Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2020
12.1.2020 | 23:28
Smálægð við Reykjanes
Þegar stórar lægðir fara að grynnast verða alloft til nokkrar miklu minni úr rústum þeirra. Meginástæðan er væntanlega varðveisla iðunnar - sé einhver snúningur kominn á eitthvað stöðvast hann ekki svo glatt. Um þetta hefur oft verið ritað á hungurdiskum áður, t.d. í pistli sem birtist 24.janúar 2012, lægð dettur í sundur.
Líklega er smálægðin sem plagað hefur suðvestanvert landið í dag átt þennan uppruna. Líkönum gengur misvel að eiga við svona nokkuð - sömuleiðis er erfitt að spá veðri í kringum fyrirbrigðin - úrkoma mismikil og sömuleiðis vindur. Í dag hagaði þannig til að þó nokkur úrkoma fylgdi lægðinni - kalt vestanloft búið að drekka upp raka (og varma) úr hlýjum sjó á Grænlandshafi. Úrkoman bættist við smávegis snjó sem fallið hafði í gær og í nótt - allt mjög laust í sér. Afleiðingin var mikill skafrenningur þar sem vindur náði sér upp.
Ritstjóri hungurdiska fékk skammt yfir sig á Hafnarmelum nú síðdegis. Þar var vindur um 20 m/s og skyggni nær ekkert á köflum - en ekki það mikill snjór að veruleg hætta væri á festu. En óþægilegt er þetta - og ekki hættulaust.
Enn verra varð veðrið á Suðurnesjum - um leið og einhver fer að festast er allt í fári í skafrenningi sem þessum.
Kortið sýnir lægðina nú kl.21 í kvöld (sunnudag 12.janúar). Kannski er greiningin ekki alveg nákvæm - en lægðin er eins og áður sagði furðukröpp og vel vaxin. Yfir landinu miðju er hins vegar kaldur hæðarhryggur og þokkalegasta veður, en úti fyrir Norðausturlandi er öllu gerðarlegri lægð - kannski líka leifar af hringrás þeirrar sem var að plaga okkur á föstudaginn.
Á 850 hPa-korti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.15 í dag (sunnudag) má sjá lægðirnar báðar (og reyndar tvær í viðbót). Lægðin við Reykjanes sést mjög vel - og greinis líka ofar í veðrahvolfinu. Sjá má að hún er hlý í miðju - rétt eins og hver annar fellibylur - nokkuð mál er að fullgreina ástæður þess að kjarninn er hlýr (þær geta verið misjafnar í hverju tilviki) - en ekki er ólíklegt að losun dulvarma (úrkomumyndun) sé veigamikill þáttur - rétt eins og í fellibyljum. Það er líka út af fyrir sig skemmtilegt að stærð lægðarinnar (lárétt umfang) í neðstu lögum er ekkert ósvipað fellibyl. En það er varasamt að teygja sig öllu lengra í samanburðinum - uppruni snúningsins (iðunnar) er annar - og svo er þetta auðvitað miklu, miklu veikara kerfi heldur en fellibyljir - og nær ekki nálægt því eins hátt.
Á árum áður hafði ritstjórinn sérlega gaman af lægðum sem þessum. Þeir lesendur sem nenna geta rifjað upp pistil sem fjallar um eftirminnilega uppákomu í nóvember 1978.
11.1.2020 | 01:59
Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar
Fyrstu 10-dagar janúar hafa verið heldur uppátækjasamir og stórgerðir. Við getum nú laumast handan við hornið og borið hita í Reykjavík og á Akureyri saman við sömu daga 1991 til 2020 - og sleppt 1961-1990. Í Reykjavík er meðalhiti -0,2 stig, -1,0 stigi neðan þessa nýja meðaltals, en -1,3 neðan meðaltals sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er í 14.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar í fyrra, meðalhiti þá 4,9 stig, en kaldastir voru þeir 2001, meðalhiti -4,7 stig. Á langa listanum er hitinn í 66.sæti (af 145), hlýjastir voru þessir tíu dagar árið 1972, meðalhiti 6,7 stig, en kaldastir 1903, meðalhiti -7,7 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu -0,6 stig, í meðallagi 1991 til 2020, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austurlandi að Glettingi, þar er hitinn í 11. hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, þar er hitinn í 17.sæti.
Hiti er neðan meðallags síðustu 10 ára á flestum veðurstöðvum, mest er neikvætt vik í Bolungarvík, -2,8 stig, en jákvæðast er vik á Höfn í Hornafirði, +0,4 stig.
Úrkoma er um tvöföld miðað við meðallag í Reykjavík (64,8 mm) á Akureyri (30,4 mm).
Sólskin hefur ekki mælst til þessa í janúar í Reykjavík - vitað er um slíkt 15 sinnum áður - síðast 2002 og 1993.
Loftþrýstingur hefur verið lágur, í Reykjavík um -20 hPa neðan meðallags, hefur aðeins 9 sinnum verið lægri sömu daga síðustu 199 ár.
Illviðrasamt hefur verið. Ritstjóri hungurdiska heldur úti tveimur listum um illviðradaga. Fjórir dagar hafa komist á svonefndan hlutfallslista (talan er að vísu ekki endanleg) - það er ekki mjög algengt að svo margir dagar skili sér nánast í rykk (enginn dagana er þó mjög ofarlega). Á hinum listanum sem valinn er eftir meðalvindhraða er aðeins einn dagur sem nær máli. Þetta misræmi bendir til þess að illviðrin nú hafi verið snörp - en skammvinn.
10.1.2020 | 02:06
Miklar lægðir
Það eru miklar lægðir sem eiga leið hjá landinu þessa dagana. Þrýstingur fór á þriðjudaginn niður í 941,7 hPa í Grindavík - sá lægsti í janúar á landinu í 5 ár - og á allmörgum stöðvum voru mánaðarstöðvarlágþrýstimet slegin.
Lægðin sem á að plaga okkur á morgun (föstudag 10.janúar) er líka mjög djúp, megi trúa spám. Líklega innan við 945 hPa í miðju, hver lægsti þrýstingur á landinu verður samfara henni vitum við ekki með vissu. Reiknaðar spár hafa verið nokkuð hringlandi með braut lægðarmiðjunnar - óþægilega hringlandi þykir okkur sem erum farin að venjast ofurnákvæmum spám. Fyrir um 40 árum þegar ritstjóri hungurdiska sat í spámannssæti fylgdi mun meiri óvissa lægðum sem þessum - eða e.t.v. ætti að segja öðruvísi óvissa. Óvissuhugsunin náði alla vega ekki til margra daga eins og nú - það voru aldrei gefnar út spár lengra en tvo sólarhringa fram í tímann - og aldrei gefnar stormviðvaranir meir en sólarhring fram í tímann. Þýddi lítt að hugsa um slíkt á vaktinni. Eitt aðaláhyggjuefnið á þeim tíma voru sjávarflóð samfara hraðfara djúpum lægðum - ekki síst nærri stórstreymi. Þrátt fyrir áratugina alla liggja þessar áhyggjur nokkuð á sál ritstjórans - en varnir hafa verið bættar víða og þar að auki ættu betri spár að gera flesta rólegri.
Eins og venjulega beinum við athygli þeirra sem eitthvað eiga undir að spám Veðurstofunnar - þar er veðrið vaktað dag og nótt - en ekki bara litið á það við og við eins og á ritstjórnarskrifstofum hungurdiska.
Við skulum samt líta á tvö kort úr kortasafni Veðurstofunnar - spár evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting kl.15 síðdegis á morgun (föstudag 10.janúar). Þrýstingur í lægðarmiðju er hér um 942 hPa. Litirnir sýna 3 klukkustunda þrýstibreytingu. Rauðasti liturinn nær upp í 16 hPa, en við sjáum lítinn hvítan blett við lægðarmiðjuna. Þar segir spáin að þrýstingur hafi fallið um meir en 17 hPa [langt frá meti - en mjög mikið samt]. Ef vel er að gáð má einnig sjá daufar strikalínur. Þær marka þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, má þar sjá að ekki er sérlega kalt (miðað við árstíma). - En ekki eru ferðalög kræsileg meðan þetta gengur yfir. Ákafi hlýja loftsins að sunnan þrengir mjög að kalda loftinu norðvesturundan þannig að foráttuveður verður á Grænlandssundi - mikið fárviðri - meira en þau sem plagað hafa okkur til þessa í vetur. Vonandi slær því ekki að ráði inn á land.
Næsta lægð á síðan að nálgast strax á mánudag.
Hér sýna litirnir 6 stunda þrýstibreytingu (en ekki þriggja). Kortið gildir kl.18 síðdegis á mánudag, 13.janúar. Þrýstingur í þessari lægðarmiðju á að vera um 939 hPa þegar hér er komið sögu. Ekki er heldur mjög kalt - en eins og sjá má eru þrýstilínur mjög þéttar yfir landinu - ekki kræsilegt heldur.
En þeir sem eitthvað eiga undir veðri ættu að fylgjast vel með bæði spám og athugunum. Hér fara margir vandræðamöguleikar saman, vindur, úrkoma, slæmt skyggni, hálka, hugsanleg slydduísing og snjóflóð - auk svo sjávarólgu eða flóða sem áður er á minnst.
6.1.2020 | 00:19
Óróleg tíð
Tíðafar er heldur órólegt þessa dagana, minnir dálítið á rússneska rúllettu. Líkön hafa þó staðið sig allvel til þessa, en óvissa samt veruleg. Djúp lægð fer hjá landinu í nótt og í fyrramálið (aðfaranótt mánudags) - einhver leiðindi fylgja henni - alla vega rétt fyrir ferðalanga að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar og veðurathugunum.
Síðan á önnur lægð að koma að landinu á þriðjudag, enn dýpri en sú fyrri. Ástæða er til að fylgjast vel með vestanáttinni í kjölfar hennar. Leiðindin sem fylgja fara að vísu mjög eftir hitafarinu - hvessi í snjókomu er útlitið mjög slæmt, en heldur skárra þar sem blautt er í. Þetta þýðir að allar ferðir um fjallvegi eru trúlega vægast samt varasamar á þriðjudag. Sömuleiðis er lægðin svo djúp og svo hvasst verður undan landi að ef vindur fellur illa í sjávarstöðuna er varla von á góðu. Eru þeir sem eitthvað eiga undir hvattir til að fylgjast vel með þróuninni.
Svo er ekki allt búið - evrópureiknimiðstöðin er að spá óvenjulegri háloftastöðu á miðvikudaginn - svo óvenjulegri að gefa verður henni gaum. En rétt að taka fram að hún er á mörkum þess trúlega - og bandaríska líkanið er öllu vægara, og þar með e.t.v. trúlegra (en við vitum ekki enn um það).
Kortið gildir kl.18 síðdegis á miðvikudag, 8.janúar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Undanfarna daga hefur verið mjög kalt norðvestan Grænlands. Svo virðist sem kuldapollurinn hreyfist nú til suðurs. Hálendi Grænlands stíflar framrás kalda loftsins að mestu til austurs - en megi trúa líkönum slettist jafnframt gusa af kulda yfir jökulinn og niður hlíðar hans austanverðar, allt frá Hvarfi norður undir Kulusuk. Þetta er mjög vandasöm staða fyrir reiknilíkön og margt sem getur farið úrskeiðis. Fari nægilega mikið af köldu lofti yfir jökulinn og niður hinu megin dragast veðrahvörfin ofan við fossinn niður og mjög djúp háloftalægð verður til. Samkvæmt þeim reikningum sem kortið sýnir á 500 hPa-flöturinn að fara niður í 4610 metra þar sem hann er lægstur. Þetta er mjög óvenjulegt - og eins gott að ekkert hlýtt loft komist inn í lægðina. Ritstjóri hungurdiska hefur séð svona lága tölu á þessum slóðum áður - en ekki er það oft.
Þeir sem hafa auga fyrir kortum af þessu tagi sjá að jafnþykktarlínurnar (litirnir) fylla að nokkru upp í hringrás háloftalægðarinnar. Vindur við jörð er því ekki nærri því eins mikill og e.t.v. mætti búast við.
Þó er það svo að seint á aðfaranótt fimmtudags (9.janúar) er spáð fárviðri af vestsuðvestri á Grænlandshafi - eins og kort reiknimiðstöðvarinnar sýnir. Hversu mikill vindur nær alla leið til Íslands er fullkomlega óljóst á þessu stigi málsins. Með þessu fylgir spá um 11 metra ölduhæð á utanverðum Faxaflóa, Snæfellsnesi og Reykjanesi á fimmtudaginn. Vonandi sleppum við við rafmagnstruflanir af völdum seltu í þessum vestanáhlaupum.
Lægðagangurinn á síðan að halda áfram. En ritstjóri hungurdiska minnir enn á að hann gerir engar spár - en hvetur eins og venjulega lesendur til að fylgjast með spám til þess bærra aðila.
3.1.2020 | 18:16
Kalt í heiðhvolfinu
Í framhjáhlaupsfréttum er það helst að í dag mældist frost -92 stig í 25 km hæð yfir Keflavíkurflugvelli (í 20 hPa-fletinum). Í fljótu bragði finnur ritstjóri hungurdiska ekki lægri tölu í gögnum af þeim bæ, en geta verður þess að mælingar í 20 hPa-fletinum eru nokkuð gisnar. Ekki var met í næsta fleti fyrir neðan (30 hPa). Hin óvenjuútbreiddu glitský sem sést hafa víða um land tengjast þessu kuldastandi - óskaskilyrði fyrir myndun þeirra.
Glitský eru í sjálfu sér ekki óalgeng yfir landinu að vetrarlagi. Fyrir löngu ritaði ritstjóri hungurdiska stuttan pistil um árstíðasveiflu þeirra á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að að meðaltali sjást þau einn dag í hverjum janúarmánuði - en í reynd felur meðaltalið mikil áraskipti. Stundum sjást þau fjölmarga daga - en síðan geta liðið allmörg ár án þess að þeirra verði vart.
Algengast er að glitskýin séu afleiðing þess að mjög hlýtt loft langt úr suðri ryður veðrahvörfunum upp - og þar með lyftist allt heiðhvolfið þar fyrir ofan - og kólnar við að lyftast. Bylgjur sem landið (eða jafnvel Grænland) mynda auka á líkur þess að loftið kólni niður í kjörhita skýjanna - sem er í kringum -80 stig, kannski nægja -75 stig. Vegna þess að þessi framsókn er úr suðri, er langoftast skýjað um landið sunnan- og vestanvert þegar þetta á sér stað og skýin sjást ekki - lágskýin fela þau. Glitský virðast því vera mun tíðari á Norður- og Austurlandi heldur en suðvestanlands.
Fyrir kemur að skammdegisröst heiðhvolfsins slær sér af afli suður fyrir Ísland og heiðhvolfið ofan landsins lendir nærri miðju skammdegislægðar heiðhvolfsins - sem reyndar er misköld. Inni í lægðinni er frost oft meira en -75 stig í 22 til 35 km hæð. Þar geta því verið glitský - svo virðist sem að bylgjuform sé ekki eins áberandi á þeim skýjum og þeim sem fylgja suðvestanáttinni.
Þau glitský sem sést hafa að þessu sinni eru í skammdegisröstinni sjálfri - þar eru bylgjur - kannski vaktar af Grænlandi. Röstin er óvenjuköld.
Myndin sýnir stöðuna í 30 hPa-fletinum [23 km hæð] á sunnudagsmorgni, 5.janúar - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Rétt austan við land á hiti að fara niður í -90 stig. Spár gera ráð fyrir því að eitthvað hlýni þarna uppi í næstu viku.
Á veðursíðum samskiptamiðla er mikið fjallað um stöðuna í heiðhvolfinu. Ástæðurnar eru e.t.v. tvíþættar. Annars vegar virðast breytingar vera að eiga sér stað þar uppi í tengslum við aukin gróðurhúsaáhrif - en hins vegar er nú mikið leitað að tengslum vindafars í heiðhvolfi og veðurs niður við jörð. Brotni skammdegislægðin upp - eða aflagist hún að mun komi fram áhrif á heimskautaröst veðrahvolfs. Ekki er ólíklegt að svo sé í raun og veru. Leita menn leiða til að spá ástandi heiðhvolfs lengra fram í tímann heldur en neðar - mynstur þar uppi er einfaldara heldur en veðrahvolfinu. Við höfum gefið þessum málum gaum á hungurdiskum áður og verður það ekki endurtekið að sinni.
En aftur að upphafi þessa pistils. Mælingin frá því um hádegið, -92 stig í 20 hPa er ekki vís - varla leið að staðfesta hana - og við eigum ekki mikið af aðgengilegum gögnum úr þeim fleti til samanburðar. En tölvuskrár innihalda allgóð gögn úr 30 hPa-fletinum. Lægsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í honum er -87,2 stig - met sett á annan jóladag 2015. [Minnisgóðir kannast kannski við ofurlægðina sem fór yfir landið nokkrum dögum síðar].
Á undanförnum árum hafa allmörg lágmarkshitamet fallið í heiðhvolfinu yfir Keflavíkurflugvelli - er það í samræmi við beinar væntingar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. En hafa verður í huga að breytingar á hitafari heiðhvolfsins geta einnig haft áhrif á hringrásina, bylgjukerfið - langt í frá er ljóst hvernig fer með það mál.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2020 | 20:08
Aldarafmæli Veðurstofunnar
Veðurstofa Íslands var stofnuð þann 1.janúar 1920. Í fyrstu var hún deild í Löggildingarstofunni. Veðurstofan tók þá þegar við formlegum veðurathugunum í landinu af þeirri dönsku en hún hafði komið upp allþéttu athugunarkerfi og rekið það í nærri hálfa öld (frá 1872). Síðustu árin var þó nokkuð farið að þynnast um. Kannski erfiðar samgöngur í heimsstyrjöldinni fyrri hafi ráðið nokkru, kannski eitthvað annað. Veðurskeyti höfðu fyrst borist frá landinu með reglubundnum hætti um sæsímann haustið 1906 og voru mjög mikilvæg veðurspám í Evrópu þó skeytastöðvarnar væru ekki margar. [Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Grímsstaðir á Fjöllum, Seyðisfjörður og Vestmannaeyjakaupstaður]. Þessi veðurskeyti voru einföld, sjávarmálsþrýstingur, hiti, vindátt og vindhraði. Skýjahulu og veðri var lýst með aðeins einum tölustaf (sem er þó meira en flestar sjálfvirkar athuganir bjóða upp á í dag).
Í tilkynningu sem dagblaðið Vísir birti þann 1.febrúar segir m.a.:
Fyrst um sinn fylgir veðurlýsingunni enginn spádómur um það, hvernig veðrið muni verða. Slíkir spádómar eru nú sem stendur miklum vandkvæðum bundnir, og mundu ekki geta orðið svo ábyggilegir, að þeir kæmu að verulegu gagni. En til þess er ætlast, að þeir, sem hafa áhuga á því að vita um komandi veður, geri sér að venju að athuga veðurlýsingarnar, og reyni að finna í þeim nýjar reglur um veðurfarið.
En hvers konar veður blasti við mönnum þennan fyrsta starfsdag Veðurstofunnar? Við nýtum okkur bandarísku endurgreininguna sem ábendingu um stöðu þrýstikerfa.
Hæðarhryggur er yfir landinu vestanverðu, hæð yfir Grænlandi og kröpp lægð austur af Nýfundnalandi. Mikil norðanátt er fyrir austan land og teygir sig frá Svalbarða allt suður til Afríku. Sé þetta borið saman við raunveruleikann á Íslandi kemur í ljós að aðalatriðin virðast rétt, en greiningin vanmetur styrk norðanáttarinnar austanlands - ekki víst að allar þrýstiathuganir landsins séu með í leiknum.
Það er helsta kraftaverk endurgreininga að þær sýna okkur líka stöðuna í háloftunum - og þar með líklegar skammtímahreyfingar þrýstikerfa og þykktina að auki. Sú síðastnefnda virðist oft vera lítillega ofmetin endurgreiningum á fyrsta hluta 20.aldar og á 19.öld.
Á landinu var veðrið um miðjan dag um það bil eins og kortið hér að neðan sýnir:
Bjartviðri var um landið sunnan- og vestanvert - og líka á Norðurlandi vestanverðu. Rokhvasst var austast, 10 vindstig í Papey, 9 á Teigarhorni og 8 á Seyðisfirði. Vestanlands var austan og norðaustan kaldi eða stinningskaldi, hægur norðanlands, á Akureyri andaði af suðri og logn var á Ísafirði.
Afgangur þessa fyrsta vetrar Veðurstofunnar varð nokkuð erfiður. Það var mjög umhleypingasamt og snjór með allra mesta móti á Suður- og Vesturlandi. Vetur sem þessi hefði orðið annasamur á spávakt Veðurstofunnar enn þann dag í dag og gular og appelsínugular viðvaranir viðloðandi. Nánar á lesa um veður og tíð á árinu 1920 í samantekt hungurdiska.
Veðurstofa Íslands er ein af grunnstoðum nútímasamfélags og vonandi að hún fái enn að blómstra. Hún hefur líka verið góður og vinsamlegur vinnustaður ritstjóra hungurdiska í meir en 40 ár og kann hann bæði stofnun og samstarfsfólki öllu bestu þakkir.
Ritstjórinn þakkar líka lesendum hungurdiska fyrir vinsemd á nýliðnu ári og óskar þeim öllum hins besta í framtíðinni.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010