Hæðarhryggurinn fyrir vestan land

Háloftahæðarhryggurinn fyrir vestan land virðist lítið ætla að gefa sig - en þokast ýmist fjær eða nær. 

w-blogg060619a

Kortið sýnir nýjustu hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um norðurhvelsstöðuna seint á laugardagskvöld (8.júní). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim má ráða vindstyrk og átt. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við viljum helst vera inni í gulu eða brúnu litunum á þessum tíma árs - en meðaltalið er þó lægra. Grænu litirnir eru þrír, sá dekksti kaldastur þeirra - hann liggur reyndar yfir landinu norðanverðu í dag (fimmtudag) en á sunnudag hefur hann hörfað heldur - og vesturhluti landsins er kominn í ljósgræna litinn (þykkt meiri en 5400 metrar). Þannig að heldur hlýnar á landinu í heild frá því sem nú er.

Kuldapollurinn sumarhrellir er nú við austanvert Barentshaf og á að halda sig þar næstu daga. Bræður hans reika um stefnulítið á íshafsslóðum - en gætu komið við sögu hér síðar - beint eða óbeint. 

Sé rýnt í smáatriði kortsins kemur í ljós að austlægari átt nær til syðsta hluta landsins. Kortið hér að neðan sýnir þetta nánar.

w-blogg060619b

Þetta er sami tími - og jafnhæðarlínurnar eru þær sömu (dregnar þéttar). Mikill norðaustanstrengur er yfir landinu vestanverðu - þar er þurrt og hlýtt loft frá Grænlandi - en kalt lægðardrag yfir landinu - austan þess er hæg austlæg átt - en leifar háloftakuldans sem gekk yfir okkur er fyrir sunnan land. [Litir sýna hita]. Austanáttin er skammvinn að sögn og hæðarhryggurinn á að styrkjast enn frekar á hvítasunnudag og næstu daga á eftir. Hvort hann nær að hreinsa burt kuldann í neðri lögum verður bara að koma í ljós.

En skemmtideild reiknimiðstöðvarinnar er farin að sýna dag og dag með mun hlýrra veðri - við skulum þó taka þeim sýningum með varúð þar til nær dregur - vona það besta. Jafnframt er verið að veifa mjög háum sjávarmálsþrýstingi um miðja næstu viku, jafnvel ofan við 1035 hPa sem er mjög óvenjulegt hér við land eftir 10. júní. - Aðeins eitt dæmi þekkt - hitabylgjan mikla í júní 1939 - ekkert slíkt er reyndar í spánum sem stendur. 

Það styttist í að sólskinið í Reykjavík fari að teljast óvenjulegt - viðbrigði frá því í fyrra - en þá var algjörlega sólarlaust í Reykjavík þann 6. til 11.júní. Við bíðum með að ræða tölur þar til síðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 15
  • Sl. sólarhring: 436
  • Sl. viku: 2731
  • Frá upphafi: 2378307

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 2420
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband