Hvar skyldi veturinn halda sig?

Það á reyndar varla við að spyrja þessarar spurningar - rétt að koma að jafndægrum að hausti - en við spyrjum samt. Enda er hann, ef vel er að gáð, að byrja að brýna klærnar yfir Norður-Íshafi. Kortið sýnir spá bandarísku veðurstofunnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á morgun, mánudaginn 21. september.

w-blogg210915a

Hér má sjá norðurslóðir, Ísland er alveg neðst á myndinni - norðurskaut rétt ofan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Ísland er enn við sumarástand hvað þykkt varðar - gula litnum fylgir að jafnaði sumarhiti - grænir litir geta líka talist til sumars - ef við gerum ekki miklar kröfur - en þegar blái liturinn fer að leggjast að okkur hvað eftir annað er hins vegar komið haust. En sá blái hefur lítt sýnt sig hér í þessum hlýja septembermánuði. 

Og staðan er þannig að kuldinn er ekki sérlega ógnandi næstu vikuna - en hann er þarna norðurfrá og mun smám saman breiða úr sér.

Við tökum eftir því að almennt er mikil flatneskja í hæðarsviðinu yfir bláa litnum - hersveitir halda kyrru fyrir. Svo eru þarna tveir sæmilega myndarlegir kuldapollar - fullir af vetri - í þeim sem er nær Síberíu er kuldinn meira að segja á 5. bláa lit, þykktin er komin niður fyrir 5040 metra - niður í vetrarkulda. 

Þessir kuldapollar eiga að reika um íshafið næstu vikuna - án þess að valda usla. Bláa flatneskjan yfir kanadísku heimskautaeyjunum (haustið) á hins vegar að sleppa til suðurs til Labrador - og er gott fóður fyrir djúpar atlantshafslægðir þegar þangað er komið. 

En kuldinn virðist ekki á leið til okkar - í bili. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 14
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 982
  • Frá upphafi: 2341356

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 900
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband