Smávegis enn af maí

Eins og fram kom hér á hungurdiskum á dögunum var meðalloftþrýstingur í maí hár - tvisvar áður jafnhár og sex sinnum sjónarmun hærri. Varla mjög marktækur munur á hæstu gildum. En vikið er +7,8 hPa yfir meðallagi maímánaða áranna 1961-1990 og 9,3 hPa yfir meðallagi síðustu tíu. 

Við sjáum hér að neðan hvernig vikin hafa lagst á Norður-Atlantshaf (kortið gerði Bolli Pálmason). Hér er miðað við maímánuði áranna 1981 til 2010.

w-blogg030619a

Hæðin yfir Grænlandi óvenjuöflug, en þrálátar lægðir suður í hafi og reyndar líka yfir Skandinavíu. Eins og minnst var á í fyrra pistli hefur meðalþrýstingur maímánaðar ekki verið svona hár hér á landi frá 1975, var þá 1020,2 hPa í Reykjavík eins og nú. Hann var rétt aðeins hærri í maí 1968 (1020,5 hPa), en síðan þarf að fara aftur til 1935 (1020,5 hPa) og 1915 (1020,3 hPa). Hæsta maímeðaltalið sem við þekkjum er frá 1840, 1022,7 hPa - en eins og áður sagði er nákvæmni þeirrar tölu ekki fullvís - þó vafalítið hafi þrýstingur verið óvenjuhár. 

Það gerist auðvitað endrum og sinnum að þrýstingur „hittir vel í“ og mánaðarmeðaltöl verða há - þarf þvi ekki að koma á óvart. Það kom meira á óvart að lægsti þrýstingur sem mældist á landinu öllu í maí (miðað við sjávarmál) var 1008,2 hPa. Við flettingar í metaskrám ritstjóra hungurdiska kom í ljós að þetta er óvenjuleg tala. Lægsti þrýstingur maímánaðar hefur að vísu tvisvar verið hærri, 1838 (1009,7 hPa) og 1843 (1009,1 hPa) en hafa verður í huga að þau árin var þrýstingur ekki mældur nema á einum stað á landinu - og 1838 ekki nema einu sinni á dag. Töluverðar líkur eru því á því að hefði núverandi stöðvakerfi verið í rekstri hefðu einhverjar lægri tölur sýnt sig einhversstaðar í þessum mánuðum. Auk þess er ákveðin óvissa í þessum gömlu mælingum - en sú óvissa er reyndar á báða vegu - til lækkunar og hækkunar. 

Ritstjóri hungurdiska fylgist líka með þrýstibreytileika frá degi til dags (jú - það má margt gera sér til hugarhægðar). Breytileikinn (eins og ritstjórinn skilgreinir hann) hefur aðeins 7 sinnum verið minni í maí heldur en nú. Síðast 1931. 

Við höfum sum sé verið að upplifa eitthvað óvenjulegt - við erum reyndar oft að því en tökum ekki eftir (og kunnum lítt að meta). Við tökum t.d. ekkert eftir því hversu óvenjulegt það er að draga tígulsjöið úr spilastokk fyrst spila - enda lítið merkilegt við það fyrr en við drögum síðan tígul eftir tígul eftir tígul eftir tígul - án þess að aðrir litir geri vart við sig. Svipað er með veðrið - stakur háþrýstimánuður (eða hlýindamánuður) segir ekkert, en þegar ekkert dregst annað úr stokknum fer grunur um að eitthvað kunni að vera á seyði að gera vart við sig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 63
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 1812
  • Frá upphafi: 2348690

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 1587
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 56

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband