Heyskapur og hitafar í upphafi 19. aldar

Heimildir eru nokkrar um veður og tíðarfar fyrir 200 árum - en misaðgengilegar. Talsvert vantar upp á að allt hafi verið tínt saman sem hægt væri - og hugsanlegt er meira að segja að fleiri mælingar leynist einhvers staðar í skjalasöfnum. 

Hér verður vikið að tveimur gagnaröðum - ekki fyrirferðarmiklum en þær segja þó eitthvað um veðurfar þessara ára. Annars vegar eru upplýsingar um það hvenær Björn Bjarnason bóndi í Húnaþingi hóf slátt, en hins vegar um töðufall (heyfeng af túnum) hjá Jóni Jónssyni í Eyjafirði. Við berum þessar raðir tvær saman við hitafar - eins og mælingar segja frá því. 

Björn Bjarnason, bóndi á Brandsstöðum í Húnavatnssýslu, tók saman mjög merkan annál sem kenndur er við bæinn. Björn flutti að Brandsstöðum 1812 og bjó þar búi frá 1816 til 1821 og aftur eftir 1836, en þess á milli á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal. Hann var fæddur 1789 en lést 1859. Annáll Björns er til í tveimur meginhandritum og segir útgefandinn [Jón Jóhannesson] mikinn mun á þeim. „Gerðirnar eru svo ólíkar, að varla munu nokkrar tvær setningar eins í báðum“. Yngri gerðin varð fyrir valinu til útgáfu. Eldri gerðin [í Lbs316 8vo] heitir „Um árferði“ og nær til áranna 1791 til 1854. Útgefandinn segir: „Það sem 316 hefur fyllra en yngri gerðin og ekki verður getið neðanmáls, er einkum um veðurlag og verðlag, enda segir yngri gerðin nægilega mikið frá þeim efnum til þess, að menn fái sæmilega hugmynd um þau“. Þetta þykja okkur veðuráhugamönnum auðvitað vondar fréttir. Við hljótum að spyrja um hvað það er sem sleppt var - og efumst um að „sæmileg“ hugmynd um veðurlag nægi okkur - sé fyllri til. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki náð að afla sér sýnishorna til samanburðar. Hugsanlegt er að Jón Jóhannesson hafi rétt fyrir sér, að það sem vantar skipti engu. En sú spurning hlýtur að vakna hvort svipað sé farið með aðra annála sem til eru í fleiri en einu handriti - að frásagnir af „ómerkilegum sveitaerjum“ hafi forgang yfir veður- og náttúrufarslýsingar. Jón sá sem kunnugt er um útgáfu Íslenskra annála 1400 til 1800 á árunum 1940 til 1948 [4.bindi og eitthvað áfram]. Þessi grunur styrkist - þegar sú staðreynd liggur fyrir að veðurathugunum er oftast sleppt í þýddum útgáfum á ritum erlendra manna um Ísland. Tími er kominn til að þessari vitleysu verði hætt og veðurathuganir ekki ritskoðaðar við útgáfu gamalla rita, handrita sem prentaðra.

Þessar aðfinnslur varðandi útgáfu Brandsstaðaannáls kunna að vera ýktar og óþarfar - sé svo er ljúflega beðist velvirðingar - því í annálnum er að finna gagnorðar lýsingar á veðráttu og veðri þessa tíma. Jón Jóhannesson hefur það líka sér til varnar að Björn hefur sjálfur stytt veðurlýsingarnar þegar hann ritaði yngri gerðina - sem er að flestu öðru leyti fyllri. Annállinn byrjar 1783 - áður en Björn fæddist - og er varla alveg sjálfstæð heimild fyrr en hann kemst á unglingsár - eftir 1804. Einhverjar beinar frásagnir hefur hann þó frá sér eldri mönnum - atriði sem annars væru okkur glötuð. Í annálnum tiltekur Björn sláttarbyrjun í flestum árum, ýmist ákveðinn dag eða í tiltekinni viku sumars. Svo virðist sem samband sé á milli sláttarbyrjunar og meðalhita ársins, þótt auðvitað geti margt annað komið til. Þetta samband virðist sérstaklega gott ef nokkur ár eru tekin saman, t.d. með keðjumeðaltölum.

Björn var kappsmaður við heyskap. Jón Jóhannesson kemst skemmtilega að orði: „Til þess er tekið að honum hirtust fljótar og betur hey en öðrum mönnum, og talið var að ekki kæmi það óþurrkasumar, að hey hrektust til muna hjá Birni á Brandsstöðum. Hins vegar þótti hann lítill sláttumaður. Honum beit illa, og hann hafði ljótt og erfitt sláttulag, en við rakstur var hann tvígildur“. Jón segir einnig: „Birni hefur verið mjög ósýnt um reikning, og eru tölur einna varhugaverðastar af því, sem stendur í ritum hans“. Björn lagði á það áherslu að hefja heyskap um leið og spretta og stund leyfðu og að menn nýttu flæsudaga til heyskapar eins og frekast væri unnt. Treysta aldrei á að góður þurrkur gæfist síðar. Mættu margir enn taka þetta sér til fyrirmyndar þegar njóta skal íslenska sumarsins. Grípa góðu dagana í júní - jafnvel í maí - til sumarverka eða útiveru en treysta ekki alfarið á góðviðriskafla síðsumars til slíkra hluta. Komi þeir er um ánægjulegan bónus að ræða.

Feðgarnir Jón og Jón Jónssynir klerkar í Eyjafirði héldu dagbækur um veður (og fleira) í nærri því 100 ár. Elsta dagbókarhandrit Jóns eldra er dagsett í janúar 1747, en seinustu færslur Jóns sonar hans eru frá því í ágúst 1846.  

Veðurlýsing fylgir flestum dögum, auk þess viku- og mánaðayfirlit lengst af. Inn á milli eru einnig ýmsar upplýsingar aðrar úr búskapnum. Gallinn er hins vegar sá að fæst af þessu er auðlesið – leturgerð og stafsetning með allt öðrum hætti en nú tíðkast, textinn mjög bundinn (styttingar notaðar), auk þess sem hlutar handritanna eru orðnir býsna máðir. Jón eldri færir dagbók sína fyrstu árin á latínu. Satt best að segja þarf annað hvort atvinnumennsku í handritalestri eða sérlega þrautseigu og gott auga til að brjótast í gegnum allt saman.

Hér notum við okkur aðeins eina litla töflu sem sýnir töðufall (heyfeng) á bújörðum Jóns yngra á árunum 1786 til 1836. Taflan birtist í brotum, eftir því sem tími leið, í dagbókum hans. Við berum heyfeng hvers árs saman við reiknaðan ársmeðalhita í Stykkishólmi. – En fyrst verðum við að fara fáeinum orðum um feðgana. Þær upplýsingar eru fengnar úr „Íslenzkum æviskrám“ Páls E. Ólasonar sem nú eru aðgengilegar á netinu.

Jón Jónsson eldri var fæddur á Bakka í Svarfaðardal 19. september 1719 og lést 3. júlí 1795. Hann var stúdent frá Hólaskóla 1745, varð þá djákni að Möðruvallaklaustri, fékk Grundarþing í Eyjafirði 1758 og hélt til æviloka. Bjó fyrst á Guðrúnarstöðum, síðan á Grund en síðast á Núpufelli. Jón Jónsson yngri var fæddur á Guðrúnarstöðum 28. ágúst 1759 en dó í september 1846. Hann varð stúdent úr heimaskóla 1780 og vígðist 1783 sem aðstoðarprestur föður síns. Bjó fyrst að Grund, síðan á Núpufelli, en fluttist að Möðrufelli 1798. Fékk Grundarþing 1795, eftir föður sinn og Möðruvallaklaustursprestakall 1839. Fluttist þá að Dunhaga og andaðist þar.

Í dagbókum Jóns yngra eru á nokkrum stöðum listar yfir töðufall á búum hans. Fyrsta árið sem ritstjóri hungurdiska hefur rekist á er 1786 – hugsanlega leynast tölur fyrri ára í hrúgunni sé betur að gáð. Einnig má finna upplýsingar um engjaheyskap þar til Jón flutti að Möðrufelli, en ekki eftir það (svo sést hafi til). Tölur eru einnig til frá árum hans að Dunhaga, en þar eru tún greinilega mun minni – og búskaparumsvif hins áttræða prests minni en áður var. Þegar við horfum á tölurnar verðum við auðvitað að hafa í huga að áreiðanlega hefur verið munur á túnum Núpufells og Möðrufells – reyndar eru upplýsingar um mælingar á stærð þeirra í dagbókunum – og við gætum reynt að reikna töðufall á flatareiningu, en við látum nú sem ekkert sé. Sömuleiðis verður að telja líklegt að Jón hafi stundað túnbætur – og að aukning sú sem fram kemur á heyjum í tölunum sé ekki einungis breytingum á veðurfari að þakka.

Í leiðinni skulum við til gamans bæta þriðju gagnaröðinni við. Mælingum á árlegum samsætuvikum í gisp2-kjarnanum á Grænlandi á sama tíma. Samsætuvikin veita upplýsingar um hitafar - en hafa verður í huga að það er í 3 km hæð á hábungu Grænlandsjökuls, en ekki við sjávarmál á Íslandi.  

Reiknum við „hráa“ fylgnistuðla milli „Stykkishólmshitans“ (sem þó er ekki mældur í Hólminum) og þessara þriggja gagnaraða er útkoman þessi. Hiti/sláttarbyrjun = -0,42. Mínustalan þýðir að því síðar sem sláttur hefst - því kaldara hefur árið verið. Hiti/töðufall = 0,43. Því meiri sem taða er - því hlýrra hefur árið verið. Hiti/samsætuvik = 0,30. [Því neikvæðari sem samsætuvikið er - því kaldara er á Íslandi]. 

Í veðurfræði þykja þetta ekki háir fylgnistuðlar (þó marktækir séu), en þættu líklega nokkuð góðir í heilbrigðis- og félagsvísindum þar sem tengsl áhrifaþátta eru gjarnan enn flóknari og torræðari heldur en í lofthjúpnum. 

Við skulum fyrst bera saman tímaraðir töðufalls og hita beint - frá ári til árs. 

w-blogg240421c

Ársmeðalhita má lesa af vinstri kvarða, en töðufall (hestar) af þeim hægri. Síðasta ár heyfengsupplýsinganna er 1836 - vont ár - töðufall það versta síðan 1812 (ásamt 1834 og 1835). Þennan tíma lá við stórvandræðum viða norðanlands. Versta heyskaparsumarið var 1802 - frægt hallærisár. Töðufall var litlu meira 1796 (um það höfum við ekki enn fjallað hér á hungurdiskum). Mest var töðufallið 1820 og aftur 1831. Á fyrri hluta tímabilsins heyjaðist einnig vel 1789 og 1805. Við þykjumst vita eitthvað um hitafar allra ára á 19.öld (lítið reyndar um 1802), en mælingar frá 18.öld eru öllu gisnari. Kannski getum við nýtt okkur töðufallið til ágiskana.

Brandsstaðaröðin (sláttarbyrjun) nær frá 1802 til 1857. Stundum nefnir Björn nákvæman dag, en stundum aðeins viku sumars. Síðasta sláttarbyrjun hans var 1835, 31.júlí, en sú fyrsta 1852, 8.júlí. Sömuleiðis hóf hann slátt snemma 1805 og 1842, eða 10.júlí. 

Við lítum á samsætuvik áranna 1780 til 1857. Þau segja okkur að kaldast hafi verið 1835 - en hlýjast 1786, en það ár þekkjum við engar hitamælingar hér á landi (nema illskiljanleg brotabrot frá Magnúsi Ketilssyni sýslumanni í Búðardal á Skarðsströnd). 

Næst giskum við á hitann beint út frá mæliröðunum þremur, hverri fyrir sig. Þá kemur í ljós að breytileiki áætlaða hitans er miklu minni heldur en þess mælda - en slíkt er alvanalegt. Að lokum búum við til 5-ára keðjumeðaltöl og berum saman. Þar sést bælingin vel.

w-blogg240421d

Blái ferillinn sýnir Stykkishólmshitann. Rauði ferillinn er „töðufallshitinn“, sá græni sýnir „sláttarbyrjunarhita“, en sá brúni „samsætuvikahita“. Það sem er sérlega athyglisvert er að hágildi og lággildi ferlanna eru ekki fjarri því að vera samtíma. Allir eru sammála um kuldakastið (skammvinna) á fjórða áratug 19.aldar og sömuleiðis er sæmilegt samkomulag um tvö tímasetningu næstu kuldakasta á undan, um 1825 og um 1810. Hitinn fer mjög neðarlega í því fyrsta - e.t.v. er hér um raunverulega villu í mati á Stykkishólmshitanum að ræða. - Alla vega má taka þetta sem alvarlega ábendingu þar um. Málið verður örugglega rannsakað nánar. 

Samsætuferillinn syndir í gegnum allt tímabilið á svipuðum slóðum - sýnir illa hlýskeiðið sem kom eftir 1840 - það skeið var örugglega hlýrra en það sem áður kom - alla vega hlýrra en tíminn fyrir 1820. Óljósara er með misræmið á 18.öld (áður en hitamælingarnar verða samfelldar). Þar virðist töðufallið vera minna heldur en hitinn sem samsætumælingarnar giska á. Búa má til skýringar á þessu misræmi. Það hefur t.d. sýnt sig að á 20.öld komu margra ára tímabil þegar mikið misræmi var á milli hitavika við strendur Grænlands og uppi á jöklinum - hugsanlega er hér um eitthvað slíkt að ræða. Hugsanlega gæti neikvæðra áhrifa Skaftáreldamóðunnar enn hafa gætt í heyfeng (og gróðurfari) áratug eða meira eftir gosið.  Eins gætu tún Jóns hafa verið marktækt minni heldur en síðar var. Ágiskanir sem sést hafa um hitafar á Íslandi - gerðar eftir hitafari í nágrannalöndum okkar í Evrópu - sýna tiltölulega hlýtt tímabil hér á landi í lok 18.aldar. Varlega skulum við þó trúa slíku - nema fleiri ábendingar berist - en við vitum þó að alls ekki voru öll ár vond.

w-blogg010221e

Hér reynum við að „eyða“ bælingunni. Það er gert með því að halda hitamælingakvarðanum eins og hann var (til hægri) - meðan við belgjum áætlanakvarðann út. Mælingakvarðinn nær frá 1 til 5 stiga, en áætlanakvarðinn til 2 til 4 stiga. Með þessu móti sjáum við tímasamræmi - og ósamræmi - betur en áður. 

Spurning hvort ritstjóri hungurdiska leggur nú í samantekt ritaðra heimilda um veðurfar á landinu á síðari hluta 18.aldar. 

Heimildir:

Brandsstaðaannáll, eftir Björn Bjarnason á Brandsstöðum: Húnavatnsþing I, útgáfu annaðist Jón Jóhannesson. Reykjavík: Sögufélagið Húnvetningur, Húnvetningafélagið í Reykjavík, 1941, 237 s.

Handrit á Landsbókasafni Íslands: ÍBR 81- 86 8vo.

Hitamælingar á ýmsum stöðum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 25
  • Sl. sólarhring: 137
  • Sl. viku: 1774
  • Frá upphafi: 2348652

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 1554
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband