19.febrúar) er mjög öflug - en það er dálítið skrýtið að eftir stóru lægðirnar tvær sem plöguðu okkur um og fyrir helgi virðist hún slök - en er það í raun ekki. Okkur þætti hún slæm ef ekki væri fyrir samanburðinn.
Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis á fimmtudag, þegar þessi lægð verður nokkurn veginn komin hjá. Næsta lægð er svo suður af Hvarfi á Grænlandi á þessu korti. Við sjáum líka kuldapollinn mikla, Stóra-Bola yfir Kanada - hann sýnist ætla að verða aðeins of seinn á sér til að búa til eitthvað mjög stórt úr nýju lægðinni. Sem stendur gera spár því ráð fyrir því að hún renni sína leið rétt fyrir sunnan land - en verði ekki alveg eins öflug og morgundagslægðin.
Svo heldur þetta bara áfram. Eins og reikningar eru nú þegar þetta er skrifað (á þriðjudagskvöldi 18.febrúar) gæti snjór farið að setjast meir að okkur hér suðvestanlands heldur en verið hefur að undanförnu. Séu þessar spár réttar sýnist svöl vestanátt verða viðloðandi í háloftum eftir að þessar tvær lægðir líða hjá. Það snjóar vestanlands í svalri háloftavestanátt að vetrarlagi - alveg sama þó norðaustanátt sé í sveitum. - Liggi straumar beint af Grænlandi er þó heldur meiri von um bjartara veður.
En þetta er allt til þess að segja eitthvað - þreyja þorrann og góuna. Eins og venjulega hvetur ritstjóri hungurdiska landsmenn til að fylgjast vel með aðvörunum og spám Veðurstofunnar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2020 | 21:32
Smáviðbætur varðandi veðrið í gær
Í dag, laugardag 15.febrúar var óvenjudjúp lægð fyrir sunnan landið. Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan sýnir 919 hPa í miðju hennar. Ekki hefur þó frést að neimun mælingum sem staðfesta þetta en veðurlíkön eru orðin það nákvæm að líklega er þessi útreikningur varla mjög fjarri lagi. Breska veðurstofan segir þó 922 hPa - gæti líka verið rétt.
Ritstjóri hungurdiska man aðeins eftir 2 dýpri lægðum á sinni vakt. Við vitum ekki um tíðni svona lágs sjávarmálsþrýstings, trúlega er hann þó tíðari í raun en fyrirliggjandi gögn sýna. - En algengt er þetta ekki. En nú fer hringrás á norðurhveli að tölta vorgötuna - þó löng sé leiðin sú og oftast nær torfarin í byrjun.
Þó lægð gærdagsins (föstudags) væri nokkuð grynnri fylgdi henni mun meiri vindur hér á landi og það svo að á landinu í heild verður veðrið í flokki þeirra sex mestu síðastliðin 20 ár rúm og það mesta frá 7.desember 2015 - en þá gerði ámóta veður. Nokkrum dögum síðar birtist á hungurdiskum riss sem greindi átt og meðalvindhraða hvössustu klukkustunda þessara mestu veðra á tíma sjálfvirku stöðvanna. Við skulum nú bæta veðri gærdagsins á þá mynd.
Á myndinni hefur meðalvigurvindátt veðranna verið reiknuð fyrir hverja klukkustund þegar meðalvindhraði var meiri en 18 m/s.
Lórétti ásinn sýnir stefnuna norður-suður, en sá lárétti austur-vestur. Dagsetningar eru við hverja punktaþyrpingu og tölurnar sýna klukkustundir.
Veðrið sem gekk yfir 16. janúar 1999 var norðanveður - meðalvigurstefna var úr norðnorðaustri - og hélst stöðug allan tímann sem meðalvindur í byggðum landsins var meiri en 18 m/s (frá kl.1 til 8). Norðanveður eru að jafnaði stöðugri en þau sem koma af öðrum áttum.
Næst kom ámóta veður 10. nóvember 2001. Það var eins og sjá má af vestsuðvestri og var verst síðla nætur (frá kl.2 til 8). Vindátt snerist smám saman meira í vestlæga stefnu.
Síðan þurfti að bíða allt til 2008 til þess tíma að klukkustundarmeðalvindhraði í byggð næði aftur 18 m/s. Fjölda illviðra gerði þó í millitíðinni - en voru annað hvort ekki jafnhörð - nú, eða þau náðu ekki sömu útbreiðslu þó jafnhörð væru á hluta landsins. Veðrið 8. febrúar 2008 var úr landsuðri - hallaðist meir til suðurs þegar leið á kvöldið (20 til 23).
Svo var það 14. mars 2015 sem gerði eftirminnilegt veður af suðri, byrjaði af suðsuðaustri, náði hámarki kl.9 - meðalvindhraði þá sjónarmun meiri en í nokkru hinna veðranna.
Veðrið í desember sama ár var svo hið fimmta í röðinni á tímabilinu. Það var af austnorðaustri eða austri - hallaðist meir til austurs eftir því sem á leið (kl.21 til 01 merkt á myndina).
Veðrið gær var afskaplega líkt desemberveðrinu 2015 - vindhraði ámóta, en áttin ívið suðlægari. Veðurharka á hverjum stað er að jafnaði mjög bundin vindátt. Vestanveðrin koma illa niður á öðrum stöðum en austanáttin. Samtals eru veðrin sex búin að koma víða við.
Meðalvindhraði sólarhringsins í byggðum landsins í gær var 15,1 m/s (bráðabirgðaniðurstaða - sjálfvirkar veðurstöðvar - meðalvindhraði á mönnuðum stöðvum var 15,0 m/s). Þetta er mesti sólarhringsmeðalvindhraði síðan 2.nóvember 2012 og sá næstmesti á tíma sjálfvirku stöðvanna. Mestur varð meðalvindhraðinn 16.janúar 1999.
Stormavísir ritstjóra hungurdiska náði tölunni 695 (þúsundustuhlutum), 10-mínútna meðalvindhraði náði 20 m/s á nærri 70 prósentum veðurstöðva í byggð. Frá 1997 hefur hann 8 sinnum orðið jafnhár eða hærri, síðast í desemberveðrinu 2015.
Þrátt fyrir að vera versta veður á Suðurlandsundirlendinu um langt skeið sluppu byggðir á höfuðborgarsvæðinu (að Grundarhverfi á Kjalarnesi og e.t.v. einhverjum stöku stað öðrum undanteknum) frekar vel undan því - alla vega er það langt frá toppsætum á lista sem nær til svæðis frá Korpu og suður í Straumsvík [90. hvassasta klukkustundin frá 1997]. Hvassast var í marsveðrinu 2015, síðan í landssynningsveðri sem ekki kom við sögu hér að ofan, 13.desember 2007. - Minnir okkur á að meðaltöl eru meðaltöl.
[Enn viðbót]
Í þessum rituðu orðum fór þrýstingur niður í 932,3 hPa í Surtsey. Þetta er þriðjalægsta febrúartala sem við þekkjum á landinu, deilir reyndar sætinu með mælingu úr Vestmannaeyjum frá árinu 1903 - en þá var aðeins mælt þrisvar á dag og ótrúlegt að mælingin hafi hitt nákvæmlega á lægstu tölu - hefði verið mælt á klukkustundarfresti - auk þess voru ekki mælingar í Surtsey þá. - Að vísu - og að auki - er ein lág tala til í viðbót - en var þurrkuð út á sínum tíma (önnur saga). En alla vega er þetta lægsti febrúarþrýstingur hér á landi frá 1989 þegar þrýstingur á Stórhöfða mældist 931,9 hPa, en þrýstingur fór niður í 930,2 hPa á Kirkjubæjarklaustri þann 30.desember 2015.
Þá er það hálfur febrúar. Meðalhiti hans í Reykjavík er +0,7 stig, +0,3 stigum ofan meðallag áranna 1991 til 2020, en -0,5 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 10.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 15 árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir 2002, meðalhiti -2,2 stig. Á langa listanum er hitinn í 52.sæti (af 146). Á þeim lista eru fyrstu 15 dagar febrúar 1932 hlýjastir, hiti þá +4,5 stig, kaldastir voru dagarnir 15 árið 1881, meðalhiti -5,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 -1,8 stig, -2,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, en -1,0 neðan meðallags áranna 1991 til 2020.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, meðalhiti þar í 9.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast á Norðurlandi (báðum spásvæðum), hiti í 15.hlýjasta sæti á öldinni.
Á einstökum stöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu við Reykjanesbraut (hiti +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára), en kaldast við Mývatn þar sem hiti hefur verið -2,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þar fór frostið niður í -28,1 stig á dögunum, lægsta tala vetrarins til þessa á landinu.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 35,4 mm og er það lítillega neðan meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 30,7 mm - lítillega ofan meðallags.
Sólskinsstundir hafa mælst 16,4 í Reykjavík - vantar 9 upp á meðallag.
Loftþrýstingur er áfram heldur lágur, meðaltal fyrstu 15 dagana í Reykjavík er 982,8 hPa, met sömu daga er talsvert lægra, 971,6 hPa - frá 1990.
Vísindi og fræði | Breytt 16.2.2020 kl. 02:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2020 | 21:05
Veðrametingur enn
Þó þessu illviðri - sem við eigum eftir að kenna við eitthvað - sé ekki lokið (síðdegis þann 14.febrúar) er samt sitthvað hægt um veðurhörku þess að segja. Ársvindhraðamet voru slegin á nokkrum stöðvum - bæði hviðu- og 10-mínútna meðalvindhraðamet. Lítum á það helsta (sleppum stöðvum sem athugað hafa í aðeins örfá ár alveg). Setjum byrjun athugana í sviga.
Ársmet var slegið í Vestmannaeyjabæ (2002), á Þyrli í Hvalfirði (2003 þar fór 10-mínútna vindurinn í 39,5 m/s), á Hellu (2006 - þar var líka fárviðri, vindur fór í 35,1 m/s). Mörk á Landi (2008, líka fárviðri, 35,2 m/s), í Bláfjöllum (1997), í Grindavík (2008 - eftir að athuga met á eldri stöð), á Kálfhóli á Skeiðum (2003), á Austurárdalshálsi (2009 - þar fór vindur í 43,2 m/s), Steinar undir Eyjafjöllum (1997 - þar var fárviðri, 36,9 m/s), við Akrafjall (2009), í Skálholti (1998), á Lyngdalsheiði (2010), við Markarfljótsbrú (2010, þar var fárviðri 37,1 m/s) og við Þjórsárbrú (2004).
Hviðumet var sett á sjálfvirku stöðinni á Stórhöfða (57,5 m/s) - minna en mest mældist á mönnuðu stöðinni þar á árum áður. Árshviðumet var einnig sett á Hellu, við Vatnsfell, Vatnsskarðshóla, Árnes, Kálfhól, Mörk á Landi, Hjarðarland, á Hafnarmelum og Austurárdalshálsi. Sömuleiðis voru sett ársvindhviðumet á vegagerðarstöðvunum við Blikdalsá, Markarfljót, í Hvammi, á Lyngdalsheiði og á Vatnsskarði. Vindhviða við Hafnarfjall fór í 71,0 m/s. Hafa þarf í huga að á stöðvum vegagerðarinnar eru hviður sagðar miðaðar við 1 s, en 3 s á öðrum stöðvum - á móti kemur að vindmælar vegagerðarinnar eru flestir í 6 m hæð en ekki 10 eins á öðrum stöðvum. Met á stöðvagerðunum tveimur eru því ekki alveg samanburðarhæf.
Vindmælirinn á Skrauthólum á Kjalarnesi virðist hafa brotnað - og eitthvað kom fyrir á Keflavíkurflugvelli, en ritstjóri hungurdiska veit ekki hvað er á seyði þar - einhverjar fleiri bilanir kunna að hafa orðið víðar.
Þar sem veðrinu er ekki alveg lokið þegar þetta er skrifað er ekki tímabært að gera upp stöðu þess í sólarhringsvindhraðakeppni á landsvísu, en við getum litið á einstakar klukkustundir.
Meðalvindur í byggðum landsins í heild varð mestur kl.10 í morgun, 19,4 m/s. Síðustu 24 árin eru það aðeins fimm önnur veður sem ná svipuðum árangri, þar af tvö árið 2015, þann 14.mars og 7.desember. Hin eru eldri, 8.febrúar 2008, 10.nóvember 2001 og 16.janúar 1999.
Það má líka bera veðurhörku klukkustunda saman á einstökum spásvæðum og sjá hvernig röðun þeirra er miðað við önnur veður - veðurviðvaranir miðast við spásvæði. Hér var aðeins flett upp 10 vindasömustu klukkustundum hvers spásvæðis. Það er aðeins á Suðausturlandi og Suðurlandi sem klukkustundir nú ná á listann - á Suðausturlandi er það í 3., 4. og 7.sæti, innan um desemberveðrið 2015. En á Suðurlandi er veðrið nú í 1. til 3. sæti - og hirðir helming sætanna 10 á listanum.
Nokkuð ljóst er því að það þetta veður er í flokki þeirra allra verstu á þessum tveimur landsvæðum síðasta aldarfjórðunginn eða svo, sérstaklega á Suðurlandi. Sömuleiðis sýndu vindhraðametin okkur að það er líklega í flokki þeirra verstu á stöku stað á Faxaflóasvæðinu, eins og tölurnar frá Þyrli og hviðan undir Hafnarfjalli sýna.
Full ástæða var því til að veifa rauðum viðvaranalit á þessum svæðum.
Vonandi hefur ritstjóri hungurdiska þrek til að fjalla aðeins meira um veðrið síðar - kannski verður einhverju bætt við þennan pistil þegar uppgjör sólarhringsins liggur fyrir í nótt (eða á morgun).
En illviðrin halda áfram - vonandi þó ekki af sömu hörku og í dag. Lægð morgundagsins (laugardags) er alveg sérlega djúp - spurning hversu neðarlega loftþrýstingur fer hér á landi, en miðjuþrýstingi er nú spáð niður undir 920 hPa - eða jafnvel neðar. Venjulega líður ár og dagur á milli þess sem svo djúpar lægðir sjást við Norður-Atlantshaf - sennilega eru þær þó heldur algengari en almennt var talið hér á árum áður. Þá töldu menn miðjuþrýsting þurfa staðfestingar við annað hvort með beinni mælingu á þrýstingi eða vindi - en nú láta menn sýndarheima tölvulíkana duga - þau hafa sennilega oftast rétt fyrir sér hvað þetta varðar.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.9.): 70
- Sl. sólarhring: 86
- Sl. viku: 1705
- Frá upphafi: 2499700
Annað
- Innlit í dag: 62
- Innlit sl. viku: 1548
- Gestir í dag: 54
- IP-tölur í dag: 54
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010