Bloggfærslur mánaðarins, mars 2024
31.3.2024 | 21:35
Sérviskulegt einkahugtak
Erfitt veður var víða um landið norðan- og austanvert í dag, páskadag. Færð spilltist og fjölmargir lentu í erfiðleikum á vegum úti og jafnvel innanbæjar í hvassviðri og blindu. Frést hefur af snjóflóðum á vegum. Full ástæða til aðgætni. Veðurstofan gaf út viðvaranir eins og vera ber.
Fyrir fáeinum dögum gáfu spár til kynna að einmitt í dag, páskadag, myndi veðurkerfi fara yfir landið af því tagi sem ritstjóri hungurdiska hefur í sérvisku sinni kosið að nefna þverskorinn kuldapoll. Eftir því sem hann best veit kemur það hvergi fyrir í veðurfræðitextum öðrum, þó rétt hugsanlegt að einhverjir ámóta sérvitringar erlendir hafi nefnt þetta einhversstaðar - þá undir einhverju öðru nafni.
Í þessu tilviki er fyrirbrigðið í minna lagi og var ritstjórinn jafnvel vantrúaður á að einhver vandræði hlytust af framhjáhlaupi kuldapollsins, en svo vel fór sumsé ekki - þótt stórvandræði verði vonandi ekki. Ritstjórinn hefur lengi gefið þverskornum kuldapollum gaum (þótt aðrir geri það ekki) og hefur fengið framleitt sérstakt kort sem sýnir vel hvenær svona nokkuð er á ferðinni.
Svæðið er sérvalið - flestir leiðindavaldandi kuldapollar koma úr norðri eða norðvestri. Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting. Hæð er yfir Grænlandi (yfir 1040 hPa), en mikið lægðasvæði rétt utan korts við Bretland. Litirnir sýna hæð 500 hPa-flatarins. Meginhæðin þar er við Vestur-Grænland (H). Meginkuldapollur er utan kortsins, en minni pollur hefur snarast út úr straumnum austan Grænlands og er á kortinu yfir Íslandi (L). Hér sést megineinkenni þverskorins kuldapolls mjög vel - vel skilgreind háloftalægð er þverskorin af jafnþrýstilínum sem lítið sem ekkert taka þátt í sveigju háloftastrauma. Mjög skýrt - ekki öflugt, en samt nóg til þess að valda umræddum leiðindum.
Næsta kort er alveg hefðbundið háloftakort úr 500 hPa-hæð. Jafnhæðarlínur þéttar dregnar en á hinu kortinu (þar sem litir voru notaðir). Vestan lægðarinnar er vindur stríður af norðri og norðaustri, en austan hennar er öllu hægari suðvestanátt. Lægðin kom hratt norðan úr hafi og fer hratt til suðvesturs til morguns og verður fljótt úr sögunni.
Svo vill reyndar til að annar pollur, heldur minni þó, á enn að snarast út fyrir norðan land og gera spár ráð fyrir því að hann fari yfir landið aðra nótt (aðfaranótt þriðjudags). Hugsanlega versnar veður þá aftur - en kannski verður sú þróun kæfð í fæðingu.
Síðasta myndin í dag sýnir annað sérviskukort ritstjóra hungurdiska (svona kort er hvergi annars staðar að finna). Hér sýna heildregnar línur sjávarmálsþrýsting, en litir sýna svokallaðan stöðugleikastuðul. Við förum ekki nánar út í hann, nema að við nefnum að hann er vísir á stöðugleika veðrahvolfs, milli 850 hPa-flatarins og veðrahvarfa. Á brúnu svæðunum er stöðugleikinn mjög lítill, loft á auðvelt með að velta - lóðrétt samskipti lofts eru auðveldari en ella. Við sjáum snúningsform kuldapollsins vel í sveigjum brúnu litanna. Þetta kerfi á nú að fara hratt til suðvesturs og á að vera ekki langt undan strönd Nýfundalands á þriðjudagskvöld og á miðvikudag - spár eru ekki sammála um hvort Ganderflugvelli verði lokað um stund - (trúlega verður það ekki).
En þau eru mörg elliviðfangsefnin.
29.3.2024 | 21:27
Snjóflóðið á Tungudal 1994 (veðrið)
Við rifjum nú lauslega upp veðuraðstæður tengdar snjóflóðinu mikla sem grandaði sumarhúsabyggð í Tungudal við Ísafjörð og olli sömuleiðis gríðarlegu tjóni á skíðasvæðinu á Seljalandsdal.
Svo vildi til að ritstjóri hungurdiska var um þessar mundir að taka við stjórn á Úrvinnslu-og Rannsóknasviði Veðurstofunnar og fékk þetta flóð því í fangið (í óeiginlegri merkingu). Árið eftir féllu síðan enn skaðvænlegri flóð sem urðu til þess að snjóflóðamál voru tekin til gagngerðrar endurskoðunar og fjármagn í varnir gegn þeim stóraukið. Grundvelli hættumats var í kjölfarið gjörbreytt. Allan þann tíma sem ritstjórinn var síðan í þessu sama starfi liðu aldrei margir dagar í senn án þess að snjóflóðamál bæri á góma. Þetta voru tæp tíu ár.
En það er þó þannig að allt frá snjóflóðunum miklu í Neskaupstað 1974 hafði hreyfing verið á snjóflóðavörnum. Frá 1979 hafði starfsmaður á Veðurstofunni sinnt þessum málum þar og frá 1989 voru starfsmennirnir þar tveir. En við mjög ramman reip var að draga, skilningur á hættunni var lítill meðal ráðamanna flestra, bæði á landsvísu og í heimabyggð. Mörgum þótti rétt að fela vandann og þrátt fyrir augljósa hættu var leyft að byggja ný hús á hættusvæðum, jafnvel barnaheimili. En eins og kemur fram í fréttaútdrætti hér að neðan áttu rýmingar sér þó stað - gert hafði verið ráð fyrir þeim. Og í apríl 1994 var rýmt á fáeinum stöðum, en aðeins eftir að stóra flóðið féll.
Flóðið mikla 1994 kom algjörlega á óvart, og stærð þess var sannarlega óvenjuleg. Samkvæmt mælingum var rúmmál þess um 650 þúsund rúmmetrar, það mesta sem mælt hefur verið hér á landi allt til dagsins í dag. Þetta er stór tala. Á Veðurstofunni var talað um að þetta samsvaraði nokkurn veginn því að allur bílafloti landsmanna hafi komið ofan hlíðina á 150 til 180 km hraða á klukkustund. Sú samlíking (þó ónákvæm sé og ekki alveg réttmæt) ætti að koma flestum í skilning um það hversu hættuleg snjóflóð eru.
Um flóðið má lesa í ýmsum heimildum. Blöðin greindu ágætlega frá því, þess er að sjálfsögðu getið í skýrslum Veðurstofunnar og nú þessa dagana er um það fjallað í tveimur ágætum útvarpsþáttum.
Hér verður ekki farið nánar út í þá sálma, en við notum tækifærið og rifjum upp veðuraðstæður með hjálp nokkurra korta era-interim endurgreiningarinnar. Í Morgunblaðinu 6.apríl lýsir Haraldur Eiríksson veðurfræðingur aðdraganda veðursins í fáum orðum. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að gera það betur:
Tvær óvenju djúpar lægðir fóru yfir landið um páskana og ollu illviðri víða um land. Þær réðu ríkjum alla páskana, sagði Haraldur Eiríksson veðurfræðingur. Það má segja að skásta veðrið hafi verið á laugardag þegar fyrri lægðin fór að grynnka. Í seinni lægðinni mældist loftþrýstingur um 951 millibar á Dalatanga sem er nálægt meti miðað við árstíma. Að sögn Haraldar var mjög djúp lægð fyrir suðaustan land, milli Íslands og Skotlands, á skírdag sem þokaðist hægt norður á bóginn. Þann dag gerði leiðinda norðanátt um allt land en daginn eftir, á föstudaginn langa, var lægðin fyrir austan landið og var áfram mjög djúp. Seinnihluta dagsins var lægðin komin norðaustur fyrir landið og farin að grynnka. Á laugardag var lægðin kyrrstæð fyrir norðan og norðaustan land og hélt hún áfram að grynnast. Þá er hins vegar farið að sjá í mjög vaxandi lægð fyrir suðvestan land og að morgni páskadags kemur hún upp að landinu," sagði Haraldur. Fyrst um morguninn er austlæg átt um nær allt land með snjókomu en um tíma gerði hvassa vestanátt syðst á landinu með blindbyl. Lægðin var undan Austurlandi um kvöldið og var þá óvenju djúp miðað við árstíma eða rúmlega 951 millibar og lítið eitt dýpri en fyrri lægðin. Þessi lægð hélt kyrru fyrir fram á annan í páskum og var viðloðandi Norðurland en þokaðist þá heldur vestur með norðurströndinni og grynntist lítillega en var þó áfram mjög djúp.
Við lítum því næst á kortin:
Kortið að ofan sýnir fyrri lægðina sem Haraldur talar um. Hún varð dýpst miðvikudaginn í dymbilvikunni, líklega um 941 hPa í miðju. Það er mjög óvenjulegt svo seint í marsmánuði. Rétt rúmri viku áður hafði reyndar enn dýpri lægð farið nærri landinu, en vestan við það. Þrýstingur á Keflavíkurflugvelli fór niður í 942,0 hPa og í miðju lægðarinnar hefur þrýstingur verið enn lægri, innan við 940 hPa. En á skírdag versnaði veður hér á landi þegar lægðin fór um það bil í stefnu sem örin á kortinu sýnir. En hún grynntist smám saman. Töluverð úrkoma varð um landið norðanvert og var ýmist rigning, slydda eða snjókoma á láglendi. Giskað hefur verið á að myndast hafi veikt lag í snjóþekjunni á Vestfjörðum. En e.t.v. er fullt eins líklegt að það hafi gerst áður. Lægðin sem er hér austur af Nýfundnalandi fór mjög hratt til austurs og olli illviðri á Bretlandseyjum og í sunnanverðri Skandinavíu á föstudaginn langa, en kom ekki við sögu hér á landi.
Á laugardaginn fyrir páska [2.apríl] var háloftastaðan eins og kortið að ofan sýnir. Gríðarkalt loft sækir út yfir Atlantshaf úr vestri og lægðabylgja gengur á móts við það úr suðvestri.
Grunnkortið gildir á sama tíma, síðdegis á laugardag. Þá var stund milli stríða hér á landi, en úrkomusvæði er enn við Vestfirði. Það má taka eftir því að áttin þar er úr hánorðri eða jafnvel norðvestri, en áttir milli vesturs og norðurs eru óvenjulegar undan Vestfjörðum, nánast óeðlilegar vegna nálægðar Grænlandsstrandar og hinna háu fjalla þar. Lægðin sem á kortinu er austur af Nýfundnalandi dýpkar mjög ört og hreyfist eins og örin sýnir.
Rúmum sólarhring síðar, seint að kvöldi páskadags [3.apríl] er lægðin skammt undan Norðausturlandi, innan við 950 hPa í miðju. Þrýstingur á Dalatanga fór niður í 951,3 hPa og er það næstlægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu í apríl. Fjórum árum áður, 11.apríl 1990 hafði þrýstingurinn farið niður í 951,0 hPa á Bergstöðum í Skagafirði. Í þriðja sætinu er síðan mæling frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum 21.apríl 1947. Ekki er ólíklegt að aprílþrýstimet hefði verið sett 1994 hefðu stöðvar með loftvog verið jafnmargar og nú er.
Eftir að hafa náð fullum þroska tók lægðin slaufu til vesturs undir Eyjafjörð og þaðan suður og suðaustur yfir landið. Kortið gildir á miðnætti að kvöldi annars dags páska, 4.apríl, fáeinum stundum áður en flóðið mikla féll.
Í framtíðinni verður vonandi gerð nákvæmari greining á úrkomu og vindi samfara þessari lægð til að hægt verði að kveða úr um það um hvers konar atburð var í raun að ræða. Úrkoma mældist allmikil, en ekki samt aftakamikil. Tvær sjálfvirkar veðurstöðvar voru komnar á fjöllum vestra, á Þverfjalli og á Dynjandisheiði. Á þeim báðum fór vindátt vestur fyrir norður og þótt vindur mældist ekki sérlega mikill var hann þó nægilegur til að koma snjó í gil og brúnir.
Lægðakerfin sem ollu síðan snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri árið eftir fóru ekki ósvipaða braut og þessi, en veður var þó í þeim tilvikum miklu verra en hér. Allar lægðirnar báru með sér loft sem upphaflega var komið úr suðri og lægðirnar sent norður fyrir og þaðan inn yfir Vestfirði. Margar fleiri skæðar snjóflóðalægðir (og úrhellisvaldar að sumarlagi) bera þetta svipmót.
Við skulum að lokum líta á fáeinar blaðafregnir [sleiktar af timarit.is]. Þær voru mun ítarlegri og fleiri en hér er greint frá. Morgunblaðið segir t.d. mjög ítarlega frá þann 6.apríl:
Ísafirði, frá blaðamönnum Morgunblaðsins Helga Bjarnasyni og Brynju Tomer. Snjóflóðið sem féll á skíða- og sumarhúsahverfi Ísfirðinga í Seljalandsdal og Tungudal í gærmorgun [5.] skildi eftir sig mikla eyðileggingu, auk þess manntjóns sem varð. Tveir sumarbústaðir standa eftir af liðlega 40 húsum. Af flestum sést spýtnabrak eitt og er það dreift um stórt svæði ásamt innanstokksmunum. Þá hefur flóðið rifið upp flest trén úr Simsonsgarði sem er um 50 ára gamall gróðurreitur á sumarhúsasvæðinu.
Hlaupið fór yfir skíðasvæðið á Seljalandsdal og yfir flest mannvirki sem þar voru, skíðaskálinn Skíðheimar var þó utan flóðsins. Úr skíðalyftunum fjórum standa nú eftir 5-7 möstur af um 30 og allir lyftuskúrarnir eru farnir. Þá tók snjóflóðið með sér Harðarskála, sem endurbyggður var fyrir nokkrum árum, og færður út á skíðasvæðið. Megnið af flóðinu stöðvaðist á brún Seljalandsmúla, fyrir ofan Tungudalinn, og gróf þar mannvirkin af skíðasvæðinu. Áfram hélt svokallað kófhlaup, það er laus snjór á mikilli ferð, niður í Tungudalinn og lagði í rúst sumarhúsasvæðið. Þar voru 42 bústaðir og gjöreyðilögðust 40. Af flestum sést ekki annað en spýtnabrak í snjónum. Talið er að loftþrýstingurinn á undan hlaupinu hafi valdið mestum skemmdunum. Brak úr húsunum og innanstokksmunir og stór tré úr skrúðgörðunum dreifðist um stórt svæði, meðal annars hluta golfvallarins og hluti fór yfir Tunguá í dalbotninum.
Snjóflóðið féll úr 600-700 metra hæð af brúnum Eyrarhlíðar og endaði niður í á. Flóðið var vel á annan kílómetra að lengd og 400-500 metra breitt að meðaltali. Það var víða 2ja-3ja metra þykkt. Áætla má að tjónið nemi um 130 milljónum króna, þar af nemur tryggingarupphæð bústaðanna um 90 milljónum króna.
Sama blað segir einnig frá hættuástandi sem lýst var yfir á nokkrum þéttbýlisstöðum, en við tökum eftir því að það var ekki fyrr en að flóðið hafði fallið. Rýmingar voru á þessum tíma alfarið í höndum heimamanna, þó Veðurstofan hafi verið innanhandar. En einnig kemur fram að stórt snjóflóð hafi fallið við Núp í Dýrafirði daginn áður [á annan páskadag]. Hefði það e.t.v. mátt benda á yfirvofandi stórhættu. - En líklega hafa yfirvöld einfaldlega ekki frétt af því.
Hættuástandi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir í gær [5.] á Flateyri og í Hnífsdal. Á Flateyri var á milli 20-30 manns í efstu húsum hreppsins gert að flytja úr þeim þangað til hættuástandi væri aflétt, og álíka margir íbúar beðnir um að yfirgefa híbýli sín í Hnífsdal.
Almannavarnanefnd Bolungarvíkur kom saman til fundar í gærmorgun [5.], þar sem veruleg snjóflóðahætta hafði skapast í Traðarhyrnu, en íbúðarbyggðin liggur undir því fjalli.
Þingeyri. Snjóflóð féll rétt fyrir innan Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði s.l. mánudag [4. apríl] og flaut nokkuð hundruð metra yfir veginn og niður á tún fyrir neðan bæinn. Flóðið kom úr svonefndum Krossgiljum og lá leið þess nánast meðfram innstu húsum á Núpi og verður að teljast mikil mildi að enginn var þar á ferð.
Einnig segir Morgunblaðið 6.apríl frá margs konar hrakningum um páskana, mest á fjöllum, en líka í byggð:
Borg í Miklaholtshreppi. Fullvíst má telja að bóndinn á Snorrastöðum í Kolbeinsstaðahreppi, Kristján Magnússon, hafi bjargað lífi þriggja stúlkna sem ætluðu að ganga á Eldborg á páskadag [3.apríl].
Þetta kort birtist í Morgunblaðinu 6.apríl Það sýnir í grófum dráttum útlínur flóðsins mikla.
Morgunblaðið segir áfram af rýmingum 7.apríl, hér kemur fram að fjöldi snjóflóða féll í námunda við þorpið, en að flestir voru til þess að gera rólegir samt.
Flateyri. Almannavarnanefndin skipaði svo fyrir að morgni þriðjudags [6.] að hús í efstu götu bæjarins skyldu rýmd vegna snjóflóðahættu. Látlaus ofankoma hafði verið nóttina áður og var snjór mjög blautur og þungur. Íbúar húsanna fluttu með tannbursta sína og sængur til ættingja eða kunningja á öðrum stöðum í bænum og bíða þess rólegir að hættuástand verði flautað af. Ástandið nú svipað og fyrir fjórum árum. Ekki er hægt að segja að menn hafi kippt sér sérstaklega upp við þessar aðgerðir, því samskonar ástand skapaðist árið 1990 þegar fólk úr sömu húsum var í viku frá heimilum sínum, vegna snjóflóðahættu. Snjóalög í hlíðum Önundarfjarðar eru með mesta móti og bætti hressilega í um páskahelgina. Má sjá snjóspýjur á víð og dreif um fjallshlíðina fyrir ofan Hvilftarströnd, sem er fyrir innan bæinn. Var veginum um hana lokað á tímabili vegna snjóflóðahættu, en hefur hann verið opnaður aftur. Í ljósaskiptunum á þriðjudagskvöld [5.] féll snjóflóð úr bæjargilinu fyrir ofan Flateyri, en staðnæmdist í öruggri fjarlægð frá byggð. Urðu nokkrir vitni að því þegar það flóð féll og er óhætt að segja að það hafi verið hrikaleg sjón að sjá þegar snjórinn steyptist niður gilið og breiddist út í hlíðinni rétt fyrir innan bæinn.
Tíminn segir 7.apríl frá snjóflóði í Álftafirði daginn eftir að stóra flóðið féll.
Snjóflóð féll úr Sauratindum í Sauradal innan við Súðavík í gærmorgun [6.] og braut þar staura í háspennulínu en engin byggð er í dalnum.
Við látum hér staðar numið.
21.3.2024 | 11:40
Fyrstu 20 dagar marsmánaðar 2024
Fyrstu tuttugu dagar mars hafa verið fremur hlýir. Meðalhiti í Reykjavík er +2,7 stig, +2,0 ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og +1,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í sjöttahlýjasta sæti (af 24) það sem af er öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar 2004, meðalhiti þá 5,2 stig, kaldastir voru dagarnir hins vegar í fyrra (2023) meðalhiti þá -3,0 stig. Á langa listanum er hiti nú í 27. sæti (af 152). Hlýjast var 1964, meðalhiti +6,4 stig, en kaldast 1891, meðalhiti -5,7 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú +0,4 stig, raðast í 37. sæti 89 ára.
Á spásvæðunum er raðast hiti í 5. til 8. sæti á öldinni, að tiltölu hlýjast á Austurlandi að Glettingi. Á einstökum stöðvum er jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár mest á Miðfitjahól á Skarðsheiði +2,5 stig og +2,3 á Brú á Jökuldal. Minnst er vikið á Siglufirði +0,1 stig.
Úrkoma hefur mælst 44,8 mm í Reykjavík. Það er um 80 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 37,8 mm, í rétt rúmu meðallagi. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 138,8 mm, um 70 prósent umfram meðallag.
Sólskinsstundir hafa mælst 86,5 í Reykjavík, 20,7 fleiri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 65,3.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2024 | 16:27
Lægð sem gefa þarf gaum
Í dag hefur slydduhríð gengið yfir höfuðborgarsvæðið, annars staðar hefur ýmist verið rigning eða snjókoma. Heldur hráslagalegt veður.
Kortið sýnir stöðuna nú síðdegis (kl.18 - spá evrópureiknimiðstöðvarinnar). Lægð er á Grænlandshafi og frá henni liggur úrkomubakki til austurs, sá sem er að fara yfir þegar þetta er skrifað nú um kl.16 á miðvikudag 20.mars. Lægðin sem nefnd er í fyrirsögninni er sú sem á kortinu er suður í hafi, 978 hPa í miðju. Hún dýpkar rösklega og stefnir til norðausturs eða norðnorðausturs og fer á morgun nærri Suðausturlandi eða yfir það. Lægðin ber svipmót illrar ættar þó ekki sé hún þó af allra verstu gerð.
Hún er ekki alveg í fasa við háloftalægðina vestan við - eins og sjá má af kortinu hér að neðan. Það gildir kl. 6 í fyrramálið (fimmtudag).
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum örvum en hiti í fletinum með litum. Lægðin illa er hér við suðurströndina, rétt komin framhjá eldri lægðinni fyrir vestan - stefnumótið tekst ekki alveg (reikni tölvurnar rétt), lægðin lendir því ekki í svonefndum óðavexti sem kallaður er. Henni er nú spáð niður í um 960 hPa síðdegis á morgun, miðjan þá rétt fyrir austan land. Gróflega má segja að hefði stefnumótið tekist fullkomlega hefði lægðin orðið fáeinum hPa dýpri en ráð er fyrir gert - munar um hvað lítið sem er. Það hjálpar líka að hreyfingin er ákveðin - taki lægðin einhverja slaufu um sjálfa sig gerist það austan við land.
Þrátt fyrir þessar lítillega mildandi aðstæður er full ástæða til að gefa þessari lægð gaum. Norðaustan- og norðanáttin vestan við hana verður mjög hvöss, sérstaklega á Vestfjörðum og þar að auki virðist svo vera sem mjög mikil úrkoma verði um landið norðanvert, aðallega sem snjór í fjöllum. Úrkomuútgildavísar reiknimiðstöðvarinnar eru mjög háir og úrkomutölur í spánum líka, ávísun á veruleg leiðindi.
Eins og venjulega þá látum við Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila um allar viðvaranir og hvetjum þá sem eitthvað eiga undir að fylgjast vel með spám þeirra. Það borgar sig.
19.3.2024 | 20:50
Hugsað til ársins 1968
Í veðursögunni eru árin 1965 til 1971 kennd við hafís. Olli hann þá meiri vandræðum en verið hafði um áratugaskeið. Ísinn var mestur árið 1968 og sá mesti frá árinu 1902. Stakir jakar komust vestur undir Kúðafljótsós (en allt til Vestmanneyja 1902). Hér er fjallað um veður og tíðarfar þetta merka ár. Nokkur eftirminnileg illviðri gerði, sjóskaða, snjóflóð, vatnavexti, skriðuföll og færð var oft ill. Tíðarfarið var þó ekki alslæmt og síðari hluta ársins komu mjög hagstæðir og hlýir kaflar.
Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi (þótt langur sé). Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Langflestir textarnir þetta árið eru fengnir úr Dagblaðinu Tímanum. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn úr gagnagrunni Veðurstofunnar. Sömuleiðis notum við okkur fáeinar tíðarfarslýsingar og athugasemdir veðurathugunarmanna. Talnasúpu má finna í viðhenginu. Langt verkfall í mars stöðvaði blaðaútgáfu. Þetta var einnig ár mikilla tíðinda í þjóðlífinu og á erlendum vettvangi.
Janúar var óhagstæður, kaldur og umhleypingasamur. Svellalög óvenju mikil. Febrúar var sömuleiðis óhagstæður til lands og sjávar. Kalt var og snjór mikill. Mars var illviðrasamur og óhagstæður, nema rétt byrjun mánaðarins. Í apríl þótti tíð sæmilega hagstæð, einkum sunnanlands. Maí var mjög óhagstæður framan af, en síðan batnandi. Kalt var í veðri, sérstaklega á hafíssvæðunum. Í júní var tíð lengst af óhagstæð og köld, einkum var kalt við sjóinn á Norður- og Austurlandi, þar sem hafísinn var viðloðandi. Júlí var kaldur til að byrja með en síðan gerði hlýindi, nema að enn var kalt við sjóinn norðan- og austanlands. Í ágúst var ágæt tíð inn til landsins á Norðausturlandi, en annars óhagstæðari. Í september var tíð yfirleitt hagstæð, en þurrkar þó stopulir. heyfengur misjafn og sömuleiðis uppskera úr görðum. Október var óhagstæður á Norður- og Austurlandi, en góð haustveðrátta var syðra. Mjög þurrt var þá á Vesturlandi. Í nóvember var hlý og hagstæð tíð lengst af. Blóm sprungu út í görðum. Desember var hagstæður framan af en síðan var frosthart með köflum.
Fyrstu dagar janúarmánaðar voru alveg sérlega kaldir. Óvenjuhvasst var með miklu frosti. Hungurdiskar hafa áður fjallað um þetta mikla kuldakast í sérstökum pistli.
En blöðin sögðu líka frá því og þeim erfiðleikum sem upp komu hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Tíminn 4.janúar 1968:
Óskaplegur veðrahamur hefur gengið yfir landið síðustu sólarhringa. Iðulaus stórhríð gengur yfir Norður- og Austurland, og má segja, að allir vegir í þessum landshlutum séu tepptir. Sama er að segja um ástand vega á Vestfjörðum, en þar hríðar ekki eins. Frostið er yfirleitt 1520 stig á landinu og hefur mælst 30 stiga frost á Hveravöllum. Ís ryðst upp að landinu fyrir norðan og vestan. Vestfjarðabátar komast ekki á miðin fyrir ís, sem nú lokar mynni Ísafjarðardjúps. Íshröngl er víða á fjörum norðan lands, en skyggni þar er mjög slæmt vegna hríðarinnar og því erfitt að gera sér grein fyrir hvort mikill ís er fyrir landi og hve þéttur hann er. Á Suður- og Vesturlandi er ekki hríðarveður en mikil frostharka. Eru allir vegir færir fyrir umferð á þessum landssvæðum.
Síðan segir af hitaveitunni og vandræðum hannar: Tíminn 5.janúar:
EJ-Reykjavík, fimmtudag. Margir hafa hringt til blaðsins í dag vegna kulda í íbúðum vegna lélegrar hitaveitu. Hafa ýmsir flutt úr íbúðum sínum vegna kuldans. T.d. fluttu hjón með ungt barn úr íbúð á Ásvallagötunni yfir í Kópavog, en þar er olíukynding, sem menn þakka fyrir daglega um þessar mundir. Einnig hefur fólk á Njálsgötunni flutt úr ísköldum íbúðum, svo dæmi séu nefnd. Þá hefur mikill kuldi verið í íbúðum jafnvel á þeim fáu stöðum í gamla bænum, þar sem sæmilegur hiti hefur verið undanfarin ár t.d. í Miðstræti. Kona á Kárastígnum hringdi í blaðið í dag, og lýsti nokkuð ástandinu í íbúð sinni í kuldanum. Er saga hennar táknræn fyrir ástandið. Það hefur ekki komið vatnsdropi síðan á þriðjudagskvöld, sagði hún, það er frost í íbúðinni." Hefur þetta ekkert batnað í dag? Nei, ekkert. Maður situr hérna með loðhúfu á hausnum og vettlinga á höndunum, og í kuldastígvélum. Sem sagt sama ástand og í desember-kuldunum? Alveg það sama. Þá forkældist ég svo, að ég er ekki orðin góð af því ennþá, og býst ekki við að ég verði það í allan vetur, þegar maður fær svo þetta helvíti ofan í það. Þetta er indælið, sem þeir bjóða Reykvíkingum upp á, sagði hún, og þetta fólk í gamla bænum það á engan tilverurétt hjá þeim. Ég sagði hitaveitustjóra þetta, og spurði hvort ekkert væri hægt að gera til úrbóta. Ja, það verður ekki í dag, sagði hann. Já, þetta er ljóta djöfulsins ástandið. Og svo eru þeir að þvæla um einhverja helvítis kyndistöð sem á að fara að taka í notkun eftir viku eða svo. Þetta er einhver ný kyndistöð með tveimur kötlum. Þetta er svo hræðilegt hérna hjá okkur. Ég get svarið, að ef það fer vatnsdropi einhvers staðar þá frýs hann. Og svo er maður með smádreng inni í þessu helvíti. Þetta er eins mikið neyðarástand og verið getur, því eins og ég sagði er maður krókloppinn. Ég var að reyna að elda í morgun og varð að hafa vettlinga á höndunum, og hef ekki tekið þá ofan í nokkra daga.
OÓ Reykjavík, fimmtudag. Mikið hefur dregið úr frosthörkum um allt land í dag. Sums staðar var aðeins fárra stiga frost á annesjum á Norðausturlandi, var sums staðar komið upp undir frostmark, til dæmis á Raufarhöfn og í Grímsey. Hins vegar hefur ísinn færst nær landinu og er orðinn landfastur við Kögur. Er nú leiðin norður fyrir Horn lokuð öllum siglingum. Mælifellið varð að snúa þarna við í morgun og var samfelld ísbreiða út frá landinu.
Tíminn segir 7.janúar frekar af skemmdunum á veitunni:
GÞE-Reykjavík, laugardag. 20 manna flokkur vinnur nú a8 lagfæringu skemmda sem urðu á hitaveitukerfum og ofnum í síðasta kuldakasti. Í viðtali við Tímann í morgun taldi Gunnar Kristinsson verkfræðingur Hitaveitunnar, að um skemmdir væri að ræða í u.þ.b. 100 húsum á hitaveitusvæðum, sem þeir vissu um, en sennilega væru ekki öll kurl komin til grafar. Skemmdir þessar eru mismunandi miklar, flestar fremur smávægilegar en sumar allmiklar. Sagði Gunnar, að þær lægju einkum í ofnum og kerfum, og það mætti lagfæra án mjög mikillar fyrirhafnar. Sums staðar munu ofnar hafa sprungið og vatn valdið miklum skemmdum. Að sögn verkfræðingsins er það reyndar óvíða, en þær skemmdir verða að fullu kannaðar og metnar og mun Hitaveitan sennilega taka þátt í viðgerða- og bótakostnaði.
Í blöðum var mjög oft sagt frá samgönguerfiðleikum úti á landi. Við leyfum okkur að taka upp margar slíkar frásagnir, en þær eru enn fleiri. Tíminn 12.janúar:
OÓ-Reykjavik, fimmtudag. Færð var mjög þung í Reykjavík og nágrenni í dag. Í morgun og fram eftir degi var blindbylur og undir snjónum var hjarn og íshella sums staðar. Var mikil hálka á götunum og þungfært. Í Kópavogi og Fossvogi var óskapleg hálka í morgun og voru langar bílalestir stansaðar á Reykjanesbrautinni. Þegar leið á morguninn var borið salt á vegi og varð þá akfært. Síðdegis fór að rigna og varð þá mikill vatns og krapaelgur á götunum. bæði akbrautum og gangstéttum. Var víða illt yfirferðar en ekki var mikið um árekstra. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar var veðrið verst í Reykjavik og nágrenni, en betra í öðrum landshlutum. Í dag var mikil snjókoma á austurleiðinni um Þrengsli, og var þar eiginlega ekkert ferðaveður. En austur í Árnessýslu og þar austur af var veðrið miklu betra og minni snjókoma.
BB-Grundarfirði, fimmtudag. Um klukkan 17:30 í gær, miðvikudag [10.janúar], varð það óhapp á veginum milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar, að lítill bíll af gerðinni Ford Cortina fauk út af veginum, fór tvær veltur og kom aftur niður á hjólin. Bifreiðarstjórinn, sem var einn í bílnum, slapp ómeiddur. Gat hann sjálfur gengið frá bílnum og heim á leið, en er hann var nýlagður af stað, kom bíll, sem tók hann með til Grundarfjarðar. Er hann svo ætlaði að sækja bílinn um kvöldið með menn sér til aðstoðar, brá þeim heldur en ekki í brún, því að þá hafði bíllinn farið eina veltu enn og lá nú á toppnum og hefði sjálf sagt farið miklu lengra, ef ekki hefði verið þarna girðing, sem hann stöðvaðist við. Bifreiðin er furðanlega lítið skemmd eftir þessar veltur og má það teljast furðulegt. Geysimikið hvassviðri var hér um slóðir í gær.
Tíminn segir enn af hríð í Reykjavík og nágrenni 18.janúar:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag [17.janúar]. Algjört umferðaröngþveiti skapaðist á vegum í nágrenni Reykjavíkur seinni hlutann í dag. Lokuðust allir vegir að og frá borginni um kl.18. Talsverð snjókoma var og skafrenningur. Mikil hálka myndaðist á vegunum og stöðvuðu bílar, sem hvorki komust fram eða til baka, alla umferð.
Vísir segir frá 23.janúar:
Allmikil flóð urðu á vegum í Rangárvallasýslu í gær eftir að hlýnað hafði snögglega í veðri og rignt allmikið. Flæddi víða yfir vegi í Fljótshlíð og einnig á suðurlandsvegi á Rangárvöllum. Ekki munu vegir þó hafa lokast alveg og komust stórir bílar leiðar sinnar.
Veðráttan segir að þann 23.janúar hafi þak fokið af nýbyggðu húsi á Burstarfelli í Vopnafirði. Um nóttina gerði snarpa norðvestanátt í kjölfar lægðar sem fór yfir landið.
Hótelið í Fornahvammi kom oft við sögur af hrakningum. Var greinilega nauðsynlegt. Tíminn 27.janúar:
GG-Fornahvammi, föstudag. Hingað komu allmargir bílar í gær, vegna þess að í dag átti að opna heiðina, og hjálpa bílum norður og suður yfir hana. Gistu bílstjórarnir og farþegar hér í nótt. Í nótt hlóð síðan niður lausum snjó, og var sæmilegt veður fram á hádegi. Þá skall hann á með norðan stórhríð, og hér verða 40 manns og 20 bílar að bíða þar til leiðin opnast.
Þann 26. janúar gerði eftirminnilegt veður. Djúp lægð fór yfir landið. Í norðurjaðri hennar dengdi niður miklum snjó og þegar lægðin var komin yfir skall á stórhríð með gaddfrosti - og ísingu á miðum. Ritstjóri hungurdiska var á Akureyri um þessar mundir og man vel hversu skyndilega hríðarbylurinn skall á síðdegis. Breskur togari fórst við Mánáreyjar að því er talið er. Fréttir af því bárust smám saman. Í Bretlandi höfðu áður verið miklar áhyggjur af öryggi togara og þóttu margir illa búnir, miklar slysafleytur. Veðrin þessa dagana sýndu það líka klárlega. Fyrstu fréttir af þessum togara voru þó óvæntar. Tíminn 30.janúar:
FB-Reykjavík, mánudag. Þúsundir svartfugla liggja nú dauðir eða hálfdauðir í fjörum, víðs vegar í kring um Axarfjörð, og er þetta mesti fugladauði af völdum olíumengunar sjávar frá því á stríðsárunum hér við land, að því er Finnur Guðmundsson fuglafræðingur taldi í viðtali við blaðið í dag. Hrafn Benediktsson fréttaritari blaðsins á Kópaskeri hringdi í dag, og sagði að menn frá Kópaskeri hefðu gengið á fjörur í dag, og þá blasað við þeim óhugnanleg sjón. Þúsundir svartfugla hefðu legið dauðir og hálfdauðir í fjörunni, ataðir olíu, eða einhverju því um líku. Sagði hann, að sömu sögu mundi að segja um fjörur vestur alla Sléttu. Þá bárust fréttir frá Mánárbakka á Tjörnesi um hið sama. Einnig skýrði bóndinn á Sandvík á Melrakkasléttu frá því í fréttum, að þar væri mikill fugladauði í fjörunni á allt að tveggja kílómetra kafla af völdum olíunnar.
Svo áttuðu menn sig á því hvað var á seyði. Tíminn 31.janúar:
OÓ-Reykjavík, þriðjudag. Allar líkur benda til að togarinn Kingston Peridot frá Hull hafi farist í ofviðri við Mánáreyjar 26. janúar s.l. Í dag var skipulögð leit og var gengið á fjörur á svæðinu milli Húsavíkur og Raufarhafnar. Önnuðust björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins leitina. Hríð var fyrir norðan í dag og skyggni ekki yfir 200 metrar og torveldaði það leitina mjög. Ekki var flugveður og því ekki hægt að leita úr lofti. Einnig var gengið á fjörur í Grímsey. Þegar hafa fundist þrír bjarghringir úr togaranum reknir á fjörur og einnig gúmmíbjörgunarbátur sem staðfest er að hafi verið um borð í Kingston Peridot. Fullvíst þykir einnig að olían sem flýtur á Axarfirði sé úr togaranum. Síðast heyrðist til togarans kl.10 að morgni 26. janúar. Hafði skipstjórinn þá samband við togarann Kingston Sardius, sem er í eigu sama útgerðarfélags. Var Kingston Peridot þá að veiðum vestan Grímseyjar og var á austurleið. Þann 26. janúar var ofsaveður á þessum slóðum, sem skall á snögglega síðari hluta dags Þá mældust 10 til 12 vindstig í Grímsey. Mánárbakka og Siglunesi. Snjókoma var mikil og skyggni ekkert. Stórsjór var þennan dag og frostið 1114 stig. Daginn eftir var einnig versta veður, snjókoma og frosthörkur en vindur heldur hægari. Það álitið að togarinn hafi farist við Mánáreyjar i ofviðrinu þann 26. janúar. Um morguninn var hann að veiðum við Grímsey, eins og fyrr er getið, en þegar ofviðrið skall á hefur hann hætt veiðum, og var skipstjórinn bú inn að láta vita að hann væri á austurleið. Þá kemur og heim að vindáttin var norð-norðvestan þegar togarinn fórst og hefur olíuna rekið að vesturströnd Melrakkasléttu. Á Kingston Peridiot var 20 manna áhöfn, Var þetta fyrsti túr togarans eftir sex vikna klössun, sem gerð var á honum í Englandi.
Tíðarfar í febrúar var afskaplega óhagstætt. Þá gerði tvö sérlega eftirminnileg veður. Norðaustanveður þann 3. og 4. með hríð, snjóflóðum og sjóslysum, en undir lok mánaðarins fádæma úrkomu og hláku með óvenjumiklum flóðum í ám, sérstaklega um landið suðvestanvert.
Helgin 3. til 4. febrúar er mörgum enn minnisstæð. Þá gekk gríðarlegt illviðri yfir landið vestanvert, Vestfirðir urðu sérlega illa úti. Tveir breskir togarar fórust í Ísafjarðardjúpi og einn íslenskur bátur. Fjallað var um veður þetta í sérstökum pistli hungurdiska. Þar var sagt frá aðdraganda þess og ástæðum, og atburðarás rakin. Hér að neðan er hins vegar bætt við ýmsum nánari upplýsingum um tjón og vandræði eins og fjallað var um í blöðum á þessum tíma, einkum þó Tímanum. Athugið að textarnir kunna að vera nokkuð styttir hér - en auðvelt er að finna heildina með því að fletta viðkomandi heimild á timarit.is.
Tíminn segir frá þriðjudaginn 6.febrúar:
FB-Reykjavík, Óvenjulegur veðurofsi gekk yfir Vestfjarðakjálkann, vestanvert Norðurland og nokkuð suður eftir Vesturlandinu nú um helgina. Komst vindhraðinn víða upp i 12 vindstig, en það er það mesta, sem Veðurstofan mælir nú orðið. Telja sumir, að á stöku stað hafi vindhraðinn jafnvel orðið enn meiri. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar varð hvassviðrið mest á Vestfjörðum og allt austur í Skagafjörð, og náði það hámarki um miðjan dag í gær. 12 vindstig mældust m.a. á Galtarvita, Grímsey, Kjörvogi, Hvallátrum, Æðey og í Vestmannaeyjum. Á Vesturlandi var frá 5 til 10 stiga frost, en frostlaust á Austurlandi. Mikil snjókoma var á Vestfjörðum, en þar var einnig mikil skafhríð, og stundum ekki gott að gera sér grein fyrir, hvort aðeins var um skafhríð að ræða eða hvort ofansnjókoma var. Sunnanlands var veðrið þolanlegt í gær og náði eiginlega aldrei hingað að Faxaflóanum, en hins vegar var hvassara í dag en í gær hér um slóðir.
GS Ísafirði, OÓ-Reykjavík, mánudag. Togarinn Ross Cleveland frá Hull fórst með allri áhöfn, 19 manns, á Ísafjarðardjúpi i gærkvöldi. Um svipað leyti strandaði annar breskur togari á Snæfjallaströnd. Var lengi vel tvísýnt um hvort takast mætti að bjarga áhöfninni, en í dag bjargaði varðskipið Óðinn 18 af 19 skipverjum, en einn fórst. Skipið er að öllum líkindum ónýtt í fjörunni. Togarinn, sem fórst, hvolfdi skyndilega, en mikil ísing hafði hlaðist á skipið. Ofsaveður var á þegar skipunum hlekktist á og héldu 22 breskir togarar sjó á þessum slóðum. Áttu áhafnir skipanna fullt í fangi með að halda þeim ofansjávar og stóðu sjómennirnir við að höggva ís, sem hlóðst ofan á skipin. Um svipað leyti og togarinn fórst strandaði annar breskur togari, Notts County, rétt innan við Súrnadal á Snæfjallaströnd. Varð skipið Óðinn, sem var statt undan Grænuhlíð, kom fljótlega á strandstað.
SJ-GÞE-FB-Reykjavík, mánudag. Hvaðanæva að af Vesturlandi, Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi berast nú fréttir af skemmdum, sem orðið hafa í veðurofsanum, sem gekk yfir þessa landshluta á sunnudaginn og í morgun. Veðurhæðin komst í 12 vindstig á mörgum stöðum, og má segja að skemmdir hafi orðið minni, en búast hefði mátt við, af þeim sökum. Snjóflóð féllu á tveimur stöðum, í Hvammssveit og á Siglufirði, en ekki sakaði fólk, þótt hús og eigur manna eyðilegðust. Bátar slitnuðu upp og rak á land eða þeir sukku í hafnirnar, rúður brotnuðu, þök fuku af húsum og skemmdir urðu bæði á rafmagns og símalínum. Í dag hafði blaðið samband við ýmsa fréttaritara sína, sem segja hér á eftir frá því helsta, sem aflaga fór í heimabyggðum þeirra.
EK-Laugum. Mjög mikið tjón hefur orðið af völdum snjóskriðufalla á bænum Ketilstöðum sem stendur afskekkt við Hvammsfjörð innanverðan. Skriða, sem féll á bæinn í gær tók af geymsluskúr, sem áfastur var við íbúðarhúsið, og í voru mikil verðmæti, m.a. nýlegur jeppi, dráttarvél, heyvinnutæki, fóðurvörur, áburður og ljósavél heimilisins. Allt þetta er sennilega ónýtt, en ekkert hefur fundist utan jeppinn, sem bóndinn á bænum fann í þremur hlutum við flæðarmálið. Líklega hefur hitt skolast út í sjó. og mun tjón þetta nema hundruðum þúsunda króna. Mikil mildi var að skriðan rann ekki á íbúðarhúsið. sem er nýlegt og úr steini, en stórir skaflar lentu beint framan við útgöngu dyrnar, og hefur heimilisfólk þurft að skríða út og inn um glugga til að geta sinnt skepnum og öðrum störfum. Í nótt féll önnur skriða á Ketilstaði, laskaði hún heyhlöðuna nokkuð, en annað tjón hlaust ekki af. Skriður þessar hafa hlaupið úr hárri hlið rétt ofan við bæinn, en engin eru áður dæmi skriðufalla á þessum slóðum. Hefur fólkið nú afráðið að flýja bæinn af ótta við fleiri skriður og hefur þeim verið boðin vist á Teigi, sem er næsti bær við. Á Ketilsstöðum búa hjón á sjötugsaldri. Magnús Halldórsson og Lára Ólafsdóttir. Annað fólk er ekki á bænum.
KBG-Stykkishólmi. Talsvert tjón hefur orðið hér af völdum veðurofsans. Skemmdir hafa orðið á 7 bátum, sem lágu við hafskipabryggjuna, þegar óveðrið dundi yfir Tveir slitnuðu upp frá bryggjunni og rak þá upp í fjöru í gær. en þeir náðust út á flóðinu um kvöldið og voru lítið skemmdir eftir atvikum. Járnþök losnuðu og fuku að einhverju leyti af nokkrum húsum, m.a. vöruskemmu Kaupfélagsins, Trésmiðjunni Ösp, o.fl. Hjallur og geymsluskúr við Reitarveg fauk, og ennfremur nýbyggð timburgeymsla hjá Skipavík h.f. Þá urðu nokkrar truflanir á rafmagnslínum og því straumlaust með köflum, og slokknaði á götuljósum. Allir vegir eru lokaðir m.a. komst mjólkurbíllinn ekki frá Grundarfirði í dag. Ekki er þó vitað um hrakninga á fólki. Í gærkvöldi rak ís í höfnina inn af Gilsfirði og er hún því slétt og kyrr langt út fyrir Súgandisey. Mun íshroði sem var við land í gær hafa hlíft bátunum, sem rak upp á fjörur í gær .Rokið hefur sennilega farið upp í 1012 vindstig, þegar verst lét í gær, en upp úr hádegi lygndi nokkuð í dag er ennþá talsvert hvassviðri.
BJ-Siglufirði, Hér á Siglufirði hefur verið aftakaveður undanfarna tvo sólarhringa og er slæmt enn, norðaustan hvassviðri og slydda. Mikið hefur snjóað og snemma á sunnudagsmorgun féll snjóflóð á húsið Suðurgötu 56. Snjóflóðið kom vestan megin á húsið úr Strengsgili, fór inn um glugga. fyllti stofur og braut allt lauslegt. Þá sprengdi það upp þakbrún hússins og fyllti loftið Það vildi heimilisfólki til happs að svefnherbergin eru framan til í húsinu og sakaði því engan. Þetta er nýlegt einlyft steinhús og urðu miklar skemmdir á því af völdum snjóflóðsins. Einnig féll nokkur snjór á þak næsta húss Suðurgötu 58. Ekki varð þó um alvarlegt tjón að ræða. Færð er sæmileg hér í grennd. Strákagöng voru opnuð á fimmtudag en lokuðust síðan aftur í gær.
ÞJ-Húsavík, mánudag. Stórviðrið olli tjóni hér á Húsavík. Trillubáturinn Sigurpáll sökk í höfninni. Báturinn er rúmar þrjár lestir á stærð, og er eigandi hans Karl Pálsson sjómaður. Mikill krapi og íshröngl var í höfninni, og mun ísinn hafa lagst á bátinn og þrýst honum niður. Margir aðrir bátar voru í höfninni, en þeir stóðu óveðrið af sér án skemmda. Allmikið af legufærum báta sökk i höfninni, en skemmdir á þeim eru ekki kannaðar ennþá. Þá má geta þess, að hurðir í birgðaskemmu Kísiliðjunnar brotnuðu. Skemman var reist í sumar, og stendur hún á uppfyllingu við Húsavíkurhöfn. Í örfáum húsum losnaði um þakplötur, en stórtjón hlaust ekki af því. Ein stór rúða í Járn- og glervöruverslun Kaupfélags Þingeyinga brotnaði einnig. Hér á Húsavík varð veðrið mest milli klukkan 5:30 og 6 á sunnudagsmorguninn, en þá fór að draga úr því. Þó var mjög hvasst allan sunnudaginn og fram yfir hádegi í dag.
Á.T. Rifi. Símastaurar hafa brotnað og allmiklar skemmdir hafa orðið á raflínum hér af völdum ofviðrisins, sem geisað hefur. Rafmagnslaust varð um hádegi í gær og hélst svo í heilan sólarhring eða til hádegis i dag. Hlaust vitaskuld slæmt ástand af, en þó bætti úr skák að frostlaust var. Ekki urðu teljandi skemmdir á mannvirkjum í ofviðrinu en vindur hefur áreiðanlega farið upp í 12 stig, þegar verst gegndi. Girðingar og staurar brotnuðu. og annað innsiglingamerkið við Rifshöfn slitnaði upp og er horfið, en hitt hefur færst úr stað. Bátar sem í höfninni voru, skemmdust ekki. Næstum allir vegir eru ófærir en þó er hægt að þrælast til Ólafsvikur með erfiðismunum.
GG-Fornahvammi. Um þrjúleytið, aðfaranótt sunnudagsins brast veðrið á hér og má sega, að það hafi verið rofalitið síðan, og er hér versta veður ennþá, og mikill skafrenningur. Ég fór út um hálf sjö á sunnudagsmorgun, og tel ég það hinn versta veðurofsa, sem ég hef komið út í. Mestallt járn hefur fokið af þakinu á byggingu, sem er hér norðan við hótelbygginguna, aðeins nokkrar plötur eru eftir. Fjögur börn okkar og tengdasonur voru á þorrablótinu að Hreðavatni, sem haldið var s.l. laugardagskvöld. Komust þau fyrst heim nú á miðjum mánudegi. Hér hafa engir skaðar orðið af völdum fárviðrisins, enda er hér yfirleitt lygnt í þessari vindátt.
GT-Bíldudal. Hér var fárviðri í gær, ofsabylur og 67 stiga frost. Vegurinn til Patreksfjarðar, sem nýlega hafði verið ruddur lokaðist aftur um helgina vegna snjókomu. Veðrið dundi mjög skyndilega yfir undir morgun. Engar skemmdir urðu á mannvirkjum utan járnplötur fuku af þökum nokkurra húsa. Bátar voru allir í höfn og sakaði ekki. Ekki mun heldur fólk hafa orðið fyrir slysum eða lent í hrakningum í þessu óveðri. Í dag er ennþá stinningskaldi, en hefur þó lægt talsvert. Frostlaust er orðið, en engir bátar eru á sjó. Breskir togarar og einn íslenskur hafa leitað hér hafnar í ofviðrinu sem geisað hefur síðan í fyrri nótt. Í dag hafa mælst hér rúm 5 vindstig og er það nokkuð minna en í gær, en hér er yfirleitt fremur stillt í austan og norðaustan átt. Samgöngutruflanir eru hér ekki meiri en svo, að mjólkurflutningar gengu greiðlega í morgun.
Krújl-Bolungarvík. Það hefur verið hér óskaplegt veðurfar síðan á laugardagskvöld. Síðari hluta laugardags fór héðan margt manna bæði til Hnífsdals og Ísafjarðar á skipi og í bílum og sótti þangað þorrablót, þorrablót Grunnvíkinga í Hnífsdal og Strandamanna á Ísafirði. Eins og gengur fékk fólk fyrir sig unglinga til þess að gæta heimilanna, á meðan það var í burtu, en fólkið var allt innlyksa í hríðinni, og er það enn. Er því slæmt ástand á sumum heimilum núna. Meðal þeirra, sem í burtu fóru, voru bæði læknir og ljósmóðir staðarins, og þykir það mjög bagalegt undir svona kringumstæðum. Er þetta mjög áhættusamt, og nær því vítavert, að bæði læknir og ljósmóðir skuli taka sér það leyfi að yfirgefa staðinn í einu þegar veðurspá og veðurútlit eru eins og það var á laugardaginn. Í dag fór svo jarðýta á undan björgunarleiðangri, sem fór til þess að leita að Heiðrúnu II og einnig var búist við að önnur ýta komi á móti frá Ísafirði. Ef slóðirnar ná saman, má búast við að fólkið komist heim í dag. Í kvöld skýrði fréttaritari Tímans í Bolungarvík frá að þak hafi fokið af íbúðarhúsi s.l. nótt. Í dag og gær hefur verið meira og minna rafmagnslaust og fjöldi manns hefur þurft að yfirgefa hús sín vegna kulda og fengið inni hjá þeim sem ekki eru upp á rafmagn komnir með upphitun húsa sinna. Í dag fór Hallur Sigurbjartsson rennismiður áleiðis til Ísafjarðar á vélsleða Slysavarnarfélagsins til að sækja læknirinn og ljósmóðurina sem fóru á þorrablót s.l. laugardag og hafa verið veðurteppt síðan.
GS-Ísafirði. Á laugardag [3.] var hér prýðiveður og fór þá fjöldi manna á skíði í Seljalandsdal í Harðarskála. Voru það 30 unglingar, sem fóru í skálann. Í veðurofsanum á sunnudag fór hjálparsveit skáta í skálann, en ómögulegt var að koma unglingunum til Ísafjarðar aftur vegna ofsans. Veðurofsinn var svo mikill, að meðlimir hjálparsveitarinnar urðu að fleygja sér niður hvað eftir annað. Í dag fór svo sveitin upp eftir aftur og sótti alla sem voru í Harðarskála. Skýlið, sem stjórntæki skíðalyftunnar eru í, tættist í sundur og var það þó sterkbyggt. Var það áður notað sem slysavarnaskýli og hafði staðið af sér margar hryðjur. Skemmdir á stjórntækjunum eru ókannaðar. Á laugardag héldu brottfluttir Grunnvíkingar þorrablót í Hnífsdal. Var það sótt af Grunnvíkingum í Bolungavík og Ísafirði. Var því lokið kl. 3 um nóttina, var þá komið vitlaust veður. Fóru þá nokkrir bílar inn Eyrarhlíð til Ísafjarðar. Allmargir urðu fastir í hlíðinni og varð fólkið að vera í þeim, þar sem þeir voru. og hafði hita meðan bensínið entist. Kl.9 á sunnudag fór hjálparsveit skáta með teppi og kaffi á hitabrúsum til fólksins. Eftir hádegi var fólkið sótt af hjálparsveitinni og varð að draga sumt á sleðum til byggða.
BS-Hvammstanga. Hér var veðrið aldrei eins aftakaslæmt og víða annars staðar, og hefur gengið niður og er nú bjart og stillt. Engin tjón hafa orðið hér, en smárafmagnstruflanir.
JJ-Skagaströnd. Hér hefur verið mikið hvassviðri að undanförnu. Í nótt var aftakahríð. Aðfaranótt sunnudags var hópur skáta í skíðaskála í Spákonufellsborg, skall þá á mesta illviðri, og sneru þeir heim og komust heilu og höldnu. Engir skaðar hafa orðið af völd um veðursins. Lauslegar fregnir hafa borist um að tveir bátar hafi sokkið við bryggju á Hólmavík, Víkingur og Kópur, og báturinn Flugaldan hafi slitnað upp og rekið upp á fjörur á Djúpavík, en símasambandslaust er við þessa staði.
GÓ-Sauðárkróki. Hér í nágrenni hefur hvergi verið ofsaveður nema í Blöndudal. Ekki hefur heyrst um tjón af veðri.
NH-Hofsósi. Hér er nú fremur gott veður og færð sæmileg. Þó eru mikil svellalög og jarðlaust. Undanfarna tvo daga hefur verið hvassviðri og austanátt, engin snjókoma og bloti. Á bænum Nýlendu í Deildardal í Skagafirði fauk hluti af þaki íbúðarhússins. Er unnið að bráðabirgðaviðgerð á þakinu í dag.
BS-Ólafsfirði, Hér er nú norðaustan bleytuhríð og ekki mjög hvasst. Ekki hefur verið um fárviðri að ræða hér undanfarna daga mest orðið 78 vindstig. Þó er mikill sjógangur og útlit fyrir að vont veður sé úti á firðinum. Ekki hefur heyrst um tjón af veðri.
ED-Akureyri Hér hefur ekki verið óveður, sem heitið geti. Þó hefur verið hvassviðri af austan af og til síðustu tvo daga.
Vindhraðinn komst í 12 vindstig bæði í Grímsey og í Vestmannaeyjum, en samkvæmt upplýsingum fréttaritaranna á þessum stöðum urðu engar skemmdir þar, og tóku menn vart eftir óveðrinu, því við erum þessu svo vanir, sagði fréttaritari blaðsins í Vestmannaeyjum. Mikill snjór er nú í Eyjum, og færð á götum bæjarins erfið.
GÞE-Reykjavík, mánudag. Miklar bilanir hafa orðið á símakerfinu vegna veðurofsans. Staurar hafa brotnað og línur slitnað, einnig ísing verið á símalínum, og torveldað mjög símasamband víða um land. Viðgerðarmenn vinna nú sleitulaust að því að lagfæra skemmdir, og eru nokkrar stöðvar komnar í lag, sem áður var sambandslaust við. Hins vegar er sambandslaust mjög víða og samkvæmt upplýsingum, sem Tíminn fékk frá Landsímanum, hefur verið algerlega sambandslaust við Þórshöfn og Raufarhöfn frá því snemma í gær. Einnig hefur verið sambandslaust við Súðavík, Flateyri og Króksfjarðarnes og fleiri staði á Vestfjörðum. Fjarsíminn milli Hólmavíkur og Ísafjarðar er óvirkur, svo og milli Hólmavíkur og Brúar í Hrútafirði, Borgarness og Ólafsvíkur, Grafaness og Stykkishólms.
FB-Reykjavík, mánudag [5.]. Mjög mikið kraðak var í gær af litlum bílum, sérstaklega á Suðurlandsvegi, og ollu þeir Vegagerðarmönnum töluvert miklum erfiðleikum. Mikið af fólki var í skíðaskálum, og fór það betur en áhorfðist í fyrstu, því að í gærkvöldi gerði besta veður, öfugt við það, sem veðurstofan spáði. Varð lítið eitt að aðstoða við að ná fólki úr Jósepsdal, en þaðan gekk fólkið mest til bílanna, því að veðrið var það gott. Eins náðist fólk ofan frá Kolviðarhóli og Skíðaskálanum í Hveradölum. En einna erfiðast gekk að ná fólkinu úr skíðaskálanum í Skálafelli. Þar þurfti þó ekki að aðstoða, því að sendir voru kraftmiklir fjallabílar, og þeir komust með fólkið í bæinn um miðnættið. Austur í Vík varð ófært upp úr Víkinni i morgun, en síðar var rutt, en austur yfir Mýrdalssand er orðið afar þungfært og ekki fært nema kraftmestu bílum, og er þar nú skafrenningur. Í sveitum austan sands er mikill lausasnjór. Suðurlandsvegurinn frá Vík og að Selfossi var sæmilega fær í dag, og eins vegurinn frá Selfossi í Þjórsárdal og um Skeið í Gnúpverjahrepp sömuleiðis. Aftur á móti var ófært á Stokkseyri og á Eyrarbakka og eins í Grímsnesi og Laugardal og Biskupsstungur. Vegurinn milli Selfoss og Reykjavíkur lokaðist í nótt og hefur verið illfær fram yfir miðjan dag í dag, og glórulaus skafbylur, svo að ekki var bægt að vinna að snjómokstri, heldur var það ráð tekið að fylgja vörubílum yfir með því að taka nokkra saman í lest. Er þetta ástand fyrst nú seint í dag að lagast. Í morgun hefur verið það glórulausasta veður í Þrengslunum, sem komið hefur lengi. Starfsmenn Vegagerðarinnar, sem vinna þar á heflum og snjómoksturstækjum sögðu, að þeir sæju ekki til jarðar. Vegurinn um Suðurnesin var í góðu lagi í dag og sömu sögu er að segja um veginn um Hvalfjörð í Borgarnes, um hann komst fljótlega umferð. Þar er nú fært stórum bílum og jeppum. Úr Borgarnesi er fært að Arnarstapa á Mýrum og síðan frá Borgarnesi að Hreðavatni. Á Snæfellsnesi hefur verið fram að þessu stórhríð en henni er nú aðeins að slota, og verður þá byrjað að huga að vegum í sveitum sunnan fjalls. Á morgun er aðstoðardagur yfir Fróðárheiði og Kerlingarskarð, og er ekki enn hægt að segja til um, hvort það verður hægt, fer það eftir veðri. Eins á að aðstoða bíla um Bröttubrekku á morgun, og er heldur ekki fullákveðið, hvort það verður hægt. Morgundagurinn er einnig aðstoðardagur á leiðinni Akureyri Reykjavík, og verður gert það sem, hægt er í því efni, en sjálfsagt verður það mikill mokstur, og ekki gott að segja, hvort það lánast að opna þá leið á morgun, en þó verður farið í það, ef veðrið verður gott. Í kringum Akureyri er mikill snjór, og þar er orðið frostlaust. Þaðan eru nú ófærar flestar Leiðir, nema á trukkum, sem notaðir eru í mjólkurflutningana. Ófært er á Húsavík. Á Austurlandi hefur verið vonskuveður, Þar var að koma slydduhríð síðast, þegar Vegagerðin fékk þaðan upplýsingar, og var ófær Fagridalur, en verður reynt að opna hann í dag, í sambandi við flugið á Egilsstaði, og eins er fært eitthvað lítils háttar út frá Egilsstöðum, en fjallvegir eru þarna allir lokaðir.
Tíminn segir frekar af veðrinu í pistlum 7.febrúar, nánar segir af togurunum og leit að Heiðrúnu II frá Bolungarvík. Einnig segir af gríðarlegu veðri á Reykhólum:
FB-Reykjavík, þriðjudag. Einn skipverji á breska togaranum Ross Cleveland, sem sökk á Ísafjarðardjúpi, komst lífs af. Er það 1. stýrimaður, hinn 26 ára gamli Harry Eddon. Liggur hann nú á sjúkrahúsinu á Ísafirði, allmikið kalinn á fótum og höndum, að sögn sjúkrahúsalæknisins þar, en þó furðu hress. Lýsti hann hrakningasögu sinni ítarlega í viðtali í dag.
OÓ-EJ-Reykjavík, þriðjudag. 16 af 18 skipbrotsmönnum af breska togaranum Notts County frá Grimsby, komu til Reykjavíkur síðdegis í dag með flugvél Flugfélags Íslands frá ísafirði, en tveir þeirra, skipstjórinn og fyrsti stýrimaður, urðu eftir á sjúkrahúsinu þar. Í viðtali við Tímann í dag lýstu skipbrotsmennirnir 14 hræðilegum klukkustundum um borð í strandaða togaranum í sjógangi, myrkri og kulda, og dauða eins skipsfélaga þeirra, en lík hans var sótt um borð í togarann í morgun. Jafnframt lofuðu skipbrotsmennirnir mjög íslensku Landhelgisgæsluna fyrir mikið björgunarafrek.
OÓ.Reykjavík, þriðjudag. Leit var haldið áfram í dag að Heiðrúnu II., en ekkert fannst sem gæti gefið til kynna hver afdrif bátsins eru. 15 bátar tóku þátt í leitinni, sem var mjög umfangsmikil og einnig leituðu flokkar á landi og leitað var úr lofti. Leitað var um allt Ísafjarðardjúp og Jökulfirði og strendur kannaðar nákvæmlega. Á Heiðrúnu II. eru sex menn, allir búsettir í Bolungavík. Leit verður haldið áfram á morgun.
ÞÞ-Reykhólum, þriðjudag. Í óveðrinu, sem geisaði á Vestfjörðum síðastliðna helgi urðu miklar skemmdir á Reykhólum og í nágrenni. Varð veðurofsinn svo ægilegur, að engum var stætt úti í verstu hryðjunum, og man enginn hér eftir jafn slæmu veðri. Mest varð tjónið á kirkjunni á Reykhólum, brotnuðu allir gluggar í norðurhlið kirkjunnar, og fylltist hún af snjó. Geysilega mikill skaði varð af þessu og brotnuðu auk þess útihurðin, rammger og góð, og hurðin að forstofunni. Mestur skaðinn á íbúðarhúsum varð á Mávavatni, sem er nýbýli hér á Reykhólum. Þar búa Sigurgeir Tómasson og Lísa Magnúsdóttir ásamt 4 ungum sonum sínum. íbúðarhúsið er ein hæð og verkstæði í öðrum endanum. Á norðurhlið hússins brotnaði hver einasta rúða, í öllum gluggum, og fylltist íbúðin af sandi og alls kyns óþrifnaði, sem barst með vindinum. Urðu hjónin að flýja íbúðina með börn sín um miðja aðfaranótt sunnudagsins, og brjótast heim í Reykhólabæinn, þar sem foreldrar Sigurgeirs búa. Hafa þessi hjón orðið fyrir mjög miklu tjóni, því allt innanstokks, sem veðurofsinn og hríðin náðu til er ónýtt eða stórskemmt og ekkert tryggt gegn svona ósköpum. Verst er þó, að húsið sjálft er líklega ónýtt. Sperrur brotnuðu í þakinu, en það sem bjargaði, að það fauk ekki af var, að stórar dyr á geymsluhlutanum að sunnanverðu opnuðust, en hurðirnar splundruðust og fékk stormurinn þar útrás. Mávavatnshjónin eru húsnæðislaus, heimili þeirra er gerónýtt og þurfa þau á hjálp að halda. Það var raunar mesta mildi, að þau skyldu komast heim að Reykhólum nóttina, sem þau urðu að flýja úr húsinu, en veðurofsinn var þá svo ægilegur, að illstætt var úti, og stór hætta á ferðum af grjóti, sem barst með vindinum, og bárujárnsplötum, sem fuku af nýbyggðu húsi, sem átti að verða mjólkurbúð. Það lánaðist þeim hjónum samt að komast þetta slysalaust. En á sunnudag, þegar bóndinn ætlaði til gegninga í fjárhús, varð hann að snúa aftur og komst enginn til gegninga í fjós eða fjárhús í heilan sólarhring, hvorki frá Reykhólum né Mávavatni. Mun stórviðrið hafa verið ofsalegast á Reykhólum, enda mestar skemmdir þar. Í haust var tekið í notkun nýtt verslunarhús við útibú Kaupfélags Króksfjarðar á Reykhólum. Þar brotnuðu allar rúður, sem voru áveðra, svo og í vörugeymslu, sem var áföst við. Reif veðrið upp dyr, sem eru á vörugeymslunni, og æddi stormurinn þar í gegn, og þeytti öllu lauslegu með sér og eyðilagði og skemmdi hitt, en geymslan og búðin fylltust af snjó, og munu vörur hafa ónýst fyrir tugþúsundir króna. Skemmdir urðu á flestum íbúðarhúsum á Reykhólum, en misjafnlega miklar. Þakplötur fuku af mjólkurbúshúsinu, og af heimavist bannaskólans, og brotnuðu þar rúður. Munu rúður líka hafa brotnað meira eða minna í flestum húsum, en mest þó í húsi Jóns Guðmundssonar, en þar munu ekki aðrar skemmdir hafa orðið. Jeppakerra fauk á hús Aðalsteins Valdimarssonar, sem er nýtt timburhús, og skemmdi það nokkuð. Hafði kerran áður slengst utan í bíl Aðalsteins og dældað hann nokkuð. Nokkrir bílar skemmdust aðrir, en ekki samt stórvægilega, Tveir fuku langar leiðir, en ultu ekki. Á Grund fauk þó jeppabíll og lenti á hliðinni út í skurði, en mun þó ekki mikið skemmdur. Hann var í bílskúr, sem fyrst fauk utan af bílnum og eitthvað út í buskann. Á Höllustöðum, næsta bæ fyrir utan Reykhóla, fauk búvélageymsla utan af bifreið og báti, sem þar var geymt. Fauk fyrst þakið af geymslunni og litlu síðar splundruðust veggirnir og hurfu út í veðrið. Bílinn sakaði lítið sem ekki ekki og bátnum varð bjargað í skjól, en múgavél fauk út í móa og mun eitthvað hafa skemmst, en þó minna en búast hefði mátt við. Alls konar smáskemmdir urðu fleiri, og m.a. sem dæmi um veðurofsann má geta þess, að gaddavírssnúrur eins og kubbuðust sundur, og allt var hér á ferð og flugi. Það rigndi grjóti og snjókögglum, og hafa elstu menn hér aldrei vitað annað eins veður, og ekki haft spurnir af.
FB-Reykjavík, mánudag. Menn létu ekki á sig fá slæma veðurspá um helgina og fóru til þorrablóta víða um land, m.a. í Norðurárdal, en þar var haldið þorrablót að Hreðavatni á laugardagskvöldið. Hófst það á venjulegum tíma, eða um 10 leytið um kvöldið og var þá skaplegt veður. Þegar svo gestir hugsuðu til heimferðar um kl.3 um nóttina mátti heita að stórhríð væri að skella á á norðvestri. - [Leópold veitingamaður segir frá]: Það fóru fyrst fjórir bílar af stað héðan á næstu bæi, tveir þeirra sneru við en þeir áttu ekki nema 3 km, en hinir sem ætluðu að fara allt upp í 5 km festust í snjóskafli og gátu ekki rótað sér þaðan og treystu sér ekki fyrir stórviðri. Þetta er með mestu veðrum, ef ekki það mesta sem hér hefur komið. Á fimmta tímanum fór maður í bíl hérna niður í sveit og ætlaði heim til sín, en bíllinn lenti út af veginum, og festist í skurði, því að það var ekki betur ratljóst en það. Klukkan um 6 var gerður út leiðangur til þess að grennslast eftir hinum bílunum, og voru þeir þá hér rétt fyrir framan, svo sem tvo og hálfan kílómetra hér frá, og fastir í skafli, og var þeim snúið við. Segja má, að ekki hafi verið hætt að spila og dansa fyrr en klukkan rétt fyrir átta. Matur og drykkur var hér á borðum allan tímann, og undi fólk hag sínum bærilega, eftir atvikum. En um klukkan átta um morguninn fór stærsti hópurinn af stað heim, en það var fólk frá Borgarnesi, og var það komið heim á tólfta tímanum. Eins og gefur að skilja var fólk ekki búið undir þessi ósköp. Við reyndum að lána því allan þann fatnað, sem og var dregið fram gamalt og nýtt, og reynt að búa fólkið sem best út. Sem betur fer vax frost lítið, og það var það sem bjargaði þessu. Síðustu mennirnir, sem á blótinu voru, héldu heim eftir hádegið í dag.
Morgunblaðið segir einnig frá snjóflóði á Grund í Reykhólasveit í pistli þ.8.:
Margvíslegar skemmdir urðu heima að Reykhólum, snjóflóð féll á túnið að bænum Grund, og olli miklum skemmdum á því, þar sem stórgrýti fylgdi flóðinu.
Tíminn heldur áfram 8.febrúar:
JA-Hólmavík, miðvikudag. Í óveðrinu aðfaranótt mánudagsins fór einn þriðji hluti bátaflota Strandasýslu í hafið. Í sýslunni hafa verið 11 bátar, en þessa umræddu óveðursnótt sukku tveir bátar í Hólmavíkurhöfn, einn bátur slitnaði upp frá legufærum á Drangsnesi og annar slitnaði upp í Djúpuvík. Hólmavíkurbátarnir voru Víkingur, 10 tonn og Kópur, 9 tonn. Hefur þeim nú verið náð upp, og virðast minna skemmdir en útlit var fyrir, þó er að minnsta kosti rafkerfið ónýtt í þeim báðum. Þegar veður skánaði fóru þeir bátar, sem eftir voru, af stað og drógu bátana tvo á grynningar, en síðan var slökkviliðsdælan á staðnum fengin til þess að dæla úr þeim sjónum, og náðust þeir þannig alveg upp. Um Djúpuvíkurbátinn er það að segja, að hann rak upp á land, og er hann sennilega alveg ónýtur, þar sem hann er mjög mikið brotinn. Báturinn heitir Flugaldan og er 7 tonn. Drangsnesbáturinn heitir Sólrún og er 9 tonn. Sökk hann á miklu dýpi, og er ekkert farið að eiga við hann ennþá.
Á Drangsnesi féllu svo snjóflóð á fjárhús bæði hjá Hauki Torfasyni og Höskuldi Bjarnasyni. Í fjárhúsum Hauks voru 40 kindur, höfðu tvær fundist með lífsmarki, en önnur þeirra var svo illa farin, að nauðsynlegt reyndist að aflífa hana. Von er um, að hin kunni að geta lifað. Í fjárhúsum Höskulds voru 20 kindur, og drápust þær allar. Óhemju mikil snjókoma var í þessu óveðri, og hlóðst svo mikill snjór ofan á útihús Elíasar Jónssonar og Kristjáns Loftssonar á Drangsnesi, að þau sliguðust undan þunganum. Tókst þó að bjarga þeim fénaði, sem í húsunum var, heilum á húfi. Einn maður varð að láta fyrirberast úti undir beru lofti óveðursnóttina. Það var Jóhann Níelsson frá Hólmavík. Jóhann á nokkrar kindur í fjárhúsum á eyðibýlinu Kálfanesi, sem er um það bil þriggja kílómetra vegalengd frá Hólmavík. Fer hann á hverjum degi í fjárhúsin, og gerði það að vanda líka á sunnudaginn. Þegar hann lagði af stað heim aftur um 5 leytið, var veður mikið farið að versna. Komst hann að flugvellinum, sem er skammt frá þorpinu, en þá var veðurhæðin orðin svo mikil, að hann varð að skríða meðfram flugvallargirðingunni. Á flugvellinum stendur smáskúr. Komst hann að skúrnum, en gat þó ekki komist inn í hann, þar sem hann var rammbyggilega lokaður. Stóð Jóhann í skjóli við skúrinn alla nóttina, og má teljast furðulegt, að honum skyldi ekki hafa orðið meint af útivistinni. Komst hann heim til sín um níuleytið á mánudagsmorguninn. Jóhann hélt á sér hita um nóttina með því að vera á stöðugu rölti, en húfan, sem hann var með á höfðinu, fauk af honum, og kom það sér illa, því hann var ekki með hettu á úlpu sinni. Þó kól hann ekki, sem betur fór. Símalínur slitnuðu víða í sýslunni, og komst Hólmavík ekki í símasamband víð umheiminn fyrr en síðdegis í dag.
Tíminn segir af Heiðrúnu 9.febrúar:
EJ-Reykjavík, fimmtudag. Heiðrún II. frá Bolungarvík er nú talin af. Með skipinu fórust sex menn. Þeir eru allir frá Bolungarvík. Nú er talið víst, að Heiðrún II. hafi farist á Ísafjarðardjúpi að faranótt mánudagsins 5. febrúar. Fór skipið frá Bolungarvík fyrir hádegi á sunnudaginn og ætlaði til Ísafjarðar í örugga höfn vegna óveðursins. Klukkan eitt eftir miðnætti á mánudagsnóttina hafði varðskipið Óðinn samband við skipið, sem þá andæfði 1,2 sjómílur undan Bjarnarnúpi. Var þetta hið síðasta, er til skipsins fréttist. Mikil leit hefur verið gerð að Heiðrúnu. en án árangurs. Eigandi skipsins var Einar Guðfinnsson í Bolungarvík Það var smíðað á Akranesi 1963 og gert út þar til fyrir tveimur árum frá Sandgerði undir nafninu Páll Pálsson GK 360. Var þetta eikarskip, 154 lestir að stærð.
Tíminn segir meir frá Reykhólum 13.febrúar:
Í fárviðrinu, sem geisaði á Vestfjörðum um fyrri helgi stórskemmdist nýja kirkjan á Reykhólum. Allar rúður á norðurhlið kirkjunnar brotnuðu í veðurofsanum og fennti þá óhindrað inn og var allt á kafi í snjó þegar að var komið á mánudag. Stormurinn æddi um kirkjuna og færði snjóinn í skafla og braut upp vandaðar hurðir fram í anddyrið og eru þær ónýtar. Sterkleg hurð fyrir útidyrum varð næst að láta undan og splundraði rokið henni einnig og hafði þá óveðrið brotið sér leið inn um gluggana og út um aðaldyrnar og lék sér að vild í helgidóminum. Ekki var viðlit að gera neitt til varnar eða bjargar, því engum var stætt úti og man enginn hér um slóðir eftir að svo vont veður hafi áður komið hér á Reykhólum. Það var laust fyrir miðnætti aðfaranótt sunnudags að veðrið skella á og stóð látlaust þangað til á mánudagsmorgun. Boðuð hafði verið guðsþjónusta á sunnudag og aðalsafnaðarfundur, en þá var engum manni úti stætt, enda kirkjan þá útleikin orðin, eins og ofan er sagt. Nýja kirkjan á Reykhólum var vígð haustið 1963 og því aðeins 4 ára gömul. Vantaði raunar nokkuð á að hún væri fullgerð eins og hún á endanlega að verða, t.d. voru aðeins bráðabirgðasæti í henni, lausir stólar.
Nú fóru tvær grunnar lægðir yfir landið. Fylgdu hitasveiflur og stormur var á nokkrum stöðvum og ísing á miðum í jökulkaldri norðanáttinni í kjölfar lægðanna. Tíminn segir af óhöppum og sjóslysi í pistli þann 14.:
OÓ-Reykjavík, þriðjudag [13.]. Fjögurra hreyfla, bandarísk flugvél rann stjórnlítil eftir glerhálli flugbraut á Reykjavíkurflugvelli í kvöld, og lenti út í Fossvogi, en þar endar flugbrautin. Við brautarendann er hár bakki og rann flugvélin á hlið út af honum. Annar vængurinn er á kafi í sjó og hluti af stjórnklefanum þegar vélin stöðvaðist. Sjö manna áhöfn var í flugvélinni, sem er af gerðinni DC-4, enginn þeirra slasaðist alvarlega, en einn flugmannanna var fluttur á Slysavarðstofu og síðan á Borgarsjúkrahúsið, en er ekki mikið meiddur. Flugvélin hefur verið hér að mælingum á siglingatækjum á flugvöllum. Í henni er mikið af mjög verðmætum tækjum til slíkra mælinga.
SE-Þingeyri, EJ-OÓ-Reykjavík, þriðjudag [13.]. Ofsaveður að norðaustan skall á út af Vestfjörðum í dag. Stormurinn reið mjög snögglega yfir um kl.16 og varð á svipstundu 8 til 9 vindstig og fylgdi hríð og frostharka. Margir bátar voru á sjó og komust sumir við illan leik til lands. Á miðnætti hafði einn bátanna ekki komið fram. Er það Trausti frá Súðavík, 36 lestir að stærð. Síðast heyrðist til hans kl. 16:30, en þá hafði skipstjórinn samband við Guðnýju frá ísafirði. Var hún að fylgja öðrum bát til lands. Þegar síðast heyrðist til Trausta var hann 27 mílur út af Galtasvita og 30,5 mílur út af Rit. Var þá ekki búið að draga allar línurnar, en báturinn var lagður af stað til lands, vegna veðurofsans. Um kl.20 dró niður i veðrinu og fór að birta til. Kl.23 var komið sæmilegt veður, en sjór var þungur. Stærri bátar á Vestfjörðum voru þá lagðir af stað til að leita að Trausta.
Það voru aðallega þrír bátar, sem lentu í erfiðleikum í morgun og dag vegna veðursins. Fjölnir frá Þingeyri missti stýrið í morgun í veðurofsanum. Varðskip var á næsta leiti, og kom bátnum fljótlega til aðstoðar. Síðdegis í dag var varðskipið á leið til Ísafjarðar með bátinn í eftirdragi. Var búist við þeim til Ísafjarðar í kvöld. Báturinn Dan frá Ísafirði lenti í erfiðleikum í morgun. Sjór kom í bátinn og skemmdi m.a. gír hans. Þar af leiðandi getur báturinn einungis farið mjög hægt, og verður því nokkuð lengi til hafnar. Í dag var hann á leið til Ísafjarðar, og var bátur frá Ísafirði í fylgd með honum. Hafði allt gengið áfallalaust er síðast fréttist. Þá hefur Þorgrímur frá Þingeyri misst línu, og átti í erfiðleikum með að finna hana. Ekki hafði frést af fleiri bátum í erfiðleikum í dag, en sjómenn höfðu ekki búist við þessum snöggu veðraskiptum og því ekki við þeim búnir.
NH-Hofsósi, þriðjudag Það óhapp vildi til á bænum Bæ á Höfðaströnd að þar drukknuðu 18 kindur í fjárhúsi aðfaranótt sunnudagsins [11.]. Þegar bóndinn á Bæ kom í fjárhúsið á sunnudagsmorgun blasti við honum óskemmtileg sjón. Vatnsleiðsla hafði bilað í húsinu, þ.e.a.s. krani hafði farið úr sambandi í einni krónni af fjórum, og hafði hún fyllst af vatni með þeim afleiðingum að 18 kindur bóndans, eða allar þær kindur, sem í þessari kró voru, drukknuðu. Bóndinn á Bæ. Haukur Björnsson, hafði farið í húsin á laugardagseftirmiðdag, og var þá allt þar með felldu. Leið svo fram á næsta dag, og veit enginn hvenær leiðslan bilaði, en garðinn milli króna í húsinu var svo þéttur, að ekkert vatn seytlaði þar í gegn og náði vatnið nær því upp fyrir klofhá stígvél, þegar í húsið var komið um morguninn. Mikil ótíð hefur verið hér að undanförnu, en linaði rétt á fyrir helgina. Greip fólk þá tækifærið og efndi til þorrablóta, fyrst á Ketilási í Fljótunum á föstudagskvöldið, og síðan á Hofsósi á laugardagskvöld. Fór fólk til blótsins í góðu veðri á föstudagskvöld, en svo renndi um nóttina, og komust sumir blótsgestir ekki heim fyrr en eftir hádegi á laugardaginn. Hafði þá sumt gestanna verið 10 sinnum lengur á leiðinni heim, en eðlilegt mátti teljast. Veðrið var aftur gott á laugardagskvöld, en um það leyti sem af blótinu, skall hann á aftur með iðulausri stórhríð.
Tíminn segir frá leitinni að Trausta í pistli 17.febrúar:
EJ-Reykjavík, föstudag. Svo umfangsmikil leit hefur nú verið gerð að Trausta frá Súðavík, en engin von er talin á, að skipverjar séu á lífi. Var leit því hætt í gærkvöldi. Með bátnum fórust 4 menn.
Tíminn segir 24.febrúar frá áfreðum sem tóku fyrir hreindýrabeit eystra:
GÞE-Reykjavík, JK-Egilsstöðum, föstudag. Fimm hreindýr hafa drepist i Skriðdal og fleiri eru orðin svo þreklítil og veikburða, að þau lifa sennilega ekki lengi úr þessu. Jarðlaust er með öllu í dalnum, en hreindýrunum hefur hingað til tekist með herkjum að ná til jarðar, en fylli sína fá þau engan veginn. Blaðið hefur ekki fengið fregnir af hreindýradauða í öðrum byggðum Austurlands, þar sem dýrin hafa haldið sig síðustu mánuðina. En ástandið er slæmt. Þykk svellalög eru yfir öllu, klaki er sums staðar á hálfan metra í jörðu. svo að dýrin eiga mjög örðugt með að kroppa sér fæðu. Eru þau orðin mjög þróttlítil og veikburða og megna vart að hlaupa undan mönnum.
Undir lok mánaðarins gerði mikla hláku og úrhellisrigningu. Vindhraði varð einnig mikill. Mikil leysing varð á freðinni jörð. Margvísleg vandræði hlutust af. Hér fylgir nokkuð löng frásögn blaða af atburðum. Ný landsúrkomumet voru slegin í þessu veðri og mældist sólarhringsúrkoma í fyrsta sinn meiri en 200 mm hér á landi á hefðbundnum úrkomumælisólarhring (mælt kl.9 að morgni frá kl.9 daginn áður). Á Vagnstöðum í Suðursveit mældust 233,9 mm að morgni þ.28. febrúar og stóð sú tala sem landsmet þar til haustið 1979 (núverandi met er frá 2002). Litlu minni úrkoma, 228,4 mm, mældist sama dag í Kvískerjum í Öræfum. Úrkoma var ekki mikil norðanlands í þessu veðri, nánast þurrt mátti heita austan Akureyrar austur á Austfirði.
Kortið sýnir stöðuna á Norður-Atlantshafi síðdegis 27.febrúar, þegar úrkoman var sem áköfust. Mikill og breiður straumur af mjög hlýju og röku lofti streymdi norður til Íslands. Dæmigerð úrhellisstaða. Ofan á úrkomuna bættist síðan áköf hláka og snjóbráð langt upp á heiðar.
Tíminn segir fyrst frá úrkomunni í frétt 28.febrúar, fregnir af úrkomumetinu höfðu þá ekki borist, upplýsingar frá veðurfars- og úrkomustöðvum bárust ekki jafnóðum heldur í mánaðarskýrsluformi síðar:
Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, sagði Tímanum svo frá í kvöld, að alla síðastliðna nótt hafi vindur og úrkoma farið vaxandi allt fram á morgun. Voru þá um 9 vindstig víðast hvar á landinu og einstöku vindstraumar voru enn harðari. Var rokið 12 vindstig á Hvallátrum, Hornbjargsvita og á Tjörnesi í morgun. Sunnanátt ríkti um allt land og voru hlýindin mikil miðað við ái-stíma. Mestur var hitinn á Siglunesi, 12 stig. í Grímsey, á Raufarhöfn og Galtarvita var 10 stiga hiti í dag. í Reykjavik var 8 stiga hiti og 6 stig á Kirkjubæjarklaustri. Úrkoman síðasta sólarhring var mjög mikil á Suður- og Vesturlandi. Mest mældist úrkoman á Þingvöllum eða 87 millimetrar. Á Hveravöllum 70 mm, Höfn í Hornafirði 61 mm. Á Hæli í Hreppum var úrkoman 57 mm í Reykjavík var 43 mm úrkoma. Á svæðinu frá Akureyri austur um til Dalatanga kom ekki dropi úr lofti síðasta sólarhring. Á mesta úrkomusvæðinu var jörð gaddfreðin og vegna hitans varð mikil hláka. Þar sem úrkoman og hlákan fóru saman, höfðu árnar ekki við að skila vatns magninu fram og því víða mikil flóð. Í nótt og á morgun er spáð enn meiri úrkomu og aukast flóðin að sama skapi. Á morgun má búast við að veður fari kólnandi og má þá vera að dragi úr flóðunum.
Reykjavík, þriðjudag [27.]. Gífurlegir vatnavextir hafa herjað á Suðurlandi í dag og einnig á Vesturlandi. Inni í sjálfri höfuðborginni beljar nú stórfljót til sjávar. Þetta ægifljót er Elliðaárnar, sem yfirleitt láta ekki á sér bæra og eru stígvélatækar mestan tíma ársins. Í dag voru þær á að líta eins og jökulvatn og stóð straumkamburinn víða hátt yfir bakkana. Vatnsmagnið í Elliðaánum og Hólmsá var slíkt, að engar fyrirstöður héldu og allt fór úr skorðum á vatnasvæði þeirra. Hesthús með einum hundrað hestum einangruðust snemma dags, og var ekki hægt að hreyfa þá, eða komast til þeirra þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Var einn hesteigandinn nærri drukknaður við tilraun til að komast yfir vatnsflauminn til hestanna, og var hann ekki enn úr allri hættu í nótt, þegar blaðið fór í prentun. Gífurlegt tjón hefur orðið á sumarbústöðum við Elliðavatn og á flóðasvæðunum í kringum Hólmsá og Elliðaárnar. Ógjörningur var að komast að hinum umflotnu bústöðum í dag og urðu flestir sumarbústaðaeigendur á þessu svæði frá að hverfa, enda lítið hægt að gera fyrr en vatnið sjatnar. Brúnum yfir Elliðaárnar var lokað um tíma í gærkvöldi, vegna þess að þær gátu alls ekki talist tryggar yfirferðar. Seinna um kvöldið voru þær opnaðar, en síðan lokað aftur, enda var malbikið farið að brotna upp við eystri enda brúnna. Vatnið jókst mjög með kvöldinu og braut yfir brýrnar eftir að dimmdi. Brýrnar eru því í mikilli hættu, ef ekki fer að draga úr vatnsþunganum. Brýrnar voru opnaðar að nýju um miðnætti. Fjórar aðalvatnsæðarnar til Reykjavíkur voru í yfirvofandi hættu í kvöld. Þrjár þeirra 1318 tommu víðar liggja undir brúargólfi efri brúarinnar yfir Elliðaárnar, en sú fjórða liggur á ská undir farvegi ánna rétt fyrir ofan brúna. Þessi brú var alveg komin að því að fara í kvöld, en starfsmenn vatnsveitunnar unnu að því að undirbúa neyðarráðstafanir, ef sambandið við Gvendarbrunna rofnaði.
Á Suðurlandi og Vesturlandi hafa vegir lokast. Mikið tjón hefur orðið, þar sem skörð hafa rofnað í vegi. Þá hafa vegir teppst vegna skriðufalla og grjóthruns. Svo var um Krísuvíkurveg, en þar strandaði rútubíll með þrjátíu manns á leið til Selfoss, og var sendur hjálparflokkur frá Selfossi til að bjarga fólkinu og bílnum upp úr svaðinu. Fjögur bæjarhverfi eru nú umflotin vatni og einangruð á Suðurlandi. Er það raunar engin ný bóla, a.m.k. ekki með Kaldaðarnes. En Laxárnar eru nú mjög vatnsmiklar og á vatnasvæðinu í Hreppunum eiga ár eftir að ryðja sig. Ofan á þetta bætist svo, að spáð var rigningu í nótt, og áframhaldandi lægð yfir þeim landshlutum, þar sem hamfarirnar hafa verið mestar. Það er því ekki enn séð fyrir endann á vatnsflóðunum, sem herjuðu á menn og mannvirki í dag.
Umferð yfir Elliðaárbrýrnar lokaðist í kvöld um kl.21 vegna flóðanna, sem sífellt hafa aukist í allan dag. Elliðaárnar eru eins og beljandi stórfljót og hafa flóðin valdið gífurlegum skemmdum á vegum og eignum manna. Vegurinn austur fyrir fjall lokaðist um hádegisbilið í dag. Flæddi þá yfir á Sandskeiði og Hólmsá flæddi yfir bakkana við brúna ofan við Geitháls. Bærinn Gunnarshólmi var umflotinn vatni og fjöldi sumarbústaða ofan við Elliðavatn voru að meira og minna leyti undir vatni. Óttast er að stíflurnar í Elliðaánum bresti þá og þegar og þá má búast við að Elliðaárbrúnum skoli burt, en ofan við stíflurnar er mikill jakaburður. Í dag var sprengd rauf í syðri enda neðri stíflunnar og var vonast til að það mundi minnka vatnsálagið eitthvað. Strax í morgun voru Elliðaárnar farnar að renna yfir vegi sem liggja meðfram þeim, og einnig var vatnsflaumurinn farinn að grafa undan veginum við brýrnar. Þegar leið á daginn var vatnið svo mikið að yfirborðið náði upp að brúargólfunum. Veiðimannaskáli Rafveitunnar var umflotinn vatni og eins stóri borinn, sem unnið var með þar rétt fyrir ofan, á eyrinni sem þar er milli ánna. Elliðavatnið flæddi ómælt yfir efri stífluna og Vatnsendavegur var á kafla alveg horfinn undir strauminn. Gamla brúin, sem þarna er, var komin á kaf í kvöld og vegurinn að henni sundurgrafinn. Sumarbústaðir á þessu svæði eru margir umflotnir vatni. Neðar með ánni var hún farin að grafa undan húsum, sem áður stóðu nokkurn spöl frá bakkanum. Þar voru einnig nokkrir bílar hálfir á kafi. Rúmlega 100 hestar eru lokaðir inni í húsum í svokölluðum Kardimommubæ", sem er við Elliðaárnar rétt neðan við vatnið. Þarna hafði fjöldi hestaeigenda byggt yfir gripi sína og standa húsin nú umflotin vatni og beljar kolmórauð áin beggja vegna húsanna. Er stórhættulegt að reyna að komast að hestunum, og lá reyndar við slysi í dag er einn hestaeigenda var gripinn af straumnum er hann var á leið að vitja hesta sinna og var honum naumlega bjargað. Nokkrir þeirra manna, sem þarna eiga hesthús fóru þegar snemma í morgun til að bjarga hrossum sínum. Í hádegisútvarpi voru þeir, sem þarna eiga hesta látnir vita að hesthúsin væru umflotin vatni og ættu þeir ekki að draga að koma þeim á þurrt land. Þá mættu nokkrir hestaeigendur til viðbótar og tókst að koma nokkrum hestanna í land. Gekk þó erfiðlega því þeir voru hræddir í straumnum, enda ekki vanir stórflóðum. Dýpið var víða svo mikið að sundríða varð hestunum yfir. Enn eru yfir 100 hestar úti á flóðasvæðinu og verður gerð tilraun til að ná þeim snemma í fyrramálið. Munu þá meðlimir úr slysavarnardeildinni Ingólfur aðstoða við björgunina .Ekki mun vera mikið vatn inni í sjálfum hesthúsunum og hestunum ekki hætta búin, nema að enn hækki mikið i ánum. En þeir eru hræddir og líður skepnunum illa að standa í vatni, og heyra vatnsbeljandann lemjast á húsunum.
Hestaeigendurnir, sem komust til hesta sinna síðari hluta dags fóru yfir á stórum og háhjóluðum bíl. Gáfu þeir hestunum. en treystust ekki til að koma þeim yfir strauminn til baka. Í einni ferðinni festist bíllinn og flæddi vatnið upp í bílinn miðjan. Hgt var að ná honum á land með aðstoð bíls sem er í eigu Slysavarnarfélagsins. Í þeim bíl voru þeir Hannes Hafstein fulltrúi og Jón Alfreðsson, Voru þeir á ferð austur fyrir fjall í erindum Slysavarnarfélagsins. Ætluðu þeir að sýna þar notkun björgunartækja og kenna björgun úr dauðadái. Við Hólmsá urðu þeir að snúa aftur, þar sem vegurinn þar er ófær. Fóru þeir á þann stað sem hestamenn voru að reyna komast til hesta sinna. Var þá bíllinn fastur úti í straumnum og voru mennirnir sem í honum voru dregnir á línu í land. Um klukkan 16 var einn hesteigenda vaðandi á leið til lands þegar straumurinn hreif hann og færði á kaf. Barst hann á annað hundrað metra áður en tókst að ná honum. Voru þá um 40 manns á bakkanum, og óð einn mannanna í átt til Sveins og tókst eftir að hafa synt og vaðið á eftir honum nokkurn spöl, að ná taki á honum og halda honum upp úr. Annar maður reið á móti þeim og tókst að koma honum á land. Var hann þá rænulaus og mjög þrekaður. Strax og hann kom á land hóf Hannes Hafstein lífgunartilraunir með blástursaðferð. Bráðlega frðist líf i manninn og var hann fluttur á Slysavarðstofuna og þaðan á Landakotsspítala.
Allt svæðið frá Lögbergi og Gunnarshólma yfir að Silungapolli og niður undir Elliðavatn er eins og stórt stöðuvatn yfir að líta. Við Hólmsárbrú var lögregluvörður til að snúa bílum á austurleið við. Einn lögreglumanna, sem þar var á vakt í dag sagði blaðamanni Tímans, að þótt undarlegt mætti virðast tækju sumir ökumanna óstinnt upp þau tilmæli lögreglumanna að fara ekki yfir brúna og reyna ekki að aka út á veginn austur af brúnni, sem reyndar sást ekki svo langt sem augað eygði, þar sem hann var allur undir vatni. Í morgun fóru nokkrir stórir bílar þarna um og yfir flóðasvæðið hjá Sandskeiði. Eru nokkrir bílar þar fastir núna, en menn sem í þeim voru eru ekki lengur í hættu. Tveimur mönnum í jeppa tókst i morgun að komast langleiðina að Silungapolli en áður en þeir komust alla leið stöðvaðist jeppinn í vatninu og urðu þeir að vaða fleiri hundruð metra til að komast aftur á þurrt. Guðmundur Jónasson, fjallabílstjóri, var fenginn til að koma bílunum upp á veginn. Tókst Guðmundi og Heiðari bílstjóra hjá honum, að koma bílnum á þurrt og nutu þar kunnáttu sinnar í vatnaferðum. Þeir voru á rússajeppa, sem þeir þyngdu niður svo hann flaut ekki, og síðan vatnsvörðu þeir bílinn vel, og gengu á undan honum í vatninu sem víða var mittisdjúpt. Tókst ferðin vel, og má segja að ferðir margra í þessum miklu flóðum hefðu endað betur, ef réttur búnaður hefði verið notaður, og réttum aðferðum beitt.
Veginum þýðir ekki að loka nema hann sé einnig vaktaður, því menn trúa ekki öðru en þeir komist yfir á bílum sínum. Sagði lögregluþjónninn að nokkrir bílar sætu fastir efra og væri fleiri óðfúsir að gera hið sama og megi tæpast líta af bílstjórunum því þá eiga þeir til að flana út í ófæruna. Í kvöld var settur planki við Hólmsárbrúna og einnig er við hann vörður. Afleggjarinn, sem liggur að Jaðri og Elliðavatni var ófær. rétt við aðalveginn austur. Bæði þar og víð Hólmisárbrú var fjöldi manna sem höfðu áhyggjur af sumarbústöðum sínum, sem eru á flóðasvæðinu. Þar sem allir vegir þarna eru ófærir er erfitt að segja um hve mörg smáhýsi og sumarbústaðir eru í vatni. En séð frá veginum sást að vatnsyfirborðið náði upp á glugga á fjölda sumarbústaða. Þótt skemmdir á eignum séu að mestu ókannaðar er öruggt að óhemju tjón hefur hlotist af völdum flóðanna. Í kvöld eru flóðin á Elliðavatnssvæðinu enn að aukast og ekki útséð enn um hvaða afleiðingar þau kunna að hafa áður en aftur tekur að sjatna. Í Hafnarfirði hefur orðið mikið tjón á götum og húsum vegna vatnsaga. Mikill vöxtur hljóp í Lækinn og flæddi hann yfir bakka sína. Götur í Hafnarfirði eru viða sundurgrafnar og lokaðar fyrir umferð. Vatn flæddi víða inn í kjallara og neðstu hæðir íbúðarhúsa. Krísuvíkurvegur er jeppafær, en ekki er búið að kanna hann nógu vel enn þá. Þó var vitað, að skriða hafði fallið á veginn við Hlíðarvatn og Þingvallavegur er ekki fær vegna snjóa enn þá.
Björn Erlendsson bóndi í Skálholti sagði að mikill vöxtur væri í Brúará og Tungufljóti. Flóð væri hjá Auðsholti, og miklir vatnavextir hjá Laugarás suður af Skálholti, en þar væri stífla í ánni. Það er farið að flæða yfir veginn hér fyrir neðan Skálholt, þar er hnédjúpt vatn á veginum og er það svipað og þegar mest var flóðið í fyrra. Mér virðist líka, að þetta fari vaxandi, og rigningin er enn þá óskapleg, og hitinn hjálpar til. Mjög slæmt ástand var í dag við Laxárbrúna þar komst enginn yfir í dag að því mér skilst. Fyrir neðan Skálholt er einnig flóð. Björn sagði, að í dag hefði flætt fyrir Skálholtstungu, en þar rennur Brúará í Hvítá, og Tungufljót rennur í Hvítá á þeim slóðum einnig, en hinum megin við tunguna. Litla-Laxá, sem rennur í Tungufljót skammt fyrir neðan Auðsholt, sem er nokkru fyrir ofan Skálholt en hinum megin við Tungufljótið, flæddi yfir bakka sína í dag, og muna menn ekki annað eins flóð í henni. Einn bær í Grafarhverfi, Garður, var algjörlega umflotinn. Þá er Reykjanes í Grímsholtinu umflotið vegna flóða úr Brúará. Fólk á þessum bæjum er þó ekki talið í neinni hættu vegna flóðanna.
Skúli Gunnlaugsson á Miðfelli í Hrunamannahreppi sagði, að segja mætti að lokaðir væru allir vegir í hreppinn. Stóra-Laxá er geysilega vatnsmikil núna, og flæðir yfir veginn á stóru svæði. Í morgun hjálpaði trukkur" mjólkurbílnum yfir flóðasvæðið, en þeir urðu fastir við Sóleyjarbakka, á Auðsholtsveginum, sem er afleggjari frá aðalveginum rétt við brúna á Stóru-Laxá. Flæðir yfir stóran hluta þess vegar hjá Birtingaholti. Þrír mjólkurbílar komust þarna yfir upp að Brúarhlöðum, þótt vegurinn þangað hafi verið mjög vondur. Er búist við að þeir komi til Selfoss í kvöld, en þeir voru langt fram eftir degi að komast þennan stutta kafla. Er vegurinn ófær núna? Já, hann er gjörsamlega lokaður. Nokkrir bílar eru stöðvaðir beggja vegna við flóðasvæðið. Voru það bændur á nágrannabæjum hér, er urðu að stansa þarna, en þeim var hjálpað yfir svo þeir gátu farið heim til sín í dag. Ísinn á Stóru-Laxá hefur nokkuð sprungið og jakar farið upp á veginn, en reynt hefur verið að koma þeim út fyrir vegkantinn jafnóðum. Það var þó óframkvæmanlegt, þegar flóðið jókst í dag.
Ágúst Sveinsson, símstöðvarstjóri í Ásum, Gnúpverjahreppi sagði í viðtali við blaðið í dag, að lítið hefði orðið um vegaskemmdir í hreppnum. Aftur á móti hefði Þjórsárdalsvegurinn grafist í sundur í nótt. Ástandið á veginum var þannig í morgun, að bílar komust aðeins að Gaukshöfða. Í dag tókst aftur á móti að gera við veginn, og er vegurinn því opinn sem stendur. Aðrar vegaskemmdir í hreppnum munu vera lítilsháttar. Ágúst sagði, að vatnavextir á þessu svæði væru einir þeir mestu er þeir myndu eftir þar um slóðir.
Á Suðurlandinu urðu mestar vegaskemmdir á Rangárvöllum. Blaðið hafði í kvöld samband við Eystein Einarsson, vegavinnuverkstjóra hjá Markarfljótsbrú, og sagði hann frá vegaskemmdum. Sagði hann, að segja mætti að allt væri undir vatni á Rangárvöllum. Hjá Varmadal væri t.d. vatnsflaumur á veginum á um 16 metra kafla. Vegurinn fyrir austan Hvolsvöll væri að heita ófær. Og í Landeyjum væni allt undir vatni. Markarfljót væri enn í stórvexti, en enginn jakaburður í því enn þá að minnsta kosti. Þá væri Fljótshlíðarvegurinn slæmur vegna flóðanna. Eysteinn sagði, að þótt sumir bílstjórar hefðu átt í erfiðleikum, þá hefðu engir lent í mannraunum. Hann sagðist vonast til þess, að eitthvað myndi þorna í nótt, svo að hægt vri að hefja viðgerðir. Það væri ekki hægt meðan úrkoman og hlákan héldi áfram.
Í nágrenni Hvolsvallar eru einnig miklar skemmdir, og bærinn sjálfur á floti, ef svo má að orði komast. Hér eru vegir orðnir mjög slæmir, sagði Erlingur Ólafsson, verslunarstjóri á Hvolsvelli, í viðtali við blaðið í kvöld. Það fór að bera á því strax á sunnudagskvöld. Hvar eru skemmdirnar mestar? Af stöðum hér í nágrenninu er fyrst að nefna Garðsvikalæk við Hvolsvöll. Þar nennur yfir veginn, og hefur gert svo frá því um hádegi í gær. Þegar slíkt flóð kemur í lækinn, reynist brúin ekki nógu breið og rennur vatnið fram hjá henni Þetta kemur fyrir einu sinni eða tvisvar á ári, en ég man ekki eftir því, að flóð hafi verið í læknum svona lengi fyrr. Erlingur sagði mikið óveður á Hvolsvelli í kvöld. Og hér er bókstaflega allt á floti. Unglingarnir nota hér uppblásnar bílslöngur til að sigla á á pollum í þorpinu, og sýnir það glögglega hvernig ástandið er. Mun þetta vera með almestu leysingum, sem hér gerast". Ekki munu hafa orðið nein slys í sambandi við ófærðina. Aftur á móti lenti flutningabifreið frá Kaupfélaginu á Hvolsvelli í miklum erfiðleikum í Kömbunum í dag. Bílstjórinn stöðvaði bifreiðina þar til að setja keðjur á hjólin. Á meðan fór annar bíll fram úr honum, og komst nokkra metra fram fyrir hann, en kom síðan á fullri ferð aftur á bak og stórskemmdi bílinn. Varð að sækja hann á dráttarbil, en þeir voru ókomnir snemma í kvöld.
Sandaþorpi, þriðjudag. Tíminn átti tal við lögregluþjóninn í Sandaþorpi síðdegis í dag. Sagði hann, að færð væri sæmileg í Hvalfirði en að vísu mikil bleytuleðja á vegum. Fyrir neðan herstöð Bandaríkjamanna flæddi nokkuð yfir veginn í dag en ekki urðu skemmdir að ráði. Stórir steinar hrundu á þjóðveginn undir Múlafjalli skammt frá Brynjudalsá í nótt en vegurinn var heflaður í dag. Veður er nú sæmilegt í Hvalfirði.
OG-Fornahvammi, þriðjudag. Hér hefur verið gífurlega mikil leysing og úrkoma í nótt og í morgun. Snjór er afar mikill hér í nágrenninu. Vegir eru nú orðnir illfærir. Þó hafa nokkrir bílar komið að norðan, og var ofboðsleg hálka á Holtavörðuheiði. Engir bílar hafa komist alla leið hingað að sunnan. Bjarnardalsá flæðir með miklum jakaburði yfir þjóðveginn skammt neðan við Dalsmynni. Þar sneri Norðurleiðarbílinn við í dag en bifreiðarstjóri með bíl frá Guðmundi Jónassyni braust yfir heilu og höldnu. Allmargir bílar eru tepptir beggja vegna við þessa hindrun. Mjólkurbíll fór þarna um í morgun milli kl. 9 og 10, en þegar hann var á leið niður úr aftur um ellefu leytið var orðið ófært. Þá er Norðurá í þann veg að fara yfir veginn þarna á svipuðum slóðum. Færðin er sem sagt afleit hér og miklar leysingar og má búast við að eigi eftir að versna. Ég hef staðið í vatnsaustri í allan dag, en leysingarvatn flýtur hér bæði inn í kjallara íbúðarhússins og inn í fjárhúsin og höfum við ekki við að ausa. Í Fornahvammi er annars margt um manninn um þessar mundir og glatt á hjalla, en nú er hér skíðaskóli á vegum skólanna í héraðinu.
Þá átti Tíminn tal við Konráð Andrésson hjá Bifreiðastöð Kaupfélags Borgfirðinga um kl.3:30 í dag. Sagði hann að fimm mjólkurbílar hefðu farið upp í sveitirnar snemma í morgun og væri aðeins einn þeirra kominn aftur, sá sem farið hefði um Hvítársíðu og Þverárhlíð. Bjóst hann við að minnsta kosti tveir bílanna kæmust ekki aftur til Borgarness í dag. Hvítá í Borgarfirði flæðir yfir veginn beggja vegna við brúna hjá Hvítárvöllum og Ferjukoti. Stórir bílar hafa þó komist þarna yfir í dag, og komust tveir mjólkurbílar á leið í Borgarnes yfir brúna ásamt fleiri bílum nú um fimmleytið í dag. en margir hafa einnig snúið frá. Um kl.5 var vatnið farið að ná upp á miðjar vélar á stórum bílum, en að sjálfsögðu leggja menn ekki í að reyna að komast yfir á öðrum farartækjum. Flóðið þarna hefur farið sífellt vaxandi í dag, og er búist við að verði ófært yfir brúna alveg á næstunni, en stórstreymt er kl. 67 og þá eykst enn í ánni. Þá flæðir Grímsá yfir veginn hjá Hólmavaði skammt fyrir neðan Hest í Andakílshreppi. Mikill veðurhamur hefur verið þar í nótt og dag, en veðrið var að ganga niður síðast þegar til fréttist. Bóndinn á Hesti ætlaði að fara þarna yfir í dag en varð frá að hverfa. Mikill klakaburður er í ánni og bjóst hann ekki við að fært yrði um veginn á þessum kafla fyrr en vegurinn yrði ruddur. Þá flæðir Tunguá yfir þjóðveginn skammt frá Hóli í Lundareykjadal og er alls ófært innar í dalinn. Einnig er vegurinn um Hálsasveit tepptur skammt frá Refsstöðum. Þar var ræsi í veginum, sem bilaði reyndar fyrr í vetur og gert var við nú í janúar. en hefur nú alveg brostið, og er stórt skarð í veginn. Þó er hægt að komast þarna leiðar sinnar með því að fara út fyrir veginn.
Í dag flæddi vatn yfir veginn rétt við Fiskilæk í Leirársveit. Þarna er tjörn rétt fyrir ofan veginn og hafði hún vaxið svo í leysingunum að flóð varð af. Vegurinn varð fljótlega aftur fær á þessu svæði.
Síðar í dag hafði vegurinn í Norðurárdal lokast á öðrum stað við Torfholt rétt neðan við bæinn Hvamm. Ein bifreið var lokuð inni á veginum milli Torfholts og Bjarnardalsár og mun bílstjórinn, sem er frá Skagaströnd, hafa haldið heim að Dýrastöðum eða Hreimsstöðum. Fólk það sem teppt var neðan við Bjarnadalsá mun hafa haldið í Borgarnes. Og er blaðið átti tal við Gunnar Guðmundsson í Fornahvammi í kvöld bjóst hann við að þeir sem kæmu að norðan mundu láta staðar numið hjá sér í kvöld. Einnig lenti bifreið frá kaupfélaginu á Blönduósi útaf veginum á ræsi skammt frá Hvammi er bifreiðastjórinn var að snúa aftur við norður.
Laxá flæðir yfir veginn við brúna rétt við bæinn Stóru-Þúfu á Snæfellsnesi. Jakaburður er ekki í ánni, en þykkur ís er á henni, og má búast við að verði fært um brúna ef áin sprengir af sér. Þrátt fyrir flóðið hefur verið fært um brúna í dag stórum bílum og jeppum. Áætlunarbíllinn að sunnan fór hér um í dag allmiklu á eftir áætlun og komst alla leið til Stykkishólms en var helmingi lengur héðan til Stykkishólms en venjulega.
Þá átti Tíminn tal.við Hjörleif Sigurðsson vegaverkstjóra í Hrísdal á Snæfellsnesi. Sagði hann að tvær ár flytu yfir veginn auk Laxár. Bláfeldará og Vatnsdalsá í Staðarsveit, en þó væri fært þarna um á stórum bílum. Sæmilega fært er yfir Fróðárheiði. Miklar vegaskemmdir hafa orðið í Ólafsvíkurenni bæði af völdum skriðufalla og einnig hefur hrunið úr vegarbrúninni. Þá eru tálmanir á veginum fyrir Búlandshöfða af völdum klakahruns. Fært er milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur. Búast má við vaxandi ófærð á Snæfellsnesi ef heldur áfram að rigna.
Ólafsvík: Hér hefur verið óveður eins og víða annars staðar á landinu í nótt og dag, en nú er veðrinu heldur að slota og er búist við að bátar fari út í kvöld. Úrkoman hefur verið geysimikil, og er lækurinn, sem rennur eftir gilinu hér í miðju þorpinu eins og hafsjór yfir að líta. Einhver brögð hafa verið að því að leysingarvatn rynni inn í hús, en þau spjöll munu ekki vera ýkja alvarlegs eðlis. Færð er mjög slæm nú þegar hér innan þorpsins, og má búast við að svo sé einnig í nágrenninu en lítið er vitað um vega skemmdir ennþá.
Í Dölum hafa orðið töluverðar skemmdir. Skógarstrandarvegur er lokaður vegna vatnavaxta í Hörðudal og Vesturlandsvegur lá undir skemmdum í Miðdölum vegna vatns.
SJPatreksfirði, þriðjudag. Í nótt var hér mikið stórviðri og rigning, Mikið af snjó hefur tekið upp og hefur víða runnið úr vegum, en ekki er vitað um alvarleg spjöll enn sem komið er. Allir bátar voru í höfn í nótt og ekki hafa orðið nein tjón hér í bænum, utan runnið hefur leysingavatn inn í kjallara á nýju húsi hér. Annars er komið besta veður núna í dag.
SEÞingeyri, þriðjudag. Í nótt og dag hafa verið hérna mjög miklir vatnavextir, en þó hafa ekki orðið neinar stórfelldar skemmdir, svo ég viti til, en vatn hefur þó runnið yfir vegi allvíða og valdið nokkrum sköðum, en þó er fært á alla næstu bæi, en ófært er hins vegar fyrir Dýrafjörð. Byrjað var að renna vatn yfir flugvöllinn, en því vatnsrennsli var bægt frá, áður en af því hlutust nokkrar skemmdir.
KRJÚLBolungarvík, þriðjudag. Úrkoma var geysileg hér í nótt og fram eftir degi i dag. Veðurofsi var mikill og fauk hluti af húsþaki hér í þorpinu í morgun, og voru plöturnar fjúkandi um efri hluta þorpsins. Lenti m.a. ein þeirra á eldhúsglugga í húsi einu, en skemmdi hann, en ekki urðu menn fyrir slysum af þessum sökum. Vatnavextir hafa verið gífurlegir, og klaki er mikill í jörðu, og hefur yfirborðsvatn leitað að húsum. Hefur sums staðar orðið að dæla vatninu upp úr kyndiklefum og kjöllurum, en annars staðar hafa menn reynt að höggva vatninu rásir frá húsunum. Yngri börnum var ráðlagt að mæta ekki í skóla eftir hádegi í dag vegna veðurofsans.
GSÍsafirði, þriðjudag. Í nótt var hér aftakaúrkoma og hvassviðri, og hefur geysimikið leyst af snjó. Vegir hafa spillst mikið, en ekki er vitað um alvarlegar skemmdir ennþá. Í rokinu fauk þak i heilu lagi af fjósi á Kirkjubó1i í Skutulsfirði. Snjóskriður féllu nýlega á Óshlíðarveg og var mokað af honum í gær. Allir bátar frá Ísafirði voru í höfn í nótt.
GÓSauðárkróki, þriðjudag. Í dag var stór vöruflutningabifreið á leið um Vatnsskarð í Skagafirði, en fauk út af veginum í hálku og ofsastormi. Svo lánlega vildi til að bifreiðin valt ekki en lenti á hjólunum utan við veginn. Fljótlega kom veghefill frá Vegagerð Skagafjarðar á vettvang og dró bílinn upp á veginn og komst hann leiðar sinnar. Flutninga bifreiðin var á leið frá Reykjavík með tómar ölflöskur.
FBReykjavík, þriðjudag. Veður var ekki sem verst á Norðurlandi í nótt og dag, og þaðan hafa engar fréttir borist af skemmdum. Á Akureyri var mikið hvassviðri, og skóf eftir pollinum. Allur ís brotnaði upp af honum og rak ísinn síðan út fjörðinn. Ekki hafði frést um vegaskemmdir í nánd við Akureyri, en vegir voru víðast hvar en undir snjó. Ræsi voru farin að stíflast vegna leysinganna, og hætta á, að renna tæki úr vegum strax og snjóinn hefur leyst. Fært var frá Akureyri til Húsavíkur og einnig var Öxnadalsheiði fær.
Á Siglufirði var mjög hvasst í dag og illstætt í byljunum, en ekki hafði orðið neinn skaði í veðrinu. Hlýtt var og mikil hláka og snjór minnkaði ört. Það stendur til að opna veginn fyrir Strákaá fimmtudag, og í morgun var eitthvað byrjað að moka í kringum Haganesvík, og var fært út að Ketilási. Drangur, sem kemur venjulega um klukkan 3 frá Akureyri til Siglufjarðar, hafði tafist á leiðinni út Eyjafjörð í dag vegna veðurofsans, og var reiknað með, að hann yrði að minnsta kosti klukkutíma seinna á ferð en venjulega.
Í Austur-Skaftafellssýslu hefur verið mikil rigning í dag, og urðu skemmdir í Nesjum og á Lónsheiði. Í vestursýslunni hafa verið miklir vatnavextir og gróf undan ræsi á Mýrdalssandi vestan Hafurseyjar og er hann ófær í bili.
EJ-Reykjavík, þriðjudagur. Rigningarnar miklu og hlákan leiddu strax til mikilla vatnavaxta í Ölfusá. Kaldaðarnes í Ölfusi, sunnan Ölfusár, umkringdist af vatni enn einu sinni, og stórt svæði þar í kring. Hér er allt á kafi í vatni sagði Eyþór Einarsson bóndi á Kaldaðarnesi, í viðtali við Tímann í dag. Þetta er eins og að horfa yfir Faxaflóa!. Minni flóð voru vestan Ölfusár, að því er Gísli Hannesson bóndi í Auðsholti í Ölfusi tjáði blaðinu síðdegis í dag. Eyþór á Kaldaðarnesi hefur verið umkringdur vatni og ís allt frá því miklu flóðin gerðu snemma í vetur. Blaðið náði tali af honum í dag. Þú ert einangraður einu sinni ennþá, Eyþór? Já, já. Þetta fór alveg yfirum í gærkvöldi. Nokkur rigning var í gær, en þó einkum hláka. Og þetta mátti engu muna. Áin er búin að vera hérna uppi síðan 4. desember, en góður ís var komin á vatnið, og við gátum því farið hér yfir á hvaða bíl sem var. En svo fór þetta allt í kaf núna, og sums staðar hefur ísinn lyfst upp. Hvað hefur áin hækkað mikið núna? Hún er búin að hækka um einn metra eða svo. Ég var einmitt að athuga þetta rétt áðan. Ísinn hefur lyfst upp með öllu saman, og áin er farin að fljóta yfir varnargarðana, sem eru hérna meðfram túninu. Og þeir eru háir. En ísinn? Hann er enn þá ein hella, og óhreyfður að öðru leyti. Og býstu við því svartara? Já, mikið er eftir enn, því að ókomin er jakaskriðan úr uppánum. Stóra-Laxá er farin að ryðja sig, og stíflaðist við Laxárbrú. Og þá kemur hún niðurúr, og það verður mikill djöfulgangur, þegar hún kemur hingað niðureftir. Og eins úr Hvítá, Tungufljóti, Brúará og öllu þessu vatnasvæði. Og svo fer þetta allt eins og í trekt hér fyrir neðan Selfoss. Það er ómögulegt að segja, hvernig þetta verkar hér, en þetta á eftir að versna. Svo mikið er víst. Er þetta verra en oftast áður? Ég hef aldrei séð hana hærri en þetta. Þetta er bara allt einn fjörður hérna, utan frá Vindheimum og austur fyrir Kaldaðarnes. Þetta er eins og Faxaflói. En þú kemst hvergi? Nei, ég kemst ekkert núna. Og kemst örugglega ekki á morgun. En ég kom mjólkinni frá mér eftir hádegið í gær. Það var ekki fyrr en eftir kaffi síðdegis að þetta lokaðist Þetta hækkaði svo ört. En þú tekur þessu létt? Já, ég læt bara hverjum degi nægja sína þjáningu, eins og í Biblíunni stendur, sagði Eyþór og hló við. Auðsholt er á vesturbakka Ölfusár, svo til andspænis Kaldaðarnesi.
Blaðið náði í dag tali af Gísla Hannessyni í Auðsholti, og spurði hann um vatnavextina. Ölfusá rennur hér dálítið upp á milli bæjanna, eins og hún gerði í haust. Vatnsflaumur Ölfusár er t.d. það mikill, að Bakkarholtsáin, sem rennur hér niður í Ölfusá, kemst ekki fram, heldur rennur hún þvert yfir veginn hér fyrir norðan bæinn. Gísli sagði, að ekki hefði vaxið jafn mikið í ánni nú og og í flóðunum fyrr í vetur. Aftur á móti ætti hún eftir að vaxa mikið, svo ekki væri gott að spá um, hver þróunin yrði. Ég get ekki sagt til um það, hversu mikið vatnsborðið hefur hækkað, en áin er farin að flæða upp á bakkana fyrir utan bæinn hjá mér. Íshellan liggur svo þungt á vatninu, og þrýstir því upp. Ísinn er enn þá ein hella. Steindór á Egilsstöðum ók t.d. í dag hingað, og var mikið vatn ofan á ísnum milli bæjanna. Aftur á móti mun það hafa mikil áhrif á ísinn, ef hlákan heldur áfram. Vöxturinn í Ölfusá á þessum slóðum kom ekki fram fyrr en í dag. Aftur á móti kom vöxtur í fjallalækina, er renna á þessu svæði niður í Ölfusár, strax í gær, og flæddu þeir yfir vegina þá strax.
Gríðarlegur vöxtur hljóp síðan í Ölfusá. Tíminn lýsir því vel, fyrst 29.febrúar:
EJ-Reykjavík, miðvikudag. Fólk var yfirleitt í fasta svefni um fjögur leytið í nótt, þegar ofboðsleg flóðbylgja vatns og stórra ísjaka kom niður Ölfusá og flaut hátt í fimm metra ofar venjulegu yfirborði árinnar. Vatns- og jakabylgjan þaut yfir hluta Selfossbæjar, einkum þó göturnar Selfossveg, Þóristún og Smáratún vestan Ölfusárbrúar og fyllti kjallara og neðstu hæðir húsa vatni, en götur jakahrönnum. Náði flóðbylgjan um 50200 metra inn í þorpið frá bökkum árinnar. Á um hálfri klukkustund var mesta flóðið búið, en eftir voru kjallarar fullir af vatni, götur þaktar ísjökum og bifreiðar fastar í jakaburðinum. Fólk flúði úr húsunum, sumt út um gluggana, og tjón í íbúðum, verslunum og á hinu stóra verkstæði Kaupfélags Árnesinga, er gífurlegt. Nokkuð dró úr flóðinu í morgun, en eftir hádegið myndaðist stífla neðan við Ölfusárbrúna á móts við Selfossbæina, og um fimmleytið í dag kom önnur flóðbylgja svipuð hinni fyrri, og fór hún yfir sömu götur Selfoss með jakaburði og vatnsflaumi. Áin ruddi sig á rúmum hálftíma en ný stífla myndaðist nokkru neðar í ánni en áður, eða á móts við Sandvíkurbæina, og var fólkið því við nýrri flóðbylgju búið. Óx í ánni í allt kvöld, og um ellefu leytið var vatnsmagnið orðið svipað og um fimmleytið í dag og fjögur leytið síðastliðna nótt. Var flóð á sömu stöðum og áður, og eins var mikið farið að flæða við Grænuvelli.
Fólk hafði flúið úr íbúðum við Selfossveg, Þóristún og Smáratún. Það bætti á vandræðin í kvöld, að vatnsleiðslan til bæjarins fór í sundur undir Ölfusárbrú. Er bærinn því neysluvatnslaus. Þá var rafmagnið tekið af þeim húsum, er verst urðu úti í flóðunum, þ.e. við Selfossveg og Þóristún. Þótti of mikil áhætta að hafa rafmagn í þessum húsum við núverandi ástand. Símasamband var orðið mjög slæmt.
Mikil óvissa ríkti á Selfossi um ellefuleytið. Gat hvoru tveggja gerst, að Ölfusá myndi ryðja sig enn einu sinni og vatnsmagnið minnka nokkuð, eða hitt að flóðið myndi stöðugt aukast. Hverfin næst ánni hafa verið undir vatni að meira eða minna leyti í allan dag, en um ellefu leytið var flóðið orðið jafn mikið og það var mest áður. Mun það þá hafa náð um 200 metra frá árbakkanum þar sem mest var. Tómas Jónsson, lögregluvarðstjóri á Selfossi, tjáði blaðinu í dag, að þegar í gær hafi verið hátt í Ölfusá, en þó ekkert geysilegt vatnsmagn. Hafi menn óttast í gærkvöldi, að verulega myndi hækka í ánni, þótt enginn hafi séð fyrir þessi ósköp. Tómas fór fram hjá Ölfusárbrú um áttaleytið í gærkvöðli, og aftur um miðnætti, og var svipað í henni í bæði skiptin. Einn íbúi við Selfossveg fór fram hjá brúnni um kl.3:40 síðastliðna nótt, og var áin þá svipuð og um daginn.
Um fjögurleytið í nótt kom síðan flóðbylgjan, eða aðeins tuttugu mínútum síðar. Það, hversu snögglega jókst vatnsmagnið í ánni, þykir benda til þess að jakastífla hafi brostið í henni fyrir ofan Selfoss, og flóðbylgjan þar með komið svo skyndilega sem raun bar vitni. Vatnið og ísjakarnir fóru yfir svæðið meðfram ánni bæði fyrir austan og vestan Ölfusárbrú. Fyrir ofan brúnna náði vatnið upp að Austurvegi. Vatn flóði inn í verkstæði Kaupfélags Árnesinga. Einnig flæddi inn í kjallara alimiklu austar, eða við Grænuvelli og Hörðuvelli, en þar er m.a. sýslumannsbústaðurinn. Þá flæddi inn í Tryggvaskála, sem er skammt frá sjálfri brúnni, og verslanirnar við brúarsporðinn. Einnig í kjallara Selfossbíós. Mestan usla gerði vatnið þó í íbúðarhverfum vestan við Ölfusárbrú. Þar liggur gatan Selfossvegur, og í framhaldi af henni Þóristún, en fyrir ofan það er Smáratún. Við Selfossveg eru einungis einlyft hús, nokkuð gömul. Fór vatn í kjallara og neðstu hð þeirra allra. Var fólk þá í fasta svefni, og vaknaði sumt við það að rúmin lyftust í vatnsflauminum, en utan við húsin var metra hátt flóð, eða þar um bil, og mikill jakaburður. Fólkið flúði úr húsunum í snatri. Í einu húsinu við Selfossveg varð að koma börnunum út um glugga, þar sem dyr hússins snéru að ánni, og þar beljaði vatns- og jakaflaumurinn fram hjá.
Í dag var fólk áfram aðeins í einu húsi við Selfossveg. Við Þóristún eru ný hús og dýr. Mun vatn hafa farið inn í kjallara a.m.k. sex íbúðarhúsa þar. Í sumum kjöllurunum voru íbúðir mjög vel búnar, og var um mittishátt vatn í þeim sumum. Sums staðar náði vatnið upp á eldhúsborð, en annars staðar var flóðið nokkru minna. Við Smáratún, næstu götu fyrir ofan Þóristún, komst vatn inn í einar þrjár íbúðir. Var það ekki mjög mikið vatn, en olli þó miklum skemmdum. Eins og áður segir, var fólk yfirleitt sofandi þegar ósköpin dundu yfir. Sumir vöknuðu við það að rúmin hreinlega lyftust upp. Aðrir voru vaktir af fólki á efri hæðum, og hoppuðu fram úr rúmum sínum og beint út í hnédjúpt vatn eða meira. Þá var kirkjan alveg umflotin vatni og jökum í dag, kjallarinn fullur af vatni og flddi inn að altari. Vatnið sjatnaði nokkuð, en viða var þó vatn á götunum, og þó einkum geysilegt jökulhröngl. Sagði einn Selfyssingur í dag, að þessi hluti Selfoss hefði litið út eins og árfarvegur eftir jökulhlaup. Þegar í morgun var farið að vinna að því að bjarga lauslegu út úr húsunum við Selfossveg og Þóristún, en mikið, einkum i húsunum við Selfossveg var þegar orðið ónýtt. Er þar bæði um að ræða dýrt innbú, heimilistæki, matvæli og fjölmargt annað. Jarðýta var fengin til að ýta mesta jakahrönglinu af götunum, svo að hægt væri að koma brott bifreiðunum, sem stóðu þar og höfðu lent í flóðinu. Tókst það, og munu flestar bifreiðarnar ekki vera mikið skemmdar, þótt sumar þeirra færu næstum á kaf í vatnið. Upp úr hádegi í dag veittu menn því svo athygli, að á ný var farið að hækka í Ölfusá. Jakahrannir höfðu myndast fyrir neðan brúna, og stífla móts við Selfossbæina. Um fimm í dag náði ný flóðbylgja hámarki og flddi þá yfir sömu hverfi og í flóðinu um nóttina. Í þessu flóði náði vatnsborðið um einn metra upp á Austurveg, þar sem hann er næst brúnni, en sá vegur hækkar til austurs. Flóðið náði upp undir Eyrarveg, og fór í hús fyrir neðan hann. Geymsluhús Tryggvaskála sem stóð á árbakkanum brotnaði og eyðilögðust vörur þær, sem í því voru, en þær munu hafa verið mjög verðmætar. Kirkjan var í allan dag umflotin vatni og íshröngli. Fylltist kjallarinn að mestu, og eins flaut inn kirkjugólfið. Í morgun var unnið að því að bjarga úr kjallaranum ýmsum munum.
Vonlaust er á þessu stigi að gera sér grein fyrir tjóninu á Selfossi. Búast má við, að geysilegt tjón hafi orðið á verkstæði Kaupfélagsins, þar sem mikið af tækjum og varahlutum er geymt þar. Þá hefur flætt inn í a.m.k. 13 íbúðarhús, í Selfossbíó að einhverju leyti og í verslanir og Tryggvaskála. Þá hafa bifreiðar einnig skemmst eitthvað. Er það eitt víst, að tjónið er gífurlegt. Geysistórir jakar bárust niður Ölfusá þegar fyrstu flóð bylgjuna gerði í nótt. Áætla m.enn, að stærstu jakarnir hafi verið hundrað fermetrar eða þar um kring, og þeir þykkustu um einn metri á þykkt. Jakar þessir komu á ofsa hraða niður ána og splundruðust síðan á stöplum Ölfusárbrúar svo að brúin titraði og hávaðinn var ærandi. Jakarnir voru yfirleitt nokkuð minni í flóðbylgjunni síðdegis, og yfirleitt er líða tók á daginn. Voru þeir þó sumir nokkrir metrar í þvermál og um 70 sentímetrar á breidd. Brúin þoldi yfirleitt vel þetta mikla áhlaup, en þegar líða fór á daginn lét stöpullinn við suðurbakkann nokkuð á sjá, og mæddi mjög mikið á festingunum. Voru þær farnar að bogna síðdegis. Vinnuflokkur frá vegagerðinni kom á staðinn síðdegis, og reyndi að jafna átakið milli festinganna með því að setja staura á milli þeirra. Er talið, að brúin sé ekki í hættu. Jakarastir og jakahröngl eru niður með allri á eftir að kemur niður fyrir Ölfusárbrú. Má segja að jakahrönglið sé alla leið niður fyrir Kotferju, sem er á móts við Sandvíkurbæina en eftir flóðbylgjuna um fimm leytið í dag myndaðist einmitt stífla þar. Kaldaðarnes, sem er nokkru neðar, er algjörlega umflotið eins og í gær. Er stórt svæði umhverfis þann bæ eins og hafsjór á að líta. Í dag brotnaði síðan símastaur langt inni á þessu flóðasvæði. Var því símasambandslaust við Kaldaðarnes, og fréttist því ekkert af heimafólki þar.
Ólafur Magnússon, símaverkstjóri á Selfossi, reyndi að komast að brotna staurnum í dag í gúmbát, en það var vonlaust verk vegna óskaplegs vatnsflaums og jakaburðar. Var hann efins um, að það tækist á morgun. Nokkurn vegin andspænis Kaldaðarnesi, vestan Ölfusár, er síðan Arnarbælishverfi, og var það í dag algjörlega einangrað. Þar á meðal er bærinn Egilsstaður. Auðsholt er nokkru vestar, og sagði Gísli Hannesson, bóndi þar, að Ölfusáin hefði í dag runnið á milli Auðsholts og Arnarbælis, og væri vatnsmagnið mun meira en í morgun, og ekki viðlit að komast þar á milli á bifreið. Þá sagði hann, að Auðsholt væri umflotið vatni, en í dag hefði þó verið hægt að komast á jeppa frá Auðsholti til næstu bæja að vestan og norðan verðu. Þar var í dag aðeins um hnédjúpt vatn. Aftur á móti var farið að grafa nokkuð úr veginum, og því erfitt að fara þessa leið. Það er hald manna, að þessi flóð muni standa í nokkra daga enn þá, þar sem venjulega tekur nokkra daga að ryðja niður þeim vatnavöxtum í Hvítá og þeim fallvötnum, er í hana renna. Eru yfirleitt miklir vatnavextir í ám og vötnum í Árnessýslunni, og safnast mikið af þessu í Ölfusánni.
Yfirborð Þingvallavatns hækkhkkaði um 65 sentímetra á hálfum öðrum sólarhring. Í dag dró nokkuð úr afrennsli í vatnið og hætti að hækka í því, þegar vatnsborðið náði leyfilegu hámarki. Stífla er við ósa Þingvallavatns, ofan við Steingrímsstöð. Með því að loka afrennsli um flóðgáttir stíflunnar er hægt að ráða hve mikið safnast í vatnið. Vegna flóðanna í Ölfusá hafa starfsmenn rafveitunnar haldið afrennslinu í skefjum til að auka ekki enn meira á flóðið niður með ánni. En þegar vatnsyfirborðið hefur náð leyfilegu hámarki verður að opna flóðgáttirnar að nýju. Þegar verst lét nam rennslið í Þingvallavatn 500 til 700 kúbikmetrum á sekúndu. Ekkert tjón hefur orðið í orkustöðvunum við Sog í flóðunum. Mikill vöxtur er í Öxará og rennur hún yfir vegi á stórum svðum nærri þjóðgarðinum. Við Álftavatn rennur Sog yfir veginn á um 200 metra kafla.
SJ-Reykjavík, miðvikudag. Það er engum vafa undirorpið, að óhemjutjón hefur orðið af völdum flóða í Borgarfirði, þótt enn sé engan veginn orðið ljóst hve miklar skemmdirnar eru. Hvítá rennur enn yfir veginn hjá Ferjukotssíkinu og fyrir sunnan Hvítárbrú nálægt Hvítárvallaskála. Veghefill ruddi veginn þarna í gærkvöldi og munu einhverjir bílar hafa komist yfir þá. Sá síðasti fór þarna yfir um 10 leytið í gærkvöldi. Áin fór sívaxandi í gærkvöldi og nótt, og náði hámarki um klukkan tvö í dag. Mikill straumur er í ánni og jakaburður. Vatnið flæðir inn í bæinn að Ferjukoti og stóð heimilisfólk þar og afgreiðslumaðurinn í Hvítárvallaskála í vatnsaustri í dag. Vatnsflaumurinn á veginum hefur orðið hátt á annan metra þar sem dýpst var. Vegurinn þarna er eflaust stórskemmdur, einkum Ferjukotsmegin. Heldur var farið að lækka í ánni um fimmleytið í dag en búast má við að það hafi aukist aftur með flóði. Kunnugir segjast ekki muna slíka vatnavexti í Hvítá í að minnsta kosti 25 ár. Í morgun lagði bílstjóri á mjólkurbíl úr Borgarnesi út í vatnsagann en straumurinn bar bílinn út af veginum strax hjá Ferjukotssíkinu. Festist bíllinn en bílstjórinn bjargaðist út. Síðar um morguninn tókst að ná bifreiðinni upp og var hún mikið skemmd. Þá eru mikil flóð í Norðurárdal. Bjarnardalsá flæðir yfir veginn báðum megin við brýrnar. Heldur hafði hún þó rénað í dag. Þá flæðir Norðurá yfir veginn beggja vegna við Hvamm, og einnig hjá Klettstíu og Dýrastöðum. Norðurá er straumhörð enn og með miklum jakaburði. Vegurinn er alófær á þessu svði.Að sögn Leópolds Jóhannessonar, veitingamanns í Hreðavatnsskála eru nú um 80 manns tepptir á bæjum í Norðurárdal í Hreðavatnsskála, og í Fornahvammi, þá bíða 20 manns í Brú í Hrútafirði og Staðaskála eftir að vegir opnist suður.
Vegaskemmdir eru enn ókannaðar, en eru án efa geysimiklar. Um 10 bifreiðir eru tepptar á svðinu milli Dalsmynnis og Hvamms og er ein þeirra að mestu á kafi í vatni. Raflínustaur brotnaði milli Skarðshamra og Dalsmynnis og varð að rjúfa strauminn. Rafmagnslaust var í nótt og fram til þrjú í dag í Norðurárdal og Stafholtstungum. Einnig er símasambandslaust við Glitsstaði í Norðurárdal og við Lundareykjadal. Stórir bílar hafa farið úr Norðurárdal í Dali. En víða rann yfir veginn og mikil hálka var á veginum í dag. Tunguá flæddi enn yfir veginn nálægt Hóli í Lundareykjadal síðast þegar til fréttist. Þó var farið að sjatna í ánni, en runnið hafði úr veginum. Þar er nú traktorsskófla, sem notuð er til að gera við veginn. Þá eru vegir stórspilltir í Skorradal og í Flókadal fyrir ofan Múlastaði. Um Hvítársíðu er fært að Sámisstöðum. Reykjadalsá flæðir yfir veginn í Reykholtsdal. Grímsá flæddi yfir veginn nálagt Hesti í Andakílshreppi í gær og dag. Mikið flóð var þar í dag og komst Reykholtsrútan ekki þar yfir en þrír farþegar úr Reykholtsdal voru hinu megin við vatnsflauminn. Var þá gripið til þess ráðs að sækja gúmmíbát upp í Reykholt og voru farþegarnir, þar á meðal Guðrún Jónsdóttir alþingismannsfrú og matráðskona í Reykholti (kona Jónasar Árnasonar) ferjaðir yfir og komust óskaddaðir í áætlunarbílinn og á leið til Reykjavíkur. Síðar í dag minnkaði flóðið þarna, og klukkan þrjú var búið að ryðja veginn og hann orðinn fær. Annars sagði Vilhjálmur Einarsson, skólastjóri í Reykholti, Tímanum í dag að Reykjadalsá hefði flætt yfir eyrar og tún þar í grennd og einnig yfir íþróttasvæði skólans. Þriðjubekkingar hafa verið í skíðaskóla í Fornahvammi ásamt kennurum og áttu að koma aftur í dag. Ætlunin var að síðasti hópurinn úr Reykholtsskóla færi síðan í Fornahvamm í dag í þeirra stað. Hefur öflugur fjallabíll verið notaður í þessa flutninga og var Vilhjálmur ekki vonlaus um, að tækist að komast þarna á milli í dag, en samkvæmt síðustu fréttum mun þó svo ekki.
[Tíminn ræddi] við Gunnar Guðmundsson í Fornahvammi í kvöld. Mjög margt var þar um manninn síðastliðna nótt eða um 65 manns og síðdegis í dag kom þangað áætlunarbifreið frá Hólmavík svo þar verða um 7580 manns í nótt. Gátu gestgjafarnir komið öllum næturgestum undir teppi í fyrrinótt og vonuðust til að svo yrði einnig í nótt. Veghefill var staddur á Holtavörðuheiði í dag og vegplógur við Hreðavatn en ekki er búist við að neitt takist að ráða við vegatálmanirnar í Norðurárdalnum í kvöld. Ýmsir gestanna í Fornahvammi eiga brýnt erindi í bæinn, þeir eru á leið á ráðstefnu og fundi, þarna eru alþingismenn, og sumir eru jafnvel á leið á dansleiki eða árshátíðir hér fyrir sunnan. Guðmundur í Ási í Vatnsdal og Björn Pálsson eru meðal þeirra sem tepptir eru í Fornahvammi. Höfðu þeir brugðið sér norður, annar af Búnaðarþingi en hinn af Alþingi. Í dag reyndu þeir að fá skíðaflugvél frá Birni Pálssyni til að sækja sig. Lendingarskilyrði eru ágæt þarna, en slyddukrapi var í dag og slæmt skyggni svo þessi ráðagerð tókst ekki. Að sögn Gunnars Guðmundssonar eru þetta almestu vatnsvextir sem þarna hafa orðið í manna minnum og taldi hann tjónið vera orðið óhemju mikið. Mikið leysingavatn hefur flitt inn í fjárhúsin í Fornahvammi og var það i dag orðið 5060 cm. djúpt. Hefur Gunnar orðið að hafa féð úti. Pæla verður send frá Vegagerðinni í Borgarnesi jafnskjótt og vegir opnast. Í kvöld var vatnið farið að renna út úr fjárhúsunum svo búast má við að það verði ekki dýpra. Miklar skemmdir eru orðnar á fjárhúsunum. Í Fornahvammi eru nú staddir 30 unglingar í skíðaskóla ásamt þeim 4045 ferðamönnum sem þarna eru tepptir. Mega atburðir eins og þessir verða okkur þörf áminning um mikilvægi þess að afskekktir staðir eins og Fornihvammur leggist ekki í eyði. Mjólkurflutningar um Borgarfjörð fóru mjög úr skorðum í dag. Einn bílanna fór í Hvítá eins og áður er sagt. Mjólkurbíllinn sem fer í Hvítársíðu komist aðeins. Bíllinn sem fer um Hálsasveit og Reykholtsdal festist við Hofsstaði en mun síðar hafa komist leiðar sinnar. Víða í Borgarfirði varð engum mjólkurflutningum við komið. Snjólaust var orðið víðast hvar í Borgarfirði, en í dag hefur snjóað nokkuð á mörgum stöðum. Færð er töluvert betri í Dölum og á Snæfellsnesi í dag en í gær, enda mikið farið að sjatna í ám. Segja má að fært sé stórum bílum og jeppum um Vesturlandsveg um Dali og víðast hvar á Snæfellnesi. Þó eru ýmsir útvegir í Dölum lokaðir. Einnig er.Skógarstrandarvegur á Snæfellsnesi ófr vegna vatnavaxta. Hörðudalsá fellur yfir veginn og einnig flýtur yfir veginn hjá Narfeyrarhlíð. Tíminn átti tal við kaupfélagsstjórann á Vegamótum á Snæfellisnesi í dag. Lét hann ekki illa af færðinni þar í grennd. Vegirnir eru að vísu skörðóttir, en árnar sem féllu yfir veginn á sunnanverðu nesinu í gær hafa nú rutt sig og er vatnsaginn á veginum orðinn óverulegur.
Fréttaritari Tímans á. Rifi á Hellissandi skýrði okkur frá því í dag að gífurlega miklar leysingar hefðu orðið þar og væri jörð nú auð. Vegir á þessu svæði eru að verða botnlausir af aur. Ólafsvíkurenni á að heita fært, og hefur víst oft orðið eins slæmt. Þar er þó mikil hætta á skriðuföllum. Mjólkurbíll, sem fór fyrir Ólafsvíkurenni í dag frá Ólafsvík til Rifs var þrisvar sinnum lengur þessa leið en venja er til. Ótíð hefur verið á Rifi að undanförnu og gefur illa á sjó. Fréttaritari blaðsins í Ólafsvík lét vel yfir ástandinu þar í dag. Mjólkurbíllinn komist þangað frá Grundarfirði fyrir Búlandshöfða í dag, þótt vegurinn væri ekki góður. Gott veður var í Ólafsvík í dag, frí í skólum eins og annars staðar á landinu, og strákar í fótbolta niðri í fjöru. Í Stykkishólmi og nágrenni er færðin sæmileg. Bíll kom þangað frá Grundarfirði í dag. Nokkuð hefur runnið úr vegum á þessum slóðum. Annars hefur rigningin ekki verið eins mikil í Stykkishólmi og grennd og víða annars staðar, að sögn fréttaritara okkar þar.
FB Reykjavík þriðjudag [27.]. Borgarlæknir og Vatnsveitustjóri hafa sent frá sér tilkynningu til íbúa á svæði Vatnsveitu Reykjavíkur, þar sem allir eru áminntir um að neyta ekki vatns nema það hafi áður verið soðið. Ástæðan er sú, að yfirborðsvatn hefur komist í Gvendarbrunna. Verður tilkynnt, þegar vatnið er aftur orðið neysluhæft.
FB-Reykjavík, miðvikudag [28.]. Vatnið er alltaf að vaxa, sagði Einar bóndi í Auðsholti í Biskupstungum, þegar við náðum tali af honum síðdegis í dag. Hér stendur upp úr hæðin, sem bærinn stendur á, en svo er vatn á allar hliðar aðrar. Hvítá er hér að vestanverðu, en síðan flæðir yfir allt hér að austanverðu. Sennilega er þetta ekki orðið eins mikið flóð og kom hér árið 1930, en það er almesta flóð, sem komið hefur, en vatnið er enn að vaxa, svo ekki er útséð um, hversu mikið þetta verður núna, og eiginlega ekki útlit fyrir annað, en það ætli að verða jafnmikið núna og þá. Það er rigning núna. Áin braut af sér ísinn í gær, og núna er í henni jakastrjálingur. Ekki höfum við lent í nein um sérstökum erfiðleikum þrátt fyrir þetta, en maður verður að fara á bátum, það sem farið er frá bænum, bæði með mjólkina og annað því um líkt. Svo eru fjárhúsin- hér um 400500 metra í burtu, og þangað verðum við að fara á bátum. Fjárhúsin standa það hátt, að engin hætta er á að vatnið fari í þau. Við vonum, að þetta fari að ganga yfir. Ég sé hérna út um gluggann, að. það er að koma slydda, og hann er að ganga í vestur, og þá náttúrlega fjarar þetta nú smátt og smátt út, en annars hefur líklega verið svo mikil leysing til fjallsins, að þetta hefur aukist þess vegna. Ég tel, að vatnsborðið hafi nú hækkað um eina 3 metra eða jafnvel meira frá því lægsta. Ég held, að þetta sé alveg að ná því sem var 1930, en annars er ekki svo gott um það að segja, hvert vatnsborðið er í raun og veru, þegar hvassviðri er, er svo erfitt að mæla þetta nákvæmlega.
Gömlu brúna á Brúará hefur nú tekið af, og þar er vatnsflaumur mjög mikill. Við ræddum við húsfreyjuna í Seli, og sagðist henni svo frá: Áin er hérna fyrir neðan, milli Spóastaða og Sels og þarna er alveg gífurlega mikið vatn. Það er farið að renna yfir veginn fyrir framan gömlu brúna, og flæðir yfir allar engjar, og aðeins holtin standa upp úr. Og meira að segja við nýju brúna, er moldin farin að renna burtu, sem ekið var þar niður í, og nú er orðið hálfillfært yfir hana líka. Stórir bílar komast ef til vill þarna um, en þó er það erfitt, því allt er farið að síga niður síðan frostið fór úr jörðinni. Nýja dæluhúsið á Spóastöðum, en þar er nýkomin hitaveita, er alveg umflotið í vatni, og töluvert mikið vatn í því líka, svo dæluhúsið er ónothæft. Flóðin hafa aldrei verið svona hérna. Gömlu brúna á Brúará tók af, eins og sagt var frá í hádegisútvarpinu, og hún liggur nú í kartöflugarðinum okkar, og það sem á að snúa niður snýr upp á henni. Svo er það Reykjanes, þar er vatnið ekki minna. Ef hann Jón gamli mundi búa enn á gamla hólmanum sínum, þá er áreiðanlegt, að hann væri alveg kominn í kafi, en hann flutti fyrir örfáum árum og reisti húsið á heldur hærri stað, og þar getur hann enn gengið um þurrum fótum. Þetta er hér eins og yfir úthaf um að litast. Það er sumarbústaður á Spóastöðum, og skammt þar frá er hryggur úti í ánni, en áin er farin að grafa þar á milli, og komin er upp ný eyja þar. Það hefur rignt hingað til (klukkan að ganga 6), en nú er aðeins farið að élja svolítið, svo ég býst varla við að þetta haldi áfram að aukast, en það hefur það gert fram að þessu, því nú er snjórinn líka farinn. Hér hefur allt gengið vel, þrátt fyrir þessa vatnavexti, en auðvitað kom mjólkurbíllinn ekki í dag, en við því bjóst heldur enginn.
Litla-Laxá flæddi yfir bakka sína í gær og dag, og þar ræddum við Einar Hallgrímsson í Garði í Flúðahverfinu, Hann sagði: Hér hjá okkur náði þetta hámarki í gærkvöldi, eða eftir kaffi. Þetta hefur verið gríðarlega mikið vatn, líklega aldrei jafn mikið. Síðan hefur vatnið heldur verið að minnka, en samt er vatnsflaumurinn enn mikill og á langt í land með að ná eðlilegu magni. Mér er ekki kunnugt um, að tjón hafi orðið hér á húsum, svo neinu nemur. Mestur vandinn hjá okkur er eiginlega í því fólginn, að við sitjum hér í myrkri, því rafmagnið fór um hádegisbilið. Ekki vitum við hvað veldur, en nú er verið að leita að biluninni. Ég held ég hafi ekki séð svona mikið vatn hérna síðan ég fór að búa hér fyrir 2025 árum. Ég get ekki gert mér fulla grein fyrir því, hversu vatnsborðið hefur hækkað, en og held það skipti metrum. Litla-Laxá er frekar lítið vatnsfall, svona undir venjulegum kringumstæðum, en hún er fljót að vaxa og fljót að fjara út aftur. Ég reikna alveg með að þessu verði öllu lokið á morgun, þó veðrið ráði því auðvitað mest, en nú er farið að kólna, svo þetta ætti að batna.
Kirkjubæjarklaustri. Vegurinn er hér ófær austur með Síðu, en það hefur grafið frá Geirlandsárbrú, alveg við brúarendann, þannig að þar er algjörlega ófært. Í dag var reynt að setja grjót í þetta skarð, en það hefur lítinn árangur borið enn, og allar líkur til þess að það breikki heldur í nótt en hitt. Það hefur verið rigning svo að segja stanslaust í dag, svo ekki minnkar i ánum. Svo er ófært við Hverfisfljót, en það hefur runnið bæði austan og vestan við brúna, en þar grefur ekki mikið niður, því brúin stendur mjög hátt, en þrátt fyrir það hefur vatnið jaðrað alveg upp við brúargólfið. Í Skaftá er vatnið með því mesta, sem gerist, en hún hefur þó engin spjöll gert. Vegurinn við Hverfisfljót lokaðist í gær, en við Geirlandsá ekki fyrr en í dag. Vegurinn hér á milli Klausturs og Víkur er slarkfær, en þó er allmikið vatn undir Hemruhömrum, og víða hefur runnið lauslega úr. Eins er á Landbrotsvegi, þar hefur runnið smávegis úr, en ekki alvarlega.
Mikið hefur verið um að vera hjá vatnamælingamönnum í dag, enda hafa Vatnamælingar hvatt þá til að fylgjast vel með flóðunum. Við töluðum við Eirík Valdimarsson, sem mælir vatn í Hvítá skammt frá Ólafsvöllum, hann sagði: Ég byrjaði klukkan 6 í morgun, og á klukkutíma fresti hækkaði vatnið um þrjár tommur fram að hádegi. Frá klukkan 12 til 2 hækkaði um 4 tommur á klukkutíma, eða 8 tommur samtals. Svo mældi ég á tveggja tíma fresti, og kl.4 hafði hækkað enn um 5 tommur, og kl. 6 um tvær tommur. Síðan hef ég ekki mælt. Það óx geysiört á tímabili, en þetta er samt ekki nærri eins mikið og á mesta flóði. Það vantaði klukkan fjögur í dag 34 cm í mesta flóð, sem mælst hefur. en það var mælt árið 1948. Ég held að það eigi ekki eftir að ná því, þar sem mikið er að draga úr vextinum aftur. Það getur auðvitað eitthvað bæst við, en maður vonar, að allur vöxturinn verði búinn um tólfleytið í kvöld. Ég mæli vatnið í Hvítá hérna skammt frá Ólafsvöllum, á punkti, sem Sigurjón Rist vatnamælingamaður gaf mér. Nokkrar skemmdir hafa orðið á húsum í Ólafsvallahverfinu við Hvítá. Vatn er komið í hlöður á þremur bæjum í Ólafsvallahverfinu, í Norðurgarði, Björnskoti og Andrésarkoti, en skepnur eru komnar á þurrt, svo þeim er ekki hætta búin. Við reiknum með að vatnið eigi eftir að aukast í hlöðunum 1 nótt, því það á enn eftir að síga í gegn.
Mynd sem tekin er við veðurstöðina við Elliðaár í flóðinu mikla 1968. Horft er til vesturs. Tíminn heldur áfram frásögn af flóðunum 1.mars:
FB-Reykjavík, fimmtudag [29.febrúar]. Flóðin í Ölfusá héldu áfram að aukast allt fram til morguns í dag. Fór svo, að flóðið mældist 7 cm meira en árið 1948, en þá setti áin sitt síðasta met. Mun hafa flætt inn í milli 30 og 40 hús á Selfossi og skemmdir hafa orðið miklar. Vatnamælingamaður við Hvítá, rétt hjá Ólafsvöllum, skýrir aftur á móti frá því, að áin hafi þar átt eftir 17 cm í sitt met frá 1948. Mikil ófærð er um alla Árnessýslu og sömu sögu er að segja um Borgarfjörðinn allan, þótt flóðin séu þar búin að þessu sinni. Tómas Jónsson lögregluvarðstjóri á Selfossi skýrði svo frá um ástandið á Selfossi í gærkvöldi og nótt og fram á dag í dag; Áin fór að hækka sig aftur fljótlega eftir hlaupið, sem kom í hana um fimmleytið í gær og hélt áfram að hækka þar til um miðntti, að hún var komin í svipaða hæð og þegar hún hljóp fram kl.5. Hún hélt svo áfram að hækka sig í nótt, og hefur komist hæst í morgun, svona í morgun málið. Þá komst hún upp fyrir flóðfarið, sem hæst hefur verið markað hérna frá 1948. Komst áin 7 cm upp fyrir það, og hærra hefur hún ekki risið. Munu þetta vera hátt í fimm metrum hærra en vatnsborðið mælist venjulega. Það flæddi inn í mörg hús til viðbótar, sem ekki hafði flætt inn í í gr, aðallega ofan við brúna á suðurbakkanum. Mér telst til, að það hafi komist vatn inn í 30 til 40, íbúðarhús. Skemmdir hafa orðið mjög miklar. Burtséð frá innibústjóni er heilmikið tjón alltaf að fá vatn inn í hús. Bæði er hér um að ræða kjallara, sem notaðir hafa verið undir geymslur og svo íbúðarhúsnð. Þegar áin flæddi lengst inn á land í nótt, náði hún á Selfossveginn, Þóristún, Smáratún og svo á svðið norðan Austurvegar og austur undir Hörðuvelli, en þarna eru göturnar Grænuvellir, Fagurgerði, Tryggvagata, Sigtún og Árvegur. Seytlaði inn í kjallara húsa við allar þessar götur og þurfti fólk víða áð flytja úr húsum sínum. Flaumurinn braut niður hlið úr svínahúsi frá Tryggvaskála, og munu nokkur hænsni hafa látið þar lífið. Einnig braut hann töluverðan jarðveg úr tanganum norðan, við kirkjuna, og eins framan við flúðirnar á norðurbakkanum. Þar hefur töluvert brotnað úr bakkanum. Skemmdir á brúnni eru ekki teljandi. Einn kapall hefur aðeins marist. Heldur hefur sjatnað í ánni í dag, en þó ekki mikið, aðeins um 3040 cm og er það ekki meira en svo, að ástandið er eiginlega óbreytt í öllum þeim húsum, sem flætt hefur inn í. nú hefur kólnað í veðri, þá lækkar í ánni, en það kemur sér ekki vel, ef hitinn kemst niður fyrir frostmark, því þá frýs í þessum húsum, sem eru full af vatni og óupphituð vegna rafmagnsleysis og annarra skemmda af völdum vatnsins. Eiríkur Valdimarsson vatnamælingamaður við Hvítá sagði okkur, að áin hefði haldið áfram að vaxa þar til rétt fram yfir miðnætti. Frá sex í gær til klukkan 10 í gærkvöldi bættust við 4 tommur, og milli klukkan 12 og eitt náði áin hámarki, og vantaði þá 17 cm í það sem hæst var mælt árið 1948. Eftir það fór að fjara í ánni. Hægt minnkar í ánni núna, en komið er frost og orðið illfært milli bæja í Ólafsvallahverfinu, vegna hálkunnar. Nokkrar skemmdir urðu á heyjum. Eins og skýrt var frá í blaðinu flæddi inn í hlöður á þremur bæjum, Björnskoti, Andrésfjósum og Norðurgarði. Á fyrstu tveimur bæjunum tókst að verja heyin með dælum, en eitthvað töluvert mun hafa skemmst í Norðurgarði, að sögn Eiríks, en hann býr þar. Hann sagðist ekki hafa enn komist að öðrum fjárhúsum sínum, og vissi hann því ekki fyrir vist, hversu mikið tjónið hefði orðið. Mjólkurbíllinn hefur hvorki í gær eða dag komist að Ólafsvöllum, enda er upp undir klofvatn á vegunum, og óvíst hvernig ástand þeirra er undir vatnsborðinu.
Þá höfðum við samband við Konráð Andrésson hjá Bifreiðastöð Kaupfélagsins í Borgarnesi, og gaf hann upplýsingar um ástandið í Borgarfirði. Í Skorradalnum tók af brú sem er alveg við ósinn, þar sem Andakílsá fellur úr Skorradalsvatni. Þar gróf undan stöplinum og tók þar af, og mun vera alveg ófært þarna. Hinn veginn í Skorradal er búið að laga. Hjá Syðstu-Fossum hafði runnið í sundur vegurinn, en það hefir verið lagað núna. Í Lundarreykjadal tók af veginn beggja vegna við bæinn Kross, en það er neðsti bærinn að sunnanverðu í dalnum. Hefur verið gert við veginn að neðanverðu og eru vegagerðarmenn byrjaðir að ofan, en milli Brautartungu og Oddsstaða, þvert yfir dalinn, liggur vegur, og þar koma Grímsá og Tunguá saman, en þar mun vegurinn vera afleitur núna. Í Flókadal er illfært. Bíll, sem þangað átti að fara fór út af veginum, og er nú verið að ná honum upp úr. Í Reykholtsdal er verið að laga veginn, en hann mun vera svo til ófær og veður þar á öxlum, að sögn bílstjóra, sem þar hafa farið um. Veðri er þannig háttað, að snjóað hefur, og þegar snjórinn kemur ofan í það sem fyrir var, verður þetta eitt svað. Í Hvítársíðu er enn runnið frá þó nokkuð mörgum rennum. og er þar nær ófært. Í Norðurárdalnum er farið að sjatna mikið, en þó er ennþá ófært við Hvamm, og komist mjólkurbíllinn ekki Lengra en þangað. Virðist svo, sem stífla sé þarna í ánni, þótt ekki sé vatnið sérstaklega mikið, og veltur hún öll yfir að Hvammslandi. Allir bílar, sem þurft hafa að fara um Borgarfjarðarhérað eru miklu seinni en venjulega, og gengur umferðin mjög erfiðlega. Hins vegar hafa ekki orðið nein óhöpp á vegunum, sem orð er á gerandi.
OÓ-Reykjavík, fimmtudag [29.]. Um hádegi í dag gerði hríðarveður í Reykjavík og nágrenni. Hlóð niður miklum snjó á skömmum tíma. Götur urðu glerhálar og skapaðist víða umferðaröngþveiti. Vegurinn yfir Digranes háls varð ófær um tíma, þegar umferðin var hvað mest rétt eftir hádegi. Var þá samfelld bílaröð frá Öskjuhlíð og suður i Kópavog og komust bílarnir í hvoruga áttina.
FB-Reykjavík, fimmtudag. Í dag unnu starfsmenn Vatnsveitunnar kappsamlega að því að gera við vatnsæðar og undir búa það, að hægt væri að byrja að dæla vatni úr Gvendarbrunnunum að nýju. Vatnið á Reykjavíkursvæðinu er enn mengað, og telur borgarlæknir það óhæft til drykkjar, nema það sé soðið áður.
Nú kom verkfall - engar blaðafréttir að hafa meðan á því stóð. Mikil hlýindi voru um tíma snemma í mánuðinum og héldu vatnavextir áfram, sérstaklega í Norðurárdal dagana 4. til 5. Illviðri voru suma dagana bæði af suðri og suðvestri. Eftir fyrstu vikuna komu fáeinir rólegri dagar með kólnandi veðri. Um miðjan mánuð gerði síðan mikla ótíð með fannkomu, frostum og illviðrum - eins og kemur fram í fréttapistlum hér að neðan. Þann 13. snerist vindur snögglega til norðurs þegar lægð fór austur um, og þann 15. kom ný lægð að landinu og fór til austurs skammt fyrir sunnan það. Í kjölfar hennar gerði mikið norðanillviðri á Snæfellsnesi, sem þó gekk fljótt hjá. Nýjar lægðir komu þó strax við sögu og næstu dagar voru sérlega kaldir og hvassir með hríðarveðri víða um land.
Veðráttan segir frá því að þann 14.mars hafi heygrind og járnplötur fokið á Hólmi ofan Reykjavíkur. Aðfaranótt þess dags gerði talsvert landsynningsveður á þessum slóðum, en gekk fljótt yfir. Daginn eftir [15.] gerði annað svipað veður síðdegis og um kvöldið, en í þetta sinn með hríðarbyl sem olli miklum samgöngutruflunum á höfuðborgarsvæðinu.
En verkfallinu var loks lokið. Tíminn segir frá 19.mars:
FB-Reykjavík, mánudag [18.]. Færð er nú mjög slæm um allt land, en þegar í kvöld verður hafist handa um að ryðja vegi, þar sem slíkt hefur legið niðri vegna verkfallanna. Þegar verkföllin skullu á, má segja, að aðeins hafi verið búið að gera við allra mestu skemmdirnar, sem urðu á flóðunum fyrst í mánuðinum. Nú liggur snjór yfir öllu, og mun það enn tefja fyrir viðgerðum þeim, sem framkvæma átti á næstunni. Verður þó hafist handa um viðgerðir strax og fært þykir vegna veðráttunnar. Síðan í nótt hefur verið ófært austur fyrir fjall um Hellisheiði og Þrengslin, en mjög þungfært alveg síðan á föstudagskvöldið [15.]. Tæki eru farin af stað til þess að hreinsa leiðina, og gert er ráð fyrir að leiðin verði opnuð fyrir stærri bíla mjög fljótlega. Þegar austur fyrir er komið, á að vera allsæmileg færð um Suðurlandsundirlendið austur í Skaftafeilssýslu, en mjög slæmt er í Vík og þar fyrir austan og eiginlega ófært í svipinn.
SJ-Reykjavík, mánudag. Ofboðslegt óveður skall skyndilega á um þrjúleytið á laugardag [16.] á Snæfellsnesi. Guðmundur Jónasson, sem býr ásamt móður sinni í Lýsudal í Staðarsveit, hafði hleypt fé sínu út til beitar um morguninn. Brá hann skjótt við ásamt bróður sínum, Haraldi Breiðfjörð úr Reykjavík, sem var gestkomandi í Lýsudal, og fóru þeir út og fundu féð og tóku að berjast við að koma því til bæjar. Gengur þeim þetta illa og kemur þar að lokum, að Haraldur örmagnast. Guðmundur ber hann ýmist eða dregur, uns hann getur skorðað hann við símastaur, þar sem hvassviðrisins gætti minna en á víðavangi. Snýr Guðmundur síðan heim á leið og nær við illan leik til bæjar, hringir í nágranna og biður þá um hjálp. Einar Helgason í Hraunsmúla bregður skjótt við og hefur með sér hressingu, heitt kaffi og brennivín. Finnur hann Harald og komast þeir síðan óskaddaðir til bæja. Meðan þessu fór fram mun Guðmundur hafa farið að huga að fénu á nýjan leik, en það hafði þá hrakið í átt til sjávar. Mun þarna hafa farist yfir 100 fjár í sjó og vötnum og var Guðmundur sjálfur hætt kominn. Þetta er gífurlegt tjón fyrir Guðmund bónda, en þarna fórst meginhluti fjárstofns hans. Hann mun hafa átt um 140 fjár alls og var nokkur hluti kindanna á öðrum stað og sluppu þær lífs. Til dæmis um óveðrið sem þarna geisaði á laugardag má geta þess, að áætlunarbíll á leið til Reykjavíkur, lagði af stað frá Ólafsvík, en komst við illan leik að Hoftúni í Staðarsveit. og gistu farþegar og bílstjóri þar. Héldu síðan til Reykjavíkur á sunnudag. Einnig var skólabíll á leið um Staðarsveit, og varð bifreiðarstjórinn að leita heim að bænum Ölkeldu. Létu kennarar og nemendur fyrirberast þar til sunnudags.
AS-Ólafsvík, mánudag [18]. Stórskemmdir urðu á hafnarmannvirkjum í Ólafsvík í óveðri sem þar gerði á laugardagskvöld [16.]. Nýendurbyggð trébryggja brotnaði í spón á 6070 metra kafla. Einnig gróf undan uppfyllingunni inni í höfninni og eyðilagðist þar vatnsleiðsla til fiskiðjuveranna. Áætlað er að tjónið á bryggjunni nemi talsvert á aðra milljón króna. Muna menn ekki annan eins sjógang i Ólafsvík og að sjór hafi stigið jafn hátt og varð á laugardag. Gott veður var fyrri hluta laugardags en um þrjúleytið skall skyndilega á norðaustan ofsaveður og stóð fram yfir miðnætti. Vestansjór var fyrir og varð af þessu mikið brim og tvímælalaust stærsti sjór ársins. Allir bátar komust heilu og höldnu í höfn. En bráðlega var kominn einn samfelldur brimskafl yfir öll ytri hafnarmannvirkin. Aðalbrimbrjóturinn, svonefndur Norðurgarður, hvarf gjörsamlega í brimið. Trébryggja. sem er innan á honum brotnaði í smátt á 30 m kafla á einu andartaki, og þeyttist hátt í loft, þegar sterkur hnútur skall á henni. Sprekin úr bryggjunni má finna hér langt upp í fjöru. Þá hreyfði sjórinn talsvert til af grjóti í nýja brimbrjótnum hér, en þær skemmdir munu ekki vera alvarlegar. Gamli brimbrjóturinn var lengdur um 15 metra og bryggjan innan á honum endurnýjuð í sumar, og kostaði sú viðgerð kr. 75.000. Mun nú ekki annað duga en að framkvæma þessar viðgerðir á ný úr varanlegra efni. Vitamálastjórn ráðgast nú um það hvað best sé að gera til úrbóta á þessum hafnarskemmdum. Einnig skemmdist vatnsleiðsla við höfnina ,en viðgerð er nú lokið á henni. Í dag eru flestir bátar á sjó í Ólafsvík, en veður er fremur vont, norðaustan bylur. Reytingsafli hefur fengist að undanförnu.
Morgunblaðið segir af illviðrinu í pistli 19.mars - en kemur víðar við en á Snæfellsnesi:
Ólafsvík, 18. mars. Óveðrið sem gekk yfir Snæfellsnes nú fyrir helgina, skall á í Staðarsveit laust fyrir miðjan dag á laugardag. Um hádegið á laugardag hafði bóndinn í Lýsudal, Guðmundur Jónasson, sett fé sitt út í besta veðri og var það á beit. Um kl.3 skall skyndilega á norðan veður með mikilli snjókomu og skafrenningi. Fóru þá Guðmundur og bróðir hans, Haraldur, að huga að fénu. Fundu þeir eftir langa leit 14 kindur, sem komnar voru út í Lýsuvatn, sem er neðan við bæinn. Björguðu þeir fénu upp úr vatninu, sem var einn krapi. Fóru þeir síðan að leita að hinu fénu, en alls var þarna úti 145 fjár, sem Guðmundur átti. Ekki fundu þeir fleira af fénu þá um daginn, og áttu þeir fullt í fangi með að bjarga sjálfum sér til bæjar. Þegar eftir var um km leið til bæjar varð Guðmundur að skilja bróður sinn eftir, en komst sjálfur heim og var þá orðinn þrekaður. Var síðan farið að leita Haraldar og fannst hann skammt frá bænum. Hafði hann lagt upp nokkru eftir að þeir bræður skildu og fylgt símalínu til bæjarins. Bræðurnir náðu sér nokkurn veginn, en eru þó þrekaðir enn. Í gær var svo haldið áfram að leita fjárins og fundust alls 77 kindur, en 20 þeirra hafa þegar drepist þrátt fyrir góða aðhlynningu og læknislyf. Talið er nú ósennilegt að fleira fé finnist lífs, og hefir bóndinn því misst alls um 90 fjár og segir það sig sjálft að hér er um mikið fjárhagstjón að ræða og er enn ekki útséð um það hve mikið það kann að verða, því sumt af fénu er enn í mikilli hættu, illa farið og mjög hrakið. Hinrik.
Svo sem kunnugt er skall á illveður nú fyrir helgina og er veðrabrigðanna raunar lengra að leita aftur í síðustu viku, þótt stórviðri yrðu ekki fyrr en í vikulokin. Í veðri þessu fórust 90 fjár vestur í Staðarsveit á Snæfellsnesi og segir nánar frá því í annarri frétt, bryggju tók af í Ólafsvík og hér í Reykjavík nefndu menn þetta Pressuballsveður, því gestir voru einmitt á leið til þessa árlega fagnaðar blaðamanna, er veðrið skall hér yfir. Lentu margir prúðbúnir gestir í hinum verstu hrakningum en náðu þó til fagnaðarins að lokum. Mikið umferðaröngþveiti varð hér í höfuðborginni og slys, sem annars staðar er getið. Lögregla og hjálparsveitir voru kallaðar út og er til þess tekið hve frábærlega þessir aðilar stóðu sig við hjálparstörfin. Hér er ekki um að ræða tæmandi fregnir frá þeim hálfsmánaðartíma ,sem blöðin hafa ekki komið út. Síðastliðinn þriðjudag gekk vindur til norðurs eftir talsverðan hlýindakafla og snjóaði þá talsvert fyrir norðan, eftir því sem Veðurstofan upplýsti í gær. Aðfaranótt föstudags setti niður talsverðan snjó með suðvestan hvassviðri sunnan lands og vestan og á föstudag snjóaði einnig annars staðar á landinu. Á föstudagskvöld hvessti aftur af suðaustri og bætti enn á snjóinn, en aldrei orðið svo hlýtt að hann hafi tekið upp að neinu ráði. Framundan virðist vera norðaustan átt og bjart veður og frost sunnanlands, en áframhald á snjókomu eða éljagangi norðanlands.
Samkvæmt upplýsingum Vegagerðar ríkisins er snjór með mesta móti á vegakerfi landsins. Vegirnir umhverfis Reykjavík eru mjög illa farnir vegna vanhirðu verkfallstímabilsins og fyrir það var viðgerð á skemmdum vegna flóða ekki lokið. Ekki verður unnt að hefla vegina fyrr en þiðnar, en allt er nú gaddfreðið. Mikil ófærð hefur verið víða um landið síðan aðfaranótt sunnudags, þó að einhverjir fjallabílar hafi ef til vill komist leiðar sinnar. Allar vélar Vegagerðarinnar voru komnar af stað á sjötta tímanum í gær til þess að ýta snjó af vegunum og lagfæra þá. Sæmileg færð var um Árnes- og Rangárvallasýslur, en í báðum Skaftafellssýslum var hin mesta ófærð. Sæmilegt færi var upp í Borgarfjörð um Hvalfjörð og um Snæfellsnes, nema á fjallvegum þar, en vonast er til, að unnt verði að opna þá í dag, ef veður leyfir. Einnig á að ryðja snjó af veginum um Bröttubrekku í dag og verður þá væntanlega fært alla leið til Króksfjarðarness. Á Vestfjörðum hefur verið slæmt veður að undanförnu og er þar allir vegir ófærir. Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði eru báðar ófærar, en í dag á að ryðja snjó af vegunum og verður þá leiðin ReykjavíkAkureyri fær. Einnig á að freista þess að ryðja af veginum norður til Hólmavíkur og sömuleiðis vegina milli Akureyrar og Húsavíkur og Akureyrar og Dalvíkur. Á Norðausturlandi og á Austurlandi eru mikil snjóþyngsli, en í gær var þó verið að ryðja snjó af veginum um Fagradal og verður þá fært niður á Reyðarfjörð frá Egilsstöðum og einnig eitthvað um Hérað. Á Suðausturlandi er mikil ófærð og snjór. Aðeins er fært frá Hornafirði um Nesin yfir í Suðursveit, en bæði Almannaskarð og Lónsheiði eru ófær.
Borgarnesi, 18. mars. Óveðrið, sem gerði hér um helgina og fyrir hana, olli samgöngutruflunum, einkum veðurhæðin og sortinn, Aldrei festi snjó svo beinlínis skapaðist ófærð af þeim sökum, a.m.k. ekki í lágsveitum Borgarfjarðar. Ýmsir vegfarendur lentu í erfiðleikum á föstudaginn, urðu að yfirgefa bíla sína og gista þar sem þeir náðu fyrst til bæja. Áætlunarbíllinn sem lagði upp frá Reykjavík á föstudag og ætlaði hingað, varð að snúa við og náði hann til Reykjavíkur aftur. Bílar tepptust í Hvalfirði og einhver brögð urðu að því, að þeir lentu út af vegum vegna blindhríðar. Ekki urðu slys á mönnum. Þá mun og hafa orðið tafsamt fyrir sjúkrabíl, sem var á leið með sjúkling ofan úr Reykholtsdal og niður á Akranes. Greiðfært er hér nú um allar lágsveitir. Verkfallið var lítil áhrif farið að hafa hér í Borgarfirði, enda hér engir í verkfalli og mjólkin unnin er barst til mjólkurbúsins í Borgarnesi. Hörður.
Stykkishólmi, 18 mars. Kerlingarskarð er ófært í dag og vegna óveðurs féll áætlunarferðin niður í gær en á morgun verður vegurinn yfir fjallið mokaður og verður þá bílfært suður. Það má segja, að stöðugar ógæftir hafi verið frá áramótum og mjög sjaldan gefið á sjó. Bátar eru nú hættir við línu, nokkrir þegar farnir á net og aðrir að taka netin. Hefir lítill friður verið það sem af er með netin, en þó virðist afli hafa heldur glæðst og mætti búast við sæmilegum afla ef gæftir yrðu. Fréttaritari.
Stað, Hrútafirði. Holtavörðuheiði er ófær bílum í dag. Þrír jeppar gerðu tilraun til að komast suður yfir heiðina en sneru við. Fjórir bílar fóru yfir heiðina í gær og nutu þeir aðstoðar jarðýtu. Aðrir bílar fóru ekki yfir heiðina. Héðan er gott færi allt norður á Blönduósi og er snjólaust á vegum.
Bæ, Höfðaströnd, 18. mars. Hér eru ekki veruleg snjóþyngsli, en harðindi og gengur á með hríðarbyljum og frost hafa verið mikil. Nýlokið er skoðun á heyforða og ástandi búpenings. Ástandið er betra en búist var við, þótt einstakir bændur séu knappir með hey þá virðist heildarheyfengur nægur í héraðinu. Hross eru allvel haldin a.m.k. hér í Úthéraði. Til sjávarins hefir gengið illa vegna gæftaleysis og hefir því verið lítið róið til fiskjar. ... Færðin er sæmileg, þótt mikinn hríðarbyl gerði í fyrrakvöld. Bílar sem þá voru á ferð lentu í miklum erfiðleikum, fóru útaf og sumir á hliðina og jafnvel á hvolf, en engin slys urðu á mönnum. Björn.
Kópaskeri, 18. mars. Segja má að veturinn hér hafi verið einkar slæmur, látlausar umhleypingar og tíð veðrabrigði og harðindi. Snemma í vetur gerði svellalög sem hafa haldist utan hvað kom góð hláka í byrjun mars, en stóð stutt. Nú í síðustu viku gerði óveður á ný, en þó er sæmileg færð hér innan héraðs, innan við Kópasker. Algerlega er nú ófært til Raufarhafnar en akbrautin er víða niðurgrafin á þessari leið og verður því fljótt ófær.
Morgunblaðið heldur áfram frá 20.mars:
Miðhúsum Austur-Barðastrandastrandarsýslu 19.mars. Í veðrinu sem skall á á laugardaginn [16.] missti Ólafur Magnússon, bóndi í Bæ, sextíu og fjórar kindur. Hann er nú búinn að finna þrjátíu þeirra dauðar. Annar bóndi, Halldór Kristjánsson, missti átta kindur og hefur ekkert fundist af þeim. Veðrið skall mjög snögglega á, og féð var þá á beit. Var veðurhæð og dimmviðri svo mikið að ekki var viðlit að finna féð til að koma því í hús. Fyrr í vikunni voru miklar rigningar og leysingar og skemmdust þá rafstöðvarnar á Kinnastöðum og Bakka, vegna flóða. Rafstöðin á Bakka sá þrem bæjum fyrir rafmagni. Skemmdirnar eru það miklar að viðgerðum verður ekki lokið fyrr en einhvertíma í vor. S.G.
Ekki var allt búið. Gríðarlega snjókomu gerði syðst á landinu. Að morgni 21. mældist snjódýpt á Stórhöfða 90 cm, það mesta sem mælst hefur þar. Sömuleiðis snjóaði mjög mikið í Mýrdal [70 cm á Loftsölum] og undir Eyjafjöllum [80 cm í Skógum], hvort tveggja það mesta á stöðvunum. Fyrir utan aftökin í Eyjum er gríðarleg snjóflóðahrina í Mýrdal minnisstæð þessa daga.
Í snjódýptargagnagrunni Veðurstofunnar eru aðeins settar inn snjóhulu- og snjódýptarathuganir kl.9 að morgni. Athugunarmaður á Stórhöfða (Óskar J. Sigurðsson) mældi einnig snjódýpt kl.12 og 18 þann 21.mars. Hún var þá 100 cm. Úrkomumæling var erfið og í athugasemd kl.12 segir að úrkomumælirinn sé kominn á kaf í snjó. Að morgni þess 21. hafði sólarhringsúrkoman mælst 60,1 mm á Stórhöfða. Frá kl.9 til kl.18 mældust síðan 42 mm, en síðan var ekki hægt að mæla fyrr en kl.18 tveimur dögum seinna. Þá voru 60,1 mm í mælinum.
Snjókomukast þetta hófst á Stórhöfða þ.19. með éljagangi, en það snjóaði alla aðfaranótt þess 20. í nokkuð eindreginni norðanátt. Kl.15 stytti upp skamma stund og vindur var þá af suðsuðvestri. Þá hófst snjókoman aftur og í þetta sinn í ákveðinni austsuðaustanátt, skyggni fór niður fyrir 100 metra. Seint um kvöldið snerist lítillega á áttinni, til suðausturs og suðsuðausturs og hægði nokkuð um stund. Kl.9 var hins vegar hvöss austanátt - og hafði farið í 25 m/s frá því kl.6. Um miðjan dag hægði aðeins og vindátt varð breytileg. Kl.18 hvessti loks af háaustri og sú átt hélst allt fram yfir hádegi 23 og náði fárviðrisstyrk í rúman sólarhring, mest 42,7 m/s um kl.18 þann 22. Ekki var viðlit að stunda mælingar utandyra meðan á þessu stóð.
Á Skógum undir Eyjafjöllum jókst snjódýpt úr 20 í 80 cm frá 21. til 22., en ekki komu nema 7,9 mm í mælinn - alveg ljóst að mikið vantar upp á magnið. Ekki skilaði sér heldur mikið í mæli í Vík í Mýrdal, en athugunarmaður (Þórður Karlsson) segir frá 3 m sköflum. En í Mýrdal hafði einnig snjóað mikið dagana áður, sérstaklega aðfaranótt 18. og 19., en þá var ekki mikill snjór í Vestmannaeyjum. Á Hólmum í Landeyjum er ekki getið um mikinn snjó þessa daga. Nokkuð snjóaði á Mýrum í Álftaveri, og snjóþungt var um þessar mundir á Kirkjubæjarklaustri, en bætti ekki mikið í þá daga sem aftakasnjókoman gekk yfir syðst á landinu.
Gervihnattamyndir voru í frumbernsku um þessar mundir. Veðurstofa bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli fór að taka reglulega á móti þeim vorið áður, 1967. Þótti íslenskum veðurfræðingum þar þær góð búbót. En aðalstöðvar Veðurstofunnar í Reykjavík þurftu að bíða lengur. Hér voru innrauðar myndir ekki komnar til sögunnar. Það þýddi að ekkert sást á myndunum stóran hluta vetrarins. Hér að ofan er mynd sem tekin var skömmu eftir hádegi þann 21. febrúar, einmitt þegar hvassviðrið var hvað mest í Vestmannaeyjum. Við sjáum örmjóan skýjabakka við Suðurland. Ekki hefur verið langt í mun betra veður sunnan Eyja. Myndin er hér fengin úr prentuðu safni háskólans í Vestur-Berlín.
Tíminn segir frá þessari miklu snjókomu í frétt þann 22.:
GÞIE-Reykjavík, fimmtudag [21.]. Vestamannaeyingar, sem yfirleitt eru blessunarlega lausir við ofríki vetur konungs hafa heldur betur fengið að kenna á klóm hans síðustu daga. Snjóað hefur látlaust í Eyjum tvo síðustu sólarhringa, svo að segja linnulaust, og að sögn tíðindamanns var þar í dag jafnfallinn snjór um metri að þykkt og víða höfðu myndast mannhæðarháir skaflar. Snjóað hafði yfir hitamæla Veðurstofunnar á Stórhöfða, svo að ekki var hægt að lesa á þá í morgun. Ekki reyndist unnt að fljúga til Eyja í dag. Snjókoman byrjaði á þriðjudag [19.] og síðan hefur snjóað jafnt og þétt þar til í dag, en það stytti upp skömmu fyrir hádegi [21.]. Voru þá allar girðingar á kafi, stórir bílar stóðu fastir víðs vegar og aðra hafði nánast fennt í kaf. Yfirleitt var veður stillt en í nótt var talsverður skafrenningur og rok hefur verið mikið síðasta dægrið, en á Stórhöfða mældust 10 vindstig í morgun. Strax og snjókomunni linnti voru vegheflar og ýtur settar í gang og voru fjölförnustu leiðir ruddar en það gekk fremur illa vegna roksins. Byrjað var snemma í morgun að moka snjó af bryggjum, svo að bátar gætu landað og hefur löndun gengið sæmilega í dag og önnur vinna sömuleiðis. Hins vegar féll kennsla niður í skólum í dag. Lögreglan hefur verið á þönum að aðstoða fólk við að komast leiðar sinnar frá því í morgun. Yfirleitt er mjög fremur snjólétt í Eyjum og á fólk þar alls ekki að venjast slíku vetrarríki. Elstu menn í Vestmannaeyjum muna ekki svo mikið fannfergi, svo að notað sé hið sígilda orðatiltæki.
Morgunblaðið segir 22.mars frá flóðinu í Elliðaám - og nefnir tölur:
Það er nú komið í ljós að flóðið í Elliðaánum fyrir skömmu komst upp í 150160 teningsmetra á sekúndu, og er þannig langmesta flóð sem vitað er um í þeirri á. Ingólfur Ágústsson, verkfræðingur, Landsvirkjunar tjáði okkur að algengustu vorflóð í ánum mældust 4070 teningsmetrar á sekúndu og er því meira en tvöfalt vatnsmagn úr mestu vorflóðum, sem nú hefur safnast í árnar. Síðasta mikla flóðið í Elliðaánum á undan þessu var í apríl 1962. Það var um 100 teningsmetrar á sekúndu, en fór upp fyrir 120 um skeið, er stílflan rofnaði. Venjulegu vorflóðin valda ekki tjóni, þó þau fari upp i 70 teningsmetra. En komist þau upp í 100, sem er álíka og vatnsmagn Sogsins eru mikil verðmæti í veði. T.d. urðu núna miklar skemmdir á Árbæjarstíflunni, en skemmdir við Elliðavatnsstíflu urðu minni en gert var ráð fyrir í fyrstu að því er Ingólfur tjáði okkur. Það var ekki fyrr en tveim vikum eftir að flóðin hófust, sem almennilega var hægt að sjá spjöllin við Elliðaárnar, því strax þegar flóðið fór að sjatna, snjóaði og hvít blæja lagðist yfir allt. Höfðu orðið gífurlegar skemmdir á vegum þarna í kring. Ingólfur sagði okkur, að árfarvegurinn hefði mikið breytt sér, einkum- á kaflanum frá Árbæjarstíflu og að Elliðaárstöð. Hefði þar grafist upp jarðvegur, fyllst hylir og hrunið úr bökkum. Aðspurður um hylji laxanna, sagði hann að vel gætu nú komið upp nýir góðir veiðistaðir. En ekki vissi hann um neinn annálaðan veiðistað, sem virtist hafa skemmst. Því má kannski skjóta hér inn í að flóðin miklu náðu yfir allt Suðvesturland, norður um Borgarfjörð og sunnanvert Snæfellsnes og um allt Suðurlandsundirlendi, allt að krikanum við Eyjafjallajökul, því stór flóð voru í Rangánum og Markarfljóti, að sögn Sigurjóns Rist. Sagði hann að hlaupið í Ölfusá væri á þriðja þúsund teningsmetrar. En þó að Ölfusá hefði farið 7 cm hærra við Selfoss en í flóðinu 1958, þá hefði nú verið minna vatnsmagn í henni en þá. Ísstíflan sem nú myndaðist og stíflaði að nokkru farveginn gerði það að verkum að flóðið náði hærra við Selfoss.
En það var ekki bara illviðri í Vestmannaeyjum. Tíminn segir af fannfergi og snjóflóðum í Mýrdal í frétt 23.mars:
Reyni og EJ-Reykjavík, föstudag [22.]. Snjóflóð féllu í dag á þremur stöðum úr Reynisfjalli. Tvö snjóflóð féllu á fjárhús og hlöður og munu á þriðja hundrað fjár hafa farist og mikið hey spillst. Litlu munaði að manntjón yrði á einum bæjanna, Lækjarbakka. Það vildi bóndanum þar, Gísla Skaftasyni, til happs. að honum dvaldist óvenjulengi við störf í fjósinu og komst því ekki í fjárhúsin á réttum tíma þeim tíma sem snjóflóðið skall á þau og þreif með sér þök og hey eina fimm hundruð metra. Það var um 10 leytið í morgun að snjóflóðið féll á fjárhúsið og hlöður á Lækjarbakka. Um sama leyti féll snjóflóð úr Reynisfjalli hjá Reyni. Lenti það á milli fjárhúss og íbúðarhúss og olli engu tjóni. Síðdegis í dag féll snjóflóð síðan á fjárhús og hlöðu í Efra-Presthúsum sunnan við Reyni og gróf á kaf i fönn. Unnið var í allan dag i blindbyl við að grafa kindur, lifandi og dauðar, úr fjárhúsunum á Lækjarbakka og Presthúsum. Þá héldu nokkrir menn seint í dag áleiðis að Görðum, syðsta bænum undir Reynisfjalli, en ekkert símasamband hefur verið við bæinn í allan dag og þótti vissara að kanna hvort eitthvað hefði komið fyrir þar. Komust þeir þangað eftir kvöldmatinn og reyndist allt vera í lagi. Snjóflóðið, sem lenti á fjárhúsunum i Efri-Presthúsum, mun hafa tekið símalínuna út að Görðum um leið. Norðaustan átt hefur geisað í Vík í Mýrdal og svæðinu undir Reynisfjalli og allt vestur undir Eyjafjöll Snjór hefur verið meiri en elstu menn muna eftir. Í Vík eru hús víða á kafi, og einna helst hægt að ferðast milli húsa þar á skíðum. Snjórinn er mjög laus í sér og erfiður yfirferðar.
Það var upp úr kl. 10 í morgun að Gísli Skaftason bóndi á Lækjarbakka. sem er skammt vestan við Reyni, hélt til fjárhúsa. Hafði hann tafist óvenju lengi við mjaltir vegna rafmagnsbilunar og ófærðarinnar. Kom í ljós, að mikið snjóflóð hafði fallið á fjárhúsin og tvær hlöður. Snjóflóðið hafði tekið þök húsanna með sér og hluta af veggjum. Fjárhúsin á Lækjarbakka eru í fjallsrótinni, og fjallið víða snarbratt fyrir ofan þau. Hefur oft áður verið þarna snjóflóð, en þau hafa alltaf stöðvast allangt fyrir ofan fjárhúsin. Í þetta sinn var snjóflóðið aftur á móti miklu kröftugra en nokkru sinni fyrr. Flutti það m.a. hey úr einni hlöðunni a.m.k. 500 metra niður eftir, svo og þök húsanna og ýmis brot úr veggjum. Munu um 300 hestar af heyi hafa farið þarna á kaf í snjó eða þyrlast upp í bylinn. Í fjárhúsunum voru um 150 kindur. Fólk dreif þegar að af næstu bæjum, en sveitin er einangruð vegna veðurs og snjóa. Var unnið að því í allan dag í blindbyl og mannhæðarháum lausum snjó að grafa kindurnar úr fönn. Hafði 25 kindum verið bjargað lifandi í kvöld, en þær voru mjög þjakaðar. Er búist við, að hinar séu flestar eða allar dauðar. Mjög erfitt var fyrir fólk að komast að fjárhúsunum. Lá við að helsta ráðið væri hreinlega að skríða í lausum snjónum. Á sama tíma og snjóflóðið féll á fjárhúsin á Lækjarbakka féll snjóflóð á Reyni. Gil mikið er fyrir ofan bæinn og fylltist það allt af snjó, en flóðið náði niður á túnið milli fjárhúsanna og íbúðarhússins á Reyni. Varð því ekkert að þessu flóði. Síðar í dag, á meðan fólk var önnum kafið við að grafa fé úr fönn á Lækjarbakka, bárust fréttir af snjóflóði á bænum Efri-Presthúsum, sem eru austan við Reyni við rætur Reynisfjalls. Enginn veit með vissu hvenær þetta snjóflóð féll. Fjárhúsin sjást ekki frá íbúðarhúsinu, og auk þess var slíkur blindbylur. að aðeins sást nokkra metra út um glugga. Var það af tilviljun, að einn heimilismanna var utan dyra, og sá hann hvar járnplötur fuku fyrir vindinum. Var farið að athuga fjárhúsin og hlöðuna og voru þau þá undir snjóflóði. Var þar svipað umhorfs og á Lækjarbakka, en snjóflóðið hafði farið niður fyrir veginn. Í fjárhúsunum voru um 100 fjár og sáust kindur, lifandi og dauðar, í snjóflóðinu. Fólk dreif þegar að og reyndi að bjarga þeim kindum, sem lifandi voru. Var enn unnið að því um kvöldmatarleytið, þrátt fyrir versta veður. Á Efri-Prest'húsum hefur ekki komið snjóflóð í marga mannsaldra að því er fólk veit best. Bóndi þar er Guðjón Guðmundsson. Mönnum ber saman um, að önnur eins snjókoma hafi ekki sést þar um slóðir. Smávægileg snjóflóð hafa oft komið úr Reynisfjalli, en aldrei eins mikil og nú. Hafa bændurnir á Lækjarbakka og Efri-Presthúsum orðið fyrir geysimiklu tjóni.
Tíminn segir 24.mars frekar af snjóflóðunum í Mýrdal:
EJ-Reykjavík, laugardag. Ljóst er nú, að á þriðja hundrað ær hafa farist í snjóflóðunum á Lækjarbakka og Efri-Prestshúsum undir Reynisfjalli í Mýrdal. Unnið var að því í gærdag, að bjarga þeim kindum, sem lifandi voru. Mun aðeins um 40 kindum saman lagt hafa verið bjargað. Björgunarstarfið var mjög erfitt vegna lausasnjóar og ofsaveðurs. Gísli Skaftason bóndi á Lækjarbakka sagði veðrið svo ofsalegt, að þótt menn hefðu verið upp í mitti í snjónum, þá fukum við eins og korktappar upp úr honum. Taldi hann, að tjón hjá sér væri hátt í eina milljón króna. Tjónið á Prestshúsum mun eitthvað minna, þar sem færri kindur fórust þar og lítið sem ekkert hey eyðilagðist. Hér á eftir fara viðtöl, sem blaðið átti í morgun við Gísla í Lækjarbakka og Ólaf Guðjónsson í Efri-Prestshúsum. Þetta er mikið tjón hjá þér, Gísli? Já, þetta er gífurlegt tjón. Öll hús þarna eru mélinu smærri. Þá missti ég um 300 hesta af fyrsta flokks heyi, það fór allt út í veður og vind. Og svo fóru 130 ær, allt tvílembur. Ég hef áætlað tjónið lauslega, og þá gert ráð fyrir að ég myndi kaupa efni og vinnu við að koma þessum húsum upp aftur, og fer þá tjónið upp undir milljón krónur. Þarna voru 150 kindur? Já, og 20 eru lifandi. Við náðum 23 lifandi úr snjóflóðinu, en ein hefur drepist síðan, og tvær eru í andaslitrunum. Það mátti þakka fyrir að fá 23 út úr þessum ósköpum. Voru þetta mörg hús? Það eru tvö rennuhús, sem stóðu þarna saman, og svo skúr vestan við, og eins tvær hlöður, sem stóðu þar fyrir aftan. Snjóflóðið kom á hlið húsanna, og þetta færðist allt saman af stað og fór eina 500 metra niður. Þetta voru níðsterk hús og mikið viðuð, en eru nú mölbrotin og ónýt. Þið voruð svo í gærdag að reyna að bjarga kindunum? Já, við vorum þarna á meðan við gátum og meira en það. því að veðrið var svo mikið það er ótrúlegt að segja frá því að þó að við værum upp að mitti í snjó, þá fukum við eins og korktappar upp úr honum. Rokið var svona mikið og snjórinn laus. Við urðum að draga þessar kindur, sem björguðust, á boldangslepp hingað heim, um 500 metra leið. Þetta var svo lygilegt veður, að því trúir enginn nema sem hefur komið út í það. Það vildi til, að gaddurinn var ekki nema 56 gráður, annars hefði ekki verið hægt að vera úti.
Manst þú eftir svona veðri áður? Já, að vísu hefur komið svona veður hér, bæði t.d. 1949 og 1951, en þá voru símastaurar t.d. komnir á kaf í snjó í Vík. En þá snjóaði ekki svona ört, nú hlóðst þessi snjór upp á örfáum dögum. Ég geri ráð fyrir, að snjóflóðið, sem fór á mín hús, hafi byrjað þannig, að dottið hefur mikil hengja af fjallsbrúninni í brekkuna og tekið þar með sér þennan mikla lausasnjó. Ég hef ekki átt von á snjóflóði þarna nema vatn komi í það. Þá getur hlaupið smávegis niður úr gilinu, og hefur gert. Eins og frá var sagt í blaðinu á laugardag, var Gísli í fjósinu, þegar snjóflóðið skall á. Tafðist hann við kúahirðingu lengur en venjulega, og var því ekki í fjárhúsunum, þegar það skall á. Það sá enginn snjóflóðið, sagði Gísli en þegar ég kom út úr fjósinu, þá sá ég að hey var farið að fjúka. Ég leit norður fyrir, og hélt þá fyrst að þakið af annarri hlöðunni væri farið og lægi þarna í mýrinni. En þegar að var komið, þá sá ég að allt var farið. Snjóflóðahætta er nokkur sums staðar undir Reynisfjalli, sagði Gísli. Reynir, sem er aðeins sunnan við Lækjarbakka, og um 300 metra sunnan við íbúðarhúsið þar kom snjóflóð niður á tún Það hefur komið fyrir áður, og því hafa aldrei verið byggð þar hús. Þeir hafa haft húsin niður undan Bjallanum, sem er hér fyrir ofan, og er undirbrún frá fjallinu, og því talin örugg. Fjárhúsin mín stóðu norðan við Bjallann, og þar kom snjóflóðið nú. Aftur á móti hefur ekki komið snjóflóð, þar sem fjárhúsin í Prestshúsum stóðu, svo lengi sem menn muna. Á þeim stað hafa fjárhúsin sennilega staðið í eina öld eða meira. En sunnan við fjárhúsin í Prestshúsum er snjóflóðahætta í hverri brekku alveg fram að sjó, enda oft komið snjóflóð þar. Gísli sagði, að ekkert væri tryggt fyrir snjóflóðum hjá sér, enda sennilega ekki hægt að tryggja fyrir slíkum áföllum. Þetta verður þá erfitt hjá þér? Það getur orðið það. Ég ætla þó að reyna að fara fram á að bankarnir leggi ekki fast að mér meðan ég er að byggja mig upp aftur. Því ég er ekki fær um að byggja mig upp og greiða þær fjárhæðir. En ég vona, að það fari allt vel, og ég kvíði engu, sagði Gísli að lokum.
Ólafur Guðjónsson er sonur Guðjóns Guðmundssonar bónda i Efri-Prestshúsum. Hann sagði: Þetta var mikið tjón hjá okkur, þótt það væri ekki eins mikið, og í Lækjarbakka. Í fjárhúsinu voru um 100 ær og munu um 80 hafa farist. Við náðum 20 lifandi í gærdag úr snjóflóðinu. Um hvaða leyt'i skall snjóflóðið á? Það hefur sennilega verið um þrjúleytið. Annars sá það enginn, svo að ekki er vitað nákvæmlega um tímann. Aftur á móti sáust plötur fjúka frá öðrum bæ í nágrenninu, og þá var farið að athuga málið. Voru þetta mörg hús? Það voru fjárhús og hlaða. Snjóflóðið bar þetta með sér eina 70 metra. Ólafur sagðist ekki vita nákvæmlega hvað þetta væri mikið tjón. Aftur á móti hefði hey ekkert stemmst hjá þeim, það var í tóft og því að mestu óskemmt. Húsin voru aftur á móti nýleg, og því mikið tjón að þau skyldu eyðileggjast algerlega. Hann sagði, að mjög erfitt hafi verið að bjarga kindunum vegna veðurofsans í gærdag. Nú er veður aftur á móti að lægja.
Í sama blaði er rætt um kólnandi veðurfar:
Erum við á leið inn í kuldann? S.J.-Reykjavík, föstudag. Loftslag á Íslandi hefur verið 1,2°C kaldara undanfarin tvö ár en á árunum 19311960. Síðustu þrjú árin hefur gamall kunningi okkar íslendinga, hafísinn, verið þaulsætinn gestur hér við land. Þessi vetur hefur einnig verið með eindæmum harður og undanfarna daga hafa ríkt miklar frosthörkur og fannfergi um land allt. Er það aðeins tilviljun að þrjú slík kuldaár koma nú í röð, eða megum við fara að búa okkur undir langætt kuldatímabil? Frost og kuldi hafa löngum verið mestu ógnvaldar þjóðarinnar, og þá ekki síst hafísinn. Hann hefur orðið skáldum okkar yrkisefni og eru skoðanir þeirra skiptar. Einum er hann landsins forni fjandi", en annar spyr hvort hefur þú vin okkar hafísinn séð. Sumir telja að hafísinn efli okkur og styrki, hafi gert okkur að harðgerðri þjóð. en öðrum finnst hann leggja dauðafjötur á allt kvikt og undrast hvort innst undir öllum þessum helkulda leynist eitthvert líf og æðri tilgangur. En hvað sem öllum vangaveltum um eilífðarmálin líður þá reynum við að harka af okkur kuldann eftir bestu getu meðan sálin er ekki enn botnfrosin.
Einhverjir spakir menn hafa komið fram með þá kenningu að seinni hluti hverrar aldar sé kaldari hinum fyrri. Ekki er að fullu vitað hvort þessi kenning fær staðist dóm vísindanna en hún virðist ætla að reynast sönn hvað veðurfar hér á Íslandi snertir að minnsta kosti ef svipaðar vetrarhörkur verða hér næstu árin og ríkt hafa undanfarna vetur. Meðalhitinn á landinu árin 1966 og 1967 hefur verið 3.0°C. en meðalhiti á þrjátíu ára tímabili fyrr á öldinni (19311960) var mun hærri eða 4,2°C. Þá hefur hafís verið heldur sjaldséður gestur við íslandsstrendur undanfarna áratugi, en veturinn 1965 bregður svo við að hafís verður landfastur við Langanes og siglingaleið lokast algerlega ís berst inn á firði allt suður á Reyðarfjörð, þá er ís fyrir Vestfjörðum og mjög torsiglt fyrir Horn. Og þessa þrjá vetur síðan hefur mikill hafís verið við landið. þótt ekki hafi hann lagst upp að landi. Blaðamaður Tímans átti tal við tvo veðurfræðinga hjá Veðurstofu Íslands í dag og spurði þá álits um þá kenningu að veður sé almennt kaldara síðari hluta aldar en fyrri hluta. Jónas Jakobsson veðurfræðingur, kvaðst kannast við þessa kenningu og hefði hún raunar reynst rétt hvað snertir nítjándu öldina. Ekki væri því heldur að neita, að undanfarnir vetur hefðu verið kaldir. en vafasamt væri þó að tala um algilda kenningu í þessu sambandi. Adda Bára Sigfúsdóttir, veðurfræðingur, leiddi okkur í allan sannleik um það, að of snemmt er að slá föstum kenningum sem þessari. Elsta veðurathuganastöðin á Íslandi er í Stykkishólmi og hófust veðurathuganir þar 1845. Og erlendis hófust veðurfarsathuganir ekki heldur fyrr en á 19. öld. Að þessu samanlögðu má sjá að kenningin um að kaldara sé síðari hluta aldar en hinn fyrri verður ekki sönnuð með tölum um okkar daga. Annars áleit Adda Bára að svo hefði viljað til að einstök ár hefðu verið óvenju köld síðari hluta aldar fremur en að svo væri almennt.
Morgunblaðið segir af ófærðinni syðst á landinu 24.mars:
Mikill skafrenningur var ennþá á Suðurlandi í gærdag, og mikill snjór yfir öllu. Voru bílar fastir þar á vegum og menn tepptir í þeim, en ennfremur var ástandið sumstaðar þannig undir Eyjafjöllum, að fólk komst ekki út úr húsum sínum nema i gegnum glugga vegna snjóa, sem hlaðist höfðu utan á húsin. Markús Jónsson á Borgareyrum tjáði Morgunblaðinu að undir Eyjafjöllum hefði verið iðulaus stórhríð frá því á fimmtudag. Varð þá að flytja börn úr Skógaskóla heim til sín á Snjóbíl, þar sem aðrir bílar komust ekki leiðar sinnar. Mjólkurbíll sem ók þarna um á fimmtudag var t.d. 6 tíma á leiðinni frá Holtsá að Steinum, en það er um 5 km. spölur. Í gær voru tveir mjólkurbílar tepptir undir Eyjafjöllum. Í kringum Vík í Mýrdal var í gær hin mesta ófærð, og stóðu fjórir bílar fastir í útjaðri þorpsins og komust ekki lengra inn í þorpið. Rafmagnslaust var á bæjunum tveimur, sem snjóflóð féllu á í fyrradag, Lækjarbakka og Presthúsum, en viðgerðarmenn ætluðu í gær að reyna að brjótast þangað í gærmorgun á vélsleða. Morgunblaðið ræddi við Gísla Skaptason, bónda að Lækjarhvammi, og kvað hann fleiri snjóflóð ekki hafa fallið úr Reynisfjalli fyrir utan eitt, sem féll um 250 metra fyrir austan Reyni. Þar eru snjóflóð tíð, svo að aldrei hefur verið byggt á þeim slóðum. Gísli kvaðst hafa orðið fyrir hundruð þúsunda króna tjóni, þegar snjóflóðið féll á fjárhús hans og hlöðu. Kvaðst hann gera ráð fyrir að um 130 af 150 kinda fjáreign væru dauðar. Kvaðst Gísli ætla, að skafl sá, sem snjóflóði þessu olli, hafi losnað alveg upp við fjallsbrún í 5600 metra hæð og hefði verið mikill kraftur í því, sem sæist best að því, að það hefði borið stóran heystakk, sem stóð við hlöðuna, með sér um 300 metra vegalengd.
Tíminn segir 26.mars fyrst frá snjóflóðunum í Mýrdal, en síðan er sagt frá landföstum hafís:
EJ-Reykjavík, mánudag. Björgunarstarfi á Lækjarbakka og Efri-Prestshúsum undir Reynisfjalli í Mýrdal er nú lokið. Í gær, sunnudag, var mikið unnið að björgunarstarfi, og kom m.a. um 30 manna hópur frá Vík í Mýrdal til að aðstoða við að grafa upp kindur og rífa niður hálfhrunin hús, svo að járnplötur og annað slíkt myndi ekki fjúka ef hvessti. Í gær var ein kind grafin upp lifandi á Lækjarbakka og þrjár í Prestshúsum, og höfðu þær legið í fönn síðan snjóflóðið gerði á föstudag. Þennan föstudag munu samtals fimm snjóflóð hafa fallið úr Reynisfjalli, en aðeins tvö þeirra lentu á húsum. Litlu munaði að slys yrði þó í einu til viðbótar; var það snjóflóðið, sem féll á túnið á Reyni. Fjórir menn, sem voru á leið til Lækjarbakka að aðstoða Gísla bónda Skaftason þar fóru um þann stað, sem snjóflóðið lenti á, mjög stuttum tíma áður en það féll. Eins varð rafmagnsbilun í fjósinu á Lækjarbakka þess valdandi, að Gísli bóndi komst ekki í fjárhús á venjulegum tíma, eins og áður hefur verið sagt frá, og mun það hafa bjargað lífi hans. Fólk það, sem kom frá Vík til aðstoðar bændum undir Reynisfjalli, kom flest gangandi, þar sem ógerlegt var að komast á bifreiðum. Nokkrir komu þó á snjóbíl þangað. Á Lækjarbakka munu um 12030 kindur hafa drepist en sumar þeirra, sem lifandi var bjargað úr snjónum, eru hætt komnar. 7080 kindur drápust í Efri-Prestshúsum.
OÓ-Reykjavik, mánudag. Rekís er nú fyrir öllu Norðurlandi, og var í gær og morgun landfastur við Horn og Sléttu. Í dag lónaði ísinn sums staðar frá landinu og spáð er austanátt og ætti hann því að reka frá, nema ef til vill á Ströndum. Ís er að loka höfninni í Grímsey. Höfnin í Raufarhöfn fylltist af ís í morgun en var orðin auð þegar leið á kvöldið. Farið var í ísflug í gær og kom í ljós að megin ísinn 7 til 9/10 liggur 50 sjóm. V- af Straumnesi, 25 sjómílur norðaustur af Hornbjargi, 30 sjómílur norður af Skaga og Siglunesi, 16 sjómílur norður af Grímsey og um 10 sjómílur norður af Hraunhafnartanga og 47 sjómílur norður af Langanesfonti, en þar beygir ísinn í norðaustlæga stefnu. Mikill rekís er fyrir öllu Norðurlandi, landfastur á Hornströndum og víða kringum Sléttu. Siglingaleið ógreiðfær og hættuleg, einkum við Horn og Sléttu. Frá Hornbjargsvita bárust eftirfarandi ísfréttir kl 14 í dag. Skyggnst um á Axarfjalli. Sér hvarvetna í ís, siglingarleið virðist þó ekki mjög ógreiðfær í björtu, mikill ís með landinu dálítið los á ytri brún hans og auðar vakir að myndast frá ystu nesjum og út. Samfelldur ís á öllum víkum frá Hornbjargi að Geirólfsnúpi skyggni er ágætt. Kl. 11 í morgun bárust þessar ísfregnir frá Kjörvogi. Mjög breitt ísrek inn Húnaflóa ekki hættulegt skipum í björtu, gott skyggni. Herðubreið tilkynnti. Allmikið ísrek frá Font að Svínalækjartanga hættulegt skipum í myrkri, Skoruvík á Langanesi tilkynnti kl.11 í morgun. Dreifður ís um alla vík. Talsvert hröngl komið á í fjörur. Kálfshamarsviti kl.9 í morgun: Ísrönd úti fyrir öllum Húnaflóá, inn að Kaldbakshorni. Á ströndum eru smájakar á víð og dreif. Í morgun hafði ísinn aðeins losnað frá landi við Máná, en svo langt sem sá var dreifður ís og spangir, en skyggni var ekki nema 5 km. Frá Siglunesi sást dreift ísrek um allan sjó og talsvert var orðið landfast af jökum. Frá Grímsey sáust ísjakar og spangir á víð og dreif um allan sjó.
Dagur segir frá 27.mars:
Í síðustu var mikil stífla í Skjálfandafljóti norðan við Hlíðskóga í Bárðardal. Hafði vatnsborð fljótsins hækkað um meira en tvo metra og flæddi það yfir vegina beggja megin í dalnum, einkum að vestan og þar er með öllu ófært. Ekki var um það að ræða að fljótið hefði rutt sig, heldur myndaðist stíflan af krapi, sem upp hlóðst smám saman.
Tíminn segir 27.mars frá tjóni af völdum eldingar í Fljótshlíð:
SJReykjavík, þriðjudag. Um kl. 8 í morgun sló eldingu niður í skólahúsið í Fljótshlíð sem er um 9 km frá Hvolsvelli. Hefur hún að öllum líkindum lent í rafmagnstöflu á efri hæð skólahússins, en þar er íbúð skólastjórans. Var taflan alelda þegar Jónatan Jakobsson, skólastjóri kom að og rauf strauminn í skyndi. Jónatan bjó í Fljótshlíðarskóla ásamt konu sinni og þremur börnum og var fjölskyldan að fara á fætur, þegar eldingin hæfði húsið. Aðrir voru ekki í húsinu, en nemendur voru væntanlegir í skólann á næstunni. Fljótlega breiddist út mikill eldur. Tókst heimilisfólki að ná sambandi við slökkviliðið á Hvolsvelli, sem kom fljótlega á vettvang. Einnig barst aðstoð frá nágrönnum. Um klukkan 12 hafði tekist að slökkva eldinn. Var þá þak hússins gjörónýtt svo og íbúð skólastjóra. Á er þarna rétt við húsið og nægt vatn, tókst því nokkuð vel að verja neðri hæðina þar sem skólastofurnar eru, en þær skemmdust þó mikið af vatni og reyk. Fljótshlíðarskóli var byggður 1929, hann er tvílyft steinhús með timburinnréttingum og klæðningu. Húsið er einangrað með þurru tróði, sem er mjög eldfimt. Mjög mikið tjón varð í eldinum. Meðal annars brann allstórt bókasafn skólastjórans og verðmæt málverk.
Svo vitað sé hafa tvisvar áður átt sér stað svipaðir alburðir alveg í næsta nágrenni Fljótshlíðarskóla. Árið 1921 laust eldingu niður í fjárhúsþak að Miðkoti í Fljótshlíð, en þar bjó þá Ísleifur Sveinsson sem nú á heima á Hvolsvelli. Brotnaði hluti af fjárhúsþakinu niður og fórust einar sex kindur og fjögur hross, sem stóðu neðan undir húsunum. Öðru sinni í tíð Ísleifs kom elding niður í lækjargil skammt frá Teigi og urðu af nokkur jarðspjöll. Ísleifur sagði okkur í dag að þrumuveður væri algengt á þessum slóðum einkum í suðvestanátt. Hann hefði t. d. heyrt talað um það, að um eða fyrir aldamót hefðu tveir menn verið á ferð gangandi í Landeyjum. Hefði þá eldingu slegið niður og orðið öðrum þeirra að bana. Ísleifur kvaðst hafa séð nokkrar eldingar í morgun um það leyti, er bruninn varð í Fljótshlíðarskóla, hefðu einnig útvarpstruflanir orðið á Hvolsvelli af þessum völdum. Þess munu raunar fleiri dæmi að menn hafi farist af völdum eldinga á Íslandi. Fyrir aldamótin hæfði eitt sinn elding heila skipshöfn á þiljum skips síns út af Vatnsleysuströnd. Tveir menn munu hafa dáið af völdum slyss þessa og aðrir báru aldrei sitt barr eftir. Þá átti Tíminn tal við, Pál Bergþórsson, veðurfræðing í dag af þessu tilefni. Sagði hann þrumuverður þetta standa í sambandi við kuldaskilin, sem voru að fara þarna yfir í morgun. er áttin var að ganga úr suðaustri í suðvestur. Aðspurður hvort Fljótshliðin og nágrenni væri sérstakt eldinga svæði, sagði Páll, að svo væri ekki. Þrumuveður verður oft á Suður- og Suðvesturlandi við svipuð veðurskilyrði og voru i morgun, einkum á vetrum. Mesta eldingasvæðið er stærra eða Suðurland vestur í Mýrdal og Vesturland norður undir Vestfirði. Þá auka fjöll á eldingahættu. Það er ólíkt með Íslandi og flest um öðrum löndum, að þar eru eldingar algengastar á sumrin með hitaskúrum en hér á vetrum. Veðrið, sem færði sunnlendingum þrumuveðrið er nú farið fram hjá landinu og kominn útsynningur, sagði Páll okkur að lokum.
Morgunblaðið veltir vöngum yfir flóðum í pistli 28.mars - nefnir ekki orðið sviðsmynd sem e.t.v. yrði notað nú á dögum - tölum um nýliðin flóð í Elliðaánum ber ekki alveg saman við þær sem voru í fréttum nokkrum dögum áður:
Flóðin, sem urðu í Elliðaánum og Hvítá Ölfusá í febrúar s.l. eru hreinn barnaleikur miðað við þau flóð, sem við getum átt von á á þessum vatnasvæðum. Þetta kemur fram í eftirfarandi viðtali við Sigurjón Rist forstöðumann Vatnamælinga raforkumálastjórnarinnar. Hverjar eru orsakir þessara flóða, Sigurjón? Algengustu orsakir flóða eru snjóleysingar samfara mikilli rigningu og valda þessi árlegu flóð oft þungum búsifjum viða um heim. Af þessum toga eru flóðin á Íslandi spunnin, nema auðvitað jökulhlaupin, sem verða af öðrum ástæðum. Skilyrðin fyrir þessum flóðum eru freðin jörð og mikill snjór, en síðan snögg veðrabrigði hlýindi með ofsarigningu. Þar sem landið er gropið, eins og hér er það nauðsynlegt skilyrði fyrir flóði, að jörð sé freðin en þessi svæði eru þurr að sumrinu til, því þá hverfur allt vatn niður í jörðina. Flóðum er skipt niður í vissa flokka, er ekki svo? Jú, það er rétt. Samfelldar rennslisskýrslur hérlendis ná, ekki langt aftur í tímann einna lengstar eru þær frá Elliðaánum, eða rösk 40 ár. Flóðið í Elliðaánum nú er óyggjandi það mesta á þessum tíma (um 200 teningsmetrar á sekúndu) og getum við því leyft okkur að tala um svonefnt 50-ára flóð í þessu sambandi.
Í skrásetningu flóða er þeim venjulega skipt niður í 1-árs flóð, sem eru flóð, sem koma á hverju ári, þá 10-ára flóð, sem eru stærstu flóð á 10 árum, 20-ára flóð, 50-ára flóð, 100-ára flóð og 1000-ára flóð, sem eru þá jafnframt þau stærstu, sem komið geta á hverjum stað. En flóðin fyrir austan? Flóðið við Selfoss verður að teljast 20-ára flóð. Árið 1930 kom þar ámóta mikið flóð og einnig 1048 og svo nú 1968. Flóðið 1930 var mest, en engar einhlítar skýrslur eru til um það, hversu hátt það komst. Flóðið í febrúar s.l. komst 7 sm ofar en flóðið 1948. Flóðið hjá Ólafsvöllum í febrúar s.l. náði ekki eins hátt og flóðin 1930 og 1948. í þessu sambandi verður að hafa það í huga, að þótt þessi vatnsgangur yrði í lágsveitum Árnessýslu í febrúar s.l. varð enginn sérstakur vöxtur í Hvítá við Gullfoss, en þar verður hún iðulega tvöfalt meiri, en nú varð. Úr Hvítiárvatni renna að meðaltali 60 teningsmetrar á sekúndu, en að vetrinum til 25 til 36 og er það stofn árinnar. Um Gullfoss er rennslið 126 teningsmetrar á sekúndu, en langtímum saman á veturna 40 til 70. Í mestu vetrarflóðum getur rennslið um Gullfoss farið allt upp í 2000 teningsmetra á sekúndu og er áin þá dag og dag, eða stund úr degi, vatnsmeiri við Gullfoss heldur en niður við Selfoss á sama tíma. Þetta sýnir ljóslega á hverju við gætum átt von, ef samspil veðurfarsþátta að skapa flóð um allt vatnasvæðið yrði enn virkara, en nú varð raunin á. Það er bjargaði var það, að hlýindatímabilið var of stutt til þess, að hálendisárnar næðu sér reglulega upp, og því juku þær ekki verulega á flóðin. ... [T]íðni flóða hjá Ólafsvöllum é Skeiðum hefur farið vaxandi á síðari árum, en þessi aukna tíðni flóðanna leiðir til þess, að gera má ráð fyrir til muna stærri flóðum þarna á næstu árum. t.d. á næsta 50 ára tímabili. Hverjar gætu verið orsakir þessarar tíðniaukningar? Það er erfitt að segja til um það. Hættulegustu flóðin á þessu svæði eru vetrarflóð, sem ís- og jakastíflur orsaka, en sunnan Hestfjalls myndast á lygnum og breiðum sterkar ísspangir yfir Hvítá. Af því leiðir, að ef mikill vöxtur kemur í ána og jakaruðningur þá geta komið þarna illar ís- og jakastíflur, sem spenna ána upp úr farvegi sínum. Á Brúnastaðaflötum var hlaðinn varnargarður 1889, sem hjálpar verulega, en þó ekki nóg. Því má gera ráð fyrir, að einu sinni til tvisvar á öld hlaupi áin þarna úr farvegi sínum og valdi stórtjóni. Sömu sögu er að segja um Ölfusá og fengu Selfossbúar nú smjörþefinn af því hvað slíkar ísstíflur geta leitt af sér, en eftir frosthörkumar í vetur lá sterk íshella á ánni allt frá Arnarbæli að Selfossi og hindraði hún eðlilegt framrennsli í farvegnum.
Það ber því allt að sama brunni. að flóðin í vetur hati verið hreinn barnaleikur miðað við það, sem gæti orðið. Hvað skal þá til varnar verða? Umfram allt verðum við að gera okkur grein fyrir flóðahættunni, vega hana og meta. Við erum nú að komast á það stig með síaukinni þekkingu á rennslisháttum og veðurfari, að geta gert flóðaspár, og eins og nú er með eins til tveggja daga fyrirvara. Erlendis, þar sem vatnsföll hafa langan aðdraganda, er unnt að gera fljóðaspá nokkra daga eða jafnvel viku fram í tímann. Í sambandi við flóðahættu hefur fram til þess verið reynt að staðsefja mannvirki þannig að flóð nái ekki til þeirra og er það auðvitað sjálfsagt. En með vaxandi byggð og fjölbreyttari atvinnuháttum verður þessi sjálfsagða varúðarráðstöfun erfiðari í framkvæmd. Þá verðum við líka að gera okkur grein fyrir því, hvaða áhrif maðurinn sjálfur með mannvirkjagerð og ræktun hefur á rennslisháttu, en þessar framkvæmdir, einkum ræktunin, miða að því að flýta afrennslinu, þannig að á nokkrum tímum flýtur burt vatn, sem annars tæki daga og stundum vikur að síast burt. Á suðvesturlandi hafa heilu dalirnir verið ræstir fram, ef svo mætti segja, t.d. Lundarreykjardalur, en eins og gefur að skilja flýta allir skurðir, bæði meðfram vegum og til ræktunar lands, fyrir afrennslinu. Þetta eru í megindráttum þeir þættir, sem við verðum að taka til nákvæmrar athugunar, ef vera kynni, að með því gætum við minnkað flóða hættuna, sem vofir yfir okkur, sagði Sigurjón Rist að lokum.
Enn urðu umferðarvandræði á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Tíminn segir frá 29.mars:
OÓ-Reykjavík, fimmtudag. Mikil ófærð var á götum Reykjavíkur í dag og þótt fjöldi bíla sæti fastur í sköflum víðs vegur um borgina og umferð því mun minni en ella, voru um 40 árekstrar skráðir hjá lögreglunni. Í gærkvöldi myndaðist ísing á götunum og hlóð niður snjó á ísinguna og varð af mikil hálka. Í dag hríðaði mikið og var snjórinn blautur og var hálkan svo mikil, að iðulega komust bílar ekki leiðar sinnar þótt þeir væru á keðjum. Á leiðinni milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar mynduðust langar bílalestir og var þar algert umferðaröngþveiti á þeim tímum, sem umferðin var mest. Nokkrar götur lokuðust alveg um tíma vegna snjókomunnar en snjóruðningstæki unnu sífellt við að halda aðalleiðum opnum. Fjöldi bíla sat fastur í sköflum og strætisvagnar gátu ekki haldið áætlunarferðum vegna ófærðar og hálku. Margir bílar lentu út af vegum en ekki urðu nein slys á fólki, svo vitað sé. Allir vegir úti á landi voru ófærir öðrum farartækjum en stórum bílum og jeppum. Vegir frá Reykjavík voru flestir færir stórum bílum en víðast hvar var mjög þungfært. Fært var um Þrengsli austur til Víkur en ófært á Mýrdalssandi. Sæmileg færð var um Hvalfjörð og Borgarfjörð. Um Snæfellsnes/var fært í morgun, en Fróðárheiði lokaðist síðari hluta dags. Reynt verður að opna veginn þar um aftur á morgun og einnig um Kerlingarskarð. Vegurinn um Bröttubrekku er lokaður. Vegir á Vestfjörðum eru að mestu lokaðir. Reynt verður að opna milli Akureyrar og Reykjavíkur á morgun. Siglufjarðarvegur opnaðist í dag í fyrsta sinn í langan tíma. Fært er milli Akureyrar og Kópaskers. Starfsmenn Vegagerðarinnar kvarta mikið yfir hve oft menn reyna að þvælast á litlum bílum út á ófæra vegi, jafnvel keðjulausir og illa búnir.
Nú skall gríðarköld norðanátt enn yfir landið og að morgni 1.apríl mældist metfrost víða um land, það mesta í apríl á allri 20. öld. Mest mældist frostið á Hveravöllum, -27,9 stig og á mörgum öðrum stöðvum mældist meir en 20 stiga frost. Ekki síst var óvenjulegt að á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist frostið mest -16,9 stig. Í Reykjavík mældist frostið -16,4 stig, það mesta nokkru sinni í aprílmánuði. Sama á við um flestar veðurstöðvar landsins.
Hér má sjá háloftakort japönsku endurgreiningarinnar og gildir það kl.18 31.mars 1968. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Yfir landinu er snörp norðvestanátt samfara háloftalægð sem nálgast úr norðri. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Blettur þar sem þykktin er minni en 4860 metrar snertir norðursröndina. Þetta er með því allrakaldasta sem sést hefur.
Kortið að ofan (einnig úr japönsku greiningunni) sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa um miðnætti aðfaranótt 1.apríl. Vindur er hægur um landið vestanvert, en hvasst er eystra. Frostið í 850 hPa-fletinum er um -32 stig þar sem mest er. Yfir Keflavíkurflugvelli fór frostið mest í -24,4 stig í 850 hPa þennan dag, það mesta sem vitað er um í apríl og aðeins í örfá skipti önnur hefur það orðið jafnmikið eða lítillega meira.
Kuldahljóð var í öllum, hafís teppti siglingar. Meginísbrúnin sést ógna landinu á myndinni sem tekin er upp úr hádegi 31.mars. Fyrr í mars hafði ísinn verið við vestanverða Vestfirði og hvað eftir annað komið inn að ströndinni á Norðurlandi. Hann lónaði aðeins frá um tíma í apríl, en maí varð mjög slæmur ísmánuður og júní líka.
Íslandskortið frá því kl.9 að morgni 1.apríl sýnir kuldann vel. Hvasst var víða á suðaustanverðu landinu og við norðausturströndina. Tíminn segir frá 2.apríl:
FB-OÓ-Reykjavík, mánudag. Ótrúleg kuldatíð hefur nú gengið yfir landið. Siglingaleiðir eru lokaðar bæði við vestan og austanvert Norðurland. Síðastliðna nótt mældist -16,4 stiga frost i Reykjavík og er það mesta frost sem mælst hefur í apríl allt frá 1881. Þá var reyndar miklu kaldara fyrir norðan, en nú er, en ekki jafnkalt hér fyrir sunnan. Árið 1885 var allt að því jafn mikið frost og nú hér í Reykjavík. Landhelgisgæslan fór í ískönnunarflug í dag, og samkvæmt því sem þá kom í ljós eru nú íseyjar og ísrastir mjög langt inn á Húnaflóa og vikur á Hornströndum eru flestar fullar af ís. ísinn frá Straumnesi að Óðinsboða er víðast samfrosta og er sjóinn að leggja í vökum á þeirri leið. Austur af Óðinsboða, sem er suðvestur af Horni, inni á Húnaflóa, gisnar ísinn lítið eitt, en þéttist aftur vestan við Siglufjörð. Frá Siglufirði liggur ís 46/10 hluta, 46 sjómílur frá ströndinni, uns komið er að Rauðunúpum og undan Sléttu er allt að 79/10 hl. Þistilfjörður er allur þakinn ís (69/10 hl.) og verður ísinn þéttari eftir því sem innar dregur. ísinn er kominn fyrir Langanes og inn undir Digranes, og í mynni Vopnafjarðar, en nokkur ís er allt suður á móts við Glettinganes. Frá Straumnesi að Óðinsboða er varla fært nema öflugum skipum, og siglingaleið er varasöm frá Látrabjargi að Straumnesi. Siglingaleið fyrir öllu Norðurlandi er mjög ógreiðfær og hættuleg, einkum við Sléttu. Í ísfréttum, sem Veðurstofunni höfðu borist síðdegis í dag segir, að ísinn sé að mestu horfinn frá Hvallátrum, og þaðan sjáist aðeins ginstöku jakar. Frá Hornbjargsvita bárust þær fréttir, að 1000 m breitt íslaust belti væri frá Smiðjuvíkurbjargi norður fyrir Hornbjarg, en samfelldur ís þar fyrir utan. Frá Hrauni á Skaga var tilkynnt, að stöðugt bættist við ísinn við land, og í allan dag hefur ís verið að reka inn Skagafjörð. Frá Siglunesi að sjá er ís fyrir öllu hafi, og nálgast mjög ört. Landföst ísbreiða nær út fyrir siglingaleið. en þar fyrir utan virðist nokkuð greiðfært. Samfelldur ís er út undir miðjan Siglufjörð. Frá Grímsey sést ekki í auðan sjó nema smáræmu i skjóli við eyna. ísinn hefur aukist mikið séð frá Mánárbakka á Tjörnesi í dag, en í kvöld voru ekki orðnar auðar rennur nema frá austri til vesturs í um það bil 8 km frá landi.
GV-Trékyllisvík. Mikill ís er hér fyrir landi. Ekki bar á honum að ráði fyrr en í fyrradag og í gær. Í fyrrinótt kom talsveður ís hér inn á Trékyllisvíkina og hefur hann aukist í sífellu síðan. Autt er út norðurfjörðinn út undir Reykjanes hyrnu, en þar fyrir framan er breið spöng sem ekki sér út fyrir héðan. Ísinn er ekki mjög þéttur að sjá. Íslaust er inn á flóanum frá Gjögri og í áttina að Hólmavík. Aftur á móti er ís á reki út um allan flóa og Ófeigsflói er fullur af ís. Í dag hefur verið norðlæg átt og heldur hún ísnum nokkuð hér frá landinu en þeim mun meira rekur inn Flóann. Ekkert vegasamband hefur verið hingað í vetur, en flóabáturinn hefur komið hér á hálfsmánaðarfresti. Von var á Herðubreið hingað en búið er að aflýsa ferðinni og kemst skipið ekki nema til Ísafjarðar, þar sem ekki er fært fyrir Horn. Von var á heyi og fóðurbæti til Djúpavíkur þar sem einstaka menn eru orðnir heylitlir, en yfirleitt munu birgðir endast fram yfir sumarmál.
JJ-Skagaströnd. Héðan er farinn að sjást jaki og jaki sem rekur inn Húnaflóa og úti fyrir sést í mikinn ís. Skyggni er hér ágætt. Í morgun hefur verið sólskin og heiðríkt, en síðari hluta dagsins kulaði að hánorðan og er búist við öllu hinu versta í sambandi við ísinn. Norðaustan og austan áttin hefur haldið honum að Ströndum til þessa undanfarið og hefur hann því ekki rekið eins mikið inn Flóann. Einn bátur fór á sjó með birtingu í morgun. Var ekki lagt í að róa fyrr vegna hættu á siglingarleiðum. Engir aðrir bátar héðan eiga línu eða net í sjó. Afli er lítill sem enginn hér inni í Flóanum og væri fremur aflavon ef hægt væri að komast lengra út. Færðin á landi er nokkuð sæmileg.
EH-Akureyri. Hafísinn hefur nú rekið inn Eyjafjörð og er ísspöng landföst við Hjalteyri og er á leið inn fjörðinn. Strekkingsvindur er að norðan og má búast við að ísinn verði kominn inn undir Akureyri með morgninum. Stakir jakar og íshröngl er er komið talsvert innar en spöngin, sem ekki er mjög breið en löng. Pollurinn hefur verið lagður i nokkurn tíma og er ávallt fjöldi manns sem dorgar niður um ísinn, og fá sumir ágætan afla.
ÞJ-Húsavík, Ís hefur rekið hér inn i dag. Frá Húsavík eru sjáanlegar jakaspangir fyrir utan einstaka jaka, sem reknir eru lengra inn. Í dag er norðanátt, ekki ýkja hvasst, og er allur ísinn á innleið. Frostið er um 12 stig í dag, var meira í gær. Mikið liggur af netum í sjó, bæði grásleppu og þorskanet. Sjómenn reyndu í gær að bjarga netum sínum undan ísum, en ekki tókst að ná nema litlu af þeim. Er ekki gott að segja hvernig veiðarfærunum reiðir af, fer það allt eftir hvort ísinn rekur enn lengra inn en orðið er. en fyrirsjáanlegt er að margir bátanna hafa orðið fyrir miklu netatjóni. Í vetur hefur verið mikið gæftaleysi og óstöðug tíð og ekki bætir úr að nú liggur hafís á miðunum. Húsvíkingar eru nú innilokaðir og skip sem koma áttu hingað nýlega hafa orðið að losa á Austfjörðum. Vegurinn milli Húsavíkur og Akureyrar er fær eins og er og eins vegir um flestar nærsveitir. Snjór er ekki ýkja mikill miðað við það sem oft hefur verið.
HB-Kópaskeri, Hér hafa rekið inn fjörðinn bæði stakir jakar og spangir í dag. Fyrsta ísinn rak hér inn í gær og hefur hann aukist mjög síðan. Í fyrstu voru það eingöngu stakir jakar en nú eru farnar að koma stærri spangir og er ísinn kominn langt inn fyrir Kópasker. Ein ísspöngin er langstærst og er komin hér langt inn fyrir. Ísbelti er fyrir höfninni, en fært mun fyrir báta þar í gegn eins og er. Allir vegir hér eru ófærir og flugvöllurinn fór sundur í hlákunni miklu fyrir skömmu. Erum við alveg einangraðir og héraðið læknislaust en heilsufar er gott. Nóg er hér til af vöru og ættu ekki að verða nein vandræði af þeim sökum, nema einangrunin standi i langan tíma. Fóðurbirgðir eru nægar og ekki hætta á að olíulaust verði í bráð.
HH-Raufarhöfn, Hér er stórhríð og dimmviðri og sést ísinn ekki nema öðru hvoru þegar aðeins léttir til, en ísinn er skammt undan. Að vísu er ekki ís við hafnarmynnið en stutt er út í hann. Liggur hann alveg fyrir Sléttu og er víða landfastur eftir því sem best er vitað. Það sem sést af ísnum sýnist vera mjög þétt. Frést hefur af ís úti í Þistilfirði og út af Skoruvík og er hann mjög samfelldur. Ísinn byrjaði að koma hér s.l. föstudag, og rak þá mjög nálægt. Stórhríð hefur verið síðan á laugardag, og 17 til 20 stiga frost. Raufarhöfn er algjörlega einangruð eins og er. Flugvöllurinn er ófær, allir vegir ófærir og engin skip komast að höfninni vegna íssins. Olíubirgðirnar sem hér eru, endast í mánaðartíma og hætt er við að skortur verði á mörgum vörutegundum ef svona lætur áfram einhvern tíma. Vonast var til að greiðast tki um skipakomur eftir verkfallið, en svo kom ísinn og lokaði öllum siglingaleiðum, og er útlitið mjög dökkt, svo ekki sé meira sagt. Sjómenn hafa tapað talsverðu af grásleppunetum undir ísinn. Eitthvað náðist upp af netunum í gær, en hvergi nærri öll þau net sem voru í sjó. Þorskanet voru engin í sjó. Þegar ísinn fór að nálgast um daginn var strengdur vír yfir höfnina, þannig að hann kemst ekki inn í sjálfa höfnina. En höfnin er öll krapalögð og frosin.
ÓH-Þórshöfn. Hér er ofsahvasst að norðan og mikil snjókoma. Skyggni er ekki nema um 50 metrar. Einhver ís er kominn hér inn í fjarðarbotn, en erfitt er að fylgjast með hve mikið það er vegna þess hve lítið sést. Ísinn hér rétt fyrir utan er ekki orðinn samfrosta. Heita má að hér hafi verið hríðarveður í þrjá vikur og muna elstu menn varla annan eins harðindakafla. Allir vegir eru lokaðir og erum við því einangraðir. Flugferðir hafa verið strjálar og í síðasta mánuði kom hér flugvél aðeins tvisvar sinnum. Hér eru allir vel frískir sem enda er eins gott því læknislaust er. Í gær birti aðeins og var þá ís á reki inn flóann, og hætt við að hann fari að leggjast alveg upp að. Eitthvað er til af olíu og fóðri, en tæpast svo mikið að hægt sé að mæta miklum og langvarandi harðindum.
Morgunblaðið segir frá 3.apríl:
Holti, Síðu, 2.apríl. Ofsaveður á norðan hefur geisað hér síðan á laugardag [30.mars] allt þar til í morgun. Byrjaði það, með snjókomu á laugardag, sem hér er sjaldgæft í norðanátt, og síðan hefur verið látlaus skafhríð þar til í morgun. Frost var mjög hart, t.d. var hér um tuttugu stiga frost klukkan 6 í gærmorgun. Er þetta með hörðustu veðrum, sem hér gerir. Ekki hefur þó heyrst um miklar skemmdir af völdum veðursins, nema ný bogaskemma fauk hjá Guðmundi Björgvinssyni á Haukshamri. Mjólkurflutningabílar hafa verið tepptir á Kirkjubæjarklaustri í tvo daga, því allir vegur urðu ófærir og er nú unnið að því að ryðja þá. Kennsla í barna- og unglingaskóla féll niður að Klaustri í dag.
Tíminn segir enn af hafís 3.apríl:
OÓ-Reykjavík, þriðjudag. Hafísinn er í dag á svipuðum slóðum og í gær fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum, en hefur rekið nokkuð suður með Austfjörðum. Vindur er hægur fyrir norðan og vestan, svo að ísinn hefur lítið hreyfst nema með straumum, fyrir austan er norðan strekkingur og rekur ísinn hratt suður. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar er enga verulega breytingu að sjá á veðurfari og má búast við áframhaldandi norðanátt næstu sólarhringa. ... Frá Dalatanga sér næstum samfellda ísspöng og er hún landföst við Breiðuvík og sjást fleiri spangir fyrir utan, og er ísinn á hraðri ferð suður. Langá var á siglingu úti fyrir Gerpi síðari hluta dags og tilkynnti að frá skipinu sæist ísspöng sem ekki sæi út fyrir og lá hún í norður og suður. Ísinn fyrir Norðurlandi er svipaður og árið 1965, en þá lá ís við land í rúma tvo mánuði, en það var mesta ís ár undanfarna áratugi, eða síðan 1918.
ÞJ-Húsavík, þriðjudag. Um klökkari 15 í gær hófst geysimikið ísrek inn á Skjálfanda. Hann lagðist að austurströnd flóans, lokaði fyrir Húsavíkurhöfn á örskömmum tíma. Vír var strengdur þvert fyrir hafnarmynnið, og hefur ísinn ekki komist inn í höfnina ennþá, hins vegar er hún öll skænd. Í morgun var flóinn fullur af ís svo langt sem séð varð frá Húsavík. Þá var stillt veður og glampandi sólskin og sá varla skýhnoðra á lofti. Frost var ekki mikið, eða innan við 10 stig. Skammt innan við kaupstaðinn voru 2030 höfrungar króaðir í lítilli vök, um 300 metra frá landi. Í annarri vök, örlítið dýpra, voru innikróaðir þrjár hnísur. Menn hafa í dag verið að vinna að því að sálga höfrungunum til þess að stytta þjáningarstríð þeirra.
Næstu þrjá mánuði voru stöðugar fregnir af hafísnum. Hann lónaði að vísu nokkuð frá um tíma í apríl og þegar kom fram í júní var hann mest til trafala inni á fjörðum. Við leyfum okkur að smjatta nokkuð á ísfregnum - en sleppum þó mörgu. Tíminn 4.apríl:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Hafísinn er á svipuðum slóðum fyrir Vestfjörðum og Norðurlandi og er hann sums staðar orðinn samfrosinn, sérstaklega inni á fjörðum. Fyrir Austurlandi er ísinn enn á hraðri leið suður og var í kvöld kominn allt suður undir Papey. Ísinn þarna er enn nokkuð lagt {rá landi og ekki er talin mikil hætta á að hann reki inn á firðina þar sem spáð er norðvestan átt. Í morgun var ísinn á reki suður landmegin við Hvalbak og þegar á daginn leið nálgaðist hann landið mikið og var farinn að nálgast siglingaleið út af Stöðvarfirði. Frá Dalatanga sá í samfellda ísspöng frá Glettinganesi. Þegar sunnar dregur nær ísinn inn fyrir Seley. Lítil breyting hefur orðið á ísnum fyrir Norðurlandi en hann hefur gisnað nokkuð út af Siglufirði en samfelldur ís er fyrir mynni Eyjafjarðar. Við Galtarvita hefur ísinn borið nokkuð undan landinu. Fyrir vestan er ísinn á svipuðum slóðum og í gær og nær allt suður að Patreksfirði en er ekki landfastur þar. Olíuskipið Haförnin hefur í dag látið reka í stórri vök um 6 mílur norður af Rauðunúpum. Skipið lagði af stað frá Siglufirði í gær og gekk ferðin vel austur fyrir Flatey og var látið reka þar í nótt. Með birtingu var lagt aftur af stað og lænur í ísnum þræddar meðan hægt var, en þegar ísinn þéttist meira var ekki hægt að komast lengra. Skipið er með öllu óskemmt.
BS-Ólafsfirði, miðvikudag. Hér ógnar hafísinn okkur eins og öðrum hér á Norðurlandi. Hann þrengir alltaf meira og meira að okkur. Í nótt rak hann lengra inn í fjarðarmynnið svo að fjörðurinn lokaðist gjörsamlega. Flóabáturinn Drangur var níu tíma í gær, að brjótast í gegn um ísinn og hingað út á Ólafsfjörð, en þessa vegalengd fer hann venjulega á tæpum fjórum tímum. Drangur lá hér í nótt, og ætlaði skipstjórinn að freista þess að ná til Siglufjarðar með morgninum. Klukkan 5 í morgun reyndi hann að komast út af firðinum, en þá var hvergi neina smugu að finna, hvorki vestur fyrir eða inn fyrir, og kom hann því inn aftur. Um hálf þrjú leytið í dag með útfallinu gerði Drangur aðra tilraun til að komast inn í Eyjafjörð, og fór þá mótorskipið Súlan með honum, en hún landaði hér tæpum 90 smálestum af fiski á mánudaginn. Þau hafa ekki komið til baka, svo miklar líkur eru fyrir því, að þau hafi komist að minnsta kosti inn á Dalvík.
Tíminn segir frá 9.apríl - þá var ísinn kominn suður með Austfjörðum og vestur fyrir Hornafjörð:
OÓReykjavík, mánudag. Hafísinn er nú kominn vestur fyrir Hornafjörð og virðist hann enn á reki suður á bóginn og er nú kominn á mið Hornafjarðarbáta. Fyrir norðan og austan land er ísinn á svipuðum slóðum og fyrir helgi, því virðist hann heldur vera að losna frá Norðurlandinu. Skömmu áður en Esjan kom til Norðfjarðar í gær sáu skipsmenn ísbjörn, sem var að éta sel skammt frá landi. Siglt var í nær 400 metra fjarlægð frá birninum og lét hann skipið ekki trufla matarfrið sinn, og sáu skipverjar að þarna var svonefndur rauðkjammi á ferð, en áður fyrr voru slíkir birnir álitnir mannætur, en þessi leit varla við skipinu eða góðgætinu innanborðs.
Morgunblaðið segir af skriðu 11. apríl:
Vegir voru að blotna upp í gær, er Morgunblaðið hafði tal af Vegagerð ríkisins og horfir til vandræða ef blotnar meira. Skriða féll í gær á veginn í Hvalfirði við Skeiðhól. Gerðist það á milli kl. 11 og 12, en skömmu eftir hádegið hafði tekist að opna veginn aftur. Að öðru leyti var vegurinn um Hvalfjörð vel fær, nema hvað á stöku stað hafði runnið úr honum og er bifreiðastjórum bent á að fara hann með gát.
Tíminn segir frá flóði í Elliðaám í pistli 17.apríl, en menn höfðu mjög varann á sér eftir hamfaraflóðið í febrúarlok. Einnig segir blaðið af hafís:
OÓ-Reykjavík þriðjudag. Mikil hækkun varð í Elliðaánum á föstudaginn langa [12. apríl] og á laugardag fyrir páska. Flæddu árnar víða yfir bakka og vatnselgurinn gróf sundur hluta af Vatnsendavegi, en nýbúið var að gera við hann eftir flóðin miklu í vetur. Þótt vatnselgurinn væri mikill í ánum var þetta ekki mikið flóð miðað við bað sem þá var. Á páskadag [14.] fór aftur að sjatna í ánum og er vatnsmagnið nú tæpast meira en eðlilegt má teljast. Flóðið myndaðist vegna mikilla leysinga og einnig rigndi mikið á vatnasvæði Elliðaánna þá daga sem það stóð yfir. Ofan til við ána voru sumarbústaðir umflotnir vatni, en skemmdir af völdum flóðsins urðu ekki teljandi nema þar sem Vatnsendavegurinn grófst sundur. Á þeim stað vildi það slys til á páskadag að hestur hrasaði út í strauminn og drukknaði. Eigandi hestsins var á honum þegar hann lenti í straumnum en hann komst auðveldlega á þurrt.
OÓ-Reykjavík, þriðjudag. Hafísinn hefur lagst heldur frá landinu undanfarna daga en er samt ekki langt undan og hefur ekki rekið langt frá Norðurlandinu. Sigling er nú fær umhverfis landið, en út af Dalatanga, Langanesi, Melrakkasléttu og Ströndum er talsvert íshrafl enn g siglingaleiðum og er sigling ekki hættulaus af þeim sökum, nema í björtu.
BV-Fosshóli, þriðjudag. Eftir þíðviðrin í vetur myndaðist klakastífla í eystri kvísl Skjálfandafljóts norðvestan við bæinn Hliðskóga í Bárðardal. Hlóðst á hana smám saman, uns vatn flæddi yfir veginn og lokaði honum. og hefur hann verið tepptur í um það bil mánuð. Hins vegar hefur það ekki komið svo mjög að sök, þar sem brú er yfir fljótið skammt frá, eða á Stóru-Völlum og hefur hún verið notuð síðan þetta gerðist. Stíflan var orðin mjög löng og var óttast að flóðin ykjust og útihúsin í Sandvík voru talin í hættu í sumar. Nú hefur hlánað talsvert og stórt skarð er komið í stífluna, svo að hættan er sennilega liðin hjá. Fyrir skömmu var hægt að ganga á lágum stígvélum yfir stífluna, og út í Valley, þar sem er nýrækt, og er það einsdæmi, því að eystri kvíslin er yfirleitt mjög vatnsmikil. Óttast er, að einhverjar skemmdir hafi orðið í nýræktinni vegna flóðanna, en það hefur ekki verið að fullu kannað. Fullyrða má, að fremur lítið tjón hafi hlotist af þessu.
Tíminn segir af góðri tíð 21.apríl:
Við fengum ekkert páskahretið að þessu sinni, eða þá að það kom fyrir páska, og veðurguðirnir hafa ekki áttað sig á því, hve páskar voru seint á ferð á þessu ári. Hitt varð eftirminnilegra, að um bænadagana skipaðist veður í lofti með snöggum og gagngerðum hætti eins og oft vill verða hér á landi. Á nokkrum dægrum leysti allan snjó úr sveitum í hlýjum blæ og sólfari, sem kom eftir áhlaup og fimbulfrost, og hafísinn þokaðist fjær. Nú eru grænar nálar þegar farnar að gægjast úr jörð, laukar blómstra í görðum og brum trjánna þrútnar. Veðurblíðan helst enn dag eftir dag.
En þetta góðviðri stóð ekki lengi. Aftur kólnaði og það var ekki fyrr en líða tók á maí að tíð varð bærileg. Kalt var þó áfram þar sem hafís var við land.
Tíminn segir af samgöngutruflunum 30.apríl:
OÓ-Reykjavik, mánudag. 120 manns tepptust í bílum á Holtavörðuheiði í gær. Varð fólkið að hafast við í bílunum þar til í dag að starfsmönnum Vegagerðarinnar tókst að ryðja þeim veg niður af heiðinni. Þeir sem lengst voru tepptir voru búnir að vera í 42 klukkustundir á heiðinni, en á laugardag gerði aftakahríð á Holtavörðuheiði og fylgdi mikill_skafrenningur og lokaðist vegurinn á stuttum tíma. Meðal þeirra sem voru veðurtepptir í bílunum voru 100 nemendur úr Verslunarskólanum, sem voru að koma að norðan úr skólaferðalagi. Fólkið kom að Fornahvammi um kl. 15 i dag. Mikla hríð gerði um norðan- og vestanvert landið á laugardaginn og lokuðust þá allmargir fjallvegir. Eru sumir þeirra lokaðir enn, og aðrir,eru illfærir, og aðeins fyrir stóra bíla. Fjallvegir á Snæfellsnesi lokuðust og sama er að segja um Bröttubrekku og Öxnadalsheiði og Vaðlaheiði. Í dag hefur verið unnið að því að opna vegina aftur. Um 10 bílar stöðvuðust á Holtavörðuheiðinni, þar af voru tveir stórir bílar sem Verslunarskólanemendur voru í. Hinir bílarnir voru vörubílar og jeppar. Bílarnir voru dreifðir um alla heiðina og var nokkuð tafsamt að koma þeim suður yfir. Frá Fornahvammi fóru snemma í morgun veghefill og stór trukkur frá Vegagerðinni til að ryðja veginn fyrir bílana, og komu þeir niður um kl.15 í dag, eins og fyrr er sagt. Voru ferðalangarnir margir orðnir þreyttir og svangir eftir að hafa setið í bílunum á heiðinni í nær tvo sólarhringa, en í Fornahvammi rættist úr því þar var tekið á móti fólkinu með mikilli matarveislu. Og voru allir orðnir sæmilega hressir þegar haldið var þaðan áfram suður.
EJReykjavík, þriðjudag. Enn er mikill kuldi víðast hvar á landinu, og snjór enn á mestum hluta þess t.d. alveg suður í Borgarfjörð. Mestur kuldi var í dag á Norðausturlandi, en þessi kuldatíð stafar af hafísnum fyrir norðan og köldum sjó þar. Af þeim sökum getur loft, sem kemur að norðan, ekkert hlýnað áður en það kemur inn yfir landið. Vegna þessa kulda, og snjóalagaanna, eru skepnur enn í húsum víða á landinu, jafnvel á Snæfellsnesi. Blaðið fékk þær upplýsingar hjá Veðurstofunni í kvöld, að í dag hefði verið heiðskírt víðast hvar á landinu og sólskin. Mest var frostið átta stig í Skoruvík, en mjög víða 36 stig. og þá mest á Norðausturlandinu. Við vesturströnd landsins var rétt við frostmark í dag, en 35 stiga, hiti víðast hvar sunnanlands. ... Snjór er yfir öllu í Borgarfjörð frost og snjór er einnig á Austurlandi. Fyrir norðan landið er enn mikill ís, og sjórinn kaldur þar sem það er loftið. sem kemur að norðan, fær því ekkert að hlýna áður en það kemur yfir landið og er því mjög kalt. Kuldinn er meiri en venjulega á þessum tíma, þótt oft hafi komið kuldaköst fram eftir öllum maímánuði. En miðað við veðurfar fyrir t.d. 1015 árum væri núverandi veður kallað mjög kalt.
Tíminn segir enn af hríð og hafís 2.maí:
OÓ-Reykjavík, fimmtudag. Stórhríð er nú á heiðum Norðanlands og eru bæði Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði lokaðar allri umferð og er snjókoman og skafrenningurinn svo mikill að ekki er reynt að ryðja fjallvegina. Ekki snjóar í byggð fyrir norðan, en frost er um allt land nema á Suðurlandi. Um helgina lagðist hafísinn aftur að landinu við Langanes, Melrakkasléttu og er siglingaleiðin alveg lokuð og illmögulegt er að komast fyrir Horn. Ekkert útlit er fyrir að norðanátt en gangi niður eða að veður fari hlýnandi næstu daga, og er spáð áframhaldandi norðanátt og éljagangi. Í dag var 7 stiga frest á Hornbjargsvita og var það mesta frost sem mældist um miðjan daginn. Á Hveravöllum var sama kuldastig. Um þriggja stiga frost er um allt Norður- og Vesturland, nema á Akureyri var hiti um frostmark. Síðari hluta dags var slydda á Austfjörðum og með kvöldinu fór að snjóa og náði snjókoman allt suður í Öræfi. Í dag herti á norðaustanáttinni og ísinn var á hraðri leið upp að landinu fyrir norðan og suður með Austfjörðum. Frá Horni sá alls staðar í ís en þar er siglingaleið enn fær í björtu. Frá Grímsey berast þær fréttir að ísspangir og stakir jakar séu á reki og sigli hraðbyri til suðvesturs á leið til lands. Mikill ís sést frá Dalatanga og við Kambanes er hafísinn orðinn landfastur og sigling ófær með öllu og sér ekki út fyrir ísbreiðuna Ísinn er enn ekki kominn inn á Stöðvarfjörð eða Breiðdalsvík en úti fyrir sést hvar víðáttumiklar ísbreiður reka hratt til suðurs.
Tíminn ræðir kuldatíðina 7.maí:
OÓ-Reykjavík, mánudag. Fyrstu fimm daga maímánaðar hefur hitinn í Reykjavík verið 5 gráðum minni en í meðalári, sé miðað við hita í maí undanfarin 30 ár og á Raufarhöfn hefur verið 7 1/2 stiga frost að meðaltali þessa daga og er það 10 gráðum kaldara en í meðalári. Liggur munurinn í að þar er ísinn landfastur og skýjað, en syðra hefur verið sólskin og sjór við Reykjanes um 8 gráðu heitur. Lítil breyting hefur orðið á ísnum fyrir norðan og austan land um helgina. Nær ísinn suður með öllum fjörðum og lokar siglingaleiðinni norður með Austfjörðum. Í morgun barst sú fregn frá Blikur að landfastur ís væri frá Papey og norðan með sunnanverðum Austfjörðum og lokaði siglingaleið til Breiðdalsvíkur, Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Er samfelldur ís svo langt sem séð verður í norður og austur, og lokar hann siglingaleiðum. Ísinn við Dalatanga breytist eftir sjávarföllum og myndast í hann lænur öðru hvoru og lokast fljótlega aftur. Norðfjarðarflói er fullur af ís og er ísinn einnig búinn að loka mynni Seyðisfjarðar. Inn á Seyðisfirði er varðskipið Albert lokað inni og á Raufarhöfn hefur olíuskipið Stapafell verið innilokað í vikutíma. Utan við Kambanes er samfelld ísbreiða um fjóra kílómetra frá landi og sér hvergi út yfir hana. Við Hvalsnes er ísspöng með landinu en sér í auðan sjó þar fyrir utan. Við Grímsey er ástandið svipað á ísnum og í síðustu viku en við Horn hefur hann heldur fjarlægst landið.
Morgunblaðið ræðir einnig kuldatíð 7.maí:
Maímánuður byrjaði með miklum frosthörkum, meiri en oftast áður. Mældist mest frost í byggð 16 stig á Raufarhöfn og er það mesta frost sem mælst hefur á þessari öld, en sama frost var 1955 á Barkarstöðum og 1927 á Grímsstöðum á Fjöllum. Meðalhiti í Reykjavík var fyrstu fimm dagana 1 stig, en er í meðalári rúmlega 5 stig. Á Raufarhöfn, þar sem frostið varð mest var hitinn um 9 stigum lægri en í meðalári, var -í-7,2 stig en er í meðalári tæplega tvö stig. Veðurfar var að öðru leyti ágætt, stillt og bjart. Meira bjartviðri var sunnanlands og veldur það mestu um hitamuninn, en hafísinn veldur kuldunum. Hefur merkur veðurfræðingur sagt á einum stað, að hafísinn sé hitamælir landsins og megi marka hlýindi og kulda á stöðu hafíssins við landið. Þetta ár er að verða með meiri hafísárum á þessari öld. Er hafísinn meiri nú, en menn vita dæmi um allt frá árinu 1915. Þá var ís við land fram í júní. Einnig var árið 1919 mikill ís við landið. En menn skyldu ekki örvænta þótt kalt hafi verið. undanfarið. Aprílmánuður var álíka hlýr og í meðalári og þess eru oft dæmi, að kuldaköst hafi komið í maí, t.d. kom mikið kuldakast í byrjun maímánaðar 1927 og komst hitinn þá niður í -3,9 stig í Reykjavík fyrsta og þriðja maí, og var nokkuð svipaður hiti um land allt. Sá maímánuður var þó á endanum rúmu stigi yfir meðalári.
Það er langt frá því að sumarlegt sé um að litast á Norðausturlandi nú, enda þótt heita eigi vor. Varla sést á dökkan díl nokkurs staðar og úti fyrir ströndinni er hafísinn svo langt sem augað eygir. Eins og vænta má er dauflegt hljóð í bændunum, sem búa á þessum slóðum. Eftir ákaflega lélegt heyskaparsumar kemur einn harðasti vetur í mannaminnum, svo að mjög hefur gengið á heyin. Hafa nokkrir bændur þegar orðið að kaupa hey til að eiga út mánuðinn. Þá hefur veturinn orðið þeim óhemju kostnaðarsamur vegna mikilla kaupa á fóðurbæti, og þyrfti sumarið að vera með eindæmum um hagstætt til að jafna eitthvað um. Dugir sumum ekki ævin til að greiða hallan af vetrinum, sagði einn bændanna í samtali við okkur í gær. Víðast liggur hjarn enn yfir túnum, og því eru bændur mjög svartsýnir og telja að mikið verði um kal, þegar leysir.
Þá ræddum við við Marinó Kristinsson, prest á Sauðanesi á Langanesi og hafði hann mjög sömu sögu að segja og þeir Jóhann og Sigurður. Hér er um að litast eins og maður væri staddur á Norðurpólnum, ísinn liggur hér úti fyrir eins langt og sést. Þetta hefur verið geysilega harður vetur, auk þess sem honum hafa fylgt stórviðri og mikill snjór. Útlitið er mjög slæmt, sauðburður að nálgast og heyskortur fyrirsjáanlegur, þar sem sumarið í fyrra kom mjög illa út vegna kals á túnum. Hafa bændur þurft að leggja í gífurlegan kostnað til kaupa á fóðurbæti! Er því ekki að furða þótt menn séu hér svart sýnir. Ekki kvaðst Marinó vita um neina, sem hygðust hætta búskap þarna um slóðir. Menn ætla sér að þrauka í lengstu lög, sagði Marinó. Hér er útlits eins og um hávetur, sagði Þorlákur Stefánsson bóndi að Svalbarði í Þistilfirði, hvergi sést á dökkan díl og sjóinn hylur hafís algjörlega. Heita má hér jarðlaust fyrir skepnur, 1516 stiga frost er hverja nótt og hjarn yfir öllu, en þó reyna menn að láta skepnur út. Mjög er líka orðið lítið um hey, þar sem flestir voru heylitlir eftir sumarið í fyrra vegna kals á túnum. Hefur veturinn orðið okkur óskaplega dýr, þar sem þurft hefur að kaupa mjög mikinn fóðurbæti. Mun sumum ekki duga ævin til að greiða útgjöld af þeim sökum. Þorlákur sagði, að mikill klaki væri í jörðu, og hjarn hefði verið yfir túnum í allan vetur. Kvað hann bændur því gera ráð fyrir miklu kali í túnum í Þistilfirðinum. Við ræddum við Sigurð Torfason, prófast að Skeggjastöðum í Bakkatfirði. Hann kvað mjög harðindalegt vera í Bakkaflóanum, hafísinn hefði komið að ströndinni fyrir fáeinum dögum, hefði þó heldur færst frá síðustu daga, en nú virtist sem hann væri að koma aftur. Sigurður kvað mikinn snjó hafa kyngt niður í kringum sumardaginn fyrsta, og væri haglaust með öllu. Væri heldur kuldalegt um að litast, þó að veður væri stillt.
Svipað áfram, Tíminn 9.maí:
FB-Reykjavík, miðvikudag. Vorkuldarnir virðast engan veginn vera á undanhaldi, ef dæmt er eftir hitastiginu, sem mældist á veðurathugunarstöðum á landinu í nótt. Samkvæmt upplýsingum veðurfræðings Veðurstofunnar voru þeir staðir fáir, þar sem frostlaust var í nótt. Hins vegar var kaldast á Raufarhöfn 13 stiga frost og síðan 10 stiga frost á Grímsstöðum á Fjöllum. Fyrir fáum dögum mældist 16 stiga næturfrost á Raufarhöfn á Raufarhöfn, og er þetta frost eitt hvert það mesta, sem mælst hefur þar í maí. Frostið hefur heldur minnkað, en samt má segja, að svona langvarandi frostakafli í maíbyrjun, sé voðalegur, sagði Adda Bára Sigfúsdóttir veðurfræðingur þegar við hringdum og spurðum hana um frostin að undanförnu. Í sjálfu sér þýðir ekki að vera að bera saman fyrstu dagana í maí núna og fyrstu dagana í maí árin á undan, því kuldaköstin koma dálítið mismunandi tímum hverju sinni. Meira er að marka að bera saman hitastig heils mánaðar í einu. Knútur Knudsen veðurfræðingur sagði, að enn væri mjög kalt norðan og austanlands og frostið hefði komist í 13 stig á Raufarhöfn eins og fyrr segir. Í Reykjavík varð þó ekki kaldara en eins stigs hiti í nótt. Frostið fyrir austan fjall var víðast hvar tvö stig, og eru þetta því litlar breytingar frá því sem verið hefur, en ekki er þó gert ráð fyrir að veðráttan kólni suðvestanlands, og reyndar ekki heldur að hlýni fyrir norðan og austan. Þar stafar kuldinn mikið af ísnum, sem úti fyrir liggur og köldum sjó. Vindur hefur verið fremur hægur um allt land, og litlar breytingar eru á legu íssins fyrir austan landið.
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Íslensku skipafélögin hafa orðið fyrir gífurlegu tjóni vegna hafíssins sem legið hefur hér við land um nær sex vikna skeið. Mesta fjárhagstjónið stafar af töfum sem skipin hafa orðið fyrir vegna íssins og röskun á áætlunum. Nemur það tugum milljóna króna og verða skipafélögin að bera þann skaða bótalaust. Einnig hafa fjölmörg flutningaskip orðið fyrir skemmdum vegna siglinga í ísnum og er enn ekki fullljóst hve mikið það tjón er og kemur ekki í !jós fyrr en skipin verða tekin í slipp.
EJ-Reykjavík, miðvikudag. Í fyrradag urðu menn varir við, að brúin á Mórillu, sem rennur í Kaldalón, er liggur inn úr Ísafjarðardjúpi, hafði brotnað af stöplum sínum og lá á ísilagðri ánni neðan við brúarstæðið. Er talið sennilegast að snjóflóð, líklega einhvern tíma í marsmánuði s.l. hafi tekið brúna með sér. Í dag var jarðýta á leið til staðarins, en ætlunin er að draga brúna sem virðist að mestu leyti óskemmd upp árbakkann, svo að hún falli ekki í ána þegar ísinn hverfur. Guðmundur Magnússon, bóndi á Melgraseyri, tjáði blaðinu í viðtali í dag, að brú þessi væri aðeins tveggja ára gömul og nauðsynleg samgöngum í héraðinu. Var þetta stór brú, 5060 metrar að lengd á steyptum stöplum. Sagði Guðmundur, að svo virtist sem stöplarnir væru að mestu eða öllu leyti óskemmdir, og því viðgerð ódýrari og auðveldari en ella. Taldi Guðmundur að endurhyggja þyrfti brúna í sumar, enn taldi of snemmt að segja til um hvort brúin sjálf væri of mikið skemmd til notkunar. Aftur á móti væri sennilegt, að hægt væri að nota stöplana.
Tíminn segir af hafísnum 14.maí:
OÓ-Reykjavík, mánudag. Hafísinn er nú að ryðjast upp að öllum ströndum á Norðurlandi og fyllir firði og flóa. Hafís er einnig kominn á siglingaleið út af Vestfjörðum og inn á firði austanlands. Nær ísinn nú langt suður fyrir Papey. Húnaflói er nær fullur af ís og er hann kominn langleiðina inn í botn Hrútafjarðar og inn fyrir eyjar á Skagafirði og í botn Eyjafjarðar. Siglingaleiðir til Norðurlandsins eru lokaðar með öllu og er fjöldi skipa þar innilokaður á höfnum. Reynt er að hindra ísrek inn á hafnir með því að strengja vír fyrir hafnarmynni. Mikill kuldi fylgir ísnum og er snjókoma víða fyrir norðan og austan. Sauðburður er hafinn víðast hvar og verða bændur að halda fé í húsum og eru margir orðnir heylitlir og fóðurbætir er af skornum skammti. Ísinn er enn að þéttast að landinu og spáð er áframhaldandi norðanátt næstu sólarhringa. Úti fyrir Norðurlandi eru hafþök af ís og þótt veður breytist til hins betra og vindur blási af landi má búast við að langur tími líði áður en ísinn rekur frá landinu. Er nú að skapast neyðarástand vegna hafíss og kulda. Fyrir Vesturlamdi er ísinn kominn suður fyrir Patreksfjörð og fyrir austan sést hann frá Hornafirði. Lætur nærri að ísinn liggi fyrir helmingi af strandlengju landsins. Á Norðurlandi eir gróðurlaust með öllu, enda hefur verið stöðug norðaustanátt þar og frost og hríðarél öðru hvoru. Öllu fé er gefið inni í byrjun sauðburðar og heybirgðir farmar að minnka ískyggilega og verður að gefa mikinn fóðurbæti. Afli báta, sem róa frá Norðurlandi hefur verið ágætur undanfarið en nú er ekki hægt að sækja sjó vegna íssins og hafa margir bátar misst mikið af netum undir ísinn og orðið fyrir gífurlegu tjóni. Eru það aðallega þorska- og hrognkelsanet, sem týnst hafa. Bátar frá Húsavík hafa misst milli 300 og 400 þorskanet auk hrognkelsaneta. Vélbáturinn Glaður frá Húsavík er fastur í ísnum. Lokaðist báturinn inni, þegar hann var að reyna að bjarga netum sinum undan ísnum. Skipverjum líður vel en hafa litlar matarbirgðir. Mun Tryggvi Helgason frá Akureyri fljúga yfir bátinn og varpa niður matvælum til bátsverja. Raufarhafnarbátar hafa misst 250 til 300 grásleppunet undir ísinn. Í síðustu viku var orðið sæmilega rúmt að leggja í sjó, en á laugardag ruddi&t ísinn upp að aftur með slíkum hraða að ekkert náðist af netunum. Eru nú hafþök af ís upp í landsteina og svo langt sem sér. Ekki er hægt að fljúga til Raufarhafnar vegna dimmviðris og eru nú allir vegir lokaðir til bæjarins. Tveir flutningabílar sitja fastir á Sléttuninni og urðu bílstjórarnir að yfirgefa þá.
Sif flugvél Landhelgisgæslunnar fór í ísflug í dag, og eftirfar andi upplýsingar eru byggðar á athugunum, sem þar fóru fram. Við Kópanes byrja smájakahröngl og litlar íseyjar, og smáþéttist uns komið er á móts við norðanvert Ísafjarðardjúp, en ísrastir teygja sig nokkuð inn Djúpið, einkum að norðanverðu og í átt að Straumnesi. Siglingaleið, verður þó að teljast greiðfær í björtu, allt að Ísafjarðardjúpi, eins og er. Geysimikill hafís er nú á Óðinsboðasvæðinu og langleiðina að Skaga. Ísinn hefur þjappast upp að landinu og þekur allt Strandagrunn og áfram út. Nokkrar stórar vakir eru í 1016 sjómílna. fjarlægð frá Hornbjargi, en lokast allstaðar af þéttum ófærum ís. Siglingaleið með landi vestan við Skaga er sæmilega greiðfær en virðist ófær fyrir Skaga eins og er. Siglingaleiðin Skagafjörður að Siglunesi virðist fær og Siglufjörður opinn vestan til í dag, en mjög erfið leið milli Eyjafjarðar og Sigluness. Greiðfærust leið fyrir Eyjafjörð virðist vera 34. sjómílur af Gjögri en 911 sjómílur af Siglunesi. Eyjafjörður virðist greiðfærastur austan til. Hafþök eru nú innan Flateyjar og Mánáreyjar og í norðvestur frá Rauðunúpum, en siglingaleiðin Húsavík að Eyjafirði virðist líklegust frá Lundeyjarbreka 35 sjóm. af Flatey og síðan 34 sjóm. af Gjögri. Mjög mikið af geysistórum óbrotnum íseyjum, sumum margar sjóm. að stærð eru nú á reki 2030 sjóm. undan landinu.
BS-Ólafsfirði, mánudag. Hér hefur verið hríðarveður tvo síðastliðnu sólarhringa með mikilli snjókomu og norðaustan kalda, og varð Múlavegurinn ófær strax á laugardag. Féll þá snjóflóð í Bríkargili og stöðvaði alla umferð um veginn. Síðan hafa fallið þrjú önnur snjóflóð. Verið er nú að moka Múlaveginn, og standa vonir til að hann verði fær bifreiðum í kvöld.
FB-Reykjavík, mánudag. Nú um helgina í norðanáttinni sigldi ísinn hraðfara aftur upp að ströndinni, og hefur lokað fjörðum og flóum, þannig að nú er ekki aðeins ófært við Langanes og Sléttu svo sem búið er að vera þrjár seinustu vikur, heldur er siglingaleiðin fyrir Horn líka teppt. Goðafoss er lokaður inni á Húsavík. Þar hefur verið strengdur vír fyrir hafnarmynnið til að varna skemmdum. Húsvíkingar hafa orðið fyrir miklum áföllum, tapað veiðarfærum. og er þar um að ræða endurtekið tjón, því þeir töpuðu líka veiðarfærum undir ísinn í fyrra mánuði. Á Ólafsfirði er lokað inni danskt skip og bæði olíuskip sambandsins eru nú á Skagaströnd, og þar hafa þau legið síðan á laugardag.
Ekkert lát verður á, Tíminn 15.maí:
OÓ-Reykjavík, þriðjudag. Harðindalegt er um að litast á Norður- og Austurlandi nú um miðjan maímánuð. Hafísinn er enn að þrengjast upp að landinu, og er nú kominn suður fyrir og er nú siglingaleiðin til Hafnar í Hornafirði lokuð, en slíkt hefur ekki hent í rúma hálfa öld fyrr en nú. Á Þórshöfn sést hvergi í dökkan díl. Snjór liggur þar yfir öllu og hafís er fyrir landi. Víða á Norðausturlandi eru mikil snjóþyngsli og vegir lokaðir. Fyrir norðan hafa ekki orðið miklar breytingar á ísnum í dag. Inni á fjörðum losnaði nokkuð um hann með útfallinu, en þegar flæddi að lagðist hann upp að aftur. Sigling til Norður- og Austurlandsins er með öllu teppt og er fjöldi skipa, bæði flutningaskip og fiskiskip, lokuð inni á höfnum. Sagt var frá því í blaðinu í gær, að vélbáturinn Glaður frá Húsavík væri fastur í is úti: á Skjálfanda. Í gærkvöldi tókst bátnum að brjótast til hafnar, en er með skemmda skrúfu eftir ísinn. Ísjakar hrúguðust upp í dag í ós Hornafjarðar og er hann nú lokaður með öllu. Ísinn kom með aðfallinu síðari hluta dags og ruddist inn ósinn og inn á Hornafjörð. Hafþök af ís eru úti fyrir og er hann á hraðri leið vestur með landinu og sér hvergi út yfir hann, og eru venjulegar siglingaleiðir úti fyrir lokaðar.
Ísinn var til þess að gera seinn inn á Hrútafjörð og Miðfjörð, en lá þar aftur á móti mjög lengi fram eftir sumri. Tíminn 17.maí:
BS-i Hvammstanga, fimmtudag. Hafís var í dag kominn inn á Miðfjörð. Í vikunni, og fyrir helgina var Hrútafjörð að fylla af hafís, og er hann nærri fullur. í gærkvöldi byrjaði svo ísinn að koma hingað inn á Miðfjörð, og hefur haldið áfram að reka inn í allan dag. Annars mun hafísinn ekki vera geysilega mikill, þegar utar kemur í Húnaflóann, en firðir hafa allir verið lokaðir, t.d. Bitrufjörður og Steingrímsfjörður. Nú alveg síðast hefur ísinn svo dregið frá vesturlandinu og rekið inn á Miðfjörðinn.
Tíminn segir af mosaeldi 21.maí - og hafís:
GÞE-Reykjavík, mánudag. í gærkveldi varð elds vart í Eldborgarhrauni austan við Krísuvík. Tilkynnti skip lögreglunni í Hafnarfirði um þetta um 9 leytið, og var haldið af stað rúmlega 12 á miðnætti. Er komið var á vettvang hafði brunnið mosi á allstóru svæði, en eldurinn var sums staðar dauður. Slökkvistarfið var mjög erfitt, því ekki er vatnsdropa að fá á þessum slóðum, og urðu lögreglumennirnir að gera skurði umhverfis hann, svo að hann næði ekki að breiðast meira út. Ekki var hlaupið að því í hraungrýtinu, og voru þeir í þrjár klukkustundir að pjakka með kvíslum og garðhrífum, þar til þeir komust fyrir eldinn. Lognaðist hann út af af sjálfu sér, en allstórt svæði, sem áður var klætt mosa, er nú moldarflag eitt og ófagurt þar um að litast. Vart er um annað að ræða en að einhver hafi farið ógætilega með eld, fleygt frá sér logandi eldspýtu eða sígarettu þarna og það orsakað brunann.
OÓ-Reykjavík, mánudag. ísinn er enn á svipuðum slóðum við Norður- og Austurland Sums staðar hefur hann heldur fjarlægst landið og gliðnað við strendurnar, en siglingaleiðir eru samt að mestu lokaðar. Við suðurströndina er ísinn enn á vesturleið og sjást nú ísjakar úti fyrir Skeiðarársandi. Inni á Hornafirði er mikill ís og ósinn er lokaður. Í dag sást bjarndýr úti á ísnum á Norðfjarðarflóa. Var dýrið úti á miðjum firði og reyndu menn ekki að nálgast það, en talsverðar vakir eru í ísnum þarna og er hann hvergi nærri öruggur yfirferðar. Við Hraun á Skaga þéttist ísinn nokkuð að landinu í dag, en samt gátu skip siglt þar fyrir. Við Siglunes er ísinn óbreyttur og er þétt ísspöng fyrir mynni Siglufjarðar og dreifðir jakar inn eftir öllum firðinum. Við Dalatanga hefur ísinn minnkað nokkuð í dag og sér út yfir hann í um fimm sjómílna fjarlægð frá landi. Úti af Glettinganesi er þéttur ís og sér ekki út yfir hann þar. Seyðisfjörður og Norðfjörður eru enn fullir af ís en svolítið virðist hann vera að gliðna og myndast í hann vakir og lænur. Á Norður- og Austurlandi er víða næturfrost, þótt hitinn sé sæmilegur um miðjan dag.
Vísir segir líka frá hafís 21.maí:
Ís hefur borist suður á móts við Skeiðarárós, en einungis virðist vera um íshrafl og staka jaka að ræða, og undanfarna daga hefur lítil hreyfing verið á honum vestur á bóginn. Blaðið hafði samband við Björn Sveinsson bónda að Langholti í Meðallandi í morgun, og innti hann eftir því hvort nokkrir stakir jakar væru sjáanlegir á sjónum í austurátt, og sagði hann að bændur þar hefðu ekki komið auga á neitt íshrafl eða jaka á þeim slóðum.
Tíminn segir 25.maí frá gufu í Kverkfjöllum:
EJ-Reykjavík, föstudag. Gufugos mun nú eiga sér stað í Kverkfjöllum í Vatnajökli nyrstum. Flugmaður, er fór þar yfir í dag, sá greinileg merki um slíkt gos, bæði gufu strók og sig í jöklinum kringum hann. Mikið hverasvæði er í Kverkfjöllum, og því ekki óeðlilegt að slíkt gos eigi sér stað. Hversu mikið þetta gos er, verður ekki sagt með vissu, þar sem jarðfræðingar hafa ekki haft tækifæri til að athuga það. Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, sagði blaðinu, að oft yrðu breytingar á hverasvæðum, nú síðast á Reykjanessvæðinu eins og menn muna. Mætti ætla, að í Kverkfjöllum væri um svipaðar breytingar að ræða. Ferðamenn, sem komu í Kverkfjöll fyrir nokkrum árum, sáu þar ummerki, er benti til umbrots á hverasvæðinu. svo þetta virðist ekki vera óalgengt fyrirbæri þar.
Hér má sjá þrjú hafískort sem nappað var úr bókinni Hafísinn, en þar birtust greinar sem samdar voru eftir erindum sem haldin voru á mikilli hafísráðstefnu árið 1969. Fleiri útbreiðslumyndir eru í grein Flosa Hrafns. Fyrsta kortið sýnir útbreiðsluna snemma í mars, en þá var ís um tíma til vandræðum við Vestfirði vestanverða. Í maí voru nánast hafþök fyrir öllu Norður- og Austurlandi og jafnvel vestur fyrir Öræfi. Og seint í júní var enn ís að flækjast á fjörðum fyrir norðan (örvar) þótt meginbrúin væri utar, en lá samt við Strandir í Reykjafirði og þar fyrir norðan.
Sumstaðar var erfitt að ráða við ísrek við hafnir. Tíminn 1.júní:
NH-Hofsósi, föstudag. Í nótt urðu talsverðar skemmdir á hafnargarðinum á Hofsósi. Undanfarið hefur verið töluvert af is af og til inni á firðinum, og hefur hann rekið til og frá um fjörðinn. Í gær og nótt var hann með landinu að austan, og stór ísspöng, sem þarna var á ferð ýtti á undan sér stórum jökum upp að hafnargarðinum, og lentu þeir á suðvesturkorni hans. Ekki hefur enn verið hægt að kanna skemmdirnar til hlítar, en talið er að þær séu töluverðar. Verður kafari fenginn til þess að rannsaka þær nú þegar.
Veðráttan getur þess að í hreti 4. til 7. júní hafi mikil ísing brotið síma- og rafmagnslínur í Skagafirði, Húnavatnssýslum og á Laxárdalsheiði, alhvítt varð niður að sjó á Norðausturlandi og á Ströndum. Snjódýpt mældist 24 cm á Sandhaugum i Bárðardag þann 7.
Vetur og vor fóru illa með tún víða um landið norðanvert. Tíminn 16.júní:
OÓ-Reykjavik, laugardag. Kalskemmdir eru svo gífurlegar viða á austanverðu Norðurlandi og í Vestur-Húnavatnssýslu og Strandasýslu að bændur á mörgum bæjum sjá ekki fram á annað en að heyfengur verði lítill sem enginn í haust. Í fyrra var grasspretta lítil og því ekki um fyrningar að ræða og í vetur hafa bændur eytt óhemju fé í fóðurbætiskaup. Ekki verður annað séð en að á mesta kalsvæðunum verði bændur að ala búfé á fóðurbæti á vetri komanda og er þá hætt við að afraksturinn af búunum verði vægast sagt rýr.
Ís var við landið allan júnímánuð og olli samgönguvandræðum og kulda. Tíminn 19.júní:
EJ-Reykjavík, þriðjudag. Landhelgisgæslan fór í ískönnunarflug í dag, og samkvæmt upplýsingum Gunnars H. Ólafssonar, skipherra, er nokkuð þétt og stór ístunga frá um 21 sjómílu norður af Málmey og fyrir Eyjafjörð, meðfram Flatey og vel yfir miðjan Skjálfandaflóa. Sigling er þó greiðfær báðum megin við þessa tungu, og virðist best að fara gegnum hana milli Grímseyjar og Gjögra. Greiðfært er um Skagafjörð eins og er, en erfið sigling fyrir Skagann virðist best um 67 sjómílur norður af Digramúla. Höfnin á Dalvík er lokuð, og nokkurt ísrek á Eyjafirði. Þá er mikill ís dreifður um norðanverðan Húnaflóa, og þéttastur á Óðinsboðasvæðinu eða 5/10 til 8/10 af yfirborði sjávar. Núna virðist skásta leiðin að sigla í línu frá Kálfshamarsvík norður fyrir Óðinsboða og síðan fyrir Horn. En á 15 sjómílna belti er ísinn um 5 til 8/10 að þéttleika. Í ískönnunarfluginu sést grunnleiðin ekki sem skyldi vegna þoku, Steingrímsfjörður, Miðfjörður og Húnaflói eru vel siglandi en íshaft lokar Hrútafirði kringum Hrútey, og mjótt íshaft gengur fyrir Heggstaðanes og Vatnsnes.
Mjög kalt var áfram. Tíminn 20.júní:
KJ-Reykjavík, miðvikudag. Þótt sumarlegt sé nú orðið um að litast hér á suðvestur hluta landsins, þá er ekki sömu söguna að segja frá öðrum landshlutum. Ís er fyrir Norðurlandi víða, og í morgun snjóaði niður í fjörur austur á landi. Björn Steindórsson fréttaritari Tímans í Neskaupstað tjáði blaðinu í dag að í morgun hefði gránað niður í fjöru þar á staðnum, og um miðjan dag var enn snjór niður í miðjar hlíðar við Neskaupstað. Hitastig var lágt þar eystra, en ekki hægt að segja að vri slæmt veður logn og milt. Enginn hafís sést frá Neskaupstað og hefur ekki sést nú lengi.
Í hreti um Jónsmessuna snjóaði niður á láglendi sums staðar nyrðra, allt vestur í innsveitir Húnavatnssýslu, snjódýpt mældist 3 cm í Forsæludal og 10 cm snjódýpt á Vöglum þ.22. Þann 25. mældist 4 cm snjódýpt á Hlaðhamri í Hrútafirði og aftur varð alhvítt í Forsæludal. Tíminn segir af slæmri tíð fyrir norðan í pistli 25.júní:
EKiH-Reykjavík, mánudag. Tíð hefur verið með eindæmum slæm norðan lands og austan um þessa helgi. Snjóað hefur í byggð þrjá morgna í röð á öllu þessu svæði og sumstaðar niður í sjó, hitinn hefur verið rétt yfir frostmarki, en næturfrost urðu á mörgum stöðum. Ísinn hefur nálgast landið í norðanáttinni, sem ráðandi hefur verið undanfarið og lokar ísspöng til dæmis höfninni á Sauðárkróki. Ísflug var farið á vegum Landhelgisgæslunnar í gær og samkvæmt því er Hrútafjörður enn lokaður vegna íss við Baldeyjar. Íshaft gengur yfir Steingrímsfjörð á móts við Grímsey og ís er í mynni Reykjafjarðar og virðist besta siglingaleiðin á þessum slóðum þétt með Gjögurtá. Talsvert mikill ís er á grunnleiðinni með Ströndum einkum við Selsker og út af Dröngum, og Óðinsboðasvæðið er þakið af ís. Við Skaga er þéttur ís um 3 sjómílur undan landi, en ísbrún nr upp að Strákum, en beygir þaðan í norðaustlæga stefnu. Íslaust er við Grímsey og íslítið að Sléttu. Fréttaritari Tímans á Skagaströnd hafði samband við nokkur skip sem voru á siglingaleið út af Norðurlandi í dag, og var á þeim að heyra, að djúpt á venjulegri siglingaleið væri vel greiðfært skipum. Íshraflið virtist hafa rekið nær landinu en milli þess og meginíssins úti fyrir hefði myndast læna. Á Skagaströnd byrjaði að snjóa aðfaranótt sunnudags og var ökkladjúpur snjór á jörðu, er menn komu á fætur um morguninn. Síðan hefur verið algrátt niður í byggð á hverjum morgni og hafi úrkoma komið úr lofti, hefur það verið slydda og snjókoma. Töluverður snjór safnaðist í lautir og dældir til fjalla og á vegum milli Blönduóss og Skagastrandar var skafrenningur á sunnudag [23.]. Nú sem stendur angrar ísinn Skagstrendinga ekki sérstaklega, en togbáturinn Elsa-Björg, sem gerð hefur verið út frá Skagaströnd í vor og bætt hið slæma atvinnuástand nokkuð, hefur stundum átt í erfiðleikum við að komast inn í höfnina vegna íss.
Höfnin á Sauðárkróki hefur aldrei í vetur lokast af völdum ísreks fyrr en nú, að jakahröngl hindrar alveg siglingar til Sauðárkróks. Togskipið Drangey, sem gert er út frá Sauðárkróki, reyndi að komast að bryggju í gær en varð frá að hverfa og leggja að á Hofsósi. Vír hefur verið strengdur fyrir bátakvína í höfninni á Sauðárkróki til varnar ísreki. Síðan á föstudagsnótt hefur verið leiðindaveður á Sauðárkróki, norðangarri og slydda og gránað hefur í byggð á hverjum morgni. Hríðarveður var á Ólafsfirði um helgina og fjöllin kring-um bæinn eru grá niður í miðjar hlíðar, og aðfaranótt sunnudagsins snjóaði niður í byggð. Í Þingeyjarsýslum er kuldalegt um að lítast þessa dagana. Á Húsavík hefur verið stöðug norðanátt og s.l. þrjá morgna hefur verið föl á götum Húsavíkur. Hitinn hefur farið niður fyrir frostmark, en í dag var þokuloft og aðeins hlýrra á Húsavík en áður. Mikill ís er á Skjálfanda og eiga fiskibátar í stöðugum erfiðleikum með að afhafna sig af hans völdum. Húsvíkingar lögðu mikið af kolanetum úti á flóanum fyrir helgina og ekki er vitað hvernig þeim reiðir af í ísnum.
Á Raufarhöfn og Þórshöfn snjóaði um helgina og var þar sannkallað leiðindaveðurfar þó norðanáttin vri þar ekki mjög hvöss. Sumstaðar var alhvítt á sunnudag á þessum slóðum. Gróður allur í þessum hluta Þingeyjarsýslu er mjög stutt á veg kominn og t.d. kúahagi hvergi. Fréttaritari Tímans á Þórshöfn sagði að elstu menn þar myndu ekki að ekki hefði verið búið að hleypa út kúm á Jónsmessu áður. Í einum hreppnum þarna, Svalbarðshreppi, munu um 8085% túna annarra en nýrækt vera ónýt vegna kals, svo að sjá má, að batni veðurfarið ekki til muna næstu vikurnar, verður ástandið afar slæmt hjá bændum á Norðausturlandi, þar sem þeir munu nú flestir í þann veginn að verða heylausir. Í innsveitum norðanlands hefur einnig verið mjög kalt þessa dagana. T.d. hefur verið kalsaveður á Grímsstöðum á Fjöllum s.l. þrjá daga, 34 stiga nturfrost á hverri nóttu, en um frostmark á daginn, en hvít jörð á hverjum morgni. Í dag var u.þ.b. 5 stiga hiti á Grímsstöðum, en það leit út fyrir kólnandi og versnandi veður. Rétt nýverið er farið að hleypa út kúm en bithagi er lítill, kal í túnum mikið og hvergi farið að bera áburð á tún.
Tíminn segir enn af slæmum sprettuhorfum 2.júlí:
IGÞ-Brú, Hrútafirði, mánudag. Það má furðulegt heita, hversu lítið hefur til þessa heyrst um hið alvarlega ástand, sem nú ríkir í Borgarfirði. Bændur þar koma ekki fé sínu á fjall vegna gróðurleysis á afréttum, og standa úrræðalausir andspænis kali og sprettuleysi niðri í byggð. Munu bændur nú reyna að leita einhverra úrræða, og er væntanlegur á næstunni fundur hjá Búnaðarsambandi Borgarfjarðar um þetta alvarlega ástand. Úthagi í Borgarfirði er nú eins og hann er venjulega í júníbyrjun. og efst í Norðurárdal er hann alveg sinuhvítur. Nefna má, að i gær komu þrír bændur úr Stafholtstungum upp í Fornahvamm og voru að huga að afréttum. Þegar þeir sáu hvernig umhorfs var á heiðinni, hættu þeir við að reka fé sitt á fjallið Er það eðlilegt, því ekki er stingandi strá að sjá þar. Ég ók yfir heiðina í dag, og var þar þoka og súld. og jafnvel féllu snjókorn annað slagið. Að minnsta kosti þrjár vikur virðast enn í túnaslátt neðarlega i Borgarfirði, ef að tíðin verður góð. Sem dæmi um hversu illa tún hafa farið, skal nefnt að allt túnið í Fornahvammi er ónýtt, og hefur ekki einu sinni verið borið á það í vor. Ég kom einnig við í Sveinatungu, en Björn Gíslason, bóndi, var ekki heima. Túnið hjá honum er ekkert sprottið og mikið kalið, þótt ekki sé það eins illa farið og í Fornahvammi. Athyglisvert er, að smárönd í Sveinatungutúninu, niður við veginn. er minnst skemmt. Er þetta svokallað mýrartún og virðist það hafa sloppið við kal, en þessi rönd er mjög lítið sprottin eins og allt annað hér á þessum tíma. Mjög mikið kal er í Hvítársíðu og Þverárhlíð. og úthagi er að mestu ógróinn. Hjá Brekku, Klettstíu og Dalsmynni eru sjálfgróin engi stórskemmd af kali, sem er óvenjulegt. Skúli Þórðarson bóndi í Sanddalstungu hefur um 200 fjár, og nokkrar kýr. Hefur hann undanfarið verið að leita sér að engi til að heyja, en ekkert fengið. Túnið hjá honum og slægjurnar virðist alveg eins illa farnar og í Fornahvammi, þ.e. mest allt ónýtt. Hann mun hafa haft tal af oddvita hreppsins og skýrt honum frá því, að hann sæi engin úrræði. Athyglisvert er, að túnið í Fornahvammi hefur verið að smáskemmast undanfarin þrjú ár, þ.e. þann tíma sem kuldinn hefur staðið yfir. Aldrei hefur þó keyrt um þver bak eins og nú. Enda hefur veðráttan verið mjög ólhagstæð. Má nefna, að síðustu fjórar vikurnar hefur hitinn ekki farið upp fyrir 5 stig í uppsveitum Borgarfjarðar, og í Fornahvammi hefur verið allt niður í frostmarki að kvöldinu. Um hádegi í dag voru þar þrjú stig. Á þessu tímabili hafa einungis tveir hlýir dagar komið, þ.e. föstudagur og laugardagur í síðastliðinni viku.
Júlímánuður var nokkuð tvískiptur. Fyrri hlutann ríkti bjartviðri og jafnvel komu hlýir dagar um landið sunnan- og vestanvert. Sömuleiðis var alloft bærilegt inn til landsins um landið norðaustanvert, en við sjávarsíðuna fyrir norðan og austan var daufleg tíð með viðloðandi kulda. Þann 7. var t.d. óvenjukalt við austurströndina, á hádegi var hitinn á Kambanesi 1,2 stig og 1,4 stig á Dalatanga. Hafís var að bráðna eða var nýbráðnaður á þessum slóðum. Á sama tíma var 10,9 stiga hiti á Egilsstöðum. Eftir miðjan mánuð brá til óþurrka um landið sunnan og vestanvert, en skánaði nyrðra og eystra.
Kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 7.júlí. Hiti 1 stig við Austfirði, en mun skárra uppi á Héraði. Þokuloft er víða við ströndina fyrir norðan.
Tíminn segir frá ástandi í Hrútafirði 3.júlí:
IGÞ-Akureyri, þriðjudag [2.]. Ástandið í Hrútafirðinum er mjög alvarlegt og einnig vestast í Vesturhúnavatnssýslu. Þetta svæði virðist hafa orðið mjög illa úti í kuldum í vor eins og raunar Strandasvæðið allt. Ástandið á þessu svæði virðist mjög áþekkt og efst í Norðurárdalnum. Tíminn hitti að máli Jónas Jónsson, bónda á Melum í Hrútafirði. og sagði hann að útlitið væri nánast voðalegt. Tún væru stórkalin. og ef að hitastigið héldi áfram að vera 2-3 stig á daginn, þá yrði engin spretta heldur á þeim svæðum sem eru ókalin. Talið er að hitinn fari ekki hækkandi, ef þessi norðanátt heldur áfram og ísinn fer ekki frá landinu. Bændur hafa reynt að bjarga því sem bjargað verður með því að rífa upp tún og bylta nýju landi og sá í það grænfóðri. En við það er gífurlegur kostnaður, og sannleikurinn um grænfóðrið er einnig sá að það sprettur ekki nema að hann hlýni. Bændur segja hreint út að þeir hafi ekki hugsað það mál til enda hvernig þetta verði í haust. enda horfa þeir fram á að verða meira og minna heylausir Þeir reyna nú eftir megni að útvega sér einhvers staðar slægjur. Fjórir bændur hér hafa t.d. reynt að fá slægjur í Borgarfirði, en aðeins einn þeirra hefur fengið engi til að slá þar, og býst hann við að geta nokkuð bjargað sér á því. Hinir hafa líklegast ekkert fengið, m. a. vegna þess að á þessu vori voru bændur í Borgarfirði þannig staddir. að þeir gátu ekki borið nægilega mikið á og eru sjálfir í stórum vandræðum.
En skárra var inn til landsins og austar. Tíminn 4.júlí:
IGÞ-Akureyri, þriðjudag. Strax og komið er austar í Húnavatnssýslunum fer að bera á því, að gróðurinn virðist hafa tekið betur við sér, einkum í úthaga. Þetta verður töluvert áberandi þegar komið er í Vatnsdalinn, og má segja, að þar sé grasspretta, þótt hún sé mjög seint á ferðinni, mjög sæmileg, og kal mun minna en annars staðar. Sama er að segja í Langadal. Sem dæmi má nefna, að túnið á Geitarskarði er allt mjög vel og þétt sprottið, en þess ber að gæta, að þótt nú sé orðið þetta áliðið sumars, er varla hægt að tala um að komin sé háarslægja á túnin. En þessi tún geta að sjálfsögðu brugðið skjótt við ef hlýnar á næstu 23 vikum. En það þýðir, að sláttur verður hálfum mánuði eða þremur vikum síðar á ferðinni en venjulega. Tíminn hitti að, máli Jón Tryggvason, bónda og oddvita í Ártúni Bólstaðarhlíðarhreppi og staðfesti hann, að á túnum þar í kring væri um að ræða lélega háarsprettu miðað við besta tíma. Það hefði sprottið ótrúlega hægt i vor, og þó komið ágætir tíðarfarskaflar. Klakinn fór seint úr jörð. Jón kvaðst hafa verið að setja niður girðingarstaura rétt áður en blaðamaður Tímans hitti hann, og þá hefði klakinn verið rúmlega fet í jörðu! Jón benti á, að þetta væri ekki fyrsta erfiðisár bænda nú, heldur þriðja harðindaárið í röð. Það hefði verið mjög erfitt í fyrra, en þá var haldið áfram að hvetja bændur til að stækka búin, sem hefði verið eðlileg hvatning til þess að bæta afkomuna. En nú væri útilokað annað en framkvæma stórkostlega lækkun, bændur gætu ekki annað vegna skulda, sem þeir hafa safnað undanfarið, og kaupfélögin gætu ekki hjálpað frekar en þau hafa nú þegar gert í því sambandi. Hann sagði, að undanfarin ár hefði ekki lánast að slá nema einu sinni á sumri vegna sprettuleysis og kals.
Ís var enn við land í júlíbyrjun. Tíminn segir frá 5.júlí:
OÓ - Reykjavík, fimmtudag. Enn liggur ís að landinu á nokkrum stöðum fyrir norðan og á Ströndum. Sigling fyrir Horn er fær en ístunga teygir sig inn Drangaál og upp að Óðinsboðasvæðinu, en er ekki breiðari en 5 til 6 sjómílur og þéttleiki er 4 til 6/10. Ístungan er eina siglingahindrunin á siglingaleið fyrir Norðurlandi, en samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar virðist vel siglandi grunnt með Horni og síðan austur, fyrir sunnan ísinn. Hrútafjörður og Miðfjörður eru lokaðir af ís, en sigling er sæmileg á Steingrímsfjörð þótt fara verði gegnum íshrafl. Fært er á Blönduós og Höfðakaupstað. Á Skagafirði austanverðum er talsverður ís, en eins og er mun siglingaleið fær á Sauðárkrók.
ED-Akureyri, fimmtudag. Árið sem nú er að líða er mesta kalár á Norðurlandi, og á mestu kalsvæðum landsins eru skemmdirnar á gróðurlendi margfaldar miðað við 1918, sem löngum er til vitnað. Í öllum héruðum landsins eru ræktarlönd kalin, en mestu kalsvæðin eru Vestur-Húnavatnssýsla, innanverð Strandasýsla, Hrútafjarðarsvæðið, Norðurárdalur í Borgarfirði og enn fremur eru geysilegar kalskemmdir á Norðausturlandi. Hér i Eyjafjarðarsýslu eru kalskemmdir töluverðar. Jón Hjálmarsson, Villingastað í Saurbæjarhreppi: í Saurbæjarhreppi eru tún á flestum bæjum skemmd af kali. Mér skilst að á mínu túni sé 1/5 hluti skemmdur. Hitt er ekki síður áhyggjuefni, hve seint sprettur. Í Hrafnagilshreppi er sláttur hafinn á nokkrum bæjum. Er þar um að ræða friðuð tún og óskemmd. Á einum bæ a.m.k. í Saurbæjarhreppi hófst sláttur fyrir síðustu mánaðarmót, en oft hefst sláttur í Eyjafirði snemma í júnímánuði.
Tíminn segir loks af góðviðri í pistli 6.júlí, ritstjóri hungurdiska tók þann 5. bílpróf mjög sólbrunninn eftir fáeina sólardaga á vegum úti:
KJReykjavík, föstudag. Það má segja, að heldur hafi brugðið til hins betra með hitastig á Hveravöllum í gær, eftir hin miklu og langvarandi frost sem þar hafa verið í vetur. Á Hveravöllum mældist sem sé 15 stiga hiti seinnipartinn í gær, eða meiri hiti en t.d. í Reykjavík, en þar mældist á sama tíma 12 stiga hiti. Þá mældist líka mikill hiti annarsstaðar í óbyggðum, því í Jökulheimum, mældust 18 stig og á Kirkjubæjarklaustri mældust líka átján stig. Mestur hiti á landinu mældist á Hæli í Gnúpverjahrepp eða 22 stig og á Hellu mældust 19 stig. Kaldast var í Grímsey og á Norðausturlandi 79 stig og Höfn í Hornafirði var líka undir 10 stiga markinu með 8 stig.
Tíminn segir enn af kalskemmdum 9.júlí:
IGÞ-Leirhöfn, sunnudag. Blaðamaður Tímans fór um Tjörnesið. Þar er víða mikið kal í túnum, og minnir nokkuð á ástandið í Hrútafirðinum en er þó öllu verra. Á Máná, sem er ysti bær á Tjörnesi, hitti Tíminn að máli Egil Sigurðsson, bónda sem nú er að verða 75 ára gamall. Sagði hann, að á þessu svæði hafi verið glærasvell á allri jörð, og á sumum túnum hafi glæran verið allt að fet á þykkt. En þegar fór að þiðna og vatn rann úr þessu niður í grassvörðinn, var frost, á hverri nóttu. Taldi hann, að þetta ætti mesta sök á skemmdunum. Á Máná er um helmingur túnsins ónýtur, en það er um 30 dagsláttur og mun vera hægt að fá hey handa tveimur kúm af því. Þá eru þar 100 kindur, og sagði Egill, að ekkert viðlit væri að halda í það, nema þá að byggja á matargjöfum, sem væri fjárhagslega óframkvæmanlegt. Egill sagðist hafa búið í 60 ár á Máná, og aldrei hafi neitt þessu líkt skeð þar áður, jafnvel ekki 1918 frostaveturinn mikla.
Þann 15. júlí fórst flugvél og með henni fjórir. Tíminn segir frá 18.júli:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Cherokeeflugvélin, sem týndist í fyrrakvöld á leiðinni frá Reykjavík til Ísafjarðar fannst í morgun á Brunnahæð suðaustur á Látraheiði. Í flugvélinni voru þrír menn og ein stúlka. Voru þau öll látin. Flugvélin hefur auðsjáanlega skollið í hlíðina á mikilli ferð og komið strax upp eldur í henni. Fólkið hefur látist samstundis. Það var leitarflokkur undir stjórn Þórðar Jónssonar á Látrum, sem fann flakið klukkan 10:45.
Tíminn segir af þurrkleysu suðvestanlands 24.júlí:
KJ-Reykjavík, þriðjudag. Bændur á Suðvesturlandi bíða nú eftir þurrki til þess að geta farið að byrja slátt fyrir alvöru. Eru tún orðin sæmilega vel sprottin, þar sem á annað borð er ekki kalið. Víða eru bændur aðeins byrjaðir að bera ljá í tún, en almennt er sláttur ekki hafinn af fullum krafti.
Vísir segir af hitabylgju í pistli 26.júlí:
Ef íslendingar á annað borð geta talað um hitabylgju á landinu stendur ein slík yfir núna. Í gær voru óvenju hlýindi um allt land, en þó hlýjast norðan- og austanlands. Mesti hitinn var mældur á flugvellinum á Egilsstöðum 23 stig kl. 3. Enginn hámarkshitamælir er á flugvellinum, þannig að ekki er vitað nema hitinn hafi verið enn hærri. [Hiti á Egilsstöðum fór í 22,5 stig þennan dag].
Tíminn segir af jarðskjálfta undan Norðurlandi í frétt 31.júlí:
OÓ-Reykjavík, þriðjudag [30.]. Tveir snarpir jarðskjálftakippir mældust í Reykjavík í nótt og var annar miklu harðari. Varð fyrri kippurinn klukkan 2:26 »g hinn klukkan 2:30 Upptök jarðskjálftans er í hafinu 50 til 60 kílómetra norður af Húsavik. Fólk í kauptúninu og nágrenni vaknaði við titringinn og ljósakrónur dingluðu í loftum. Einnig varð fólk á Akureyri vart við jarðhræringarnar. Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, upplýsti Tímann í dag um. að hræringarnar ættu upptök sín 350 kílómetra frá Reykjavík. Mældist hinn snarpari þeirra 4,8 á Richtermælikvarða. Að jafnaði verða tveir svo sterkir eða sterkari jarðskjálftar á Íslandi á ári.
Tíminn segir af óþurrkum syðra 1.ágúst:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Bændur á Suðurlandi eru orðnir langeygðir eftir þurrki. Tvær vikur eru nú liðnar síðan sláttur hófst og var þá gras fullsprottið og náðu sumir inn einhverju af heyjum en vegna þurrkleysis undanfarið hefur lítið verið slegið og er nú gras orðið úr sér sprottið, og farið að leggjast. Óþurrkurinn er mestur í Árnes- og Rangárvallasýslum, en fyrir austan Mýrdal er ástandið skárra og hafa bændur þar náð inn talsverðu af heyjum. Á óþurrkasvæðinu hefur nokkuð verið slegið í vothey. ... Þrátt fyrir óþurrkana hefur ekki rignt mjög mikið, hins vegar er oft súldarveður og rignir alltaf eitthvað á hverjum sólarhring.
Í ljós kom að land hafði risið í Öskju og búist var við eldgosi. Tíminn segir frá 3.ágúst:
EKH-Reykjavík, föstudag. Um síðustu helgi fór rannsóknarleiðangur undir stjórn Eysteins Tryggvasonar, jarðfræðings, inn að Öskju til jarðfræðirannsókna. Komst leiðangurinn að raun um að verulegt misgengi hefur orðið í Bátshrauni við Öskjuvatn. Landið virðist hafa risið um 6,60 m við norðausturhorn vatnsins en sigið töluvert á svæði suðvestan vatnsins. Telja jarðfræðingar þetta misgengi jarðlaganna vera undanfara nýs Öskjugoss en segja jafnframt, að erfitt sé að segja til um hvenær það verði.
Fimm manna jarðfræðileiðangur fór til jarðfræðirannsókna í Öskju i síðustu viku. Var hann þar að vísindastörfum í fimm daga. Komust jarðfræðingarnir að raun um, að yfirborð Bátshrauns, sem er umhverfis Öskjuvatn, hafi hækkað á svæði við norðaustur horn vatnsins og er það nú 4,60 metra fyrir ofan yfirborð Öskjuvatns eins og það var fyrir Öskjugosið 1961. Vatnsyfirborðið lækkaði um tvo metra í gosinu svo að hraunyfirborðið er nú í 6,60 m. fyrir ofan vatnsyfirborðið eins og það er nú. Á svæði við suðvesturhluta vatnsins virðist landið hins vegar hafa sigið töluvert og er yfirborð hraunsins þar aðeins í 23 m hæð yfir vatnsborðinu. Slíkt misgengi jarðlaga á gossvæðum er talinn óbrigðull fyrirboði um nýtt gos. Að sögn jarðfræðinga munu breytingar jarðlaganna við Öskjuvatn hafa orðið á þessu ári, því í fyrra sumar sáust engin merki um hræringarnar. Af íslenskum eldfjöllum er helst búist við gosi í Öskju á næstunni og er það álit byggt á sögu eldfjallsins. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir miklu gosi, heldur smágosi áþekku því sem varð í Öskju 1961. Í Mývatnssveit, en þar hafa menn helst veður af Öskju og fylgjast gjarnan með umbrotum þar efra, hafa menn ekki orðið varir við neinar hræringar, sem hefðu getað verið afleiðingar umbrotanna í Öskju. Þó urðu menn varir við smávægilegar jarðhræringar í Mývatnssveit í gærkvöldi.
Tíminn segir af skammvinnum þurrki 8.ágúst:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Bændur á Suðurlandi og sunnanverðu Vesturlandi fengu um síðustu helgi langþráðan þurrk [sunnudagur 4.], eftir fjögurra vikna látlaus votviðri. Var gras orðið úr sér sprottið og víðast hvar blasti við neyðarástand af þessum sökum. Muna menn ekki eftir að sláttur hæfist svo seint sem í ár, og reyndar er sláttur ekki alls staðar byrjaður enn, eins og sunnanfjalls á Snæfellsnesi. Þar er hvergi komin þurr tugga í hlöðu í fimm hreppum. Á sunnudag og mánudag gægðist sólin fram úr skýjaþykkninu í Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendi. Var ekki að sökum að spyrja, allt búalið á hverjum bæ þusti út á tún og loks hófst sláttur. Meira að segja byrjuðu fjölmargir bændur slátt á mánudegi að þessu sinni, en eins og allir vita þá segir þjóðtrúin að mánudagur sé til mæðu, og fyrrum var að öllu jöfnu óráðlegt að hefja slátt á þeim degi. En þegar fyrsta þurra dag sumarsins sem er í ágústmánuði ber upp á mánudag er ekki eftir neinu að bíða. En Adam var ekki lengi í Paradís og síðari hluta dags í dag fór að væta aftur og sáralítið af heyi er komið þurrt i hlöður en bændur keppast við að sæta hálfþurra slægjuna, en mikið var slegið á mánudag og í gær.
Tíminn lýsir þoku við landið 11.ágúst:
GÞE-Reykjavík, laugardag. Um mestalla vesturströndina, annes og eyjar norðanlands, austan og sunnan er mikil og þétt þoka. Skyggni á þessum slóðum er yfirleitt 200500 metrar, en sums staðar fer það niður í 100 metra að sögn Veðurstofunnar, m.a. í Keflavík, Grímsey, Papey og Kambanesi. Svörtust er þokan þó á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, en þar sá ekki út úr augum í morgun. Segja má að þoka sé til hafsins allt umhverfis landið, og nær bún næst landi á vesturströndinni. Til hafsins er skyggni mjög lélegt allt frá Reykjanesi til Vestfjarða, á Norðurlandi er hins vegar mjög bjart nema í Grímsey og bjart er til landsins á Austur- og Suðurlandi.
Tíminn segir tíðindi af Heklu 20.ágúst, gos varð síðan tæpum tveimur árum síðar. Einnig er sagt frá rangri veðurspá sem kom sér illa fyrir bændur. Líklega hefðu tölvuspár nútímans náð þessari rigningu. Mjög kalt og óstöðugt loft kom inn yfir landið úr norðri með næturfrosti á stöku stað:
KJ-Reykjavík, mánudag. Í sumar og í vetur hefur óvenjumikinn reyk lagt upp af syðstu gígunum i Heklu, og virðist vera óvenju mikill hiti þar undir núna, þótt ekki sé þar með sagt að gos sé í aðsigi. Aldrei skyldi þó slá neinu föstu því sambandi, og vel gæti verið að Hekla færi að rumska núna því stysta tímabil milli gosa í henni. er fimmtán ár, eftir því sem best verður vitað. Er fréttamaður Tímans átti leið um Landssveit á sunnudagsmorguninn, ásamt öðrum ferðalöngum, sáust reykjarmekkirnir úr Heklu mjög greinilega í morgunblíðunni. Sigurjón Pálsson bóndi á Galtalæk tjáði fréttamanni, að í vetur og sumar hefði verið óvenjumikill hiti í gígnum. sem síðast gaus úr. Hefði hitinn verið svo mikill að ekki hefði fest snjó í öxlinni við gíginn i vetur Sé svæðið skoðað í sjónauka, má sjá að reykjarmekkirnir stíga víða upp úr gígnum, og þegar vel viðrar er þarna allmikill reykur. Svo sem kunnugt er, þá gaus Hekla síðast í mars 1947, en þar áður gaus hún árið 1845, svo þarna liðu 101 ár á milli. Svo gosin séu rakin, þá liðu 77 ár þar áður á milli gosa, síðan 73 ár, 56 ár, 39 ár og 15 ár. En eins og dr. Sigurður Þórarinsson, jarðfræðiprófessor sagði við Tímann í dag, þá skyldi maður ekki afskrifa Heklu alveg, og þótt langt hafi liðið á milli gosa síðast, þá er ekki víst að svo verði næst. En jafnframt þessu sagðist Sigurður ekki gera ráð fyrir miklu gosi í Heklu næst, og ekki nærri eins miklu og síðast.
EJ-Reykjavík, mánudag [19.]. Skyndileg og mikil rigning á Vesturlandi sem Veðurstofan sá ekki fyrir hefur valdið stórtjóni hjá bændum á því svæði. Í góðviðrinu í síðustu viku einu því fyrsta, sem komið hefur þar í sumar var geysimikið slegið, og þar sem spáð var áframhaldandi þurrki um helgina lá mikið hey flatt eða í hrúgum þegar rigninguna gerði. Gunnar Guðbjartsson, bóndi á Hjarðarfelli, sagði í viðtali við blaðið í dag að af þessu hefði hlotist geysimikið tjón bæði á Snæfellsnesi og Vesturlandi öllu. Hafi rigningin komið bændum á óvart, en þeir ætluðu að koma heyinu upp um helgina. Auk annars tjóns af þessum ástæðum, mun um fjórðungur næringarefnanna í heyinu eyðast þegar rignir á þurrt eða svo til þurrt, heyið, og verður heyfengurinn því miklu rýrari en ella. Var vart á bætandi eftir kalskemmdirnar í vor. Verða bændur nú að bíða eftir þurrki og þurrka heyið á nýjan leik.
KJ-Reykjavík, mánudag. Sífelldar breytingar eiga sér alltaf stað á Vatnajökli, lægðir myndast í jökulinn og hverfa. Við Pálsfjall myndast slíkar lægðir öðru hvoru í jökulinn, og í leitarflugi um helgina uppgötvaðist það, að ný lægð hefur myndast við hlið þeirra sem fyrir var þar. Sigurður Þórarinsson jarðfræðiprófessor sagði Tímanum í dag, að þessi lægð hefði komið frá því Jöklarannsóknamenn voru þar innfrá í fyrra. Kæmu þessar lægðir og færu, og benti það til þess að þarna undir væri jarðhiti, sem orsakaði þetta.
Dagana 24. til 26. gerði eindregna sunnanátt með mikilli rigningu á Suður- og Vesturlandi. Flóð varð í ám og lækjum og skemmdir á vegum. Skriður féllu á Bíldudal. Tíminn segir frá 27.ágúst:
GÞE-Reykjavik, mánudag. Miklar vegaskemmdir urðu á Suðurlandi um helgina vegna úrhellisrigninga. Í fyrrinótt mældist úrkoma á Skógum hvorki meira né minna en 152,2 millimetrar, og urðu vegir þar í grennd og víðar ein forarleðja. Stærðar stykki fóru úr brúarfyllingum, ár flæddu yfir vegi, þannig að sums staðar mátti heita svo, að allt láglendi væri undir vatni. Talið er vist, að eitthvað af sauðfé hafi drukknað í þessum flóðum, en enn er ekki vitað, hversu margt. Að sögn Eysteins Einarssonar vegagerðarverkstjóra fór tveggja metra stykki úr eystri fyllingu brúarinnar á Holtsá, og vegurinn þaðan og vestur undir Hvamm lokaðist alveg á tímabili. Svalbælisá flæddi yfir veginn austan við Þorvaldseyri og braut skarð í hann. Horfði svo um tíma sem hún. myndi flæða yfir túnið á Þorvaldseyri, en svo fór þó ekki. Hins vegar var víða allt láglendi undir vatni, og talið er, að fé er var á beit á hólmum og víðar hafi flætt, en óvíst er hversu margt það hefur verið. Eins urðu miklar skemmdir á heyjum á þess um slóðum. Þá fór Kaldaklifsá út farvegi sínum og rann vestur m»ð Suðurlandsvegi, og við samkomustaðinn Njálsbúð í Vestur-Landeyjum fór úr brúarfyllingu og víðar á Suðurlandi urðu minniháttar skemmdir. Vegagerðarmenn fóru þegar á stúfana i morgun og kl.10 í gærkvöldi var Suðurlandsvegur að mestu fær, og í dag er allt komið í samt lag. Víðar hafa orðið talsverðar vegaskemmdir vegna úrkomu. M.a. skemmdust vegirnir yfir Dragháls og Uxahryggi. Þá munu hey víða hafa skemmst, t.d. skammt frá Hveragerði. Mun tjónið mikið.
G.Th.-Bíldudal mánudag. Á laugardaginn var geysilegt úrfelli á Bíldudal, og vestan hvassviðri um kvöldið, svo að illstætt var í verstu hryðjunum. Aðfaranótt sunnudagsins féllu alls sex aur- og grjótskriður hér í Arnarfirði, sem vitað er um. Skriða féll yfir veginn á núpnum milli Dufansdals og Foss í Suðurfjörðum, og lokaði hún veginum. Á veginum út í Ketildali féll skriða mitt á milli Bíldudals og Hvestu, og lokaði hún einnig veginum. Var fljótlega ýtt af þessum vegum. Í fjallinu á móti Bíldudal féllu tvær skriður, en náðu ekki að valda spjöllum á veginum. Alvarlegast var þó að tvær skriður féllu úr fjallinu fyrir ofan Bíldudal. Önnur þeirra olli ekki skaða, en hin féll þvert í gegn um þorpið, og olli allverulegum landspjöllum, og má mildi kallast að ekki hlaust alvarlegt slys af. Féll skriðan rúmlega þrjátíu metra breið, þar sem hún er breiðust ofan úr fjallinu, og yfir allstórt tún, sem liggur á milli tveggja nýbyggðra einbýlishúsa. Síðan yfir aðalgötu þorpsins, og áfram hjá húsinu Lækjarmóti niður allmikið tún, sem tilheyrir því húsi, yfir landamerkjagirðingu Lækjarmóts og Vinamóts, niður tún beggja húsanna og niður í fjöru. Er ljótt að sjá grösug tún þakin aur og grjóti, sumstaðar stórgrýttu. Við annað einbýlishúsið féll skriðan alveg með girðingu, og á einum stað inn á lóðina. Alvarlegast tjónið varð þó hjá Þórði Ólafssyni á Lækjarmóti, en hann missti að heita má, alveg annað tún sitt og stóran hluta þess neðra. Þórður sem er 75 ára gamall, og hefur um árabil haft póstflutninga í Arnarfirði með höndum, hefur þarna smábú með rúmlega 20 ám. Hann var búinn að hirða heyið af efra túninu, en missti nokkra hesta af heyi á því neðra. Girðingar hjá honum eru allar stórskemmdar, eða ónýtar, þvottahjallur ónýtur, og hænsnahúsið umlukið metra hárri skriðunni, sem féll aðeins um eitt fet frá fjárhúsunum. Hluti skriðunnar féll á horn íbúðarhúss Þórðar, en olli ekki skemmdum, en húsið er af hálfu leyti umlukið aur. Talið er að ekki sé rétt að hreyfa við skriðunni um tíma, af hættu við aðra skriðu. Á sunnudaginn hélt rigningin áfram, en ekki féllu þá neinar skriður svo vitað sé.
Síðustu daga mánaðarins dýpkaði lægð mjög á Grænlandshafi og fór til austurs ekki langt fyrir sunnan land. Veðráttan segir að skriðuföll hafi þá orðið á Austfjörðum. Hvasst varð með lægðinni og búist var við að hún ylli norðankulda þegar hún færi hjá, en svo fór ekki því hann lagðist í austlægar áttir með mun betri tíð en hafði ríkt til þessa á árinu. Satt best að segja eru þessi septemberhlýindi minnisstæð. Hiti fór hæst í 18,5 stig í Reykjavík bæði þann 10. og 11. og hefur aðeins einu sinni farið hærra í septembermánuði. Það var 1939. Um þann atburð var fjallað í pistli hungurdiska.
Hlaup gerði í Kolgrímu í Suðursveit, en þau munu hafa verið algeng á þessum tíma. Ritstjóri hungurdiska varð hissa - og sleginn óhug á sínum tíma þegar hann leit þessa á augum í fyrsta sinn. Áin einhvern veginn ofvaxinn fyrir farveginn, var þó ekkert sérstakur vöxtur í henni í það sinn, aðeins venjulegt sumarvatn. Tíminn 3.september:
AA-Höfn, Hornafirði, mánudag. Mikið hlaup er nú í Kolgrímu og hefur veginn tekið af beggja megin árinnar. Hlaupið hófst í gærdag og mikið rigndi enn í nótt og er vatnið enn ekki farið að sjatna. Brúin stendur enn, en veginn hefur tekið af við báða brúarsporðana. Vegna vatnavaxtanna, er enn ekki hægt að sjá hve miklar skemmdirnar eru. Nærri lætur að slík hlaup komi í Kolgrímu árlega og verða þá alltaf meiri og minni vegaskemmdir. Brúin yfir ána er orðin gömul og stendur til að endurbyggja hana.
Vöxtur hljóp einnig í Skaftá. Svo virðist sem menn hafi ekki verið búnir að átta sig fyllilega á eðli Skaftárhlaupa á þessum tíma, en það stóð allt til bóta. Tíminn 4.september:
KJ-Reykjavík, mánudag. Vart hefur orðið óeðlilega mikilla vatnavaxta í Skaftá, og einnig er óeðlilega mikill jökullitur á ánni að því er kunnugt fólk þar eystra segir. Fréttaritari Tímans á Kirkjubæjarklaustri sagði í dag, að eflaust stöfuðu þessir vatnavextir að einhverju leyti af úrkomunni, sem verið hefur þar eystra undanfarið, en þó ekki að öllu leyti. Á Kirkjubæjarklaustri er enginn brennisteinsþefur sagði fréttaritarinn, en aftur á móti er óvenjumikill brennisteinsþefur þegar komið er að ánni. Ekki er á þessu stigi hægt að tala um mikið hlaup eða vatnavexti, en greinilega hefur eitthvað skeð í Vatnajökli þar sem upptök árinnar eru.
Sú breyting sem varð á veðurlagi á þessum árum var tekin nokkuð alvarlega af stjórnvöldum. Kemur það eiginlega á óvart nú á tímum. Tíminn 14.september:
EJ-Reykjavík, föstudag. Harðærisnefndin svonefnda hefur undanfarið ferðast víða um landið og kannað heyskaparhorfur. Er niðurstaða nefndarinnar síður en svo uppvekjandi, nefnilega að útlit sé fyrir að alvarlegur heybrestur verði hjá fjölda bænda á stórum svæðum".
Fréttatilkynningin, sem er stutt, fer hér á eftir: Dagana 31. ágúst og 6. til 12. september ferðaðist Harðærisnefnd um Vestur-Skaftafellssýslu, Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, Strandasýslu, Húnavatnssýslur báðar, Skagafjarðarsýslu, Þingeyjarsýslur báðar og Norður-Múlasýslu. Hélt nefndin fundi með stjórnum búnaðarsambanda, hreppsnefndaroddvitum, héraðsráðunautum, forðagæslumönnum og fleiri forráðamönnum viðkomandi byggðarlaga á þessu svæði. Enda þótt heyskaparhorfur séu mun betri en útlit var fyrir snemma í sumar, þá lítur út fyrir að alvarlegur heybrestur verði hjá fjölda bænda á stórum svæðum. Mjög mikil heymiðlun á sér stað milli héraða og landshluta. Flestir bændur hafa reynt að bæta úr heyskortinum eins og kostur var á með því að nýta eyðijarðir nær og fjær og taka á leigu engjar jafnvel í fjarlægum landshlutum. 13. september 1968.
Vísir ræðir góðviðrið 17.september:
Góðviðriskaflinn að undanförnu hefur verið sannkallaður sumarauki því ekki eiga íslendingar hlýindum sem þessum að venjast í septembermánuði. Hér sunnanlands hefur þessi kafli f veðurfarinu verið með þeim betri í sumar. Einstök hlýindi voru um daginn, þegar hitinn komst upp í 18,5 stig í Reykjavík og annar góðviðrisdagur var í gær, þegar hitinn komst upp í 14 stig og logn var víðast hvar á Suður- og Vesturlandi. Í gær var jafnframt hægviðri um allt land.
Tíminn segir góðar fréttir af garðrækt 25.september:
OÓReykjavík, þriðjudag. Kartöfluuppskera er í góðu meðallagi í haust. Sums staðar er uppskera allt að tólfföld, miðað við útsæðið sem sett var niður s.l. vor. Tíð hefur verið góð það sem af er haustinu og hafa ekki enn komið næturfrost og hafa því garðeigendur látið kartöflur sínar vera í jörðu lengur en ella.
Morgunblaðið segir af óhappi í pistli 27.september:
Ólafsfirði, 25. september. Laust fyrir hádegi í dag fauk mannlaus Landroverbifreið út af veginum í Ólafsfjarðarmúla, niður bjargið og í sjóinn. Nánari tildrög eru þau, að menn voru við vegagerð í Hámúlanum og verkstjóri vegagerðarinnar, Guðmundur Gíslason, hafði skilið bifreið sína eftir á vegarbrúninni. Gekk á með hryðjum. Suðaustan hvassviðri var, og í einni hryðjunni, sem var mjög snörp sáu menn hvar bifreið Guðmundar fauk út af veginum og steyptist í sjóinn. Þar sem bifreiðin fauk fram af er um 250 metra snarbratt fall til sjávar Jakob.
Í lok mánaðarins gerði eftirminnilegt hret. Mikil viðbrigði frá blíðunni sem annars hafði ríkt í mánuðinum. Svo vildi til að ritstjóri hungurdiska lenti í hretinu, var meðal farþega í norðurleiðarútu sem strandaði á Blönduósi í hríðinni - á leið til Akureyrar.
Tíminn segir frá 29.september:
OÓ-Reykjavík, laugardag. Hvassviðri er nú á síldarmiðunum fyrir norðaustan land og er sjógangurinn svo mikill að skipin geta ekki kastað. Eru sum þeirra á landleið en önnur halda sjó og bíða þess að lygni. Fimm síldveiðiskip fengu afla í gærkvöldi, samtals 280 lestir og eru nú á leið til lands. Er sjógangurinn svo mikill að þau verða að sigla á hægri ferð, en hvassara er og kaldara eftir því sem nær dregur landi.
Á kortinu má sjá þetta eftirminnilega hret. Árið eftir, 1969, gerði annað hret. Þá snjóaði meira í Reykjavík en annars er vitað um í september. Þessum tveimur hretum, sitt hvort árið, er oft ruglað saman. Nánar segir frá í Tímanum 1.október:
KJ-Reykjavík, mánudag. Um helgina snjóaði mikið á öllu norðanverðu landinu, og olli snjókoman töluverðum samgöngutruflunum á þessum tíma, enda var margur ferðalangurinn óviðbúinn ófærðinni og hríðinni, bæði með tilliti til klæðnaðar og útbúnaðar farartækjanna. Björn Stefánsson á Ólafsfirði, sagði í viðtali við Tímann í dag að í tvo sólarhringa hefði verið snjókoma og hríð á Ólafsfirði, og hafi verið, kominn jafnfallinn snjór í mitt læri sumstaðar. Hvasst var á köflum, og dreif því víða í skafla. Lágheiði varð ófær, og var það enn í dag, óg sömuleiðis varð Múlavegur ófær, en hann opnaðist fyrir stóra bíla eftir hádegið í dag, mánudag. Síðan í morgun hefur verið gott veður sagði Björn, en lítið hefur þó tekið upp af snjónum. Bændur í framsveitum óttast mjög að eitthvað af k hafi fennt, en það kemur varla í ljós fyrr en, snjóinn hefur tekið upp.
Í Húnavatnssýslum var mestur snjór í Langadal, og þar urðu líka mestar samgöngutruflanir. Þá óttast bændur þar, að fé hafi fennt því þeir hafa fundið lömb sem lögst voru fyrir, og farið að skefla yfir þau. Jón Alfreðsson á Hólmavík sagði að kolófært væri þaðan og norður í Árneshrepp. Hefði svo verið frá því á laugardagskvöld. Frá Hólmavík og til Borðeyrar er keðjufæri fyrir vöru- og fólksbíla. Þá er þung færð á Tröllatunguheiði. Á Hólmavík var annars gott veður í dag, en frost í skugganum. Hríðarkóf var á Hólmavík í gær. Guðmundur Sveinsson á Ísafirði sagði, að þar hefði verið 10-15 sentímetra jafnfallinn snjór í dag. Ófært var yfir Breiðadalheiði í gær, en í dag var mokað, og samgöngur komnar í eðlilegt horf. Kristján Júlíusson á Bolungavík sagði, að þar væri hvítt niður í fjöru, en veðrið hefði gengið upp á föstudag, en þá snjóaði í fjöll. Engar teljandi samgöngutruflanir urðu við Bolungavík vegna snjókomunnar. Ingólfur Kristjánsson á Siglufirði sagði í dag, að þæfingsfærð hefði verið á götum Siglufjarðar áður en þær voru mokaðar. Var jafnfallinn snjór víða í hné á Siglufirði. Lítið sem ekkert tók þar upp í dag, enda kalt og búist við nokkru frosti í nótt. Reyna átti að koma áætlunarbílnum frá Siglufirði inn í Skagafjörð í dag. Voru bændur í Siglufirði að smala í dag og getur eitthvað af fé hafa fennt því að töluverður snjór var í fjöllunum.
KJReykjavík, mánudag. Rúmlega hundrað manns gistu hjá mér í nótt, sagði Þorsteinn Sigurjónsson hótelstjóri á Blönduósi, er Tíminn hafði tal af honum í dag, og hafa í minni tíð, ekki gist fleiri í einu hér á hótelinu eða á vegum þess. Fólkið fór að koma hingað um miðjan dag í gær (sunnudag) sagði Þorsteinn, og var að koma fram til klukkan eitt í nótt. Meiri hlutinn var á leiðinni norður, og stærsti hópurinn, 2030 manns manns var með Norðurleiðarútunni sem tepptist hér. Alls munu um tíu bílar hafa verið yfirgefnir á leiðinni, frá Giljá og hingað til Blönduóss. Flestir bílarnir munu hafa verið yfirgefnir vegna þess að snjóaði inn á þá, og þeir drápu á sér. Fólk var alls ekki undir þessa hríð búið, enda kannski ekki von, þar sem svona mikil hríð á þessum tíma er heldur óalgeng.
Nokkur fjárskaði varð í hretinu. Tíminn 2.október:
EJ-Reykjavík, þriðjudag. Í veðurofsanum um síðustu helgi fyrir norðan, og í gær fyrir austan, grófst fé víða í fönn, og á einum stað fyrir austan drukknuðu a.m.k. 24 kindur, er þær hröktust undan vindi í Fögruhlíðará. Í gær og í dag hafa bændur fyrir norðan verið að grafa fé úr fönn, sumt dautt. Það var í gær, að áhlaupaveður gerði í Jökulsárdal á Héraði, og í dag fundust í Fögruhlíðará 24 kindur, aðallega lömb, af bæjunum þar í kring. Munu kindurnar hafa hrakist undan vindi í ána, en krap hafði myndast í henni. Víða á Norðurlandi hafa bændur unnið að því að grafa fé sitt úr fönn. Þannig fennti fé víða á bæjum framarlega í Svarfaðardal, en þar gerði meiri snjókomu um helgina en verið hefur um langan tíma á þessum árstíma. Er þar nú haglítið, en ástandið er mun betra eftir því sem innar dregur, og þó einkum í Skíðdalnum. Margir bændur hafa einnig grafið fé úr fönn á Árskógsströnd, sumt dautt, og bændur í Skagafirði og austan megin Eyjafjarðar hafa einnig leitað að fé sínu.
Aftur gerði hríð Tíminn 3.október:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag [2.]. Blindbyl gerði á sunnanverðri Holtavörðuheiði í gærkvöldi og margir litlir bílar festust í sköflum og urðu ökumenn þeirra og farþegar að yfirgefa bílana og taka sér far með flutningabílum niður af heiðinni. Gistu milli 20 og 30 manns í Fornahvammi í nótt, en í dag náðu ökumenn smábílanna ökutækjum sinum niður af heiðinni. Þegar hríðin skall á var aðeins einn veghefill á Heiðinni og þegar hann festist utan við veginn var ekkert hjálpartæki tiltækt til að aðstoða bíla til að komast áfram. Síðari hluta dags í gær fór að snjóa á Holtavörðuheiði og voru þá margir bílar á leiðinni yfir. Um fimmleitið hvessti mjög á sunnanverðri heiðinni en norðar var logndrífa. Þegar leið á kvöldið mynduðust skaflar á veginum og færðin þyngdist svo að vegurinn var ekki fær nema stórum bílum.
Októbermánuður var kaldur, en sérlega þurrviðrasamur um landið sunnanvert og lítið var mum stórviðri. Hafís var mönnum ofarlega í huga, enda varð veturinn 1969 einhver sá ísamesti hér við land, næstur á eftir 1968 í þessari syrpu og þá náði ísútbreiðsla í norðurhöfum hámarki.
Veðráttan segir að þann 11. október hafi þak fokið af nýbyggðu húsi í Hofsnesi í Öræfum. Þá var vindur af norðaustri. Djúp og víðáttumikil lægð var á hægri ferð til norðausturs fyrir suðaustan land.
Tíminn segir frá 25.október:
KJ-Reykjavík, fimmtudag Menn velta því gjarnan fyrir sér hvort landsins forni fjandi muni heimsækja landið í vetur eins eftirminnilega og á síðasta vetri, þegar hann lá við landið svo mánuðum skipti. Tíminn leitaði í dag upplýsinga hjá Páli Bergþórssyni veðurfræðingi um hvernig ísinn lægi núna, og hverjar líkur væru fyrir því, að ísinn legðist að landinu í vetur. Páll sagði að ef dæma mætti eftir reynslu af hitamælingum á Jan Mayen, benti hitinn þar í haust til þess, að ís geti orðið við landið í 24 mánuði samtals í vetur og vor, en svo langur hefur ístíminn ekki orðið nema fimm sinnum áður á þessari öld. S.l. ár var ístíminn fimm mánuðir, en fjórir mánuðir 1965. Páll sagði að engin reynsla væri komin á ísspár sem þessar, og yrði því að taka þær með nokkrum fyrirvara. Upplýsingum um ísjaðarinn væri fenginn með flugvélaathugunum og upplýsingum frá gervitunglum, en sjávarhitamælingarnar væru fengnar frá sjávarhitamælingum skipa og tekið fimm daga meðaltal af mælingunum. Upplýsingar þessar væri nokkuð mismunandi, en telja mætti þær sæmilegar fyrir norðaustan land. Segja má, að upplýsingar Páls séu mjög athyglisverðar, en eins og hann segir, þá eru ísspár sem þessar á frumstigi, og ber því að taka þær sem slíkar. Engu síður er fyllsta ástæða til að gefa ísnum gaum, svo hægt verði í tíma að gera viðeigandi ráðstafanir, ef þurfa þykir.
Kartöflubændur fyrir norðan misstu sumir akra sína undir snjó. Tíminn 30.október:
KJ-Reykjavík, þriðjudag. Kartöflur fyrir hundruð þúsunda eru enn í jörð undir snjó á Svalbarðsströnd og Höfðavík, og hafa bændur orðið fyrir stórfelldu afurðatjóni af þessum sökum. Þegar áhlaupið gerði í október er áætlað, að enn hafi verið í jörðu kartöflur á þessum slóðum að verðmæti 1,52 milljónir króna.
Tíminn segir af október í frétt 5.nóvember:
SJ-Reykjavík, mánudag Októbermánuður síðastliðinn var mun kaldari en í meðalári. Samkvæmt fréttum frá Veðurstofu Íslands var október 1,7 gráðum kaldari en í meðalári í Reykjavík, en þar var meðalhiti mánaðarins 3,2 gráður. Á Akureyri var meðalhitinn -0.2 en það er tæplega 4 gráðum kaldara en venja er. Þessi októbermánuður er sá kaldasti á Akureyri síðan 1926.
Nóvember var aftur á móti sérlega hlýr. Úrkoma var mikil austanlands, en minni á Vesturlandi. Tjón varð vegna vatnavaxta og skriðufalla, en einnig urðu hörmuleg slys á sjó. Tíminn segir frá 12.nóvember:
OÓ-Reykjavík, mánudag [11.]. Níu manna áhöfn á Þráni NK 70 er talin af. Síðast heyrðist til bátsins að morgni þriðjudaginn 5 nóvember s.l. Var hann þá á leið til Vestmannaeyja af síldarmiðunum fyrir austan. Mikið rok var og haugasjór á þeim slóðum sem báturinn var á síðast þegar heyrðist til hans. [Dagsetning slyssins er eitthvað á reiki í heimildum, en líklega hefur þetta verið þann 5. - eftir að síðast heyrðist í bátnum].
Tíminn segir af vegaskemmdum 13.nóvember, sömuleiðis segir af jarðskjálftum (með upptökum á einkennilegum stað (finnst ritstjóra hungurdiska):
KJ-Reykjavík þriðjudag. Í þíðunni að undanförnu hafa orðið töluvert miklar vegaskemmdir. Eru skemmdirnar aðallega á Austurlandi og á fáförnum vegum á Suðurlandi. Helstu vegaskemmdir á Austurlandi eru þær, að Norðfjarðarvegur er ófær á tveim stöðum, við Sómastaði, milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og í Norðfirði í Skuggahlíðarbrekkum. Suðurfjarðarvegur í Reyðarfirði er ófær, og Austurlandsvegur er ófær á Breiðdalsheiði við Skriðuvatn. Búast má við, að vegirnir skemmist enn frekar í nótt, ef veður helst eins og það er nú eystra. Á Suðurlandi hafa helstu vegaskemmdir orðið á Grafningsvegi milli Heiðarbæjar og Nesjavalla en sá kafli er ófær að kalla. Ísólfsskálavegur, á milli Grindavíkur og Krísuvíkur, svo og Krísuvíkurvegur, eru ófærir nema stórum og sterkum bílum eða jeppum.
KJ-Reykjavík, þriðjudag. Enn fundust snarpir jarðskjálftakippir á Suðurlandi í nótt, og voru upptök þeirra á sama stað og kippanna á laugardagskvöldið, eða um 20 til 30 kílómetra suður af Eyrarbakka, að því er Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur á Veðurstofunni tjáði Tímanum í dag. Fyrri jarðskjálftinn fannst um stundarfjórðungi fyrir kl. eitt í nótt og sá seinni um kl. hálf sex. Sá seinni var nokkuð mikill. Hann mldist 3,5 á Richtermælikvarða, en ekki er kunnugt um neinar verulegar skemmdir af völdum hans. Á stuttum tíma hafa því orðið alls fimm jarðskjálftar á Suðurlandi, sem allir eiga upptök sín á sama staðnum, 2030 km suður af Eyrarbakka.
Tíminn segir af flóðum og skriðuföllum á Austurlandi í pistli þann 14.nóvember:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag [13.]. Gífurleg flóð og skriðuföll hafa valdið miklum skemmdum á Austurlandi. Vegaskemmdir eru miklar og víða liggja vegir og brýr undir vatni og er engin leið að gera sér grein fyrir hve mikið tjónið raunverulega er því ekkert er hægt að aka nema einstaka leiðir og verður könnun og viðgerðir að bíða þar til flóðin sjatna. Víða hafa bændur þurft að bjarga búfé undan flóðunum og vitað er að sums staðar eru kindur og hestar í sjálfheldu. Skriðuföll hafa valdið miklu tjóni á vegum og á Neskaupstað hafa skriður fallið á hús.
Úrhellisrigning hefur verið á Austurlandi í tvo sólarhringa og um 10 stiga hiti. Símasambandslaust er við Neskaupstað, en í skeyti sem fréttaritari Tímans þar sendi, segir að miklar skemmdir séu af skriðuföllum í kaupstaðnum. Norðfjarðará er orðin að stórfljóti og hefur rofið varnargarða. 30 metra skarð er í veginn við brúna og er óttast að hana taki af. Áin flæðir yfir flugvöllinn. Nokkrar skriður hafa fallið á kaupstaðinn og húsið að Naustahvammi 56 er umflotið aurskriðu og er kjallarinn fullur af aur. Tún eru stórskemmd af aur og vatni. Lækjarfarvegir eru allir fullir og vel það. Hafa smálækir vaxið svo að þeir brjóta víða skörð í vegi og flæða yfir tún. Í gær hljóp fram skriða 100 metra breið og olli miklum skemmdum á íbúðarhúsi og fiskvinnslustöð í Naustaveri. Tryggvi Helgason flugmaður flaug yfir vatnasvæðið á Héraði um hádegisbil í dag. Sagðist hann aldrei hafa séð jafnmikið vatn í Leginum og stóð vegurinn eins og mjó rönd upp úr flaumnum og var brúin rétt ofan við yfirborðið. Farið var að flæða yfir norðurenda flugbrautarinnar. Síðari hluta dags jókst flóðið enn og fór. brúin nær alveg í kaf. Í gær lokaðist vegurinn milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar og í Norðfirði. Vegagerðin hefur ekkert getað gert og verður viðgerð á vegum og brúm að bíða þar til flóðin sjatna. Jón Kristjánsson á Egilstöðum sagði að síðari hluta dags hafi Lagarfljót farið að flæða yfir veginn við brúna, og séu flóðin jafnvel enn meiri eftir því sem ofar dregur.
Ár á Héraði hafa vaxið svo gífurlega að þær hafa flestar eða allar farið úr farvegi sínum og skorið vegi í sundur og skemmt brýr og ræsi. Ástandið er hvað verst í Skriðdal, Skógum og í Fljótsdal. Allar árnar í Skriðdal hafa valdið meiri og minni skemmdum. Vatnsdalsá, Haugá og fleiri ár hafa flætt yfir bakka sína og brotið skörð í vegi, skemmt tún á mörgum bæjum. Eyrarteigsá og Þórisá brotið aðfyllingar brúa og óttast er að þær hafi grafið undan stöplunum. Múlaá flæðir beggja vegna brúarinnar og eru skemmdir þar ekki enn kannaðar. Grímsá flæðir yfir stórt svæði undir Litla-Sandfelli og hefur tekið veginn af á stóru svæði. Grímsá hefur brotið niður stóra vegakafla ofan við virkjunina og brotið skarð í fyllingu við brúna. Ófært er kringum Hallormsstað. Skriðuklaustursnes í Fljótsdal er umflotið vatni og eru vegir í Fljótsdal undir vatni á margra kílómetra svæðum. Bændur hafa unnið að því að bjarga fé sem flætt var á nesjum og í kvöld var ekki búið að ná því öllu. Hestar eru í sjálfheldu á Vallanesi. Suðurfirðir eru vegasambandslausir og eru vegir þar mjög víða sundur grafnir og brýr hefur tekið af. Eru sumir dalir eins og hafsjór yfir að líta en ekki er hægt að ferðast um og kanna hve miklar skemmdirnar raunverulega eru. Í Breiðadal féll skriða yfir tún á bænum Hóli og allt umhverfis íbúðarhúsið og þorði heimafólk ekki annað en yfirgefa bæinn í nótt af ótta við að fleiri skriður féllu. Í Breiðdal hafa skriður víða spillt túnum. Flóðin stafa af óhemjumiklum rigningum sem gengið hafa yfir Austurland undanfarna tvo sólarhringa. Jafnframt hafa hlýindi valdið því að snjó leysir og muna elstu menn ekki eftir öðrum eins vatnavöxtum á þessum slóðum áður
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Seyðfirðingar hafa ekki farið varhluta af flóðunum fyrir austan fremur en aðrir íbúar þar um síóðir. Fjarðará er eins og fjörður yfir að líta, sagði Ingimundur Hjálmarsson í dag. Vatn flæðir niður allar hlíðar og streyma lækir, sem að öllu jöfnu eru vatnslitlir, eins og fljót milli húsanna. En mitt í ölum þessum vatnselg eru Seyðfirðingar vatnslausir, það er að segja neysluvatnslausir, og geta ekki soðið mat, hellt upp á kaffikönnuna eða þvegið sér. Nýja vatnsveitan á Seyðisfirði tekur vatn úr Fjarðará, sem nú er í ofboðslegum vexti og svo mórauð að vatnið er verra en versta skólp, og er óhæft til matar og drykkjar. Fjarðarheiði er enn fær bílum, en mikill vatnsagi er þó á heiðinni.
Daginn eftir voru flóðin í rénum en Tíminn ræðir skemmdir 15.nóvember:
OÓ-Reykjavík, fimmtudag. Flóðin á Austurlandi eru nú heldur í rénum, en flestir vegir eru enn ófærir og er unnið að bráðabirgðaviðgerð, þar sem bægt er að koma tækjum við. Viðgerðarflokkar Vegagerðarinnar hafa víða unnið að því að koma á vegasambandi milli byggðarlaga en vatn flæðir yfir fjölda vega og ræsi eru eyðilögð. Tjónið af flóðunum nemur tugmilljónum króna en ekki er hægt enn sem komið er að kanna það til fulls. Ekki er unnt að gera við vegina í vetur áhersla verður lögð á að koma á vegasambandi til bráðabirgða, en fullnaðarviðgerð verður víðast hvar að bíða vorsins. Í dag tókst að gera fært milli Egilsstaða og Eskifjarðar. Flóðið í Lagarfljóti rénaði svolítið í dag og er fært stórum bílum yfir brúna. Lokað er frá Eskifirði á Norðfjörð, frá Reyðarfirði er lokað allt suður að Lónsheiði. Stærri brýr fyrir austan hafa ekki orðið fyrir miklum skemmdum, hinsvegar hefur viða flætt yfir vegfyllingar að brúm og grafið frá brúm. Verður ekki hægt að gera við þessar skemmdir fyrr en vatnið sjatnar enn meir. Ræsi eru mjög víða eyðilögð og sums staðar hefur þeim sópað burt. Jón Kristjánsson á Egilsstöðum sagði í dag, að heldur hafi sjatnað í Lagarfljóti síðari hluta dags. Í morgun var með öllu ófært yfir brúna og flæddi yfir veginn á nær 400 metra kafla, og var þar hnédjúpt vatn. Logn var í dag og lítill straumur i vatninu og þegar vegurinn kom upp úr aftur virtist hann lítið sem ekki skemmdur. Í gær flæddi nokkra hesta á Vallnesi og stóðu þar í vatni. Eru þeir nú taldir úr hættu. Nokkrir hestar komust á þurrt í morgun. Helmingur Egilsstaðakauptúns var undir vatni í morgun og flæddi þá yfir báða enda flugbrautarinnar. Skemmdir virðast ekki hafa orðið miklar nema á vegum.
Sverrir Aðalsteinsson, Sólvangi í Borgarfirði eystri, sagði að þar í héraðinu hafi verið mikill vatnselgur en skemmdir ekki miklar miðað við það sem orðið hefur sunnar á fjörðunum. Helgaá er samt enn ófær og gróf þar undan nýrri brú, en unnið er að viðgerð á vegin-um í dag. Marinó Sigurbjörnsson á Reyðarfirði sagði, að gífurlegar vegaskemmdir hafi orðið þar í nágrenni. Í kauptúninu tók af trébrú, sem var í sambandi við síldarsöltunarstöð. Sambandslaust hefur verið við Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð og Egilsstaði og hefur það ekki skeð í 20 ár. Skriður hlupu úr Grænafelli og á mörgum stöðum yfir veginn og lokuðu honum alveg. Sléttuá flæddi yfir veginn og gróf stór skörð i hann. Á Hrúteyri er vegurinn skorinn sundur. Hægt er að komast núna á stórum bílum til Egilsstaða en lokað er suður á firði. Kauptúnin í Reyðarfirði og Eskifirði eru nú mjólkurlaus. Ekki hefur verið hægt að koma mjólk í mjólkurstöðina á Egilsstöðum í tvo sólarhringa og eru birgðir þrotnar í fyrrgreindum kauptúnum. Valgeir Vilhjálmsson á Djúpavogi sagði flóðin hafa valdið mestum skemmdum þar um slóðir í gær 30 metra langt skarð er í veginn , þar sem Fossá flæddi yfir og er það sums staðar 5 metra djúpt. Áin flæddi yfir tún á Eyjólfsstöðum og Hvannabrekku. Hamarsárbrú braut nýjan varnargarð á fimm stöðum. Í Hamarsseli flæddi í fjárhús og hlöðu, en skemmdir urðu óverulegar. Hofsá braut 150 metra langan varnargarð, sem bóndinn á Hofi byggði. Flæddi áin þarna yfir mikið af ræktuðu landi.
Tíminn segir 16.nóvember frá enn meiri skriðuföllum í Norðfirði:
OO-Reykjavík, föstudag [15.]. 400 metra breið aur- og grjótskriða féll í fyrrakvöld [13.] yfir túnið á bænum Seldal í Norðfirði. Bærinn stendur undir háu fjalli og losnaði skriðan ofarlega í fjallinu og steyptist niður og rann um 500 metra frá fjallsrótum og stöðvaðist fyrst við Norðfjarðará, og rann þar niður í gljúfrin og fleytti áin, sem var í gífurlegum vexti, skriðunni áfram niður gljúfrin. Gísli Friðriksson, bóndi í Seldal, sagði í viðtali við Tímann í dag, að þessi mikla skriða hafi fallið um það leyti sem heimilisfólk var að taka á sig náðir. Á bænum búa bræðurnir Gísli og Guðlaugur. Heimamenn heyrðu óskaplegan hávaða og bæjarhúsin skulfu, þegar skriðan hljóp fram. Klæddu sig allir í snatri, því hætta var á, að fleiri skriður féllu. Fólkið gat ekki gert sér grein fyrir, hve stór skriðan var, eða hvar hún hafði í rauninni fallið, því niðamyrkur var á og rigningin var svo óskapleg, að var sem vatnið flæddi úr loftinu. Varð heimafólki í Seldal ekki svefnsamt um nóttina og heyrði það öðru hvoru að skriður féllu úr fjallinu, en miklu minni en hin fyrsta. Þegar birti um morguninn, sagði Gísli, sáum við að skriðan mikla hafði fallið rétt hjá bænum og yfir mikinn hluta af túninu. Bæjarhús og útihús urðu ekki fyrir skemmdum, enda lenti skriðan hvergi á þeim. Skriðan bar með sér mikið af grjóti og er nú mikið af stórgrýti á túninu, en aurinn í skriðunni var eins og þunn súpa, enda var vatnsfarganið óskaplegt. Skriða braut niður girðingar og fyllti alla skurði, sem hún hljóp yfir. Seldalur stendur undir háu fjalli og er hlíðin ofan við bæinn skógi vaxin og var þar mikill gróður. Stærsta skriðan, sem var 400 metra breið, tók af skóginn, þar sem hún fór yfir, og er þar nú alveg gróðurlaust. Auk þess hlupu fram margar smáskriður, sem skemmdu skóg og fylltu skurði. Aðalhlaupið kom hátt ofan úr fjalli og niður allar hlíðar og hljóp síðan fram um hálfs kílómetra langan kafla, sem er nokkuð aflíðandi og stöðvaðist ekki fyrr en í klettafarvegi árinnar, sem fleytti aurnum niður gljúfrin. Sá hluti túnsins, sem skriðan hljóp yfir, er líklega ónýtur. Er þar nú stórgrýtisurð yfir að líta og mikill aur liggur yfir jarðveginum, sem að öllum líkindum er allur upprifinn eftir grjótflóðið.
Vísir segir af óvenjulegum hlýindum 16.nóvember:
Óvenjumikil hlýindi hafa verið um allt landið að undanförnu og hafa stórrigningar fylgt með. Hefur furðulítill munur verið á veðurfarinu um landið þennan tíma. Blaðið fékk þær upplýsingar hjá Knúti Knudsen veðurfræðingi, að enn sjáist ekki fyrir endann á sunnanáttinni og hlýindunum. Þá megi reikna með úrkomu hvern dag meiri eða minni.
Tíminn segir af hlýindum - blóm springa út í görðum 20.nóvember:
KJ-Reykjavík, þriðjudag Núna þegar farið er að síga á seinni hluta nóvembermánaðar eru svo mikil hlýindi, að blóm springa út í húsagörðum. Í dag hringdi kona á Suðurlandsbrautinni tii okkar hér á Tímanum, og sagðist varla hafa trúað sínum eigin augum í morgun, er hún sá að stjúpmæður voru farnar að springa út í garðinum hennar. ... Ef hlýindin halda áfram þá má búast við, að blóm fari víðar að springa út í görðum, því ekki bar á öðru í garðinum á Suðurlandsbrautinni en fleiri blóm myndu springa þar út á næstunni. Í dag var átta stiga hiti hér í Reykjavík, en hitastigið á Norður- og Austurlandi var þetta 79 stig, og þar var víðast þurrt, en aftur á móti rigning með köflum hér. Á morgun er búist við svipuðu hitastigi á landinu, heldur meira þó en í dag, eða 810 stigum. Hitinn komst upp í fjórtán stig á landinu fyrir nokkru.
Tíminn segir 29.nóvember af breytingum á hveravirkni við boranir í Námaskarði:
KJ-Reykjavík, fimmtudag. Þegar starfsmenn við jarðboranir komu til vinnu sinnar í Námaskarði í Mývatnssveit í gærmorgun, sáu þeir hvar stór og mikill leirhver hafði myndast 40 til 50 metra frá borstaðnum. Hefur hverinn gosið síðan og eins og einn bormannanna sagði við Tímann í kvöld, þá koma vænar slettur upp úr hvernum, en bormennirnir eru þó ekki í neinni hættu vegna hversins. Tilkoma hversins er talin standa í beinu sambandi við borunina þarna, en holan sem þarna hefur verið boruð, er mjög kraftmikil.
Desember var almennt hagstæður og illviðralítill. Hlýtt var framan af, en síðan kólnaði. Eftirminnilegur er mikill jarðskjálfti sem varð 5.desember. Tíminn segir frá þann 6.:
FB-Reykjavík, föstudag. Klukkan 9:44 í morgun kom snarpur jarðskjálftakippur, sem fannst greinilega á svæðinu frá Búðardal allt austur að Kirkjubæjarklaustri. Kippurinn var óvenju langur og sömuleiðis harður, eða sá harðasti, sem mælst hefur í Reykjavík frá 1929 Rafmagn fór af í Hafnarfirði, bækur féllu úr hillum og hlutir færðust úr stað. Austur í sveitum hélt fólk, sem var við vinnu úti við, að það væri að fá aðsvif, og strætisvagnstjóri í Reykjavik, sem sat við blaðalestur í vagni sínum á torginu stökk upp og út úr vagninum, þar sem hann hélt að svona harkalega hefði verið ekið aftan á vagninn, er hann fór að hristast og skjálfa. Eftir fyrsta og snarpasta kippinn komu svo hvorki meira né minna en um 100 kippir, en þeir voru flestir mjög vægir. Þó munu allmargir hafa orðið varir við nokkuð snarpan kipp um hádegisbilið. Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur sagði, að upptökin virtust liggja í 35 km fjarlægð suðvestur frá Reykjavík, skammt vestur af Kleifarvatni. Hann sagðist þó eiga eftir að fá gögn utan af landi til þess að geta gengið nákvæmlega frá staðarákvörðun. Mjög erfitt væri að ganga frá staðarákvörðuninni fyrr, því kippurinn hefði verið það snarpur, að hinir viðkvæmu mælar hefðu allt að því farið úr lagi, vegna þess hve upptökin voru nálægt þeim. Ragnar segist reikna með, að styrkleikinn hefði verið einhvers staðar á milli 5 og 6 stig á Richtermæli. Jarðskjálftakippir héldu áfram að mælast í altan dag, og þegar við töluðum við Ragnar um klukkan fjögur, sagði hann að kippirnir væru orðnir um eitt hundrað talsins.
Við hringdum síðan í nokkra sem orðið höfðu varir við jarðskjálftakippinn. ... Albert Jóhannsson að Skógum undir Eyjafjöllum, sagði að þar hefði kippurinn fundist mjög vel Við reiknuðum með, að hann hefði varað í 10 sek, og menn sem sátu, fundu greinlega þessar miklu hreyfingar. Okkur datt fyrst í hug Katla, en kannski hefði þetta verið meira, ef um hana hefði verið að ræða. Haraldur Jónsson í Miðey í Austur-Landeyjum, sagði að kippurinn hefði verið ansi snarpur þar, og óvenju langur. Litlir krakkar, sem hjá honum voru, ráku upp hrinu og urðu hrædd, og fólk, sem var við útivinnu vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og hélt sig vera að fá aðsvif, og reynd að styðja sig við það sem næst því var. Garðar Björnsson á Hellu sagðist telja, að kippurinn hefði varað í 2 til 3 sekúndur. Sagði hann að kippurinn hefði minnkað um tíma, en aukist svo aftur. Ekki sagði hann að sér hefði fundist hann jafnsnarpur og kippur sá, sem fannst á Hellu fyrr í vetur. Hlutir færðust til í hillum á Hellu, en engar skemmdir urðu þar frekar en annars staðar, þar sem blaðið hefur frétt af. Í Grindavík ræddum við við Sigrúnu Guðmundsdóttur, sem var stödd í skólahúsinu, er kippurinn kom. Sagði hún hann vera snarpari en kippi, sem komu, þegar gaus á Reykjanesi fyrir ári [svo]. Pálmi Eyjólfsson á Hvolsvelli sagði, að kippurinn hefði byrjað hægt og sígandi, og einna harðastur hafi hann verið undir lokin, i að því er fólki þar um kring fannst. Alls staðar kom fólki saman um að ekki hefði verið um neinar skemmdir að ræða í þessum snarpa jarðskjálftakipp, og fáir höfðu orðið varir við þá 100 kippi sem á eftir fylgdu, enda munu þeir hafa verið miklum mun vægari en sá fyrsti. Þetta mun vera snarpasti jarðskjálftakippur, sem mælst hefur í Reykjavík frá því 1929. Telja jarðfræðingar. að sennilega hafi þetta verið svokallaður brotaskjálfti, en þá koma brot í jarðskorpuna, og í einum slíkum jarðskjálfta mun Almannagjá hafa orðið til. Fréttir hafa borist af því að grjót hafi hrunið úr fjöllum á Reykjanesi, og m.a. lokaðist Krísuvíkurvegurinn í dag vegna grjóthrunsins.
Nokkuð snarpa norðanátt gerði undan Norðausturlandi þ.20., en ekki hvessti svo mjög á landi. Stormur varð þó á Seyðisfirði, en brim gerði á Vopnafirði. Morgunblaðið segir frá þann 22.:
Vopnafirði, 21. desember. Í fyrrinótt [20.] gerði hér allmikið brim og olli það nokkru tjóni. Út af söltunarstöðinni Hafblik tók 500 tunnur tómar, og þær mun hafa rekið yfir fjörðinn að mestu en þar er lítið fjöruborð aðeins klettar og reikna má með að mest af tunnunum hafi brotnað og eyðilagst. Hafnargarðurinn nýi mun þó ekki hafa skemmst.
Tíminn hugaði að jólaveðrinu 24.desember, en segir einnig frá miklu ísskriði í Þjórsá:
Reykjavík, mánudag. Veðurfræðingar spá suðvestanátt og éljagangi í dag, og gera má ráð fyrir að snjói eitthvað hér syðra í dag og kvöld og því verði jafnvel hvít jól að þessu sinni. Hvít jól verða um allt norðanvert landið, en hvít jörð mun vera allt frá norðanverðu Snæfellsnesi og austur á Austfirði. Spáin fyrir aðfaranótt aðfangadags er sú, að aftur stytti upp og snúist í norðan átt og bjartviðri. Verður því líklega stjörnubjartur himinn og hvít jörð á jólanóttina hér syðra a.m.k.
KJ-Reykjavík, mánudag. Á laugardaginn kom mikið ísskrið í Þjórsá, og munu á um hálftíma hafa farið um 100150 þúsund tonn af ís fram hjá inntaksmannvirkjunum víð Búrfellsvirkjun, en þá mældist rennslið í ánni um 400 teningsmetrar á sekúndu, og er talið, að af því hafi um 1/4 verið ís. Sigurjón Rist vatnamælingamaður sagði Tímanum í dag, að þetta væri alls ekki óvenjulegt að svona mikið ísskrið kæmi í Þjórsá eða aðrar sambærilegar ár. Árnar hafa verið auðar upp undir jökla, allt fram undir þetta, en þegar norðaustan garrann gerði, kom svo mikið ísskrið í Þjórsá. Áin komst í lágmark 18. desember og mældist þá 15 teningsmetrar við Urriðafoss, eða eins og smálækur, en 96 teningsmetrar upp við Búrfell. Hlóðust upp ísstíflur í ánni, sem síðan sprungu. Er það kallað þverhlaup [svo], þegar þær springa, og gerist það þannig. að fyrst springur ein ísstífla, og fossar þá vatn og ís á þá næstu og sprengir hana, og þannig koll af kolli. Verður af þessu mikið hlaup, sem koma þetta 23 á ári, en það fer þó mjög eftir tíðarfari. Ef veður er mjög umhleypingasamt, geta þessi hlaup komið oftar. Það sem var sérstakt við þetta hlaup, sem kom núna, sagði Sigurjón, var, að nú tókst að slá máli á það, og er það vegna betri aðstæðna við mælingar. Komst rennslið i ánni upp í 400 teningsmetra og af því mun ís hafa verið um 1/4, eða 100150 tonn af ís. Venjulegt ísskrið í ánni mun vera í kringum tvö tonn og sést af þessum samanburði, hve gífurlegt þetta ísskrið í ánni hefur veið. Þótt þetta hafi verið í ljósaskiptunum á laugardaginn, tókst að ná ísskriðinu þegar það var mest, á kvikmynd, sem lýsir fyrirbærinu vel. Í þessu sambandi verður mönnum hugað til þess, að um þetta leyti næsta ár verður samkvæmt áætlun hafin orkuframleiðsla í Búrfellsvirkjun, og hvaða áhrif þetta ísskrið mun hafa á virkjunina.
Tíminn segir af ískönnunarflugi 29.desember:
FB-Reykjavík, laugardag. Flugvél landhelgisgæslunnar TF Sif fór í ísathugunarflug á föstudaginn, en hafði áður farið í ísflug á mánudaginn. Hefur ísinn færst nokkuð nær landi þessa daga. Í fluginu í gær kom í ljós, að ísbrúnin, 49/10, er nú í um 56 sjómílna fjarlægð vestur af Kópanesi og liggur þaðan í 40 sjómílna fjarlægð norðvestur af Barða.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1968. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu. Ábendingar um villur eru vel þegnar.
16.3.2024 | 14:04
Hálfur mars
12.3.2024 | 23:49
Febrúarkorn
Febrúar var sem kunnugt er í kaldara lagi á landinu - alla vega miðað við það sem tíðast hefur verið á síðari árum. Ísland var reyndar eitt fárra landa í heiminum þar sem hiti var undir meðallagi (gott ef svipað var ekki í Mongólíu - en ekki mikið víðar).
Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins við norðanvert Atlantshaf í febrúar (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og bláu svæðin segja okkur hvar þykktin (og þar með hitinn) var neðan meðallags (1981-2010) í mánuðinum. Þetta er smábleðill í kringum Ísland - annars er hiti víðast ofan meðallags, meir en 80 metra þar sem mest er (u.þ.b. +4 stig).
Ástæða kuldans er sú að norðanáttir voru heldur tíðari í mánuðinum heldur en vant er og loft af norrænum uppruna ívið tíðara við landið en venjulega í febrúar.
Á þessum síðustu (og verstu) tímum er allt í einu farið að tala illa um hita og hlýindi og það svo að maður getur rétt eins búist við að heyra þá athugasemd almannaróms að máttarvöld hafi í þessum mánuði haldið sérstakri verndarhendi sinni yfir landinu og nágrenni þess - og forðað því frá illu.
Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
11.3.2024 | 11:34
Fyrstu tíu dagar marsmánaðar
8.3.2024 | 00:27
Hófleg hlýindi
Eftir heldur kalda tíð hefur skipt um. Hlýtt er á landinu þessa dagana. Hlýindin eru þó ekkert úr hófi og þótt blásið hafi á stöku stað er samt alls ekki hægt að tala um illviðri. Kannski sumum fyrir austan þyki fullblautt í dag.
Við sjáum hina almennu stöðu á norðurhveli á kortinu síðdegis á laugardag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstefnu og styrk. Lægðin sem veldur úrkomu og vindi í dag (fimmtudag) hefur þá hörfað frá landinu og vindur er orðinn hægur í miðju veðrahvolfi og heldur norðaustlægari en er í dag. Litirnir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hærri er hitinn.
Hlý hæð er fyrir norðaustan land, en hóflega hlý, nægilega til að flækjast fyrir aðsókn Stóra-Bola og annarra kuldavalda - einmitt eins og líklegt er að flestir vilji - nema þessir útlendu kuldafylgjendur sem stöðugt naga á netheimum. Það er helst að lítilsháttar kuldasveipir komi yfir okkur úr austri - sem er mun mildari kostur heldur en kuldaaðsókn úr vestri eða norðri. Meginröstin er langt suður í hafi - eins og lengst af í vetur. Kuldapollurinn Stóri-Boli er nokkuð áberandi - en er á sínum stað. Það er eins og oftast í vetur að norðurhvelið hefur vart haft efni á því að halda úti tveimur öflugum kuldapollum í einu - svo mikil hafa vetrarhlýindi á norðurhveli verið.
Við skulum samt hafa bakvið eyrað að kuldapollar eru kuldapollar - og þótt hlýtt sé í heiminum eru alltaf möguleikar á annarskonar lausnum í kuldaútgerð, t.d. þarf í sjálfu sér ekki að þrengja heimskautarastarhringinn mikið til að alveg verði nægur kuldi á lager til tvöfaldrar útgerðar. Þetta er nú allt saman glannalega orðað hjá ritstjóranum - og ekki til sérstakrar eftirbreytni. Reynslan sýnir þó að veðurkerfin geta tekið upp á margskonar kúnstum - ekki öllum alveg eftir bókinni (fyrr en eftirá - þegar hún hefur verið endurskrifuð).
2.3.2024 | 01:53
Giskað á ársmeðalhita
Oft hefur verið fjallað um svonefndar endurgreiningar hér á hungurdiskum. Veðurfar fortíðar er endurgert í veðurlíkönum með hjálp athugana. Smám saman fer þessum endurgreiningum fram. Sú sem um þessar mundir er almennt talin best nær aftur til ársins 1940 og er gerð með líkönum evrópureiknimiðstöðvarinnar [nefnist era5]. Þrátt fyrir gæðin verður samt að gæta þess að trúa greiningunni ekki í öllum smáatriðum. Það er þó trú ritstjóra hungurdiska að góð tök hafi náðst á mánaðar- og ársmeðaltölum háloftanna, bæði hæð þrýstiflata, vindi í þeim og hita. Það gefur tilefni til skemmtanahalds - þótt sú skemmtun sé tæplega við allra hæfi.
Ritstjórinn hefur lengi litið til háloftanna. Upp úr 1980 gerði hann meira að segja tilraun til eigin endurgreiningar, giskaði á hæð 500 hPa-flatarins yfir Íslandi langt aftur á 19.öld með aðstoð hita og þrýstimælinga. Miðað við hvað aðferðin var einföld er mesta furða hvað henni ber vel saman við síðari greiningar (sem að vísu segja miklu miklu meira - og eru þannig séð ekki sambærilegar).
Það sem gerði þessa gömlu ágiskun ritstjórans mögulega er sú staðreynd að hér á landi er ákaflega gott samband á milli hita og þykktar (fjarlægðarinnar) milli 1000 hPa og 500 hPa-flatanna. Að sambandið skuli vera svona gott er fyrst og fremst því að þakka að mestan hluta ársins er sjór hlýrri en loft hér við land - og þann tíma sem því er öfugt farið (fáeinar vikur að sumarlagi) er landið hlýrra heldur en loftið ofan við. Ritstjórinn las fyrst um samband þykktar og hita í riti eftir Hubert Lamb, en hann var heimsþekktur veðurfarssögupælari á sinni tíð. Lamb taldi auðveldara að giska á háloftastöðuna að sumarlagi heldur en á vetrum. Þetta er að vísu rétt í þeim reynsluheimi sem hann bjó í. Yfir meginlandi Evrópu og annars staðar fjarri sjó er samband hita og þykktar mun rýrara heldur en hér á landi að vetrarlagi. Kalt loft getur legið vikum saman yfir meginlandinu algjörlega sambandslaust við hlýtt loft rétt ofan við - sem þykktin greinir frá. Á sumrin er meginlandið hins vegar hlýrra en loftið - veðrahvolfið verður vel blandað - gott samband er á milli þykktar og hita.
Hér á landi er skýr árstíðasveifla í þessu sambandi, það er langverst í ágúst og sömuleiðis í júlí, skárra í júní, en annars allgott eða mjög gott í öllum öðrum mánuðum. Sömuleiðis er samband hita og þykktar á ársgrundvelli líka gott.
Samband hita og þykktar ræðst þannig mjög af stöðugleika loftsins, sé loft mjög óstöðugt er sambandið gott, en sé það stöðugt er það verra - og allraverst séu öflug, grunnstæð hitahvörf í neðstu lögum. Slík spillandi hitahvörf ráða ríkjum hér á landi þegar vindur er hægur, þá yfir landi að vetrarlagi (og að næturlagi allt árið) og yfir sjó að sumri.
Nú eru meir en 40 ár síðan ritstjóri hungurdiska fór að fylgjast með. Þá voru (eftir nokkurt hlé) að byrja miklar vangaveltur um hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa. Eitt af því sem ritstjórinn var til þess að gera sannfærður um var að sjór myndi hlýna hægar heldur en loftið, þar af leiðandi myndu aukin hlýindi tefjast hér á landi - og loft færi jafnvel að verða hlýrra en sjórinn lengri tíma á árinu og samband þykktar og hita riðlast eitthvað - þar sem stöðugleikinn yrði meiri.
Hafísárin svonefndu sýna vel að samband þykktar og hita getur breyst. Almennt kólnaði loft þá meira heldur en sjórinn (norðanáttin varð kaldari vegna meiri ísútbreiðslu í norðurhöfum - og ísröndin var nær Íslandi heldur en venjulega). En það gerðist líka að hafísbráðin lækkaði mjög sjávarhita við norður- og austurströndina að vor- og sumarlagi. Á þeim slóðum urðu hitahvörf öflugri á þeim árstíma heldur en að jafnaði. Samband þykktar og hita raskaðist lengri tíma á árinu heldur en venjulegt er - og kuldinn í neðstu lögum varð ágengari.
Þegar hlýnun loks tók vel við sér hér á landi í kringum aldamótin og upp úr þeim gerðist hins vegar hið öfuga við væntingar ritstjórans. Loft í neðstu lögum hlýnaði meira heldur en það ofan við - og þykktin fór kerfisbundið að vanmeta hita - en ekki að ofmeta hann eins og ritstjórinn hélt að myndi verða. Nú vitum við auðvitað ekki hvernig framheldið verður, náttúran fer ekki alltaf eftir okkar væntingum. Vel má vera að hin gamla skoðun ritstjórans verði rétt þegar fram í sækir. Alla vega er full ástæða til að gleyma þessum þætti veðurfarsbreytinga ekki, breytingarnar eru mun fjölþættari heldur en segir í auglýsingum.
En við lítum nú á samband þykktar og hita síðustu áttatíu árin rúm í Reykjavík, á Dalatanga og á landinu í heild. Miðað er við þykkt yfir miðju landi (sem skapar ákveðna hliðrun í tölum - en hún þarf ekki að trufla okkur hér). Gögnin eru fengin (með góðra manna hjálp) úr safni era5-endurgreiningarinnar áðurnefndu. Ritstjórinn hefur (til að róa sig) borið hana saman við bandarísku endurgreininguna c20v2 og háloftaathuganir á Keflavíkurflugvelli (svo langt sem þær ná). Samræmi er almennt gott, en era5-greiningin hefur þann kost að vera samfelld allan tímann og sé hún að einhverju leyti röng - samsvarar hún sér alla vega.
Þá er það Reykjavíkurmyndin. Hún verður skýrari sé hún stækkuð (og mjög skýrt eintak liggur líka í pdf-viðhengi). Lárétti ásinn sýnir þykktina í dekametrum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Lóðrétti ásinn sýnir meðalhita í Reykjavík 1940 til 2023. Áröl má lesa við hvert ár (kross). Hafísárin sjö 1965 til 1971 eru merkt með bláum ártölum, en ár eftir aldamót með rauðum. Við sjáum strax að þykktin giskar yfirleitt mjög vel á hitann. Langkaldast er árið 1979, þá var þykktin líka minnst. Mest þykkt var árið 1941, en þá var hiti nokkuð lægri heldur en þykktin giskar á, munar um 0,4 stigum á ársmeðalhitanum. Það fyrsta sem manni dettur þar í hug er að hitinn í Reykjavík sé vanmetinn - og raunverulega er sú tala sem notuð er hér lægri heldur en sú sem birtist í Veðráttunni á sínum tíma. Væri hitinn hins vegar rangur mætti búast við því að árin næstu fyrir og eftir myndu líka skera sig úr á línuritinu (mæliaðstæður voru þær sömu) - sem þau gera ekki. Svo kemur í ljós þegar horft er á fleiri stöðvar - að árið 1941 er þar líka kaldara heldur en þykktin giskar á.
Stöðugleiki hefur af einhverjum ástæðum verið heldur meiri þetta ár en önnur hlýindaár. Önnur ár sem liggja nokkuð langt undir aðfallslínunni eru t.d. 1983, 1995, 1984 og 1955. Hrollár. Á hinn veginn eru það 2011 og 2008 sem eru mest áberandi ofan línunnar, hlýrri heldur en vænta mætti af þykktinni. Það er einnig mjög áberandi að rauðu árin, árin á þessari öld eru fleiri ofan línunnar heldur en neðan. Hafísárin eru hér frekar á sínum stað. Hver hlutur hnattrænnar hlýnunar er í þessu öllu er ekki alveg gott að segja. En það virðist samt líklegt að verði hún jafngæf á þykkt og árið 1941 yrði 6,5 stiga ársmeðalhiti býsna líklegur - nema að það séu í raun einhver ósýnileg efri mörk á hita (sem varla er).
Það er mjög fróðlegt að líta líka á línurit frá Dalatanga. Þar eru sjávaráhrif mun meiri heldur en í Reykjavík. Dalatangi hefur (ásamt fleiri stöðvum á útnesjum eystra) minni árstíðasveiflu heldur en aðrar stöðvar á landinu. Minni munur er þar á sumar- og vetrarhita, úthafsloftslag er mest (sé sú skilgreining notuð). Kaldur Austur-íslandsstraumurinn liggur við land með austfjarðaþokunni frægu.
Við sjáum strax að punktarnir dreifast mun meira en á Reykjavíkurritinu, en fylgnistuðullinn er samt hár, 0,73. Árið 1941 sker sig enn meira úr heldur en í Reykjavík, munar nærri 0,9 stigum á þykktarhitanum og þeim mælda. Hér má líka sjá að hafísárin skera sig mjög úr (sem ekki var í Reykjavík), alveg sérstaklega tvö þeirra, 1965 og 1968, bæði um 1,5 stigi kaldari heldur en þykktin vildi gefa og 1967, 1969 og 1970 eru líka vel neðan aðfallslínunnar. Á þessari öld eru ár hins vegar frekar ofan línunnar, þau eru hlýrri heldur en vænta mætti - en höfum í huga að í raun hafa hafísárin spillt öllu sambandinu - það ætti kannski að endurreikna línuna án þeirra. Við tökum sérstaklega eftir árunum 2011, 2015 og 2014 - þau eru öll þó nokkuð hlýrri heldur en þykktin ein segir til um. Annað hvort hefur sjávarhiti hækkað umtalsvert undan Austfjörðum - eða hitahvörf gefið sig - hvað sem svo ætti að valda því.
Að lokum lítum við á mynd sem sýnir meðalhita í byggðum landsins.
Hér er fylginstuðullinn aftur orðinn 0.85 (svipað og í Reykjavík) - en sá er munurinn þó að við sjáum að hafísárin (blá) eru öll vel neðan línunnar (nema 1966 - sem var ekki hafísár). Kæling íssins virðist vera á bilinu 0,4 til 0,7 stig. Kaldasta ár það sem af er 21. öldinni, 2015, er talsvert ofan línunnar, heilu stigi hlýrra heldur en það hefði verið - hefði það verið hafísár?. Árið 1941 er enn sér á báti. Kannski endurgreiningin sjálf sé eitthvað úti að aka á árinu 1941?
Fljótlega mun ritstjórinn einnig rekja aðra aðferð til að giska á hita út frá gögnum endurgreiningarinnar (sú er reyndar talsvert verri - en segir samt frá).
Mun skýrara eintak af myndunum er í viðhenginu (pdf).
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.12.): 129
- Sl. sólarhring: 181
- Sl. viku: 3186
- Frá upphafi: 2424681
Annað
- Innlit í dag: 108
- Innlit sl. viku: 2870
- Gestir í dag: 102
- IP-tölur í dag: 102
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010