Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

Kuldatíð? Af alþjóðavetrinum (desember 2015 til febrúar 2016)

Nú lifir aðeins hlaupársdagur af alþjóðavetrinum 2015 til 2016, en árstíðaskipting alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar telur veturinn ná yfir mánuðina desember, janúar og febrúar. Hér á landi verðum við að telja mars með vetri - en það er samt í lagi að reikna meðaltöl fyrir þann styttri. Það hefur verið gert á hungurdiskum áður.

Alþjóðaveturinn 2015 til 2016 verður að teljast fremur kaldur hér á landi, sérstaklega inn til landsins. Í Reykjavík er meðalhitinn þó nánast sá sami og í fyrra og reyndar líka árið 2000 - nánast í meðallagi áranna 1961 til 1990 en -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. 

Á mynd lítur þetta svona út.

Meðalhiti alþjóðavetrarins (desember til febrúar) Reykjavík

Athuganir ná hér aftur til 1866 - langhlýjast var 1964, en einnig mjög hlýtt 2003, 2006 og 2013 - og einnig 1929 og 1934. Þetta er nú heldur dauflegt í ár - en ekki svo mjög í langtímasamhenginu.

Öllu kaldara hefur verið á Akureyri.

Meðalhiti alþjóðavetrarins (desember til febrúar) Akureyri

Þar er nú áberandi kaldara en í fyrra og þarf að fara alveg aftur til 1995 til að finna jafnkaldan alþjóðavetur, þá var aðeins sjónarmun kaldara en nú (og hlaupársdagur á eftir að skila sér í hús þegar þetta er teiknað og reiknað). En talsvert kaldara var 1981. Þessi mynd nær ekki jafnlangt aftur og Reykjavíkurmyndin - aðeins til 1882. Ekki var mælt á Akureyri frostaveturinn mikla 1881 - mælingar frammi í firði benda þó til þess að meðalhiti mánaðanna desember til febrúar hafi þá verið um -10 stig á Akureyri - nokkru kaldara en 1918 - eins og í Reykjavík. 

Meðalhiti alþjóðavetrarins er nú um -1,8 stigum undir meðallaginu 1961 til 1990 á Akureyri og -3,0 undir meðallagi síðustu tíu ára. - En í Grímsey er hiti +1,2 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og ekki nema -0,7 stigum undir meðaltali síðustu tíu ára. Gætir hlýindanna miklu í norðurhöfum í Grímsey? 

En þá er það mars 2016. Hver verður hiti hans? Heldur vikamunur strandar og innsveita sér? Sé að marka spár evrópureiknimiðstöðvarinnar verður enn kalt norðaustanlands næstu tíu daga - en nærri meðallagi á Suðvesturlandi. Spár enn lengra fram í tímann gera ekki ráð fyrir hlýindum. 


Breyting - tilbreyting

Aldrei þessu vant verður hæðarhryggur í námunda við landið mestalla vikuna (eftir að lægðin sem nú er við landið yfirgefur okkur). Auðvitað verður að bæta við: Sé að marka spár evrópureiknimiðstöðvarinnar (sem aldeilis er ekki alltaf). En verði úr telst það allgóð tilbreyting. 

En spákort sunnudagsins (21. febrúar) lítur svona út. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, af þeim má ráða vindátt og styrk - þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

w-blogg200216a

Strikaða línan sýnir ás hæðarhryggjarins - austan við hann stendur vindur úr norðvestri og norðri - beinir til landsins köldu lofti - sem þó verður að teljast furðuhlýtt miðað við árstíma og uppruna. Annars hefur mat á hlýindum í norðanátt alltaf vafist aðeins fyrir ritstjóranum þrátt fyrir þónokkrar tilraunir til að ná fastataki. Kannski eitthvað verði um það ritað um síðir. 

En þessi hæðarhryggur á sum sé að þvælast fyrir lægðaásókn næstu vikuna. Kuldapollurinn mikli - Stóri-Boli - er helfjólublár á sveimi á sínum heimaslóðum og á að pikka í hrygginn á fimmtudaginn. Tillögu reiknimiðstöðvarinnar að þeirri aðför má sjá hér að neðan.

w-blogg200216b

Kortið gildir kl.18 á fimmtudag (25. febrúar). Rauða strikalínan sýnir sama hrygg og á fyrri mynd - hann hefur á fjórum dögum mjakast til austurs - en enn í hagstæðri stöðu fyrir okkur. Kaldur fingur Stóra-Bola potar til suðausturs og austurs - en fari sem reiknimiðstöðin reiknar fer allur sá kuldi til austurs fyrir sunnan land - annars hafa frekar kaldar sunnanáttir verið jafnmikið í tísku og hlýjar norðanáttir. 

En þetta er að mörgu leyti hagstæð febrúarstaða - fagna má hverri illindalítilli viku (jafnvel hverjum degi) meðan beðið er vors.  


Sígild lægð?

Það er reyndar erfitt að finna lægð sem lítur út og hegðar sér eins og þær á kennslubókarsíðunum - en kannski sú sem plaga á okkur á mánudaginn sýni slíkan svip. 

w-blogg130216a

Kortið sýnir stöðuna á hádegi á sunnudag. Þá verður (að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar) sæmilega myndarleg hæð yfir landinu. Lægðakerfið norðaustur af Nýfundnalandi (þaðan koma kennslubókarlægðirnar) er það öflugt að það á að feykja hæðinni út af kortinu á augabragði (mesta furða). 

Lægðin fylgir miklu háloftalægðadragi sem skefur upp hlýtt loft og býr til mikla kryppu á heimskautaröstina. Ef vel (mjög vel) er að gáð má kannski sjá norðausturbrún kryppunnar á kortinu. Henni fylgir örmjótt úrkomusvæði á suðvestanverðu Grænlandshafi - þar er töluverður blikubakki í miklum norðvestanvindstreng sem berst síðan nær og nær Íslandi þegar liður á daginn. Ekki gott að segja hvenær hann kemur hér í augsýn.

Megi trúa spám verður annar blikubakki yfir Vestfjörðum þarna um hádegi á sunnudag - þegar við fylgjumst með á sunnudaginn gætum við ruglað þessum kerfum saman. En þeir sem stara í loft en ekki á símaskjái geta sjálfsagt séð muninn (og áhugamenn ættu að reyna það - vindur - og þar með útlit er ekki það sama). 

Dagurinn er hins vegar stuttur (þó hann lengist nú drjúgum skrefum) og aðalskýjakerfið vart komið yfir fyrr en eftir myrkur. Þá er að leggjast yfir loftvogina, fylgjast grannt með vindátt og veðurhljóðum. 

Vestanlands skellur landsynningurinn með sinni skemmtan síðan á síðla nætur og blæs mestallan mánudaginn með skyndiblota (vonandi þó ekki beinbrotum). Undir kvöld snýst síðan til útsuðurs með éljum. - Svo kemur hin sígilda fylgilægð - sem slær á útsynninginn - en spár eru enn að vandræðast með. 

Norðanlands blotnar í - það er reyndar búið og gert að bleyta í snjó víða eystra - en nyrðra spillir - því svo á að frysta fljótt aftur. 

En látum Veðurstofuna fylgjast með veðri - engar spár eru gerðar á hungurdiskum - ekkert að marka ritstjóraflaumósuna. 


Hæðarhryggur - og svo?

Þegar lægðir fara hratt til austurs langt fyrir sunnan land beina þær stundum til okkar lofti að sunnan - en langt uppi í efri hluta veðrahvolfsins. Þetta þykir oftast hagstætt um landið vestanvert - og er reyndar meinlítið í flestum landshlutum.  

Kortið hér að neðan sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum síðdegis á föstudag (12.febrúar).

w-blogg110216a

Röstin ólmast langt suður í hafi - en vestur af Íslandi er háloftahæð. Hún er öflugri þarna uppi heldur en niður undir jörð - lifir nærri aðskildu lífi - en þvælist fyrir flestum stórum veðurkerfum sem að okkur vilja sækja. Undir hæðinni eiga sér stað smáskærur milli þess lofts af norðlægum og suðaustlægum uppruna - og milli land- og sjávarlofts. Hitasveiflur geta verið drjúgar - og stöku úrkomubakki setur hóflega óvissu í tilveruna. 

En - á norðurslóðum vesturheims er kuldapollurinn mikli, Stóri-Boli, að byltast og virðist ætla að taka mikla dýfu suður um Nýja-England um helgina eins og spákortið hér að neðan sýnir. - Lítur satt best að segja ógnandi út fyrir þarlenda (en á ekki að standa lengi). Kortið sýnir N-Ameríku - rétt sést í Ísland alveg efst á því. 

w-blogg110216c

Við þennan leik kemur mikill órói á röstina og gera spár ráð fyrir því að hún skjóti skyndilega upp kryppu í átt til Íslands sem á að hreinsa hæðarhrygginn hagstæða út af borðinu á mánudag. - Fari svo blasa einhverjir (leiðinlega) órólegir dagar við - ætli hlákan bæti ekki bara á klakann þegar upp verður staðið? 


Enn úr 30-ára meðaltalapyttinum (uppfærsla)

Tíminn líður hratt (klisja). Fyrir rúmum 3 árum var hér fjallað um stöðu 30-ára keðjumeðalhita einstakra almanaksmánaða og samkeppni nútímahlýinda við eldri hlýindi. Hér verður sá pistill uppfærður (eins og það heitir - netið er ein allsherjaruppfærslumartröð). Hér er hitinn í Stykkishólmi til meðferðar og eins og fram kom í nýlegum pistli er 30-ára ársmeðalhiti þar nú hærri en vitað er um áður, +0,09 stigum yfir hæsta 30-ára meðaltali fyrra hlýskeiðs (1932 til 1961).

En ekki standa allir mánuðir sig jafn vel. Janúar hefur að undanförnu verið langhlýjastur að tiltölu, en október lakastur. Þess vegna er 30-ára keðja þessara mánaða sýnd hér að neðan.

w-blogg100216a

Tíminn er á lárétta ásnum, en hiti á þeim lóðréttu. Kvarðinn til vinstri sýnir meðaltal janúar (blár ferill) en sá til hægri októberhitann (rauður ferill). 

Það er með ólíkindum hvað janúar hefur verið hlýr - kominn langt (0,73 stig) fram úr því sem hlýjast var á hlýskeiðinu fyrra. - Þetta getur varla gengið svona öllu lengur - eða hvað? Október er hins vegar ansi aumur að sjá - í samanburðinum. Hann hlýnaði í takti við janúar fram undir 1920 (já, hlýnun var byrjuð svo snemma) - hikaði síðan miðað við janúar - en tók gríðarlegan sprett og náði þeim fyrrnefnda rétt undir lok hlýskeiðsins - en datt svo niður aftur og hefur ekki jafnað sig síðan. Síðustu 30 októbermánuðir hafa verið lítið hlýrri en þeir voru fyrstu 30 ár tuttugustualdarinnar. 

En aðrir mánuðir? Staða þeirra sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg100216b

Súlurnar (og lóðrétti kvarðinn) sýna mun á 30-ára keðjuhita núverandi og eldra hlýskeiðs. Jákvæðar tölur sýna í hvaða mánuðum nýja skeiðið er hlýrra en það fyrra. 

Hér afhjúpast afbrigði janúarmánaðar mjög vel - og linka október. En mars, maí og nóvember hafa einnig staðið sig laklega, febrúar er rétt alveg að hafa það - og gæti gert það því kaldir febrúarmánuðir munu detta út á næstu árum. Aftur á móti verður meira á brattann að sækja fyrir desember. 

Janúar, apríl, júlí og ágúst eru á toppnum nákvæmlega núna, en júní toppaði 2014. Taki menn meðaltal af súlunum fæst út neikvæð tala (-0,05 stig) - en árið er samt +0,09 stigum ofan hæsta eldra 30-ára meðaltals eins og áður sagði. Þetta „misræmi“ stafar af því að eldri hámörk dreifast á langan tíma - njóta sín ekki alveg saman - en þau nýju gera það (hugsið aðeins um það). 

Eldri pistill um sama efni. (Þar geta þrautþyrstir aðfinnslusinnar fundið prentvillu á annarri myndinni).


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 121
  • Sl. sólarhring: 145
  • Sl. viku: 956
  • Frá upphafi: 2420771

Annað

  • Innlit í dag: 112
  • Innlit sl. viku: 844
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 106

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband