Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2023

Af Stóra-Bola

Kuldapollur kanadísku heimskautasvæðanna - sá sem við höfum til hægðarauka nefnt Stóra-Bola hér á hungurdiskum - hefur verið fremur litið áberandi fram undir þetta í vetur. Þegar hann hefur náð sér á strik hefur hann oftast ráðist í vesturvíking - fjarri okkur - en við höfum sí staðinn setið í straumum úr Norðuríshafi - ekki eins illkynjuðum hvað harðviðri snertir - að þessu sinni. 

Nú er hins vegar sú staða uppi að Stóri-Boli hefur náð fullum vetrarstyrk. Á kortinu hér að neðan eru fjórir fjólubláir litir - en litir tákna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Dekksti liturinn sýnir svæði þar sem hún er minni en 4740 metrar. Ritstjórinn talar gjarnan um ísaldarþykkt þegar minnst er á svo lágar tölur (það er reyndar bara orðaleppur - til hægðarauka og hryllings). 

w-blogg300123a

Kortið er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl.18 á morgun, þriðjudaginn 31. janúar 2023. Rauða örin bendir á lægðina sem veldur illviðrinu á landinu í dag (mánudag). Henni er eiginlega sparkað út af borðinu - gengur suðaustur til Póllands og grynnist. 

Í vestri sjáum við Stóra-Bola. Hann er hér á hefðbundnum slóðum og við megum segja í stórum dráttum venjulega útlítandi miðað við árstíma. Þykktin nærri miðju er 4680 metrar - um 200 metrum minni en við höfum nokkru sinni séð hér við land - og 300 metrum minni en lægst hefur orðið í vetur. En þessi kuldi allur - og háloftavindar í kringum hann eru mikill lægða- og illviðramatur - lítið má út af bregða. Í þessari stöðu höfum við oft sloppið við öll meiriháttar vandræði - en á slíkt er aldrei treystandi.

Nú virðast reiknimiðstöðvar nokkuð sammála um að Boli taki á rás suður á bóginn, ráðist á suðausturhéruð Kanada og jafnvel Nýja-England - með ísaldarkulda. Það er kannski ekki alveg einstakt, en ekki algengt. Þetta kuldakast á að vísu ekki að standa lengi - og kuldinn í miðju Bola mildast. Spárnar eru hins vegar ekki sammála um það hvað gerist svo - nema að þær kasta fjölmörgum illkynja lægðum í átt til Íslands - ýmist þá í formi úrhellissunnanveðra - eða vestansnjókomuofsa - sumar bjóða einnig upp á hríðarveður fyrir norðan og austan. 

En allt er þetta enn aðeins eitthvað í „huga“ líkana - þau vita vart sitt rjúkandi ráð - við vonum bara að vel fari. 

 


Erfið vika (fyrir spálíkön - og veðurfræðinga kannski líka)?

Nú virðist veðurlagi þannig háttað að spár marga daga fram í tímann eru mjög út og suður - breytast stórlega frá einni spárunu til annarrar. Stórar lægðir birtast nánast upp úr engu eða hverfa jafnharðan út úr spám. Þetta er svosem ekki mjög óalgengt ástand - það abbast bara sjaldan upp á okkur. En þegar ekki eru nema tveir sólarhringar undir er langoftast komin meiri festa á spár (þótt óvissa sé ætíð nokkur fram á síðustu stundu).

Spálíkön hafa í allmarga daga gert ráð fyrir því að lægð kæmi að landinu á mánudaginn kemur (30. janúar). Spár bandarísku veðurstofunnar hafa lengst af gert talsvert úr henni (þó ekki alveg samfellt), en evrópureiknimiðstöðin ekki fengist til þess að taka vel undir - hún hefur að vísu verið með lægðina - en bæði grynnri og þar að auki sent hana sem skjótast austur til Færeyja - ekki valdandi verulegu illviðri hérlendis. 

