Nokkrir kaldir dagar framundan

Eftir til þess að gera hlýja 2 til 3 daga virðist nú kólna aftur. Hlýindin náðu þó illa til Vestfjarða. Vonandi stendur kuldakastið þó ekki lengi. Á morgun, þriðjudag, breiðist norðanáttin yfir landið allt. Seint á miðvikudag kemur síðan nokkuð snarpur kuldapollur til okkar úr vestri, yfir Grænland.

w-blogg090522a

Myndin sýnir tilgátu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna í 500 hPa-fletinum á miðvikudagskvöld. Þá er miðja kuldapollsins skammt fyrir vestan land á leið austur fyrir. Mjög kalt er í honum miðjum, -39 stiga frost, þar sem mest er í rúmlega 5 km hæð. Það er í meira lagi á þessum árstíma. Eftir því sem pollurinn fer austar hlýnar þó í honum - og síðan er ekki óalgengt að spár sem þessar ýki kuldann lítillega. Þessi kuldapollur er búinn að vera í spánum í nokkra daga - en áhrif hans virðast þó verða heldur minni en gert var ráð fyrir í fyrstu. 

w-blogg090522b

Meginástæða þess að líklega fer heldur betur en á horfðist er að sjávarmálslægðin sem verður til við kuldapollinn (sú sem er yfir landinu á kortinu hér að ofan) og smálægð sem á kortinu er á hraðri austurleið fyrir sunnan land ná ekki saman yfir landinu - eins og fyrri spár voru um tíma að giska á. Þetta kort gildir á sama tíma og háloftakortið að ofan, kl.24 á miðvikudagskvöld, 11.maí. 

En hætt er við að næstu dagar verði kaldir. Fyrir norðan snjóar og jafnvel gæti orðið vart við snjókomu syðra. En framtíðarspár gera síðan ráð fyrir mjög hlýnandi veðri. Við treystum slíku auðvitað hóflega - en minnst er á 18 til 20 stiga hita. Hæsti hiti ársins á landinu til þessa er 18,6 stig sem mældust í Kvískerjum í Öræfum 26. mars - merkilegt að það skuli ekki hafa verið toppað í hinum nýliðna hlýja aprílmánuði. En apríl var á flestan hátt hógvær. 


Hugsað til ársins 1937

Árið 1937 var ekki ár mikilla tíðinda. Snjódýptarmet Reykjavíkur er þó frá þessu ári og menn minntust lengi óþurrka á Suður- og Vesturlandi þetta sumar, þó það félli síðar í skuggann af sumrunum 1955, 1983 og fleiri slíkum. Þrumuveður gerðu líka usla. Hæsti hiti ársins mældist 28,0 stig, í Möðrudal 25.júlí - en mælingin er ekki trúverðug. Mesta frostið mældist -27,3 stig, á Grímsstöðum á Fjöllum 18. mars. Sú mæling er trúverðug, sama dag mældist frostið á Akureyri -22,1 stig, óvenjulega mikið á þeim bæ - kannist nánar. 

Janúar var umhleypingasamur og snjóþungt var með köflum, febrúar var talinn óhagstæður og ógæftir miklar. Í mars var hagstæð þurrviðratíð á Suður- og Vesturlandi, en nokkuð snjóþungt norðanlands og austan. Úrkoma var sérlega lítil víða um vestanvert landið, mældist ekki nema 0,3 mm á Hvanneyri, 1,2 mm í Síðumúla og 7,0 mm í Reykjavík, það næstminnsta sem vitað er um þar í þeim almanaksmánuði. Meðalloftþrýstingur mánaðarins var líka með hærra móti. Í apríl var tíð talin hagstæð en úrkomusöm, þá var hlýtt í veðri. Maí var talsvert óhagstæðari. Í júní töldu menn tíð óhagstæða gróðri, þó hlýtt væri í veðri. Júlí var votviðrasamur, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Votviðrin héldust fram í ágúst, en þá var tíð talin góð norðaustanlands. Votviðrasamt var líka í september. Október var órólegur, en tíð hagstæð á Norður- og Austurlandi. Nóvember og desember voru hagstæðir, jörð víða alauð síðari hluta desembermánaðar. 

Við rifjum nú upp nokkra atburði með aðstoð blaðafregna og fleira.

Aðfaranótt 10.janúar sló eldingu niður í íbúðarhús á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd og olli miklu tjóni. Það var á öðrum bæ á ströndinni, Auðnum, sem eldingarslysið mikla varð í mars 1865 og lesa má um í pistli hungurdiska fyrir það ár. 

Alþýðublaðið segir frá þann 11.janúar:

Í fyrra kvöld gerði afspyrnurok og hvassvíðri um Reykjanes og suðvesturströndina. Ekki hefir þó ennþá frést um nein alvarleg slys af völdum óveðursins. Um miðnætti í fyrrakvöld [9.] var ofviðrið einna snarpast í Vestmannaeyjum, eða 10 vindstig. Hér í Reykjavík var stormurinn 9 stig og 5—6 stiga hiti. Um kl. 2 í fyrrinótt gekk í suðvestan átt og voru mjög harðar hryðjur, Vindhraði var hér um það leyti 11 stig. Í gær var skaplegt veður, útsynningur, en í morgun gekk í suðaustan ofsaveður og er vindurinn 9—11 stig. Símabilanir hafa ekki orðið miklar, smáslit hér og þar, en víðast samband; þó er Suðurlandslínan slitin milli Núpsstaða og Skaftafells, á Skeiðarársandi. Það er því ekkert samband við Austfirði um Suðurlandslínuna.

Í fyrri nótt kl.2 laust niður eldingu í íbúðarhúsið á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd. Húsið er úr steinsteypu, eign Guðjóns Péturssonar. Fólk sakaði ekki, en nokkrar skemmdir urðu á útveggjum hússins og þaki. Inni brotnaði í mola útvarpstæki og skápur, er það stóð á, og allt lauslegt í því herbergi kastaðist til og brotnaði og þiljur sviðnuðu og gluggatjöld brunnu. Enginn maður svaf í því herbergi. Víðar á húsinu urðu meiri og minni skemmdir.

Morgunblaðið 12.janúar - lýsir afleiðingum eldingarinnar á Brunnastöðum:

Eiríkur Einarsson, maður héðan að sunnan, er var á ferð þarna snemma á sunnudagsmorgun, hefir gefið Morgunblaðinu lýsingu á því, hvernig umhorfs var þarna þá. Fer frásögn hans hér á eftir. Skemmdir voru miklar á þaki hússins og útvegg, þiljur brotnar og þakið gengið inn, þakrennan hafði fallið niður og brunnið í sundur. Veggir voru víða sviðnir og holaðir, eins og eftir byssukúlur.Inni í húsinu var eldavél og útvarpstæki sundurtætt og brotið. Í stórum skáp í eldhúsinu var veggurinn allur sviðinn, og leirtau allt og önnur áhöld meira og minna brotin, eða færð úr stað. Þá voru gluggatjöldin mjög sviðin, og margt skemmt af sóti. Seytján rúður voru brotnar í húsinu, en á tveimur öðrum gluggum voru karmar sundurtættir. Um átta manns var í húsinu, þegar eldingunni laust niður: Guðjón Pjetursson og kona hans Margrét Jónsdóttir, ljósmóðir ,ásamt dóttur þeirra og tengdasyni, með 4 börn. Er það mikil mildi að enginn skyldi meiðast. Er svo heppilega vildi til, að enginn svaf í þeim hluta hússins, sem verst varð úti.

Slide1

Bandaríska endurgreiningin sýnir okkur aðstæður þrumuveðursins. Mikil lægð er á Grænlandshafi (giskað á 946 hPa í lægðarmiðju). Kortið gildir kl.6 á sunnudagsmorgni, 10. janúar. Skil hafa nokkrum klukkustundum áður farið yfir Vatnsleysuströnd og trúlega hefur þrumuveðrið gert í þann mund, frásagnir segja um kl.2. Þetta hefur verið myndarlegt þrumuveður því að 10 veðurstöðvar geta um þrumur þessa nótt. Níu þrumudagar voru í þessum mánuði. 

Nokkrum dögum síðar dró aftur til tíðinda. Óvenjumikla óvenjumikla snjókomu gerði, sérstaklega suðvestanlands. Lítum fyrst á frásagnir blaðanna: 

Nýja dagblaðið þriðjudag 19. janúar:

„Síðan ég kom hingað til bæjarins fyrir rúmum þrjátíu árum, man ég ekki eftir að hafi komið eins mikill og jafnfallinn snjór hér í bæ og nú", sagði bæjarverkfræðingurinn við Nýja dagblaðið í gær. Það er líka álit margra manna annar a að vart hafi komið hér meiri snjór í manna minnum. Dálítill snjór var fyrir á sunnudaginn [17.janúar], þá var rigning um morguninn, en nokkru fyrir hádegi kom afamikil lognhríð og hélst óslitið fram undir miðnætti. Um kvöldið var kominn svo mikill lognsnjór, að til stórvandræða horfði um alla umferð innanbœjar og utan. Var nær ófært 5 og 7 manna bifreiðum innanbæjar og því dæmi til þess að stórar bifreiðar væru teknar til innanbæjaraksturs. Gátu bifreiðastöðvarnar ekki fullnægt eftirspurninni og telja að ekki hafi nándar nærri svarað kostnaði að aka. Utanbæjar varð ófært minni bifreiðum, en strætisvögnum mun hafa tekist að halda uppi ferðum a.m.k. til Hafnarfjarðar fram til kl. 1 eftir miðnætti.

Í gær [18.janúar] unnu um 250 manns hér í bæ að snjómokstri og höfðu fjölda bifreiða til aðstoðar. Tókst að greiða fyrir umferð um aðalgöturnar og var bifreiðaumferð innanbæjar i sæmilegu lagi eftir því sem aðstæður voru til. Ófært var í gær að Lögbergi og situr þar tepptur einn strætisvagninn. Áætlunarbifreiðar komust ekki nema að Blikastöðum árdegis og að Grafarholti síðdegis. Til Hafnarfjarðar og eins „suður með sjó" var fært allan daginn stórum vögnum.

Búist var við í gærkvöldi, að ef renningur yrði í nótt muni bifreiðar ekki komast til Hafnarfjarðar i dag eða yfirleitt út úr bænum. Virtist veðurspá benda til að svo myndi fara. En til eru allmargir, sem ekki kvarta undan snjóþyngslunum. Það er skíðafólkið. Fjöldi manns var á skíðum i gær. Kunnugir menn telja, að þegar snjóinn leysi, eða sérstaklega, ef rignir í snjóinn, þá muni hætt við skemmdum af vatni í húsum inni og eins á götum úti hér í bæ. Þessvegna virðist full ástœða til að moka snjónum strax frá þeim stöðum, þar sem hætt er við slíku. Mikill snjór er nú „austan fjalls" og öll bifreiðaumferð algerlega stöðvuð. Önnur umferð er erfið. Á Hellisheiði er geysi snjór og eins ofan við Lögberg. Snjóbifreið, sem fór frá Lögbergi að Kolviðarhóli var 9 klst á leiðinni Er lognsnjórinn svo mikill að heita má ófært.

Hláka á Norðausturlandi. Í gœr [18.janúar] var austan hvassviðri og rigning með 4—5 stiga hita á Norðaustur- og Austurlandi. Snjór er þar litill og mun hafa minnkað til muna í gær. En allt útlit er fyrir að hér muni enn bæta á hinn mikla snjó. Samt var veður breytilegt sunnanlands í gær, sem sést best á því, að rigning var og slagviðri í gær hjá Sogi þótt hér væri stundum hríðarveður.

Alþýðublaðið 18.janúar:

Snjóþyngslin eru nú svo mikil hér í bænum, að þau hafa ekki orðið meiri á mörgum undanförnum árum. Í gærmorgun {17.janúar] var hér rigning, en um hádegisbilið byrjaði að snjóa og hlóð snjónum niður látlaust til kl. 11 í gærkveldi. Var þá komin svo mikil ófærð á götunum, að þær voru varla færar fyrir gangandi fólk eða bíla ,og varð fólk að vaða snjóinn á aðalgötunum jafnvel í mitt læri. Óvenjulegt var að sjá litlu húsin við Lindargötu með snjó i miðjar hliðar og bílana svo að segja kaffennta sums staðar.

Svo vill til að þó snjódýptarathuganir hafi verið gerðar reglulega í Reykjavík þennan mánuð er færsla þeirra í bækur eitthvað óregluleg. Með því að nýta heimildir í skeytafærslubók og annarri athugunarbók hefur þó tekist að ná gögnum saman fyrir allan mánuðinn.   

Þegar litið er á veðurkort þessa daga koma ástæður þessarar miklu snjókomu í ljós:

Slide2

Bandaríska endurgreiningin sýnir að mjög skörp en hægfara skil voru yfir landinu síðdegis sunnudaginn 17. janúar. Norðan skilanna var suðaustanátt, víða rigning og hláka, en sunnan þeirra og vestan var mjög mikill snjókoma í mjög hægum vindi - en aðeins á til þess að gera mjóu belti. Hægt er að tala um þessa stöðu sem sígilda. Svo virðist sem snjókomubeltið hafi verið það mjótt að lítið náði að snjóa vestan Hafnarfjarðar, en snjókoman náði hins vegar austur fyrir fjall. Á Úlfljótsvatni mældist snjódýptin mest 93 cm þann 20., en talsverður snjór var þar fyrir. Á Hvanneyri í Borgarfirði rigndi ýmist eða snjóaði, snjódýpt var ekki mæld þar, en athugunarmaður gefur til kynna að bleyta hafi verið í snjónum - og hann því væntanlega ekki eins fyrirferðarmikill og í Reykjavík. Austur í Hrunamannahreppi snjóaði ekki mjög mikið. 

Snjódýpt var mæld allan mánuðinn í Reykjavík, en færð sitt á hvað í tvær bækur, skeytabók og síðan almenna athugunarbók, nokkuð mál var að púsla þessum færslum saman, en mælingarnar virðast þó vera sannfærandi þegar upp er staðið, og ber vel saman við þær lýsingar sem komu fram hér að ofan. 

Alhvítt var í Reykjavík fyrstu 20 daga mánaðarins. Snjór var mikill fyrstu dagana, en minnkaði síðan áður en mesta snjókoman varð, var komin niður í 3 cm þann 11. Að kvöldi þess 20. gerði síðan afgerandi hláku og varð loks autt. Þann 15. fór að snjóa að ráði og að morgni 17. mældist snjódýptin 25 cm. Eitthvert hik hefur því miður verið á athugunarmanni þann 18. því 55 virðast hafa verið skrifaðir ofan í 45. Sé litið nánar á úrkomumælingar og veður virðist aðalsnjókoman hafa verið 16. og 17. Samfelld snjókoma hófst að kvöldi fyrri dagsins og stóð í u.þ.b. sólarhring. Eins og kom fram að ofan var snjódýptin 25 cm þann 17., síðan mældist úrkoman næsta sólarhring 24 mm.

Ekki er því ótrúlegt að 50 cm múrinn hafi verið rofinn strax þann 18. og 55 cm séu því rétt tala og met. En reyndar snjóaði dálítið, bæði síðari hluta dags 18. og 19. Vindur var fyrst fremur hægur af suðaustri, nærri skilunum, en síðan virðist mesti snjórinn hafa fallið í logni. Aðeins skóf síðari daga. Hiti var rétt við frostmark. Umferð nánast stöðvaðist og mjólkurskortur varð í bænum og í blöðum er talað um 50 til 60 cm jafnfallinn snjó.

w-blogg-hugsad_1937a

Myndin sýnir snjódýpt í Reykjavík (þegar alhvítt var) frá 1. janúar til 5. maí 1937. Mikill snjór var tvisvar í janúar. Allmikill um tíma um og fyrir miðjan febrúar, fáeinir cm um tíma í mars, þó 15 cm einn dag. Föl var nokkra daga í apríl og síðast varð alhvítt 3. maí, en aðeins 1 cm. 

Slide3

Kortið sýnir veður að morgni mánudagsins 18.janúar - þá er enn suðaustanátt með hlýindum á Norðaustur- og Austurlandi en heldur farið að draga úr snjókomunni kuldamegin skilanna. Á Stórhöfða er norðanstrekkingur og -2 stiga frost. Lægðin sem á yfirlitskortinu hér að ofan var nokkuð fyrir sunnan land hefur nálgast - miðja hennar er skammt suður af Öræfum. 

Nokkurn tíma tók að koma umferð á réttan kjöl eftir snjókomuna. 

Nýja Dagblaðið 28.janúar:

Umferð yfir Hellisheiði, sem tepptist nær með öllu í síðustu snjóum, er nú hafin að nokkru attur. Hefir nú verið gert vel bílfært að Kolviðarhóli. Voru 28 menn við snjómokstur á veginum þangað í þrjá daga fyrir og eftir helgina [sunnudagur 23]. Þegar mokstrinum var lokið, fór umferð aftur að aukast yfir Hellisheiði. Á annað hundrað manns kom að austan yfir heiðina i fyrradag og að Kolviðarhóli. Snjóbifreiðar ganga þaðan og a Kambabrún. Flytja þær nokkuð af mjólk en mest mun flutt á sleðum. Öðrum bifreiðum er heiðin ófær. Þó komst litt hlaðin bifreið alla leið yfir heiðina nýlega. þræddi hún hina hörðu slóð snjóbifreiðanna. þótti þar vel hafa til tekist. Bifreiðasamgöngur, eru sæmilegar víðast um Suðurlandsundirlendið og upp á Kambabrún.

Í blaðinu hafði áður komið fram að lítið hafði snjóað vestan Hafnarfjarðar - og vegur til Keflavíkur ekki teppst að ráði.

Leysingar náðu til Austurlands og ollu flóði í Lagarfljóti:

Morgunblaðið segir frá skemmdum á Lagarfljótsbrúnni 29.janúar:

Lagarfljótsbrúin er nú ófær öllum farartækjum og jafnvel gangandi mönnum. Vegna aðstöðu verður aðgerð á brúnni ekki lokið fyrr en lækkar í f1jótinu, en gangfært verður yfir mjög fljótlega (segir í tilkynningu frá vegamálastjóra). Það var austasti stauraokinn undir brúnni, sem brotnaði á föstudagsnótt í óvenju miklum vatnavöxtum og ísreki og féll þá niður í fljótið annar endinn á gólfpallinum á austasta opinu, en hinn endinn situr á landstöplinum. Fljótið er þarna grynnst og venjulega þurr farvegurinn, og þessi oki er sá eini sem ekki er varinn með sterkum ísbrjót. Hefir það ekki komið að sök þau full 30 ár, sem brúin hefir staðið.

Síðustu helgi mánaðarins var blíðuveður sem notað var til skíðaiðkunar.

Morgunblaðið 2.febrúar:

Fjöldi bæjarbúa notaði góða veðrið til skíðaferða um helgina [31. janúar, sunnudagur], og er talið, að alls hafi 3-4 hundruð manns verið á skíðum á sunnudaginn, á Hellisheiði, í Bláfjöllum, í Skálafelli í Esju og víðar. Margt skíðafólk fór þegar á laugardaggkvöld og gisti í skíðaskálunum. Veður var dásamlegt á fjöllum, glampandi sólskin lengi dags og kyrrt veður, þó er sól enn svo lágt á lofti, að hún er ekki orðin verulega sterk, en þess verður ekki lengi að bíða og þá renna upp bestu dagar skíðamannsins, er hann kemur aftur kolbrúnn af sól í bæinn, eftir eins dags skíðaferð.

Snemma í febrúar urðu miklar símabilanir í ísingarveðri:

Morgunblaðið lýsir þeim 9.febrúar:

Samkvæmt fregn, sem póst- og símamálastjóra hefir borist frá umdæmisstjóranum í Seyðisfirði, hafa orðið allmiklar símabilanir af völdum ísinga á Austurlandi: Símalínur milli Bakkafjarðar og Vopnafjarðar féllu niður á löngu svæði á Sandvíkurheiði, eða af 44 staurum á svæði línumannsins á Hámundarstöðum, en fregnir voru ekki komnar um skemmdir Bakkafjarðarmegin. Sunnan í Búrfelli milli Vopnafjarðar og Fagradals, brotnuðu að minnsta kosti 3 staurar og línan milli Fagradals og Ketilsstaða féll niður á löngu svæði og Gönguskarðinu milli Unaóss og Njarðvíkur féllu niður línur á nokkru svæði. ... Í Króardal milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar féll línan niður af 10—15 staurum. Er nú unnið að viðgerðum á öllum svæðum og hefir tekist að halda símasambandinu að mestu leyti nothæfu. Á aðfaranótt laugardagsins [6.febrúar] var einnig allmikil ísing á Suðurlandsundirlendinu og féllu niður Vestmannaeyjalínurnar á öllu svæðinu frá Hólum í Landeyjum að sæsímanum í Landeyjasandi, og varð á þann hátt talsímasambandslaust við Vestmannaeyjar á laugardaginn.

Hvassviðri olli vandræðum í Keflavíkurhöfn (rétt einu sinni) þann 26.febrúar og um svipað leyti féll snjóflóð vestur í Arnarfirði: 

Morgunblaðið 26.febrúar:

Í nótt rak vélbátinn Höfrung á land í Keflavík. Brotnaði báturinn mjög á annarri síðu. Höfrungur var á leið frá Reykjavík til Vestmannaeyja með vörur, en hafði leitað til Keflavíkur undan óveðrinu. Magnús Guðmundsson skipasmiður úr Reykjavík var fenginn hingað suðureftir til að reyna að ná bátnum út. Austan rok hefir verið hér í þrjá sólarhringa og hefir veðrið ollið ýmsum smáskemmdum á bátum. Þegar rokið skall á á þriðjudaginn [23.] voru allir bátar á sjó. Er þeir komu að gátu þeir ekki landað aflanum fyrir óveðri og lögðust flestir undir Hafnargarðinn. En hafnargarðurinn er alltof lítill fyrir alla þá báta sem ganga frá Keflavík. Sex bátar fluttu sig þess vegna til Hafnarfjarðar og þrír inn á Voga. Í nótt lágu 12—14 bátar við garðinn og skemmdust þeir allir meira eða minna, en enginn þó svo mikið, að draga þurfi á land. Austanrok er versta veður sem kemur í Keflavík.

Morgunblaðið hefur þann 27.febrúar eftir Fréttastofu útvarpsins:

Snjóflóð féll aðfaranótt fimmtudags [25.febrúar] á Álftamýri í Arnarfirði og reif þar burtu túngirðinguna á nokkru svæði, braut þakið af kúahlöðunni, tók þakið af fjósinu og fyllti fjóstóftina fönn. — Kýrnar náðust þó lifandi, en tvö lömb, sem voru í fjósinu, voru dauð, er til þeirra náðist. (FÚ.).

Eins og áður sagði var mjög þurrt um vestanvert landið í mars, þráviðrasamt var og veðri misskipt á landinu.

Húsavík í mars (Benedikt Jónsson frá Auðnum):

Þótt sjaldan væru grimmdarveður og aldrei eiginlegar stórhríðar, þá var veðráttan þó mjög óhagstæð, umhleypingar og slitringshríðar og logndrífur á víxl. Allan mánuðinn að mestu haglaust um allt héraðið, meira vegna margfaldra áfreða en snjódýptar.

Reykjahlíð í mars (Gísli Pétursson):

Allan marsmánuð var fremur hæg veðurátta, óvenjulega margir logndagar. Snjókoma mikil og snjór var orðinn mjög mikill, þegar brá til suðaustanáttar og þíðu 29. mars. Sauðfé var beitt hér fleiri daga mánaðarins, en það var eini bærinn hér í sveit, sem beitt var á, og jafnvel í allri sýslunni. Frost varð oft mjög mikið hér og allmiklu hærra en útvarpað var „sem mesta frosti á landinu“ og er það ekkert óvinalegt hér.

