29.3.2024 | 21:27
Snjóflóðið á Tungudal 1994 (veðrið)
Við rifjum nú lauslega upp veðuraðstæður tengdar snjóflóðinu mikla sem grandaði sumarhúsabyggð í Tungudal við Ísafjörð og olli sömuleiðis gríðarlegu tjóni á skíðasvæðinu á Seljalandsdal.
Svo vildi til að ritstjóri hungurdiska var um þessar mundir að taka við stjórn á Úrvinnslu-og Rannsóknasviði Veðurstofunnar og fékk þetta flóð því í fangið (í óeiginlegri merkingu). Árið eftir féllu síðan enn skaðvænlegri flóð sem urðu til þess að snjóflóðamál voru tekin til gagngerðrar endurskoðunar og fjármagn í varnir gegn þeim stóraukið. Grundvelli hættumats var í kjölfarið gjörbreytt. Allan þann tíma sem ritstjórinn var síðan í þessu sama starfi liðu aldrei margir dagar í senn án þess að snjóflóðamál bæri á góma. Þetta voru tæp tíu ár.
En það er þó þannig að allt frá snjóflóðunum miklu í Neskaupstað 1974 hafði hreyfing verið á snjóflóðavörnum. Frá 1979 hafði starfsmaður á Veðurstofunni sinnt þessum málum þar og frá 1989 voru starfsmennirnir þar tveir. En við mjög ramman reip var að draga, skilningur á hættunni var lítill meðal ráðamanna flestra, bæði á landsvísu og í heimabyggð. Mörgum þótti rétt að fela vandann og þrátt fyrir augljósa hættu var leyft að byggja ný hús á hættusvæðum, jafnvel barnaheimili. En eins og kemur fram í fréttaútdrætti hér að neðan áttu rýmingar sér þó stað - gert hafði verið ráð fyrir þeim. Og í apríl 1994 var rýmt á fáeinum stöðum, en aðeins eftir að stóra flóðið féll.
Flóðið mikla 1994 kom algjörlega á óvart, og stærð þess var sannarlega óvenjuleg. Samkvæmt mælingum var rúmmál þess um 650 þúsund rúmmetrar, það mesta sem mælt hefur verið hér á landi allt til dagsins í dag. Þetta er stór tala. Á Veðurstofunni var talað um að þetta samsvaraði nokkurn veginn því að allur bílafloti landsmanna hafi komið ofan hlíðina á 150 til 180 km hraða á klukkustund. Sú samlíking (þó ónákvæm sé og ekki alveg réttmæt) ætti að koma flestum í skilning um það hversu hættuleg snjóflóð eru.
Um flóðið má lesa í ýmsum heimildum. Blöðin greindu ágætlega frá því, þess er að sjálfsögðu getið í skýrslum Veðurstofunnar og nú þessa dagana er um það fjallað í tveimur ágætum útvarpsþáttum.
Hér verður ekki farið nánar út í þá sálma, en við notum tækifærið og rifjum upp veðuraðstæður með hjálp nokkurra korta era-interim endurgreiningarinnar. Í Morgunblaðinu 6.apríl lýsir Haraldur Eiríksson veðurfræðingur aðdraganda veðursins í fáum orðum. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að gera það betur:
Tvær óvenju djúpar lægðir fóru yfir landið um páskana og ollu illviðri víða um land. Þær réðu ríkjum alla páskana, sagði Haraldur Eiríksson veðurfræðingur. Það má segja að skásta veðrið hafi verið á laugardag þegar fyrri lægðin fór að grynnka. Í seinni lægðinni mældist loftþrýstingur um 951 millibar á Dalatanga sem er nálægt meti miðað við árstíma. Að sögn Haraldar var mjög djúp lægð fyrir suðaustan land, milli Íslands og Skotlands, á skírdag sem þokaðist hægt norður á bóginn. Þann dag gerði leiðinda norðanátt um allt land en daginn eftir, á föstudaginn langa, var lægðin fyrir austan landið og var áfram mjög djúp. Seinnihluta dagsins var lægðin komin norðaustur fyrir landið og farin að grynnka. Á laugardag var lægðin kyrrstæð fyrir norðan og norðaustan land og hélt hún áfram að grynnast. Þá er hins vegar farið að sjá í mjög vaxandi lægð fyrir suðvestan land og að morgni páskadags kemur hún upp að landinu," sagði Haraldur. Fyrst um morguninn er austlæg átt um nær allt land með snjókomu en um tíma gerði hvassa vestanátt syðst á landinu með blindbyl. Lægðin var undan Austurlandi um kvöldið og var þá óvenju djúp miðað við árstíma eða rúmlega 951 millibar og lítið eitt dýpri en fyrri lægðin. Þessi lægð hélt kyrru fyrir fram á annan í páskum og var viðloðandi Norðurland en þokaðist þá heldur vestur með norðurströndinni og grynntist lítillega en var þó áfram mjög djúp.
Við lítum því næst á kortin:
Kortið að ofan sýnir fyrri lægðina sem Haraldur talar um. Hún varð dýpst miðvikudaginn í dymbilvikunni, líklega um 941 hPa í miðju. Það er mjög óvenjulegt svo seint í marsmánuði. Rétt rúmri viku áður hafði reyndar enn dýpri lægð farið nærri landinu, en vestan við það. Þrýstingur á Keflavíkurflugvelli fór niður í 942,0 hPa og í miðju lægðarinnar hefur þrýstingur verið enn lægri, innan við 940 hPa. En á skírdag versnaði veður hér á landi þegar lægðin fór um það bil í stefnu sem örin á kortinu sýnir. En hún grynntist smám saman. Töluverð úrkoma varð um landið norðanvert og var ýmist rigning, slydda eða snjókoma á láglendi. Giskað hefur verið á að myndast hafi veikt lag í snjóþekjunni á Vestfjörðum. En e.t.v. er fullt eins líklegt að það hafi gerst áður. Lægðin sem er hér austur af Nýfundnalandi fór mjög hratt til austurs og olli illviðri á Bretlandseyjum og í sunnanverðri Skandinavíu á föstudaginn langa, en kom ekki við sögu hér á landi.
Á laugardaginn fyrir páska [2.apríl] var háloftastaðan eins og kortið að ofan sýnir. Gríðarkalt loft sækir út yfir Atlantshaf úr vestri og lægðabylgja gengur á móts við það úr suðvestri.
Grunnkortið gildir á sama tíma, síðdegis á laugardag. Þá var stund milli stríða hér á landi, en úrkomusvæði er enn við Vestfirði. Það má taka eftir því að áttin þar er úr hánorðri eða jafnvel norðvestri, en áttir milli vesturs og norðurs eru óvenjulegar undan Vestfjörðum, nánast óeðlilegar vegna nálægðar Grænlandsstrandar og hinna háu fjalla þar. Lægðin sem á kortinu er austur af Nýfundnalandi dýpkar mjög ört og hreyfist eins og örin sýnir.
Rúmum sólarhring síðar, seint að kvöldi páskadags [3.apríl] er lægðin skammt undan Norðausturlandi, innan við 950 hPa í miðju. Þrýstingur á Dalatanga fór niður í 951,3 hPa og er það næstlægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu í apríl. Fjórum árum áður, 11.apríl 1990 hafði þrýstingurinn farið niður í 951,0 hPa á Bergstöðum í Skagafirði. Í þriðja sætinu er síðan mæling frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum 21.apríl 1947. Ekki er ólíklegt að aprílþrýstimet hefði verið sett 1994 hefðu stöðvar með loftvog verið jafnmargar og nú er.
Eftir að hafa náð fullum þroska tók lægðin slaufu til vesturs undir Eyjafjörð og þaðan suður og suðaustur yfir landið. Kortið gildir á miðnætti að kvöldi annars dags páska, 4.apríl, fáeinum stundum áður en flóðið mikla féll.
Í framtíðinni verður vonandi gerð nákvæmari greining á úrkomu og vindi samfara þessari lægð til að hægt verði að kveða úr um það um hvers konar atburð var í raun að ræða. Úrkoma mældist allmikil, en ekki samt aftakamikil. Tvær sjálfvirkar veðurstöðvar voru komnar á fjöllum vestra, á Þverfjalli og á Dynjandisheiði. Á þeim báðum fór vindátt vestur fyrir norður og þótt vindur mældist ekki sérlega mikill var hann þó nægilegur til að koma snjó í gil og brúnir.
Lægðakerfin sem ollu síðan snjóflóðunum í Súðavík og á Flateyri árið eftir fóru ekki ósvipaða braut og þessi, en veður var þó í þeim tilvikum miklu verra en hér. Allar lægðirnar báru með sér loft sem upphaflega var komið úr suðri og lægðirnar sent norður fyrir og þaðan inn yfir Vestfirði. Margar fleiri skæðar snjóflóðalægðir (og úrhellisvaldar að sumarlagi) bera þetta svipmót.
Við skulum að lokum líta á fáeinar blaðafregnir [sleiktar af timarit.is]. Þær voru mun ítarlegri og fleiri en hér er greint frá. Morgunblaðið segir t.d. mjög ítarlega frá þann 6.apríl:
Ísafirði, frá blaðamönnum Morgunblaðsins Helga Bjarnasyni og Brynju Tomer. Snjóflóðið sem féll á skíða- og sumarhúsahverfi Ísfirðinga í Seljalandsdal og Tungudal í gærmorgun [5.] skildi eftir sig mikla eyðileggingu, auk þess manntjóns sem varð. Tveir sumarbústaðir standa eftir af liðlega 40 húsum. Af flestum sést spýtnabrak eitt og er það dreift um stórt svæði ásamt innanstokksmunum. Þá hefur flóðið rifið upp flest trén úr Simsonsgarði sem er um 50 ára gamall gróðurreitur á sumarhúsasvæðinu.
Hlaupið fór yfir skíðasvæðið á Seljalandsdal og yfir flest mannvirki sem þar voru, skíðaskálinn Skíðheimar var þó utan flóðsins. Úr skíðalyftunum fjórum standa nú eftir 5-7 möstur af um 30 og allir lyftuskúrarnir eru farnir. Þá tók snjóflóðið með sér Harðarskála, sem endurbyggður var fyrir nokkrum árum, og færður út á skíðasvæðið. Megnið af flóðinu stöðvaðist á brún Seljalandsmúla, fyrir ofan Tungudalinn, og gróf þar mannvirkin af skíðasvæðinu. Áfram hélt svokallað kófhlaup, það er laus snjór á mikilli ferð, niður í Tungudalinn og lagði í rúst sumarhúsasvæðið. Þar voru 42 bústaðir og gjöreyðilögðust 40. Af flestum sést ekki annað en spýtnabrak í snjónum. Talið er að loftþrýstingurinn á undan hlaupinu hafi valdið mestum skemmdunum. Brak úr húsunum og innanstokksmunir og stór tré úr skrúðgörðunum dreifðist um stórt svæði, meðal annars hluta golfvallarins og hluti fór yfir Tunguá í dalbotninum.
Snjóflóðið féll úr 600-700 metra hæð af brúnum Eyrarhlíðar og endaði niður í á. Flóðið var vel á annan kílómetra að lengd og 400-500 metra breitt að meðaltali. Það var víða 2ja-3ja metra þykkt. Áætla má að tjónið nemi um 130 milljónum króna, þar af nemur tryggingarupphæð bústaðanna um 90 milljónum króna.
Sama blað segir einnig frá hættuástandi sem lýst var yfir á nokkrum þéttbýlisstöðum, en við tökum eftir því að það var ekki fyrr en að flóðið hafði fallið. Rýmingar voru á þessum tíma alfarið í höndum heimamanna, þó Veðurstofan hafi verið innanhandar. En einnig kemur fram að stórt snjóflóð hafi fallið við Núp í Dýrafirði daginn áður [á annan páskadag]. Hefði það e.t.v. mátt benda á yfirvofandi stórhættu. - En líklega hafa yfirvöld einfaldlega ekki frétt af því.
Hættuástandi vegna snjóflóðahættu var lýst yfir í gær [5.] á Flateyri og í Hnífsdal. Á Flateyri var á milli 20-30 manns í efstu húsum hreppsins gert að flytja úr þeim þangað til hættuástandi væri aflétt, og álíka margir íbúar beðnir um að yfirgefa híbýli sín í Hnífsdal.
Almannavarnanefnd Bolungarvíkur kom saman til fundar í gærmorgun [5.], þar sem veruleg snjóflóðahætta hafði skapast í Traðarhyrnu, en íbúðarbyggðin liggur undir því fjalli.
Þingeyri. Snjóflóð féll rétt fyrir innan Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði s.l. mánudag [4. apríl] og flaut nokkuð hundruð metra yfir veginn og niður á tún fyrir neðan bæinn. Flóðið kom úr svonefndum Krossgiljum og lá leið þess nánast meðfram innstu húsum á Núpi og verður að teljast mikil mildi að enginn var þar á ferð.
Einnig segir Morgunblaðið 6.apríl frá margs konar hrakningum um páskana, mest á fjöllum, en líka í byggð:
Borg í Miklaholtshreppi. Fullvíst má telja að bóndinn á Snorrastöðum í Kolbeinsstaðahreppi, Kristján Magnússon, hafi bjargað lífi þriggja stúlkna sem ætluðu að ganga á Eldborg á páskadag [3.apríl].
Þetta kort birtist í Morgunblaðinu 6.apríl Það sýnir í grófum dráttum útlínur flóðsins mikla.
Morgunblaðið segir áfram af rýmingum 7.apríl, hér kemur fram að fjöldi snjóflóða féll í námunda við þorpið, en að flestir voru til þess að gera rólegir samt.
Flateyri. Almannavarnanefndin skipaði svo fyrir að morgni þriðjudags [6.] að hús í efstu götu bæjarins skyldu rýmd vegna snjóflóðahættu. Látlaus ofankoma hafði verið nóttina áður og var snjór mjög blautur og þungur. Íbúar húsanna fluttu með tannbursta sína og sængur til ættingja eða kunningja á öðrum stöðum í bænum og bíða þess rólegir að hættuástand verði flautað af. Ástandið nú svipað og fyrir fjórum árum. Ekki er hægt að segja að menn hafi kippt sér sérstaklega upp við þessar aðgerðir, því samskonar ástand skapaðist árið 1990 þegar fólk úr sömu húsum var í viku frá heimilum sínum, vegna snjóflóðahættu. Snjóalög í hlíðum Önundarfjarðar eru með mesta móti og bætti hressilega í um páskahelgina. Má sjá snjóspýjur á víð og dreif um fjallshlíðina fyrir ofan Hvilftarströnd, sem er fyrir innan bæinn. Var veginum um hana lokað á tímabili vegna snjóflóðahættu, en hefur hann verið opnaður aftur. Í ljósaskiptunum á þriðjudagskvöld [5.] féll snjóflóð úr bæjargilinu fyrir ofan Flateyri, en staðnæmdist í öruggri fjarlægð frá byggð. Urðu nokkrir vitni að því þegar það flóð féll og er óhætt að segja að það hafi verið hrikaleg sjón að sjá þegar snjórinn steyptist niður gilið og breiddist út í hlíðinni rétt fyrir innan bæinn.
Tíminn segir 7.apríl frá snjóflóði í Álftafirði daginn eftir að stóra flóðið féll.
Snjóflóð féll úr Sauratindum í Sauradal innan við Súðavík í gærmorgun [6.] og braut þar staura í háspennulínu en engin byggð er í dalnum.
Við látum hér staðar numið.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.11.): 15
- Sl. sólarhring: 288
- Sl. viku: 1432
- Frá upphafi: 2406748
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 1305
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.