Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2024
25.7.2024 | 23:13
Dembur
Vísindi og fræði | Breytt 26.7.2024 kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2024 | 22:54
Bara að nefna það - þá ...
Í gær birtist hér á hungurdiskum pistill um lágan loftþrýsting í júlímánuði. Það hefur að vísu ekkert breyst frá því í gær hvað innihald hans varðar - það stendur fyrir sínu - en nú vill skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar (drauma - eða martraðarsvið hennar) stinga upp á athyglisverðu tilviki í næstu viku. Við verðum auðvitað að taka fram að hér er ekki um neinn raunveruleika að ræða - enn sem komið er að minnsta kosti - og aðrar spár sýna ekki það sama.
Kortið gildir eftir rúma viku, miðvikudag 31. júlí, kl.6 að morgni. Háloftalægðin fyrir vestan land er sérlega djúp og öflug - og háloftavindar með því öflugasta sem sést í júlímánuði - ekki mjög efnilegt satt best að segja. Til að þetta verði þarf stór hluti stóra kuldapollsins í Norðuríshafi að brotna frá - og fara til suðurs um Ellesmereeyju og Baffinsland - og síðan skríða til austurs inn á Grænlandshaf. Þetta er nokkuð flókin atburðarás sem er háð því að ýmislegt gangi upp. Líkur eru heldur gegn því að þetta gerist svona - aftur á móti er ekki ólíklegt að kuldapollurinn fari af stað. Í því fellst ákveðin von fyrir þá sem vilja gjarnan fá breytingu á veðurlagi - en jafnframt áhætta. Fleiri spár senda stóra brotið lengra til suðurs - fari svo gæti það komið veðurlaginu úr því fari sem það hefur verið í að undanförnu.
Háloftavindarnir sem sjást á kortinu eru óvenjusterkir - en kannski ekki alveg dæmalausir. Hægt er að leita uppi svipuð dæmi. Við finnum strax 9. júlí 2018 - en þá var munurinn þó sá að kuldapollurinn var ekki eins öflugur - og allt á meiri hraða en nú er, loftið líka hlýrra. Þetta var rétt í kringum hlaupið mikla úr Fagraskógarfjalli.
Ef við leitum lengra aftur í tímann finnum við daga bæði árið 1972 og 1964. En það tilvik sem birtist líkast þessu er frá rigningasumrinu mikla 1955.
Afskaplega ámóta háloftakort - en þó var sá munur að árið 1955 var sjávarmálslægðin sem fylgdi mun grynnri heldur en spá skemmtideildarinnar nú - henni er spáð niður í 970 hPa - harla óvenjulegt - eins og fjallað var um í hungurdiskapistli gærdagsins. En það þarf bara að nafna það, þá ...
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2024 | 13:47
Fyrstu þrjár vikur júlímánaðar 2024
22.7.2024 | 00:23
Lægsti og hæsti þrýstingur í júlí hér á landi
Þann 15.júlí sumarið 2012 birtist á hungurdiskum pistill undir yfirskriftinni: Lægðir eru grynnstar í júlí. Megnið af því sem stendur í þessum pistli er enn í fullu gildi, en eitt atriði hans varð samt úrelt innan viku (sennilega var það ástæða þess að pistillinn komst yfirleitt á blað). En síðan eru liðin 12 ár - (ritstjóranum finnst að hann hafi bara rétt litið upp) og kannski er ástæða til að endurskrifa pistilinn. Honum fylgdu þrír aðrir pistlar dagana á eftir - flest þar stóð átti bara við stöðuna þá - ekki þörf á að endurtaka það nú. En hefst nú lesturinn:
Á Íslandi er stormatíðni minnst í júlímánuði. Mjög djúpar lægðir eru sjaldséðar og mikill þrýstibratti frekar fátíður - alla vega fátíðari heldur en í öðrum mánuðum. Meðalloftþrýstingur er hins vegar hærri í maí heldur en júlí. Það bendir til þess að hár þrýstingur sé líka frekar fátíður á þessum árstíma.
Við skoðun á tölvuspám er mjög hagkvæmt að hafa tilfinningu fyrir því hvað er óvenjulegt - er djúp lægð sem kemur fram í margra daga spám trúverðug - er hún óvenjuleg? Er rétt að gefa henni sérstakt auga? Við þurfum einhvern kvarða til að miða við og ljóst er að hann er allt annar í júlí heldur en í janúar. Við reynum því að svara því hvenær júlílægð telst óvenjudjúp og hvenær er háþrýstisvæði orðið óvenjuöflugt á þeim tíma árs.
Til að gera það horfum við á línurit sem sýnir lægsta og hæsta þrýsting sem mælst hefur hér á landi í júlí frá 1821 til 2023. Taka verður fram að listinn að baki línuritinu er ekki alveg skotheldur (þó bættur frá 2012) og verður seint farið nákvæmlega í saumana á öllum villum - þær eru örugglega einhverjar.
Lóðrétti kvarðinn sýnir þrýsting í hPa en sá lárétti vísar á árin. Bláu súlurnar ná til háþrýstings en þær gráu sýna lægsta þrýsting hvers júlímánaðar. Við sjáum enga leitni sem hönd er á festandi, en þó, að lágþrýstingurinn virðist stökkva meira til frá ári til árs á fyrri hluta tímabilsins - en hann gerir það líka síðustu tíu árin. Í heildina virðist sem lágþrýstilínan leiti heldur niður á við - en meginástæðan er trúlega sú að framan af mældu mjög fáar stöðvar á landinu þrýsting og þær sem það gerðu athuguðu flestar aðeins einu sinni til þrisvar á dag. Líkur á að missa af lægsta þrýstingi þegar þannig hagar til eru því töluverðar - sérstaklega vegna þess að lægsti þrýstingurinn fylgir einkum hraðfara kröppum lægðum. Þótt ítrasti háþrýstingur geti einnig farið forgörðum af sömu ástæðum eru líkur á að miklu skeiki talsvert minni. - Breiðari og jafnari línur (sía) eru settar inn til að auðvelda okkur að fylgja súlunum.
Þrjú lægstu tilvikin eru, 2012, 1901 og 1923. Það var þann 22. júlí 2012 sem þrýstingur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum fór niður í 972,4 hPa, sá lægsti sem mælst hefur á Íslandi í júlí. Þann 18. júlí 1901 mældist þrýstingur í Stykkishólmi 974,1 hPa, kannski varð hann enn lægri milli athugana. Tilvikið frá 1923 er ómarktækt hærra (líka úr Stykkishólmi).
Á fyrri hluta tímabilsins er slæðingur af tilvikum þar sem lægsti þrýstingurinn fer ekki niður fyrir 1000 hPa allan mánuðinn. Árið 2012 hélt ritstjórinn að það hefði einnig gerst 2011, en sást yfir athugun úr Grindavík þar sem þrýstingurinn mældist 999,7 hPa - og var þar með lægri en 1000 hPa. En svo var það í júlí 2015 að þrýstingur fór ekki niður fyrir 1000 hPa, mældist lægstur í Surtsey og í Önundarhorni undir Eyjafjöllum (1000,4 hPa). Þessar stöðvar voru auðvitað ekki að mæla fyrr á tímum.
Við sjáum greinilega að áratugur eða meir getur einnig liðið á milli þess sem þrýstingur fer niður fyrir 980 hPa í júlí, en það gerist þó það oft að það telst varla afbrigðilegt (fjórum sinnum frá síðustu aldamótum). Ganga má út frá því sem vísu að ólíklegt sé að Ísland veiði allar dýpstu lægðirnar. Júlílægð á Atlantshafi sem er um 980 hPa djúp telst því ekki mjög óvenjuleg.
Aftur á móti er mjög sjaldgæft hér á landi að þrýstingurinn fari niður fyrir 975 hPa - svo djúp lægð er óvenjuleg á Atlantshafi í júlí og þá auðvitað allt þar fyrir neðan. Þegar þetta er skrifað vitum við aðeins um þrjár mælingar á landinu í júlí neðar en 975 hPa (áður taldar) og í tveimur tilvikum í viðbót mældist þrýstingurinn 975,0 hPa (1912 og 2014).
Af háþrýstihluta myndarinnar (þeim bláa) má sjá að hæsti þrýstingur júlímánaðar er oftast á bilinu 1020 til 1025 hPa en sjaldgæft er að hann nái 1030 - hefur ekki orðið svo hár hér á landi síðan 1996. Komst reyndar mjög nærri því 2012 því þá var 1031 hPa hæð rétt fyrir suðvestan land, en hæst mældust 1029,5 hPa á veðurstöð (á Reykjavíkurflugvelli og í Surtsey).
Allt ofan við 1032 hPa er mjög óvenjulegt. Háþrýstimet júlímánaðar telst vera 1034,3 hPa og var það sett í Stykkishólmi 3.júlí 1917. Grunur leikur reyndar á að loftvogin í Stykkishólmi hafi sýnt lítillega of hátt á þessum tíma - en varla munar þó nema einhverjum brotum úr hPa (mesta lagi 0,5 til 0,7 hPa). Stykkishólmur á líka næsthæsta gildið, það er frá 4. júlí 1978.
Mesti munur á þrýstingi í sama júlímánuði er 57,1 hPa, það var 2012. Útspönn júlíþrýstingsins fyrir tímabilið allt er reynist vera 61,9 hPa - sú minnsta í nokkrum mánuði ársins.
Ritstjóri hungurdiska á greiðan aðgang að hluta endurgreininga, punkta í námunda við Ísland. Auðvelt er að leita að lágum þrýstingi í þessum punktum öllum. Við getum til hægðarauka talað um stóríslandssvæðið.
Leitin hefur farið fram og í ljós kom að bandaríska greiningin (c20v2 - til 2008) nær íslensku lágþrýstigildunum þremur (1901, 1912 og 1923) ekki alveg - lægðir hannar eru aðeins of flatar í botninn - eða lágþrýstingurinn of skammlífur til þess að þær komi fram í netinu. Sé leitað á stóríslandssvæðinu öllu finnast aðeins þrjú tilvik önnur þegar þrýstingur var undir 975 hPa að mati greiningarinnar í júlí. Þetta var 1926, 1948 og 1964. Í síðasta tilvikinu var þrýstingurinn lægstur í suðausturhorni svæðisins - sennilega einhver dýpsta lægð sem nálgast hefur Skotland í júlímánuði, hugsanlega var þrýstingur í miðju hennar undir 970 hPa (að morgni 8.júlí).
Í framhaldi af þessu var spurt hversu lágt þrýstingur gæti farið hér á landi í júlí. Skýringardæmið sem notað var í pistlinum 2012 á enn vel við - og röksemdafærslan líka. Við endurtökum það því ekki hér en vísum í gamla pistilinn sem birtist 23.júlí 2012 - en tökum fram að miðjuþrýstingur lægðarinnar sem olli metinu 2012 var 966 hPa.
Það eina sem hefur bæst við er að evrópska endurgreiningin stingur upp á 5170 metrum sem lægstu 500 hPa hæð á svæðinu. Hún kemur fram í greiningunni 5.júlí 2013 - ekki yfir Íslandi, en ekki langt fyrir suðvestan land.
Svarið í lok pistilsins var - og við breytum því aðeins lítillega:
Svarið um lægsta hugsanlega loftþrýsting í júlí gæti því verið á bilinu 953 til 956 hPa. Erfiðleikarnir við að komast niður fyrir 975 hPa benda þó til þess að þetta sé samt eitthvað mjög ólíklegt (hátt í 20 hPa neðar en núverandi Íslandsmet - og meir en 10 hPa neðar en dýpstu lægðir sem við vitum um á svæðinu í júlí). Mjög erfitt er að segja til um hvort hlýnandi veðurfar auki eða minnki líkur á stefnumótum lágra hæðarflata og mikillar þykktar í júlí. Hlýnun færir jafnþykktarlínur að meðaltali til norðurs - þannig að 5580 metra línan ætti að sjást oftar og lengur við Ísland en nú er. En hvernig fer með kuldapolla norðurslóða? Því virðist enginn geta svarað enn sem komið er.
20.7.2024 | 15:58
Hugsað til ársins 1925
Árið 1925 var talið hagstætt lengst af þrátt fyrir fáein eftirminnileg illviðri, mikla mannskaða á sjó, mannskaðasnjóflóð og votviðrasumar um landið sunnanvert. Auk þess urðu óvenjumargir úti. Stormasamt var í janúar og úrkoma allmikil, einkum vestanlands. Gæftir voru slæmar. Í febrúar var veðrátta stirð framan af, en síðan betri. Mikill snjór um tíma. Fremur svalt. Tíð í mars var talin rysjótt, en ekki mjög óhagstæð. Mikill snjór var inn til landsins á Norðausturlandi. Apríl var nokkuð hagstæður og maí sömuleiðis, en þá var hiti þó undir meðallagi. Í júní var votviðrasamt syðra, en hagstæð tíð um landið norðaustanvert. Júlí var fremur votviðrasamur suðvestanlands, en þó var þurrkur í viku síðari hluta mánaðar. Norðaustanlands var tíð hagstæð. Ágúst var votviðrasamur á Suðvesturlandi, en hagstæð og blíð tíð var norðaustanlands. Í september var tíð lengst af nokkuð góð og hirtust hey loks um landið sunnanvert. Október var hagstæður, þurrt var, einkum á Suður- og Vesturlandi. Í nóvember var tíð mjög hagstæð, einkum til landsins. Desember var einnig talinn hagstæður, síst þó um landið norðanvert. Eftirminnilegt hríðarveður gekk þó yfir.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is), hjá veðurathugunarmönnum og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að færa stafsetningu til nútímahorfa (að mestu), sömuleiðis eru textarnir oft styttir. Vonandi sætta höfundar sig við það. Hungurdiskar hafa áður fjallað um þrjú illviðri á árinu áður í sérstökum pistlum, óvenjulegt sunnanveður í janúar, halaveðrið svonefnda í febrúar og mikinn hríðarbyl á aðventu. Í þeim pistlum má finna veðurkort - og almenna umfjöllun um eðli þessara veðra. Verður það ekki endurtekið í þessu yfirliti, en skaðaumfjöllun er hér nokkru ítarlegri.
Þáttaskil urðu í útgáfumálum á Veðurstofunni. Á árunum 1920 til 1923 hafði verið gefin út Íslensk veðurfarsbók - með sama sniði og ársrit Dönsku veðurstofunnar (Meteorologisk Aarbog). Veðurstofunni var á þessum árum mjög naumt skammtað fé - og bjó jafnvel við hótanir um nær algjöran niðurskurð. Því var ákveðið að fara málamiðlunarleið, farið var að gefa út sérstakt mánaðaryfirlit. Nefndist það Veðráttan. Fyrsta árið, 1924 var gefið út í einu lagi, nánast textalaust, en frá og með janúar 1925 fylgdi yfirlitstexti um helstu veðuratburði mánaðarins, afskaplega gagnlegt. Veðurathugunarmenn voru þar að auki beðnir um að lýsa veðurfari hvers mánaðar. Sumir gerðu það síðan nokkuð reglulega, misítarlega auðvitað. Sáralítið er þó af slíkum mánaðaryfirlitum fyrr en haustið 1925. Í upphafi texta Veðráttunnar í ársyfirlitinu 1925 segir:
Menn munu yfirleitt kalla veðráttufarið árið 1925 gott og hagstætt, sumir jafnvel ágætt, en með þessu er þó fremur lítið sagt. Nákvæm lýsing á hinum einstöku þáttum veðráttunnar, einkum þeim, sem afkoma manna til lands og sjávar byggist mest á, er nauðsynleg til skýringar, og þó verður alltaf töluverð óvissa, vegna þess að menn leggja eigi allir sömu merkinguna í orðin góður, hagstæður, o.s.frv. Til þess að geta borið saman tvö ár, þarf að hafa ákveðinn mælikvarða á árferðinu.
Þessi orð eiga enn við og víst er að okkar tímar hefðu áreiðanlega metið árið 1925 öðru vísi heldur en þá var gert.
Ægir 12. tölublað 1925 segir:
Tólf erlend skip hafa strandað við Ísland á ári þessu, og af þeim, sex fyrir austan á Söndunum. Eitt strandar við Hjörsey á Mýrum, eitt á Bæjarskerseyri, það náðist út litt brotið, eitt við Þorlákshöfn, eitt við Einarsdranga við Vestmannaeyjar og eitt við Hafnarberg. Á árinu hafa drukknað af íslenskum skipum og bátum 93 menn, og auk þess sex Englendingar með Fieldmarschal Robertson (8. febrúar). Íslensk skip og bátar, sem farist hafa á hafi og brotnað við land eru 8 að tölu og eru þessi: M/b. Solveig, b/s. Leifur hepni, m/b. Oddur í Reyðarfirði, mótorbátur frá Berufirði, m/b. Hákon Ísafirði, m/b. Ingólfur Sandgerði, skonnortan Veiðibjallan Reykjavík, b/s. Ása Reykjavík.
Í textanum hér að neðan er ekki getið um alla þessa skipskaða, þeir tengdust heldur ekki allir veðri, beinlínis.
Janúar var umhleypingasamur en fremur hlýr. Úrkoma í meira lagi á Vesturlandi, en minni norðaustanlands. Mánuðurinn byrjaði með norðanátt og talsverðu frosti. Hríð var þá norðanlands.
Við leyfum fréttum frá árslokum 1924 (og ekki birtust í pistli hungurdiska um það ár) að fylgja hér - annars er vísað í þann pistil. Dagur segir frá 6.janúar:
Fyrirburður. Undarlegur náttúrufyrirburður sást hér við Eyjafjörð að kvöldi dags 30. desember síðastliðinn og sáu hann margir menn. Dimmt var af þoku í lofti en hríðarlaust. Sáu menn þá ljósglampa marga og sterka í norðausturátt frá Akureyri. Var sem kastað væri sterku leitarljósi um fjöllin austanmegin Eyjafjarðar norðarlega með svo sterkri birtu, að greinilega sáust bæir og landslag og að sögn mun skýrara, en þegar sól skein sem bjartast. Sáu menn yfir bregða þessu ljóshafi mörgum sinnum, en skamma stund í hvert sinn. Ættu náttúrufræðingar að skýra þennan fyrirburð, ef þeim er það unnt.
Tíðarfarið. Brugðið er nú til strangrar vetrarveðuráttu. Gerði norðanhríð um áramótin með mikilli fannkomu. Birti upp á sunnudaginn með miklu frosti.
Afspyrnuveður af austri gerði hér að kvöldi dags á annan í jólum. Samfara veðrinu var alveg óvanalegt hásævi. Sjór gekk upp á götur bæjarins, braut uppfyllingar, flæddi í kjallara o.s.frv. en eigi varð þó tilfinnanlegur skaði hér að ágangi vatns og veðurs.
Þann 6. hlánað, Vísir segir af hálku þann dag:
Hálka var mikil á götunum í morgun, og þyrfti sem fyrst að bera sand á þær.
Næsta hálfan mánuð rúman gengu lægðir hver á fætur annarri yfir landið eða til norðurs eða norðausturs í námunda við það. Sumar voru djúpar og ollu illviðrum, einkum þ.11., 14. 17. 19. og loks þann 21, en það veður varð langverst á landsvísu. Kröpp lægð fór yfir að kvöldi þess 11. og olli tjóni. Benedikt Jóhannsson veðurathugunarmaður á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði segir af veðrinu:
Nóttina milli þess 11.-12. þ.m. voða ofveður af suðvestri svo hús fjúka af grunni og brotna, setur þök af húsum, mölvar báta og gjörir skaða á einum manni. Vindafl 11.
Dagur segir af sama veðri 15.janúar - og síðan af veðrinu um jólin:
Ofviðri gerði hér á mánudagsnóttina [aðfaranótt 12.] af þvervestri. Í Kræklingahlíð brotnuðu 10 símastaurar. Eigi hefir frést um annan skaða af völdum þessa veðurs.
Hásævi mikið varð við Íslandsstrendur um jólin, svo að þvílíkt er ekki í manna minnum. Hér norðanlands fór saman hásævi og ofsaveður af austri aðfararnótt þriðja í jólum. Var áður getið um að sjór gekk yfir allar götur og gerði nokkrar skemmdir hér á Akureyri. Þó kvað miklu meira að þessu sjávarflóði í Ólafsfirði. Þar gekk sjór óbrotinn á land yfir þorpið og gerði mikinn usla. Verður síðar skýrt nánar frá þeim atburðum.
Í Morgunblaðinu 15.janúar er athyglisvert viðtal við Þorkel Þorkelsson veðurstofustjóra um skeytaaðföng og veðurspár.
Morgunblaðið segir almennar fréttir:
[16.janúar] Austan úr sveitum. Samkvæmt skeyti til Morgunblaðsins í gær. Snjór er nokkur þar eystra, jarðlaust í uppsveitum, en þar sem næst til jarðar í lágsveitum notast hún ekki fyrir umhleypingum. Á sjó hefir ekki gefið nú undanfarið.
[17.] Frá Sauðárkróki er símað í gær, að þar væri um þessar mundir mesta rytjuveður og fannkoma annað slagið. Snjór kvað þó ekki vera kominn ýkjamikill í Skagafirði enn.
Mjög kröpp lægð fór norður um landið vestanvert þann 17. Morgunblaðið segir frá 18.janúar:
Ofsarok af suðvestri gerði hér í gær, og mun vart hafa komið hér öllu meira veður um langt skeið. Voru margir hræddir um, að eitthvert rask mundi verða hér á höfninni á skipum þeim sem þar liggja; en svo varð þó ekki, enda voru skipin tiltölulega fá.
Alþýðublaðið segir frá sama veðri 19.janúar:
Tíðarfar hefir verið stirt og umhleypingasamt víðast hvar upp á síðkastið, hríðar, rigningar og hvassviðri. Útsynningsrok mikið var á laugardaginn [17.], en ekki hefir spurst, að það hafi valdið verulegu tjóni eða nokkrum mannskaða. Aflabrögð eru dauf á smáskip, enda gæftir stopular.
Alþýðublaðið heldur áfram 20.janúar:
Vélbáturinn Hákon frá Ísafirði, eign Jóhanns J. Eyfirðings & Co, strandaði á laugardag [17.] á Hólatöngum við Bolungarvík. Menn björguðust allir. Veður var afarvont vestra þennan dag sem víða annars staðar. Báturinn var tryggður á 18.000 krónur.
Gríðarlegt sunnanveður gerði þann 21. Því fylgdi mikið sjávarflóð á sunnanverðum Reykjanesskaga og austur að Þjórsá - þar fyrir austan fréttist ekki af flóðasköðum. Miklar leysingar urðu norðanlands. Fokskaðar urðu víða. Fjallað var um illviðrislægðina, aðdraganda hennar og eftirfylgjur í sérstökum pistli hungurdiska [fárviðrið 21.janúar 1925]. Það verður ekki endurtekið hér, en litið ítarlegar á fréttatexta um veðrið og tjón af þess völdum. Nokkuð er um endurtekningar í fréttapistlunum - en hver og einn þeirra er einnig með upplýsingar sem ekki eru í hinum þannig að við leyfum sem flestu að fljóta með.
Vesturland á Ísafirði segir frá veðrinu þann 21. og segir veðrið hafa orðið í gær. Aðalveðrið var þó þann 21. - spurning hvort dagsetning á útgáfunni er rönt. En blaðið segir svona frá:
Stórviðri gerði hér í gær. Er lítið frétt af afleiðingum þess í nágrenninu, en víst má telja, að skaðar hafi orðið talsverðir á húsum og bátum. Hér á Ísafirði sökk mb. Vonin ca. 10 tonn, eign Sameinuðu verslananna. Þrjá mótorbáta sleit upp í Sundunum og rak í land. Bátar þessir voru úr Hnífsdal. Náðust tveir lítt skemmdir, en einu rak alveg á land. Í Hnífadal urðu skaðar miklir á húsum, svo nema munu tugum þúsunda. Mestum skaða hafa orðið fyrir Ólafur Andrésson er missti smíðahús sitt. Fauk það í heilu lagi. Hálfdán Hálfdánsson missti tvo nótabáta og fleiri skemmdir urðu hjá honum. Íbúðarhús Guðmundar Sveinssonar skemmdist og verslunarhúsið eitthvað líka. Margar skemmdir urðu aðrar. Þök fuku af hlöðum og hjöllum og heyskaðar urðu nokkrir. Sjálfsagt hafa skaðar orðið víða í nágrenninu, þó eigi sé það ljóst enn sumpart sökum símabilana.
Þrír veðurathugunarmenn geta veðursins. Haukur Kristinsson á Núpi segir 21. Fuku víða hús. Við fáum ekki að vita meir. Guðmundur Davíðsson á Hraunum í Fljótum segir 21.: Ofsaveður frá kl.ca.12 til kl.ca.8, og Jón Þorsteinsson á Möðruvöllum 21.: Ein mesta vetrarhláka í mínu minni.
Dagur segir af hláku 22.janúar:
Ofsahláku gerði hér síðastliðinn sólarhring með rigningu og stórleysingu. Uxu lækirnir hér í bænum svo, að þeir hlupu úr farvegum sínum, flæddu um göturnar, inn í kjallara og gerðu talsverðar skemmdir á vörum. Nú er aftur komin hríð og má telja að tíðarfarið sé frábærlega óstöðugt og stórbrotið.
Alþýðublaðið gefur yfirlit um tjón í Reykjavík 22.janúar:
Ofsaveður af suðri rak á í fyrrinótt [aðfaranótt 21.] og hélst til síðdegis í gær, en var mest um hádegið. Var tæplega stætt á götunum. Særok dreif yfir bæinn sunnan úr Skerjafirði, og á Tjörnina og höfnina var að sjá sem gufumekki. Skemmdir urðu talsverðar af rokinu. Þök rauf af húsum að nokkru eða öllu leyti, svo sem á Laugavegi 49B, Suðurgötu 10, af skúr við Ísbjörninn, Túngötu 5; þar rauk allt þakið af í einu lagi; sundruðust járnplöturnar með eldglæringum norður á Geirstúni og þeyttust síðan sem fjaðrafok sitt á hvað. Fólk flýði úr húsi á Bragagötu 38. Skúrar fuku og brotnuðu hér og þar; t.d. tók skúrinn ofan af þúfnabananum, og stóð hann nakinn eftir. Þakhellur tók af Alþingishúsinu, flaggstöng af Gutenberg, reykháf af Alþýðubrauðgerðinni og ofan af húsvegg í hleðslu við Skálholtsstíg. Símar og rafmagnsþræðir slitnuðu víða, og varð því myrkur víða á götunum í gærkveldi. Slitnum rafmagnsþræði laust í hest á Óðinsgötu og féll hann niður eins og dauður, en raknaði við aftur og fældist. Fjöldi girðinga brotnaði víðsvegar um bæinn.
Á höfninni sleit upp tvö skip; vélbátinn Ulf og gufubátinn Stefni, og rak þau út að Örfirisey og brotnuðu þau talsvert og eins tveir uppskipunarprammar. Loftskeytaumbúnað sleit af kolaskipi við hafnarbakkann. Veiðibjallan lá úti á víkinni og rak hana nokkuð vestur eftir, en akkerin hrifu við rétt áður en veðrið lægði. Í Hafnarfirði urðu og nokkrar skemmdir. Rak vélbátinn Guðrúnu að landi, og brotnaði hann mikið, og togarann Rán rak nokkurn spöl, en sakaði ekki. Símasambandi varð eftir veðrið ekki náð lengra en til Grafarholts og Hafnarfjarðar. Ofsaveður þetta mun aðeins hafa gengið yfir suðvesturhluta landsins. [Ekki var svo vel].
Morgunblaðið segir einnig frá 22.janúar:
Ofviðrið í gær. Í fyrrinótt gerði hér ofsaveður af suðaustri og hélst það fram á dag í gær, en snerist þá heldur til vesturs og versnaði jafnframt og var mest fyrir og um hádegið. Mátti heita óstætt á götum bæjarins um langa hríð, svo fólk var í vandræðum að komast leiðar sinnar. Höfnin hér, bæði utan og innan garða, var eitt rjúkandi sælöður svo skip, sem lágu utan hafnargarðanna sáust vart úr landi. Í gærmorgun var vindstyrkurinn í Vestmannaeyjum 11, í Reykjavík 10 og sömuleiðis í Grindavík og Stykkishólmi. En mesti vindstyrkur sem mældur er er 12, eins og kunnugt er. Á Ísafirði var vindstyrkurinn aftur á móti ekki nema 4. Þetta ofsaveður mun því hafa verið mest á Suðvesturlandi. Annarsstaðar á landinu mun hafa verið skaplegt veður.
Skemmdir af veðrinu. Hér í bæ urðu nokkrar skemmdir af þessu veðri, en þó minni en búast mátti við. Af ísskúr Ísbjarnarins fauk allt þakið. Var það járnþak og svipti veðrið því af á lítilli stundu. Bárust járnplöturnar út í Tjörnina. En svo var veðrið mikið að það flutti nokkrar plöturnar úr Tjörninni aftur og út í Vonarstræti. Þá fauk og skúr frá Ísbirninum, er hestar voru geymdir í. Tók skúrinn allan í einu lagi út á Tjörn. Var í honum einn hestur, en hann stóð eftir og sakaði ekki. Þá fauk og allt þakið öðru megin af húsinu nr.10 í Suðurgötu. Var það járnþak og flugu plöturnar eins og skæðadrifa upp um allt tún. Af Bárunni svipti og öllu þakinu að sunnanverðu; var hin mesta mannhætta að vera á ferli um Vonarstræti meðan á því stóð. og eins í Tjarnargötu. Loks fauk allt þakið af húsi Magnúsar Matthíassonar í Túngötu. Tók allt járnþakið og timburklæðningu með, sem var undir járnþakinu. Fór timburþakið allt að kalla í einu lagi, og barst flekinn lítið brotinn allt norður fyrir hús Bjarna Jónssonar frá Vogi. Steinstöplar brotnuðu framan við og af múrbrún hússins, og sennti veðrið þeim um i 50 fet frá húsinu.
Margar af plötunum úr þakinu á þessum húsum bárust alla leið langt vestur í bæ og flugu eins og bréfsneplar fram hjá húsunum eða skullu á þeim. Var það hin mesta mildi, að ekki skyldi verða slys af. Þá löskuðust og eitthvað veggir á húsi, sem er í smíðum við Skálholtsstíg, á það Ingvar Einarsson skipstjóri. Fleiri raskanir kunna að hafa orðið í bænum. þó ekki hafi til spurst, þegar þetta er ritað.
Hér á höfninni varð sama og ekkert rask. Lágu allmörg skip innan hafnargarðanna og um þau haggaði ekkert. En Veiðibjallan lá fyrir veðrið inni á Rauðarárvík. En þegar fór að hvessa sem mest tók hana að reka og rak lengi vestur í stefnu á Örfirisey fram hjá Gullfossi sem einnig lá utan garðanna og erlendu flutningaskipi. Var ekkert annað sýnna en skipið myndi reka upp í eyna. En rétt áður en tók að lægja festi hún sig og haggaðist hún ekki úr því. Gullfoss kom hingað um hádegið, í mesta veðrinu. Hafði hann fengið á sig afskaplegt veður frá Reykjanesi fór þar framhjá kl.4 um nóttina og komst ekki fyrr hingað. Óbrotinn var hann þó og hafði ekki haggað um neitt á honum. Af öðrum hreyfingum á höfninni höfum vér ekki frétt þegar frá þessu er sagt.
Um hádegið fór síminn að slitna og var svo komið um kl.3 að sambandslaust var orðið í allar áttir nema suður með sjó. Lágu staurar þverbrotnir víðs vegar t.d. á 3 stöðum á leiðinni upp að Blikastöðum. Vegna þessara símabilana flytur Morgunblaðið ekki neinar fregnir af veðrinu annarsstaðar. En búast má við að eitthvert tjón hafi orðið af því víðar en hér. Hér innanbæjar varð og mikið rask á símanum. Brotnuðu staurar á sumum stöðum. og á öðrum slitnuðu þræðir. Og var því í gærkvöldi helmingur allra símanúmera sambandslaus við miðstöð. Hafa aldrei orðið jafn miklar bilanir innanbæjar eins og nú í þessu veðri.
Loftskeytastöðin. Loftnetið slitnaði mikið, aðeins einn þráður var nothæfur. Gat stöðin því lítið sent í gær en heyrði allvel, þó ekki nærri eins og þegar allt er í lagi.
Hafnarfirði í gær. Í gær gerði hér meira rok en nokkurn tíma hefir komið hér. Urðu nokkrar skemmdir af því bæði á höfninni og í bænum. Mótorskipið Guðrúnu, eign Ól. Davíðssonar, rak af höfninni til lands, og lenti hún á kolaskipi. sem liggur við hafskipabryggjuna hér. Brotnaði hún afarmikið en flýtur þó enn. Þá rak togarann Rán af höfninni og upp á land. Strandaði hann nálægt hafskipabryggjunni. En þar er góður botn svo telja má skipið alveg óskemmt. Er og búist við að það náist út í nótt með flóðinu og er þegar farið að gera undirbúning til þess. Þök fuku hér af þremur húsum þegar veðrið var sem mest. Engin slys hlutust af þessu.
Fréttir fóru að berast utan af landi, þar á meðal hinu mikla sjávarflóði. Morgunblaðið 23.janúar:
Akureyri 22. jan. FB. Sunnanofviðri í fyrrinótt [21.] með vatnagangi. Skemmdir talsverðar hér í bænum af völdum veðursins. Ófrétt nærlendis vegna símabilana. Hríðarveður í morgun.
Úr Grindavík. Miðvikudaginn þann 21.þ.m. gerði hér afskaplegt veður af suðri, með feiknamiklu brimi og sjávargangi. Tveim tímum fyrir flóð var sjávarhæðin þegar orðin eins mikil og elstu menn mundu dæmi til í mestu flóðum. Fór þó veðrið og sjávargangurinn vaxandi fram að flóði og gerðu svo mikinn skaða og skemmdir að slíks eru áður engin dæmi. Tvær eða þrjár jarðir í Járngerðarstaðahverfi munu að mestu eyðilagðar auk túnbletta og matjurtagarða sem hafa algjörlega eyðilagst. Eitt íbúðarhús (Akurhús) eyðilagðist algjörlega og annað (Völlur) skemmdist stórkostlega. Þar var heyhús áfast við íbúðarhúsið og voru í því 60 hestar af töðu. Í einu soginu slitnaði það frá íbúðarhúsinu og kastaði sjórinn því með öllu sem í því var minnst 20 metra í burtu. Þetta hús mun hafa staðið ca. 150 metra frá venjulegu stórstreymisflóðmáli. Í fjölda húsa gekk sjór í kjallara og eyðilagði allt sem í þeim var. Niður við lendinguna sem mjög eyðilagðist braut sjórinn og tók burtu 12 saltskúra og eyðilagði í þeim mikið af salti og öðru verðmæti. Margir róðrarbátar brotnuðu og skemmdust. Fjöldi af sauðfé hefur drukknað í flóði þessu bæði húsum og til og frá í fjörunum. Fjöldi fólks hefur flúið úr húsum sínum og gistir í nótt hjá nágrönnum sem hærra búa frá sjó. Enn er ekki frétt um tjón það sem kann að hafa orðið í Þórkötlustaða- og Staðarhverfum en búast má við því svipuðu. Manntjón varð ekki, þó skall hurð nærri hælum að úr tveimur húsum sem standa langt uppi á túnum varð að bjarga fólkinu á bátum og í öðru þeirra að brjóta glugga til að ná því. Tjónið er mikið með tilliti til efnahags þeirra sem fyrir því hafa orðið. Að kveldi 21. janúar 1925. E.G. Einarsson
Austur í Mýrdal var veðrið í fyrradag miklu vægara en hér. Engir skaðar urðu af veðrinu; sjávarflóð gerði nokkuð í Vík. en þó ekki svo að tjón hlytist af. Strandmennirnir af Riding" fóru frá Vík í fyrradag og voru í fyrrinótt í Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Undir Eyjafjöllum urðu heldur engir skaðar af veðrinu; enda vægara þar. Alauð jörð er nú í Mýrdal.og undir Eyjafjöllum.
Frá Ísafirði var Morgunblaðinu símað í gær að ofviðrið í fyrradag hafi þar verið eitthvert hið mesta, sem komið hefir á síðari árum. Hafði þó ekki spurst um neinn mannskaða þar vestur frá, því engir bátar voru á sjó. Tvo mótorbáta rak á land af höfninni á Ísafirði. Í Hnífsdal fauk smíðahús Ólafs Daníelssonar. Í Álftafirði rak tvo báta til hafs. Talið er víst. að annar hafi sokkið, en hinn er ófundinn, enda má vera, að eins hafi farið um hann. Í Súðavík í Álftafirði fauk heyhlaða. Á Ísafirði urðu margar smáskemmdir á húsum. en engar stórvægilegar, svo orð sé á gerandi.
Frá Ölfusárbrú. Í vestur- og uppsveitum Árnessýslu urðu miklir skaðar af veðrinu. Sjógarðurinn á Stokkseyri og Eyrarbakka brotnaði mjög mikið. Stokkseyrarsjógarðurinn brotnaði allur meira og minna á allri leiðinni frá Stokkseyri og vestur að Hraunsá, Sjógangurinn hafði verið afskaplega mikill, svo að elstu menn muna ekki annað eins. Fólk flúði úr húsum undan sjóganginum. Ein heyhlaða, lítil, fauk á Stokkseyri. Á Holti í Stokkseyrarhreppi fauk heyhlaða og fjárhús. Ofan af Skeiðum hefir frést um þessa skaða: Á Vorsabæ fauk heyhlaða. Á Brúnavöllum fauk heyhlaða og skúr. Í Grímsnesi hafði fokið heyhlaða og þak af baðstofunni á Miðengi og í Hraunkoti fauk heyhlaða og fjós. Tíu símastaurar voru brotnir milli Hraungerðis og Ölfusárbrúar. Í vesturhluta Rangárvallasýslu urðu einhverjir skaðar og hefir Morgunblaðið frétt að heyhlaða hafi fokið í Varmadal og önnur á Geldingalæk. Alautt er nú í lágsveitum Árnes- og Rangárvallasýslu. Sennilegt er, því miður að enn sé ófrétt um skaða sem orðið hafa af þessu ofviðri, því mesta sem komið hefur lengi.
Af Kjalarnesi og úr Kjós (eftir símtali við Brautarholt). Í gærkvöldi átti Morgunblaðið samtal við bóndann í Brautarholti og kvað hann ýmsar skemmdir hafa orðið af völdum veðursins í fyrradag þar uppi í sveitinni. Í Saurbæ á Kjalarnesi rauf þakið af íbúðarhúsinu allt járnið og eitthvað af súðinni með. Á Tinnstöðum í Tinnstaðadal tók þak af hlöðu og önnur skemmdist svo að nokkuð af heyi fauk úr henni. Á Kársnesi í Kjós fauk allt þakið af íbúðarhúsinu svo fólk varð að flýja um tíma úr húsinu. Á Hálsi rauf þak af hlöðu og á annarri brotnaði það inn Á Hurðarbaki feykti járnþaki af hlöðu. Bóndinn í Brautarholti kvaðst mundu hafa misst báðar sínar hlöður ef ekki hefði staðið svo vel á fyrir sér að hann hefði haft nógan mannafla og efni til þess að halda þeim niðri og þakinu á þeim. Hann kvað slíkt veður aldrei hafa komið þar í sveit af þessari átt.
Landssíminn hefur orðið fyrir miklu tjóni í ofviðrinu í fyrradag. Um sjötíu staurar brotnuðu í Reykjavíkurumdæmi. Allmiklar bilanir hafa og orðið annars staðar á landinu. Í Reykjavík kvað mest að bilunum á leiðinni héðan að Esjubergi. Alls mun tjón nema allmiklu fé eftir því sem Morgunblaðinu var skýrt frá í gær. Þegar þess er gætt hversu mikill tekjumissir hlýst af því þegar sambandslaust er. Meðaltekjur landssímans á dag nema um 4000 kr.
Rafljósaþræðir sködduðust mikið og víða hér í bænum í fyrradag. Eru götur víða ljóslausar á löngum svæðum og sömuleiðis varð ljóslaust í nokkrum húsum. Kom þakið af húsi Magnúsar Matthíassonar á eina aðallínuna i Vesturbænum. og sleit gífurlega mikið af þráðunum.
Vísir segir einnig frá 22.janúar:
Fáir muna meira veður en hér var í fyrrinótt og gær. Mun það hafa verið einna harðast laust fyrir kl.2 {14], en úr því fór smátt og smátt að hægja. Skemmdir miklar urðu af veðrinu víðsvegar um bæ. Járnplötum svipti viða af húsþökum, t.d. af Ísbirninum, Bárunni, Málleysingjaskólanum, geymsluhúsi Menntaskólans og viðar. Þá lyftist og þak af húsi Magnúsar kaupmanns Matthíassonar í Túngötu og fleygðist það langar leiðir norður á tún á Landakotshæðinni. Vestur í bæ rauf þak af öðru húsi, nýlegu, en þakhellur fuku af sumum húsum. Rúður braut víðsvegar um bæ. Viða braut girðingar, en allt lauslegt, sem lá á bersvæði, feyktist um allar götur, svo að lífsháski var að vera á ferli. Þó er þess ekki getið, að menn hafi slasast en margir sluppu nauðulega. Reykháfar hrundu á nokkrum stöðum, og lá nærri að lögregluþjónn yrði fyrir einum þeirra. Símastaurar brotnuðu viða, einkum hér innan við bæinn, og helmingur bæjarsíma slitnaði úr sambandi við miðstöð. Girðingin umhverfis Íþróttavöllinn brotnaði að miklu leyti. Skúr tók upp hjá Ísbirninum og feyktist hann út á tjörn. Þar var einn hestur inni. Stóð hann eftir og sakaði ekki.
Sjórok var svo mikið á höfninni, að skip hurfu í hvössustu rokunum. Skipið Stefnir lá á innri höfn og rak vestur á Grandagarð. Íslendingur og Úlfur voru bundnir við norðurgarðinn, mannlausir, og voru hætt komnir. Úlfur mun hafa laskast eitthvað, en Íslending sakaði ekki. Veiðibjallan lá á Rauðarárvik, mannlaus, og rak hana nokkuð út á Engeyjarsund. Gullfoss var og á ytri höfn, en sakaði ekki. Farþegar komust á land í gærkveldi. Netið á Loftskeytastöðinni slitnaði nokkuð, en féll þó ekki niður, og loftskeytanet sleit niður af einu skipi á innri höfninni. Vísir átti tal við hr. Þorkel Þorkelsson í morgun, og taldi hann þetta mesta veður, sem hér hefði komið síðan hann tók að gera veðurathuganir.
Frá Eyrarbakka kemur sú fregn í morgun, að óbrotinn sjór hafi gengið þar yfir sjávargarðinn og hafi hann viða hrunið, meira og minna. Steinolíuport Heklu hefir fokið að miklu leyti og skemmdir orðið nokkrar. Heyskaðar höfðu orðið þar í grennd. ... Annars staðar í Árnessýslu hafa fokið heyhlöður á einum sex eða sjö bæjum og þök rofið af húsum.
Alþýðublaðið segir frekari fréttir 24.janúar:
Skemmdir af ofsaveðrinu á miðvikudaginn eru enn að spyrjast. Á Laugalandi kastaðist þak af safngryfju á vegg íbúðarhússins og braut hann. Í Þormóðsdal í Mosfellssveit fauk hlaða, og í Bringum rauf þak af bæjardyraskúr og að nokkru af baðstofu. Í Fitjakoti rauf járn af þaki og stafni íbúðarhússins.
Og Morgunblaðið sömuleiðis 24. janúar:
Úr Borgarfirði (Eftir símtali við Borgarnes). Í Borgarnesi varð eins og víðast hér sunnan- og vestanlands veðrið 21. þ.m. afskaplegt. Átti Morgunblaðið tal við læknirinn í Borgarnesi, Ingólf Gíslason, og sagði hann þessi tíðindi. Veðrið varð mest um hádegið en stóð ekki með aftökum lengur en í um 2 klukkustundir. Í Borgarnesi urðu nokkrar skemmdir, en ekkert sérlega stórvægilegar. Járnþök reif af húsum til hálfs og flugu sumar plöturnar eins og fuglar yfir húsunum, en aðrar rákust á og brutu rúður og gluggakarma. Af sláturhúsi Slátursfélags Borgfirðinga rauf hálft þakið, og af ýmsum fleiri húsum. Einn maður slasaðist - fauk á hann brotin rúða, og skarst hann í andliti en þó ekki stórkostlega. Úr sveitunum höfðu og borist fregnir af ýmsum sköðum. Í Mýrdal í Kolbeinsstaðahreppi fauk þak af fjárhúsi. Á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi tók þakið af íbúðarhúsinu. Þak fór af fjárhúsi í Álftártungu. Hlaða fauk á Miðfossi í Andakílshreppi. Á Hvanneyri skemmdist skólahúsið eitthvað.
Frá Akranesi (Skv. símfregn til Morgunblaðsins í gær) Þar varð tiltölulega lítill skaði af veðrinu mikla. Einn róðrarbátur hafði fokið út á sjó. Mótorbátur var nærri rekinn á land, en var bjargað í tæka tíð. Nokkrar járnplötur fuku af einstaka húsi en ekki varð sá skaði neitt tilfinnanlegur.
Frá Stykkishólmi var símað í gær, að veðrið 21. þ.m. hefði verið eitthvert það mesta, sem þar hefði komið. Þó urðu þar engar skemmdir, hvorki á sjó né landi.
Morgunblaðið segir 25. janúar frá sjávarflóðinu á Eyrarbakka og Stokkseyri - en enn ítarlegri frásögn birtist síðan í sama blaði 14. febrúar - við nýtum hana hér:
Frá Eyrarbakka. Stórflóð og aftakabrim. Sjóvarnargarðar, innsiglingarmerki og ljósaleiðslur í þau gereyðileggjast, matjurtagarðar og fleiri mannvirki stórskemmd. Sandgræðslusvæðið milli Eyrarbakka og Óseyrarness, eyðilagt, sé ekki undinn bráður bugur að viðgerð á því. Þann 21. fyrra mánaðar gerði hér ofsastórviðri af suðri, og aftakamikið brim. Gerði það hið mest tjón hér á Eyrarbakka, sem af sjávarvöldum hefir stafað, síðan aldamótflóðið 1799, er Eyrarbakkaverslunarhús, og Bátsendar eyðilögðust.
Fyrir mörgum árum var byggður sjóvarnargarður úr grjóti, fyrir öllu landi Eyrarbakkahrepps, með ströndinni, frá Óseyrarnesi (við Ölfusárós), að Hraunsá; var það hið þarfasta verk, og kostaði mikið fé. Í skjóli þessa garðs, er varði fyrst og fremst byggðina, óx ræktun graslendis (túna), og matjurtarækt, ótrúlega hröðum skrefum, svo að heita mátti að orðinn væri samfeldur túna- og matjurtagarðaakur innan garðanna, allt landið frá Hraunsá út á ystu takmörk byggðarinnar. Landið neðan við sjóvarnargarðinn var og svo hækkað sumstaðar, að samfelldir matjurtagarðar voru þar á síðustu árum ræktaðir, á mörg hundruð metra löngu svæði meðfram garðinum, með mjög góðum árangri. Frá byggðinni á Eyrarbakka út að Ölfusárós, er sandur sem farinn var að ganga mjög á graslönd öll ofan og vestan við byggðina. Var land þetta fyrir mörgum árum tekið undir sandgræðslustjórn hins opinbera, girt öflugri girðingu, hlaðnir garðar um það, og sáð í. Var land þetta komið á besta veg til gróðurs og árangur af starfi sandgræðslunnar næstum undraverður, og virtist fyrirsjáanlegt að fyrir sandfokið upp Flóann, væri tekið, ef starfið hefði óhindrað haldið áfram, enda búið að verja miklu fé í það, bæði frá hlutaðeigandi landeigendum, og því opinbera. Nýlega höfðu sjómenn lagt ljósleiðslu í innsiglingarmerki sín, sem liggja allfjarri byggðinni, sem kostaði mikið fé, en var óumflýjanlegt vegna bátaútvegsins.
Eftir flóðið er nú svo breytt bögum, að sjóvarnargarðurinn, ásamt girðingunni meðfram honum, er að miklu leyti alfallinn á löndum Skúmsstaða og Einarshafnar, og girðingin alveg eyðilögð; grjótið úr garðinum er flutt langt inn á sand og meiripartur þess sandkafinn. Á Óseyrarneslandi er bæði girðing og garður stórskemmt, og víða alfallið. Hið hálfgróna sandgræðslusvæði er nú og víða þakið þykku lagi af sandi, möl og grjóti, og gersamlega eyðilagt undanfarandi ára starf, sé ekki nú þegar hafist handa til endurreisnar. Hefir það fyrirsjáanlega hættulegar afleiðingar í för með sér vegna sandágangs um Flóann, sé verkum þessum ekki strax sinnt til endurbóta, og gæta verður í sambandi við þetta, að afleiðingum þeim, sem Flóaáveitan getur fengið, sé sandfokið ekki heft aftur. Innsiglingarmerki öll i hreppnum er næst sjónum voru, eru alveg eyðilögð, ásamt ljósaumbúnaði. Á Stóra-Hrauni og Gömlu-Hraunslöndunum eru og mjög miklar skemmdir, er garðurinn fyrir löndum þessara jarða, víða gerfallinn og dreifður ásamt möl og sandi um hið fegursta gróðurland, sem búið var að rækta innan garðanna.
Samkvæmt beiðni landeigenda, skipaði sýslumaður strax menn til að meta tjónið er varð af flóðinu á Eyrarbakka. og Stokkseyrarhreppum. Hafa þeir nú lokið starfi sínu, og er tjónið á Eyrarbakka metið 35 þúsund krónur og mun síst ofhátt. Auk þessa, sem ekki hefir verið metið, er skaði sá, sem orðinn er á sandgræðslugróðrinum sem kominn var, og sem er afarmikill og ómetanlegur, sé ekki sem allra fyrst að gert. Öllum ber saman um það, bæði hlutaðeigandi landeigendum og öðrum, að hér þurfi skjótrar og mikillar hjálpar frá því opinbera, því hér er ekki einungis að ræða um hagsmuni og eignir hinna fáu landeigenda á svæðinu, heldur miklu fremur, um hagsmuni og eignir miklu fleiri manna, mannanna allra er búa hér með ströndinni, og einnig ber að líta á, hver hætta Flóanum er búin, sé ekki gerður öflugur sjóvarnargarður fyrir ströndina. Garðarnir þurfa strax að byggjast, á þeim slóðum, og með því fyrirkomulagi, sem treysta megi að dugi, og að þessu leyti verður að treysta á hið opinbera, og að hlutaðeigendur leggi þar lið og ráð, hver eftir viti og getu sinni. Þess skal að síðustu getið um sandgræðsluna, að það starf, hefir verið rekið hér með alúð og áhuga, og síðast í haust var lagt í mikinn aukakostnað, viðkomandi þessu máli, um varnir vatns á sandgræðsluna, sem að engu liði kemur, verði nú að gefast hér upp við verkið. Bjarni Eggertsson.
Í hinum styttri pistli Morgunblaðsins 25.janúar eru eftirfarandi upplýsingar - til viðbótar því sem kemur fram hér að ofan:
Hefði flóðið komið að nóttu eru öll líkindi til að tugir hrossa hefðu farist. En vegna þess að það skall á að degi til varð ráðrúm til þess að bjarga hagapeningi undan því. Sjávarflóðið gekk upp undir tún á Syðra-Seli. Skemmdir á húsum urðu ekki aðrar en á rjómabússkálanum á Baugsstöðum. Hann skemmdist talsvert af ölduganginum. Öll önnur hús standa hærra. Vélbátar Stokkseyringa voru allir settir upp á tún þar sem enga rekur minni til, að sjór hafi komið. Í þetta sinn skoluðust skorður undan þeim, og settu þá um en þeir brotnuðu þó ekki.
Úr Eyjafirði var símað í gær [24.], að þar væri þessa daga besta veður. Gerði mikla hláku norðanlands sama dag og stórviðrið geisaði hér og þó ekki neitt stórviður, og tók þá upp næstum allan snjó. Er lítið gengið á hey almennt norður þar ennþá.
Íslendingur segir 23.janúar:
Afspyrnuveður úr sunnanátt gerði á miðvikudagsnóttina og hélst mestallan næsta dag [21.]. Var hvassviðrið svo mikið, að illastætt var á götum úti og á skömmum tíma hafði snjór og ís bráðnað, svo að lækir runnu eftir götunum. Í báða bæjarlækina, Torfunefs- og Gillækinn, hljóp svo mikill vöxtur, að þeir brutu brýrnar og flóðu yfir bakka sína, og gerðu spell mikil á eignum manna. Sérstaklega varð Höepfnersverslun fyrir slæmum búsifjum af innri læknum, flóði hann inn í vörugeymsluhús hennar og skemmdi talsvert af þurrkuðum saltfiski, er þar lá pakkaður og beið útflutnings, og ytri lækurinn skemmdi talsvert af vörum fyrir verslununum í Íslandsbankakjallaranum og eitthvað fyrir Kaupfélagi Eyfirðinga. Gluggar brotnuðu víða, bátar fuku og skemmdust og ýmis önnur spell urðu af völdum óveðursins víða um bæinn. Símaslit á öllum landsímalínum og sambandslaust við aðrar stöðvar, þar til síðdegis í gær, að komið var aðgerðum við.
Morgunblaðið segir 29.janúar fréttir að austan - og frá miklu sjávarflóði í Herdísarvík:
Seyðisfirði, 28. janúar FB. Nokkurar símabilanir urðu Austanlands í ofviðrinu. Brotnuðu staurar í Hornafirði, Lóni, Fagradal í Vopnafirði og víðar. Hér hefir verið blíðviðri síðan ofviðrið mikla. Vertíð er í undirbúningi.
Frá Herdísarvík (Eftir símtali við Þorlákshöfn í gær) Morgunblaðið átti í gær viðtal við Þorlákshöfn. Höfðu borist hingað óljósar fréttir um það að þar hefði orðið allmikið tjón í ofviðrinu mikla 21.þ.m. Frá skemmdunum var Morgunblaðinu sagt á þessa leið:
Þrjú hús fuku svo að segja gersamlega bæjarhúsin öll, nema baðstofan, hún stóð eftir, geymsluhús og skemma. Geymsluhúsið tók upp í heilu lagi, og skall á fjósi en laskaði ekki fjósið neitt. Baðstofan stendur um 200 faðma frá sjó. En svo mikill sjór gekk í hana nokkru áður en veðrið varð sem mest, að fólkið flúði hana, og hafðist við í hlöðu sem í tvær nætur. Óx svo sjórinn því sem veðrið harðnaði, og varð svo mikill að rúmföt sem bóndinn hafði bundið upp í mænirinn, áður en hann yfirgaf bæinn, voru rennblaut þegar til þeirra náðist. Engar skemmdir urðu á landi né fénaði. Í Selvogi hafði brimið tekið öll hús sem nærri stóðu sjó, og brotið sjógarða.
Alþýðublaðið 30.janúar:
Reykháfur Alþýðubrauðgerðarinnar fauk um í ofviðrinu um daginn. Er nú búið að steypa upp nýjan reykháf.
Tíminn segir af sama veðri 31.janúar:
Aftakaveður af útsuðri gerði hér um slóðir aðfaranótt og fram eftir miðjum degi 21. þ.m. Muna menn vart verra veður. Urðu af miklar skemmdir í bænum. Skúrar fuku. um víða og járn af þökum. Var mesta mildi að ekki hlutust meiðsli af á mönnum, er járnplöturnar fuku um bæinn. Á höfninni urðu engar verulegar skemmdir, en símalínur slitnuðu afarmikið svo Reykjavík varð úr öllu landssímasambandi og auk þess slitnuðu rafleiðsluþræðir svo víða varð ljóslaust. Veður þetta mun hafa verið jafnmikið um allt Vesturland, en minna er austar dró. Að því er frést hefir má vona að hvergi hafi orðið manntjón á sjó af veðrinu. Höfðu gengið illviðri áður, svo að sem engir voru á sjó. En þegar er frétt um margskonar skemmdir. Um 70 símastaurar brotnuðu í grennd við Reykjavík. Úr austursýslum er frétt um húsafok og heyja ekki óvíða. Af Vestfjörðum hefir orðið nokkuð tjón af að báta hefir rekið á land. En í Grindavík varð stórtjón af veðrinu og sjávarflóð. Flæddi sjór miklu hærra en nokkur mundi, eða hafði heyrt um getið. Er búist við að tún nokkurra jarða séu alveg eyðilögð af flóðinu. Íbúðarhús eyðilagðist alveg og annað mjög, 12 saltskúra braut sjórinn og eyðilagði víða mikið af mat í kjöllurum. Búist er við að mikið af fé hafi drukknað og margir bátar brotnuðu.
Þann 24. janúar varð sólmyrkvi. Almyrkvi var á svæði rétt norðan Skotlands og vestur um haf til Bandaríkjanna (þar á meðal í New York). Alþýðublaðið 23.janúar:
Sólmyrkvi verður á morgun, og stendur hann yfir hér í Reykjavík frá kl. 1:21 til kl. 3:39. Mestur verður myrkvinn kl.2:25 og hylur hann þá meira en sjö áttundu hluta sólar. Þrír veðurathugunarmenn geta myrkvans Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): [24. Sólmyrkvi, merktist varla] Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): [24. Bar lítið á sólmyrkvanum] Grænavatn (Páll Jónsson): [24. Sólmyrkvi (nærri hálfrökkur)]
Hænir segir frá 31.janúar - fyrst er hæðnislegur pistill um ýkjusögu af Hornafjarðarós, en síðan merk frétt af sprungu í Botnabrún ofan Seyðisfjarðar - lítið er gert úr þeirri ógn sem af henni kann að stafa - ólíkt því sem væri nú á tímum.
Meira en hálfa öld hefir ósinn verið einn og fallið út á sama stað, austan við Hvanney. En elstu menn muna eftir, að um fárra ára bil féll annar minni ós og miklu grynnri út vestan við Hvanneyjarklettana. Voru þeir þá tveir. En aðalósinn féll samt sem áður í sínum aldagamla farvegi, sem hann hefir legið í frá ómunatíð. Fyrir rúmum hálfum mánuði vottaði til þess, að sjór félli á háflæði yfir malarrifið vestan við Hvanneyna. Varð þó ekki dýpra en svo, að komast mátti þar þurrt á hnéháum stígvélum. Þegar svona hafði gengið rúma viku, skolar aðsogið aftur sandi og möl upp í slakkann, sem myndast hafði, malarkamburinn hækkar og rís hátt yfir sjávarmál. Og allt kemst í samt lag eins og verið hafði. Dagana, sem flætt hafði yfir rifið, hafði fregnin borist út. Sagan stækkaði. Símaþræðirnir þrútnuðu og tútnuðu hér á Fjörðunum og urðu jafndigrir staurunum: Nýr ós var myndaður. Ósarnir voru orðnir tveir. Sagan margfaldast. Mýflugan verður að úlfalda: Tveir nýir ósar höfðu myndast. Ósarnir voru orðnir þrír. Og það, sem verst var af öllu, enginn þeirra var fær, því gamli ósinn hafði grynnkað svo geysilega, að hann var gersamlega ófær nema kanske kúskeljarsmárri fleytu. En slíkt grunnsævi var auðvitað ófært vélbátum. Vertíðin var fyrirsjáanlega eyðilögð. Um hana var útséð með öllu. Guð mátti vita hvað ósarnir kynnu að verða margir, ef til vill jafnmargir eggjunum hans Nasreddins. Útlitið var alt annað en glæsilegt. Það er hjákátlegt, en svona var nú samt fréttin orðin og um þetta rætt, þegar hafnsögumaðurinn á Hornafirði sendi Hæni að kvöldi 27. þ.m. símskeyti það, er hér birtist orðrétt: Ekkert athugavert við skipaleiðina um Hornafjarðarós fremur venju. Björn Eymundsson hafnsögumaður. Auðvitað rak marga í rogastans, er innihald skeytis þessa barst út meðal manna, eftir alt þvaðrið og slúðrið, sem almenningi var búið að berast til eyrna undanfarna daga. Þó að segja megi öllum fjölda manna það til hróss um varfærni í því, að festa trúnað á hverskonar tröllasögum og ýkjum, að fregninni var af fæstum trúað, þótt hinsvegar þætti óskiljanlegt, að nokkur gæti fengið sig til að búa til og breiða út flugufregn jafn alvarlegs efnis og hér var um að ræða, sem, eins og flesta grunaði og betur fór, reyndist helber ósannindi. Og ósinn er einn eftir sem áður.
Jarðfall. Nýlega varð vart við jarðsprungur allmiklar efst í Botnabrúninni upp af Búðareyrinni. Gerðu þær mönnum nokkurn geig og fóru margir þangað um síðustu helgi. Ýmsir hugðu í fyrstu, að sprungurnar stöfuðu af því að jarðvegurinn upp á klettbrúninni hefði sigið fram. Og hefði svo verið, var engin furða þótt mönnum skyti skelk í bringu, þar sem mikil leysing gat orsakað það, að þessi spilda neðan sprungnanna sigi fram af klettabeltunum, þá væri fjöldi húsa á Búðareyrinni í hættu staddur. En við nánari athugun hafa menn séð að þarna er um jarðfall að ræða, samskonar og hin mörgu og aldagömlu, sem eru víðsvegar í fjallinu. Og til tveggja hliða út frá jarðfallinu hafa, að líkindum við hristinginn sem af því stafaði, opnast smærri sprungur. En melurinn niður undan hefir ekki sjáanlega hreyfst vitund. Virðist því engin ástæða til þess, að hafa ugg um alvarlega hættu, sem af þessu stafi sérstaklega. Melurinn getur staðið að mestu óhaggaður í heila öld fyrir þessu, að öðru leyti en því að búast má við að innanvert úr honum losni dálítið ofan í gilið, eins og margoft hefir skeð áður. Þetta er líklegast.
Alþýðublaðið segir af togaraslysum 2.febrúar:
Í síðustu viku hafa tveir þýskir togarar farist. Strandaði annar við Eindrang hjá Vestmannaeyjum aðfaranótt fyrra sunnudags [25.] og sökk, en skipverjar björguðust við illan leik í báta og síðan í togara nema einn, sem drukknaði. Togarinn hét Vilhelm Jürgens frá Geestemunde. Hinn strandaði aðfaranótt þriðjudagsins [27.] við Hafnaberg og fórst með allri áhöfn. Af rekaldi, sem talið er vera úr honum, má sjá, að hann hafi heitið Bayern frá Nordham.
Ísafold segir 3. febrúar af tjóni í óveðrinu mikla:
Hlöður fuku á þrem bæjum í Hrunamannahreppi í ofviðrinu um daginn, á Syðra-Seli, Miðfelli og Efra-Langholti.
Fremur kalt var í febrúar. Langversta veðrið gerði þann 8. til 10., Halaveðrið svonefnda. Í því varð stórkostlegt manntjón bæði á sjó og landi. Fjallað var um veðrið og aðdraganda þess í sérstökum pistli hungurdiska. Fyrsta vikan var umhleypingasöm, allkrappar lægðir fóru hjá þann 1. og 4.
Dagur á Akureyri kvartar undan hálku 5.febrúar:
Hálkan á götunum hefir verið með meira móti nú undanfarið. Regn ofan á snjóföl með frosti á eftir hefir hleypt þeim í samfelldan gadd. Fólk gengur eins og á glóðum af hræðslu um líf sitt og limi. Margir ganga hruflaðir á höfði eða á annan hátt meiddir eftir byltur. Akureyrargötur eru sjaldan færar ýmist sökum óþrifnaðar eða flughálku. Og bæjarstjórnin er alt af jafn hirðulaus í þessu efni. Mjó, sandborin rönd í götujaðri myndi nægja til þess að gera göturnar færar yfirferðar.
Síðan koma fréttir af Halaveðrinu og tjóni í því. Það hófst með suðaustan- og síðan suðvestanátt að kvöldi þess 7., en norðanáttin skall á að morgni 8., fyrst á Vestfjörðum. Þótt veðrið væri langverst þann 8. hélst norðanhríð næstu daga á eftir og hafði ekki jafnað sig fyrr en þann 15.
Benedikt athugunarmaður á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði segir frá: Þann 8. Stórbrim, svo annað eins hefur ekki komið hér að sögn kunnugra síðan 8. janúar 1905 enda urðu víða skemmdir hér af sjógangi, bæði á ýmsum mannvirkjum og túnum er við sjó lágu.
Áttundi febrúar var sunnudagur. Alþýðublaðið segir frá að morgni 9.febrúar:
Sú sorgarfregn er sögð í símtala frá Sandgerði, að vélbáturinn Solveig, gerður út af Óskari Halldórssyni, hafi farist með allri áhöfn úti fyrir Stafnesi á laugardagskvöldið (7.), er útsynningsóveðrið skall yfir. Skipverjar voru sex.
Hvassviðri mikið gerði af norðri í gær. Urðu af því nokkrar skemmdir af húsum og við höfnina. Þakplötur rauf víða af, og þak fauk á húsi Jónasar Eyvindssonar við Laugaveg innarlega. Kolageymsluskip, eign T. Frederiksens, sem kol voru flutt í á laugardag, sökk á höfninni, og kolaskip til sömu verslunar sleit upp og hrakti. Vélbáturinn Kol og Salt sökk einnig. Ísland laskaðist, og ýmsar fleiri smáskemmdir urðu á skipum og mannvirkjum við höfnina.
Í Sandgerði urðu ekki aðrar skemmdir af óveðrinu en þær að tveim bátum aló saman á legunni og löskuðust lítið eitt, en eru þó sjófærir hingað til viðgerðar.
Vísir segir einnig frá 9.febrúar:
Laust fyrir hádegi í gær skall hér á aftaka norðanveður og hélst fram um miðaftan. Muna menn varla meira veður af þeirri átt. Skemmdir urðu hér nokkurar í höfninni. E.S. Ísland og c.s. Björkhaug lágu við vesturbakka hafnarinnar, þvert við veðri og sjó, og löskuðust bæði, og eins skemmdist hafnarbakkinn þar. E.S. Gamben lá við kolabryggjuna og slitnaði frá henni og rak upp i fjöru. Þak fauk af húsinu nr 83. Laugavegi og féll það niður á götuna, en varð ekki að slysi. Símalínur og ljósalínur slitnuðu á nokkrum stöðum og tók fyrir rafmagnsstraum í mörgum húsum nokkurar klukkustundir. Símalínur hafa slitnað víða um land sem sjá má af því, að ekki komu veðurskeyti nema frá fjórum innlendum stöðvum í morgun. Margir bátar reru úr Vestmannaeyjum, og voru sumir hætt komnir, en björguðust þó allir. Suðurland fór héðan í gærmorgun áleiðis til Borarness en sneri við hjá Akranesi og kom hingað um kl.1 í gær.
Alþýðublaðið heldur áfram 10.febrúar:
Á togurunum hata orðið ýmsar skemmdir og meiðsli í norðanofsanum um helgina, og segir hér frá hinu helsta: Ása missti loftskeytaumbúnað. Egill Skallagrímsson missti bátana, sjór gekk í vélarrúmið, og lá skipið getulaust á annan sólarhring og var komið mjög hætt. Einn skipverja handleggsbrotnaði. Njörður missti annan bátinn, loftskeytaumbúnað og mestalla lifur. Mann tók út, en náðist aftur og meiddist. Hilmir missti bátana og aftursiglu, og stýrið bilaði. Á Gulltoppi brotnuðu bátarnir og lifrartunnur tók út. Á Draupni brotnaði og bátur, og af Þórólfi brotnaði loftskeytaumbúnaður. Skip þessi voru öll fyrir vestan í veðrinu. Komu þau í nótt og sögðu voðaveður hafa verið þar vestra.
Morgunblaðið segir frá þriðjudaginn 10. febrúar:
Höfnin á sunnudaginn. Í norðanveðrinu varð minni skaði hér við höfnina en búast mátti við, því hið mesta fárviðri var. Vindstyrkurinn var 8, en varð mestur hér í suðaustanrokinu á dögunum 10. Var höfnin öll eins og mjallrok og fauk sjólöðrið hér inn yfir miðbæinn. Tvö skip, Ísland og Björkhaug, lágu við vesturuppfyllinguna og skemmdust bæði allmikið, þó Ísland ekki meira en svo, að það fór héðan í gær. Þá skemmdist og uppfyllingin nokkuð, brotnuðu tré framan í henni á allöngu svæði, og eins laskaðist brúnin að ofanverðu. Við kolabryggjuna austur við eystri hafnargarðinn lá Gaupen kolaskip. Rak það upp í fjöru, en er talið óskemmt, og komst á flot í gærkvöldi. Kolabarkur, sem kol höfðu verið losuð í, sökk og austur við garðinn. Vélbátur Kol og Salt", sökk vestur við Loftsbryggju. Sú bryggja ónýttist algerlega, og sömuleiðis önnur bryggja þar nálægt. Skemmdir í bænum, munu ekki hafa orðið miklar. Þó fauk þak af einu húsi á Laugaveginum, hús Jónasar Eyvindssonar. Tók það af í heilu. lagi. Skemmdir urðu engar af þakinu. Á einstaka stað í bænum svipti upp járnplötu af þaki, og aðrar smáskemmdir munu hafa orðið á nokkrum stöðum.
Símslit hafa orðið víða og mikil um helgina síðustu. Var sambandslaust við Ísafjörð í gær, þræðir slitnir og staurar brotnir á tveggja kílómetra svæði milli Borðeyrar og Hólmavíkur. Einnig var mikið slitið við Ísafjarðardjúpið. Þá var og slitið milli Borðeyrar og Sauðárkróks. Og hér austur undan var meira og minna bilað.
Vísir heldur áfram 10.febrúar:
Botnvörpuskipin hafa sætt stórum áföllum í sunnudagsveðrinu. Rán kom til Hafnarfjarðar í gær; hafði misst annan bátinn. Ása kom hingað í gærkveldi með brotnar loftskeytastengur. Gulltoppur kom seint í gærkveldi, með brotinn bát og loftskeytastengur. Egill Skallagrímsson kom í nótt; báðir bátar hans höfðu brotnað og bátadekkið; sjór féll í vélarúmið og lá hann undir stórum áföllum. Njörður kom í nótt; missti annan bátinn, en loftskeytatæki löskuðust. Draupnir missti 30 tunnur lifrar og annar bátur skipsins brotnaði. Þórólfur missti annan bátinn og loftskeytatæki hans biluðu. Hilmar kom í gær með brotið stýri og eitthvað laskaður að öðru leyti. Mörg útlend skip hafa leitað hér lægis og munu flest hafa laskast eitthvað.
Fjárskaðar munu hafa orðið í Húnavatnssýslu á sunnudaginn. Veðrið skall á um hádegi, en góðviðri hafði verið um morguninn. Allt fé frá Hnjúkum var ófundið síðdegis í gær, um 200 fjár, og eitthvað vantaði frá öðrum bæjum. ... Skallagrímur sendi skeyti í gærkveldi. Hann var fyrir sunnan land í veðrinu og varð ekkert að hjá honum.
Morgunblaðið segir frekar af tjóni og slysum 11.febrúar:
Símabilanir eru ekki nærri allar komnar í lag síðan um helgina, enda var stórhríð á Norðurlandi í gær, þó veðurhæðin væri ekki önnur eins og á sunnudaginn var. Í fyrradag var hægt að dytta að símanum nokkuð, en dagurinn entist ekki, því bilanir voru svo víða.
Í gær hafði Morgunblaðið tal af Sauðárkróki, og voru þessar fréttir helstar. Í stórhríðinni á sunnudaginn urðu tveir menn úti, sem frést hafði um til Sauðárkróks. Annar fór frá Blönduósi áleiðis að Hnjúkum á Ásum. Hét hann Vermundur Guðmundsson. Var hann maður aldurhniginn og lasburða. Lík hans fannst daginn eftir skammt frá túngarði á Hnjúkum. Í Svarfaðardal varð unglingspiltur úti, eða dó af hrakningi í hríðinni. Var hann með lífsmarki er hann fannst, en raknaði ekki við. Um nafn hans var ekki frétt í gær, eða nánari atvik.
Á Siglufirði urðu allmiklar skemmdir á bryggjum. Tvær bryggjur eyðilögðust svo til alveg, Ásgeirs Pjeturssonar Og Sörens Goos. Á Sauðárkróki rak alla uppskipunarbáta á land sem voru úti á höfninni nema einn sem sökk. Einn bátanna brotnaði í spón. Hinir löskuðust, þar á meðal einn mótorbátur.
Morgunblaðið heldur áfram að telja upp slys og tjón 12. febrúar:
Akureyri 11. febr. FB. Í stórhríðinni á sunnudaginn varð unglingspiltur að nafni Halldór Grant úti nálægt Dalvík.
Símslitin eru enn þau sömu og verið hafa. Hefir verið illviðri mjög mikið norðan- og vestanlands, og því ekki hægt að gera við bilanirnar. Skeytasamband er þó alla leið til Seyðisfjarðar, en talsamband ekki nema til Sauðárkróks.
Sú sorglega slysafregn hefir borist hingað suður vestan af Snæfellsnesi, að tvö börn hafi orðið úti frá Flysjustöðum [Flesjustöðum] í Kolbeinsstaðahreppi. Fylgir það fréttinni, að börnin hafi verið að gæta hesta. Síminn er enn bilaður vestur þar, svo nánari fregnir hafa ekki borist af þessum sorglega atburði.
Morgunblaðið segir af hörmungunum á Flesjustöðum 13. febrúar:
Slysið á Flysjustöðum. Nánari fregnir hafa nú borist hingað suður um hið hörmulega slys, sem varð um helgina síðustu á Flysjustöðum í Kolbeinsstaðahreppi þegar börnin tvö urðu úti. Börnin, 11 ára drengur og 7 ára gömul stúlka, höfðu verið send á sunnudagsmorguninn kippkorn frá bænum að líta eftir hestum. Var veður þá allgott. En skömmu eftir að þau fóru, skall á grenjandi bylur. Brá faðir barnanna, Bergur Teitsson, þegar við, og fór á eftir börnunum, og fann þau skammt frá hestunum. En veðrið fór síversnandi, og gat Bergur ekki við neitt ráðið. Villtist hann með börnin. Hraktist hann allan. daginn með þau, þar til þau gáfust upp af þreytu og vosbúð og dóu í höndum hans. Sjálfur komst hann á mánudagsnóttina, þjakaður og illa útleikinn, við sárustu raun heim að bæ einum þar í sveitinni, Krossholti. En meðan þessi sorgaratburður var að gerast, sat móðir barnanna alein heima í fullan sólarhring. Var ekki fleira fólk á heimilinu en börnin og hjónin. Má geta nærri um líðan hennar allan þann tíma. Á mánudaginn barst henni svo sorgarfregnin um lát barn anna og hrakning og þrautir manns hennar.
Morgunblaðið segir enn af slysum 14. febrúar:
Stórhríðin um helgina var. Kona verður úti í Laxárdal. Miklir fjárskaðar í Austur-Húnavatnssýslu. (Samkvæmt símtali við Hnausa i gær). Daglega berast nýjar hörmungafregnir um slys og fjártjón, sem orðið hafi í norðangarðinum um síðustu helgi. En viðbúið er, að mikið sé ófrétt ennþá hingað, því hríðarveður var enn á Norðurlandi í gær, og símaviðgerðum miðar seint. Talsímasamband var ekki komið í gærkvöldi til Ísafjarðar eða Akureyrar. Frá Hnausum var Morgunblaðinu sagt í gær, að á flestum bæjum í Svínavatnshrepp og allmörgum í Bólstaðahlíðarnhrepp hafi fé ekki náðst í hús á sunnudaginn. En meginhluti fjárins hafi fundist lifandi næstu daga. Þetta 1020 kindur vanti á bæ, eða hafi fundist dauðar. Á Hólabaki í Þingi náðist féð ekki heldur heim fyrri en daginn eftir. Þar vantar og nokkrar kindur. Frá Þingi og Vatnsdal hafði ekki frést um nein slys eða tjón að Hnausum. Óljósar fregnir höfðu komið þangað um það að kona, Rósa að nafni, hefði orðið úti í Skyttudal í Laxárdal. Var það húsmóðirin ein heima, er hríðin skall á, maður hennar Guðmundur Þorkelsson hafði brugðið sér á næsta bæ. Fé hafði verið látið út um morguninn. Mun konan hafa ætlað að sinna því, en hefir villst og fannst örend skammt frá bænum.
Morgunblaðið símaði til Hvammstanga og Hólmavíkur í gær. Eigi hafði frést um nein slys eða fjártjón hvorki úr Miðfirði, af Vatnsnesi eða Ströndum. Af Hólmavík var sagt, að verið hefði jarðlaust með öllu fyrir helgi á Ströndum, og því hefði það eigi komið til að fé týndist. Skolfregn hafði komið þangað á sunnudag, að tvo báta vantaði úr Bolungarvík. Vonandi að það reynist mishermi.
Og enn er sími ekki kominn í lag 17.febrúar Morgunblaðið:
Síminn er enn í ólagi mjög mikið, að því er snertir norður- og vesturlínurnar. Talsímasamband er að vísu komið til Akureyrar, en er mjög illt og nær því ómögulegt að bjargast við það. Þá er og samband komið á vesturlínunni til Arngerðareyrar, en ekki hefir enn verið hægt að gera við talsímann þaðan og til Skálavíkur. Vonlaust var þó ekki, seinni partinn í gær, að hann kæmist í lag í gærkvöldi. Sú fregn hefir borist hingað suður, að póstbáturinn, sem gengur um Ísafjarðardjúp, Bragi, hafi strandað um fyrri helgi í veðrinu mikla. Vegna símasambandsleysisins hefir ekki verið hægt að fá nákvæmar fregnir um strandið, en það mun hafa orðið innan við Hnífsdal. Talið er líklegt, eftir því, sem frést hefir, að báturinn muni ef til villi ekki vera mjög mikið brotinn. Hann var ekki í póstferð, og hefir að líkindum ekki verið með neina farþega.
Morgunblaðið 18.febrúar:
Bragastrandið. Frá því var sagt hér í blaðinu í gær, að póstbáturinn Bragi, sem gengur um Ísafjarðardjúp, hefði strandað. Vegna símabilananna höfðu borist hingað suður ónákvæmar fregnir um það, hvenær strandið varð. Heyrðist fyrst, að það hefði verið í veðrinu mikla. En nú hefir, síðan síminn komst í lag, fengist nánari fregnir af því. Strandaði báturinn ekki í veðrinu mikla, heldur síðastliðið fimmtudagskvöld [12.]. Var hann að koma innan úr Álftafirði með fisk, en blindhríð var, og urðu skipverjar aldrei varir við Arnanesvitann, og lentu vestur í landið hinumegin, í svokölluðum Völlum, milli Hnífsdals og Ísafjarðar. Eitthvað brotnaði báturinn, svo að sjór kom í hann, en þó er talið víst, að ná megi honum út, þegar veður batnar, og gera við hann.
Veður var nokkuð stillt 15. til 19. en úr því hófust illviðri aftur - og varð mjög snjóþungt, líka á Suðurlandi. Snjódýpt mældist 42 cm í Reykjavík þann 22. Snjór var mikill um mestallt land, mældist mestur 180 cm á Suðureyri þann 13. Morgunblaðið segir af jarðbönnum 20. febrúar:
Jarðlaust er nú með öllu í Árnessýslu, og víðast hvar í Rangárvallasýslu. Öll hross á gjöf.
Morgunblaðið segir ófærðarfréttir 21.febrúar:
Veðurtepptur varð Guðmundur Björnson landlæknir á Vífilsstöðum í fyrrinótt, og mun það vera sjaldgæft, að menn komist ekki ferða sinni milli hælisins og bæjarins.
Til Vífilsstaða var ómögulegt að komast í gær í bíl vegna skafla á veginum, einkum í Öskjuhlíðinni. Gerði skafrenning svo mikinn í fyrrakvöld, að bifreiðar, sem voru á leið suður eftir, stöðvuðust lengri og skemmri tíma, eða komust alls ekki. Varð fólk að fara úr þeim sumum, og var ekið á sleða hingað til bæjarins aftur. Vífilstaðabifreiðin var 4 klukkustundir suður eftir, og er það til merkis um fannfergið. Í gær voru allmargir menn að moka af veginum, en gekk seint, því sumstaðar eru skaflarnir mannhæðarháir og meira. Farið var á sleða milli Vífilsstaða og bæjarins í gær.
Símslit urðu mikil í bylnum í fyrrakvöld. Var sambandslaust algerlega á norðurlínunni svo að ekki náðist í gær lengra en til Esjubergs. Var því ekkert samband við Borgarnes og allar stöðvarnar á aðallínunni norður. Slítið var og til Akraness. Þá hafði og Reykjaneslínan bilað, en það var bætt seinni partinn í gær og náðist suður í gærkvöldi.
Í rokinu í fyrrakvöld slitnuðu ljósþræðir til Vífilsstaða mjög mikið og brotnaði einn staur, svo ljóslaust varð í hælinu. Þótti efasamt í gær, hvort hægt mundi að gera við bilanirnar svo hælið fengi ljós í gærkvöldi. Þetta er því bagalegra, þar sem dælt er með rafmagni vatni í hælið, og er því hætta á að hælið verði vatnslaust, náist ekki rafmagnsstraumur þangað mjög fljótt.
Morgunblaðið heldur áfram 22.febrúar:
Ljósabilunin á Vífilsstöðum sem varð um daginn vegna slita á þræðinum, komst í lag í fyrrakvöld og segir sjúklingur af Vífilsstöðum að allir sem á hælinu voru, hafi orðið þeirri stund fegnastir. Var hælið algerlega ljóslaust nema það sem verið var með kerti á einstaka stað. Einnig varð að spara vatn mjög mikið, og mátti ekki líða mikið lengur, að rafmagnsstraumur fengist til hælisins svo ekki yrði vatnsþrot þar. Allir vegir út úr bænum urðu bílum ófærir í hríðinni á fimmtudagskvöldið var. Hefir verið sagt frá því hér í blaðinu, að bílar stöðvuðust, sem voru á leið til Vífilsstaða og Hafnarfjarðar þá um kvöldið. En auk Hafnarfjarðarvegsins lokaðist alveg vegurinn fram á Seltjarnarnes og austur úr bænum. Mokað hefir nú verið svo af Seltjarnarnesveginum, að hann er fær, en með nokkrum örðugleikum þó. Austur úr bænum verður ekki komist lengra en inn að Elliðaám. Þá var og ófær vegurinn sunnan Hafnarfjarðar, en kvað nú vera slarkfær. Margir menn frá bifreiðastöðvunum standa daglega í mokstri, og eins hefir vegamálastjóri sett nokkra menn til að ryðja vegina og fara um þá með snjóplóg. Svo segja bifreiðarstjórar, að komi skafrenningur aftur fyllist vegirnir jafnskjótt og verði ófærir.
Símabilanirnar hafa nú verið lagfærðar að mestu. Bilað var þó í gær upp á Kjalarnesinu, milli Esjubergs og Útskálahamars, og ekki var samband norður um land nema á einni linu. En von var um, að þetta yrði allt komið í lag í dag.
Morgunblaðið segir af harðindum og erfiðleikum á sjó 24. febrúar:
Ofviðri í Eyjum, Þór" bjargar bát. (Einkaskeyti til Morgunblaðsins í gær.) Í dag [23.] er austan ofviðri, sem olli nokkru tjóni, þó ekki neitt verulega. Talið er víst, að m.b. Sigríður hefði farist ef Þór hefði ekki komið til bjargar.
Úr Borgarnesi (Samkvæmt símtali í gær.) Héðan er fátt annað að frétta nema harðindi og mjög mikil jarðbönn. Heilsufar er gott.
Úr Keflavík (Eftir símtali í gær.) Hér reru allir bátar í gær og öfluðu ágætlega. En vegna mikillar austanáttar og brima hefur ekki verið hægt að ná nærri öllum fiskinum úr bátunum, og er það mjög bagalegt. Engin fleiri tíðindi.
Þann 11. [nákvæm dagsetning reyndar óljós] féll mikið snjóflóð í Botni í Dýrafirði, en engar fréttir bárust af því í blöðin fyrr en síðar. Morgunblaðið segir frá 27. febrúar:
Úr Dýrafirði (Símtal við Ísafjörð í gær). Snjóflóð mikið féll á túnið að Botni í Dýrafirði fyrir skömmu. Tók snjóflóðið fjárhús með nokkrum kindum er allar fórust. Skall hurð nærri hælum að flóðið tæki bæinn, því það tók bæjarvegginn þann sem að flóðinu vissi, svo bæjarhúsin löskuðust mjög, en fólk meiddist þó ekki til muna. Í ofviðrinu á dögunum [trúlega í Halaveðrinu] slasaðist bóndinn að Arnarnúpi, lærbrotnaði. Gerðist það með þeim hætti að manninn tók upp í storminum og meiddist hann svona er hann slengdist til jarðar.
Austan úr sveitum (Símtal. við Ölfusárbrú í gær). Úr verstöðvunum hefir ekkert verið róið undanfarna viku. Hlákublota gerði á dögunum svo jörð er nokkur i lágsveitum, en jarðlaust ennþá í uppsveitum, og það á bestu beitarjörðum.
Úr Borgarnesi var símað í gær, að þar væri komin nokkur jörð niðri um sveitir. Var fannfergi þar óvenjumikið. Ekkert hefir, að því er tíðindamaður blaðsins sagði, heyrst um heyleysi þar efra.
Morgunblaðið segir að vestan 28.febrúar:
Skip rekur á land. Á mánudaginn [23.] var losnaði eitt af skipum Proppé-bræðra, sem lá á höfninni á Þingeyri og rak í land skammt innan við kaupstaðinn, og brotnaði í spón. Austan garður var og veður hið versta. Skipið hét Capella". Enginn maður var á því. Lá það í vetrarlegu.
Mars var nokkuð umhleypinga- og úrkomusamur, stormar voru tíðir, en þó ekki afgerandi illviðri eins og í fyrstu tveimur mánuðum ársins. Enn voru að berast fréttir af sköðum í Halaveðrinu. Veðrið sem Morgunblaðið talar hér um, 3.mars, hlýtur að vera Halaveðrið:
Úr Eyjafirði. Skemmdir á bryggjum. Í norðangarðinum síðasta gerði aftakabrim á Eyjafirði, og olli það ýmsum skemmdum. Til dæmis tók það allar bryggjur á Dalvík, meðal annars bryggju Kaupfélagsins og Höpfnersverslunar, og voru þó báðar þessar bryggjur traustar, einkum sú síðarnefnda, og hafði aldrei haggað henni brim, en þau eru tíð við Eyjafjörð utanverðan. Þá urðu og allmiklar skemmdir á bryggjum í Ólafsfirði. Tjón á bátum varð ekki neitt, eftir því sem heyrst hefir, því þeir munu flestir eða allir hafa verið uppi á landi.
Nú varð fullljóst að tveir togarar hefðu farist í Halaveðrinu og blöðin fjölluðu loksins um þetta mikla slys og leitina sem fór fram að skipunum. Alþýðublaðið segir fyrst frá 7.mars, en einnig af strandi bresks togara:
Leitinni að togurunum Leifi heppna og Robertson er nú hætt. Hefir hún orðið alveg árangurslaus og er því miður alveg orðið vonlaust um, að togararnir komi fram. Bresku herskipin, sem leituðu togaranna fyrir sunnan og austan land, urðu einskis vör. Fór annað heimleiðis í gær; hitt fer í kvöld.
Vík f Mýrdal, 6. mars. Togari strandar. Togarinn Vera frá Hull strandaði í nótt á Kerlingardalsfjöru á Mýrdalssandi. 15 menn björguðust, og komu þeir til Álftavers í morgun. Talið er ókleift, að komast út í skipið. Fregnirnar um strandið. aðrar en þær, sem að framan eru nefndar, eru óljósar.
Morgunblaðið segir af órólegri tíð 8.mars:
Úr Grindavík. (Eftir símtali í gær.) Síðustu viku hefir verið hér gæftalaust með öllu, og hefir því lítið veiðst úr sjó. Í dag eru allir bátar í landi, er hér norðanrok og versta veður.
Hænir á Seyðisfirði greinir frá sjóslysi undan Austfjörðum í pistli 9.mars:
Vélbáturinn Oddur, eign R. Johansen kaupmanns á Reyðarfirði lagði af stað til Hornafjarðar, í verið, á miðvikudaginn [4. mars] var um dagmálabil, í besta veðri. Bátur frá Djúpavogi, sem var að koma úr róðri suðvestan fyrir Papey, mætti honum vestan við eyna um kl.4 síðdegis. Var þá vestan stormur skollinn á, og ráðlagði Djúpavogs-báturinn hinum að hætta við að halda lengra og hleypa inn í annan hvorn voginn í Papey þar til slotaði veðrinu. En þeir á Oddi hafa ekki búist við að mundi versna, því þeir héldu áfram suður eftir. Síðan hefir ekki sést meira til bátsins, og talið er fullvíst að hann hafi farist. En hvar, eða hvernig slysið hefir að borið, er ómögulegt að segja um. En á fimmtudag fundu bátar frá Hornafirði 2 steinolíuföt, fatapoka og koffort úr þessum bát, á reki rétt út undan Stokksnesi. ... Er þessi atburður ekki lítið tjón fyrir fámennt kauptún eins og Reyðarfjörð, að missa þarna í einu 7 unga, góða og duglega menn.
Morgunblaðið segir ítarlega frá togurunum sem fórust og leitinni að þeim 10.mars, frásögnin er nokkuð stytt hér:
Tveir togarar farast með allri áhöfn. Leifur hepni" og Fieldmarschal Robertson. Það var um hádegisbilið, sunnudaginn 8. febrúar að hér í Reykjavík rak á aftaka landnorðanrok, sem stóð allan daginn. Var það eitt hið mesta afspyrnuveður, sem nokkur maður mundi; þegar kom fram um nón, mátti segja, að tæplega væri hér í bænum gengt á milli húsa. Veður þetta tók yfir Suðurland austur fyrir Reykjanesfjallgarðinn. Þegar austar dró, var veðrið mikið minna; austan til í Arnessýslu og austur í Rangárvallasýslu var veðrið sæmilegt, að minnsta kosti sumstaðar. Aftur gekk veður þetta með ofsahörku yfir Vesturland og Norðurland. Þegar veðrinu slotaði, gekk erfiðlega að fá fréttir utan af landi, því símasamband út frá Reykjavík í ýmsar áttir var ýmist slitið eða í megnu ólagi. Þannig mátti segja, að allir Vestfirðir væru að mestu leyti sambandslausir við höfuðstaðinn. Jafnóðum og síminn komst í lag, tóku að berast til Reykjavíkur fréttir um sorglegar slysfarir og skemmdir á mönnum til og frá, eignatjón og skaða, sem allt stafaði af veðrinu. En hvernig leið togaraflotanum úr Reykjavík og Hafnarfirði, sem yfir höfuð var allur að veiðum þegar veðrið skall á, ýmist fyrir sunnan land, eða fyrir vestan og norðan land, norður á Hala, eins og sjómennirnir okkar kalla þetta nýja fiskimið, þar sem mest hafa verið uppgripin í haust og í vetur?
Voru togararnir ofansjávar eftir öll þessi ósköp, sem á höfðu gengið, eða skyldi veðrið hafa grandað þeim? Þessar spurningar lágu eins og þungt bjarg á brjóstum alls þeirra manna hér í bænum, Hafnarfirði og öllu nágrenni. Menn báru almennt ekki mikinn kvíðboga fyrir skipunum, sem verið höfðu að veiðum sunnanvert við landið; en það voru togararnir norður á Hala, sem ollu mönnum þungum áhyggjum. Guð má vita, hvernig þeim hefir reitt af í veðrinu"; það var viðkvæðið hjá öllum. Það komu engin eða sárfá loftskeyti frá þeim; það gat raunar allt verið eðlilegt, loftskeytatækin í ólagi eftir veðrið. Þessi skip gátu líka legið í hópum inni á Vestfjörðum. Símasambandið við flesta Vestfirði var slitið. Mörgum þótti því ekki ástæða til að óttast um skör fram. Það var ekki um annað að tala en að bíða og vona það besta. Og vonirnar tóku smámsaman að rætast. Á öðrum og þriðja degi tóku togararnir að tínast inn á höfnina. En illa voru þeir útleiknir og verkaðir; allt, sem losnað gat á þilfari, var skolað burtu; þeir voru brotnir og bramlaðir og eins og eitt klakastykki frá. sigluhún og niður á þilfar; en menn voru allir heilir og lifandi. En í krappan dans höfðu þeir flestir komist, hjá flestum verið skammt milli lífs og dauða. En eigi það nokkurs staðar við, að valinn maður sé í hverju rúmi þá er það á íslensku togurunum okkar.
Það var líka lánið í þetta sinn, næst Guðs hjálp. Þeir höfðu fengið skelfilegt veður þarna norður frá, og veðrið hafði skollið um það bil 17 tímum fyrr á þar en hér; stórsjórinn, bylurinn og myrkrið verið að sama skapi. Eru margar sögur sagðar af þrautum sjómannanna í þetta sinn, baráttu þeirra og lífsháska; en líka, og ekki síður, af óbilandi kjarki þeirra, þrautseigju og dugnaði; það hitnar blóðið í okkur, sem á landi erum, þegar við heyrum utan af sjónum, þessum ægilega vígvelli, frægðarsögurnar af löndum okkar, sem reynast þessir afburðamenn, þegar á reynir. Eftir því, sem togararnir komu til hafnar, þá glæddist hjá mönnum sú von, að á endanum mundu þeir allir koma að norðan og vestan, og að togaraflotinn mundi sleppa stórslysalaust frá þessu ógnarveðri. En sú von átti ekki að rætast, því miður. Það vantaði á endanum tvo togara norðan af Hala, sem ekki komu fram, Leif hepna", héðan úr Reykjavík, og Robertson" enskan togara úr Hafnarfirði. Voru á hinum fyrrnefnda 33 menn, allir íslenskir; skipstjóri Gísli Oddsson; en á hinum síðarnefnda 35 menn, 29 íslenskir og 6 erlendir, skipstjóri Einar Magnússon.
Leitin hafin. Mönnum gerðist brátt órótt, þegar seinkaði komu þessara 2ja togara, Leifs Heppna" og Rolbertsons", og vönum sjómönnum varð öllu órórra fyrir það að skipin voru tvö, sem. vantaði. Engan veginn þótti mönnum samt sjálfsagt, að skipin hefðu farist í veðrinu; þau gátu verið að hrekjast einhversstaðar með brotin stýri og bilaða vél; þau gátu legið einhversstaðar inni á Vestfjörðum, og ekki komist þaðan hjálparlaust til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar. En hvað sem um þetta kynni að vera, þá brunnu menn af löngun til að vita eitthvað um þessi skip, og veita þeim hjálp, ef þau þyrftu hjálpar við, og hjálp væri hægt að veita; og togaraeigendur og útgerðarmenn vildu allt í sölurnar leggja, ekkert til spara, til að gera það, sem í mannavaldi stæði, togurum þessum til hjálpar, ef þeir væru nauðulega staddir. En hér var ekki hægt um vik. Allir togarar voru meira og minna bilaðir og brotnir eftir veðrið mikla, og gátu alls ekki farið út, fyrr en eftir nokkra daga. En hins vegar litu menn svo á, að ef þessir tveir togarar væru einhversstaðar úti í hafi nauðulega staddir, þá þyrfti að vinda bráðan bug að því, að leita að þeim og veita þeim hjálp. Fimmtudaginn 12. febrúar fór því landsstjórnin þess á leit við varðskipið "Fyllu", að skreppa vestur fyrir land, skyggnast um eftir þessum tveimur togurum inni á fjörðum og fara um þær slóðir, þar sem þeirra gæti helst verið von. Yfirmaðurinn á Fyllu tók þessum tilmælum vel. Fylla" fór síðan vestur fyrir land og leitaði allstaðar þar sem henni þótti líklegast; en hún varð einskis vísari um örlög þessara tveggja skipa, og hvarf hún við það hingað suður aftur; kom til Reykjavíkur 15. febrúar.
Daginn eftir að Fylla fór í leitina vestur og norður, héldu útgerðarmenn hér í bænum fund, og var þar afráðið, að ef ferð Fyllu" yrði árangurslaus, þá tækju þeir þetta mál í sínar hendur. Skyldi þá leggja í nýjan leiðangur og allir ferðafærir togarar taka þátt í honum. Sunnudaginn 15. febrúar lögðu 12 togarar út héðan úr Reykjavík, undir forustu Magnúsar Magnússonar framkvæmdastjóra. En átta togarar voru með loftskeytum kallaðir sunnan af Selvogsbanka, undir forustu Guðmundar Jónssonar á Skallagrími og áttu þeir að hitta hina suður og vestur í hafi, og hittu þeir þá á mánudagsmorguninn þann 16. febrúar. Aðalforingi ferðarinnar var Magnús Magnússon framkvæmdastjóri. Þessi togarafloti raðaði sér til þess að gagnleita ákveðið svæði; nálega 200 sjómílur á hvern veg. Allt leitarsvæðið hugðust þeir að gerleita á tveim til þrem dögum. Fimmtudagskvöldið 19. febrúar komu margir togararnir aftur úr leiðangri þessum, og höfðu þeir ekkert fundið einskis orðið vísari; var þá allur flotinn búinn að leita rækilega á 18.000 fersjómílna svæði. [Varðskipið Fylla og tveir togarar héldu leitinni síðan áfram].
Í sama veðri og grandaði togurunum tveimur, fórst vélbáturinn Solveig". Var hann gerður út héðan úr Reykjavík, af Óskari Halldórssyni, en var suður í Sandgerði áður en veðrið skall á, og fór þaðan í byrjun ofsaveðursins, og strandaði á Stafnesskerjum. Sex menn fórust á þessum bát.
Morgunblaðið segir 11.mars síðbúnar fréttir úr Hnappadalssýslu:
Úr Hnappadalssýslu 31. janúar 1925. Ofviðri mikið var hér 21. þ.m. [janúar]fyrst af landsuðri og svo af suðri, þá varð veðurhæðin mest og er það mjög fágætt, skemmdir urðu mikið minni fyrir það, að veðrið var að deginum til.
Vísir greinir frá Halaveðrinu í Húnavatnssýslu í pistli 12.mars:
Úr bréfi úr Húnavatnssýslu 22. febrúar. Tíðarfar hefir mátt heita fremur stirt í vetur. Að vísu hefir oftast verið frostvægt, en umhleypingasamt í meira lagi. Hagar oftast nægir í lágsveitum, en beit notast illa, sakir skakviðra. Til fjalla hefir verið með snjóléttara móti. Sunnudaginn 8. þ.m. var hér blíðuveður að morgni, en er leið að hádegi rauk upp skyndilega ein hin háskalegasta norðan-stórhríð sem yfir þessi byggðarlög hefir lengi komið. Hafði fé víðast hvar verið rekið á haga um morguninn, því að veður var hið besta svo sem áður er sagt, og útlit sæmilegt. En hríðin skall yfir svo skyndilega, að engum togum nam, og varð á svipstundu ein hin allra versta, sem hér hefir komið í mörg ár, bæði að fannburði og veðurhæð. Tvær manneskjur karlmaður frá Hnjúkum og kona frá Skyttudal urðu úti hér í sýslu í þessari hríð, svo að ég viti, en margir voru hætt komnir, og viða tókst ekki að ná sauðfé í hús. Hrakti það víða vegu, en sumt fannst dautt, er upp birti.
Á Þverá í Norðurárdal urðu miklir fjárskaðar og lá nærri að húsfreyjan þar yrði úti. Á Þverá býr Guðlaugur bóndi Sveinsson og kona hans, Rakel Bersadóttir frá Sölvabakka, tápkona hin mesta, svo sem hún á kyn til Guðlaugur bóndi var í kaupstaðarferð þennan dag (8. þ.m.), en konan ein heima með barnahópinn. Þau eru víst 6 eða 7, sitt á hverju árinu að heita má. Hún hafði beitt fénu út um morguninn, en er hríðin skall á, brá hún við þegar í stað og ætlaði að reyna að bjarga fénu í hús. Þverá er efsti bær í dalnum, alveg uppi við fjallgarðinn, og getur enginn sem ekki þekkir til, gert sér í hugarlund, hversu afskaplega svartar norðanhríðarnar geta orðið hér í fjalldölunum. Þennan dag var veðurhæðin svo mikil, að ekki var stætt á bersvæði, og svo sótsvört var hríðin, að ekki sást handa skil. Sunnlendingar þekkja ekki þvílík veður og skilja sennilega ekki heldur, hver vogun það er og lífshætta, jafnvel vöskustu karlmönnum, að leggja út í slíkan sorta. En hér var mikið í húfi. Féð úti á víðavangi og ekki annað sýnna, en að það færi allt í fönn eða hrekti víðsvegar og lemdist til bana. Rakel húsfreyja var ekki lengi að ráða við sig hvað hún ætti að gera. Hún yfirgaf barnahópinn og snaraðist út í hríðina. Hún þóttist vita hvar kindanna væri að leita og fann eitthvað af þeim, en missti þær jafnharðan frá sér. Skömmu síðar mun hún hafa tekið að villast, og vissi þá ekki hvert hún fór. Eftir 45 stunda hrakning náði hún þó fjárhúsunum, en þá var svo að henni þrengt, að hún treystist ekki til bæjar þá þegar, og þó örskammur spölur milli húsa og bæjar. Eftir nokkra hvíld lagði hún þó út í hríðina á ný og náði þá bænum. Þykir þetta rösklega gert og ekki á allra kvenna færi að standa í sporum Rakelar i þessari raun. Þegar hríðinni var nokkuð slotað og Guðlaugur bóndi heim kominn fór hann strax að leita að fé sínu og fann það bráðlega flest eða allt en um 40 ær voru dauðar, eða tæpur helmingur alls fjárins, þess sem úti hafði legið. Tvö trippi höfðu verið látin út sunnudagsmorguninn og fundust þau bæði dauð. Þetta er mikið tjón fyrir efnalítinn fjölskyldumann, og er vonandi, að reynt verði að bæta honum skaðann að einhverju leyti.
Næsta hálfan mánuð voru ekki miklar fréttir af veðri - enda var það allgott allt fram yfir þann 20. Morgunblaðið segir frá í fáeinum stuttum pistlum:
[13.] Austanrok gerði hér mikið í fyrrinótt; en ekki hefir frést um neitt tjón af völdum þess. [Veðráttan segir þó frá því að bátar og togari hefi lent í hrakningum í suðaustanillviðri við Vestmannaeyjar og nærri Hafnarfirði og að loftskeytanet í Reykjavík hafi slitnað niður].
[14.] Seyðisfirði 13.mars FB Goðafoss hreppti í fyrri viku fárviðri á milli Færeyja og Íslands. Í fárviðri þessu reyndist skilrúm að forlest óþétt og skemmdist talsvert af vörum.
[15.] Frá Ísafirði 14. mars. FB. Tíðarfar hér er nú hagstætt. Blíðviðri í gær og í dag. Reytingsafli á útmiðum.
[20.] Frá Akureyri var símað í gær, að norðanlands væri og hefði verið besta veður undanfarna daga.
Mikið og einkennilegt snjóflóð féll á bænum Úlfá innst í Eyjafirði þann 18. Skíðamennirnir sem sagt er frá er leiðangur yfir hálendið sem L.H. Müller og fleiri lögðu í þessa daga og var nokkuð fjallað um í blöðum (og tókst vel):
Morgunblaðið segir frá 24.mars - en fréttin eins og margar aðrar unnin á Fréttastofu blaðamanna (FB):
Frá Akureyri 22.mars 1925 FB. Skíðamennirnir lögðu ekki á fjöllin frá Tjörnum, fyrr en þann 19. Daginn áður féll hið mesta snjóflóð, sem menn muna þar eftir, nálægt bænum Úlfá, sem er skammt frá Tjörnum, og gróf hesthúsið í fönn og ruddi burt með sér fjárhúsi. Skíðamennirnir voru kallaðir til hjálpar og tókst að ná hestunum lifandi, en aðeins einni kind varð bjargað af 34 og mun taka marga daga að grafa þær upp. Bóndinn er fátækur og er því tjónið tilfinnanlegt fyrir hann.
Dagur segir einnig frá flóðinu þann 26.mars:
Fjárskaði varð á Úlfá, fremsta bæ í Eyjafirði. Sprakk fram gömul hjarnfönn, upp í fjallsbrún, hljóp á fjárhús og lemstraði og drap 14 kindur.
Enn voru fréttir frá Úlfá. Morgunblaðið 28. mars:
Akureyri, 27. mars FB. Annað snjóflóð? Fólkið á Úlfá hefir flúið bæinn, af ótta við annað snjóflóð. Er önnur sprunga komin í jökulinn upp af bænum, og getur komið hlaup úr henni, er minnst varir. Úr fjárhúsinu, er skriðan féll á, tókst á öðrum degi að bjarga 20 kindum, 14 fórust. Úlfárbóndinn heitir Jóhann Jósefsson, og er fátækur maður.
Í grein sem Jón Eyþórsson ritaði í tímaritið Jökul 1957, síðara hefti er fróðlegur pistill um Úlfárjökul og er í honum einnig bréf eða skýrsla Jóhanns Jósepssonar um hlaupið 1925. Pistillinn er nokkru lengri en tilvitnunin hér að neðan (mun nánari lýsing á jöklinum ofl.). Hér kemur fram að þetta flóð var mjög óvenjulegt, en skiptar skoðanir munu vera á því hvað nákvæmlega gerðist, hvort hluti af jöklinum sjálfum hljóp fram eða ekki - eða hvort snjóflóð úr brúnum ofan jökulsins kom hlaupi af stað - eða upphafsins sé að leita í jöklinum sjálfum. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn fundið heimildina um ámóta flóð á 18.öld sem talað er um. Það er ekki í annálum Bókmenntafélagsins.
[Jón Eyþórsson segir frá] Sagnir eru um, að jökulhlaup hafi komið í Úlfá fyrir h.u.b. 200 árum. Hafi bærinn Úlfá þá staðið utar og neðar, en farið af í hlaupinu. Kvað sjást til tótta á þessum stað enn. Bærinn var þá færður ofar, þar sem hann stóð síðan. Hinn 18. mars árið 1925 kom jökulhlaup fram úr Úlfárgili, tók peningshús eða færði í kaf og drap flest féð. Fór Úlfá í eyði upp úr því. Hún þótti góð sauðjörð, og hafa Hólsgerðisbændur þar fjárhús. Af hlaupinu segir svo í bréfi frá síðasta bóndanum á Úlfá, Jóhanni Jósepssyni:
22. mars 1940.
Á útmánuðum 1925 fór ég vanalega á fætur um kl. 4 til að hleypa fénu út og reka það til beitar. En einn morgun, aldrei þessu vant, svaf ég sem fastast, en varð þess var seinni hluta næturinnar, að engu var líkara en landskjálfti væri að koma, og heyrðist mikill hvinur um leið. Ég gaf því engan gaum og sofnaði og vaknaði ekki, fyrr en Gunnar á Tjörnum kom upp á glugga og vildi finna mig, og þegar út kom, sagði hann, að jökulhlaup væri fallið á fjárhúsin. Sagði hann, að þeim hefði ekki orðið um sel, þegar heimafólk hefði komið á fætur. Þeim hefði sýnst jökulhlaupið hafa fallið á Úlfárbæinn. Það bar þannig við frá Tjörnum, vegna þess að Tjarnir eru allmikið í norðaustur frá Úlfá. [Þetta var 18. mars.] Áður en langur tími leið, voru margir menn komnir og þar á meðal voru nokkrir útlendingar, sem verið höfðu á Tjörnum um nóttina og voru í þann veginn að fara suður Kjalveg. En þrátt fyrir það, þótt bæði ég og nágrannar mínir værum kunnugir og vissum, hvar húsin stóðu, var langur vegur frá því, að við værum vissir um, hvar grafa skyldi til þess að koma því sem næst niður á mið húsin. Það voru tvístæð 100-kinda hús með stóru þili að framan. Þá stakk ég upp á því að grafa skyldi á vissum stað, eftir afstöðu fossanna, sem voru beint uppi í gilinu fyrir ofan húsin. Spottakorn í suðvestur frá fjárhúsunum neðan undir háum melhól var hesthúsið, og hafði hlaupið fallið norðan á hússtafninn og skekkt húsið, en síðan framan við húsið og fyrir dyrnar, svo að ekki var hægt að koma hestunum út, öðruvísi en að moka frá húshliðinni. ...
Daginn eftir fór ég að athuga, hvernig hlaupið hefði hagað sér, og hvort nokkurt vatn hefði verið með, og fór ég upp að jökli. Sá ég þá hvar allmikil fylla hafði sprungið fram efst uppi í fjallsbrún og tekið allt niður í gegn á jöklinum og steypst niður úr skálinni, rifið allt, sem nokkurt lát var á, og rutt þar niður í klettagil, sem fljótt tekur við neðan undir skálinni, farið þar með leifturhraða ofan gilið og skilið víðast hvar eftir allmiklar rastir á gilbörmunum, þar til það kom niður að allháum fossum neðst í gilinu. Var auðsjáanlegt, að þar hafði það tekið loftkast og ekki komið við á allmiklum parti, dunkast niður á eyrarnar fyrir ofan húsin og skellt þeim áfram, en klofnað neðan við þau og runnið það, sem eftir var, í tvennu lagi. Ytri röstin fór út og ofan eyrar, en hin lítið eitt suður og ofan á grasi vaxnar tóftir, en þar kvað bærinn hafa staðið til forna og hafa eyðilagst af jökulhlaupi. Hlaupið mun hafa fallið 500 metra eftir svo að segja hallalausu landi. Breiddin á því á flatanum var 250 metrar, og frá nyrðra bæjarhorninu voru 50 metrar að hlaupinu. Það var 6 metra dýpi niður á húsin. Jóhann Jósepsson, Hömrum við Akureyri.
Veturinn 1925 voru miklir sunnan-renningar, og myndaðist feikna hengja á jökulbrúninni. Hefur hún sennilega oltið fram af og spýst fram úr gilinu. Barst gríðarmikil hrönn af snjó og jökum fram á sléttlendið.
Enn varð maður úti. Alþýðublaðið segir frá 30.mars:
Seyðisfirði 29. mars. Prestur verður úti. Guðmundur Ásbjörnsson, fríkirkjuprestur á Eskifirði, lagði af stað á fimmtudaginn í embættisferð upp yfir Eskifjarðarheiði og ætlaði að messa á sunnudag á Ketilsstöðum á Völlum. Hann var ekki kominn fram á föstudag, og var þá hafin leit, og fannst hann örendur á heiðinni. Hefir líklaga orðið bráðkvaddur eða veikst snögglega og lagst fyrir. Frost var mikið og stormur þann dag og nóttina á eftir.
Tíðarfar þótti nokkuð hryssingslegt síðasta þriðjung marsmánaðar og apríl byrjaði með snjó. Snjódýpt mældist 17 cm í Reykjavík þann 1. Morgunblaðið segir frá 1.apríl:
Snjókomu gerði hér mikla í gærmorgun snemma og stóð til kvölds. Hlóð niður miklum snjó. Farið var með snjóplóg um göturnar víða.
Morgunblaðið segir af tíð 2.apríl:
Úr Borgarfirði. (Eftir símtali við Borgarnes í gær.) Undanfarið hefir verið heldur hart hér í Borgarfirði, og er reyndar enn; er snjór með mesta móti, en þó víðast jörð. Um heyleysi hefir ekkert heyrst enn, og munu bændur almennt telja sig birga með hey, ef ekki verður því harðara vor. Vondur bylur hefir verið hér síðan í fyrradag. Og voru menn orðnir hræddir um Svan, er var á leið til Skógarness með vörur. Spurðist ekki til hans í sólarhring. En hann hafði legið af sér bylinn í sæmilegu lægi.
Frá Sauðárkróki (eftir símtali í gær) Tíðarfar hefir verið stirt undanfarið, sífellt hryssingsveður, og nú mikil fannkoma síðan um síðustu helgi. Eigi er þó enn tekið fyrir jörð nema í útkjálkasveitum.
Morgunblaðið segir fréttir að vestan 7.apríl:
Ísafirði 5. apríl. FB. Tíðin hefir verið stirð hér undanfarið, og ekki gefið á sjó alllengi.
Benedikt Jóhannsson á Þorvaldsstöðum segir um veturinn í aprílpistli: Fullorðnu fé og hestum víða hér aldrei gefið á vetrinum og á einum bæ lömbum aldrei.
Dagur rekur tíð í pistlum 8. og 30.apríl:
[8.] Tíðarfarið. Nokkra undanfarna daga hefir verið heiðskírt og stillilogn en talsvert frost. Útmánuðirnir hafa verið mjög vanstilltir um tíðarfar og veður verið áhlaupasöm en ekki að jafnaði hörð. Um fyrri helgi rak niður talsverðan snjó um norðursveitir. Einkum kvað að því í Skagafirði og Húnavatnssýslu og eru þar nú jarðbönn og illt yfirferðar.
[30.] Tíðarfarið. Á Sumardaginn fyrsta gerði kuldakast, sem stóð nokkra daga. Hefir nú aftur birt til og hlýnað og eru bestu vorveður en þó nokkur næturfrost. Vona margir að nú sé batnað til fulls.
Aðfaranótt 20. apríl var hvöss vestanátt á landinu þegar nokkuð kröpp lægð fór til austurs fyrir norðan land. Tjón varð á Seyðisfirði. Hænir segir frá 20.apríl:
Ofsarok var hér í morgun. Urðu skemmdir á símanum svo að sambandslaust er úteftir beggja megin fjarðarins, lifrabræðsluhús St.Th. Jónssonar, lyftist á grunni og franska skipið Jena, sem legið hefir hér, slitnaði upp og rak út úr firðinum, ennþá óvíst hve langt, og er þess nú leitað á vélbát. Ennfremur má geta þess, að kona, sem svaf ein í loftherbergi, vaknaði við það, að tré kom í hendingskasti iun um gluggann og inn á gólf, en varð ekki að meira tjóni, hafði það tekist upp af bryggju skammt frá.
Norðaustanlands var mjög úrkomusamt í maí, en þurrviðrasamt um landið sunnan- og vestanvert. En tíð var almennt hagstæð - og ekkert kvartað undan veðri. Dagur segir frá 7.maí:
Tíðarfarið. Veður eru nú hin mildustu dag hvern og gróðrarskúrir. Jörð er tekin að grænka.
Sumarið 1925 var talið í hópi þeirra bestu á Norðaustur- og Austurlandi, en á Suður- og Vesturlandi var erfið úrkomutíð, veður þó oftast ekki mjög vond þannig að þetta sumar er sjaldan nefnt þegar helstu rigningasumur aldarinnar eru talin upp. September bjargaði nokkuð. Í hinni óformlegu sumareinkunnargjöf ritstjóra hungurdiska er þetta sumar með næstlægstu einkunn Reykjavíkursumra 1923-2023, aðeins sumarið 1983 fær lægri einkunn. Kannski ætti hér að hafa í huga að í grjótharðri einkunnagjöf eru oftast einhver fórnarlömb - væru aðrar aðferðir notaðar kæmi sumarið e.t.v. ekki jafnilla út.
Til gamans bregðum við hér upp mynd sem sýnir úrkomuna í hinum ýmsu landshlutum. Hafa verður í huga að úrkomumælingar voru gerðar á mjög fáum stöðvum á landinu, t.d. aðeins fjórum á þeim landshluta sem hér er talinn til Norðurlands, en hér er það svæðið frá og með Skagafirði til og með norðanverðra Austfjarða. Suðurland er talið ná frá sunnanverðum Austfjörðum vestur að Reykjanesi, en Vesturland er þar á milli. Grunnur skiptingarinnar er ekki út í bláinn hann byggir á tölfræði sem ritstjóri hungurdiska tók eitt sinn saman og birti í afmælisriti Sigurjóns Rist 1987. Sjá má pdf-eintak af myndinni í viðhengi - þar er hægt að stækka hana að vild.
Lítum fyrst á norðurlandshluta myndarinnar. Lárétti ásinn fikrar sig eftir dögum sumarsins, 1. júní lengst til vinstri, en 30. september lengst til hægri. Lóðrétti ásinn sýnir á hversu mörgum stöðvum (hlutfall allra stöðva á svæðinu) úrkoma mældist viðkomandi dag. Það má ráða af grænu súlunum. Talan 1000 segir að rignt hafi á öllum stöðvum á svæðinu. Það gerist aðeins fimm daga allt sumarið. Margir dagar eru alveg þurrir (engin súla við dagsetninguna) og oft er úrkoma aðeins á einni stöð. Á Vesturlandi (efst til hægri) eru allmargir þurrkdagar seint í júní og eins kringum mánaðamótin júlí/ágúst. Gátu þá margir náð inn heyjum. Síðan eru þurrir dagar í september. Engir langir þurrkar. Sama á við um Suðurland, þar er lítið um þurra daga fyrr en í september - en úrkoma er þó ekki eins ágeng fyrst í ágúst og annars.
Við skulum hafa í huga að á þessum árum voru það ekki aðeins bændur sem þurftu þurrk í heyskapnum, heldur var fiskur einnig þurrkaður í útvegsplássum um land allt - þá þurfti helst sólskin líka. Sólskinstundir í Reykjavík í júní til ágúst mældust aðeins 343, voru reyndar enn færri árið eftir 1926 (en það er alltaf á rigningasumralistum) en síðan ekki jafnfáar eða færri fyrr en 1947 (líka á rigningasumralistum) og auðvitað 1955 - rigningasumarið mikla.
Við lítum nú á blaðafregnir sumarsins. Snemma í júní gerði mikla hitabylgju á Norður- og Austurlandi með miklum vatnavöxtum og skriðuföllum. Aðra stóra hitabylgju gerði síðan síðar í mánuðinum. Alþýðublaðið segir frá 11.júní:
Akureyri 10.júní. Óvenjulegir vatnavextir eru í ám hér nyrðra, einkum Eyjafjarðará, hólmarnir allir í kafi, og er sem stórt stöðuvatn að líta frá þjóðveginum að vestan austur undir fjallarætur, brúin og risið á kofunum á Kaupangsbakka hið eina, sem stendur upp úr.
Dagur sama dag, 11.júní:
Tíðin er einmunagóð þessa dagana, sunnan hlývindi og skúrir. Horfur með grassprettu hinar bestu. Bændur hér í nærsveitum eru að láta hreinsa tún sín og hafa ekki undan sprettunni. Ár og lækir eru í miklum vexti. Frammi í Saurbæjarhreppi hafa skriður fallið á nokkrum stöðum og gert spjöll bæði á túnum og engjum.
Morgunblaðið segir fregnir af vatnavöxtum og skriðuhlaupum 13.júní:
Akureyri, 12. júní. FB. Skemmdir af skriðuhlaupi. Skriðuhlaup urðu allvíða um miðbik vikunnar í Saurbæjarhreppi. Á tveimur bæjum, Leiðargarði og Skáldstöðum, urðu miklar skemmdir á túnum og engi. Talsverðar skemmdir urðu einnig á engjum á Kolgrímustöðum, Hólum og Vatnsenda. Dagana á undan var rigning og leysingar.
Hænir segir tröllasögur af hita á Seyðisfirði 13.júní. Engar hámarkshitamælingar voru gerðar þar á þessum árum, en skeytabókin nefnir hæst töluna 22 stig þann 10.júní. Þann 12. (daginn sem vitnað er í, mældist hiti 19 stig kl.8 um morguninn, en 18 stig um hádegið:
Hiti óvenjumikill hefir verið hér síðustu dagana. Í gærmorgun kl.8 voru 19°C í skugga. Hæst mun hiti hafa orðið 37°C. Stöðugt sólskin síðasta hálfan mánuðinn og smáregnskúrar öðru hvoru.
Morgunblaðið segir af gríðarlegum vatnavöxtum í Skagafirði í pistli 14.júní:
Úr Skagafirði. (Eftir símtali í gær). Á þriðjudaginn var [9.júní] hljóp afarmikill vöxtur í Héraðsvötnin og hélst þangað til á fimmtudag [11.]. Annað eins flóð hefir aldrei komið 35 ár. Ferja varð skepnur allar af Eylendinu, frá Borg og víðar, og flytja þær á þá fáu hóla, sem upp úr stóðu, eða upp af flatlendinu alveg. Skemmdir urðu þó ekki á bæjum. Æðarvörpin gerspilltust á nokkrum bæjum, svo sem Lóni, Hellulandi, Hafsteinsstöðum og Borg, Verið er að smíða brú á vestari ós Héraðsvatna. Flóðið tók ramm-búkka" þaðan með öllu er honum fylgdi, og flutti hann út á fjörð. Afspyrnurok var af suðri. Gufuskipið Bisp var statt á Sauðárkróki. Var því siglt á eftir rammbúkkanum" og náðist hann á móts við Hofsós með tilstyrk frá mótorbátnum Garðari. Uppslættir skemmdust nokkuð við brúasmíðina. Veiðimenn við Drangey töpuðu allmiklu af veiðarfærum í rokinu.
Frá Akureyri. (Eftir símtali í gær.) Grasspretta ágæt í Eyjafirði. Afli enginn þennan svipinn, vegna þess að síld vantar enn í beitu.
Úr Borgarnesi. (Eftir símtali í gær.) Grasspretta er ágæt í Borgarfirðinum og útlit fyrir að sláttur byrji snemma. Laxveiði hefir verið ágæt í Hvítá undanfarið, en minni síðustu dagana vegna vatnavaxta.
Morgunblaðið 17.júní:
Frá Vík í Mýrdal. (Eftir símtali í gær). Grasspretta er orðin góð þó heldur lítið sprottið síðustu dagana, vegna þess að kalsaveður hefir verið eystra, rigning og stormar.
Morgunblaðið segir 24.júní frá góðri sprettu á Þingvöllum:
Gróðurinn á Þingvöllum. Svo segja. þeir, sem til Þingvalla hafa farið nú, að óvenjumikill gróður sé á Þingvöllum um þetta leyti sumars. Eru vellirnir orðnir laufgrænir og grasþéttir og skógurinn hinn blómlegasti. Sama máli kvað vera að gegna með Mosfellsheiði. Er hún sögð óvenjulega vel gróin nú, svo snemma á sumri.
Alþýðublaðið hrósar tíð eystra 25.júní:
Seyðisfirði, 23. júní. Tíðarfar á Austurlandi. Hér eystra hefir verið einstök veðrátta í vor, stöðugt sólskin að kalla, hlýindi og regnskúrir stöku sinnum og því mikill gróður kominn. £r álit manna hér að betra vor hafi ekki komið síðan fyrir aldamót. Vatnavextir voru óvenjulega miklir um fyrri viknamót. Lagarfljót var óvenjulega mikið og flóði yfir eystri bakka og skemmdi þjóðveginn lítils háttar.
Dagur hrósar líka tíð 26.júní:
Öndvegistíð er nú um allt land. Er það mál manna að þetta vor og það sem af er sumri sé það besta, sem komið hefir um heilan mannsaldur, einkum norðan lands. Mun sláttur byrja fyrr en venja er til, því grasspretta er afbrigða góð.
Alþýðublaðið kvartar um óþurrka 4.júlí:
Óþurrkarnir þykir mönnum nú orðið helsti langir. Fiskverkun tefst mjög, og kvenfólk og unglingar, er hafa haft atvinnu við fiskþurrkun, missa hennar. Þar sem sláttur er byrjaður, hrekjast hey, en annars staðar varna óþurrkarnir byrjunar á slætti, þar sem gras er víða fullsprottið. Er vonandi, að tíðinni bregði bráðlega til betra.
Morgunblaðið segir rigningarfréttir 5.júlí:
Vestmannaeyjum 4. júlí.FB. Stöðugt rigning og þoka. Mjög lítið búið að þurrka af fiski; horfir til stórvandræða, ef veðrið batnar ekki bráðlega.
Héraðsmótið við Þjórsárbrú í gær [4.]. Það blés ekki byrlega fyrir mótinu við Þjórsárbrú í gærmorgun. Ausandi rigning og hrakviðri var þar eystra fram eftir öllum degi. Gerði óveðrið svip mótsins allt annan en verið hefði annars. Fjölmenni var þar mikið samankomið, á að giska um 1500 manns, þrátt fyrir illviðrið.
Morgunblaðið 7.júlí segir af skriðu:
Skriða féll úr Ingólfsfjalli í gær, og fór yfir þjóðveginn á nálægt 20 faðma svæði. Flutningabifreið var aðeins ókomin á svæði þetta, þegar skriðan féll. Var vegurinn ófær bifreiðum í gærkvöldi þegar Morgunblaðið frétti síðast.
Morgunblaðið kvartar bæði 8. og 12.júlí undan óþurrkum:
[8.] Þurrkalaust eða þurrkalítið var enn í gær, og horfir nú til mikilla vandræða hér sunnan lands, bæði með hey og fisk, komi ekki nokkurra daga þurrkar því fyrr. Vestan- og Norðanlands hefir verið hinn ágætasti þurrkur það sem af er sumri, og hafa t.d. fiskverkunarstöðvar allar vestanlands þurrkað meiri fisk nú en á sama tíma í fyrra.
[12.] Þurrkleysið hér sunnanlands er að verða mjög alvarlegt og stórkostlega bagalegt. Taðan, sem slegin er, grotnar niður, og aðalútflutningsvara landsmanna, fiskurinn, bíður óþurrkaður í hundruðum stafla. Sjálfsagt bíða nú þurrks hér í Reykjavík einni, tugir þúsundá skippunda af fiski, fyrir utan allan þann fisk, er bíður þurrks í öðrum veiðistöðvum hér sunnanlands. Þá er og ekki ólíklegt, að bændurna hér úti um sveitirnar fari að lengja eftir þerrir á töðu sína.
Alþýðublaðið segir af hundadögum 14.júlí - fréttinni fylgir pilla um almanakið:
Hundadagar hófust í gær samkvæmt nýja almanakinu íslenska þeirra dr. Ólafs og Þorkels, en það eru nýlegir hundadagar, sem enginn átrúnaður er á og því líklega ekkert að marka þá því miður. Hinir gömlu, góðkunnu hundadagar hefjast 10 dögum síðar.
Veðráttan getur þess að þann 15. hafi stórflóð tekið brú á Kotá í Norðurárdal í Skagafirði er áin stíflaðist af skriðum.
Þegar óþurrkar ríkja á sumrin nú á dögum er gjarnan hringt í Veðurstofuna og spurt um hvort ekki fari að linna. Þessi siður virðist forn. Morgunblaðið 18.júlí:
Um veðrið. Viðtal við Þorkel Þorkelsson. Morgunblaðið átti tal við Þorkel Þorkelsson seint í gærkvöldi um veðrið. Ekki vildi hann lofa þurrki í dag. Sagði hann loftvægislægð vera vestur við Grænland. Á því veltur hvort hún lendir sunnan við land er hún nálgast Ísland. Fari svo, er viss norðanátt á næstunni. Þorkell áleit að útséð mundi verða um þetta snemma í dag. Verði bjart veður í dag með morgninum, ætti þurrkurinn því að vera öruggur.
Örlítil von var í Morgunblaðinu 19.júlí:
Austan úr sveitum. Þjórsártúni 18. júlí 1925 FB. Þótt allmargir séu farnir að slá tún sín, verður ekki sagt að sláttur sé byrjaður almennt hér um slóðir. Hafa menn hliðrað sér hjá að byrja slátt vegna óþurrkanna. Bót var að þurrki í gær, en um töðuþurrk var ekki að ræða. Þurrkútlit dágott í dag; bjart yfir. Talsverður vöxtur í ám og varla veiðandi.
Alþýðublaðið 20.júlí:
Á Þingvöllum var mikill fjöldi fólks í gær í skemmtiferðum, en rigning spillti allmjög ánægju þess.
Morgunblaðið birti 21.júlí fagnaðarfréttir að austan:
Borgarfirði eystra, 20. júlí FB. Geysimikill hiti af sólu hér í gær og var þurrkurinn óspart notaður til þess að þurrka fisk og töðu. Er heynýting góð og hafa flestir þurrkað það sem þeir áttu úti af heyjum.
Ísafold 21.júlí:
Vestmannaeyjum 18. júlí. FB. Tíðarfarið er heldur að batna. Dálítið af fiski hefir verið þurrkað síðustu daga.
Frá Akureyri. (Eftir símtali 17. þ.m.) Ágætisveður, og hefir svo verið undanfarið. Er langt komið að hirða töður þar nyrðra.
Enn ræddi Morgunblaðið við Veðurstofuna 22.júlí:
Enga von hafði Þorkell Þorkelsson um verulega veðurbreytingu í gærkvöldi er Morgunblaðið átti tal við hann. Suðvestanáttin allrík ennþá. Bjóst hann varla við að dagurinn í dag yrði rigningalaus, en hafði von um skúraskil.
Alþýðublaðið segir 23.júlí frá haglskúr á Akureyri:
(Frá fréttastofunni) Akureyri, 22. júlí. Haglél á Akureyri. Um hádegi syrti skyndilega í lofti, og skall yfir feikna óveður með hellidembu af hagli. Eftir hálftíma var haglskúrin liðin hjá og varð bjart af sólu og blíðuveður.
Dagur lýsir tíðarfari 23.júlí:
Tíðarfarið. Mjög skiptir nú í tvö horn tíðarfari á landinu. Frá Öxnadalsheiði austur um land og allt suður í Skaftafeilssýslur er stöðug blíðviðristíð og þurrkar en þó einkum í norður- og austursýslum. Á Suðurlandi eru sífelldar stórrigningar og ná þær einnig um Vesturland og norður allt í Skagafjörð. Á Suðurlandi horfir til stórvandræða með heyskemmdir og vatnsflóð á engjum. Hefir blaðið frétt að svo mikill vatnsagi væri í Flóanum að þar væru mestöll slægjulönd í kafi nema túnin.
Morgunblaðið reynir enn að kreista betri horfur út úr Veðurstofunni 23.júlí:
Veðrið. Í gærkvöldi vildi Þorkell sem minnst segja um horfurnar. Heldur var betra hljóð í honum en undanfarna daga, með það að veðurbreyting væri í nánd, og gæti snúist í þurrk. En með þeim gögnum sem hann hafði í gær, gat hann engu lofað um það, hvort sú breyting kæmist á þegar í dag.
Morgunblaðið segir af góðri tíð fyrir norðan 24.júlí:
Úr Eyjafirði (samkvæmt viðtali við Dalvík í gær) Hér hefir verið afburðagóð heyskapartíð það sem af er. Grasspretta frábærlega góð á túnum og nýting prýðileg. Eru margir búnir að alhirða af túnum og hafa fengið meiri heyafla en oftast áður. Er það mjög óvenjulegt hér að búið sé að hirða tún á þessum tíma. Hér var í dag lítill þurrkur, og sleit úr honum rigningu öðru hvoru. Og nú er hann með kvöldin kominn rakinn norðan og er sennilegt að á Suðurandi verði þurrkur á morgun og muni haldast framvegis fyrst um sinn.
Morgunblaðið heldur áfram óþurrkatali 26.júlí:
Að austan (Samkvæmt símtali við Ölfusárbrú í gær). Heyskapur hefir gengið hér afarilla, eins og annarsstaðar. Hefir ekki hér í grennd náðst inn einn baggi. En í dag kom ágætis þerrir, og þurrkuðu menn allmikið. En þó kom hellirigning sumstaðar, t.d. í Hraungerði og rennvætti þar hey, og víðar. Á Eyrarbakka og Stokkseyri hefir og verið geysimikill bagi að þurrkleysinu. Hefir saltfiskur legið þar undir skemmdum. En í dag var þurrkurinn óspart notaður.
Alþýðublaðið 30.júlí:
Hvelfiskúr gerði því nær að óvöru á fimmta tímanum í gær síðdegis. Urðu margir seinir fyrir að taka saman hey og fisk, og mun nokkuð hafa spillst fyrir skúrina.
Benedikt Jónsson frá Auðnum, veðurathugunarmaður á Húsavík lýsir ágústtíðinni þar í lok mánaðar: Ágústmánuður má teljast með afbrigðum blíður og hagstæður á sjó og landi.
Morgunblaðið 2.ágúst:
Austan úr Mýrdal. (Eftir símtali við Vík í gær). Sífelldir óþurrkar hafa verið í Mýrdal, og er mikið af heyjum úti; margir búnir að slá tún, en lítið eða ekkert hirt ennþá. Í gær var útlitið gott þegar fram á daginn leið, og vonuðu menn að nú færi þurrkurinn að koma, og er óskandi að svo verði. Undir Eyjafjöllum hefir verið betra, og var góður þerrir þar í gær og í fyrradag.
(Úr bréfi úr Múlasýslu 10. júlí). ... Óvenjuleg árgæska til sveitanna. Vorið einmuna gott, svo að allt er vafið í grasi, enda allstaðar byrjað að slá.
Upp úr mánaðamótunum virtist útlitið skárra og góðar fregnir voru af Vestfjörðum. Morgunblaðið 5.ágúst:
Ísafirði 4. ágúst 1925 FB. Ágætur þurrkur daglega. Töður, sem til voru, alhirtar. Útþveginn fiskur mestallur fullþurrkaður.
Morgunblaðið 6.ágúst:
(Eftir símtali við Ölfusá í gær.) Flestir hafa hirt úr túnum og þeir sem eitthvað hafa átt úti af töðu hafa hirt hana í dag, því ágætur þurrkur var þar eystra.
Morgunblaðið greinir 7.ágúst frá heyskap í Mýrdal og undir Eyjafjöllum:
(Eftir símtali við Vík í gær). Þar hafa verið sífelldir óþurrkar undanfarið. Á sumum bæjum austan til í Mýrdal hafði ekki náðst einn baggi í hlöðu fyrr en í gær. Var þá dágóður þerrir. Var taða farin að skemmast. Í vesturhluta Mýrdals og undir Eyjafjöllum hefir tíðin verið betri og hafa menn þar náð inn töðu að mestu leyti.
Morgunblaðið nefnir 8.ágúst hugtak sem ritstjóri hungurdiska minnist ekki að hafa séð annars staðar:
Steypiregn gerði hér seinnipartinn í gær, og á eftir varð glaðasólskin. Er vonandi að þarna hafi þerriskúrin komið, og að nú komi þurrkurinn fyrir alvöru.
Alþýðublaðið segir góðar fréttir af berjasprettu 8.águst:
Ber eru nú orðin eins vel sprottin og venjulega hálfum mánuði siðar eftir krækiberjum úr Vífilsstaðahlíð að dæma, skoðuðum i gær.
Dagur mærir enn tíð 12.ágúst:
Tíðarfarið er alltaf einmuna gott. Nokkrir skúrir hafa komið síðustu daga, sem glæða sprettu á túnum, Tíðarfar sunnanlands hefir verið kviklátara en þó hafa verið þar þurrkar, svo að náðst hafa hey manna.
Um tíma í ágúst er Morgunblaðið með heldur jákvæðar heyskaparfréttir, en síðan hleypur aftur í illa óþurrka:
[12.] Af Kjalarnesi eru sagðar þær fréttir, að heyskapur gangi þar yfirleitt vel. Var spretta þar ágæt eins og annarsstaðar, svo að tún breiddu sumstaðar á sig. Hafa bændur nú lokið við tún víðast og hefir nýting orðið góð. Mun heyskapur verða með meira móti á nesinu að þessu sinni.
[16.] (Samkvæmt símtali við Ísafjörð í gær). Tíðarfar hefir verið hér afbragðsgott. Grasspretta ágætlega góð og nýting að sama skapi. Mun þetta vera með bestu heyskaparárum hér.
[19.] Af Álftanesi eru sagðar þær fréttir, að bændur séu þar búnir, þrátt fyrir hina stopulu þurrka að ná inn mest allri sinni töðu, og henni með sæmilegri nýtingu.
[23.] Vestmannaeyjum 22. ágúst 1925 FB. Lundaveiði er nú lokið og veiðin ekki orðið í meðallagi. Stöðug ótíð. Austanátt. Enginn þurrkur.
(Símtal í gær.) Frá Ölfusárbrú. Þaðan var Morgunblaðinu símað, að þar hefðu verið sífelldir óþurrkar síðustu 1 1/2 viku, og hefir heyskapur því gengið mjög illa þennan tíma. Eiga bændur mikil hey úti og verður það mjög bagalegt fyrir þá ef ekki kemur þurrkur bráðlega.
Frá Efra-Hvoli. Um mið- og vesturhluta Rangárvallasýslu hafa verið sífeldir óþurrkar undanfarið. Eiginlega eru það aðeins 4 samfeldir þurrkdagar sem komið hafa á öllu sumrinu. Annars sjaldan meira en einn dagur þurr í einu, og hafa menn verið að reyna að nota þessa daga við heyþurrk, en vitanlega gengið mjög erfiðlega. Menn hafa oft þurft að sæta heyinu, breiða aftur og sæta á ný, áður en hægt hefir verið að þurrka að fullu. Nú eru alstaðar mikil hey úti, og aldrei þurrkur. Grasspretta var óvenjumikil þar eystra í sumar, og er illt, hversu nýting ætlar að verða slæm, því ella hefði heyskapur orðið mikill þar um slóðir.
[26.] Þurrkleysið hér um slóðir fer að verða mjög bagalegt. Dagurinn í gær byrjaði bjartur og fagur, og menn kepptust við að nota þurrkinn og breiða hey og fisk. En eigi leið langur tími uns vinda varð bráðan bug að því, að taka saman aftur, og laust eftir hádegi var komin rigning. Menn höfðu þó að mestu náð fiskinum saman áður en demban skall á, en eitthvað mun þó hafa verið flatt, svo að rigndi ofan í og skemmdi. Slíkir dagar, sem þessi eru dýrir fyrir fiskeigendur, því tilkostnaður þeirra er sá sami eða líkur, sem við fullkominn þurrkdag, en árangurinn enginn, og þykir gott að sleppa frá stórkostlegu tjóni.
Alþýðublaðið segir að óþurrkar komi verkafólki einnig illa 27.ágúst:
Þurrkur er enn sem fyrr mjög stopull. Bakar það alþýðufólki sem hefir tímavinnu við fiskþurrkun, mikið tjón.
Sigurjón Friðjónsson á Litlulaugum í Suður-Þingeyjarsýslu skrifar Lögréttu bréf, dagsett 13. ágúst - og birtist í blaðinu 1.september:
Tíðarfar hefir verið afbragðsgott hér í Þingeyjarsýslu, það sem af er þessu sumri. Maí, sem hér er oftast norðaustlægur, þurr og kaldur, hríðingur þegar eitthvað er úr lofti, var nú vætusamur, ennfremur mildur, regn oftar en snjófall til dala og frost sjaldan og lítil; aðalátt þó norðaustlæg. En síðan hlýnaði mjög vel er lengra leið á vorið og ætla ég að júní hafi verið jafnhlýjasti júnímánuður, sem komið hefir hér á þessari öld; oft 1418 stig á C í skugga og á sólstöðudaginn varð hitinn 42 stig um stund, á móti sól, sem mjög sjaldgæft er. Í þessum mánuði var mjög þurrviðrasamt og sakaði þó eigi vegna votviðranna á undan; aðalátt suðvestlæg. Í júlí hélt lengst af fram sömu aðalátt og hlýindum, en var nokkru skúrasamara og þó ekki til mikilla tafa né skemmda við heyþurrkinn. En síðan seint í júlí hefir veðurfar verið norðlægara og svalara og þó gott. Gras spratt snemma og vel og byrjaði sláttur snemma að sama skapi. Eru tún nú víðast alhirt fyrir nokkru og töður miklar og góðar; enda allar líkur til að heyskapur verði ágætur yfirleitt. Fiskafli hefir verið góður á Húsavík. Árferði að öllu leyti ákjósanlegt.
Hænir segir frá veðurkenningu 29. ágúst:
Frönsk veðurspá. Í þetta sinn er það stjörnufræðingur franskur, A. Gabriel að nafni, sem segir fyrir um veður. Spáir hann því, að næsti vetur muni verða óvenjulega harður. Segir hann þetta byggt á vísindalegum útreikningi, og að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að óvenjulega miklir hitar og kuldar verði með vissu millibili, og að milli kaldra vetra líði 186 ár. Og af því segir hann að vetrarnir 1553 og 1740 voru mjög kaldir, má búast við miklum kulda komandi vetur. En ekki rætast nú allar spár, jafnvel ekki vísindamanna, og mætti svo um þessa verða.
Undir mánaðamótin gekk í skammvinna norðanátt þegar lægðir komu að landinu 26., 28. og 31. og fóru yfir það. Síðasta lægðin var langdýpst og olli nokkru norðan illviðri fyrstu dagana í september. Þá stytti loks upp á Suðurlandi.
Þann 29. ágúst er sagt að skriða hafi fallið milli fjóss og bæjar á Másstöðum í Vatnsdal. Betri heimildir óskast.
Morgunblaðið segir frá 30.ágúst:
(Eftir viðtali við Flateyri í gær) Tíðarfarið er mjög óstillt nú, óþurrkar undanfarið og eru úthey manna farin að skemmast. Hefir ekki komið þurrkur sem heitið getur síðasta hálfan mánuðinn.
Úr Borgarfirði eru sagðar þær fréttir, að þar séu sífeldir óþurrkar. Hvað óhemju mikið liggja af heyjum úti hjá hændum, og sumt undir skemmdum.
Höfuðdagurinn. Norðlendingar gengu að því vísu, að með höfuðdeginum væri góða tíðin búin þar nyrðra. Á föstudagskvöld skall á norðan stormur með hellirigningu á Akureyri. Þótti nú spá manna ætla að rætast þar. En viti menn, í gærmorgun var komið besta veður þar, og var glaða sólskin allan daginn, en hér þessi venjulega súld og sallarigning. Svo bregðast krosstré sem önnur tré.
Með september fóru að berast fleiri tíðarfarssamantektir frá veðurathugunarmönnum. Við notum okkur mat þeirra á september (og sumrinu):
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Grasvöxtur í sumar víðast góður og sumstaðar ágætur. Nýting heldur góð víðast, en þó hefir sumarið verið vætusamt svo að frá hvítasunnu hefir mátt heita stöðugar vætur, þurrkur dag og dag í bili.
Hraun í Fljótum: Í september hefir mátt heita ágætt tíðarfar - reyndar votviðrasamt með köflum og tafði þó lítt fyrir heyskap. Heyskap var almennt hætt um 20.-25. september og heyfengur manna yfirleitt ágætur. Ógæftir hafa verið til sjávarins, nema fá dag laust fyrir miðjan mánuðinn, en þá stóð heyskapur yfir og komu því gæftirnar eigi að eins góðum notum og annars hefði verið.
Vík í Mýrdal (Haraldur Jónsson): Rosakafli um miðjan mánuðinn og illviðrasamt undir lok mánaðarins.
Dagur segir frá norðanáttinni 3.september:
Tíðarfarið gerist nú kviklátara en verið hefir. Gerði norðan rok og mikinn kulda á mánudaginn. Snjóaði þá í fjöll í fyrsta sinni á sumrinu.
Morgunblaðið segir frá áföllum í norðankastinu í pistli 5.september:
Akureyri, 3. september FB. Í norðangarðinum á mánudaginn [31.ágúst] urðu sum síldarskipin fyrir áföllum. Misstu nokkur þeirra snurpinótarbátana og næturnar rifnuðu hjá öðrum. Einn mannsskaða hefir frést um: Vélstjórinn á norska skipinu Roald, féll útbyrðis utarlega á firðinum og drukkaði.
Morgunblaðið segir af heyskap vestanlands og norðangarði nyrðra 6.september:
(Símtal við Borgarnes í gær). Heyskapur hefir gengið ágætlega síðastliðna viku, eru flestir að ljúka við slátt, og er búist við að sláttur verði almennt úti eftir 24 daga, ef þurrkurinn helst. Ósköpin öll af heyi er flutt daglega ofan úr sveitinni niður í Borgarnes, og verður sumt af því flutt til Reykjavíkur.
Frá Siglufirði. (Símtal í gær.) Norðangarður hefir verið nyrðra alla síðastliðna viku, þar til í gær að hann lægði, og var þá ágætt veður, en mikil alda eftir garðinn. Var ómögulegt að stunda veiðar meðan norðangarðurinn stóð yfir; en í fyrrinótt fóru fáeinir bátar út með reknet og öfluðu allvel.
Alþýðublaðið rifjar upp alþýðuspeki 7.september:
Það reyndist svo um veðrið í gær, sem gamalla manna mál er, að jafnan sé úrkoma um helgar í þurrkatíð.
Alþýðublaðið segir 8.september frá langþráðum þurrki í Vestmannaeyjum:
Á laugardaginn var FB símað frá Vestmannaeyjum, að þar hefði þá verið fimm daga þurrkur.
Alþýðublaðið segir af útgáfumálum Veðurstofunnar 9.september. Í fréttinni er einnig ýjað að hugmyndum á Alþingi um að skera Veðurstofuna niður - hún kosti allt of mikið:
Veðurstofan er farin að gefa út mánaðaryfirlit um veðráttu. Eru þegar komin út yfirlit um þrjá fyrstu mánuði þessa árs, janúar, febrúar og mars; hafa þau komið með stuttu millibili nýlega, og ætlar Veðurstofan að flýta útgáfu yfirlitanna um mánuðina, sem liðnir eru, uns saman er dregið, og síðan að hverjum mánuði liðnum svo fljótt sem unnt er. Er þetta vel til fundið og líklegt til að efla staðfasta þekkingu á veðurfarinu, sem svo mikið er undir komið um atvinnuvegi landsbúa, þótt fulltrúar atvinnuveganna hafi til skamms tíma átt bágt með að skilja það. Veðurstofan er ein þarflegasta stofnun ríkisins, enda hefir Alþýðuflokkurinn jafnan lagt áherslu á, að hún væri efld sem mest.
Morgunblaðið 12.september - brunahiti er e.t.v. fullsterkt orðalag, mest fréttist af rúmum 19. stigum - þann 18:
Sumarveður og hiti er enn á Norðurlandi; var símað frá Akureyri í gær, að þar hefði verið brunahiti og sólskin síðustu fjóra daga.
Morgunblaðið segir enn af heyskap 13.september:
Úr Borgarfirði eru sagðar þær fréttir, að ágæt heyskapartíð hafi verið þar undanfarið. Eru bændur nú almennt að ljúka við heyskap sinn. Sama óþurrkatíðin helst hér enn. Var hellirigning í allan gærdag, að heita mátti.
Dagana 12. til 20. rigndi mikið sunnanlands. Alþýðublaðið 18.september (undanfarin ár hafði skorti á haustrigningum verið kennt um vandræði rafveitunnar í Reykjavík):
Haustrigningar sýnast ekki ætla að bregðast að þessu sinni, stórrigning dag eftir dag.
Dagur segir af haustkomu 24.september:
Tíðarfar gerist nú kaldara og gengur á með norðan hryðjum. Snjóaði nokkuð í fjöll í fyrrinótt.
Smáfregnir bárust af ís. Líklega hefur hér verið um brot úr borgarísjökum að ræða. Alþýðublaðið 26.september:
Villemoes var á Ísafirði í morgun og sagði töluvert íshrafl 6 sjómílur undan Horni.
Dagur segir 1.október eftir nokkurra daga sunnan- og síðan vestanátt:
Tíðarfarið. Enn er rík sunnanátt og bregður jafnan til hins sama, hlýviðra og sólskins, þó veður gerist uggvænleg í bili.
Veðurathugunarmenn sumir á Norðausturlandi gátu um sumrið dag og dag um öskumóðu, en svo vill til að flesta þá daga sem um var rætt var allsterk suðvestanátt og trúlega um ryk að ræða frekar en eldgos. Um haustið varð eldgosatalið ákveðnara hjá athugunarmönnum, annars hafa þeir þetta að segja af október:
Lambavatn: Framan af mánuðinum var stórgert rosaveður og á einstaka bæ var verið að eiga við hey fram undir miðjan mánuð. Seinni hluti mánaðarins hefir verið stilltur og óvenjuhlýtt svo kúm hefir sumstaðar verið beitt fram á vetur.
Raufarhöfn (Árni Árnason): Síðan í júnímánaðarbyrjun alltaf sumar. Afkoma góð fyrir bændur. Spretta í besta lagi og þurrkar góðir. Vantaði aðeins dugnað og vinnukraft. Haustuð gott, en jörð fraus snemma og hindraði jarðabætur.
Þorvaldsstaðir: Mánuður þessi hefir verið óhagstæður fyrir sjávarútveg og mest sökum stöðugra brima. Aftur á móti má mánuðurinn kallast hagstæður fyrir landbúnað að öðru leyti en frostin frá 10.-20. drógu mjög úr ýmsri landvinnu.
Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): [1. Sporrækt af ösku á graslausri jörð, flögum og götum. Brennisteinslykt engin. Móðan mest í suðvestri. Dynkir engir.
Vík í Mýrdal: Úrkomusamt fyrri hluta mánaðarins. Hagstæð tíð síðari hlutann (nam stórviðrið síðustu dagana).
Í októberblaði Veðráttunnar segir af meintu öskufalli: Þó ýmislegt bendi til þess að öskufallið stafi af eldsumbrotum nú, er þó jafn líklegt að þetta sé gömul aska sem vindur hafi feykt upp. Aska tekin í Papey þann 4. virðist styðja þá skoðun. Á þessum tíma gátu eldgos orðið t.d. í Öskju án þess að nokkur maður vissi.
Dagur segir af hausti 8.október:
Tíðarfaríð gerist nú úrfellasamara og kaldara. Hefir snjóað nokkuð í fjöll undanfarið. Átt hefir verið vestanstæð. Í nótt brá til þíðvindis.
Alþýðublaðið segir af garðavinnu 10.október:
Ótíð hefir verið austanfjalls síðan um réttabyrjun, og hefir ekki náðst upp úr görðum sakir óþurrka.
Morgunblaðið er á sömu slóðum 11.október, en fræðir okkur einnig um ís við Grænland. Þær eldri frásagnir sem vitnað er í eru væntanlega af leiðöngrum Scoresby um 1820. Þá var ströndin við Scoresbysund og þar norður af könnuð í fyrsta sinn á skipulegan hátt í óvenjulega litlum ís:
Símtal við Efrahvol í gær. Þurrkleysi undanfarið hefir hamlað mjög haustverkum bænda; er enn mjög víða niðri í görðum, því ekki hefir verið hægt vegna vætu að taka upp úr görðum, og engin leið hefir verið að þurrka eldivið.
Sumartíðin og Grænlandsísinn. Lengi mun í minnum haft, hve tíðin hefir verið frábærlega góð á Norðurlandi í allt sumar; stöðug hlýindi og góðviðri. Eftir því sem haft er eftir erlendum sjómönnum, er verið hafa norður í hafi í sumar, hefir ís verið með allra minnsta móti við Austurströnd Grænlands. Grænlandsfarið Gustav Holm, sem flutti Eskimóana til Scoresbysundnýlendunnar, hitti engan ís undan Scoresbysund. Er það talið alveg einsdæmi. Í fyrra lenti leiðangursskip Einars Mikkelsen þar í miklum ís, eins og menn muna, er skrúfan brotnaði af því. Mótbárur hafa verið færðar fram gegn nýlendustofnuninni þar nyrðra, vegna þess, hve sigling þangað er oftast nær erfið. En nú sem sagt var þar enginn ís. Mælt er, að sögusagnir séu til um það, að snemma á öldinni sem leið, hafi selveiðamenn hitt Grænlandsströnd íslausa um þessar slóðir. En síðan mun annað eins ísleysisár og nú aldrei hafa komið þar.
Morgunblaðið 14.október, væntanlega er um borgarís að ræða:
Íshrafl á Húnaflóa. Fregnir, er Eimskipafélagið fékk í gær frá Goðafossi, herma, að íshrafl sé á Húnaflóa; stórir jakar séu þar á reki einn og einn, og þar sem þeir séu á siglingaleiðinni, geti verið hættulegt að fara þar um án þess að hafa góða aðgæslu.
Fyrsti snjór féll í Reykjavík á venjulegum tíma. Alþýðublaðið 19.október:
Fyrsti snjór hér í Reykjavík féll í fyrrakvöld á ellefta tímanum.
Sigurjón á Litlulaugum skrifar enn bréf til Lögréttu, nú dagsett 20. október - og birtist í blaðinu 24. nóvember:
Síðan ég skrifaði Lögréttu síðast, hefir tíðarfar yfirleitt verið afbragðsgott. Um 20. ágúst voru einhverjir allra hlýjustu dagar sumarsins. En síðan kólnaði og varð nokkuð umhleypingasamt um mánaðamótin (ág.sept.). Nóttina fyrir 1. september snjóaði í fjöll og hélt því áfram næstu daga. En síðan heiddi og frysti, tvær nætur eða svo, og hlýnaði svo á ný. Var septembermánuður mestallur hlýr og hagstæður; en það, sem af er október kaldara og þó stillt og góð veður. Ætla ég að ekki hafi komið hér jafngott sumar þessu síðan 1880. Það sumar var kallað hér hitasumar og byrjaði fyrr, var sólskinsmeira og ennþá þurrara og heitara. Brunnu þá tún víða, sem ekki bar á síðastliðið sumar. En á eftir kom frostaveturinn alræmdi (18801881) og síðan fleiri ára harðindi, svo sem kunnugt er. Heyskapur mun vera afbragðsgóður yfirleitt og uppskera úr görðum í allra besta lagi. En ekki hefir sauðfé reynst jafnvel og vænta mátti eftir veðuráttufari. Og miklu er nú færra slátrað en síðastliðið haust.
Þann 22. október var mjög brimasamt. Blöðin segja frá því að stórflæði hafi orðið í Bolungarvík, brotið fiskhús Péturs Oddssonar og tekið út mikið af fiski. Sama dag drukknuðu menn þegar bát hvolfdi í brimi í lendingu á Reykjaströnd í Skagafirði
Hænir metur sumarið eystra í pistli 24.október:
Veturinn gengur í garð í dag með sumarblíðu, lognmollu og léttum regnúða aðra stundina, marauðri og þíðri jörð, en lítið snjógráð liggur á háfjöllum. En sumarið er liðið. Þetta einstaka, blíða og bjarta árgæskusumar, góðviðrissumar sem elstu menn muna ekki dæmi til, hvað þá vér sem yngri erum. Þegar á leið sumarið fóru menn að rifja upp í huganum bestu sumrin, sem þeir myndu eftir að hafa lifað, og endaði sú rannsókn hjá öllum miðaldra mönnum þannig, að þeir mundu ekki annað eins og þetta. En eldri menn komust að þeirri niðurstöðu að það líktist mest sumrinu 1880 um birtu, hlýju og jarðargróður. En góðviðrinu hefir haldið áfram og heldur áfram enn, þó að úrtök yrðu nokkur og hret um tíma í þessum mánuði. Og nú er komið svo, að elstu menn, um sjötugt og áttrætt, muna ekki neitt sumar jafn langvinnt að veðurblíðu og hverskonar árgæsku hér á Austurlandi sem þetta. Og eftir henni hefir heyfengur og annar afli til vetrarins orðið. Og hvenær ættu menn þá að þola, þó að það skyldi koma fyrir, að vetur yrði all-harður, ef ekki eftir svona sumar, eins og það sem leið í gær sjö mánaða sumar.
Morgunblaðið segir af flóðavörnum í Skagafirði 1.nóvember:
Héraðsvötnin rifu farveg í bakkana norðan við Vindheimabrekku í flóðunum í sumar. Var ekkert sýnna en þau myndu ryðja sér þar mikinn farveg, ef ekkert, yrði gert því til varnar. En með því móti er hætt við, að þau geti gert hinn mesta usla í Hólminum. Nú undanfarið hafa margir menn verið í vinnu við að gera þarna fyrirhleðslu og varnargarð.
Í nóvember var besta tíð. Veðurathugunarmenn segja frá:
Hvanneyri (Þorgils Guðmundsson): Allmiklir umhleypingar og úrkomur þ.11-20.m en annars má telja að veðráttan þennan mánuð hafi verið góð.
Lambavatn: Mánuðurinn hefir verið óvenjugóður. Norðanstormur fyrstu dagana, en óvenju hlýtt og snjólaust. Það er víst langt síðan að hér hefir ekki komið nema einu sinni snjór allt haustið og það sem af er vetrinum [13. nóvember og næstu daga]. Eins hefir verið með sjógæftir og afla í haust að það hefir verið langt yfir meðallag.
Grænhóll (Níels Jónsson): Óminnilega góð tíð á land, en óróleg til sjóar. Fé gengur sjálfala úti og mjög óvíða búið að kenna lömbum át. Kyngiregn var hér miðdegis 12. nóvember, stuttan tím. Voru fossandi lækir þar sem venjulega er þurrt.
Grímsstaðir (Sigurður Kristjánsson): [17. Lítið öskufall; 18. dálítið öskufall].
Þorvaldsstaðir: Mánuður þessi byrjaði með áköfum rigningu og skemmdust við það hey í heygörðum - þó má það lítið heita. Eftir það óvenjuhagstæð tíð til sjós og lands. Óvenjulegar stillingar í nóvember. [17. Mistur líkast ösku og virðist ekki frítt við eldlykt.
Vík í Mýrdal: Yfirleitt góð tíð, en þó dálítið vind- og úrkomusamt með köflum.
Morgunblaðið segir af órólegri tíð nyrðra 3.nóvember:
Tíðarfarið. Mjög skiptir nú í tvö horn um tíðarfar sunnan- og norðanlands. Hér hefir verið einmuna góðviðristíð um langan tíma, en á Norðurlandi og fyrir Vestfjörðum hefir verið hið versta veður langan tíma undanfarið. Var símað í gær frá Akureyri, að þar hefði ekki verið mikill kuldi undanfarið, en hið versta veður samt sem áður. Þó var á Akureyri í gær 8 stiga hiti, og er því líklegt, að á Norðurlandi sé nú að bregða til betri tíðar.
Esja var á Húnflóa í gær. Fór frá Sauðárkróki í gærmorgun. Hún er nú orðin um 10 dögum á eftir áætlun. Er storma- og brimasamt fyrir Norðurlandi nú, og gengur seint afgreiðsla skipa á slæmum höfnum. Er ekki búist við Esju fyrr en í vikulok hingað.
Dagur segir 5.nóvember frá banaslysi á Blönduósi:
Það slys vildi til á Blönduósi nýlega að brim tók tvo menn út af bryggju þar og drukknuðu báðir. Mennirnir voru Þorsteinn Erlendsson frá Hnausum og Guðmundur Sigurðsson frá Hvammi í Laxárdal í Húnavatnssýslu. Voru þeir að sæta lagi að hlaupa fram á kaupfélagsbryggjuna milli ólga að því er heyrst hefir án nauðsynja og slysaðist svo raunalega. Voru þessir menn vaskir og eru mörgum harmdauði.
Tíðarfarið. Undanfarna viku hefir verið stöðug hæg suðaustanátt með hlýindum og talsverðum rigningum. Snjó hefir tekið að miklu úr fjöllum hér í grennd. Fréttir hafa borist um að stórviðri hafi geisað víða og miklar úrkomur einkum sunnanlands.
Morgunblaðið segir frá 5.nóvember - Veðráttan segir sandfokið hafa orðið þann 2.nóvember, þá dagana var mjög sterk austanátt á landinu:
Undanfarið hefir verið versta tíðarfar í Skaftafellssýslu, sifelldir stormar og rigningar. Hafa sandfok orðið óvenju mikil, og sumstaðar, einkum á Hnausum í Meðallandi, orðið stórtjón af sandfoki.
Morgunblaðið fjallar um mögulegt eldgos 8.nóvember - en það er varla það sama og veðurathugunarmenn höfðu rætt um:
Eldgos. Undanfarna daga hafa gengið sögur um það hér í bænum, að eldur væri uppi einhversstaðar eystra. Morgunblaðið spurðist fyrir um það í gær símleiðis, hvaðan þessar kviksögur væru, og fékk þau svör austan að, að Árnesingum hafi fundist svo heitt í veðrinu hér á dögunum að þeir álitu lofthitann stafa af eldsumbrotum, enda þótt engar fregnir hefðu um það komið neinstaðar að, að sést hefði til gosa.
Á þessum árum var talsvert um að vera á Tjörninni í Reykjavík. Morgunblaðið 10.nóvember:
Skautasvell er nú komið á Tjörnina, og mun verða þar mannkvæmt næstu kvöldin. Í gær var ísinn með veikara móti, og áttu lögregluþjónarnir fullt í fangi með að gæta þess, að strákarnir færu ekki út á ísinn.
Morgunblaðið segir af snjóföli í pistli 11.nóvember - en þetta var nánast ekki neitt:
Fyrsta verulega snjófölið sást á jörðu hér í bænum í gærmorgun, en tók brátt af. Hér hefir verið einhver hin allra stilltasta og umhleypingaminnsta tíð, sem komið hefir lengi, að haustlagi, þó verið hafi rosasamt víða úti um land, t.d. á Vestfjörðum. Frostlítið var í gær, þó snjóaði um morguninn.
Morgunblaðið segir af skautasvellinu 12.nóvember:
Skautasvellið. Það er almælt hér í bæ, að skautasvell á Tjörninni standi aldrei nema tvo sólarhringa. Reyndist það sannmæli nú síðast. Því í fyrrinótt brá til þíðu og í gær kom úrhellisdemba, og hélst nær allan daginn. Er því skautasvellið úr sögunni í þetta sinn. Græddu aðeins nokkrar verslanir á svellinu með skautasölu.
Tíð var líka góð nyrðra. Dagur 12.nóvember:
Tíðarfarið er alltaf hið besta. Örlítið föl gerði fyrir nokkrum dögum síðan, en í fyrrinótt gerði blíðustu hláku.
Vesturland segir frá 21.nóvember - líklegast er að þetta hafi verið 17. eða 18., en þá var rokhvasst á Suðureyri:
Undanfarið hefir verið stormasamt. Hafa orðið nokkrar skemmdir á húsum og skipum í nágrenninu. Þök fuku af hlöðu og fjárhúsi hjá Bjarna Sigurðssyni í Vigur. Tvö skip Hendriksens á Hesteyri skemmdust; rak annað upp, en hitt varð fyrir rekstri. Bæði skipin eru nú komin hingað og hið fyrr nefnda lítið skemmt.
Morgunblaðið segir af strandi 17.nóvember - nánari fregnir bárust síðar:
Veiðibjallan strandaði 15. þ.m. á Breiðamerkursandi. Mannbjörg varð, og komust skipbrotsmenn til Tvískerja, sem er bær vestarlega á sandinum.
Alþýðublaðið segir nánar frá strandinu 19.nóvember:
Bæjarfógetinn fékk símskeyti frá skipstjóra Veiðibjöllunnar í gær, þar sem hann tilkynnir, að 3 menn af skipshöfninni hafi farist. Einn þeirra, Þorsteinn Gottskálksson, drukknaði, en hinir tveir Sæbjörn Steinþór Hildibrandsson úr Hafnarfirði og Stefán Baldvinsson úr Dalvík, urðu úti á leið til bæja, Allir voru menn þessir einhleypir.
Dagur segir af vörnum við Héraðsvötn í pistli 19.nóvember:
Fyrirhleðsla í Héraðsvötnum. Á síðastliðnu vori urðu vatnavextir óvenjulega stórkostlegir á Norðurlandi. Hljóp forátta í Héraðsvötnin í Skagafirði svo mikil að fádæmum sætti. Tóku þá Vötnin að brjóta bakkann austan við Vindheimabrekkur. Lá við sjálft að þau brytust þar úr farveginum og vestur í Svartá. Myndi þá Hólmurinn svo og Staðar- og Víkurengjar og allar engjar Langhyltinga hafa legið undir ágangi vatnanna. Hefði að því orðið stórkostlegt héraðatjón. Hefir því verið brugðið við og er fyrirhleðsla hafin eftir fyrirsögn landsverkfræðingsins Geirs Zöega. Verkstjórinn er Lúðvík Kemp. Verður stórbjörgum rutt í Vötnin og garður hlaðinn meðfram bakkanum á löngu svæði. Er áætlað að verkið kosti um 20 þúsund kr.
Mjög mikið rigndi sunnanlands um miðjan mánuðinn. Morgunblaðið segir af vatnavöxtum í pistli 19.nóvember:
Í gær var Morgunblaðinu símað austan úr Árnessýslu, að óvenjulegir vatnavextir væru þar eystra. Hefði hlaupið geysimikill vöxtur í Hvítá í fyrrinótt, svo engin dæmi þekktu menn til annars eins. Fyrir sunnan Vörðufell á Skeiðum hljóp Hvítá upp á bakkana og var alt láglendi umhverfis bæina Útverk og Miðbæli í kafi í gær. Bæjarhólarnir á þessum 2 bæjum voru eins og hólmar í flóðinu. Bjuggust menn við þar eystra að fé myndi hafa farist í flóðinu. Eftir því sem heimildarmaður vor skýrði frá, muna menn ekki til þess að áin hafi flætt eins og nú á land þessara bæja, nema þegar krap- eða jakastíflur hafa komið í hana í frostum. En nú er vitanlega allt marþítt, eins og á sumardegi.
Morgunblaðið segir af tíð 22.nóvember:
Þessa viku var tíðin hin besta, um land allt, suðlæg átt og þíða. Stórrigningar á Suðurlandi um miðja vikuna, hleyptu miklum vöxtum í ár. Síðustu daga vikunnar stillti til og var hægviðri um land allt, og norðan kul á Norðausturlandi með vægu frosti. Snjólaust er enn um land allt, að sögn Veðurstofunnar, og hefir jörð verið þíð fram til þessa um allar sveitir, nema ef vera skyldi frosið í stöku fjallasveit.
Sunnudaginn 22.nóvember sprakk stíflugarður rafmagnsveitu Reykjavíkur á Elliðavatnsengjum. Varð úr mikið flóð í Elliðaám. Illa mun hafa verið staðið að gerð stíflunnar og vatn með meira móti við garðinn. Morgunblaðið greinir ítarlega frá þessu þann 26.nóvember.
Dagur mærir tíð 26.nóvember:
Tíðarfarið hefir alltaf verið hið ákjósanlegasta. Síðustu daga hefir gert lítilsháttar föl og frostkala.
Morgunblaðið greinir frekar frá flóðinu í Hvítá í Árnessýslu í pistli 27.nóvember - menn veltu vöngum yfir því hvort um jökulhlaup hafi verið að ræða:
Þegar hér var sagt frá flóðinu mikla í Hvítá í vikunni sem leið, stóð það sem hæst, og vissu menn ekki þá hvort fénaður hefði farist í flóðinu. Er flóðið þverraði kom það á daginn, að bóndinn í Útverkum hafði misst 12 lömb í flóðið. Svo mikið var vatnsmagn árinnar, að flóðið fór yfir hæðir nálægt Útverkum, sem eru þrem metrum hærri en venjulegt vatnsborð árinnar að sumarlagi. Flóðið kom svo skyndilega, og virtist mönnum vera tiltölulega meiri vöxtur í Hvítá en öðrum vatnsföllum, svo álitið var, að það mundi ef til vill að einhverju leyti stafa af hlaupi í jöklinum upp af Hvítárvatni.
Í desember var lengst af hagstæð tíð, en þó gerði óvenjuhart hríðarveður dagana 5. til 10. og annað rétt fyrir jólin - þá varð ekki eins hvasst. Mikil áföll urðu í þessum veðrum. Allítarleg grein var gerð fyrir veðrunum - sérstaklega því fyrra - í sérstökum pistli hungurdiska um veður á aðventunni 1925 - við endurtökum þá frásögn ekki hér, en förum í gegnum fleiri fréttapistla heldur en þar var gert - en með mjög stuttaralegum athugasemdum.
Veðurathugunarmenn greina frá desembertíðinni:
Hvanneyri: Veðráttuna í þessum mánuði má telja góða, því þótt töluverð frost væru síðari hluta hans voru mjög miklar stillur og alltaf góð beit fyrir hross.
Lambavatn: Veðurfar hefir verið óvenjuúrkomulítið og stillt. Á gjafajörðum hefir fé verið hárað seinni hluta mánaðarins, en ekkert farið að gefa þar sem nokkur útibeit er að ráði.
Grænhóll: Gæðatíð og eyða til 8. desember, byrjaði þá að snjóa og renndi á aftakabyl fyrri part 7. Stóð hann látlaust til 9 árdegis og allharður til 10. Síðan hluta 13., 14., 15. fremur hlýtt en svo kuldanæðingar afgang, þar til nú þrjá síðustu dagana birta og gott veður nótt og dag. Ókyrrð alltaf til sjóar.
Þorvaldsstaðir: Frá 1.-16. ekki óhagstætt. Hagar góðir og frekar hægviðri. Síðari hluti óhagstæður, veðrasamt, brimasamt og mjög skemmdir hagar sökum áfrera og storku.
Nefbjarnarstaðir: [9. Í dag og aðfaranótt þess 10. brotnuðu nálega 40 símastaurar í Jökulsárhlíð].
Vík í Mýrdal: Fremur góð tíð samt nokkuð kalt síðari hlutann. Litlar snjókomur.
Morgunblaðið segir 9.desember fregnir af illviðrinu mikla:
Í afspyrnuveðrinu hér í fyrrinótt og gær, urðu ekki nein spell á skipum hér á höfninni, eða á bátum eða bryggjum, þó búist væri við því. En inni í Eiðsvík hefðu togararnir Kári og Austri, sem þar lágu, rekið eitthvað úr stað. En ekkert tjón varð að því.
Alþýðublaðið segir af hrakningum 9.desember:
Á mánudaginn [7.] lagði norðanpóstur á Holtvörðuheiði og voru fjórir menn í ferð með honum. Þegar á daginn leið, féll á þá ofsahríð, og lentu þeir í afskaplegum hrakningum. Einn af mönnunum varð viðskila með fjóra hesta, og fóru hinir að leita að honum. Gafst þá einn þeirra upp, Ólafur Hjaltested kaupmaður, og var hann grafinn í fönn. Misstust þá hestarnir út í hríðina, en mennirnir gátu rakið sig með símaolínunni að Fornahvammi og komu þangað að áliðinni nóttu. Var þá kominn þangað maðurinn, sem frá þeim hafði horfið með hestana fjóra. Fékk pósturinn sér menn til fylgdar að leita Ólafs, en hann fannst eigi, og komu leitarmenn aftur við svo búið síðdegis í gær. Var þá enn stórhríð, svo að eigi þótti fært í nýja leit. Tveir hestar fundust í leitinni, en tíu vantar, þar af tvo með póstflutningi á. Nánari fregnir ókomnar.
Alþýðublaðið heldur áfram að segja fréttir úr Fornahvammi 10.desember:
Allir hestarnir hafa fundist nema einn. Var ábyrgðarpósturinn á honum. Einn hestanna var svo að fram kominn, er hann fannst, að hann dó skömmu síðar. Fregnir bárust frá Fornahvammi seint í gærkveldi. Var þá verið að gera lífgunartilraunir við Ólaf Hjaltested. Læknir var ókominn, en væntanlegur á hverri stundu.
Togararnir.Skallagrímur kom í nótt. Hafði hann hvergi tekið höfn fyrr en hingað kom. Var hann allmikið brotinn ofan þilja og missti loftskeytastengurnar. Stýrimaðurinn meiddist á hendi við það að laga stýristaum, sem hafði slitnað. Otur kom hingað í morgun. Lá hann undir Látrabjargi í gærdag. Missti hann báða bátana og aðra loftskeytastöngina. Royndin, færeyski togarinn, kom hingað í morgun. Eru þá allir togararnir komnir í höfn. Manntjón hefir ekkert orðið, en sum skipin hafa laskast allmikið.
Ófært er nú orðið bifreiðum austur yfir fjall.
Morgunblaðið segir fregnir af öðrum pósti og fleiri vandræðum 10.desember:
Seint í gærkvöldi fékk Morgunblaðið þær fréttir norðan frá [Mel]Stað í, Miðfirði, að Norðurlandspóstur. (sem gengur milli Staðar og Akureyrar), hafi verið á Hrútafjarðarhálsi þegar hríðin skall á á mánudaginn [7.]. Hann var þar við fjórða mann. Þar var veðrið svo mikið, að engin tók voru á, að koma hestunum til bæja. Höfðu þeir ekki önnur ráð, en að taka af þeim allan flutninginn, og skilja hann eftir á hálsinum, en komust sjálfir við illan leik niður að Staðarbakka um miðnætti. Höfuðföt og aðrar verjur höfðu þeir misst af sér á leiðinni, og voru illa leiknir, er þeir komu til bæjar, þó ekki væru þeir skaddaðir að mun. Hestarnir eru nú flestir, ef ekki allir, fundnir, og pósturinn vís.
Bát rekur á land. Í Keflavík rak vélbát á land í norðanveðrinu í fyrrinótt. Lágu tveir bátar þar á höfninni, en um annan haggaði ekki neitt. Báturinn, sem á land rak, heitir Arnbjörn Ólafsson, og er eign Elíasar Þorsteinssonar, Ólafs J. Á. Ólafssonar o.fl. Er hann með stærstu bátum syðra, um 19 tonn, og var smíðaður í vor hér í Reykjavík. Báturinn mun ekki vera mikið brotinn, eða var ekki í gærkvöldi, og var von um að ná honum lítið meira skemmdum undan sjó, ef veður lægði.
Öllu verra veður var á Vestfjörðum í gærmorgun [9.] en í fyrradag, að því er fregn hermir að vestan. Mun bæði veðurhæð og frost hafa verið meira. Af öllum togurunum, sem ekki hafði til spurst í fyrradag, hafa menn nú fengið fregnir, að undarskildum Skallagrími og Royndin, færeyska togaranum. Var það mishermi, að Skallagrímur lægi á Önundarfirði. En hitt telja menn víst, að hann liggi einhverstaðar undir Látrabjargi. Því þar lá Otur í gær. Karlsefni kom inn á Patreksfjörð í gærmorgun, og sömuleiðis Hilmir og Belgaum. Clementína kom til Þingeyrar í gærmorgun. Á mörgum togurunum skemmdist loftskeytaútbúnaður svo, að þeir hafa ekki getað látið vita hvar þeir voru.
Togarinn Otur sendi skeyti hingað í gær, og lá þá, eins og sagt er á öðrum stað hér í blaðinu, undir Látrabjargi. Hann hafði misst báða bátana og eitthvað af tunnum.
Morgunblaðið heldur áfram að segja frá tjóni 11.desember:
Í gær fékk biskup símskeyti frá Blönduósi, þar sem skýrt var frá því að í ofsaveðrinu á þriðjudaginn 8. þ.m. hafi öll bæjarhúsin á prestssetrinu Höskuldsstöðum í Húnavatnssýslu brunnið til kaldra kola. Stórhríð var á og ofsaveður þegar eldsins varð vart svo að við ekkert var ráðið. Flestum embættisbókum var bjargað svo og sængurfatnaði en litlu öðru. Í gærkvöldi átti Morgunblaðið símtal við Hjaltabakka. Var sagt að ástandið á Höskuldsstöðum væri afar slæmt. Fólkið hefir flúið í kirkjuna, en vantar allt; hefir ekkert nema sængurfötin og lítinn fatnað. ... Að því er Morgunblaðinu var sagt frá Hjaltabakka hafa menn þar nyrðra góða von um það að fjárskaðar hafi litlir eða engir orðið í ofsaveðrinu.
Frá Ölfusá var símað í gær, að engar skemmdir hefðu orðið þar í kring af völdum norðanveðursins. Var veðrið það aldrei ýkjamikið, og snjóburður lítill, svo enn er auð jörð þar eystra.
Dagur lýsir 12.desember Holtavörðuheiðarslysinu, þess má geta að Ólafur Jónsson sem var með í för varð síðar landsþekktur fyrir bækur sínar um Skriðuföll og snjóflóð og Ódáðahraun:
Norðanpóstur lagði af stað suður yfir Holtavöruheiði á mánudagsmorguninn var [7.]. Í för með póstinum voru: Jón Pálmason Þingeyrum, Ólafur Hjaltesteð, Reykjavík, Ólafur Jónsson, framkvæmdastjóri Ræktunarfélags Norðurlands og Kjartan Guðmundsson ættaður úr Miðfirði. Þeir voru staddir við sæluhúsið kl.2. Nokkru síðar skall á ofsa norðanhríð; sleit þá sundur lestina og varð Kjartan viðskila með 4 hesta. Töfðust hinir lengi við að leita hans, týndu nokkrum hestum og einhverju af póstinum. Hjaltesteð veiktist á leiðinni og varð það ráð hinna að búa vandlega um hann í fönn og leita hjálpar í Fornahvammi. Náðu þeir síðan bænum við illan leik. Fóru síðan 2 þeirra ásamt 2 heimamönnum aftur að leita Hjaltesteðs en fundu ekki fannbyrgi hans og snéru heim við svo búið. En er uppstytti hríðinni varð Hjaltesteð fundinn og fluttur heim í Fornahvamm og var þá andaður. Kjartan náði Fornahvammi af eigin rammleik. Ólaf Jónsson kól lítilsháttar á fæti.
Hænir segir af skemmdum eystra 12. desember:
Stórviðri var hér um Austurland um síðustu helgi og aftur um miðja vikuna. Urðu skemmdir nokkrar á raftaugum hér í bænum og símalínum sumstaðar. Þak fauk af útbyggingu við hús Jóns Grímssonar söðlasmiðs. V/s. Faxi sleit festar í stórviðrinu nóttina 9. þ.m. og rak á hlið Þórshamars, vörugeymsluhúss Nathans & Olsens hér í bænum, svo hún brotnaði inn á nokkru svæði. Einnig hafði hann rekist á Blikann, vélbát Halldórs kaupmanns Jónssonar, svo hann laskaðist töluvert, og eitthvað hafði Faxi laskast sjálfur. Tjónið, sem af þessu hefir hlotist, mun því allmikið.
Morgunblaðið segir enn af tjóni 13.desember:
Fjárskaðar urðu í ofveðrinu á dögunum í Galtarholti Skilmannahreppi; hafði farist þar um 50 fjár, hrakið út í vatn, sem er þar nálægt bænum. Mótorbát rak upp í Grundarfirði í ofveðrinu og brotnaði í spón. Kona fótbrotnaði í Vestra-Mælifelli; var hún ofveðursdaginn að fara út í fjós, hélt fjóshurðinni opinni meðan maður, sem með henni var, fór inn, en þá reif stormurinn hurðina af henni og skellti henni á fótinn. Grímsey, skip, er var í vetrarlægi við Flatey á Breiðafirði, slitnaði upp í ofveðrinu á dögunum og rak á land og brotnaði töluvert. Þak af heyhlöðu á Læk í Leirársveit fauk í rokinu á dögunum. Fjárskaðar í Borgarfirði urðu hvergi miklir, en nokkrar kindur vantar á allmörgum bæjum. Í Leirvogstungu í Mosfellssveit vantar 60 fjár síðan í hríðinni á dögunum, og er vissa fyrir því, að 2030 kindur hafa farist þar í ánni. Um hitt féð, sem vantar, er óvíst. Nokkrar kindur vantar og á sumum bæjunum þar efra, svo sem á Minna-Mosfelli, Hrísbrú, Mógilsá og Kollafirði, að því er Morgunblaðinu var skýrt frá í gær frá Varmá. Marauð jörð er austur í Mýrdal nú (símtal 12. desember); þar er engri skepnu farið að gefa öðru en lömbum. Ofveðrið á dögunum náði austur í Mýrdal, en lítið tjón hlaust af nokkrar járnplötur fuku af húsum, annars ekkert tjón. Austur fyrir Mýrdalssand náði veðrið ekki. Mótorbát, eign Júlíusar Björnssonar, rak á land í Dalvík í ofsaveðrinu á dögunum, og brotnaði eitthvað. Sjóvarnagarður á Sauðárkróki sópaðist burtu í sjóganginum, er varð á dögunum í norðanrokinu.
Enn bárust fregnir af því að menn hafi orðið úti í veðrinu mikla. Alþýðublaðið 15.desember:
Slysfarir. (Eftir símtali við Búðardal). Þrír menn urðu úti í Dölum á mánudaginn og þriðjudaginn var. Voru þeir að koma fé heim til húsa, er óveðrið skall á. Sigurbjörn Magnússon bóndi í Glerárskógum fannst örendur skammt frá bænum, er hríðinni létti. Þorsteinn Ólafsson, unglingsmaður frá Hrafnabjörgum í Hörðudal, varð úti. Var hann ásamt bóndanum að koma heim fé, er hríðin skall á. Var bóndinn hjá honum, er hann andaðist, og komst sjálfur nauðlega til bæjar á þriðjudagskveld. Þá varð og úti Lárus Jónsson bóndi að Hömrum Laxárdal. Fé vantaði viða, til dæmis að Sauðafelli þriðjung fjárins. Skemmdir urðu og nokkrar á húsum; á einum stað fauk þak af hlöðu o.s.frv.
Unglingspiltur frá Snartartungu í Bitru varð úti í norðanhríðinni 7. þ.m. Hann hét Jón og var yngsti sonur hjónanna þar. Var hann að leita sauðfjár með tveim bræðrum sínum. Mæltu bræðurnir sér mót á ákveðnum stað, en þangað náði Jón ekki. Komust eldri bræðurnir úr hríðinni heim að Brunngili, fremsta bænum í dalnum. Hinn 8. var hríðin svo ógurleg að ekki var hægt að leita piltsins. Fannst hann ekki fyrr en eftir miðja síðastliðna viku.
Morgunblaðið segir af sömu slysum - í heldur lengra máli þann 15. desember og bætir við:
Geysimikið kvað vanta af sauðfé þar vestur í Dalasýslunni og frá nokkrum bæjum vantar hross. Eru menn að finna féð daglega dautt í sköflunum, en þó nokkrar kindur lifandi. Er enn órannsakað hve mikið hefir farist af fé þar í sýslu. Af þeim bæjum, sem helst vantar fé frá má nefna Sauðafell, Breiðabólstað, Hallsstaði og Hundadal. Þá hefir og orðið úti fjöldi fjár á Fellsströndinni, t.d. á bæjunum Hallsstöðum og Kjarlaksstöðum. Á öðrum þessara bæja urðu úti 70 kindur, nær því aðalfjáreign heimilisins.
Símabilanir urðu afarmiklar viða um land í ofveðrinu á dögunum. Nálægt Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð brotnuðu 40 símastaurar, en símalínur losnuðu af nálægt 150 staurum.
Morgunblaðið heldur áfram 16.desember:
Fjárskaðarnir vestra. Alltaf er að koma betur og betur í ljós fjárskaðarnir vestra, og er þú ekki fullrannsakað enn. Mestir munu þeir vera á Sauðafelli, Breiðabólstað og Fellsenda, vanta t. d. um 100 fjár á Sauðafelli. Daglega er leitað að fénu.
Manntjónið vestra. Þær fregnir bárust úr Dalasýslu í gærkvöldi seint, að enn væri ófundinn Lárus heitinn Jónsson, sem varð úti, einn af þremur í bylnum síðasta. Hans er leitað daglega, og eru menn orðnir vonlitlir að finna hann, meðan snjóþyngsli eru svo mikil og nú er.
Dagur segir enn af slysinu á Holtavörðuheiði og öðrum slysum í pistli 17.desember:
Slysfarirnar. Nánari fregnir af slysförunum herma að Ólafur Hjaltested hafi ekki andast fyrr en heima í Fornahvammi. Er samferðamönnum hans legið á hálsi fyrir ódugnað, að hafa skilið hann eftir. En vandi er að dæma um slíkt fyrir þá, er bökuðust við ofnhita i rafmagnsljósi meðan ferðamennirnir voru að ná Fornahvammi meira skríðandi, en að þeir fengju neytt fóta sinna og voru þó sumir viðurkenndir dugnaðarmenn eins og t d. Jón Pálmason. En veðrið var yfirtaksæðisgengið; Einn hestanna, sem töpuðust, drapst að sögn og af póstinum vantar 14 poka og þar á meðal verðpóst fró Blönduósi, Sauðárkróki og eitthvað frá Akureyri. Í sama byl urðu úti 3 menn i Dalasýslu, Sigurbjörn Magnússon bóndi í Glerárskógum í Laxárdal, einn maður frá Hömrum og einn í Hörðudalnum. Enn varð úti unglingspiltur frá Snartartungu á Ströndum, sonur bóndans Sturlaugs Einarssonar, en eigi veit blaðið að greina nánar nöfn þessara manna. Á Sauðafelli í Dölum, fórust 100 sauðkindur og á næsta bæ fórst allt sauðféð, 130 að tölu. Enn er sagt að talsverður skaði hafi orðið í hrossum í Vestur-Húnavatnssýslu. Hefir veðrið verið stórum grimmara á þessum stöðum en annarstaðar, því ekki hefir heyrst að það hafi valdið öðrum slysum.
Alþýðublaðið segir 20.desember frá enn einu togarastrandinu:
Vestmannaeyjum, FB 19. desember. Þýski togarinn Wien frá Nordenham kom til Vestmannaeyja i morgun til þess að til kynna, að 3 sjómílur fyrir austan Hjörleifshöfða væri strandaður enskur togari. Skipverjar myndu sumir vera komnir á land, en aðrir eftir í skipinu og allir mjög nauðulega staddir. Allmikið brim hafði verið, og þess vegna hafði þýski togarinn ekki getað orðið þeim að liði.
Á miðvikudaginn strandaði enskur togari, Walbrough frá Hull á Mýrdalssandi. Skipverjar, 13 alls, komust á land heilu og höldnu og gerðu sér skýli og höfðust við þar 2 sólarhringa. Skipið kom beint frá Englandi og strandaði um það bil, er hríðarbylur skall á. Skipstjóri og stýrimaður eru komnir til Vikur, en hinir til Hjörleifshöfða og Höfðabrekku. Dálítil snjókoma undanfarið. Flestir búnir að taka fénað og hross á gjöf.
Morgunblaðið segir 20.desember nánari fregnir úr Dölum:
Í gær átti Morgunblaðið tal við sýslumanninn í Dalasýslu til þess að fá nánari fregnir af fjársköðum þeim, er orðið höfðu í sýslunni í ofveðrinu á dögunum. Var sýslumaður þá staddur í Búðardal, og hafði verið að safna skýrslum um fjárskaðana. Sýslumaður bjóst við, að hann væri búinn að frétta um alla skaðana, og sagði, að þeir væru ekki eins tilfinnanlegir, eins og menn bjuggust við í fyrstu. Þó er ástandið mjög slæmt á sumum bæjum. Mestir urðu fjárskaðarnir á Fellsströndinni. Á einum bæ þar, Kjarlaksstöðum, fórust 130 fjár; og hafa sést af því 110 kindur í ánni þar skammt frá, en ómögulegt hefir verið að ná þeim upp ennþá, því mjög þykkur ís er á ánni. Óttast menn að allt fari út í sjó ef áin ryður sig. Er það megnið af fé bóndans á Kjarlaksstöðum sem hefir farist; á hann ein 6 lömb eftir lifandi. Á Hallsstöðum varð einnig tilfinnanlegur skaði. Á því heimili voru 110 fjár, en aðeins 50 eru eftir lifandi og flest af því er mjög veikt eftir hrakninga í ám og vötnum. Er viðbúið, að féð lifi ekki allt. Bóndinn á Hellu átti 50 fjár, en á nú eftir aðeins 20; missti 30. Í Suðurdölum varð fjárskaðinn miklu minni. Mestur varð hann á Sauðafelli. Þar hafa fundist 14 kindur dauðar, og enn vantar þar 24 kindur. Á tveimur bæjum öðrum urðu litlir fjárskaðar, 1015 fjár. Hross hafa einnig farist, einkum í Laxárdal. Þar fórust 12 hross. Á einstaka bæ annarsstaðar hafa einnig farist hross, svo að alls í sýslunni eru það sennilega nálægt 20 hross sem hafa farist í veðrinu. Sá skaði, sem sýslan hefir beðið af ofveðrinu, er mjög mikill, og verst hve einstaka fátæk heimili hafa orðið hart úti.
Tuttugu fjár, eða því sem næst, er sagt að farist hafi í Vallanesi í Skagafjarðarsýslu í ofveðrinu á dögunum; annars urðu engir fjárskaðar þar nyrðra.
Lík Lárusar Jónssonar frá Hömrum í Dalasýslu, er varð úti í ofveðrinu á dögunum, hefir nú fundist; var við túngarðinn á Hömrum.
Þann 20.desember kom kalt háloftalægðardrag úr norðri suður yfir Ísland. Því fylgdi snörp norðanátt og hríð.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hpa-fletinum síðdegis þann 20.desember. Köld lægð er austan við land og norðanstrengur vestan við hana. Ámóta staða hélst næstu daga. Það var ekki fyrr en síðdegis þann 23. að vindur fór að ganga niður í bili.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins á Þorláksmessumorgni, 23. desember um það leyti sem mikið snjóflóð féll á bæinn Sviðning í Kolbeinsdal í Skagafirði. Mikill norðanstrengur liggur langt norðan úr höfum suður yfir Ísland með hríðarveðri norðanlands. Taka má eftir miklu illviðri í Evrópu. Þar urðu gríðarleg flóð næstu daga.
Svo strandaði skip við Svörtuloft. Alþýðublaðið 21.desember:
Í morgun snemma kom loftskeyti til stöðvarinnar hér frá togaranum Ásu, að hann hefði strandað um fjögurleytið við Svörtuloft á Snæfellsnesi. Nánari fregnir náðust þá ekki, því að sambandi sleit bráðlega. Ráðstafanir voru gerðar til þess að grennslast um skipið.
Alþýðublaðið segir nánar af Ásu 22.desember:
Alþýðublaðið hefir haft tal af nokkrum af skipverjum Ásu, og segist þeim þannig frá: Kl.4 aðfararnótt mánudags kenndi skipið grunns. Blindbylur var á og stórviðri. Voru skipsbátarnir þegar settir á flot og um kl. 5 1/2 voru allir komnir í þá. Var þá mikill sjór kominn í skipið. Ákveðið var að halda sér við skipið með taug, úr báti, en taugin losnaði, er skipið lagðist á hliðina. Var þá andæft í veðrið til kl.12 á hádegi. Kom þá norska skipið La Francis auga á annan bátinn og bjargaði honum, en í sama mund kom þýskur togari auga á hinn bátinn og bjargaði þeim, sem í honum voru. Kom hann bátverjum skömmu síðar yfir í La Francis.
Morgunblaðið segir af hríðinni í pistli 23.desember:
Stórhríðarbylur mun hafa verið um allt Norðurland í gær og fyrradag, eftir því sem fréttist í síma, en ekki náðist lengra en til Sauðárkróks. Á Vesturlandi mun veðrið ekki hafa verið eins slæmt. Var símað frá Ísafirði í gær, að þar væri norðanstormur mikill, en hríðarlaust.
Alþýðublaðið segir fréttir af snjóflóðinu 28.desember:
Akureyri, FB. 26. desember. Snjóflóð fellur á bæ, 3 menn farast. Í óveðrinu fyrri hluta vikunnar féll snjóskriða á bæinn Sviðning í Kolbeinsdal og sópaði bænum burt. Maður, kona og barn fórust, einnig tvær kýr og tuttugu og fimm kindur.
Morgunblaðið segir ítarlega frá snjóflóðinu 29.desember:
Snjóflóð skellur yfir Sviðning í Óslandshlið [leiðrétting degi síðar: Kolbeinsdal]. Bóndinn Sölvi Kjartansson og eitt barn hans bíður bana. Konan næst lifandi eftir sólarhring. Annar bóndinn missir allar skepnur sínar og hey. Í Sviðningi er tvíbýli. Annar bóndinn, Anton Gunnlaugsson, hefir gamlan skála þar til íveru. Er skálinn mikið grafinn í jörð. En hin fjölskyldan var í nýlegri baðstofu. Bóndinn þar hét Sölvi Kjartansson. Var hann þar ásamt konu sinni og tveimur börnum og gamalli konu sem Hansína heitir. Snjóflóðið skall yfir um kl.4 að nóttu til. Blindhríð var á. Fjárhús og heystöð á túninu ofanvert við bæinn. Tók flóðið bæði hús og hey, og skellti öllu saman ofan á baðstofuna. Brotnaði hún öll. En skálinn þar sem hin fjölskyldan svaf var svo niðurgrafinn að hann brotnaði ekki. - Þegar flóðið var riðið yfir braust Anton bóndi út úr skálanum út í hríðina. Kallaði hann til fólksins sem í baðstofunni átti að vera. Fékk hann svar frá gömlu konunni. Gekk hann þangað sem hann heyrði til hennar og náði henni óskaddaðri upp úr baðstofurústinni og barni sem var með henni í rúm. En til hjónanna heyrðist ekkert. Leitaði Anton nú til næstu bæja um nóttina því hann sá sér ekki fært að grafa upp baðstofurústina einn og verkfæralítill. Eftir sólarhring náðist til konunnar þar sem hún lá í rúmi sínu, allmikið marin, en var þó lifandi. Barn var í rúminu hjá henni, en það var dáið. Bóndinn, Sölvi, er var í öðru rúmi var einnig dáinn. Konan er á batavegi, að því er heimildarmaður vor sagði í gær, þó hún eins og nærri má geta bíði þess seint eða aldrei bætur er fyrir hana hefir komið. Getur hver og einn skilið hver áhrif það hefir haft á konuna að liggja þarna sólarhring í baðstofurústinni, með lík bónda síns á aðra hönd, ungbarn andað hjá sér og sjálf eiga stutt eftir af meðgöngutíma. - Anton bóndi Gunnlaugsson missti þarna allar skepnur sínar og allt hey.
Í Lesbók Morgunblaðsins 15.janúar 1961 er allítarleg frásögn Björns í Bæ af atburðum á Sviðningi. Þar segir m.a.:
Anton Gunnlaugsson hefir skýrt mér svo frá atburðinum: Það mun hafa verið um klukkan 6 að morgni á Þorláksmessu, að þau hjónin vöknuðu við það að skálinn skalf og nötraði, og jafnframt heyrðu þau hvin mikinn. Ekki kom þeim til hugar að snjóflóð hefði fallið á bæinn, héldu að þetta væri jarðskjálfti. Og þar sem hræringarnar urðu ekki fleiri, fór Anton ekki að klæða sig fyrr en kl.8. Þá var á iðulaus stórhríð, og er hann kemur út í bylinn, þykir honum furðu gegna, að þar á hlaðinu mæta honum tvær kýr. Fer hann þá að svipast um og sér að snjóflóð hefir tekið þakið af fjósinu, en þessar tvær kýr komist einhvern veginn út úr snjódyngjunni. Svo dimmt var enn af nótt og hríð, að Anton sá ekki meira, en hann var alveg grunlaus um að snjóflóðið hefði valdið meira tjóni. ... Nú víkur sögunni að heimili Sölva og segir Jónína húsmóðir frá. Kvöldið áður var eins og önnur friðsæl og ánægjuleg kvöld. Telpurnar hennar litlu léku sér eins og venja var, og minnist hún þess sérstaklega hvað Sigríður litla var full af ærslum þetta kvöld. Guðbjörg gamla talaði þó við Sölva um það hvort ekki væri hætta á snjóflóði í öðru eins fannfergi og stórhríð, en Sölvi kvaðst ekki vita til þess að nokkru sinni hefði fallið snjóflóð á þessum stað. Ekki er Jónína alveg viss um hvenær snjóflóðið skall á bænum, en telur þó að það muni hafa verið um kl. 6 að morgni, er hún vaknaði við þessi ósköp. Gat hún ekki vel gert sér grein fyrir því hvað gerðist fyrr en allt var um garð gengið og hún var grafin í snjó, svo að hún mátti sig ekki hræra. Hún kvaðst þó muna óglöggt eftir miklum aðgangi, braki og brestum í viðum, og svo hinum óskaplega kulda er snjórinn þjappaðist að henni. ... Jónína segist einnig hafa heyrt í Guðbjörgu gömlu og heldur að hún hafi lifað nokkuð lengi. Þetta var rétt, því að Guðbjörg var enn með lífsmarki er hún náðist úr snjónum, en andaðist þegar leitarmenn voru að bera hana inn.
Eftir stutt upprof (sjá eldri pistil hungurdiska) hélt hríðin áfram. Alþýðublaðið segir frá 30.desember:
Akureyri, FB 29 desember. Póstur hríðartepptur. Fannkyngi mikið hér norðanlands. Austanpóstur var hríðartepptur 6 sólarhringa í Reykjahlíð, og varð loks að bera póstflutninginn frá Reykjahlið að Ingjaldsstöðum í Bárðardal. Síðan var farið á skíðum hingað í kvöld.
Hænir minnist veðragæða sumarsins í pistli 9.janúar 1926:
[Úr bréfi af Fljótsdalshéraði, dagsett á Þorláksmessu 1925] Hænir hefir getið tíðarfarsins í sumar og líkt því við sumarið 1880 en það er ekki nákvæmlega rétt. Vorið byrjaði þá með jafndægrunum og eftir það aldrei öðru hærra. Blár og lækir voru þá þurrari. Lógunarfé að líkindum vænna, en á því er ekki auðvelt að gera samanburð, því nú er lógunarféð á öðrum aldri. Sumarið 1894 var fullt eins hagstætt og þurrt og síðastliðið sumar og lík voru sumurín 1913 og 1916 hér á Fljótsdalshéraði.
Ægir gerir upp hafísárið 1925 í 9. tölublaði 1926 bls. 190:
Um ís 1925. Hér við land var því óvenjulítið um ís, nærri íslaust; dálítið hrafl var yst á Húnaflóa í júní og nokkrir borgarísjakar út af Straumnesi (og nokkrir á Hala) í ágúst. (Bjarni Sæmundsson ritar).
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1925. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu. Þar má finna sitthvað sem ekki er minnst á í textanum hér að ofan.
Vísindi og fræði | Breytt 21.7.2024 kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2024 | 21:29
Stílhrein staða
Nú er hásumar á norðurhveli jarðar. Það er aðeins misjafnt eftir landsvæðum hvenær sumarið toppar og einnig er það misjafnt eftir hæð í lofthjúpnum og sömuleiðis í sjó. Þessir toppar eru þó oft svo óljósir að þeir sjást ekki nema í meðaltölum sem taka til margra áratuga - eða jafnvel enn lengri tíma. Sól er auðvitað farin að lækka á lofti aftur - búin að gera það í nærri fjórar vikur þegar hér er komið. Sjórinn tregðast lengst við - hér við Ísland er sumar í sjó í hámarki fyrri hluta ágústmánaðar - og það er þá hlýjasti tími ársins á útnesjum og eyjum - gætir seinkunarinnar mest austanlands. Í norðurjaðri staðvindasvæðanna er hlýjasti tíminn enn síðar.
Í miðju veðrahvolfi er styrkur vestanvindabeltis norðurhvels í lágmarki í kringum 10. ágúst og um tíu dögum til hálfum mánuði síðar snýst vindátt úr austri í vestur í miðju heiðhvolfi. Um þær mundir má segja að hausts fari að gæta. Eins og oft hefur verið fjallað um hér á hungurdiskum er lengd sumarsins - árstíðarinnar ekki alveg einhlít - fer eftir því í hversu margar árstíðir menn vilja skipta árinu. Er árið flatbrauð - eða er það rjómaterta? Eru sneiðarnar bara tvær eða fjórar (jafnstórar) eða kannski átta eða tólf - misstórar þá.
Á þessu ári ber miðsumar að fornu tali upp á 28.júlí - sumarauki var í fyrra (og reyndar rímspilliár) þannig að oftast er miðsumar fyrr en nú. - Samt sem áður hittir þessi dagsetning tímatalsins gamla vel á það sem að meðaltali er hlýjasti tími ársins á landinu. Við höfum smjattað á því áður hér á hungurdiskum - í fyrra var reiknað út að meðaldagsetning hlýjasta dags ársins væri 29.júlí.
En víkjum nú að stöðunni á norðurhveli um þessar mundir - á venjulegri yfirlitsmynd.
Kortið er úr iðrum evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir síðdegis á föstudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstefnu og vindátt í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þar sem hún er lítil er kalt, þar sem hún er mikil er hlýtt. Meðalþykkt við Íslandi í júlí er um 5460 metrar (við mörk gulu og grænu litanna). Á föstudaginn á landið að vera í græna litnum - hiti verður undir meðallagi - segir spáin.
Það sem er sérlega skemmtilegt við þetta kort er hversu reglulega kuldapollarnir raða sér hringinn - flestir nærri 60 gráðum, þeir við Alaska aðeins sunnar. Litlu pollarnir eru nú sjö að tölu - sjö nær reglulegar bylgjur umhverfis móðurkuldann yfir Norðuríshafi - bylgjutala sjö. Hún er talsvert tísku í sumarhamfarafræðaheimum (já, afkimarnir eru margir) um þessar mundir. Ritstjóri hungurdiska nennir eiginlega ekki að fjalla um ástæðurnar - gæti það kannski - en er farinn að rása í brautinni. Þeir sem vilja geta t.d. litið á bakvið þennan tengil.
Móðurpollurinn er öflugur - eins og sjá má, sjö eða átta jafnhæðarlínur og þrjár eða fjórar jafnþykktarlínur hringa sig nærri miðju hans. Þetta er ekki alveg stöðugt - jafnvægisdans á línunni. Við megum taka eftir því að litlu pollarnir eru misöflugir - þeir sem eru yfir Rússlandi og Síberíu eru vægari heldur en hinir (2,3 og 4). Sömuleiðis er langmesti hryggurinn milli þeirra einnig yfir meginlandi (vestanverðu Kanada) - og sömuleiðis er pollurinn sunnan Íslands að dæla hlýju lofti til norðurs (fyrir austan land) og reynir að styrkja hrygginn. Hudsonflóapollurinn er á leið suðausturs og ýtir þá upp hlýju lofti á undan sér líka. Þetta mun leiða til breytinga - en það tekur nokkra daga, að minnsta kosti.
Það sem helst virðist skipta okkur máli er að pollurinn fyrir sunnan land þokast norður og þær spár sem nú er veifað segja að úr verði nokkuð öflug lægð (miðað við árstíma) fyrir norðan land - og þá upp úr helginni. Þessum flutningum fylgja ákveðin leiðindi - en við gerum þó ekki mikið úr þeim í bili - látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila flytja nánari fréttir - verði ástæða til (sem ekki endilega er ljóst á þessu stigi).
En hlýindi (að marki) virðast varla í kortunum í bili. Við vitum ekkert um hver verður hlýjasti dagur ársins 2024 - ekki einu sinni hvort hann er þegar liðinn. Í pistlinum í fyrra var bent á að síðustu 75 árin hefur hlýjasti dagur ársins á landinu í heild einu sinni orðið í maí - og einu sinni í október - þannig að meðaltalið segir ekkert um einstök ár.
16.7.2024 | 14:47
Hálfur júlí 2024
Meðalhiti í Reykjavík í miðjum júlí er 11,0 stig. Það er -0,2 stigum neðan meðallags sömu daga árin 1991-2020 og -0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 14. hlýjasta sæti (af 24) það sem af er öldinni. Hlýjastur var hálfur júlí árið 2007, meðalhiti þá 13,3 stig, en kaldastur var hann 2013, meðalhiti 9,6 stig. Á langa listanum er hiti nú í 63. hlýjasta sæti (af 152). Hlýjastur var fyrri hluti júlí 1991, meðalhiti þá 13,5 stig, en kaldastur var hann 1874, meðalhiti 7,7 stig (óvissa nokkur).
Meðalhiti á Akureyri er nú 12,2 stig. Það er +1,4 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +1,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára og eru í tíundahlýjasta sæti síðustu 89 ára á Akureyri.
Hita er nokkuð misskipt á landinu. Kaldast að tiltölu á Vesturlandi, við Faxaflóa og Breiðafjörð raðast hiti í 14. hlýjasta sæti aldarinnar (af 24), en á Norðurlandi eystra og Austurlandi öllu er hann hins vegar sjá fjórðihlýjasti á öldinni (sem af er).
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Hornbjargsvita, hiti er þar 2,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast hins vegar á Hjarðarlandi í Biskupstungum, hiti þar -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 34,9 mm og er það tæp 40 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 6,4 mm og er það um þriðjungur meðalúrkomu. Á Dalatanga hafa mælst 11,1 mm og er það aðeins fimmtungur meðalúrkomu.
Sólskinsstundir hafa mælst 64,6 í Reykjavík, 21 stund undir meðallagi - samt ekki sérlega óvenjulegt, en miklu minna heldur en á sama tíma í fyrra. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 87,5 og er það í rétt ríflegu meðallagi.
11.7.2024 | 13:31
Fyrstu tíu dagar júlímánaðar 2024
5.7.2024 | 20:45
Af hitabylgjum
Það er nokkuð síðan við höfum litið á hitabylgjur hér á hungurdiskum. Eiginlegar hitabylgjur eins og þær sem eru oft í erlendum fréttum koma reyndar aldrei hér á landi. Það er svona rétt dag og dag að hiti rétt skríði yfir 25 stigin á stöku stað - og það gerist ekki á hverju ári. Við verðum því í talningum að slá nokkuð af og hefur ritstjórinn (og e.t.v. fleiri) gjarnan miðað talningar á hitum við 20 stig. Það er íslensk hitabylgja slefi hitinn svo hátt - jafnvel þótt ekki sé nema einn stakan dag.
Talningar geta farið fram á ýmsa vegu. Ritstjórinn gerði grein fyrir einhverjum þeirra í alllangri ritgerð sem út kom árið 2003 (Hitabylgjur og hlýir dagar). Þar má einnig finna vangaveltur um veðuraðstæður þessa (fáu) hlýju daga, breytileika milli landshluta og einstakra veðurstöðva, fjallað um tíðnisveiflur í tímans rás - og þar á meðal er reynt að setja fram lista yfir mestu hitabylgjurnar. Auk þess er reynt að svara spurningunni um það hversu hlýtt getur orðið á Íslandi. Þeir sem hafa áhuga á efninu eru hvattir til að lesa þetta grundvallarrit".
En síðan eru liðin rúm 20 ár. Hungurdiskar hafa raunar fjallað um málið allnokkrum sinnum síðan, m.a. rætt hæsta hita sem mælst hefur á landinu - og ritað um það sem ritstjórinn kallar tuttugustigavísitölu
Tuttugustigavísitalan frá því hversu hátt hlutfall veðurstöðva í byggð tilkynnir að hámarkshiti sólarhringsins hafi komist í 20 stig eða meira. Notast er við þúsundustuhluta, vísitalan 1000 segði að 20 stig eða meira hafi mælst á öllum stöðvum, núll að 20 stig hafi hvergi mælst. Talan 500 segir að 20 stigum hafi verið náð á helmingi stöðvanna. Við lítum síðar á hvaða dagar það eru sem hafa staðið sig best hvað þetta snertir.
Það flækir auðvitað málið að alltaf er verið að hringla með veðurstöðvakerfið. Nú eru sjálfvirkar athuganir alfarið komnar í stað mannaðra og stöðvum sem mæla hita hefur fjölgað mjög. Sú spurning vaknar því óhjákvæmilega hvort vísitölur séu þær sömu í sjálfvirka kerfinu og því mannaða. Saga stöðvakerfisins kemur einnig við sögu. Fyrstu ár sjálfvirkninnar var hlutfall strandstöðva hærra en stöðva í innsveitum - svipað á við fyrstu ár mannaða kerfisins á 19.öld. Stöðvar voru frekar við ströndina heldur en inn til landsins. Hlýir dagar eru mun færri á strandstöðvum heldur en innsveitarstöðvum. Þetta getur haft áhrif á samanburð milli kerfa og milli ára.
Við byrjum á því að reikna vísitölu fyrir alla daga í sjálfvirka kerfinu frá og með 1997 til 2023. Síðan leggjum við saman vísitölu allra daga hvers árs og búum til töflu sem sýnir summuna - og setjum á mynd. Til hægðarauka höfum við einnig reiknað 7-ára keðjumeðaltal.
Þessi 27 ár hafa verið nokkuð misgæf á hitabylgjur. Langhæsta talan er frá sumrinu 2021, en þá var fádæma hlýtt langtímum saman um landið Norðan- og Austanvert. Margir muna einnig hitabylgjurnar miklu í ágúst 2004 og í júlílok 2008. Sumarið 2001 var naumast á 20 stigin (núlíðandi sumar, 2024, er þegar komið upp fyrir það) og 2015 var einnig mjög rýrt.
Við viljum auðvitað komast lengra aftur. Til að það sé hægt þurfum við að gera það sama fyrir mönnuðu stöðvarnar - og sannfæra okkur um að útkoman fyrir þær sé svipuð. Við komumst með góðu móti aftur til ársins 1961, en dagleg gildi allra stöðva eru til frá þeim tíma í gagnagrunni Veðurstofunnar. Frá 1949 eru allar skeytastöðvar þar líka - en ekki svokallaðar veðurfarsstöðvar sem líka mældu hámarkshita. Þær voru heldur fleiri inn til landsins heldur en skeytastöðvarnar. Því er líklegt að tölur áranna 1949 til 1960 séu lítillega vanmetnar í töflunni.
Samanburðurinn við sjálfvirku stöðvarnar nær þó auðvitað ekki nema aftur til 1997.
Jú, tölurnar fylgjast í aðalatriðum að, en samt er dálítill munur frá ári til árs. Árið 2021 eru mönnuðu stöðvarnar orðnar fáar. Samt sýnist að sjálfvirku stöðvarnar vanmeti vísitöluna lítillega - eða að mönnuðu stöðvarnar ofmeti hana. En þrátt fyrir þennan mun eru kerfin tvö samt að sýna það sama - í aðalatriðum.
Við getum því litið á næstu mynd - hún nær aftur til 1949.
Súlurnar sýna vísitölusummur einstakra ára, rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal, en sú græna sýnir 7-árakeðjuna fyrir sjálfvirku stöðvarnar. Þar sjáum við að hún er neðan við þá rauðu fyrstu árin (meðan hlutfall strandstöðva var hæst), en eftir það er meira samræmi. Í heildina litið hefur hitabylgjum fjölgað mjög á þessu tímabili. Þær voru harla fáséðar á uppeldisárum ritstjóra hungurdiska. Fyrsta stóra hitabylgjuár hans tíma var 1976. Síðan er fjöldi gæfra ára allt frá 1997 allt til þess að nokkur rýrð varð á árunum 2014-16. Árið 2021 sker sig úr. Einnig eru tvo sæmileg ár fyrir minni ritstjórans, sumarið 1949 og aftur 1955. Síðara sumarið (rigningasumarið mikla) var mjög hlýtt í nokkra daga á Norðaustur- og Austurlandi. Rýrast var sumarið 1979 (rétt svo að hiti næði 20 stigum einu sinni) og 1961.
En nú vitum við að hlýskeið ríkti hér á landi frá þriðja áratug síðustu aldar og fram á þann sjöunda. Þessi mynd sýnir raunar greinilega að hlýindin miklu náðu ekki til sumarsins - síðasta hluta hlýskeiðsins, það var búið hvað sumarið varðaði. Um það hafa hungurdiskar auðvitað fjallað um áður.
Það flækir einnig málið að til að byrja með voru ekki hámarkshitamælar nema á sárafáum stöðvum. Við vitum því ekki hæsta hita hvers dags á flestum stöðvum, aðeins hita sem mældist um miðjan daginn. Það var þó tiltölulega létt verk að tína upp hæsta hita hvers mánaðar bæði á stöðvum með og án hámarkshitamælis á þessum árum. Hámarkshitamælum fjölgaði síðan eftir að Veðurstofan tók við athugunum og þeir voru komnir á flestar stöðvar fyrir 1940. En svo er einnig við það vandamál að eiga að hámarkshitamælarnir sýndu oft of háan hita í gömlu mælaskýlunum. Oft er óeðlilega mikill munur á hita hámarksmælisins og hita á venjulegum mæli síðdegis. Það er mikið mál að greiða úr því. Hámarkshitamælar eru að auki mun bilanagjarnari heldur en hefðbundnir mælar.
En eitthvað verðum við að gera. Í áðurnefndri hitabylgjuritgerð ritstjórans var gripið til annars hlutfallsreiknings. Reiknað var á hversu mörgum stöðvum hæsti hiti hvers mánaðar hefði náð 20 stigum - og hlutfall þeirrar tölu af heildarfjölda þeirra stöðva sem mældu í viðkomandi mánuði. Til að sannfæra okkur um að eitthvað vit sé í því verðum við að líta á annað dreifirit.
Tuttugustigavísitölusumman eins og hún var kynnt hér að ofan er á lóðrétta ásnum, en á þeim lárétta er hins vegar vísitala byggð á mánaðahámarkinu (hlutfalli eins og lýst var hér að ofan). Þetta getum við gert fyrir árin 1949 til 2023 og okkur til léttis sjáum við að tölurnar fylgjast oftast nokkuð vel að. Mánaðasummuna er hægt - með góðum vilja - að nota sem vitni fyrir hina. Við skulum þó taka eftir rauðu örvunum á myndinni. Sú neðri bendir á árin 1980 og 2002. Þessi ár ná mjög hátt (langt til hægri) á mánaðarvísitölukvarðanum - þá komu mjög öflugar hitabylgjur - en þær stóðu stutt. Þær hafa því mikil áhrif á mánaðavísitöluna, en minni á þá sem byggir á daglegum gildum. Efri örin bendir á árin 2004 og 2008. Mjög stórar hitabylgjur þeirra ára voru lengri - en geta auðvitað ekki gert meir en að nær metta mánaðarvísitölur sínar. Vísitalan sem byggir á mánaðargildum getur því bæði of- og vanmetið árssummuna - það verðum við að hafa í huga.
En sýnum við ákveðna bjartsýnir (og blindu) getum við kannski búist við því að margra ára meðaltöl jafni þetta eitthvað út - því þetta getur verið á báða vegu - og þá er komið að síðustu mynd dagsins.
Hún sýnir mánaðarvísitöluna aftur til 1874 (í algjöru glóruleysi reyndar). Súlurnar sýna stök ár, en rauða línan er 7-árakeðja (vinstri kvarði). Græna línan (hægri kvarði) er tuttugustigasumman - sem byggir á dagsgildum. Við sjáum að hlýskeiðið frá 1925 til 1949 kemur vel fram - og 1939 slær 2021 út. Þá virðast hitabylgjur hafa verið ámóta algengar og er nú á dögum, en afskaplega rýrt skeið á milli. Allmargar hitabylgjur eru einnig fyrir 1920, flestar þær mestu hafa komið við sögu í hinum löngu árapistlum ritstjóra hungurdiska - eða í öðrum sérstökum pistlum.
En það er greinilega harla óheppilegt að byrja hitabylgjutalningar (eða talningar á hlýjum dögum almennt) fyrir 50-60 árum, eins og alloft sést gert (og pirrar ritstjóra hungurdiska mjög).
Til stendur að fjalla frekar um hitabylgjur í fleiri pistlum á næstunni - ef þrek endist. Það er bara svo margt sem fyrir liggur.
3.7.2024 | 16:30
Maí og júní
Þær fregnir berast nú frá Bretlandi og Danmörku að meðalhiti (á landsvísu) hafi verið lægri í júní heldur en var í maí. Þetta er harla óvenjulegt. Hin opinberu landsgögn í Danmörku ná aftur til 1871 (miklu lengur hefur þó verið mælt í Kaupmannahöfn) og að sögn danskra fjölmiðla hefur júní aldrei á þessum tíma verið kaldari heldur en maí - fyrr en nú. Svipaða sögu er að segja frá Englandi. Landsmeðalhiti þar nær að vísu ekki jafnlangt aftur, en þeir eiga hins vegar samsetta röð frá Mið-Englandi sem nær allt aftur á 17. öld - lengsta mánaðarhitaröð í heimi. Ritstjóra hungurdiska skilst að á öllu þessu rúmlega þrjú hundruð ára tímabili hafi það aðeins gerst tvisvar að júní hafi verið kaldari heldur en maí, síðast 1833.
Hérlendis var landsmeðalhiti í júní 1946 lítillega lægri heldur en í maí og eins árið 1928, í báðum tilvikum hafði maí verið óvenjuhlýr. Líklega gerðist þetta líka árið 1851, en þá var mælt á nokkrum stöðvum.
Þó þetta sé svona sjaldgæft á landsvísu er það samt algengara í einstökum landshlutum eða á einstökum veðurstöðvum. Þannig er það alla vega hér á landi (og nær örugglega í Danmörku og á Bretlandi líka).
Fyrir sjö árum vildi svo til hér á landi að júní varð kaldari heldur en maí á allmörgum veðurstöðvum - en ekki þó á landsvísu. Um þetta tilvik var fjallað á hungurdiskum, tvisvar. Fyrst snemma í júní þegar ljóst var að maí hafði verið óvenjuhlýr, en jafnframt leit snemma í júní ekki vel út með hlýindi. Pistillinn birtist 4.júní, með fyrirsögninni Júní kaldari en maí?. Síðari pistillinn birtist svo mánuði síðar, 3. júlí, þá með fyrirsögninni Júní kaldari en maí á nokkrum veðurstöðvum. Ekki er ástæða til að endurtaka efni þessara pistla í smáatriðum hér (smellið á tenglana til að rifja þá upp).
Venjulega er júní talsvert hlýrri heldur en maí. Á landinu í heild munar um 3,2 stigum á meðalhita mánaðanna. Mest hlýnar að jafnaði á Miðhálendinu, um 4,6 stig að meðaltali. Það stafar væntanlega af því að snjór hverfur oftast þaðan seint í maí eða í júní. Hlýindi í maí fara fyrst og fremst í að bræða snjó og tefur það hlýnun. Minnst hlýnar milli mánaðanna á Suðausturlandi og Austfjörðum, um 2,7 stig að meðaltali.
Á þessu ári, 2024, var meðalhiti í júní lægri heldur en í maí á einni veðurstöð, Vatnsskarði eystra. Þar munaði 0,2 stigum. Meðalhiti var sá sami í mánuðunum tveimur í Bjarnarey og í Ásbyrgi. Mest hlýnaði milli mánaða á hálendinu, júní var 3,4 stigum hlýrri en maí í Þúfuveri og 2,9 stigum hlýrri við Setur. Þessi munur er þó undir meðallagi - því sem minnst var á hér að ofan. Munur á landsmeðalhita mánaðanna var 1,3 stig, einnig undir meðallagi.
Það ber einna oftast við austanlands og norðan að júní sé kaldari heldur en maí. Í Reykjavík þurfum við að fara allt aftur til ársins 1851 til að finna slíkt tilvik, í Stykkishólmi aftur til 1946, á Akureyri aftur til 1991 og aftur til 1998 á Egilsstöðum.
Júlí er á landsvísu langoftast hlýrri heldur en júní, í 94 prósent tilvika síðustu 200 ár (13 tilvik), síðast í fyrra, en þar áður ekki síðan 1970 og svo líka 1963. Um þetta má lesa nánar í pistli frá því 3. ágúst í fyrra: Júlí kaldari heldur en júní - en hver nennir svosem að lesa alla þessa gömlu pistla? Er aldrei komið nóg?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 177
- Sl. sólarhring: 385
- Sl. viku: 2556
- Frá upphafi: 2434998
Annað
- Innlit í dag: 157
- Innlit sl. viku: 2267
- Gestir í dag: 149
- IP-tölur í dag: 144
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010