Reykjanesviti í mars (Jón Á. Guðmundsson):

Sérstaklega bjart og gott veður. Þó nokkuð kalt. Gæftir ágætar og afli sæmilegur í net og ef beitt var loðnu. En hún var mjög mikil, einkum hér í röstinni. Beit var sæmileg þó jörð væri þurr og frosin.

Óhöpp urðu á sjó um mánaðamótin mars/apríl: Þann 30. mars fórust tveir menn í lendingu á báti við Djúpavog og 1. apríl strandaði breskur togari við Stokkseyri, öll áhöfnin fórst.

Þó nokkra hríð gerði snemma í maí. Alhvítt varð víðsvegar um land, nema allrasyðst. Snjódýpt fór í 58 cm í Kjörvogi á Ströndum, en eitthvað af því munu hafa verið fyrningar úr fyrri mánuðum. 

w_1937-05-03a

Kortið sýnir hríðarveðrið 3. maí. Frost og hríð um mestallt land. Þann 18. eða 19. maí fórst vélbátur frá Súðavík og með honum fjórir menn. Fleiri bátar lentu í vandræðum. 

Lítilsháttar hafís kom að landinu í júní. Þann 28. var hann kominn að Selskeri í Húnaflóa og sá ekki út fyrir hann þar um slóðir. 

Morgunblaðið 1. júlí:

Hafíshröngl er ennþá meðfram Ströndum og alla leið inn á Húnaflóa. Grynnri ísspöngin er, eftir því sem skipshafnir á síldveiðiskipum sem komu til Siglufjarðar, sögðu í gær, komin alla leið upp undir Gjögur, en siglingarleiðin er þó nokkurn veginn íslaus. Aðeins einstakir jakar hafa sést á þeirri leið.

Morgunblaðið 4.júlí:

Fréttaritar Morgunblaðsins á Siglufirði símaði í gær að bleytuhríð hefði verið á Siglufirði í gær og fjöll öll alhvít af snjó niður í miðjar hlíðar.

Blöðin á þessum árum voru full af síldveiðifréttum. Afkoma þjóðabúsins réðist mjög af árangri síldveiðanna. Þær voru aftur á móti talsvert háðar veðri. Bátar voru smáir og veiðar útilokaðar í strekkingsvindi eða meira. 

Morgunblaðið 16.júlí:

Nóg síld virðist vera allstaðar fyrir Norðurlandi, en illviðri hamla stöðugt veiðum svo til stórvandræða horfir. Veiðiveður var slæmt á síldarmiðum í gærdag, norðaustan bræla og þokusúld. ... Til Siglufjarðar bárust alls um 8000 mál síldar frá því í fyrradag og þar til í gær. Var það afli 20 skipa sem öll höfðu verið að veiðum á Siglufirði. Hin stöðuga ótíð er farin að gera menn vondaufa um að síldveiði verði í meðallagi í ár, hvað þá fram yfir það.

Þurrir og góðir dagar komu um landið sunnan- og vestanvert fram eftir júlí, en heyþurrkar voru samt stopulir og sláttur hófst seint sökum slakrar sprettu. 

Nokkrir góðir daga komu suðvestanlands í júlí - hér er lýsing á einum þeirra.

Morgunblaðið 24. júlí:

Aldrei á þessu sumri hefir verið slíkur mannfjöldi í sól og sjóböðum í Skerjafirði eins og í gærdag. Mestur hiti sem mældist í sjónum í Skerjafirði í gær, var 25 stig á Celsius. Var það í fjöruborðinu á aðfallinu. Langt úti í firði var sjávarhitinn 14 stig. Giskað er á að 600—700 baðgestir hafi veríð í Skerjafirði í gær. Notið sjóinn og sólskinið.

Í lok júlí gerði miklar rigningar á Austfjörðum og Suðausturlandi. Selá í Geithellnahreppi braust fram og bar gjót og leir á stór svæði á engjum. Ár flóðu yfir bakka sína í Hornafirði og ollu heysköðum. Byrjað var að mæla úrkomu við Berufjörð árið 1873 og reyndist úrkoman í júlí 1937 sú mesta í þeim mánuði þar fram að þeim tíma, 256,1 mm, um fjórföld meðalúrkoma (eins og meðaltalið var þá). Síðan hefur úrkoma í júlí nokkrum sinnum mælst ámóta eða lítillega meiri. 

Sumrin 1937 og 1938 voru gerðar mælingar í Hvítárnesi við Hvítárvatn. Þetta munu vera fyrstu formlegu mælingarnar sem gerðar voru í óbyggðum Íslands. Áður hafði þó verið athugað í heilan vetur á Jökulhálsi við Snæfellsjökul, 1932-33. Stöðin í Hvítárnesi var talin vera í 425 m hæð yfir sjó. Það er reyndar lægra en athugunarstöðin í Möðrudal. Hún er í um 450 metra hæð - en er auðvitað í byggð. Á þessum árum var skipulega verið að taka loftmyndir af hálendi Íslands vegna landmælinga og kortagerðar og var stöðin starfrækt vegna þessa. Athuganir voru sömuleiðis auknar á ýmsum stöðum öðrum í nágrenni hálendisins.

Árið 1937 var athugað 7. júní til og með 7. september. Fjórar athuganir á dag og sendar sem skeyti niður að Geysi þar sem þau voru símsend til Veðurstofunnar. Mestan hita mældi Jón 11. júlí, 18,4 stig, en -2,4 stiga frost aðfaranótt 4. júlí. Þann 11. júlí mældist einnig hæsti hiti sumarsins í Reykjavík, 20,4 stig. Ekkert frost mældist í Hvítárnesi frá upphafi mælinganna í júní til loka mánaðar og í ágúst var aðeins ein frostnótt, þann 19. Þá mældist frostið -1,0 stig. Ekkert frost mældist þá viku sem athugað var í september. Athuganirnar gerði Jón Jónsson, sá sem síðar varð fiskifræðingur og forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar.

Í júlískýrslu sinni ritar Jón:

Fréttir eru héðan fáar, nema að hingað er stöðugur ferðamannastraumur, bæði útlendingar og innlendir ferðamenn. Skemmdir af völdum óveðurs hafa hér engar orðið nema ef helst skyldi telja að undanfarna daga hefi ég ekkert heyrt í Geysi vegna lofttruflana. En þetta lagast vonandi bráðum því síminn sendi hingað mann til þess að lagfæra þetta; annars hefur sambandið við Geysi alltaf verið í sæmilega góðu lagi. Annað er hér fátt að frétta; jörð er hér alauð og snjór að mestu farinn úr fjöllum. Úr skriðjöklinum hrynur jafnt og þétt, en seinni hluta mánaðarins hafa þó verið mjög fáir jakar á vatninu. Undanfarna daga hefur verið hér mikil rigning, svo mikill vöxtur hefur hlaupið í ár hér; Fúlakvísl hefur brotið af sér brúna, sem var sett á hana núna nýlega og flæðir nú töluvert yfir bakka sína. Vegur er nú kominn á Hveravelli og Ferðafélagið vígði veginn á sunnudaginn var. Fleira er nú ekki í fréttum að sinni. Kær kveðja - Jón.

Í ágústbyrjun eykst þungi rigningasumarsins:

Morgunblaðið 5. ágúst:

Til stórvandræða horfir víða í sveitum, einkum austan til á Suðurlandi, vegna hinna langvarandi óþurrka. Verst er ástandið í austurhluta Rangárvallasýslu (frá Hvolhreppi), í Vestur-Skaftafellssýslu og vesturhluta Austur-Skaftafellssýslu. Á öllu þessu svæði má segja að varla sé kominn baggi í hlöðu, og er nú komið fram í ágústmánuð. Sláttur byrjaði að þessu sinni nokkuð seint hér syðra, vegna þess að bændum þótti illa sprottið. En frá 20.—25. júlí mun sláttur almennt hafa byrjað, en síðan hefir enginn þurrkdagur komið hér austan til á Suðurlandi. Liggur því taða bænda a á þessu svæði nú undir skemmdum, og sumstaðar er taðan svo hrakin, að hún er að verða ónýt sem fóður. Hér horfir því til stórvandræða. Verst er ástandið, eins og fyrr segir, í austurhlut a Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og vesturhluta Austur-Skaftafellssýslu. En ástandið er enganveginn gott hér vestan til á Suðurlandi, í Borgarfirði, á Vesturlandi og Norðurlandi, austur að Skagafirði. Þurrkdagar hafa verið fáir á þessu svæði og hey hrakist víða, og hirðingar ekki góðar. Og nú upp á síðkastið hafa engir góðir þurrkdagar komið á öllu þessu svæði, svo að þar er útlitið ekki gott, ef ekki breytir um til batnaðar hið skjótasta. Austan til á Norðurlandi (frá Skagafirði) og á Austurlandi hefir tíð verið góð undanfarið og sláttur gengið vel það sem af er.

Morgunblaðið 12. ágúst:

Mikill hluti af töðu bænda á öllu Suður- Suðvestur- og Vesturlandi liggur undir skemmdum, vegna hinna langvarandi óþurrka, sem gengið hafa að heita má óslitið síðan sláttur byrjaði. Eina uppstyttan, sem komið hefir var um síðustu helgi (8. ágúst), en hún stóð skamma stund, eða víðast hvar aðeins sunnudaginn. Á Suðvestur- og Vesturlandi kom rigningin aftur strax á mánudagsmorgun (9. ág.), hér austan fjalls upp úr hádegi, en í Skaftafellssýslu hélst að mestu þurrt allan mánudaginn. Uppstyttan gagnaði því Skaftfellingum ofurlítið betur, en þeir höfðu heldur ekki neinni tuggu náð inn áður.

Morgunblaðið 21. ágúst:

Bændur á óþurrkasvæðinu náðu inn miklu af heyjum á þriðjudag [17.] og miðvikudag, því að þá var víðast hvar sæmilegur þurrkur og sumstaðar ágætur. En þessir tveir þurrkdagar nægðu þó ekki til þess að ná inn öllu, sem losað var, enda var orðið feikna mikið úti af heyjum á öllu Suður- og Vesturlandi. Þessir tveir þerridagar löguðu þó mikið fyrir bændum á óþurrkasvæðinu, en útkoman á heyskapnum er og verður alltaf mjög slæm. Hey eru yfirleitt hrakin og léleg til fóðurs.

Morgunblaðið 26. ágúst:

„Síðastliðinn sólarhring hefir verið vont veður og snjóað niður í miðjar hlíðar", símar fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði í gær. Ennfremur símar hann: „Mörg skip leituðu hafnar vegna veðurs og sögðu mikinn sjó úti fyrir. Stöðva varð löndun á Siglufirði í nótt er leið vegna illveðurs, en byrjaði aftur á hádegi“.

w-1937-sildarskeyti-fra-grimsey-13-14-agust

Í ágúst sendi Matthías Eggertsson veðurathugunarmaður í Grímsey svokölluð síldarskeyti til Siglufjarðar þrisvar á dag. Í þeim voru upplýsingar um veður, skipaferðir - og síld, ef hún sást. Upplýsingarnar voru lesnar í útvarp fyrir síldveiðiflotann (hvort það hefur verið í Ríkisútvarpið eða aðeins í gegnum loftskeytastöðina á Siglufirði veit ritstjóri hungurdiska ekki). 

Ingibjörg Guðmundsdóttir í Síðumúla segir af sumarmánuðunum tveimur 1937, júlí og ágúst. Aðfaranótt þess 4. júlí var köld, þá fraus víðar en í Síðumúla.

Júlí: Fyrstu dagar mánaðarins voru kaldir, sérílagi næturnar. Aðfaranótt þ. 4. sýndi lágmarksmælirinn 0,2 stig frost. Eftir það hlýnaði í veðri og grasið tók að spretta. Um miðjan mánuðinn byrjaði almennt sláttur hér í grennd, sumstaðar fyrr. (Grasspretta er í lakara lagi, en er að batna). Þá var um tíma sæmileg veðrátta, svo að hægt var að þurrka hey, en alla síðastliðna viku var þerrilaust og oft nokkur rigning. Aldrei tók svo af heyi að væri snúið flekk. Er því allstaðar úti, meira en vikuheyskapur í ljá og flötum flekkjum. Í dag (1.8.) er súld og rigning og ófært veður til að skemmta sér úti.

Ágúst: Allan ágústmánuð út var samfelld votviðratíð. Einir 3 dagar mánaðarins voru úrkomulausir. Eftir miðjan mánuð voru nokkra daga þurrkflæsur, þó með smáskúrum. Var þá víða náð inn nokkru af illa þurri hrakinni töðu. Síðan hefir ekkert náðst inn hér, en mikið úti af töðu og útheyi, föngum, sætum, flekkjum og ljá. Engjar eru orðnar dável sprottnar, en víðast flóandi í vatni. Háin er illa sprottin.

Dómar um ágústmánuð voru mjög ólíkir norðaustanlands og á Suðvesturlandi.

Fagridalur í Vopnafirði í ágúst (Oddný S. Wiium):

Tíðin afbragðsgóð og hagstæð bæði á sjó og landi.

Sámsstaðir í ágúst (Klemens Kr. Kristjánsson):

Mánuðurinn raka- og rigningasamur með óvenjuköldu tíðarfari. Svo að segja engir þerrar. Sólarlítið og hráslagalegt veður frá byrjun til enda mánaðarins. Olli þetta tíðarfar miklum skemmdum á heyjum. Töður hröktust mikið og allt annað. ... Tíðarfarið hið óhagstæðasta sem verið getur og ólíkt því sem elstu menn muna.

Í ágústlok kom mikil lægð að landinu úr suðri og olli hvassviðri víða um land og óhemjurigningu á Suðaustur- og Austurlandi. Tjón af skriðuföllum varð í Eskifirði og einnig mun í Norðfirði. Blaðafregnir greina frá:

Þjóðviljinn 3. september:

Á Austurlandi gerði aðfaranótt 1. þessa mánaðar stórrigningu af austri. Olli hún miklum vatnavöxtum, og féllu við það skriður úr fjöllum. Fréttaritari útvarpsins á
Eskifirði símar í dag: Í fyrri nótt gerði aftaka rigningu af austri og hélst hún fram á kvöld í gær. — Þegar fram á daginn leið tóku að falla skriður úr Hólmatindi. Féllu 2 allstórar skriður um miðja Hólaströnd en gerðu ekki annað tjón en að stöðva umferð um veginn. Þriðja og mesta skriðan féll skammt fyrir innan fjarðarbotn á tún þeirra Kristjáns Tómassonar og Péturs Jónassonar og eyddi því að mestu — en það er nýrækt, 60 hesta tún aðallega sáósléttur og þaksléttur. Huldust þær gjörsamlega aur og stórgrýti. Hólmamegin féllu úr tindinum að sunnan tvær skriður. Féll önnur þeirra vestan við svonefnda Illukeldu, og eyddi 120 metra breiðri engjaskák frá þjóðvegi og niður að nýrækt. Ennfremur kom hlaup í bæjarlækinn á Hólmum. Stöðvaðist það við brú á læknum og bar aur og leðju inn á túnið. Tókst að rjúfa brúna svo að lækurinn fékk framrás og urðu skemmdir minni en á horfðist í fyrstu.

Morgunblaðið 2. september - segir af rigningu í Norðfirði:

Óhemju rigningarveður hefir verið hér í dag, og urðu stórhlaup í öllum lækjum, sem orsakað hefir flóð í kauptúninu. Miklar skemmdir hafa orðið á vegum og matjurtagörðum af vatnsflóðunum. Uppfyllingar og brýr í Miðstræti sprengdi vatnið fram. Stór upphleðsla yfir Franskagil sprakk og rótaðist fram alla leið til sjávar. Meiri hluti gatna í bænum eru ófærar vegna flóða. Sumstaðar er hnédjúp aurbleyta. Stórhætta er á frekari skemmdum við Strandgötu, ef ekki styttir upp. Þá hafa orðið miklar skemmdir á túni Sigfúsar Sveinssonar, því flóð hefir borið aur yfir alt túnið. Flóðin hafa rifið upp kartöflur úr görðum og borið þær langar leiðir. Má víða sjá kartöflur á götunum. Sumstaðar barst aurleðja inn í kjallara á húsum, en unnið hefir verið að því að verja hús, með því- að veita flóðunum frá þeim. Á einum stað komst aurleðjan upp að gluggum á pakkhúsi, en þó tókst að verja húsið frá skemmdum, með því að moka frá húsinu og grafa nýja farvegi fyrir vatnið. Mest var rigningin klukkan 11—1, en fór heldur minnkandi, er leið á daginn.

Slide7

Hvassviðrið olli allmiklu heyfoki á Suðurlandi. Kortið sýnir veðrið að morgni 1. september. Örin bendir á veðurathugunarstöðina í Hvítárnesi. Hlýtt er um landið suðvestanvert í austræningnum, en mikil rigning austan- og suðaustanlands. Lesa má úrkomutölur næturinnar, þær standa neðst til hægri við stöðina, eining heilir mm. Stækka má kortið. 

Eins og fram kom hér að ofan aðstoðaði Veðurstofan loftmyndatökumenn sumarið 1937 með aukningu veðurathugana. En vegna úrkomutíðar gekk myndatakan ekki sérlega vel. 

Morgunblaðið segir frá henni 12. september:

Starfi landmælingamannanna sem unnið hafa að því að taka myndir af hálendinu úr lofti, er lokið að þessu sinni. Var vonast eftir því, að hægt yrði á þessu sumri að ljúka myndatöku af þessum 20.000 ferkílómetrum, sem ómældir eru. En sífeld dimmviðri og ótíð hafa valdið því, að þetta tókst ekki, enda þótt flugmennirnir hafi notað hverja stund sem hægt var til myndatöku-flugsins.

Þann 14. október ræðir Morgunblaðið við Klemens á Sámsstöðum um kornrækt sumarsins:

Blaðið hefir átt tal við Klemens Kristjánsson tilraunastjóra á Sámsstöðum, og spurði hann hvernig uppskera hans hefði orðið í haust. Það er alt á góðri leið núna, sagði Klemens, ég er búinn að fá alt kornið í stakka. — Hve mikla kornuppskeru býst þú við að fá í haust? — Einar 70—80 tunnur. — Meira verður það ekki, því kornið spillist svo mikið í ofviðrinu 31. ágúst. — Hvernig þroskuðust korntegundirnar í sumar? — Þær þroskuðust allar, þó þetta væri hið kaldasta, úrfellasamasta og sólarminnsta sumar, síðan ég byrjaði á kornræktartilraunum árið 1923 — En samt náði kornið fullum þroska? — Já, bæði tvíraðaða byggið, hafrarnir og rúgurinn, að ógleymdu sexraðaða bygginu, sem alltaf er mín aðal-korntegund. — Hve mikið færð þú af rúgi? — Ég hafði rúg í einni dagsláttu, en fæ ekki nema þrjár tunnur, vegna þess .hve sumarið var slæmt. — Og grasfræið? — Það var með minna móti vegna kuldanna og votviðranna, en það þroskaðist.

Seint í september varð annað alvarlegt eldingaratvik.

Morgunblaðið segir af því þann 15.október:

Eldingu laust niður hjá bænum Lunansholti á Landi þann 29. fyrra mánaðar [september]. Drap eldingin tvær kindur og reif upp þúfu, sem hún lenti í. Maður, sem úti var er eldingunni laust niður, féll við loftþrýstinginn, en bærinn lék á reiðiskjálfi Eldingunni laust niður að morgni dags fyrrnefndan dag. Gengu þá snarpar hryðjuskúrir úr suðri og útsuðri með þrumum. Ein þruman var fáum þrumum lík — einna líkust geysisterkri fallbyssudrunu, sem hjaðnar allt í einu. Með þessari þrumu kom eldingin. Bóndinn í Lunansholti var staddur úti við bæ og féll hann á hné af loftþrýstingnum, eins og fyrr er sagt, og kenndi á eftir undarlegs svima. Kindurnar, sem drápust er eldingunni laust á þær, voru ær með lambi sínu. Eldingunni hafði lostið í ána og sviðið alla ull af hrygglengjunni, en lambið hitti hún fyrir framan bóg og einkum þó á höfuðið. Ullin, sem sviðnað hafði af eldingunni, var blásvört að lit. (Samkv. Fréttastofu Útvarps;)

Slide6

Veðurkort bandarísku endurgreiningarinnar sýnir stöðuna í háloftunum eldingadaginn 29. september. Mikil og köld háloftalægð er skammt vestan við land og skilyrði til þrumuklakkamyndunar ákjósanleg. 

Talsvert illviðri gerði 16. til 17. október með minniháttar tjóni:

Morgunblaðið segir frá þann 19. október:

Um helgina gerði suðvestan storm um alt Suðvestur- og Austurland. Veðurhæð var þó hvergi meiri en 10 vindstig hér sunnan lands t.d. í Vestmannaeyjum. Veður tók að hvessa hér aðfaranótt sunnudags [17.] og var vindur fyrst suðaustlægur, en gekk síðan til vesturs. Stormsins gætti lítið sem ekkert á Norðurlandi, en eftir upplýsingum Veðurstofunnar náði hvassviðrið alla leið milli íslands og Noregs og til Hjaltlandseyja. Ekki hefir frést af neinu verulegu tjóni, sem orsakast hafi af veðrinu beinlínis. Á sunnudagsmorgun voru menn farnir að óttast um tvo báta. Línuveiðarinn Fjölnir var á leið frá Þingeyri með farþega til Reykjavíkur. Hann lá af sér mesta veðrið við Sand á Snæfellsnesi. Vélbáturinn „Víðir" frá Vestmannaeyjum var á leið frá Reykjavík til Vestmannaeyja. Hann komst til Njarðvíkur og var þar meðan versta veðrið stóð yfir. Tvö farþegaskip, „Lyra" og „Dronning Alexandrine" voru á leið til landsins og töfðust þau bæði vegna veðurs. „Dronning Alexanddrine" lá til drifs í sólarhring. Sjór kom á skipið, sem beygði bátsuglur og braut björgunarbáta. Skipið kom í gærmorgun til Vestmannaeyja og var væntanlegt hingað snemma í morgun. Lyru seinkaði einnig um sólarhring og er væntanleg hingað í dag. Hér í Reykjavíkurhöfn urðu dálitlar skemmdir á vélbátum sem slógust saman í rokinu, þar sem þeir voru bundnir við bryggju.

Eins og þegar er fram komið var tíð hagstæð í nóvember og desember og fékk góða dóma veðurathugunarmanna.

Ingibjörg í Síðumúla segir frá nóvembermánuði:

Í nóvembermánuði hefir verið einmunagóð tíð, stilt og mild og hin ákjósanlegasta. Jörð er kalla má auð. Skaflar aðeins í giljum og djúpum lautum. Bílar ganga enn hiklaust milli Borgarness og Sauðárkróks. Hross og fé gengur sjálfala núna, en hefir verið hýst, svo sem vikutíma.

Hér eru tvö dæmi um desemberdóma: 

Hamraendar í Dölum í desember (Guðmundur Baldvinsson):

Desembermánuður hefur verið óvenju góður, hlýindi og fremur úrkomulítið. Um miðjan mánuð gjörði töluvert frost, en það hélst aðeins stuttan tíma. Enn er töluverður gróður frá liðnu sumri. Þetta er sá besti desember sem fullaldra menn þykjast muna.

Reykjahlíð við Mývatn í desember (Gísli Pétursson):

Desember-mánuður var með afbrigðum góður svo elstu menn muna varla annað eins.

Enn höfðu menn áhyggjur af hafís:

Morgunblaðið segir 1. desember:

Talsverður hafíshroði er 12 sjómílur út af Deild, Stigahlíðarhorni. Í gœr var vélbáturinn „Kveldúlfur", frá Hnífsdal á þessum slóðum, en gat ekki lagt allar lóðir sínar sökum íss. Skipverjar sáu marga togara halda til lands frá djúpmiðum. Afli hefir verið góður hér við Djúp undanfarið og tíðarfar ágætt.

Þann 17. fauk af kirkju í Ólafsvík, stúlka lá úti á Fróðárheiði, en bjargaðist, á aðfangadag lentu bátar úr Höfnum í hrakningum og á jólanóttina strandaði breskur togari við Gerðar, mannbjörg varð.

Hér lýkur þessari lauslegu yfirferð hungurdiska um árið 1937 - tölur má finna í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aðeins meira af apríl

Við lítum á stöðuna í háloftunum í apríl. Kort að vanda frá evrópureiknimiðstöðinni í gerð Bolla P. 

w-blogg020522a

Gæðalegur hæðarhryggur var við landið. Hlýindi fyrir vestan hann, en kalt austur í Skandinavíu. Afskaplega æskileg vorstaða hér á landi. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin sýnd með daufum strikalínum. Litir sýna þykktarvikin. Mesta jákvæða vikið er við austurströnd Grænlands, um 80 metrar. Samsvarar það því að hiti sé um 4 stigum ofan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs, en minna þó við yfirborð. Hér er miðað við tímabilið 1981 til 2010. Vikið væri minna ef við miðuðum við síðari ár. 

Í apríl í fyrra var vestanátt háloftanna heldur stríðari, mestu jákvæðu þykktarvikin voru þá vestar en nú, en enn ákveðnari. Neikvæðu vikin yfir sunnanverðri Skandinavíu voru þá enn meiri en nú. 

Til gamans leitum við að nánum ættingja í hópi liðinna aprílmánaða - og finnum apríl 1978. 

w-blogg020522b

Við sjáum líka hæðarhrygg - svipaðan yfir landinu, en samt í heildina mjórri en þann sem var í apríl nú. Jákvæðu vikin eru á svipuðum slóðum og nú - en þau neikvæðu víðáttumeiri, þó miðað sé við tímabilið 1901 til 2000. Ritstjóri hungurdiska var erlendis í apríl 1978 og því er þessi mánuður honum ekki minnisstæður. Segir þó í heimildum að hann hafi verið hagstæður, en mjög þurrt hafi verið víða austanlands. Úrkoma mældist ekki nema 2,1 mm allan mánuðinn á Egilsstöðum og engin við Grímsárvirkjun (en mælingar þar teljast nokkuð óvissar), 1,1 mm mældust á Dratthalastöðum. Það er sárasjaldan sem úrkoma mælist jafnlítil á þessum slóðum. Snemma í mánuðinum urðu miklir vatnavextir á sunnanverðum Vestfjörðum og á Norðurlandi. 

Tíð var talin óhagstæð í maí 1978 - en ekki vitum við enn neitt um maí 2022. 


Hlýr og hægur apríl

Apríl var öfgalaus mánuður, en bæði hlýr og hægviðrasamur. Bráðabirgðatölur benda til þess að hann sé sá hægviðrasamasti í meir en 30 ár og jafnframt í hópi þeirra hlýrri á öldinni. Röðun í sæti er að vísu nokkuð misjöfn eftir landsvæðum.

w-blogg010522a

Að tiltölu var hlýjast við Faxaflóa. Er mánuðurinn sá þriðjihlýjasti á öldinni, en raðast yfirleitt í fjórða til sjöunda hlýjasta sætið. Að tiltölu var svalast á Austfjörðum þar sem hann raðast í 9. sæti. 

Er þetta góð hvíld frá ruddafengnum umhleypingum vetrarins. Maí virðist ætla að byrja heldur svalari (að tiltölu) - en engan veginn er þó útséð um neitt í þeim efnum. 

Fréttir af meðalhita á einstökum stöðvum, úrkomu og fleira koma svo frá Veðurstofunni innan nokkurra daga. 


Lítið veðurkerfi fer hjá

Veðurkerfi eru af öllum stærðum - sum eru svo óveruleg og fara svo hljóðlega hjá að vart er tekið eftir - en þau eru samt. Við lítum hér á neðan á eitt slíkt kerfi sem kemur að landinu seint í nótt (aðfaranótt föstudags 29.apríl) og fer yfir það á morgun. Rétt er að vara lesendur við strembnum texta - þar sem engin miskunn er sýnd. 

w-blogg280422a

Kerfið kemur einna best fram á 500 hPa og 300 hPa-kortum. Þar kemur það fram sem greinilegt lægðardrag. Á myndinni (500 hPa) má sjá lögun þess af legu jafnhæðarlína (heildregnar) og þar með vindátt og vindstyrk (örvar). Litirnir á kortinu sýna hita. Kaldast er í dökkgræna litnum, þar er meir en -28 stiga frost. Ástæða kuldans getur verið að minnsta kosti tvenns konar (enn fleira kemur til greina). Annars vegar séu hér á ferð leifar af köldu lofti að vestan eða norðan sem lokast hefur inni í hlýrra umhverfis. Hins vegar, og það finnst ritstjóra hungurdiska líklegra, að hér megi greina uppstreymi og niðurstreymi í kerfinu af dreifingu litanna. Loft sem streymir upp kólnar, en það sem streymir niður hlýnar. Lægðardragið hreyfist hér til austurs - uppstreymi er á undan því og þar með kalt, því kaldara sem uppstreymið er ákafara. Vestan dragsins (bakvið það) er hins vegar niðurstreymi, loft í niðurstreymi hlýnar. 

w-blogg280422b

Næsta kort sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu, hita í 850 hPa-fletinum og vind í 10 m hæð. Þetta er á sama tíma og fyrsta kortið. Ekki sér móta fyrir neinni lægðarmyndun - alls ekki -  við erum í hér í hæðarhrygg, og varla sér heldur nokkurs stað í 850 hPa-hitanum. Við sjáum hins vegar nokkra úrkomuflekki, mest á undan háloftadraginu, þar sem við gátum okkur til að væri uppstreymi. Sé farið í smáatriðin má sjá lítil skúramerki í úrkomusvæðinu yfir Vestfjörðum - líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar giskar á að þar séu skúraklakkar á ferð (mjög óst0ðugt loft). Úrkomuákefðin er ekki mikil, en þó sýna dekkstu, grænu flekkirnir ákefðina 1,5 til 3 mm á 3 klst - einhver gæti blotnað. Þessi árstími er ekki mjög gæfur á myndun klakka. Ef við værum hér í júlímánuði væri næsta líklegt að úr þessu yrðu töluverðar síðdegisdembur í flatt hey á Suður- og Vesturlandi - afskaplega erfið staða fyrir veðurfræðinga fortíðar á miðju rigningasumri - og það í hæðarhrygg.

w-blogg280422c

Þetta kort nær um allt Norður-Atlantshaf og sýnir það sem kallað er stöðugleikastuðull. Sjá má af litunum hversu stöðugt loftið er, kannski hversu mikið þarf að hreyfa við því til að það taki að velta af sjálfu sér. Á brúnu svæðunum er stöðugleiki lítill, en mikill á þeim grænu. Talan sjálf segir frá mun á mættishita við veðrahvörf og jafngildismættishita í 850 hPa-fletinum. Þetta hljómar heldur flókið - en því minni sem þessi munur er, því óstöðugra er loftið - fari það á annað borð að lyftast. Ástæður þeirrar lyftu geta verið ýmsar, t.d. hlýtt yfirborð lands síðdegis á sumardegi - eða fjallshlíð sem loftið rekst á. Í kerfinu „okkar“ er lægsta gildi stuðulsins minna en 5 stig. Þetta lágmark fer yfir Vesturland í fyrramálið - eins og reyndar má sjá á úrkomukortinu að ofan. Af spákortum má sjá að í framhaldinu á þetta kerfi að fara suðaustur fyrir land, sameinast þar lægðinni litlu sem er á kortinu beint suður af landinu og fara síðan í með henni yfir Bretland, suður um Spán og svo austur til Ítalíu. Ótrúlega samheldið allt saman þótt lítið sé - sé að marka spárnar (sem ekki er víst).

w-blogg280422d

Síðasta kortið sýnir jafngildismættishitasnið (heildregnar línur), rakastig (litir) og vatnsmagn í lofti (rauðar strikalínur), allt á sama tíma og áður, kl.6 í fyrramálið. Landið sjálft, hálendi þess er grátt. Sniðið nær yfir landið frá vestri til austurs og rúmlega það (innskotskort). Umfang uppstreymishluta kerfisins „okkar“ er merkt með gulu striki ofarlega á myndinni. Á þvi svæði er loft nærri því rakamettað (rakastig yfir 90 prósent) allt frá sjávarmáli upp í 400 hPa (7 km hæð). Jafngildismættishitalínurnar eru líka mjög gisnar - langt á milli þeirra. Það er nokkurn veginn það sem stöðugleikastuðullinn segir okkur. Svo virðist sem rakt loft kembi fram af og berist enn ofar austan við lægðardragið, allt að veðrahvörfum (þau merkjum við af mjög þéttum línum). Trúlega er þarna háskýjabreiða á ferð. 

Þeir sem vel fylgjast með veðri geta ábyggilega séð eitthvað af þessu öllu - en langflestir verða einskis varir og missa algjörlega af þeirri miklu fegurð sem hér fer hljóðlega hjá. 


Af árinu 1781

Flestar heimildir hrósa heldur tíðarfari ársins 1781, en þó er ljóst að erfiðleikar voru ýmsir. Veturinn var hagstæður framan af, en síðan nokkuð umhleypingasamur. Sumir tala um gott vor, en aðrir segja frá felli. Tvö nokkuð langvinn og leiðinleg hret gerði um vorið. Annað í kringum páskana (um miðjan apríl), en hitt þegar nokkuð var komið fram í maí. Þá virðist hafa snjóað nokkuð víða um land, meðal annars á Suðurlandi. Grasspretta var góð - en misvel gekk að hirða um landið sunnan- og vestanvert. Nóvember var harður, en desember mildur. Almennt fékk haustið góða dóma. 

Færeyskur maður, Nicolai Mohr, dvaldist hér á landi veturinn 1780 til 1781, birti veðurathuganir á bók og notum við okkur það. Við lítum líka lauslega í dagbækur Sveins Pálssonar í uppskrift Haraldar Jónssonar í Gröf. Sveinn var aðallega í Skagafirði, en var þó í nokkrum ferðalögum suður á land. Annálapistlar eru fengnir beint úr Íslenskum annálum Bókmenntafélagsins (stundum styttir lítillega). 

ar_1781t-lambhus 

Myndin sýnir hitamælingar Rasmusar Lievog í Lambhúsum á Bessastöðum. Þó mælirinn sé e.t.v. ekki alveg réttur, sjáum við marga atburði mjög vel. Hlýtt var í nokkra daga fyrir miðjan janúar, en eftir það talavert frost afgang mánaðarins. Ekki er sérlega kalt í febrúar og mars, en talsvert kuldakasti apríl. Eftir mjög hlýja daga um mánaðamótin apríl/maí gerði leiðinlegt kuldakast. Eftir það er stórtíðindalítið í hitamálum, en seint í ágúst kólnaði snögglega, Mjög kalt varð seint í október og í nóvember, en hlýrra í desember.

Við skiptum frásögnum annálanna á árstíðir til að samanburður verði auðveldari. 

[Vetur]: Veturinn fær allgóða dóma. Helst að Espólin sé þungorður - blotaumhleypingar eru auðvitað engin úrvalstíð í Skagafirði þótt snjór sé e.t.v. ekki mikill. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti: Vetrarveðurátta frá nýári og fram yfir sumarmál var að vísu óstöðug, með sterkum frostum og köföldum á milli, þó ætíð nægilegar jarðir;

Úr Djáknaannálum: Vetur mjög frostalítill svo klaki kom fyrst í jörð á þorra að kalla mátti. Veðrátta síðan óstöðug með regnum og útsynningsfjúkum, sérdeilis alla góu, einkum syðra og vestra, svo færri mundu þar slíka umhleypinga.

Höskuldsstaðaannáll: Veturinn var í betra lagi, ekki langsamar stórhríðir né jarðbönn, þó fjúkapáskar í síðustu vetrarviku.

Íslands árbók: Gjörðist vetur í meðallagi og þó nokkuð betur, án stóráhlaupa. Á langaföstu kom ein dugga (s100) inn á Eyjafjörð ... lá hér fram á vor fyrir hindran af hafís, lagði í millitíð út til Hríseyjar og mætti þar áfalli af veðri og hafís ... [Hér er áreiðanlega átt við sama skip og Mohr talar um að komið hafi til Akureyrar 1. apríl og hann hitti síðan í Hrísey í maílok]. 

Espihólsannáll: Veðurátta frá nýári og fram á gói ærið góð, þaðan af stríðari með umhleypingsfjúk- og áfreðahríðum, so oftar var annað dægur regn, en annað frosthríð, og þessi veðurátt varaði fram á sumarmál í Eyja- og Skagafjarðarsýslum. . (Vetur frá nýári til þorraloka góður. Versnaði þá veðurátt, so þaðan af fram yfir sumarmál var mesta ónotaveður.

Ketilsstaðaannáll: Vetur til nýárs harður, en þaðan af góður, ...  

Espólín: XXVI Kap. Veturinn versnaði með þorra lokum, og var allillur fram yfir sumarmál, var þá svo mikill bjargarskortur, að hrossakjöts át gjörðist tíðara en nokkurn tíma fyrr hafði verið, frá því er kristni kom á land þetta. (s 27).

Janúar (Mohr):
Þann 1. blástur með þéttri snjókomu, 2. bjart veður 5 stiga frost, 3. og 4. þykkviðri og blástur, 2 stiga hiti, 5. og 6. órólegt veður með éljum. 7. sterkur blástur með þéttri snjókomu, birti upp undir kvöld, 5 stiga frost. 8. blástur og regn, 9. sterkur stormur með stórum hrannarskýjum, 8 stiga hiti. 10. og 11. næstum logn og bjart veður, 6 stiga hiti. 12. sama veður, 0 stig. 13. sama veður 4 stiga frost, 14. og 15. misskýjað, hægur vindur 0 stig. 16. þykkviðri, 3 stiga hiti. Að morgni 17. hægur, síðdegis stormur og þétt snjókoma, 2 stiga frost. 18. hryðjur 6 stiga frost. 19. lítill vindur og hreinviðri, framan af degi 7 stiga frost, 12 stiga frost undir kvöld. 20. og 21. hægur og hreinn, 16 stiga frost. 22. sama veður 7 stiga frost, 23. misvindi 4 stiga frost. 24. hægur, 12 stiga frost. 25. hægur vindur, 7 stiga frost, 26. og til mánaðarloka skiptust á bjart veður og snjókoma 10 til 14 stiga frost.

Febrúar (Mohr):
Þann 1. heiður, næstum logn, vindur af suðaustri 4 stiga frost. Um kvöldið sáust óvenjusterk norðurljós, næstum því í hvirfilpunkt; þar léku, eins og oft, margir sterkir litir og snerist í hring eins og mylla á óvenjulegum hraða, hélt sér, án þess að breytast verulegar frá klukkan 8 til 9 um kvöldið. Flestir spáðu harðviðri næsta daga, en þá varð samt hægviðri og skýjað með köflum og 14 stiga frost. Þ. 3. og 4. þykkviðri og snjókoma 4 stiga hiti. 5. bjart, nokkur blástur, 6 stiga frost. 6. hægur, 4 stiga hiti. 7. og 8. hægur og snjókoma, 2 stiga hiti. 9. og 10. bjart, 1 stigs frost. 11. og 12. stormur og snjókoma 9 stiga frost. 13. bjartur og hægur 5 stiga frost. 14. sama veður 11 stiga frost. 15. lítilsháttar snjóél 2 stiga frost. 16. og 17. þykkviðri, 0 stig. 18. bjartviðri, 2 stiga frost. 19. blástur, 3 stiga hiti. 20. sterkur blástur, bjartviðri, 6 stiga hiti. 21. blástur og skafrenningur, 6 stiga frost. 22. næstum logn og bjartviðri, 10 stiga frost. 23. til 27. skiptist á bjartviðri og snjókoma, frost 4 til 10 stig. 28. þykkviðri fyrir hádegi með lítilsháttar snjókomu, 8 stiga frost; undir kvöld sunnanvindur, 5 stiga hiti.

Sveinn Pálsson segir 3. febrúar: „Góðviðrið varir með frosti“. Þann 18.: „Skipti um til hláku“. 9. mars: „Hláka góð og mari“. 

Mars (Mohr):
Þann 1. sterkur blástur með regnskúrum, 5 stiga hiti. 2. sama veður, undir kvöld 0 stig. 3. til 8. breytilegt veður, milli 2 stiga hita og 2 stiga frosts. 9. þykkviðri með regni, 5 stiga hiti. 10. til 22. breytilegt, enginn stormur og stundum logn, milli 3 stiga hita og 3 stiga frost. 22. logn og bjart, 5 stiga frost. 23. sama veður, 2 stiga hiti. 24. til 28. milt veður með vestlægum áttum og skiptist á regn og bjartviðri, 4 til 6 stiga hiti. Hávella sást í fyrsta sinn þessa daga. 29. blástur og snjór, 3 stiga frost, um kvöldið 7 stiga frost. 30. og 31. logn og fagurt veður, 5 stiga frost.

[Vor] Eftir slæmt páskahret kom mjög góður kafli, en snerist svo til kulda þegar fram í maí kom. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti: ... síðan góðviðri fyrsta sumarmánuð, þar eftir fram yfir fardaga sterkir norðankuldar og hretviðrasamt; hafísar miklir, einkum fyrir Norður- og Vesturlandi;

Úr Djáknaannálum: Gjörði norðanhríðir um páskana [15. apríl], en batnaði aftur með næsta sunnudegi eftir þá, sem var sá fyrsti í sumri og gjörði góða veðráttu. Vorið gott og snemmgróið, kom þó stórhret um krossmessu svo í lágar komu óklífir skaflar. [Strangt tekið er krossmessa 3. maí, en hún er samt oft í heimildum talin þann 13., mun svo hér]. Hafís kom fyrir sumarmál, umkringdi Strandir og allt Norðurland. Varð þó ei til spillingar veðri. ... Í Árnessýslu kom hríð sú miðvikudag [23.maí] næsta fyrir uppstigningardag, að í Ölvesi dóu af henni 19 kýr og ei allfáar annarsstaðar, ... Um vorið horféllu bæði kýr og sauðfé syðra, því heyin voru lítil og ónýt. ... Í Árnessýslu féllu 260 kýr, 4355 sauðfjár og 334 hestar.  Sæmilegt árferði á Austfjörðum. ... Hafísinn, sem vofraði fyrir norðan fram í Júlium hindraði stundum róðra á Skagafirði. (s228) g3 Um vorið var víða hart til matar, svo fólk dó sumstaðar úr ófeiti, helst í Árnessýslu. ... Þetta og fyrirfarandi ár fækkaði á 8 mánuðum 989 manns á Íslandi. g4. ... 2 bátar fórust syðra. 

Höskuldsstaðaannáll: Vorið og svo í betra lagi (og gott í tilliti til flestra). Grasvöxtur fljótur og góður síðan Urbanus [25. maí]. ...

Íslands árbók: Vorið þótti kalt, þó ei framar venju. 

Espihólsannáll: Vorið var eftir stillt. Í Majo seint kom áhlaup so mikið, að sunnan lands og vestan dó mikið af kúpeningi og öðru fé. Var þetta óaldarvor þar, einkum við sjósíðu, og varð mannfellir mikill.

Espólín: XXVI Kap. Varð þá mannfellir mikill við sjóinn vestra og syðra, þvíað vor var illt, og kom svo mikil hríð miðvikudaginn fyrir uppstigningardag, að á þeim bæjum einum saman, er liggja niður með Varmá, miðreitis í Ölfusi, dóu 19 kýr, og eigi allfáar annarstaðar [beint úr Mannfækkun af hallærum (s104)]. Dó sauðfé framar venju, og eignuðu sumir vanþrifum, er fylgdu hafís; urðu þá jarðir víða lausar í sveitum, því að peningslausir menn lögðust í sjóbúðir, og var þó ekki þessi vetur almennt talinn með harðindisárum. (s 27)

Apríl (Mohr)

Þann 1. hægur vindur, bjartviðri, 0 stig. 2. til 4. stöðugt þykkviðri með snjókomu, 2 stiga frost. 5. logn og bjart, 7 stiga frost. 6. ti 8. þykkviðri og snjóél, 5 stiga frost. 9. til 16. lengst af bjartviðri; stundum þó él, lítill vindur, oftast logn, 6 til 10 stiga frost. 17. til 19. óstöðugir vindar, 0 stig og 1 stigs hiti. 20. blástur og heiðríkt, 5 stiga frost. 21. til 25. hægir vestanvindar 4 til 6 stiga frost. 26. til 30. bjartviðri með sterkum hafvindi um skeið á daginn, hin svokallaða „haf-gola“. Á kvöldin og nóttunni, logn 5 til 7 stiga hiti.

Sveinn Pálsson, 19. apríl: „Kuldi á norðan með fjúkrenningi“, 20.: „Heljar kuldi á sunnan, þó sólskin“ , 23.: „Vestan rosi, snerist í hláku, hvessti mjög“, 3. maí: „Þykkveður og hita molla“, 10. maí: „Hríð með frosti og snjófergja, rak inn hafís“, 13.: „Fjörðurinn fullur af ís“.  

Maí (Mohr)
1. til 6. sama veður og í apríllok. 7. og 8. órólegt veður, 9. blástur úr norðri, 4 stiga frost. 10. til 12. bjartviðri með blæstri, 2 til 4 stiga frost. 13. stormur og skafrenningur, 3 stig frost. 14. til 18. óstöðugt, með blæstri og regni, 2 til 5 stiga hiti. 19. mikil snjókoma allan daginn 0 stig. 20. bjart og logn, 3 stiga hiti. 22. til 24. sterkur blástur, stundum stormur, 4 stiga hiti. 24. til 29. næstum stöðugt logn, 6 stiga hiti. 30. blástur að deginum, logn undir kvöld, 3 stiga hiti. 31. logn og þoka, 1 stigs hiti.

Efnisleg og stytt mjög lausleg þýðing á efni tengt veðri í ferðaskýrslu Mohr um vorið: 

Um miðjan maí varð veður mildara, ís og snjór bráðnuðu hrátt og víða varð grænt. Mohr fór 29. maí með einu af verslunarskipunum frá Akureyri til Hríseyjar (Risöe). Þar hitti hann fyrir fyrsta vorskipið, þar sem kom til Akureyrar 1. apríl eftir erfiða ferð í ísnum við Langanes og víðar undan Norðurlandi. Svo kaldur hafði sjórinn verið að ís hafi hlaðist á reiða og stýrið hafi frosið fast nokkrum sinnum. Eftir að hafa athafnað sig á Akureyri hafi þeir siglt út úr firðinum snemma í maí, en hafi strax séð Grænlandsísinn sem hafði legið allt frá Langanesi til Horns. Skipið sigldi nokkra daga fyrir innan ísbrúnina í von um að finna leið út, en án árangurs. Þvert á móti hefði ísinn nokkrum sinnum þrengt að landi og skipstjórinn var feginn að hafa sloppið aftur inn til Hríseyjar, en var orðinn fárveikur af vökum og kulda og dó um borð á skipinu 4. júní. Þann 31. maí fór Mohr úr Hrísey yfir að Karlsá (utan við Dalvík). Þokuloft var, komnir nær hafísnum sem oftast er umkringdur þykkri þoku. Nokkuð stór ísjaki var strandaður undan landi og kelfdi þegar þeir sigldu hjá, með svo miklum brestum að það var eins og fjöllin væru að hrynja. Frá Karlsá var haldið út í Ólafsfjörð og síðan að Siglunesi. Undrast Mohr það hversu stilltur sjórinn var, eins og siglt væri á stöðuvatni. Þó ísinn væri í 5 danskra mílna fjarlægð (um 35 km) hefði hann samt áhrif á sjólagið. Hið milda og hlýja loft sem lengi hafi viðvarað inni í Eyjafirði var ekki merkjanlegt hér. Ísinn kastaði frá sér svo miklum kulda að meðan sól var lágt á lofti var jörð frosin og grýlukerti og ísskæni mynduðust alls staðar þar sem vatn lak eða rann. Mohr fór síðan aftur til Karlsár, síðan í hvítasunnumessu að Ufsum og síðan yfir á Grenivík. Þá segir hann að allan daginn hafi verið hafgola (sem hann nefnir svo og skýrir út orðið: „Vind fra Havet, der især um Foraaret blæser stærk med klar Luft visse Timer næsten daglig“.

Ýmislegt athyglisvert kemur fram í ferðalýsingunni: Hann skýrir út gerð svonefnds „bruðnings“ úr þorskhausum og uggum, sömuleiðis kæfugerð. Fjallar um ólæti svarfdælskra barna utan við kirkju á messutíma, segir frá tónlistariðkun við messuna og síðan lýsir hann siglingu inn Eyjafjörð. Harmar að menn fáist ekki til að nota áttavita hans í þoku (landar hans í Færeyjum geri það hins vegar með góðum árangri), en lýsir „fokkusiglingu“ í mjög hægum vindi (eftir að hafgolan datt niður).

[Sumar] Sumarið þótti flestum hagstætt. Þó gerði hret norðaustanlands í júnílok og sömuleiðis snjóaði í byggð í lok ágúst. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti þaðan af [eftir fardaga] var sumarið rétt gott, grasvöxtur mikill yfir allt og heyjanýting góð, jafnvel þó sumarið væri öðru hverju vætusamt fram að höfuðdegi;

Úr Djáknaannálum: Sumar hlýtt, (s227) var þó stundum úrfelli af suðvestri. Gras tók helst að spretta með hvítasunnu [3. júní] og varð grasvöxtur einn hinn besti í manna minnum, nýttust líka hey víða vel. En ei gaf af regnum að heyja til muna upp frá því 20 vikur voru af sumri. Var sumar þetta af mörgum kallað Grassumarið mikla. Af ofurregnum skemmdust hey í görðum syðra.

Höskuldsstaðaannáll: Fleiri skip kom út á Akureyri um sumarið, víst 3 alls, tvö í Hofsós, eitt í Höfða, hvert lengi lá við Hrísey, umkringt af hafísi, hver ís kom fyrir sumarmál og umkringdi Strandir og allt Norðurland. [Enn er sagt frá sama skipi við Hrísey - það var þar alls ekki umkringt ís - en komst hvorki austur né vestur um] (s580) ... Fóru flestir að slá í 11. og 12. viku sumars. Nýttust hey sæmilega. Þó var stundum óþerrir af suðvestri, svo ei verkaðist allt sem best. ... Ísinn hraktist fram í Julium. (s581) Tilburður hryggilegur við Eyrarbakka í Septembri. Fórst þar í stórviðri póstduggan, sem út skyldi sigla, við Þorlákshöfn með sjö mönnum og þar til 12 menn á slúpum [bátum með sérstöku lagi] sem vildu lóssera hana inn, 19 menn alls (að fortalið var).... .

Íslands árbók: Gjörði þó um sumarið góðan grasvöxt með kyrrum og hlýviðrum og hagstæðri veðuráttu um allan heytímann ... (s101).

Espihólsannáll: Sumar hið æskilegasta. Heyskapur góður. Nýting eins. 

Viðaukar Espihólsannáls (1): Allramesta gæðasumar í Múlasýslu, ei einasta upp á landið, heldur og sjóinn ... (s228)

Espólín: XXVI Kap. XXIX. Kap. og var þá hið besta sumar, og góður heyskapur og nýting, en menn höfðu þó fækkað í landi þann árshring nær um þúsund. En þó hey yrði mikil, þóttu mönnum þau létt, þvíað eigi varð troðið fjórðungs þyngd í hálftunnu; varð gott haustið (s 30)

Júní (Mohr):

Frá 1. til 9. bjartviðri með blæstri um miðjan dag, undir kvöld og á nóttunni var logn, 7 stiga hiti. 10. til 12. lítill vindur með lítilsháttar regnskúrum, 6 til 9 stiga hiti. 13. og 14. þykkviðri með mikilli rigningu, 5 stiga hiti. 15. til 27. bjart og lengst af logn, frá 10 til 15 stiga hiti. 27. blástur með mikilli rigningu úr norðri, 4 stiga hiti. 28. og 29. lítilsháttar snjókoma, 3 stiga hiti. 30. logn og bjart, 9 stiga hiti. Síðari hluta mánaðarins var Mohr á ferð um Suður-Þingeyjarsýslu til Húsavíkur og síðan Mývatns.

Mohr getur þess að þegar hann var á Húsavík 29. júní hafi ísjaka rekið inn á leguna þar svo óttast var um skipin. Allt slapp þó vel til. 

Júlí (Mohr):
Þann 1. til 4. blástur, þykkviðri og snjókoma, 4 stiga hiti. 5. til 11. bjartviðri og log, frá 10 til 14 stiga hiti. 11. til 13. þykkviðri, dálítil rigning og blástur, 7 stiga hiti. 14. til 17. fagurt, hægt veður, 12 stiga hiti. 18. blástur og regn, 19. til 21. gott hægviðri, 10 stiga hiti. 22. og 23. þoka. 24. til 28. hægviðri og bjart, frá 8. til 12 stiga hiti. 29. blástur með regni, 6 stiga hiti. 30. og 31. fagurt veður. Mohr var fyrst við Mývatn en fór síðan austur á Hérað, á Eskifjörð og loks á Djúpavog. 

Ágúst (Mohr):
Þann 1. og 2. stormur og regn. 3. til 6. bjart og fagurt veður, síðasta daginn 17 stiga hiti (21°C). 7, til 10. gott veður, 11. þykk þoka. 12. til 18. hægviðri, stundum þoka, 10 til 14 stiga hiti. 19. blástur og mikil rigning, 6 stiga hiti, 20. til 28. fagurt veður, 29. og 30. sterkur blástur og regn. 31. gott veður.

Sveinn Pálsson:
28-8 Snjóaði fyrst i fjöll og byggð. 22-9 Stórviðri reif hey. 23-9 Kafald á norðan. 

[Haust og vetur til áramóta]. Nokkuð umhleypingasamt framan af, en síðan frosthart - en ekki sérlega illviðrasamt til landsins. Allmiklir skaðar urðu á sjó - eins og annálarnir rekja. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti þaðan af fram yfir veturnætur óstöðugt, með hríðum, krapa- og kafaldahretum á milli; síðan gott til nýárs.

Viðvíkjandi almennilegu ástandi, þá jafnvel þó veturinn væri í betra lagi, gengu þó ei að síður yfir, þá á leið, stór harðindi og mesti bjargræðisskortur allvíða meðal manna af undanförnum bágindum og sumstaðar, einkum austan- og sunnanlands, ekki lítill mannfellir af hungri og öðru þar af leiðandi, sömuleiðis stórt peningahrun. Vorvertíðar- sumars- og haustfiskirí var yfir allt að heyra mikið gott, sem ásamt þeim góða heyfeng og hvalarekum í nokkrum stöðum gjörði þaðan af gott árferði. ... Póstduggan strandaði á Eyrarbakka um haustið; skrifað þar hefðu farist 18 manns með þeim, er fram til hennar fóru, ... (s400)

Úr Djáknaannálum: Haust óstöðugt framan af með miklum sunnanregnum, komu skörp frost eftir veturnætur, hlánaði aftur með jólaföstu; stillt síðan. 10 menn drukknuðu á Patreksfirði, 8 í Barðastrandasýslu... Í Sept. forgekk póstduggan, er hét Síld, fyrir Þorlákshafnarskeiði í stormi og stórsjó, drukknuðu þar 18 menn, 8 af duggunni og 10 íslenskir, sem fóru fram til að hjálpa henni í góða höfn, því þá að þessir voru (s230) upp á hana komnir, sleit hana upp og brotnaði. ... 14da sama mánaðar [nóvember] í snögglegu norðan áhlaupsveðri urðu 2 skiptapar nyrðra. (s231). 21ta Dec. varð skiptapi úr Keflavík undir Jökli á rúmsjó með 10 mönnum. ... Varð úti öndverðan vetur maður milli Rifs og Ólafsvíkur, ... og í Nóv. maður á Hnausamýrum í Breiðuvík, ... Jón Andrésson, múrsveitt, ... varð úti hjá Baulu í Norðurárdal. ... Ólafur bóndi Guðmundsson á Vindhæli á Skagaströnd missti um haustið sexæring, er brotnaði. Farmaskip amtmanns Ólafs, sem að kvöldi lá fermt við bryggju í Hafnarfirði, brotnaði um nóttina og tapaðist góssið. (s231)

Höskuldsstaðaannáll: Að kvöldi 14. Novembris undan Árbakka á Skagaströnd fórst fiskibátur við lendingu með fjórum mönnum ... . Sama dag forgekk skip við Reykjaströnd með 5 mönnum ... Bóndinn á Vindhæli, Ólafur, missti um haustið skip, sexæring, í sjóinn. Brotin bar upp í Selvík (s584). Haustið í betra lagi að veðuráttu og fiskafli á Skaga. Skorpa frá allraheilagramessu fram undir aðventu með sterkum frostum og nokkrum fjúkum. En góðviðri síðan í Decembri og fram um jól til Knúts [7. jan.]. (s585)

Espihólsannáll: Haust og vetur til nýárs í betra lagi. Hey reyndust um veturinn víða mjög létt og dáðlítil. (n)) --- Fáeinar manneskjur dóu af hor í Eyjafjarðar– og Skagafjarðarsýslum. (s168) ... Skiptapi verður með fjórum mönnum á Skaga, annar á Reykjaströnd ogso með fjórum mönnum sama daginn. Í Barðastrandarsýslu verða 2 skiptapar með 7 mönnum, og voru á öðru 4 bræður, duglegustu menn til lands og sjóar ... . Tveir skiptapar syðra, annar á Seltjarnarnesi, annar undir Vogastapa. Þann 21. Decembris týndist áttæringur í Keflavík undir Snæfellsjökli með 9 mönnum af holsjó undir segli. ... Einn skiptapi í Beruvík með Jökli. Týndust 2 menn, en 2 komust lífs af. 3 bátstapar með mönnum sunnan Snæfellsjökuls. Einn skiptapi á Breiðdal austur með fjórum mönnum. (s169)

Ketilsstaðaannáll:  ... á eftir fylgdi ein sérdeilis blíð sumartíð með góðum grasvexti og heynýtingum fyrir vestan, norðan og austan, en fyrir sunnan urðu töður manna fyrir nokkrum hrakningi. Harðindi, einkum á Suður- og Vesturlandi, allmikli manna á meðal, ... (s450) Einninn orsakaðist af þeim skemmdu heyjum frá því árið fyrir stórmikill peningafellir fyrir sunnan og vestan ... (s451) Fannst um vorið Höfðaskip strandað undir Smiðjuvíkurbjargi, sem nú kallast, í Almenningum á Ströndum. Strandaði póstjaktin fyrir sunnan. Á henni voru 7 menn sem allir drukknuðu, sömuleiðis 11 menn aðrir, er mót henni voru sendir til að hjálpa henni til hafnar, ... Hér að auk urðu fyrir sunnan og vestan 10 skiptapar, einn fyrir norðan á Skaga og einn í Breiðdal fyrir austan með fjórum mönnum, (s452)

September (Mohr):
Þann 1. blástur með éljum, 3 stiga hiti. 2. til 9. mest bjartur og hægur, 5 til 9 stiga hiti. 10. þykkviðri með blæstri og mikilli rigningu, 11. til 15. hægviðri og bjart, 5 til 8 stiga hiti. 16. til 24. blástur, stundum snjókoma og rigning, 1 til 5 stiga hiti. 24. til 30. hægur, bjartur með lítilsháttar næturfrosti, 1 til 5 stiga hiti.

Október (Mohr):
Þann 1. og 2. gott veður, 4. sterkur blástur og regnskúrir. 4. og 5. fagurt veður, 6. blástur og regn. 7. og 8. blástur, 9. og 10. stormur, 11. og 12. fagurt veður. 13. til 15. sterkur blástur með hryðjum.  

Sveinn Pálsson segir um nóvember:

Þennan allan mánuð hafa gengið mjög mikil frost, með austan átt. Snjólítið hér um sveit, utan hlánaði þann 28. og frysti svo aftur þann 30.

Hér lýkur umfjöllun hungurdiska um tíðarfar og veður á árinu 1781. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir mestallan innslátt annála og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska).

Við sjáum til hvernig eða hvort átjándualdarhjakki ritsjóra hungurdiska miðar eður ei. 


Af norðurslóðum

Síðari hluta aprílmánaðar dregur mjög úr styrk vestanvindabeltis háloftanna á norðurhveli jarðar. Kuldinn á heimskautasvæðunum heldur þó áfram að verja sig og í kringum hann helst vindstyrkur oft furðu öflugur allt fram á sumar. Við lentum eftirminnilega í slíku vorið 2018 þegar öflugur lægðagangur hélt áfram hér við land allan maímánuð í austurjaðri mikils kuldapolls vestan við Grænland. 

w-blogg220422a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á sunnudag, 24.apríl. Tvennt er sérlega áberandi á þessu korti. Annars vegar hinir öflugu kuldapollar við norðurskautið og vestan Grænlands, en hins vegar að svo mikið hefur slaknað á vestanáttinni yfir Norður-Atlantshafi og Evrópu að hún hefur skipt sér upp í fjölmargar litlar lokaðar lægðir. Leifar af vestanátt eru þó sunnan þessa svæðis og veldur m.a. hálfgerðu leiðindaveðri við vestanvert Miðjarðarhaf. Nyrst á þessu grautarsvæði er nokkuð öflug hæð nærri Íslandi - og njótum við auðvitað góðs af henni meðan hún endist.

Þetta er ekki óalgeng staða á þessum árstíma, en alltaf dálítið óþægileg. Í grunninn er ekki langt í gríðarmikinn kulda. Eins og spár eru þegar þetta er skrifað (föstudag 22. apríl) virðist sem stærri kuldapollurinn, sá við norðurskautið, muni ekki ógna okkur í bili. Spár gera þó frekast ráð fyrir því að hann ráðist á norðanverða Skandinavíu upp úr helginni. Gerist það frestast vorkoma á þeim slóðum um að minnsta kosti eina til tvær vikur og það mun snjóa allt til sjávarmáls í Norður-Noregi. 

Framhaldið er óljósara hér á landi. Spár gera sem stendur ráð fyrir því að kuldapollurinn vestan Grænlands muni um síðir ónáða okkur. Hvort úr verður leiðindahret eða ekki er hins vegar enn á huldu. Í dag giska flestar spár á að fyrsta vika maímánaðar verði mjög köld. 


Vetri lokið

Nú er vetrinum lokið samkvæmt hinu forna íslenska misseristímatali. Sumar hefst með sumardeginum fyrsta. Nýliðinn vetur var umhleypingasamur og þótti nokkuð erfiður. Sennilega viðraði einna best um landið austanvert, en suðvestanlands og víða á Suður- og Vesturlandi var sérlega úrkomu- og illviðrasamt. Illviðrin náðu hámarki í janúar, febrúar og fram í miðjan mars, en síðan þá hefur veður verið mun skárra og sumir tala um góða tíð. Sem stendur lítur nokkuð vel út með gróður, þar sem hann á annað borð er farinn að taka við sér. 

Úrkomumagnið í Reykjavík er eftirminnilegt. Myndin hér að neðan sýnir úrkomumagn hvers vetrar í Reykjavík eins langt aftur og mælingar ná.

w-blogg210422a

Lárétti ásinn sýnir ártöl aftur til mælinga 19. aldar. Úrkoma var ekki mæld á árunum 1908 til 1919. Lóðrétti ásinn sýnir magnið í mm. Veturinn nú er hér í þriðja sæti, nokkuð langt ofan við allt síðan á þriðja áratug síðustu aldar. Þær mælingar voru gerðar í porti við Skólavörðustíg - og ekki útilokað að í hvassviðrum hafi regn skafið af húsþökum niður í mælinn í húsagarðinum á bakvið skrifstofur Veðurstofunnar. En alla vega sker veturinn í vetur sig úr því sem verið hefur síðan. Veturinn í fyrra (2020-21) var hins vegar nokkuð þurr miðað við það sem algengast hefur verið undanfarin ár. Þurrast var veturinn 1976-77. 

w-blogg210422b

Minni tíðindi eru af hitanum. Vetrarhitinn í Reykjavík (bláar súlur) var mjög nærri meðaltali þessarar aldar (sem er er nokkuð hátt miðað við lengri tíma). Landsmeðalhiti var um -0,3 stigum neðan aldarmeðaltalsins. Síðustu 70 árin voru veturnir 1963-64 og 2002-03 þeir langhlýjustu í Reykjavík (og á landsvísu), en kaldastir voru 1950-51 og 1978-79. 

Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars með von um að það reynist hagstætt. 


Fyrstu 20 dagar aprílmánaðar

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 20 daga aprílmánaðar er +4,1 stig, +0,9 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og +0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 8. hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2003, meðalhiti þá var +6,0 stig. Kaldast var árið 2006, meðalhiti +0,9 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 31. hlýjasta sæti (af 150). Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 1974, meðalhiti þá +6,1 stig, kaldastir voru þeir 1875, meðalhiti -3,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 +2,6 stig, +0,5 stigum ofan meðallag 1991 til 2020, en +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast við Faxaflóa, á Suðurlandi og á Vestfjörðum, þar raðast hitinn í 8. hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast hefur verið á Austfjörðum þar sem hitinn er í 15. hlýjasta sæti.
 
Jákvætt hitavik, miðað við síðustu 10 ár er mest á Sámsstöðum, +1,2 stig, en neikvætt vik er stærst á Vattarnesi og á Dalatanga, -0,7 stig.
 
Úrkoma hefur mælst 69,3 mm í Reykjavík, 60 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur hún mælst 13,9 mm og er það um 70 prósent meðalúrkomu.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 100,3 í Reykjavík. Það er í meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 52,4, 28 stundum færri en í meðalári.

Sumardagurinn fyrsti - sundurlausir fróðleiksmolar (taka 3)

Fyrir fimm árum (og fyrir 9 árum) rifjaði ritstjóri hungurdiska upp nokkra fróðleiksmola um sumardaginn fyrsta - þetta er að mestu endurtekning á því með lítilsháttar uppfærslum, leiðréttingum og viðbótum þó. Sérlega hlýtt var á sumardaginn fyrsta 2019 og tengjast flestar breytingar þeim degi. Aðallega er miðað við tímabilið 1949 til 2021.

Þetta er vægast sagt þurr upptalning en sumum veðurnördum finnst einmitt best að naga þurrkað gagnaroð.

Aðrir hafa helst gaman af þessu með því að fletta samhliða í kortasafni Veðurstofunnar en þar má finna einfölduð hádegiskort sumardagsins fyrsta aftur til 1949 á sérstökum síðum (fletta þarf milli áratuga).

Meðalvindhraði var minnstur 1955, 1,9 m/s. Langhvassast varð 1992, 15,1 m/s. Næsthvassast var 1960.

Þurrast var 1996 og 1978. Að morgni þessara daga mældist úrkoma á landinu hvergi meiri en 0,5 mm og varð aðeins vart á um þriðjungi stöðva. Úrkomusamast var hins vegar 1979 en þá mældist úrkoma á 98 prósentum veðurstöðva á landinu. Ámótaúrkomusamt var 2009 en þá mældist úrkoma meira en 0,5 mm á 96 prósentum veðurstöðva.

Kaldasti dagurinn í hópnum var 1949 (meðalhiti -7,3 stig). Landsmeðalhitinn var hæstur 2019 (9,0 stig). Meðalhámark var einnig hæst 2019 (14,2 stig). Lægst varð meðalhámarkið dagana köldu 1949 (-4,5 stig) og 1967 (-3,1 stig). Landsmeðallágmarkið var lægst sömu ár, 1949 (-9,7 stig) og 1967 (-7,8 stig). Hæst var landsmeðallágmarkið (hlýjasta aðfaranóttin) 1974 (5,8 stig).

Lægsti lágmarkshiti á mannaðri veðurstöð á sumardaginn fyrsta á tímabilinu 1949 til 2016 mældist 1988, -18,2 stig (Barkarstaðir í Miðfirði). Lægsti hiti sem mælst hefur á landinu á sumardaginn fyrsta er -23,4 stig á Brúarjökli 2007, en hæsti hámarkshiti þessa góða dags mældist 1976, 19,8 stig (Akureyri). Hiti fór reyndar í 20,5 stig á Fagurhólsmýri á sumardaginn fyrsta 1933, en það er óstaðfest í bili. Á sumardaginn fyrsta 1949 fór hiti hvergi á landinu yfir frostmark, hæsta hámark dagsins var -0,2 stig. Þetta er með ólíkindum. Sumardagurinn fyrsti 1951 var litlu skárri því þá var hæsti hámarkshitinn nákvæmlega í frostmarki.

Í Reykjavík er kaldasti sumardagurinn fyrsti sem vitað er um 1876, þá var meðalhitinn -6,9 stig (ekki nákvæmir reikningar), lágmarkshiti ekki mældur. Þann dag segir blaðið „Norðanfari“ að -18 stiga frost hafi verið á Akureyri (en opinberar mælingar voru engar á Akureyri um þær mundir). Lægsti lágmarshiti mældist í Reykjavík 1949, -8.9 stig. Það hefur sjö sinnum gerst svo vitað sé að ekkert hafi hlánað í Reykjavík á sumardaginn fyrsta, síðast 1983 þegar hámarkshiti dagsins var í frostmarki, 0,0 stig. Sjö sinnum hefur mælst frost aðfaranótt sumardagsins fyrsta á þessari öld í Reykjavík, síðast 2017, en aðeins -0,1 stig. Dagsmeðalhiti sumardagsins fyrsta í Reykjavík var hæstur 2019, 10,8 stig (25. apríl) og þann sama dag mældist hæsti hámarkshiti sem vitað er um á sumardaginn fyrsta í Reykjavík 14,7 stig.

Sumardagurinn fyrsti var sólríkastur í Reykjavík árið 2000, þá mældust sólskinsstundirnar 14,6, þær voru litlu færri 1981, eða 14,4. Síðustu 100 árin rúm hefur 22 sinnum verið alveg sólarlaust í Reykjavík á sumardaginn fyrsta, síðast í fyrra. Sólríkast var á Akureyri á sumardaginn fyrsta 1988, þá mældust 13,5 klst. Síðast var sólarlaust á Akureyri á sumardaginn fyrsta 2012.

Á Akureyri var hitinn hæstur 19,8 stig 1976 - eins og nefnt var hér að ofan, en mesta frost sem mælst hefur á sumardaginn fyrsta á Akureyri er -10,5 stig. Það var 1949.

Meðalskýjahula á landinu var minnst 1981 (aðeins 1,8 áttunduhlutar). Það var bjartur dagur - en býsnakaldur. Skýjahulan var mest 1959 (7,9 áttunduhlutar) - mörg önnur ár fylgja skammt á eftir.

Loftþrýstingur var hæstur 1989 (1041,6 hPa) en lægstur 1958 og 2006 (980,6 hPa).

Algengast er að vindur sé af norðaustri á sumardaginn fyrsta (miðað við 8 vindáttir). Norðvestanátt er sjaldgæfust.

Ameríska endurgreiningin segir að þrýstisviðið yfir landinu hafi verið flatast 1958 (vindur hægastur), en langbrattast 1992 (hvassast). Sama dag var hvassast á veðurstöðvunum (eins og áður sagði) og þrýstimunur á milli veðurstöðva landsins mestur og hittir endurgreiningin hér vel í. Þrýstivindur var af austsuðaustri, en á veðurstöðvunum var meðalvindátt rétt norðan við austur. Það er núningur sem er meginástæða áttamunarins. Þrýstisviðið var flatast á sumardaginn fyrsta 2014.

Sé litið á 500 hPa-flötinn segir endurgreiningin hæðarbrattann hafa verið mestan 1960, af vestnorðvestri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 23
  • Sl. sólarhring: 405
  • Sl. viku: 1769
  • Frá upphafi: 2498480

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1603
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband