Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar

Fyrstu 10-dagar janúar hafa verið heldur uppátækjasamir og stórgerðir. Við getum nú laumast handan við hornið og borið hita í Reykjavík og á Akureyri saman við sömu daga 1991 til 2020 - og sleppt 1961-1990. Í Reykjavík er meðalhiti -0,2 stig, -1,0 stigi neðan þessa nýja meðaltals, en -1,3 neðan meðaltals sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er í 14.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar í fyrra, meðalhiti þá 4,9 stig, en kaldastir voru þeir 2001, meðalhiti -4,7 stig. Á langa listanum er hitinn í 66.sæti (af 145), hlýjastir voru þessir tíu dagar árið 1972, meðalhiti 6,7 stig, en kaldastir 1903, meðalhiti -7,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu -0,6 stig, í meðallagi 1991 til 2020, en -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austurlandi að Glettingi, þar er hitinn í 11. hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, þar er hitinn í 17.sæti.

Hiti er neðan meðallags síðustu 10 ára á flestum veðurstöðvum, mest er neikvætt vik í Bolungarvík, -2,8 stig, en jákvæðast er vik á Höfn í Hornafirði, +0,4 stig.

Úrkoma er um tvöföld miðað við meðallag í Reykjavík (64,8 mm) á Akureyri (30,4 mm).

Sólskin hefur ekki mælst til þessa í janúar í Reykjavík - vitað er um slíkt 15 sinnum áður - síðast 2002 og 1993.

Loftþrýstingur hefur verið lágur, í Reykjavík um -20 hPa neðan meðallags, hefur aðeins 9 sinnum verið lægri sömu daga síðustu 199 ár.

Illviðrasamt hefur verið. Ritstjóri hungurdiska heldur úti tveimur „listum“ um illviðradaga. Fjórir dagar hafa komist á svonefndan hlutfallslista (talan er að vísu ekki endanleg) - það er ekki mjög algengt að svo margir dagar skili sér nánast í rykk (enginn dagana er þó mjög ofarlega). Á hinum listanum sem valinn er eftir meðalvindhraða er aðeins einn dagur sem nær máli. Þetta misræmi bendir til þess að illviðrin nú hafi verið snörp - en skammvinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Ágúst 2020
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

 • ar_1871p
 • ar_1871t
 • ar_1870p
 • ar_1870t
 • w-blogg010820a

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (9.8.): 11
 • Sl. sólarhring: 279
 • Sl. viku: 995
 • Frá upphafi: 1951351

Annað

 • Innlit í dag: 11
 • Innlit sl. viku: 847
 • Gestir í dag: 11
 • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband