Sígild lægð?

Það er reyndar erfitt að finna lægð sem lítur út og hegðar sér eins og þær á kennslubókarsíðunum - en kannski sú sem plaga á okkur á mánudaginn sýni slíkan svip. 

w-blogg130216a

Kortið sýnir stöðuna á hádegi á sunnudag. Þá verður (að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar) sæmilega myndarleg hæð yfir landinu. Lægðakerfið norðaustur af Nýfundnalandi (þaðan koma kennslubókarlægðirnar) er það öflugt að það á að feykja hæðinni út af kortinu á augabragði (mesta furða). 

Lægðin fylgir miklu háloftalægðadragi sem skefur upp hlýtt loft og býr til mikla kryppu á heimskautaröstina. Ef vel (mjög vel) er að gáð má kannski sjá norðausturbrún kryppunnar á kortinu. Henni fylgir örmjótt úrkomusvæði á suðvestanverðu Grænlandshafi - þar er töluverður blikubakki í miklum norðvestanvindstreng sem berst síðan nær og nær Íslandi þegar liður á daginn. Ekki gott að segja hvenær hann kemur hér í augsýn.

Megi trúa spám verður annar blikubakki yfir Vestfjörðum þarna um hádegi á sunnudag - þegar við fylgjumst með á sunnudaginn gætum við ruglað þessum kerfum saman. En þeir sem stara í loft en ekki á símaskjái geta sjálfsagt séð muninn (og áhugamenn ættu að reyna það - vindur - og þar með útlit er ekki það sama). 

Dagurinn er hins vegar stuttur (þó hann lengist nú drjúgum skrefum) og aðalskýjakerfið vart komið yfir fyrr en eftir myrkur. Þá er að leggjast yfir loftvogina, fylgjast grannt með vindátt og veðurhljóðum. 

Vestanlands skellur landsynningurinn með sinni skemmtan síðan á síðla nætur og blæs mestallan mánudaginn með skyndiblota (vonandi þó ekki beinbrotum). Undir kvöld snýst síðan til útsuðurs með éljum. - Svo kemur hin sígilda fylgilægð - sem slær á útsynninginn - en spár eru enn að vandræðast með. 

Norðanlands blotnar í - það er reyndar búið og gert að bleyta í snjó víða eystra - en nyrðra spillir - því svo á að frysta fljótt aftur. 

En látum Veðurstofuna fylgjast með veðri - engar spár eru gerðar á hungurdiskum - ekkert að marka ritstjóraflaumósuna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg081124d
  • w-blogg081124a
  • w-blogg071124a
  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 323
  • Sl. viku: 1624
  • Frá upphafi: 2408638

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband