7.5.2021 | 21:22
Hörpuhjal
Þó veður sé afskaplega breytilegt frá ári til árs á þessum árstíma er það samt þannig að fyrsti mánuður íslenska sumarsins harpa sker sig að sumu leyti úr - jafnvel má halda því fram að hún sé sérstök árstíð. Hún sýnir þó sitt rétta andlit aðeins stöku sinnum - en þó nægilega oft til þess að merki hennar sést í veðurgögnum. Nokkuð er deilt um merkingu nafnsins. Það er ekki meðal mánaðanafna í Eddu - þar heitir fyrsti mánuður sumars gaukmánuður eða sáðtíð - kannski eru þessi nöfn eldri heldur landnám Íslands, (en ekkert vit þykist ritstjóri hungurdiska hafa á slíku). En hörpunafnið komið í notkun snemma á 17.öld [séra Oddur á Reynivöllum notar það]. Ekki eru þó rímskrif hans aðgengileg ritstjóranum - aðeins tilvitnanir. Einhvern veginn var því ýtt að manni hér á árum áður að nafnið tengdist ljúfum tónum hörpunnar - í nafninu væri því falin mildi og friður. Sé flett upp í ritmálssafni Árnastofnunar kemur upp tilvitnun í gamlan texta sem mun vera prentaður í 1. hefti Bibliotheca Arnamagnæana 1941. Grunar ritstjórans að þar fari texti séra Odds. Þar segir - með nútímastafsetningu:
Kuldamánuðurinn vor fyrstur í sumri hefur langa æfi heitið harpa, Þá deyja flestar kindur magrar undan vetri og um þá tíma finna menn oft herpings-kulda. Kunnugleg lýsing á veðurlagi hörpunnar - ekki satt?
Fyrir fjórum árum (apríl 2017) birtist hér á hungurdiskum löng syrpa pistla (9) með yfirskriftinni Í leit að vorinu - kannski tekur ritstjórinn þá einhvern tíma saman og (rit)stýrir þeim í einn samfelldan texta? Þar má m.a. finna eftirfarandi fullyrðingar:
Það er 6. maí sem hitinn á vorin fer upp fyrir ársmeðaltalið - en 16. október dettur hann niður fyrir að að nýju. Við gætum skipt árinu í sumar og vetrarhelming eftir þessu og er það mjög nærri því sem forfeður okkar gerðu - ef við tökum fáeina daga af vetrinum til beggja handa og bættum við sumarið erum við býsna nærri fyrsta sumardegi gamla tímatalsins að vori og fyrsta vetrardegi að hausti.
Næst er gripið niður í pistil um árstíðasveiflu loftþrýstings):
Kjarni vetrarins einkennist af nokkurri flatneskju [svipuðum meðalloftþrýstingi], en hún stendur ekki nema í um það bil 7 til 8 vikur, frá því snemma í desember þar til fyrstu daga febrúarmánaðar. Lægstur er þrýstingurinn í þorrabyrjun - á miðjum vetri að íslensku tali. Svo fer að halla til vors, tveimur mánuðum áður en meðalhiti tekur til við sinn hækkunarsprett. Þrýstihækkunin heldur síðan áfram jafnt og þétt, en í kringum sumardaginn fyrsta virðist herða á henni um stutta stund þar til hámarki er náð í maí. Þetta hámark er flatt og stendur í um það bil 5 vikur. Mánuðinn hörpu eða þar um bil. Harpa er eiginlega sérstök loftþrýstiárstíð, rétt eins og desember og janúar eru það - og þrýstihækkun útmánaða. Í maílok fellur þrýstingurinn - ekki mikið, en marktækt - og þrýstisumarið hefst. - Það stendur fram að höfuðdegi. [Þrýsti-] Árstíðirnar eru því fimm: Vetrarsólstöður, útmánuðir, harpa, sumar og haust.
Einnig er í pistlunum fjallað um úrkomutíðni á landinu. Á hversu mörgum stöðvum landsins mælist úrkoma. Þar segir m.a:
Fram undir miðjan mars eru úrkomulíkur oftast um og yfir 55 prósent á landinu, en þá fer lítillega að draga úr. Upp úr miðjum apríl er tíðniþrep og eftir það eru líkurnar komnar niður í 40 til 45 prósent. Líkur á því að úrkoma sé 0,5 mm eða meiri falla ámóta hratt (eða aðeins hraðar). Þrep skömmu fyrir sumardaginn fyrsta vekur auðvitað athygli - það tengist þeim þrepum loftþrýstings og þrýstióróa sem við kynntumst í fyrri leitarpistlum. Úrkomutíðni á landinu er í lágmarki frá því um 10. maí til 10. júní. [Og á viðmiðunartímabilinu 1949 til 2016 voru líkur á úrkomu minnstar 19.maí].
Síðar er fjallað um vindstyrk og vindáttir í veðrahvolfinu - þar segir m.a.:
Umskiptin á vorin eru mjög snögg. Styrkur vestanáttarinnar dettur þá snögglega niður í um helming þess sem var. Þetta gerist að meðaltali síðustu dagana í apríl. - Á móti er annað þrep síðla sumars, í síðustu viku ágústmánaðar. Segja má að vestanáttin fari beint úr vetri yfir í sumar.
Og einnig segir af árstíðasveiflu vindátta á landinu:
Í kringum jafndægur að vori dregur mjög úr tíðni sunnanátta - páskatíð tekur við - jú, með sínum frægu hretum - úr norðri. Síðari hluti þessa norðanáttaauka hefst í kringum sumardaginn fyrsta - og stendur til 19. maí (eða þar um bil). [Hörpuna]
Vorþurrkar eru oft erfiðir sökum gróðureldahættu. Þessi hætta fer vaxandi frá ári til árs. Ekki endilega vegna þess að þurrkum fjölgi hér á landi - eða þeir verði ákafari - heldur öðrum ástæðum. Þessar eru helstar:
Hlýnandi veðurfar bætir gróðurskilyrði, magn og útbreiðsla margskonar gróðurs eykst.
Búfjárbeit og önnur nýting gróðurs minnkar svo sina og annar lággróður eykst, ár frá ári.
Fárfestingar í frístundabyggðum vaxa. Mikið um heilsárshús og árleg viðvera lengist, gróður þar margfaldast.
Íslensk stjórnvöld leggja stóraukna áherslu á nýskógrækt sem úrræði í loftslagsmálum.
Sama eða svipað er að eiga sér atað víða um lönd og allra erfiðast er ástandið þar sem aukin þurrkatíðni og aukin ákefð þurrka koma einnig við sögu.
Það er mikilvægt að gróðureldaváin sé tekin alvarlega. Ánægjulegt er að sjá að einhver vakning er að eiga sér stað. Hún mætti þó ná til fleiri viðbragðsþátta - og er rétt eins og ákveðin blinda ríki gagnvart sumum þeirra.
Fyrir tveimur árum tóku ritstjóri hungurdiska og K. Hulda Guðmundsdóttir á Fitjum í Skorradal saman minnisblað sem sent var til nokkurra aðila sem um þessi mál fjalla. Hér að neðan er tengill í þessa minnisblað (pdf). Þrautsegir áhugamenn ættu að reyna að lesa.
Í dag (7.maí) gerði loks skúrir sums staðar sunnan- og suðvestanlands. Þá kom gömul þumalfingurregla frá því fyrir tíma tölvuspáa upp í huga ritstjóra hungurdiska. Hún er nokkurn veginn svona:
Gerist það í langvinnri norðaustanátt að þrýstingur á Reykjanesi falli niður fyrir þrýsting á Dalatanga má búast við að úrkomu verði vart - skúrir eða él falli á Suðvesturlandi.
Þannig var það einmitt í dag (7.maí).
6.5.2021 | 02:19
Met (eða þannig?)
Í gær (4.maí) fór lágmarkshiti á Dyngjujökli niður í -24,5°C - og svo niður í -24,0°C síðastliðna nótt (5.maí). Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur hér á landi í maímánuði. Við vitum þó ekki hvernig staðan er á stöðinni, t.d. er hæð mælisins yfir yfirborði jökulsins ekki þekkt - sé hún teljandi minni en 2 metrar afskrifast talan um leið sem met.
Stöðin er sem kunnugt er í um 1690 metra hæð, langhæst veðurstöðva hér á landi. Lágmarksmet munu falla þar ótt og títt næstu árin (verði stöðin starfrækt áfram) - nú þegar á hún lægsta hita í öllum mánuðum frá því í maí og fram í september - en ekki yfir veturinn - líklega tekur lengri tíma að hirða þau met líka - en það mun samt gerast starfi stöðin í áratugi. Að sumarlagi hefur hún það fram yfir aðrar stöðvar að yfirborðshiti jökulsins er aldrei hærri en 0°C. Að vetrarlagi er þessi forgjöf ekki til staðar - þá er samkeppni við aðrar stöðvar flóknari og þarf sérstakar og sjaldgæfari aðstæður til.
Þó það sé að sjálfsögðu bæði gagnlegt og áhugavert að hafa veðurstöð svo hátt á jökli eru met þaðan ekki eins áhugaverð - til þess er forgjöfin of mikil. Þau verða það hins vegar um síðir sé stöðin starfrækt nægilega lengi - eða þá að aðrar stöðvar verða settar upp við svipaðar aðstæður.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2021 | 21:02
Aðeins meira af apríl
Hinn hái loftþrýstingur í apríl telst til tíðinda í apríl (en er væntanlega hrein og klár tilviljun rétt eins og summa lottótalna slær við og við met). En það var ekki bara hæð yfir Grænlandi heldur líka vestur af Bretlandseyjum - og þetta þrýstimet því í eins konar söðulpunkti á milli hæðanna.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar, en vik eru sýnd í lit, þau jákvæðu rauðbrún, en þau neikvæðu bláleit. Norðlægar áttir voru ríkjandi fyrir austan þetta mikla háþrýstisvæði. Kalt var víða í Skandinavíu - ekki þó eins í Finnlandi og vestar. Sömuleiðis var kalt á Bretlandi - sem og víða á meginlandi Evrópu.
Hér má sjá (sé myndin stækkuð) hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik, bæði í nýliðnum apríl (efst til vinstri) sem og í þeim þremur aprílmánuðum öðrum sem skyldastir eru honum í háloftunum, apríl 1956, 1973 og 1977. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mesta jákvæða vikið í nýliðnum apríl var við strönd Labrador, um 90 metrar. Þar var hiti í neðri hluta veðrahvolfs um 4,5 stigum ofan meðallags áranna 1981 til 2010, en neikvæða vikið var mest í grennd við Danmörku, um 50 metrar - eða -2,5 stig undir meðallagi.
Vestanáttin í háloftunum var nokkuð stríð og átti sér dálítinn norðlægan þátt. Það er líka einkenni þessara fjögurra mánaða að hlýrra var fyrir vestan land heldur en austan þess. Slíkt er ekki mjög algengt. Staðan árið 1956 var einna líkust stöðunni nú, hæðarhryggurinn í við snarpari 1973 og í apríl 1977 var heldur kaldara en nú.
Það sést ekki vel á myndinni, en í öllum mánuðunum fjórum hagaði þannig til að ívið hlýrra var fyrir vestan land heldur en austan við (lesist af legu daufu strikalínanna), öfugt við það sem algengast er.
Á fáeinum veðurstöðvum á Austurlandi var apríl kaldari heldur en mars og á enn færri var hann kaldari heldur en febrúar líka. Hann náði því þó hvergi að verða kaldasti mánuður vetrarins - eins og komið hefur fyrir. Einu sinni áður á þessari öld hefur apríl orðið kaldari en bæði febrúar og mars á fleiri en 8 veðurstöðvum - það var 2012, næst þar áður árið 1991. Það er dálítið skemmtilegt að á árunum 1948 til 1959 (12 ár) var apríl í 5 skipti kaldari en bæði febrúar og mars á meirihluta stöðva - klasamyndunar gætir í veðrinu (ólíkt lottóinu).
Hiti í apríl var neðan meðallags um land allt. Að tiltölu var hlýjast á Vestfjörðum, þar raðast meðalhitinn í 12.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni, en kaldast að tiltölu var á Suðausturlandi þar sem hitinn var í 17.hlýjasta sæti. Það er misjafnt hver er kaldasti apríl á öldinni. Það er 2006 við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum, 2001 á Ströndum og Norðurlandi vestra, 2010 á Norðausturlandi, á Suðausturlandi og á Miðhálendinu, 2008 á Austurlandi að Glettingi, 2012 á Austfjörðum og 2015 á Suðurlandi. Á landinu í heild var svo kaldast í apríl 2013 (þó var sá mánuður hvergi kaldastur á einstöku spásvæði). E.t.v. bendir þetta til þess að við eigum enn eftir að fá afgerandi kaldan apríl á þessari öld - hann hlýtur að bíða færis - eða er það ekki?
Við þökkum Bolla P. fyrir kortagerðina.
30.4.2021 | 22:29
Smávegis af apríl
Meðan við bíðum eftir tölum Veðurstofunnar um meðaltöl og summur einstakra veðurstöðva giskum við á hita mánaðarins á landsvísu. Hann er -0,1 stigi kaldari heldur en meðallag aprílmánaða áranna 1991 til 2020, og -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára (sem og aldarinnar).
Hér má sjá að á síðustu áratugum 20.aldar hefði apríl 2021 verið í hópi þeirra hlýrri. Aftur á móti er hann í kaldari hópnum á þessari öld. Mun kaldara var þó 2013 og 2001. Apríl hefur - eins og aðrir mánuðir farið hlýnandi, þegar til langs tíma er litið. Sveiflurnar eru þó ekki alveg í takt við vetrarhitasveiflur, t.d. var skeiðið frá 1947 til 1953 sérlega kalt - inni í miðju hlýskeiðinu sem þá var almennt ríkjandi.
Bráðabirgðauppgjör sýnir að hlýjast hefur að tiltölu verið á Vestfjörðum. Þar var hiti í 11.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni þegar einn (kaldur) dagur ver eftir af mánuðinum. Kaldast hefur hins vegar verið á Suðausturlandi, þar er hiti í 18.hlýjasta sæti aldarinnar - þrír aprílmánuðir kaldari. Ritstjórinn uppfærir þessar röðunartölur á morgun - þegar síðasti dagurinn er kominn með.
Loftþrýstingur hefur verið sérlega hár í apríl. Sá hæsti frá upphafi mælinga fyrir 200 árum. Myndin sýnir meðalþrýsting í apríl á þessu tímabili. Klasamyndunar gætir - sé þrýstingur hár í einhverjum apríl virðast heldur meiri líkur en minni á því að hann verði það aftur innan fárra ára - sama á við um lágþrýsting. Annars virðast gildin vera mjög tilviljanakennd og leiti er engin - mun minni en óvissa í mæliröðinni. Lágþrýstimetið er aðeins 10 ára gamalt - frá 2011. Sá mánuður var mjög minnisstæður fyrir óvenjutíð og mikil illviðri. Við getum búist við mánaðarmeðaltalsþrýstimeti (háu eða lágu) á um 8 ára fresti að jafnaði - sé þrýstingurinn tilviljanakenndur. Engu spáir þetta um framhaldið. Síðast þegar þrýstingur var ámóta hár í apríl og nú (1973) var júnímánuður mjög kaldur - árið 2011 var júní líka kaldur.
En óhætt er að segja að enn hafi farið vel með veður - og tilfinning ritstjóra hungursdiska sú að minna hafi orðið úr illviðrum heldur en efni hafa staðið til. Þannig hefur heildarveðurreyndin einnig verið í haust og í vetur. Vonandi er að það ástand standi sem lengst (en því mun samt linna að lokum).
28.4.2021 | 13:30
Mistur í dag
Töluvert mistur var við Faxaflóa - og víðar á landinu í morgun. Skörp hitahvörf voru á miðnætti í um 1500 metra hæð yfir Keflavíkurflugvelli. Um sjö stiga frost var í þeirri hæð - en þar rétt ofan við var hins vegar frostlaust - í þurru lofti - rakastig aðeins um 20 prósent. Loftið neðan við er hins vegar rakt, á bilinu 70 til 100 prósent. Á hádegi höfðu hitahvörfin færst heldur neðar - og ský í hitahvörfunum horfin að mestu.
Lagskiptingin sést vel á þversniði harmonie-líkansins. Það nær frá punkti skammt suðvestan Reykjaness og norður fyrir Vestfirði. Heildregnu línurnar sýna jafngildismættishita (höfum ekki áhyggjur af honum hér) - en litir rakastig. Rauðar, daufar strikalínur sýna vatnsinnihald loftsins - aðeins 0,5 g/kg ofan við, en allt upp í 3,5 g/kg neðan hitahvarfanna.
Uppruni loftsins neðan og ofan við virðist misjafn sé að marka reikninga bandaríska hysplit-líkansins. Hér er reynt að reikna hvaðan loft í mismunandi hæðum yfir Reykjavík á miðnætti var komið.
Græna línan er uppi í 3 km hæð - vel ofan hitahvarfanna. Fyrir fimm dögum var það loft í um 6 km hæð yfir Baffinslandi - hefur síðan farið yfir Grænland - streymdi þar niður yfir jöklinum norðanverðum og er síðan hingað komið.
Bláa línan er í 1500 metrum - nánast í hitahvörfunum sjálfum. Þetta er loft ættað frá Írlandi - en hefur síðustu tvo daga hringsólað við Ísland - og neðstur er rauði ferillinn - líka loft frá Bretlandi sem strokið hefur sjávarmál og loks farið að hringsóla við Reykjanes. Af þessu mætti e.t.v. ráða að mistrið sé að minnsta kosti þríþætt - kannski eitthvað frá Bretlandi (eða meginlandinu), eitthvað úr eldgosinu og síðan að hluta til vatn sem þést hefur á mengunarefnunum. Kannski er eitthvað ryk af hálendi eða söndum landsins líka í súpunni. Ekki hefur ritstjórinn glóru um hlutfall þessara þátta í mistrinu.
Hann veit það hins vegar af fyrri reynslu að þó gosið á Reykjanesskaga sé lítið - og mengun kannski ekki mjög mikil, getur það haft furðumikil áhrif á ásýnd himinsins - svo fremi sem vindur sé ekki því meiri.
25.4.2021 | 14:02
Heyskapur og hitafar í upphafi 19. aldar
Heimildir eru nokkrar um veður og tíðarfar fyrir 200 árum - en misaðgengilegar. Talsvert vantar upp á að allt hafi verið tínt saman sem hægt væri - og hugsanlegt er meira að segja að fleiri mælingar leynist einhvers staðar í skjalasöfnum.
Hér verður vikið að tveimur gagnaröðum - ekki fyrirferðarmiklum en þær segja þó eitthvað um veðurfar þessara ára. Annars vegar eru upplýsingar um það hvenær Björn Bjarnason bóndi í Húnaþingi hóf slátt, en hins vegar um töðufall (heyfeng af túnum) hjá Jóni Jónssyni í Eyjafirði. Við berum þessar raðir tvær saman við hitafar - eins og mælingar segja frá því.
Björn Bjarnason, bóndi á Brandsstöðum í Húnavatnssýslu, tók saman mjög merkan annál sem kenndur er við bæinn. Björn flutti að Brandsstöðum 1812 og bjó þar búi frá 1816 til 1821 og aftur eftir 1836, en þess á milli á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal. Hann var fæddur 1789 en lést 1859. Annáll Björns er til í tveimur meginhandritum og segir útgefandinn [Jón Jóhannesson] mikinn mun á þeim. Gerðirnar eru svo ólíkar, að varla munu nokkrar tvær setningar eins í báðum. Yngri gerðin varð fyrir valinu til útgáfu. Eldri gerðin [í Lbs316 8vo] heitir Um árferði og nær til áranna 1791 til 1854. Útgefandinn segir: Það sem 316 hefur fyllra en yngri gerðin og ekki verður getið neðanmáls, er einkum um veðurlag og verðlag, enda segir yngri gerðin nægilega mikið frá þeim efnum til þess, að menn fái sæmilega hugmynd um þau. Þetta þykja okkur veðuráhugamönnum auðvitað vondar fréttir. Við hljótum að spyrja um hvað það er sem sleppt var - og efumst um að sæmileg hugmynd um veðurlag nægi okkur - sé fyllri til. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki náð að afla sér sýnishorna til samanburðar. Hugsanlegt er að Jón Jóhannesson hafi rétt fyrir sér, að það sem vantar skipti engu. En sú spurning hlýtur að vakna hvort svipað sé farið með aðra annála sem til eru í fleiri en einu handriti - að frásagnir af ómerkilegum sveitaerjum hafi forgang yfir veður- og náttúrufarslýsingar. Jón sá sem kunnugt er um útgáfu Íslenskra annála 1400 til 1800 á árunum 1940 til 1948 [4.bindi og eitthvað áfram]. Þessi grunur styrkist - þegar sú staðreynd liggur fyrir að veðurathugunum er oftast sleppt í þýddum útgáfum á ritum erlendra manna um Ísland. Tími er kominn til að þessari vitleysu verði hætt og veðurathuganir ekki ritskoðaðar við útgáfu gamalla rita, handrita sem prentaðra.
Þessar aðfinnslur varðandi útgáfu Brandsstaðaannáls kunna að vera ýktar og óþarfar - sé svo er ljúflega beðist velvirðingar - því í annálnum er að finna gagnorðar lýsingar á veðráttu og veðri þessa tíma. Jón Jóhannesson hefur það líka sér til varnar að Björn hefur sjálfur stytt veðurlýsingarnar þegar hann ritaði yngri gerðina - sem er að flestu öðru leyti fyllri. Annállinn byrjar 1783 - áður en Björn fæddist - og er varla alveg sjálfstæð heimild fyrr en hann kemst á unglingsár - eftir 1804. Einhverjar beinar frásagnir hefur hann þó frá sér eldri mönnum - atriði sem annars væru okkur glötuð. Í annálnum tiltekur Björn sláttarbyrjun í flestum árum, ýmist ákveðinn dag eða í tiltekinni viku sumars. Svo virðist sem samband sé á milli sláttarbyrjunar og meðalhita ársins, þótt auðvitað geti margt annað komið til. Þetta samband virðist sérstaklega gott ef nokkur ár eru tekin saman, t.d. með keðjumeðaltölum.
Björn var kappsmaður við heyskap. Jón Jóhannesson kemst skemmtilega að orði: Til þess er tekið að honum hirtust fljótar og betur hey en öðrum mönnum, og talið var að ekki kæmi það óþurrkasumar, að hey hrektust til muna hjá Birni á Brandsstöðum. Hins vegar þótti hann lítill sláttumaður. Honum beit illa, og hann hafði ljótt og erfitt sláttulag, en við rakstur var hann tvígildur. Jón segir einnig: Birni hefur verið mjög ósýnt um reikning, og eru tölur einna varhugaverðastar af því, sem stendur í ritum hans. Björn lagði á það áherslu að hefja heyskap um leið og spretta og stund leyfðu og að menn nýttu flæsudaga til heyskapar eins og frekast væri unnt. Treysta aldrei á að góður þurrkur gæfist síðar. Mættu margir enn taka þetta sér til fyrirmyndar þegar njóta skal íslenska sumarsins. Grípa góðu dagana í júní - jafnvel í maí - til sumarverka eða útiveru en treysta ekki alfarið á góðviðriskafla síðsumars til slíkra hluta. Komi þeir er um ánægjulegan bónus að ræða.
Feðgarnir Jón og Jón Jónssynir klerkar í Eyjafirði héldu dagbækur um veður (og fleira) í nærri því 100 ár. Elsta dagbókarhandrit Jóns eldra er dagsett í janúar 1747, en seinustu færslur Jóns sonar hans eru frá því í ágúst 1846.
Veðurlýsing fylgir flestum dögum, auk þess viku- og mánaðayfirlit lengst af. Inn á milli eru einnig ýmsar upplýsingar aðrar úr búskapnum. Gallinn er hins vegar sá að fæst af þessu er auðlesið leturgerð og stafsetning með allt öðrum hætti en nú tíðkast, textinn mjög bundinn (styttingar notaðar), auk þess sem hlutar handritanna eru orðnir býsna máðir. Jón eldri færir dagbók sína fyrstu árin á latínu. Satt best að segja þarf annað hvort atvinnumennsku í handritalestri eða sérlega þrautseigu og gott auga til að brjótast í gegnum allt saman.
Hér notum við okkur aðeins eina litla töflu sem sýnir töðufall (heyfeng) á bújörðum Jóns yngra á árunum 1786 til 1836. Taflan birtist í brotum, eftir því sem tími leið, í dagbókum hans. Við berum heyfeng hvers árs saman við reiknaðan ársmeðalhita í Stykkishólmi. En fyrst verðum við að fara fáeinum orðum um feðgana. Þær upplýsingar eru fengnar úr Íslenzkum æviskrám Páls E. Ólasonar sem nú eru aðgengilegar á netinu.
Jón Jónsson eldri var fæddur á Bakka í Svarfaðardal 19. september 1719 og lést 3. júlí 1795. Hann var stúdent frá Hólaskóla 1745, varð þá djákni að Möðruvallaklaustri, fékk Grundarþing í Eyjafirði 1758 og hélt til æviloka. Bjó fyrst á Guðrúnarstöðum, síðan á Grund en síðast á Núpufelli. Jón Jónsson yngri var fæddur á Guðrúnarstöðum 28. ágúst 1759 en dó í september 1846. Hann varð stúdent úr heimaskóla 1780 og vígðist 1783 sem aðstoðarprestur föður síns. Bjó fyrst að Grund, síðan á Núpufelli, en fluttist að Möðrufelli 1798. Fékk Grundarþing 1795, eftir föður sinn og Möðruvallaklaustursprestakall 1839. Fluttist þá að Dunhaga og andaðist þar.
Í dagbókum Jóns yngra eru á nokkrum stöðum listar yfir töðufall á búum hans. Fyrsta árið sem ritstjóri hungurdiska hefur rekist á er 1786 hugsanlega leynast tölur fyrri ára í hrúgunni sé betur að gáð. Einnig má finna upplýsingar um engjaheyskap þar til Jón flutti að Möðrufelli, en ekki eftir það (svo sést hafi til). Tölur eru einnig til frá árum hans að Dunhaga, en þar eru tún greinilega mun minni og búskaparumsvif hins áttræða prests minni en áður var. Þegar við horfum á tölurnar verðum við auðvitað að hafa í huga að áreiðanlega hefur verið munur á túnum Núpufells og Möðrufells reyndar eru upplýsingar um mælingar á stærð þeirra í dagbókunum og við gætum reynt að reikna töðufall á flatareiningu, en við látum nú sem ekkert sé. Sömuleiðis verður að telja líklegt að Jón hafi stundað túnbætur og að aukning sú sem fram kemur á heyjum í tölunum sé ekki einungis breytingum á veðurfari að þakka.
Í leiðinni skulum við til gamans bæta þriðju gagnaröðinni við. Mælingum á árlegum samsætuvikum í gisp2-kjarnanum á Grænlandi á sama tíma. Samsætuvikin veita upplýsingar um hitafar - en hafa verður í huga að það er í 3 km hæð á hábungu Grænlandsjökuls, en ekki við sjávarmál á Íslandi.
Reiknum við hráa fylgnistuðla milli Stykkishólmshitans (sem þó er ekki mældur í Hólminum) og þessara þriggja gagnaraða er útkoman þessi. Hiti/sláttarbyrjun = -0,42. Mínustalan þýðir að því síðar sem sláttur hefst - því kaldara hefur árið verið. Hiti/töðufall = 0,43. Því meiri sem taða er - því hlýrra hefur árið verið. Hiti/samsætuvik = 0,30. [Því neikvæðari sem samsætuvikið er - því kaldara er á Íslandi].
Í veðurfræði þykja þetta ekki háir fylgnistuðlar (þó marktækir séu), en þættu líklega nokkuð góðir í heilbrigðis- og félagsvísindum þar sem tengsl áhrifaþátta eru gjarnan enn flóknari og torræðari heldur en í lofthjúpnum.
Við skulum fyrst bera saman tímaraðir töðufalls og hita beint - frá ári til árs.
Ársmeðalhita má lesa af vinstri kvarða, en töðufall (hestar) af þeim hægri. Síðasta ár heyfengsupplýsinganna er 1836 - vont ár - töðufall það versta síðan 1812 (ásamt 1834 og 1835). Þennan tíma lá við stórvandræðum viða norðanlands. Versta heyskaparsumarið var 1802 - frægt hallærisár. Töðufall var litlu meira 1796 (um það höfum við ekki enn fjallað hér á hungurdiskum). Mest var töðufallið 1820 og aftur 1831. Á fyrri hluta tímabilsins heyjaðist einnig vel 1789 og 1805. Við þykjumst vita eitthvað um hitafar allra ára á 19.öld (lítið reyndar um 1802), en mælingar frá 18.öld eru öllu gisnari. Kannski getum við nýtt okkur töðufallið til ágiskana.
Brandsstaðaröðin (sláttarbyrjun) nær frá 1802 til 1857. Stundum nefnir Björn nákvæman dag, en stundum aðeins viku sumars. Síðasta sláttarbyrjun hans var 1835, 31.júlí, en sú fyrsta 1852, 8.júlí. Sömuleiðis hóf hann slátt snemma 1805 og 1842, eða 10.júlí.
Við lítum á samsætuvik áranna 1780 til 1857. Þau segja okkur að kaldast hafi verið 1835 - en hlýjast 1786, en það ár þekkjum við engar hitamælingar hér á landi (nema illskiljanleg brotabrot frá Magnúsi Ketilssyni sýslumanni í Búðardal á Skarðsströnd).
Næst giskum við á hitann beint út frá mæliröðunum þremur, hverri fyrir sig. Þá kemur í ljós að breytileiki áætlaða hitans er miklu minni heldur en þess mælda - en slíkt er alvanalegt. Að lokum búum við til 5-ára keðjumeðaltöl og berum saman. Þar sést bælingin vel.
Blái ferillinn sýnir Stykkishólmshitann. Rauði ferillinn er töðufallshitinn, sá græni sýnir sláttarbyrjunarhita, en sá brúni samsætuvikahita. Það sem er sérlega athyglisvert er að hágildi og lággildi ferlanna eru ekki fjarri því að vera samtíma. Allir eru sammála um kuldakastið (skammvinna) á fjórða áratug 19.aldar og sömuleiðis er sæmilegt samkomulag um tvö tímasetningu næstu kuldakasta á undan, um 1825 og um 1810. Hitinn fer mjög neðarlega í því fyrsta - e.t.v. er hér um raunverulega villu í mati á Stykkishólmshitanum að ræða. - Alla vega má taka þetta sem alvarlega ábendingu þar um. Málið verður örugglega rannsakað nánar.
Samsætuferillinn syndir í gegnum allt tímabilið á svipuðum slóðum - sýnir illa hlýskeiðið sem kom eftir 1840 - það skeið var örugglega hlýrra en það sem áður kom - alla vega hlýrra en tíminn fyrir 1820. Óljósara er með misræmið á 18.öld (áður en hitamælingarnar verða samfelldar). Þar virðist töðufallið vera minna heldur en hitinn sem samsætumælingarnar giska á. Búa má til skýringar á þessu misræmi. Það hefur t.d. sýnt sig að á 20.öld komu margra ára tímabil þegar mikið misræmi var á milli hitavika við strendur Grænlands og uppi á jöklinum - hugsanlega er hér um eitthvað slíkt að ræða. Hugsanlega gæti neikvæðra áhrifa Skaftáreldamóðunnar enn hafa gætt í heyfeng (og gróðurfari) áratug eða meira eftir gosið. Eins gætu tún Jóns hafa verið marktækt minni heldur en síðar var. Ágiskanir sem sést hafa um hitafar á Íslandi - gerðar eftir hitafari í nágrannalöndum okkar í Evrópu - sýna tiltölulega hlýtt tímabil hér á landi í lok 18.aldar. Varlega skulum við þó trúa slíku - nema fleiri ábendingar berist - en við vitum þó að alls ekki voru öll ár vond.
Hér reynum við að eyða bælingunni. Það er gert með því að halda hitamælingakvarðanum eins og hann var (til hægri) - meðan við belgjum áætlanakvarðann út. Mælingakvarðinn nær frá 1 til 5 stiga, en áætlanakvarðinn til 2 til 4 stiga. Með þessu móti sjáum við tímasamræmi - og ósamræmi - betur en áður.
Spurning hvort ritstjóri hungurdiska leggur nú í samantekt ritaðra heimilda um veðurfar á landinu á síðari hluta 18.aldar.
Heimildir:
Brandsstaðaannáll, eftir Björn Bjarnason á Brandsstöðum: Húnavatnsþing I, útgáfu annaðist Jón Jóhannesson. Reykjavík: Sögufélagið Húnvetningur, Húnvetningafélagið í Reykjavík, 1941, 237 s.
Handrit á Landsbókasafni Íslands: ÍBR 81- 86 8vo.
Hitamælingar á ýmsum stöðum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2021 | 21:05
Snyrtileg smálægð
Smálægð fer yfir landið á morgun, sunnudag 25.apríl. Hún er svo grunn að varla má greina heildregna jafnþrýstilínu í kringum miðjuna.
Klukkan 9 í fyrramálið á hin mjög svo ógreinilega lægðarmiðja að vera við Vestmannaeyjar - eða einhvers staðar við suðvesturströndina. Varla að lægðin sjáist á þessu spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar. En eins og kortið sýnir er töluverð úrkoma samfara lægðinni - misdreifð en talað um 15 til 30 mm sólarhringsúrkomu á stöku stað. Ef kortið er skoðað nánar má sjá litla þríhyrninga merkta í úrkomusvæðið. Það segir okkur að þetta sé svonefnd klakkaúrkoma - orðin til vegna þess hversu óstöðugt loftið er. Mestu úrkoman á að ganga yfir höfuðborgarsvæðið í nótt - en verður misáköf eftir svæðum - kannski 3 til 6 mm/klst þar sem mest verður - en víðast minna. - Þeir sem nenna geta rifjað upp gamlan hungursdiskapistil um úrkomuákefð.
En lægðin er ekki alveg öll þar sem hún sýnist. Uppi í 5 km hæð (500 hPa) sjáum við töluvert öfluga lægð - smáa um sig að vísu, en þar eru þéttar jafnhæðarlínur og þar með verulegur vindur.
Sunnan við lægðarmiðjuna má sjá um 40 m/s þar sem mest er. Á þessu korti sýna litir hita. Mjög kalt er í lægðarmiðjunni, -32 stig yfir Reykjavík - en mun hlýrra allt um kring. Kalda loftið fyllir lægðina - ef svo má segja - jafnar sjávarmálsþrýstisviðið alveg út - þannig að hinn snarpi vindur nær ekki til jarðar. Enn ofar má sjá strokk í veðrahvörfunum - þar inni í er aftur hlýrra heldur en umhverfis.
Lægð þessi hreyfist hratt til suðausturs í átt til Bretlands - og vindur nær sér smám saman á strik, er spáð allhvössum undan vesturströndum Skotlands og Írlands á þriðjudag. Fyrir tíma tölvuspáa voru lægðir af þessu tagi afskaplega erfiðar viðfangs. E.t.v. gátu gisnar háloftaathuganir rekist á þær - en ef til vill ekki. Hvernig á að spá úrhellisrigningu á lægð sem ekki er hægt að finna? En nú er öldin önnur (eða þannig).
22.4.2021 | 15:40
Mildur vetur
Íslenska vetrarmisserið var milt að þessu sinni - eins og langoftast á þessari öld. Telst varla til tíðinda lengur. Við lítum eins og oft áður á samanburð við hita fyrri vetra og veljum hitamælingar í Stykkishólmi að þessu sinni.
Vetrarhitinn nú er nákvæmlega í meðallagi áranna 2001 til 2020, en -0,1 stigi lægri en meðallag síðustu tíu vetra. Vetrarhiti þessarar aldar hefur verið ótrúlega stöðugur miðað við það sem venjan var (og verður?). Hinn hlýi vetur 2002-2003 sá eini sem sker sig úr. Fyrra hlýskeið, það sem stóð á að giska frá 1923 til 1964 (vetur fóru hlýnandi á undan sumrunum og vetrarhlýindi stóðu lengur heldur en sumarhlýindin) sker sig úr, en hiti þá var áberandi breytilegri heldur en verið hefur á því núverandi. Veturinn 1950 til 1951 var þannig fullt eins kaldur og vetur hafísáranna - en ekki boðaði það skyndilega breytingu.
Eins og sjá má á línuritinu er aldrei á vísan að róa. Veturinn 1879 til 1880 var einn sá hlýjasti á 19.öld, en sá næsti á eftir, 1880 til 1881, varð sá langkaldasti. Töldu menn að þá hefði fullhefnt verið fyrir blíðuna árið áður (en harðindin héldu bara áfram).
Ritstjóri hungurdiska óskar dyggum lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars og þakkar fyrir áhuga og hlýjar kveðjur.
21.4.2021 | 02:00
Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar
17.4.2021 | 21:30
Hiti á 19. og 20.öld - enn og aftur
Við berum nú saman hitafar á 19. og 20. öld. Mælingar eru alláreiðanlegar aftur til áranna fyrir 1850 - og sæmilega áreiðanlegar til 1830. Nokkur óvissa er um fyrstu þrjá áratugi 19.aldarinnar - en við sjáum þó sveiflur frá ári til árs ágætlega og sömuleiðis hvaða áraklasar á því tímabili eru kaldari heldur en aðrir.
Fyrsta myndin sýnir 7-árakeðjur ársmeðalhita í Stykkishólmi aldirnar tvær. Bláu súlurnar sýna hitafar á 19.öld, rauða línan hitafar á þeirri 20. og sú græna hita fyrstu 20 ára 21.aldar. Mestur vafi leikur á því hversu kalt var í kringum 1810 - hugsanlega ekki alveg jafnkalt og hér er sýnt, en ritstjóri hungurdiska hefur trú á öðrum hlutum myndarinnar. Þessi mynd sýnir ekki heildarhlýnun á tímabilinu öllu, en leitni hennar reiknast um 0,8°C á öld. Það hefur hlýnað um 1,7 stig í Stykkishólmi frá því í byrjun 19.aldar.
Þrátt fyrir alla þessa hlýnun eru ára- og áratugasveiflur samt miklar. Það er t.d. nærri 2 stiga munur á hita kaldasta og hlýjasta 7-ára tímabils 19.aldar og 1,7 stiga munur á hita kaldasta og hlýjasta 7-ára tímabili 20.aldar. Það vekur athygli að nær öll 7-ára tímabil 20.aldar eru umtalsvert hlýrri heldur en sömu ár 19.aldar - eina undantekningin er um 1820 og 1920 - þá er hiti sambærilegur.
Nú - og svo virkar hitinn á 21.öldinni (það sem af er) alveg út úr kortinu miðað við hinar aldirnar tvær. Auðvitað er spurningin hversu lengi hlýindin halda út - við vitum ekki enn hversu stór hlutur hnattrænnar hlýnunar er í núverandi hlýindum hér á landi - hann er umtalsverður - enginn vafi er á því, en er hann nægur til þess að hiti fari ekki aftur (tímabundið) niður fyrir það sem hann var á 20.aldar hlýindaskeiðinu mikla? Mun hita 21.aldar takast að halda öldinni nær alveg hreinni - eins og 20.öldinni tókst (nærri því) gagnvart þeirri 19?
Hiti á kuldaskeiðinu 1965 til 1995 var lengst af lægri heldur enn hann var á hlýskeiðum 19.aldarinnar [við kölluðum það kuldaskeið sem nítjándualdarmenn hefðu kallað hlýskeið]. Við sem það munum getum því sagt að við höfum kynnst 19.aldarveðurlagi að einhverju leyti. Það er fyrst og fremst kuldinn í kringum 1810 (sé hann þá raunverulegur) og kuldinn á 7. og 9. áratug 19.aldarinnar sem vantar alveg í okkar reynsluheim - og ekki fengum við mikla eða langvinna reynslu af venjulegu 19.aldarástandi.
Þrátt fyrir hlýnandi veðurfar getum við seint gert ráð fyrir því að aldrei kólni aftur. Á hinn bóginn má segja að taki hitinn enn eitt hlýindastökkið hljóti að vera illt í efni - fengjum við t.d. ámóta hlýnun og varð milli 1920 til 1930 ofan í þá hlýnun sem nú þegar hefur orðið.
Við lítum fljótlega á vitnisburði sem geta hugsanlega sagt okkur eitthvað um hitafar snemma á 19.öld og berum saman við tölurnar.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 33
- Sl. sólarhring: 231
- Sl. viku: 1515
- Frá upphafi: 2498845
Annað
- Innlit í dag: 33
- Innlit sl. viku: 1379
- Gestir í dag: 32
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010