Í kalda loftinu

Svo virðist sem við verðum í köldu lofti næstu daga - fyrst af vestrænum uppruna, en norðanloft gæti litið við þegar kemur fram á þriðjudag. Heimskautaröstin liggur beint til austurs fyrir sunnan land (ekki svo mjög fjarlægð samt) - mjög öflug þessa dagana eins og sjá má af kortinu hér að neðan. Það er úr smiðju evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á sunnudag (29. mars). 

w-blogg280315a

Kortið sýnir hæð 300 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Vindstyrkur og stefna eru sýnd með hefðbundnum vindörvum, en vindhraðinn líka í lit, ljósari græni liturinn byrjar við 80 hnúta (40 m/s). 

Lægstur er flöturinn við Vestur-Grænland þar sem þrengsta jafnhæðarlínan sýnir 8220 metra. Hæstur er flöturinn aftur á móti við Asóreyjar þar sem sjá má í 9540 metra jafnhæðarlínuna. Munar 1330 metrum á því hæsta og lægsta á kortinu. Þetta nægir til að búa til mjög snarpa röst - skotvindurinn (kjarni rastarinnar) fer í nærri 200 hnúta (100 m/s) þar sem mest er. 

Við þökkum auðvitað fyrir að vera ekki í skotlínunni. Hér verður þó að minna á að mikill vindur í háloftum þýðir ekki endilega að vindur sé mikill niðri við sjávarmál. En röstin ber neðri veðrakerfi áfram og fóðrar þau sum hver. 

Á kortinu er Ísland alveg norðan rastar en hins vegar í suðvestanátt - og sömuleiðis er lægðarsveigja á jafnhæðarlínunum. Loft í kringum landið er óstöðugt og í því eru flóknar smálægðir og éljagarðar sem reiknimiðstöðvar ráða ekki vel við - alla vega eru þær mjög ósammála um öll smáatriði veðurs á sunnudaginn. Það ruglar okkur bara í ríminu að fara að tala um það hér og nú hvar snjóar, hversu mikið - og hvar alls ekki. Horfum þess í stað til himins - nú eða fylgjumst með nýjustu gervihnatta- og veðursjármyndum á vef Veðurstofunnar - vilji menn ekki fara út - eða sjái ekki til himins fyrir húsum eða trjám. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2021
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

 • ar_1844t
 • w-blogg020321b
 • w-blogg020321a
 • w-blogg020321c
 • lievog jardskjalftar 1789

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (5.3.): 19
 • Sl. sólarhring: 212
 • Sl. viku: 2375
 • Frá upphafi: 2010529

Annað

 • Innlit í dag: 19
 • Innlit sl. viku: 2042
 • Gestir í dag: 19
 • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband