29.4.2020 | 00:28
Nýleg háloftamet
Ritstjóri hungurdiska fylgist með háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli og gefur nýjum metum þar gaum. Háloftathuganir eru að vísu býsna gisnar, lengst af gerðar aðeins tvisvar á dag (um tíma þó fjórum sinnum). Sömuleiðis er stöðin einmana. Líkur á að ýmiskonar Íslandsmet fjúki hjá - án þess að nást á mæla - eru því allmiklar. Svo bilar stöðin stundum og athuganir falla niður um stund. Tímaraðir neðri flata, upp í 100 hPa eru þó allsæmilegar aftur til 1952 og efri flatanna aftur til 1973. Mælingar í efri flötum frá 1952 til 1972 eru þó til - en ekki á tölvutæku formi. Seinlegt er að leita meta í slíkum gögnum. Neðsti staðalflöturinn, 925 hPa komst ekki í flokk þeirra útvöldu fyrr en seint og um síðir og eigum við ekki til gögn úr honum nema aftur til 1993.
Slæðingur af mánaðametum féllu í vetur - fleiri en í fyrra. Við höfum áður skýrt hér frá októberkuldametinu í 500 hPa fletinum, þann 24. mældist frostið í honum -43,2 stig. Nú í apríl féllu mánaðarlágmarkshitamet í allmörgum flötum - frá 400 hPa og upp í 50 hPa, ekki öll þó sama daginn. Flest tengdust þau illviðrinu mikla sem hér gerði helgina þann 4. og 5.apríl - því sem olli fannferginu í Hveragerði og víðar.
Í 100 hPa-fletinum (rúmlega 15 km hæð) voru þá sett bæði mánaðarlágmarkshita- og lágstöðumet (flöturinn hefur aldrei mælst lægri í apríl). Lágmarkshitametið var sett þann 4. kl.18, -73,0 stig, en lágstöðumetið sama morgun kl.11, 15150 metrar.
Við lítum á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar kl.18 - bæði fyrir 100 hPa og sjávarmál.
Lægsti hitinn í kerfinu er reyndar austan við land, -76 stig. Mikið og vaxandi lægðakerfi fyrir sunnan land olli þessum mikla kulda. Hlýtt loft úr suðri lyfti veðrahvörfunum - og öllu þar ofan við. Þegar loft lyftist kólnar það rækilega - við getum því - óbeint - séð atganginn neðar með því að fylgjast með hitabreytingum þarna uppi. Veðrahvörfin voru mjög neðarlega við Ísland - en lágmarksmetin féllu eins og áður sagði í 400 hPa og ofar - ofan veðrahvarfa.
Sunnanáttin mikla í veðrahvolfinu sést mjög vel á sjávarmálskortinu - og þrengir að kuldanum norður undan. Enda fengum við aldeilis að finna fyrir átökunum.
Aðeins nokkrum dögum áður höfðu hins vegar mánaðarhástöðumet hrunið umvörpum (fletir stóðu sérlega hátt) - allt frá jörð (þar sem sjávarmálsþrýstingur var í hæstu hæðum) og upp í 200 hPa - um það bil veðrahvarfahæð þann daginn).
Kortið sýnir nýja marsmetið í 300 hPa, hæðin á fletinum yfir Keflavík mældist 9350 metrar kl.11 þann 29.mars. Gríðarmiklar sviptingar í veðri.
Í mars var líka sett mánaðarhámarkshitamet í 20 hPa-fletinum, -22 stig þann 22. Mikil viðbrigði frá nýja lágmarkshitametinu í þeim fleti sem sett var í janúar, -92 stig, 70 stiga munur. Frá lágmarkshitametinu var sagt í pistli hungurdiska 3.janúar í vetur.
Svo er lengi von á einum - eins og sagt er. Því fyrir nokkrum dögum var sett nýtt met í hæð 70 hPa-flatarins yfir Keflavík, hæð hans fór í 18660 metra þann 22.apríl, og líka þann 23. Við erum ekki með kort á hraðbergi fyrir þann flöt.
Allt eru þetta út af fyrir sig merkir atburðir - þó fáir kunni að meta þá - nema allraallraæstustu veðurnörd (og þau meira að segja varla). Þeir sem vilja smjatta geta litið á viðhengið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2020 | 19:50
Vetrarhitinn
Nú er vetrarmisseri íslenska tímatalsins liðið, sumardagurinn fyrsti er á morgun, 23.apríl. Heldur hefur verið illviðrasamt á landinu allt fram í byrjun þessa mánaðar. Nóvember var að vísu óvenjuhægur en snemma í desember skipti um yfir í skakviðri og hríðar. Síðasti hálfi mánuður hefur verið öllu skárri, sérstaklega um landið norðaustan- og austanvert.
Myndin sýnir hita vetrarmissera í Reykjavík 1872 til 2020. Meðalhiti nú var +1,1 stig, -0,3 stig neðan meðallags síðustu 30 vetra. Það er það lægsta frá vetrinum 2000 til 2001 að telja, en eins og greinilega má sjá á myndinni sker sá nýliðni sig ekkert úr - hiti hefur nokkrum sinnum á öldinni verið mjög ámóta og nú, síðast 2017-18. Þeir sem vel sjá taka eftir rauðri punktalínu sem liggur þvert yfir myndina, markar sú meðalhitann nú. Það má taka eftir því að allan tímann frá og með vetrinum 1965-66 að telja og allt fram til aldamóta voru ekki nema 6 vetur hlýrri en sá nýliðni. Á (vetra-) hlýskeiðinu 1921 til 1965 voru 23 vetur (af 65) hlýrri en sá nýliðni. Á hlýskeiðinu mikla 1931 til 1960 var vetrarmeðalhiti í Reykjavík 1,2 stig, nánast sami og nú - meðalhlýr hlýskeiðsvetur. En illviðri hafa verið ríflega umfram meðallag.
Á Akureyri er meðalhiti vetrarins 2019 til 20 -0,3 stig, kaldast frá 2015-16 og í Stykkishólmi var meðalhiti vetrarins +0,6 stig, kaldast frá 2001-02.
Eins og venjulega vitum við ekkert um framhaldið - það er frjálst. En ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og velunnurum öðrum gleðilegs sumars.
Þeir sem vilja geta rifjað um gamla pistla tengdan sumardeginum fyrsta (vonandi eru þeir ekki úreltir). Sumardagurinn fyrsti - sundurlausir fróðleiksmolar. Þegar frýs saman - sumar og vetur - þá hvað?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.4.2020 | 01:41
Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar
Þetta líður víst allt saman - meðalhiti 20 fyrstu daga aprílmánaðar er +2,8 stig í Reykjavík, -0,4 neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -1,0 stigi neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Meðalhitinn er nú í 15.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 2003, meðalhiti +6,0 stig, en kaldastir voru þeir 2006, meðalhiti þá +0,9 stig. Á langa listanum er hiti nú í 62.sæti (af 146). Hlýjast var 1974, meðalhiti +6,1 stig, en kaldast 1876, meðalhiti -3,7 stig.
Það hefur verið hlýtt fyrir norðan undanfarna daga. Meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins á Akureyri er +2,0 stig, -0,1 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,8 neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið einna kaldast við Breiðafjörð, hiti þar í 17.sæti á öldinni, en hlýjast á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum, hiti í 13.hlýjasta sæti á öldinni.
Hiti er enn undir meðallagi síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, vikið er minnst í Sandbúðum, -0,1 stig, en mest á Flateyri og á Bröttubrekku, -1,8 stig.
Úrkoma hefur mælst 69,8 mm í Reykjavík, það er um 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 33,1 mm, líka í kringum um 50 prósent umfram meðallag.
Sólskinsstundir hafa mælst 52,9 í Reykjavík í mánuðinum til þessa, um 50 stundum undir meðallagi sömu daga síðustu tíu ára - og hafa aðeins 5 sinnum mælst færri sömu daga (110 ár).
Svo virðist sem eitthvað sem við getum kallað hófleg hlýindi séu framundan - en þó gæti næturfrostum brugðið fyrir nótt og nótt sé vindur hægur og bjart í lofti.
18.4.2020 | 17:41
Gamall pistill um Grænland
Þeir sem liggja mikið yfir gervihnattamyndum reka sig fljótt á að oftast er auðvelt að finna Grænland - þó skýjasúpa liggi gjarnan yfir Íslandi og umhverfi. Á síðustu árum er að vísu búið að útbía flestar þær myndir sem á borð eru bornar með útlínum landa, breiddar- og lengdarbaugum þannig að sérstaða Grænlands er nú kannski ekki alveg jafn augsýnileg og var á þeim árum sem ritstjóri hungurdiska þurfti vegna starfa sinna sem mest að rýna í myndirnar.
En hvað um það. Árið 1988 birtist grein með nafninu Sunny Greenland í riti breska veðurfræðifélagsins [Quarterly Journal of the Royal Meteorological Society]. Höfundur var Richard S. Scorer, mjög þekktur maður í faginu og höfundur kennslubóka og fjölda greina. Kom reyndar hingað til lands um þær mundir, var ráðgjafi við kaup á veðursjá - sem síðan var sett upp á Miðnesheiði. Ritstjóri hungurdiska var svo heppinn að fá spjallstund með honum. Aðallega var rætt um gervihnattamyndir og svo umrædda Grænlandsgrein. Afskaplega ánægjuleg stund. Greinin er því miður lokuð almenningi - bakvið greiðslugirðingu. Ritsjórinn er svona eftir á að hyggja e.t.v. ekki alveg sammála öllu sem þar stendur, en eftir situr nafn greinarinnar og sá sannleikur sem í því fellst.
Í samantekt greinarinnar stendur m.a. (í mjög lauslegri þýðingu): Óvíða í heiminum er meira skýjað en á Svalbarða, Íslandi og öðrum svæðum [í nágrenni Grænlands], en aftur á móti er Grænland sólskinsstaður. Ástæður þessa eru ræddar í greininni - stærð landsins, hálendi og síðast en ekki síst viðvarandi niðurstreymi lofts niður eftir jökladölum landsins.
En víkur nú til 12. og 13.aldar. Í norrænu fræðsluriti frá þeim tíma Konungsskuggsjá er furðumikið fjallað um Grænland og ekki nóg með það heldur er líka greinilegt að sá sem skrifar veit vel um hvað hann er að tala. Hefur jafnvel reynt á eigin skinni. Hér verður sjónum aðeins beint að einu atriði - hinu sólríka Grænlandi.
Við notum hér norska uppskrift úr handriti sem gefin var út á prenti í Kristjaníu 1848:
[Þ]að vitni bera flestir Grænalandi, þeir sem þar hafa verið, að kuldinn hefir þar fengit yfrið afl sitt, og svo ber hvervetna vitni á sér landið og hafið, að þar er [gnógt] orðið frostið og meginafl kuldans, því að það er bæði frosið um vetrum og sumrum, og hvorttveggja ísum þakt.
En þar er þú spurðir eftir því, hvort sól skín á Grænalandi, eða verði það nokkuð sinni að þar sé fögur veður, sem í öðrum löndum, þá skaltu það víst vita, að þar eru fögur sólskin, og heldr er þat land veðurgott kallað. En þar skiptist stórum sólargangur, því að þegar sem vetur er, þá er þar nálega allt ein nótt, en þegar er sumar er, þá er nálega sem allt sé einn dagur; og meðan er sól gengur hæst, þá hefir hún ærið afl til skins og bjartleiks, en lítið afl til yljar og hita; en hefir hún þó svo mikið afl, at þar sem jörðin er þíð, þá vermir hún svo landið, at jörðin gefur af sér góð grös og vel ilmandi, ok má fólkið fyrir því vel byggja landið, þar sem það er þítt, en það er afar lítið.
En þar er þú ræddir um veðurleik landsins, að þér þótti það undarlegt, hví það land var veðurgott kallað, þá vil ég það segja þér, hversu því landi er farið. Þeim sinnum er þar kann illviðri að verða, þá verðr það þar með meiri ákefð en í flestum stöðum öðrum, hvorttveggja um hvassleik veðra og um ákefð frosts og snjóa. En oftast halda þar illviðri litla hríð, og er langt í millum að þau koma, og er þá góð veðrátta millum þess, þó að landið sé kalt, og verður því náttúra jökulsins at hann verpur af sér jafnan köldum gust, þeim sem élum hrindur brott af hans andliti, og heldur hann oftast beru höfði yfir sér. En jafnan gjalda hans þó nálægir grannar, því að öll önnur lönd, þau er í nánd honum liggja, þá taka mikil illviðri af honum, og koma þau öll þá á, er hann hrindur af sjálfum sér með köldum blæstri.
SPECULUM REGALE. KONUNGS-SKUGGSJÁ. Christiania 1848 [R. Keyser. P.A. Munch. C.R. Unger], s.45 til 47.
Við skulum til áherslu endurtaka það síðasta:
og verður því náttúra jökulsins at hann verpur af sér jafnan köldum gust, þeim sem élum hrindur brott af hans andliti, og heldur hann oftast beru höfði yfir sér.
Strax og hvíldarstund gefst frá sífelldum lægðagangi hérlendis og um hægist sýna íslenskir jöklar sama eðli. Oft er hreint yfir þeim þó skýjað sé í kring. Þessu veldur hið sama niðurstreymi og verður yfir Grænlandsjökli. Sá stóri er þó svo umfangsmikill að hann getur haft áhrif á lægðirnar sjálfar og þá loftstrauma sem bera þær. Þeir íslensku eru þar ekki hálfdrættingar þó eðlið sé hið sama.
16.4.2020 | 02:32
Fyrri helmingur aprílmánaðar
Fyrri helmingur aprílmánaðar hefur verið kaldur á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er +1,5 stig, -1,4 stigum neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020, en -2,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára og í 17. til 18.sæti á hlýindalista aldarinnar. Kaldastir voru sömu dagar árið 2006, meðalhiti +0,4 stig og +1,0 árið 2005. Hlýjastir voru sömu dagar 2003, meðalhiti +5,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 89. til 90.sæti (af 146). Kaldastir voru sömu dagar 1876, meðalhiti þá -4,1 stig, en hlýjast var 1929, meðalhiti +6,6 stig.
Meðalhiti dagana 15 á Akureyri er +0,1 stig, -1,5 stigi neðan meðallags 1991 til 2020, en -2,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið kaldast um landið vestanvert, þar er hitinn í 18. sæti af 20 á öldinni, en hlýjast á Austfjörðum þar sem hann er í 14. hlýjasta sæti (6 kaldari en nú).
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, minnst er vikið í Kvískerjum í Öræfum, -1,0 stig, en mest -3,1 stig í Þúfuveri.
Úrkoma hefur mælst 43,6 mm í Reykjavík sem er í ríflegu meðallagi, en 31,8 mm á Akureyri, það er nærri tvöföld meðalúrkoma sömu daga.
Sólskinsstundir hafa mælst 51,0 í Reykjavík. Það er nokkuð undir meðallagi.
11.4.2020 | 02:45
Fyrsti þriðjungur aprílmánaðar
Fyrsti þriðjungur apríl hefur verið kaldur hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík er -0,1 stig, -2,7 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og -3,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er kaldasta aprílbyrjun á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2014, meðalhiti þá +6,0 stig. Á langa listanum er hitinn í 120.sæti (af 146). Hlýjast var 1926, meðalhiti +6,6 stig, en kaldast 1886, meðalhiti -4,4 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins -1,8 stig, -3,0 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, og -3,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Þetta er kaldasta aprílbyrjun aldarinnar (20.hlýjasta sæti) á svæðinu frá Mýrdal, vestur og norður um til Stranda og Norðurlands eystra. Á Suðausturlandi er þetta næstkaldasta aprílbyrjun en á Austurlandi, Austfjörðum og á Miðhálendinu sú þriðjakaldasta (18. hlýjasta sæti).
Hiti er langt neðan meðaltals á öllum veðurstöðvum. Miðað við síðustu tíu ár er neikvæða vikið mest við Búrfell (-4,8 stig), en minnst á Steinum undir Eyjafjöllum (-1,9 stig).
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 35,8 mm - vel umfram meðallag, en 31,3 mm á Akureyri, nærri þrefalt meðallag (þó vantar nokkuð upp á met).
Sólskinsstundir hafa mælst 34,6 í Reykjavík, nokkuð undir meðallagi.
10.4.2020 | 20:09
Eru bjartir dagar hlýrri en þeir alskýjuðu?
Svar við spurningunni er auðvitað ekki algilt. Það fer bæði eftir stað, árstíma og fleiri þáttum. En hið almenna svar - það sem tengist meðaltölum - er samt það að í Reykjavík er sólarhringsmeðalhiti hærri þegar alskýjað er heldur en léttskýjað - nema á tímabilinu frá því svona viku af júní og rétt fram í ágústbyrjun. Um maí má segja að meðalhiti sé hærri upp síðdegis á sólardögum heldur en þegar alskýjað er, en mestallan sólarhringinn eru alskýjuðu dagarnir hlýrri.
Við skulum byrja á því að sjá hvernig þessu er háttað í aprílmánuði - á árunum 1997 til 2019 í Reykjavík.
Blái ferillinn sýnir meðalhita hverrar klukkustundar þá daga sem alskýjað var á þessum árum (meðalskýjahula sólarhringsins meiri en 7,5 áttunduhlutar). Munur á hita dags og nætur er ekki mjög mikill - rétt rúm 2 stig. Rauði ferillinn sýnir meðalhita hverrar klukkustundar þegar léttskýjað er (meðalskýjahula sólarhringsins minni en 3 áttunduhlutar). Eins og sjá má er þónokkuð kaldara í bjartviðrinu, meira að segja um miðjan daginn. Dægursveiflan er mun meiri - hátt í 5 stig.
Ástæða þessa ástands er fyrst og fremst sú að bjartviðrið er mest í norðlægum áttum - þær eru í eðli sínu kaldar. Þó sólin sé dugleg að hita að deginum nær hitinn samt ekki því sem gerist þegar alskýjað er - þá er áttin oftast suðlæg.
Þegar kemur fram í maí minnkar munurinn á rauðu og bláu ferlunum, rauði ferillinn fer rétt upp fyrir þann bláa frá því kl.15 til kl.19 (0,4 stig þegar mest er), en sólarhringsmeðaltal björtu dagana er samt lægra.
Á Akureyri víkur þessu öðru vísi við.
Hér eru björtu dagarnir hlýrri en þeir skýjuðu - ívið kaldara yfir blánóttina, en en eftir kl.8 er hiti þeirra björtu kominn með vinninginn. Þegar bjartviðri er á Akureyri er ríkjandi vindur af landi - eða hægur (þar til hafgolan dettur inn). Hér eru tölurnar frá árunum 2006 til 2019 - mældar við Krossanesbrautina.
Við lítum líka á júlímánuð.
Jú, nú eru björtu dagarnir í Reykjavík hlýrri en þeir alskýjuðu - mestallan sólarhringinn. Það eru aðeins fáeinar klukkustundir síðla nætur sem eru kaldari bjartar en skýjaðar. Örvarnar benda á tvær axlir á rauða ferlinum. Á morgnanna stefnir hitinn hratt upp - en síðan er eins og hik komi á hækkunina - skyldi þetta vera hafgolan? Eins er síðdegis - hitinn tregðast við að falla fram undir kl.20. Þegar mesti broddurinn er úr hafgolunni er eins og hitinn hiki við að falla - er það síðdegislandloftið að austan sem kemur yfir borgina? Það er furðuoft sem hámarkshiti dagsins í Reykjavík er ekki náð fyrr en um og uppúr kl.18 (valdandi hitauppgjörsvanda sem hefur oft verið rakinn á hungurdiskum).
Á Akureyri er staðan svipuð - smástund yfir blánóttina í júlí þegar kaldara er á björtum dögum en skýjuðum. En - það kemur mikið hik á hlýnun frá og með kl.12 - hiti helst svipaður allt fram til kl.19. Trúlega er þetta hafgolan - bjartir dagar þegar hennar gætir ekki eru hlýrri. (En um það fjöllum við ekki hér og nú).
Að lokum athugum við mun á sólarhringsmeðalhita alskýjaðra og léttskýjaðra daga í Reykjavík og á Akureyri í öllum mánuðum ársins.
Bláu súlurnar sýna tölur frá Reykjavík. Mjög mikill munur er á hita bjartra og alskýjaðra daga að vetrarlagi - í janúar munar hátt í 8 stigum. Hiti bjartra daga hefur betur í júní og júlí - staðan er í járnum í ágúst, en afgang ársins eru björtu dagarnir kaldari en þeir alskýjuðu.
Brúnu súlurnar sýna akureyrartölurnar. Bjartir dagar eru hlýrri en þeir alskýjuðu á Akureyri frá því í apríl og þar til í september. Á vetrum munar ekki jafnmiklu á hita og í Reykjavík.
Gera má ráð fyrir því að niðurstöður séu svipaðar Reykjavík um meginhluta Suður- og Vesturlands, en Akureyrarniðurstöður eigi við Norður- og Austurland. Auðvitað er hugsanlegt að einhverjar veðurstöðvar skeri sig eitthvað úr. Nú er því miður orðið lítið um skýjahuluupplýsingar þannig að ekki er hægt að fara í þennan reiknileik fyrir nema sárafáar stöðvar - því miður.
6.4.2020 | 17:59
Meira af mars (enn)
Þegar upp var staðið voru þrýstivik marsmánaðar ekki mjög mikil hér á landi - eins og sjá má á kortinu hér að neðan.
Þetta felur þó raunveruleikan nokkuð - lengi framan af var þrýstingurinn óvenju lágur, en í síðustu vikunni hins vegar nánast methár. - En svona eru meðaltölin stundum. Heildarvikamynstrið á kortinu er þó það að þrýstingur var í lægra lagi á norðurslóðum í mars, en í hærra lagi suður í höfum. Vestlægar og norðvestlægar áttir báru kalt meginlandsloft út yfir Atlantshaf sunnan Grænlands - og norðanátt var einnig með meira móti austan við Grænland norðaustanvert.
Á þessu korti sýna heildregnar línur meðalhæð 500 hPa-flatarins, en daufar strikalínur þykktina. Þykktarvik eru sýnd með litum. Á bláu svæðunum var hún neðan meðallags áranna 1991 til 2010, þar var hiti í neðri hluta veðrahvolfs neðan meðallags. Vikin eru mest í vestanstróknum fyrir suðvestan land, og sömuleiðis við Svalbarða, en þar urðu þau tíðindi að hiti var neðan meðallags í fyrsta skipti í ein tíu ár. - Það hlaut að gerast um síðir.
Meðalhæð 500 hPa-flatarins var í neðsta þriðjungi tíðnidreifingar í öllum vetrarmánuðunum fjórum. Við vitum aðeins til að það hafi gerst þrisvar áður, 2015, 1995 og 1920 (fyrir þann tíma eru heimildir óljósar).
Bolli Pálmason gerði kortin.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2020 | 20:47
Af árinu 1865
Árið 1865 var kalt, en þrátt fyrir alls konar hríðaráföll (jafnvel um mitt sumar) og hrakviðri fór ekki afleitlega með og mesta furða hvað menn komust af. Mannskaðar voru miklir á sjó og landi, þó ekki alveg jafnmiklir og árið áður. Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,4 stig (svipað og 1979), en giskað er á 3,4 stig í Reykjavík (um hálfu stigi hlýrra en 1979) og 1,1 stig á Akureyri (ívið kaldara en 1979). Í Stykkishólmi var hitinn rétt undir meðallagi síðustu 10 ára á undan. Allir mánuðir ársins voru kaldir nema desember, þá var hiti nærri langtímameðallagi. Sérlega kalt var í janúar og júlí.
Myndin sýnir meðalhita hvers dags í Stykkishólmi 1865. Enginn dagur var hlýr, en 25 mjög kaldir, þar af 6 í janúar og 5 í júlí. Ársúrkoma mældist 736 mm, sérlega úrkomusamt var í september og desember, en með þurrasta móti í október. Einnig var þurrt í ágúst - hefur bjargað miklu.
Myndin sýnir þrýstifar ársins, byggð á morgunmælingum í Stykkishólmi. Loftþrýstingur var hár í febrúar, mars og október, en lágur í apríl, maí, júní og desember. Maí og desember voru órólegir, en október hægur. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi á gamlársdag, 31.desember, 952,9 hPa, en hæstur 1033,9 hPa á sama stað 20. mars.
Ritstjóra hungurdiska hefur ekki tekist að finna samtímaheildarmat á árinu, en ræður af blaðafregnum að góðir kaflar á heyskapartíma og um haustið hafi bjargað miklu. Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar.
Janúar. Kalt veður og umhleypingasamt.
Norðanfari segir 28.janúar:
Síðan á nýári og til þess í dag 28. janúar, hefir oftar en sjaldnar verið hríðar- eða bleytuveður með landnorðanátt, en mest fannkoma 4. og 10. þ.mán; er því víða hér nyrðra orðið haglaust fyrir áfreða og fanndýpi, samt er sagt snjólítið víða í Skagafirði og sumstaðar í Húnavatnssýslu. 22. og 25. þ.m. var frostið hér 19 og 20 gr á Reaumur [að 25°C]. Venju framar er hér lagís úteftir firði. Á nokkrum stöðum við sjó í Þingeyjarsýslu hefir verið svo hagsælt í vetur, að eigi var fram yfir nýár farið að kenna lömbum át.
Íslendingur segir af tíð þann 1.febrúar:
Tíðarfar var eitthvert hið æskilegasta sem hugsast getur í landi þessu bæði í haust er leið og í allan vetur fram til jóla; en úr því fór veðurátt að spillast, þó voru hvorki megnir kuldar eða miklir stormar fyrr en kom fram yfir miðjan janúar. Þennan síðasta hálfan mánuð hefir verið talsvert frost bæði um nætur og daga, þó yfir hafi tekið vikuna sem leið, 24.28. jan. Það er sagt, að frostið hafi náð 1718°R [-22,5°C]. hér niður við sjó í Reykjavik, og er það mjög sjaldgæft; en upp til sveita hlýtur frostið að hafa orðið talsvert meira; sagt er að fleiri en einn mann hafi kalið til skemmda.
Íslendingur birti þann 30.mars kafla úr tveimur bréfum frá merkum mönnum úr Vestur-Skaftafellssýslu, dagsett 2.febrúar:
[Y]fir höfuð varð grasvöxtur í minna lagi [1864]; hér um sveitir kölluðu menn ekki meðalgrasvöxt; aftur á móti var tíðin æskileg allt sumarið út, svo enginn hér við fjall þurfti að hirða votan bagga, enda eru öll hey mjög vel fengin hjá almenningi, og verður heyskapur að því leyti í góðu meðallagi. Haustveðráttan var einnig afbragðsgóð, þíðveðrasöm, en þó ekki stórkostlegar rigningar, og kom aldrei að kalla slæmt veður frá Mikaelsmessu [29.september] til 15. nóv., að undanteknum 18.21.okt.; þá daga gjörði hér kólgukast mikið með talsverðri snjókomu í Meðallandi og Skaftártungu og Veri, en blíðkaði aftur 21. okt. með sólskini og þíðveðrisblíðu. En frá 15. nóvember til jóla urðu og rigningar nokkuð meiri, og tíðin umhleypingasöm, en snjóalaus og oft talsverð úrferð með vindi og stundum skruggum, helst 17. nóv. Á annan dag jóla brá til snjókomu og hefir það haldist síðan, svo síðan nýár hefir víðast hvar verið gefið fullorðnu fé og hrossum, nema hér í Fljótshverfi hafa allt af verið bestu hagar, svo sumir eru enn þá ekki farnir að heyja lömb, og hafa mest hjálpað hér sífelldir landnyrðingsstormar, svo snjó hefir feykt af. Sömu harðindi eru einnig austur í Öræfum; lengra að hefi ég ekki frétt. Fénaðarhöld eru hér góð, þar sem ég hefi frétt, nema á 3 bæjum hafa nýverið hrakið og fennt sauðir; í Skál á Síðu hafa fennt 30 sauðir, en nálægt lO á Flögu í Skaftártungu, og 910 á Hólmi i Landbroti. Skurðartíð var hér fremur rýr í haust, og kenndu menn því um, að fénaður gekk svo illa undan í vor, eð leið; sauðir gjörðu að jafnaði ekki meira en 10 pund mörs og liðugt hálfvættar fall, og er það lítið í góðum sauðplássum. Tíðarfarið frá veturnóttum til jóla var hið allraæskilegasta, sem eg til man. Frá jólum til nýárs fór að brydda á stirðari tíð. Þaðan frá til þrettánda dró til bjargleysu yfir alla Skaftafellssýslu, svo í þeim báðum er albjargarlaust, nema á stöku bæjum í Fljótshverfi, tveim bæjum í Öræfum, og á fáum bæjum í Norður-Skaftártungu eru notaðir vesalir grandar, sem þó munu vart brúkandi nema til að draga fénað upp í hor og hungur von bráðara, eftir því sem ég hefi heyrt. Austurpóstur segir, að því fyrr hafi hörkurnar byrjað, sem austur dró lengur, og var það ljós vottur, að maður varð úti á 4. í jólum í Suður-Múlasýslu, og annan kól þar til stórskemmda í byggðinni, og þá voru engar hörkur hér komnar. Norðanpóstur og Sunnanpóstur komu á sömu eykt á Eskifjörð, og hafði Norðanpóstur sagt lakari tíð, það sem af þessum vetri var orðið, heldur en í fyrra um sama tímabil. Frá Langanesi og suður á Djúpavog hafa borist að landi 20 hvalir flestir eða allir drepnir af Ameríku hvalveiðamönnum, sumir alheilir með höfði og hala og öllu spiki, og hafa þeir sloppið hálfdauðir úr höndum þeirra, líklega fyrir verkfæraleysi. Franskar jagtir trúi ég að hafi róið suma þeirra að landi. Þetta er ekki alllítill afli fyrir landsbúana þar í grennd. Hér um sveit bryddir á megnri óörtun í lömbum og sýking stingur sér niður, en ekki eru talsverð brögð að því, en illa horfist til með heyföng manna, haldist þessi jarðbönn fram yfir þorralokin. Vér Sunnlendingar eigum sauðfé vort, eður aðallífsbjörg vora í sífelldri hættu og hirðuleysi og missum það síðan unnvörpum, án þess vér fáum aðgjört í þann og þann svipinn. Þannig þykjumst vér t.a.m. eftir bréfum og fregnum geta gjört þá áætlun, að hér um bíl 300 fjár hafi farist, fennt og hrakið til dauðs á svæðinu milli Hellisheiðar og Skeiðarársands, að hyggju vorri mestmegnis, ef eigi eingöngu, í bylnum mánudaginn næstan eftir þrettánda [9.janúar].
Þjóðólfur segir frá þann 11.febrúar:
Síðan um jól hafa gengið hörkur, snjóar með miklum frostum fram til 7. þ.m., kyngdi hér niður hinum mesta snjó af útnorðri dagana 4.6. þ.mán. Allur janúar var næsta frostharður, varð hér mest frost 26. f.mán. 16½°R [-20,6°C]; s.d. var frostið í í Keflavík 13°R., en á Gilsbakka í Borgarfirði 24° [-30°C]. Hlákan 7.10. þ. mán. [febrúar] hefir gjört alautt að mestu og skilið vel við.
Þjóðólfur segir slysafréttir þann 25.febrúar:
Á jólaföstunni varð úti vinnumaður frá Galmannstjörn [Kalmanstjörn] í Höfnum, Eiríkur Jónsson að nafni, var hann þá á heimleið úr Keflavík, og var ófundinn fyrir skemmstu. 11(?) [janúar] drukknuðu 2 menn í lendingu af bát frá Miðhúsum í Garði, sem 5 voru á, en skip frá Útskálum, er þá bar að, bjargaði hinum 3. ... 28(?) [janúar] varð úti skammt fyrir ofan Varmalæk í Borgarfirði Jón bóndi á Skógum í Flókadal, Jónasson, prests í Reykholti Jónssonar, fátækur maður en vellátinn, og mun hafa verið nálega miðaldra.
Febrúar. Harðindatíð lengst af. Kalt.
Norðanfari segir af tíð og tíðarfregnum í mars:
[8.] Frá 14.19 febrúar þ.á. voru meiri og minni hörkur með snjókomu, en 20.22. 15 gr. hiti; og frá 23.-28. aftur hörkur og stundum hríðarveður. Nú er vegna áfreða fremur jarðskart.
[18.] 12. þ.m. komu hingað í bæinn 2 unglingsmenn að austan, sem heita Sigurður Stefánsson frá Stakkahlíð í Loðmundarfirði og Sigurjón Jónsson frá Hólalandi í Borgarfirði. Þeir tjáðu að sumstaðar hefði verið mikill snjór eystra og eins á leið þeirra, eða þá áfrerar, svo víðast væri hagskart. Rigningarnar í haust og vetur hefði verið óvanalega miklar, svo sumstaðar féllu skriður, og í Mjóafirði tók af bæinn Skriðu. Á nokkrum bæjum varð jörðin sem kviksyndi, svo að húsin sigu meira eða minna ofan í hana, eða að veggir hryndu; hefir helst verið tekið til þessa, í Úlfstöðum á Völlum og Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal. Í illviðraskorpunni á þorranum hafði hafíshroði komið að Sléttunni, en rak þaðan aftur. Nú er sagt að ís sjáist hér úti fyrir.
[30.] Veðráttufarið hefir verið fremur kalt og lítið tekið upp snjónum, svo jarðbannir eru víða hvar.
Mars. Öllu skárri tíð, en enn kalt.
Norðanfari birti þann 7.apríl bréfafregnir:
[Dalasýslu 1.mars]: Tíðarfarið er hægviðrasamt, heldur jarðskart, en þó engin snjóþungi. Heilsufar á mönnum og skepnum betra lagi. Hart um hey og matbjörg.
[Hrútafirði 24.mars]: Hér í þessari harðindasveit, hefir tíðin líkt og annarstaðar verið yfir höfuð æskileg í vetur, þó úfnir kaflar og frostharka mikil kæmi við og við eftir nýárið, og hefir oftast verið nógur hagi fyrir hesta sem sjaldgæft er, og einnig lengst af fyrir fé þegar út hefur gefið. Nú er mjög snjólítið á jörð, en ísalög mikil við sjóinn, og fjörumóður óvanalega mikill og háskalegir fyrir skepnur. Ekkert hefir rekið í vetur.
[Húnavatnssýslu 24.mars]: Í janúarmánuði var tíðin fremur óstöðug og hríðasöm einkum seinni hluta mánaðarins með hríðum og hretviðrum, tók þá víða fyrir jörð á útkjálkum, en eftir miðþorra kom allstaðar upp jörð, og allur febrúar góður, nema 16.- 18. landnorðan hríð; Mest frost hefir komið hér í vetur 25. janúar og var það á sumum stöðum hér fram til dala 25 stig á Reaumur [-31°C].
Íslendingur segir af tíð og fleiru þann 30.mars:
[Sagt er að] skip hafi nýlega farist í lendingu fyrir Landeyjasandi með 14 manns á, og hafi engum þeirra orðið bjargað. Á Auðnum í Kálfatjarnarsókn sló eldingu niður 17. þ.m., og drap 2 menn, en skemmdi að auk 7 manns meir eður minna; munum vér síðar fá greinilegri skýrslu um þennan markverða viðburð. Á Möðruvöllum í Hörgárdal brann kirkjan sunnudaginn 5. þ.m. af kakalofnseldi um morguninn, áður en fara átti að messa; er mælt, að víst muni mega telja skaða þenna upp á 3000 rd. eður meira. Veðurátta hér suður á nesjunum má nú teljast góð, og nægir hagar handa peningi. Fiskiafli, enn sem komið er, er lítill í Faxaflóa, en austanfjalls er hann góður, sem stendur. Gufuskipið er ekki enn komið, hvað sem því veldur.
Þann 25.mars birti Þjóðólfur fréttir sem enn vekja athygli - við birtum allan pistilinn hér þó langur sé:
Manntjón og meiðsli af þrumueldi. 16. [mars], í heldur hvössu á austan og með ljótu og ískyggilegu loftsútliti, lagði héðan Jóhannes Ólsen, húseigandi hér í staðnum við 9. mann á áttrónu skipi suður í Voga, með mó o.fl. handa útveg sinum, er hann ætlar að halda úti þar syðra nú um vertíðina; nokkrir fleiri áttu þar og flutning á, og lögðu þeir til menn af sínu leyti. Þó að nú herti veðrið þegar uppá daginn kom, svo að við fok lá, náðu þeir samt lendingu í Vogum með heilu og höldnu. Morguninn eftir, 17. þ.mán., lögðu þeir árla af stað og ætluðu hingað inneftir, var þá hið sama ljóta loftsútlitið, sem daginn fyrir, eður enn svartara, en þó eigi mjög hvasst fram yfir dægramótin, en loft svo gruggað og svo dimmt yfir, að skipverjar, er héldu inn með landinu, til þess að eiga því hægra með að ná landi ef hann gengi til eður hvessti, gátu naumlega grillt ströndina og landið. Svona héldu þeir nú fram hjá Brunnastaðahverfi og inn með Vatnsleysuströnd, hvessti hann þá heldur og dró upp enn meiri sorta, vindurinn var á austan. Jóhannesi þótti því ráð að taka land og biðloka heldur við og sjá hvernig réðist. Réru þeir þá upp í Auðnavarir og settu upp skipið í rykk, því nægur mannsöfnuður var þar fyrir; það var nálega kl.8 f. miðd. eður tæplega svo. Jón hreppstjóri Erlendsson á Auðnum bauð þá skipverjum heim til þess að þiggja hressingu, og varð það úr, þó að Jóhannes ráðgerði að leggja af stað strax undir eins og upp rofaði eftir élið sem að gekk. Víkin þar sem þeir lentu, er nálægt í vestur frá bænum, en svo er þar húsaskipun heima hjá Jóni hreppstjóra, að nýsmíðað stofuhús úr timbri er þar vestast húsa; það var reist næstliðið sumar; en austur úr því liggur timburskúr eður göng til bæjarhúsanna, eru á þeim húsum 2 standþil fram á hlað, og vita nálægt í útnorður eins og norðurgafl timburhússins; milli þess og bæjarhúsanna er eldhúsið, torfhlaðið, norðanvert við timburgöngin, en inn í þau mið og ganga af hlaðinu, og svo þaðan hvort heldur vill til timburstofu eður baðstofu.
Þeir Jóhannes gengu nú beint heim sjávargötuna og námu staðar þarna fyrir norðan timburhúsgaflinn og norðanundir honum, en færðust heldur undan að fara úr skinnklæðum og setjast inn, af því þeir vonuðu að mundi rofa eftir élið og þeim verða fært að leggja af stað aftur. Jón Erlendsson kvaðst þá að minnsta kosti mundu sækja þeim brennivín til hressingar; sneri svo frá þeim, og fór eftir því ofan í geymsluhús, er var nær sjónum. Í þeirri svipan var loftsortinn sem mestur og élið sem dimmast. Og er þeir nú stóðu þarna, 34 þeirra hver út frá öðrum fast uppundir húsgaflinum, sumir hinna þar framanvert við, en 23 aðrir lítið eitt fjær, þá laust á þrumueldi (elding eða reiðarslag, sem líka er kallað), og sló þeim þarna öllum til jarðar án þess þeir yrði neins varir áður, svo þeir lágu þar eins og liðin lík allir 9, og 34 í kös; vitum vér að vísu eigi gjörla, hvort nokkur heimilismanna kom þar að fyrri, en Þórður Torfason frá Vigfúsarkoti raknaði fyrstur úr rotinu, spratt þegar upp, og leit þá alla félaga sína liggjandi svona eins og liðna, en sá engan mann standandi þar nærri, litast hann þá þegar um, ef hann mætti sjá formanninn Jóhannes Ólsen, og sá hvar hann lá nokkuð fjær hinum og austar, enda man Jóhannes það síðast til sín, að hann var kominn austur fyrir nyrðra húshornið og ætlaði að ganga þar austur fyrir inn í timburgöngin sem fyrr var getið; þreif þá Þórður til Jóhannesar og tók hann í fang sér, sem fis væri og bar inn í bæ og upp í rúm; hefir Þórður sagt oss sjálfur, að hann hafi fundið að hann var ofsterkur, er hann raknaði við og sá vegsummerkin. Jóhannes lá fulla klukkustund í rotinu og raknaði eigi við fyrr en um dagmál, því þetta bar að um kl.8 eður öndverðlega á 9. tímanum; hann var skemmdur af bruna eldingarinnar bæði á vinstra auga og annarri hendi, tveir mennirnir þeir er syðst stóðu undir húsgaflinum eður næst suðvesturhorni þess, höfðu kastast austur á móts við norðausturhorn hússins ofan á unglingspiltinn Jóhann Arnason frá Melstað, er stóð einmitt undir því húshorninu. Lágu þeir þar allir í kös og hinir báðir lostnir til dauðs svo að ekkert lífsmark var með hvorugum, það voru: Jón bóndi Jónsson á Rauðará og Stefán Hjörleifsson, vinnumaður frá Háreksstöðum í Norðurárdal; voru þeir báðir skemmdir af bruna og sárum, og þó Stefán miklu meir og nakinn að mestu, þar sem bæði skinnföt og öll klæðin voru nálega altætt utan af honum; en er pilturinn Jóhann var dreginn undan þeim raknaði hann brátt við, og sakaði alls ekki, hafði hann ekki fengið neinn áverka né föt hans rifnað. Af þeim sem lifðu, hafði mest skemmst Jón Einarsson vinnumaður Ólsens, hann var gjörsamlega klæðflettur og nakinn um allan neðri hluta líkamans upp fyrir mjaðmirnar, og liggur en í sárum en er á batavegi; hina sakaði alla nokkuð, og þá lítið flesta, nema Vigfús hjá Hinrik í Þingholti; skinnföt og klæði hinna voru og skemmd meira og minna; framan á Þórði Jónssyni (er var fyrr á Lambastöðum) hafði tekið stykki bæði úr skinnstakk og öllum nærklæðum, vel á lófastærð, og inn á bert hörund, en þó var það óbrennt og heilt að öllu. Á skinnstakk Jóhannesar fundust 3 rifur eður raufar; lengjurnar úr raufum þessum, höfðu þyrlast svo eður harðsnúist saman eins og í tappa eður neglu, að hún stóð í gegnum peysu og nærföt framan á, svo hvortveggja var eins og neglt eður saumað saman og hvert fatið fast í annað þangað til um var losað.
Af framanverðum húsgaflinum tók 2 borð frá, og 23 kvartila stykki úr gaflbitanum miðjum, húsið rifnaði og eftir mæninum, hurðir allar lömuðust og geggjuðust, margt skemmdist og laskaðist fleira þar innan húss, ný skinnbrók eirlituð, er hékk þar við gaflinn, brann upp til agna og allir gluggar í húsinu sundruðust mélinu smærra. Svo var og um gluggana á hinum þilgöflunum; í austara þilhúsinu eður því sem fjærst er timburstofunni var maður staddur niðri og féll sá þegar til jarðar í sama vetfangi og glugginn brotnaði. Konur tvær voru i eldhúsi það er næst timburstofunni eins og fyrr var sagt bólgnaði hendin upp á annarri en hin missti kolskörunginn úr hendi sér, en eigi varð henni neitt meint við að öðru, og ekkert skemmdist þar né gekk úr skorðum; svo var og í öllum hinum bæjarhúsunum, og fólkið sem þar var sakaði eigi.
Á næstu bæjum varð því síður neitt tjón né meint við; þar um bæina er sagt, að þruman eður skruggan hafi heyrst sem snöggur og hár hvellur líkt og fallbyssuskot væri, en eigi langur drynjandi að því skapi.
Þann 10. apríl bætir Þjóðólfur við eldingarfréttina - eldingin banaði því þremur mönnum:
Reiðarslagið 17. f.mán. eður afleiðingar þess, drógu einnig til dauða Jón Einarsson, vinnumann Jóhannesar Olsens, er getið var að mestan áverka hefði fengið þeirra er lifðu; hann var fluttur hingað inneftir, og voru brunasárin útvortis á góðum græðsluvegi; en þá kom allt í einu fram blóðspýtingur frá brjóstinu, og taldi landlæknir tvíllaust, að það væri af því, er hann hefði kostast innvortis af reiðarslaginu, enda dró þetta hann brátt til dauða.
Apríl. Nokkuð hart framan af, en síðan mun skárri tíð. Kalt í mánuðinum í heild.
Norðanfari segir af tíð í apríl í tveimur pistlum:
[19.] Síðan mánuður þessi byrjaði hafa hér og norðurundan oftar verið landnorðan hríðar og harðviðri; snjókoma mest 6. þ m. [apríl] dyngdi þá niður mikilli fönn ofan á áfreða, svo víða var lítið um jörð. Frost hefir á þessu tímabili orðið mest 1012 stig á Reaumur [-12 til -15°C}. Margir eru sagðir komnir á nástrá með pening sinn, þó veturinn mætti kallsat hinn æskilegasti fram yfir jól.
[27.] Eftir miðjan þennan mánuð batnaði veðuráttan, svo á hverjum degi síðan hefði meira eða minna tekið upp snjóinn, þó gjörði hér mest að 18. og 19. þ.m., því þá var besta hláka, og í öllum snjóléttari sveitunum komin upp næg jörð, en aftur í snjóþungum plássum og á sumum útkjálkum, er enn þá að mestu gaddur yfir allt. Tvennum fer nú sögnum um hafísinn, einir segja að hann sé að mestu horfinn úr landsýn; aðrir að mikið muni af honum grunnt fyrir Ströndum, Sléttu og Langanesi.
Þann 5.apríl sá veðurathuganamaður á Hvanneyri mikinn hafís úti fyrir Siglufirði.
Maí. Köld og erfið tíð.
Þjóðólfur segir af tíð þann 23.maí:
Það er hvorttveggja, að ein hin minnilegasta kuldatíð hefir gengið hér allan næstliðinn og yfirstandandi mánuð, svo að eigi heitir, að hlýr dagur hafi komið hér syðra um undanfarinn 6 vikna tíma, enda berast nú bæði fregnir um hafís fyrir norðausturlandinu með sendimanni er kom hér í gær og mjög ískyggilegar og sorglegar sögur af skepnuhöldunum víðsvegar að hér sunnanlands og úr næstu sýslunum fyrir vestan Hvítá. Í norðan kólguköstunum, hinu fyrra aflíðandi páskum [páskar 16.apríl] en hinu síðara aflíðandi lokunum [lokadagur 11.maí], var víða gaddbylur í hinum hálendari sveitum hér syðra og vestra, og illgegnandi harðviðri sumstaðar, í seinna kastinu hafði fallið svo mikill snjór á Öxnadalsheiði og um sveitirnar þar nyrðra, að menn sem voru þá á ferð yfir heiðina, á eldishestum, urðu að ganga og brjóta fannirnar undan hestunum og náðu naumlega til byggðar norður yfir. Um gróður eður nál er hvergi að tala enn þá, og eigi heitir að sjáist litur á hinum best stöddu túnum enn í dag hér á sjóarbakkannm. Hey, einkum taðan, gengur víðast undan með svo löngum gjafartíma bæði á kúm og lambfé, enda hafa öll hey hér sunnanlands reynst einstaklega létt og áburðarfrek veturinn sem leið, og kúamjólkin hér sunnanlands talin fádæma smjörlaus; einnig hefir víða um Árnessýslu borið á skitupest sem kölluð er og annarri ótjálgan, helst í gemsum, síðan út á leið.
Norðanfari segir af erfiðri tíð þann 30.maí:
Síðan 27. apríl næstliðinn, hafa hér verið 11 hríðardagar, þó yfirtæki 1.3. þ.m., því þá var einkum hinn fyrsta mesta landnorðan snjókomuhríð með ofviðri svo engin því lík hafði komið næstliðinn vetur; fennti því eða hrakti geldfé, sem búið var að sleppa á fjöll, á fjallabæjunum fyrir austan Jökulsá, við Mývatn, í Bárðardal, Fnjóskadal, Svínadal, og einungis á einum bæ í Vatnsdal er sagt að tapast hafi um 60 fjár; varð harðsporinn eftir sumt af því rakinn fram á Stórasand. Frostið varð mest 28. apríl, 6 stig á Reaumur [-7,5°C]. Aftur var hér hláka 7. og 11.13. þ.m. tók þá upp mikið snjóinn. 22. þ.m. 16 stiga hiti á R. [+20°C], yfir höfuð hefir tíðin verið mjög köld og stormasöm, enda er gróður orðinn mjög lítill.
Þjóðólfur segir af skipsköðum þann 15.júní (nokkuð stytt hér):
Um eða litlu eftir páskana villtist frakkneskt fiskiskip í þoku upp á Skeiðarársand með 18 manns að sögn og settist þar fast í bleytu. - Annað enskt skip laskaðist svo í norðanveðrinu mikla (væntanlega um mánaðamótin apríl/maí) að ósjófært varð fyrir lekum og sigldi upp á Hvalnesfjörur í Lóni og lagði sig við sandinn. Þar voru 56 manns (eða 51). Skipið var gert út til selveiða og kom frá Grænlandi. - Með mönnum er komu norðan af Skagaströnd 13.júní fréttist að skip Hildebrandts Hólaneskaupmanns hefði orði fast í ís og laskast norður af Langanesi, annað skip var nærri og bjargaði skipverjum áður en skipið sökk.
Norðanfari birti þann 16.júní bréfafregnir:
[Austur-Skaftafellssýslu 15.maí]: Vetrarfarið þar var líkt og annarstaðar um land hið besta til jóla enda nýárs, en þaðan af snjóar og frostgrimmdir, einkum þá smástreymt var, en svíaði dálítið með tunglkomum og um fyllingar. 30. apríl gekk þar í dæmafáan byl er olli miklu tjóni á fénaði manna. Þá fuku og 4 skip í Suðursveit á sjó út, sem brúkuð höfðu verið til hákarla- og fiskiveiða, ásamt því er þeim fylgdi, af reiða og seglum og veiðarfærin og var ekkert af þessu rekið eða fundið þá seinast fréttist. Almennt horfðist til, þá bréfið var ritað, til fellis, því flestir voru þá orðnir heylausir, og heyin eins þar sem víða annarsstaðar, reynst létt og uppgangssöm.
[Suður-Múlasýslu 2.júní]: Veðurátta var dágóð frá páskum [16.apríl], þangað til vika var af sumri, þá tók að spilla með kulda og snjóhreytu. Á sunnudag annan í sumri [30.apríl] var hávetrar dimmviðri og á mánudaginn hið mesta fjúk sem lengi hefir komið með fjarska snjókomu og hvassviðri en litlu frosti. Árnar voru víðast auðar orðnar, en í þessu veðri skefldi yfir þær á straumum og hyljum svo harðbörðum og þykkum snjó, sem synti ófrosinn ofan á vatninu að fara mátti með fé og áburðarhesta sumstaðar heila viku; man enginn maður fyrr dæmi þess hér um sveitir nema frosið hafi krapið jafnframt. Fyrir uppstigningardag [25.maí] komu nokkrir hlýir dagar og litkuðu tún, en síðan eru vetrarkuldar og snjóhreytur jafnan.
Síðdegis þann 28.maí voru krapaél svo festi snjó á Hvammi í Dölum.
Júní. Enn köld og erfið tíð, en skánaði nokkuð er á leið, sérstaklega nyrðra. Þar urðu þá ákafar leysingar.
Norðanfari segir þann 16.júní:
Allt til hins 10. þ.m. hélst að kalla eins og áður á hverjum degi hinir sömu kuldar og hafviðri, snjór er því víða mikill til fjalla og á sumum útkjálkum og þar meir og minna óunnið á túnum. Gróður er lítill og hætt við að jörð hafi kalið. Hafísinn er hér alltaf sagður djúpt útifyrir.
Þjóðólfur segir af árferði og hafís þann 21.júní:
Hafísinn var um miðjan [maí] kominn fast upp að landi, bæði meðfram Hornströndum austur fyrir Kúvíkur og frá Langanesi vestur á móts við Skagafjörð eður lengra, en svo sýnist, að hann hafi fjarlægst nokkuð undir og um síðustu mánaðamót, því sagt er að skip væri komin til flestra norðurhafnanna öndverðan þennan mánuð. En aftur þykir það megi ráða af þessu síkalda veðráttufari í allt vor og fram á þenna dag, að hafís sé enn bæði mikill og eigi allangt frá landi. Harðindi sögð úr Eyjafjarðar-, Þingeyjar og Múlasýslum og nokkur fjárfellir sumstaðar, eins vestrum Dali og Mýrar, og sauðburður hefir allvíða misheppnast og freklega sumstaðar; svo sýnist, sem minni hafi orðið unglambadauði í hálendu sveitunum hér syðra heldur en á láglendinu. Gróði og grasvöxtur lítill vestur um Mýrar og Dali og hið efra um Borgarfjörð, en talinn í meðallagi allstaðar austanfjalls. Síðan hvítasunnu [4.júní] hafa allstaðar hér syðra gengið votveður og sunnanrumba fram á þenna dag, með svo einstökum kalsa, að líkast hefir vorið miðsvetrarþey, og almennt að eins 34° hiti, en sjaldan sem aldrei sést til sólar eður í heiðríkt loft.
Þann 31.júlí birti Norðanfari fregnir úr bréfum rituðum í maí og júní:
[Skagaströnd 16.maí]: Ekki eru skepnur farnar að falla hér um pláss, en mesta vá er fyrir dyrum, ef eigi batnar bráðum. ísinn er að hrekjast aftur og fram hér í norður- og vesturflóanum.
[Snæfellsnessýslu 19.júní]: Haustið [1864] var gott, og veturinn fram að nýári stundum líkari sumri en vetri. En með nýárinu skipti tilfinnanlega um og ekki leið langt frá því, uns fullkomið vetrarríki með snörpum kafaldsbyljum og grimmum frostaköflum var ádunið. Þó gjafatíminn byrjaði seint, unnust í meðallagi hey upp til sumarmála, en af því þá harðnaði veðráttan, í stað þess menn væntu eftir mýkindum, þyngdust ær á fóðrum því innistaðan viðhélst. Fáir þykjast muna jafn harðviðrasamt vor og í þetta sinn, það mátti heita sannarlegur vetur framundir hvítasunnu [4.júní], þó voru skotin í enda aprílis og byrjun maí og í miðjum maí minnileg, bæði með fullu þorrafrosti og fannkomu. Síðan á hvítasunnu hafa frostin verið minni, en úrkomurnar miklar og langvinnar; skepnurnar hrakast og hrynja niður, kýr eru nytlausar, engin vorverk verða unnin, aldrei gefur á sjó, skepnuhöldin eru hin lökustu af allskonar ótímgun í ám og gemlingum, og þó taka vanhöldin á unglömbunum yfir, svo sumir eiga því næstum enga á með lambi.
Júlí. Mjög kalt, sérstaklega um miðjan mánuð. Heldur skánaði eftir það.
Þann 31.júlí fjallar Norðanfari um tíð:
Frá því 12. til hins 24. [júní] voru hér stöðugt á hverjum degi hitar miklir og sunnanátt og mesta leysing, svo eigi að eins örísti í byggð heldur til fjalla. Lækir, ár og vötn flóðu á löndum uppi og sumstaðar yfir allt láglendi, sem hér og hvar olli meiri eða minni skemmdum af skriðum, sand- eða leiráburði. Gróðurinn jókst sjáanlega dag af degi og jörðin skrýddist sumarbúnaði sínum. Svo skjót og góð umskipti á tíðarfari, útliti jarðarinnar, skepnuhöldunum og horfunum á hinni almennu velfarnan, munu vera fá dæmi til í ævisögu lands vors. Allt var sem leyst úr helju, og sem að málleysingjarnir eigi síður enn mennirnir fögnuðu sumarblíðunni, og lofuðu hinn mikla höfund alls góða sem seður allar lifandi skepnur með sinni blessun. Það var því meiri furða á þessari veðuráttu og þessum umskiptum, sem alltaf mátti þá kalla að hafþök af ís lægju djúpt fyrir öllu Norðurlandi frá Hornströndum og til Langaness. Síðan sunnanáttinni linnti hefir veðrið verið við og við fremur kalt og norðan og nokkrum sinnum frost í byggð. Grasvöxturinn því tekið minni framförum að sínu leyti en áður, þó eru tún sögð víða hvar sprottin allt að því í meðallagi og sumstaðar betur, en úthagi miður, einkum mýrlendi. 13.15. [júlí] voru hér sífelld landnorðan hvassviður. Alsnjóaði þá sumstaðar, og keyrði niður mikla fönn á útsveitum og sumstaðar til fjalla t.a.m. á Kaldadal svo að þar var baggbraut, og Holtavörðuheiði varð að bera klyfjar af hestum. Eigi er þess getið að fé hafi fennt, nema í Miðdölum helst, en þó fátt til dauðs. Málnyta er sögð eftir því sem áhorfðist, öllum vonum betri. Seinustu dagana af júnímánuði kom hér að Norðurlandi töluverður afli af vænum fiski en minnkaði fljótt aftur því beituna brast. Nú er hér aftur yfirhöfuð kominn góður afli af fiski.
Þann 14.júlí segir veðurathugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði frá því að alsnjóa sé og daginn eftir segir athugunarmaður í Hvammi í Dölum að fjöll og hálsar hafi verið alsnjóa að morgni, en krapið að kvöldi.
Þjóðólfur segir þann 2.nóvember frá sjóskaða í júní:
Að kvöldi 27.júní þ.á. [annáll 19.aldar segir þetta hafa verið 27.júlí] fórst bátur af Vatnsnesi í Húnavatnssýslu fyrir Bálkastaðanesi í kastbyl þar framaf; drukknuðu þar 9 manns: 5 karlmenn og 4 kvenmenn, ein þeirra gift kona, en 3 menn náðust af kjöl morguninn eftir. Sunnudaginn 3.þ.mán. [eini sunnudagur sem bar upp á 3.mánaðar var í september] lagði bóndinn í Gvendareyjum á Breiðafirði til lands á bát með stúlku einni; kastvindur sló bátnum um; þau náðu bátnum aftur að vísu, en af volki og vosbúð andaðist stúlkan, áður bjargað var, en bóndinn lifir.
Ágúst. Þokkaleg tíð, þó ekki væri hlýtt. Fremur þurrt.
Þjóðólfur lýsir þann 8.ágúst tíðarfari næstliðinna mánaða:
Vorið sem leið, eður mánuðirnir apríl og maí voru einstaklega kaldir, eigi svo af því að fjarskalegir hörkukaflar kæmi, og síst í maí eins og var 1863, og eigi voru nú eins jafnaðarleg næturfrost eins og þá, síst fram eftir öllum júní; en allan næstliðinn maí gengu kólgur, stormar og kalsar með krapaéljum oftast; oftar nokkurt frost til fjalla þótt vægt væri á láglendi og meðfram sjó, en aldrei að kalla má vel hlýr dagur, sjaldgæfar ógæftir um þann tíma árs, og gróðurlaust fram til fardaga; maímánuður stóð líka nú, eins og 1863, undir núlli, sem kallað er, að meðaltali yfir allan mánuðinn, þ.e. með öðrum orðum, fremur frost en hiti. Júnímánuður mátti og heita næsta óhlýr, sjaldan eður aldrei heitur dagur eða sólskinsdagur til enda, fremur úrkomusamur en sjaldan næturfrost í byggð né til fjalla; seinni hluta júní þokaði því grasvexti vel áfram og framan af júlí, þó að um þann 3 vikna tíma væri næsta rigningasamt og óhlýtt; um sláttubyrjun voru því tún sprottin í góðu meðallagi og sumstaðar fremur hér syðra, en þó þykir horfa til enn betri grasvaxtar á mýrum; úr Múlasýslum og austan úr Hornafirði er grasvöxturinn sagður lakari. Hér syðra og víst um Árnessýslu eru margir búnir að ná allri töðu sinni eða þá meiri hluta hennar í garð, og i bestu verkun yfir höfuð, þó að hjá einstökum mönnum kunni að vera fremur djarfhirt. Íhlaupið, er datt á laugardaginn 15. [júlí] og um þá daga, var einstaklegt um þann tíma árs; í Húnavatnssýslu og Strandasýslu varð sá gaddbylur í byggð, er stóð nær því 3 dægur, með innistöðum á málnytufénaði, og gefið kúm og einnig kvíám, þeir sem gátu; eftir því sem spurst hefir til, varð ekki jafnmikill bylurinn eða hríðin neinstaðar annarstaðar í byggð, síst um svo langan tíma; þegar leið á daginn 15. varð að vísu að hýsa kýr víða um Borgarfjörð, og þá var myrkbylur hér á Svínaskarði og í Svínadal í Kjós; úr Múlasýslum, Hornafirði og Ísafjarðarsýslu er skrifað, að þar hafi orðið alsnjóa ofanundir byggðir; á Ísafirði var þá dagana + 0,5 R og urðu kaupstaðarbúar að leggja í ofna sína.
September. Illviðra- og umhleypingatíð. Kalt.
Þjóðólfur segir af veðri og heyskap í pistli 16.september:
Síðan um höfuðdag og jafnvel síðan um hundadagalokin hafa gengið stöðugir rosar og rigningar öðru hverju, um gjörvallt Suðurland, og eiga menn því hér víðsvegar um sveitir megnis hey úti, en vatnsfylling í mýrum um láglendissveitirnar, t.d. í Ölfusi, Flóanum, Landeyjar og um Meðalland, svo að víða varð þar að hætta við slátt framanverðan þ.mán. Líkt veðurlag er sagt að norðan og vestan. En fram yfir 23. 29. [ágúst] gekk heyskapur vel yfir allt land, og urðu víðast mikil og góð heyföng, ekki lengra en þá var komið slætti, því grasvöxtur var allstaðar í betra og sumstaðar í besta lagi, bæði í túnum og útengi, og nýtingarveður hagstæð, en flestir ætla, að gras hafi nú verið kröftugt og kjarngott, af því hvað það var þerrisamt. Ef nú brigði innan skamms til þerris, fer eigi hjá því að heyföng verði og í mesta lagi að vöxtum hér sunnanlands; en nú sem stendur eiga flestir hinir betri bændur feikimikið hey úti.
Norðanfari segir af tíð nyrðra í pistli sama dag (16.september):
Að svo miklu vér höfum frétt, varð grasvöxturinn nú í sumar vel í meðallagi og sumstaðar betur. Töðurnar hirtust vel hjá öllum, sem náðu þeim fyrir og um byrjun ágústmánaðar. Síðan hefir nú heyskapurinn gengið erfiðar, því oftar hafa verið úrkomur með norðanátt og stundum stórrigningar, og 3. þ.m. alsnjóaði fram til dala og á sumum útsveitum. Nú hefir verið þerrir nokkra daga, og flestir búnir að ná inn heyjum sínum, en þó sumt af þeim með misjafnri verkun.
Þjóðólfur ber fréttir af sköðum eystra í september og júlí í pistlum þann 22.nóvember:
[Eftir bréfi að austan dagsett 23.september] Í stormveðrinu 13. þ.mán. (sept.) sleit upp stórt briggskip sem tilheyrði Ný-Jórvíkíngum á Vestdalseyri (á Seyðisfirði), laskaðist og sökk, en um leið slengdist það á gufuskipið, sem líka lá þar á höfninni, og laskað það svo það kvað ekki vera sjófært og ekki hægt að bæta það nema með því að fá Englendinga til þess.
Sjaldan er ein báran stök", það hefir ræst svo næstliðið sumar á prestinum séra Jóni Jónssyni Austfjörð í Klippstað í Suðurmúlasýslu, að jafnvel sé annálavert, eftir því sem oss or ritað í sama bréfi 23. september þ.árs. Í ofsaveðrinu 13. sept. þ.á. (sem fyrr var getið) missti presturinn 70 hesta af besta heyi, uppgerðu í sæti, út í veðrið. Litlu áður brann hjá honum búr og eldhús til kaldra kola með öllu sem þar var inni, t.a.m. allt skætaskinn, 16 tunnur skyrs, 10 vættir af rengi og margt fleira fémætt". Í sumar í vatnavöxtunum öndvert í júlímánuði missti hann líka, og Stefán bóndi í Stakkgarðshlíð, bátsfarm af korni í sjóinn; farmurinn var settur upp á sandinn við fjarðarbotninn, en meðan var verið að sækja hesta til að flytja hann heim, reif Fjarðará sig úr farvegi sínum og reif burt (fram) spilduna sem farmurinn stóð á.
Þjóðólfur segir af hrakviðrum og strandi í pistlum þann 29.september:
Allur síðari helmingur þessa mánaðar hefir verið miklu hrakveðrasamari og illviðrasamari en fyrri hlutinn, þótt hann vondur væri; útrænu-upprof það er kom hér dagana 25. 27. þ.mán. hefir fæstum komið að haldi til þess að bjarga undan hinum miklu útheyjum er almenningur á enn úti mánaðargömul og meir, og það að sögn jafnt norðanlands eins og hér syðra og eystra, en á votlendi og láglendi eru heyin víða komin sem næst á flot. Heyskapurinn varð því víða næsta endasleppur, og það verra, að sumstaðar hafa hey drepið og skemmst í görðum af því svo langan tíma hefir ekkert náðst hjá mörgum manni til að lagfæra þau. Til dalanna í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu var nýtingin fram að höfuðdegi miklu lakari en annarstaðar, sama er sagt úr Skaftafells- og Suðurmúlasýslu.
Ofsaveðrið 21. 22. þ.mán. gjörði víða mikinn skaða að því sem þegar hefir spurst; flóð tóku sumstaðar hey af engjum t.d. á Arnarbælisengjum í Ölfusi; þar í hverfinu tók og flóðið um 100 fjár og átti presturinn (síra Guðmundur prófastur) þar af um 70. Sömu dagana var gaddbylur norður á fjöllum; kaupamenn nokkrir, er þá voru á suðurleið norðan úr Blöndudal, urðu að láta berast fyrir á hásandi, og hrakti þar frá tjaldi þeirra um hundrað fjár, er ekkert sást eftir af um morguninn. Á Eyrarbakka höfðu og að sögn tekið út og brotnað mörg róðrarskip, og flóðið og brimrótið brotið varnargarða og gjört mikið tjón annað.
Að kveldi 22. þ.mán. í ofsa útsynnings- og brimrótarveðrinu er gekk þann dag og 2 hina næst undangengnu daga, rak uppá Hraunskeið (eður Hafnarskeið að vestanverðu við Ölfusárútfallið), jagtskipið María 22 lesta, eign Ásgeirs kaupmanns Ásgeirssonar á Ísafirði; hann var sjálfur á með konu sína (Sigríði Jensdóttur Sandholt úr Reykjavík) og 4 börn þeirra. Þeim og öllum skipverjum varð bjargað; vörur sagðar lítt skemmdar eður óskemmdar og skipið lítt laskað eður alls ekki. Það var fermt 170 skipspundum af saltfiski 80 tunnum af lýsi, og svo nokkru af ull og æðardún. Uppboð á vörum og skipi átti að vera í dag. Það er mælt, að þegar skipverjar sáu að þá bar inn undir brimgarðinn í ofsanum og við ekkert varð framar ráðið, þá hafi herra Ásgeirsson, sem sjálfur hefir lært sjóstjórnarfræði og hefir verið skipherra um mörg ár, þó að ekki væri hann það nú á þessu skipi, látið slá botninn úr 3 lýsistunnunum og steypt úr þeim öllu lýsinu útyfir boðana og brimgarðinn, lægði þá brátt brimið víðsvegar umhverfis skipið eftir því sem lýsið dreifðist út, og hafi þetta viljað skipverjum meðfram til lífs, og varðveitt skipið frá að brotna í landsjónum.
Í annál 19.aldar um árið 1865 er þess getið að 24.september hafi slegið niður þrumueldingu á bænum Læk í Melasveit, er hafði lent á fjárhúsi og sett á það smágöt og hálsbrotið hest er þar stóð undir húshliðinni. Á öðrum bæ í grennd hafði hvellurinn heyrst og jafnframt orðið svo bjart í baðstofunni sem um hádag í sólskini.
Norðanfari segir af tíð, en líka septemberillviðrinu í pistli þann 7.október:
Frá því 16 f.m. og til þessa dags 7. október, hefir vindstaðan oftast verið sunnan og þerrir, svo allir sem hættir eru heyskap, munu vera búnir að ná heyjum sínum er nú voru seinast hirt með góðri verkun; einnig eldivið vel þurrum. 21. 22. f.m. var allstaðar hér norðanlands hið mesta ofveður af suðri og útsuðri, svo víða urðu meiri og minni skaðar á heyjum, er eigi voru komin í garð, enda svo, að á einstökum bæjum numdi 1200 hestum.
Október. Hæg tíð og þótti lengst af hagstæð. Kalt.
Þann 2.október segir athugunarmaður í Hvammi í Dölum frá miklu mistri.
Þjóðólfur segir af tíð og fleiru þann 17.október:
Síðan um síðustu mánaðamót hefir verið svo æskileg haustveðrátta, sem framast verður á kosið. Hér syðra náðu allir hrakningsheyi sínu, sem eigi höfðu misst það fyrir vatnsflóðum og út í vind og veður, en á þann hátt misstu sumir megnishey, þar sem flæði gat náð því, t.d. um Andakíl og í Mýrasýslu niður með Hvítárútfallinu og fyrir botninum á Borgarfirði; þannig er mælt að prestarnir í Stafholti hafi misst um 3400 hesta af besta engjaheyi, Teitur bóndi Símonarson á Hvanneyri um 250280 hesta, eða full 7 kýrfóður og Hvítárvallabændur, mest Andrés Fjeldsteð, um 3400, en þeir kvað aftur hafa náð úr hrönnum eigi alllitlu; nokkrir bændur í Ölfusi höfðu og misst mikil hey. Eftir því sem sagt er, munu þessar hrakningahirðingar eigi hafa verið svo vel þurrar sem skyldi hjá fæstum, til þess vantaði og nægan blástur.
Nóvember. Nokkrir umhleypingar og óhagstæðari tíð. Kalt.
Norðanfari greinir frá tíð þann 15.nóvember:
Nær því allan næstliðinn mánuð var hér dæmafá öndvegistíð, ýmist sunnanátt og þýður, eða þá hægt frost og stilling, enda voru og nokkrir við heyverk við og við mánuðinn út, t.a.m. hér í Kaupangssveit og á Staðarbyggðinni, er slógu stör á ís í kílum og foraðsmýrum, sem illmögulegt er að komast að á sumrum; einungis í Kaupangssveitinni numdi heyafli þessi hátt á þriðja hundrað hestum, og á Staðabyggðinni svo að nokkrum tugum skiptir. 29.30. [október] var hér mikið fjúk og norðan hvassviður, svo töluverður snjór kom og sumstaðar skíðafæri, einkum norðurundan.
Desember. Mjög umhleypinga- og illviðrasamt. Hiti nærri meðallagi.
Norðanfari segir fréttir þann 23.desember:
15 daga af nóvember var meira og minna frost, en mest 28. mánaðarins, 14.gr. á Reaumur [-17,5°C], en mest snjókoma 10., 17. - 25., og kom þá mikil fönn; hina dagana þýtt og hláka; hinn 7. var mestur hiti 9 gr. Það sem af er desember hefir oftast verið þýtt og nokkra daga mesta hláka og leysing, einkum 10.12. og svo aftur l5.18. svo örísti víða í byggð. Óvíða mun því vera búið að gefa sauðfé mikið og sumstaðar lítið og ekkert. ... Í veiðistöðum hér nyrðra nema Ólafsfirði, hefir alltaf verið tregt með fiskaflann, utan þá sjaldan beita hefir fengist; menn telja það því víst, að töluverður fiskur hafi oftast verið hér fyrir. 3. þ.m. kom Níels póstur Sigurðsson að austan hingað, það helsta vér höfum frétt úr ferð hans eftir bréfum frá í október og nóvember er þetta: Tíðin í sumar var ein hin hagstæðasta, sem lengi hefir komið, nógir þurrkar og þó rekjur á milli", bæði á túnaslætti og eftir hann. Svona viðraði hér í Fljótsdalshéraði og norðurfjörðum, en í suðurfjörðum voru óþerrar í meira lagi. Grasvöxtur varð í betra lagi víða og nýting hin besta víðast hvar; menn hafa því heyjað í betra og besta lagi þar sem vel óx.
Þjóðólfur segir af skruggum á aðfangadag í pistli þann 26.mars 1866:
Skruggur. 24. desember f.á. gengu landsynnings krapahryðjur með miklum skruggum austur í Rangárvallasýslu; sló þar eldingu niður skammt frá bænum Miðkrika í Hvolhrepp og drap 7 kindur, fundust þær daginn eftir 4 saman en 3 nokkra faðma frá hinum, ekki voru þær skaddaðar svo sæist, að öðru en því að nokkrir leggir í þeim voru brotnir; hola sást þar í jörðina og lá nokkuð á ská niður á við, en sá sem skoðaði hafði ekki botn á henni með staf sínum.
Norðanfari segir þann 25.janúar 1866:
Í vatnavöxtunum miklu 15. 18. desember f.á höfðu sumstaðar hlaupið grjót og leirskriður á tún og engi og í úthaga, svo skemmdir urðu af; og á nokkrum stöðum braut vatnið fyrirhleðslugarða. Á einstöku stöðum einkum vestra, er sagt, að þar sem hey hirtust illa, þá hafi þau brunnið meir eða minna.
Þjóðólfur segir þann 13.janúar 1866:
Spánska skipið [...] lagði út frá Hafnarfirði 21. [desember] og hefir það því hreppt hin verstu útsynningsveður og hastvindi sem framast má verða, er stöðugir útsynningsstormar og hroðar gengu hér upp frá þeim degi og fram yfir nýárið.
Þjóðólfur segir stuttlega frá þann 25.janúar 1866:
Fádæma rigningar norðanlands um miðja jólaföstu, leiddi af því feikna mikið flóð í vötnum, einkum í Héraðsvötnunum, svo að elstu menn muna ei þvílíkt.
Norðanfari birti 13. mars 1866 úr bréfum:
[Úr Strandasýslu 25.nóvember 1865] Fjárhöldin mega heita fremur góð, og voru þó minnileg harðindi fram til hvítasunnu [4.júní] og hafþök af ís, svo ekki varð á sjó komist. Um þann tíma, sem venjulega er byrjaður sláttur fór grasið að spretta, og tók þá miklum framförum, og þá jafnframt byrjaður túnasláttur. Töður þurftu mikinn þurrk og miklu meiri en menn ætluðu, svo ákafur hiti hljóp í þær og nær því að brunnu. Tún og harðvelli spratt í góðu meðallagi, en mýrlendi illa. Einkum eftir miðjan engjaslátt og fram í október voru öðru hverju stórrigningar og bleytuhríðar, svo engin þök gátu haldið, heyin sem inn voru komin skemmdust mikið, en þau sem úti voru hröktust og urðu nær því ónýt. Í skaðaveðrunum sem komu seint í sept. fuku hey til mikils skaða og reif hús; 2 bátar fóru í veður, annar á Smáhömrum hér við Steingrímsfjörð, en hinn norður í Árneshrepp; í þessu veðri brotnuðu og veltust um skemma og smiðja í Gufudal í Gufudalssveit í Barðastrandarsýslu. Síðan í október hefir haustið mátt heita bærilegt; þótt gróf frosthret hafi komið, þá hefir samt verið næg jörð fyrir sauðfé og hross, og er enn. Mikið fiskfátt hefir verið í haust hér við Steingrímsfjörð; þar á móti hefir fiskast vel á Gjögri í Árneshrepp. 18. október rak hval á Ósi hér í Staðarsveit sem var rúmlega tvítugur millum skurða; er þetta hér nýlunda, áður var hér mikið um hvalreka.
[Melrakkasléttu 16.janúar 1866] [Þann] 29. ágúst strandaði við svonefnda Ásmundarstaðaeyju frönsk fiskiveiða skonnerta, sem hét Activ Paimpól með 16 mönnum, af
hverjum 10 varð bjargað, af annarri frakkneskri fiskiskútu, en 6 drukknuðu. Þetta fengum við hérna ekki að vita fyrri enn af skipherra, sem hét Prise Brouard frá Brienne og stýrimanni hans Marosse Allein frá Paimpol, er komu á land ásamt 3 hásetum sínum, nokkrum dögum síðar en strandið hafði skeð, til þess að sækja það er þeir gætu fundið af því; en það fór á aðra leið, því eftir 3 daga sem þeir höfðu siglt fram og aftur um Þistilfjarðarflóann urðu þeir vegna ofviðra og brims, að hverfa frá við svo búið og fundu aðeins eitthvað lítið af fatnaði. Af þeim drukknuðu mönum fundust 3 að kalla þegar, en hinir 3 ekki fyrri en í nóvember þá höfuð- handleggja og fótalausir. Talsvert rak af saltfiski, skipsáhöldum og ýmsu fleiru.
Norðanfari birti þann 23.desember yfirlit um veður á Svalbarðsströnd - myndin hér að neðan sýnir það. [Ekki auðlesið - en annað eintak má finna í viðhengi].
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1864. Að vanda eru fáeinar tölur í viðhengi - hitameðaltöl og fleira.
Vísindi og fræði | Breytt 5.4.2020 kl. 02:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2020 | 18:27
Næðingur
Þó óvíða sé hvasst á landinu í dag (föstudag 3.apríl) er samt óttalegur næðingur og frost í lofti. Heldur lítið vorlegt. Svo virðist helst sem nokkur átök séu framundan í veðri um helgina. Við látum nánari umfjöllun um þau þó bíða þar til ljósari verða.
Við lítum á gervihnattamynd (af vef Veðurstofunnar) sem tekin er kl.16 í dag. Þar má sjá háskýjakápu yfir landinu. Hún tengist þó ekki beinlínis neinni lægð. Vel má sjá á myndinni að í kápunni er áttin úr vestsuðvestri (eða þar um bil) - en undir henni er vindur af austnorðaustri. Syðst í skýjabakkanum er úrkoma.
Skýjabakkar sem þessir eru ekki mjög óalgengir. Fyrir tíma tölvuspáa voru þeir sérlega erfiðir viðfangs vegna þess að ekki þarf mikið til að úrkoma nái sér á strik og jafnvel gert hríðarveður - þó slíkt sé aftur á móti ekki algengt. Norðaustanhríðarveður á Suðurlandi voru illviðráðanleg í spáheimi fortíðar. Við vonum að tölvuspár okkar daga séu nægilega góðar til að greina á milli hins algenga og sjaldgæfa þannig að við fáum ekki hríð í hausinn fyrirvaralaust.
Myndin hér að ofan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum nú síðdegis. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindörvar eru hefðbundnar, en litir sýna hita. Gula punktalínan á að sýna norðvesturjaðar skýjakápunnar. Rýnum við í kortið sjáum við að það er vestsuðvestanátt fyrir sunnan land sem ber rakt loft úr suðri yfir Ísland - ofan á norðaustanátta neðar (hún sést ekki á myndinni), jafnframt þrengir að kalt aðstreymi er í háloftum úr norðvestri - og hlýtt suðurundan.
Það er óvenjukalt fyrir norðan land, fjólublái liturinn byrjar við -42 stig. Um hádegi í dag var tæplega -40 stiga frost í 500 hPa yfir Keflavík. Aprílmetið er -44 stig, sett í hretinu mikla 1953 (um það hefur verið fjallað á hungurdiskum) og í páskahretinu alræmda 1963 fór frostið mest í -43 stig.
En þetta skemmtilega (?) veðurkerfi fær ekki mikinn frið til þroska. Neðst á gervihnattamyndinni má sjá mikinn skýjabakka - hann kemur við sögu hér á landi strax á morgun.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.9.): 50
- Sl. sólarhring: 90
- Sl. viku: 1685
- Frá upphafi: 2499680
Annað
- Innlit í dag: 47
- Innlit sl. viku: 1533
- Gestir í dag: 43
- IP-tölur í dag: 43
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010