Bloggfærslur mánaðarins, september 2024
30.9.2024 | 22:39
Sjávarhitamoli (?)
Myndin hér að neðan er klippa úr sjávarhitakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar (eins og það er teiknað á Veðurstofunni). Ritstjóri hungurdiska verður að vísu að játa að hann er ekki mjög kunnugur sjávarlíkani reiknimiðstöðvarinnar, en veit þó að það er í gagnvirku sambandi við lofthjúpslíkanið. Lofthjúpslíkanið hefur áhrif á sjóinn - og sjórinn áhrif á lofthjúpinn. Sjávarhitagögnin eru þó ekki þrælar lofthjúpsins - heldur uppfærast þau með einhverjum gervihnattamælingum - og e.t.v. líka fleiri sjávarhitamælingum sem gerðar eru af baujum eða skipum (ekki veitir af).
Þetta er kort dagsins, mánudaginn 30.september. Það er köld tunga sem liggur inn Húnaflóa sem vekur athygli. Hiti í henni er á milli 3 og 4 stig, 3 stig við Kaldbaksvíkina (tökum við kortið bókstaflega) - en nærri 5 stig austast í flóanum. - Undan norðurlandi austanverðu eru hins vegar svæði þar sem sjávarhiti er meiri en 6 stig. Um 8 stiga hiti er á Faxaflóa og 9 undan Reykjanesi.
Þessi kalda tunga var ekki nærri því eins áberandi í greiningum fyrir hálfum mánuði - og var ekki í þeim spám sem þá voru reiknaðar - sá vottur sem var átti reyndar frekar að dofna heldur en hitt.
Kuldi sem þessi slær sér endrum og sinnum upp í lofthitaspárnar - og sömuleiðis getur hann afmarkað þokusvæði dag og dag í þokuspám.
Ætli við verðum ekki að gera ráð fyrir því að eitthvað sé til í þessu - en ekki er alveg auðvelt að sjá hvers eðlis málið er. Því miður þá virðist engin mælibauja vera á þessum slóðum um þessar mundir - en nú á dögum mæla þær margar hverjar þversnið hita og seltu niður á meir en 1 km dýpi - jafnvel talsvert meira. Af slíkum sniðum má margt ráða um eðli kaldra (eða hlýrra) bletta af þessu tagi.
Ritstjóra hungurdiska finnst sennilegt að hér sé á ferðinni tiltölulega ferskur sjór sem sloppið hefur út úr Austurgrænlandsstraumnum - en sveipir úr honum komast leggjast oft yfir hlýrri og saltari sjó sem sífellt berst norður með Vesturlandi - og síðan austur með Norðurlandi. Á vorin og að sumarlagi bera sveipirnir oft með sér hafísspangir - jafnvel inn á utanverðan Húnaflóa. Fyrr í sumar voru einhverjar slíkar spangir (veigalitlar þó) á ferðinni þarna norður af. Trúlegast er að kuldinn nú sé bráðin - mjög létt (fersk). Við vitum hins vegar ekki hvort hún er þunn - eða örþunn. Ef hún er örþunn blandast hún fljótt heldur hlýrri sjó sem liggur undir - þegar vetrarvindar fara að róta í sjónum.
Það eru fáeinar baujur undan Norðausturlandi (að vísu ekki nærri landi). Þar má sjá mjög þunnt lag (frekar hlýtt raunar - leifar upphitunar sumarsins), undir því er mun kaldari blanda - ekki mjög sölt - og síðan saltur atlantssjór undir - jafnvel örlítið hlýrri en millilagið. En - á Húnaflóanum vitum við ekki neitt um lagskiptinguna í dag (alla vega þekkir ritstjóri hungurdiska hana ekki).
Spáin gerir ráð fyrir að þessi kalda tunga jafnist út á næstu viku til tíu dögum. En gerir hún það. Það verður fróðlegt að fylgjast með.
En rétt er að taka fram að lokum að þetta er talsvert kaldara heldur en undanfarin ár, vikin (miðuð við tuttugu ár (líklega)) sem reiknimiðstöðin birtir eru -3 til -4 stig þar sem mest er. Í fyrra segir reiknimiðstöðin að hiti á þessum slóðum hafi verið 7-8 stig 30.september - ekki gott að segja hversu mörg ár eru síðan síðast var þetta sjávarkalt í Húnaflóanum.
29.9.2024 | 22:28
Veðurstofusumarið 2024 - heldur svalt miðað við síðari ára tísku
Veðurstofan hefur í hundrað ár skilgreint sumarið sem tímann frá júní til september ár hvert. Sumum finnst fjórir mánuðir of langur tími - alþjóðaveðurfræðistofnunin miðar við þrjá mánuði (júní til ágúst) - en misseristímatalið gamla miðar sem kunnugt er við sex mánuði - frá fyrsta sumardegi að vori - að fyrsta vetrardegi að hausti. Veðurstofan fer bil beggja. Hungurdiskar hafa nú í nokkur ár reynt að reikna meðalhita landsins alls. Aðferðin er að vísu umdeilanleg - og aðrir reiknimeistarar myndu efalítið fá út aðrar tölur. En ritstjórinn ber sig samt vel.
Nú vantar aðeins einn dag upp á sumarlok - og ekki skeikar miklu þótt við sleppum honum. Sumarið reyndist vera í svalara lagi - miðað við undanfarna tvo áratugi rúma. Meðalhiti þess á landsvísu reiknast 8,3 eða 8,4 stig. Þetta er lægsta tala sem við höfum séð síðan sumarið 1998, en þá var hún sú sama og nú, Nokkru kaldara var 1993 og 1992.
Yngra fólkið (fram á fertugsaldur sennilega) - man ekki jafnkalt sumar (nema að barnsminni þess sé alveg sérlega gott). Við gamlingjarnir verðum hins vegar að átta okkur á því að hitinn nú er nánast sá sami og var á sumrin að meðaltali á árunum 1961 til 1990. Sumir okkar eru því bara harla ánægðir með sumarið. Fortíðarþrá ritstjórans hefur fengið sitt - staðfestingu á að gömlu sumrin hafi verið raunveruleg - og þau voru mörg góð í minningunni.
26.9.2024 | 22:47
Óformlegar úrkomuvangaveltur
Upp á síðkastið hefur verið nokkuð rætt um vatnsskort í lónum á landinu - og afleiðingar fyrir orkubúskapinn. Nú er það svo að birgðastaða á hverjum tíma er háð fjölmörgum þáttum og ritstjórinn játar fúslega að hann hefur enga vitneskju um marga þeirra. Því má alls ekki taka því sem hér fer á eftir sem einskonar svari við því hvers vegna vatnsstaðan er ekki betri en hún er.
Úrkoma hlýtur þó að vera einn af þeim þáttum sem áhrif hafa. Um leið og tekið er á henni bætir í flækjustigið. Það koma upp spurningar um hlutfall regns og snævar - hlut vetrarúrkomu - hlut sumarúrkomu - auk auðvitað þátta framleiðandans - hversu mikla orku ætlar hann að selja - hvaða áhættu er hann tilbúinn að taka gagnvart veðurþáttunum.
Við látum þessa flækju eiga sig - en lítum aðeins á úrkomuna - árssummu og fimm ára summu. Nægileg álitamál þar. Ritstjórinn hefur með reiknikúnstum galdrað fram úrkomugagnaröð fyrir Suðurland (frá Reykjanesi sunnaverðu í vestri - austur á Stöðvarfjörð í austri). Nær röð þessi allt aftur til 1872. Það er að vísu fullmikið í lagt - en er samt ekki alveg glórulaus skáldskapur. Tölur eru settar fram sem hlutfall ársúrkomu áranna 1971 til 2000. Ástæða þess að þetta grunntímabil var valið er sú að þá voru hefðbundnar úrkomumælingar hvað þéttastar á landinu. Síðustu árin hafa þær mjög grisjast. Vonandi munu gögn sjálfvirkra stöðva verða vel nothæf innan fárra ára - en eru það ekki sem stendur.
Vegna þess að árinu 2024 er ekki lokið var ákveðið að líta á öll 12-mánaða tímabil áðurnefndra ára - til þess að tímabilið september 2023 til ágúst 2024 gæti verið með. Niðurstaðan er sett fram á myndinni hér að neðan. Hún kann að virðast nokkuð ógnvekjandi, en grundvallaratriði þó einföld.
Efri hluti myndarinnar (súlurnar) sýnir úrkomu sunnanlands öll 12-mánaða tímabil á árunum 1872 til 2024 sem hlutfall af ársúrkomu 1971-2000. Það sem fyrst vekur athygli er að úrkoman virðist hafa farið vaxandi. Ef við tökum vöxtinn alveg bókstaflega er hann um 18 prósent á öld (sem er auðvitað ótrúlega mikið). Langlíklegasta skýringin er sú að gögnin séu ekki einsleit - þess má t.d. geta að hlutur snævar í ársúrkomu er meiri á köldum tímabilum heldur en hlýjum, en snjór mælist mun verr heldur en regn - það gæti haft áhrif á þessa yfirgengilegu (sýndar)leitni. Sömuleiðis voru mælar án vindhlífa fram um 1950 - hefur líka áhrif á gögnin. En svo er það hin almenna skoðun að úrkoma aukist með hlýnandi loftslagi. Þessi (sýndar)aukning er langt umfram það sem hitaleitnin nær að skýra (ef við trúum slíkum skýringum). Hitaaukningin á þessu tímabili er um 1,3 stig - úrkomuaukningin ætti því að vera um 14 prósent á stig - fullmikið af því góða. Almennt er talað um 2-3 prósent á stig - þeir svartsýnustu nefna 7 prósent. Æskilegt væri að reyna einskonar leiðréttingar - en sá ís er háll - og ekki tilefni hér til að fara út á hann.
Við megum taka eftir því að síðustu 12 mánuði hefur úrkoman verið 90 prósent af meðallagi - fór í júní (júlí 2023-júní 2024) niður í 80 prósent. Þetta gæti svosem eitt og sér skýrt stöðuna í lónunum - vegna þess að að auki var sumarið svalt (miðað við það sem verið hefur að undanförnu) og jöklabráðnun (gamlar aukabirgðir af úrkomu) gaf minna heldur en væntingar hafa staðið til þegar orkusalan var ákveðin. Þurrkurinn um þessar mundir er reyndar sá mesti síðan 2010 - þá fór hlutfallstalan lægst í 74. Enn lægri tölur má finna í fortíðinni, t.d. niður í 69 í mars 1965 til febrúar 1966. Allra lægsta talan er 46, í ágúst 1887 til júlí 1888. Við gætum (með kúnstum) leiðrétt hana upp í um það bil 58 - slík tala er alveg hugsanleg nú á tímum (ef við erum óheppin).
Rauða línan á myndinni nær til lengri tíma, hlutfall síðustu fimm ára. Nú er sú tala nákvæmlega 100 prósent - það segir að úrkoma síðustu fimm ára hefur verið sú sem hún var venjulega 1971 til 2000. Hún er hins vegar um 5 prósent lægri heldur en meðaltal fyrstu 23 ára aldarinnar. Spurning er við hvaða tímabil lónverðir miða rekstur sinn. - Rétt að taka fram að ég hef enga skoðun á því - (og ekki vit heldur).
Það eru nokkur eftirtektarverð þurr fimmáratímabil í fortíðinni, en ekkert alveg nýlegt. Það er rétt að gefa þessum tímabilum gaum - ákveðin áhætta fellst í endurkomu þeirra.
Neðsti ferillinn á myndinni sýnir mismun á hinum ferlunum tveimur - hversu langt er á milli úrkomu síðustu 12 mánaða og síðustu 5 ára. Sé tólfmánaðaúrkoman meiri heldur en fimmáraúrkoman er ákveðið að talan sé jákvæð. Topparnir sýna því þau tilvik vel þegar skipt hefur skyndilega úr löngum þurrkakafla yfir í úrkomutíð - en lágmörkin hið öfuga - þegar skyndilega hefur skipt yfir í þurrka. Hér er enga leitni að sjá - veðrið hefur hegðað sér á svipaðan hátt hvað þetta varðar í 150 ár.
En hvað veldur þá þessum sveiflum? Það er ekki gott að segja. Gera má tilraun til að leita ástæðurnar uppi. Við látum nægja hér að nefna það sem ritstjórinn telur vega þyngst. Það er þrái (afl) sunnanáttarinnar í háloftunum, (sem er í grunninn tilviljanakenndur að því er virðist). Hann er hægt að mæla á ýmsa lund - við látum skilgreiningar á því eiga sig - trúum bara myndinni hér að neðan.
Lárétti ásinn sýnir styrk sunnanþáttarins (úr einskonar vigurvind ársins). Lóðrétti ásinn er aftur á móti áðurnefnt úrkomuhlutfall. Það er mesta furða hvað sambandið er gott (við látum okkur nægja að fara 100 ár aftur í tímann). Tvö ár skera sig nokkuð úr - 2010 og 2012 en þá var sunnanáttin alveg sérlega rýr í roðinu, en fylgnistuðullinn er þó af sterkvodkastyrk (0,68).
Svo vill til að þetta (allt of) einfalda líkan hittir mjög vel í úrkomu síðustu 12 mánaða, spáir hlutfallinu 90 prósentum - einmitt það sem það hefur verið. Það er því skortur á suðlægum áttum sem veldur þurrviðrinu þráa.
Með því að bæta fleiri háloftaþáttum við hækkar fylgnistuðullinn - en ekki þó afgerandi. Við að bæta hæð 500 hPa-flatarins við fer hann upp í 0,71 og nemum við langtímaleitnina burt þar að auki fer hann upp í 0,76 - (við náum ekki spírastyrk). Árin tvö 2010 og 2012 færast þó áberandi nær aðfallslínunni. Hár 500 hPa-flötur dregur úr úrkomunni (lægðagangur er minni) - fylgni hæðarinnar og úrkomunnar er marktæk ein og sér - en ekki þó ráðandi.
Ekki gott að segja hvort þetta svarar einhverju - en ritstjórinn veit þó að hægt er að reikna miklu betur - með mun meira og sterkara vísindabragði - (og brögðum), og ritstjóri hungurdiska vonar auðvitað að einhver taki það verk að sér (orðinn allt of gamall og heiladofinn sjálfur).
25.9.2024 | 00:10
Hugsað til ársins 1963
Árið 1963 varð mjög veðurviðburðaríkt. Vetur góður, vor hart, sumar kalt, en haustið umhleypingasamt. Auk fjölmargra veðurviðburða varð á árinu einn þriggja öflugustu jarðskjálfta hér á landi frá upphafi mælinga (kenndur við Skagafjörð), framhlaup varð í Brúarjökli, mesta framhlaup aldarinnar á Íslandi og ný eyja (Surtsey) myndaðist í eldgosi suðvestan við Vestmannaeyjar.
Árið þótti lengst af fremur óhagstætt, nema janúar til mars og svo desember. Úrkoma var undir meðallagi. Janúar var hagstæður til sjávar og sveita. Vegir flestir færir. Febrúar var einnig mjög hagstæður lengst af. Sérlega góð tíð var í mars og tók gróður vel við sér. Hlýtt var í veðri. Apríl varð hins vegar óhagstæður vegna eins mesta hrets sem um getur á þessum árstíma. Maí var kaldur og hretviðrasamur lengst af. Gróðurlítið var í mánaðarlok. Sæmilega hagstæð tíð var í júní. Gróðri fór vel fram. Júlí var kaldur og fremur óhagstæður, einkum um landið norðanvert. Hægviðrasamt og þurrt var í ágúst. Heyskapur gekk sæmilega. Tíð í september var óhagstæð til lands og sjávar. Óvenju mikla snjóa gerði á hálendinu og víða í byggð. Lengst af hagstæð tíð í október, en nokkuð stórgerð síðari hlutann. Nóvember þótti óhagstæður norðanlands, en hægstæðari syðra. Í desember var tíð hagstæð og hæglát.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is) og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar - og nýtum að venju gagnagrunn Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að stytta textana (og stöku sinnum hnika til stafsetningu). Vonandi sætta höfundar sig við það. Í þetta sinn sækjum við mest til Tímans og Morgunblaðsins sem voru áberandi duglegust blaðanna við miðlun veðurupplýsinga þetta ár. Hungurdiskar hafa áður fjallað um veður á árinu. Sérstakir pistlar hafa birst um þrjú meginillviðri (páskahretið, leitahretið og lægðina skæðu 23. október). Sömuleiðis hefur áður birst pistill um leifar fellibylsins Flóru, auk hugleiðinga um umskiptin miklu sem urðu um jólin 1962, einnig var hugsað sérstaklega til maímánaðar 1963. Vísað er í þá pistla - þar má finna fleiri veðurkort og almenna umfjöllun - þótt eitthvað sé hér endurtekið.
Árið er ritstjóra hungurdiska sérstaklega minnisstætt. Þetta var annað árið sem hann fylgdist með veðri nánast hvern einasta dag og mundi lengi frá degi til dags. Þó flest þeirra smáatriða sé nú horfið og fjölmargir dagar dottnir út er enn ógrynni mynda ljóslifandi í huganum. Veturinn var miklu betri en flestir síðari vetur, vorið var skítt, sumarið kalt og snemma haustaði. Næstu árin fóru í það að átta sig á því að árstíðasveiflan væri kannski ekki endilega svona - þótt árið 1964 hafi að sumu leyti hegðað sér ekki ósvipað - í höfuðdráttum.
Janúar var mjög óvenjulegur. Meðalþrýstingur í janúar hefur aldrei verið hærri síðustu 200 árin. Fyrri hluta mánaðarins var samfelld vetrarblíða, hægir vindar og heiðríkja. Frost voru talsverð inn til landsins, en ekki mikil við sjávarsíðuna. Um miðjan mánuð hörfaði hæðin til suðausturs og ríktu suðlæg hlýindi þá í viku. Skyndilega gerði hvassan útsynning - sem virtist ætla að breyta veðurlagi, en ekkert varð úr því og síðustu dagana var hæðin mætt aftur, jafnvel enn öflugri en áður.
Á kortinu má sjá meðalhæð 500 hPa-flatarins í janúar 1963 og vik frá meðallagi aldarinnar. Hæðin veldur kaldri norðlægri átt langt suður í Evrópu, en hlýindi eru vestan hennar. Þetta er óvenjuleg staða.
Morgunblaðið ræðir hættu á heyskorti í frétt 4.janúar:
Bændur víða um land hafa fækkað búpeningi sínum í haust og vetur vegna heyskorts. Vont árferði var síðastliðið sumar svo að segja um land allt og hvatti Búnaðarfélag Íslands bændur til þess að gæta hófs í ásetningi, þar sem litlar sem engar líkur væru til að hægt yrði að útvega hey.
Leifar af veðurfréttum ársins 1962 í Morgunblaðinu 5.janúar:
Úr Austur-Skagafirði. Mjög umhleypingasamt hefir verið undanfarið en þó litlar snjókomur. 22.23. des. gekk hér yfir eitt mesta sunnanveður, sem koma hér. Í þessu afspyrnuroki urðu þó furðanlega litlar skemmdir, þak tók af nýbyggðu húsi á Sleitustöðum í Hólahreppi, eign Sigurðar Björnssonar bílstjóra þar. Sagt er mér einnig að í Framfirðinum hafi orðið nokkur vandræði með hrossin, sem hlupu út í ófærur. Annars er ekki hægt að segja að tíðarfar á þessu senn endaða ári hafi verið mjög óhagstætt en einhvern veginn mun það hafa notast verr en oft áður, og eftirtekja almennings mun vera frekar rýr til lands og sjávar. Mun þó afkoma fólks vera í meðallagi. Björn
Árið 1963 var langt í frá því að teljast hafísár. Samt voru fregnir af honum alltíðar og ritstjóri hungurdiska man vel áhyggjur þeirra eldri manna sem mundu erfið ísár - auk þess sem veðurnördinu þótti ísinn vera eitthvað spennandi. Morgunblaðið segir frá hafís 6.janúar - en einnig af lagnaðarís og góðri færð:
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hafa tvö skip orðið vör við ís á siglingarleið út af Horni. Um kl.11 í fyrrakvöld var tilkynnt að nokkrir ísjakar, hættulegir skipum, væru á reki um 6 sjómílur norðaustur af Hornbjargsvita. Í gærmorgun var aftur tilkynnt um íshröngl, sem gæti verið hættulegt skipum, á venjulegri siglingaleið norðaustur af Hornbjargi. Veðurstofan skýrði svo frá, að orsakir þessa mætti sennilega rekja til þess, að fyrir jólin var um tíma vestlæg átt, og hefur þá líklega rekið úr ísröndinni, sem liggur nokkuð langt undan Íslandi, og jakar borist austur hingað.
Akureyri 5. janúar. Allir vegir héðan frá Akureyri eru nú mjög vel færir, svo að jafnvel smærri bílar komast keðjulausir allra sinna ferða. Í vikunni var farið yfir Lágheiði, sem liggur milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar og mun það einsdæmi á þessum tíma árs. Mikið frost er hér á Akureyri í dag; 17 stig niður við sjávarmál, en mun nokkru meira uppi á brekkunum. Akureyrarpollur er allur ísi lagður og nokkuð út fyrir Oddeyrartanga. Ágætur skautaís er kominn innan til á Pollinn og þar er nú fjöldi manns á skautum. Skip hafa komið hér daglega að undanförnu og þess vegna er fær renna gegnum ísinn inn að Torfunefsbryggju. Þar sem ísinn hefir ekki verið brotinn af skipum er hann 46 þumlunga þykkur. Fyrirhugað hefir verið að útbúa skautasvell á íþróttavellinum og mun það að líkum framkvæmt í dag og verður það upplýst með kvöldinu.
Frost og þurrkar höfðu nú staðið í nærri þrjár vikur og bera tók á vatnsskorti. Tíminn segir frá 8.janúar:
ED-Akureyri 7. janúar. Hér hefur verið frost hvern einasta dag síðan á Þorláksmessu og jafnframt stillur og hreinviðri. Er nú svo komið, að vatnsskortur er farinn, að gera vart við sig á nokkrum bæjum hér um slóðir og verða bændur af flytja vatn í tunnum þó nokkurn spöl, til þess að brynna búsmala. Þess má geta, að sumstaðar eru kýr orðnar svo vanar því að drekka úr sjálfbrynningartækjum, að þær líta ekki við vatni í fötum og hafa bændur orðið að grípa til þess að setja vatnið inn á brynningarkerfið, til þess að kýrnar fáist til að drekka það.
Morgunblaðið segir einnig frá vatnsskorti 8.janúar:
Kifsá, Kræklingahlíð, 7. janúar. Óvenjumiklar og langvarandi frosthörkur hafa verið hér í Eyjafirði að undanförnu. Snjólaust er hér með öllu og gengur frostið því mjög djúpt í jörð. Smálækir eru víða notaðir sem vatnsból hér í sveitum og eru þeir nú flestir botnfrosnir og því víða vatnslaust með öllu bæði fyrir fólk og fénað. Vélar allar eru erfiðar í gangsetningu og því eina úrræðið að bera vatnið. Er það allerfitt og tímafrekt, þar sem stór kúabú eru og oft langt að sækja vatnið. Sums staðar fæst ekki annað en krapavatn, sem síast upp um sprungur í svellin. Eldri menn muna ekki eftir að slíkt hafi komið fyrir hér síðan 1918. Eru margir bændur uggandi um, að þessa gæti mjög á grassprettu á komandi sumri. Frostið hefur verið milli 10 og 20, en þó nær 20 stigum nær óslitið á aðra viku. Sem stendur er hér 10 stiga frost, en í dag er skýjað. Víkingur
Og illvígur vatnsskortur kom upp á Vopnafirði. Tíminn 9. janúar:
EDAkureyri, 8.janúar. Sjö hundruð manna byggðarlag, Vopnafjarðarkauptún, er nú orðið vatnslaust með öllu og verður að flytja allt vatn að í tunnum. Við þetta hefur alvarlegt ástand skapast og m.a. hefur barnaskóla staðarins verið lokað. Um síðustu helgi hvarf vatnið algjörlega af vatnsveitukerfi Vopnafjarðarkauptúns. Í kauptúninu, sem stendur undir lágum þurrum ási er enginn lækur né uppspretta, sem koma að notum. Hins vegar voru nokkrir brunnar notaðir í gamla daga, en þeir eru löngu af lagðir, en nú er verið að hreinsa suma þeirra upp. Neysluvatn flytja þorpsbúar nú að í tunnum á bifreiðum og er nú neysluvatnið orðið ákaflega dýrmætt austur þar. Vatnsveita þorpsbúa liggur í uppsprettulindir í Skarðslandi, nokkru ofan við brúna á Vesturdalsá og liggur hún því yfir áðurnefndan ás. Er vatninu dælt upp í vatnsgeyma, sem standa uppi á áðurnefndum ási, en þaðan rennur það svo niður i kauptúnið. Útlitið vegna vatnsleysisins er býsna alvarlegt. Menn á Vopnafirði búast alveg eins við því, að þótt vatnsbólið, sem nú er alveg tómt, fyllist að nýju, kunni að vera frosið í leiðslum. Barnaskóla staðarins hefur verið lokað eins og fyrr segir og er ekki ofsagt, að ástandið í þessu sjö hundruð manna kauptúni sé orðið býsna alvarlegt.
MB-Reykjavík, 8.janúar. Langvarandi stillur hafa nú verið norðanlands, allt frá því um jól. Stillum þessum hafa fylgt hreinviðri og frost, en frost hefur þó yfirleitt verið vægt við sjávarsíðuna. Viða norðanlands er nú farið að örla á vatnsskorti, eins og sagt er frá í blaðinu í dag. Nú upp á síðkastið hefur frost hert í innsveitum norðanlands. Mesta frost þar mældist síðastliðinn laugardag [5.] í Möðrudal, en þá var þar tuttugu og níu stiga frost. Jón Jóhannesson, sem er veðurathugunarmaður í Möðrudal sagði í viðtali við blaðið í dag, og þetta væri þriðja mesta frost, sem mælst hefur, síðan hann tók við veðurathugunum, í fyrra mældist þar 33 stiga frost eins og sagt var frá í blaðinu 30. desember og í annað skipti hefði þar mælst 32 stiga frost.
Morgunblaðið tekur stöðuna hjá fréttariturum 9.janúar:
Morgunblaðið sneri sér í gær til nokkurra fréttaritara sinna norðanlands og austan og innti þá eftir veðurfari þar að undanförnu. Bar flestum saman um að tíð hefði verið með eindæmum allt frá jólum, stillur miklar en þó talsvert frost. Frostið virðist þó heldur vera að ganga niður, þótt veður sé kyrrt ennþá. Hér á eftir fara frásagnir fréttaritara.
Blönduósi 8/1. Hér hafa verið stillur að heita frá því á jólum, ef frá eru taldir tveir dagar er nokkuð var hvasst. Ekki hefur snjóað hér svo orð sé á gerandi og vegir allir ágætir í héraðinu, nema fremst í Langadal. Blanda ruddi sig rétt fyrir jólin nema fremst í dalnum, og hefur bólgnað þar upp þannig að víða hefur flætt yfir veginn. Hefur bílum oft verið illfært um innanverðan Langadal af þeim sökum að undanförnu. Björn.
Bæ, Höfðaströnd 8/1. Hér hefur veður verið gott að undanförnu en frost mikil og víða er að verða vatnslítið. Snjólaust er að kalla. Stillur hafa verið miklar og veður gott ef frá er talið frostið. Vegir eru ágætir, og yfir Lágheiði til Ólafsfjarðar má telja sumarfærð. Siglufjarðarskarð er hins vegar teppt, en talið að ekki sé þar ýkja mikill snjór. Héðan eru allir, sem vettlingi geta valdið, farnir suður í atvinnu og á Hofsósi standa allmörg hús auð af þeim sökum. Björn.
Siglufirði 8/1. Hér er ágætisveður í dag og lítið sem ekkert frost. Snjór er hér ekki mikill, en þó föl yfir allt, enda svolítil ofanhríð í morgun. Undanfarna daga hefur verið töluvert frost, allt að 89 stigum, en stillur svo miklar að menn hafa ekki fundið eins til þess. Stefán.
Egilsstöðum 8/1. Veður hefur verið þannig hér undanfarinn hálfan mánuð að ekki hefur blakt hár á höfði. Stillur hafa verið og frost, allt upp í 20 stig. 10 stiga frost var hér í morgun og virðist frostið vera að ganga niður. Vegir eru sumarauðir og er farið á venjulegum bílum um allar trissur. Þarf varla vegi til því að allt er gaddfreðið, og þeir keyra á jeppum uppá hæstu fjöll. Um jólin var farið á jeppum uppá Gagnheiðarhnúk inn af Fjarðarheiði, sem er allhátt fjall. Ari.
Reyðarfirði 8/1. Veður er hér ljómandi gott og hefur verið einmunatíð frá Þorláksmessu. Síðustu dagana hefur verið hér talsvert frost, allt að 1012 stigum. Í dag er 6 stiga frost, og virðist því eitthvað vera að draga úr kuldanum. Allir vegir eru færir hér um slóðir, meira að segja Oddsskarðsvegur, og er það mjög óvenjulegt á þessum árstíma, ef ekki einsdæmi. Arnþór.
Höfn í Hornafirði 8/1. Hér er blíðskaparveður, logn og frostlaust. Bátar róa allir og fiska sæmilega, allt upp í 20 skippund. Annars hefur verið frost að undanförnu og komu bílar hingað frá Seyðisfirði og voru ekkert lengur en gerist á sumrin. Gunnar.
Tíminn segir frekar af vatnsskorti 10.janúar:
MB-Reykjavík, 9. janúar. Eins og áður hefur verið skýrt frá í blaðinu er nú víða orðinn vatnsskortur norðanlands vegna langvarandi frosta og úrkomuleysis. Vatnsból eru þorrin og vatnsleiðslur frosnar og vatnsborðið lækkar ískyggilega við Skeiðfossvirkjunina. Vatn er víða flutt að í tunnum og neyðarástand hefur enn ekki skapast, þar eð færi er nú einstaklega gott um allar sveitir norðanlands, allt frosið og yfirleitt autt. En ef hríð gerði og vegir yrðu ófærir, án þess að úr rættist með vatnsskortinn, væri þar vá fyrir dyrum, og sumir fréttaritarar blaðsins telja þá hættu á hreinu neyðarástandi. Í Óslandshlíð hefur vatnsskortur gert vart við sig á nokkrum bæjum. Í Haganesvík er mikill vatnsskortur. Þar bætir ekki úr skák, að í síðustu leysingum grófst ósinn á Hópsvatni niður, svo vatnsborðið lækkaði þar mjög, en þaðan er vatn tekið fyrir fyrirtæki staðarins. Er nú verið að reyna að stífla ósinn að nýju. Í Eyjafirði er ástandið víða slæmt. Á Þelamörk er yfirvofandi vatnsleysi á mörgum bæjum, í Öngulsstaðahreppi eru sex stórbýli vatnslaus og víða yfirvofandi vatnsskortur, í Saurbæjarhreppi er vatnslaust á mörgum bæjum og sömu sögur er að segja úr Svarfaðardal, Glæsibæjarhreppi og Arnarneshreppi. Í Hrísey er vatn meirihluta dagsins, en fer minnkandi. Eins og sagt er frá í blaðinu í dag (miðvikudag) er vatnsból Vopnfirðinga algerlega þorrið. Nú er dælt vatni úr lind, sem er allmiklu nær kauptúninu en vatnsbólið og vatn það, sem úr henni fæst, sett inn á kerfið. Þetta vatnsmagn er þó algjörlega ófullnægjandi og óvíst, hversu það endist. Vatn Þórshafnarbúa mun farið að minnka og er farið sparlega með það. Blaðið átti í dag tal við Tryggva Sigurbjörnsson, rafveitustjóra á Siglufirði. Hann skýrði svo frá, að vatnsstaðan í uppistöðulóni Skeiðfossvirkjunar væri sæmilega góð, en síðustu daga hefði vatnsborðið lækkað mjög ört, síðustu tvoþrjá daga um 15 sm á sólarhring. Myndi ekki verða hjá því komist að grípa til dísilstöðva Síldarverksmiðja ríkisins, ef þessu héldi lengi áfram. Þar eð jörð væri auð, myndi ekki eins mikið gagna þótt hlánaði, eins og ef snjór væri yfir.
Morgunblaðið segir af lagnaðarís við Djúp 10.janúar:
Þúfum, N-ÍS, 9. janúar. Gott veður hefur verið jafnan nú undanfarið, en frost nokkuð, einkum til dala. Jörð er því nær snjólaus, og ber því víða á vatnsskorti. Sums staðar er vatnsleysið svo mikið, að til stórbaga er. Innfirðir Djúpsins, bæði Mjóifjörður og Skötufjörður, eru lagðir ísi. Djúpbáturinn kemst því ekki á alla viðkomustaði af þeim sökum. PP.
Veðurkort Morgunblaðsins sýnir hina óvenjulegu stöðu vel. Hæðin mikla nær yfir megnið af kortinu þann 10.janúar - og þannig var staðan meira og minna fram undir miðjan mánuð þegar smálægð komst loks inn á Grænlandshaf. Jón Eyþórsson hefur sett hita á fáeinum stöðvum á Íslandi inn á kortið til að sýna lesendum að fremur hlýtt er við sjávarsíðuna, ekki nema -1 stigs frost á Galtarvita. Mun meira frost er í hægviðrinu inn til landsins, -8 stig í Reykjavík. Farið var í ísflug þennan dag og hefur Jón einnig dregið ísjaðarinn nánar inn á kortið. Ísinn virtist ekki sérlega ógnandi - en kom nær. Sjá fréttir hér að neðan.
Tíminn furðar sig á stillunum 11.janúar:
MB-Reykjavík, 10. janúar. Allar horfur eru á því, að frost og stillur haldist enn um sinn hér á landi og háþrýstisvæðið, sem yfir landinu liggur stenst allar árásir lægðanna, sem venjulega ráða lögum og lofum hér á þessum árstíma. Blaðið átti tal við Jón Eyþórsson veðurfræðing í dag og spurðist fyrir um það, hversu lengi þeir á Veðurstofunni ætluðu að láta þetta veður haldast. Ætli við látum ekki Drottin ráða þessu áfram, sagði Jón, annars eru ekki fyrirsjáanlegar neinar breytingar á veðrinu. Það er ekkert komið frost núna hérlendis, ekki nema 12 og 13 stig á köldustu stöðunum. Annars er það óvenjulegt á þessum árstíma, að svo langvarandi stillur séu á þessum slóðum, venjulega hefur hver lægðin rekið aðra og tíð verið umhleypingasöm. Það hefur verið mikið háþrýstisvæði yfir landinu lengi og það hefur hefur náð yfir Grænlandshaf, Suður-Grænland, til Færeyja og Skotlands og staðist allar árásir lægðanna. Jón Eyþórsson sagði, að ís væri ekkert nær landinu nú, en venja væri á þessum árstíma. Vegna ísfrétta um daginn, kvað Jón þetta hafa verið athugað í gær og hefði þá komið í ljós, að ísinn væri nú á venjulegum slóðum, um 60 sjómílur út af Straumnesi og færðist ekki nær landi, fremur þokaðist hann fjær.
Tíminn segir 15.janúar frá ísstíflu í Laxá í Aðaldal og krapastíflu í Héraðsvötnum:
ÞJ-Húsavík, 14. janúar. Í fyrradag stíflaðist Laxá í Aðaldal um 15 km frá Húsavík. Flæddi áin yfir þjóðveginn á kafla, svo að hann var ófær í fyrradag og gær, uns klakastíflan var sprengd þá um kvöldið af vegavinnumönnum. Klakastíflan kom í ána í svonefndu Grundarhorni, sem laxveiðimenn þekkja vel. Mikill hluti árinnar flæddi út í hraunið. Bærinn Knútsstaðir, sem stendur þarna í hrauninu, var alveg umflotinn vatni þennan tíma, svo ekki var hægt að komast til né frá bænum. Hlaða frá bænum var neðar í túninu, og var á annað fet af vatni í henni. Það er ekki óalgengt, að Laxá stíflist í þessum olnboga, en sjaldgæft er, að stíflan verði á aðra mannhæð, eins og var í þetta sinn. Þegar vegavinnumenn höfðu sprengt klakann, rann áin aftur i eðlilegan farveg, og hefur verið fært síðan. Meðan ófært var, fóru menn Reykjahverfisleið til Húsavíkur.
Í gærmorgun kom krapastífla í Héraðsvötnin og tóku þau þá að flæða yfir bakkana austur á bóginn hjá Akratorfu. Jókst flóðið allan sunnudaginn og fram undir morgun í dag. Þjóðvegurinn til Akureyrar, sem þarna liggur um, er nú undir vatni á 7800 metra löngum kafla, og er hann með öllu ófær til umferðar. Bílar hafa þó komist leiðar sinnar með því að fara yfir tún Höskuldsstaða og Miðhúsa fram hjá vatnselgnum, en sú leið myndi ekki verða fær mikið lengur, ef frost héldi áfram. En til þess eru ekki miklar líkur; í dag var komin frostleysa í Skagafirði, og er allt útlit fyrir að þíðan haldist, svo að vonir standa til, að úr flóðinu dragi. Héraðsvötn hafa oft áður flætt yfir bakka sína á þessum slóðum, en aldrei áður að austanverðu, svo að vegurinn færi undir vatn. Öll fyrri flóð hafa,orðið yfir vesturbakkann, og hafa þau þar af leiðandi ekki valdið sömu umferðartruflun og flóðið i gær.
Tíminn segir enn af Héraðsvötnum 17.janúar - og síðan af hafís á Vestfjarðamiðum:
GÓ- Sauðárkróki, 16.janúar. Svo kann að fara að leiðin norður lokist með öllu í Blönduhlíð í Skagafirði, þar sem Héraðsvötnin hafa flætt yfir bakka sína. Eins og áður hefur verið skýrt frá liggur þjóðvegurinn þar á löngum kafla undir vatni, en bílar hafa sneitt fram hjá elgnum með því að fara yfir tún nærliggjandi bæja. Flóðið er enn ekkert farið að fjara út, en hláka er komin nyrðra og liggja því túnin undir skemmdum, haldi um ferð áfram um þau til nokkurra muna. Og fari svo, að túnin verði ófær áður en vegurinn verður fær að nýju, er ekki annað sýnna en að vegasamband milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar rofni að fullu.
VIB-Reykjavík, 16. janúar.
Samkvæmt upplýsingum fréttaritara blaðsins á Vestfjörðum er hafís á miðum Vestfjarðabáta og hefur nokkuð hamlað veiðum.
Morgunblaðið segir af stíflunni í Skagafirði 22.janúar:
Fyrir rúmum mánuði sprengdu Héraðsvötn í Skagafirði af sér ís á kafla meðfram Akratorfu í Blönduhlíð og rann nokkur hluti þeirra ofan á ísi á alllöngum kafla. Nokkru síðar ruddu vötnin sig á 200300 m kafla og myndaðist við það stífla fyrir norðan og vestan Stóru-Akra, og flæddi þá yfir veginn á 600700 m kafla við bæina Höskuldsstaði og Miðhús í Blönduhlíð. Hafa bílar orðið að aka um tún þessara bæja til þess að komast leiðar sinnar.
Um miðjan mánuð þokaðist hæðin í örlítið austlægari stöðu og færði landsmönnum hlýja sunnanátt. Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins 19.janúar. Þá var mikið og erfitt hríðarveður á Suður-Englandi er kuldapollur úr austri fór þar vestur um. Mjög kalt er vestur í Kanada. Hluti þess lofts komst að vestan allt til Íslands og þann 23. skipti um veðurlag í fáeina daga. Djúp lægð kom að Suður-Grænlandi og sendi snarpt afkvæmi hratt til norðausturs um Grænlandssund. Allt annað veðurlag en ríkt hafði lengi (og einnig lengi á eftir). En það var bara þessi eina lægð. Sú næsta virtist ætla að gera svipað - en stöðvaðist vestan Grænlands eftir að hafa sent sunnanslyddu yfir Ísland - og síðan birtist hæðin aftur, jafnvel enn öflugri en fyrr.
Tíminn lýsir útsynningskastinu 25.janúar:
MB-Reykjavik, 24. janúar. Í morgun var komið vonskuveður um vesturhluta landsins, hvass útsynningur með éljum, og hefur veðrið haldist allan daginn og í kvöld var veðurhæðin níu vindstig að meðaltali hér í Reykjavík og komst upp í 12 stig í hryðjunum. Slys hafa orðið vegna veðurs þessa á vegum og óttast er um trillubát á Sundunum hér. Veðrið er verst um suðvestanvert landið og var veðurhæð mest í Vestmannaeyjum 10 stig að meðaltali. Bátar reru úr verstöðvum á Reykjanesi og víðar, en þegar blaðið hafði samband við fréttaritara sína í kvöld var ekki talin ástæða til þess að óttast um þá. Éljagangurinn náði sunnanlands austur að Kirkjubæjarklaustri og norðanlands austur á Langanes, en austast á landinu var veður bjart og stilltara.
Í kvöld var tekið að óttast um trillubát með einum manni, sem fór frá Korpúlfsstöðum um fjögurleytið í dag áleiðis til Reykjavíkur. Var leitað til Slysavarnafélagsins um klukkan sjö í kvöld og klukkan níu fóru leitarflokkar þess úr Reykjavík af stað til þess að ganga fjörur, og um hálf tíu leytið fór björgunarbáturinn Gísli J. Johnsen af stað til leitar. Þrír menn héldu héðan úr bænum á trillubátnum Ufa, RE-284, í dag og ætluðu út í Þerney til þess að sækja þangað hross Höfðu þeir lítinn bát í eftirdragi til þess að ferja hrossin á út í trillubátinn. Svo hafði talast til, að menn frá Korpúlfsstöðum færu út í Þerney á annarri trillu og hittu Reykvíkingana þar, þegar til þeirra sæist. En um það leyti er þeir á Úfa komu að Þerney, var veður orðið svo slæmt, að Korpúlfsstaðamenn töldu ófært að fara út. Eftir nokkra bið við Þerney komu Reykvíkingarnir að landi á Korpúlfsstöðum og ræddu við heimamenn. Lögðu Korpúlfsstaðamenn fast að þeim að verða um kyrrt. Féllust tveir mannanna á það, en hinn þriðji, Valberg Sigurmundsson. vildi ekki heyra það nefnt og hélt einn af stað. Bilaði vélin í bátnum, meðan enn sást til hans úr landi, en Valberg tókst að koma henni aftur af stað og hélt áfram. Hvarf hann brátt sjónum þeirra, er í landi voru, enda myrkur að skella á. Um sjöleytið sneri annar ferðafélaga hans, sem kominn var landveg til Reykjavíkur, sér til Slysavarnafélagsins og tilkynnti, að Valberg myndi ókominn hingað. Var þegar hafist handa um að kanna, hvort báturinn væri kominn í höfn eða í Vatnagarða eða þá að landi við Gufunes. Svo reyndist ekki og voru þá björgunarsveitirnar þegar kallaðar út. Um níu-leytið lögðu svo leitarflokkar af stað til þess að ganga fjörur. Ætlaði annar flokkurinn að ganga Geldinganesið en hinn Álftanesið og síðan ætluðu þeir að hittast í Víðinesi. Stjórnaði Baldur Jónsson þessum flokkum. Hálftíma síðar lagði Gísli Johnsen af stað til leitar á Sundunum. Hafði þessi leit engan árangur borið þegar blaðið fór í prentun í nótt.
Morgunblaðið segir af sama veðri 25.janúar - og ísabroti á Akureyri:
Í gær var allhvasst um vestanvert landið og gekk á með hríðarbyljum, er kalt loft streymdi inn yfir landið úr vestri, og í gærkvöldi var orðið mjög hvasst í verstu hryðjunum. Veðurstofan sagði að þetta mundi væntanlega ekki standa lengi, því önnur lægð væri á leiðinni og mundi því lægja í dag. Síðdegis lokaðist gamli Hellisheiðarvegurinn. Ekið var um Þrengslaveginn nýja yfir Hellisheiðina. Aðrir vegir voru allir opnir, skv. upplýsingum vegamálastjóra. Skafrenningur var á Holtavörðuheiðinni, en vegurinn var enn fær í gærkvöldi. Flugferðir innanlands lágu niðri í gær vegna veðurs, nema hvað ein flugvél fór til Akureyrar, en bíður þar. Reykjavíkurflugvöllur lokaðist öðru hverju í hryðjunum, en Kaupmannahafnarvél FÍ lenti þar síðdegis. Loftleiðavél, sem væntanleg var í gærkvöldi, átti að lenda á Keflavíkurflugvelli.
Akureyri, 24. janúar. S.l. nótt losnaði ísinn, sem var innantil á Pollinum, þar sem hlýindi voru og sunnanátt. Ísinn rak norður fjörðinn og lenti stór ísspöng á bryggju Skeljungs h.f., sem er syðst og vestast á Oddeyrartanganum. Við þessa bryggju eru afgreidd olíuflutningaskip, sem flytja olíu til Skeljungs h.f. og Olíuverzlunar Íslands h.f. á Akureyri. Ísinn braut allar undirstöður fremri hluta bryggjunnar, en starfsmönnum Skeljungs tókst að bjarga mælum og olíuleiðslum, sem á bryggjunni voru. Framhluti bryggjunnar flýtur nú í sjónum, en er þó fastur við þann hluta, sem ekki brotnaði. Að sögn Steindórs Jónssonar, umboðsmanns Skeljungs á Akureyri, er ekki unnt að leggja olíuskipi að bryggjunni eins og er, nema það liggi við akkeri og hafi festingar á öðrum stöðum en á bryggjunni. Þó mun unnt að landa olíu við bryggjuna með því að setja flotslöngur í land.
Morgunblaðið segir aftur af vatnsskorti 30.janúar - og fiskadauða í Höfðavatni:
Egilsstöðum, 29. janúar. Alvarlegur vatnsskortur er að verða hér í Egilsstaðakauptúni og má segja að það valdi margskonar meiriháttar vandræðum. Hér eru m.a. starfandi mjólkurbú, sem stöðvast að sjálfsögðu ef ekki rætist úr fljótlega, og frystihús, þar sem ekki hefur verið hægt að láta frystivélamar ganga síðan á laugardag vegna vatnsskorts. Kemur það þó ekki að sök í frystihúsinu á meðan frost er úti. Í kvöld er hér að heita vatnslaust. Vatnsskortur þessi stafar af frostunum, sem hér hafa verið undanfarnar vikur. Egilsstaðakauptún fær vatn undan svonefndum Egilsstaðahálsi ofarlega í Egilsstaðaskógi. Kemur vatnið frá uppsprettulindum, svo og úr svonefndum Hálslæk, sem rennur nokkuð fyrir ofan kauptúnið. Vegna frostanna er vatnið orðið að heita ekki neitt og ekki er snjónum til að dreifa, svo hægt væri að bræða hann, því jörð má að heita auð á Héraði. Er víða farið að bera á vatnsleysi í Héraði. Ari.
Bæ, Höfðaströnd, 29. janúar. S.l. sumar var Höfðavatn opnað til sjávar eftir langt árabil. Áður hafði verið töluverð silungsveiði í vatninu og jókst hún að mun við þetta. Má geta þess að Sambandið keypti um 10 tonn af silungi úr Höfðavatni á s.l. sumri. ... Nú er Höfðavatn allt ísi lagt, og er menn af bæjum hér fóru út á vatnið, kom í ljós, að hrannir af dauðum silungi eru í ísnum. Ekki er gott að segja hvað hér er um mikið magn að ræða, en menn telja þó að það nemi fleiri tonnum. Um ástæðurnar til þessa er ekki kunnugt, en mönnum dettur í hug að er vatnið var að smáleggja, hafi verið göt á ísnum og tjarnir. Hafi silungurinn synt upp í þessi göt og orðið innlyksa í ísnum. Að öðru leyti geta menn ekki gert sér grein fyrir þessu fyrirbæri. Föl er nú á ísnum og erfitt að kanna aðstæður, en menn hér hafa fullan hug á því að höggva upp ísinn næstu daga til þess að kanna hvernig í þessu máli liggur, hvort silungurinn sé óskemmdur o.s.frv. Björn.
Eftir hinn skammvinna útsynning sneri hæðin aftur - enn öflugri en fyrr. Lítið vantaði á að þrýstingur næði 1050 hPa og 500 hPa-flöturinn varð hærri yfir Keflavíkurflugvelli en nokkru sinni hefur mælst í janúar fyrr og síðar. En hæðin varð ekki alveg jafn föst í sessi og áður. Háloftalægðardrag kom úr norðri og fór til suðurs rétt fyrir austan land. Gekk þá harður norðanstrengur yfir landið, víða varð hvasst og foktjón undir Eyjafjöllum og víðar. Einnig fréttist af ísreki. Síðan snerist vindur í austanátt sem stóð linnulítið fram yfir 20. Oftast var mjög milt veður, en stöku sinnum snjóaði - stóð sá snjór þó afarstutt við hverju sinni.
Þetta norðankast er að ýmsu skylt páskahretinu um vorið. Lægðardragið var þó ekki jafn afgerandi öflugt, það fór austar heldur en páskadragið og vindur gekk fljótar niður. Hitabreytingar urðu ekki jafn afgerandi. Kortið sýnir veðrið sunnudaginn 3.febrúar. Lokuð lægð hefur myndast skammt undan Suðurlandi.
Á háloftakotinu mánudaginn 4.febrúar má glöggt sjá að mjög kalt loft er yfir landinu. Það er hes háloftarastar sem knýr vindinn - en í mikilli norðanátt er algengara að vindur sé til þess að gera hægur í háloftum, illviðrið verður þá til vegna mikils þykktarbratta, hitamunur er mikill á takmörkuðu svæði í neðsta hluta veðrahvolfs. Á kortinu má líka sjá slíkt veður. Þéttar jafnþykktarlínur fyrir suðaustan land undir hægviðri í háloftum. Þessi lágröst gekk síðan vestur með Suðurlandi og olli síðar miklu sandfoki í Vík í Mýrdal. Að kvöldi 3. fór vindur á Stórhöfða í 32 m/s af norðnorðaustri (hesið) - en gekk síðan niður og að kvöldi 5. var þar nærri logn, en síðan kom lágröstin og þann 6. fór vindur þar í 34,5 m/s af austri.
Morgunblaðið segir frá 5.febrúar:
Aðfaranótt mánudags [4.] lá við slysi á Hvalfjarðarveginum, er vindhviða kastaði vörubíl á fólksbíl og síðan út af veginum. Vörubíllinn T-192 var á leið til Reykjavíkur, en bilaði á móts við Stíflisdal. Kom þar að fólksbíllinn E-125 og ætlaði að lýsa honum meðan viðgerð færi fram. Allt í einu kom mikil vindkviða og svipti vörubílnum til, kastaði honum á fólksbílinn og síðan út af veginum. Skemmdist fólksbíllinn talsvert, en mesta mildi var að ekki varð slys, því tveir menn voru rétt skriðnir undan vörubílnum, er hann kastaðist til. Tvennt var í vörubílnum og 3 í fólksbílnum, en ekkert varð að þeim.
Um síðastliðna helgi bárust fréttir um mikið ísrek frá bátum í grennd við Horn. Vitavörðurinn í Hornbjargsvita sá einnig ísbreiðu skammt undan landi. Morgunblaðið átti í gær samtal við Jón Eyþórsson veðurfræðing og spurði hann um ástæður fyrir ísreki þessu. Ummæli Jóns Eyþórssonar: Í stillunum að undanförnu hefur myndast lagnaðarís á hafinu norður af Horni, sagði Jón. Ísröndin var um 60 sjómílur norður af Straumnesi. Hafís myndast yfirleitt miklu norðar og er lagnaðarís oft milli jakanna, en svo ókyrrt er venjulega á hafinu milli Grænlands og Íslands að það telst til undantekninga að þar myndist lagnaðarís, en það hefur þó gerst nú. Hins vegar er hafísinn oft í svo stórum breiðum að hann fyllir sundið milli Íslands og Grænlands. Nú bar svo við í fyrradag, að það hvessti á norðan og síðar norðaustan. Ísinn bar undan vindi og straumi upp að ströndinni og sá vitavörðurinn í Hornbjargsvita ísspöngina í gær. Skyggni er svo slæmt fyrir norðan land, að ekki er hægt að komast að hve stór ísbreiðan er. Ég var hræddur um að norðaustanáttin dytti niður, en þá hefði straumurinn hrifið ísinn með sér og borið hann austur með norðurströndinni. Svo varð þó ekki, því að vindurinn hélst og ísinn rak vestur fyrir og er hættan liðin hjá í þetta sinn. Það er því norðaustanstrekkingnum að þakka að ísinn tók þessa stefnu, en hjó ekki strandhögg við norðurströndina. Nú bíðum við bara eftir að rofi til yfir hafinu, svo að sjá megi hve víðáttumikill landsins forni fjandi er. Hvað verður um ísinn, sem rekur suður með vesturströndinni? Hann rekur suður i haf. Meðan frost helst, heldur áfram að bætast við hann.
Borgareyri, Eyjafjallahreppi, 3.febrúar. Undir Eyjafjöllum var ofsaveður af norðaustri s.l. nótt [aðfaranótt 3.]. Tjón varð á húsum, hey fuku og símalínur slitnuðu. Í Berjanesi undir Austur-Eyjafjöllum fuku tvær hlöður, skúr og fjárhús. Tjón á heyjum mun þar hafa orðið allverulegt. Í Ysta-Bæli í sömu sveit voru 5 hey austur undir bænum, Af þeim sést ekkert eftir. Þetta munu hafa verið eitthvað á annað hundrað hestar. Í Skógaskóla er rafmagnslaust og á nokkrum bæjum þar í kring og símabilanir urðu þar einhverjar. Í Ormskoti undir Vestur-Eyjafjöllum fuku þök af tveimur hlöðum, hluti af þeirri þriðju og skúr. Brotnuðu margar rúður þar í íbúðarhúsinu og útihúsum, sem orsakaðist af grjótfoki. Rafmagnslínur biluðu þar líka og er rafmagnslaust á Skálabæjum og símabilanir, einkum meðfram fjallinu. Þessar upplýsingar eru skv. símtölum við Skarðshlíð og Varmahlíð. Markús
Tíminn segir af sama veðri - og ís 5.febrúar:
EÓ-Þorvaldseyri, 4.febrúar. Í gær [3.] gerði ofsaveður af norðri og olli miklum skemmdum hér undir Fjöllunum, Fjórar hlöður fuku, einnig fjárhús, járn fauk af fleiri húsum, jeppi fauk út af veginum og fjölmargar rúður brotnuðu vegna grjóthríðar í rokinu. Mun veðrið hafa náð hámarki um ellefuleytið í gærkvöldi. Í Berjanesi fuku tvær heyhlöður og fjárhús og auk þess fuku þar fimmtíu til sextíu hestar af heyi. Þar brotnuðu einnig nokkrar rúður. Bóndinn í Berjanesi heitir Andrés Andrésson. Í Ysta-Bæli fauk eitthvað af útiheyi. Þar býr Sveinbjörn Ingimundarson. Í Ormskoti kaup þak af tveimur hlöðum og járn af þeirri þriðju. Þar fuku einnig um þrjátíu hestar af heyi og hluti af þaki á geymsluskúr. Í íbúðarhúsi og fjósi brotnuðu 37 rúður af völdum grjóthríðar. Líta rúðurnar út eins og eftir skothríð, á þeim eru kringlótt göt, sum á stærð við tveggja krónu pening, önnur á stærð við undirskálar. Svo mikill hefur krafturinn verið, að götin eru yfirleitt regluleg að ummáli, og ekki brotið utan þeirra. Í túninu á Ormskoti eru nú skaflar af möl og grjóti. Þar býr Sigurður Eiríksson. Í Varmahlíð fuku 60 hestar af heyi hjá Einari Sigurðssyni. Í gærkvöldi um ellefu leytið, var bóndi héðan úr sveitinni á ferð í jeppa vestur með fjöllunum. Er hann var kominn langleiðina vestur undir Holtsá, fannst honum hvassviðrið orðið svo mikið, að ekki væri ráðlegt að aka lengra. Ók hann því bílnum út af veginum og skildi hann þar eftir, og hélt af stað fótgangandi. Er hann var nýlagður af stað, sá hann að jeppinn fauk á hliðina. Í morgun kom í ljós, að eftir að jeppinn fauk um, hafði hann færst til á hliðinni og var stórskemmdur. Auk þessa, sem nú hefur verið sagt frá, hafa rafmagns- og símalínur slitnað hingað og þangað um sveitina.
MB-Reykjavík, 4. febrúar. Rekíshrafl hefur borist að Vestfjörðum og Hornströndum og í gær var óttast, að landsins forni fjandi" væri að verða landfastur. Nú hefur komið í ljós, að svo slæmt er ástandið ekki, heldur virðist hafa verið um einstakar allstórar spangir að ræða. Varðskipið Albert var í dag látið kanna siglingaleiðina fyrir Horn og gáfu skipverjar eftirfarandi lýsingu á siglingaleiðinni: Smá íshrafl er á siglingaleið út af Aðalvík og nokkuð þéttari ísspöng 6 sjómílur frá Rit. Frá Straumnesi að Horni eru einn og einn jaki á stangli en talsvert hrafl um 8 sjómílur út af Hólmavíkurbjargi. Fyrir austan Horn er alveg íslaust. Ekki var unnt að fljúga í ískönnunarleiðangur í dag vegna veðurs. Fréttaritari blaðsins á Patreksfirði, SJ, símaði í dag, að skipstjóri á breskum togara, er þangað kom í dag, hefði talið ísinn vera 2030 mílur út af Arnarfirði. Á laugardaginn missti báturinn Tálknfirðingur um 20 bjóð í ís á miðunum út af Vestfjörðum. GS, fréttaritari blaðsins á Ísafirði, símaði í kvöld, að íshrafl væri undan Grænuhlíð. Haldist svipuð vindátt fyrir Vestfjörðum, mun tæplega ástæða til að óttast, að ísinn verði landfastur, að sögn Jóns Eyþórssonar, þar eð ísinn rekur næstum beint í vestur i norðaustanátt, vegna strauma, en snúist vindur t. d. til suðvestanáttar, má búast við, að ís sá, er nú er úti af Vestfjörðum, geti orðið landfastur við Horn.
Tíminn segir af ískönnunarflugi í frétt 6.febrúar:
MB-Reykjavík 5.febrúar. Jón Eyþórsson veðurfræðingur fór í dag í ískönnunarflug með landhelgisgæslumönnum. Í ljós kom að ísröndin er nær landi en venja hefur verið undanfarin ár. Einnig berast nú fréttir af ís á nýjum slóðum, út af Melrakkasléttu og telur Jón nokkra hættu á því að sá ís kunni að berast suður fyrir Langanes með Austur-Íslandsstraumnum. [sjá ískort í blaðinu]
Tíminn heldur áfram með sömu frétt 7.febrúar:
MB-Reykjavík, 6. febrúar. Ég spái því, að á morgun verði engan ís að sjá úr landi og hann verði rekinn langt frá landinu, sagði Jón Eyþórsson í viðtali við blaðið í kvöld. Nú er austan- og suðaustanátt á þessu svæði og mun verða eitthvað áfram. Í dag, klukkan 2, var tilkynnt úr Grímsey, að þaðan sæist ís úr landi. Væri þar um að ræða nokkra smájaka. Eg tel víst, að þar sé um að ræða ís af sama svæði og þann, sem sást undan Rauðunúpum í gær, sagði Jón.
Morgunblaðið segir ítarlega af fárviðrinu undir Eyjafjöllum 7.febrúar:
Hér undir Eyjafjöllum er ekki hægt að segja annað en að veðursæld ríki. Í skjóli hinna háu og tignarlegu fjalla má segja að sé logn og blíða dag eftir dag, þótt annarstaðar blási kaldir vindar. En út af þessu bregður þó oft og það dálitið eftirminnilega. Um síðustu helgi gerði hér ofsaveður af norðaustri og olli það verulegu tjóni á nokkrum bæjum. Ég fór í dag ásamt Árna Sigurðssyni á Bjarkarlandi að litast um og sjá hvað gerst hafði á því svæði sem veðrið var harðast. Við héldum að Ormskoti, en þar fuku hlöður og fjárhús, eins og Morgunblaðið hefur áður skýrt frá. Járn og timbur varð þó ekki á vegi okkar, því rokið hafði feykt því burtu. Að Ormskoti var útlitið þannig, að maður hefði getað haldið að íbúðarhús, nýbyggð hlaða og fjós hefðu orðið fyrir árás í hernaði. Þar eru milli 30 og 40 rúður brotnar, en þó ekki eins og venjulega, heldur eru þær allar með götum hér og þar, enginn brestur sjáanlegur út frá þeim. Stærstu götin eru um 1520 sentímetrar í þvermál. Gluggarnir eru allir með tvöföldu gleri og stykkin, sem hafa brotnað úr, liggja heil ýmist fyrir neðan gluggana eða milli rúðanna. Lygileg saga, en sönn. Sigurður Eiríksson, bóndi, sagði, að um hádegi á sunnudag hafi farið að hvessa af norðaustri með vaxandi veðurhæð er á daginn leið. Um klukkan 8 um kvöldið var komið afspyrnurok. Um það leyti fuku hlöðurnar. Brak úr þeim lenti á síma- og raflínum og sleit þær. Að sjálfsögðu rofnaði bæði síma- og rafmagnssamband. Aftur lægði um kl.10 í bili svo að hann komst slysalaust í fjósið til að gefa kúnum og mjólka þær. Svo hvessti aftur og veðrið gekk ekki niður fyrr en klukkan að ganga 7 um morguninn, en síðan má segja að logn og góðviðri hafi verið, þó með nokkru frosti. Við gengum um túnið, sem er illa á sig komið eftir möl, sem hefur fokið á það. Þar er tæpast grasrót sjáanleg á allstóru svæði umhverfis bæinn. Skurður er í túninu, sem liggur frá norðri til suðurs. Hann er hálffullur af möl, mosa og sinu, sem mölin hefur skafið af á leið sinni í skurðinn. Þarna sáum við stein, sem fokið hafði, og vegur hann 325 grömm. Margir álíka stórir steinar eru þarna. Við þáðum góðan beina hjá Sigurði Eiríkssyni og hans ágætu konu og kvöddum svo og héldum að Berjanesi. Þar, eins og í Ormskoti, er stórt og nýlega byggt fjós og einnig hlaða. Á vesturhlið fjóssins er engin rúða ábrotin. Fólksbifreið stóð á hlaðinu og sást ekkert af framrúðunni, en hálf afturrúðan var eftir. Við hittum Andrés bónda Andrésson, hressan að vanda, þar sem hann og nokkrir aðkomumenn voru að flytja hey þaðan sem áður voru hlöður. Þar var timburbrak, brotnir steinveggir og ónýtt járn, sem tínt hafi verið saman til þess að það yrði ekki að tjóni í næsta veðri. Að þessir bæir urðu svona illa útá í þessu veðri stafar fyrst og fremst af því, að stormsveipirnir koma óboðnir fram úr giljum og skörðum í fjöllunum. Hversu mikið heytap er á þessum bæjum er ekki hægt að segja um, en það mun vera allverulegt.
Á Stóru-Borg, Nýlendu, Varmahlíð og Núpi fauk af heyjum, sem úti voru, allt frá 30 til 60 hestar að talið er. Veður þetta olli ekki slysum á mönnum eða skepnum og nú er aftur góðviðri i okkar kæru sveit Markús.
Morgunblaðið segir rekafréttir 9.febrúar - í fréttinni er einnig sagt frá merkilegri ískomu við Látra á stríðsárunum:
Látrum 6. febrúar. Sá nú orðið sjaldgæfi atburður gerðist hér í dag, að á fjörur rak stórtré, tvö fet í þvermál, og um tuttugu að lengd, en slíkt hefir ekki gerst í um tuttugu ár, eða ekki síðan að hafís hætti að koma hér að landi, en með þeim forna fjanda kom oftast einhver reki, stundum hvalreki. Nú er hafís hér skammt undan landi og mun þetta tré sending frá honum sem norðanáttin hefir komið til skila.
Hér hefir hafís ekki orðið landfastur síðan á stríðsárunum síðari, þá varð hann hér landfastur og sá ekki útyfir hann af hæstu fjöllum hér í kring, til vesturs og norðurs, en suður fyrir Bjargtanga fór samfelldur ís yfirleitt ekki neitt að ráði. Í þetta umrædda skipti kom ísinn að landinu hér á mikilli ferð og öllum að óvörum, munaði minnstu að togarinn Vörður frá Patreksfirði yrði honum að bráð. Hann var að næturlagi að koma út frá Patreksfirði og ætlaði suður úr. Þegar komið var suður á Breiðavík, sáu þeir er á verði voru, eitthvað bera við hafsbrún, en myrkur var, og engin skip með ljós. Nálgaðist þetta óðum og þótti þeim í svip líklegast að þar færi skipalest, en þótti hún þó allfyrirferðarmikil. Skipstjórinn var þá fljótur að átta sig á því, að hér væri um samfelldan hafís að ræða sem ræki að landinu með miklum hraða, og mundi koma jafn snemma að Blakk og Bjargtöngum, fylla hvern vog og vík, og kreista í sundur skip hans ef honum tækist ekki að forða því. Þar sem styttra var í Blakkinn valdi hann þá leiðina, og slapp rétt inn fyrir Blakkinn, áður en ísinn rakst á landið með braki og brestum, og því afli að molað hefði hvert skip sem milli hans og lands hefði verið. Mörg tré komu þá með ísnum. Voru þá fleiri karlmenn hér á Látrum til að bjarga, en voru í dag, en söm var aðferðin, velt á skrúftóg". sem er mjög auðvelt, jafnvel þótt tré væri nokkur tonn, ef fjaran er slétt. Allt fólkið, ungt og gamalt hér á Látrum, fékk sér göngutúr í dag til að bjarga trénu, mun það ekki hafa hent hér fyrr, að húsfreyjur gengu almennt til þeirra starfa, en lukkulegar voru þær við starfið. Þórður.
Morgunblaðið segir af foktjóni 12.febrúar:
Akranesi, 11. febrúar Í norðaustan hvassviðrinu, sem gerði um næstliðna helgi [3.febrúar], fauk jeppakerra um 10 m spöl, en hún stóð á túninu á Másstöðum í Akranesshreppi. Einnig fuku tveir hestvagnar í Skálatanga í sama hreppi og brotnuðu þeir í spón. Annar vagninn fauk langt niður í stórgrýtta fjöru, en hinn tókst á loft upp og fór hann yfir rafmagnsheimtaugina, og heimilisfólkið horfði á. Í einni hrinunni tók rúðu úr á sama bæ og munaði minnstu að hún lenti á bóndanum. Enn brotnaði rúða á næsta bæ. Og fjórar þakplötur fuku af hlöðu í Miðhúsum, og nokkrar járnplötur af veggjum hlöðunnar. Oddur.
Morgunblaðið segir af fuglum - og harðindunum í Evrópu 14.febrúar:
Eins og skýrt var frá í grein frá Vestmannaeyjum í Morgunblaðinu fyrir stuttu, hefst þar við um þessar mundir erlend fuglategund í stórhópum. Það er vepjan, sem heima á í Evrópu. Hún heldur sig á vetrum aðallega beggja vegna Ermasunds og í Miðjarðarhafslöndum, en flytur sig norðar á sumrum. Nú bregður hinsvegar svo við, að mikill fjöldi vepju er kominn til landsins og heldur sig á Suðurlandsundirlendinu og í Vestmannaeyjum. Á Suðurlandi mun hún einkum halda sig í grennd við jarðhitasvæði. Morgunblaðið sneri sér til dr. Finns Guðmundssonar, fuglafræðings, og spurði hann um þetta fyrirbæri. Hann kvað vepjuna vera hér vetrarflæking, sem kæmi árlega, en sjaldan í stórum stíl, þótt stundum hefði mátt kalla það göngur. Nú væri hins vegar mjög mikið um hana, og hefði hún farið að koma fyrir alvöru í janúar. Fuglar þessir kæmu sennilega frá Bretlandseyjum, og væru þeir að flýja frosthörkurnar og snjóalögin hingað norður eftir. ... Dr. Finnur kvað neyðarástand ríkja í þessum málum í Evrópu eftir hinar óvenjulegu frosthörkur. Víða væru alger jarðbönn, og fréttir bærust alls staðar að um það, að fuglar færust unnvörpum. Sumir fuglastofnar fara á flæking og flýja kuldann í allar áttir, eins og vera mundi um vepjurnar, sem hingað eru komnar. í mörgum löndum Evrópu hefði verið gripið til skyndiráðstafana í verndunarskyni, svo sem að banna með öllu hvers kyns fuglaveiðar um tíma. Búast mætti við því, að fuglalíf hér yrði með daufara móti í sumar, t.d. hefðu skógarþrestir drepist unnvörpum í Bretlandi.
Í norðanillviðrinu þann 3. varð ekki tjón að marki í Mýrdal, en aftur á móti þegar vindur snerist til norðausturs eftir að það veður gekk niður. Morgunblaðið 19.febrúar:
Vík í Mýrdal, 6.2. 1963. Eftir að rosanum í desember linnti, gerði góðviðri á aðfangadag jóla og hefur það að mestu haldist til þessa. Hafa margir þessara góðu daga verið bjartir og fagrir sem sumar væri. En s.l. sunnudag um hádegisbil [3.febrúar], barst á norðan stórviðri, er stóð í tvo daga. Ekki fylgdi því úrkoma, en nokkurt frost og mikil veðurhæð. Hér í Mýrdal er ekki kunnugt um skaða af þessu veðri. Í morgun [6.] var svo sami veðurofsinn skollinn á aftur. Vindur var á norðaustan og svo mikið sandrok af Mýrdalssandi, að rétt sást til næstu húsa í Vík. Ekki dró úr sandrokinu fyrr en nokkru fyrir hádegi, er snjóa tók.
Nokkur lægðagangur var við landið síðustu viku febrúarmánaðar. Lengst af var hlýtt, en náði samt að snjóa þegar kröpp lægð fór norður yfir mitt landið. Þótti veðurnördi þetta skemmtileg lægð. Tíminn segir frá 27.febrúar:
MB-Reykjavík, 26. febrúar. Í nótt og í dag hefur snörp lægð farið norðaustur yfir landið. Olli hún talsverðri snjókomu á Suðurlandi í nótt og fram eftir degi, en mikilli rigningu austanlands. Einnig mun talsvert hafa snjóað nyrðra vegna hennar. Búist er við að á morgun hvessi af suðaustri með rigningu um mestan hluta landsins, þó einkum um sunnan og vestanvert landið, þar má búast víð stormi. Eins og fyrr segir var talsverð snjókoma sunnanlands og þyngdist færð nokkuð vegna hennar, einkum undan Vestur-Eyjafjöllum og í Landeyjunum. Þar mun og hafa verið um kálfadjúpur snjór. Snjórinn er mjög jafnfallinn og því mjög blindandi, svo eru vegir og þíðir undir. Mjólkurbílar munu hafa tafist í fjóra til fimm tíma af þessum sökum. Samkvæmt upplýsingum Vegamálaskrifstofunnar er færð nú orðin mjög þung á Öxnadalsheiði og aðeins fær stórum bifreiðum. Þar var í dag skafrenningur og þýðingarlaust að ýta af veginum.
Tíminn fagnar því 28.febrúar hversu fá sjóslys hafi orðið það sem af er vetri (en því miður átti það eftir að breytast um páskana):
MB-Reykjavík, 27. febrúar. Þegar þetta er skrifað, er aðeins einn dagur eftir af febrúarmánuði og fyrstu tvo mánuði ársins hefur ekkert sjóslys orðið, það er að segja ekki drukknunarslys. Banaslys hefur að vísu orðið um borð í skipi, en af öðrum orsökum. Þessir tveir mánuðir hafa samt yfirleitt verið einhverjir mestu slysamánuðir ársins á sjó, enda þá verstu veðra von. Séu til dæmis síðustu fjögur ár tekin þá kemur í ljós, að árið 1959 farast 43 menn á þessum tveim mánuðum, 1960 farast 6, 1961 fórust tveir og 1962 fimm.
Síðasta dag febrúarmánaðar gerði allmikið landsynningsveður um landið vestanvert, en það stóð ekki lengi. Tíminn 1.mars:
JK-Reykjavík, 28.febrúar. Í hvassviðrinu í morgun fuku heilmargar þakplötur af nýja gagnfræðaskólahúsinu i Kópavogi. Bárujárnsplöturnar fuku víðsvegar, ein lenti á vélarhúsi bíls og skemmdi hana, og önnur braut grindverk í grenndinni. Engin slys urðu á fólki af þakplötuhríðinni. Plöturnar byrjuðu að losna um hálfáttaleytið í morgun, og fór mikill hluti af suðurhlið þaksins. Hús þetta var reist í sumar sem leið.
Marsmánuður var einstaklega blíður og framan af var oftast bjartviðri. Í Borgarfirði var marga daga strekkingsvindur sem þótti hentugur til að reyna flugdreka - (gekk eitthvað slíkt æði yfir landið?).
Morgunblaðið segir 5.mars frá vandræðum við Blöndu í Langadal - og góðri færð eystra:
Blönduósi 4. mars. Um helgina flæddi yfir veginn í Langadal, bæði norðan og sunnan við Auðólfsstaði og hefir verið ófært um veginn á bílum frá því á laugardagskvöld. Flóðið stafar af jakastíflu, en áin hefir á þessum slóðum verið undir ís frá því snemma í vetur. Ennfremur er stífla í henni hjá Gunnsteinsstöðum, en flóðið nær þó ekki yfir veginn þar. Mikið engjaflæmi á Auðólfsstöðum og Æsustöðum er undir vatni og miklar íshrannir liggja á því frá því fyrir jól, en þá hljóp tvívegis mikill ruðningur í ána. Ekki er enn vitað um skemmdir á enginu, en búast má við að Þær séu talsverðar. Ekki eru horfur á að flóðið sjatni meðan vöxtur helst í ánni, nema því aðeins að hún ryðji sig. Að þessu er mikil samgöngutruflun, því vegurinn er á kafi í vatni á löngum kafla. Bílaumferð austur og vestur um sýsluna fer nú fram um Svínvetningabraut. Mikill aur er kominn hér og hvar á vegi og einnig hefir runnið eitthvað úr vegum á stöku stað. Þetta leiðir til þess að þung færð er víðast hvar, þótt enn geta ekki talist ófærð. Björn
Seyðisfirði, 4.mars. Sá einstæði atburður hefir nú gerst, að Fjarðarheiði er fær í byrjun mars. Var heiðin rudd í dag, og sagði Helgi Gíslason vegaverkstjóri að það hefði verið létt verk, enda litill snjór á heiðinni. Venju fremur snjólétt hefir verið hér í vetur og einkar hagstætt tíðarfar frá jólum, um skeið þó nokkurt frost, en einstakar stillur og úrkomulaust. Það hefir aldrei gerst frá því bílvegur var gerður yfir Fjarðarheiði að hún væri fær á þessum tíma árs. Áður en heiðin var rudd nú að þessu sinni höfðu jeppar og bílar með drif á öllum hjólum farið yfir hana. Sveinn
Morgunblaðið talar um vorblíðuna 12.mars (og ekki að ástæðulausu):
Meðan öll Norður-Evrópa er á kafi í snjó og ísinn teppir siglingaleiðir er Ísland að heita má snjólaust og okkur finnst komið vorveður. Stillan, sem byrjaði um jólin, hefur verið óvanalega langvinn. Að vísu var allt annað en hlýtt fyrst eftir áramótin, og kom þá hörkufrost engu síður en í nágrannalöndunum, varð allt að 29 stiga frost norður á Fjöllum. Síðan smáhlýnaði aftur eins og títt er þegar kuldar setjast að á meginlandi álfunnar. Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, gefur okkur þá skýringu, áð þannig verði þetta gjarnan þegar kalt háþrýstisvæði sest að yfir meginlandinu, einkanlega Norðursjávarlöndunum, kalt loft streymir þá norðaustan frá Rússlandi og Síberíu vestur um Evrópu og til Bretlandseyja og heldur síðan áfram sem suðaustanátt til landsins og hlýnar svo mikið á leiðinni að það er orðið þægilega hlýtt eftir árstíma þegar hingað kemur. Þetta fyrirbæri, kuldar í Evrópu og hlýtt á Íslandi, þekkja menn frá fyrri tíð. Mörgum ættu að vera í fersku minni ísaveturnir þrír, sem gengu yfir Norðurlönd á stríðsárunum, en þá var mjög gott hér. Eins var gott ár skömmu eftir stríðið, veturinn 1947. Þá voru langvarandi kuldar á meginlandinu, en stillur, þurrviðri og mikið sólskin hér. Þá voru flugsamgöngur upp teknar hér, m.a. hafði Air France hér bækistöð og farþegar sem komu hér um, undruðust stórlega, er þeir komu úr kulda og þokulofti úti og í glaða sólskin og blíðu hér.
Febrúarmánuður hlýjastur og þurrastur. En nú skulum við athuga hitatölurnar, sem við fengum hjá Öddu Báru Sigfúsdóttur veðurfræðingi. Þá kemur í ljós að nóvembermánuður er einasti vetrarmánuðurinn, sem er undir meðallagi hvað hita snertir hér á landi. Mestu munar í febrúarmánuði. Þá er 2 stiga meðalihiti og rúmum tveimur stigum hlýrra en venjulegt er, sem ekki er svo lítið. Auk þess var mánuðurinn mjög þurr, úrkoma ólík því sem venja er og engin frost sem teljandi eru eftir 6. febrúar. Í októbermánuði var hitinn 5,2 stig, en meðalhiti þess mánaðar er 4,9 stig. Nóvember var fremur kaldur hitinn 1 stig, en er venjulega 2,6 stig. Desembermánuður var ósköp venjulegur með 0,8 stiga meðalhita. Einnig var janúar rétt í meðallagi, til jafnaðar 2 stiga frost og síðan kom þessi hlýi febrúarmánuður. Auk þess sem hlýindi hafa flesta mánuði vetrarins verið fyrir ofan meðalilag hefur mjög litið snjóað og stillur verið langvinnar.
Morgunblaðið fjallar enn um góðviðrið 14.mars:
Það hefðu einhvern tíma þótt stórtíðindi, að vorverk og jarðvinnsla væru hafin á Íslandi fyrir miðjan marsmánuð. Sú hefur þó orðið raunin á tilraunasvæði Búnaðardeildar Atvinnudeildar Háskóla Íslands við Korpúlfsstaði.
Morgunblaðið 20.mars - menn fara að óttast vorharðindi - eða hvað?:
Sumir óttast, að eftir jafn góðan vetur og verið hefur hingað til, hljóti að bregða til hins verra um veðurlag i vor og sumar. Morgunblaðið frétti, að veturinn 19311932 hefði að veðurfari verið svipaður því, sem liðið er af þessum vetri. Morgunblaðið sneri sér af þessu tilefni til Jónasar Jakobssonar, veðurfræðings. Kvað hann það rétt vera, að veturinn 19311932 hefði um margt verið líkur þessum. Þá hefði verið heldur kalt framan af vori, í apríl og maí, en hlýtt og gott veður síðari hluta maí. Þó hefði víða verið of þurrt fyrir gróðurinn, enda úrkoma 20% fyrir neðan meðallag. ... Niðurstaðan er í því sú, að við eigum í vændum allgott vor og gott sumar, ef veðurlagið verður eitthvað líkt því, sem var fyrir 31 ári.
Tíminn fjallar einnig um hina góðu tíð 17.mars:
MBReykjavík, 16. mars. Elstu menn muna ekki annað eins. Þannig er komist að orði í mörgum fréttasendingum utan af landi um veðrið á þessum vetri og manna í milli heyrist oft talað um að tíð sé dæmalaus. En hún er það ekki ... Blaðið átti í dag tal við Öddu Báru Sigfúsdóttur veðurfræðing og spurði hana um þessi mál. Adda Bára veitti eftirfarandi upplýsingar. Meðalhiti októbermánaðar var 5,2 gráður, en meðaltalið er 4,9 gráður. Meðalhiti nóvember varð 1.0 gráður, en meðaltalið er 2,6 gróður, svo hann hefur verið miklu kaldari en meðaltalið. Meðalhiti í desember varð 0,8 gráður, en meðaltalið er 0,9 gráður. í janúar varð meðalhitinn 0.2 gróður en meðaltalið er -0,4. Það er fyrst í febrúar, sem verulegt frávik verður til hins hlýrra. Meðaltal febrúarmánaða er -0.1 gráða, en meðalhitinn í ár varð 2.0 gráður. Um marsmánuð er ekki unnt að segja neitt enn þá, og ég er vön að segja öllum, sem eru að hrósa vetrinum, að hann sé nú ekki liðinn enn þá, sagði Adda Bára. Hins vegar hefur mars verið ákaflega mildur, og ef svo heldur áfram sem horfir, verður hann vafalaust langt fyrir ofan meðaltal. Febrúarmánuður í ár er heldur ekkert einsdæmi. Árið 1932 var hér langsamlega hlýjasti febrúarmánuður, sem mælst hefur, þá var meðalhitinn 5,4 stig, og skömmu áður, 1929, var hann 3,3 stig. Og ekki eru mörg ár síðan febrúar var hlýrri en nú, því 1956 var meðalhitinn 2,7 gráður og 1959 var hann 2,3 gráður.
Tíminn segir 24.mars frá þriðja alþjóðlega veðurdeginum - og eins af viðvarandi óvenjulágum loftþrýstingi í Japan. Hinn víðkunni danski veðurfræðingur Aksel Wiin-Nielsen segir einhvers staðar frá því (nenni ekki að fletta því upp í bili) að tilviljun hafi ráðið því að þennan vetur hafi menn í fyrsta skipti reynt að reikna orkuflæði milli hitabeltis og heimskautasvæða í tölvum - og jafnframt reynt að þátta flæðið á bylgjutölur (umfang bylgjusveipa). Útkoman varð töluvert önnur en menn höfðu búist við. Olli það nokkru hugarangri - en síðar áttuðu þeir sömu sig á því að þessi vetur, 1962-1963, var í raun mjög afbrigðilegur. Fyrirstaðan við Ísland (og hinn lági þrýstingur í Japan voru sitthvor hliðin á saman peningnum, bylgjumynstur vestanvindabeltisins var stórlega raskað. Hætt er við að nú á tímum væri veðurfarsbreytingum af mannavöldum strax kennt um. En skiptum yfir á Tímann:
MB-Reykjavík, 23. mars. Í dag er þriðji alþjóðlegi veðurdagurinn og er hann að þessu sinni helgaður flugveðurþjónustunni. Veðurþjónusta er nú á dögum algerlega ómissandi fyrir hinar miklu flugsamgöngur, og enginn flugmaður leggur af stað í flugferð nú á dögum, nema afla sér allra fáanlegra upplýsinga um veðurfar á væntanlegri flugleið og millilandaflugvélar taka oft á tíðum á sig allstóran krók frá beinni línu, til að forðast óhagstæða vinda, ísingu og önnur óhagstæð veðurskilyrði. Við litum inn á Veðurstofuna á Reykjavikurflugvelli í tilefni dagsins og hittum þar Jónas Jakobsson, veðurfræðing að máli. Veðurstofan hér innir af höndum margvíslega þjónustu fyrir flugið, allt innanlandsflug og gerir allar flugveðurspár fyrir þær flugvélar, sem fara frá Reykjavíkurflugvelli vestur um haf, og einnig þær vélar, er fara austur um haf eftir hádegið. Þær, sem fara austur fyrir hádegi fá hins vegar veðurspár frá Keflavík, en þar eru veðurfræðingar Veðurstofunnar á vakt allan sólarhringinn.
KH Reykjavík, 23. mars. Japanskir veðurfræðingar velta nú áhyggjufullir vöngum yfir djúpu lágþrýstisvæði, sem virðist ætla að breiðast yfir norðurhvel jarðar og spyr hver annan, hvort. veðurfar þetta eigi rætur sínar að rekja til einhvers óþekkts náttúrufyrirbrigðis. Lágþrýsti hefur hefur verið óvenju mikið í Japan það sem af er ársins, t.d. var meðalloftþrýstingur í janúar aðeins 1000,4 mb, en er venjulega 1016,3 mb. Svo mikið frávik er statistískt svo óvenjulegt, að það gæti aðeins átt sér stað á einu dægri með mörg þúsund ára millibili. Hinn óvenju lági loftþrýstingur hefur m.a. haft í för með sér, að hafið umhverfis Japan hefur hækkað. Grunur veðurfræðinganna um, að hér sé eitthvað óþekkt á seyði, styrkist við það, að óvenju hár loftþrýstingur hefur verið að undanförnu í nánd við Norðurpólinn, m.a. við Ísland, þar sem loftþrýstingur í janúarmánuði var að meðaltali 1027 mb, en er venjulega 999 mb. En nú er sem sagt búist við að lágþrýstisvæðið muni breiðast yfir norðurhvel jarðarinnar. Japanskir veðurfræðingar safna nú til sín upplýsingum viða að úr heiminum, ef vera kynni að þeir gætu leyst gátuna um orsök þessa óvenjulega veðurfars. Blaðið átti tal við Jónas Jakobsson, veðurfræðing, út af þessum fréttum. Hann vildi lítið gera úr áhyggjum hinna japönsku veðurfræðinga en sagði, að það væri náttúrlega vitað mál, að ef slík frávik yrðu ár eftir ár frá meðalloftþrýstingi, þá mundi kólna á norðlægum breiddargráðum. þar sem áhrifa hlýrra hafstrauma gætti ekki.
Seint að kvöldi 27.mars varð óvenjuöflugur jarðskjálfti í mynni Skagafjarðar. Einn af þremur öflugustu skjálftum sem mælst hafa hér við land frá upphafi mælinga. Aldrei þessu vant var ritstjóri hungurdiska steinsofandi svo snemma kvölds (klukkan rúmlega 23) og missti af skjálftanum - þótti það miður. Tíminn segir frá 28.mars:
TK-Reykjavík, 28. mars. Í gærkveldi um kl.23:15 fannst mjög snarpur jarðskjálftakippur hér í Reykjavík. Enn snarpari var kippurinn á Norðurlandi og snarpastur á Siglufirði og norðanlands og á Vestfjörðum fylgdu í kjölfarið aðrir kippir vægari. Á Siglufirði klofnuðu hús og hrundi úr reykháfum og á Akureyri var fólk svo felmtri slegið. að það klæddist og flúði út á götur með ungbörn í fangi. Samkvæmt upplýsingum jarðskjálftadeildar Veðurstofunnar um kl.2 í nótt virtist allt benda til þess að upptök jarðskjálftans hefðu verið norðan af landinu um 450 km frá Reykjavík. Er fyrsti jarðskjálftakippurinn einhver hinn orkumesti, sem mælst hefur á mæla Veðurstofu íslands. Hér fara á eftir upplýsingar þær, er blaðinu tókst að afla sér áður en það fór í prentun í nótt:
Fréttaritari blaðsins á Akureyri símaði að þar hefðu fundist tveir jarðskjálftakippir um kl. 23:15. Var hinn fyrri mjög snarpur og langur en hinn síðari heldur vægari og mun styttri. Hús nötruðu og leirtau glamraði en dynur mikill barst frá jörðu er jarðskjálftarnir gengu yfir. Fólk var felmtri slegið og klæddist það, sem háttað var og hélt sig utan dyra. Fréttaritari Tímans taldi að eftir hljóðinu að dæma virtist sem kippurinn gengi frá suðvestri til norðausturs. Fréttaritari Tímans í Bolungavík símaði, að þar hefði fundist snarpur jarðskjálftakippur. Var klukkan þá 17 mínútur yfir 11 og stóð kippurinn í hálfa mínútu. Kippsins varð einnig vart í Vestmannaeyjum og var hann þó mjög vægur þar.
MB-BÓ-Reykjavík, 28. mars. Eins og sagt var frá í blaðinu í dag, varð mikill jarðskjálfti um mestan hluta landsins í nótt er leið. Stærsti kippurinn varð klukkan 23:15 í gærkvöldi og í kjölfar hans fylgdu aðrir kippir og fram eftir degi í dag fundust kippir í nágrenni upptaka jarðskjálftans, sem voru í mynni Skagafjarðar. Fólk varð víða allskelkað og flýði út úr húsum sínum og búsmali ærðist í húsum, útihús hrundu og skemmdust á Skaga, sjúkrahúsið á Sauðárkróki og símstöðvarhúsið á Skagaströnd skemmdist talsvert, heitar laugar hurfu og innanhúss urðu víða skemmdir. Þetta mun vera mesti jarðskjálfti, sem átt hefur upptök sín hérlendis síðan 1934. Jarðskjálftinn mældist erlendis, til dæmis varð hans vart á jarðskjálftamælum á Jan Mayen, en þar mældist hann klukkan 23:17:25 eftir íslenskum tíma.
MBReykjavík, 28. mars. Náttúruhamfarir gera yfirleitt ekki boð á undan sér. Þó voru ekki allir óviðbúnir því, að jarðskjálfti yrði að þessu sinni, að minnsta kosti ekki Víkurbúar í Mýrdal. Prestur þeirra, Páll Pálsson, hafði sem sé sagt sóknarbörnum sínum það fyrir, að jarðskjálfta væri von og töldu allir víst að nágrannakona þeirra, Katla gamla, ætti sín von. Þegar svo jörðin titraði í nótt töldu allir víst að sú gamla væri farin af stað en sem betur fer reyndist svo ekki.
Morgunblaðið segir einnig frá skjálftanum 28.mars [meira efni tengt skjálftanum má finna í blöðunum]:
Morgunblaðið náði í nótt tali af Þórði Sighvatz á Sauðárkróki. Skýrði hann frá því, að geysimikill landskjálfti hefði orðið norður á Skaga og sagðist hann vita til þess, að bóndinn á Fossi á Skaga hefði slasast illa, þegar hann reyndi að koma sér og fjölskyldu sinni út um glugga á bænum. Mun húsið hafa leikið á reiðiskjálfi og fólkið gripið til þess ráðs að forða sér út um glugga, en bóndinn skorist illa, og var ráðgert að flytja hann til Sauðárkróks í bíl í nótt. Þá sagði Þórður, að sprungur hefðu myndast með niðurföllum í nýja sjúkrahúsinu á Sauðárkróki í versta kippnum. Þá fór margt fólk út úr húsunum og meiddust tvær konur, önnur datt niður stiga, þegar hún hugðist hlaupa út úr húsi sínu, en ekki var Þórði kunnugt um meiðsli hinnar.
Síðustu fréttir frá Siglufirði: Stefán Friðbjarnarson fréttaritari Morgunblaðsins á Siglufirði símaði í nótt, að skömmu fyrir kl.2 hefði enn fundist kippur þar í bæ, en vægur. Sterkasti kippurinn stóð yfir í 23 mínútur. Þá léku hús hér á reiðiskjálfi. Húsin Túngata 10 og Túngata 10B sem eru sambyggð steinhús löskuðust í harðasta kippnum og myndaðist smárifa á samskeytum þeirra sem er um 2 metra löng og 45 sm breið. Einnig mun reykháfur hafa hrunið á einu íbúðarhúsi, Hvanneyrarbraut 5B.
Morgunblaðið segir áfram frá 2.apríl:
[Brot úr pistli frá Birni í Bæ á Höfðaströnd] Allir eru sammála um að hér hafi ekki í manna minnum komið eins harðir jarðskjálftar, og líklega má þakka hvað vel og traustlega er nú orðið byggt að ekki varð meira tjón og þó skemmdust fjöldi húsa, miðstöðvar stórskemmdust, dyraumbúningar skemmdust, myndir, klukkur og annað lauslegt duttu niður og brotnuðu. Einna mestar skemmdir munu hafa orðið í læknisbústaðnum, þar sem veggir og loft sprungu illa; gólflistar losnuðu frá veggjum, veggflísar hrundu niður í eldhúsi, miðstöð bilaði. Úr sumum hillum í apóteki var næstum sópað niður á gólf og bækur úr bókaskápum út um gólfin. Við getum hugsað okkur hvernig er að vera í húsum, þegar slíkt og þvílíkt gengur á. Sem betur fór var læknir heima hjá konu sinni og tveim litlum dætrum. Í Kaupfélaginu hafði furðanlega lítið brotnað og skemmst, nokkrar sprungur sáust þó í veggjum og ljóshjálmar brotnuðu. Á skrifstofugólfi Kaupfélagsins stóð skjalaskápur ca. 2300 kg að þyngd, hann færðist til um 15 cm.
Tíminn segir enn af gróðri og góðri tíð 5.apríl:
Í gær rigndi hér í Reykjavík, og þótt enn sé snemmt vakti rekjan garðagróðurinn, og víða um bæinn mátti sjá tré, sem voru að byrja að laufgast. Fyrir nokkrum dögum var víðirinn farinn að laufgast, en í gær mátti sjá laufgaðan reyni í garði á Bergþórugötu. Þetta gerist hér á meðan ísalög eru enn við strendur landa, sem kölluð hafa verið hlý til þessa, samanborið við Ísland. Á öðrum stað í blaðinu er þess getið að vorannir séu í nánd hér sunnanlands. Það er því ekki ofsögum sagt af því, að síðari hluti þessa vetrar hefur verið með þeim mildustu á þessari öld. Gróðurinn ber vitni þess. Við töluðum í gær við Hafliða Jónsson, garðyrkjuráðunaut borgarinnar. Hann kvaðst einmitt hafa veitt því sérstaka athygli í morgun, hvernig gróðurinn hefði tekið við sér af vætunni, og til dæmis hefði hann séð ljómandi fallega útsprungna selju í garði við Laugaveginn. Hann bar engan kvíðboga fyrir því, að illa kynni að fara ef kæmi hret, garðagróðurinn mundi þola það úr þessu.
BO-Reykjavík, 4. apríl. Blaðið átti í dag tal við Þorstein á Vatnsleysu um tíðarfarið og búskaparhorfur í þessu dæmafáa árferði. Það fer að koma vorhugur í menn, sagði Þorsteinn, en þó hefur verið andkalt um nætur í uppsveitum sunnanlands, og lítið dýpkað á klaka s.l. hálfan mánuð. Nú eru um 20 cm niður á klakann víða hvar, en hann er sennilega þunnur og víða eru klakaslit í gömlum túnum. Vegir eru góðir eins og á sumri og verða að líkindum sæmilegir nema hann leggist í miklar rigningar. Menn eru nú að bera út hauga og viða að tilbúnum áburði, en dreifa honum ekki strax. Það hefur gefist illa meðan klaki er í jörðu, áburðurinn hefur þá flotið burt. Fé er allt á fullri gjöf nema hvað eitthvað kynni að hafa sloppið á fjallabæjum. Sauðburður mun yfirleitt hefjast á venjulegum tíma eða síst fyrr því tilhleypingu var síður en svo hraðað. Heyfengurinn var yfirleitt minni en menn höfðu gert sér grein fyrir, og má því kallast sérstök blessun að tíðarfarinu. Í hörðu ári hefði víða orðið þröngt fyrir dyrum. Þó má telja að slíkt árferði taki nokkuð fyrir sig fram. Til dæmis er greinilegt, hvað fé er verr fram gengið að haustinu eftir svo snjólausa vetur. Afréttargróðurinn verður magur þegar snjóinn vantar, og það kemur niður á vænleika fjárins. Þá þarf heldur ekki að gera ráð fyrir góðu berjaári, en menn hafa veitt því athygli, að berjaspretta og vænleiki sauðfjár á haustin haldast nokkuð í hendur. Um framhaldið í vor er lítið hægt að spá, að minnsta kosti ekki fyrir leikmenn. Reynslan hefur þó sýnt, að það er engu síður góðs að vænta þótt veturinn hafi verið mildur.
Morgunblaðið segir enn af skemmdum í skjálftanum mikla í pistli 9.apríl:
Skemmdir á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki af völdum jarðskjálftanna urðu miklu meiri en haldið var í fyrstu. Talið er að viðgerð á húsinu kosti 80100 þúsund krónur. Morgunblaðið átti í gær tal við Svein Ásmundsson, byggingarmeistara, en hann reisti sjúkrahúsið á sínum tíma. Sveinn sagði, að skemmdir af jarðskjálftunum hefðu ekki orðið á burðarpunktum hússins, heldur léttbyggðum skilveggjum og múrverki. Byggingarmeistarinn taldi mjög eftirtektarvert, að skemmdirnar af jarðskjálftunum hefðu nær eingöngu orðið á þeim hluta hússins, sem enginn kjallari er undir. Þar sprungu veggir, múrverk brotnaði niður Skemmdirnar urðu miklu meiri en ég hefði getað látið mér detta í hug, sagði Sveinn, einkum með tilliti til þess að sjúkrahúsið var eina húsið á Sauðárkróki, sem skemmdist, en það er jafnframt traustbyggðast og býst ég við að viðgerðarkostnaður verði ekki undir 80100 þúsund krónum.
Þann 9.apríl varð gríðarleg og snögg breyting á veðri - hið fræga páskahret skall á. Um það má finna sérstakan pistil hungurdiska - en sleppum að mestu hér.
Eftir að hretið gekk yfir varð veðurlag skárra í nokkra daga, varð jafnvel vorlegt [sumardagurinn fyrsti var 25.apríl]. Um mánaðamótin kólnaði aftur og var veðurlag hryssingslegt mestallan maímánuð. Fyrst með köldum norðlægum áttum og eftir þann 20. gerði allmikla útsynninga í nokkra daga, jafnvel með krapahryðjum á Suður- og Vesturlandi. Þá var mun skárra norðaustan- og austanlands. Loftþrýstingur var að meðaltali með allra lægsta móti miðað við árstíma, sá næstlægsti í 200 ára sögu þrýstiathugana. Mikil umskipti frá háþrýstingi vetrarins.
Þann þriðja var mjög vaxandi lægð á Grænlandshafi. Hreyfðist hún austur. Minnisstæðar eru ískyggilegar veðurspár þennan dag. [Kl.10:10 Faxaflói og Breiðafjörður, Faxaflóamið og Breiðafjarðarmið: Gengur í norðvestan storm með éljagangi síðdegis, en snýst í norðrið og léttir til í nótt.]. Kortið sýnir stöðuna á hádegi þennan dag. Svo sannarlega virtist illt í efni. En betur fór á en horfðist. Lægðin hægði á sér, fór að grynnast og veðrið varð ekki eins slæmt og útlit var fyrir. En allur var varinn góður - og hann gekk í norðanátt og kólnaði og þann 6. rétt slefaði hámarkshiti upp fyrir frostmark í Reykjavík.
Tíminn segir af hretinu 5.maí:
MB Reykjavík, 4. maí. Í nótt snjóaði talsvert vestan lands og sunnan, en færð mun ekki hafa spillst til muna. Þó var Hellisheiði þungfær í morgun. Einnig munu vegir þungfærir vegna aurbleytu á nokkrum stöðum. Snjókoman í nótt náði yfir allt vestanvert landið og austur um Suðurland, austur á Síðu. Ekki munu vegir hafa spillst að ráði vegna þessarar snjókomu, enda veður frostlaust og snjórinn rann viða í sundur nokkurn veginn jafnóðum. Einna verst mun veðrið hafa orðið út af Vestfjörðum og vestur af Reykjanesi, en þar var vestan stormur fyrri part dagsins í dag. Vestfjarðarbátar voru yfirleitt ekki á sjó í nótt, því veður var slæmt í gær og Veðurstofan spáði slæmu. Í morgun var stillt og bjart veður um allt norðan og austanvert landið. Frostlaust var alls staðar á láglendi, en við frostmark á Grímstöðum. Lægðarmiðja var yfir Reykjavík klukkan sex í morgun, en hún þokaðist síðan suður fyrir Reykjanes. Jón Eyþórsson veðurfræðingur spáði í dag, að á næstunni yrði hér norðaustlæg átt og næturfrost.
Tíminn segir enn af hretinu 8.maí:
MB-Reykjavík, 6. maí. Í dag er lítið sumarlegt um að litast víða um land. Um Norðurland og Vestfirði er hvöss norðanátt, snjókoma og frost, og norðanstrekkingur víðast annars staðar og éljagangur um vestanvert landið. Vegir munu þó ekki hafa spillst neitt að ráði. Um allt norðan og vestanvert landið var i dag allhvöss norðanátt og snjókoma á Norðurlandi, einkum þó á annesjum og á Vestfjörðum. Einnig náði snjókoma niður í uppsveitir Borgarfjarðar en við Faxaflóa og Breiðafjörð voru víða él. Léttskýjað var með suðurströndinni austur á Austfirði, en þar fyrir norðan tók svo snjókoman við. Til dæmis sást ekki milli bæja i Axarfirðinum í dag fyrir hríð. Um miðjan daginn í dag var einna hvassast hér í Reykjavík, 8 vindstig og einnig voru 8 vindstig á Galtarvita og þar var einnig mikil snjókoma Frost var um 3 stig á Vestfjörðum, einnig á Síðumúla, 1 stig á Akureyri og 5 í Möðrudal. Veðurfræðingur Veðurstofunnar spáði því í dag, að norðanáttin héldist eitt.hvað áfram og búast mætti við einhverri snjókomu áfram.
Djúpar lægðir fóru yfir landið eða rétt fyrir sunnan það í kringum miðjan mánuð. Víða rigndi, mest þó á Norðaustur- og Austurlandi. Morgunblaðið segir frá tjóni í pistli 14.maí:
Aðfaranótt sunnudags [12.] og fram á dag rigndi mikið á Austur- og Norðurlandi og urðu spjöll á vegum austanlands og norðaustan, en vegirnir á Norðurlandi eru óskemmdir, en blautir. Ástandið er sérlega slæmt á Héraði, því ekki er hægt að koma tækjum eftir vegunum þar til að gera við, að því er Helgi Hallgrímsson hjá Vegagerðinni tjáði blaðinu. Vegirnir voru mjög blautir fyrir og þoldu illa þessa viðbótarrigningu. Klaki er í jörðu og vatnið sígur því hægt niður. Vegirnir niður á firðina urðu ekki eins illa úti. En aurskriða féll á veginn skammt frá Eskifjarðarkauptúni og skemmdi hann. Í gær var viðgerð hafin. Þá féll snjóskriða á Oddsskarðsveginn og lokaði honum. Í gærmorgun var verið að skoða skriðufallið og búist við að hægt yrði að hefjast handa um að ryðja veginn síðdegis. Allir fjallvegir eystra eru opnir að undanteknum vegunum um Fjarðarheiði og Oddsskarð.
Júní taldist hagstæður - víðast hvar. Mikla hitabylgju gerði í fyrstu viku mánaðarins. Fyrri dagana var hún áköfust um landið norðan- og austanvert [hiti komst m.a. í 24,8 stig á Akureyri þann 3.], en mjög hlýtt varð einnig vestanlands, sérstaklega þann 7. Sá dagur varð líklega sá hlýjasti sem ritstjóri hungurdiska hafði minni til fram að þeim tíma. Síðdegis gerði einnig minnisstætt þrumuveður, eldingarnar sáust vel úr Borgarnesi, en þar varð þó ekki mikil úrkoma.
Um miðjan mánuð gerði nokkra daga hret. Slík norðanhret um miðjan júní voru nánar fastur liður þessi árin, 1959, 1961 og 1962 hafði alltaf gert slík hret. Veðurnördið unga velti fyrir sér reglu í þessu sambandi (sem ekki er).
Morgunblaðið segir almennar tíðarfréttir úr Grímsey 11.júní:
Grímsey, 31. maí Tíðarfar var með afbrigðum gott frá áramótum til 9. apríl, er mannskaðaveðrið mikla gerði. Gæftir voru góðar, en afli fremur lítill, hrognkelsaveiðin var þó mikið að glæðast í aprílbyrjun, enda hefir jú veiði venjulega verið mest í þeim mánuði. En þann 9. apríl breyttist veðrið skyndilega, eins og öllum er minnisstætt og voru hér upp frá því næstum stöðug hríðarveður og harðneskja til 20. maí, að brá til sunnanáttar og hlýinda og hefur það haldist síðan. Á þessu tímabili var næstum aldrei hægt að fara á sjó og fór því hrognkelsaveiðin alveg út um þúfur. Sama er að segja um þorskveiðina, að hún hefir engin orðið, bæði vegna gæftaleysis og fiskleysis. Almennt heyleysi var að verða hér fyrir sauðfé, sem hafði staðið inni allt til 20. maí, en það er nálægt mánuði lengur en venjulega. Var þá líka sauðburður næstum hálfnaður. Hey fékkst úr landi og kom það hingað daginn áður en batinn kom. En það kom í góðar þarfir, því gróður var enginn kominn. Og þrátt fyrir slæma tíð framan af vorinu eru fénaðarhöld mjög góð og er furðulega mikill gróður kominn nú.
Morgunblaðið fjallar 12.júní um tjón af völdum vetrarflóða í Blöndu:
Blönduósi, 4. júní. Þegar ísa leysti í vor, kom í ljós, að Blanda hafði í vetur gert mikinn usla á nokkrum jörðum í Langadal, einkum Æsustöðum og Gunnsteinsstöðum. Þar braut hún land og bar möl og sand upp á engi. Í flóðum og ísruðningi snemma í vetur komu miklar jakastíflur í ána og flæddi hún þá yfir alla flata bakka og hólma. Farvegir margra kvísla stífluðust algerlega og þegar vöxtur hljóp í ána síðar um veturinn og fram undir vor, gekk hún oft hátt upp á bakka. Nokkur hross fórust í stórflóði og ruðningi laust fyrir jólin. Telja bændur í Langadal að Blanda hafi sjaldan eða aldrei áður verið svona baldin. Björn Bergmann.
Tíminn segir 13.júní frá áhrifum páskahretsins á gróður:
MB-Reykjavík, 12. júní. Samkvæmt. upplýsingum dr. Sturlu Friðrikssonar hefur minna borið á kali hérlendis heldur en í fyrra og virðist páskahretið ekki hafa gert gróðri eins mikið mein og margir óttuðust í fyrstu, en þó væri spretta allmiklu seinni á ferðinni en oft áður. Vegna hinna miklu hlýinda, sem verið hefðu undanfarið, hefði gróðri hins vegar farið mjög vel fram og væri ekki ástæða til að óttast annað, en spretta yrði yfirleitt sæmileg ef ekkert sérstakt kæmi fyrir úr þessu. Að vísu eyðilagðist nýgræðingur mjög viða af völdum þess, en rótarskemmdir virðast yfirleitt ekki hafa verið mjög miklar, þannig að gróður mun ná sér. Dr. Sturla kvað sér ekki kunnugt um að neinn sérstakur landshluti hefði orðið illa úti, hvað þetta snerti. Hann kvað lingerðar grastegundir eðlilega hafa orðið verr úti. Til dæmis hefði Randagras farið illa í tilraunareitum. Randagras er landnemi hérlendis og við það hafa verið bundnar talsverðar vonir í sambandi við nýrækt á mýrasvæðum. Hins vegar hefðu aðrir stofnar sýnt mikið viðnám. Bæri þar fyrst að nefna norska stofna af vallarfoxgrasi, þeir hefðu staðið mjög vel í frostunum. Þessir stofnar hefðu verið talsvert notaðir í grasfræblöndur, þó hefði ekki fengist eins mikið af þeim og æskilegt hefði verið, en það stæði allt til bóta. Dr. Sturla kvað sprettu yfirleitt muni vera heldur seinna á ferðinni en oft áður vegna páskahretsins, því gróður hefði þá verið kominn óvenju langt, en þar eð rótarskemmdir hefðu yfirleitt ekki verið mjög miklar, væri ástæða til að vona, að hann myndi ná sér og síðustu dagana hefði gróðri farið mjög vel fram.
Tíminn fjallar einnig um gróðurinn 16.júní:
MB-Reykjavík, 15.júní. Garðagróður beið talsverðan hrekki í páskahretinu hér suðvestanlands, en annars staðar á landinu hafa ekki orðið á honum teljandi varanlegar skemmdir samkvæmt upplýsingum Ingólfs Davíðssonar. Verst hefur alaskaöspin orðið úti, svo og þingvíðir og ýmsir runnar hafa einnig skemmst illa. Ingólfur Davíðsson tjáði blaðinu í dag, að skemmdir á garðagróðri af völdum páskahretsins hefðu aðallega orðið suðvestanlands. Þar var gróður kominn lengst á veg, vegna langvarandi hlýindakafla og safastraumur kominn um þau tré, sem fljótust eru til. Þau tré frusu eðlilega illa og á þeim hafa orðið varanlegar skemmdir. Verst hafa Alaskaöspin og þingvíðirinn orðið úti og sitka-grenið hefur einnig farið illa víða. Þær tegundir, sem seinna eru til, hafa sloppið miklu betur. Að vísu hafa sumstaðar orðið skemmdir á birki og reynivið, en ekki í stórum stíl. Þá hafa einnig orðið miklar skemmdir á ýmsum runnum. Til dæmis hafa rósir orðið illa úti hér suðvestanlands, svo og fleiri runnar, sem fljótir eru til. Ingólfur kvað áberandi, hve skemmdirnar hefðu orðið mestar, þar sem gróður var lengst kominn, á Reykjanesinu og austur um Suðurland, austur í Fljótshlið. Til dæmis væri gróður ekki eins illa farinn í innsveitum sunnanlands og við sjávarsíðuna. Svo glögg væru skilin, sagði Ingólfur, að gróður í Heiðmörk væri ekki eins illa leikinn og í Reykjavík.
Tíminn segir af ís - og sauðburði 19.júní:
MBReykjavík, 15.júní. Allmikið hefur verið um tilkynningar um ís í veðurfregnum útvarpsins undanfarna daga. Blaðið hringdi í dag í Jón Eyþórsson veðurfræðing og sagði hann, að ekki væri um neinn óvenjulegan ís að ræða, þarna væri oftast einhver ís á reki um þetta leyti.
MB-Reykjavík, 15. júní. Samkvæmt upplýsingum dr. Halldórs Pálssonar, búnaðarmálastjóra, hefur sauðburður yfirleitt gengið vel í vor, en þó hefur nokkuð verið um lambalát, einkum á Suðurlandi. Fóðurbirgðir voru yfirleitt litlar síðastliðið haust, en þrátt fyrir páskahretið munu bændur yfirleitt hafa sloppið sæmilega. Þó urðu margir bændur, einkum sunnanlands, að gefa talsvert mikinn fóðurbæti í vor um sauðburðinn. Sauðburðurinn gekk yfirleitt vel. Þó voru nokkur brögð að lambaláti sunnanlands hjá einstaka bændum eins og venjulega. Seinni part maí gerði mikla kalsarigningu og hafði hún slæm áhrif á sauðburðinn og olli talsverðu tjóni hjá nokkrum bændum. Þá gerði lambablóðsótt einnig talsvert tjón hjá sumum, en gegn henni er nú til bóluefni og fer tjón af henni rénandi. Gróður beið mikinn hnekki af páskahretinu, sem kunnugt er, en hinn góði bati, sem kom nú um mánaðamótin, hefur hleypt fjörkippi i hann og nú taldi búnaðarmálastjóri, að horfur væru góðar.
Hretið um miðjan mánuð varð verst á Ströndum. Tíminn 26.júní:
GPV-Trékyllisvík, 25. júní. Óvenjulegt illviðri hefur geisað hér síðastliðna viku, og snjóaði niður í fjöru, þegar verst lét. Hefur grasspretta algjörlega staðnað á þessu tímabili, og bændur hafa misst fjölda lamba. Illviðri þetta hófst með norðanuppgangi á laugardaginn 15.júní, og á sunnudag og mánudag var óvenju kalt og snjóaði niður í miðjar hlíðar. Hélst þetta veðurlag fram á föstudag og var allra verst á fimmtudag 20. júní. Snjóaði þá alveg niður í fjöruborð. Til marks um úrkomuna á þessu tímabili er, að veðurathugunarstöðin á Kjörvogi mældi 4050 mm úrkomu á hverjum sólarhring. Í dag sést í fyrsta skipti í langan tíma til sólar. Lömb hafa víða drepist í þessu veðri. Á fjórum bæjum drápust milli 10 og 20 lömb, en eitthvað minna á öðrum bæjum. Það er þó ekki fullkannað enn. Bændur hér eru mjög svartsýnir á sumarið. Spretta er hreint engin núna, var aðeins farin að lifna fyrir illviðrakaflann, en stendur nú algjörlega í stað. Engum er farið að detta sláttur í hug. Úthagi er eitthvað skárri, en langt frá því góður.
Tíminn segir af ísflugi 28.júní:
BÓ-Reykjavík, 27.júní. Flugvél Landhelgisgæslunnar, Sif, fór í ískönnunarflug í gær og kom í ljós, að ísinn er heldur fjær landi en venjulega á þessum tíma árs.
Morgunblaðið fjallar enn um gróðurskemmdir í páskahretinu í pistli 28.júní:
Í kuldakastinu um páskana skemmdist trjágróður mjög mikið austur í Múlakoti, en þar voru trén farin að laufgast þegar í aprílbyrjun. Samkvæmt upplýsingum frá Ólafi Túbals er nú ljóst, að trén hafa orðið helmingi verr úti en í síðasta Heklugosi. Ólafur sagði, að trén hafi byrjað að laufgast í aprílbyrjun og verið orðin eins og í maí, þegar páskahretið kom. ... Ólafur sagði, að undarlegt væri að elstu trjánum gengi verst að ná sér aftur og nefndi hann að 78 metra hátt blágrenitré væri alveg líflaust. Hins vegar sagði Ólafur, að blómagróður dafnaði vel og ekki fyndist kal í túnum. Það væru trén, sem verst hefðu orðið úti, helmingi verr en í síðasta Heklugosi.
Eftir þann 20. gerði aðra hitabylgju á Norður- og Austurlandi, þó ekki alveg samfellda. Nú komst hiti hæst í 27,1 stig á Skriðuklaustri þann 27. Heldur svalt sjávarloft lá lengst af yfir landinu vestanverðu. Stöku dagur þó nokkuð hlýr lengst inni í dölum og uppsveitum.
Tíminn segir af heyskaparhorfum 30.júní:
MB-Reykjavik, 29.júní. Víða um land eru bændur nú byrjaðir að slá, en þó mun ekki hægt að segja, að sláttur sé almennt hafinn. Samkvæmt upplýsingum búnaðarfélagsins má telja líklegt að slátturinn hefjist almennt nú upp úr helginni, ef vel viðrar. Alllangt er síðan fyrstu bændur hófu slátt, en það var talsvert fyrir miðjan mánuðinn, sem bændur austur í Skaftafellssýslu slógu fyrstu spildurnar. Nú eru margir bændur hér sunnanlands farnir að slá og fyrir viku síðan hófst sláttur á mörgum bæjum norður í Eyjafirði. Einnig eru þeir, sem vinna grasmjöl, farnir að slá af krafti. Grasspretta beið mikinn hnekki í páskahretinu, sem kunnugt er, vegna hinna miklu hlýinda víðast hvar um land að undanförnu hefur sprettu farið mjög vel fram. Þó mun óvíða orðin bein þörf á að hefja slátt vegna sprettunnar.
Fyrsta vika júlímánaðar var lengst af mjög hlý og hagstæð og gætti hlýindanna um tíma nánast um land allt. En síðan hallaði mjög undan fæti og snerist í sérlega kalda tíð og illa. Nokkuð hlýnaði aftur síðustu dagana, en þá gengu suðlæg illviðri yfir.
Morgunblaðið segir frá blíðu 9.júlí:
Í gær [mánudaginn 8.júlí] var mesti góðviðrisdagur, sem komið hefur hér í Reykjavík á yfirstandandi sumri. Veðrið var svipað um land allt, norðan gola eða kaldi og léttskýjað fyrir sunnan og vestan og víðast hvar á Norðurlandi. Hitinn var mestur á Hellu á Rangárvöllum, komst upp í 22 stig um miðjan dag og um sama leyti mældist 18 stiga hiti hér í Reykjavík. Á hlýjum sólskinsdegi gengu borgarbúar léttklæddir um strætin að venju og hver, sem frekast gat brá sér í sólbað því að flestum er það mikið kappsmál að safna brúnku á andlitið enda veitir ekki af að notfæra sér út í ystu æsar þann stutta tíma, sem til þess gefst.
Tíminn segir ísfréttir 9. og 10.júlí:
[9.] MB-Reykjavík, 8. júlí. Hafísinn er nú mjög nálægt Vestfjörðunum, nær en hann hefur verið undanfarin ár á þessum tíma. Í kvöld er ísröndin talin vera aðeins 810 mílur undan Horni. Nú er hæg austlæg átt á þessum slóðum, og gera menn sér vonir um, að ísinn muni reka brott aftur.
[10.] KH-Reykjavík, 9. júlí. Ísbreiðan út af Vestfjörðum virðist hafa þokast nær landi s.l. sólarhring, og eru smájakar á reki milli lands og aðalísbeltisins. Úti fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi er hæg austanátt, sem hindrar, að ísinn reki austur á síldarmiðin. Seint í dag barst fregn frá vitaskipinu Árvaki um, að sést hefðu tveir ísjakar á siglingaleið 2 sjómílur í réttvísandi norður frá Hælavikurbjargi, og sjást þeir ekki í radar. Veðurathugunin á Horni tilkynnti mikið íshrafl grunnt á siglingaleið út af Hornbjargi. ... Jón Eyþórsson veðurfræðingur, sagði blaðinu í kvöld, að erfitt væri að segja til um nálægð íssins, þar sem ekkert könnunarflug var farið í dag, en ísröndin virtist hafa þokast nær landi, lægi svona 510 mílur norður af Horni. Ekki væri vitað hversu mikil ísbreiðan væri, þar sem þoka hefði hindrað mælingar á því í ískönnunarfluginu í gær. Jón kvaðst búast við, að ekki þyrfti nema hressilega austanátt, svo að ísinn hyrfi á augabragði. En nú væri hún svo hæg, að hún gerði ekki betur en hindra það, að ísinn reki austur á síldarmiðin.
Morgunblaðið spyr Jón Eyþórsson um fyrri ískomur 10.júlí:
Blaðið spurði Jón Eyþórsson veðurfræðing að því í gær kvöldi hvenær síðast hefði orðið landfastur ís hér við land að sumri til. Hann sagði svo frá: Hinn 6. 8. júní 1914 var ísinn aðeins mílu undan Horni og hinn 10. var hann orðin landfastur við Straumnes og Helgarvík. Við Grímsey var ísinn landfastur til 8. júní, en seinni hluta mánaðarins var hann víðast 40 mílur undan Norðurlandi og rak svo burt og sást ekki framar á því ári. 1915, allan júnímánuð, lá hafísinn við Norðurland og hindraði mjög skipaferðir, stundum vestur, stundum austur. Síðari helming júnímánaðar var mikill ís út af Eyjafirði, en náði ekki austur að Langanesi. Í júlímánuði var enn mikill ís við Norðurland og um miðjan mánuðinn var hann landfastur við Siglufjörð svo að Botnía varð að snúa þar við. Eftir 20 júlí var íslaust á Eyjafirði og Skjálfanda. Og 26. júlí var orðið alveg íslaust við Norðurland. Jón kvaðst ekki þora alveg að fullyrða hvort ís hefði orðið landfastur síðan, en taldi það vart mundi hafa átt sér stað.
Veður fór nú mjög kólnandi. Tíminn segir frá 12.júlí:
ED-Akureyri, 11.júlí. Í nótt snjóaði í fjöll norðanlands, og hefur veður verið kalt síðan um helgi. Í dag er aðeins tveggja stiga hiti á Grímsstöðum og aðeins fjögurra stiga hiti við sjávarsíðuna hér norðaustanlands. Í fyrrinótt voru næturfrost sumstaðar, þegar fjær dró sjó, og skemmdist kartöflugras af völdum þess. Þeir bændur, sem fyrst byrjuðu heyskap, eru sumir búnir með fyrri slátt og aðrir langt komnir og úthagi er mjög vel sprottinn. Víða er rúningu sauðfjár lokið, en annars staðar verður rúið, strax og hlýnar.
FB-Reykjavík, 11.júlí. Í kvöld var byrjað að bræla upp fyrir norðan, og á Raufarhöfn var norðvestan stinningshvassviðri og slydda. Þar var aðeins þriggja stiga hiti. Á Seyðisfirði var norðaustanátt, og þar snjóaði i fjöll bæði í dag og í gær. Þar er leiðindaveður og nokkuð hvasst. Fjöldi norskra síldarskipa hefur leitað vars á Seyðisfirði síðustu dagana, og fer þeim stöðugt fjölgandi.
Tíminn segir 13.júlí frá ísreki uppi í landsteinum - og hagstæðri tíð á Suðurlandi:
MB-Reykjavík, 12.júlí. Svo virðist nú, sem ísrek sé uppi í landsteinum á Hornströndum. Er þar bersýnilega um að ræða ístunguna, sem sást úr flugvél Landhelgisgæslunnar í gær, en ísrek úr henni hefur færst nær landi. Klukkan 16:45 barst Veðurstofunni skeyti frá Dísarfelli, sem var þá á siglingu fyrir Horn. Segir þar, að fjóra og hálfa sjómílu austur af Horni sé allþétt rekísbelti, er stefni norður-suður, og virðist það ná upp undir land við Smiðjuvíkurbjarg ... Klukkan 18 segir svo í skeyti frá Hornbjargsvita, að ísrek sé á allri siglingaleiðinni fyrir Horn, alveg upp í landssteina. ... Nú er mjög kalt fyrir norðan. Klukkan átján var aðeins tveggja stiga hiti á Horni og slydduél. Á Kjörvogi var þriggja stiga hiti og slydduél, á Hrauni á Skaga og Siglunesi var einnig þriggja stiga hiti en rigning, í Grímsey var þriggja stiga hiti og þurrt, Ægir var staddur um 100 km norður af Siglunesi og þar var 3ja stiga hiti, á Raufarhöfn var 4ra stiga hiti og rigning (þar var 2ja stiga hiti um hádegið) og á Langanesi var 5 stiga hiti og rigning. Á Norðurlandi hefur ríkt norðlæg átt að undanförnu og ekki hefur ísinn vermt hana.
PE-Hvolsvelli, 12. júlí. Óvenjuhlýtt hefur verið hér að undanförnu, og hitinn komist upp í 2324 stig í forsælu. Heyskapur er almennt byrjaður, og margir hér um slóðir búnir að ná töluvert miklu heyi upp í galta. Austur í sýslunni, t.d. undir Eyjafjöllum hefur verið mjög skúrasamt og til tafar. Fénaður hefur að undanförnu verið rúinn af kappi og síðan rekinn á fjall.
Morgunblaðið minnist líka á ísinn 14.júlí:
Landsins forni fjandi, hafísinn, birtist nú í vikunni á siglingaleið um við norðanvert landið. Fæstir núverandi íslendingar muna eftir verulegum hafísárum, en á síðari hluta 19. aldar þrengdi hann svo að, að ekki síst þess vegna flúðu þúsundir manna land og settust að í Vesturheimi. Vegna gerbreyttra samgangna og lifnaðarhátta eru menn nú á allt annan veg við því búnir að taka misæri af völdum hafíss en áður. Af því að þeir eru honum óvanir, mundu menn þó e.t.v. finna sárar til hans en á meðan við honum var búist árlega. Því miður bendir allt til þess, að slíkir harðindatímar gangi fyrr eða síðar yfir á ný. Meðal annars af þeim sökum er mikilsvert, að atvinnuvegir landsmanna verði fjölbreyttari og að við eigum ekki jafn mikið undir veðurlagi og nú.
Haustið 1961 varð eldgos í Öskju. Nokkuð var fylgst með eldstöðinni eftir það . Tíminn segir frá leiðangri þangað og breytingum í pistli 14.júlí. Síðan er talað um heyskaparhorfur:
MB-Reykjavík, 13.júlí. Nokkrar breytingar hafa orðið í Öskju upp á síðkastið. Vatnsborð Öskjuvatns hefur á s.l. vetri lækkað um einn til einn og hálfan metra en það svarar til þess að um fimmtán milljón tonn hafi runnið úr vatninu. Vatnsborð Vítis hefur lækkað um hálfan þriðja metra frá hæsta fjöruborði og hitastig þess hefur hækkað um sautján gráður. Dr. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur er nýkominn heim úr leiðangri í Öskju ásamt Haraldi Sigurðssyni jarðfræðinema. Þeir urðu varir við margt mjög athyglisvert ... Hitastigið í Víti hefur hækkað um 17 stig frá því 1961, úr 22 stig í 39 stig. Einnig hefur yfirborð vatnsins í Víti lækkað um 2,5 metra frá hæsta fjöruborði, sem að öllum líkindum hefur verið 1961, a.m.k. ekki síðar. Þá sáu þeir félagar einnig tvö ný uppstreymi í Víti. Annað er skammt frá gamla uppstreyminu, en hitt er um tuttugu metra úti í gígvatninu og um tuttugu metra frá miðju og streymir þar upp tært, heitt vatn. Líkist uppsprettan suðu, eins og oft vill verða um slíkar uppsprettur, en ekki komust þeir félagar að henni. Ekki telur Þorleifur gott að segja, hvað veldur hitaaukningunni í Víti, það getur stafað frá hinni nýju uppsprettu og einnig frá því, að yfirborðið hefur lækkað. Vatnið í Víti er sem kunnugt er mjög mengað brennisteini og leir en eins og fyrr segir er nú komin þar ferskvatnsuppspretta, og er þar líklega um nýja sprungu að ræða. Af nýju eldstöðvunum er það helst að frétta, að nýju gígarnir hafa margir hverjir dýpkað, þar eð botnar hafa fallið niður og einnig hefur hrunið mikið úr börmum þeirra. Er nú víða komið þverhnípi, sem fært var mönnum í fyrra. Þá eru og allir leirhverir kólnaðir í nágrenni gosstöðvanna, og er nú snjór í sumum þeirra. Víða leggur gufu upp úr nýja hrauninu og vikur er þar víða enn heitur.
MB-Reykjavík, 13. júlí. Samkvæmt upplýsingum dr. Halldórs Pálssonar búnaðarmálastjóra, er sláttur nú í fullum gangi um mestallt land. Spretta er víðast hvar sæmileg og sums staðar góð, þrátt fyrir kuldakastið í vor. Tíðin hefur leikið við bændur sunnanlands undanfarið, og má nú segja, að þurrkar séu jafnvel orðnir fullmiklir, ef tillit er tekið til háarsprettu. Norðanlands er nú kuldakast og má búast við, að það hafi sín áhrif á sprettuna.
Tíminn ræðir kulda og ís í pistlum 16.júlí:
MB-Reykjavík, 15.júlí. Samkvæmt upplýsingum Jónasar Jakobssonar veðurfræðings mældist tveggja og hálfs stigs frost niður við jörð hér í Reykjavík, s.l. laugardags- og sunnudagsnætur, og síðastliðna nótt eins stigs frost. Á laugardagsnóttina [13.] mældist svo 56 stiga hiti í hinni venjulegu mælingarhæð, tvo metra frá jörðu, þannig að hitamismunurinn á þessum tveim metrum hefur verið um átta stig! Það er ekki óvenjulegt, að talsverður hitamismunur sé á þessu bili, einkum á heiðskírum sumarnóttum, en Jónas kvað svona mikinn mun mjög óvenjulegan.
MB-Reykjavík, 15. júlí. Svo virðist, sem íshraflið, er komið var inn undir Horn, sé enn þá að lóna þar, þótt það sé sennilega á einhverju reki vestur á bóginn, en á þessum slóðum hefur verið hæg norðaustanátt undanfarið.
Morgunblaðið fjallar einnig um kulda 16.júlí:
Síðustu dagana hefur verið norðanátt um land allt og að venju hefur það haft í för með sér talsverða kulda. Hefur hitastigið farið niður í 2 stig á láglendi og í frostmark á stöðum sem hærra standa. Á Hveravöllum þaðan sem nú í sumar berast veðurfregnir, hefur komið slydduél og einnig hafa borist fregnir af slydduéljum á nokkrum stöðum Norðanlands. Í gær var hitinn á Gjögri t.d. 3 stig, á Hrauni á Skaga 4 stig, í Grímsey 6 stig og virðist heldur hlýna eftir því sem austar dregur á Norðurlandi. Hefur verið súld og leiðindaveður þar á annesjum síðustu dagana, ekki kalt en sólarlaust. Sunnanlands þurrt í innsveitum og að auki hefur verið þurrt og kalt, en skúrir oft síðdegis.
Enn voru fréttir af ísreki. Tíminn 17.júlí:
MB-Reykjavík, 16.júlí. Ennþá virðist talsvert ísrek lóna uppi andir Vestfjörðum. Kyndill tilkynnti í dag: Samfelld ísbreiða á siglingaleið, 7 sjómílur suðaustur af Hornbjargi. Þess má geta, að skyggni mun hafa verið slæmt á þessum slóðum og getur því hafa verið um jaðar á spöng, sem ekki þarf að hafa verið stór að ræða. Hornbjargsviti tilkynnti í dag: Mikið ísrek á siglingaleið út af Hornbjargi. Ægir var i dag staddur um 30 km norður af Kolbeinsey í góðu skyggni og varð ekki var við ís.
Kuldinn fór nú að bíta. Næturfrost gerðu vart við sig víða um land og sömuleiðis snjór. Ritstjóra hungurdiska er snjórinn minnisstæður. Einn morguninn var alhvítt niður í efsta hjalla Brekkufjalls við Borgarfjörð, en það er rétt rúmlega 400 metra hátt. Sömuleiðis var snjór ekki langt ofan við byggð við Hreðavatn. Ekki minnist ritstjórinn þess að hafa séð snjó svo neðarlega í fjöllum í júlí allar götur síðan. Tíminn segir af næturfrostum 20.júlí:
MB-Reykjavik, 18. júlí. Samkvæmt upplýsingum fréttaritara blaðsins á Suðurlandi hafa kartöflugrös víða farið þar illa síðastliðna þriðjudagsnótt [16.], en þá var næturfrost víða um Suðurland. Fréttaritari blaðsins á Akureyri segir frá því, að áður hafi kartöflugrös í Svarfaðardal víða farið illa. Eins og gengur og gerist, þegar væg næturfrost koma, skemmast kartöflugrös mjög misjafnlega mikið, þótt stutt sé á milli. Kemur þar ýmislegt til, s.s. vindur. Til dæmis munu kartöflugrös yfirleitt hafa farið mjög illa á Hvolsvelli, sumstaðar eru þau algerlega fallin. Aftur á móti sagði Jóhann Franksson á Hvolsvelli, að grös hjá honum hefðu mjög lítið skemmst. Hann kvað aðeins sjá lit á einstaka stað á kornakrinum; efstu laufin hefðu rétt gulnað, en um skemmdir væri ekki að ræða. Í Þykkvabænum munu engar skemmdir hafa orðið og ekki austur i Mýrdal. Í Holtunum munu einhverjar skemmdir hafa orðið og talsverðar skemmdir í uppsveitum Árnessýslu, t.d. Biskupstungum og Grímsnesi, og er óttast, að þær séu það miklar að þær komi talsvert niður á vexti. Aðfaranótt 10. þ.m. var næturfrost á Dalvík og skemmdist kartöflugras þar þá talsvert, en nokkrum nóttum síðar kom svo enn frost og þá skemmdist grasið enn meir. Einnig munu hafa orðið talsverðar skemmdir inni í Svarfaðardal, einkum vesturkjálkanum. Á Svalbarðsströnd og í Saurbæjarhreppi munu engar skemmdir hafa orðið.
Ísinn virtist loks horfinn. Tíminn 21.júlí:
MB-Reykjavík, 20. júlí. Svo virðist nú að ísinn fyrir Vestfjörðum hafi lónað frá landinu aftur. Blaðið átti í nótt tal við Jóhann Pétursson, vitavörð á Hornbjargi og sagðist hann engan ís hafa séð undanfana daga. Í gærkvöldi var þar um 30 km skyggni og engan ís að sjá.
Þann 20.júlí var sólmyrkvi - raunar aðeins um 50 prósent deildarmyrkvi hér á landi - en ritstjóri hungurdiska hafði samt væntingar - rafsuðuhjálmur var nánast innan seilingar. En því miður var alskýjað og ekkert sást - gerði reyndar leiðinda norðaustan- og norðankast - Veðurstofan kannski óþarflega hógvær í vindhraðaspánni.
Tíminn segir frá foktjóni og skriðuföllum þann 23.:
PE-Hvolsvelli, 23. júlí. Miklir heyskaðar urðu í Fljótshlíðinni og undir Eyjafjöllum í rokinu um helgina ,sem kom óvænt. Fauk hey, bæði laust og úr göltum og munu sumir bændur hafa misst á annað hundrað hesta af heyi. Rokið skall á um miðnættið á sunnudagsnóttinni [21.]. Margir bændur áttu flatt hey, sem farið var að þorna, og því laust fyrir. Til dæmis hafði Sigurður á Barkarstöðum slegið stóra spildu á laugardaginn og áætlar, að á henni hafi verið um 300 hestar. Úr því telur hann að hafi fokið um helmingur, og skúr, er kom seinni partinn í gær, hafi bjargað því, að ekki fór allt. Þá fauk einnig víða hey úr göltum og munu frá 50 hestum og upp að hundrað hafa tapast á allmörgum bæjum, bæði í Fljótshlíðinni og undir Eyjafjöllum. Það var ekki fyrr en í gærkvöldi, sem veðrið gekk niður. Áttin var austlæg eða norðaustlæg, en þær áttir eru sem kunnugt er mjög slæmar hér um slóðir. Margir bændur hér um slóðir eru mjög gramir yfir því, að veðri þessu var ekki spáð fyrr en það var að skella á og voru menn því mjög óviðbúnir, en miklu magni hefði mátt bjarga, ef bændur hefðu reiknað með því.
FB-Reykjavík, 22. júlí. Í kvöld bárust þær fréttir til Siglufjarðar, að aurskriður hefði fallið á Siglufjarðarveginn og myndi þurfa að fara og hreinsa hann. Í nótt sem leið byrjaði að hríða í fjöllin og snjóaði þar enn um kvöldmatarleytið í kvöld. Á Siglufirði sjálfum var ausandi rigning og þar hafði verið ofsarok í allan gærdag. Búist var við því, að kólnaði veðrið, svo nokkru næmi mundi þegar fara að hríða, því úrhellið var svo mikið.
Skálholtshátíð var haldin þessa helgi [21.júlí], hin nýja kirkja var vígð. Gekk sæmilega þegar upp var staðið. Morgunblaðið segir frá 23.júlí:
Veðurhorfur drógu mjög úr aðsókn að Skálholti á vígsludegi hinnar nýju dómkirkju. Nóttina fyrir gerði aftakarok og rigningu, og hættu því margir við að heimsækja Skálholtsstað af þeim sökum. Er blaðinu kunnugt um að margir Reykvíkingar hættu við að fara, en sátu í þess stað heima og hlustuðu á athöfnina í útvarpi. En eftir að vígsluathöfnin hófst í Skálholti, féll ekki dropi úr lofti og birti til er á daginn leið, þótt rok væri enn mikið. Varð því umferð jöfn og stöðug allan daginn, menn komu, stóðu stutt við og fóru. Áætlar lögreglan að 78000 manns hafi komið í innan við 2000 bílum. Urðu því engir erfiðleikar í umferðinni. ... Um nóttina hafði fólk gist í 5060 tjöldum og nágrannagististaðir eins og Laugarvatn voru löngu upppantaðir vegna hátíðarinnar. Margir áttu erfitt með að hemja tjöldin um nóttina og einnig síðari hluta dags, þegar skyndilega herti storminn. Fór þá meðal annars hið stóra hjálpartjald skátanna og póstmenn urðu að taka niður sitt tjald og flytja starfsemina út í hjólhýsi, sem þeir höfðu meðferðis. Einnig áttu kvenfélagskonur, sem stóðu fyrir veitingum, í mesta basli með sitt gríðarstóra veitingatjald, stór rifa kom á þakið, fækka varð gasvélum og eftir mikinn barning voru fimm bílar fengnir til að halda í stögin. Höfðu veitingakonur búist við meiri mannfjölda og áttu stafla að óseldu kaffibrauði og öðrum veitingum í lokin.
Akranesi, 22.júlí. Bændur í Skorradal voru s.l. laugardag búnir að hirða í hlöðu einn þriðja af fyrri slægju. Þar hefur rignt flesta daga vikunnar eitthvað og tafið þurrkinn. Er það vinningur vegna háarsprettunnar, þó minni sé hann vegna þess, hve tíð er köld. Aðfaranótt laugardags gerði frost í dalnum, svo að kartöflugras féll.
Dagarnir 23. og 24. júlí urðu einhverjir hinir köldustu sem við vitum um á þessum tíma árs. Kortið sýnir veðrið kl.9 að morgni þess 23. Hiti kringum 1 stig á Ströndum og víða ekki nema 2 til 4 stig um landið norðanvert, rétt ofan frostmarks á Grímsstöðum á Fjöllum. Ekki nema 5 stig í Reykjavík. Lágmarkshiti í Reykjavík var ekki nema 1,4 stig í Reykjavík aðfaranótt 25.júlí og 3,3 stig aðfaranótt þess 15. Fyrri talan er sú lægsta sem vitað er um í júlí í Reykjavík frá upphafi samfelldra lágmarksmælinga 1920 og reyndar líka lægri en þær eldri lágmarksmælingar sem til eru frá mæliskeiði dönsku Veðurstofunnar í Reykjavík. Í þessu kuldakasti kom ein frostnótt bæði á Hólmi fyrir ofan Reykjavík og á Þingvöllum. Harla óvenjulegt.
Tíminn segir frá hretinu í pistlum 24.júlí:
IK-Siglufirði, 23.júlí. Í gærkvöldi og nótt fennti á Siglufirði og fyrri hluta dags í dag, en síðan fór að bleyta. Um klukkan 9 i morgun var stöðugur éljagangur, og var þá allt orðið grátt og ökklasnjór allt niður í hlíðarlöggina. Þegar líða tók á daginn varð snjórinn blautari og rann hann um leið og hann kom niður. Áætlunarbíllinn lagði af stað frá Siglufirði í morgun, og fór ýtan á undan honum. Ýtan hefur enn ekki komið aftur, og mun bíllinn hafa komist heilu og höldnu yfir skarðið. Mjólkurbíllinn frá Sauðárkróki komst hingað einnig í dag, en aðrir bílar hafa ekki faríð yfir skarðið, enda ekkert vit fyrir lága bíla eða driflausa að leggja út i slíka tvísýnu.
GB-Reykjavík, 23. júlí. Í hvassviðrinu á sunnudaginn [21.] var lögreglan í Kópavogi kvödd í vesturbæinn, þar sem þakplötur voru farnar að fjúka af húsi. Hús þetta er í smíðum á Kópavogsbraut 94, og losnuðu þar nokkrar plötur af þaki og fuku til jarðar að næsta húsi. Tókst að handsama þær áður en af þeim hlytust spjöll.
Tíminn heldur áfram 25.júlí:
MB-Reykjavík, 24.júlí. Síðastliðinn rúman hálfan mánuð hefur tíð verið köld hérlendis, einkum um norðanvert landið, og mun óhætt að fullyrða, að nú sé langt síðan slíkt kuldakast hafi komið hérlendis á þessum árstíma. Hefur kuldinn þegar valdið talsverðu tjóni, m.a. á kartöflugrasi, eins og sagt hefur verið frá hér í blaðinu, og haldi þessu áfram, má búast við, að það komi einnig niður á sprettu háar og jafnvel kornrækt norðanlands. Það var upp úr 8.júlí, sem brá til hinnar þrálátu norðanáttar, sem síðan hefur haldist hérlendis. Hafa henni yfirleitt fylgt óþurrkar norðanlands og hefur hitastig þar stundum heilu dagana verið rétt yfir frostmarki með slydduhríð niður í byggð og snjókomu á fjöllum. Má geta nærri hver áhrif slíkt veðurlag hefur á jarðargróður. Hér sunnanlands hafa þurrkar fylgt norðanáttinni eins og venjulega, en kaldur hefur vindurinn oft verið og hitinn á nóttunni stundum farið niður undir frostmark og niður fyrir það. Hafa hér sunnanlands orðið skemmdir á kartöflugrasi. Enn er oft snemmt að segja til um það, hver meðalhiti mánaðarins verður, og við skulum vona, að síðustu dagarnir geri þar bragarbót, en Jónas Jakobsson, veðurfræðingur sagði við blaðið í dag, að ef ekki brygði fljótlega til hins betra, væru allar horfur á því, að þessi mánuður yrði einn kaldasti júlímánuður um langt skeið, þótt byrjunin hefði verið góð.
Morgunblaðið fer hring um landið 25.júlí:
Morgunblaðið hringdi í gær til sjö manna víðsvegar um landið og innti þá frétta af veðurfarinu, enda tala menn nú ekki um annað öllu meira en kuldakastið. Einnig ræddi blaðið snöggvast við Jón Eyþórsson veðurfræðing. Honum fórust svo orð: Undanfarinn hálfan mánuð hefir verið þráleit norðanátt hér á landi og þó einkum mætt á norðanverðu landinu með úrkomu og kalsaveðri. Annað slagið hefir snjóað í fjöll, Og síðast í gærmorgun var snjókoma og eins stigs hiti á Hveravöllum. Sunnanlands hefir veður verið bjartara og oftast nær þurrt, þó að nokkrar fjallaskúrir hafi stungið sér niður hér og hvar. Hlýjast og best hefir veður jafnaðarlega verið í Skaftafellssýslum. Nú telur Veðurstofan, að norðanáttin sé að ganga niður og gerir ráð fyrir batnandi veðri um allt land.
Helgi Arason á Fagurhólsmýri sagði, að í Öræfum hefði að undanförnu verið góð tíð og ekki kalt. Síðustu tvo dagana hefði meira að segja verið ljómandi blíða og sólskin. Í fyrri viku brá reyndar til óþurrka nokkra daga en heyskapur hefur gengið ágætlega. Jónas Pétursson, alþingismaður, sem staddur var á Seyðisfirði, sagði m.a.: Undanfarnar vikur eða röskan hálfan mánuð hefir verið kuldatíð hér á Austurlandi. Óþurrkar hafa verið eftir því, en ekki stórfelldar úrkomur. Hins vegar hefir snjóað til fjalla oft á þessum tíma, en seint spratt, og því slógu færri en þurft hefðu í góðu tíðinni í byrjun júlí. Liggur taða þvi enn á túnum og spillir fyrir háarsprettu.
Sigurjón Jónsson á Vopnafirði sagði, að þar um slóðir hefði að undanförnu verið andstyggilegt veður, ein versta tíð, sem menn þar muna um þetta leyti árs Síðasta hálfan mánuð hefur ekki tekið snjó úr fjöllum og verið linnulaus norðaustan- og norðanstormur. Í fyrrinótt og nótt snjóaði á Fossheiði, en það hefur ekki orðið til að tálma umferð. Í síðustu viku komu tveir þurrir dagar, sem bændur notuðu almennt til að slá, en þeir eru ekki enn farnir að ná upp tuggu, heyið liggur aðeins og hrekst. Jóhannes Sigfinnsson á Grímsstöðum í Mývatnssveit sagði, að þar um slóðir hefði undanfarið verið hin mesta ótíð. Hitinn sjaldan verið meiri en 2 stig, Í dag hefði þó farið hlýnandi og hitinn komist í 4 stig. Stöðug norðanátt hefði verið og úrkoma, án þess þó að hægt hefði verið að tala um stórrigningar. Áður en ótíðin byrjaði voru bændur langt komnir með heyskapinn, svo að bændur í Mývatnssveit eru betur settir en bændur víðast hvar á Norðurlandi. Silungsveiði í Mývatni hefur verið sæmileg, nema hvað hvassviðri hefur verið svo mikið síðustu daga, að tæpast hefur gefið á vatnið Á morgnana hefur verið snjór niður í fjallarætur, en tekið upp fyrir sólbráð yfir daginn. Bændur láta veðrið lítið á sig fá og snúa sér að öðrum störfum, meðan á ótíðinni stendur, en veðrið kemur verst niður á ferðafólkinu, sem hefur naumast tíma og getur tæpast hreyft sig út fyrir dyr.
Björn Jónsson i Bæ á Höfðaströnd sagði, að i Skagafirði hefði verið norðan stormur, úrhellisrigning utarlega í firðinum, inn undir Hofsós, en inni í firði hefði verið þurrt veður. Snjór væri í fjöllum og í morgun hefði verið snjór niður undir bæi. Heyskapur í Skagafirði gekk vel, þar til fyrir hálfum mánuði.
Högni Torfason á Ísafirði sagði að þar væri ágætis veður og sólskin, og hefði farið lygnandi í dag, komið nærri logn á sjötta tímanum. Þó væri heldur kalt í veðri, snemma á morgnana hefði verið 34 stiga hiti en hlýnað meðan sólar hefði notið. Högni kvaðst vera nýkominn sunnan úr landi, og hefði í Dölum og í Barðastrandarsýslu verið talsverður snjór í fjöllum, og þar hefði greinilega verið mikið hvassviðri og hey fokið á mörgum bæjum. Í gær hefði hann lent í bleytukafaldi á Dynjandaheiði, en snjór hefði alveg tekið upp á Breiðadalsheiði. Afli hefur undanfarið verið tregur, en glæðst síðustu tvær vikur, þegar á sjó hefur gefið.
Í samtali við blaðið sagði Kristófer í Kalmanstungu í gær, að undanfarnar vikur hefði verið mikill kuldi þar og snjóað oftsinnis niður undir tún. Í fyrrakvöld hefði t.d. verið eins stigs hiti, og snjór var á túni í gærmorgun, en kafald til fjalla.
Akranesi 24. júlí Í fyrrinótt, aðfaranótt þriðjudags, gránaði Skarðsheiði ofan í miðjar hlíðar. Á þriðjudagsmorguninn gerði él og sást með berum augum, að heiðin var hvítari eftir. Oddur.
Tíminn segir 26.júlí frá því að Öskjuvatn hafi mælst dýpsta stöðuvatn landsins, og bætir við fregnum úr hrakviðrinu.
BÓ-Reykjavík, 25.júlí. Á sunnudagsnóttina [21.] fuku steypumót af 160 fermetra hlöðu í Úthlíð í Skaftártungu. Var alveg búið að ganga frá mótunum til steypu, en þau voru spýtnahrúga á sunnudagsmorguninn. Búið er að ganga frá mótunum í annað sinn.
Tíminn segir 28.júlí tíðarfregnir af Ströndum:
GPV-Trékyllisvík, 27.júlí. Hér hefur verið hret síðast liðinn hálfan mánuð og hiti oft aðeins um frostmark. Oft hefur snjóað í fjöll. Mánudag, þriðjudag og miðvikudag síðastliðinn snjóaði alveg niður að láglendi. Í gær kom svo hláka og svo hlýtt varð í veðri að hægt var að vera úti vettlingalaus. Viðbúið er að það sé aðeins svikahlé. Sláttur hófst hér fyrir 20. þ.m., en tún eru svo snögg, að þau verða ekki slegin með vélum nema að mjög litlu leyti.
Síðustu viku júlímánaðar voru suðlægar áttir ríkjandi, oft var nokkuð hvasst. Morgunblaðið segir af foktjóni í pistli 28.júlí:
Í hvassviðrinu á föstudagskvöld [26.] hrundi hluti einnar álmu nýrrar skólabyggingar á Digranestúni i Kópavogi. Unnið hefur verið að þessari byggingu í sumar og átti að taka þrjár kennslustofur í notkun upp úr áramótum. Skólahúsið verður samsett úr nokkrum einnar hæðar álmum, sem tengdar verða saman með göngum. Veggirnir eru hlaðnir og stóðust þeir ekki vindhviðurnar, sem um þá næddu í fyrrakvöld, enda höfðu þeir engan stuðning og voru ekki búnir að ná þeirri hörðnun, sem nauðsynleg er.
Þann 30. og aðfaranótt 31. fór allkröpp lægð norður um vestanvert landið. Tíminn segir frá hvassviðri í pistli 1.ágúst:
KW-Vopnafirði, 31.júlí. Í gærkveldi [30.] gerði hér ofsaveður af suðri og suðvestri og urðu miklir heyskaðar á flötu heyi. Sumstaðar hefur heyið sópast svo burtu, að þar sem heyflekkir voru er eins og vel rakað. Mesti heyskaði á bæ, það ég hef frétt, er á þriðja hundrað hestar. Seinni partinn í gær fór að hvessa hér af suðri og suðvestri og var orðið mjög hvasst á sjöunda tímanum. Mesta hvassviðrið stóð í 23 tíma, en lægði síðan nokkuð. Þó var hvasst fram undir morgun. Miklir heyskaðar urðu í veðri þessu, einkum á flötu heyi. Á Refsstað munu milli tvö og þrjú hundruð hestar hafa tapast og á næstu bæjum við Refsstað, Egilsstöðum og Engihlíð á annað hundrað hestar. Þá hafa einnig orðið miklir heyskaðar á Vindfelli, Krossavík, Eyvindarstöðum og Fagradal og ef til vill víðar.
Morgunblaðið segir sömu fréttir 1.ágúst:
Vopnafirði 31.júlí: Síðdegis í gær gekk hér i sunnan rok, með þeim afleiðingum að hey fuku í suðurhluta sveitarinnar eða nánar til tekið frá Síreksstöðum út í Fagradal. Heymagnið sem fauk mun hafa verið frá nokkrum tugum upp í 100 hestburðir á bæ. Eitthvert tjón mun hafa orðið á Refsstað. Þar fauk af 56 hekturum. Páll bóndi á Refsstað fullyrti að á síðustu 150 árum hafi aldrei komið annað eins veður á þessum árstíma. Sama sagði Frímann bóndi í Krossvík. Taldi þetta líkast þeim veðrum, sem koma stundum síðari hluta septembermánaðar. Hann missti ca. 40 hestburði, sem fuku í læk, er stíflaðist af heyinu og flutti það til sjávar eða gjöreyðilagði það. Ekki taldi Páll mögulegt að segja með nokkurri vissi hvað heytjónið væri mikið, því töluverðu verður hægt að bjarga af því heyi, sem settist í girðingar og önnur afdrep. Mun það fara eitthvað eftir veðrinu, því ef rignir í heyið svona, verður það ónýtt. Til dæmis um veðurofsann má geta þess, að jeppabíll, er var á ferð inn með fjöllunum, varð að stansa í eina klukkustund á leið sinni yfir Krossavíkuröxl, því stormurinn virtist ætla að lyfta honum upp, ef reynt var að keyra hann. Þegar gekk í rokið, voru tveir litlir fiskibátar á sjó 2 tonna trilla og 5 tonna dekk bátur. Trillan komst í landvar í svokallaðri Drangsneshöfn og lá þar af sér mesta rokið. Kom hún ekki í höfn fyrr en í nótt og var farið að óttast um hana. Hinn báturinn hleypti í veðrinu til Bakkafjarðar. S.J.
Engin blöð komu út 2. til 14.ágúst vegna verkfalls. Mikið var um verkföll sem höfðu áhrif á blaðaútgáfu á árinu 1963. Tilviljun olli því að ekki var mjög mikið um veðurtíðindi meðan á verkföllunum stóð. Ágústmánuður varð tiltölulega hagstæður og heyskapur gekk allvel, enda var hann í flokki þurrustu ágústmánaða bæði um vestan- og norðanvert landið og veður til þess að gera meinlaust. Illviðri um verslunarmannahelgina spillti þó þjóðhátíð í Eyjum. Alldjúp lægð kom að landinu úr suðvestri þann 2. Morgunblaðið segir frá 15.ágúst:
Um verslunarmannahelgina gerði versta veður í Vestmannaeyjum, og varð að aflýsa þjóðhátíðarhöldunum í Herjólfsdal að mestu. Á föstudag [2.ágúst] fór fram guðsþjónusta í dalnum, og lúðrasveit lék, en um hálf tólfleytið um kvöldið varð að aflýsa frekari hátíðahöldum þar, og fluttu menn sig þá niður í bæ, þar sem þjóðhátíðin fór fram að mestu. Svo hvasst var í Herjólfsdal, að tjöld fuku víða og a.m.k. 3 tjöld fuku á haf út. Fólk þyrptist til lögreglunnar í Vestmannaeyjum vegna húsnæðisvandræða og tókst lögreglunni að greiða úr vandanum. Var fólkinu komið fyrir í herbergjum fiskvinnslustöðvanna, á barnaheimili, sem stóð autt um helgina, og einnig á einkaheimilum úti í bæ. Tekið var til bragðs að stíga dansinn í samkomuhúsum bæjarins, og stóð þar dansleikur til kl.4 á sunnudagsmorgun [4.].
Tíminn fer yfir heyskap og heyskaparhorfur 17.ágúst:
HB-Reykjavík, 16. ágúst. Samkvæmt upplýsingum Halldórs Pálssonar búnaðarmálastjóra, eru allar horfur á því, að heyfengur verði með minna móti í sumar, en hins vegar eru þau hey, sem þegar hafa náðst, yfirleitt góð og lítið hrakin. Undanfarið hefur verið þurrkur víðast um land og hey náðst lítið hrakin. Yfirleitt má telja, að sláttur hafi gengið sæmilega um allt land. En hins vegar er háarspretta léleg, bæði vegna þurrkanna og hinna miklu kulda. Kvað Halldór útséð um það að hvernig svo sem viðraði það sem eftir er sumars, myndi heyfengur verða undir meðallagi, en gæðin myndu hins vegar verða með betra móti. Halldór kvað ástandið verst með sprettu á norðanverðum Ströndum og verst í Árneshreppi. Sér hefði nýlega verið sagt, að spretta væri þar svo gott sem engin og mjög slæmt útlit. Þá sagði Halldór Pálsson einnig, að útlitið væri slæmt með kartöfluuppskeruna. Kartöflugrös hefðu fallið í öllum landsfjórðungum í frostunum í sumar. Að vísu færi mjög mikið eftir því, hvernig haustið yrði, en eins og sakir stæðu nú, væri ekki hægt að segja, að útlitið væri gott.
Morgunblaðið segir ítarlega af heyskap 20.ágúst:
Heyskapur í sumar verður að líkindum í meðallagi. Illa leit út um slátt um tíma, en síðustu daga hafa komið nokkrir þurrkdagar víðast um land og ber fréttariturum þeim, sem Morgunblaðið talaði við í gær, saman um að þessir þurrkdagar hafi breytt útlitinu verulega. Vegna kuldanna má heita léleg háarspretta um allt land. Hér fara á eftir umsagnir nokkurra fréttaritara blaðsins um heyskapinn í sumar:
Búðardal 19.ágúst. Heyskapur er farinn að ganga sæmilega núna. Hér kom mjög erfiður kafli, en síðasta vika var sæmileg og nú er þurrkur. Spretta var góð bæði á túnum og úthaga, sérstaklega var vel gróinn úthagi upp í háfjöll. Vegna þurrkakaflans núna og ef svo heldur áfram má búast við að heyskapur verði sæmilegur. F.Þ.
Þingeyri, 19. ágúst. Dásamlegt veður er hér, hlýtt bæði í gær og í dag. Sláttur gengur ágætlega og eru bændur yfirleitt búnir að hirða fyrri slátt, enda hefur ágætur þurrkur verið alla s.l. viku. Tún voru ágætlega sprottin fyrir fyrri slátt, en vegna kulda er búist við að háin spretti illa og seinni sláttur verði í minna lagi. Magnús.
Staðarbakka, 19. ágúst. Góð veðrátta hefur verið í Miðfirði að undanförnu og í gær var ágætur þurrkur. Hey eru komin inn að mestu leyti og það sem enn er úti er orðið þurrt. Illa lítur út með hána vegna kulda, sem hafa verið, það fennti meira að segja í fjöll fyrir nokkru. Benedikt.
Víðidalstungu, 19.ágúst. Sláttur hefur gengið heldur seint í Vestur-Húnavatnssýslu, enda hefur tíð verið óhagstæð. Góður þurrkur var hér í 34 daga og þá náðu margir töluverðu inn af heyjum. Segja má í heild, að ástandið sé vandræðalaust, en það er þó verra á nesjum en innsveitum. Fyrri slætti er að ljúka þar sem best gengur. Spretta var sæmileg, en fremur lítil spretta er í hánni.
Sauðárkróki, 19.ágúst. Þurrt veður hefur verið undanfarna 23 daga víðast hvar í Skagafirði og hafa bændur náð inn ansi miklu. Fram til þessa hefur ástandið verið víða slæmt. Á ytri hluta Skagans var ekki komið strá í hlöðu fyrir 4 dögum. Þar voru eilífar þokur, en nú hefur þurrt veður verið a.m.k. Frammi í Skagafjarðardölum er heyskapur orðinn sæmilegur. Jón.
Bæ, 19. ágúst. Á Höfðaströnd hefur verið heldur tafsamur heyskapur, en þó hafa hey ekki hrakist. Margir bændur eru búnir að slá og eiga mikið úti af þurru og hálfþurru Heyi. Þoka er þessa dagana og lítið hægt að þurrka. Háarspretta er misjöfn. Þeir sem báru á snemma fá sæmilega sprettu. Ég býst við, að náist það hey sem nú er úti verði vel meðalheyskapur. Björn.
Breiðdalsvík, 19.ágúst. Sláttur gekk seint hér í sveit á tímabili vegna slæms og kalds veðurs, en það hefur verið ágætt síðustu dagana. Flestir eða allir bændur hafa nú getað náð inn heyjum eftir fyrri slátt, en verr lítur út með síðari slátt, því háin hefur sprottið seint. Spretta var ágæt fyrir fyrri slátt og þeir sem byrjuðu fyrstir að slá náðu miklu inn, því tíð var góð fyrr í sumar. Mikið hefur verið um véla- og bílakaup í Breiðdalnum. Hafa a.m.k. 6 dráttarvélar verið keyptar og einir 12 bílar. Afkoman virðist því vera góð. Páll
Þorlákshöfn, 19. ágúst. Sláttur hefur gengið ágætlega í Ölfusinu í sumar. Nokkrir bændur eru búnir að hirða allt sitt hey en aðrir eiga eftir seinni slátt. Spretta var ágæt og náðu bændur heyjum óhröktum. Veðurfarið hefur verið mjög sæmilegt, sólskin oft og tíðum. Magnús.
Morgunblaðið heldur áfram að lýsa hagstæðri tíð 23.ágúst:
Hjá Klemenz sprettur kornið Já, ekki er nú hlýtt, segir Klemenz á Sámsstöðum, þegar hann kom inn frá að taka veðrið eitt kvöldið í sumar, hálf áttunda gráða, þetta hefur verið einkennilegur dagur hvað veðurlag snertir, hitamismunur næstum 10 stig, enda hefur skipst á sterkt hitaskin og hálfgerðar krapadembur".
Þúfum, 22. ágúst:. Síðustu viku hefir brugðið til hinnar bestu veðráttu við Djúp, ágætur heyskapur dag eftir dag. Má telja að nær allstaðar sé fyrri sláttur kominn í hlöðu vel hirtur með ágætri nýtingu og heyskaparhorfur því stórbatnað. Geti svo farið ef svipuð tíð héldist að heyskapur yrði í meðallagi. P.P.
Morgunblaðið er enn í heyskapargír 30.ágúst:
Eyjafirði, 26. ágúst. Árferði hefur verið fremur hagstætt til landbúnaðar hér í Eyjafirði í sumar. Það voraði vel, og var hvergi kal í túnum, enda var grasvöxtur alls staðar mikill og jafn. Þó spruttu illa tún, þar sem jarðvegur er þurr og harður eða mjög grunnur, en það er óvíða hér um slóðir. Nokkuð spratt þó seint, og gæti það hafa stafað af því, hve frost var mikið í jörðu í vor, eftir þennan mjög svo snjólétta vetur. Heyskapur byrjaði því ekki af fullum krafti, fyrr en um mánaðamótin júní og júlí, en þá voru þurrkar ágætir hvern dag síðustu viku júní og fyrstu viku júlí. Allmikið náðist því af heyjum þennan hálfa mánuð, einkum hjá þeim, sem gátu byrjað fyrir mánaðamót. Viku af júlí gekk svo í norðan kulda og óþurrkatíð í hálfan mánuð, og snjóaði þá jafnvel niður í byggð. Þetta kuldakast olli því, að nýslegnu túnin hvítnuðu upp og náðu sér ekki með sprettu, og er því háarspretta yfirleitt mjög léleg. Einnig kippti þetta úr kartöfluvexti, og dæmi voru til, að sæi á kartöflugrasi. Má því verða hagstæð tíð fyrir kartöflusprettu fram um miðjan september, ef uppskera á að verða sæmileg. Síðan í júlílok hefur svo verið afburða heyskapartíð, og er heyskap víða að verða lokið. Nýting heyja er mjög góð og engin tugga hrakin. V.G.
Morgunblaðið segir af ísflugi 31.ágúst:
[Ísflug 29.ágúst] Tjáði Jón Eyþórsson veðurfræðingur blaðinu í gær að ísröndin væri 42 sjómílur út af Straumnesi og væri það nær en vanalegt væri á undanförnum árum á þessum árstíma. Hér er um að ræða ísrek, smáa jaka og íshellur en einstaka borgarísjakar eru inn á milli. Sumstaðar er rekið mjög gisið eða ekki nema 1/10 af yfirborði sjávar þakið ís. Þess á milli er rúmlega helmingur sjávar undir ís og sumstaðar í jaðri ísbeltisins, sem skagar suður með Vestfjörðum, eru íshellurnar svo þéttar að varla er bil á milli. Ísinn liggur einkennilega þar sem er mikill skagi suður með Vestfjörðum en auður sjór vestan hans.
Flestar fregnir af Ströndum þetta árið voru heldur neikvæðar. Tíminn 7.september:
GPV-Trékyllisvík, 6. september. Í sumar hefur tíðarfar hér verið óvenjulega kalt og hretviðrasamt. Hefur hvert illviðrishretið rekið annað með stuttu millibili. Frá miðjum júní fram til 26. var óslitinn norðangarður með stórviðri, og snjóaði ofan í byggð suma dagana. Í því veðri fór fé illa og lítið spratt. Seinustu daga júní hlýnaði og gekk til vestanáttar. Hélst það fram til 11. júlí. Á þessu tímabili var þurrkur svo mikill, að víða brann af harðvellistúnum. Hafísinn lónaði skammt undan ströndinni og andaði napurt, ef hafgolu gerði. Fyrir miðjan júlí brá aftur til norðanáttar og kólnaði í veðri. Stóð það fram til 25. júlí. Þennan tíma var hiti lítið yfir og um frostmark og næturfrost. Féllu þá kartöflugrös. Frá 19. til 24. júlí snjóaði flesta dagana svo snjór var niður á láglendi. Fram úr því brá heldur til batnaðar og glæddist spretta á túnum lítilsháttar. Síðan hefur verið ríkjandi austan- og norðanátt, kalt í veðri þokuslegið en stórillviðralaust. Vegna tíðarfars og mjög lélegrar grassprettu hófst sláttur ekki fyrr en 17.20. júlí. Spretta var afar léleg og sums staðar nær engin. Mikið hefur verið slegið með orfi og ljá vegna sneggju og hefur það tafið til muna. Allir hafa nú lokið túnaslætti, og má yfirleitt segja, að heyskapur sé mjög rýr svo að til vandræða horfi. Háaspretta er engin. Engjaheyskapur bætir ekki úr að ráði héðan af. Einhverjir, sem verst eru staddir munu hafa gert ráðstafanir að kaupa hey.
September var illviðra- og hretasamur. Tvö meginhret gerði. Það síðara var tekið fyrir í sérstökum pistli á hungurdiskum, kölluðum það leitahretið - og við endurtökum það ekki hér. Nærri hálfum mánuði áður gerði einnig slæmt hret. Það var þó bundnara við landið norðaustanvert, en var býsna slæmt: Tíminn segir fyrst frá 10.september:
Þegar líða tók á laugardagskvöldið [7.] færðist óveðrið út af Vestfjörðum nær landi og hvessti og rigndi á Vestfjörðum og síðan breiddist óveðrið yfir norðanvert landið og byrjaði að rigna þar og hvessa, og kólnaði um leið. Seinni partinn í gærdag [8.] var kominn 3 til 4 stiga hiti á láglendi, en hiti við frostmark í hæstu sveitum. Í morgun [9.] var hitinn svo orðinn um frostmark á Hólsfjöllum og snjóaði þar og mun alls staðar hafa snjóað í fjöll, því hitinn var aðeins frá 1 til 3 stigum við sjó. Óhemju rigning var á Máná á Tjörnesi, en þar mældist 60 mm úrkoma [reyndar 55,7 mm, en tæpir 100 á tveimur sólarhringum] frá kl.18 í gærdag til kl.9 í morgun og 40 mm [39,2 mm] á Raufarhöfn og á Staðarhóli [37,6 mm], en á Siglunesi var úrkoman 29 mm yfir nóttina. Austan til á landinu hefur nú dregið úr úrkomunni, en útlit er fyrir. að vott verði á grasi sunnanlands á morgun, að því er veðurfræðingar segja. Í allan dag hefur verið skafrenningur og snjókoma í Siglufjarðarskarði, og því ekki talið ráðlegt að ryðja skarðið, þar eð skafa myndi í förin jafnóðum. Lágheiðin til Ólafsfjarðar var að verða ófær í dag og sömuleiðis Möðrudalsöræfin. Fréttaritari blaðsins á Egilsstöðum skýrði frá því í dag, að þar væri kominn norðangarri, og snjóað hefði í fjöll. Akureyrarrútan sneri við á Jökuldalsheiði í morgun, en stórir bílar sitja þar fastir í snjó á Möðrudalsfjallgarði. Þá sagði hann einnig, að gránað hefði í Fjarðarheiði, en bílar kæmust þar hindrunarlaust og sama máli gilti um Oddsskarð.
Morgunblaðið segir einnig frá 10.september (úrkomutölurnar ekki nákvæmar):
Um helgina gekk mikil úrkoma yfir norðanvert landið með slyddu á láglendi og snjókomu í fjöllum, fyrir ofan 200 m hæð, svo heiðavegir urðu ófærir, einkum á Norðausturlandi og Siglufjarðarskarð lokaðist. Úrkoman var fádæma mikil, t.d. 60 mm. frá kl.18 á sunnudag til kl.9 í gærmorgun á Máná á Tjörnesi og 40 mm á Raufarhöfn og Staðarhóli í Þingeyjasýslu og hefur ekki mælst svo mikil í 14 ár. Veðrið kom inn yfir Vestfirðina á laugardag, hvöss norðaustanátt með úrkomu og kulda og stefndi suðaustur. Á sunnudag var komin talsverð rigning um norðanvert landið og það kalt að tók að snjóa í fjöll og í gærmorgun var 23 stiga hiti í lágsveitum og um frostmark á Grímsstöðum á Fjöllum og 1 stigs frost í Möðrudal. Siglufjarðarskarð lokaðist af snjó á sunnudagskvöldið, en áætlunarbílnum var hjálpað yfir í gærmorgun. Það hélt þó áfram að snjóa í skarðið í gær og var það orðið alveg ófært í gærkveldi. Hvítt var niður að sjó á Siglufirði. Lágheiðin milli Fljótanna og Ólafsfjarðar var orðin ófær smábílum í gær, en keðjufær stórum bílum. Á Hólsfjöllum, á Möðrudalsöræfum og í Mývatnssveit var 15 sm snjór í gærmorgun og hélt áfram að snjóa í gær. Ekki var vegurinn um Hólsfjöllin þó talinn ófær bílum. Reykjaheiði varð ófær bílum í gærmorgun, og leiðin til Raufarhafnar um Tjörnesið hefur verið lokuð um skeið vegna endurbyggingar í Hallbjarnarstaðagili, en einhverjir bílar munu þó hafa skrönglast þá leið frá Húsavík í gær. Fréttaritari blaðsins á Vopnafirði sagði að í fyrrinótt hafi snjóað niður undir bæi. Jeppabíll sem kom Hauksstaðaheiði í gærmorgun, fór í snjóskafla sem náðu upp að luktum. Ekki er vegurinn talinn ófær, en fréttaritarinn á Raufarhöfn sagði að það væri ekki snjór en svo mikil úrkoma að vatnsmælirinn hefði ekki sýnt svo mikla úrkomu í 14 ár. Snjór er á Reykjaheiði og Axarfjarðarheiði, en bílar hafa farið fyrir Tjörnes. Fréttamenn blaðsins sem voru staddir á Lágheiði í gær, komust þar yfir á Volkswagen, en með því að ýta bílnum nær alla leiðina. Þeir sögðu að snjór væri niður að sjó í Fljótum og inn fyrir Hofsós, en snjólaust og rigning á Sauðárkróki. Fréttaritarinn á Húsavík sagði í gærkvöldi, að þar væri snjór niður undir byggð, jörð væri hvít í Reykjahverfinu og ökklasnjór í Axarfirði. Væru menn uggandi um að slík krapa- og bleytuhríð yrði fé á afrétti erfið.
Þá fauk Skoda-bíll undir Ingólfsfjalli síðdegis á sunnudag [8]. Sviptivindar slæmir voru undir fjallinu og fór bíllinn á hvolf á veginum. Fólk sakaði ekki.
Morgunblaðið heldur áfram 12. september:
Bæ, Höfðaströnd, 11. september. Hér hefur rignt og snjóað frá því á laugardag [7.] og er allt á floti niður við sjóinn, en ökkladjúpur snjór í dölunum og upp við fjallið. Töluverð hey hafa verið úti og sums staðar standa bólstrar (sátur) hálfir í vatni. Í afréttunum er kominn þó nokkur snjór og í gær var farið fram eftir og sleppt niður fyrir afréttargirðingar mörg hundruð fjár, sem stóð niður við girðingarnar. Siglufjarðarskarð hefur annað slagið verið lokað en er opnað fyrir áætlunarbílnum með ýtu. Jafnvel eldri menn muna ekki eftir svo mikilli rigningu og úrkomu í svona langan tíma. Á túnum eru svo stórar tjarnir, að synda má í sumum þeirra. Björn
Húsavík, 11. september. Í Reykjahverfi hafa 5 kindur varið grafnar úr fönn eftir hríðarveðrið sem gekk yfir um helgina. Þó að í dag sé komið bjart veður blasa við bændum miklir erfiðleikar í sambandi við göngurnar, sem nú eru að hefjast. Vestan til á Reykjaheiði mun snjór vera einna mestur og það mikill, að umbrotafæri er fyrir hesta. Bændur í Reykjahverfi, sem fara í göngur í nótt og vanir eru að fara á hestum, verða nú að fara gangandi í fjárleitina. Í dag hefur jarðýta unnið að því að opna sæmilega rekstrarleið fyrir fé af austanverðri Reykjaheiði og úr Kelduhverfi, en snjórinn minnkar eftir því sem fjær dregur Reykjahverfi. Fé úr Kelduhverfi hefur oftast undanfarin ár verið flutt á bílum til Skógarréttar, en þar sem bæði Reykjaheiði og Tjörnesvegur eru ófær bilum verður að reka féð. Fréttaritari.
Tíminn segir frá göngum og fjárheimtum 13.september:
FB-Reykjavík, 12. september. Undangöngur eru hafmar í Þingeyjarsýslu, og eru það fyrstu göngur á landinu. Fóru Bárðdælir fyrir einum 4 eða 5 dögum fyrstir manna í göngur. Í fyrradag var farið í undanleitir úr Reykjahverfi og úr Aðaldal, og var farið austur á Reykjaheiði. Lagt var upp frá tveimur bæjum, Geitafelli í Aðaldal og Skarðaborg í Reykjahverfi, og ákveðið að fara austur í gangnamannaskálann á Þeistareykjaheiði. Frá Skarðaborg fór Þórarinn Jónsson bóndi, og lenti hann í slíkri ófærð að hann varð að snúa við. ... Reykdælingar og Húsvíkingar ganga vestanverða Reykjaheiði, og heimalönd Reykdælinga í dag, og rétta í Skógarrétt. Þeir urðu að fara hestlausir, því hestum er ekki við komið vegna snjóa. Gerð hefur verið slóð með ýtu til þess að reka féð eftir.
Eftir að norðanhretin gengu yfir komu nokkrir útsynningsdagar með eftirminnilegum haglhryðjum. Tíminn segir frá 14.september:
Um miðjan dag í gær [13.] gerði úrhellisrigningu og krapahríð í Reykjavík, svo mikla, að miðbærinn í Reykjavík hreinsaðist af fólki í verstu hryðjunni, og í búðadyrum stóðu hvarvetna óþolinmóðir og leituðu lags. Ræsin á malbikuðu götunum fylltust og vatnið flóði um götur og gangstéttir. Þegar slotaði og fólk fór að fara ferða sinna aftur, voru stórir pollar um allar götur og reyndi þá á langstökkhæfileika margra. ... Annars ar um allt Suðurland útsynningur i allri sinni dýrð.
KHJ Reykjavík, 11. september. Þurrkarnir í sumar hafa orðið þess valdandi, að votheyshlöður bnda standa nú víðast tómar, að því er Gísli Kristjánsson, ritstjóri Freys, sagði blaðinu í dag. Hann sagði, að aðeins einstaka bóndi mundi hafa haft þá reglu að heyja jafnframt í þurrhey og vothey. Héðan af mun bændum varla gefast tækifæri til að heyja 1 vothey, sem neinu nemur, og kemur það sér illa fyrir þá.
Fréttir bárust nú aftur af vatnsskorti (eftir sérlega þurran ágústmánuð - og vetur). Morgunblaðið 19.september:
Hafnarfirði. Eins og heyra mátti í Ríkisútvarpinu í gær, var fólk í bænum hvatt til að fara sparlega með vatn og láta ekki renna að óþörfu. Fékk blaðið þær upplýsingar í gærkvöldi, að það stafaði af þverrandi vatni í Kaldárbotnum í Kaldárseli, og ástæðan talin sú að síðastliðinn vetur hefði verið mjög snjóaléttur og nú þurrkasumar. Að vísu væri um nóg vatn að ræða í lóninu í Kaldárbotnum, en allmikið af því rynni niður um botn þess út í hraunið. Hefði það til dæmis lækkað um 2 sm nú síðustu 4 daga. Var hafist handa þegar í morgun með ýtum og er í ráði að byggja stíflugarð þvert yfir lónið, og vona menn þá að úr vatnsskortinum rætist. Mun það verk taka 23 daga. Vatnsskorturinn hefir einkum gert vart við sig i hinum nýju hverfum á Hvaleyrarholti og á Klausturhæðinni. Var blaðinu tjáð, að fyrir nokkrum árum (1954 eða 55) hefði vatnið í Kaldárbotnum lækkað að mun, en þá hafði ekki verið byggt á fyrrnefndum stöðum og vatnsskorturinn ekki komið að sök. Vona forráðamenn vatnsmála í Hafnarfirði að það takist að vinna bug á vatnsskortinum innan fárra daga, eins og fyrr segir, en biður fólk að spara vatnið á meðan eins og mögulegt er. G.E.
Morgunblaðið segir 21.september frá fyrra hretinu (það er kannski að einhverjir muni eftir hljómsveitinni sem fjallað er um):
Mývatnssveit, 11. september. Um síðustu helgi [7. til 8.] gerði hér versta veður. Á sunnudag rigndi mikið, um kvöldið kólnaði og fór þá að snjóa. Hélst snjókoman alla nóttina og fram eftir degi á mánudag. Var þá kominn allmikill snjór eða 15-20 sm jafnfallinn. Sum staðar urðu skemmdir á trjágróðri í görðum, t.d. í kirkjugarðinum á Skútustöðum. Þar sligaði snjóþunginn og braut tré og greinar. Víðar munu skemmdir hafa orðið, þó mér séu þær ekki allar kunnar. Enn fremur lentu menn í hrakningum og villum, þeir sem voru úti á mánudagsnótt. Fjórir menn héðan úr sveitinni, þ.e. Kóralhljómsveitin, fóru á laugardagskvöld norður á Þórshöfn og léku þar á samkomu. Á sunnudagskvöld spiluðu þeir svo á Sólvangi á Tjörnesi. Lagt var þaðan upp heimleiðis um kl.2 um nóttina. Vegna vegagerðar í Hallbjarnarstaðagili var vegurinn lokaður til Húsavíkur. Urðu þeir því að fara veginn fyrir Tjörnes um Kelduhverfi og Jökulsárbrú í Axarfirði. Þeir voru í fólksbíl. Þegar að Jökulsárbrú kom, náðu þeir stórum fólksflutningavagni frá Húsavík en í honum voru aðeins 2 menn. Strax og upp fyrir brúna kom, versnaði færðin mjög, enda feikna fannkoma, og varð að setja á keðjur. Gekk ferðalagið seint, enda farið að skafa í skafla. Þegar þeir komu að nýja veginum suður í Landsheiðinni, sást ekkert fyrir, villtust þeir á gamla veginn og brutust eftir honum 4 km eða þar til ekki varð komist lengra. Sökum snjódýpis var ekki nokkur leið að snúa bílunum við. Var því ekki um annað að gera en aka aftur á bak sömu leið og þeir komu Geta flestir skilið að hvílíkt hafi ekki verið þægilegt með höfuðið út um gluggann á móti veðrinu. Þetta tókst að lokum, en skilja varð minni bílinn eftir. Þessi villa á gamla veginum kostaði 7 tíma erfiði. Voru menn blautir og hraktir enda litt búnir af skjólfötum.
Morgunblaðið segir af ótíð 22.september:
Bæ, Höfðaströnd, 15. september. Undanfarinn hálfan mánuð hefur verið veruleg ótíð hér í Skagafirði. Stórrigningar á láglendi marga daga, en snjókoma til fjalla. Á afréttum hefur sett niður nokkra fönn, svo hleypa þurfti fé svo hundruðum skipti niður fyrir afréttargirðingar. Göngur eru að byrja hér í Skagafirðinum og lítur frekar illa út með að gangnamenn fái gott skyggni og færi. Sæti standa í vatni. Víða eru töluverð hey úti og standa sæti sumstaðar upp til miðs í vatni. Tæplega hafa bændur fengið meðalheyskap þetta sumar, sérstaklega þeir sem seint byrjuðu að slá, en varahluti í vélar vantaði svo tilfinnanlega í vor og sumar að stór bagi var að. Þó nokkrir skápar er nú þegar komnir í hey bænda, þar sem kýr hafa verið hýstar í óveðrunum. Þykir bændum það nokkuð snemmt.
Eins og áður sagði er nánar fjallað um illviðrið mikla 24. september og næstu daga á eftir í sérstökum pistli.
Október varð mjög umhleypingasamur og ollu stöku illviðri talsverðu tjóni, en þess á milli var allgóð hausttíð. Aðfaranótt 2. október gekk djúp lægð inn á Grænlandshaf. Rækilega hvessti á Snæfellsnesi, en aðrir landshlutar sluppu að mestu. Tíminn segir frá 3.október:
AS-Ólafsvík, 2. október. Gífurlegt hvassviðri af suðri gekk yfir Ólafsvík í nótt og morgun. Þakið fauk af nýju íbúðarhúsi í þorpinu, en plöturnar brutu glugga í næsta húsi og skemmdu innanstokksmuni, þak síldarverksmiðjunnar fauk að nokkru leyti, þak fór af nýju íbúðarhúsi í Fróðárhreppi, uppsláttur að verkstæðishúsi umturnaðist, og tveir bátar slitnuðu frá bryggju og rak upp. Sterkviðrið var mest frá klukkan 3 til 5, og einhvern tíma milli klukkan 3 og 4 fauk þakið af nýju íbúðarhúsi Þórðar Vilhjálmssonar hér í þorpinu. Járnplöturnar skullu á nýju íbúðarhúsi Runólfs Kristjánssonar, sem stendur þar næst, og brutu þrjá glugga með tvöföldu gleri í húsi Runólfs. Runólfur og kona hans voru á fótum, þegar járnið braut gluggann á svefnherbergi þeirra á annarri hæð og skall inn, en á neðri hæð voru unglingar í svefnherbergi, þar sem járnplötur komu inn um gluggann. Sem betur fór sakaði engan, en plöturnar stórskemmdu rúm og annan húsbúnað, og í stofunni skemmdust sófi, stóll og borð og gólfteppið. Þá urðu miklar skemmdir af vatninu, sem lamdist inn um brotna gluggana, og í morgun var heimili Runólfs eins og eftir loftárás. Þeir Runólfur og Þórður eru báðir með heimilistryggingar, en vafi leikur á, hvort þeir fá tjón sitt bætt. Þykir mönnum harla undarlegt og hart aðgöngu, ef svo verður ekki. Þá fauk þakið af nýju íbúðarhúsi í Tröð í Fróðárhreppi, en það var byggt upp eftir bruna í fyrra. Í Tröð býr Ragnheiður Skarphéðinsdóttir, ekkja, sem missti mann sinn í fyrra. Hluti af þaki síldarverksmiðjunnar fauk í veðrinu, og þar urðu skemmdir á mjöli, sem eftir er að kanna. Vigfús Vigfússon trésmiður, var nýbúinn að slá upp mótum fyrir nýju trésmíðaverkstæði skammt fyrir innan þorpið, en mótin féllu sem spilaborg, og var engin spýta uppistandandi í morgun. Vélbátarnir Baldur og Tindafell slitnuðu frá bryggjunni og rak upp, en þeir eru óskemmdir. Nýja hafnarmannvirkið skemmdist ekkert. Þetta er eitt mesta sunnan ofviðri, sem Ólafsvíkingar muna, en klukkan 10 í morgun var komið logn. Blaðið talaði við mann á Hellissandi í dag, en þar hafði ekki orðið tjón. Hins vegar var töluvert rok þar í nótt. Húnbogi Þorsteinssori i Grafarnesi sagði, að þar hefði verið stinningshvasst, en ekkert tjón.
Morgunblaðið segir 3.október af sama veðri:
Ólafsvík, 2. október. Síðastliðna nótt gerði hér afspyrnu rok af suðaustri og mun vindhraði hafa komist upp í 12 vindstig. Hér urðu talsverðir skaðar. Tveir bátar 1213 tonn að stærð slitnuðu frá hafnargarðinum og rak upp í fjöru. Ekki er enn vitað um skemmdir á þeim. Þá fauk þak af nýbyggðu íbúðarhúsi og þök af hafnarskúrnum og fleiri skúrum. Uppsláttur fauk um koll við hús, sem verið er að byggja og skemmdust mót talsvert. Í Fróðárhreppi fauk þak af nýju íbúðarhúsi á Tröð. Símasambandslaust var milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur um tíma, en veðrinu slotaði á 7. tímanum í morgun. Hjörtur.
Djúp lægð fór yfir landið þann 8.október, án tíðinda og meinleysið hélt áfram allt fram til þess 14. að leifar fellibylsins Flóru komu inn á Grænlandshaf. Hungurdiskar hafa áður gert grein fyrir lægðinni og verður það ekki endurtekið hér - en setjum þó inn nánari fregnir af tjóni sem veðrið olli. Það var ekki mikið og fyrst og fremst suðvestanlands. Olli lægðin ritstjóra hungurdiska nokkrum vonbrigðum - því talsvert hafði verið gert úr - Flóra hafði valdið miklum mannsköðum suður í Karíbahafi nokkrum dögum áður, einkum á Kúbu.
Tíminn segir frá 15.október:
BÓ Reykjavík, 14. október. Hvirfilvindurinn Flóra segir til sín hérlendis í dag og nótt. Flóra er nú á leiðinni norður um hafið milli Íslands og Grænlands, og klukkan þrjú í dag var lægðarmiðjan beint vestur af Snæfellsnesi. Flóra er nú mörg hundruð kílómetrar í þvermál, en var aðeins fáeinir kílómetrar í þvermál, þegar hún geisaði í hitabeltinu. Í dag reif hún járn af húsum í Reykjavík og Hafnarfirði, velti skúrum og umturnaði mótauppslætti. enda var styrkur hennar 1213 vindstig i mestu hrinunum í Reykjavík milli klukkan tólf og eitt. Af þessu má gera sér í hugarlund hvernig Flóra hefur hamast, þegar afl hennar var sameinað í punkti, sem var nokkrir kilómetrar í þvermál.
Flóra heilsaði upp á í Vestmannaeyjum kl.4 í nótt. Þá fór að hvessa. Kl. 56 var komið rok, en harðast var veðrið í Eyjum frá klukkan 8 til hádegis. Þá voru 12 vindstig á Stórhöfða. Ekkert tjón varð i Eyjum, og sögðust heimamenn hafa fundið meiri gust. Þá voru 78 vindstig undir Eyjafjöllum og mikil vatnskoma, strekkingsvindur en þurrt á Rangárvöllum og vestur um Árnesþing. en foráttubrim í Þorlákshöfn. Á Reykjanesi var sterkviðri frá kl 912, en engar skemmdir nema hvað nokkrar járnplötur losnuðu af húsi, sem er í byggingu í Sandgerði og skúrræfill fauk í Keflavík. Í Hafnarfirði fauk mótauppsláttur, allur gaflinn úr stórbyggingu Frost hf á Flatahrauni. Spennistöð rauk um koll á Hvaleyrarholtinu og straumurinn fór af, vinnuskúr þeyttist á hús og járnplötur losnuðu af byggingum hér og þar um bæinn. Upp úr hádeginu var hætta á ferðum vegna járnfoks, en ekkert slys hlaust af þessum sökum. Lögreglan vann að því að hirða járn og losa plötur, sem voru í þann veginn að fjúka. en ekkert gekk að fá mannskap til að hjálpa lögreglunni við þessi störf. Í Kópavogi fauk ekkert til skaða, en í Reykjavík var lögreglan og vinnuflokkar bæjarins á þönum fram eftir degi við að hirða járn og timbur, sem var að fjúka. Steypumót losnuðu i sambyggingu DAS við Ljósheima. Í Skipholti 4547 fauk járn af húsinu. Í Nesti við Elliðaár, Réttarholtsveg 1 og í Blesugróf urðu skemmdir, gluggar brotnuðu víða en enginn slys urðu á mönnum.
Á Akranesi eru feikna sandskaflar á Skagabrautinni, en skeljasandurinn barst í stríðum straum út úr geymslu sementsverksmiðjunnar þvert yfir Skagann. Enn sem komið er hefur ekki verið steypt kringum helminginn af sandgeymslunni. Í Borgarnesi var ekki kunnugt um skemmdir. Veðrið gekk niður og brá til sunnansuðvestanáttar um suðvestanvert landið þegar á daginn leið en kl.6 var enn hvasst á Hellissandi. Þá var heldur að draga niður i Ólafsvík. Kl.7 var farið að lægja á Patreksfirði, en þar var ólátaveður og mikil úrkoma eftir hádegið. Á Ísafirði gekk á með rokum seinnipartinn í dag. Fjallvegir tepptust í slyddubyl. Gert er ráð fyrir vegaskemmdum hér og þar á Vestfjörðum. Lægðarsvæðið nær langt austur fyrir Ísland. Má reikna með hvössum útsynningi með skúrum á morgun. Í morgun var lygnt á Norðurlandi, en þar hvessir í kvöld og nótt. Austfirðingar fá seinast að kenna á lægðinni. Veðurfræðingar sögðu, að nú mundi hlána af heiðunum nyrðra. Engar hjálparbeiðnir bárust til Slysavarnafélagsins í dag, en bátar sem voru á síldarmiðunum leituðu inn eftir hádegið. Innanlandsflug féll niður, nema hvað ein vél flaug til Akureyrar í morgun og tepptist þar. Undir kvöldið barst neyðarskeyti frá norska skipinu Hindholmen, sem var statt 250 mílur út af Garðskaga vestur í Grænlandshafi á 64:30 gráðu norðlægrar breiddar og 33:30 vestlægrar lengdar. Þarna er brotsjór og 12 vindstig. Veðurskipið Alfa er næst staðnum en varðskipið Óðinn er á leið þangað líka. Einnig hafði danskt skip, Edward Evensson, sem var statt 195 mílur frá norska skipinu, haft samband við það.
BÓ-Reykjavík, 14. október. Sjö til átta manns á Neskaupstað horfðu á ljós, sem bar yfir fjörðinn klukkan 20:20 í kvöld. Héldu menn, að skip hefði sent upp neyðarblys, en þeir sáu að sindraði úr ljósinu. Haft var samband við Slysavarnafélagið; Hafþór sendur út til að svipast um, og haft var samband við breskan togara á hafinu fyrir utan. Engin skýring hefur fengist á þessu ljósi, en Henry Hálfdánarson sagði í kvöld, að Slysavarnafélaginu bærust þráfaldlega fréttir um ljós, sem eru ekki af manna völdum og ekki heldur ofsjónir eða uppspuni, þar sem margir eru til frásagnar. Þessi ljós verða aðeins skýrð sem náttúrufyrirbæri.
Tíminn segir fregnir af sandbylnum á Akranesi 16.október:
GBAkranesi, 15. október. Oft hefur fokið úr skeljasandsgeymslu sementsverksmiðjunnar, en aldrei sem í gær. Í allan dag er verið að moka sandinum af Skagabrautinni, en svo harður var bylurinn, að mönnum var ekki fært gegn honum. Ekki hef ég heyrt þess getið, að Skagakonur ætli að berja stjórn Sementsverksmiðjunnar fyrir að hún er ekki búin að loka sandgeymslunni, en hitt er annað mál, að nokkrir aðilar hér í plássinu sneru sér til lögfræðings eftir næstsíðustu ákomu úr geymslunni, og hafa matsmenn verið skipaðir til að virða tjónið.
Tvær sérlega djúpar lægðir fóru yfir landið 19. og 23. október. Olli sú fyrri sjávarflóði við suðurströndina, en sú síðari miklum foksköðum víða um land. Um þessa syrpu var fjallað í sérstökum pistli hungurdiska - og verður það ekki endurtekið hér.
Tíminn birti þann 30.október en einn ótíðarpistilinn af Ströndum:
GPV-Trékyllisvík, 29.október. Mikil óáran hefur verið í Árneshreppi í sumar. Hefur það haldist áfram í haust, og er útlitið ekki sem best. Búast má við að skera verði niður bústofn bænda, en um þessar mundir eru þó þrír menn norður í Eyjafirði í heykaupum, sem stofnað hefur verið til fyrir forgöngu Búnaðarfélagsins. Víða var töluvert af heyjum úti, þegar hretið skall á 24. og 25. september. Aðallega var það úthey, sem heyjað var eftir höfuðdag, en aldrei gert flæsu á. Þetta hey fór allt í fönn. Hjá flestum er það algerlega ónýtt, enda hefur fé gengið í það. Verða það líklega einu notin af því. ...
Síðan i ofviðrinu 24.25. september, hefur verið stöðug ótíð hér Enginn heill dagur góður, heldur stöðugir umhleypingar. Þá setti niður mikinn snjó, svo að allt var á kafi, jarðlaust og vegir ófærir. Það tók tvo daga að ryðja snjó af veginum frá Árnesi til Norðurfjarðar, um 78 km leið. Á tveimur stöðum þurfti að fara í gegnum 23 mannhæða háa skafla. Lengst af hefur verið jarðlaust síðan eða jarðlítið. Gat ekki heitið að tæki neitt upp fyrr en 14. október, eftir að fellibylurinn Flóra fór yfir. Þá komu upp hagahnjótar og stóð það nokkra daga. Oft hefur bleytt í stund úr degi, en úr koman jafnan breyst í snjókomu og skeflt yfir aftur. Nokkuð hefur bleytt í núna síðustu dagana, og snjór sigið töluvert. Nokkrir fjárskaðar urðu í bylnum, aðallega þó á tveimur bæjum. Á Melum drápust 20 kindur, sem ýmsir áttu og í Bæ 8 kindur. Annars staðar hafa ekki orðið fjárskaðar, þó vantar víða kind og kind, sem sennilega hefur drepist. Nýlega hafa fundist þrjár kindur, sem fennti í leitahretinu. Á Melum fannst ær í skafli. Hafði hún þá verið 3 vikur í fönn. Skeflt hafði yfir hana frammi í fjörugrjóti, þar sem hún var í algeru svelti og sjálfheldu Hún var lifandi, en svo aðframkomin, að lóga varð henni. Fyrir viku kom ær úr skafli, sem var héðan frá Bæ. Hafði hana fennt í djúpum skurði. Í blotanum undanfarna daga hafði þiðnað svo ofan af henni, að hún komst af sjálfsdáðum úr skaflinum. Hún er sæmilega hress, en orðin mögur, enda ekki náð í neitt nema þá mold. Á miðvikudaginn fannst svo þrevetur hrútur frá Munaðarnesi uppi á Krossnesfjalli í fönn. Hann hafði staðið í dýi þegar skefldi yfir hann. Var hann með lífi, en svo aumur, að honum var lógað strax.
Enn var verkfall, engin blöð komu út 2. til 10. nóvember. Meðan á því stóð var veður lengst af hagstætt. Það kólnaði að vísu talsvert, og þann 6. gerði talsvert hríðarkast. Víðáttumikil lægð var við Bretlandseyjar, en hæð yfir Grænlandi.
Tíminn segir nokkurra daga gamla frétt 11.nóvember:
Reykjavík, 6. nóvember. Mikið hvassviðri hefur verið um land allt í dag, nema í Vestmannaeyjum. Sums staðar á Norðurlandi og Austurlandi snjóaði. Ófært var orðið í Langadal skammt ofan við Blönduós, Siglufjarðarskarð og Lágheiði, á Hálsavegi á milli Raufarhafnar og Þórshafnar, um Möðrudalsöræfi og Oddsskarð.
Morgunblaðið dregur saman 12.nóvember:
Í s.l. viku kólnaði um allt land og veturinn er kominn. Á þriðjudag [5.]kom kuldaþræsingur yfir landið, en lygndi á föstudag [8.]. Hefur yfirleitt verið nokkurt frost nyrðra en um frostmark syðra.
Morgunblaðið gefur fréttariturum orðið 13.nóvember:
Talsvert mikill snjór er á Vestfjörðum og Norðurlandi, en minna á Austfjörðum og svo til enginn snjór á Suðurlandi. Veður hefur einkum verið slæmt á Vestfjörðum, en stillur meiri í öðrum landshlutum. Morgunblaðið hefur haft samband við nokkra fréttaritara sína til að afla frétta um veðurfarið og fara frásagnir þeirra hér á eftir:
Þingeyri, 12. nóvember. Snjóað hefur hér undanfarna daga og ennfremur í dag. Ofsaveður hefur verið hér út af fjörðunum, en stilltara hjá okkur. Talsverður snjór er hér, en laus og er ekki í sköflum. Fært er fyrir fjarðarbotninn, en fjallvegir eru allir lokaðir vegna snjóa. Magnús.
Ísafirði, 12. nóvember. Blindhríð var á köflum í gær og í nótt. Mikinn snjó setti niður og dró víða í skafla. Betra veður hefur verið í dag. Götur eru færar, en á stöku stað hefur þurft að ryðja þær. Vegir á Vestfjörðum eru löngu ófærir og bátar hafa ekki komist á sjó frá því fyrir helgi. Högni.
Hólmavík, 12. nóvember. Hér var versta veður í gær og fram á miðjan dag í dag. Þungfært er orðið á vegum hér í kring, en þó mun færð ekki vera mjög slæm á Holtavörðuheiði. Töluvert mikill snjór er hér í Hólmavík og versnar eftir því sem norðar dregur.
Blönduósi, 12. nóvember. Í norðanverðum Langadal er talsverður snjór og vegurinn ekki fær lágum bílum. Allir aðrir vegir eru að mestu snjólausir. Í gær var nokkur éljagangur og skafrenningur, en í dag hefur verið stillt og bjart veður. Lítill snjór er á Blönduósi og engar umferðatruflanir af hans völdum. Þær eru ekki fyrr en í Langadal. Á Svínvetningabraut þurfti þó að moka einn skafl hjá Sauðanesi. Björn.
Sauðárkróki, 12. nóvember. Hér í Skagafirði er allmikill snjór. Fært er út á Skaga, þó ekki nema á mjög góðum snjóbílum. Allsæmileg færð er inni í Skagafirði, en mjög þungfært út á eftir að austan. Í dag er annars besta veður, logn og hríðarlaust.
Siglufirði, 12. nóvember. Hér er sæmilegt veður eins og er, aðeins slítur þó snjó úr lofti og alhvítt er milli fjalls og fjöru. Ágætur skíðasnjór er og töluvert um þjálfun skíðamanna, því hér hefur staðið yfir keppni í svigi og göngu. Nokkrir ísfirðingar hafa tekið þátt í þeirri keppni. Töluvert hefur verið hér um skipakomur undanfarið bæði til að taka síldarmjöl og skreið. ... Ekki er hægt að segja, að hér hafi verið veðurharka að undanförnu, þó snjókoma hafi verið af og til. Stefán.
Akureyri, 12. nóvember. Í dag og undanfarna daga hefur gengið á með dimmum éljum og snjó hlaðið niður, svo að komin er allmikil fönn. Snjórinn er laus og jafnfallinn, enda hefur logn haldist. Akureyrargötur eru orðnar þungfærar bílum og sumar ófærar litlum bílum, en aðalgötum og strætisvagnaleiðum hefur verið haldið sæmilega greiðfærum með snjóheflum. Vegirnir í nágrenninu eiga að heita færir stórum bílum og jeppum og sumir, svo sem vegurinn fram Eyjafjörð að vestan og vegurinn vestur í Hörgárdal, eru enn færir öllum bílum. Leiðirnar til Dalvíkur, Húsavíkur og Mývatnssveitar eru aðeins færar kröftugum bílum, svo og leiðin til Skagafjarðar. Vaðlaheiði var síðast farin seint í gærkvöldi. Hún er ef til vill ekki ófær með öllu, en bílstjórar hafa ekki viljað hætta á það heldur farið Dalsmynni. Mikil blinda er alls staðar á vegum og ekkert verður skafið á meðan útlit er jafn tvísýnt og það er nú. Ef nokkuð hreyfir vind má gera ráð fyrir að allir vegir verði gjörófærir þegar í stað. Sv. P.
Raufarhöfn, 12. nóvember. Hlýviðri er hér nú og snjórinn farinn að bráðna. Ekki hefur sett mikinn snjó hér niður ennþá, en vegurinn milli Þórshafnar og Raufarhafnar tepptist vegna skafla í hríðum undanfarna 3 daga. Verið er nú að ryðja veginn með jarðýtu. Skip hafa verið að koma hingað til að taka Svíþjóðarsíld og síldarmjöl. Einar.
Seyðisfirði, 12. nóvember. Hér snjóaði í morgun, en síðdegis var kominn rigning í allhvassri austanátt. Undanfarna daga hefur verið hægviðri og lítilsháttar snjókoma. Vegir hafa verið færir, en ryðja hefur þurft á Fjarðarheiði Snjór er ekki mikill í byggð.
Neskaupstað, 12. nóvember. Slydduveður er hér í dag og kuldi um frostmark. Oddsskarð var rutt í gær, en trúlegt er að það teppist fljótlega aftur, þar sem slydda er í byggð. Lítið hefur snjóað hér ennþá, þótt hvítt sé niður í fjöru. Allir vegir eru færir í sveitunum og götur í bænum eru auðar. Ásgeir.
Höfn, Hornafirði, 12. nóvember. Hér er ljómandi veður, stilla og við frostmark. Snjóföl er á, en engir skaflar. Auð jörð er þegar komið er í Suðursveit. Ágætt veður hefur verið undanfarna daga og bátar verið á sjó. Afli hefur verið sæmilegur, 57 tonn í róðri. Gunnar.
Vík, 12. nóvember. Dagurinn byrjaði með heiðríkju og sólskini, en upp úr hádegi fór að þykkna upp og um miðjan dag var skollinn á blindbylur, en hann stóð ekki lengi. Ljómandi gott veður hefur verið hér að undanförnu og auð jörð þar til nú. Allir vegir eru færir í nágrenninu, en nokkra hálku gerði í brekkum, þegar snjóaði í dag. Andrés.
Vestmannaeyjum, 12. nóv. Blíðviðri, logn og frostlítið, hefur verið hér í dag. Þó gránaði aðeins jörð milli 3 og 4. Þetta er það fyrsta sem við höfum séð af snjó, ef snjó skyldi kalla, hér í Eyjum í haust. Ágætt veður hefur verið allan nóvember og má geta þess, að flogið hefur verið ellefu ferðir af tólf áætluðum. Svo stillt hefur veðrið verið.
Tíminn greinir frá ófærð 14.nóvember:
KH-Reykjavík, 13. nóvember. Snjó hefur kyngt niður um norðanvert landið undanfarna daga, víðast í logni, og eru vegir víða ófærir eða þungfærir af þeim sökum. Vestfjarðavegir eru allir meira og minna lokaðir, og er ekki hugsað til að opna þá meira í vetur. Á Austfjörðum er víða þungfært, og Austurlandsvegur er lokaður. Margir vegir á Norðurlandi eru orðnir ófærir af fannfergjunni, og þyngist jafnt og þétt á öðrum. Fréttaritari blaðsins á Akureyri sagði sem dæmi um ófærðina, að áætlunarbíll til Reykjavíkur var sjö tíma frá Akureyri til Varmahlíðar í dag, og fór þó trukkur á undan til að troða slóðina og draga, ef með þyrfti. Tveir bílar sitja nú fastir i Öxnadal, en þeim verður fljótlega bjargað. Milli Dalvíkur og Akureyrar er ófært nema trukkum, sömuleiðis til Húsavíkur. Vaðlaheiði er að sjálfsögðu ófær. Færð er þung á götum Akureyrar, þó að þeim sé stöðugt haldið opnum. Ef eitthvað hvessir að ráði, má búast við, að allt verði ófært á Norðurlandi. Aðeins var flogið til Vestmannaeyja í dag.
Þann 14. urðu mjög óvænt tíðindi - rétt einu sinni. Tíminn greinir frá 15.nóvember:
Snemma í gærmorgun urðu sjómenn frá Vestmannaeyjum varir við eldsumbrot í hafinu, níu mílur suðvestur af eyjunum. £r þarna um mikið eldgos að ræða og vænta menn þess að upp kunni að koma eyland á gosstöðvunum, en landmyndun fylgir gjarnan eldgosum í hafi, þótt eyjar þær sökkvi stundum í sæ síðar meir. Myndin [í blaðinu] er tekin af gosinu skömmu fyrir hádegi í gær og var mökkurinn þá talinn standa þrjú þúsund metra í loft upp. Gosið virðist koma úr tveim samliggjandi gígum og sást það vítt að, þennan fyrsta dag enda hreinviðri á Suðurlandi. Þetta er tíunda eldgosið í hafi hér við land frá upphafi Íslandsbyggðar.
Það var farið að birta af degi og hafflöturinn var sléttur og friðsæll eins langt og sá frá mótorbátnum Ísleifi II. frá Vestmannaeyjum, þar sem skipverjar biðu hjá línunni um níu sjómílur suðvestur af Vestmannaeyjum, klukkan rúmlega sjö í gærmorgun. Einn háseta var á baujuvakt og vissi ekki annað tíðinda úr djúpunum en það, að þar mundi þorskurinn væntanlega vera byrjaður að gæða sér á beitunni á línunni, sem þeir höfðu verið að leggja. En viti menn.
Allt í einu rís svartur mökkur hljóðlaust upp úr hafinu, skammt frá bátnum og ber óhugnanlega við himin í grárri dagsskímunni. Þetta voru meiri stórmerki en búast mátti við á venjulegum fiskimiðum. Í fyrstu trúir hásetinn ekki sínum eigin augum, heldur starir á fyrirbærið, sem hnyklast þarna upp í loftið. Síðan gerir hann félögum sínum viðvart. Þeir koma allir upp á þilfar, og þeim dettur í hug, að kannski sé skip að brenna þarna hjá þeim. Skipstjórinn, Guðmar Tómasson lætur það verða sitt fyrsta verk að kalla í talstöðina og spyrja eftir því hjá Vestmannaeyjaradíó, hvort þeir þar hefðu orðið varir við kall frá skipi í nauðum. Hann fékk þau svör, að ekkert slíkt kall hefði borist og allt væri með kyrrum kjörum á hafinu í kringum hann. Á meðan Guðmar var að kalla á Vestmannaeyjar Lét hann þoka báti sínum nær mekkinum. Það birtir óðum yfir hafinu og nú fer að sjást betur hvers konar mökkur er þarna á ferðinni. Víst er um það, að frá þessum mekki kallar engin rödd í Vestmannaeyjaradíó. Þegar þeir voru komnir í hálfrar mílu fjarlægð frá svörtum mekkinum, sem steig með boðaföllum upp úr lognsævinu, sáu þeir, að hér var sjaldgæft náttúruundur á ferð, eldgos á hafsbotni, sem þeir höfðu orðið vitni að fyrstir manna og séð stíga úr hafinu. Þeim þótti eðlilega ekki fært að nálgast hamfarirnar meir og sneru því frá, og héldu aftur til baujunnar, sem var í mílu fjarlægð frá gosinu. Menn í suðlægari löndum hefðu áreiðanlega siglt beint til lands til að tilkynna tíðindin, jafnvel farið með hrópum, en skipverjum á Ísleifi fór eins og öðrum mönnum á þessu landi, sem hafa búið við eldfjöllin við túngarðinn, að þeir byrjuðu að draga línu sína með kraumandi sjóinn, skammt undan og vikur- og gufumökkinn yfir sér.
Og þeir héldu áfram að draga línu sína þarna í skugga eldgossins fram eftir degi, meðan jarðfræðingar og blaðamenn klufu himininn yfir þeim í flugvélum til að rannsaka þetta náttúrufyrirbæri. Og um hádegi í gær, þegar Tíminn náði tali af Guðmari Tómassyni, skipstjóra á Ísleifi, var ekki meiri asinn á þeim en það, að þeir voru enn að draga línu sína og voru komnir aðeins þrjár mílur frá eldgosinu. Hann sagði, að gosið hefði komið af fullum krafti þegar í byrjun og væri mökkurinn ýmist dökkur eða ljós. Þeir heyrðu engar dunur en hann sagði að nokkur ólga væri í sjónum nær eldstöðvunum og þar væri nokkur öldugangur. Sextíu til sjötíu faðmar væru í botn á gosstaðnum, en botninn á þessu svæði væri hraunhella. Hann sagði enn fremur, að ekki yrði séð á dýptarmæli bátsins, að botninn hefði breytt sér nokkuð frá því sem hann hefði verið, á því svæði sem hann hefði dregið línuna. Guðmar sagði að lokum, að hann byggist ekki við að koma að landi fyrr en þeir væru búnir að draga, eða um klukkan 5. Aðrir bátar en Ísleifur II. voru ekki á þessum slóðum og því engir aðrir sjónarvottar að upphafi eldgossins. Liggur við að segja megi að þeir hafi fengið gosið upp undir bátinn, en þeir hefðu þó alltént orðið að róa heim frá línunni, hefði hún verið lögð yfir sjálfan gíginn, hvað sem annars verður um æðruleysi þeirra sagt.
Blöðin voru auðvitað full af gosfréttum næstu daga og vikur - aðrir hafa gert grein fyrir þeirri sögu og látum við hana því að mestu afskiptalausa. Í sama tölublaði Tímans (15.nóvember) voru aðrar stórfréttir - en satt best að segja gerði ritstjórinn sér enga grein fyrir því þá hversu stór viðburður þessi var - og má telja að sama megi segja um fleiri:
HF-Reykjavík, 14. nóvember. Komið hefir í ljós, að Brúarjökull hefur á rétt rúmum mánuði skriðið fram um 3 kílómetra á geysistóru svði, eða beggja vegna Jökulsárinnar og allt vestur að Kringilsá. Gangnamenn af Héraði voru þarna fyrir viku að smala í síðustu göngur og urðu þá varir við þessi stórmerki. Síðast voru þeir þarna í lok september og var þá allt eins og það átti að sér. Því hafa þessar náttúruhamfarir átt sér stað á rúmum mánuði. Gangnamennirnir áttu þarna leitarkofa og hefur jökullinn staðnæmst rétt fyrir ofan hann. Ekki hafa menn orðið varir við gos, eða neitt þess háttar, en Jökulsá á Brú er full af leðju, og eykst vatnið ekki að sama skapi, svo ekki virðist vera flóðahætta. Ekki hafa menn heldur orðið varir við neina lykt.
Tíminn er með fleiri fregnir af framhlaupi Brúarjökuls 16.nóvember:
HF-Reykjavík, 15.nóvember. Tíminn skýrði frá því í dag, að á rúmlega einum mánuði hefði Brúarjökull, mikil jökulbunga, sem gengur út af Vatnajökli norðaustanverðum skriðið fram um 3 kílómetra. Það voru gangnamenn af Héraði, sem fyrst urðu varir við þetta hlaup, en gangnastjóri var Jörgen Sigurðsson, Víðivöllum í Fljótsdal, og hafði Tíminn tal af honum í dag. Hvenær var það Jörgen, sem þið urðuð fyrst varir við einhverjar breytingar á jöklinum? Ja, það var 18.19 september, sem við tókum eftir því að jökullinn var óvenju úfinn og höfðu myndast i honum ótal strýtur og gjár, en þá hafði hann ekkert skriðið fram. Svo var það núna 3. nóvember, að við fórum í síðustu leitir og þá sáum við að jökullinn hafði hlaupið fram. Ykkur hefur ekki orðið bilt við þessa sjón? Nei, það kom svipað fyrir, fyrir einum 67 árum. en þá kom skriða úr Brúarjökli og vestasta hluta Eyjabakkajökuls og náði hún yfir æðimikið svæði. Svo vita elstu menn hér til þess, að annað eins skeði árið 1890. Hvernig lítur landið þarna út, Jörgen? Það vex þar fljótlega kjarnmikill gróður og dökkgrænn, þegar jökullinn bráðnar og segja má, að Jökullinn sé sífellt að minnka en frjósamt gróðurlendi komi í staðinn.
Síðan höfðum við tal af Jóni Eyþórssyni veðurfræðingi, sem manna fróðastur er um jökla og hátterni þeirra, og sagði hann okkur, að það virtist sem sumir jöklar hefðu það fyrir sið að safnast svona saman í lengri tíma og hlaupa svo skyndilega. Hlaupið árið 1890 hefði náð um 10 kílómetra fram, en þetta hlaup sagði hann að mætti ætla að næði yfir 200 ferkílómetra. Ekki er vitað, hvort þessu hlaupi er lokið, en vísindamenn, eiga eftir að rannsaka það að öllu leyti. Einnig þarf að athuga, hvort fleiri jöklar eru að búa sig undir hlaup því að það virðist oft ske samtímis veðurbreytingum að jöklar hlaupi. Vatnamælingarmenn eru þarna staðsettir í Hjarðarhaga á Jökuldal, Grímsstöðum á Fjöllum og Hóli í Fljótsdal. og samkvæmt upplýsingum frá þeim sagði Sigurjón Rist okkur að árnar væru nú fullar af jökulkorg, og vatnið í þeim því líkast sementsvatni. Þarna er um að ræða Jökulsá á Brú og Jökulsá á Fjöllum, en Jökulsá í Fljótsdal tær og eðlileg, eða eins og hún á að sér í svona veðráttu. Eftir þessu að dæma virðist framhlaupið ná allt vestur að Jökulsá á Fjöllum, og svæðið ætti því að vera u.þ.b. 25 km breitt.
Vatnamælingamennirnir urðu fyrst varir við þennan annarlega lit á ánum hinn 20 ágúst, en það vakti ekki sérstaka athygli, þar sem jökulárnar eru dökkar að sumrinu.
Morgunblaðið segir einnig af á óróleika í jöklinum sunnanverðum í pistli 19.nóvember:
Einhver hreyfing er í Vatnajökli. Brúarjökull skríður fram að norðan á stóru svæði, eins og skýrt hefur verið frá. Er jöklarannsóknarmenn flugu yfir í eftirlitsferð í haust, sáu þeir miklar og óvenjulegar sprungur við Pálsfjall, sem er uppi á jöklinum ... Og í gær tilkynnti Hannes á Núpsstað Jóni Eyþórssyni, að Djúpá væri kolmórauð, en lítið eða ekkert flóð í henni, sem gæti bent til þess að jökullinn í Djúpárbotnum sé að ganga fram, í suðurátt. Ætli eitthvert samband sé milli eldsumbrotanna suður af landinu og þessarar hreyfingar í jöklinum, spyrja margir? Það þarf ekki að vera, segir Jón. Jöklar geta gengið fram alveg kaldir. Það eru líka svo margar samhliða sprungur í landinu, að maður má vara sig á að draga Jón sagðist mundu fljúga yfir þegar færi gæfist og skoða þetta allt. Fréttaritari blaðsins á Síðu símaði: Holti. Fyrir 34 dögum veittu menn í Fljótshverfi því eftirtekt að lítils háttar vöxtur var að koma í Djúpá, sem orðin var kornlítil í frostunum undanfarna daga. Þótti þetta ekki einleikið, þar sem kuldar héldust og hreinviðri og þar sem einkennilegra var, er að vatnið er mjög jökullitað. Fréttaritari blaðsins átti tal um þetta við Björn Stefánsson bónda og fyrrum póst á Kálfafelli og gaf hann honum fyrrgreindar upplýsingar. Djúpá kemur úr Vatnajökli austan við upptök Hverfisfljóts og rennur fram í Fljótshverfi eftir djúpu gili í heiðinni milli bæjanna Kálfafells og Rauðabergs Hún var löngum hinn versti farartálmi fyrir Fljótshverfinga áður en hún var brúuð fyrir nokkrum árum. Stundum munu hafa komið í hana smáhlaup og spillti hún þá engjum og beitilöndum á nærliggjandi jörðum. Nýlega hafa verið settir varnargarðar á aurana við Djúpá til að hefta landbrot af völdum þessa. Siggeir.
Jón Eyþórsson tjáði Morgunblaðinu að menn hafi orðið varir við ókyrrð í jöklinum í Djúpárbotnum á árunum 193040, en þá var oft farið þar um á jökulinn. Morgunblaðið átti tal við Hannes á Núpsstað í gær. Hann sagði að áin væri gruggug, sem væri óvenjulegt á þessum tíma árs. En hann teldi að það gæti stafað af því að hlaupið hefði úr lóni þar upp frá. Verið er að útbúa leiðangur frá Egilsstöðum á Brúarjökul, að því er Sigurjón Rist tjáði blaðinu. Mun Steinþór Eiríksson, vélvirki, sem'er áhugasamur jöklarannsóknarmaður, fara inn eftir á snjóbíl, sem Ingimar Þórðarson, langferðabílstjóri, stýrir, og taka þeir staðkunnugan mann með af efstu bæjum í Jökuldal. Hafa þeir á Egilsstöðum góðan flugbjörgunarútbúnað til slíkrar ferðar. Erindi þeirra að jöklinum er að setja niður mælistikur til að mæla skriðhraðann á jöklinum. Um gruggið úr Djúpárbotnum sagði Sigurjón, að þróunin að undanförnu hefði verið sú um leið og jökullinn styttist að hluti af jökulvatninu færi ýfir í Brunná, og afleiðingin er sú að nú er Brunná einnig gruggug af jökulframburði.
Kalt var í háloftunum og éljagarðar komu inn yfir landið - og síðan fór allmikil lægð til norðausturs fyrir suðaustan land. Þá var óvenjudimmt í norðaustanhríð í Borgarnesi - ekki algeng staða. Tíminn 21.nóvember:
HF-Reykjavík, 20. nóvember. Í dag hafði snjóað um allt land og var þetta fyrsti snjórinn hér í Reykjavík á þessum vetri. Ekki virðist fannkyngi þetta samt hafa valdið mikilli ófærð, því að ástandið á vegunum er svipað og í síðustu viku. Vestfirðir eru algjörlega tepptir og sömuleiðis allir fjallvegir Austanlands.
Daginn eftir var hert á ófærðarfréttum. Tíminn 22.nóvember:
FB-Reykjavík, 21. nóvember. Mikil ófærð er nú um allt land. Vegir norðan lands og vestan eru ófærir, og hér sunnan lands er einnig allt að verða ófært. Vegheflar voru sendir með bílum í Hvalfjörðinn í dag, og voru þeir komnir að Olíustöðinni um klukkan 5. Þrengslavegurinn er enn fær, en Hellisheiði er algerlega ófær. Snjóað hefur stanslaust norðanlands í allan dag, og vegir eru þar allir þungfærir, og yrðu þegar ófærir ef hvessti og færi að skafa. Ófært er í kringum Blönduós og á Holtavörðuheiði, og Brattabrekka er einnig ófær. Sama máli gegnir um alla vegi á Vestfjörðum, en þeir hafa verið ófærir í nokkra undanfarna daga. Í morgun var orðið ófært í Hvalfirði og voru vegheflar sendir með bílum, sem þurftu að fara þá leið. Um klukkan fimm voru þeir komnir í Olíustöðina, og var ætlunin að þeir fylgdu bílunum að minnsta kosti að Ferstiklu. Þrengslavegur er fær vörubílum, en Hellisheiði er algerlega ófær, og engum bílum fært að komast upp að Skíðaskála. Vegamálaskrifstofan hafði ekki heyrt um ófærð á leiðinni til Keflavíkur. Í gær var snjó rutt af flugvellinum á Akureyri, en þegar menn vöknuðu þar fyrir norðan í morgun, var kominn 45 sm jafnfallinn snjór yfir allan völlinn. Víða er orðið ófært innan bæjar á Akureyri, en þrælst er um á stórum trukkum út í sveitinni. Veðurstofan tjáði blaðinu, að norðanátt væri um land allt. Fyrir norðan og vestan snjóaði og vindur væri talsverður. Í Reykjavík voru 9 vindstig kl. 5 og 10 vindstig í Æðey, en þar var hvassast. Austanlands var hitinn rétt fyrir ofan frostmark, vestar á landinu var vægt frost og kaldast var í dag í Æðey, 3 stiga frost. Hlýjast var á Hólum í Hornafirði, 4 stigs hiti.
Svo kom enn ein óvænta fréttin. Kennedy forseti Bandaríkjanna var myrtur í Dallas föstudaginn 22.nóvember. Samstillti klukkur heimsbyggðarinnar. Svo vildi til að fáeinum dögum áður kom sjónvarp á heimili frænku minnar í næsta húsi - kanasjónvarpið. Í því mátti sjá nýlegar fréttamyndir af atburðinum. - Síðustu viku nóvember gengu tvær öflugar lægðir til norðausturs fyrir vestan land og ollu sunnanstormi með rigningu - en síðan vestanátt með éljum. Tíminn segir frá 28.nóvember:
FB-Reykjavík 27.nóvember. Ófærðin helst enn þá þótt farið sé að blotna. Þar sem ekið var ofan á snjó, eins og í Öxnadal og í Eyjafirði og þar í kring dettur allt niður, og umferð verður mjög erfið. Annars staðar er vatnselgurinn mikill og skriðuföll voru í nótt í Hvalfirði Skriður féllu á 34 stöðum í Hvalfirði í nótt að Sögn Vegamalaskrifstofunnar, en vegurinn var hreinsaður í dag, og orðinn vel fær þrátt fyrir nokkra hálku.
KJ-Reykjavík, 26. nóvember. Tíminn hafði i dag tal af Kristjáni Grant bílstjóra hjá Pétri og Valdimar á Akureyri. Hann var i 10 bíla flutningalestinni, sem lagði af stað héðan úr bænum um hádegi á föstudag [22.] og kom ekki til Akureyrar fyrr en um fjögur á sunnudag [24.]. Fyrsti áfangi ferðarinnar var í Hreðavatnsskála, á laugardaginn [23.] var svo farið til Varmahlíðar og seinasta spölinn til Akureyrar á sunnudaginn. Kristján ekur bíl, sem er sérlega hentugur til svona vetrarferða ... Hann er með tvöföldu húsi, og þar eru kojur fyrir tvo menn. Þegar þung er færð og bílarnir komast ekki áfram hjálparlaust og verða að híða lengi eftir aðstoð, er gott að hafa svona stór hús. Þar geta bílstjórarnir komið og rabbað saman eða þá þeir taka slag, því nóg er plássið í bílnum og funhiti þar inni. Kojurnar eru þægilegar og sagðist Kristján hafa með sér rúmföt svo honum væri ekkert að vanbúnaði þótt hann lenti í ófærð. Hann gæti lagt sig í bílnum og hefði þar að auki talstöð.
ES-Egilsstöðum, 27. nóvember. Í kvöld sló einkennilegum bjarma á vesturloftið yfir jöklunum, en heiðskírt hefur verið í allan dag. Töldu sumir, að bjarmi þessi væri frá eldstöðvum, en aðrir, að þetta væri aðeins venjulegur kvöldbarmi. Goslykt fannst hér einnig greinilega aftur í dag, og kemur mönnum ekki saman um, hvort hún geti átt rætur sínar að rekja til Vestmannaeyja eða einhvers annars staðar inni á Vatnajökli. Heiðskírt hefur verið í allan dag, en í kvöld sló einkennilegum bjarma á vesturloftið og albjört rönd var niður við jökla, þótti mönnum þetta nokkuð óvenjulegt. Ekkert hefur þó vaxið í ám, svo ótrúlegt er að eldsumbrot séu í Vatnajökli.
Tíminn segir 29.nóvember frá jakaburði í Ölfusá:
FB-Reykjavík, 28. nóvember. Mikill jakaburður hefur verið í Ölfusá í gær og í dag, og í fyrrinótt ruddu sig Hvítá og Stóra-Laxá og flæddi Hvítá yfir töluvert land á Brúnastaðanesi og tók þar með sér girðingar og gerði allmikinn usla. Kaldaðarnes og Kálfhagi eru umflotin og ófært upp á veginn hjá bæjunum. Í fyrrinótt ruddu Hvítá og Stóra-Laxá sig og flæddi mikið vatn við Brúnastaðanes á milli Brúnastaða og Austurkots. Þá brotnaði einnig klakastífla í Hvítá rétt fyrir neðan Auðsholt í Biskupstungum og mun þar í nánd hafa slitnað símalína í vatnsflóðinu. Þegar fólkið í Kaldaðarnesi vaknaði i morgun heyrði það árnið fyrir utan. Var íshrönglið sem skolast hafði niður eftir Ölfusá komið að Kaldaðarnesi, en þar er ísinn á ánni allt að einu feti á þykkt, og lét hann ekki undan þunganum heldur lyftist upp einn og hálfan metra, og er nú kominn upp á árbakkann við Kaldaðarnes á móts við Kirkjuferju. Þarna á bakkanum er gamall varnargarður frá því á stríðsárunum, og er ísinn kominn upp á garðinn. Kaldaðarnes og Kálfholt, sem er hjáeiga frá Kaldaðarnesi eru umflotin og komast menn ekki þaðan í land. því vatnið í kring er mittisdjúpt. að sögn Eyþórs í Kaldaðarnesi. Í dag hefur það þó lækkað um allt að einu feti Mjólkurbíllinn varð að snúa frá í morgun, þar eð bílsstjórinn taldi ekki fært að komast yfir vatnselginn. Þar sem sér yfir íshrönglið virðist vera um 100 metra á breidd, en þar sem flóðið í ánni er breiðast, fyrir neðan Kaldaðarnes á engjunum þar, er það 56 km breitt. Engjarnar eru rennisléttar og liggja lágt. Ekki kvað Eyþór neina hættu á ferðum, því bæði Kaldaðarnes og Kálfholt stæðu nokkuð hátt, og aldrei hefði bæina flætt.
Tíminn segir 30.nóvember frá síðari lægðinni sem minnst var á:
HF-Reykjavík, 29. nóvember. Síðasta sólarhringinn hefur mikið hvassviðri með skúrum gengið yfir allt land. Um hádegisbilið í dag mældust 10 vindstig hér í Reykjavík og 12 mm regn, en í nótt var regnið 20 mm. Mesta úrkoman mældist þó í Stykkishólmi, 29 mm. Ár víðast hvar á landinu hafa vaxið mikið, vegna hinnar gífurlegu úrkomu, og hafa vegir sums staðar spillst. Í Dalasýslu er Hörðudalsá ófær vegna vatnavaxta, og hafa því mjólkurflutningar úr Dalasýslu út á Skógarströnd lagst niður í dag. Ekki er um neina aðra stórtrafala að ræða vegna þessa óveðurs, en í Borgarfirði t.d. flæddu ár á mörgum stöðum yfir vegi, og er verið að bæta úr því. Aðfaranótt þriðjudagsins gerði einnig mjög vont veður með úrkomu og hljóp svo í læk einn í grennd við nýja Þingvallaveginn, að hann hefur verið ófær síðan, en nú er að ljúka viðgerð á honum. Um leið og þetta gerðist, hlupu ár á Mýrdalssandi. Hjá Klifandabrúnni, hafði flætt yfir veginn, en lokið er viðgerð þar. Vegurinn, sem liggur frá Kirkjubæjarklaustri út á Síðu, skemmdist einnig á aðfaranótt þriðjudags, en áætlað var að laga það í dag. Veðurútlitið næsta sólarhringinn er frekar slæmt. Búist er við suðvestan átt og köldu skúraveðri og éljagangi.
KJ-Reykjavik, 29. nóvember. Í óveðrinu í nótt sleit mb Flóaklett frá bryggju í Hafnarfirði. Báturinn losnaði að aftan og rak afturendann upp í fjöru við bryggjuna. Engar skemmdir urðu á bátnum svo vitað sé, en hann náðist út á flóðinu um hádegi í dag.
Tíminn segir 1.desember enn af Ölfusá - og vatnavöxtum víðar:
KH-Reykjavík, 30. nóvember. Enn er mikill vöxtur í Ölfusá, þó að veðrið hafi nú gengið niður, og er svo til allt láglendið frá Hellisheiði að Kaldaðarnesi, austan Ölfusár, undir vatni, ... Austurvegur er fær, en ófært er til nokkurra bæja nær sjónum. Í óveðrinu eyðilögðust víða girðingar, símastaurar brotnuðu og símalínur slitnuðu, og var enn þá símasambandslaust við Biskupstungur, nema um bráðabirgðalínu um hádegi í dag. Í fyrradag brutust fjórir menn á íshröngli út í Tungueyju í Hvítá og björguðu þaðan 50100 hrossum, sem nærri lá, að flæddi þar. Í Tungueyju í Hvítá, sem er allstór eyja, er oft geymdur hópur hrossa. Voru þar um 50100 hross í vikunni, þegar vöxtur hljóp í ána. Vegna bágborins símasambands náði blaðið ekki tali af neinum þeirra, sem björguðu hrossunum, en sjónarvottur frá einum bæjanna austan Hvítár, sagði, að þaðan hefðu hrossin sést híma á rindum hingað og þangað um eyna, og sum sýndust standa í vatni. Ekki var viðlit að koma við báti út í eyna fyrir íshröngli, en fjórir karlmenn brutust út í eyna á hrönglinu og teymdu hrossin öll heil á húfi til Lands. Er það talið. mikið þrekvirki, því að talið var, að ekki mundi nokkur lifandi maður komast út í eyna. Í gærkveldi var vatnsborð í Stóru-Laxá tekið að lækka, og upp úr miðnætti var vatnið tekið að fjara af veginum út af Syðra-Langholti og Birtingaholti. Seinni part nætur fóru þrír vegheflar að ryðja klakahrönnum af veginum, og var hann orðinn fær flestum bílum í morgun. Hins vegar var Auðsholtsvegur fyrir vestan Syðra-Langholt ófær enn í morgun, og Auðsholtsbæirnir enn umflotnir. Jarðýta byrjaði í morgun að ryðja klakahröngli af veginum í Auðsholtsmýri, og standa vonir til. að hann verði fær síðdegis í dag.
Arnarbælishverfi í Ölfusi er umflotið vatni og ófært var til fleiri bæja þar á láglendinu Kaldaðarnes er ekki alveg umflotið lengur, og sagði bóndinn þar, að íshrönglið væri að ná sér fram í ósa En á að líta væri láglendið frá Hellisheiði að Kaldaðarnesi eins og einn sjór. Vatnið í Hvítá og Norðurá í Borgarfirði hefur nú sjatnað, en ófært var í gær hjá Hvítárvöllum og Ferjukoti. Vegurinn er orðinn fær og virðist ekki skemmdur að ráði. Smá skemmdir urðu á Stykkishólmsvegi, en hann er bílfær. Ekki virðast neins staðar hafa orðið stórvægilegar vegaskemmdir í veðurham þessum, samkvæmt upplýsingum vegagerðarinnar.
Hálkan sem minnst er á í frétt Tímans er reyndar nokkuð minnisstæð - afleiðing frostrigningar - varla stætt á götum í Borgarnesi. Einnig segir af hörmulegu sjóslysi. Tíminn 3.desember:
KJ-Reykjavík, 2. desember. Mörg umferðaróhöpp urðu af völdum hálkunnar á sunnudaginn [1. desember] og í dag. Eru bókaðir samtals 24 árekstrar, ákeyrslur og útafkeyrslur hjá lögreglunni í Reykjavík.
FB-Reykjavík, 2. desember. Nú er talið fullvíst, að Hólmar, GK 546 frá Sandgerði hafi farist þar sem hann var staddur austur af Alviðruhömrum, en ekkert hefur heyrst frá bátnum frá því kl.9:20 á föstudagsmorgun [29.]. ... Aðfaranótt föstudagsins var veður vont á þeim slóðum, sem bátarnir voru á, 810 vindstig og er talið líklegt, að báturinn hafi fengið á sig brotsjó.
Morgunblaðið fjallar 4.desember um fannirnar í Esju:
Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, heldur uppi athugunum á fönnunum í Esju, sem kunnugt er. Í nýjasta hefti Veðrinu skýrir hann frá fönnunum í Esjunni í sumar. Þar segir: Fönnin í Kerhólakambi hvarf 15. ágúst. Þann 11. sáust enn þrír litlir dílar i skarðinu. 12. september var suðaustanátt, mikil rigning og hlýindi, en upp úr því gránaði í brúnum fjallsins. Sennilega hafa því 2-3 smádílar lifað af sumarið í Gunnlaugsskarði.
Tíminn skýrir dyn á Austurlandi í pistli 5.desember:
FB-Reykjavík, 4. desember. Blaðinu hefur borist ný skýring á hinum mikla dyn, sem heyrðist á Austurlandi um miðjan október og var talinn koma frá þrýstiloftsflugvél, sem flaug þar yfir og fór í gegnum hljóðmúrinn. Metúsalem Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal segist hafa heyrt sams konar dyn árið 1890, þegar Brúarjökull hljóp, og telur hann brestinn, sem heyrðist í október, hafa stafað frá jöklinum.
Um miðjan október s.l. skýrði blaðið frá því, að mikill hávaði, einna líkastur sprengingu, hefði heyrst á Austurlandi. Heyrðist hávaði þessi á Djúpavogi, um alla dali austan Vatnajökuls og allt til Grímsstaða á Fjöllum. Í þann mund er hávaðinn heyrðist, flaug þrýstiloftsflugvél yfir, og sáu menn rákir eftir hana á loftinu, og var talið, að vélin hefði farið í gegnum hljóðmúrinn, og við það hefði bresturinn orðið. Einn maður, Metúsalem Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum, hefur þó aðra skýringu. Hann sagði, þegar bresturinn buldi við: Nú er jökullinn að hlaupa, svona brestur kom 1890, þegar hlaupið byrjaði, en þá hljóp jökullinn síðast. Um mánaðamótin október-nóvember fóru Fljótsdælingar í göngur inn á Vesturöræfi, sáu þeir þá, að jökullinn var hlaupinn, og hafði hann skriðið fram um marga kílómetra að þeir töldu, en þeir höfðu ekki farið þarna um í einn mánuð. Sögðu gangnamenn, að svokallaðar Hreinatungur væru að mestu komnar undir jökul, en annars höfðu þeir ekki aðstöðu til þess að rannsaka þetta, og engin vitneskja er um það, hve hlaupið nær vítt um vestan Jökulsár á Dal, því að þar var síðast gengið áður en hlaupið hófst, sagði Aðalsteinn Jónsson á Vaðbrekku, í bréfi til blaðsins.
Í dag hringdum við í Metúsalem og spurðum hann um hlaupið og brestinn 1890. Ég var 8 ára, þegar það var, sagði hann, og tók svo undir í Bersastaðagilinu, að ég fór að hátta, svo hræddur var ég. Hávaðinn var miklu meiri þá en nú. Við spurðum Jón Eyþórsson veðurfræðing um þetta fyrirbrigði. Ekki sagðist hann geta sagt neitt um þetta, nokkur hávaði fylgdi jökulhlaupi, en honum fannst ótrúlegt, að hann hefði heyrst á jafn stóru svæði og menn heyrðu hávaðann í október.
Morgunblaðið birtir mánaðargamlan fréttapistil 8.desember, hann var skrifaður í verkfallinu, Ærlækur er í Öxarfirði:
Ærlæk, 3.nóvember. Vorið var kalt og slæm tíð fram eftir sauðburði, en í lok maí batnaði og greri, en þó fremur hægt. Eftir það var góð sauðburðartíð, enda engin teljandi voráfelli. Fjárhöld urðu víðast hvar góð og heyleysi gerði lítið vart við sig. Tún spruttu í seinna lagi, svo sláttur hófst ekki almennt fyrr en upp úr mánaðamót um júní og júlí. Heyskapartíð mátti heita hagstæð af því þurrkarnir komu í köflum og marga daga í einu, svo sjaldan þurfti að taka upp hálf þurrt, til að dreifa aftur. Nýting heyja varð yfirleitt góð, en heyfengur nokkuð misjafn hjá bændum og mun þurfa að hafa alla gát á með ásetninginn í haust. Uppskera garðávaxta var mjög misjöfn og hjá flestum nær engin, vegna kulda og tíðra næturfrosta. Ber spruttu seint, en á endanum varð berjaspretta í meðallagi.
Þann 8.september gerði hríðaráfelli. Hlóð þá niður bleytusnjó til heiða. Fé fennti á sumum heiðum, einkum Búrfellsheiði og Urðum. Nokkrar kindur fundust í fyrstu göngum í haust sem drepist höfðu í fönn. Hins vegar fannst mjög fátt sem farið hafði afvelta. Svo tjón var ekki tilfinnanlegt og fjárheimtur í haust engu lakari en venjulega. Dilkar reyndust í haust með allra lakasta móti til frálags.
Fyrstu þrjár vikur desembermánaðar voru sérlega hagstæðar. Mikið háþrýstisvæði var lengst af í námunda við landið, ekki ósvipað og var í upphafi árs, en var þó ekki alveg jafnöflugt og þá. Kortið hér að ofan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í desember og vik hennar frá meðallagi. Meðal fólks var mikið rætt um prestskosningar í Reykjavík - og morðið á Kennedy. Blöðin komu ekki út vegna verkfalls 11. til 20.desember - enn og aftur. En tíðindi voru fá af veðri - nema þá óvenjulegri blíðu.
Tíminn segir af færð og veðri 23.desember - og spáin um jólaveðrið var góð:
FB-Reykjavík, 22.desember. Ágætis færð er nú um mestallt landið, og ekki ætti hún að versna um jólin, þar eð spáð er sunnanátt og áframhaldandi hláku næstu daga og rigningu. Hlýjast var á norðanverðum Austfjörðum í dag 8 stiga hiti, og hvergi var kaldara en 4 stiga hiti. Í dag var sunnanátt og hláka um allt land, að sögn veðurfræðinga og tekur snjó upp sem óðast. Sunnanlands rigndi mikið í nótt og fékk Skaftafellssýslan sinn skammt af rigningunni, eða hvorki meira né minna en 42 mm á Fagurhólsmýri. Búist er við að heldur kaldara verði hér á morgun, og eitthvað verði um krap í éljunum. Færð hefur verið ágæt vestanlands og norðan síðustu daga. Fært er allt vestur í Reykhólasveit, en þaðan eru vegir lokaðir. Þá er fært austur á Hólsfjöll, en lokuð leiðin til Austfjarða, en aftur er góð færð frá Egilsstöðum um alla Austfirðina. Sunnanlands verða vegir góðir, eftir að þeir hafa verið heflaðir, spillist veður ekki fyrir hátíðina, sem ekki er útlit fyrir, svo öll ferðalög eiga að geta orðið mönnum auðveld.
En þetta varð ekki alveg svona einfalt. Að vísu hélst veður tíðindalítið syðra - meira varð þó úr kulda og snjó heldur en spáð hafði verið. Mjög kalt loft kom að landinu - ekki mjög ósvipað og gerst hafði um 20.nóvember. Á annan dag jóla var komin mikil fönn nyrðra - einkum þó í útsveitum - og enn einn óvæntur atburður bankaði upp á. Snjóflóð féllu á mjög óvenjulegum stað á Siglufirði.
Veðurkortið sýnir stöðuna að morgni annars jóladags. Allmikið frost er á landinu og hríðarveður um allt norðanvert landið og allhvasst víða á Austurlandi. Hríð á Kirkjubæjarklaustri. Hvasst var á Stórhöfða, en lygnt og nánast heiðríkt inn til landsins á Suður- og Vesturlandi. Að sumu leyti einkennilegt veður.
Fleygur af mjög köldu lofti var yfir landinu - í kjölfar lægðar sem fór til norðausturs nærri landinu daginn áður. En þetta stóð ekki lengi.
Tíminn segir 28.desember frá snjóflóðunum á Siglufirði. Einnig segir af nokkuð einkennilegu jólaveðri - góðu - en samt ekki:
BJ-Siglufirði, 27. desember. Í fyrsta sinn í manna minnum féll snjóskriða úr Strákafjalli norðan Hvanneyrarskálar í gærmorgun um 10-leytið. Skriðan féll á íbúðarhúsið Hvanneyrarhlíð, sem gjöreyðilagðist, en hús þetta er mannlaust nema yfir síldarvertíðina. Síðan fór skriðan á tvö íbúðarhús önnur við Fossveg, og urðu á þeim nokkrar skemmdir. Á aðfangadag og jóladag fennti óskaplega á Siglufirði, og muna menn ekki eftir því, að annan eins snjó hafi sett niður á jafn skömmum tíma.
Um kl.10 á annan dag jóla hljóp síðan skriða úr Strákafjalli rétt norðan við Hvanneyrarskál. Fyrst varð fyrir skriðunni lítill steinsteyptur skúr, sem stóð þar skammt frá Hvanneyrarhlíð. Tók skriðan hann með sér og færði upp á húsið, sem fór í kaf. Húsið færðist sjálft til um 67 metra á grunninum. Hvanneyrarhlíð er timburhús, ein hæð og ris. Það er í eigu síldarleitarinnar og mannlaust nema rétt yfir síldarvertíðina. Hins vegar voru ýmis konar tæki í húsinu og húsgögn Húsgögnin munu öll hafa eyðilagst, en mönnum tókst að grafa upp úr snjónum talstöðvar og nokkur önnur tæki sem þarna voru. Eftir að skriðan hafði lent á Hvanneyrarhlíð hélt hún áfram, og næst urðu fyrir henni tvö hús við Fossveg. Þetta eru húsin nr. 8 og 10, og búa í þeim tvær fjölskyldur. Bæði húsin eru nýbyggð steinhús. Húsið nr. 8 varð fyrir allmiklum skemmdum. Þar fór snjórinn inn í forstofu og alla leið inn í eldhúsið, og var snjólagið inni í húsinu allt að einum metra á dýpt. Rúður brotnuðu, hurðir hrukku upp og karmar skemmdust, og sömuleiðis skemmdust flísar á gólfum vegna glerbrota og vatns. Eigandi Fossvegs 8 er Gunnlaugur Karlsson, en Hólmsteinn Þórarinsson er eigandi Fossvegs 10. Það hús slapp heldur betur, en samt fór snjór inn í forstofu þess.
FB-Reykjavík 27. desember. Veðrið var ljómandi gott um allt land á jólunum, og víða voru hvít jól, þótt veðurfræðingar hefðu spáð hláku og jafnvel rigningu. Rigningin, sem spáð var, kom hins vegar í nótt, en stytt hafði upp, þegar dagur var að kvöldi kominn. Á Egilsstöðum var ágætis veður á aðfangadag og jóladag, en hvessti og var komið rok aðfaranótt annars í jólum. Norðan Lagarfljóts var veðrið svo slæmt, að fólk treystist ekki milli bæja. Austanlands var yfirleitt litill snjór nema niður á fjörðum, þar snjóaði mikið og Fjarðarheiði er lokuð. Hvít jól voru austan fjalls að þessu sinni. Þar snjóaði dálítið, en færð spilltist ekki að ráði. Í gær var afbragðs jólaveður og kirkjusókn því góð. Á Ísafirði voru einnig hvít jól en þar fennti á aðfangadag og jóladag, en þó var greið ferð um allan bæinn. Á Akureyri var gott veður, og hvítur og hreinn snjór lá yfir öllu á aðfangadag.
BJ-Siglufirði, 27. desember. Um fjögurleytið í dag urðu tvær smátelpur undir snjófyllu, sem féll ofan af Bíóhúsinu við Aðalgötu á Siglufirði. Svo vel vildi til, að menn voru þarna nærstaddir, og tókst þeim að ná telpunum undan snjónum eftir skamma stund. Telpurnar, sem eru 4 og 6 ára gamlar höfðu verið á gangi með fram bíóhúsinu, þegar snjóhengja féll allt í einu ofan af því. Skipti það engum togum, að telpurnar grófust undir snjóinn. Þarna skammt frá voru nokkrir menn á gangi, og sáu þeir þegar þetta gerðist. Tóku mennirnir strax að grafa í snjóinn og fundu eldri telpuna, en sú yngri fannst skömmu síðar, en yfir henni var meters þykkt snjólag. Hefði slys getað af þessu hlotist, ef enginn hefði verið nálægt, þegar snjórinn féll niður. Telpunum varð ekki meint af og hlupu þær þegar heim á leið, er þeim hafði verið bjargað úr snjónum.
KJ-Reykjavík, 27. desember. Mikill vatnselgur og hálka var sums staðar á götum Reykjavíkurborgar í morgun.
Morgunblaðið segir af snjóflóðunum í fréttapistlum þann 28.desember:
Siglufirði 27.desember. Að morgni annars jóladags féll snjóflóð úr fjallinu Strákar rétt norðan Hvanneyrarár. Fyrir skriðunni varð fyrst húsið Hvanneyrarhlíð, sem stendur nokkru ofan við aðra byggð hér. Reif snjóflóðið þetta hús af grunni og færði það 57 m. og er-það gjörónýtt. Enginn var í húsinu. Næst skall flóðið á tveimur íbúðarhúsum, nr. 8 og nr. 10 við Fossveg. Brotnuðu útihurðir og snjórinn flæddi inn í eldhús og anddyri en ekki lengra. Í háðum húsunum voru fjölskyldur uppi á lofti og sakaði þær ekki, og er það mesta mildi. Í öðru húsinu sváfu börn innan við glugga sem snjórinn náði upp á.
Seinni hluta dagsins kom annað snjóflóð niður á ströndina um 1/2 km frá hinum staðnum, en þar eru tvö fjárhús, þar sem menn héðan hafa fé sitt. Voru þeir að sinna fénu, en snjóskriðan fór milli húsanna og niður í sjó og sakaði engan.
Snjóflóðið úr Strákum mun hafa komið úr klettabelti utan við Hvanneyrarskál og farið niður snarbratta hlíð, 400500 m vegalengd og verið um 200300 m breitt. Skall það beint á húsinu Hvanneyrarhlíð, sem er gamalt timburhús, járnvarið og mannlaust, sem betur fer. Í þessu húsi bjó áður Karl Dúason, en undanfarin ár hefur síldarleitin verið þar til húsa. Snjórinn braust inn um alla glugga á vesturhlið hússins og fyllti það gjörsamlega af snjó og gluggahlerar á öðrum hliðum þess bunguðu út vegna snjóþyngslanna innan frá. Reif flóðið húsið af grunni og færði það 57 m. Húsið sjálft er skekkt og brotið og mun vera gjörónýtt. Tókst að bjarga ýmsum tækjum Síldarleitarinnar úr húsinu. Snjórinn fyllti eldhúsið.
Þá hélt flóðið áfram og skall á tveimur nýjum íbúðarhúsum úr steini, sem standa norðan árinnar (sjúkrahúsið og prestsetrið eru sunnan árinnar). Í þeim búa loftskeytamenn með fjölskyldur sínar. Í húsinu nr.8 býr Guðlaugur Karlsson með konu sinni Magðalenu Halldórsdóttur og tveimur börnum sínum. En í hinu Hólmsteinn Þórarinsson með konu sinni Ólínu Olsen og 4 börnum. Voru þau öll heima er flóðið kom. Fréttamaður blaðsins talaði við Magðalenu Halldórsdóttur, sem skýrði honum frá því sem gerðist. Magðalena sagði að flóðið hafði skollið á húsinu um kl.9:30. Fólk hennar var ekki komið á fætur og vissi ekki fyrr en flóðið skall á húsinu með háum dynk. Snjórinn braut forstofuhurðina og fyllti forstofuna af snjó. Ennfremur braut það eldhúsglugga á vesturhlið hússins og eldhúsið hálffylltist og fór snjórinn áfram fram í stórt anddyri. Svo vel vildi til að enginn var í eldhúsinu, annars er auðséð að illa hefði farið. Fólkinu brá heldur en ekki í brún, en gerði sér þegar ljóst hvað um var að vera. Magðalena sagðist hafa verið svo heppin að hafa tekið símann með sér upp í svefnherbergið og hafði hann á náttborðinu. Hún setti sig strax í samband við lögreglu og nágranna og brá fólk skjótt við til hjálpar. Miklar skemmdir urðu á húsinu vegna þess að rúðubrot fóru um allt og málning skemmdist á veggjum. Í eldhúsinu færðist ísskápur úr stað, svo mikill var krafturinn á snjónum. Sagði Magðalena að þetta hefði verið óskemmtilegur jólagestur. En allir voru rólegir.
Í hinu húsinu nr. 10 kom flóðið með svipuðum hætti. Hjónin voru komin á fætur, en börnin sváfu undir glugga sem sneri að flóðáttinni. Braut hann upp hurð sem var um 2 m frá glugganum, en krafturinn í snjónum, sem náði upp á miðjan gluggann uppi var ekki það mikill að glugginn brotnaði. Hefði snjóflóðið lent inni í barnaherberginu, hefði hann farið yfir rúm barnanna. Þau vöknuðu ekki. Flóðið fór þarna inn um aðalinnganginn og þaðan fram í skálann. Þó snjór væri í skálanum, þá komust hjónin að símanum, með því að rétta höndina um dyr í stofuna og gerðu aðvart. Vann hjálparlið að því að hreinsa út snjóinn og setja rúður í glugga. Húsin eru nýbyggð og sterk og er fólkið þar um kyrrt.
Síðdegis sama dag féll annað snjóflóð skammt frá. Á ströndinni eru tveir fjárkofar, þar sem menn úr bænum hafa fé, en engin byggð er þar. Þetta er um 1/2 km fjarlægð frá fyrri staðnum. Mennirnir voru búnir að sjá þarna ískyggilegar hengjur og í ljósaskipunum þegar þeir voru að gefa fénu, höfðu þeir einn mann á vakt úti. 34 menn voru að gefa kindum í öðru húsinu, en í hinu húsinu var einn maður. Allt í einu heyrir vaktmaðurinn ískyggilegan hvin og varð þess áskynja að snjóflóð var á leiðinni og. gerði mönnunum aðvart. Um það bil brast á mikill skafrenningur og áður en varði var komin gífurleg snjóskriða milli þessara húsa og féll hún út í sjó. Var hvinurinn og fjúkið svo mikið að þeir gátu ekki gert sér grein fyrir því fyrr en eftir á að flóðið var að fara milli húsanna. Engan mann sakaði, en flóðið tók kartöflugeymslur bæjarins, sem eru þarna skammt fyrir ofan. Ekki er vitað að fallið hafi snjóflóð á þessum stað fyrr. Þó hafa komið snjóflóð á Siglufirði og valdið miklu tjóni, svo sem sagt er frá á öðrum stað í blaðinu.
Stykkishólmi, 27. desember. Á aðfangadag var hér stormur og snjóhraglandi og hélst það veður einnig á jóladag, en á annan jóladag var frost og gott veður. Samgöngur voru sæmilegar. Nú er hér komið mikið hvassviðri. Fréttaritari.
Ísafirði, 27. desember. Talsverð snjókoma var um hátíðarnar við Ísafjarðardjúp og hefur sett niður nokkurn snjó, en þó varla til baga, enn sem komið er. Bylur og dimmviðri var fram eftir degi í dag. HT.
Sauðárkróki, 27. desember. Hér byrjaði að snjóa á jólanóttina, og snjóaði alla nóttina og talsvert á jóladag. Snjór er meiri að vestanverðunni í Skagafirði, en færð hefur ekki teppst til muna. Jón
Siglufirði, 27. desember. Á aðfangadag gerði allmikla úrkomu og hélt áfram á jóladag. Má segja að sjaldan hafi kyngt hér niður svo miklum snjó á svo skömmum tíma. Snjóskriða féll úr Strákum á 3 hús, og er sagt frá því annars staðar. Snjókoma var það mikil að öll eðlileg bifreiðaumferð torveldaðist algerlega. Í morgun var strax hafist handa um að ryðja götur og verður haldið áfram í dag. Þetta hafði þó ekki áhrif á venjulegt jólahald. Við erum vön snjónum hér fyrir norðan og komumst milli húsa. Stefán.
Húsavík, 27. desember. Ágætt veður var á aðfangadag, en hvítt yfir, en á jóladaginn skipti um og gerði blindhríð, svo að setti mikla skafla í bænum og varð allt ófært um bæinn þangað til í gær að ýtt var af aðalgötunni vegna mjólkurflutninga úr sveitinni. En minna hefur snjóað framundan á götum. Og er nokkuð greiðfært nema í Aðaldalshrauni, þar sem voru töluverðir skaflar, en lausir fyrir og kom mjólk úr flestum sveitum. Ennþá er þó ófært á Tjörnesið. Fréttaritari.
Morgunblaðið segir 29.desember frá þrumuveðri:
Þrumur og eldingar gengu yfir Reykjavík í gærdag og um sunnan- og vestanvert landið, en það er óalgengt í suð-vestan éljagangi. Ekki hefur fyrr í vetur orðið vart eldinga í Reykjavík. Um kl. 9 í gærmorgun sást eldingarglampi í Reykjavík og urðu þeir fleiri er á daginn leið. Einnig varð vart við eldingar í Keflavík og telur Veðurstofan að svo hafi verið víðar um sunnan- og vestanvert landið.
Tíminn birtir 29.desember bráðabirgðaslysayfirlit ársins:
FB-Reykjavík 28. desember. Dauðaslysum hefur fjölgað um nær því helming frá því í fyrra. Þá fórust 57, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu en í ár hafa 104 látið lífið í ýmiskonar slysum bæði á sjó og landi. Á tímabilinu 1. janúar til 24. desember í ár hefur 51 maður farist í sjóslysum eða drukknað í ám og vötnum og er það 16 fleiri en í fyrra en þá drukknuðu 35. Átján manns hafa beðið bana í umferðarslysum í ár og er það fleiri en á sama tíma í fyrra. Árið 1962 fórst aðeins einn maður í flugslysi en nú samtals 14.
Tíminn segir 31.desember frá nýjum umbrotum nærri Surtsey - menn töluðu síðan um Syrtlu:
FB-IGÞ-Reykjavík, 30. desember. Í birtingu á sunnudagsmorgun [29.] urðu menn í Vestmannaeyjum varir við ókyrrð í hafinu milli Surtseyjar og Heimaeyjar. Nýja gossvæðið er um tveim og hálfum km nær Heimaey heldur en Surtsey. Stóðu um hundrað metra háir strókar upp úr hafinu öðru hverju fram eftir sunnudagsmorgni, en í dag var gosið minna á þessum nýja stað, enda þá komið kröftugt gos í Surtsey, og talið samband þar á milli, þótt nú þyki sýnt að nýja gosið kemur úr annarri sprungu, sem liggur samsíða Surtseyjarsprungunni. Báðar þessar sprungur stefna að því er virðist á Vestmannaeyjar. Þá hafa menn í Eyjum sterkar grunsemdir um, að hafsbotninn hafi risið á svæðinu milli Brands og Álfseyjar. Hafa risið upp boðar á þessu svæði, sem benda til grynninga. Aðrir vilja meina að boðarnir séu flóðbylgjur frá nýja gosinu. Ekki hefur dýpi verið mælt milli Brands og Álfseyjar. Ef einhver hræring er á hafsbotninum þarna, þá er sæsímastrengurinn til Skotlands í hættu, því að hann liggur einmitt á milli þessara eyja.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar á árinu 1963. Þakka blöðum og blaðamönnum auðvitað fyrir þeirra elju þetta merka og minnisstæða ár. Að vanda eru fjölmargar tölur og ýmsar fágætar upplýsingar í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2024 | 21:38
Óvenjuleg hlýindi yfir Vestur-Grænlandi
Í dag (og síðustu daga) hefur verið óvenjuhlýtt yfir vestanverðu Grænlandi. Þar sem vindur hefur verið hægur hefur þeirra ekki gætt að fullu í byggðum. Hiti fór þó í tæp 19 stig í Narsarsuaq í gær og að sögn var eindæmum hlýtt þar í fyrrinótt - þegar austanáttin var ákveðnari (en ritstjórinn hefur hlýindatölfræðina ekki á hreinu).
Kortaklippurnar hér að ofan sýna stöðuna í dag kl.15 (að mati uwg/ig-líkansins). Kortið til hægri sýnir hita í 850 hPa og hina ótrúlegu tölu, 15,4 stig yfir Diskóflóa. Hitamet 850 hPa-flatarins í september yfir Keflavík er 12,6 stig. Að vísu má trúlega finna 15 stig yfir Austurlandi í september - einhvern tíma í fortíðinni - en þar kemur fjallastutt niðurstreymi við sögu - sem er í fljótu bragði ekki að sjá við Grænland að þessu sinni. Eitthvað er það á stærri kvarða sem veldur. Yfir Íslandi er alls ekki kalt, hiti yfir Vesturlandi ofan frostmarks í 850 hPa, í um 1500 metra hæð yfir sjávarmáli.
Hlýindin eru nokkuð sammiðja mikilli hæð við Vestur-Grænland, um 5810 m í miðju - í 500 hPa. Það er svipað og við mest vitum um á þessum árstíma hér við land (sjónarmun lægra). Þykktin er um 5620 metrar í hlýindunum - svipað og við þekkjum hæst hér við land á þessum tíma árs.
Hæðin á að gefa sig næstu daga - hörfar undan kaldara lofti að norðan - sem einnig á að ná til okkar.
21.9.2024 | 21:05
Fyrstu 20 dagar septembermánaðar 2024
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2024 | 16:56
Af páskahretinu 1963
Illræmdasta páskahret í minni núlifandi manna skall á um og eftir miðjan dag þriðjudaginn 9. apríl 1963, með hörkufrosti og stormi eftir óvenju milda tíð. Það var í dymbilviku. Alls fórust 18 menn á sjó og fádæma skemmdir urðu á gróðri, einkum um landið sunnanvert. Fimm menn fórust af tveimur bátum frá Dalvík, 2 menn af báti frá Þórshöfn, 2 af báti frá Siglufirði. Allir þessir bátar voru norðan við land, skip fórst einnig við Reykjanes, þar fórust fimm en sex björguðust naumlega. Tvo menn tók út af þýskum togara. Fjárskaðar urðu vestan lands og norðan. Bátur sökk í Vopnafjarðarhöfn, mikið brim var á þeim slóðum. Rúður brotnuðu í húsum á Hvallátrum, þak tók af fjárhúsum í Breiðavík og hús í Hænuvík löskuðust nokkuð. Miklir skaðar urðu á sunnanverðu Snæfellsnesi, þök tók af útihúsum á Bláfeldi, Lýsuhóli, Kálfavöllum, Hraunsmúla, Hofgörðum og Hólakoti og af íbúðarhúsi á Hóli. Bíll fauk út af veginum við Bláfeld. Steinsteypt sæluhús fauk í Hafursey á Mýrdalssandi. Á páskadaginn tók þak af hálfum fjárhúsum á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi.
Við rekjum nánar blaðafregnir síðar í pistlinum, en fyrst er mikil (og alldjúp) langloka um veðrið sjálft. [Auðvelt er við lesturinn að sleppa þeirri umfjöllun alveg]. Aftan við blaðafregnirnar er litið á veðurspár sem voru gefnar út áður en veðrið skall á og þegar það var að skella á. Að lokum verður minnt á skyldleika veðursins við páskahretið mikla 1917.
Eins og nánar er fjallað um í pistli hungurdiska um veður og veðurfar ársins 1963 var veturinn mjög óvenjulegur. Í janúar réð mikið háþrýstisvæði lengst af ríkjum, vindur var hægur lengst af, en stundum kalt. Í febrúar og mars ríktu austlægar áttir og nánast stöðugt góðviðri var í mars, gróður fór að taka við sér. Í Evrópu var aftur á móti óvenjuleg harðindatíð. Umskiptin sem urðu með hretinu voru því sérlega harkaleg.
Ritstjóri hungurdiska minnist umskiptanna vel. Hann var staddur í Varmalandi í Borgarfirði í góðu veðri þegar vindur gekk skyndilega í norður og norðaustur, hvessti og kólnaði rækilega. Lítið sem ekkert snjóaði þar um slóðir þennan fyrsta dag hretsins, en samt lá mjög einkennileg fjúkslæða yfir hæðum og hálsum, man varla að hafa séð nokkuð þvílíkt síðan - nema stöku sinnum í fjallahlíðum.
Fyrsta myndin (af fjölmörgum) sem við lítum hér á sýnir hita í háloftunum yfir Keflavíkurflugvelli dagana 5. til 14. apríl. Lóðrétti ásinn sýnir hæð yfir sjávarmáli, en sá lárétti tímann. Athuganir voru lengst af gerðar á 6 klukkustunda fresti þannig að tiltölulega auðvelt er að draga upp jafnhitalínur, en af þeim má auðveldlega ráða hversu hátt veðrahvörfin liggja. Samband er á milli hita í veðrahvolfi og hæðar veðrahvarfa. Sé neðri hluti veðrahvolfs hlýr, liggja veðrahvörfin hátt og kalt er í þeim sjálfum. Sé neðri hluti veðrahvolfs kaldur liggja veðrahvörfin lágt.
Á myndinni eru veðrahvörfin mörkuð með rauðri línu. Fyrstu dagana liggja veðrahvörfin óvenju hátt, eða í um 11 til 12 km hæð, þar sem frostið er -60 til -65 stig. Aftur á móti er frostlaust upp fyrir 1000 metra, lengst af. Þann 9. verða mjög mikil umskipti. Veðrahvörfin hrapa á innan við sólarhring úr 11 km niður fyrir 7 - og kannski alveg niður í 2 til 3 km (punktalína). Þegar þetta gerist hlýnar mjög mikið í 11 km hæð, þar er þá minna en -45 stiga frost og hiti í veðrahvörfunum sjálfum er í kringum -50, um 15 stigum hærri heldur en fyrir breytinguna. Í hinni nýju hæð veðrahvarfanna hefur hins vegar kólnað um 20 stig, úr -30 niður í -50 stig. Mínus 10 stiga jafnhitalínan nær nú alveg til jarðar, en hafði áður verið í um 3 km hæð. Af lögun jafnhitalínanna má ráða að veðrahvörfin fóru aftur að hækka um og fyrir hádegi þann 11.apríl, á skírdag. Úr því fór aftur hlýnandi, allra kaldasta loftið hafði farið framhjá Keflavíkurflugvelli.
Næsta mynd sýnir sömu atburðarás, hér nær myndin yfir dagana 1. til 20.apríl. Rauði ferillinn sýnir lægsta loftþrýsting á landinu á hverjum athugunartíma (athugað var á 3 klst fresti), en bláu súlurnar sýna þrýstispönn landsins, mismun á hæsta og lægsta þrýstingi á hverjum athugunartíma. Mikil hæð var nærri landinu þann 6. og 7. Þá var lægsti þrýstingurinn í kringum 1030 hPa, sá hæsti litlu hærri. Allan þann 8. og fram til hádegis þess 9. féll þrýstingurinn stöðugt, alls um meir en 30 hPa. Þetta skeið er merkt með rómverska tölustafnum I. Um hádegi þann 9. jókst þrýstispönnin snögglega, og um kvöldið var hún komin upp fyrir 25 hPa, norðanillviðrið er skollið á. Spönnin fór mest í 32,1 hPa, það næstmesta sem við þekkjum í apríl (frá 1949). Þrýstifallið hætti um stund, veðrahvörfin héldu áfram að falla, en aðstreymi kulda í veðrahvolfi hélt nú í við þrýstifallið sem fall veðrahvarfanna olli (II).
Eftir um það bil sólarhring fór þrýstingurinn aftur að falla, þá sótti hlýrra loft að inn undir lág veðrahvörfin. Hin lága staða þeirra fékk að njóta sín (III). Síðan fór hlýrra loft að berast að úr austri, veðrahvörfin hækkuðu aftur, og þrýstingur reis.
Eins og við munum sjá á veðurkortunum hér að neðan kom lægðardrag úr norðri, lægð myndaðist yfir Íslandi og dýpkaði fyrir suðaustan land, loks það mikið að hún gat snúið vindi úr norðri í austur. Þessi atburðarás er raunar mjög algeng, á sér stundum stað oft á hverju ári, en hittir misvel í - og auk þess skiptir miklu máli hvar kalda loftið nákvæmlega brýst fram - og hversu kalt það er í upprunasveit sinni.
Myndin að ofan er unnin með gögnum úr endurgreiningu evrópsku reiknimiðstöðvarinnar, era5. Rauði ferillinn sýnir loftþrýsting yfir miðju landinu (65°N, 20°V) á 6 klst fresti dagana 1. til 20. apríl 1963 (sama tímabil og fyrri mynd sýnir). Ferillinn er nánast samhljóða rauða ferli fyrri myndar. Blái ferillinn sýnir hins vegar hæð 500 hPa-flatarins yfir landinu. Hún er mjög góður fulltrúi hæðarbreytingar veðrahvarfanna. Græni ferillinn sýnir þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir hæð og þykkt (í dekametrum, 1 dam = 10 metrar). Hér sjáum við vel hvernig veðrahvörfin héldu áfram að falla í um hálfan sólarhring eftir að það dró úr þrýstifallinu. Þykktin hrapaði einnig. Þykktarfallið var um 40 dekametrar á 12 klst. Það samsvarar um 20 stiga kólnun og sé allt fallið frá 5. apríl tekið, sést að neðri hluti veðrahvolfs kólnaði um 25 stig eða þar um bil. Þann 12. (á föstudaginn langa) óx þykktin aftur umtalsvert, versti kuldinn var liðinn hjá.
Næst lítum við á hitann. Við veljum Akureyri (en hefðum getað valið aðrar stöðvar). Grái ferillinn sýnir hita á 3 klst fresti, en rauðir krossar hámarkshitamælingar og bláir lágmarkshita. Þann 3. gerði nokkuð ákveðna sunnanátt og hiti hækkaði um 10 stig. Næstu dagar voru hlýir (miðað við árstíma). Við sjáum nokkra dægursveiflu og þann 5. komst hitinn upp í 14 stig. Heldur kaldara var þann 7. og 8. Vægt frost var aðfaranótt þess 9. - dagsins sem hretið skall á og um hádegi þann dag komst hiti í tæp 5 stig. [Nokkur þjóðsagnabragur er á þeirri fullyrðingu margra um að sérstaklega hlýtt hafi verið þennan morgun, en 5 stig er samt allgott sé vindur mjög hægur]. Tólf klukkustundum síðar var hitinn kominn niður í -10,4 stig, hafði því fallið um rúm 15 stig á 12 klukkustundum (það er alllangt frá meti á Akureyri). Kaldast varð á Akureyri að morgni skírdags (11.) þegar frostið mældist -13,5 stig. Á föstudaginn langa var hiti aftur kominn upp fyrir frostmark, en síðan kólnaði aftur á páskadag og mjög kalt var á annan páskadag og þriðjudaginn þar á eftir.
Þetta varð upphaf á almennt köldu vori. Mjög kalt var oft um sumarið og þótt næsti vetur á eftir væri alveg sérlega hlýr segja sumir að þetta páskahret hafi verið einskonar inngangur að kaldara veðurlagi hafísáranna og kulda næstu áratuga á eftir. Kannski er eitthvað til í því, en einnig mætti þó nefna aðra atburði, bæði áður og eftir sem slíkan upptakt breyttra tíma.
En næst lítum við á fjölmörg veðurkort.
Fyrsta kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins á norðurhveli um hádegi sunnudaginn 7.apríl, tveimur dögum áður en hretið skall á. Mikil og hlý hæð er við Suður-Grænland og þaðan hæðarhryggur austur til Suður-Noregs. Ritstjóri hungurdiska man vel veður daginn áður, laugardaginn 6. apríl. Þá var síðasti kennsludagur fyrir páskafrí (kennt var á laugardögum á þessum árum). Vindur var hægur af suðvestri í Borgarnesi með lítilsháttar þokusúld. Á kortinu má sjá mikinn kuldapoll við Ellesmereyju. Hann var á leið til austsuðausturs og þrýsti á hæðina. Það er trú ritstjórans að tölvur nútímans hefðu farið létt með að spá framhaldinu.
Um hádegi daginn eftir, mánudaginn 8.apríl var miðja kuldapollsins við norðausturhorn Grænlands, háloftalægðardrag ef yfir Grænlandi norðvestanverðu á leið suðaustur. Hér sést nokkurn veginn hvað verða vill - en harkan þó nokkuð óráðin njóti aðstoðar reikninga ekki við.
Kortið sýnir það sama og kortið á undan, nema hvað minna svæði er undir - og þykktinni hefur verið bætt við. Litirnir á fyrri kortum fylgdu hæð flatarins. Hér sýna litir þykktina, yfir Íslandi er hún um 5340 metrar. Miðja kuldapollsins við norðurjaðar kortsins.
Sjávarmálskortið kl.18 sama dag er til þess að gera saklaust að sjá. Það vekur þó athygli að miðja hæðarinnar er úti fyrir Norðvestur-Grænlandi, en ekki inni á landi. Staða sem ætíð vekur ugg. Vindur er mjög hægur á landinu. Ekki munaði nema 2-3 hPa á hæsta og lægsta þrýstingi landsins (sjá línuritið að ofan). Kortið sýnir einnig hita í 850 hPa-fletinum (litaðar strikalínur). Í kuldapollinum er hitinn lægri en -30 stig, aprílmetið hér á landi er -24,4 stug (sett 1.apríl 1968).
Það var um hádegi á þriðjudag sem veðrið skall á Norðurlandi. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum. Áttin er af norðvestri og vestri yfir landinu og ber með sér jökulkalt loft úr norðri. Í neðri lögum er áttin úr norðaustri. Að vindur snúist andsólarsinnis með vaxandi hæð er merki um kuldaaðstreymi. Þótt kuldinn skelli á eins og veggur er það samt þannig að aðstreymi hans er ívið ákafara eftir því sem neðar dregur. Framrásin er lengst komin í neðstu lögum. Það er hér þá þegar orðið kaldara á landinu heldur en þykktin yfir því vísar til.
Hér má sjá að kuldinn í miðju pollsins er ógurlegur, þykktin minni en 4800 metrar - nálgast það sem ritstjóri hungurdiska hefur óformlega kallað ísaldarþykktina 4740 metra. Þegar svona kalt loft fer út yfir sjó hlýnar það fljótt, enda hefur þykktarkuldi af þessu tagi aldrei náð til Íslands þann tíma sem háloftaathuganir hafa verið gerðar.
Klukkan 18 þriðjudaginn 9. var kalda loftið að ná undirtökunum á landinu öllu. Þrýstispönnin nálgaðist 20 hPa og fór í meir en 25 hPa undir nóttina. Rétt er að geta þess að endurgreiningarinnar ná misgóðum tökum á lægðarmynduninni sjálfri yfir landinu, en aðalatriðin eru nægilega rétt á þessu korti.
Næstu tvo daga [10. og 11.] var veðrið í hámarki. Lægðardragið fór að snúa upp á sig. Þykktin yfir landinu fór niður fyrir 4950 metra, dregið hefur úr vindi í háloftunum, en lítil breyting var í lægri lögum.
Af sjávarmálskortinu þennan dag má ráða að lítillega hefur dregið úr afli veðursins um landið vestanvert, en kuldinn er í hámarki. Þess má geta að til stóð að halda skíðalandsmót austur á Norðfirði um páskana. Vegna snjóleysis eystra var mótið flutt til Siglufjarðar. Þar var þó ekki mikill snjór. Mótið hófst, en illviðrið varð svo slæmt og hríðin svo mikil og köld að umtalsverðar tafir urðu á mótshaldi.
Á skírdag var háloftalægðardragið orðið að lægð. Þannig fer um lægðardrög sem fara suður. Þegar svo var komið tók lægðin til við að dæla hlýrra lofti úr suðri til norðurs fyrir austan land, og síðan til vesturs yfir landið. Jafnþykktarlínur liggja aftur þvert á jafnhæðarlínur, nú snýst vindur sólarsinnis með hæð, hlýtt aðstreymi á sér stað. Kalda loftið stendur fast fyrir og þrýstispönnin jókst að nýju. Í þetta sinn fór hún upp í 32 hPa yfir landinu, efni í fárviðri á stöku stað.
Það var á skírdagskvöld og aðfaranótt föstudagsins langa sem vindurinn náði hámarki. Hlý skil gengu vestur um landið og hiti fór víða upp rétt upp fyrir fyrir frostmark. Jafnframt snjóaði, einkum þó um landið norðan- og austanvert.
Á föstudaginn langa var hættulegasti ofsinn úr veðrinu. Þrýstispönnin hélst þó nokkuð mikil næstu daga, 15 til 20 hPa lengst af, en mjög dró úr frosti.
Laugardaginn fyrir páska var norðaustanstrekkingur á landinu, heldur leiðinlegt veður, en þótti samt gott eftir það sem á undan var gengið.
Á páskadag kom annar, en mun vægari kuldapollur úr norðri. Lægðardrag myndaðist við Suðurland og olli það snjókomu víða um land á annan í páskum.
Þriðjudaginn 16. var kuldapollur undan Norðurlandi. Vestlæg átt var í háloftum, en austlæg við jörð (öfugsniði). Þá snjóaði víðar. Nokkrum dögum síðar hlýnaði að mun og þótti manni þá vorhlýindi skammt undan. Maímánuður varð hins vegar mjög hretasamur.
Við förum nú yfir helstu blaðafregnir. Rétt að taka fram að lítið var um blaðaútgáfu þessa daga - enda páskar. Blöð komu út fram á skírdag [11.], en síðan ekki fyrr en á miðvikudag eftir páska [17.]. Fréttir af hinum miklu mannsköðum á sjó eru mun ítarlegri í blöðunum heldur en hér er tíundað. Við vísum áhugasömum á þær fréttir. Sömuleiðis hefur verið talsvert um þessi slys ritað á síðari tímum - og líklega meira að segja gerð um þau útvarpsþættir og heimildakvikmynd. Það varð svo ekki til að bæta hugarástand þjóðarinnar að á páskum fórst flugvélin Hrímfaxi við Osló í Noregi og með henni áhöfn öll og farþegar, þar á meðal leikkonan ástsæla Anna Borg. Talið var að óvænt ísing hafi grandað vélinni.
Hið blíða tíðafar sem ríkti á undan hretinu gerið það tvímælalaust enn áhrifameira en ella hefði orðið - og gróðurskemmdir urðu mun meiri heldur en í ámóta hreti í kaldari tíð. Við byrjum því á tilvitnun í Tímann 5.apríl - þar er tíðin lofuð og bjartsýni ríkjandi um framhaldið - gróðurinn jafnvel talinn þola áföll vel.
Í gær rigndi hér í Reykjavík, og þótt enn sé snemmt vakti rekjan garðagróðurinn, og víða um bæinn mátti sjá tré, sem voru að byrja að laufgast. Fyrir nokkrum dögum var víðirinn farinn að laufgast, en í gær mátti sjá laufgaðan reyni í garði á Bergþórugötu. Þetta gerist hér á meðan ísalög eru enn við strendur landa, sem kölluð hafa verið hlý til þessa, samanborið við Ísland. Á öðrum stað í blaðinu er þess getið að vorannir séu í nánd hér sunnanlands. Það er því ekki ofsögum sagt af því, að síðari hluti þessa vetrar hefur verið með þeim mildustu á þessari öld. Gróðurinn ber vitni þess. Við töluðum í gær við Hafliða Jónsson, garðyrkjuráðunaut borgarinnar. Hann kvaðst einmitt hafa veitt því sérstaka athygli í morgun, hvernig gróðurinn hefði tekið við sér af vætunni, og til dæmis hefði hann séð ljómandi fallega útsprungna selju í garði við Laugaveginn. Hann bar engan kvíðboga fyrir því, að illa kynni að fara ef kæmi hret, garðagróðurinn mundi þola það úr þessu.
En svo skall veðrið á. Tíminn segir frá miðvikudaginn 10.apríl - þar á meðal frá óvenjulegri hálkumyndun nærri Rauðavatni:
MB-Reykjavík, 9.apríl. Foráttuveður gerði um norðan og vestanvert landið fyrri part dagsins í dag og hefur það valdið tjóni og mannsköðum og er óttast, að enn séu ekki öll kurl komin til grafar. Alvarlegast er ástandið við Eyjafjörð og er vitað um þrjá báta frá Dalvík, sem hafa farist. Mannbjörg varð á tveimur þeirra, en af hinum þriðja fórust tveir menn. Vegna beiðni gefur blaðið nöfn þeirra ekki upp í dag. Þá er óttast um a.m.k. þrjá báta til viðbótar. Tveir þeirra eru frá Þórshöfn og einn frá Dalvík. Á þessum bátum eru alls níu menn.
GB-Reykjavík, 9. apríl. Bílslys varð í kvöld er tvær bifreiðir rákust á hjá Rauðavatni,var ekill annarrar bifreiðarinnar fluttur meðvitundarlaus í slysavarðstofu og þaðan á Landakotsspítala, og var ekki enn kominn til meðvitundar, er blaðið átti siðast tal við sjúkrahúsið í kvöld. Slysið varð með þeim hætti, að áætlunarbifreið kom austan frá Selfossi með 17 farþega og þegar kom á beygjuna suðvestan við Rauðavatn mætti hún bíl, sem var á leið austur. Skipti það engum togum, að bílarnir runnu og skullu saman. Fór áætlunarbíllinn út í vegarbrúnina, en hinn bíllinn valt út af veginum í vatnið. Í honum var maður við stýrið og stúlka í sæti hjá honum. Voru þau bæði flutt í slysavarðstofuna. Var gert að meiðslum stúlkunnar, sem ekki voru alvarleg, en bílstjórinn var, sem fyrr segir, fluttur áfram á spítala, og ekki enn útséð um, hve alvarlega hann var slasaður. Fólkið í áætlunarbílnum sakaði ekki svo teljandi væri. Orsök árekstursins er sú, að í rokinu í dag, sem stóð af vatninu, skvettist stöðugt upp á veginn og fraus jafnharðan, þegar leið á kvöldið. Munu bílstjórarnir ekki hafa varað sig á þessu fyrr en út á svellið var komið. Það skal tekið fram, að varað var við hálkunni á þessum stað í kvöld. Í kvöld slitnaði rafstrengur hjá Hlégarði í Mosfellssveit og kviknaði í staurnum við straumrofið. Fóru viðgerðarmenn strax á staðinn. Mikið bar á því, að uppsláttur kringum nýbyggingar fyki út í veður og vind, en engin slys hlutust af svo vitað væri í kvöld.
Morgunblaðið segir ótíðindi 11.apríl:
Í óveðurskaflanum sem gekk yfir landið upp úr hádegi á þriðjudag, fórust fimm bátar norðanlands og eitt stærra fiskiskip við Reykjanes. Með þessum skipum fórust alls 16 sjómenn, og misstu 19 ung börn þar feður sína, en alls áttu þessir skipverjar 22 börn. Fjórir bátanna sem fórust voru frá Dalvík. Áhafnir tveggja þeirra björguðust, eins og áður hefur verið frá skýrt í fréttum. 7 menn fórust hins vegar með hinum tveimur Dalvíkurbátanna, 5 með vélbátnum Hafþór og tveir með vélbátnum Val. Vélbáturinn Magni frá Þórshöfn fórst undan Sævarlandi í Þistilfirði og með honum tveir menn, að því er fullvíst má telja. Þá tók út tvo skipverja af vélbátnum Hring frá Siglufirði, er hann fékk á sig brotsjó á leið til hafnar. Loks gerðist það í gær er Súlunni frá Akureyri hvolfdi norðvestur af Reykjanesi, og 5 af 11 manna áhöfn fórust.
Tíminn segir einnig af sjóslysunum 11.apríl:
JK-Reykjavik, 10. apríl. Hið sögufræga aflaskip, Súlan frá Akureyri, fékk á sig brotsjó fjórar sjómílur vestnorðvestur af Garðskaga klukkan hálfþrjú í dag og sökk á örskammri stund. Sex menn af áhöfninni komust í björgunarbát, en fimm menn fórust með skipinu. Sigurkarfi frá Ytri-Njarðvík bjargaði mönnunum sex úr gúmbátnum og flutti þá til Keflavíkur.
MB-Reykjavík, 10. apríl. Ljóst er nú orðið. að ofviðrið, er skall yfir í gær, hefur valdið miklum mannsköðum og er vitað um 11 sjómenn nyrðra, er farist hafa af völdum þess. Fullvíst má nú telja, að Dalvíkurbáturinn Hafþór hafi farist, svo og annar báturinn frá Þórshöfn, er saknað var í gær, Magni, ÞH 109, en brak úr báðum þessum bátum hefur rekið. Þá tók tvo menn út af vélbátnum Hring, SI 34, er sambandslaust var við í gær. Annar þeirra náðist aftur, en var þá látinn.
ED-Akureyri, 10. apríl. Eins og skýrt var frá í Tímanum í dag, tókst bátnum Ármanni frá Ólafsvík að bjarga áhöfnunum af tveimur Dalvikurtrillum, Helga og Sæbjörgu, sem fórust í óveðrinu í gær. Ármann kom til Akureyrar kl.20:20 í gærkvöldi. B
HRT-Haganesvík, 10. apríl. Sex menn héðan úr Fljótum brutust upp í Siglufjarðarskarð í nótt í foraðsveðri til að bjarga þaðan hjónum og tveimur ungbörnum, er voru þar föst í bíl sínum. Tókst ferðin giftusamlega, þrátt fyrir fannkomu, frost og veðurofsa, svo að tæplega sá út úr augum.
Næstu daga komu engin blöð út vegna páskaleyfa. Tíminn heldur áfram að segja frá hretinu í pistli 17.apríl:
MB-Reykjavík, 16. apríl. Í gærmorgun [annan í páskum] tók að snjóa um mestan hluta landsins og vegir víða teppst af þeim sökum. Samkvæmt upplýsingum Jónasar Jakobssonar veðurfræðings, eru horfur á snjókomu víða um land næsta sólarhringinn, en þó lítilli á Suðurlandi. Á Norður- og Austurlandi mun hins vegar snjóa talsvert. Frost hefur gengið niður í dag, og er nú frostlaust viða suðvestanlands og vægara nyrðra en í gær. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hefur snjór víða truflað samgöngur. Á Suðurlandi eru vegir færir austur að Litla-Hvammi í Mýrdal, en þar fyrir austan munu vegir ófærir með öllu, og hafa bílar lítt verið hreyfðir í Vík í dag. Á Snæfellsnesi mun fært í Ólafsvík og Sand og Grafarnes að vestanverðu. Kerlingarskarð er fært, en ófært í sjálfri Helgafellssveit, en þar hefur mikinn snjó sett niður í logni. Búast má við að fjallvegir á Vestfjörðum séu orðnir ófærir. Fært er norður yfir Holtavörðuheiði, en norðan til í henni hefur sett niður mikinn lognsnjó, svo og í Hrútafirðinum, og má búast við, að þar verði allt ófært, ef hvessir. Sæmileg færð mun yfirleitt um innsveitir Norðanlands ennþá, en Veðurstofan býst við, að þar muni setja niður mikinn snjó í nótt. Hins vegar er ófært fyrir Skagann og á Reykjaströndinni, svo og út með Skagafirði að austanverðu. Þá er einnig slæm færð beggja vegna við Eyjafjörð utanverðan og vegir austan Húsavíkur eru víða ófærir. Vaðlaheiði var mokuð í dag, þar eð ekki þykir rétt að nota veginn um mynni Fnjóskadals, vegna snjóflóðahættu. Norður á Melrakkasléttu er kominn mikill snjór og ófært öllum bílum, Austin Gipsy bíll var nýlega kominn til Raufarhafnar frá Húsavík og hafði verið 25 klst á leiðinni. Austanlands hafði ekki snjóað mjög mikið. Fagridalur hefur verið opnaður og talið var að Oddsskarð myndi opnast í dag. Færð um Hérað var sæmileg og fært suður um frá Reyðarfirði. Á Lónsheiði var þung færð. Búast má við fleiri vegir lokist eystra, ef þar snjóar eitthvað að ráði í nótt.
Morgunblaðið segir af áfallinu í pistli 17.apríl:
Látrum, 15.apríl. Norðanstormurinn skall hér á mjög snögglega með frosti og snjókomu. Aftakaveður gerði þó ekki fyrr en á skírdagskvöld og aðfaranótt föstudags. Þá varð hér harðasta veður, sem komið hefur af norðaustri, síðan Halaveðrið gekk yfir 1925, enda urðu víða skemmdir. Rúður brotnuðu, og ýmislegt fauk. Má segja, að víða hafi legið við stórskaða. Í Breiðuvík fauk þak af hlöðu og 200 kinda fjárhúsum, sem munu að mestu ónýt. Á annað hundrað kindur voru í fjárhúsunum, en svo vel vildi til, að enga þeirra sakaði, og ekki tapaðist heldur neitt teljandi af heyi. Heimamenn komu fénu þegar fyrir í fjósi og fjóshlöðu, sem hvort tveggja eru stórar byggingar, en fáir nautgripir á bænum. Illt var að standa að slíkum fjárflutningum í myrkri og ofsaveðri, en engum varð neitt að meini, hvorki mönnum né skepnum. Hús þessi voru gömul, en vel viðuð. Í Hænuvík fauk hluti af þaki af tveimur hlöðum og nokkrar plötur af þaki á íbúðarhúsi Kristins Ólafssonar. Munaði minnstu að þakið færi allt. Síminn milli Látra og Breiðuvíkur slitnaði, vegir lokuðust, og einhverjar smáskemmdir urðu hér. Hér er nú komið bjart veður, en kalt, norðanátt með 8 stiga frosti. Þórður.
Tíminn segir einnig af foktjóni og fjársköðum 18.apríl:
ÞG-Ölkeldu, 17.apríl. Hér í sveit urðu miklar skemmdir af völdum ofviðris aðfaranótt föstudagsins langa. Þök fuku af húsum og útihús fuku burt. Veðrið skall hér á á þriðjudaginn, en náði hámarki sínu aðfaranótt föstudagsins. Þá var mikið frost, 1214 stig, snjókoma og ofsarok. Þá um nóttina fauk þak af íbúðarhúsinu í Hólkoti, og allt járn og pappi. Hlaða og áföst fjárhús í Böðvarsholti, sem byggð voru úr timbri og járni, fuku alveg i burtu og nokkuð af heyi, sem í hlöðunni var. Nokkru af því tókst að bjarga með því að strengja net yfir. Í fjárhúsunum voru þrjátíu kindur og nokkur hross, og varð ekki tjón á þeim. Þá fuku nokkrar plötur af fjárhúsi í Vatnsholti, 15 plötur fuku af nýju íbúðarhúsi á Lýsuhóli margar plötur á Hraunsmúla og þak af hlöðu í Hoftúni, en hey bjargaðist.
ED-Akureyri, 16. apríl. Nokkrir fjárskaðar hafa orðið hér nyrðra í óveðrinu undanfarið. Á Ytra-Hóli í Fnjóskadal mun bóndinn, Karl Jóhannesson, hafa misst 20 ær og hafa þær farið með ýmsu móti; flestar hafa hrapað í klettum, ein fór í snjóflóði og sumar beinlínis drepist á berangri. Frá því á þriðjudaginn hefur verið unnið að björgun fjárins á Ytra-Hóli. Féð, er fannst var víða geymt í snjóhúsi og hey skilið eftir hjá því. Í gær unnu svo 16 menn við að bjarga fénu til byggða og var notuð til þess jarðýta með stórum sleða og 53 kindur fluttar þannig í tveimur ferðum. Fimm ær munu hafa drepist á Rauðá í Bárðardal og á Hraunkoti í Aðaldal vantar enn 6 ær, en ekki talið útilokað að þær geti leynst í hrauninu.
Sama dag [17.] segir Tíminn einnig frá óvenjulegri þurrð í Þjórsá. Höfum í huga að þetta var fyrir tíma virkjana í ánni:
HERauðalæk, 16.apríl. [Fréttinni fylgir mynd] Maðurinn, sem sést á þessari mynd er á gangi á mjög óvenjulegum gönguslóðum síðari hluta skírdags. Hann stendur nefnilega á botni Þjórsár, 2300 metrum ofan við brúna. Þjórsá þornaði svo að segja alveg upp á skírdag. Var vatnsmagn hennar síðari hluta dagsins aðeins um 20 rúmmetrar á sekúndu, en meðalvatnsmagn er 400 rúmmetrar á sekúndu. Minnsta vatnsmagn, sem hefur mælst í ánni áður er 80 rúmmetrar á sek. Árið 1929 þornaði áin einnig upp, svo sjá má að slíkir viðburðir eru mjög sjaldgæfir. Myndina tók Sigurjón Rist, en maðurinn sem á henni sést, er aðstoðarmaður hans, Eberg Ellefsen. Á myndinni má glögglega sjá, hversu hátt vatnið hefur náð, en skilin eru í um fjögurra metra hæð. Sigurjón Rist sagði, að þegar áin þornaði upp árið 1929, hafi veturinn einnig verið mjög mildur, þar til áhlaup gerði. Sé því augljóst, að mesta hættan á vatnsskorti i Þjórsá sé, þegar áin og þverár hennar séu auðar, en áhlaup geri.
Morgunblaðið segir enn fréttir af tjóni 18.apríl:
Borg í Miklaholtshreppi, 17.apríl. Hér hefir hver dagurinn verið öðrum verri, frostharka og hríðarveður og talsverð snjókoma, en vegir munu þó vera greiðfærir, þar sem snjór hefir ekki fest mikið vegna roks. Á páskadag var hér afspyrnurok af norðaustri. Samfara rokinu voru miklir sviptivindar. Á Hjarðarfelli tók af þak af hálfum fjárhúsum yfir 240 fjár. Svo mikill var sviptivindurinn að þakið fór með öllu saman, sperrum og langböndum og er allt sundurmulið. Þess skal þó getið, að þessi fjárhús voru nýleg, byggð 1956 og öllum kröfum fylgt um styrkleika. Þegar veðrið skall á s.l. þriðjudag fauk þak af fjárhúsi og hlöðu í Böðvarsholti í Staðarsveit. Í Hólkoti fauk allt járn og pappi af íbúðarhúsi. Í Vatnholti fauk þak af útihúsum. Á Hraunsmúla fuku 15 plötur af þaki íbúðarhússins. Í Hoftúnum fauk nokkur hluti af hlöðuþaki. Rafmagnslínan, sem lögð var í vetur frá Breiðuvik að Barðastöðum lagðist niður á stórum kafla, niðurslitin og brotin. Einnig urðu skemmdir á heyvögnum og fleiru sem úti stóð . P.P.
Vopnafirði, 16. apríl. Í norðaustanstórviðrinu, sem gekk yfir landið s.l. þriðjudag, gerði stórbrim hér á Vopnafirði, sem olli bátaeigendum miklum erfiðleikum og tjóni. Einn tveggja tonna trillubátur slitnaði upp og sökk, og mun hann hafa brotnað í spón, því að rekald sást á sjónum nokkru síðar. Eigendur bátsins voru Albert Ólafsson í Leiðarhöfn og Ólafur Halldórsson í Glæsibæ í Vopnafirði. Báturinn var óvátryggður.
Hellnum, 12. apríl. Norðanveðrið skall hér mjög skyndilega á laust eftir hádegi á þriðjudag og hélst óslitið í þrjá sólarhringa. Ein trilla hafði róið héðan á þriðjudagsmorgun í blíðskaparveðri, en var lent fyrir versta veðrið. Hámarki náði veðrið á fimmtudagskvöld. Í vestanverðri Staðarsveit gerði þá aftakaveður og olli spjöllum á húsum. Þak tók af íbúðarhúsinu á Hólkoti. Fjárhús og hlaða fauk í Böðvarsholti. Þak fauk af fjárhúsum í Kálfárvöllum og Vatnsholti, og enn fremur tók járnplötur af húsþökum á Lýsuhóli og Hraunsmúla. Á þessu svæði er nýbúið að leggja háspennulínu, og skekktust staurarnir mjög á löngu svæði. Á nokkrum stöðum brotnuðu rúður í húsum, en meiðsli á fólki urðu hvergi. Kr. Kr.
Akureyri, 17.apríl. Bóndinn á Ytra-Hóli í Fnjóskadal, Karl Jóhannesson varð fyrir miklum fjárskaða í óveðrinu um daginn, missti 20 kindur af 87, sem hann átti. Hann hafði hleypt fé sínu út á þriðjudagsmorgun, en er bylurinn skall á mjög snögglega um klukkustund síðar, fór hann þegar af stað að reyna að ná því saman. Náðist fátt af fénu þá, þar sem það hraktist undan veðri upp um fjöll og á hættulega staði. Sumt hrapaði fyrir björg, annað króknaði og lamdist til bana. Á annan í páskum var fyrst sæmilega fært veður til leitar og brugðu þá sveitungar vel við til aðstoðar. Voru þá alls 16 menn á skíðum við leitina. Fundust nokkrar kindur dauðar og nokkrar aðframkomnar. Var margt fé flutt heim þann dag á sleðum, sem spenntir voru aftan í ýtur og dráttarvélar. Nokkrar kindur drápust eftir að heim var komið og margar eru veikar enn. Nokkuð af fénu varð að skilja eftir og grafa í byrgi, þar sem ókleift var með öllu að koma því heim yfir torfærur og ófærð. Hinsvegar fannst féð allt. Varð að flytja hey til fjárins. Ekki hefir frést af teljandi fjársköðum annars staðar hér um slóðir, nema á Rauðá í Bárðardal mun vanta 5 kindur. Sv. P.
Fé ferst í Dölum. Auk þess mikla fjárskaða sem hér getur að framan er blaðinu kunnugt um að fjárskaðar urðu í Laxárdal í Dölum svo og í Miðdölum. Á þriðjudagsmorgun í dymbilviku var hiti 5 stig kl.10 að morgni í Búðardal, en kl.3 síðdegis var komið 5 stiga frost og bylur. Þann morgun fóru menn af stað að smala fé sínu, en uppi á heiðum skall veðrið á laust eftir hádegið. Áttu sumir leitarmanna fullt í fangi með að ná heim undan veðrinu. Vitað er að nokkrar kindur hrakti í vatn uppi á Laxárdalsheiði og fórust þær, annað fennti. Þá lágu tvær kindur í fönn úr Miðdölum og fundust dýrbitnar svo lóga varð annarri. Enn hefir ekki verið hægt að rannsaka að fullu hve tjónið er mikið, því ekki gaf til leitar fyrr en fyrst í gær. Óttast er þó að þarna hafi hlotist verulegt tjón af veðrinu.
Morgunblaðið segir 19.apríl fréttir vestan úr Djúpi:
Þúfum, 18. apríl. Óveðrið þann 8. [9.] þ.m. skall skyndilega á hér um slóðir. Sauðfé var víða komið alllangt frá bæjum og hefur gengið mjög erfiðlega að ná því saman aftur. Á Snæfjallaströnd vantar 17 kindur, eign Engilberts Ingvarssonar á Mýri. Er óttast, að féð sé fennt. Vestan Djúpsins er venjulega minni hætta á fjársköðum, þótt fljótt bresti á. Vantar enn nokkuð af fé frá Hörgshlíð og allt féð frá Sveinshúsum, sem hefur ekki enn fundist þrátt fyrir mikla leit. Í Nauteyrarhreppi vantar fé frá Rauðamýri, en ekki er enn ljóst, hver skaðinn hefur orðið, því veður er hið versta hér ennþá P.P.
Tíminn segir óvæntar fréttir 24.apríl:
SÁÞ-VÍK, 23. apríl. Því var veitt athygli er páskahretið var gengið yfir að skýlið undir Hafursey sást ekki. ... Kom þá í ljós að húsið hafði fokið og gereyðilagst í óveðrinu. Húsið var nýtt, vígt í fyrra og talið mjög traust. Veggir þess voru úr steinsteypu; steyptum flekum sem boltaðir voru saman. Þakið hefur fokið af í heilu lagi og síðan brotnað og veggir hússins hafa síðan fokið um koll. ...
Tíminn gerir upp fjárskaða í Dölum vestur 9.maí:
SÞ-Búðardal, 8.maí. Ljóst er nú orðið, að miklir fjárskaðar hafa orðið hér í grenndinni í páskahretinu í vor. Á nokkrum bæjum vantar margt fé og gerðu menn sér í fyrstunni vonir um að finna það flest á lífi, en nú eru menn orðnir mjög vondaufir um það. Á einum bæ er tala þess fjár, sem saknað er eða fundið dautt milli 70 og 80. Mest hefur tjónið orðið á Fjósum, sem eru rétt hjá Búðardal. Bóndinn þar er fjárríkur og getur ekki haft allt sitt fé á Fjósum, en á eyðibýlið Hamra, frammi á Laxárdal, og þar var margt af fé hans, er óveðrið skall á. Þegar hafa fundist milli 10 og 20 kindur dauðar af fé hans, en alls vantar eða hafa fundist dauðar 7080 kindur. Eru menn vondaufir um að mikið af því fé, er vantar, muni finnast lifandi. Bóndinn á Fjósum er Jón Sigurjónsson. Á Sólheimum í Laxárdal hafa einnig orðið miklir skaðar. Nokkrar kindur þaðan hafa fundist dauðar, en samanlögð tala þeirra, er fundist hafa dauðar og þeirra, er vantar, er milli 50 og 60. Bóndinn á Sólheimum heitir Eyjólfur Jónasson, og er tjón hans mjög tilfinnanlegt, mun hér vera um nærri helming fjárstofns hans að ræða. Frá Sámsstöðum vantar ekki margt fé, en 13 kindur þaðan hafa fundist dauðar. Bóndinn þar heitir Eyjólfur Jónsson. Þá vantar einnig allmargar kindur frá fleiri bæjum í Laxárdal og Miðdölum. Fundist hafa illa vargbitnar kindur og er auðséð að tófan hefur ekki látið á sér standa, fremur en venjulega, þegar fé er illa statt.
Tíminn segir 16.júní frá tjóni á garðagróðri:
MB-Reykjavík, 15.júní. Garðagróður beið talsverðan hrekki í páskahretinu hér suðvestanlands, en annars staðar á landinu hafa ekki orðið á honum teljandi varanlegar skemmdir samkvæmt upplýsingum Ingólfs Davíðssonar. Verst hefur Alaskaöspin orðið úti, svo og þingvíðir og ýmsir runnar hafa einnig skemmst illa. Ingólfur Davíðsson tjáði blaðinu í dag, að skemmdir á garðagróðri af völdum páskahretsins hefðu aðallega orðið suðvestanlands. Þar var gróður kominn lengst á veg, vegna langvarandi hlýindakafla og safastraumur komin um þau tré, sem fljótust eru til. Þau tré frusu eðlilega illa og á þeim hafa orðið varanlegar skemmdir. Verst hafa Alaskaöspin og þingvíðirinn orðið úti og Sitka-grenið hefur einnig farið illa víða. Þær tegundir, sem seinna eru til, hafa sloppið miklu betur. Að vísu hafa sumstaðar orðið skemmdir á birki og reynivið, en ekki í stórum stíl. Þá hafa einnig orðið miklar skemmdir á ýmsum runnum. Til dæmis hafa rósir orðið illa úti hér suðvestanlands, svo og fleiri runnar, sem fljótir eru til. Ingólfur kvað áberandi, hve skemmdirnar hefðu orðið mestar, þar sem gróður var lengst kominn, á Reykjanesinu og austur um Suðurland, austur í Fljótshlið. Til dæmis væri gróður ekki eins illa farinn í innsveitum sunnanlands og við sjávarsíðuna. Svo glögg væru skilin, sagði Ingólfur, að gróður í Heiðmörk væri ekki eins illa leikinn og í Reykjavík.
Næst lítum við á hvernig veðurspámönnum tókst til dagana fyrir hretið og í upphafi þess. Á þessum tíma náðu reglubundnar veðurspár aðeins rúman sólarhring fram í tímann. Engin vakt var á Veðurstofunni á Reykjavíkurflugvelli á nóttunni (frá kl.1 til 7.), en þá var spá fyrir landið allt gerð á Veðurstofunni á Keflavíkurflugvelli kl. 04:30 og lesin upp í gegnum Loftskeytastöðvar. Fyrsta spá úr Reykjavík kom kl.8 - ef veðurfræðingur taldi ástæðu til að endurnýja spána frá Keflavík. Næst var lesin spá kl.10:10 (þegar sumartími var í gildi). Sú spá var oftast látin standa óbreytt í lestri með hádegisfréttum - en stundum gerðar smávægilegar breytingar. Ný spá var venjulega gerð kl.16:00 og henni sárasjaldan breytt þar til ný spá var skrifuð kl.22:00. Stundum var smávægileg breyting gerð á þeirri spá við spálestur kl.01:00.
Ekki löngu áður hófst útgáfa á stuttlega orðuðum tveggja daga spám (tvídægru). Hún var venjulega lesin með spánni kl.16:00. Þótt hún væri stutt veittu ung veðurnörd henni mikla athygli. Við gerð tveggja daga spárinnar var notast við ákveðna grafíska vinnslu háloftakorta. Var aðferðin enn notuð þegar ritstjóri hungurdiska hóf störf við veðurspár vorið 1979. Mjög skiptar skoðanir voru um spár þessar - og lagðist aðferðin endanlega af þegar tölvuspágæðastökkið mikla varð haustið 1982. Þótt tölvuspár hafi vissulega komið að einhverjum notum næsta áratuginn á undan var um algjöra byltingu að ræða.
En hvaða spár fengu landsmenn að heyra þessa örlagaríku daga í apríl 1963?
Litum fyrst á hina stuttaralegu tvídægru sem lesin var í útvarp síðdegis sunnudaginn 7.apríl.
Horfur á þriðjudag. Austan kaldi og skúrir við suðurströndina, annars hægviðri eða norðaustan gola og víðast bjartviðri.
Þetta er auðvitað afleit spá. Daginn eftir náði tvídægran til miðvikudagsins 10.apríl.
Norðanátt, sennilega hríðarveður á Norðurlandi, en þurrt og bjart á Suðurlandi. Kaldara.
Þetta er mun betra - í sjálfu sér rétt, en þó er engin vísbending um hörku veðursins. Ritstjóri hungurdiska man þessa spá þó furðuvel.
Þegar spábók Veðurstofunnar er skoðuð kemur á óvart hversu spár sem skrifaðar voru mánudaginn 8. apríl (daginn fyrir áfallið) eru stuttorðar. Spá var gerð á Keflavíkurflugvelli kl.04:30. Hún var endurtekin óbreytt kl.8. Ný spá (aðeins 3 línur) var lesin kl.10:10 og lesin óbreytt bæði í hádeginu og kl.16.
Aldrei þessu vant var ný spá gerð kl.19:30. Sú spá átti að ná til kvölds daginn eftir, þriðjudaginn 9. Við skulum líta á hana alla:
Mikil hæð er yfir vestanverðu Grænlandi, en lægðardrag mun vera að myndast milli Íslands og Grænlands. Mun það sennilega hreyfast austur og valda norðanátt á miðvikudag.
Suðvesturland og Faxaflói: Hægviðri og smáskúrir fyrst. Þykknar upp með suðvestan- eða vestanátt á morgun.
Breiðafjörður til Norðurlands, Suðvesturmið til norðurmiða: Hægviðri og víða léttskýjað í nótt. Þykknar upp með suðvestan- eða vestanátt í fyrramálið.
Austurland til Suðausturlands, Austurmið til Suðausturmiða: Hægviðri. Víðast léttskýjað.
Veðurfræðingnum er ljóst að einhver breyting er í vændum, en norðanáttin muni samt ekki koma fyrr en á miðvikudag (eins og niðurstaða tvídægrureikninganna hafði sýnt). Sama spá var síðan lesin bæði kl.22 og 01. Spurning er hvaða spá það var sem sjómenn fóru eftir?
Spáin frá Keflavíkurflugvelli sem gerð var kl.04:30 og lesin þá um loftskeytastöðvar var svona:
Út af Vestfjörðum er vaxandi lægð sem hreyfist suðaustur yfir Ísland.
Suðvesturland til Breiðafjarðar, Suðvesturmið til Breiðafjarðarmiða: Suðvestan kaldi og smáskúrir fram eftir degi, en allhvass norðaustan og ört kólnandi veður í kvöld.
Vestfirðir og Vestfjarðamið: Gengur í norðaustan hvassviðri með snjókomu upp úr hádegi.
Norðurland og Austurland, Norðurmið og Austurmið. Suðvestan gola og léttskýjað fyrst, en snýst í hvassa norðaustanátt með snjókomu síðdegis.
Austfirðir og Austfjarðamið: Vestan gola og léttskýjað í dag, en allhvass norðaustan og él norðantil í kvöld.
Suðausturland og Suðausturmið: Hægviðri og léttskýjað í dag, en allhvass norðaustan í nótt.
Ný spá var gerð kl.8. Efnislega er sú spá svipuð og næturspáin, en þó er heldur dregið úr. Allhvössum vindi við Faxaflóa er breytt í stinningskalda, og hvassviðrið á Vestfjörðum er dregið niður í allhvassan vind. Á Norðurlandi var talað um hvassviðri síðdegis (8 vindstig) í Keflavíkurspánni, en í morgunspá Veðurstofunnar hét það kaldi eða stinningskaldi (5-6 vindstig). Kl.10:10 var heldur bætt í aftur og aftur spáð hvössum vindi á miðum norðanlands.
Klukkan 16 (þegar veðrið er skollið á) er loks minnst á storm (9 vindstig í spánum) - það verður að viðurkenna orðinn hlut. Aftur á móti er vonast til þess að veðrið standi ekki lengi og kl.22 segir í inngangi:
Veðrið er nú að byrja að ganga niður norðan lands, en er í hámarki á Austurlandi. Lægðin er út af Austfjörðum og hreyfist suðaustur, en hæðin yfir Grænlandi fer heldur minnkandi í bili.
Síðan er í spánni sjálfri gert ráð fyrir minnkandi vindi. Raunin varð hins vegar sú að lítið dúraði og hámark hvassviðrisins varð ekki fyrr en síðdegis á skírdag (þ.11.). Allt fram að því var reynt að spá minnkandi vindi. Á rok (10 vindstig) er ekki minnst fyrr en hámarki veðursins er náð.
Þetta sýnir auðvitað vel þær gríðarerfiðu aðstæður sem veðurfræðingar áttu við að eiga fyrir 60 árum og hollt fyrir þá yngri að reyna að setja sig í þeirra spor.
Að lokum nefnum við enn páskahretið mikla 1917. Um það fjölluðu hungurdiskar nokkuð ítarlega á 100 ára afmæli þess. Atburðarásin var furðulík - árás kuldapollsins þá svipuð, stóð ámóta lengi og endaði á svipaðan hátt. Þrýstispönnin varð enn meiri en í hretinu 1963 (>37 hPa). Meginmunurinn felst í veðrinu vikuna á undan. Mjög kalt var þá í veðri 1917, en þó var ámóta hlýtt dagana tvo fyrir hretið og var 1963. Veturinn 1916 til 1917 var nokkru kaldari heldur en 1962 til 1963, en fékk þó góða dóma. Við getum t.d. gripið niður í stutta frétt um góða tíð í Skagafirði sem birtist í Morgunblaðinu 28.mars 1917:
Sauðárkróki i gær: Hér er alltaf einmunatíð, logn og blíðviðri á hverjum degi. Snjó hefir allan leyst og jörð orðin svo þíð, að farið er að vinna að jarðabótum. Er það líklega eins dæmi hér á Norðurlandi á þessum tíma árs.
Einnig má minna á gríðarlegt hret sem gerði um mánaðamótin mars/apríl 1953 og hefur einnig verið sagt frá því í pistlum hungurdiska. Þeir dagar keppa við 1963-hretið um kulda og hvassviðri - en bar nokkuð öðru vísi að.
Lýkur hér frásögn hungurdiska af páskahretinu mikla 1963.
Vísindi og fræði | Breytt 19.9.2024 kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2024 | 16:42
Illviðrið mikla 23. október 1963
Í október 1963 gerði nokkur eftirminnileg illviðri. Almenna umsögn um þennan mánuð má finna í samantekt hungurdiska um árið 1963. Vegna lengdar frétta af veðri sem gerði 23. október ákvað ritstjórinn að taka það út fyrir sviga - í stað þess að velja og stytta fréttir mikið. Reyndar gerði annað veður - sömuleiðis mjög eftirtektarvert - fjórum dögum áður (19.október) - og fær það að fylgja með - þetta er sama veðrasyrpan. Eins og venjulega er stafsetning færð til nútímahorfa (að mestu) og á stöku stað er sleppt úr textum (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð)
Segja má að þessi syrpa hafi hafist þegar leifar fellibylsins Flóru komu að landinu þann 14. október. Hungurdiskar fjölluðu sérstaklega um þær í pistli 13. september 2019.
Rauði ferillinn á myndinni sýnir lægsta þrýsting hvers athugunartíma á landinu dagana 13. til 25. október 1963. Fyrsta þrýstifallið (þann 14.) varð í tengslum við leifar fellibylsins. Næstu daga á eftir gengu lægðir til norðausturs fyrir suðaustan land, nokkuð djúpar, en ollu ekki teljandi illviðri hér á landi. Það var svo þann 19. að mjög djúp lægð kom sunnan úr höfum og fór til norðurs við Vesturland. Hún varð hvað dýpst síðdegis þann dag, þrýstingur í lægðarmiðju líklega um 935 hPa. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum fór hann niður í 938,4 hPa og var það lægsti þrýstingur sem mælst hafði á landinu í rúm 20 ár, frá því 12,janúar 1942. Þetta er sömuleiðis langlægsti þrýstingur sem mælst hefur í október á Íslandi frá upphafi mælinga (næstlægsta gildið er 945,5 hPa frá 1957).
Við borð lá að þrýstingur færi jafnneðarlega fjórum dögum síðar þegar aftur kom mjög kröpp lægð að landinu, enn krappari heldur en sú fyrri. Þá fór þrýstingur lægst í 945,2 hPa á Sauðárkróki. Trúlega hefur miðjuþrýstingur lægðarinnar verið enn lægri.
Súlurnar á myndinni sýna þrýstispönn landsins á hverjum athugunartíma (mun á hæsta og lægsta þrýstingi). Sjá má lægðirnar fara hjá. Í lægðinni þann 19. fór spönnin mest í 30 hPa, en 32,5 hPa þann 23. Stór tala, ekki síst vegna þess að lægðin fór yfir landið vestanvert.
Kortið sýnir stöðuna þann 19.október kl.18. Rauðum krossum hefur verið bætt við þannig að braut lægðarinnar sjáist. Á tveimur sólarhringum dýpkar hún um nærri 70 hPA, fyrri sólarhringinn um 39 hPa og þann síðari um 30 hPa. Japanska endurgreiningin virðist ná lægðinni undravel. Hér á landi varð tjón bæði vegna vinds, en meira þó vegna brims. Stórstreymt var, nýtt tungl þann 17. Eins og sjá má af línuritinu að ofan var rólegt veður þann 20., en aðfaranótt 22. fór lægð til norðausturs um Grænlandshafi. Komst þrýstispönnin þá upp í 15 hPa, strekkingsvind. Þessi lægð telst þó ekki til neinna tíðinda.
Kortið hér að ofan sýnir stöðuna í háloftunum að kvöldi þess 22., hátt í sólarhring áður en veðrið mikla skall á. Köld tunga liggur langt suður í haf og vekur þar bylgju af mjög hlýju lofti. Í sameiningu þessara afla varð til enn ein ofurlægðin sem dýpkaði ört og stefndi til landsins.
Síðdegis þann 23. var hún við Reykjanes. Hafði á einum sólarhring dýpkað um 35 hPa og á sama tíma borist áfram á um 100 km hraða á klukkustund. Gríðarlegur suðvestanstrengur var í suðaustur- og suðurjaðri lægðarinnar (það sem kallað hefur verið stingröst). Röstin kom inn yfir Suðurland og fór norður yfir. Á nokkru belti frá vestanverðri Árnessýslu austur í Vestur-Skaftafellssýslu og sömuleiðis sumstaðar á svæðinu frá Eyjafirði austur fyrir Langanes gekk hið mesta fárviðri yfir. Vestar og austar á landinu varð ekki eins hvasst. Ritstjóri hungurdiska sá loftvogina detta niður úr öllu í Borgarnesi, en lægðarmiðjan fór um það bil beint þar yfir. Vestur á fjörðum hvessti mjög af norðaustri, en það leið þó fljótt hjá, því fyrr en varði var lægðin komin norður fyrir land.
Vindraðamet var sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Vindhraði mældist 55,6 m/s og var landsmet á sínum tíma - og stendur enn sem vindhraðamet októbermánaðar. Vindhraðamælir var annarrar gerðar en nú tíðkast og nokkur óvissa um kvörðun - en ljóst að um fádæma vind var að ræða.
Hér má sjá hið merkilega veðurkort miðvikudaginn 23.október 1963. Lægðarmiðjan við Mýrar, um 942 hPa í miðju. Tvöfalt flagg á vindör Stórhöfða, meir en 100 hnúta vindur. Fárviðri var einnig í Æðey, en af norðaustri. Eins og áður sagði fór lægðin síðan norðaustur um Húnaflóa og Skaga. Vinstrengurinn barst með henni - en núningur landsins dró smám saman úr honum. Miklir skaðar urðu þó einnig norðanlands.
Við tökum nú til við blaðafregnir af þessum tveimur veðrum. Fyrra veðrið gekk yfir síðdegis og að kvöldi laugardags. Engar fréttir af því birtust því í blöðum fyrr en á eftir helgina. Vísir gat verið fyrstur með fréttirnar mánudaginn 21.:
Mesta flóð sem komið hefur í Þorlákshöfn frá því 1925, skall á s.l. laugardagskvöld. Sjór flæddi inn í frystihús Meitils og allar rúður sjávarmegin á frystihúsinu brotnuðu. Miklar skemmdir urðu á vegum m.a. fór að heita má alveg braut sem lögð hafði verið frá frystihúsinu að Norðurvararbryggju. Sjórinn æddi yfir malarkamba sunnan við þorpið og langt inn á tún þar.
Morgunblaðið segir síðan frá daginn eftir, 22.október:
Miklar skemmdir urðu í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum af völdum brims s.l. laugardagskvöld og sjórinn gekk um kílómetra á land við Vík í Mýrdal. Óvenju mikið háflæði var við Stokkseyri og Eyrarbakka, en þar urðu engar skemmdir. Ástæðan fyrir þessu var, að stórstreymt var, mikið hvassviðri og loftvog með lægsta móti. Hér á eftir lýsa fréttaritarar Morgunblaðsins skemmdum þeim, sem brimið og veðurofsinn olli:
Þorlákshöfn, 21. október. Rétt fyrir kl.8 s.l. laugardagskvöld braust sjórinn hér á land hjá vörugeymslu SÍS og flutti með sér tugi tonna af grjóti. Ofsarok var á af suðaustan. Sjórinn flæddi inn í vörugeymsluna og flutti grjót með sér inn um hurð, á norðurgafli sem brotnaði upp. Talsverðar skemmdir urðu á fóðurmjöli í geymslunni. Kjallari, sem er undir fóðurblöndunarvélum, fylltist af sjó er eyðilagði stóran rafmótor sem þar er staðsettur. Á suðurgafli frystihúss Meitils hf brotnaði inn útidyrahurð og flæddi sjórinn þar inn. Ýmsar smávægilegar skemmdir urðu þar. Þá flæddi sjór og grjót inn í nýbyggt hús Norðurvarar hf. Brotnaði upp hurð og fylltist allt af grjóti og möl. Aðrar skemmdir urðu ekki að hér í þorpinu, nema hvað malarkambur, sem er sunnan við vörugeymslu SÍS, hefur lækkað mjög mikið á 700800 metra löngum kafla. Þar flæddi sjórinn upp að olíutank, sem er um 900 metra frá sjó. Hætta er á, að sjór gangi fremur hér upp, eftir að malarkamburinn lækkaði. Mjög hætt er og við, að sjór gangi upp með norðurenda vörugeymslunnar, þar sem malarkamburinn sem þar var, hefur flust upp á hlað. Við norðurhlið frystihússins stóð fólksbíll. Fuku á hann fiskbalar, skemmdist ein hurð bílsins, en vörubílstjórum úr Reykjavík, sem óku hingað vörum, tókst að forða bílnum áður en frekari skemmdir urðu. Magnús.
Vestmannaeyjum, 21. október. Austan og síðan suðaustan rok gekk hér yfir á laugardag með einhverju því mesta hafróti, sem getur orðið. Versnaði veðrið og brimið, þegar á kvöldið leið. Flóðhæðin var svo mikil, og allar bryggjur voru á kafi í sjó og gekk hann upp að næstu umferðargötum. Bátar í höfninni urðu ekki fyrir teljandi skemmdum, enda fóru sjómenn fljótlega um borð til að binda þá betur og voru um borð margir hverjir fram eftir nóttu. Herjólfur var hér í höfninni og slitnaði upp og var skipinu lagt við akkeri og legubaujur. Samkvæmt áætlun átti Herjólfur að fara kl.9 um kvöldið, en talið var ófært í sjó og fór hann því ekki fyrr en næsta morgun. Miklar skemmdir urðu á nýbyggingu fiskimjölsverksmiðju Einars Sigurðssonar, þar sem nýlega hafði verið komið fyrir ýmsum vélum, svo sem þurrkara, pressu og rafmótorum. Urðu verulegar skemmdir á vélunum, þar sem sjór braut upp hurðir og ólögin gengu um allt húsið. Nú er unnið að hreinsun og viðgerð vélanna. Sjórinn sópaði einnig burt nokkrum tonnum af mjöli og sandi úr ystu bryggjunni, Naust hamarsbryggju. Þá lagði út af uppslátt fyrir bryggjukanti innst í Friðarhöfn. Er hér um töluvert tjón að ræða. Veðrið tók að ganga niður, þegar á nóttina leið. Fréttaritari.
Vík í Mýrdal, 21. október. Suðaustan stórviðri með mikilli rigningu geisaði hér s.l. laugardag. Í þessu veðri gekk sjórinn nokkur hundruð metra á land síðari hluta dags. Komst sjórinn yfir þjóðveginn þar sem hann liggur undir Víkurkletti. Þaðan er annars um kílómetri út að sjó. Miðja vega milli Víkurkletts og strandarinnar fannst í gær lifandi og spriklandi hnísa, fremur lítil, sem borist hafði svona langt upp á sandinn í hafrótinu. Var hnísan skorin í gær. Sjórinn flæddi einnig upp í Víkurá, svo að hann komst þar alla leið upp að aðalbrúnni hér í þorpinu. Áætlunarbíllinn fór ekki yfir Mýrdalssand á laugardag vegna óveðursins. Margir kannast við þurran sandstorm á Mýrdalssandi, sem veldur stórskemmdum á bílum, en á laugardaginn rauk blautur sandur upp í veðurofsanum og er það engu betra. Fréttaritari.
Bláhvítir blossar sáust á himni aðfararnótt sunnudags. Það voru menn í bíl, nálægt Þórshöfn, sem sáu blossana í suðvestri. Tilkynntu þeir þetta í gegnum talstöð í bílnum til Siglufjarðarradíós, sem hafði samband við Veðurstofuna. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni sáust blossarnir öðru hverju með jöfnu millibili, en ekki hafa aðrir en fyrrgreindir menn skýrt frá fyrirbærinu. Er talið líklegt, að eldblossarnir hafi stafað af eldingum í þrumuveðri inni yfir hálendinu, sennilegast yfir vestanverðum Vatnajökli. Veðurathugunarstöðvar hafa ekki skýrt frá þrumuveðri neins staðar, en gæti vel hafa verið yfir hálendinu þrátt fyrir það. Má geta þess, að eldblossar sem sjást, þegar eldgos eru, stafa oft frá eldingum í lofti. Rétt um það leyti, sem eldblossarnir sáust, var mjög djúp lægð við suðvestur ströndina, ein af þeim dýpstu, sem koma á þessum slóðum. Loftþrýstingurinn í þessari lægð mældist lægstur í Vestmannaeyjum, 938 millíbar.
Tíminn segir einnig frá þriðjudaginn 22.október - að mestu samhljóða Morgunblaðinu, en nokkur smáatriði önnur:
BÓ-Reykjavík, 21. október. Á háflæði á laugardagskvöldið gekk sjór upp á suðurströndina og gerði stórspjöll á vörugeymslu SÍS í Þorlákshöfn og frystihúsinu þar, en hafnarmannvirki skolaðist burt í Grindavík. Þá var hvöss suðaustanátt. Í kvöld bárust þær fréttir, að skemmdir hefðu orðið á aðalhafnarmannvirkinu í Þorlákshöfn, Suðurvararbryggju. Guðmundur Ágústsson, umsjónarmaður með verklegum framkvæmdum hjá Olíufélaginu, hringdi til blaðsins og sagði, að starfsmaður félagsins hefði veitt því athygli, að sprunga, sem áður var komin i ljós utan á garðinum, hefði nú komið fram að innan verðu, þar hefði nálega 10 sm glufa opnast. Guðmundur Ágústsson kvaðst halda, að þarna yrði að brjóta niður garðinn og steypa á ný. Um klukkan 19 á laugardagskvöldið skall sjórinn yfir malarkambana sunnan við Þorlákshöfn og langt upp á tún. Mestar skemmdir urðu i vörugeymslu SÍS, en þar braut sjórinn upp norðurdyrnar og kastaði grjóti inn, mölvaði stafnglugga og spýttist upp úr gólfinu, eins og þar væri sægur af gosbrunnum. Undir húsinu er malarfylltur grunnur, og sjórinn þrengdi sér upp um hann. Magnús Bjarnason, starfsmaður í geymslunni, sagði í dag, að neðsta sekkjalagið af fóðurmjöli væri ónýtt, en þá var unnið að því að rífa fram sjóblauta ull og senda hana í þvott til Hveragerðis. Nú er grjóthaugur, rúmur metri á þykkt við norðurstafn geymslunnar, sumir steinarnir meir en hálft tonn á þyngd. Gólfið i húsi Norðurvarar h.f. fylltist af grjóti og möl, en það er nýlega byggt og stendur tómt. Í frystihúsi Meitils brotnuðu dyr að sunnan og norðan og flestir gluggar á neðstu hæð, 6 eða 7 talsins. Frystihússtjórinn sagði, að þar hefðu orðið furðulitlar aðrar skemmdir. Enginn fiskur var á neðri hæðinni, tæki skemmdust ekkert að ráði, en sjórinn komst inn á gólf í símstöðinni, þar til húsa. Eftir þennan forgang var ófært að húsinu fyrir möl og grjóti, en því hefur verið rutt frá með jarðýtu. Þessi sjávargangur stóð á þriðju klukkustund. Guðsteinn Einarsson, fréttaritari Tímans í Grindavík, sagði að brimið hefði gengið upp á milli húsa í þorpinu laust eftir kl.20. Þá voru allar bryggjur í kafi. Í fyrrasumar var steyptur varnargarður fyrir utan höfnina. 2030 metra kafli af honum, framan til við miðju, lagðist út af, og er garðurinn þar með gagnslaus, Það, sem eftir stendur, getur farið í næstu flóðum. Garðurinn var byggður á lausan jarðveg, og sjórinn hefur grafið undan honum. Búið var að treysta hann með stórgrýti, en kom að engu haldi. Aðalhættan sem nú stafar af þessu mannvirki vitamálastjórnar, er sú að grjótið fari inn í höfnina og eyðileggi hana. Engar skemmdir urðu á bátum í Grindavík, enda vel gengið frá þeim.
Fregnir af veðrinu þann 23. birtust í blöðunum daginn eftir, í fyrstu virtist tjón ekki stórkostlegt - en nánari fregnir af því komu síðar. Tíminn segir frá 24.október:
KH-Reykjavík, 23.október. Í dag gerði ofsaveður á Suðurlandsundirlendinu, sem í kvöld hafði náð yfir mestallt landið. Var vindhraðinn slíkur, að hann hefur aldrei mælst meiri við jörðu hér á landi, eða 16 vindstig á Stórhöfða. Spáð er ofsaveðri um Norður- og Austurland í nótt, en stormi á Suður- og Vesturlandi. Tjón hafði ekki orðið stórkostlegt í þessum veðraham, eftir því sem blaðinu var kunnugt um seint í gærkveldi. Þó fuku þakplötur víða af húsum, illa gekk að hemja báta í höfnum, eldur kom upp í skúr á Húsavík, flug tafðist og flugvélar urðu að lenda annars staðar en áætlað var, og togari strandaði á Ísafirði. Tveggja báta var saknað, en annar var kominn fram í kvöld. Ekkert hafði spurst til hins undir miðnætti.
Lægðin, sem völd er að þessu óveðri. var langt suður í hafi í gær, en byrjaði að dýpka mjög ört og hefur loftvogin ekki fallið jafnhratt síðustu árin og hún gerði í Vestmannaeyjum í dag. Frá því klukkan 12 á hádegi til kl. 15 féll hún um 23 millibör, en hér í Reykjavík féll hún á sama tíma um rúmlega 21 millibar og komst niður í 942 millibör, sem er óvenju lágt. Um klukkan sex í dag varð vindhraðinn mestur í Vestmannaeyjum, 16 vindstig. Jónas Jakobsson, veðurfræðingur, kvaðst ekki muna til þess, að svo mikill vindhraði hefði mælst við jörðu hér á landi áður. Mesti vindhraði, sem mældur er, er 17 vindstig. Um klukkan 11 var vindhraðinn aðeins 12 vindstig á Stórhöfða, að sögn veðurstofunnar. Var lægðarmiðjan þá að öllum líkindum komin norður fyrir Grímsey á leið norður eða austur. Spáð er vestanroki eða ofsaveðri á Norður- og Austurlandi í nótt, en hægara á morgun.
Á Suður- og Vesturlandi er spáð vestanstormi eða roki í nótt en heldur hægara á morgun. Saknað var í kvöld vélbátsins Elliða frá Elliðaey, og hafði enn ekkert til hans spurst undir miðnætti. Elliði er sjö smálesta bátur, eign vitavarðarins í Elliðaey. Vitavörðurinn lagði af stað á bát sínum við annan mann frá Rifi klukkan 2 í nótt og ætlaði til Stykkishólms með viðkomu í Elliðaey. Síðan hefur ekkert heyrst frá honum. Talstöð er í bátnum, en álitið er, að hún geti verið biluð. Vitinn i Elliðaey sendir ekki, en vonast er til, að mennirnir og báturinn séu, þar heilir á húfi, þó að þeir hafi ekki látið heyra frá sér. Tveir bátar frá Ólafsvík, Steinunn og Stapafell, voru á sjó og fóru þeir að svipast um eftir Elliða í kvöld. Einnig var reynt að fá báta úr Grundarfirði og Stykkishólmi til að leita. Ætluðu bátarnir fyrst að fara út í Elliðaey og hyggja að bátnum þar, en annars er erfitt um leit að svona litlum bát í myrkrinu. Allhvasst var um tíma á Breiðafirði í dag, en veðrið hafði ekki náð sér upp þar enn undir miðnætti. Spáð er stormi þar i nótt.
Klukkan hálf ellefu hringdi fréttaritari blaðsins á Ísafirði og sagði, að enski togarinn Northern Spray væri strandaður um 3 sjómílur fyrir innan Rif, eða nálægt þar sem Egill rauði strandaði fyrir nokkrum árum. Annar enskur togari var kominn á vettvang og reyndi að koma línu yfir í Northern Spray, en það hafði ekki enn þá tekist. Togarinn hafði nýlega haft samband við varðskipið Óðin, sem var á leið til hjálpar, og sagði eftir Northern Spray, að skipið virtist ekki hafa laskast, og enginn sjór væri í lest eða vélarrúmi. Um þetta leyti var blankalogn á ísafirði, en dimmt og þoka niður í miðjar hlíðar. Undir miðnætti bárust blaðinu síðustu fregnir af strandinu. Varðskipið Óðinn tilkynnti kl.23:17, að búið væri að bjarga allri áhöfn togarans, tuttugu manns, um borð í Óðin, og nú væri aðeins beðið átekta, hvort unnt yrði að bjarga skipinu. Var þá kominn blindbylur og haugasjór á þessum slóðum. Margir enskir togarar liggja þarna í vari undir Grænuhlíðinni. Á Ísafirði var misvindasamt og hvasst í dag. Óttast var um vélbátinn Ver ÍS 108, sem stundar humarveiðar í Djúpinu, og hafði síðast heyrst til hans kl.5, þegar hann var við Æðey. Var auglýst eftir honum í útvarpi og radíóið á Ísafirði kallaði á bátinn. Kl. 21:30 tilkynnti Víkingur II, að Ver væri á leið inn fjörðinn og hefði ekki annað orðið að en að hann tafðist við veiðamar.
Í Vestmannaeyjum var veðurofsinn slíkur um 6 leytið, að menn muna ekki annað eins, vindstyrkurinn komst upp í 16 þegar verst lét. Til marks um ofsann, sagði fréttamaður blaðsins í Eyjum, að gamall nótabátur úr stáli, sem í mörg ár hefur legið á sama stað, fauk langar leiðir í rokinu, hafnaði á ljósastaur og hékk þar. Þak fauk af fiskvinnsluhúsi við Vinnslustöð Vestmannaeyja og lentu sumar plöturnar á Fjallfossi, sem lá í höfninni. Var mesta mildi, að þær lentu ekki á mönnum, sem unnu við skipið. Stöðva varð upp skipun úr Fjallfossi vegna ofsans, og illa gekk að hemja skipið við bryggju. Var lóðsinn látinn keyra á skipið og halda því upp að bryggjunni. Miklum erfiðleikum var bundið að halda skipum í bólunum, en engir teljandi skaðar urðu, aðrir en upp er talið. Vitað var um þrjú skip á leið til Eyja, Eyjaberg, Kristbjörgu og Leó, sem voru að koma úr söluferð til Englands, en um hálfníu voru þau að koma að og virtist allt vera í lagi hjá þeim. Loftleiðavélin Eiríkur rauði, sem var á leið hingað frá Gautaborg, varð að snúa við, þegar hún var komin í hálftíma fjarlægð frá Vestmannaeyjum rétt fyrir klukkan níu í kvöld. Fór hún áleiðis til Stafangurs. Um svipað leyti var tveimur íslenskum flugvélum snúið við úti í Evrópu og lentu þær báðar í Prestwick. Önnur var Loftleiðavélin Þortinnur karlsefni, sem var á leið frá Luxemburg, en hin var frá Flugfélaginu. Allt innanlandsflug lagðist niður seinni hluta dagsins og voru allar áætlunarvélar þá í Reykjavík, nema Flugfélagið átti eina skota-vél á Ísafirði. Í Reykjavik fór að bera á því á áttunda tímanum um kvöldið, að þakplötur væru að losna, og keyrði það um þverbak á tímanum frá kl. 8 til 9:30. Lögreglan kvaddi út lið bæjarvinnumanna til aðstoðar við. að hemja járnið og aðra fauti, sem fuku um í reiðileysi. Enginn slasaðist um kvöldið og árekstrar urðu ekki. Vinnupallar við Álftamýrarskólann voru taldir í hættu, en þeir stóðust veðrið. Hvergi í bænum fuku heil né hálf þök, en mjög víða nokkrar þakplötur. Í Hafnarfirði fauk gamalt salthús Bæjarútgerðarinnar og rafmagnið fór af bænum um tíma. Á Akureyri hvessti með myrkrinu, og sagði fréttaritari blaðsins í kvöld, að nú fyki allt, sem fokið gæti. Um níuleytið höfðu tveir menn þegar slasast. en ekki var vitað, hversu mikið fauk, járnplata á annan, en brak úr uppslætti á hinn. Bátur, er lá við Höepnersbryggju slitnaði upp og rak yfir Pollinn og hafnaði uppi á Strandgötu. Á Húsavík var komið ofsarok í kvöld. Var mikil ókyrrð í höfninni, en þar liggja margir trillubátar. Bátarnir eru í mikilli hættu, en ógerningur er að fylgjast með þeim vegna myrkurs og roks. Engir bátar voru á sjó þaðan í dag. Klukkan átta kom upp eldur í beituskúr á Húsavík. Brann hann allur og varð mikið veiðarfæratjón. Margir skúrar vora í hættu vegna roksins, sem gerði slökkvistarfið erfitt, og einn þeirra skemmdist lítið eitt. Má teljast mildi, hversu vel tókst að slökkva eldinn.
Fréttaritari blaðsins á Hvolsvelli, kvað veðrið hafa verið mjög vont þar í dag, en vissi þó ekki af neinum skemmdum í nágrenni við sig, en símalínan mun þó hafa slitnað til Víkur í Mýrdal. Gissur bóndi Gissurarson í Selkoti undir Eyjafjöllum sagði, að þar hefði í dag geisað eitt allra mesta óveður, sem þar gerist. Hann sagðist ekki hafa frétt af tjóni, en þó hafði legið við að gamalt fjós á Rauðafelli fyki. Þar er verið að byggja nýtt fjós, en kýr eru enn í gamla fjósinu. Brotnuðu í því sperrur og járn spenntist upp, en það stóð samt.
BÓ-Reykjavik, 23. október. Kornuppskera grasmjölsverksmiðjunnar á Hvolsvelli lánaðist illa í þetta sinn. Nú voru sekkjaðar 25 lestir af korni, en 50 í fyrra, sem þótti mjög lélegt. Blaðið talaði i dag við Jóhann Franksson á Hvolsvelli, og sagði hann enn fremur, að 80 hektarar með tvíraða byggi og höfrum hefðu eyðilagst í stormi og frosti, og varð ekki slegið. Eins og áður var skýrt frá hefur kornuppskeran brugðist víðar en á Hvolsvelli. Þingeyingar notuðu korn sitt sem grænfóður. á Hérað er kornið ýmist þreskt og slegið sem grænfóður og þar er enn verið að slá og þreskja. Uppskeran er talin lélegri en í fyrra. Hornfirðingar þresktu allt sitt kom og skáru upp svipað magn og í fyrra, en þá var uppskeran talin léleg. Niðurstöðutölur um uppskeruna í heild liggja ekki fyrir.
Morgunblaðið segir einnig frá sama dag, 24.október:
Í gær gekk ný stórlægð yfir Vesturlandið með ofsaveðri, mældust í gærmorgun 16 vindstig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og muna menn varla annað eins rok. Á tímabilinu frá kl.12 á hádegi til kl.3 féll loftvogin í Reykjavík um 21,0 mb og í Vestmannaeyjum um 23,1 mb. Er þetta alveg óvenjulegt, enda mesta fall á loftvog, sem vitað er um hér á landi, 26 mb á 3 tímum, en það var á Dalatanga 25. janúar 1949. Lægðin í gær kom suðvestan úr hafi, var um 1500 km í burtu kl.6 síðdegis á föstudag og ferðaðist svona hratt og snardýpkaði. Fór lægðarmiðjan niður í 924 mb, en hefur dýpst mælst hér 919 mb. Lægðin gekk seinni hlutann í gær norður yfir Vesturlandið, var kl.18 úti af Mýrum og hélt áfram norður yfir Vestfirði, með sama ofsaveðrinu, nema hvað lægði meðan lægðarmiðjan gekk yfir. Sagði Jónas Jakobsson veðurfræðingur, í gærkvöldi að í dag yrði lægðin komin norður fyrir land.
Í roki þessu fuku víða þakplötur af húsum, eins og t.d. í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík, símalínur biluðu undir Eyjafjöllum, uppsláttur fauk yfir feðga á Akureyri, og verst mun tjónið hafa orðið í Vestmannaeyjum, en frá því er skýrt annars staðar. Auglýst var eftir tveimur bátum, á Breiðafirði og Ísafirði, og er skýrt frá því annars staðar. Í Reykjavík voru 910 vindstig í gær. Varla var stætt í hryðjunum. Járnplötur fuku af húsum, en lögreglan sendi vinnuflokka út til að koma í veg fyrir tjón og varð það hvergi neitt að ráði, þó mest á Snorrabraut 33. Einnig fauk vinnutjald frá rafveitunni. Ekkert varð að i höfninni samkvæmt upplýsingum hafnarvarða.
Morgunblaðið hafði samband við fréttaritara sína á Akranesi, Keflavík, og Stykkishólmi. Kváðu þeir gífurlegan veðurofsa, en ekki tjón, sem þeir vissu af. Fréttaritari blaðsins undir Eyjafjöllum símaði: Borgareyrum. Hér hefur verið ofsaveður af suðaustri frá því kl.2 í dag og allt fýkur sem fokið getur. Ekki er þó vitað um tjón á húsum af völdum þess, enda eru byggingar víða nýlegar og traustlega gerðar og þeim sem eldri eru vel við haldið. Staurarnir á raflínunni sem liggur frá norðri til suðurs undir Eyjafjöllunum hafa látið undan veðrinu og hallast mjög til vesturs. Símalínurnar hafa bilað milli Seljalands og Varmahlíðar. Holtsós líkist fremur úthafi en litlum ósi. M.J. Á Selfossi var næstum óstætt í gærkvöldi og versta veður á Eyrarbakka, en ekki neitt tjón sem vitað var um.
Akureyri. Hér tók að hvessa um kl.6 í kvöld og náði veðrið hámarki um kl.8. Voru þá 9 S-SA vindstig á lögreglustöðinni þar sem veðurathuganir fara fram, en miklu hvassara í byljunum. Á brekkunum og á Oddeyri mun veðurhæð þó hafa verið miklu meiri. Mikið úrfelli fylgir veðri þessu. Rafmagn fór af öllum bænum á 9. tímanum og var rafmagnslaust í stundarfjórðung. Eitthvað munu þakplötur hafa losnað og fokið og varð ungur maður fyrir einni þeirra og skarst á hendi og á fæti. Gert var að sárum hans í sjúkrahúsinu. Tveir ungir heimilisfeður voru í kvöld að vinnu við hús, sem þeir eiga í smíðum. Voru þeir búnir að slá upp mótum útveggja á efri hæð og voru rétt ófarnir heim til kvöldverðar, er uppslátturinn fauk skyndilega yfir þá og síðan eitthvað út í buskann. Urðu þeir undir brakinu og meiddist annar þeirra í baki og marðist nokkuð, en hinn hlaut mikinn skurð á höfði og slæman heilahristing. Meiðsli hans eru þó ekki könnuð til fulls enn og liggur hann á sjúkrahúsinu HSJ.
Fréttaritarinn í Grindavík símaði: Hér var mikið hvassviðri á suðvestan framan af degi og nú er hann genginn í suðaustan með ofsaroki. Sjórinn gengur ekki mikið upp núna. En í stórstreymi og óveðri á laugardagskvöldið brotnaði 2030 m skarð í varnargarð, sem hér var steyptur í fyrrasumar. Eins hefur lækkað mikið í þessu flóði grjótgarður, sem verið var að keyra í grjót í haust og átti að verða uppfylling. Hefur hann lækkað mikið og skolað frá honum öllu smáu grjóti. Enda hefur sjórinn ekki gengið jafn hátt og í laugardagsflóðinu í 30 ár. Mikið tjón er að skarðinu í varnargarðinn. Skarðið myndaðist framarlega á honum og er það sem eftir stendur, framendinn og efri hlutinn orðið mikið sigið. Er hætt við að það leggist út af líka, ef gerir mikið brim. GÞ.
Vestmannaeyjum Ofsarok skall yfir hér í Vestmannaeyjum eins og hendi væri veifað í kvöld. Hvasst var í morgun á austan, síðan lægði. og rétt fyrir sex kom hvellurinn yfir á suðvestan, svo vindhraðinn náði 108 hnútum eða 16 vindstigum á Stórhöfða, sem jafnframt er mesti vindur sem mælst hefur síðan mælingar hófust. Mest mældust áður 100 hnútar. Féll loftvog svo ört að fólk trúði því ekki, og í kvöld hækkaði hún jafnört. Kl.9 var veður heldur farið að ganga niður, vindur kominn niður í 11 vindstig. Meðal skemmda sem vitað er um, er þetta. Bílskúr fauk á Gvendarhúsum fyrir ofan Hraun, Gróðurhús aflöguðust við Suðurgarð. Bílar fuku úr stað. Gafl á gangaskúr við gamalt hús í miðbænum fauk inn. Í morgun var Fjallfoss tekinn í höfn og þar var fyrir breskur togari. Lóðsinn var um borð í Fjallfossi frá kl. 6 til kl. 10, því búast mátti við því versta, en skipið hélst þó við bryggju, enda lá Mb. Lóðsinn á síðu skipsins og keyrði fulla ferð að bryggju upp í veðrið. Togarinn hékk að mestu fastur, slitnaði að vísu frá að hálfu, og var dreginn að bryggju með bílum, þar eð Lóðsinn var upptekinn við Fjallfoss. Hafnarverðir og bátasjómenn hér börðust í ofsanum við að hemja bátana við bryggju. Hefðu þessi veður, bæði þetta á laugardag og í dag skollið yfir að nóttu til eða á morgunflóði hefði mátt búast við miklu tjóni. En í dag voru flestir með bátana í gangi. Við höfnina fauk nótabátur yfir 100 metra og braut á leið sinni 3 ljósastaura og sleit niður rafmagnslínur og hafnaði á ljósastaur vestast og fremst á Friðarhafnarbryggju. En þessi bátur hefur staðið óhaggaður á sama stað í 5 ár. Í Friðarhöfninni mynduðust sviptivindar, svo örugglega má reikna með að í sviptibyljunum hafi verið 1618 vindstig. Þá fuku menn í rokinu. Einn stansaði milli framhjóla á bíl fremst á bryggju brún og annar náði í vírenda. Hvorugur slasaðist. Nýreist mastur vegna fjölsímasambands við Hornafjörð og einnig er fyrir móttakara er við símstöðina laskaðist eitthvað. Plötum rigndi um Friðarhöfn .Mestur hluti af syðsta húsi Vinnslustöðvarinnar, sem nefnt er Kína, fauk og einnig er talið að töluverður hluti af plötum af nýja pökkunarsalnum hafi farið. Hundruð af yfir 20 feta plötum rigndi um alla Friðarhöfn, trúlega af yfir hundruð fermetra fleti. Annars var hvergi gerlegt að fara nálægt til að kanna nánar skemmdir, og er stórmildi, ef ekki hefur orðið meiðsli á mönnum sem voru að bjarga bátum sínum. Hver hafði í rauninni nóg með að hemja sjálfan sig og urðu margir að henda sér niður, svo þeir steyptust ekki í sjóinn. Auk þess var margt lauslegt á ferðinni í rokinu. Á símstöðinni var jafn mikið að gera og þegar brunalúðurinn fer í gang, borðið varð hvítt og númerin hrundu niður, því allt fór á annan endann í bænum. Þrír Vestmannaeyjabátar eru á leið til Eyja frá því að hafa selt erlendis. Þeir halda sjó 70 mílur A-SA af Eyjum og voru kl. 67 í 14 til 16 vindstigum eða í spænuroki", eins.og þeir sögðu, en sjór var ekki að sama skapi mikill. Bátarnir eru Mb. Kristbjörg, Eyjaberg, sem eru saman og Leo er lítið eitt á eftir. Þetta eru allt stórir stálbátar. Fréttaritari.
Ísafirði, 23. október. Breski togarinn Northern Spray frá Grimsby strandaði kl. 21:47 í kvöld um 3 sjómílur innan við Rit. Tuttugu manna áhöfn skipsins hefur verið bjargað umborð í varðskipið Óðinn. Norðaustan rok og blindbylur var á Ísafjarðardjúpi, þegar togarinn strandaði undir Grænuhlið, á svipuðum slóðum og togarinn Egill rauði strandaði fyrir nokkrum árum. Breski togarinn James Barrie kom fyrstur á vettvang og mun hafa bjargað 8 mönnum með því að skjóta línu yfir í Northern Spray og senda síðan björgunarbát yfir að strandaða togaranum. Varðskipið Óðinn, sem fór frá Ísafirði um kl. 3 í dag, en þangað hafði varðskipið komið með togarann Life Guard, kom á strandstaðinn nokkru fyrir kl.23 og mun hafa bjargað þeim 12 mönnum, sem eftir voru í Northem Spray og hefur nú einnig tekið við mönnunum, sem James Barry hafði bjargað. Mun Óðinn koma með skipsbrotsmennina til Ísafjarðar. Ekki er talið vonlaust, að hægt kunni að draga skipið út, en skipherrann á Þór, taldi rétt fyrir miðnætti ekki öruggt að setja dráttarvíra í togarann vegna veðurs. Lítils háttar sjór mun vera kominn í togarann. Hávaðarok var í Ísafjarðardjúpi í kvöld. H.T.
Tíminn segir frá miklu tjóni í fréttapistlum 25.október:
HF, KH, FB-Rvík, 24.október. Í fárviðrinu í gær varð geysilegt tjón um allt land, einkum á Suðurlandi, enda mun þetta hafa verið mesta veður, sem mælst hefur hér á landi. Blaðið hafði í dag samband við menn um land allt og fara hér á eftir frásagnir af hamförunum.
Í Holtunum geisaði ofveður í gærdag og í nótt og víða fuku hey, sem stóðu úti og járnplötur af byggingum. Á Mykjunesi fauk gamalt fjós og losnaði gluggi í nýju fjósi, einnig fór mjög stór heystabbi, sem stóð á túninu, út í veður og vind. Á Efri-Rauðalæk fuku 10 þakplötur af heyhlöðu og á Syðri-Rauðalæk fór hálft þak af hlöðu og skúr, sem áfastur var við hana. Uppsláttur að nýju húsi gereyðilagðist í Helluþorpi. Í Ási tók upp nýlega fjárhúshlöðu, og fór hún 10 metra í loftinu, áður en hana bar niður aftur, alla í lamasessi. Í Hamrahóli vildi svo hörmulega til, að járnplata fauk í glugga á íbúðarhúsinu, svo að glerið fór í andlit húsmóðurinnar og varð að flytja hana á sjúkrahús í Reykjavík í gær. Á sama stað fuku bæði mikil hey og útihús, fjárhús, hlaða og hesthús, en það var mikið tjón fyrir bóndann, sem nýbúinn var að stofna bú. Einnig eyðilagðist mikið fyrir honum af byggingarefni. Héraðslæknirinn þarna, Ólafur Björnsson, kom í dag á bíl sínum yfir Markarfljótsaura, en hann var staddur þar fyrir austan, þegar óveðrið skall á, en á leiðinni gjörskemmdist bíll hans af sandfoki. Í Hvolhrepp fuku járn af húsum og hey úti um allar sveitir. Í Kaupfélagshúsinu á Hvolsvelli brotnuðu rúður, en þar er tvöfalt gler, geysistórt að flatarmáli, og brotnuðu einungis innri rúðurnar, vegna þrýstingsins. Þakplötur fuku og af verslunarhúsinu á Hellu. óveðursins gæti fyrst um tvöleytið, en einna hvassast var á milli 6 og 8.
Að Ámótum fauk gömul hlaða í loft upp og hafnaði hún uppi á fjósi, ekki er vitað, hve tjónið hefur orðið mikið. Í Vík í Mýrdal og þar fyrir austan var veðurofsinn mestur á milli klukkan fjögur og fimm og þá brotnuðu m.a. símastaurar við Klifanda og á Sólheimasandi, en menn muna ekki eftir öðru eins óveðri. Að Svínadal í Skaftártungu fauk stafn úr fjárhúsi og skúr fylgdi með, sem áfastur var við stafninn. Að Borgarfelli í sömu sveit fauk þak af 200 kindafjárhúsi og allt lauslegt hey tók upp. Að Ljótarstöðum, einnig í Skaftártungu fauk önnur hliðin af þakinu á íbúðarhúsinu og á Snæbýli fauk járn af húsakynnunum. Svo illa vildi til, að bóndann að Hvammi í Skaftártungu tók á loft upp í óveðrinu, og kom hann niður á bakið og herðarnar og hlaut af einhver meiðsli. Þó hafði hann smávegis fótavist í dag. Að Hraunbæ í Álftaveri reyndist óveðrið einna verst. Þar fór þakið af íbúðarhúsinu, svo að aðeins sperrurnar stóðu eftir, fyrir utan það, að þakplötur fuku af útihúsum. Þegar þakið tók af vildi svo illa til, að reykháfurinn lenti á spánnýjum bíl, sem stóð fyrir utan bæinn og gereyðilagði hús hans. Tíminn hafði í dag tal af bóndanum á Hraunbæ, Þorbergi Bjarnasyni og sagði hann, að ofsaveður hefði gert upp úr þrjú og þegar verst gegndi a milli kl. 4 og 5 hefði það ekki skipt neinum togum, heldur þakið svipst af íbúðarhúsinu og sperrurnar staðið eftir berar. Í dag var byrjað að smíða nýtt þak og ef veðrið helst eins gott og í dag verður það verk klárað á einum sólarhring. Þorbergur var ekki heima, þegar ósköpin gerðust, en þegar hann kom heim varð fjölskyldan fyrst að flytja í skúr, sem þarna var rétt hjá og síðan í fjósið, en svo gistu þau á nágrannabæ í nótt. Sonur Þorbergs. Vilhjálmur Þór Þorbergsson var staddur í heimsókn hjá foreldrum sínum, en hann er leigubílstjóri í Reykjavík. Var hann á nýjum leigubíl, en á honum lenti reykháfurinn, þegar þakið tók af. Húsið ónýttist alveg, en bíllinn var samt ökufær. Hann var kaskótryggður, en svo illa vill til að þær tryggingar ná ekki yfir tjón af völdum veðurs. Þorbergur sagðist giska á, að tjónið í allt, að bílnum meðtöldum, væri í kringum hundrað þúsund krónur.
Að Höfðabrekku við Vík í Mýrdal, fuku útihús, það voru sambyggð fjós, hlaða og fjárhús. en í fjósinu voru sex gripir, þrjár kýr og þrír kálfar. Þeir lágu undir brakinu í nótt, en voru grafnir undan í morgun. Tíminn hafði i dag tal af bónda i Höfðabrekku, Ragnari Þorsteinssyni, og sagði hann, að á milli klukkan fimm og sex hefðu útihúsin farið, en þá hefði varla verið stætt. Nautgripirnir hefðu náðst út heilu og höldnu i morgun, en þá hefði hann verið búinn að skríða inn í rústirnar um nóttina og gefa þeim hey ekki sást annað á þeim, en nokkrar skrámur. Þakplötur fuku einnig af íbúðarhúsinu hjá honum og 70 hestar af heyi. Ragnar sagðist halda, að í allt væri tjónið í kringum 3040 þúsund krónur. Einnig fuku þakplötur af íbúðarhúsum í Kerlingardal og á Hryggjum í Mýrdal. Í Landeyjunum var mjög hvasst og muna menn ekki eftir öðru eins óveðri, en ekki urðu neinir teljandi skaðar. Verst gegndi um sex-leytið og fauk allt lauslegt, sem úti var. Í Öræfunum gætti óveðursins að nokkru, þó ekki væri þar um að ræða neitt fárviðri. Engir skaðar urðu þar, að heitið geti og þegar verst lét voru vindstigin ekki nema 9. Það má því segja að tiltölulega rólegt hafi verið í Öræfunum miðað við aðra landshluta.
Töluverðar skemmdir urðu ó Síldarbræðslunni á Vopnafirði, þegar hvorki meira né minna en 300 plötur fuku af þaki verksmiðjunnar. Óveðrið byrjaði seinni partinn i gær og stóð fram undir morgun í morgun. Ekki var vitað um neitt tjón á bátum fyrir austan. Á Reyðarfirði varð ekkert tjón, og veður ekki sérlega slæmt í gær eða nótt. A Egilsstöðum var veðurhæðin mest á tímanum milli kl.9 og 11 i gærkvöldi, en óveðrið hélt áfram fram eftir nóttu, og fór síðan heldur að lygna. Var þetta óvenju mikið veður, enda gerir sjaldan stórveður á Héraði. Járnplötur fuku af annarri hlið þaksins á nýlegu barnaskólahúsi að Eiðum, og eru það einu verulegu skemmdirnar, sem frést hefur af á Héraði, annars fauk þar á hliðina gamall braggi, en hann mátti missa sig, að sögn fréttaritara blaðsins, og ekkert tjón af því, að hann fór. Veðrið var verst á tímabilinu milli kl. 10 og 2 í nótt á Seyðisfirði, og fuku þar járnplötur af hálfu húsþaki. Þetta er nýtt íbúðarhús sem er í smíðum, og fór járnið af annarri hlið þaksins.
Á Þórshöfn var veðurhæðin gífurleg, og fauk margt lauslegt. Tvær trillur sukku í höfninni. Magnús Jónsson og Haraldur sonur hans áttu sína hvor. Trillurnar hafa nú náðst upp, og eru þær óbrotnar. Þak fauk af og veggir gliðnuðu í sundur á gömlu timburhúsi, sem í vora geymdar 3 þúsund gærur. Gærunum tókst að bjarga. 15 plötur fuku af þaki frystihússins á Þórshöfn, þak skemmdist á mjölgeymslu og fiskimjölsverksmiðju Fiskiðjusamlagsins, og skreiðarhjallar brotnuðu. Þak fauk af nýju íbúðarhúsi á Flögu í Þistilfirði, gafl fauk af hlöðu að Hvammi í Þistilfirði, og þak fauk af hlöðu á Gunnarsstöðum á Langanesströnd. Heytjón varð allvíða í sveitum, en ekki stórkostlegt. Mývetningar áttu erfiða nótt, og sagði heimildarmaður blaðsins, að einhverjir skaðar hefðu orðið þar á flestum bæjum. Hey fauk á nokkrum bæjum, m.a. á Bjargi, Arnarvatni og víðar. Í Vogum tók þak af hlöðu, og svo var þakið vel fest við einn vegginn, að hann fauk með. Þak tók af fjárhúsi á Syðri-Neslöndum, og veggur fauk af nýbyggðu fjárhúsi á Arnarvatni. Þá skekktust margir rafmagnsstaurar í sveitinni, og úr Mývatni rauk yfir húsin sem næst standa vatninu. Í haust hefur vatnið verið hækkað um nokkra tugi sentimetra vegna virkjunarinnar, og í óveðrinu hækkaði það enn. Eru bændur nokkuð uggandi um, að vatnið muni eyðileggja land fyrir þeim. Blaðið frétti, að á Hofsstöðum hefði fokið heilt fjárhús, en ekki tókst að fá staðfestingu á því, áður en símstöðvum var lokað. Frá Laxárdal í Þingeyjarsýslu er það helst að segja, að þar fauk brú, sem átti að setja á Laxá skammt norðan við Kasthvamm. Brúin var gömul, var áður á Brunná í Axarfirði. Var búið að reisa turn til að lyfta brúnni upp og setja hana á ána. Í nótt fauk brúin á turninn og lagði hann saman. Nokkur truflun var á rafmagnslínunni frá Laxárvirkjun til Húsavíkur í rokinu, og varð bærinn ljóslaus við og við í gærkvöldi. Margir sjómenn voru uggandi um báta sína í höfninni, en ógjörningur var að fylgjast með þeim vegna særoks og myrkurs. Betur fór en búist var við, því að enginn bátur sökk, en nokkrir höfðu dregist til í höfninni.
Fréttaritari blaðsins á Kópaskeri sagði veðrið í nótt hafa verið með því hvassasta sem yrði þar um slóðir. Margir bændur í Axarfirði og Kelduhverfi urðu fyrir heytjóni af völdum óveðursins, og mun láta nærri, að fokið hafi ofan af heyjum á öðrum hverjum bæ þar. sem hey eru úti. Ekki er enn fullkannað, hversu miklu tjóni bændurnir hafa orðið fyrir. Járnplötur fuku af hlöðuþökum á Hóli í Kelduhverfi og Reistarnesi í Presthólahreppi, en af fjárhúsi á Skögum í Axarfirði. Þá fuku einnig járnplötur af annarri hliðinni á nýbyggðu skólahúsi við Lund í Axarfirði. Húsið varð fokhelt í haust. Á Kópaskeri urðu skaðar ekki aðrir en að skúr einn hvarf í vindinn, og hefur ekki fundist tangur né tetur af honum. Var það verkfæraskúr, sem byggingafélag á Akureyri átti, en það hefur annast smíði nokkurra íbúðahúsa á Kópaskeri í sumar. Þau stóðust storminn, en skúrinn hvarf gjörsamlega og einhver verkfæri glötuðust einnig. Víða var byggingum hætt í ofviðrinu,
Raufarhafnarbúar áttu margir andvökunótt vegna óveðursins, sem náði mestum styrkleik milli kl. 10 og 12 í gærkvöldi. Um 30 bátar lágu í höfninni og voru í mikilli hættu. Einn trillubátur sökk og tvær trillur rak upp á land. Báturinn, sem sökk, var tveggja tonna trilla, Harpa, eign Hreins Ragnarssonar, kennara. Hann sökk á legunni, en hefur ekki enn náðst upp, svo að ekki er vitað um skemmdir. Hinir bátarnir skemmdust lítið sem ekkert. Járnplötur fuku af þökum á tveimur húsum. Urðu íbúarnir að flýja úr öðru þeirra yfir nóttina, en skemmdir urðu þó ekki miklar. Þá brotnuðu girðingar og rúður, og eitt og annað lauslegt fauk. Rafmagnslína slitnaði, og var suðurhluti þorpsins myrkvaður um tíma. Áttu margir þorpsbúa andvökunótt, einkum bátaeigendur. Fjórir norskir síldarbátar lágu í höfninni og áttu í erfiðleikum, þegar verst lét.
Frá Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu bárust þær fréttir, að í dalnum og sveitunum í kring hefði eitthvað fokið á flestum bæjum, þakplötur á nokkrum stöðum og hey á öðrum. Héraðsskólinn á Laugum varð rafmagnslaus vegna þess að svo mikið hey fauk í Reykjadalsá, að rafmagnsstöðin, sem skólinn hefur við Laugaból stöðvaðist. Járnplötur fuku m.a. af nýja barnaskólanum, sem er í byggingu á Litlu-Laugum. Fjórir símastaurar brotnuðu í Reykjadal, og símasamband var tregt við Breiðumýri fyrri hluta dagsins. Símabilanir urðu víða annars staðar á Norðurlandi í nótt. Gróðurhúsin á Hveravöllum í Reykjahverfi urðu fyrir einhverjum skemmdum í ofviðrinu. Laxárrafmagnið rofnaði af og til á veitusvæðinu í nótt. Á Akureyri fuku allvíða járnplötur af þökum, og uppsláttur fauk einnig á nokkuð mörgum stöðum. Munaði oft mjóu að hlutir lentu á mönnum eða bílum í ofsanum, en slys urðu þó ekki nema á tveimur mönnum í gærkvöldi, eins og getið er um í blaðinu í dag. Mestur hluti þaksins fauk af nýrri hlöðu á Draflastöðum í Sölvadal, og hlaða skemmdist einnig á Eyvindarstöðum í Sölvadal. Tíu járnplötur fuku af frystihúsi í Hrísey. Við lá að stórbruni yrði á bænum Sólvangi á Árskógsströnd í gærkvöldi. Heimilisfólk þar hafði brugðið sér að heiman, en þegar það kom heim til sín um kl. 10, var húsið allt fullt af reyk. Var þegar hringt í slökkviliðið á Dalvík, og komst það strax fyrir orsök eldsins og gat slökkt hann. Hafði kviknað í saumavél með rafmagnsmótor, en það kom í veg fyrir útbreiðslu eldsins, að allir gluggar og dyr voru harðlokaðar. Lítið brann annað en saumavélin og einhver fatnaður. Í gær reri maður, einn á trillu, frá Akureyri, og var á leið inn fjörðinn, þegar veðrið rauk upp. Hann náði ekki landi á Akureyri og fór austur yfir fjörðinn til Svalbarðseyrar. Batt hann trillu sína við bryggju þar, en hún var sokkin, er hann hugði að í morgun. Eigandi trillunnar er frá Þórshöfn en rær frá Akureyri. Í morgun fannst sex tonna trillubátur rekinn uppi í fjöru á Grenivík og er hann að liðast þar í sundur. Trillan er eign Jóhanns Ásmundssonar frá Litla-Árskógssandi, og hefur hún slitnað upp í óveðrinu í nótt og rekið austur yfir fjörðinn.
Freyr Gestsson, bóndi á Barká í Hörgárdal, varð fyrir tilfinnanlegu tjóni í þessu ofsaroki. Hann átti 30 kúa fjós í byggingu og var búið að hlaða veggi og átti að byrja að reisa í dag. Í morgun voru veggirnir orðnir að grjóthrúgu. Rétt hjá er nýbyggð fjóshlaða, og fauk af henni mestur hluti þaksins. Sést ekki urmull af því neins staðar í nánd. Nýbyggingarnar standa flestar 7800 metra frá bænum, en heima við er gamalt fjós og fjóshlaða. Lagðist gamla hlaðan alveg saman í veðrinu, en hey fauk ekki. Kvaðst Freyr hafa orðið fyrir mjög miklu tjóni, sem ekki er enn metið. Hvasst var á Siglufirði í gærkvöldi, en lægði upp úr miðnætti. Ekkert tjón varð. Frá því snemma í morgun til þess, er blaðið hafði tal af fréttaritara um miðjan dag, hafði verið látlaus snjókoma, og var þæfingsfærð á götum bæjarins, allir bílar með keðjur.
Geysilegt hvassviðri var á Sauðárkróki, en fréttaritara blaðsins var ekki kunnugt um aðrar skemmdir í kaupstaðnum eða sveitunum í kring en að þakplötur fuku af einu húsi, á Sauðárkróki og stór rúða brotnaði í öðru. Á Blönduósi var hvasst, en veðrið náði sér þó aldrei verulega upp. Í dag var þar hvítt niður að sjó. Á Ólafsfirði var rokið mest milli kl. 6 og 10 í gærkvöldi, og fylgdi því úrhellisrigning. Fréttaritara var þó ekki kunnugt um neina skaða af völdum veðursins þar, né í sveitum nálægt Ólafsfirði.
Í dag var gerð tilraun til þess að ná togaranum Northern Spray út, þar sem hann hafði strandað undir Grænuhlíð, en það mistókst, og verður gerð önnur tilraun um eittleytið í nótt. Í morgun fóru yfirmenn togarans og menn úr áhöfn Óðins, sem bjargaði áhöfninni í gærkvöldi eftir strandið, um borð í togarann og komu fyrir dælum í honum. Leki er kominn í fiskilestar togarans, en annars virðist hann ekki vera mjög mikið skemmdur. Um hádegisbilið var settur vír í Northern Spray og var ætlunin, að reyna að ná honum út, en það mistókst, því vírarnir slitnuðu. Varðskipið Albert hefur verið á þessum slóðum í dag, en kom svo inn til Ísafjarðar síðdegis, til þess að ná í bensín á dælurnar. Northern Spray rak á land á svipuðum stað og togarinn Egill rauði strandaði fyrir allmörgum árum. Hafði breski togarinn látið reka þarna í gærkvöldi, en klukkan 21:47 heyrði Óðinn fyrsta neyðarkallið, en hann var staddur þarna skammt frá.
Tilraun til björgunar breska togarans Northern Spray var hætt á ellefta tímanum i kvöld, að því er Þórarinn Björnsson skipherra á Óðni sagði okkur í kvöld, og var ástæðan sú, að skipherrann áleit togarann vera svo ónýtan orðinn, að hann þyldi ekki vírana. Veður var slæmt á Barðaströnd, og á Þingmannaheiði sátu fjórir bílar fastir í nótt, en þangað fór ýta í dag, og aðstoðaði þá við að komast aftur til byggða. Maður hafði lagt af stað yfir Þingmannaheiði og var hann á Austin Gipsy-jeppa. Sat jeppinn fastur á heiðinni, maðurinn komst sjálfur við illan leik niður að Firði í Múlahreppi. Þá var maður að flytja búferlum frá Patreksfirði til Kópavogs. Hafði hann lagt af stað með búslóð sína í gær en bíllinn sat fastur í Þingmannadal. Ýta aðstoðaði síðan alla þessa bíla til þess að komast aftur niður af heiðinni, og voru þeir komnir heilu og höldnu til byggða í dag.
Það er af bátnum Elliða að segja og áhöfn hans, að þegar fór að hvessa af norðan í gær, hröðuðu skipverjar sér til Elliðaeyjar og lögðu bátnum þar. En skömmu siðar dró hann upp legufærin og rak upp að Breiðhólma, sem er áfastur við Elliðaey. Þangað fór svo bátur frá Stykkishólmi í morgun og dró hann til Stykkishólms, þar sem hann var settur í slipp. Þegar þeir félagar sigldu bátnum til Elliðaeyjar í gær, hafði vélin skyndilega bilað og það var rétt svo að þeir komust í land, áður en hún gafst upp.
Morgunblaðið segir frá 25.október:
Óveðrið sem gekk hér yfir á miðvikudag, kom mjög á óvart. Voru menn því vanbúnir, t.d. voru skip í höfnum ekki undir það búin að standa af sér slíkt fárviðri. Var vakað í skipum í flestum höfnum umhverfis landið. SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, stóð fyrir utan skýli, þegar veðrið brast á. Var ekki hægt að koma henni inn í veðrinu, heldur varð áð binda hana niður og hlaða sandpokum. Morgunblaðið spurði Veðurstofuna í gær, hvers vegna veður þetta hefði komið svo skyndilega, án þess að hægt hefði verið að vara við því. Veðurstofan sagði, að gert hefði verið ráð fyrir því, að lægðin, sem veðrinu olli, færi hratt yfir, en þó ekki eins hratt og raun varð á. Fór hún með 70 km hraða á klukkustund. Hitt skipti meiru máli, að hún dýpkaði miklu meira en búist var við, eða 4050 mb á sólarhring.
Vík í Mýrdal, 24. október. Á þriðja tímanum í gær brast hér á suðvestan fárviðri. Voru margir veðurtepptir i Vík, þar sem ekki var viðlit að komast á nokkurn bæ fyrir veðurofsanum, hvorki fyrir austan eða vestan Vík. Símalínur hafa víða slitnað og símastaurar sópast burtu. Sambandslaust er víða og erfitt að afla frétta. Sogsrafmagnið rofnaði og er nú notast við rafmagn frá gömlu díeselmótorunum. Tjón hefur orðið á mörgum bæjum. Það sem frést hefur af bæjum er þetta: Á Höfðabrekku stendur íbúðarhúsið eitt, en hér um bil öll önnur hús eru fokin eða hrunin, þ.e.a.s. fjós, hlaða og hesthús. Menn fóru frá Vík að Höfðabrekku í morgun, en símasambandið er rofið. Aðstoðuðu þeir við að ná kúnum undan rústum fjóssins, og reyndust þær lifandi en slasaðar. Ég fór einnig á staðinn og hafði viðtal við fólkið, og birtist það síðar í fréttinni. Í Kerlingardal fauk miðjan úr þaki íbúðarhússins yfir 20 plötur. Þak fauk af hlöðu, heyvagn fauk út í buskann og hefur ekki sést síðan. Rafmagnsvírar kubbuðust í sundur. Járnplötur yfir súrheysgryfju eru foknar og horfnar. Á Hryggjum í Mýrdal fuku 9 þakplötur og eitthvað af klæðningu. Á Litlu-Heiði eyðilagðist nýtt fjárhús mikið. Á Hraunsbæ í Álftaveri fauk þak íbúðarhússins og lenti á nýjum leigubíl úr Reykjavík, sem skemmdist. Það var aðallega skorsteinninn, sem lenti á bílnum. Búið var að aka honum 30 þúsund km. Á Borgarfelli í Skaftártungum fauk fjárhús og hlaða. Í Svínadal fauk fjárhús. Á Snæbýli fauk hlaða og á Ljótarstöðum fauk járn af nýju íbúðarhúsi. Á Loftsölum brotnuðu símastaurar, tvö útihús og hlaða fuku.
Ég fór austur að Höfðabrekku í hádeginu í dag. Þar var þá búið að bjarga kúnum og koma þeim í fjós á næsta bæ. Voru þær allar, 34 talsins, lifandi en allar meiddar. Ragnar Þorfinnsson býr á Höfðabrekku. Hann var í Vík, en kona hans, dóttir og dótturdóttir voru einar heima, þegar mestur veðurofsinn var. Ragnari og konu hans sagðist svo frá: Veðrið var verst kl. 56 í gærkvöldi. Þá fuku og hrundu útihúsin. Íbúðarhúsið er úr steini, 3540 ára gamalt. Það nötraði og skalf og mátti búast við að það hryndi á hverri stundu, en úti var óstætt. Þetta er það langversta veður, sem gert hefur þau liðlega 20 ár, sem við höfum verið hér. Mæðgurnar sátu inni í hnipri og ekkert heyrðist fyrir þessum veðurgný. Hér á Höfðabrekku stóð vindurinn af suðaustri og hrein furða að austurgafl íbúðarhússins skyldi ekki koma inn á okkur. Ekki fór að draga úr veðurofsanum fyrr en um ellefu leytið. Kúnum var bjargað út úr rústunum kl. 11 í morgun. 6070 hestar af heyi hafa fokið. Fjárhús og heyturnar nokkru vestan við bæinn eru líka skemmd. Þetta er orðið æði mikið tjón, aðeins járnið sem fokið er, skiptir tugþúsundum króna og ekki er enn séð fyrir endann á öllu tjóni, þar sem ekki er enn vitað hve miklu heyi verður bjargað. Helmingur af þaki á súrheysgryfju á næsta bæ, Rap'nisbrekku, fauk líka. Allmikið rok var enn í Höfðabrekku meðan ég dvaldi þar. Bráðabirgðaviðgerð á þaki íbúðarhússins var framkvæmd strax eftir hádegi í dag. Spýtnabrak og járn er eins og hráviðri um allar brekkur og Ragnar bóndi segir, að nú verði rekinn týndur í brekkunum, en ekki í fjörunni. Sprungnir steingaflar úr fjósi og hlöðu liggja á túninu. Aðkoman var eins og eftir loftárás. Viðar bóndi Björgvinsson í Suður-Hvammi í Mýrdal sagði mér í síma að þetta væri eitt allra versta veður, sem menn myndu. Hann kom til Víkur og rétt náði heim til sín í gær. Ég spurði Viðar nánar um þetta ferðalag. Ég fór lækniserinda til Víkur og á heimleiðinni lenti ég í þessu óskaplega veðri. Ég var einn í jeppa og var hann margsinnis nærri skollinn út af veginum. Ég veit ekki hver bjargaði því eða stýrði jeppanum þá. Hvar var svo verst? Í Grafargili og á Gatnabrún, þar sem vindurinn skall þvert á bílinn. Í Gatnabrún þræddi ég vinstri vegarkant eftir því sem ég þorði og svo þegar allt ætlaði um koll að keyra, þverventi ég bílnum á veginum til þess að fá vindinn í gaflinn og stansaði. Beið ég þannig góða stund, uns ég gat haldið áfram heim. Þess má svo geta í sambandi við þetta fárviðri að loftlampi datt niður í einu húsi í Vík í einni vindhviðunni. Var þetta í risíbúð, en þó í steinhúsi. Kristmundur Gunnarsson var að aka stórum verslunarbíl frá Verslunarfélagi Vestur-Skaftfellinga út í Mýrdal í gærdag. Var veðurhæðin þá slík og grjótflugið af veginum á bílinn, að bílstjórinn vissi ekki fyrr en hann fékk framrúðuna inn á sig. Fréttaritari.
Akureyri 24. október. Veðurhæð mældist mest 15 vindstig, 96 hnútar, í verstu byljunum hér á flugvellinum. Vindmælirinn stóð í 1214 stigum að jafnaði, 6085 hnútar, milli kl.19 og 20, en á lögreglustöðinni mældust mest 9 vindstig, 42 hnútar, enda stendur hún í skjóli milli húsa. [Gamla lögreglustöðin á Akureyri stóð við Smáragötu]. Til viðbótar fyrri fréttum er þetta helst að segja: Uppsláttur að útveggjum í húsi í Glerárhverfi, eign Jóns Árnasonar, lagðist niður á þrjá vegu, en var þó vandlega styrktur fyrir veðrið. Ennfremur fauk þar vinnuskúr. Nýhlaðinn veggur í húsi Guðmundar Georgssonar við Suðurbyggð lét undan veðurofsanum, brotnaði og lagðist inn í tóftina. Bát sleit frá Höepnersbryggju og rak út eftir Pollinum, stakk stafni við Oddeyri innanverða, lítt eða ekki skemmdar. Rúður brotnuðu viða í húsum, og plötur fuku af þökum. Fólk var víða á stjái fram eftir nóttu við að vinda upp vatn, sem pískaði inn um glugga og gættir.
Fosshóll. Símasamband var slæmt um nágrennið og ógreinilega vitað um skaða. Eitthvað fauk af þakplötum á bæjum, og nokkrir heyskaðar urðu, m. a. á Litluvöllum. Á nýbýlinu Heiðarbraut sprakk steyptur hlöðuveggur og hallaðist inn í hlöðuna, en hangir þó uppi. Þar fauk af vélageymslu á Ingjaldsstöðum. Ennfremur fauk þar ofan af nýhlöðnum vegg. Raflínustaur brotnaði á túninu á Fljótsbakka. Mönnum ber saman um, að þetta sé eitthvert ægilegasta veður, sem menn muna. Fjórir menn voru í göngum suður með Skjálfandafljóti austanverðu og voru væntanlegir til byggða í gærkvöldi, en voru ókomnir kl. 17 í dag. Þeir eru á tveimur bílum, og ekki talin ástæða til að óttast um þá enn.
Grenivík í morgun rak bátinn Þorvald EA 474, tíu lestir að stærð, á land rétt austan við Akurbakka, ysta húsið á Grenivík. Hafði hann legið við bryggju á Hauganesi, slitnað frá og rekið mannlausan þvert yfir fjörðinn inn á leguna á Grenivík, framhjá bátum, sem þar lágu við festar. Hefur hann verið að liðast í sundur og brotna í dag, enda mikil kvika. Um eitt í dag lá hann þvert fyrir brimöldunni, og gekk sjór inn og út um hann. Eigandi bátsins er Jóhann Ásmundsson á Litla Árskógssandi. Báturinn var keyptur frá Grindavík í fyrra og hét áður Glaður. Allmikið af heyi fauk á Hjalla, ysta byggða bænum á Látraströnd, og á eyðibýlinu Borgargerði fauk útihús af grunni. Á Kljáströnd átti Höskuldur Guðmundsson í Réttarholti í Höfðahverfi árabát í uppsátri. Hann færðist til undan storminum og mjakaðist á hliðinni 3040 metra, en hvolfdi ekki. Símalínur innansveitar slitnuðu, og rafmagnið fór um kl. 21 í gærkvöldi. Kom það ekki aftur fyrr en um hádegi í dag. Lína hafði slitnað á Svalbarðsströnd. Hrísey: Þar varð ekkert teljandi tjón, hvorki á sjó né landi, nema nokkrar þakplötur fuku af frystihúsinu. Bát sleit upp í morgun, en hann náðist fljótlega aftur óskemmdur. Í innanverðum Eyjafirði er ekki kunnugt um neina skaða, sem í frásögur eru færandi.
Morgunblaðið hefur átt tal við nokkra af þeim skipstjórum, sem voru á leið til lands á skipum sínum, þegar óveðrið skall á í gær.
Sigurður Gunnarsson skipstjóri á Eyjabergi frá Vestmannaeyjum var á leið heim frá Englandi, segir hafa verið brælu alla leiðina heim frá Englandi, segir hafa verið brælu alla leiðina frá Leith en þar hafi þeir komið við. Óveðrið hafi skollið á kl.3 í gær og alveg skyndilega. Hafi síðan verið vitlaust veður til kl.7 um kvöldið. Voru þeir 40 mílur SA af Portlandi og reyndum að halda sjó. Klukkan eitt um nóttina byrjuðum við svo að lóna til Eyja. Sigurður segir ölduganginn hafa verið þann mesta, sem hann hafi séð og rokið afskaplegt. Skipstjórinn á Öskju, Atli Helgason, sem Morgunblaðið talaði við kl. 3 gegnum Vestmannaeyjaradíó, en þá var Askja stödd 260 mílur austur af Portlandi, sagðist ekki hafa lent í neinu ofsaveðri, en það hafi verið óþverra veður og magnast kl. 8-9 í gærkveldi og veðurhæðin sennilega verið um 10 vindstig. Skipstjórinn á Laxá, Rögnvaldur Bergsveinsson, sagði veðrið víst hafa verið vont á leiðinni, hafi þeir m.a. legið um 10 tíma undir Færeyjum, en þeir hafi komið inn í gær og líklega sloppið við öll ósköpin. Skipstjórinn á Kristbjörgu frá Vestmannaeyjum, Sveinn Hjörleifsson, sagði Morgunblaðinu í símtali, að óveðrið hafi skollið skyndilega á um kl.3 í gær og hafi komið án allrar aðvörunar. Þetta hafi verið mesta veður, sem hann myndi eftir, og hefði hann þó oft séð það svart, eins og um jólaleytið í fyrra, þegar hann skrapp heim til Eyja, en þá var foraðsveður, sama veðrið og Herjólfur lenti í. Hann telur, að veðurhæðin nú hafi verið 16 vindstig, og stærstu öldur, sem hann hafi séð, það hafi verið sjóir slag í slag, og hafi siglt hálfa ferð uppí. Veðurofsinn hafi haldist svona fram undir kl.9 en þá hafi byrjað að slota. Kl.10 hafi hann byrjað að lóna til lands. Hafi þeir séð til ferða Eyjabergs um miðnætti, og fylgdust skipin að til Eyja og komu þangað kl.11 í morgun.
Tvær tilraunir voru gerðar í gær, til þess að ná breska togaranum Northern Spray á flot, en hann strandaði undan Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi í fyrrakvöld, eins og frá var skýrt í Morgunblaðinu í gær. Reyndi Óðinn tvívegis að draga hann á flot, en dráttartaugin slitnaði í hæði skiptin. Mun nú talið vonlaust að bjarga skipinu, enda er það gamalt og þolir illa veltinginn á skerinu, sem það strandaði á. Þar vegur það salt. Verða dælurnar fluttar úr skipinu með birtingu í dag, svo og önnur verðmæti. Eru allar horfur á því, að skipið beri heinin þarna, en það hefur lengi stundað veiðar við ísland. T.d. tvístrandaði það við Ísafjarðarkaupstað í desember 1950, og í júní 1961 reyndi það nokkrum sinn um að sigla á Óðin sama skipið og nú bjargar áhöfn þess.
Morgunblaðið heldur áfram 26.október:
Þak fauk af íbúðarhúsinu í Hraunbæ í Álftaveri s.l. miðvikudag í hinu mikla óveðri, sem þá gekk yfir landið. Fréttamaður blaðsins ræddi í gær í síma við Þorberg Bjarnason, bónda í Hraunbæ og bað hann að segja frá atburðinum. Það var á miðvikudagskvöldið, sem veðrið skall á með miklum ofsa, sagði Þorbergur. Skyndilega bættist mikið hark og brak við veðurhljóðið og eftir skamma stund áttuðum við okkur á því, að þakið var að fjúka af húsinu. Meiddist enginn er þakið fauk? Nei, allt heimilisfólkið, 10 manns, var inni í húsinu er þakið fauk og allir á neðri hæð, því að ekki er búið í risinu. Fauk þakið langt? Nei, en þegar það kom niður, tættist það í sundur, og járnplöturnar dreifðust um allt. Börn, sem voru inni í húsinu er þakið fauk, urðu mjög hrædd. Er búið að setja nýtt þak á húsið? Í gærkvöldi var lokið við að koma upp bráðabirgðaþaki og mátti ekki seinna vera, því að þá fór að rigna og í dag hefur einnig rignt. Allt efni í nýtt þak er komið hingað heim að Hraunbæ, en ég veit ekki hvenær verður hægt að ljúka við að koma því á. Er íbúðarhúsið gamalt? Já, það er gamalt hús, en ekki er langt síðan að þakið var endurbætt. Að lokum sagði Þorbergur að elstu menn í Álftaveri myndu ekki annað eins veður og á miðvikudagskvöldið.
Stöðvarfirði, 25.október. Á miðvikudaginn brast hann á með sunnan- og suð-vestan roki. Annað eins veður hefur hér ekki komið í mörg ár. Fuku margar járnplötur af húsum og þrír bátar, sem lágu á legunni sukku. Það voru 2 trillubátar og einn 9 tonna dekkbátur. Kafari var fenginn frá Norðfirði og vann hann að því í dag að ná dekkbátnum upp. Haft er eftir kafaranum, að bátnum hafi hvolft, því bæði möstrin væru brotin. Síðdegis i dag tókst að ná dekkbátnum upp og var hann talsvert skemmdur. Trillubátunum tókst að ná upp í gær. Það verk unnu eigendur þeirra með aðstoð hjálpfúsra. Bátarnir voru lítið skemmdir. Tíðarfar hefur verið fjarska umhleypingsamt í haust, en sumarið var yfirleitt ágætt. Stefán.
Í óveðrinu á miðvikudaginn fuku tveir menn í Vestmannaeyjum, annar, Kristján Sigurjónsson, fauk 40 til 50 metra og meiddist á handlegg, en hinn, Bergsteinn Jónasson, var rétt fokinn fram af bryggjunni. Fréttamaður hlaðsins átti í gær tal af Kristjáni og Bergsteini og auk þess ræddum við við Sigurgeir Scheving, en hann sá járnplötur fjúka fram hjá eins og eldglæringar. Kristján Sigurjónsson, formaður á Erninum, sagðist hafa verið á leið niður að höfn til þess að huga að bát sínum, er hann tókst á loft og fauk um 40 til 50 metra veg. Var yður ekki meint af þessu ævintýri, Kristján? Ég skall harkalega niður á annan handlegginn og meiddist talsvert á olnboga. Þegar ég fauk voru járnplötur af þaki fiskvinnsluhússins á þeytingi allt í kringum mig og má heita guðs mildi, að ég varð ekki fyrir þeim. Hvernig leið yður á fokinu? Ég get nú ekki lýst því, en mér finnst furðulegt, að vindurinn skyldi vera nægilega sterkur til þess að feykja 80 kg skrokk svo langa leið Þegar ég tókst á loft var ég á leið niður brekku, sem liggur að höfninni. Ég gekk á miðri götunni, en til beggja handa eru há hús. Ég vissi ekki fyrr en ég tókst á loft og valt og fauk þar til ég stöðvaðist niðri á höfninni með áðurgreindum afleiðingum. Og járnplöturnar hafa fokið framhjá yður? Já, en þær fuku lengra, enda léttari en ég. Plöturnar dreifðust um höfnina og á milli verstu hviðanna tíndu mennirnir, sem voru að vinna þar, þær upp og köstuðu þeim í sjóinn, milli Fjallfoss, sem lá í höfninni, og bryggjunnar. Öðruvísi var ekki hægt að hemja þær. Bergsteinn Jónasson, hafnarvörður, var að vinna við höfnina þegar óveðrið skall á um kl. 6 e.h. Við hófumst þegar handa um að binda skipin betur, sagði Bergsteinn, en þau voru tvö við bryggjuna, þegar óveðrið skall á, Fjallfoss og breskur togari. Fjöldi báta lá í höfninni. Við hringdum til formannanna og gerðum þeim aðvart. Komu þeir með áhafnir sínar og vöktuðu bátana meðan óveðrið gekk yfir. Oft þurfti að skipta um kaðla, sem voru að slitna, en engan bát rak frá. Mjög erfitt var að athafna sig í þessu veðri, en það tókst vonum framar að hemja skipin og engar skemmdir urðu á þeim. Bryggjan, sem er úr tré, laskaðist lítilsháttar, er skipin slógust utan í hana. Var ekki erfitt að fóta sig í veðrinu? Jú, það var hált á bryggjunni og í einni vindhviðunni var ég nærri fokinn í sjóinn. Mig hrakti fram á bryggjubrún, en þar tókst mér að ná tökum á vír, sem notaður er til þess að binda skipin og hélt mér í hann þar til hviðan var gengin yfir, en þá gat ég staðið upp. Hve lengi þurfti að gæta skipanna og bátanna? Við vorum við höfnina frá því að hvessti og fram eftir nóttu. Vindofsinn var mestur fyrst, en um kl. 11 tók að lægja. Eins og eldglæringar Sigurgeir Scheving, sem rekur Verkamannaskýlið við Friðarhöfn, var í skýlinu er veðrið skall á. Verkamannskýlið er timburhús, sagði Sigurgeir, og í fyrstu vindhviðunni hélt ég að það myndi fjúka, því að veggurinn, sem sneri upp í vindinn skókst til og vörur í hillum á honum köstuðust fram á gólfið og yfir afgreiðsluborðið. Ég held, að Verkamannaskýlið hefði fokið, stæði það ekki í skjóli við stórt steinhús. Sáuð þér þegar járnplöturnar fuku af þaki fiskvinnsluhússins? Já, þær fuku margar fram hjá skýlinu, eins og eldglæringar, svo mikill var hraðinn. Margar lentu plöturnar á Fjallfossi þar sem hann lá, en engar skemmdir urðu á skipinu af völdum þeirra. Hvað fuku margar plötur? Ég held að þær hafi verið milli 70 og 80. Þegar veðrið var sem verst voru nokkrir menn af Fjallfossi á leið inn í bæinn, en þeir urðu að leita skjóls í skýlinu hjá mér vegna ofsans. Urðu skemmdir þarna í kring? Nótabátur fauk á tvo rafmagnsstaura hérna nálægt og braut þá og enn er rafmagnslaust hér í skýlinu. Götuljós við höfnina slokknuðu einnig, en nú er búið að gera við þau.
Morgunblaðið 27.október:
Grímsstöðum í Mývatnssveit 24. október: Hér gekk yfir feikna mikið slagveður í gær, eitt hið mesta, sem hér hefur komið. Þak fauk af tveimur hlöðum, og í annarri, á Vogum, fauk 19 metra langur steinsteyptur veggur. Hann tók í sundur alveg niðri við jörð. Á Syðri-Neslöndum fauk þak af gömlum fjárhúsum, á Arnarvatni veggur í fjárhúsi, sem verið var að steypa, og mikið af heyi. Á Skútustöðum urðu töluverðar skemmdir á fjárhúsþökum. Víða fuku þakplötur að meira eða minna leyti. Raflínustaurar sunnan við vatnið fóru að hallast undan veðrinu og skekktust. Vantaði lítið á, að rafmagnið færi. 5 smábátar við vatnið fuku. Þá fuku nýbyggð fjárhús á Hofsstöðum. Fóru 2/3 hlutar af þakinu og einn veggurinn. Fauk þakið í stórum stykkjum og lán að það fauk ekki á íbúðarhúsið. Sperrurnar af húsinu gengu 8090 sm niður í jörðina. Hefur tjónið hér í Mývatnssveit orðið mikið. Varð einhver skaði á flestum bæjum, og járnplötur fuku í hundraðatali. Jóhannes.
Morgunblaðið segir loks frá tjóni í fyrra veðrinu í Grindavík 30.október:
Grindavík, 26. október. Þegar flóðbylgjan gekk hér á land um síðustu helgi [laugardaginn 19.], brotnaði 2030 metra langur kafli úr hafnargarðinum hér í Grindavík. Álíka langur kafli er mjög siginn og sprunginn. Þetta er mesta flóð, sem hér hefur orðið í 30 ár. Gekk sjór allt upp á götur þorpsins.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veðrin miklu 19. og 23. október 1963. Eins og venjulega er blöðum og blaðamönnum þökkuð þeirra mikla vinna.
16.9.2024 | 13:30
Fyrri hluti september 2024
15.9.2024 | 03:00
Leitahretið mikla í september 1963
Ritstjóri hungurdiska vinnur nú að samantekt um veðuratburði ársins 1963. Pistillinn hér að neðan hefði átt að verða hluti þeirrar löngu samantektar, en þá hefði verið nauðsynlegt að stytta hann að mun. Því er gripið til þess ráðs að taka hann út fyrir sviga.
Sumarið 1963 var stutt. Vorið var mjög hretasamt og þrátt fyrir allgóða kafla í júní og aftur í ágúst var fremur kalt í veðri, sérlega kalt var í júlí. Fyrir 10. september gerði allmikið hret, þá snjóaði allmikið norðaustanlands og fé fennti en veðurharka var samt ekki mjög mikil - eitt þeirra fjölmörgu hreta sem talsvert er talað um þegar þau gerir, en falla síðan í gleymsku og dá að mestu.
Það hret sem hér er fjallað um varð mun minnisstæðara. Tvennt kom til. Í fyrsta lagi snjóaði óvenju mikið um vestanvert Norðurland og í öðru lagi hitti veðrið í margar af lengstu fjárleitum landsins, sem á þessum tíma var farið í heldur seinna en nú tíðkast. Er óhætt að fullyrða að það er ekki oft sem leitarmenn hafa lent í jafnmiklum erfiðleikum og að þessu sinni. Þurftu jafnvel að hætta við í miðjum klíðum og hrekjast til byggða. Má í þessu tilviki segja að kuldarnir um sumarið - og hið minna hret nærri hálfum mánuði áður hafi bjargað nokkru - talsvert af fé hafði þegar komið sér úr heiðum og afréttum og óvenju fátt þar að finna. Réttir urðu víða ekki svipur hjá sjón. Þetta gerir veðrið trúlega enn eftirminnilegra heldur en myndi verða í sambærilegu veðri sömu daga mánaðarins nú á dögum.
Ritstjóra hungurdiska er það minnisstætt að hann kom upp í Þverárrétt í Borgarfirði daginn eftir að versta veðrið gekk yfir. Þar var þá enn snjór og krapi á jörð (en að bráðna). Hins vegar festi ekki snjó niðri í Borgarnesi.
September var almennt illviðrasamur (um það er fjallað í árspistlinum). Um viku fyrir það veður sem hér er fjallað um gerði óvenjukaldan útsynning með þéttum krapaéljum svo gránaði andartak í éljunum - en tók upp jafnharðan. Segja má að þessi kalda framrás frá Norður-Kanada sem bjó til útsynninginn hafi verið stoðsending illviðrisins sem hér er um fjallað.
Mánudaginn 23.september voru gagnamenn víða á fjöllum, í besta veðri og vel leit út.
Hér má sjá veðurkort sem Morgunblaðið birti þriðjudaginn 24.september. Kortið sýnir stöðuna á hádegi daginn áður. Sagt er í texta að lægðin muni valda rigningu um land allt - en þetta varð miklu verra en svo. Veðurstofan fullsein að átta sig á alvöru málsins - þrátt fyrir að lægðin sé þarna á réttum stað - og styrkur sá sem kortið sýnir. Óhætt mun að fullyrða að tölvuspár nútímans myndu hafa gripið þetta veður - með hversu margra daga fyrirvara getum við þó ekkert sagt um - en ábyggilega óhætt að nefna þrjá eða fjóra daga.
Háloftakortið er nokkuð ískyggilegt.
Kortið gildir á sama tíma, um hádegi mánudaginn 23.september 1963. Hér er auðvitað spurningin hvort hlýja loftið norðvestur af Bretlandseyjum nær að snúast inn á móts við kaldara loft í vestri. Það var það sem gerðist. Lægðin sem um hádegi var um 990 hPa í miðju var skyndilega orðin 965 hPa djúp - innan við sólarhring síðar.
Hér má sjá stöðuna um hádegi þriðjudaginn 24.september. Lægðin við Suðausturland. Hún var í reynd örlítið dýpri heldur en greiningin sýnir - en ekki mikið. Lægsti þrýstingur á veðurstöð mældist í Hólum í Hornafirði 964,4 hPa. Mikill norðanstrengur er yfir öllu landinu og áköf úrkoma norðanlands. Lægðin fór síðan norður með austurströndinni og svo heldur til norðvesturs. Þegar svo var komið skánaði veðrið á Norðausturlandi, en illviðrið hélst vestan til á Norðurlandi - einnig næsta dag. Veðrið varð einna óvenjulegast í Húnavatnssýslum, snjódýpt í lok veðursins mældist 38 cm í Forsæludal.
Við skulum nú fletta blöðunum (aðallega Morgunblaðinu og Tímanum) og sjá hvernig fór. Ritstjórinn reynir að fækka samhljóða frásögnum blaðanna - en þó er nokkuð um endurtekningar, vegna þess að fram koma mismunandi smáatriði. Auk þess er í textanum - þegar upp er staðið - býsna mikill fróðleikur um göngur og leitir og skipan þeirra mála í fjölmörgum landshlutum um og upp úr miðri 20. öld.
Vísir gat sagt fyrstu fregnir af veðrinu strax 24.september:
Í morgun var norðan illviðri um mestan hluta landsins. Hér í Reykjavík var hvassviðri og rigning og víða um land var komin slydda og jafnvel snjókoma. Í morgun snjóaði á Mosfellsheiði og snjókoma var við skíðaskálann í Hveradölum. Þar var hiti um frostmark og var snjór yfir öllu, vegurinn var orðinn mjög háll og áttu bilstjórar á ferð yfir fjallið á hættu að renna út af veginum. Á Þingvöllum var og snjókoma. Snjókoma var víða um Norðurland. Þó var slydda niður við sjávarmál, en strax og kom hærra upp var snjókoma. Til dæmis snjóaði í fjöll í Eyjafirði. Slydda og snjókoma var í Siglufirði, Sauðárkróki og á Ströndum. Þá var snjókoma í Mývatnssveit og á Möðrudalsöræfum. Í Mývatnssveitinni var í morgun 3 stiga hiti, en þó var jörðin orðin hvít.
Tíminn segir frá 25.september - dagsetur fréttina daginn áður.
KH-Reykjavík, 24.september. Veður fór versnandi í nótt, og í dag hefur ríkt norðan hvassviðri um mikinn hluta landsins með slyddu i byggð og víða snjókomu. Nokkrir vegir hafa lokast umferð, og flug hefur legið niðri innanlands í dag nema til Ísafjarðar. Hvassast var í Vestmannaeyjum, ellefu vindstig. Kaldast var eins stigs frost í Möðrudal og Skagafirði. Í Reykjavík var bleytuhríð i dag. Veðrið hefur verið verst um miðbik Norður- og Suðurlands, kaldara á Norðurlandi en hvassara á Suðurlandi. Það fer heldur batnandi um vestanvert landið og færist austur, má búast við enn verra veðri á Norðaustur- og Austurlandi í nótt. Úrkoma var mikil á Norðurlandi í dag, mældist mest í Grímsey 17 mm, 16 mm á Raufarhöfn og 14 á Sauðárkróki. Víðast á láglendi var slydda og 12 stiga, hiti. en víða hríðaði í byggð. Ófært er orðið víða á vegum. Möðrudalsöræfi voru orðin ófær öllum bílum í morgun, svo að Austurlandsvegar er lokaður, og Siglufjarðarskarð varð að sjálfsögðu strax ófært. Á Öxnadalsheiði og Vaðlaheiði var naumast fært nema stórum bílum á keðjum seint í dag, og áætlunarbíllinn, sem gengur frá Ólafsfirði til Eyjafjarðar varð að snúa við á Lágheiði snemma í morgun vegna snjóa. Þæfingsfærð er á Fjarðarheiði og í Oddsskarði. Þorskafjarðarheiði hefur lokast. Brattabrekka er fær bílum með keðjur, Holtavörðuheiði er ófær fólksbílum. Hætt er við talsverðu næturfrosti um mikinn hluta landsins og versnandi veðri á Norðaustur- og Austurlandi. Einnig má búast við meira frosti þegar veðrið gengur niður. Þetta vetrarveður kemur sér sérstaklega illa fyrir þá, sem enn eru í göngum, og réttir hafa sums staðar tafist vegna veðursins. Til dæmis átti að rétta í Fljótsdalsrétt í dag en því varð að fresta til morguns, hvort sem betur viðrar til þess þá. Göngur hófust í gær í Ólafsfirði i besta veðri, en í dag er gangnamönnum þar erfitt um vik.
Morgunblaðið er öllu langorðara 25.september:
Í gær var vonskuveður um land allt með snjókomu eða slyddu. Lokuðust margir fjallvegir norðanlands, vestan og austan, svo sem Siglufjarðarskarð, Þorskafjarðarheiði, Möðrudalsöræfin og Oddsskarð. Vaðlaheiði og Öxnadalsheiði voru þó færar stórum bílum með keðjum og í gærkvöldi var orðið eins ástatt á Holtavörðuheiði, hún var vart fær smábílum. Hellisheiði var vel fær, en dálítið hált þar. Þetta óveður gengur yfir á versta tíma, því víðast hvar á landinu eru göngur og réttir, og hafa gangnamenn fengið versta veður á fjöllum. Sunnanlands, þar sem var slydda á láglendi, en snjókoma á fjöllum og uppsveitum, voru gangnamenn á leið með rekstra sína niður og hrepptu hrakninga. T.d. urðu Biskupstungnamenn að moka sér leið með fjallsafnið niður Bláfellshálsinn í fyrradag og voru í gær á leið niður byggðina í versta veðri. Einnig voru Grímsnesingar að smala Lyngdalsheiði í versta veðri og Gnúpverjar að komast með sitt safn niður að afréttargirðingu. Annars var fé víða farið að sækja mjög heim fyrir óveðrinu. Norðanlands hættu sumir við að fara í göngur í gær, en búast má við að þeir sem eru í margra daga göngum, svo sem Skagfirðingar, eigi í erfiðleikum.
Fréttaritarar Morgunblaðsins víðs vegar um Vestur-, Norður- og Austurland símuðu fréttir af snjókomu, ófærð á fjallvegum og göngum í gær. Fara frásagnir þeirra hér á eftir.
Hrútafirði, 24.september. Á Holtavörðuheiði hefur í dag verið versta veður, ofanhríð og skafrenningur. Áætlunarbílar og flutningabílar hafa þó komist greitt yfir, en í kvöld voru 23 litlir bílar orðnir fastir sunnantil á heiðinni. Eru bílar frá vegagerðinni farnir þeim til aðstoðar og frá Hvammstanga er verið að senda veghefil til að laga þetta.
Ísafirði, 24.september. Snjókoma og mugga hefur verið hér í dag og snjóað alveg niður í byggð. Breiðadalsheiði hefur verið fær bifreiðum að undanförnu og bifreiðar fóru yfir hana í dag. En ýta var uppi á heiðinni síðdegis, því nokkuð mun hafa fennt þar er liða tók á daginn. Hrafnseyrarheiði varð ófær Dýrafjarðarmegin í nótt. Var engin ýta tiltæk, en veghefill reyndi að ryðja leiðina, en varð ekkert ágengt. Áætlunarbíllinn frá Vestfjarðaleið fór frá Ísafirði í morgun, fullskipaður og lagði á Hrafnseyrarheiði um kl. 10:30, en varð að snúa við og kom aftur til Þingeyrar um 2 leytið. Var ætlunin að lítil dráttarvél yrði send til að reyna að ryðja heiðina. Fjallvegir munu allir vera færir í Barðastrandasýslu og lítill sem enginn snjór á Þingmannaheiði, sem oft er erfiðasti fjallvegur þar. Á fjallveginum yfir Hálfdán er lítilsháttar snjór efst, en vegurinn fær. Ég hefi haft spurnir af því að smalamennska og leitir um helgina og gær og fyrradag í fjórðungnum hafa gengið vel og víða hafði fé leitað nær byggð vegna snjókomu hátt til fjalla. Ég talaði við Djúpavík í dag og til Steingrímsfjarðar og var mikil snjókoma á Ströndum og sett niður snjó á Djúpavík í dag. Í vestanverðum fjórðungnum hefur lítið snjóað undanfarið. H.T.
Sauðárkróki, 24.september. Árla dags í dag gerði hér versta veður, norðan hvassviðri með snjókomu og hefur gengið í sjóinn eftir því sem hefur liðið á daginn. Allmargir bátar héðan voru á sjó, en eru nú komnir að landi heilu og höldnu. Einn þeirra tók höfn í Hofsósi. Göngur og fjárréttir standa yfir í Skagafirði þessa dagana og er óvíst hvernig leitarmönnum hefur vegnað síðustu daga í fjallgöngum svo, sem að Stafnsrétt. Svo mikil fannkoma varð seinni hluta dags í dag, að vatnsból bæjarins fylltust af krapi, svo bærinn varð vatnslaus og slátrun í sláturhúsunum stöðvaðist. Vonast er til að þetta lagist með morgninum. jón.
Bæ, Höfðaströnd, 24.september. Hér er grenjandi stórhríð sem nær alveg niður að sjó. Hlýtur því að vera slæmt upp til dala. Í gær voru fyrstu göngur og gekk allt vel, en í dag má búast við að illa gangi, þó ekki hafi borist neinar fregnir af því. Björn.
Siglufirði, 24.september. Hér er komin stórhríð og grátt ofan í fjöru og Siglufjarðarskarð er teppt enn einu sinni. Áætlunarbíllinn fór frá Siglufirði kl.7 í morgun og komst í efsta sneiðinginn Siglufjarðarmegin og sat þar fastur í fönn, enda komin stórhríð á Skarðinu. Beggja vegna vegarins eru gamlir snjóruðningar og því fljótt að skafa í veginn. Um 30 farþegar voru í bílnum, en í honum er talstöð. Bílstjórinn lét fljótt vita hvernig komið var og fór ýta frá Siglufirði og var komin á staðinn kl. um 12:30. Ekki var talið fært að hjálpa bílnum yfir Skarðið eins og var og kom áætlunarbíllinn til Siglufjarðar kl.3:30. Stefán.
Akureyri, 24.september. Í morgun var hvítt ofan að sjó hér, en tók upp á láglendi um miðjan daginn. Nú gránar aftur í rót og hiti er við frostmark. Skv. upplýsingum frá vegagerðinni, er lítil umferð á fjallvegum í dag. Þó var einn bíll að koma vestan yfir Öxnadalsheiði. Þar var keðjufært og vont veður. En heiðin átti að heita fær öllum bílum. Annar bíll var nýkominn yfir Vaðlaheiði og sagði bílstjórinn að heiðin væri engan veginn fær litlum bílum. Skafrenningur er og snjókoma, en vegurinn slarkfær á stórum og sterkum bílum enn. Sv. P.
Grímsstöðum í Mývatnssveit, 24. september. Stórhríð er hér í dag. Gagnamenn lögðu af stað í morgun, en sneru við heim aftur, því ekkert var hægt að athafna sig. Ekki á þó að vera hætta með kindur, ef þetta stendur ekki lengi Snjókoman er mikil nú sem stendur og ef þessu heldur áfram í nótt, verður orðið slæmt á morgun. Innansveitarvegir eru enn færir, en hætt við að fjallvegir séu að teppast Jóhannes.
Grímsstöðum á Fjöllum, 24.september. Í gærkvöldi fór að snjóa hér og hefur verið hríð síðan. Ekki er kominn mikill snjór hér í kring, en umferð lokaðist um Möðrudalsfjallagarðinn, frá Möðrudal og yfir í Jökuldal strax í nótt, og voru bílar varaðir við að leggja í hann. Áætlunarbíllinn milli Akureyrar og Austfjarða stansaði í Reykjahlíð á leið austur og bíður þar eftir að fært verði austur yfir. Fyrstu göngur eru afstaðnar hjá okkur og gengu vel. Í þeim fundust 3 veturgamlir hrútar úti gengnir á Búrfellsheiði. Ekki var þó hægt að koma nema einum til bæja í fyrstu göngum. Hrútarnir eru allir úr Axarfirði. Slátrun úr fyrstu göngum er lokið úti á Kópaskeri. Aðrar göngur eiga að hefjast á morgun, en það lítur illa út með þær, ef veður ekki batnar. B.S.
Egilsstöðum, 24.september, Krapaveður var hér í nótt og snjór til fjalla. Nú má þó heita að autt sé upp í hlíðar. Göngur voru í gær á Fljótsdalsafrétt, en réttinni í dag var frestað vegna illveðurs. Veður var ágætt meðan á göngunum stóð. Í morgun átti að fara í göngur í Fellum, en því var frestað vegna veðurs. Oddsskarð og Fjarðaheiði munu vera orðin ófær. Jónas.
Tíminn heldur áfram 26.september - og byrjar á fróðleik um haustkálf. Þetta var í fyrsta sinn sem ritstjórinn hafði heyrt á slíkt minnst. Í þetta sinn má segja að spádómarnir hafi ræst því veturinn 1963-64 er einhver hinn mildasti og besti sem þekktur er hér á landi frá því mælingar hófust. - En haustið var erfitt.
Hausthretið var óvenjusnemma á ferðinni að þessu sinni, og hrista margir höfuðið með áhyggjur og vetrarkvíða í svip. Tíminn getur hins vegar upplýst ef það mætti verða einhverjum til huggunar að gamlir menn kalla svona hret haustkálf og segja, að því fyrr, sem haustkálfurinn sé á ferðinni, þeim mun betri verði veturinn.
IGÞ, KH, BÓ, Reykjavík, 25.september. Þegar blaðið frétti síðast í gærkveldi, vantaði enn tuttugu og fjóra menn af Eyvindarstaðaheiði. Gangnamenn þar lentu í gífurlegum erfiðleikum vegna snjóa og óveðurs, og er líka sögu að segja af gangnamönnum úr byggðum sunnanlands. Erfiðleikarnir virðast þó hafa orðið mestir á Eyvindarstaðaheiði, sem er mikið landflæmi upp af Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu. Þar gengur margt fé, bæði kindur og hross og nú fór svo, að af þremur flokkum manna, sem ganga heiðina, komst aðeins einn til byggða með fé, annar slapp með erfiðleikum þótt engu yrði smalað og sá þriðji virðist standa í ströngu við að komast til byggða. Gangnamenn á Eyvindarstaðaheiði fengu gott veður á mánudagsmorgun, en aðfaranótt þriðjudags gekk upp með ofsaveður á norðan með gífurlegri fannkomu.
Samt var skipt í göngur að venju í svonefndri Áfangaflá. Hélt austasti flokkur niður með það fé, sem til náðist og komst við illan leik með safn sitt á Gilhagadal seint á þriðjudag. Venjan er að þeir komi með féð að Mælifellsrétt um fimmleytið á þriðjudag og réttað sé þar á miðvikudögum. í þetta sinn urðu þeir að skilja féð eftir á dalnum. Fóru gangnamenn heim til Stefáns bónda í Gilhaga og fengu þar hinar bestu veitingar, en skiptu sér síðan á bæi til gistingar um nóttina. Í morgun fóru þeir svo aftur að fást við féð og höfðu komið því niður að Mælifellsrétt um fjögurleytið í dag. Þar verður það réttað á morgun og seinkar sundurdrættinum um einn dag. Öðru vísi fór um hina flokkana, sem ganga Eyvindarstaðaheiði eða miðflokk og vestflokk. Miðflokkur gengur niður austan Fossár og rekur að Stafnsrétt í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Þeir skildu við vestflokk í Áfangaflá og var þá ekki ljóst, hvort heldur að vestflokksmenn ætluðu að vera næstu nótt í Ströngukvíslarkofa, eða reyndu að brjótast niður að Galtará, þar sem mótreiðarmenn voru væntanlegir.
Miðflokksmenn héldu sem leið lá út heiðina og gistu síðastliðna nótt í Bugakofa. Var ekkert viðlit að reyna að smala fé. enda komið fannfergi, svo það stóð þar sem það var komið. Í morgun héldu svo miðflokksmenn frá Bugakofa og niður að Stafni í Svartárdal. Þangað komu þeir síðdegis og höfðu fengið umbrotafærð fyrir hestana. Þeir sáu nokkurt fé í Bugum og á Háutungum, en færðin var slík að engin leið var að þoka því um fet. Þegar Tíminn hafði símasamband við Stafn í gær var ekkert hross og engin kind komin að Stafnsrétt og er það einsdæmi. Hrossarétt átti að vera þar í dag, og fé átti að réttast á morgun. Fréttaritari Tímans, Björn Egilsson á Sveinsstöðum var í miðflokk, og var nýkominn í Stafn, þegar Tíminn hringdi. Sagði hann blaðinu að miðflokksmenn, sem eru Lýtingar, ætluðu heim enda ekki annað fyrirsjáanlegt en að fresta yrði göngunum.
Fjórtán Seylhreppingar reyndu í gær að smala Reykjafjall og Stafnsgil, en urðu að snúa frá. Þeir gistu í Stafni síðastliðna nótt. Þeir reyndu aftur að smala í dag, en urðu frá að hverfa á ný. Riðu þeir niður Svartárdal og fengu bíl á móti sér að Leifsstöðum, sem flutti þá heim. Björn sagði að miðflokksmenn hefðu verið vel útbúnir og ekkert hefði orðið að. Tveir drengir voru í miðflokk, 1415 ára og tveir lítið eldri og létu þeir ekkert á sig fá i þessari svaðilför. En Björn sagði að veðrið hefði verið þannig, að það hefði verið á mörkunum að þeir rötuðu. Þó eru menn í miðflokk, sem hafa verið í göngum á þessari heiði frá barnæsku. Þeir, sem ekkert hefur spurst til síðan á þriðjudagsmorgun, að þeir skildu við félaga sína í Afangaflá og mynduðu vestflokk, eru flestir Húnvetningar. Hafi þeir gist í Ströngukvíslarkofa, eins og þeir voru að umsegja á þriðjudagsmorgun, er óvíst þeir nái til byggða í kvöld í því umbrotafæri, sem nú er á heiðinni. Miðflokksmenn gista í Stafni í nótt en ríða síðan heim á morgun. Gangnamenn hafa löngum átt góðu atlæti að fagna i Stafni og svo er enn, er flokkur eftir flokk gangnamanna njóta þar gistingar og beina. Veður er nú að lægja á þessum slóðum en bleytuhríð var þar í dag.
Erlingur Davíðsson, ritstjóri á Akureyri, hringdi fyrir Tímann til ýmissa staða norðan- og norðaustan lands í dag. Hann fékk þær fréttir frá Ólafsfirði, að réttað hefði verið í neðri hluta sveitarinnar á mánudag, en fé af Reykjaheiði og Lágheiði var réttað í Reykjarétt í gær. Á réttardaginn var hið versta veður, krapastórhríð, og komu fáir til réttarinnar. Eyfirðingar réttuðu yfirleitt á mánudaginn í blíðskaparveðri, en Hörgdælir og Öxnadælir réttuðu í gær og fengu ruddaveður. Göngum Fnjóskdælinga hafði verið flýtt. Fóru þar fram dagana 13.14. september og fengu þeir ágætt veður í fyrstu og öðrum göngum. Fé var þá óvenju neðarlega.
Á svæðinu frá Fnjóskadal til Mývatnssveitar fengu menn ágætt veður í göngum, sem voru um garð gengnar áður en veðrið skall á. Í dag bárust þær fréttir frá Svartárkoti í Bárðardal að í gærkvöldi hefðu fjórar kindur verið dregnar úr fönn í Víðikeri. Stórfenni er nú í Fram-Bárðardal og á hálendinu fram af dalnum, en rifið á milli. Vont er orðið að koma kindum um jörðina og voru Bárðdælir allir að sinna fé sínu í dag. Frá Reynihlíð berast þær fréttir, að Mývetningar hafi lagt af stað í gær á austurfjöll í göngur. Var ætlunin að smala Grafarlönd og fleiri svæði, en þeir urðu að snúa við vegna veðurs. Þeir fóru aftur af stað í morgun. Þetta eru þriggja daga göngur. Nú er þarna ökklasnjór. Í Axarfirði er búið að ganga nærheiðar og gekk það vel. Snjólaust er í byggð og snjólítið efra. Hólssandur er aftur á móti ófær bifreiðum. Þeir í Þistilfirði höfðu lokið göngum fyrir áhlaupið, en eitt lamb fundu þeir fennt í Djúpárbotnum á Axarfjarðarheiði.
Á Langanesi var lagt af stað í fyrstu göngur í dag. Veður var sæmilegt þar eystra og enginn snjór í byggð. Í gær átti að rétta í Fljótsdalsrétt ,en því varð að fresta þangað til í dag vegna illviðris, eins og segir í blaðinu í dag. Fjárdrætti var óvenju snemma lokið, því að féð var færra en venjulega Leitir á Austurlandi höfðu þó gengið allvel og var að mestu lokið fyrir hretið.
Réttað var í Þverárrétt í Þverárhlíð í dag. Fjárdrætti var lokið kl 13, löngu fyrr en venjulegt er enda var fátt fé í réttinni. Stafholtstungumenn, Þverhlíðingar og Hvítsíðingar rétta í Þverárrétt. og voru þeir í leitum i gær og fyrradag, mánudag gengu þeir Tvídægru og Holtavörðuheiði í ágætu veðri og áttu eftir að ganga á um helming leitarsvæðisins í gær. en þá sást ekkert til að leita fyrir blindbyl og urðu þeir að skilja mikið fé eftir. Farið verður í aðra leit á þessu svæði á föstudag, smalað hestum og kindum á laugardag og sunnudag, réttað hrossum á sunnudag og kindum á mánudag. Leitarmenn úr Mýrarsýslu muna ekki eftir erfiðari fyrstu leitum en núna, og sumir segja, að þetta hafi verið erfiðustu leitir á þessari öld. Mjög fátt fé var í Hítardalsrétt í dag, og stafaði m.a. af því, að ekki hafði tekist að koma 2300 fjár úr Hólsrétt í Hörðudal yfir fjallið í tæka tíð. Verið er að sækja það fé á fjall í dag. Réttað er í Skarðsrétt í Borgarhreppi á morgun, en síðasta réttin í Mýrarsýslu er Hraundalsrétt í Álftahreppi, sem verður á föstudag. Álfthreppingar eru í fjögurra daga göngum inni á afréttunum milli Mýra- og Dalasýslu. Þeir leituðu í góðu veðri á mánudag, en illviðri í gær, í dag er skafrenningur á fjalli, en engar hrakningasögur hafa borist til byggða.
Biskupstungnamenn hrepptu á Kili versta leitarveður í mannaminnum. Þar var iðulaus hríð í þrjá sólarhringa. Leitarmenn héldu þó áfram í hríðinni, en tilviljun ein réði, hvort þeir fundu kindur, og sumu töpuðu þeir aftur. Í gærkvöldi komu þeir úr leitunum. Engin slys urðu á mönnum eða skepnum, en unglingar voru slæptir, og komu þó hressir fram. Á morgun verður farið aftur inn á Kjöl. Mikið af fénu hafði hörfað fram að afréttargirðingunni, vegna illveðurs síðustu dægra. Bílfæri var þungt frá Hveravöllum í Fossrófur, og á Bláfellshálsi varð að moka til að koma bílnum fram. Hrunamenn voru að reka til rétta kl.5 í dag. Í nótt lágu þeir að venju fyrir innan Tungufell. Þeir hrepptu vonskuveður, en gekk þó sæmilega fram. Safnið var lítið, en mikið fé hafði áður verið sótt og réttað. Gnúpverjar komu niður með safnið í dag, en í gær varð ekki smalað fyrir illviðri. Þá var skarðalaus bylur allan daginn, fram til klukkan 6, öll gil fyllti af krapa og snjó, og þurftu leitarmenn að draga lömb og máttarminni kindur upp úr krapaelgnum. Svæðið frá Gljúfurleit að Hólaskógi er ósmalað, en í morgun riðu smalamenn aftur innúr. Um árangur er ekki vitað, og heldur ekki um fjárskaða. Safnið, sem komið er fram, er helmingur á við það vanalega, eða um 3000 fjár og það flest komið fram að afréttargirðingu áður en lagt var á fjall. Ása- og Djúpárhreppingar ferjuðu safnið af Holtamannaafrétti yfir Tungnaá á Haldi á mánudaginn, í sæmilegu veðri, og ráku fram að Galtalæk í gær, í blindbyl. Sigurjón Rist hefur nýlega merkt leiðina inn að Haldi. Rekstrarmenn fylgdu merkjunum og komust fram við illan leik. Í dag réttuðu þeir á Galtalæk. Afrétturinn smalaðist fremur vel.
Landmenn áttu að koma fram á morgun, ef allt hefði farið að skilum, en í gær brutust þeir með safnið úr Laugunum út að Helli í aftakaveðri. Þeir höfðu tvo bíla með sér, annar er nú bilaður á Frostastaðahálsi og hinn fastur í snjó í Dómadal. Fé og mannskapur er nú_ allur við Landmannahelli. Í morgun var gerður út leiðangur úr byggð til að svipast um eftir fjallmönnum, farið á bílum inn að Valahnúkum og gengið þaðan inn að Helli. Leiðangursmenn komu aftur síðdegis og sögðu fréttirnar. Í dag var jarðýta send af stað inn á afréttinn, en hún verður sólarhring að komast inn á Frostastaðaháls, þar sem annar bíllinn situr. Ýtan verður svo notuð til að ryðja fyrir féð, ef með þarf. Rangvellingar koma af fjalli á föstudaginn, ef að vana lætur, en til þeirra hefur ekki spurst. Fjöll eru hvít að sjá úr byggð og grátt niður á Rangárvelli. Engar fregnir eru af Hvolhreppingum, en búist við þeim fram annað kvöld eða á föstudaginn. Þar er einnig grátt í byggð og hríð að sjá til fjalla í gær.
Fljótshlíðingar komu með safnið í gær og fengu slyddubyl seinni part dagsins. Safnið er lítið, því margt af fénu var áður komið fram, en smalamennskan gekk í alla staði vel. Vestur-Eyfellingar eiga að koma fram á morgun, en þeir smala Þórsmörk, Goðaland og Almenninga. Má gera ráð fyrir, að þar hafi kyngt niður snjó, en undir Eyjafjöllum er nú hvít jörð, allt að sjó fram. Í morgun var slyddubylur í byggð. Austur-Eyfellingar smala lítið frá byggð, og Mýrdælingar hafa lokið fyrstu göngum, Álftveringar áttu að koma fram í dag, en klukkan að ganga 7 hafði ekkert til þeirra spurst. Var því gert ráð fyrir, að þeir mundu bíða til morguns. Skaftártungumenn eru væntanlegir á föstudaginn. Fólk á innstu bæjum í sveitinni telur, að veðrið hafi ekki verið ýkjahart á afréttinum. Vestur-Síðumenn, og þeir Meðallendingar, sem eiga upprekstur með þeim, áttu að koma fram í dag, en klukkan að ganga 7 höfðu engar fregnir borist af þeim. Var gert ráð fyrir, og þeir mundu bíða til morguns. Hörkuveður geisaði á afréttinum í þrjú dægur, þar til í dag, að stytti upp með blíðu. Á morgun átti að rétta í Heiðarrétt. Austur-Síðumenn, Fljótshverfingar og Meðallendingar, sem eiga upprekstur með þeim, eru ófarnir í göngur.
GPV-Trékyllisvík, 23.september [á væntanlega að vera 25.] Ekki ætlar að verða endasleppt með ótíðina þetta sumar og erfiðleika af þeim sökum. Hefur að undanförnu verið stórrysjótt og snjóað jafnt í sunnanátt sem norðan. Á mánudaginn var leitað. Þann dag var gott veður, en í gær brá aftur til hins verra. Þegar á daginn leið var komið norðan fárviðri með fannkyngi og í nótt var stórveðurofsi fram undir morgun. Miklar fanndyngjur eru komnar og illfært yfirferðar. Í veðrinu hefur fé fennt og fjárskaðar orðið þótt enn sé ekki full spurt til þess. Á Melum hafa þegar fundist 17 kindur dauðar, sumar þeirra farið í sjóinn. Ráku 8 af þeim í dag. Á Finnbogastöðum í Bæ fundust 2 kindur dauðar. Er viðbúið að meiri skaðar hafi orðið. ... Í dag er veðurhæð minni, en snjókoma og dimmviðri.
KH-Reykjavík, 25. sept. Þyngslafæri er á vegum norðanlands, og um tíma í dag var Langidalur og Svínvetningabraut í V-Húnavatnssýslu alveg lokaðar umferð vegna ófærðar. Næturrútan milli Akureyrar og Reykjavíkur kom frá Akureyri til Blönduóss kl.8 í morgun, hafði þá verið ellefu tíma á ferð. Holtavörðuheiði var orðin sæmilega fær bílum með keðjur í dag.
Morgunblaðið heldur einnig áfram 26.september:
Í Austur-Húnavatnssýslu var versta veður í gær og nótt og alls staðar kominn mikill snjór. Ekki tókst að koma öllu sláturfé til Blönduóss og í dag vantaði 300 kindur í fulla fjártölu. Féð átti að koma úr Vindhælishreppi og Svínavatnshreppi. Allir flytja sláturféð á bílum, en miklir örðugleikar voru vegna snjóþyngsla og hríðar. Vegurinn í Norðurárdal er algjörlega ófær bílum, en í dag er verið að brjótast með fé frá Þverá. Er það rekið niður á Skagastrandarveginn en mun verða tekið þar á bíla. Svínvetningabraut er víða ófær og miklar truflanir hafa orðið á fjárflutningum þaðan. Í dag var reynt að senda bíl eftir fé fram í Vatnsdal, en hann varð að snúa við í Vatnsdalshólum vegna snjóþyngsla. Nokkrir bændur í austanverðum Vatnsdal eru nú að reka sláturfé áleiðis til Blönduóss og mun það verða tekið á bíl norður í Þingi. Ekki er víst, hvort hægt verður að ná fullri fjártölu á morgun.
Mjólkurflutningabílar, sem fóru í Langadal, Svínavatnshrepp, og Vatnsdal komu til Blönduóss 68 klst seinna en venjulega og bíllinn, sem fór fram Langadal komst ekki nema að Gunnsteinsstöðum. Samkvæmt upplýsingum frá Bólstaðahlíð s.l nótt gistu gangnamenn úr Seiluhreppi að Stafni í Svartárdal og fóru þaðan fram á heiði í morgun. Urðu þeir að snúa við vegna snjóþyngsla og gátu hvorki smalað fé né hrossum. Gangnamenn úr Lýtingsstaðahreppi komu einnig niður að Stafni í dag án þess að geta nokkuð smalað. En ekkert er vitað um gangnamenn úr Eyvindarstaðaheiði. Skagfirðingar, sem ætluðu að reka fé úr Skrapatungurétt í gær norður yfir Þverárfjall og Kolugafjall komust ekki nema að Þverá í Norðurárdal, en lögðu á fjallið í morgun.
Hvammstanga, 25. september. Hríðarveður gerði hér seinnipartinn í gær og hélst í nótt með allmikilli snjókomu. Færð er sæmileg eftir aðalvegum. Réttað var í Miðfjarðarétt í fyrradag og var því lokið um hádegi í gær. Fengu menn hið versta veður heim með fjársafnið og komust sumir ekki alla leið vegna veðursins. Í dag er sumstaðar verið að draga fé úr fönn. Fjárleitirnar fóru fram í sæmilegu veðri, en skyggni var ekki sem best. Er leitarmenn voru að leggja á heiðina vildi það slys til að Sigurjón Sigvaldason, bóndi á Urriðaá, féll af hestbaki, er hestur hans fældist Var Sigurjón fluttur í sjúkrahús á Hvammstanga og er líðan hans sæmileg eftir atvikum. Það fannst gangnamönnum tíðindum sæta, að er þeir voru nokkru fyrir norðan mörk Borgfirðinga og Miðfirðinga, hittu þeir leitarmann frá Borgfirðingum með tvo hesta til reiðar. Kvaðst hann hafa átt að leita að Arnarvatni og farið niður með varnargirðingunni, sem er á afréttarmörkunum. Leitarmenn komu honum í skilning um, að hann væri að fara mikið út af réttri leið og fylgdu honum suður fyrir girðingu aftur og í Úlfsvatn, en þar var þá flokkur Borgfirðinga, er dvaldi þar þessa nótt.
Bæ, Höfðaströnd, 25. september. Í fyrrinótt gekk mikið óveður með fannkomu yfir Skagafjörð austanverðan. Urðu af því miklar truflanir á rafmagni og samgöngum, símastaurar brotnuðu og stórt sjóhús fauk og átta menn lentu í erfiðleikum með fé. Síðdegis í gær var enn snjókoma og munu bílar hafa setið fastir víðsvegar í sköflum. Féð er allt komið í hús, og mjög þröngt á því hjá þeim sem ekki eru farnir að slátra. Birni segist svo frá: Rafmagnslaust varð frá Skeiðsfossvirkjun og nálægt Bæ töldum við 12 símastaura, sem höfðu lagst út af. Á Hofsósi hefur rafmagnslína skemmst mikið, og er sums staðar erfitt að aka um götur í þorpinu vegna þess að strengirnir liggja niðri. Af þessum sökum er því sums staðar rafmagnslaust. Á Bæ á Höfðaströnd fauk stórt sjóhús, sem staðið hefur í 3 ættliði, mjög traustlega byggt 1888, gríðarstórt og öflugt hús. Á þriðjudaginn voru menn hér í göngum, en hér eru aðeins eins dags göngur. Voru gangnamenn kaldir og blautir er þeir komu heim, en ekkert hafði orðið að þeim. Hér stendur yfir slátrun, og gekk illa með féð úr dölunum, þar sem átti að slátra í dag. Fóru menn snemma af stað með reksturinn í slyddu og þurftu að moka sig sums staðar með féð gegnum 2 m skafla á leiðinni. Komu þeir til Hofsóss síðdegis og var féð þá orðið slæpt og uppgefið. Við höfðum haft spurnir af því að bílar hafi verið að festast í sköflum úti um vegi. Héraðslæknirinn tjáði mér áðan að hann kæmist ekki út í Fljót nema í bíl með keðjur á öllum hjólum og alls ekki lengra en út í Haganesvík. Vonandi rætist þó úr þessu um leið og lægir.
Patreksfirði, 25. september: Í gær gerði slæmt veður af norðaustri með snjókomu og mátti heita bylur til fjalla. Réttir höfðu farið fram s.l. mánudag og var fé yfirleitt geymt heima við hús, en svo illa vildi til, að á Rauðasandi, Rauðasandshreppi hrakti mikið af fé til sjávar og er vitað þegar að einn bóndi af sex, sem eru á Rauðasandi, missti þar 60 dilka og ær. Var þetta bóndinn í Gröf, Þorvaldur Bjarnason, er varð fyrir þessum skaða. Ennfremur hafa þegar fundist 13 kindur frá Lambavatni, sem höfðu hrakið í skurði. Eins og gefur að skilja er þetta tilfinnanlegt tjón fyrir þá, sem fyrir þessum missi hafa orðið. Trausti.
Grímsstöðum, Mývatnssveit, 25. september. Hér er nú batnandi veður. Gangnamennirnir, sem sneru við heim í gær komu til byggða í gærkvöldi, en lögðu aftur af stað í morgun. Tefjast göngur því um einn dag. Kominn er allmikill snjór og slæmt smölunarveður vegna dimmviðris. Um tíma í gær var skyggni varla meira en 100 m. Nú er smalað suður í Herðubreiðarlindir. Áður fyrr voru þetta 5 daga göngur. En nú er farið á bílum og féð tekið á bíla, svo stundum er hægt að ljúka því á einum degi. Annars er aðalgangnadagurinn á morgun. Eiga menn von á að erfitt verði að reka féð fyrir snjó, en þar sem komið er ágætt veður, ætti það að vera í lagi. Áður en farið var í göngurnar, fann ferðafólk, sem fór suður með Jökulsá tvö lömb við Upptyppinga. En mjög fágætt er að finna fé þar framfrá. Lömbin voru frá Húsavík og kom ferðafólkið með þau til byggða. Í dag ætluðu bílar, bæði langferðabílar og minni bílar að komast austur yfir Möðrudalsöræfi. Komu trukkur og veghefill frá vegagerðinni að austan, og ætluðu að hjálpa bílunum aftur austur yfir, svo vegurinn opnast þá að einhverju leyti. Jóhannes.
Sauðárkróki 25. september. Fjárleitarmenn sem smöluðu heiðarnar fyrir botni Skagafjarðar, hrepptu hið versta veður í gær. Menn í svonefndum austasta flokki höfðu sig við illan leik til byggða en urðu að skilja féð eftir. Rétta átti í Mælifellsrétt en var frestað a.m.k. til morguns ef takast mætti að koma einhverju fé af fjöllum í dag. Gangnamenn í miðflokki á Eyvindarstaðaheiði, sem smala til Stafnsréttar, neyddust til að yfirgefa féð framantil í Einarsdal, en höfðu sig heilir á húfi niður að bænum Stafni í Svartárdal. Leitarmenn á Silfrastaðaafrétt voru snemma að, og komnir niður að Silfrastöðum er veðrið skall á, en þrjá tíma voru þeir að koma safninu niður að réttinni, sem er þó aðeins 2 km vegalengd. Gangnamenn segja mikinn snjó uppi á hálendi og óttast er að fé hafi fennt. Þess skal að lokum getið að fé mun vera með færra móti til fjalla nú, þar sem stórar fjárbreiður leituðu byggða fyrr í haust vegna illviðra. Í dag er hér bleytuhríð, en nokkru hægara en í gær. - Jón
Bíldudal 25. september. Í gærkvöld og nótt snjóaði mikið hér í byggð og er alhvítt niður í byggð. Vegir eru illfærir og urðu menn á leið til Patreksfjarðar að moka á undan bílum sínum. Fréttaritari.
Það var ekki fyrr en þann 27. sem veðrið fór að ganga niður um vestanvert Norðurland og á Vestfjörðum, en hafði áður slaknað á annars staðar. Tíminn 27.september:
IGÞ-BÓ-Reykjavík, 26. september. Áhlaupið mikla sagði mest til sín á Vestfjörðum í dag og kyngdi þar víða niður kynstrum af snjó, sums staðar upp í mið læri á jafnsléttu. Þar urðu miklir fjárskaðar en einnig er óttast um féð á Eyvindarstaðaheiði, sem gangnamenn gáfust upp við að smala. Telja menn mikla hættu á því, að fé sé í fönn þar, enda djúpsnævi í lægðum og giljum. Sunnanlands horfir í dag betur um göngur en þar eru enn flestar stærstu afréttirnar ósmalaðar.
GÓ Sauðárkróki, 26. september. Fjárflutningar tepptust í dag af Skaga vegna ófærðar. Versta veður hefur verið hér síðan í fyrradag, en þá byrjaði að hríða, og síðan hefur ekki stytt upp, en nú er þetta orðið bleytuhríð. Í dag átti að flytja fé af Skaga til slátrunar á Sauðárkróki, en það var ekki hægt, því allt var orðið ófært. Muna menn ekki lengri hríð á þessum slóðum í september. Hefur oft komið hríð einn dag, en aldrei staðið svona lengi. Í Gönguskörðum og í Hjaltadal er allt orðið jarðlaust og fé þar í svelti. Þykir bændum það illt, því flytja átti þetta fé til slátrunar.
Blaðinu barst í gær eftirfarandi símskeyti frá Alexander Stefánssyni, kaupfélagsstjóra og formanni hafnarnefndar í Ólafsvik: Vegna æsifrétta í blaðinu Þjóðviljinn í gær, 25.9., vill formaður hafnarnefndar í Ólafsvík leiðrétta þá frétt, sem er að verulegu leyti röng og villandi. Í norðvestanveðri, er gekk yfir Breiðafjörð í gærmorgun, varð mikið öldurót í Ólafsvik; tjón á nýja hafnargarðinum varð mjög lítið. Skolaðist úr efsta lagi hans á 15 metra kafla fremst á garðinum, en garður þessi sem er byggður úr grjóti, er nú 300 metra langur og um 8 metrar á hæð. Er því eðlilegt, að hann fái mikinn fláa. Búið var að setja stórt grjót utan á fyllinguna fremst, svo að það litla, er skolaðist ofan af garðinum, fór inn í fyllinguna og er þannig að fullu gagni. Það óhapp skeði kl. 8;30 í gærmorgun, að einn bíllinn, ekur grjóti í garðinn, fór í sjóinn. Skeði það þannig, að bifreiðin P-130 var kominn fremst á garðsendann, átti eftir um einn og hálfan metra að endanum, þar sem sturta átti. Kom þá ólag á garðinn, er skolaði frá bílnum að aftan, með þeim afleiðingum, að hann fór niður fyrir. Bílstjórinn, Sverrir Sigtryggsson, komst út úr bílnum um leið og hann seig fram af fyllingunni. Á flóðinu í gærkveldi fór kafari, Stefán Hallgrímsson, er vinnur hér í grjótnáminu, niður og kom vírum á bílinn, en bíllinn lá á hliðinni á 3 metra dýpi. Eftir fyrirsögn kafarans var bílkrani látinn rétta bílinn við. Var hann síðan dreginn upp í fjöruna af jarðýtu og trukk. Var hann kominn á land um klukkan 10 í gærkveldi.
BÓ-Reykjavík, 26. september. Vélbáturinn Björgvin frá Neskaupstað sökk á legunni á Mjóafirði í nótt. Báturinn var 6 tonn. Hann var i áætlunarferð milli Neskaupstaðar og Mjóafjarðar, og var þetta fyrsta áætlunarferð hans.
Morgunblaðið 27.september:
Ísafirði, 25. september. Í gærkvöldi tók að hvessa og herti snjókomu um vestanverða Vestfirði og setti niður mikinn snjó í gærkvöldi og í nótt. Lokuðust fjallvegir, bæði Breiðdalsheiði og Botnsheiði, en um hana liggur vegurinn til Súgandafjarðar og víða, varð mjög erfið færð í byggð, t.d. lokuðust vegirnir til Bolungarvíkur og Súðavíkur, en þeir voru mokaðir í dag. Ráðgert er að moka heiðarnar, þegar styttir upp, en í dag hefur verið lítilsháttar snjókoma. Rafnseyrarheiði var rudd í morgun. Var fengin til þess ýta, sem var að vinna hjá Mjólkárvirkjun. Var hún búin að ryðja heiðina á hádegi. Fór þá áætlunarbifreið Vestfjarðaleiðar frá Þingeyri en þar höfðu farþegarnir gist í nótt. Mun áætlunarbílnum hafa gengið sæmilega í dag, þó nokkur snæðingur sé á fjallvegum í Barðastrandarsýslu. Austin-jeppi úr Reykjavík festist í gærkvöldi á Rafnseyrarheiði en farþegar og bílstjóri komust með öðrum bíl til Rafnseyrar og gistu þar í nótt. Þegar bílstjórinn kom að jeppa sínum í morgun, var vegurinn alauður en bíllinn fullur af snjó. Hélt hann þá af stað til Þingeyrar og rétt þegar hann var kominn í brekkurnar Dýrafjarðarmegin, losnaði undan honum annað afturhjólið og kastaðist bíllinn út af veginum og munaði aðeins um tveimur metrum, að hann félli mikla hæð niður brekkuna. Engin meiðsli urðu á mönnum eða skemmd á bílnum og er nú búið að ná í hann til viðgerðar á Þingeyri. Leitir gengu ágætlega í Reykhólasveit um og eftir helgina, en mjög slæmt veður var í gær og snjókoma mikil og lokaðist Þorskafjarðarheiði. H.T.
Gangnamenn á Eyvindarstaðaheiði, Skagfirðingar og Húnvetningar, komu seint í fyrrakvöld til byggða í einum hóp og höfðu ekkert getað smalað vegna óveðurs á öllu heiðarsvæðinu suður að Hofsjökli. Verður að fresta göngum þar til lægir, og ekki er hægt að vita hvernig fé reiðir af þar fram frá. Sunnanmenn á Landmannaafrétti, 3040 talsins, sem áttu að koma til byggða í gær, voru ókomnir í gærkvöldi og ekki væntanlegir fyrr en í dag. En samkvæmt fréttum frá Galtalæk var veður orðið þurrt, norðankaldi og heldur bjart til fjalla. Í gær var aftur á móti réttað í Hrunamannarétt og Skafthólsrétt í ágætu veðri og Skeiðarrétt á að vera í dag. Fóru Hreppamenn aftur inn fyrir afrekstrargirðinguna í fyrrakvöld og fundu um 100 kindur, sem fluttar voru á bílum til byggða. Ein fannst dauð í krapagili og er hætt við að svo sé um fleiri, að sögn fréttaritara. Fara gangnamenn aftur á fjöll á laugardag. Óttast menn að fé sé í fönn inni á afréttinni.
Mikill snjór á allri Eyvindarstaðaheiði. Fréttaritari blaðsins á Blönduósi átti í gær tal við Sigurjón á Brandsstöðum, einn gangnamanna á Eyvindarstaðaheiði og fékk hjá honum frásögn af göngum. Eyvindarstaðaheiðarmenn lögðu upp á laugardag og fóru þá í venjulegan náttstað í Ströngukvíslarskála. Á sunnudag var éljaveður, en leit gekk þó sæmilega. Á mánudaginn var ágætt veður, en um kvöldið byrjaði að snjóa og var orðið afleitt veður á þriðjudagsmorgun. Allmargir gangnamenn lögðu þá af stað, en urðu að snúa við vegna hríðar. Í gærmorgun var enn mikil hríð og kl.12:30 lögðu allir af stað í einum hóp til byggða án þess að geta smalað. Venjulega eru menn 45 klst að fara þá leið lausríðandi, en nú voru gangnamennirnir 10 klst og komu niður að Fossum í Svartárdal kl.10:30 um kvöldið. Mjög mikill snjór var á allri heiðinni. Á framheiðinni hafði skafið í þykka skafla, en á norðurheiðinni var snjór jafnari og færi verra. Allir gangnamenn voru vel út búnir og leið vel, þrátt fyrir illviðrið. Í framhluta Svartárdals er mjög mikill snjór, en minni norðar. Er alveg óráðið hvað gert verður eða hvenær farið í göngurnar.
Veður í Austur-Húnavatnssýslu fór í gær batnandi en var þó hvergi nærri gott. Mikill snjór er um allt héraðið og samgöngutruflanir miklar. Ganga mjólkurflutningar þar erfiðlega. Sláturflutningar til Blönduóss stóðu yfir langt fram eftir nóttu. En þó tókst ekki að ná fullri fjártölu í gær. Af þeim sökum varð að hætta slátrun fyrr en venjulega. Hins vegar var búist við að slátrun hefjist aftur kl.8 í gærkvöldi, en þá var von á fé úr Vatnsdal. Óttast er að fé hafi fennt víða og margir hafa þegar fundið fé í fönn. Hins vegar hafa ekki verið tök á að fylgjast vel með fénu. Og víða hefur það lítinn haga og stendur sums staðar í svelti. Bj. B.
Frá Vestfjörðum bárust þær fréttir í gær til viðbótar fyrri fjárskaðafréttum, að 9 kindur hefði hrakið í djúpa framræsluskurði á Kirkjubóli í Valþjófsdal og fundist þar dauðar. Hefur veðráttan þar um slóðir tafið mjög fjárrekstra og slátrun og víða þurft að grafa fé úr fönn undanfarna sólarhringa.
Morgunblaðið segir enn af ófærð 28.september:
Norðurleiðin um Langadal í Húnavatnssýslu var alveg lokuð í gær vegna fannfergis. Í Skagafirði urðu bílstjórar að moka sig áfram. Veghefillinn frá Blönduósi var þó að hefja snjómokstur í Langadalnum og Skagafjarðarheflarnir munu aðstoða bíla eftir föngum. Aftur á móti var ekki ófærð á vegunum beggja vegna við þetta ófærðarsvæði, Holtavörðuheiði og Öxnadal. Hefur verið fært fyrir alla bíla til Blönduóss. Frá Austurlandi hafa bæði vöru- og fólksbílar komist til Akureyrar. Veghefillinn fór á undan, en lítil umferð hefur verið. Fjarðarheiði og Oddskarð fyrir austan eru fær. Snjór var yfirleitt minni á Austurlandi en Norðurlandi. Á Vesturlandsleið hefur verið hálka í brekkum í Dalina. Verið er að koma Þorskafjarðarheiði í lag og hraða mokstri vegna fjárflutninga, t.d. í Króksfjarðarnes Einnig eru vegheflar að laga Klettsháls í Austur-Barðastrandarsýslu, en hann er eini trafalinn þar. Sæmilegt er yfir Þingmannaheiði, Dynjandisheiði er fær, en í gær voru Axarfjarðarheiði, Rafnseyrarheiði, Gemlufallsheiði og Breiðadalsheiði allar lokaðar. Þar eru ekki mikil snjóþyngsli og trúlegt að reynt verði að opna vegina. Yfirleitt eru vegir í byggð færir. Í Skagafirði er þó enn bylur og ekki hægt að byrja mokstur. Ekki heldur er mokað á Lágheiði og Siglufjarðarskarði.
Svo virðist sem beinir fjárskaðar hafi orðið minni en á horfðist um tíma, en hretið olli samt verulegum erfiðleikum af margvíslegu tagi. Blöðin héldu áfram að segja frá þeim - og eftirleitum næstu vikuna. Tíminn segir 1.október:
IGÞ-Reykjavík, 30.september. Víða norðanlands er nú snjóþungt og erfitt um beit og horfur á gífurlegu tjóni vegna rýrnunar á dilkum fyrir utan tjón af beinum fjármissi. Snjóalögin eru mest í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum og beitin illsóttari vegna þess að frysti ofan á krapa. Eins og kunnugt er náðist ekki að ganga Eyvindarstaðaheiði, afrétt Skagfirðinga og Austur-Húnvetninga, nema að litlu leyti. Þar skiptir féð þúsundum og að öllum líkindum á hagleysu að mestu. Ástandið er því einna alvarlegast þar. Guðmundur Halldórsson frá Bergsstöðum fréttamaður Tímans í Austur-Húnavatnssýslu var kominn fram að Steiná í Svartárdal síðdegis í dag. Þaðan hringdi hann til blaðsins, og skýrði frá því að í kvöld væri ætlunin að moka snjó af veginum fram að Stafnsrétt og Fossum, sem eru litlu sunnar. Einnig er ætlunin að moka snjó úr Stafnsrétt sjálfri, en töluverður snjór mun vera í henni. Þegar Guðmundur hringdi, stóð yfir smíði á tveim sleðum, sem á að setja aftan í tvær beltisdráttarvélar, er verða í ferðinni upp á Eyvindarstaðaheiði. Einnig verður farið á stórri jarðýtu, sem verður notuð til að ryðja slóð að Ströngukvíslarskála, og verður vagn hafður aftan í henni líka. Upp við Ströngukvíslarskála er svo dráttarvél með vagni, sem skilin var eftir um daginn. Flutt verður hey á þessum farartækjum uppeftir og farangur gangnamanna. Fyrirhugað er að níu menn verði í sjálfri fjárleitinni, fimm Skagfirðingar og fjórir Húnvetningar. Búist er við Skagfirðingunum á bíl vestur í Svartárdal í kvöld. og síðan fari þeir gangandi á heiðina og létti sér ferðina á vélunum. Hins vegar munu Húnvetningarnir fjórir fara ríðandi. Þá eru þrír Húnvetningar farnir upp nú þegar. Lögðu þeir ríðandi af stað upp úr Svartárdal klukkan sjö í morgun og ætluðu fram að Ströngukvísl til að athuga aðstæður, og einkanlega til að kanna ár á leiðinni, og vita hvort þær eru orðnar uppbólgnar af frosti og krapi og illar yfirferðar. Í fyrramálið klukkan átta er svo ætlunin að leggja af stað með vélamar. Á þá að leita fram að Galtará að vestanverðu til að flýta fyrir upp á seinni tímann. Áætlað er að ná til Ströngukvíslarskála annað kvöld á vélunum, en hann er í um fjörutíu kílómetra fjarlægð frá Fossum, innsta bæ í Svartárdal.
Þeir Húnvetningar, sem riðu á undan í morgun eru Sigurjón Guðmundsson, fjallskilastjóri, Fossum, Jósep Sigfússon á Torfustöðum, en hann hefur verið undanleitarforingi í mörg ár á Eyvindarstaðaheiði og Sigurður Sigurðsson, yngri á Leifsstöðum. Talið er að fé á Eyvindarstaðaheiði skipti þúsundum. Að vísu var mikið af því komið niður, vegna þess að sumarið var kalt. Hross eru hins vegar ekki ýkja mörg á heiðinni núna, enda hafa þau sótt meira til byggða á þessu hausti. Bændum er eðlilega ekki rótt út af fé sínu á heiðinni, enda hafa verið frost þar undanfarið ofan á krapahríðina, sem vélaði svo mjög um fyrir mönnum gangnadægrin í síðustu viku. Það má því búast við, að beit sé lítil. Samt telja menn nyrðra að fé sé ekki í bráðri hættu nú orðið, það sem á annað borð er frjálst ferða sinna. Og nú er að vita hverju vélar og menn fá áorkað. Þegar fréttamaður Tímans talaði við Sigurð Guðmundsson, gangnastjóra, á Fossum bróður Sigurjóns fjallskilastjóra, sagði hann að erfitt væri að gera sér grein fyrir því, hve langan tíma tæki að smala heiðina við þær aðstæður, sem nú eru þar, en ekki þýddi að reikna með minna en þremur til fjórum dögum. Að lokum sagði fréttamaður Tímans, sem fer i leitina með mönnunum, að í dag væri sólskin og logn í Svartárdal, er auðfundið að næturfrost mundi fylgja.
HE-Rauðalæk, 30. september. Gert er ráð fyrir, að á annað þúsund fjár hafi orðið eftir á Landmannaafrétti í fyrstu leit, aðallega á mið- og útafréttinum.
KH-Reykjavík. 30. september. Eins og Tíminn hefur áður sagt frá, ætluðu Mývetningar úr uppsveitinni að hefja leitir á Mývatnsöræfum þriðjudaginn sem óveðrið skall á, og urðu þeir að snúa aftur til byggða. Á miðvikudag lögðu gangnamenn aftur upp á öræfin í nokkuð góðu veðri og gekk smölunin vel, þrátt fyrir erfiða færð. Þeir, sem smöluðu lengst inn á öræfin, gistu tvær nætur í gangnakofum og höfðu ágætan aðbúnað þar. Gangnamenn komu til byggða á föstudagskvöld, og var safnið réttað í Hlíðarrétt á laugardag. heldur var færra fé en vanalega, en það stafaði einkum af því, að talsvert var komið í heimahaga áður. Engir fjárskaðar hafa orðið hjá Mývetningum, svo vitað sé, en féð virtist í rýrasta lagi. Enn er hvít jörð í Mývatnssveit, þrátt fyrir þriggja daga sólskin, og 9 stiga frost var þar á sunnudagsnóttina. Austurlandsvegur var opnaður í gær, og kom áætlunarbíll að austan í Reynihlíð í dag.
Morgunblaðið segir einnig frá 1.október:
Blönduósi, 30. september. Gífurlegt fannfergi er nú um meginhluta Austur-Húnavatnssýslu og víða sáralítil jörð fyrir sauðfé. Frá þriðjudagsmorgni og fram á föstudag snjóaði næstum stöðugt, en á miðvikudaginn rigndi sums staðar við og við. Snjókoman var langmest á þriðjudaginn og var þá orðið alhvítt niður að sjó um hádegið. Allir vegir voru orðnir þungfærir, er leið á daginn flestir ófærir næsta dag nema stærstu bílum. Var þá farið að ryðja snjó af vegunum með ýtum og vegheflum og hefur því verið haldið áfram síðan. Flutningar á mjólk og sláturfé hafa gengið erfiðlega og vantar um 800 kindur í fulla sláturfjártölu yfir vikuna. Var þó gert allt sem hægt var, til að ná í sláturféð og flutningar á því stóðu stundum yfir mikinn hluta sólarhringsins. Mjög víða hafa kindur fundist dauðar í skurðum, lækjum og ám, enn enn er lítið hægt að segja um, hve miklir fjárskaðar hafa orðið, því að víða hefur fönnin fyllt skurði, lautir og lækjagil.
Í dag hef ég átt tal við nokkra bændur um ástandið. Sigurjón Björnsson, bóndi á Orrastöðum í Ásum, segir: Á Orrastöðum er víðast jarðlaust, en snapir, þar sem best er. Ófærðin er svo mikil, að á föstudaginn var ég tvær klukkustundir að reka fé hálfs kílómetraleið. Ekkert er hægt að komast um á dráttarvél. Þórður Þorsteinsson, bóndi á Grund í Svínadal: Snjór er svo mikill, að á sex strengja netgirðingu, sem liggur meðfram vegi í gegnum túnið á Grund, eru ekki nema einn til þrír strengir upp úr og á nokkrum stöðum var hún algjörlega í kafi. Stórfannir eru í fjallinu. Á miðvikudaginn rigndi og snjóaði á víxl og þegar frysti kom svo hörð skel á snjóinn, að fé getur ekki krafsað". Guðmundur Einarsson, bóndi á Neðri-Mýrum í Refasveit: Hross brjóta gaddinn, en neyðarástand er að verða með sauðfé. Jónatan Líndal, bóndi á Holtastöðum í Langadal: Fé leið illa í hríðinni, en snjórinn var ekki mjög mikill og nú hafa kindur nokkurn veginn í sig. Dálítið hefur klökknað síðustu dagana." Bjarni Ó. Frímannsson, Efri-Mýrum: Ég er orðinn nær sjötugur og af öðrum þræði finnst mér gaman að hafa lifað svona haust, sem er einsdæmi hér í sveit á þessari öld. Grímur Gíslason. bóndi, Saurbæ í Vatnsdal: Þar sem best er í Vatnsdal líður fé sæmilega síðustu dagana, en á allmörgum bæjum er að mestu jarðlaust nema helst um hádaginn. Þó klökknar ekki það mikið. að auðir toppar sjáist nema þar sem skepnur krafsa. Fé gengur svo hart að jörð. að í kröfsunum er víða nagað niður í mold. Í gær fór ég fram fyrir heiðargirðinguna, sem er norðarlega á Grímstunguheiði til þess að líta eftir stóði, en það er allt á heiðinni enn og margir töldu það í hættu vegna jarðleysis. Snjór var þarna miklu minni en í byggð og hrossin bitu víða úr auðu og gátu vel borið sig yfir. Þau líta ágætlega út. Á Skútaeyrum meðfram Álku hefðu gangamenn víða getað tjaldað í auðu. Snjólétt er að sjá fram heiðina, en á hálsinum vestan Vatnsdals er kafafönn. Þar er jarðlaust að kalla nema þar sem skepnur ná í hrís. Fara átti í seinni göngur á Grímstungu heiði á laugardaginn og koma með stóðið niður í dag. Göngum var frestað. Er ráðgert að leggja upp um næstu helgi. Guðmundur Klemenzson í Bólstaðahlíð: Í fremri hluta Svartárdals er mjög mikill snjór en minnkar eftir því sem norðar dregur. Í Bólstaðarhlíð er lítill snjór og ágæt jörð. Ingvar Jónsson, hreppstjóri, Skagaströnd: Jarðlaust er að kalla nema helst um hádaginn þegar dregur úr frosti snjórinn er orðinn svo harður.
Jónas Bjarnason frá Litladal, sem er elstur allra Húnvetninga, 97 ára, er minnugur vel og segist muna eftir allmörgum stórhríðum um þetta leyti árs, en þær hafi ekki staðið nema stutt og ekki valdið bagalegu jarðleysi í sveitum. Guðmundur Þorsteinsson, Holti í Svínadal: Á laugardaginn fór ég fram á hálsinn milli Svínadals og Sléttárdals, Þar eru stórfannir og næstum engin jörð. Punktstrá, sem stóðu upp úr gaddinum, voru öll ísuð og álíka gild og litlifingur. Þennan dag var glaða sólskin. en samt bráðnaði ekkert utan af stráunum." Jón Pálmason á Þingeyrum: Á haganum í Þingi er lítill snjór og ágæt jörð en meðfram fjallinu er hann meiri og eins þegar kemur fram undir Vatnsdalshóla. A laugardaginn rak Guðmundur Jónsson í Ási nokkur hundruð lömb í hagagöngu að Torfalæk í Ásum vegna hagaleysis heima í Ási. Munu fleiri bændur í Vatnsdal hyggja á sama ráð. Á Torfalæk er ágæt jörð. fyrir heiðargirðinguna í stað til að sækja stóð, sem þar er. Verður það réttað í Auðkúlurétt. Í dag lögðu þrír menn af stað fram á Eyvindarstaðaheiði til þess að huga að fénu. Eins og áður hefur verið sagt í fréttum var ekki hægt að smala í Auðkúluheiðarmenn fóru fram heiðina nema skammt norður fyrir Ströngukvísl. Á morgun fer svo hópur gangnamanna úr Skagafirði og Húnavatnssýslu og fara þeir með jarðýtu og stóran bíl með drifi á öllum hjólum. Á hann að flytja farangur gangnamanna og hey handa gangnahestum. í bakaleiðinni á hann að flytja fé. sem ekki getur gengið, og má búast við, að það verið nokkurt magn. Jarðýtunni er ætlað að ryðja slóð fyrir féð og flytja dráttarvél, sem gangnamenn urðu að skilja eftir á heiðinni um daginn. Í dag er glaða sólskin og logn. Á Blönduósi klökknar lítið á móti sól og alls ekkert í forsælu. B.B.
Í gærkvöldi flutti flutti dr. Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri erindi, er var ávarp til bænda og nefndist Á haustnóttum. Ræddi hann í upphafi máls síns um hausthret það er gerði nú um göngurnar, því versta áhlaupi, sem gert hefir á þessari öld, um þetta leyti árs. Lét hann þess getið, að ekki einungis væru garðávextir og annar jarðargróður undir fönn, heldur væri fé víða í fönn ýmist dautt eða lifandi, en annað stæði í svelti. Búnaðarmálastjóri kvaðst vona að skjótt hlánaði, en þótt svo yrði, hefðu bændur orðið fyrir tugmilljónatjóni í áfelli þessu Lægi eitthvert tilfinnanlegasta tjónið í því, hve sláturfénaður allur legði ört af, auk hinna beinu fjárskaða.
Borgarfirði eystra, 29. september. Í fyrrinótt hleypti hér inn miklu brimi og gerði skyndilega hafrót við hafnargarðinn. Vélbátinn Njörð, sem er eign Vigfúsar Helgasonar, sleit upp og rak suður undir Kiðubjörg og brotnaði í spón. Njörður var tæpar 4 lestir og næststærsti fiskibátur hér. Talsverð verðmæti voru i bátnum, þ.á.m. nýr gúmmíbátur.
Tíminn segir af kornrækt 2.október:
BÓ-Reykjavik, 1.október. Kornið hefur að miklu leyti brugðist í ár. Vöxtur og þroski er yfirleitt undir meðallagi, og sumt hefur alls ekki þroskast. Flosi Sigurðsson, fréttaritari blaðsins á Fosshóli, sagði í dag, að ekkert af korni Suður-Þingeyinga hefði náð að þroskast. Það er nú slegið með stönginni og nýtt sem grænfóður, sumir gefa það kúnum með haustbeitinni, aðrir saxa það í votheysgeymslur. í fyrra þresktu Þingeyingar allt sitt korn. Þar er nú frost í jörðu og þiðnar ekki daglangt.
[Í blaðinu er allítarleg frásögn af flugferð yfir heiðar norðanlands þar sem fylgst er með leitarmönnum]
Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri skrifar: Eftir stutt og óvenju kalt, en þurrviðrasamt sumar, lét haustið ekki á sér standa. Það heilsaði á jafndægri að hausti með vetrarstórhríð um meirihluta landsins, því versta áhlaupi, sem komið hefur á þessari öld um þetta leyti árs. Enn þá, eftir viku frá því áhlaupið skall á, er feikna fönn ekki aðeins á hálendinu, heldur um flestar sveitir norðanlands og vestan. Víða er fé því nær eða alveg í svelti. Undir fönninni liggur ekki aðeins garðávextir og nokkuð af heyi, heldur óefað mikið af fé, ýmist dautt eða lifandi. Við skulum vona, að hláni fljótlega, en þó svo verði, þá hafa bændur orðið fyrir tugmilljóna tjóni í áfelli þessum. Eitthvert tilfinnanlegasta tjónið liggur í því hve sláturfénaður allur leggur ört af, auk hinna beinu fjárskaða.
Morgunblaðið talar enn um leitir á Eyvindarstaðaheiði 3.október:
Ekki hafði í gær frést neitt af gagnamönnum á Eyvindarstaðaheiði, sem þangað fóru í fyrradag á jarðýtu og tveimur dráttarvélum með hálfbeltum og með tvo sleða auk þess sem sex menn fóru ríðandi, sagði Guðmundur Klemensson í Bólstaðahlíð blaðinu í gær. Sigurður Guðmundsson bóndi og gangnaforingi á Fossi í Svartárdal stjórnar þessum sögulegu leitum og er gert ráð fyrir að gagnamenn komi niður að Stafni í dag. Bæði er allmargt hrossa og fé inni á heiðinni, en búið var áður að smala út fyrir Ströngukvísl. Í fyrradag var Svartárdalur ruddur svo og hreinsaði jarðýta úr almenningnum í Stafnsrétt, en hann var fullur af snjó. Í gær var hláka fyrir norðan og óttast menn að vaxi í ám svo að það geti orðið til baga við fjárleitirnar.
Morgunblaðið segir 5.október frá minni fjársköðum en menn höfðu búist við:
Blönduósi, 4.október Fjárskaðar mun minni en búist hafði verið við. Nokkrar kindur fundust dauðar í lækjum og ám, en fjárskaðar eru að líkindum mun minni en búist var við. Féð leit yfirleitt vel út og virtist ekki hafa liðið hungur. Stafnsrétt hófst við birtu í morgun. Þá var talsvert frost, en blæjalogn. Féð var með fæsta móti og réttinni lokið um hádegi. Réttardagurinn var mjög ólíkur því sem venja er í Stafnsrétt. Aðkomufólk var næstum ekkert, en oftast er þar geysimargt. Snjó hafði verið ýtt með jarðýtu úr almenningnum, en í dilkunum var mikill snjór. Sums staðar hafði verið stungið frá veggjum og snjóhausunum hlaðið upp á þá til að hækka þá upp. Björn
Tíminn segir 6.október frá seinni göngum: [Í blaðinu er einnig allítarleg frásögn Hríðargöngum lýkur. Þar er sagt frá göngum á Eyvindarstaðaheiði].
GJ-Ási í Vatnsdal, 5.október. Í dag leggur fyrri flokkur í seinni göngur, en þeim var frestað vegna snjóa. Nú verður smalað stóði og því sem eftir er af fé. Flokkurinn verður tvær nætur á heiðinni, fer í Öldumóðuskála í kvöld og leitar Kvíslarnar á morgun. Þeir eru fjórir saman. Aðalflokkur leggur af stað í fyrramálið og verður eina nótt í stað tveggja, sem vanalegt er. Stóðréttin að Undirfelli verður á þriðjudaginn að öllu forfallalausu. Nokkrir Vatnsdælingar áttu sæti úti, þegar bylurinn skall á og í dag eru þeir að hirða úr snjónum. Á einum bæ var flöt há á túninu, en hún kemst aldrei inn fyrir hlöðudyr. Flestir eiga eftir að taka upp kartöflur, en snjóskaflinn í kartöflugarðinum hér i Ási er meir en metri á þykkt. Hér hefur verið svo annríkt að stjana við fénaðinn, að enginn tími hefur unnist til að gera sér grein fyrir ástandinu eða skýra frá því fyrr en nú. Í nótt var frostlaust i byggð og snjórinn er farinn að sjatna. Alls staðar er einhver jörð, en sums staðar eru það bara hnottar sem standa upp úr. Áður var snjórinn í hné á jafnsléttu. Hér í Ási hafa sex kindur fundist í fönn, og vitað er að bændur hafa misst eina og eina kind. Allstaðar vantar eitthvað af fé. Sumir ráku fé sitt burt úr heimahögum, þangað sem snjór var minni, og víst er um það, að engan rekur minni til slíkrar ákomu á þessum árstíma hér um slóðir. Í Víðidal er snjór heldur minni. en í Svartárdal er mikil fönn og út í Vatnsnesfjöllunum.
Morgunblaðið segir af göngum á Grímstunguheiði í fregn 8.október:
Ási, Vatnsdal 7. október. Gangnamenn af Grímstunguheiði komu til byggða um kl.16 í dag, eftir að hafa leitað heiðina í annað sinn. Átti ég í dag tal við Lárus Björnsson í Grímstungu, foringja gangnamanna, og sagðist honum svo frá: Mikill snjór var á heiðinni og þungt færi með hesta nema á stórum fönnum. Þær héldu hestum að mestu leyti. Í Forsæludalskvíslum var minni snjór en vestur á heiðinni, og sæmileg jörð. Á vesturheiðinni var knappur hagi, einkum framundir Stórasandi. Nær öll vatnsföll voru lögð þykkum is og ráku gangnamenn stóð á ís yfir Ströngukvísl, sem er lengsta og vatnsmesta upptakakvísl Vatnsdalsár. Segir Lárus að hann viti engin dæmi þess að stóð hafi áður verið rekið á ís yfir kvíslina á þessum árstíma. Í fyrri göngum var skyggni slæmt að nýafstaðinni hríð. Af þeim ástæðum varð fleira fé eftir á heiðinni en venjulega. Sagði Lárus að féð, sem þeir fundu nú, liti ágætlega út, og miklu betur en fé í heimahögum í Vatnsdal.
Krafsjörð hefur alltaf verið sæmileg á heiðinni, en í Vatnsdal mátti heita að féð krafsaði ekkert. Var snjórinn blautur fyrstu dagana, en þegar birti upp var frost á hverri nóttu og kom þá hörð skel á snjóinn. Björn
Mánuði síðar bárust fréttir úr Árneshreppi. Tíminn segir frá 30.október:
GPV-Trékyllisvík, 29.október. Mikil óáran hefur verið í Árneshreppi í sumar. Hefur það haldist áfram í haust, og er útlitið ekki sem best. Búast má við að skera verði niður bústofn bænda, en um þessar mundir eru þó þrír menn norður í Eyjafirði í heykaupum, sem stofnað hefur verið til fyrir forgöngu Búnaðarfélagsins. Víða var töluvert af heyjum úti, þegar hretið skall á 24. og 25. september. Aðallega var það úthey, sem heyjað var eftir höfuðdag, en aldrei gert flæsu á. Þetta hey fór allt í fönn. Hjá flestum er það algerlega ónýtt, enda hefur fé gengið í það. Verða það líklega einu notin af því. ... Síðan i ofviðrinu 24.25. september, hefur verið stöðug ótíð hér Enginn heill dagur góður, heldur stöðugir umhleypingar. Þá setti niður mikinn snjó, svo að allt var á kafi, jarðlaust og vegir ófærir. Það tók tvo daga að ryðja snjó af veginum frá Árnesi til Norðurfjarðar, um 78 km leið. Á tveimur stöðum þurfti að fara í gegnum 23 mannhæða háa skafla. Lengst af hefur verið jarðlaust síðan eða jarðlítið. Gat ekki heitið að tæki neitt upp fyrr en 14. október. eftir að fellibylurinn Flóra fór yfir. Þá komu upp hagahnjótar og stóð það nokkra daga. Oft hefur bleytt í stund úr degi, en úr koman jafnan breyst í snjókomu og skeflt yfir aftur. Nokkuð hefur bleytt í núna síðustu dagana, og snjór sigið töluvert.
Nokkrir fjárskaðar urðu í bylnum, aðallega þó á tveimur bæjum. Á Melum drápust 20 kindur, sem ýmsir áttu og í Bæ 8 kindur. Annars staðar hafa ekki orðið fjárskaðar, þó vantar víða kind og kind, sem sennilega hefur drepist. Nýlega hafa fundist þrjár kindur, sem fennti í leitahretinu. Á Melum fannst ær í skafli. Hafði hún þá verið 3 vikur í fönn. Skeflt hafði yfir hana frammi í fjörugrjóti, þar sem hún var í algeru svelti og sjálfheldu Hún var lifandi, en svo aðframkomin, að lóga varð henni. Fyrir viku kom ær úr skafli, sem var héðan frá Bæ. Hafði hana fennt í djúpum skurði. Í blotanum undanfarna daga hafði þiðnað svo ofan af henni, að hún komst af sjálfsdáðum úr skaflinum. Hún er sæmilega hress, en orðin mögur, enda ekki náð í neitt nema þá mold. Á miðvikudaginn fannst svo þrevetur hrútur frá Munaðarnesi uppi á Krossnesfjalli í fönn. Hann hafði staðið í dýi þegar skefldi yfir hann. Var hann með lífi, en svo aumur, að honum var lógað strax.
Eftir að veðrinu lauk komu nokkrir rólegir dagar. Lýkur hér samantekt hungurdiska um hið eftirminnilega hrakviðri í síðustu viku septembermánaðar 1963.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 45
- Sl. sólarhring: 233
- Sl. viku: 1010
- Frá upphafi: 2420894
Annað
- Innlit í dag: 38
- Innlit sl. viku: 887
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 38
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010