Nú hefur orðið breyting á og reiknimiðstöðvarnar tvær orðnar meira sammála. Lægðin er að komast inn á kortið - hún er nú í kringum 1020 hPa í miðju, suður á 40. breiddargráðu, suðsuðaustur af Nýfundnalandi - hreyfist mjög hratt til norðausturs þannig að hún á að vera hér skammt fyrir suðvestan land síðdegis á mánudag - eftir tveggja sólarhringa siglingu og óðadýpkun - um 60 hPa. 

Lægðin á hins vegar að staðnæmast um stund fyrir suðvestan land - það er því allsendis óvíst hversu vont veður fylgir henni hér. Satt best að segja óþægilega óljóst. Sem stendur er Veðurstofan með gular viðvaranir um landið sunnanvert undir kvöld á mánudag - og líklegt er að þær haldist - ekki er ólíklegt að þær verði eitthvað þyngdar þegar nær dregur. Þeir sem eitthvað eiga undir veðri ættu því að fylgjast vel með spám, bæði frá Veðurstofunni og öðrum til þess bærum aðilum (sem hungurdiskar eru ekki). 

Spár fyrir afgang vikunnar eru satt best að segja talsvert út og suður. Reiknimiðstöðvar virðast þó sammála um að lægðin djúpa fari austur um Færeyjar þrátt fyrir allt - kannski hafa þá allir haft rétt fyrir sér á einhvern hátt. 

Hér að neðan er erfiður pistill um óðadýpkunina sjálfa - hvernig sjá má hana á korti sem sýnir samspil raka í neðri lögum lofthjúpsins og veðrahvarfanna. Ekki fyrir alla - en 

w-blogg280123a

Við höfum stöku sinnum brugðið upp korti sem þessu hér á hungurdiskum. Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting á Norður-Atlantshafi annað kvöld (sunnudag 29. janúar kl.24). Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Litafletirnir segja frá því sem kallað er stöðugleikastuðull. Hann reiknast hér sem mismunur á mættishita í veðrahvörfum og jafngildismættishita í 850 hPa-fletinum. [Þetta síðasta hljómar eins og sunnudagskrossgáta Morgunblaðsins - auðráðið fyrir innvígða, en illskiljanlegt flestum öðrum). 

Rauða svæðið suðaustan og austan við lægðarmiðjuna suðvestur í hafi sýnir hvar mjög rakt loft af suðrænum uppruna er á ferð (hár jafngildismættishiti í 850 hPa). Rauða og brúna svæðið fyrir vestan kerfið sýnir mjög lág veðrahvörf (mættishiti í þeim er lágur). Þessi lágu veðrahvörf nálagst raka loftið við lægðina eins og veggur - þegar þessi tvö rauðu svæði snertast (í námunda við hringinn sem markaður er á kortið) fer lægðarmiðjan í óðadýpkun - gríðarlegt magn raka þéttist (og veðrahvörfin dragast niður úr öllu valdi. Hlýr kjarni verður til í lægðarmiðju. Fleira skemmtilegt kemur líka við sögu - en látum að eiga sig.


Fimmtíu ár frá upphafi eldgossins á Heimaey

Eins og fram hefur komið í flestum fjölmiðlum eru nú 50 ár liðin frá upphafi eldgossins á Heimaey. Ritstjóri hungurdiska var þá staddur í Noregi og fylgdist því með athurðum úr talverðri fjarlægð - og því hvernig fréttir gátu brenglast á ekki lengri leið. Þegar þessir atburðir eru rifjaðir upp er þess jafnan getið að floti eyjamanna hafi verið í höfn vegna illviðris daginn áður, en þegar gosið hófst hafi verið besta veður. Þetta var afskaplega heppilegt svo ekki sé meira sagt. Þó flestir viti þetta skulum við samt rifja veðrið upp í mjög stuttu máli. 

Janúarmánuður var sérlega hlýr, en nokkuð umhleypingasamur. Tímaritið Veðráttan segir um mánuðinn:

Tíðarfarið var óvenju milt og var talið hagstætt víðast hvar. Sunnanlands var þó votviðrasamt og umhleypingasamt og gæftir slæmar. Jörð var oft auð og jafnvel klakalaus og hagar víðast góðir. Færð var yfirleitt góð.

Um veðrið þann 22. og 23. segir sama heimild:

Aðfaranótt þ. 22. fór að hvessa á suðaustan og austan, en þá var djúp lægð fyrir suðvestan land. Varð stormur við suðvesturströndina um morguninn þ. 22. og víða hvasst og rigning síðari hlutann. Vindur snerist þá til suðurs og suðvesturs, og lægði jafnframt. Þ. 23. var fyrst hægviðri, en síðari hluta dags fór lægð norðaustur fyrir sunnan land, og vindur varð norðlægur og norðvestlægur með úrkomu, er á daginn leið.

Kortið hér að neðan sýnir endurgreiningu japönsku veðurstofunnar og gildir um hádegi mánudaginn 22. janúar.

Slide1

Lægðarmiðjan er um 947 hPa djúp í miðju og situr rétt austan við Hvarf á Grænlandi. Á undan henni fer mikill vindstrengur - tengdur samskilum sem berast hratt til norðausturs í átt til landsins. Suðvestur í hafi er síðan önnur lægð á hraðri leið til norðausturs - ábyggilega áhyggjuefni veðurfræðinga þennan dag. En hún fór síðan rétt fyrir austan land.

Slide2

Næsta mynd sýnir bút úr veðurskeytum frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum á þriggja klukkustunda fresti þessa tvo daga. Við sjáum að frostlaust er allan tímann, og hiti sveiflast reyndar ekki svo mjög, ívið hlýrra á undan skilunum - og rétt á eftir þeim - heldur en síðar. Vindur er fyrst af suðaustri, síðan austsuðaustri var 33,5 m/s á hádegi (12 vindstig) og 31,4 m/s  (11 vindstig) kl.15 síðdegis. Slydduél var fyrst um morguninn, en síðan rigning. Veður var ekki sérlega slæmt daginn áður (sunnudagur) og veit ritstjóri hungurdiska ekki hvort skipstjórar héldu í land vegna veðurs - eða veðurspár - en skip voru í höfn hina örlagaríku nótt. Kannski einhver geti upplýst það?

En klukkan 18 höfðu skilin gengið yfir. Loftvog hafði stigið snögglega í kjölfar þeirra (um 6,3 hPa á 3 klst), vindur hafði gengið mikið niður, var 13,9 m/s kl.18, eða 7 vindstig (sem þykir reyndar talsvert á stundum í Reykjavík) og áttin snúist í suðsuðvestur. Úrkomulaust var á athugunarstað - en úrkoma í grennd. Þegar kom fram undir miðnætti lægði enn og þá var vindur kominn niður í 6,2 m/s (4 vindstig) og kl. 3 um nóttina var vindur aðeins 2,1 m/s (1 vindstig). Síðan jókst vindur heldur að nýju, en varð aldrei mikill allan fyrsta gosdaginn. Um hádegið gerði slyddu. Þar fór vestasti hluti úrkomubakka lægðarinnar nýju. 

Slide3

Hér má sjá endurgreininguna fyrir miðnætti - rétt áður en gosið hófst. Skilin voru þá komin langleiðina yfir landið, en nýja lægðin í töluverðum vexti suður í hafi - en hún fór hjá án mikilla áhrifa eins og áður sagði. 

Slide4

Góðviðrið um nóttina náði til landsins alls að kalla mátti. Kortið sýnir stöðuna kl. 3. Hvergi blæs nema á Hornbjargsvita. Takið eftir því hversu fáar veðurstöðvarnar eru miðað við það sem nú er - en á móti kemur að upplýsingar eru um bæði veður og skyggni - sem aðeins sárafáar sjálfvirkar stöðvar ráða við. 

Björgunaraðgerðir hefðu verið mun erfiðari í illviðri (eins og oft hefur verið bent á). Ritstjóri hungurdiska óskar Eyjamönnum alls hins besta. 


Kaldur mörsugur

Mörsugur er þriðji vetrarmánuður íslenska misseristímatalsins. Að þessu sinni hófst hann 21. desember og honum lauk á fimmtudaginn var, 19. janúar. Hann var óvenjukaldur að þessu sinni. Við getum reiknað meðalhita hans rétt eins og hinna hefðbundnu almanaksmánaða, en til þess að geta gert það þurfum við að eiga meðalhita hvers dags. Hann er ekki á (tölvu-)lager fyrir allar stöðvar nema til 1949. Á Akureyri getum við farið aftur til 1936, í Reykjavík aftur til 1871, en slæðing af dögum vantar þar. Lengst er hitadægurröðin í Stykkishólmi, hún nær aftur til 1846, mörsugur 1846 til 1847 er sá fyrsti sem við eigum meðaltal fyrir. Átta daga vantar í hitamælingar í Hólminum á mörsugi 1919-1920 - fyrir áramótin. 

Við lítum nú á línurit sem sýnir mörsugsmeðalhitann í Stykkishólmi. Ártalið er sett á síðari hluta mánaðarins - mánuðurinn nær alltaf yfir áramótin. Þar sem stendur 2023 á við mörsug 2022 til 2023.

w-blogg220123

Lóðrétti ásinn sýnir meðalhita, en sá lárétti ár (aftur til 1847). Við sjáum ekki sérlega mikla tímabilaskiptingu, þó mjakast hiti hægt upp á við, leitni reiknast +0,8 stig á öld. Undanfarin ár hefur breytileiki milli ára verið talsvert minni en var áður - þar til nú að hinn kaldi mörsugur sem nú er nýliðinn sker sig mjög úr. Við þurfum að fara aftur til ársins 1984 til að finna eitthvað ámóta. Þá stóð yfir um 10 ára tímabil mjög kaldra mörsuga - sker sig reyndar úr á öllu tímabilinu sem við horfum hér á. Á hlýindaskeiðinu 1925 til 1964 komu fáeinir ámóta kaldir mörsugar og nú, nefnum hér 1959 og 1936. Það er mörsugur 1918 (1917 til 18) sem var langkaldastur á öllu tímabilinu, 1874 og 1881 eru þó í svipuðum flokki. 

Mjög hlýir mörsugir sýnast heldur færri hin síðari ár en var á fyrra hlýskeiði. Hlýjastur var mörsugur 1928 til 1929 og ámóta hlýr 1846 til 1847, þá var líka mælt í Reykjavík og staðfesta þær mælingar hlýindin. 

Eins og fram hefur komið í fréttapistli Veðurstofunnar hafa sólskinsstundir aldrei mælst jafnmargar eða fleiri í Reykjavík heldur en í nýliðnum desember. Það er því fróðlegt að líta einnig á skýjahuluna. Hún var að meðaltali ekki nema 3,6 áttunduhlutar. Þetta er lægsta tala sem við vitum um í Reykjavík í desember. Við þurfum að fara allt aftur til mars 1962 til að finna jafnlága tölu í nokkrum mánuði, þá var meðalskýjahula einnig 3,6 áttunduhlutar. Sama var í febrúar 1955. Árið 1949 varð rof í skýjaathugunarháttum á landinu, en samanburður sýnir þó að skýjahula hefur nær áreiðanlega verið ámóta lítil í Reykjavík í febrúar og mars 1947 og var í desember nú, sömuleiðis í febrúar 1936. En þetta er alla vega mjög óvenjulegt ástand - bæði hitafar og skýjahula. Heiðríkjan ýtti undir það að tiltölulega kaldara hefur verið á Suðvesturlandi heldur en í öðrum landshlutum - vik hafa verið meiri. Þannig var einmitt staðan í hinum bjarta febrúar 1947 og nefndur var hér að ofan. 

Taka skal fram að ritstjórinn er alls ekki viss um að við hæfi sé að nota fleirtölumyndir á íslensku mánaðanöfnin - þær eru að jafnaði ekki notaðar á hin hefðbundnu almanaksmánaðanöfn. Rétt að biðjast afsökunar á þessum subbuskap. 


Fyrstu 20 dagar janúarmánaðar

Fyrstu 20 dagar janúarmánaðar hafa verið kaldir. Meðalhiti í Reykjavík er -3,5 stig og er það -4,0 stigum neðan meðallags áranna 1991-2020 og -4,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er kaldast meðal sömu daga á öldinni, hlýjastir voru þeir árið 2002, meðalhiti þá +4,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 139. sæti (af 151) - langt síðan við höfum komist svo neðarlega á þeim lista (yfirleitt). Kaldast var 1918 meðalhiti þá -10,6 stig, en hlýjastir voru þessir sömu 20 dagar árið 1972, meðalhiti þá +4,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins -2,9 stig. Það er -2,1 stigi neðan meðallags 1991 til 2020 og -2,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er ekki nærri því eins óvenjulegt vik og vikið í Reykjavík. Frá 1936 (við eigum daglegar tölur ekki lengra aftur í tölvutæku formi) hafa fyrstu 20 dagar janúar 31 sinni verið kaldari heldur en nú (kaldastir 1959, en þá var meðalhiti þeirra -9,0 stig.
 
Þessir janúardagar eru þeir köldustu á öldinni við Faxaflóa, Breiðafjörð, á Ströndum og Norðurlandi vestra og á Suðurlandi. En þriðjukaldastir á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og á Miðhálendinu. Á einstökum stöðvum er neikvæða vikið miðað við síðustu tíu ár minnst á Fáskrúðsfirði, -1,4 stig, en mest á Þingvöllum, -6,9 stig.
 
Úrkoma hafur mælst 30,0 mm í Reykjavík og er það nærri meðallagi. Á Akureyri hefur hún mælst 32,4 mm, sem er um þrír fjórðu hlutar meðalúrkomu þar.
 
Sólskinsstundir hafa mælst óvenjumargar í Reykjavík, 45,4, 33 stundum umfram meðallag. Lítillega fleiri stundir mældust sömu daga 1959.

Óvenjulegt útlit himins

Þeir sem hafa augun „úti“ hafa efalítið tekið eftir óvenjulegum litbrigðum himinsins í heiðríkjunni þessa dagana - ástandið er nánast óeðlilegt. Mest ber á þessu við sólarupprás og sólarlag, en sést líka á öðrum tímum. Langlíklegasta ástæðan er sú að vatn úr eldgosinu mikla á Tonga-eyjum fyrir ári (15. janúar 2022) hefur loksins náð til heiðhvolfsins hér á norðurslóðum. Hugsanlega eru einhver gosefni önnur einnig á ferð. Sem kunnugt er var sprengingin sérlega öflug (heyrðist til Alaska) og þrýstibylgjan fór mörgum sinnum kringum jörðina. 

Sagt er að heiðhvolfið verði mörg ár að jafna sig - þar er að jafnaði mjög lítið af vatni, en það sem þangað berst er lengi að hverfa - enn lengur en aska. Gosið mikla sem varð í Pinatubofjalli á Filippseyjum í júní 1991 olli miklum breytingum á útliti himinsins hér á landi - strax í október það ár og var útlitsbreytingin greinanleg hátt á annað ár - en þá var mikið magn ösku líka á ferð, auk vatnsgufu. Samskipti suður- og norðurhvela jarðar ganga hægt fyrir sig - tæpa fjóra mánuði tók að koma efninu úr Pinatubo hingað norður, en það hefur tekið um ár fyrir efnið úr Tonga-gosinu. 

Við höfum meiri reynslu af ásýndarbreytingum himinsins eftir stór öskugos heldur en gos eins og á Tonga. Því er vel þess virði að gefa þessu náttúrufyrirbrigði gaum - og láta það ekki framhjá sér fara. 

Ritstjóri hungurdiska stundar myndatökur lítt nú orðið, en sjálfsagt eru margir með myndavélar/síma á lofti þessa dagana. 


Fyrri hluti janúarmánaðar

Fyrri hluti janúar hefur verið óvenjukaldur. Meðalhiti í Reykjavík er -3,2 stig, -3,9 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020. Þetta er langkaldasta janúarbyrjun á öldinni í Reykjavík, en hlýjast var aftur á móti í janúar 2002, meðalhiti þá +4,2 stig. Á langa listanum er hitinn í 131. hlýjasta sæti (af 151) og er sá lægsti síðan 1984. Þá var hins vegar nokkuð illviðrasamt, en nú hefur lengst af farið allvel með veður um meginhluta landsins - að minnsta kosti. Hlýjastur var fyrri hluti janúar 1972, meðalhiti þá +5,9 stig, en kaldast var 1918, meðalhiti -9,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú hærri en í Reykjavík, eða -2,5 stig, -1,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -2,5 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Þetta er kaldasta janúarbyrjun aldarinnar við Faxaflóa, á Ströndum og Norðurlandi vestra, og á Suðaustur- og Suðurlandi. Á Norðausturlandi, Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum er hitinn í 20. hlýjasta sæti (af 23) (fjórðakaldasta).

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, Mest er vikið á Þingvöllum, -6,9 stig, en minnst á Streiti -1,2 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 15,8 mm, ríflegur þriðjungur meðalúrkomu, fjórðaþurrasta janúarbyrjun aldarinnar. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 19,8 mm, rúm 60 prósent meðalúrkomu.

Sólskinsstundir hafa mælst 29,8 í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri í fyrri hluta janúar, það var 1959. Á Akureyri er enn sólarlaust.


Óvenjumikill munur á mánaðameðalhita

Margir hafa nefnt við ritstjóra hungurdiska hið óvenjulega meðalhitafall milli nóvember- og desembermánaða síðasta árs (2022). Sérlaga hlýtt var í nóvember en kalt í desember. Munur á milli meðalhita mánaðanna var allvíða um og yfir 10 stig, mestur þó á Þingvöllum. (9,0 stig í Reykjavík). 

Meðalhiti á Þingvöllum var +4,6 stig í nóvember, en -7,1 stig í desember. Þetta var næsthlýjasti nóvember sem vitað er um (heldur hlýrra var 1945). Desember er aftur á móti sá kaldasti sem vitað er um þar um slóðir. Munurinn á meðalhita mánaðanna tveggja nú var 11,7 stig. Sýnist í fljótu bragði (en þó ekki að alveg óathuguðu máli) að þetta sé mesta hitafall milli meðalhita tveggja mánaða á Íslandi. [Hiti féll um 10,2 stig við Mývatn á milli október og nóvember 1996].

Þetta slær þó ekki út mestu breytingu í hina áttina - meðalhiti í mars 1881 var -19,8 stig á Siglufirði, en +0,1 stig í apríl (munur 19,9 stig). Munurinn milli hita þessara mánaða var 16,3 stig í Stykkishólmi og 15,5 stig í Grímsey (áreiðanlegri meðaltöl heldur en þau frá Siglufirði).

Að meðaltali er munur á hita hlýjasta og kaldasta mánaðar ársins á Þingvöllum 14,8 stig, var mestur 1936, 20,2 stig, en minnstur 10,4 stig, 1972. Árið 2022 var hann 17,5 stig. Samfelldar mælingar á Þingvöllum og nágrenni ná aftur til sumarsins 1934.


Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar

Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar hafa verið kaldir um meginhluta landsins. Meðalhiti í Reykjavík er -2,4 stig og er það -3,2 stigum kaldara en sömu daga á árunum 1991 til 2020 og -3,9 stigum kaldara en meðaltal síðustu tíu ára. Í Reykjavík raðast hitinn í 21. hlýjasta sæti (þriðjakaldasta) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2019, meðalhiti þá +4,9 stig, kaldastir voru þeir hins vegar 2001, meðalhiti -4,7 stig. Á langa listanum er hitinn í Reykjavík í 115.-sæti (af 151). Hlýjast var 1972, meðalhiti +6,7 stig, en kaldast 1903, meðalhiti -7,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -2,0 stig. Það er -1,4 stig neðan meðalhita 1991 til 2020 og -2,6 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Á spásvæðunum hefur verið að tiltölu kaldast á Ströndum og Norðurlandi vestra og á Suðurlandi. þar er hiti sá þriðjilægsti á öldinni. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum þar sem hiti raðast í 14. hlýjasta sæti aldarinnar. Hitavik er neikvætt á öllum veðurstöðum landsins miðað við síðustu 10 ár, mest er vikið á Þingvöllum, -6,1 stig, en minnst á Streiti, -0,2 stig.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 15,8 mm og er það um 60 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 16,2 mm, um 90 prósent meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoma mælst meir en tvöfalt meðallag sömu daga.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 9,2 í Reykjavík, ívið fleiri en í meðalári, en sólarlaust hefur verið á Akureyri (þó sól geti nú sést þar fáeinar mínútur á dag sé bjart veður).
 
Ekki sér enn fyrir endann á kuldatíðinni. 

Litlar efnislegar breytingar

Ekki er að sjá afgerandi breytingar á veðurlagi á næstunni. Að vísu er ekki alveg jafnkalt framundan eins og hefur verið og eitthvað verður um vind og snjóhraglanda - aðallega þó fyrir norðan og á Vestfjörðum. Vonandi ekki mikið um stórviðri á þessum stórviðrasamasta tíma ársins. 

w-blogg060123a

Kortið sýnir spá everópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á morgun (laugardag 7.janúar). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim ráðum við vindstefnu og styrk í miðju veðrahvolfi, en litir sýna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Þykktin yfir Íslandi á að vera nærri meðallagi árstímans á morgun (eða lítillega yfir því) - og því ekki sérlega kalt (víðast hvar). 

Við sjáum að heimskautaröstin er nær alls staðar í suðlægri stöðu. Í kringum hana er gjarnan illviðrasamt. Stóru kuldapollarnir eru ekki nærri okkur. Sá vestari (sem við höfum gjarnan til gamans kallað Stóra-Bola er harla aumingjalegur og hefur lengst af verið það það sem af er vetri. Hann hefur að vísu gert einhverjar skyndisóknir til suðurs, bæði um vestanverða Norður-Ameríku og einnig langt suður um Bandaríkin - en þær hafa ekki staðið lengi. Góður kraftur er hins vegar í bróður hans - sem við köllum stundum Síberíu-Blesa. Hann er (eins og oftast) víðs fjarri okkur. Illviðri fylgja oft þessum kuldapollum - fari þeir úr sínum venjulegu bælum - en ekki verður það á okkar slóðum næstu daga. 

Þegar svona stendur á eru það helst tvenns konar illviðri sem geta plagað okkur. Annars vegar er það þegar hlýrra loft (ekki endilega mikið hlýrra) sækir fram úr austri eða suðaustri í átt að Grænlandi. Þá þrengir að kalda loftinu þar og það vill þrýstast suðvestur um Grænlandssund - og jafnvel Ísland (ekki fer það í gegnum jökulinn). Þannig staða virðist koma upp nú um helgina og einhverjar gular hríðarviðvaranir eru í gildi í spám Veðurstofunnar - rétt fyrir þá sem eitthvað eiga undir - eða eru á ferðalögum að gefa þeim gaum. 

Í stöðu sem þessari getur hins vegar komið upp sú staða sem ritstjórinn kallar öfugsniða - lítillega almennara hugtak heldur en hinn gamalgróni hornriði - en sama eðlis. Norðaustanátt er í neðstu lögum (jaðarlaginu) en suðvestanátt efra. Þá snjóar á Suður- og Suðvesturlandi. Ekki þarf mikið til að þessi staða komi upp hér langt norðan rastarinnar - harla tilviljanakennt og erfitt fyrir líkön og veðurspámenn. Kom þó upp fyrir nokkrum dögum - alveg án nokkurra vandræða. 

Reiknimiðstöðvar eru í dag aðallega sammála um að margar næstu lægðir muni halda til austurs fyrir sunnan land - án mikilla áhrifa hér á landi - nema í formi áðurnefndar Grænlandsstíflu. Rétt að taka fram að slíkar stíflur geta orðið mjög illskeyttar - en vonandi erum við ekki að tala um neitt slíkt að þessu sinni. Látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila um spárnar - á hungurdiskum eru ekki gerðar spár. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 120
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 955
  • Frá upphafi: 2420770

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 843
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband