Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2019

Hlýjasti apríl - víða um land - en ekki þó á landsvísu

Nú virðist ljóst að aprílmánuður verður sá hlýjasti síðan mælingar hófust bæði í Reykjavík og í Stykkishólmi. Líklega jafnar hann fyrra met á Akureyri (síðasti dagurinn ræður nokkru um endanlegt sæti þar). Austanlands er hann einnig í flokki hinna hlýjustu, en ekki alveg á toppnum. Á landsvísu virðist hann lenda í öðru sæti - á eftir apríl 1974. 

Tölur koma síðar - að birta þær nú gæti valdið einhverjum ruglingi.

 


Endast hlýindin?

Þau endast auðvitað ekki endalaust, en skiptar skoðanir eru um það hvernig þeim lýkur. Lítið virðist á framtíðarspám að byggja hvað þetta varðar - margoft er búið að spá kólnandi veðri „í næstu viku“ án þess að úr hafi orðið. En þar sem hlýindin eru farin að verða óvenjuleg hvað lengd og úthald varðar (snerpan er síðri) hlýtur að draga að lokum.

Við skulum líta á hina almennu stöðu á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin spáir að hún muni verða síðdegis á mánudag, 29.apríl.

w-blogg270419a

Enn er hér allt í sóma hvað okkur varðar. Við erum sunnanmegin í miklum og hlýjum hæðarhrygg (breið strikalína) sem liggur frá Norðursjó norðvestur til Grænlands. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim má ráða vindátt og vindstyrk í rúmlega 5 km hæð. Litirnir vísa á þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Á kortinu er hiti langt ofan meðallags við Ísland. 

Til að veður kólni þarf hæðarhryggurinn að hörfa frá landinu á einn eða annan veg - t.d. slitna í sundur þannig að kalt loft úr norðri eða vestri eigi greiða leið til landsins. Hér er enn langt í allt slíkt. 

Mjög dregur nú af kuldapollunum miklu, Stóra-Bola yfir Kanada og Síberíu-Blesa við norðurströnd Síberíu - en þeir eru samt ekki alveg dauðir og geta vel valdið usla komist þeir í rétta stöðu. Það kuldakast sem reiknimiðstöðvar hafa verið að nefna undanfarna daga (en bara stundum) á að koma úr norðri - og á að slíta hrygginn hagstæða í sundur við Ísland á fimmtudag/föstudag. En alls ekki er útilokað að skotið geigi. Kannski fer hiti aðeins niður í það sem venjulegt er á þessum árstíma. Slíkt yrðu þó töluverð viðbrigði eftir hin langvinnu hlýindi. 


Hlýindi enn

Þó enn séu fjórir dagar eftir af apríl (þegar þetta er skrifað á föstudagskvöldi) er ljóst að hann verður í flokki þeirra allrahlýjustu sem vitað er um. Í Reykjavík er hitinn nú í þriðjaefsta sæti og hefur náð 6,0 stigum. Meðalhiti í apríl 1974 var 6,3 stig. Til að jafna það þarf meðalhiti síðustu fjóra dagana að vera 7,9 stig eða meira - ekki alveg útilokað.

Í Stykkishólmi er meðalhitinn nú 5,3 stig, hlýjasti apríl þar um slóðir er 1974 (eins og í Reykjavík). Meðalhiti í Stykkishólmi þarf að vera 6,3 stig síðustu fjóra dagana til að jafna metið frá 1974. 

Á Akureyri þarf meðalhiti síðustu fjóra daga mánaðarins að vera 10,1 stig til að jafna metið frá 1974. Það er ólíklegra að metið falli þar heldur en á hinum stöðvunum tveimur. En apríl 1974 er langhlýjasti apríl sögunnar á Akureyri, meðalhiti þá var 6,8 stig, næsthlýjast var í apríl 1926, þá var meðalhiti stigi lægri, eða 5,7 stig. Nú (eftir fyrstu 26 dagana) er hann við 6,3 stig. Annað sætið virðist því nokkuð öruggt. 

Eyjafjallastöðvarnar Steinar og Hvammur eru hlýjastar það sem af er mánuði. Meðalhiti á þeim er nú 6,7 stig, meðalhiti er sömuleiðis 6,7 stig við Sandfell í Öræfum og 6,6 stig í Önundarhorni undir Eyjafjöllum. 

Hæsti viðurkenndi mánaðarmeðalhiti í apríl hér á landi er 7,1 stig á Hellu á Rangárvöllum 1974. Sjónarmun lægri hiti (líka 7,1 stig) reiknast á Loftsölum í Mýrdal sama ár, 1974. Ólíklegt er að þessi met verði slegin nú. Hitamælingar á Eyjafjallastöðvum Vegagerðarinnar þykja grunsamlegar fyrstu árin sem stöðvarnar voru í rekstri, meðalhiti í apríl 2002 er þannig 7,8 stig í Hvammi - harla ótrúleg tala miðað við það að methiti var hvergi annars staðar á sama tíma. 

Ein gömul tala, 7,1 stig er til frá Ofanleiti í Vestmannaeyjum, frá apríl 1842. Trúlega hefur sól náð að skína á mælinn einhverja daga - en annars var þetta í raun og veru hlýr mánuður - meðalhiti í Reykjavík reiknast þá t.d. 5,5 stig - og 6,4 stig í Hvammi í Dölum allgóðar tölur. 

Í viðhenginu er smávegis nördafóður - aðallega tengt háum aprílmeðalhita - en óttaleg hrúga.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gleðilegt sumar

Vetrarmisseri íslenska tímatalsins er nú liðið, það var hlýtt, meðalhiti í Reykjavík var 2,4 stig, um 1,4 stigum ofan meðallags vetra síðustu 70 ára og 0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu vetra. Hitavik eru svipuð á Akureyri.

w-250419a

Hlýindin sjást vel á mynd, ekki nema þrír vetur á tímabilinu hlýrri (1964, 2003 og 2017). Ef við lítum enn lengra aftur í tímann bætast þrír við (1929, 1942 og 1946) - og svo einn á 19. öld (1847). Það vekur athygli á myndinni að enginn vetur hefur verið neðan meðallags áranna á myndinni síðan 2001 (svarta þverstrikið) og vetrarmeðalhiti í Reykjavík ekki verið neðan frostmarks síðan 1995. Spurning hvað þessi hlýindi endast - trúlega ekki endalaust þó. Kaldur vetur hlýtur að sýna sig um síðir. Hlýindaskeiðið sem náði hámarki á árunum 1927 til 1946 var ekki „jafnhreint“ og það sem við höfum nú verið að upplifa. Vetrarhiti var t.d. neðan frostmarks bæði 1931 og 1937 (auk svo 1951 og nokkurra ára á kuldaskeiðinu). 

Úrkoma í Reykjavík var tæplega 40 mm umfram meðallag síðustu tíu ára í vetur, en um 30 mm á Akureyri. 

Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og öðrum velunnurum gleðilegs sumars. 


Af árinu 1903

Tvennum sögum fer af tíðarfari á árinu 1903 - sunnanlands þótti tíð lengstum hagstæð. Sumarið þar var þurrt og gæft, en á Norður- og Austurlandi var sumarið í flokki þeirra verstu sem vitað er um. Sérlaga kalt var þar í ágúst og fyrstu dagana í september. Ekki var mikið um slæm stormviðri á árinu - þó það væri að sjálfsögðu ekki tjónlaust hvað slíkt varðar. Slys á sjó og landi voru tíð. Hér eru þó ekki rakin nema þau sem tengdust veðri beint. 

Á landsvísu var ágúst einn hinn kaldasti sem vitað er um. Á öllu svæðinu frá Stykkishólmi í vestri, norður og austur um og suður í Austur-Skaftafellssýslur var hann kaldari en september. Meðalhiti á Akureyri í mánuðinum var aðeins 5,7 stig. Mars, apríl, maí, júlí, október og nóvember teljast einnig hafa verið kaldir á landsvísu, desember eini hlýi mánuður ársins. 

Meðalhiti í Reykjavík var 3,4 stig, sama og 1983, en 2,0 stig á Akureyri, hálfu stigi hlýrra en 1979. Í Stykkishólmi var meðalhiti ársins 1903 2,4 stig, lítillega hærri en 1979. Hæsti hiti ársins mældist á Akureyri 13.júní, 21,1 stig, en lægstur -21,2 stig í Möðrudal 28.nóvember. 

ar_1903t

Myndin sýnir hitafar í Reykjavík frá degi til dags árið 1903, lágmarksmælingar féllu niður eftir 1.september - en við sjáum aðalatriði hitafarsins þrátt fyrir það. Frost voru ekki langvinn um veturinn, en um vorið hlýnaði hægt. Þó ágústkuldarnir hafi verið mun minni á Suðurlandi heldur en fyrir norðan var þar alveg hlýindalaust í águst og næturfrost gerði undir lok mánaðarins. Eftir það kom allhlýr kafli. 

Tólf dagar teljast mjög kaldir í Reykjavík (leit náði ekki til þriggja síðustu mánaðanna), tveir þeirra voru í janúar (7. og 8.), fjórir í apríl (12. til 15.), fimm í ágúst og einn í september. Enginn dagur telst hlýr í Reykjavík. Í Stykkishólmi teljast tíu dagar kaldir, einn í apríl, sjö í ágúst og tveir í nóvember. 

Ágúst var sérlega þurr sunnanlands, í Reykjavík mældist hún aðeins 0,4 mm og ekki nema 8,1 austur á Teigarhorni. Árið í heild var þó ekki þurrt á þessum slóðum, úrkoma yfir meðallagi. 

ar_1903p

Loftþrýstingur var sérlega lágur í febrúar og mars. Jónas Jónassen landlæknir fylgdist vel með loftvog sinni og segir þrýstinginn hafa farið niður í 931,3 hPa bæði 20. og 24.febrúar. Sömuleiðis segir hann frá 941,3 hPa í Reykjavík þann 23.janúar. Á opinberum veðurstöðvum fór þrýstingur lægst í 932,6 hPa í Vestmannaeyjum þann 24.febrúar og lægsta janúartalan er úr Stykkishólmi, 948,3 hPa. Þessar stöðvar mældu aðeins þrisvar á dag og tölur Jónasar vel mögulegar - þó ekki hafi loftvog hans hlotið opinbera vottun. Meðalþrýstingur marsmánaðar var sá næstlægsti sem um getur. 

Hæsti þrýstingur ársins var ekki sérlega hár, 1040,0 hPa sem mældist á Akureyri þann 15.apríl. Meðalþrýstingur júnímánaðar var hins vegar með hæsta móti. Þrýstióróavísir sýnir mjög órólegan febrúarmánuð, en rólegan október. 

Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1903 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. 

Í Skírni gefur Gísli Skúlason yfirlit um árið 1903:

Veturinn var frá nýári fremur frostvægur um land allt, en umhleypingasamur og snjóþungur í meira lagi víðast hvar á landinu. Vorið var kalt um land allt, og jörð greri seint. Má svo segja að ekki hlýnaði í veðri fyrr en um miðjan júní. Sumarið var sunnan- og vestanlands, allt að Ísafjarðarsýslu, mjög þurrkasamt en kalt. Grasvöxtur var víðast hvar í meðallagi, en nýting ágæt á þessu svœði öllu. ... Á Norður- og Austurlandi var sumarið afarkalt og eigi gott; sumstaðar í Strandasýslu, Þingeyjarsýslum og Norðurmúlasýslu, var það eitt hið lakasta, er menn muna eftir. Var heyafli í þessum héruðum litill og nýting ill. Sumstaðar náðust ekki inn töður fyrr en um göngur, og var þá stórskemmd svo sem vœnta mátti. Í nyrstu sýslunum snjóaði nálega á hverjum degi á fjöll, og oft í byggð. Í september gerði hret svo mikið, að kýr voru sumstaðar teknar á gjöf; margt fé fennti eða fórst í ár og lœki. Haustið var áfallasamt, en þó yfirleitt gott sunnanlands. Vetur hófst í fyrra lagi með snjókomu og umhleypingi. Var fénaður víða tekinn á gjöf mánuð af vetri. Um jólin þiðnaði og tók upp allan snjó.

Hinn 14. janúar gekk ofsaveður á Austfjörðum og olli miklum skemmdum bæði á bátum og húsum, og 15. janúar gerði sjávarflóð mikið sunnanfjalls. Urðu af því miklar skemmdir, einkum í Herdísarvík. ... Ofsaveður garði 8.—9. mars og gekk víða um land. Urðu að því mikil spell og manntjón. Þá sleit skipið Loch Fyne upp á Reykjavikurhöfn og rak upp í kletta. ... Þá sleit upp skipið „Randers", er Geir Zoega kaupmaður átti, og brotnaði það á Eiðisgranda. Þorsteinn skipstjóri Þorsteinsson missti nýjan bát með steinolíuhreyfivél. Fiskiskipið „Sturla", er Sturla kaupmaður Jónsson átti, sökk á Eiðsvík. Af þilskipinu „Valdemar", fórust 2 menn, og hinn þriðji meiddist svo mjög, að hann beið bana af. Af fiskiskipinu „Sigríði", eign Th. Thorsteinssonar kaupm., fórst einn maður. Afþilskipinu „Karolinu", eign Runólfs Ólafssonar frá Mýrarhúsum, drukknuðu B menn, þar á meðal skipstjórinn, ... Hinn 2. apríl fórst bátur úr Ólafsvík með 6 mönnum á. Í páskavikunni [páskar 12.apríl] var stormasamt mjög. Þá fórst skipið „Orient" að því er menn hyggja; sást til þess 7. apríl, en hefir eigi til þess spurst síðan. Týndust þar 22 menn auk skipstjóra, allir efnismenn á besta aldri. ... Hinn 5. sept. gekk ofsaveður um Norðurland, er gerði allmikil spell. „Carl", skip Höpnersverzlunar, strandaði á Blönduósi, og síldveiðaskip rak upp á Siglufirði. 19. okt. rak verslunarskipið „Guðrún" á Dýrafirði á land i Hvammsfirði og brotnaði. — 20. okt. fórst póstbáturinn, er gekk milli Flateyjar og Stykkishólms, og týndist þar formaðurinn ... og 5 menn aðrir. — 28. des. fauk kirkjan í Goðdölum í ofviðri og brotnaði. ...

Einar Helgason gefur ítarlegt yfirlit um árið 1903 í Búnaðarriti 1904:

(s161) Árið mátti heita farsælt hér sunnanlands. Þurrkarnir um heyskapartímann gerðu meira en vinna upp á móti vorkuldanum. Á Vesturlandi er það talið i meðallagi að undanteknum norðursýslunum, ísafjarðar og Stranda, þar var árferðið lakara, bæði til sjós og sveita. Út yfir tekur sumstaðar í Strandasýslu, einkum í Trékyllisvíkinni, þar var einna harðast og „þó er enginn Ameríkuhugur í fólki, það gerir sér von um betri og sælli daga að öllu þessu af léttu". Á Norðurlandi var árið erfitt; látið einna best af því í Skagafirðinum. Á Austurlandi var það „með lakari árum, þó eigi miklu lakara en árið 1882, en mikið betra en 1892".

(s150) Vetur frá nýári var um land allt fremur frostalítill en umhleypingasamur; snjóasamt í meira lagi víðast hvar. Á austurhelmingi landsins, austan við línu dregna milli Dyrhólaeyjar og Dalatáar byrjaði árið með harðindum, en með þrettánda brá til hláku. Í Kjósarsýslu varð beit lítt eða ekki notuð sökum illviðra og þess að fénaður er henni óvanur víðast. Á ofanverðum Mýrum og í Borgarfirði voru hagar oftast allgóðir i janúar og febrúar en haglítið og stundum haglaust í mars. Á Gilsbakka voru 18 frostdagar í janúar, 19 í febrúar og 27 í mars. Við Ísafjörð var vetur í harðara lagi, lengstum norðanátt með snjókomu og töluverðu frosti, en veruleg harðindi hófust þó fyrst með vorinu. Í Víkursveit í Strandasýslu var veturinn talinn með mestu snjóavetrum. Í Húnavatns-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslu var snjólétt. Í Skagafirði komu hross mjög lítið á gjöf nema ungviði. Í Þingeyjarsýslu, á öllu Austurlandi og í Skaftafellssýlum var seinni parturinn harður og snjóþungur. Elstu menn í Mýrdal muna ekki eins mikil snjóalög og þar voru í marsmánuði, mest um mánaðamótin mars og apríl. Í Rangárvalla- og Árnessýslum var og í meira lagi snjóasamt og því lítið um útbeit frá nýjári til sumars nema á bestu hagagöngujörðum. Í Vestmanneyjum að vanda mjög vindasamt, snjókoma mjög lítil, nema nokkur í mars, en regn því meira. Úrkoma fyrstu 3 mánuðina 454 mm samtals. Frost mjög væg.

Vorið var kalt um land allt og jörð greri seint. Úr Þingeyjarsýslu er skrifað, að tíð hret og rigningar hafi verið um vorið; annars var það allstaðar mjög þurrviðrasamt að Vestmannaeyjum undanskildum. Í Reykjavík var almennt sáð í garða 20.— 30. maí; í Dölum ekki fyrr en 1.— 15. júní vegna klaka. Á ofanverðum Mýrum og Borgarfirði voru kýr á gjöf allan maí, öðrum skepnum létti á um og undir mánaðamótin apríl og maí, sumstaðar þó ekki svo snemma. Góð veðurátta í júní en alt vorið gróðurlítið. Á Gilsbakka voru 19 frostdagar í apríl, 4 í maí, aldrei frost um daga í júní, en næturfrost fjórum sinnum.

Við Ísafjörð voru jarðbönn inn til fjarða og dala sökum snjóþyngsla fram undir maímánaðarlok. Að Ströndum rak ís 16. apríl, er fór til fulls 25.maí. Byrjaði að gróa seinast í maí. Í Eyjafirði ekki sauðgróður fyrr en um Jónsmessu, þá var rúið geldfé. Í Múlasýslum var góð tíð allan júní. Á Jökuldal, Vopnafjörð og heiðarnar þar á milli, sömuleiðis um allt Úthérað, féll aska aðfaranóttina 29. maí og tafði hún talsvert fyrir gróðri, að öðru leyti varð eigi vart, að hún gerði mein. Á Suðurlandi var því nær gróðurlaust til fardaga. Í Mýrdal var kúm gefið fram í miðjan júní.

Sumarið. Sunnan- og vestanlands, á öllum kaflanum frá Hjörleifshöfða vestur að Vestfjörðum var sumarið eitt hið þerrisamasta sem menn muna, en ekki var það hlýtt. Grasspretta í meðallagi, nýting ágæt. Heyskapur í meðallagi að vöxtunum en ágætur hvað gæðin snerti. Í Reykjavík og grennd ein vætuvika 11. —19. september. Á ofanverðum Mýrum og Borgarfjarðarsýslu rigndi lítið eitt í september. Fjórar frostnætur komu í ágúst og eins í september. Vegna kulda í ágúst þornaði hey ekki fljótt. Í Dölum gat ekki heitið að hlýr dagur kæmi í ágúst; vanalega ekki nema 3—5 stiga hiti um hádag, þó glatt sólskin væri. Í vestanverðri Barðastrandarsýslu var sumarið fremur kalt, en framúrskarandi þurrviðrasamt fram í miðjan september, hvessti þá af norðri með illviðri og upp frá því var „hagstæð óþurrkatíð" mánuðinn út. Í Ísafjarðarsýslu og öllum norðursýslum landsins, var sumarið mjög illviðrasamt, kalt með sífelldum rigningum og snjókomu; grasspretta varð þó á endanum hátt upp í það í meðallagi og heyskapur sumstaðar líka, en nýting mjög slæm. Betra inn til dala en á útsveitum. Við Ísafjörð voru sífeldir norðanstormar allan ágúst og meiri hluta september; snjóaði næstum daglega í fjöll og oft í byggð, og í byrjun september gerði slíkt stórhret, að kýr voru teknar á gjöf og stóðu sumstaðar inni allt að viku. Fé fennti á fjöllum og fórst í ár og læki.

Í Strandasýslu byrjaði sláttur um miðjan júlí. Þurrviðrasamt út þann mánuð, en mjög kalt. Náðu þeir þá töðu inn, sem fyrst byrjuðu að slá. Í Víkursveit náðist taða ekki inn fyrr en um leitir og þá stórskemmd og nálega ónýt. Í Húnavatnssýslu varð alsnjóa í ágúst, viða ekki hægt að sinna heyverkum fleiri daga. Í Skagafjarðarsýslu góður júlí. Tún spruttu allt að því í meðallagi, mýrar í lakara lagi, flæðiengi vel. Ágúst ákaflega kaldur, oft ekki meir en 4—5° hiti um hádag og frost á nóttu. Menn muna ekki annan eins kulda síðan 1882. Heyfengur manna er í lakara meðallagi, en hey viðast til dala með góðri verkun, einkum töður. Í Eyjafirði byrjaði sláttur almennt 20. júlí. Úr því gekk í megna óþurrka og kulda, allt til 22.—24. ágúst, þá gerði þurrkflæsur með næturfrosti, náðu þá flestir töðum og nokkuru útheyi í innsveitum en nærfellt engir á útsveitum. Svo gekk í kaldar stórrigningar með 1—3° hita (R) nótt og dag. Þykkur snjór á fjöllum; rofaði upp þrjá dagana fyrstu af september, komu þá næturfrost svo flekkir voru frosnir langt fram á dag. 5.—6. september gerði aftur rigningu svo svæsna að ekki hefir önnur eins komið síðan 1887. Drap þá hey víða til stórskemmda. Sama skaða gerði þessi rigning i Þingeyjarsýslu. Þá kom kálfasnjór í Siglufirði og allir fjallvegir á útsveitum voru ófærir nema gangandi manni á skíðum. 14.—17. sept. hiti og sunnanvindur, en þá fór að rigna aftur en þó minna en áður, en þokuloft og þerrilaust. Nærfellt allt hey sem slegið var eftir 17. sept. varð úti. Á útsveitum náðust sáralítil hey fyr en 15. sept. en bágast var þó hvað þau skemmdust af rigningum eftir að þau komust undir þak.

Í Norður-Þingeyjarsýslu gerði þurrkflæsur í byrjun sept. svo margir náðu töðum sínum en í sept. gerði hríðar miklar með norðan stormum. Snjókoman svo mikil að fé fennti á heiðum og sumstaðar var ekki hægt að eiga við heyskap fyrir snjó í fulla viku. Eftir það gerði allgóða tíð með góðum þurrkum. Frostnætur í hverjum mánuði allt sumarið. Í Norður-Múlasýslu brá til kaldrar og votviðrasamrar veðráttu með hundadögum, og hélst hún sumarið út. Grasvöxtur á túnum í lakara lagi. Útengi óx seint en varð á endanum í meðallagi. Hirðing ákaflega vond nema á töðu hjá þeim sem slógu tún sín svo snemma að þeir voru búnir að hirða fyrir hundadaga, en sumstaðar voru töður ekki hirtar fyrr en um miðjan september. Sumir náðu sínu seinasta heyi ekki fyrr en hálfum mánuði af vetri og sumir aldrei öllu. Þrásinnis snjóaði í fjöll og á Möðrudalsfjöllum, Jökuldalsheiði og efst á Jökuldal voru stundum verkföll svo dögum skipti vegna hríða, en þar sem láglent er og votlent flaut allt í vatni. 8. og 9. sept. féll snjór í byggð í Vopnafirði, svo öll tún urðu nærri þakin og víðast varð að hætta heyskap. Um miðjan mánuðinn komu aftur þurrkar og náðu þá margir allmiklu inn. Frá miðjum september fram í miðjan október mátti heita stillt tíð og úrfellalítil en seinni-part október kom ofsarigning svo að víða skemmdist hey í hlöðum. Þrátt fyrir allt þetta telur þó séra Björn Þorláksson tíðarfarið í Fjörðum skárra en 1882 og 1892. Í Suður-Múlasýslu brá til óþurrka með hundadögum eins og i norðursýslunni, enda hafði þá varla komið dropi úr lofti í l l/2 mánuð. Í ágúst oftast kuldi, frost á nóttum, snjóaði nærri daglega á fjöll. Hey hirtust sæmilega til 10. sept. í syðri parti sýslunnar, en eftir þann tíma stöðugir óþurrkar og rigningar. Inn til dala urðu þau undir snjó á stöku stað.

Í Skaftafellssýslum varð grasspretta með minna móti, nýting ágæt fram í byrjun sept. 14. s.m. gekk í rigningar og varð víðast lítið úr slætti eftir það og allt sem í garð kom eftir þann tíma var mikið hrakið. Heyskapartíminn mjög endasleppur og stuttur þar sem almennt var óvanalega seint byrjað að slá sökum þess, hve seint spratt. (Mýrdalurinn undantekinn, eins og getið var um í byrjun). — Grasmaðkur gerði stórskemmdir á túnum, engjum og úthaga, meira en elstu menn muna dæmi til, einkum var það á Síðunni, á þurrlendis jörðum. Í sláttarbyrjun var allvíða meiripartur túna og engja hvítur eins og um hávetur og varð heyfengur þar af leiðandi á þessum jörðum með lang-minnsta móti. Á Landi í Rangárvallasýslu gerði grasmaðkur mikið tjón á nokkrum jörðum. Í Vestmannaeyjum voru sífeld þurrviðri og blíðviðri frá byrjun júlí til 12. september. Grasspretta með lakara móti, heyfengur með minna móti; nýting ágæt.

Haustið og veturinn til nýárs, mild og góð tíð um land allt, við Ísafjörð er það talinn að vera besti kaflinn af árinu. Í nokkrum sveitum umhleypingasamt með köflum, á ofanverðum Mýrum og í Borgarfirði, í vestanverðri Barðastrandarsýslu, í Eyjafirði og á Austfjörðum. Um sólstöður gerði svo góða hláku, að allt láglendi landsins var að kalla öríst um áramót. Á Suðurlandi var sauðfé og hrossum lítið gefið til ársloka, þótt lömb væru viðast tekin á gjöf seint í nóvember. Í Borgarfirði og Norðurlandi fór að harðna um jólaföstubyrjun en batnaði aftur með sólstöðum. Sem dæmi upp á það, hve veturinn hafi verið mildur fyrir austan er þess getið, að í Möðrudal á Fjöllum gengu 3 nautgripir úti fram yfir nýár. Víða ekki farið að kenna lömbum át um árslok og sumstaðar ekki búið að taka þau í hús. Í Skaftafellssýslu, austan Mýrdalssands og austur í Suður-Múlasýslu var indælasta tíð allt til ársloka. Mátti heita, að varla væri farið að gefa nokkrum skepnum nema kúm um áramót. Í Vestmannaeyjum kalsaveðrátta frá 21. nóv. til miðs des. þá hlýnaði og varð 5 — 8° hiti á daginn til ársloka.

(s157) Matjurtir spruttu með minna móti hér sunnanlands. Í uppsveitum Árnes- og Rangárvalla-sýslu varð uppskeran mjög rýr, nema aðeins í görðum sem lágu móti suðri í góðu skjóli. Neðar í sýslunni og í Vestmannaeyjum spratt allvel í moldargörðum en úr sumum sandgörðum varð ekki nema hálf uppskera á við meðalár. Það er að eins úr Eyjafjallasveit skrifað, að uppskera úr görðum hafi verið í besta lagi. Á Akranesi varð uppskeran hin rýrasta í sandgörðum vegna þurrka, og annarstaðar í Borgarfjarðar- og Mýrarsýslu varð hún með minna móti. Á Vesturlandi spratt illa vegna kuldanna. Í Strandasýslu brugðust garðar nær algerlega. Á öllu Norðurlandi brást garðrækt meira og minna; í sumum sýslum er hún lítil yfirleitt, einkum í Húnavatns- og Þingeyjarsýslum. „Illt árferði, kuldar og uppskerubrestur hafa einatt drepið viðleitina. Það er enginn efi á því, að þrátt fyrir ýmsa ókosti, sem Norðurland hefir, mætti stunda hér garðyrkju til mikilla hagsmuna, en nú er það mjög viða sem engin garðhola er til". Mest er garðræktin í Eyjafirði og spruttu kartöflur nokkuð þar í sumar, en víða eru þær slæmar og lausar í sér. Á Austurlandi brugðust garðar mjög, olli því kuldi og sólarleysi og um vortímann þurrkar og hvassviðri, svo víða fauk úr görðum.

Janúar: Umhleypingar um miðjan mánuð. Snjór síðari hlutann. Fremur kalt.

Jónas Jónassen lýsir veðri í höfuðstaðnum í janúar svo:

Fyrstu dagana logn með miklu frosti til 12., er hann gekk til landsuðurs og hlýnaði, fór svo í útsuðrið með éljum, oft blindbylur, oft mjög hvass. Loftþyngdarmælir hefur síðari partinn vísað óvenjulega lágt; komst þannig 23. niður í 706 mm [941,3 hPa], og er það mjög sjaldan. Hér er nú talsverður snjór á jörðu.

Þjóðviljinn (Bessastöðum) segir af tíð í janúar:

[10.] Annan þ.m. slotaði norðanveðrinu, og hefir síðan haldist stillt veðrátta, en frost talsverð, suma dagana allt að 11 stig (Reaumur).

[15.] 11. þ.m. sneri til sunnan þíðviðra, og hefir síðan haldist hvassviðri og rigningar, svo að jörð er nú hvívetna marauð hér syðra.

[22.] Tíðarfarið hefir verið mjög hagstætt síðasta vikutímann, all-oftast hæg þíðviðri.

[29.] Síðasta vikutímann hefir veðrátta verið mjög umhleypingasöm, ýmist blota-kafaldshríðir, eða norðanfjúk, með nokkru frosti.

Norðurland segir þann 16.janúar:

Tíð hefir verið allköld þessa viku, frost töluverð, en fremur stillt veður. Mikill snjór á jörð. Jarðlaust sagði maður, sem kom norðan af Húsavík í fyrradag, að verið hefði á leið sinni, þangað til framarlega í Kinninni. Snjór þar miklu meiri en hér og áfreðar. 

Austri segir þann 17.janúar:

Hláka með suðvestanstormi og rigningu hefir verið hér þessa viku og er nú snjó allan tekinn upp af láglendi. Skriða dálítil hljóp að kvöldi þess 14. þ.m. utarlega á Búðareyri og tók með sér tvo báta er fyrir urðu.

Þann 19. strandaði þýskur togari á Skeiðarársandi. Menn komust í land, en þrír fórust á leið til byggða í miklum hrakningum sem stóðu í 11 sólarhringa. Frá þessu er nokkuð ítarlega sagt í Þjóðviljanum 17.febrúar. 

Austri segir af tíð þann 26.:

Tíðarfarið hefir verið hið blíðasta og má kalla snjólaust yfir allt. Í nótt setti niður nokkurt föl en nú er aftur blíðviðri. Hey höfðu viða drepið og skemmst til muna í stórrigningunum í vetur.

Í ofviðrinu síðasta fauk 14 álna langur skúr hjá sjóhúsi kaupmanns Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði, ennfremur nótabátur í Norðfirði, íveruhús og hlaða á Biskupshöfða í Reyðarfirði, fleiri bátar á Hafranesi og skúrar og bátar á Kappeyri í Fáskrúðsfirði.

Þjóðviljinn birti þann 17.febrúar bréf dagsett í Hnífsdal þann 25.janúar:

Tíðarfar hefir verið mjög rosasamt síðan í desember byrjun, þó að verst væri um hátíðarnar, því að þá var ekki út úr húsum farandi, uns norðanhríðin birti upp á þrettándanum; voru þá aflabrögð góð í þrjá daga, en þá komu vestanrosar, og tók fyrir afla, og síðasta vikutímann hefir verið norðanhret.

Í Þjóðólfi þann 20.febrúar er bréf, dagsett í Rangárþingi þann 28.janúar:

Veðurátta rosasöm og oft óvenjulega stormasamt, stundum um nætur bjart sem um dag af ljósagangi, hrævareldur mjög oft. Vígabrand kvað einhver hafa séð. Að öðru leyti kvað haft eftir gömlum mönnum, að þessu líkt hafi verið veturinn 1840.

Ingólfur segir af hlýindum og fleiru þann 3.febrúar:

Tíðarfar er mjög gott allstaðar sem fréttist frá, bæði norðan lands og austan. Mývatn sem vanalega er íslagt á vetrum var íslaust, og sagt er að nýútsprungnar sóleyjar hafi fundist í tveim túnum fram í Eyjafirði, og er slíkt einsdæmi á jólaföstu.

Héraðsvötnin í Skagafirði eru að gera það spellvirki, að eyðileggja beitilandið í Hólminum; er allt útlit fyrir að þau geri stórtjón.

Febrúar: Nokkuð umhleypingasamt, einkum síðari hlutann. Fremur kalt.

Jónas Jónassen lýsir febrúarveðri í höfuðstaðnum svo:

Óvenjulega óstöðug veðurátta; stillt veður fyrstu dagana, en síðan ýmist logn, suðvestanátt eða suðaustanátt, regn og snjókoma á víxl. Loftþyngdarmælir vísaði óvenjulega lágt og komst lægst 20. og 24. næstliðinn í 698,5 mm [931,3 hPa].

Norðri segir þann 7.febrúar:

Tíðarfar nokkuð vetrarlegt nú, en þó flesta daga gott veður. Frost nokkurt og jörð alhvít, en snjór samt ekki mikill.

Þjóðviljinn segir frá tíð í febrúar:

[5.] Vöxtur hljóp nýskeð í Hvítá í Ölfusi, svo að áin flóði víða yfir bakka sína, og fyllti þá lambhúskofa í Öndverðarnes-Suðurkoti í Grímsnesi, og fórust þar um 30 lömb.

Tíðarfar fremur óstöðugt síðasta vikutímann, en norðan- og norðaustanáttin þó yfirgnæfandi, og því oftast snjófjúk og kuldar.

31.[janúar] vildi það slys til, að Jón Jónsson, kvæntur maður í Lásakoti hér á nesinu, varð úti, á heimleið úr Hafnarfirði. — Hann var einn á ferð, og var kominn inn fyrir Selsskarð, er menn, sem voru á ferð til Hafnarfjarðar mættu honum; var það um miðaftansleytið, og var þá nýskollinn á dimmviðrisnorðanbylur.

[17.] Skrifað er af Austfjörðum, að um miðjan fyrra mánuð [janúar] hafi ísrek sópað burt því, sem eftir var af Lagarfljótsbrúnni, um 1400 [pund] af járni og öllum stólpum. Er ekki ein báran stök með það mannvirki. 

Sumarveðrátta má heita, að verið hafi nú um hríð, hlákur og þíðviðri á degi hverjum. Annars staðar af landinu er líka einmunatíð að frétta. T.d. unnu Skagfirðingar að jarðabótum fyrir jólin og er það fágæt veðurblíða á Norðurlandi.

[25.] Þorri karl er nú um garð genginn og munu flestir geta hans að góðu hér um slóðir að því er tíðarfarið snertir, þótt það hafi verið umhleypingasamt nokkuð með köflum. Góa hyrjar með vægum froststormum og nokkurri fannkomu.

Þann 13.febrúar birti Þjóðólfur fréttapistil úr Árnesþingi:

Haustveðráttan var góð og að mörgu leyti hagfelld svo stöðugt var hægt að stunda jarðabætur og voru sumir við þann starfa fram að jólum. Útifénaður hefur verið mjög léttur á gjöf, en nú eru komin innistöðuharðindi, því þykkur snjóhjúpur liggur yfir allri jörð. Heyföng bænda í besta lagi og eru heygæði víðast eftir því. Brimasamt hefur verið og ólgufullur sjór hefur viða verið með suðurströndinni í vetur og hefur sjórinn víða máð og eytt ofan af sjávarkampi þeim, sem hlífir suðurströndinni; mest hefur borið á þessu milli Eyrarbakka og Óseyrarness; hefur sandur borist mjög að mýrinni fyrir ofan, eins ber á sömu eyðslu á kaflanum milli Gamlahrauns og Stokkseyrar; eru þar nú víða þönglar grjót og sandur, sem áður var fyrir fám árum grasgefið vallendi, sem slegið var árlega. Verði sjógarður ekki byggður á áðurnefndu svæði, einkum því síðara, er auðsjáanlegt, að innan skamms eyðist meiri eða minni grasspilda framan af undirlendinu og vegagerð með fram ströndinni frá Hraunsá að Stokkseyri verður ógerningur, enda er áreiðanlegt, að hefði hann verið þar nú væri enginn urmull eftir af honum.

Norðurland segir þann 14.mars frá fjárskaða í Víðidal þann 19.febrúar:

Þann 19. [febrúar] var allmikill fjárskaði á Lækjarkoti í Víðidal í Húnavatnssýslu. Bóndinn þar, Þorsteinn Þorsteinsson, hafði undir höndum um 60 fullorðnar kindur. Þar af átti Eggert Elíasson á Ásgeirsá 25 kindur í fóðrum. Var hann staddur á Lækjarkoti þenna dag til að líta eftir, hvernig fé sitt liti út. Þegar hann hafði skoðað kindur sínar, var féð rekið í haga, en Þorsteinn fylgdi Eggert þessum á leið. En um sama leyti skall á norðvestan hríðarbylur, og er Þorsteinn kemur heim finnur hann hvergi kindur sínar. Var þá tekið til að leita og eftir rúma viku var búið að finna 28 kindur, 11 af þeim dauðar. Talið var líklegt að hinar hafi allar farist. 

Austri segir þann 6.mars af fjárskaða í Vopnafirði þann 21. febrúar:

Í ofviðrinu 21. [febrúar] hafði orðið ákaflegur fjárskaði á Strandhöfn í Vopnafirði. Féð hafði um morguninn, eins og vandi var til, verið rekið niður í fjöruna á beit. Er veðrið skall á, ætlaði fjármaðurinn að reka féð upp úr aftur en gat engu áorkið því að féð hörfaði alltaf undan veðrinu, er harðnaði æ meir og meir, og þegar sjórinn flæddi að, fórst allt féð, 85 að tölu. 25 kindur hafði siðar rekið dauðar af sjó.

Þann 4.apríl birti Þjóðviljinn bréf úr Grunnavíkurhreppi, dagsett 22.febrúar:

Tíð hefir verið hér stirð, tíðast vestanrok og slög fram að hátíðum, en síðan umhleypingasamt, og fannkoma mikil allan þorrann, og því alveg haglaust fyrir allar skepnur. 30. [janúar] vildi hér það slys til, að 2 menn urðu úti á svo nefndri Skorarheiði, er liggur milli Hrafnfjarðar og Furufjarðar, og voru þeir bændurnir frá Álfstöðum, ... báðir ungir og efnilegir menn. Fóru þeir frá Furufirði seint á degi heimleiðis, í hálf-ófæru veðri, er versnaði meira, er þeir voru farnir, enda gekk þá nóttin að, og færð vond. — Ekkert fréttist um þetta, fyrr en 2. þ.m., og var þá þegar brugðið við, og leitað daginn eftir, og fundust þeir þá skammt frá vegi, á bersvæði, báðir örendir, og sást á hörslsporum, að þeir höfðu villst lítið eitt frá vegi, og þá líklega ekki þorað að halda áfram, er villan var komin á þá; en vonsku-bylur með feikna-frosti, alla nóttina, og daginn eftir.

Reykjavík segir þann 26.febrúar:

Veðrátta ákaflega óstöðug og umhleypingasöm, þó oftast frostlaust og enda milt. Á fimmtudag [19.] og föstudag í síðustu viku ákafur suðvestanstormur. Loftvog komst þá niður fyrir 700 mm. Komst aftur niður undir 700 mm í fyrrakvöld og gærmorgun, en veður þá þó stillt og mild hláka.

Ingólfur segir þann 4.apríl frá skaða í Ólafsvík þann 23.febrúar:

Drukknun. 23. febr. gerði á svipstundu úfinn sjó í Ólafsvík, voru menn þá lagðir á stað til fiskiróðra en sneru aftur. Þegar einn báturinn var nær því lentur, hóf boði sig upp rétt hjá bátnum, svo eigi var hægt að varast hann eða flýja, fyllti hann og hvolfdi honum. Með dugnaði þeirra er voru í landi, var hægt að bjarga fimm skipverjum til lands, en einn þeirra náðist eigi og drukknaði. Tveir af þeim er bjargið var dóu síðar.

Þjóðólfur segir þann 27.:

Veðurátta hefur verið allrysjótt að undanförnu og umhleypingasöm. Nú snjór mikill á jörðu.

Mars: Umhleypingasamt. Talsverð snjókoma nyrðra. Fremur kalt.

Jónas lýsir marstíðinni svo:

Hefur oftast verið við austanátt; 8. bálhvass á austan fyrri part dags, gekk svo til norðurs, mjög hvass h.9., hægði fljótt og fór að snjóa talsvert, en með hægð. Síðari hluta mánaðarins oftast hæg austanátt og besta veður.

Austri segir af marstíð: 

[6.] Tíðin hefur þessa viku verið mjög snjóasöm, en í dag er bjart veður. [21.] Tíðarfar viðast um land undanfarið mjög snjóasamt, og því víða jarðlaust. Hafíshroði lítill séður af Siglufjarðarskarði. [28.] Veður er nú bjart, en snjór mikill hér í Fjörðum, en minni í Héraði, þar sem víðast kvað vera jörð komin upp til beitar. 

Ingólfur segir þann 22.frá miklum sjósköðum þann 8. og 9.mars:

Þann 8. og 9. þ.m. var ofsaveður mikið, fyrri daginn af landsuðri en gekk svo til norðurs með allmiklu frosti. Fiskiskip héðan voru þá nýlögð út, og komust þau þar i krappan sjó. Skipið Valdimar úr Engey, skipstjóri Magnús Brynjólfsson, fékk þá tvo stórsjói, lagðist á hliðina, stórseglið rifnaði o.s.frv., og tvo menn tók út, og drukknuðu þeir, ... , en hinn þriðji ... meiddist svo er sjórinn skall yfir skipið, að hann dó 2 dögum síðar. Skipið Sigríður eign Th. Thorsteinssons: Yfir það gengu og sjóir, tók út af því [mann] og drukknaði hann, en á skipinu Guðrúnu Sofíu eign sama manns, handleggsbrotnaði maður. Skipið Karólína frá Mýrarhúsum: Mestar slysfarir hafa orðið á því, að því er hefir frést til af því drukknuðu 3 menn. ... Þetta var kl. 10 f.h. 7 mílum suður af Grindavík. Á þilfari voru 10 menn. Skall þá brotsjór yfir skipið á bakborða og tók út 7 mennina, en 2 skolaði inn aftur. Hlerar voru lausir og tók sjórinn þá og rann niður í farrúmið og eyddi þar öllu salti. Skipið fór á hliðina og var rist á seglið til að það gæti rétt sig. En mest er það Páli vegavinnustjóra að þakka að skipið komst til hafnar. Skipið Litla-Rósa eign inars Þorgilssonar hreppstjóra á Óseyri við Hafnarfjörð, gerðist ófær sökum áreynslu, fékk leka, og varð að róa hana í land i Herdísarvík, en mönnum varð bjargað, en skipið Sigríður eign Sveins kaupm. Sigfússonar missti stýrimann útbyrðis, en hann náðist aftur. Castor eign Brydes strandaði nálægt Bíarsskerseyri [?]. Höfnin hér reyndist lítið betri, skipin ýmist sukku þar eða strönduðu. Skipið Loch Fyne, gott fiskiskip, sterkt og vandað frá Seyðisfirði ... kom hingað rétt fyrir veðrið, og rak það upp i Skansinn. Mennirnir björguðust. Frönsk fiskiskúta lagðist kveldið fyrir óveðrið hjá bryggjunni og ætlaði að láta gera við stýrið er var bilað, en veðrið skemmdi hana svo að hún var dæmd strand. Kolageymsluskip þeirra G. Zoega og Th. Thorsteinssons rak upp og brotnaði. Það var gamalt og á fallanda fæti. Skipið Sturla eign þeirra bræðranna Sturlu kaupmanns Jónssonar og Friðriks, lá inn í sundum og sökk. Þorsteinn skipstjóri Þorsteinsson varð fyrir þeim skaða, að missa olíueimbát þann er hann var búinn að kaupa, eins og áður hefir verið skýrt hér frá.

Frá sama veðri og tjóni er sagt í Þjóðólfi þann 13.mars og í Þjóðviljanum 19. mars og ber að mestu saman við frásögn Ingólfs hér að ofan. 

Vestri segir þann 19.mars frá skipskaða á Hornströndum í sama veðri:

[Áttunda] þ.m. strandaði fiskiskipið Tjörfi, eign Þorvaldar Davíðssonar kaupmanns á Oddeyri. Skipið lagði af stað frá Eyjafirði þ. 6. þ.m. fékk fyrst talsverðan storm, þar til skafrok og mold skall á um hádegi á sunnudaginn (8.) og sjógangur svo mikill að skipið brotnaði, þar til það var orðið svo lekt að vart varð haft við að pumpa; leist því skipstjóra ráðlegast að leita lands, og hugði að ná Aðalvík en með því dimmviðri var mikið og „lokklínu“ hefði tekið út af þilfarinu kom skipið að landi á Rekavík bak Látur; lagðist þar fyrst en sleit svo upp og sigldi því í land, skammt frá bænum Rekavík. Þar er landtaka slæm, stórgrýti og útfiri, tók því skipið niðri langt frá landi, en losnaði þó aftur og barst nokkru nær og sló þar flötu, lagðist svo loks á framhliðina, brotnaði og fyllti og héngu skipverjar þar við það allt að klukkutíma, sem enginn kostur var að ná landi. En með því útfall var komst maður loks í land og fóru þá aðrir skipverjar í land á kaðli, heilir á húfi, en þjakaðir og hraktir. Skipverjar misstu öll föt nema sem þeir stóðu í og allt sem um borð var, og skipið mölbrotnaði, nokkuð frá skipinu hefir rekið í land síðan. Skipverjar komust svo til bæjar í Rekavík kl.8 og var þar vel tekið og hjúkrað eftir föngum. Skipstjóri hét Steinn Jónsson frá Hvammi í Höfðahverfi. ... Skipverjar voru als 15. Skipið hafði verið vátryggt í dönsku félagi.

Hafís hefir sést af Ströndum 10.—11 þ.m. hafði orðið landfastur við Horn og hroði úti fyrir móts við Straumnes. En á föstudag þ.13. gerði sunnan stórviðri og dreif þá ísinn frá landi og hefir hann ekki sést síðan svo til hafi spurst.

Norðurland segir frá frekari slysförum í veðrinu í pistli þann 21.mars:

Af Siglufirði er skrifað 14. þ.m: Þann 8. þ.m. gerði hér aftakaveður af NA með 4° frosti á R og blindbyl; voru þá úti skipin Phönix og Stormur, en komust á Haganesvík. Um morguninn fóru 2 menn héðan inn í Fljót, en lögðu út yfir sama dag, og urðu úti, örstutt frá bæjum hérna megin Siglufjarðarskarðs ...

Þjóðviljinn segir af veðri í mars: 

[10.] Ofsaveður á landnorðan hefir verið hér tvo síðustu dagana. Voru einkum brögð að þvi á mánudagsnóttina [9.]. Er allhætt við, að tjón eitthvert hafi hlotist af veðri þessu, þótt enn hafi eigi til frést.

[19.] Tíðarfarið hefir í þ.m. verið afar-óstöðugt og stormasamt, og snjóar öðru hvoru. 14. þ.m. gerði suðaustan hvassviðri og hellirigningu, svo að jörð varð þá alauð að kalla: en daginn eftir var hann með útsynningséljum, og dyngdi þá aftur niður nokkurum snjó, og hefir tíð síðan verið mjög umhleypingasöm.

[24.] Tíðarfar enn mjög umhleypinga- og snjóasamt, oftast á mörgum áttum sama daginn.

[30.] 25.—26. þ.m. gerði all-snarpan norðangarð, en þó nær frostlausan, og sneri síðan til landsunnanáttar og þíðviðra, svo að hagar eru nú all-víðast í byggðum.

Reykjavík segir þann 12. að tíðarfar hafi verið hið blíðasta. Í nótt nokkurt föl; nú aftur blíðviðri. 

Ísafold segir úr Vestmannaeyjum þann 18. (dagsett 12.):

Síðari hluta janúarmánaðar og allan febrúar var veðurátta ákaflega storma- og umhleypingasöm. Þrumur voru tvisvar í hvorum mánuði.

Norðurland segir þann 18.apríl frá skipskaða í Vopnafirði þann 22.mars:

Sunnudagsmorguninn ... , þ. 22., kom maður ofan í kaupstaðinn [Vopnafjörð] með þá fregn, að vöruskip Örum & Wulffs verzlunar, skonnort „Ellinor“, sem var von á um það leyti, væri komin í strand á Tangaboða. Kaupstaðarbúar þustu allir samstundis úteftir og gengu rösklega fram í því að ganga frá köðlum milli skips og lands til björgunar mönnunum, því óhugsandi var, að geta komist á bát út til skipsins, sem stóð á hliðinni út á grynningunum c. 60 faðma frá landi, og þar sem sjóarnir brotnuðu á því og brimlöðrið æddi milli skips og lands. Fjórum af skipverjum lánaðist að ná í land um daginn á köðlum, og voru þeir allir meira og minna dasaðir af vosbúð og sjóvolki. Voru þeir samstundis fluttir inn í Leirhöfn og hjúkrað þar. — Skipstjóra og stýrimanni var ekki hægt að ná um kvöldið því að svo dimmt var orðið. Urðu þeir því að halda kyrru fyrir í skipinu um nóttina, og náðust þeir ekki í land fyrr en um miðjan dag á mánudaginn, mjög þjakaðir og dofnir orðnir af bleytu og kulda, þar sem þeir mestalla nóttina máttu sitja í sjó upp undir mitti í káetunni. Það vildi til happs á flóðinu um nóttina, að skipið snerist við og fluttist rúma lengd sína nær landi, þannig, að framstafninn kom fast upp að klöpp, sem hægt var að komast út á á bát, og af henni var þeim náð ofan af skipinu. Annars er efasamt hvort þeir hefðu náðst lifandi, ef ekki hefði verið um annað að gera en að nota kaðlana eins og fyrri daginn, þar eð þeir trauðla mundu hafa haft mátt til að halda sér við á þeim. Sömuleiðis hefir komið fregn um, að hákarlaskipið „Víkingur“ af Siglufirði (eign Gránufél. o.fl.) hafi rekið á land innst inn í Vopnafirði. Skemmdir litlar sem engar. Í veðrinu mikla 3. [ekki er alveg ljóst hvort átt er við mars eða apríl] rak það austur með landinu að norðan og náði Hámundarstaðavík á Langanesi. Svo kom ofsaveður af nýju og þá urðu skipverjar að sleppa akkerum og festum og náðu landi á þennan hátt á Vopnafirði.

Ingólfur segir þann 19.apríl frá fjárskaða á Skarðsströnd í mars:

Fjárskaði varð á Melum á Skarðströnd í [mars]. Veður var fremur hart, og stóð af landi, hrökklaðist margt af fénu undan veðrinu, og þareð fjara var, fór það fram á sker. Bóndinn Ólafur Björnsson fór þá fyrir það. og vildi reka það í land, en það gekk stirt. Fólk sá til hans frá næsta bæ, Ballará, og fór bóndinn þar til hjálpar og er hann kom, stóð Ólafur á skerinu, og náði sjórinn honum í höku, en féð var á sundi þar i grenndinni. Bóndinn bjargaði Ólafi, og náði nokkru af fénu, en flest af því, um 60, fórst þar.

Þann 16.maí birti Ísafold bréf úr Strandasýslu (miðri), dagsett 25.mars:

Héðan eru engin markverð tíðindi; tíðin fremur góð og snjór venju fremur lítill, eftir því sem vant er að vera. En ofviðri og umhleypingar hafa verið með mesta móti í vetur. Í einu slíku roki um 20. jan. fauk 120 kinda fjárhús með hlöðu við, hvorttveggja undir járnþaki, hjá Magnúsi bónda Jónssyni á Ljúfustöðum. Hafði hann keypt hús þessi ásamt jörðunni og fleiri húsum af Guðjóni alþingismanni síðastliðið vor fyrir 3000 krónur. Skaðinn nemur mörg hundruð krónum, því húsin brotnuðu í spón.

Apríl: Fremur óhagstæð tíð, einkum nyrðra. Talsvert snjóaði einnig syðra. Kalt.

Jónas lýsir apríltíð svo:

Fyrstu dagana rétt logn, og við og við ofanhríð; gekk til norðurs 6. með snjókomu, hvass mjög h. 12.; hefur verið við há-átt allan síðari hluta mánaðarins, oftast kaldur en bjart veður.

Þjóðviljinn lýsir aprílveðri:

[6.] Tíðarfarið hefir verið mjög óstöðugt og umhleypingasamt síðan um mánaðamótin síðustu, og ýmist rigningar eða snjóar, sem standa þó ekki degi lengur nú orðið.

[11.] Tíðarfar mjög óblítt undanfarna daga. Snjókoma talsverð með frosti og stormum.

[21.] Veðráttan er nú breytt til batnaðar, og hefir verið hin mesta vorblíða síðustu dagana.

Þann 29. birti Ísafold tvö bréf úr Skaftafellssýslum, dagsett fyrr í mánuðinum:

Austur-Skaftafellssýslu 10. apríl: Veðrátta hefir verið óstöðug og úrkomusöm i allan vetur, en frostvæg. ... Til þorra mátti kallast góð tíð, og hagar oftast góðir, en síðan hefir stundum sett niður snjó með mesta móti. Heyrst hefir, að margir muni komast í heyþröng, vegna þess jörð spratt illa i sumar, einkum tún, en flestir gáfu upp hey sin i vor. Samt er vonandi, að allt bjargist vel, því snjór er að mestu tekinn upp af láglendi.

Skaftártungu 10. apríl: Fremur var síðastliðið sumar gott; gras var að vísu lítið hér i Tungunni og heyföng því lítil að vöxtum, en mikil að gæðum. Veturinn fremur góður; þó stórrigningasamt til þorra, en síðan hafa verið hver kafaldsbylurinn ofan á annan og þar af leiðandi hagleysur; enda er hér fjarskamikill snjór á jörð og farið að brydda á heyskorti; þó held ég heyleysi verði ekki tilfinnanlegt i þetta skipti. Yfirleitt ósjúkt og mannheilt, og hér deyja fáir, enda er hér ekki mannmargt.

Þjóðólfur birti þann 1.maí bréf af Skagaströnd:

Tíðin hefur yfirleitt verið mjög vond; síðan fyrir jól í vetur sífelldar hríðar, rok og umhleypingar og nú upp á síðkastið einlægir norðanbrunasteytingar, og hríðarveður á hverjum degi. Nú er og ísinn tekinn að reka hér inn flóann, sáust fyrstu jakarnir nú í dag og fjölga óðum, en hve mikill hann er verður ekki sagt enn, en þó er nýkominn hér maður norðan úr Laxárdal, sem fór hér yfir fjöllin í gær, og sagði fullt af hafís að sjá úti fyrir Skagafirði. Lítur allilla út, ef ísinn er mikill, því búast má við, að hann liggi lengi fyrst hann er svona seint á ferðinni.

Vestri segir þann 18.apríl:

Lausafregnir hafa komið um það að hafís væri hér úti fyrir og væri orðinn landfastur við Horn, en ekki hefir frést greinilega hve mikil brögð eru að honum.

Ísafold segir þann 22.:

Vetur kveður í dag hvergi nærri eins blíðlega og undanfarin ár. Atrennur til bata verða endasleppar hvað eftir annað. Gjafatími orðinn langur víða, jafnvel allt frá jólum, og margir bændur mjög nærri þrotum hér sunnanlands allvíða, ef eigi alveg í þrotum.

Ísafold birti þann 9.maí bréf úr Borgarfirði, dagsett 27.apríl:

Tíðin köld, þótt sumar sé komið að nafninu. Úrkoman snjór oftast og gaddfrost um nætur. Veturinn frostavægur, en snjóasamur til dala og þungur frá jólum til fjalla. Góðir hagar til lágsveita.

Þjóðólfur birti þann 15.maí bréf úr Mjóafirði eystra, dagsett 30.apríl:

Tíð nú mjög stirð, eins og oftast er nú orðið, þegar sumarið er komið og menn fara að búast við bata og vorveðuráttu. Nú er og hefur verið eiginlega síðan fyrir páska fúla norðaustan hreggviðri, enda hér jarðlaust mest af nýjum snjó, sem auðvitað tekur fljótt upp, þegar breytir um til hlýinda. — Það eru þessi ólukkans vorharðindi og kalsi í tíðinni, norðaustanáttinni hér austanlands, sem er svo hættuleg orðin hér. Ég nefnilega held, að hún hafi eigi verið svo þrásækin fyrr á tímum og nú, en það er nú líklega tómur hugarburður. Þessi vorharðindi taka hér upp ótrúlega mikil hey. Í fyrra t.d., þegar harðindin stóðu yfir sauðburðinn og gefa varð ám inni með lömbunum undir sér, er ég viss um, að þær hafa þurft og étið þrefalt meira hey daglega en á góu t.d., þó inni væri þá gefið líka. Veturinn hefur annars, að mér finnst verið fremur mildur og snjóaléttur, þó stórviðrasamur hafi verið. Til jóla auð jörð og fé þá í haustholdum. Margir eru þó orðnir tæpt staddir af heyjum og sumir heylausir, ...

Þann 9.maí birti Þjóðviljinn frétt frá Ísafirði sem dagsett var 27.apríl:

Tíð hefir verið hér afar-stirð í þ.m., enda er sjaldan góðs að vænta, þegar hafísinn er í nágrenninu. — Hann rak hér að norðvesturkjálkanum í norðvestanhretinu í dymbilvikunni [páska bar upp á 12.apríl], og var gufuskipið „Vesta" þá nýsloppið norður fyrir; en síðan hefir ísinn bannað allar skipaferðir fyrir Horn. Undanfarna daga hafa öðru hvoru gengið hér sífelldar kafaldshríðir, og frost nokkur á degi hverjum, og snjór afar-mikill á jörðu, svo að ekki getur heitið, að auðan blett sjái.

Maí: Sæmileg tíð. Miklar rigningar syðst á landinu. Fremur kalt.

Um maí segir Jónas:

Fyrstu dagana bjart veður og rétt logn, en kaldur; hér varð jörð hvít um miðjan dag h.9.; er leið á mánuðinn var oftast austanátt með regni síðan hægur á suðaustan með skúrum og við og við við útsuður með krapaskúrum.

Norðurland segir 2.maí:

Horfur eru fremur ískyggilegar víða norðanlands, svo framarlega sem ekki breytist til batnaðar, áður en langt líður. Í hinum harðari sveitum er snjór mikill og jarðbönn að meira eða minna leyti, og margir eru sagðir heytæpir. Veður er nú þægilegt á degi hverjum, en hlýindin svo lítil að snjó leysir ekki til muna.

Þann 16. birti Ísafold bréf úr Standasýslu (miðri), dagsett 3.maí:

Allir firðir fullir af hafís og fjalfella yfir undir miðjan flóa; þar er að sjá autt, en eftir því sem sagt er að norðan, breikkar ísspildan eftir því er norðar dregur með Ströndunum. Frost eru furðulítil, en sífeldar þokur og snjókoma öðru hverju. Haglaust má heita fyrir allar skepnur; að eins hnottasnöp í góðu veðri. Heyskortur mjög almennur, og enginn að kalla aflögufær; eiga þeir, sem best eru staddir, 3—7 vikna gjöf, en flestir minna. Stöku menn hafa þegar rekið fénað sinn suður yfir fjall. Þar er auð jörð, og verða það því efalaust úrræði margra, að leita þangað til þess að reyna að bjarga skepnum sínum.

Þjóðólfur birti þann 15.maí bréf úr Árnessýslu, dagsett þann 6.:

Síðan á sumardaginn fyrsta hefur hver dagurinn verið öðrum blíðari. Nú er jörð orðin alauð; beitijörð hefur legið undir þykkum svellbunka síðan um jól í vetur, kemur hún því lítt kalin undan ísnum og verður því fyrr til gróðurs. Heybirgðir manna munu yfirleitt endast vel, því í flestum eða öllum sveitum eru menn, sem geta vel hjálpað.

Austri segir af tíð í maí:

[15.] Veðráttan er nú farin að hlýna og snjór er tekinn talsvert af láglendi.

[25.] Tíðarfar alltaf mjög óstöðugt. Á föstudag krapahríð, en í gær og í dag hlýtt.

[30.] Tíðarfarið er nú hið indælasta á degi hverjum, sólskin og hiti mikill, allt að 15°R í skugganum aflíðandi hádegi. Öskufalls töluverðs hefir orðið hér vart síðari hluta vikunnar, og virðist það bera hingað úr vestri.

Ingólfur segir þann 5.maí af hafís:

Hvalveiðabátur kom nú í vikunni hingað að vestan, og færði þau tíðindi að Skálholt hefði orðið að snúa aftur norður við Horn sökum hafíss, og haldið til Aðalvíkur. Það var 20. [apríl] En 22. reyndi það á ný en komst þó ekki nema að Straumnesi, sökum íss, sneri það þá við til Ísafjarðar og liggur þar. Bréf úr Húnavatnssýslu segir að ís sé að berast inn, og ís sé úti fyrir Skagafirði. Þegar Vesta fór fyrir Horn 9. [apríl] er sagt að hún hafi séð ís undan landi hjá Horni, en annars eigi orðið íss vör. Það er ritað af Sauðárkrók. Vonandi er því, að ísinn sé eigi mikill. Á laugardagsmorguninn  (2.þ.m.) kl.8 árdegis var hafísjaka að reka inn Ísafjarðardjúp, og þá sást ekki út fyrir ísinn af fjöllunum við Horn.

Ísafold segir þann 27.: „Veðrátta er heldur að lagast, farið að hlýna og gróa nokkuð, en leysir smátt snjó af fjöllum þó“.

Þjóðviljinn segir af maítíð:

[1.] Vorblíða má heita, að verið hafi á degi hverjum síðan sumarið byrjaði, og verður þess eigi langt að bíða, að jörð fari að grænka, ef þessu fer fram.

[9.] Veðrátta er dágóð enn hér syðra, en þó fremur hlýindalítil síðustu dagana, og fer það að vonum, þar sem hafísinn er orðinn landfastur.

[22.] Veðrátta hefur verið mjög köld og hryssingsleg að undanförnu og er jörð mjög lítið farin að grænka hér syðra.

Norðurland segir af maítíð:

[16.] Sama kuldatíðin helst alltaf. Leysing mjög lítil og gróður enginn. Frost flestar nætur og suma sólarhringa snjóar á fjöll.

[23.] Hlýindi voru fyrra part vikunnar, en síðustu dagana kólnaði aftur til muna, og í gær snjóaði ofan í sjó.

[30.] Vikuna, sem nú er að enda, hefir tíðarfar mjög breyst til batnaðar, leysing mikil og víða að koma dálítill gróður.

Norðurland birti þann 30. frétt frá Siglufirði, dagsetta 23.:

Stórhríð í allan gærdag og ekki nema 1° hiti yfir hádaginn; sömuleiðis í dag. Enginn hafís fyrir Horni í gær (22. þ.m.) en ís á Húnaflóa, eftir því, sem norskt hvalaveiðaskip segir.

Þann 30.birti Þjóðviljinn fréttir frá Ísafirði, dagsettar þann 23.:

Hér hefir verið sífelld kuldatíð, og fram yfir miðjan mánuðinn voru frost á hverri nóttu; aðfaranóttina 16. þ.m. var t.d. 6 stiga frost, enda var innri höfnin („Pollurinn") hér á Ísafirði þá lögð að morgni. 17. þ.m. brá til sunnanátta, en tíð þó oftast fremur köld, og á uppstigningardaginn, 21.þ.m., hófst „uppstigningardagshretið", er enn stendur yfir, og hefir í dag dyngt niður all-miklum snjó, svo að hvergi sér nú í auða jörð; en áður var snjór mjög víða horfinn til sveita, svo að bændur höfðu víða sleppt geldfé sínu, og færi betur, að hvergi hlytust nú fjárskaðar af hreti þessu, sem margir munu fremur illa færir um að taka á móti, þar sem víða var áður farið að gefa skepnum korn, sakir heyskorts, enda hefir gjafatíminn verið mjög langur.

Strandferðaskipið „Vesta" rakst á hafíshroða á Skagafirði, í suðurleið, og brotnuðu tvö skrúfublöðin (af fjórum). — Skipið gat þó haldið áfram ferð sinni til Ísafjarðar, og dvaldi þar nokkra daga, til viðgerðar. „Skálholt" kemst ekki til Borðeyrar. Á norðurferð sinni í maí komst „Skálholt" á allar hafnir á Norðurlandi, svo sem áætlað var, nema til Borðeyrar, með því að hafís var á Hrútafirði.

Júní: Tíðindalítil tíð. Fremur kalt, hlýrra inn til landsins fyrir norðan.

Jónas segir af júnítíð í höfuðborginni:

Framan af mánuðinum var oftast útsynningur með kalsa og snjóaði niður alla Esju h.9. Síðan batnaði veðrið og kom mesta veðurhægð með talsverðri úrkomu við og við. Síðustu dagana um það logn og fagurt veður.

Þjóðviljinn birti þann 17. bréf frá Ísafirði, dagsett þann 9.júní:

Síðasta vikutímann hafa gengið hér sífelldir sunnan-stormar, og stórfelldar rigningar, svo að snjó hefir leyst vel til fjalla, og tún eru farin ögn að litkast. En þó að tíðarfar þetta hafi verið hagkvæmt upp á landið, þá hefir það verið sannkölluð vandræða-tíð til sjávarins, þar sem síld veiðist ekki, meðan svona viðrar, og ekki til neins að róa með aðra beitu í Út-Djúpinu, þó að stöku sinnum gefi á sjóinn.

Ísafold birti þann 17.júní frétt úr Strandasýslu sunnanverðri, hún var dagsett þann 10.:

Nú er tíðin loksins farin að batna, hlýindi á, hverjum degi og grær nú óðum jörðin.

Norðurland segir af júnítíð:

[13.] Tíðarfar hefir mjög snúist til batnaðar síðustu tvær vikurnar eftir hvítasunnuhretið [hvítasunnudagur var 31.maí], svo jarðargróðri er nú að fara fram. Þurrkar eru samt allt of miklir.

[27.] Gróður hefir verið hér með langminnsta móti um þetta leyti árs, víðast hvar talsvert lakari en í fyrra, og þótti samt þá þunglega horfa. Þessir hitadagar síðustu hafa sjálfsagt bætt mýrar að miklum mun, en á harðvelli kennir mjög þurrkanna. ... Hitar hafa verið óvenjulega miklir síðustu daga, um og yfir 20 gr. í forsælu. Móða hefir verið mikil í loftinu, svo að líkst hefir tilsýndar þéttum skúrum, hvort sem hún stendur nokkuð í sambandi við eldgos, sem sumir halda, eða stafar eingöngu af hitunum.

Norðurland segir þann 6. júní:

Eldgos hafa Þingeyingar séð, sem talið er muni vera í Vatnajökli. Settur er í samband við það, og sennilega með réttu, sandur, sem kom á þilfarið á seglskipinu „Carl" um 30 mílur austur af Langanesi á leið skipsins hingað. Skipstjóri ætlaði með sandinn til Kaupmannahafnar til þess að láta rannsaka hann þar efnafræðislega.

Austri segir þann 13.:

Öskufallið, sem hér og víðar hefir orðið vart fyrirfarandi, er nú haldið að vera komið úr eldgosi norðan til í Vatnajökli. Tíðarfarið alltaf hið indælasta, hiti og sólskin á degi hverjum.

Ingólfur segir af eldgosi og Skeiðarárhlaupi þann 14.júní:

Skeiðará hefur staðið inni, sem Skaftfellingar kalla, þar til seint i fyrra mánuði. 25. [maí] fór maður yfir hana og var hún þá í kné. Daginn eftir óx hún mikið og eins næsta dag 27. f.m. og um kveldið flóði hún yfir allt það er til sást frá Sandfelli og Svínafelli. Aðalhlaupið var kvöldið hina 27. og aðfaranótt hins 28. fylgdu því miklir brestir og dynkir, jörðin nötraði og í Svínafelli gátu menn ekki sofið fyrir titringnum. Jarðskjálftakippir voru samfara jökulhlaupinu. Til elds sást fyrst að kveldi hins 28. frá Svínafelli, bar þaðan kolsvartan reykjarstrók hátt yfir Svínafellsfjall, og glitruðu og leiftruðu eldblossarnir allstaðar út úr reykjarstólpanum. Um sama leyti varð vart við öskufall á Seyðisfirði, er hefur víst stafað þaðan. Menn hyggja að eldurinn sé annaðhvort sunnan til í Vatnajökli eða norðan til í Öræfajökli. Skeiðarársandur var öllum ófær hinn 31. f.m. og ætlaði pósturinn þá að reyna að komast inn á jökul og fara úr einu fjallinu í annað og komast þannig fyrir sandinn.

Og Ísafold segir af eldmistri þann 17.júní:

Hér hefir verið töluvert mistur undanfarna daga, og eru sumir fulltrúa um, að það stafi af eldgosinu í Skeiðarárjökli, eða þá nýu eldgosi nær, og þykjast hafa orðið varir við brennisteinseim. En hvort það er annað en hugarburður, skal ósagt látið að svo komnu.

Reykjavík segir einnig af öskufalli og mistri þann 18.:

Í Hróarstungu í N-Múlasýslu féll 1/2 þumlungs þykkt lag af ösku skömmu áður en „Hólar" fóru suður hjá síðast. Niðri í fjörðum var askan minni, en varð þó vart. Mistur nokkurt lá hér yfir bænum nokkra daga kring um helgina [sunnudagur 14.]. Sumir menn þóttust finna brennisteinslykt með mistrinu. En hitt er vist, að margir urðu varir við örfínt sandryk eða ösku í lofti. Mátti stundum finna það glöggt undir tönn, ef maður gekk stundarkorn úti með opinn munn, og flest-allir munu hafa kennt talsverðan sviða í augum af því. Er það flestra manna ætlun, að þetta stafi af eldgosinu eystra. Því að þótt gola væri af hafi, það lítil hún var, er mistrið var, þá gat askan hafa borist vestur hærra í lofti, en komið niður er gola blés því til baka aftur. Hér var hiti og þurrviðri með mistrinu, en til sólar sá ekki. [Blaðið segir einnig í gamansömum tón: Brennisteinslyktin sem sumir þóttust finna eftir helgina, hefi ég litla trú að stafi af eldgosi. Miklu líkara að hana leggi af brennisteinspredikunum við Lækjartorg.]

Austri segir af hafís, eldgosi og tíð þann 22. og 30.júní:

[22.] Varðskipið „Hekla“ kom hingað l6.þ.m. sunnan um land. Hafði hún hitt hafís við Horn svo mikinn, að hún varð að snúa við eftir að hafa siglt 10 mílur inn í ísinn. Skeiðará og Núpsvötnin hlupu síðustu dagana í maí, og var einkum hlaupið úr Skeiðará stórkostlegt og tók nærri yfir allan Skeiðarársand. Eldgosið virðist að vera einhverstaðar í Vatnajökli, eins og til hefir verið getið hér í Austra; en hvar, er enn órannsakað. Tíðarfarið er ávalt hið besta.

[30.] Tíðarfar er nú hið indælasta og hitar miklir.

Þjóðviljinn segir af eldgosinu þann 30.júní:

Sannfrétt er nú, að eldurinn er uppi í Skaftárfellsjökli milli Grænafjalls og Hágangna. Hélt gosunum áfram annan og þriðja hvern dag er síðast fréttist. Öskufall nokkurt hefur orðið í Öræfum, en eigi til verulegra skemmda. Á Austfjörðum hafði einnig orðið talsvert öskufall á ýmsum stöðum og allmikill sandur féll á þilfarið á seglskipi einu, er kom frá útlöndum og var 30 mílur undan Langanesi. Skeiðarárhlaupið er nú búið og sandurinn orðinn slarkandi með hesta.

Veðrátta hefur oftast veríð fremur umhleypingasöm og hlýindalítil að undanförnu, enda er hafís sagður skammt undan landi fyrir norðan og vestan, en þó eigi skipaferðum til hindrunar.

Norðurland birti tvo ítarlega pistla um eldgosið, þann 20. og 27. júní:

[20] [Andrés Illugason á Halldórsstöðum ritar blaðinu 12.júní]: Menn hafa þóst sjá þess full merki, að eldur mundi uppi vera suður á öræfum. Mývetningar hafa séð reykjarmökk mikinn í suðri. Reykdælir sáu og eldbjarma mikinn eina nótt eigi alls fyrir löngu. Eigi hafa menn vitað með vissu, hvar eldgos þetta væri. En eftir stefnu að dæma hefir verið ætlað, að það mundi norðvestan við Vatnajökul eða norðan við Tungnafjallsjökul. Þann 10. þessa mánaðar fórum við nokkurir Laxdælir austur á Reykjaheiði að rýja geldfé. Var þá reykjarmökk ógurlegan að sjá í suðri. Sögðu þeir, er kunnugir voru, að hann mundi nálægt Trölladyngju. En sandryk var mikið, svo ógjörla mátti greina fjall í fjarlægð. Aðfaranótt hins 12. héldum við heimleiðis. Leið vor lá fram hjá hnjúk þeim, er Gústahnjúkur er nefndur. Veður var kyrrt og heiðskírt, svo hvergi sá ský. Kom okkur þá saman um að ganga upp á hnjúkinn og litast um, ef vera mætti, að við sæjum um þess merki nokkur, hvar eldgosið væri. Við fórum svo 5 saman: Þórarinn Jónsson, Jón Jónsson, og Jón Sigurgeirsson frá Halldórsstöðum, og Gunnlaugur bóndi Snorrason frá Geitafelli. Það var í sólarupprás, er við komum upp á hnjúkinn; var þar andsvalt mjög uppi, en fagurt um að litast, og útsýni hið tignarlegasta. Þaðan sést yfir öll nærliggjandi héruð, svo og norður yfir Axarfjörð, Núpasveit og Sléttu, fjöllin við Eyjafjörð, og svo alla leið þaðan á Vatnajökul og Vonarskarð. Var það fögur og svipmikil sjón er sólin roðaði jöklana. Engan reyk var að sjá, er við komum upp, og þótti oss illt, ef ferð vor yrði eigi til neins fróðleiks. En brátt sáum við, að „Skollinn sá hinn mikli var fullur úlfúðar". Tveir reykjarstrókar tóku að hefja sig upp úr Vatnajökli, og var all-skammt milli þeirra; annar var nokkuru minni en báðir þó miklir. Reykurinn steig hátt í loft, þar til er hlé nokkurt varð á gosinu. Leið svo lítil stund uns aftur tók að gjósa. Meðan við sáum, gaus eigi nema litla stund í senn og liðu nærfellt 4 mínútur á milli. Eigi var mökkur þessi nær því svo mikill og sá, er við sáum hið fyrra sinn. Hefir hann sést sem svartur skýflóki langa hríð í senn, jafnvel dögum saman jafnmikill. Reykurinn kom upp austanvert á bungu þeirri, sem er vestan til á Vatnajökli. En síðar var hægt að greina, hve sunnarlega hann var. Eigi hefir orðið vart við ösku hér um slóðir, en hlaup hafa komið í vetur í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót og hefir það þótt benda til þess, að eldur myndi uppi í Vatnajökli, enda er það nú ekki lengur vafamál.

Þann 29.ágúst kom smáleiðrétting í Norðurlandi: „í greininni eldgosið í 39. tbl. stendur Gústahnúkur, en á að vera Gustahnúkur. Í sömu grein er afbökuð tilvitnunin úr Egilssögu: Skollinn sá hinn mikli fullur úlfúðar, á að vera: Skallinn sá hinn mikli o.s.frv.“.

[27.] Úr Norður-Múlasýslu er Norðurlandi skrifað um eldgosið: Síðari hluta dagsins 28. maí varð á Fljótsdalshéraði ofanverðu, Jökuldal og víðar, vart við megna brennisteinssvælu, er barst með norðvestanstæðum vindi. Menn þóttust vita, að hún mundi stafa af eldgosi einhverstaðar á öræfunum. Til þess að fá frekari vitneskju um þetta, fór Eiríkur Guðmundsson bóndi á Brú í Jökuldal upp á heiðina, þangað sem séð varð til fjalla. Hann sá þá skýstrók mikinn gjósa upp inni á hálendinu. Smástækkaði hann og barst svo yfir með vindinum. Upptökin voru að sjá sunnanvert við Kverkfjöllin, nálægt brúninni á Vatnajökli. Þetta sama kvöld varð vart við dálítið öskufall á Efri-Jökuldal og ofanverðu Fljótsdalshéraði. Aðfaranótt 29. maí, sérstaklega um morguninn snemma, féll talsverð aska. Hún barst aðallega út yfir heiðunum, er liggja milli Jökuldals og Vopnafjarðar, og féll á Jökuldal og austanverðan Vopnafjörð yfir Úthérað og ofan í Borgarfjörð. Á fiskiskipi, sem var statt 10 mílur á sjó útundan Borgarfirði, varð vart við talsvert öskufall. Sumstaðar á þessu svæði varð svo dimmt, meðan á öskufallinu stóð, að eigi sást fyrir gluggum. Á miðju svæðinu, er mökkinn leiddi yfir, svo sem á Smjörvatnsheiði, er askan mest og því meiri sem utar dregur. Á Jökuldal mun öskulagið hafa verið frá 1/8 til 1/4 þuml., og líkt í Vopnafirði og Jökulsárhlíð, þó öllu meir eftir því sem utar dró, og jafnvel sagt, að lagið mundi hafa verið alt að þumlungs þykkt á ystu bæjum austanvert við Vopnafjörð.

Þ. 8. júní varð aftur vart við öskufall. Þá féll aska á Jökuldal og Fljótsdalshéraði. Getur jafnvel verið, að það hafi verið oftar, því að þegar hvasst er á þessum stöðvum, er loftið svo fullt af fokösku, að það er eigi gott að greina. Í Jökulsá á Dal hefir verið fádæma vöxtur, sem án efa stafar meðfram af eldsumbrotum í jöklinum eða rétt hjá honum. Askan er svört blágrýtisaska, án efa talsvert blönduð brennisteini. Sjálfsagt tefur askan mjög fyrir gróðri og grasvexti, einkum þar sem blautt var eða fannir voru, þegar hún féll, því að þangað fauk hún af blettunum, sem þurrir voru orðnir, og er þar því miklu meiri nú en hún var upphaflega. Einkum á þetta sér stað í Jökuldalsheiðinni; þar var nálega enginn gróður kominn um miðjan júní, og var hún þó runnin að mestu fyrir nokkru.

Júlí: Þurrviðrasamt um mikinn hluta landsins, einkum syðra. Fremur kalt.

Jónas segir um júlí:

Mesta veðurhægð allan mánuðinn; stöku sinnum komið skúr úr lofti, annars algerlega vætulaus og stilltur.

Austri birti fáeina stutta pistla um júlítíð og ber fréttir af vaxandi óþurrkum eystra:

[9.] Tíðarfarið er enn fremur hagstætt, dögg og frjóvsöm árstíð.

[24.] Tíðarfarið er nú fremur kalt og úrkomusamt síðustu dagana.

[30.] Veðráttan hefir nú fyrirfarandi verið fremur köld og votviðrasöm, er hefir komið sér ónotalega með nýtinguna á töðunni.

Norðurland segir einnig frá júlítíðinni:

[4.] Töluverð væta hefir komið á jörð þessa viku, og var hennar mikil þörf. En kuldar svo miklir, að jarðargróður er enn fremur skammt kominn.

[11.] Tíð alltaf fremur köld hér á Norðurlandi, þokur og rigningar. Tún sprottin sæmilega, en útengjar með verra móti. Sláttur að byrja og byrjaður á einstaka bæ, víðast á túnum, sléttum, sem ætlast er til, að verði slegnar aftur.

[25.] Tíðarfar sæmilegt um þetta leyti, ... Allir bændur byrjaðir á túnum. Einstaka menn heyjað dálítið fyrir völl, með minnsta móti samt.

[1.ágúst] Tíðarfar hefir verið hlýrra en í fyrrasumar vikuna, sem leið, en mjög þurrklaust yfirleitt, einkum fyrra hluta vikunnar, stundum þoka ofan undir bæi fram eftir öllum degi. Seinna hluta fimmtudagsins [30.] glaðnaði til, og hefir haldist nokkur þurrkur síðan. Í miðri vikunni var óvíða töðubaggi kominn í tóft, en tún víðast alslegin eða slegin að mestu. Seinna hluta vikunnar hefir mikil taða verið bólstruð, og sumstaðar hirt nokkuð.

Tíð var betri syðra - Þjóðviljinn segir af júlítíð:

[17.] Tíðarfar hefir verið hið besta nú um hríð, sólskin og hiti á hverjum degi.

[23.] Tíðarfar einatt fremur þurrviðrasamt og hlýindi fremur lítil. Grasspretta er all-víðast í lakara lagi hér syðra, og stafar það af vorkuldunum, og af þurrviðrunum er verið hafa í sumar.

[30.] Tíðarfar all-oftast þurrviðrasamt, og sumarið yfirleitt hagstætt.

Ísafold segir 1.ágúst:

Austur-Skaftafellssýslu, júlí 1903. Veðrátta hefir verið hagstæð, síðan seinni part maímánaðar, enda lítur út fyrir að jörð ætli að spretta i meðallagi. Fjárhöld voru góð í vor, en almennt urðu menn tæpir með hey.

Ágúst: Fádæma rigningar nyrðra. Mjög þurrt og bjart sunnan Snæfellsness. Með afbrigðum kalt.

Jónas segir af ágústtíð í Reykjavík:

Oftast mesta veðurhægð, utanátt og sólskin, stöku sinnum runnið heim með norðanátt. Aldrei komið skúr úr lofti, kólnaði talsvert síðustu daga mánaðarins.

Þjóðviljinn birti þann 28.ágúst bréf úr Álftafirði í Norður-Ísafjarðarsýslu, dagsett þann 8. ágúst:

Tíð hefir verið hér þurrkasæl, en afar-köld, útnorðangarður í gær og í dag, og hefir snjóað á fjöllum. — Töður nýttust vel hjá þeim, sem búnir eru með túnin, og voru tún sumstaðar í góðu meðallagi, en almennt er kvartað um grasleysi á útengi. Harðvellistún hafa og verið snögg.

Í sama blaði er fregn úr Bolungarvík, dagsett þann 16.ágúst:

Hér hefir verið ljóta tíðin, stöðugur norðangarður síðan 1. ágúst, með kulda og krapa öðru hvoru, svo að aldrei hefir fiskur, eða hey, orðið breitt þenna tímann.

Norðurland segir þann 15.ágúst:

Tíðarfar mjög óhagstætt síðustu tvær vikurnar, stöðugir óþurrkar, rigningar og þokur og kalsaveður. Alltaf öðruhvoru snjóar í fjöll. Víða er mikið af töðu enn úti og hefir hrakist til muna.

Austri kvartar um votviðri í ágúst:

[15.] Tíðarfar hefir nú um tíma verið mjög votviðrasamt og liggja nú töður manna undir verstu hrakningum.

[22.] Tíðarfar ákaflega óstillt. Eftir langvarandi rigningar komu hér nokkrir flæsudagar fyrri hluta vikunnar [17.ágúst var mánudagur] en héldust þó eigi svo lengi að menn næðu hér heyjum sínum, nema einstaka maður, og það þá eigi vel þurrt.

Ísafold ræðir tíð þann 19.:

Öndvegistíð hefir verið um langan tíma hér sunnanlands svo langt sem til hefir spurst, þurrkar og hreinviðri. Að vísu allhvass á norðan og kuldi með köflum; snjóað í fjöll. Sama er að frétta að norðan, frá Miðfirði og norðureftir; en vestan Miðfjarðar, í Hrútafirði og Strandasýslu hefir undanfarið verið norðangarður, með súld og hreti. Töður manna liggja því þar úti enn yfirleitt, og sumstaðar farnar að hrekjast til muna. Stafar þessi ótíð þar af hafísnum, sem sagður er þar skammt undan landi.

Þjóðviljinn (á Bessastöðum) lýsir ágústtíðinni:

[8.] Tíðarfar er þurrkasamt mjög, sem að undanförnu, síðustu dagana norðanstormur, fremur hlýindalítill. Nýting á heyjum er ágæt, það sem af er, en tún mjög seinslegin vegna þurrkanna.

[14.] Tíðarfar svipað og að undanförnu. Upp úr helginni síðustu [10. var mánudagur] gerði norðanstorm, mikinn og kaldan, svo að snjóaði í fjöll. Nú er aftur farið að stilla til.

[21.] Mjög kaldir norðanstormar á degi hverjum að undanförnu og voru fjöll hvít fyrir snjó um miðja vikuna [19. var miðvikudagur]. Nú er aftur hlýrra og fremur útlit fyrir að bregði til sunnanáttar.

[28.] Tíðarfarið líkt og að undanförnu, sífelldir þurrkar, og hæg norðanátt, sem nú virðist þó í rónni.

Norðurland segir af tíð þann 22.

Tíðarfar hið versta. Einn fremur kaldur sólskinsdagur í þessari viku. Annars stöðugar norðanþokur, með rigningu stundum í byggð og hríðaréljum á fjöllum. Á þriðjudagsnóttina [18.] varð alhvítt ofan að sjó. Snjór um alla Vaðlaheiði eftir sólskinsdaginn, segir Ingólfur læknir Gíslason, sem hingað kom nú f vikunni. Töður, sem úti eru, mjög farnar að skemmast og ógrynni af heyi úti hjá bændum.

Ingólfur birti þann 24.lausafregn af jarðeldum:

Lausafregn hefir borist hingað um það að eldur sé uppi á 3 stöðum í Vatnajökli, það fylgir og með að Hekla muni vera í aðsigi, er það dregið af drunum, er heyrst hafa í henni. Þessi fregn er þó óviss.

September: Mjög úrkomusamt um mikinn hluta landsins. Hiti í meðallagi nyrðra, en annars fremur hlýtt.

Jónas segir af septembertíðinni:

Framan af mánuðinum var norðanátt, hvass með köflum og kaldur, síðan oftast stillur og nokkur rigning; veðurblíða síðustu dagana.

Ingólfur segir þann 6.september:

Tíðarfar er óvenjulega gott hér í bæ og fyrir austan [fjall], hver blíðveðursdagurinn á fætur öðrum, en fyrir norðan er tíðarfarið öllu verra, er þar vætusamt mjög, og er töðu sumstaðar í Húnavatnssýslu ónáð inn enn þá.

Þjóðólfur birti þann 25. bréf úr Húnavatnssýslu austanverðri, dagsett þann 10.:

Héðan eru engin tíðindi nema ótíð hin mesta, sem komið hefur síðan 1886, og verður þó verra, því þá brá til bata með höfuðdegi og gerði gott haust, en nú má heita að verið hafi versta tíð síðan snemma í ágúst. Þó þornaði upp um mánaðamótin og náðust því töður að fullu og úthey töluverð, en síðan 3. þ.m. hefur ekki linnt ofsum af norðri og stórkostlegum illviðrum. En öll fjöll snævi þakin ofan undir byggð og ofan í byggð sumstaðar, enda hefur verið svo kalt, að snjó, sem gerði í fjöllin snemma í ágúst tók aldrei upp til fulls. 5. sept. og aðfaranótt hins 6. stóð eitthvert hið grimmasta stórviðri af norðri, sem menn muna hér ...

Þjóðólfur segir þann 11.:

Einmunatíð hin sama er enn hér á Suðurlandi, sífelldir þurrkar og hreinviðri. Heyskapur verður því ágætur í öllum votlendum engjasveitum, en fremur rýr á harðlendi vegna of mikilla þurrka. Á Landinu í Rangárvallasýslu kvað t.d. verða mjög rýr heyskapur, hafa tún og harðvelli þar orðið meðal annars fyrir stórskemmdum af grasmaðki.

Þjóðviljinn birti þann 23. bréf úr Norður-Ísafjarðarsýslu, dagsett þann 12.:

Síðan í öndverðum ágústmánuði hefir varla getað heitið, að lægt hafi hér norðanstorma, og hefir oft snjóað í miðjar hlíðar, eða þá verið regnbleyta, og 6. þ.m. gerði moldbyl, með norðanstormi, svo að jörð varð alhvít í sjó, og kýr á gjöf; á Snæfjallaströndinni varð fönnin svo mikil, að fé fennti, og hafa á einum bænum (Skarði) fundist 10—20 kindur dauðar, er ýmist hefir fennt, eða hrakist fram af klettum; og svo var þar frostharkan mikil, að snjórinn hélt mönnum uppi daginn eftir mesta hretið og árnar, sem áður voru auðar, urðu manngengar til fjallanna. Veðrinu slotaði loks 8. þ.m. Að því er heyskapinn snertir, hefir hann yfirleitt orðið rýr, þó að hvergi séu önnur eins vandræði, eins og á Hornströndum, þar sem sáralítið kvað enn vera hirt af töðunni, svo að búast má þar við skepnufelli, ef ekki réttist því betur úr.

Austri segir af tíð í september:

[1.] Tíðarfarið virðist nú vera að skána, enda má eigi seinna vera, því útlitið var hið versta, töður víðast mjög hraktar, snjóað ofan í byggð og hnésnjór á Smjörvatnsheiði, og töður farnar að grotna á Langanesi og Sléttu.

[12. - fregnin þó dagsett þann 11.] Tíðarfarið hefir allt til þessa verið ákaflega kalt og votviðrasamt og á miðvikudagsnótt [9.] snjóaði ofan í byggð: En nú virðist heldur að birta í lofti og veður að hlýna. ... Það er engin furða, þó menn hér á Austur- og Norðurlandi horfi heldur kvíðafullir á móti komu vetrarins. Sumarið hefir verið frámunalega óblítt, kuldar og stórrigningar, og stundum jafnvel snjóað ofan í byggð, t.d. 8. þ.m. hér eystra. Elstu menn muna eigi eftir svo köldu og óþurrkasömu sumri. Grasspretta hefir þó víða verið vel í meðallagi.

[19.] Tíðarfar er nú miklu hlýrra en nokkuð úrkomusamt ennþá, þó mun töluvert hafa verið hirt af heyi í seinni tíð, en viða nokkuð skemmt.

[28.] Tíðarfarið hefir verið hlýtt en nokkuð úrkomusamt síðustu dagana. En þó náðu menn almennt heyjum sínum inn á undan þessari síðari rigningu.

Norðurland segir af tíð í september:

[5.] Aðfaranótt síðasta mánudags [31.ágúst] voru 4 froststig á Möðruvöllum. En um og eftir helgina var þurrkur nokkurra daga, svo að menn náðu inn miklu af heyjum. Síðari hluta þessarar viku óþurrkar aftur. Alltaf snjóar í fjöll.

[19.] Þessa vikuna hefir mikið ræst fram úr heyskap manna, með því að lengstum hefir verið þurrviðri og stundum góður þurrkur.

[26.] Tíðarfar hefir verið gott þessa viku. Mikið hefir ræst fram úr með heyskap manna. En víðast hvar mun hann þó minni en í meðallagi.

Norðurland segir af sköðum í pistlum þann 12.:

Laugard. 5. þ.m. kom ofviðri mikið í Húnavatnssýslu og fór vaxandi með nóttinni; af Blönduós er skrifað þ.6., að þetta hafi verið eitthvert hið mesta hvassviðri, sem þar hafi komið lengi, og brimið var geysimikið. Í þessu veðri strandaði skonnortan „Carl“ frá Höepfners verzlun á Blönduósi á laugardagskvöldið. Skipverjar björguðust í land með föt sín. Skipið var að mestu hlaðið, þar á meðal 37 böllum af ull og 7 fötum af laxi. Skipið lenti á óhentugum stað, svo björgun er örðug, og getur ekki farið fram nema í góðu veðri. Ullin er talið víst, að hafi blotnað. Frést hefir, að í þessu veðri hafi orðið nokkuð af heysköðum í Húnavatnssýslu og þak hafi tekið af hlöðu í Langadal.

Heyskaðar. Laugardaginn 5. sept. kom hér norðanveður með hrakviðri miklu og stórflóði. Sjór gekk þá yfir hólmana hér og urðu nokkurir heyskaðar. Til allrar hamingju hafði náðst mikið af heyi úr þeim þurrkdagana um mánaðarmótin. Annars hefði tjónið orðið mjög stórkostlegt.

Norðurland segir þann 19.:

Siglufjarðarpóstur kom þ. 14. þ.m. Hann lagði upp á Reykjaheiði þ. 10. og sneri aftur fyrir ófærð, sem dæmafátt er um þetta leyti árs, ofan í Svarfaðardal og fór svo gangandi yfir heiðina daginn eftir þ. 11. Yfir Siglufjarðarskarð fór hann líka gangandi, versta vetrarfærð þar og með öllu ófært með hesta. Í Siglufirði og Héðinsfirði hafði ekki náðst strá af heyi 5 vikur og töður úti að tveim þriðju hlutum. ... Skriður hlupu laugard. 5. þ.m. á jarðirnar Sker og Svínárnes og ollu töluverðum skemmdum. Á öðrum bænum hafði farist bátur.

Vestri segir fréttir að vestan og norðan í pistli þann 19.:

Af Skagaströnd er skrifað 10. þ.m. „Héðan eru engin tíðindi nema fádæma ótíð; rigningar og stórviðri hvað ofan í annað svo að til mestu neyðar horfir með heyfeng manna og afkomu. Í ágúst snemma gerði alhvít öll fjöll; þann snjó hefir ekki tekið upp til fulls síðan en bætt mjög mikið við hann í þessum mánuði og eru nú fjöll öll undir snjó og menn hræddir um fénað einkum lömb, því illviðrin eru orðin svo langvarandi“. Annarsstaðar af Norðurlandi er sama að frétta, í Þingeyjarsýslu voru sumstaðar óhirt tún í byrjun þ.m. hvað þá úthey. Í byrjun þ.m, kom 1—2 daga þerrir, en kom þó ekki að verulegum notum vegna þess að stórfelld úrkoma kom ofan í heyin áður en þau náðust inn. — Í Trékyllisvík í Strandasýslu varð snjórinn svo mikill í fyrrihluta þ.m. að gengið var á skíðum bæja á milli, og þótt það muni fremur hafa verið gjört til gamans en af nauðsyn vegna ófærðar, er það svo fágætt að það er vel í frásögur færandi.

Þjóðviljinn segir þann 23.og 30.:

[23.] Tíðarfarið hefir verið mjög votviðra- og stormasamt síðan um fyrri helgi, enda síst að furða, þótt haustið yrði nú rosasamt, eftir öll góðviðrin og þurrkana í sumar. Síðustu dagana hefir þó verið stillt og milt veður.

[30.] Síðasta vikutímann hefir verið mild veðrátta og hægar regnskúrir stöku sinnum. 

Vestri segir þann 26.:

Tíðarfar hefir verið hér mjög stillt og gott nú um tíma, og er nú mikið sumarlegra en í byrjun mánaðarins.

Október: Miklar rigningar eystra um miðjan mánuð, en þurrviðrasamt vestanlands. Fremur kalt.

Jónas segir af október:

Framan af mánuðinum oftast logn eða hægur á austan með nokkurri rigningu við og við; h. (13?) gekk hann til norðurs og hélst það til 27. með nokkru frosti. Síðan stillt veður, hæg austanátt og þíðvindi. Ennþá hefur hér eigi fallið snjór á jörðu.

Þjóðólfur segir í pistli 2.október:

Töður í Þingeyjarsýslu lágu [... ] óhirtar þangað til um miðjan [september], en fé á afréttum fennti og náðist úr fönninni i göngum um miðjan [september] sumt dautt og sumt tórandi. Á fjallvegum þar nyrðra var svo mikill snjór, að ófært var með hesta, og niðri á Jökuldal var líki ekið til kirkjunnar á sleða, og þar var farið á skíðum eins og um hávetur um mánaðamótin ágúst—sept. Sumstaðar norðan til í Strandasýslu var að sögn engin heytugga komin i garð um miðjan f.m.

Þann 9. október ræðir Þjóðólfur góða tíð á Suðurlandi:

Veðurátta hefur verið einmuna góð, það sem af er þ.m., stöðugt þurrviðri og stillur. Má heita, að samfelld ágætistíð hafi verið hér á Suðurlandi allt sumarið frá byrjun, að undanskildum nokkrum rigningardögum í [september] Þykjast elstu menn ekki muna jafngóða tíð um jafnlangt skeið í senn.

Norðurland segir 10.október:

Siglufjarðarpóstur, sem kom um síðustu helgi, sagði afarmikla úrkomu úti í fjörðunum í síðustu viku, miklu meiri en hér hefir verið. Menn voru hræddir um að hey hefðu skemmst til muna. ... „Skálholt" var á Norðurfirði 3. okt. Töður voru þar þá úti sumstaðar, og jafnvel þau heimili þar til, sem engum bagga höfðu náð inn. Sífeldar þokur þar og svælur í sumar.

Norðurland segir af októbertíð:

[17.] Tíðarfar hefir verið svipað þessa viku eins og oft um sláttinn í sumar, rigning í byggð á hverjum sólarhring og snjókoma á fjöllum. Úrkoman hefir nú verið með mesta móti, enda færð sumstaðar hin versta, — þar á meðal á Akureyrargötum.

[24.] Tíðarfar stirt. Snjór kominn töluverður með nokkurra stiga frosti.

[31.] Sumarið sem leið var eitt hið versta, sem gengið hefir yfir Norður- og Austurland um langan aldur og eflaust hið lang-versta íslaust sumar, sem komið hefir í manna minnum. Að undanteknum síðustu dögunum af júní mátti heita að aldrei kæmi hlýr dagur. Sífeldur norðaustan kuldabelgingur með þokusúld, regni og snjógangi hélst nálega slitalaust sumarið út. Þurrir dagar komu að eins örfáir í bili og með löngum millibilum. Hvað eftir annað snjóaði ofan í miðjar hlíðar og stundum í sjó niður. Það ræður að líkindum, að heyfengur manna í slíku sumri varð yfirleitt rýr og sumstaðar á útsveitum lítill sem enginn, en út yfir tekur þó, hve verkunin á þessum litlu heyjum er ill. Sumstaðar hröktust hey fram í október og var svælt inn að lokum illa þurrum. Ofan á alt þetta bættist svo óhagstæð hausttíð með óvenjulega stórfeldum rigningum, svo hlöður láku, hey drápu og fénaður hraktist, ekki síst nú undir veturnæturnar, þegar stórrigningin síðasta snerist upp i frosthríð. Og nú er veturinn genginn í garð með grimmdarhörkum og fé komið víða á gjöf, að minnsta kosti lömb. ... Fjörðurinn lagður nú þegar út eftir öllu, skautasvell komið hér á Pollinn og enginn maður, er á sjó rær, verður lífs var. Svo hefir verið í allt haust að heita má og afli verið mjög rýr í allt sumar. Fisklaust fram eftir öllu sumri. ... Jarðlaust hefir verið að mestu þessa viku hér á næstu bæjum, en frammi í firðinum er snjórinn ekki eins mikill. Fyrir austan Vaðlaheiði sagður mikill snjór. Mönnum þykir veturinn ganga örðuglega í garð ofan á sumarið eða sumarleysið.

Ísafold birti fyrsta vetrardag [24.október] sumartíðarfréttir úr ýmsum landshlutum:

Fyrsti vetrardagur er í dag. Sumarið er á enda, þetta sumar, sem að líkindum verður mjög minnisstætt flestum núlifandi mönnum hér á landi, og þó á ýmsan hátt. Minnisstæðast ætti sumarið að verða oss sunnlendingum, því að meiri árgæsku muna varla elstu menn, og svo mikið mun óhætt að fullyrða, að nýting heyskapar hafi örsjaldan eða ef til vill aldrei verið betri. Kemur þetta sér vel, eins og fólkseklan er orðin til sveita, enda sagði oss það greindur og góður bóndi úr Árnessýslu, að hann hefði heyjað að mun meira í ár en í fyrra, og hefði þó þremur færra gengið að slætti. Minnisstætt mun og þetta sumar verða á Norður- og Austurlandi, en á allt annan veg en hér sunnanlands. Því eins og tíðin hefir verið hagstæð hér syðra frá byrjun túnasláttar og fram á haust, eins hefir hún verið erfið og andstæð fyrir austan og norðan og það svo, að sumstaðar muna varla elstu menn óhagstæðara tíðarfar um sláttinn; sífeldir óþurrkar og úrkomur. Mun þó hafa kveðið einna Þingeyjarsýslu. Gekk þar víðast mjög erfitt með heyskap, töður hröktust og hey skemmdust. Þá þótti og fremur óþurrkasamt í Eyjafjarðarsýslu, einkum utarlega með Eyjafirði, í Svarfaðardal, Ólafsfirði og Siglufirði. Nokkru skárri mun tíðin hafa verið í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, og þó hvergi nærri góð. En alveg afleit var hún í Strandasýslu, einkum vestanverðri, og það allt sumarið, fram yfir göngur. Kvað svo rammt að þessu, að á einum bæ í Árnessókn var engin tugga komin í garð 20. sept. Mjög mikið af heyi var þar þá enn óhirt, ýmist i sæti eða flatt, og það lítið, sem inn var komið, var meira og minna skemmt. Er því eigi annað fyrirsjáanlegt, en að almenningur í þessum hluta Strandasýslu megi farga skepnum að miklum mun á þessu hausti. Í Norður-Ísafjarðarsýslunni var tíð fremur stirð í sumar, úrkomusamt og fremur kalt. Talsvert betra í vestursýslunni og eftir það því betra, sem sunnar kom.

Þjóðviljinn lýsir októbertíð í stuttum pistlum:

[7.] Það, sem af er þ.m., hefir verið ágæt haustveðrátta hér syðra, all-oftast stillt veður, og suma dagana blíðviðri.

[14.] Í þ.m. hefir haldist einmunatíð hér syðra, og hefir haustið því mátt teljast ágætt áframhald af hinu inndæla sumri.

[23.] Veðrátta hin besta sem fyrr, má heita að daglega sé sól og sumar, þó komnar séu veturnætur. Fornkunningi Suðurlands, haustregnið mikla, hefir að þessu sinni farið fyrir ofan garð og neðan, og munu fáir sakna.

Vestri segir þann 28.október:

Sumarið kvaddi kuldalega 23. þ.m. og hvarf inn í heim horfins tíma, hefir það verið eitt með kaldari og- óþerrasamara sumrum, bæði norðan og vestanlands, og hefir einkum verið óhagstætt fyrir landbúnaðinn. Til sjávar er það víst í meðallagi, að því er afla snertir, eða tæplega það, en fiskverðið hefir verið svo gott að arðurinn verður dágóður. Veturinn reið í hlaðið þ.24. með klökugt skegg og úfið skap, en síðan hefir hann verið mildari á svipinn hæglætis frost og lygnt veður, væri óskandi að hamingjan gæfi nú mildan vetur, þar sem margir munu lítt færir um að mæta hörðum vetri eftir sumarið í sumar.

Þann 19. strandaði þilskipið Guðrún á leið inn á Hvammsfjörð, mannbjörg varð. Daginn eftir fórst póstbátur á Breiðafirði, sex fórust. Ekki er ljóst hvort veður átti þátt í þessum óhöppum, en um þau má t.d. lesa í Þjóðviljanum 12.nóvember og fleiri blöðum.    

Nóvember: Úrkomusamt syðra og eystra fyrri hlutann, en annars fremur þurrviðrasamt. Fremur kalt.

Jónas um nóvember:

Í þessum mánuði hefur verið mesti umhleypingur, framan af voru hlýindi með rigningu við og við og auð og frostlaus jörð; gekk svo til norðurs fáeina daga, svo í útsuður, svo aftur til norðurs, svo útsuður, svo í vestur með talsverðri ofanhríð, herti mjög frostið síðustu dagana.

Norðurland segir þann 14.:

Þíða hefir verið alla þessa viku og sunnanátt, þar til í dag er komin norðanátt og fjúk með nokkuru frosti. 

Norðurland birti þann 28.nóvember bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu, dagsett 5.nóvember:

Þetta liðna sumar mun verða minnisstætt flestum mönnum hér um slóðir. Frá því, er ágústmánuður byrjaði, voru sífelldar þokur og rigningar, svo að varla þornaði af strái allt fram að Egidíusi [1.september]. Þá gerði þurrk 2 daga og þó að það væri til hugnunar, náðu þó sumir menn alls engu heyi í tótt, en fáir öllu. Svo skall á sama fúlviðrið, sem hélst fram til miðs septembermánaðar. Þá gerði sunnanvind og fauk þá hey á sumum stöðum. — Úrkomurnar voru ákaflega miklar oftast nær. En þó tók steininn úr 5. og 6. september því þá var ódæma kyngiveður storms og úrkomu og lyktaði með iðulausri stórhríð í fjöllum og í byggðum Norður-Þingeyinga. Fé fennti á Reykjaheiði; fundust t.d. 7 kindur dauðar á einum stað í göngunum. En gangnamann gengu af hestum sínum, þeir sem voru á heiðinni vestur af Jökulsá; var hjarnað svo, að mannfæri var og slétt af lægðum og stórþýfi. 28. sept. gerði enn fádæma stórrigningu og skemmdust þá hey í tóttum og hlöðum, en óvíst er enn, hve miklar þær skemmdir eru. Sú rigning var lítil sögð innan við Vaðlaheiði, og alltaf var tíðin betri í sumar inn og vestur undan, en því verri, sem austar dró. — Pétur gamli í Reykjahlíð, sem er 90 ára, merkismaður með óskertu viti, segist ekki muna aðrar eins úrkomur og í sumar. Hefir þetta verið meira en „él eitt, og skyldi langt til annars slíks“.

Í sama blaði er stuttur pistill úr Skagafirði, dagsettur 18.nóvember:

Öndvegistíð og varla fest snjó á jörð hér í framfirðinum síðan í september. Víða ekki farið að kenna lömbum át enn.

Þjóðviljinn segir af nóvembertíð:

[12.] Síðan um fyrri helgi hafa gengið útsunnan rosar, og öðru hvoru afskaplegar rigningar, en snjóað til fjallanna, og síðustu dagana éljagangur í byggð, eða hellirigning.

[17.] Tíðarfarið hefir verið umhleypinga-og stormasamt, og norðanhvassviðri öðru hvoru.

[23.] Tíðarfar fremur umhleypingasamt. en veðráttan þó yfirleitt mild hér syðra. — 19. þ.m. gerði í fyrsta skipti á vetrinum hvíta jörð á láglendi.

[30.] Síðan veðráttan brá til snjóa 19.þ.m., hefir haldist snjóa- og kuldaveðrátta, en stillt veður- síðustu dagana.

Desember: Rigningar á Suður- og Austurlandi. Miklir umhleypingar um jólaleytið. Fremur hlýtt.

Jónas segir frá desembertíð í Reykjavík:

Fyrstu dagana við útsuður með ofanhríð; gekk svo til norðurs, oft hvass í nokkra daga, síðar logn og bjart veður. Ýmist í suðri eða suðsuðvestri með afarmiklu regni, oft rokhvass. Hér er nú galauð jörð; óvanalegt er að tjörnin sé hér alauð um áramótin. 

Austri segir af tíð í desember:

[4.] Tíðarfar var nokkuð kalt fyrir nokkrum dögum og dálítil snjókoma. Nú er allgott veður og eigi mikið frost.

[10.] Tíðarfar er nú mjög úrkomusamt, og hlóð í fyrri nótt og í gærmorgun hér niður mjög miklum bleytusnjó, svo hér mun nú jarðlaust í firðinum og færð hin versta, fyrir snjó og bleytu.

[17.] Tíðarfarið er alltaf mjög votviðrasamt og snjór fallinn svo mikill, að alveg er ófært með hesta yfir heiðarnar, og jafnvel illfært fyrir gangandi menn. Er eigi langt síðan, að Héraðsmenn voru í 26 tíma að brjótast með hesta yfir Fjarðarheiði, og gangandi menn í 12 tíma.

[23.] Tíðarfarið er nú loks orðið þurrara og komið nokkurt frost. Hálkan er nú ákaflega mikil á götum bæjarins, svo mjög er hætt við föllum og meiðingum, því, þó ótrúlegt sé, þá höfum vér hvergi séð borinn sand eða ösku á götusvellið nema fyrir framan Wathneshúsin. Ætti það eigi að geta kostað svo mikið, þó bæjarstjórnin léti aka sandi á göturnar svo nokkru yrði hættuminna að fara um þær.

[31.] Tíðarfarið hefir nú svo hátíðarnar verið hið blíðasta, þíður og landátt nær því á hverjum degi svo hér í fjörðum er nú komin góð jörð en marautt í Héraði og er þar sumstaðar enn eigi farið að kenna lömbum átið.

Norðurland segir þann 12.desember:

Siglufjarðarpóstur, ... kom hingað úr póstferð sinni á miðvikudaginn var eftir 17 daga burtuveru, hafði tafist í hríðinni og ófærð svo mikilli, að menn muna ekki eftir, að jafn-mikill snjór hafi komið úti í fjörðunum og fjöllunum milli þeirra á jafnstuttum tíma. Á Reykjaheiði varð hann og fylgdarmaður hans að skríða heiðarskarðsbrekkuna á vesturleið, ómögulegt að komast eftir henni á annan hátt, hvorki á skíðum né gangandi. Á heimleiðinni tepptist hann 4 daga í Ólafsfirði, og fékk sig loks fluttan sjóveg fyrir Múlann inn á Ufsaströnd. Frá Hrísum í Svarfaðardal var hann 18 tíma hingað inn á Akureyri. Ófærðin byrjar á Hillunum, utan við Fagraskóg, en góð færð héðan þangað út eftir. ... Ótíð er allmikil um þessar mundir; frost reyndar ekki mikil, en stöðug dimmviðri, og suma daga stinnings-hríðar. Snjór er kominn töluverður hér um slóðir, en afarmikill í útsveitunum beggja megin fjarðarins.

Þjóðviljinn lýsir desembertíð:

[9.] 1.— 2. þ.m. gerði all-mikla rigningu, svo að jörð varð alauð, en 3. þ.m. sneri aftur til norðanáttar og frosta.

[16.] Tíðarfar hefir að undanförnu verið all-hagstætt, frost væg, og stillviðri all-oftast.

[23.] 17. þ.m. gerði hagstæða rigningu, svo að frostfölin, sem á jörð hafði verið, hvarf þá gjörsamlega, og hefir síðan haldist góð tíð, og blotar eða væg frost.

[31.] Jörð hefir verið alauð hér syðra um jólin, en umhleypingar og rigningar öðru hvoru, og 28. þ.m. var ofsa-suðaustanrok og hellirigning.

Þjóðviljinn segir frá þann 30.janúar 1904:

Afskapaveður var í Skagafirði 28. desember síðastliðinn og fauk kirkjan að Goðdölum, tókst upp af grunninum, hentist út á tún, og fór í ótal mola. Þak rauf einnig af fjósinu í Goðdölum í þessu sama veðri.

Norðurland segir þann 2.janúar 1904:

Tíðarfar fyrirtaksgott um öll jólin og nýárið, svo að fáir muna eftir öðrum eins blíðum um þetta leyti vetrar.

Ísafold segir þann 2.janúar 1904:

Veðrátta hefir verið hér mjög stirð og óstöðug upp á síðkastið, ýmist úrkoma á landsunnan, logn með vægu frosti eða norðanstormur ; síðustu vikuna þó oftast við landsuður. ... Úrkoma var svo mikil 28. [desember] að eigi hefir endranær meiri verið á jafn stuttum tíma, sem sé 54,5 mm og þykir þá óþurrkasamt, er svo mikið rignir sumarlangt. Fylgdi þessari úrkomu landssynningsrok og var því vatnið heldur áleitið á hýbýli manna, enda kom víða fram leki og það sumstaðar, er menn síst höfðu ætlað, sem sé á nýjum húsum. Er hrapallegt að svo illa skuli takast til, eigi síst er í hlut eiga þeir menn, er vilja og geta haft allt sem vandaðast og ekkert vilja til spara. Svo langt eiga byggingameistarar höfuðstaðarins að vera komnir, að þeir geti séð við lekanum þegar þeir mega sjálfir öllu ráða og fyrir þá er lagt, að hafa húsin sem vönduðust og best, hvað sem það kostar.

Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1903. Að vanda eru ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ryk að sunnan?

Nú hefur mikill rykmökkur tekið sig upp úr Saharaeyðimörkinni og leggst yfir Miðjarðarhafið. Meginhluti makkarins á að berast til austurs, en sé að marka spár á hluti hans að slitna frá og berast norður um Bretlandseyjar og e.t.v. mun lítilræði komast alla leið til Íslands. 

Myndin hér að neðan sýnir dálitinn rykmökk á leið til vesturs yfir landið á miðvikudagskvöld (24.apríl).

w-blogg220419a

Á spákortum er hægt að fylgjast með þessum mekki allt sunnan frá Sahara. Þó hann sé veigalítill þegar hingað er komið (rætist spárnar) ætti hann samt að vera sjáanlegur. 

Í sumum spám er gert ráð fyrir töluverðum hlýindum á sumardaginn fyrsta í ár. Rifja má upp að hæsti hámarkshiti í Reykjavík á fyrsta sumardag er 13,5 stig, sem mældist 1998. Eins og staðan er þegar þetta er skrifað er rauhæfur möguleiki á að það met verði slegið. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu á sumardaginn fyrsta er 19.8 stig á Akureyri 1976 (og óstaðfest 20,5 stig á Fagurhólsmýri 1933). Varla er þess að vænta að þau met verði slegin nú. 

En við sjáum til. 


Enn er hlýtt

Hlýindin hafa haldið áfram. Meðalhiti fyrstu 20 daga aprílmánaðar í Reykjavík er +5,5 stig, +3,3 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990 og +1,9 ofan meðallags síðustu tíu ára. Dagarnir 20 þeir næsthlýjustu á öldinni, árið 2003 var meðalhiti þeirra +6,0 stig. Kaldastir voru þeir 2006, meðalhiti +0,9 stig. Á langa listanum (145 ár) er hitinn nú í 5. hlýjasta sæti, hlýjast var 1974, meðalhiti dagana 20 +6,1 stig. Kaldastir voru þeir 1876, -3,7 stig og -2,1 stig 1951.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 +5,7 stig, +4,8 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990, en +3,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum landsins, vikið er mest við Mývatn, +3,4 stig, en minnst er það við Laufbala, +0,7 stig, og +1,0 í Veiðivatnahrauni.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 61,2 mm og er það vel umfram meðallag - en ekki nærri neinu meti. Á Akureyri hefur úrkoman hins vegar mælst aðeins 4,0 mm - um fimmtungur meðalúrkomu - en ekki þó met heldur.

Sólskinsstundir hafa mælst 87,1 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það nærri meðallagi.

Hita er spáð ofan meðallags síðasta þriðjung aprílmánaðar - 


Hlýir dagar

Mjög hlýtt hefur verið víða um land undanfarna daga, hiti langt ofan meðallags árstímans. Á landsvísu var laugardagurinn 13. sá hlýjasti, en í Reykjavík t.d. var meðalhiti föstudagsins 12. hærri. Langtímameðalhiti hækkar mjög í aprílmánuði, vorhlýnun komin í fullan gang - enda er það svo að hlýjustu apríldagar sem við þekkjum eru langflestir seint í mánuðinum. Efstir á flestum listum eru 18.apríl 2003, og 29. og 28. apríl 2007. 

En við gætum líka raðað hitanum á annan hátt og leitað að hlýjustu dögunum - miðað við vik eða staðalvik frá langtímameðalhita viðkomandi dags. Miðum við við vikin lendir 18.apríl 2003 í toppsætinu á landsvísu, en 1.apríl 1956 í því næstefsta (ekki man ritstjórinn þann dag - og vill ekki gefa honum vottorð nema að frekar athuguðu máli). Sé litið á staðalvikin eru 28. og 29. apríl 2007 á toppnum. Hlýindin nú standa þessum eldri hlýindum talsvert að baki.

Athugum nú stöðuna í Reykjavík sérstaklega - hlýindin þar hafa verið tiltölulega meiri en víða annars staðar. Föstudagurinn 12. er þannig 19. hlýjasti apríldagur frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík. Aðeins er vitað um þrjá hlýrri daga í Reykjavík svo snemma árs - athugum þó að meðalhiti einstakra daga fortíðar er ekki þekktur jafn nákvæmlega og nú. - En við látum sem ekkert sé. Meðalhiti föstudagsins 12. var 9,5 stig. Jafnhlýtt var sama almanaksdag árið 1929 - og enn hlýrra 30.mars 1893 og svo 27.mars 1948. Síðarnefndi dagurinn er vel þekktur meðal veðurnörda, en sá fyrri er óvottaður. 

Látum við vik frá meðalhita áranna 1931 til 2010 ráða röð lendir föstudagurinn 12. í áttundahlýjasta sæti - hiti hans var 6,8 stigum ofan meðallags. Efstur á þeim vikalista er 1.apríl 1965, hiti +8,0 stig ofan meðallags, en síðan kemur 29.apríl 2007 og 16.apríl í fyrra (2018). Á staðalvikalistanum er 29.apríl 2007 efstur, og síðan 7.apríl 1926 og 4.apríl 1963 (í vikunni á undan páskahretinu fræga). Eitthvað rámar veðurnörd í mikið vonbrigðakuldakast í maí 2007 - í kjölfar hitabylgjunnar í apríllok það ár (þó ekkert væri það á við slæm hret). - Stundum þarf að borga fyrir hlýindin. 

Meðalhiti í Reykjavík fyrri hluta aprílmánaðar er +5,0 stig, +3,1 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990 og +1,4 ofan meðallags síðustu tíu ára. Dagarnir 15 voru jafnhlýir árið 2014, en árið 2003 var meðalhitinn +5,1 stig, það er hlýjasti aprílfyrrihluti aldarinnar. Sá kaldasti kom hins vegar 2006, en þá var meðalhiti +0,4 stig. Á langa listanum (145 ár) er hiti fyrri hluta apríl í Reykjavík í 9. til 10.hlýjasta sæti. Hlýjast var 1929, meðalhiti +6,6 stig, en kaldastur var fyrri hluti apríl 1876, meðalhiti -4,1 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta aprílmánaðar +4,3 stig, +3,7 stigum ofan meðallags 1961-1990 og +2,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum nema þremur, neikvæða vikið er -0,2 stig í Veiðivatnahrauni og Laufbala og -0,1 við Hágöngur. Jákvæða vikið er mest +2,5 stig á Patreksfirði.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 38,7 mm, í rúmu meðallagi, en aðeins 3,8 mm á Akureyri. Það er um fjórðungur meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 67,3 í Reykjavík - nærri meðallagi.


Óvenjudjúp lægð - miðað við árstíma

Nú (föstudagskvöld 12.apríl) er bæði hvasst og hlýtt á landinu. Hvassviðrið hefur raskað flugi um Keflavíkurflugvöll í dag - enn eitt dæmi um athyglisvert samspil nútímalifnaðarhátta og veðurs - fyrir ekki svo löngu hefði kostnaður og vesen vegna nákvæmlega sams konar hvassviðris ekki verið teljandi. - En vindurinn heldur áfram að blása og síðdegis á morgun, laugardag 13.apríl, fer að gæta áhrifa nýrrar lægðar suðvestur í hafi. Sú er þegar þetta er ritað um það bil að leggja í óðadýpkun, meir en 35 hPa á sólarhring. 

w-blogg130419a

Evrópureiknimiðstöðin segir miðjuþrýstinginn fara niður í 946 hPa síðdegis. Við virðumst eiga að sleppa við versta veðrið - en nógu hvasst verður samt - sé að marka spár. Það er athyglisvert að spár hafa síðustu daga gert meira og meira úr lægðinni sjálfri - en smám saman gert minna úr úrkomunni sem fylgir henni hér á landi. Mikill fjöldi dægurhámarkshitameta féll á veðurstöðvum í dag, m.a. bæði í Reykjavík (11,9 stig) og á Akureyri (15,1 stig). Gamla Akureyrardægurmetið (14,6 stig) er frá 1967 - aðeins 6 dögum síðar, þann 18., fór frostið á Akureyri í -14,8 stig - eftirminnileg umskipti fyrir þá sem það muna. 

Þó eitthvað dragi aftur úr hvassviðrinu á sunnudaginn eru fleiri lægðir - grynnri þó - í sjónmáli fram eftir næstu viku. 

Það er ekki mjög oft sem lægðir fara niður í 946 hPa í apríl - íslandsmetið í lágþrýstingi er 951,0 hPa sett á Bergstöðum í Skagafirði þann 11. árið 1990 og ómarktækt hærri (951,3 hPa) á Dalatanga þann 3. árið 1994. Þrýstingur virðist hafa farið niður fyrir 950 hPa í lægðinni 1994 þó ekki mældist svo lágur á stöðvunum - hefði e.t.v. gert það við sambærilegar aðstæður nú þegar mælt er samfelldara og þéttara. Ekki er vitað um nema þrjú önnur tilvik með lægri þrýstingi en 960 hPa í apríl hér á landi (1947, 1897 og 1904). 


Hlýtt - blautt - hvasst

Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.

En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega. Reynslu þarf til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn. 

Nú ber svo við að vísar þriggja veðurþátta, hita, úrkomu og vindhraða, veifa allir fánum í spám sem gilda á laugardaginn kemur, 13.apríl.

Við skulum til fróðleiks líta á þessi kort - (þetta er ekki alveg nýjasta útgáfa - vegna viðloðandi tölvuvandræða á Veðurstofunni). 

w-blogg100419a

Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af því að úrkoma er að jafnaði minni hér á landi á þessum árstíma heldur en að haust- eða vetrarlagi - sömuleiðis veit það að úrkoma um landið vestanvert er meiri en t.d. norðaustanlands.

Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér er hann yfir 2 á allstóru svæði - allt frá Reykjanesi í vestri og nær óslitið austur á Vatnajökul. Hæst fer vísirinn í 5,4 yfir hálendinu vestur af Vatnajökli - harla óvenjuleg tala - meira að segja í halavísum.  

En - líkan evrpópureiknimiðstöðvarinnar er ekki með full tök á landslagi - og þar að auki er ritstjóri hungurdiska nær reynslulítill í túlkun útgildaspáa af þessu tagi. Hvort kortið er að vara við einhverju sérstöku verður reynslan að skera úr um. 

Orðið „útgildavísir“ er þýðing á því erlenda, „extreme forecast index“, EFI, en „halavísir“ reynir að íslenska „shift of tail“, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar. 

w-blogg100419b

En hitavísar rísa einnig hátt á laugardaginn. Útgildavísirinn er ofan við 0,9 á allstóru svæði við innanverðan Breiðafjörð og í Húnavatnssýslum. Sömuleiðis á Grænlandssundi og fyrir norðan land. Hæstu gildi halavísisins eru hér úti af Vestfjörðum. Þó óvenjulega hlýtt verði er ólíklegt að hitamet verði slegin á landsvísu. Við skulum samt fylgjast vel með hitanum næstu daga. Hámarksdægurmet þess 13. er 15,7 stig sett í Fagradal í Vopnafirði árið 1938. Kominn tími á það - ekki satt - enda lægri tala en dægurmet dagana fyrir og eftir. 

w-blogg100419c

En vindvísar eru einnig háir - á myndinni yfir 0,9 vestan Langjökuls og Vatnajökuls. Bendir e.t.v. til þess að landsynningurinn muni búa til mjög öflugar fjallabylgjur. Hvort þeirra sér svo stað í raunveruleikanum vitum við ekki. 

Slæm landsynningsveður (á landsvísu) eru ekki algeng í apríl. Ekkert slíkt hefur enn komist á landsillviðralista ritstjóra hungurdiska - sem sér þó aftur til ársins 1912. Einhvern veginn hefur þannig viljað til að landið hefur sloppið - áttin frekar lagst í austur eða suður. Þetta er ábyggilega tilviljun frekar en regla. Mesti sólarhringsmeðalvindhraði landsynningsdags á landsvísu í apríl er ekki „nema“ 10,9 m/s. Það var 25.apríl 1955. Mikil skriðuföll urðu víða á landinu í þeim mánuði - en tengdust veðrinu 25.apríl ekki. 

Nú eru tíu dagar liðnir af apríl 2019. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er 3,2 stig, 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en -0,5 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 12.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2014, meðalhiti þá +6,0 stig, en kaldastir voru þeir árið 2006, meðalhiti +0,1 stig. Sé litið til lengri tíma, 145 ára, voru dagarnir hlýjastir í Reykjavík 1926, meðalhiti þeirra þá var +6,6 stig, en kaldastir voru þeir 1886, meðalhiti -4,5 stig.

Meðalhiti fyrstu tíu daga aprílmánaðar nú er +2,0 stig á Akureyri, +1,6 stigum ofan meðallags 1961-1990, en í meðallagi síðustu tíu ára.

Hiti er undir meðallagi á flestum veðurstöðvum landsins, mest á sunnanverðu hálendinu, hæsta neikvæða vikið er við Hágöngur, -3,1 stig, en hiti er ofan 10-ára meðaltalsins á fáeinum stöðvum, mest +0,4 stig á Hornbjargsvita og í Grímsey.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 13 mm, og er það rúmur helmingur meðalúrkomu sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 4 mm og er það nærri þriðjungi meðalúrkomu.

Sólskinsstundir hafa mælst 52,4 í Reykjavík, um 10 umfram meðallag.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband