Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015
8.2.2015 | 01:24
Meiri órói
Þegar þetta er skrifað (laugardagskvöld 7. febrúar) er allhvöss suðvestanátt ríkjandi á landinu. Víðast hvar er mjög hlýtt - sérlega hlýtt austanlands þar sem hiti er kominn í 15,0 stig á Dalatanga. Hlýindin eiga að endast allan sunnudaginn - en síðan tekur óvissan við.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á mánudag (9. febrúar). Meira af hlýju lofti bíður færis suður undan - en kalt er á Grænlandshafi vestanverðu - þar er -16 til -20 stiga frost vestur undir strönd Grænlands suður af Kulusuk. Svo virðist sem þetta loft sé á leið til Íslands - að vísu myndi það hlýna nokkuð yfir sjónum á leiðinni.
En suður af Grænlandi er smálægð sem flækir málið - hún hreyfist hratt til norðausturs skammt vestur af landinu. Hún tefur framrás kalda loftsins - en á þessu stigi er alls ekki ljóst hvort hún nær því að sveigja það hlýja aftur til vesturs yfir landið um leið og hún fer hjá. Það er heldur ekki ljóst hversu hvass vindur fylgir henni hér á landi.
7.2.2015 | 01:54
Verður hæðin vestan Bretlands þrálát?
Undanfarna daga hefur mikil hæð setið vestur af Bretlandseyjum og hún beinir til okkar mjög hlýju lofti. Í dag (föstudag 6. febrúar) tókst köldu lofti að brjótast austur um Ísland með nokkrum látum - en varð strax að láta undan síga. Næsta atlaga kalda loftsins verður að sögn ákveðnari - en þó er langt í frá útséð með það.
Á morgun, laugardag 7. febrúar, verður hæðin hvað öflugust - miðjuþrýstingur fer þá upp fyrir 1045 hPa - ekkert met en samt með mesta móti. Hæðin er hlý - og slíkar hæðir ná allt upp í veðrahvörf og belgja þau upp á við og ryðja heimskautaröstinni úr sinni hefðbundnustu stöðu. Minni bylgjur úr vestri ganga að hæðinni með afli og hnika henni til.
Kortið sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindörvar sýna styrk og stefnu - en þar sem vindhraðinn er mestur eru markaðir litir. Mesti vindhraðinn er yfir Vestur-Grænlandi (fjólublár blettur) - yfir 90 m/s - munar um það sem meðvind á flugleiðum.
Ísland er hér vel inni í hlýja loftinu sunnan rastarinnar - en lægðardragið sem er yfir Nýfundnalandi sækir að og mun reyna að hnika hæðinni til. Það tekst að nokkru þannig að um hádegi á mánudag hefur hún hörfað - en meginskotvindur rastarinnar verður rétt hjá Íslandi.
Við verðum á hlýju hliðinni - en samt - kalt loft getur nefnilega gengið langt inn undir röst í þessari stöðu. Sé þykktin tekin sem vísir um hita á mánudag - ætti að vera frostlaust (og vel rúmlega það) um allt land nema á Vestfjörðum. Þó á frostið að vera -10 stig í 850 hPa-fletinum yfir Faxaflóa - jú, það getur verið frostlaust við yfirborð undir svo köldu lofti - en því fylgir samt oftast frost.
Þarna stendur greinilega allt í járnum - sömuleiðis á þriðjudag - hvassviðri eða hægur - snjór eða regn?
Eftir þessa tvo erfiðu daga (þriðjudag og miðvikudag) segjast reiknimiðstöðvar nú sammála um kaldan miðvikudag - jafnvel mjög kaldan. Framhaldið? Um það er skemmtilegt ósamkomulag reiknimiðstöðva - þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi). Við skulum líta á það okkur til upplyftingar - en takið ekki mark á því.
Fyrst er útgáfa Evrópureiknimiðstöðvarinnar:
Hún sýnir krappa háloftalægð fyrir suðvestan land (í 500 hPa-fletinum). Suðvestanátt er yfir Íslandi - en hæðin hefur algjörlega vikið. Þessi staða er óvenjuleg og þrungin möguleikum.
Bandaríska veðurstofan er með allt aðra spá:
Hér er þykktin í lit - en jafnhæðarlínur sýndar heildregnar eins og á efra kortinu. Hér er allt einfalt - hlýindin taka sig strax upp aftur - enginn möguleiki á öðru. Miklu algengari og þar með líklegri staða.
En kanadíska veðurstofan er mun nær evrópureiknimiðstöðinni - en þó alls ekki eins. Japanir og bretar fara bil beggja - sé það hægt.
6.2.2015 | 01:20
Snörp vestanátt
Á morgun, föstudag 6. febrúar, gengur snarpur vestanstrengur austur yfir landið. Suðvestanáttin er að vísu búin að vera mjög hvöss víða um landið norðvestanvert (og á fáeinum stöðum í öðrum landshlutum). Loftið hefur verið mjög stöðugt og við þær aðstæður magna fjöll vind í neðstu lögum - bylgjur sem myndast í stöðugu lofti draga hreyfiorku niður undir jörð.
En eftir að kuldaskil hafa gengið yfir landið tekur öðruvísi vestanátt við. Loftið í henni er mjög vel blandað - og óstöðugt - eftir hraðferðina yfir hlýtt Grænlandshafið vestur af landinu. Mikill þrýstibratti sér til þess að búa til hvassan vind - reyndar storm eða rok allvíða - en þessi vindur sér fjöllin mun verr en sá fyrri.
Það er því blöndunin sem sér um að koma vindorkunni niður - líka þar sem vindur stendur beint af hafi - engin fjöll þurfa að koma vindinum niður. Þetta þýðir að sterkar hviður eru enn tilviljanakenndari heldur en í stöðuga loftinu - og að meðaltali minni en í því stöðuga (miðað við sama þrýstibratta).
Nú, þetta skildist væntanlega ekki mjög vel. Við látum Veðurstofuna um að vara okkur við því hvar og hvenær vindurinn verður mestur í vestanáttinni og hvenær hann gengur niður. Ferðamenn ættu að hafa vara á og fylgjast með spám og athugunum - og trúlega er alveg óhætt að gera ráð fyrir að heiðar verði kolófærar meðan veðrið stendur.
En Veðurstofan sér um það. Við lítum hins vegar á þrjár myndir. Sú fyrsta sýnir einfaldlega vindstefnu (örvar) og vindhraða (litir) um hádegi á morgun, föstudag.
Kortið er úr harmonie-líkaninu. Hér er veðrið ekki búið að ná sér fyllilega á strik - vindur er rétt að ná stormstyrk vestur af landinu. - Sé að marka spána nær veðrið hámarki síðdegis suðvestanlands en eitthvað síðar á Vestfjörðum og Norðurlandi.
Við sjáum á bylgjunum sem liggja þversum á vindinn undan Suðausturlandi að kuldaskilin eru ekki farin þar yfir - Vatnajökull er að trufla.
En nú höldum við í háloftin í fræðsluskyni - textinn er kannski ekki nema fyrir þá kortaþolnustu. Fyrir valinu verður mættishita- og vindsnið norður eftir 23 gráðum vestur - rétt við vesturströndina. Sjá má sniðið á innfelldu korti efst til hægri á myndinni.
Litir sýna vindhraða - en hann og stefnu vindsins má einnig sjá á hefðbundnum vindörvum. Heildregnar línur sýna mættishita. Við lesum stöðugleika af því hversu ört mættishitinn stígur upp á við, hitastigli hans (hljómar alltaf illa í þessu falli). Neðst er þrýstingur 1000 hPa (Snæfellsnes og Vestfirðir skjóta kryppum upp í loftið), en efst er þrýstingurinn 250 hPa - í um 10 kílómetra hæð.
Heimskautaröstin æðir yfir - vindur er þar allt upp í 50 til 60 m/s. En það er tvennt sem við eigum að taka eftir. Hið fyrra að fjöllin trufla vindinn ekki svo mjög - draga hann nokkuð niður yfir Vestfjörðum - en annars er bylgjugangur ekki mjög mikill. Hitt atriðið er mættishitinn. Svarta örin bendir á 276K (Kelvinstig, +3°C) jafnmættishitalínuna. Það vekur sérstaka athygli að að þetta er neðsta línan á myndinni.
Mættishitinn er sum sé jafn að heita allt frá yfirborði og upp í 800 hPa - í um 2 km hæð. Hér er loft greinilega mjög vel hrært - engin lagskipting. Við sjáum að nú virðist Snæfellsnesið mynda skjól - [ekki er því svo sem alveg að treysta].
Að lokum lítum við á samskonar mynd sem gildir kl. 18 á laugardag - rétt rúmum sólarhring síðar.
Hér hafa orðið miklar breytingar. Fjölmargar jafnmættishitalínur eru nú á milli 800 hPa og jarðar. Mættishiti í 800 hPa er kominn í 290K (= +17°C), hefur hækkað um 14 stig og við jörð hefur hann hækkað um 4 til 5 stig. Mættishitastigull hefur vaxið úr 0 til 1 stigi upp í að minnsta kosti 10 stig sunnan til í sniðinu (vinstra megin). Loftið er orðið stöðugt - enda eru Snæfellsnes og Vestfirðir farnir að draga vind að ofan niður á við - hlémegin.
Smávilla leiðrétt í texta kl. 09:40
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2015 | 01:33
Skammvinn sumarhlýindi í háloftunum
Á morgun, fimmtudaginn 5. febrúar, er spáð óvenjulegum hlýindum í háloftum yfir landinu - hita er spáð upp í frostmark í 3 km hæð. Þessi dýrð mun þó varla ná til jarðar - til þess er of mikið af köldu lofti að þvælast fyrir í neðri lögum - sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Efra var reyndar mjög hlýtt líka í dag - en mest fréttist af 12,4 stigum á Eskifirði nú í kvöld (miðvikudag) - og í 13,1 komst hitinn kl.1 þann 5.
Og ekki stendur þetta lengi - því kalt loft ryðst að úr vestri - yfir Grænland aldrei þessu vant - á föstudaginn. En hlýindin snúa aftur (aðeins minni þó) á laugardag og sunnudag. Það er ekkert mjög langt í landsdægurhámarksmetin - dægurmet 5. febrúar er 13,5 stig. Það er aðeins hugsanlegt að hitinn slái sér upp á topplista febrúarmánaðar - en nýtt febrúarmet yrði samt óvænt. Núgildandi met mánaðarins er 18,1 stig sem mældust á Dalatanga 17. febrúar 1998.
En það má samt vera með óskhyggju - mættishitakortið hér að neðan ýtir undir hana.
Það er evrópureiknimiðstöðin sem spáir. Jafnþrýstilínur eru heildregnar - við sjáum vel mikla hæð vestur af Bretlandseyjum sem beinir hlýja loftinu til okkar. Litirnir sýna mættishita í 850 hPa en það er sá hiti sem loft í þeim fleti næði ef það er dregið niður í 1000 hPa. Talan undan sunnanverðum Austfjörðum er há, 23,2 stig. Sjávarmálsþrýstingurinn á sömu slóðum er 1020 hPa - 1000 hPa-flöturinn er því í um 160 metra hæð og ef við gætum dregið loftið alveg þangað niður yrði hámarkstalan 24,8 stig.
Jæja, - miði er möguleiki, segja auglýsingarnar, jafnvel þó líkur séu litlar.
En seint á aðfaranótt föstudags koma kuldaskil inn á landið vestanvert og verða komin langleiðina austur af kl. 15. Rétt er að líta á mættishitaspá fyrir þann tíma líka.
Við sjáum hér kalda tungu teygja sig í átt til Íslands - eftir að hafa fallið niður af Grænlandi suður af Kulusuk. Mörk bláu og gulu litanna eru við frostmark mættishitans. En svo sjáum við nýja og efnismikla tungu af hlýju lofti ryðjast inn á sviðið strax í kjölfarið. Hlákan heldur þá áfram.
4.2.2015 | 01:42
Hláka -
Mikill gangur er nú (á þriðjudagskvöldi 3. febrúar) í veðurkerfum háloftanna - þau mega varla vera að því að sinna okkur hér í neðri heimum. Hlýindin eru miklu meiri þar efra og loftið því mjög stöðugt. Skilyrði til bylgjumyndunar yfir fjöllum eru með besta móti.
Því fengu margir íbúar á norðanverðu Snæfellsnesi að kynnast í dag (rétt einu sinni), 10-mínútna meðalvindur fór í rúma 30 m/s í Grundarfirði síðdegis. Í kvöld gekk vindur þó heldur niður því hann fór að rigna - og milli kl. 23 og 24 komu 9 mm í sjálfvirka mælinn. Ekki alveg svo óvenjulegt á þeim slóðum - en sjaldgæft í Reykjavík.
Kuldaskil eru rétt um miðnættið að koma inn á land og rjúka austur um í nótt, fara 500 kílómetrana austur um á 6 til 7 klst. Í kjölfar skilanna kólnar lítillega og vindur snýst úr suðri í suðvestur - en enginn tími er til að búa til hefðbundinn útsynning því næsta kerfi vill komast að - með meiri hlýju.
Kortið sýnir stöðuna á miðnætti, að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Úrkoman (lituð) fylgir skilunum. Til að staðsetja þau verðum við að hafa í huga að það sem sést á kortinu er úrkoma undangengnar 6 klukkustundir - hið örmjóa úrkomusvæði þessara skila smyrst út á mun breiðara bil heldur en bakkinn nær yfir á hverjum tíma.
Lægðin djúpa við Labrador fer norður um fyrir vestan Grænland en við fáum bæði hlýjan geira hennar sem og kuldaskil til okkar næstu daga. Hæðin fyrir sunnan land á að styrkjast og jafnvel komast upp fyrir 1045 hPa þegar best lætur eftir nokkra daga. Veðurlag utan í svona sterkum hæðum er með öðru bragði en lægðaveðrið.
Kuldaskilum fylgja oft brot í veðrahvörfunum. Mikið niður- eða uppstreymi fylgir slíkum brotum. Niðurstreymi í tilviki kvöldsins og sést sérlega vel á gervihnattarmynd frá miðnætti. Þetta er svonefnd vatnsgufumynd - tekin á bylgjusviði sem vatnsgufan byrgir sýn til jarðar - ekki bara ský. Á dökkum svæðum sést langt niður í lofthjúpinn - þar sem niðurstreymisloft úr neðsta hluta heiðhvolfs hefur ýtt rakara lofti í efri hluta veðrahvolfs tímabundið til hliðar. Síðan breiðist veðrahvolfsloft aftur yfir.
Hér er örmjó ræma af lágum veðrahvörfum vestan Íslands, rétt vestan kuldaskilanna - en nýtt skýjakerfi ryðst yfir hana úr vestri og er nánast að loka af lítinn sveip suður í hafi. Það er gaman að sjá svona fyrirbrigði - þó þau séu algeng.
Evrópureiknimiðstöðin giskar á hæð veðrahvarfanna í spám sínum. Kortið að neðan sýnir ágiskun fyrir sama tíma og myndin að ofan.
Kortið sýnir stærra svæði en myndin - en við finnum Ísland fljótt með því að bera saman kort og mynd. Bláu svæðin samsvara þeim gráu á myndinni - en dökkbrúnt, fjólublátt og hvítt samsvara dökku svæðunum. Tölurnar sýna þrýstihæð veðrahvarfanna - í hvaða þrýstifleti þeirra er helst að leita. Á bláu svæðunum eru lægri tölur en 240 (hPa). Þar eru veðrahvörfin í meir en 10 km hæð. Á hvíta blettinum vestan við Ísland er talan 870 hPa, niðri í 1200 metrum. - Trúlega eru hin raunverulegu veðrahvörf ofar en þetta - en alla vega neðarlega - nú eða þá brotin.
3.2.2015 | 01:37
Byrjar hlákan svona?
Eins og fjallað var um í pistli gærdagsins hlýnar að þessu sinni mun hraðar í háloftunum heldur en hér niðri í mannheimum. Mjög kalt loft liggur í makindum yfir landinu og það hverfur ekki í sólarleysinu heldur þarf vindur annað hvort að hrekja það burt eða blanda því saman við hlýrra loft ofan við. Hvort tveggja gerist væntanlega.
Síðdegis á morgun (þriðjudag 3. febrúar) er hlýja loftið farið að verða nokkuð aðgangshart og ef marka má hitaspá harmonie-líkansins verður sums staðar orðið alveg frostlaust. En hvar byrjar hlákan?
Litakvarðinn sýnir hitann. Frostlaust er orðið á gulu svæðunum. Sé spáin rétt verður frostlaust í Vestmannaeyjum, jafnvel á Landeyjasandi, utan til á Reykjanesi og fleiri annesjum vestanlands. Hér blæs vindur einfaldlega af hafi - kalda loftið á enga möguleika.
Frostleysisræma liggur frá Kjalarnesi, framhjá Akranesi og norðvestur í átt til Mýra. Svo eru frostlausir blettir í Ísafjarðardjúpi, á Ströndum, við Vatnsnes og stórt svæði norður af Tröllaskaga og Eyjafirði hefur alveg hreinsast af frosti. Svo er nærri frostlaust nærri Holuhrauni - nei líkanið veit ekkert af gosinu. Þetta er niðurstreymið af Dyngjujökli sem er svona hlýtt.
Miklar bungur af köldu lofti ganga í sjó fram vestan til á Suðurlandi, - og um Reykjavík og víðar. Á þessum stöðum stendur mjög hægur vindur af landi - kuldinn lifir ekki lengi yfir sjónum - en gefur sig þó ekki á stundinni. Víða má sjá athyglisverð smáatriði, t.d. virðist mikill munur vera á hita vestan- og austanmegin á Skjálfandaflóa.
En byrjar hláka morgundagsins svona? Eða er líkanið of tregt til blöndunar? Það er ekki alveg heiglum hent að blanda lofti í líkani - auðveldara að elta það óblandað.
Auðvitað má fylgjast með aðsókn hlákunnar og atburðum henni tengdri á vef Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar - spennandi töflu- eða línuritalestur framundan?
2.2.2015 | 01:02
Fyrst uppi - síðan niðri
Þegar venjuleg lægðakerfi nálgast úr suðvestri gera þau fyrst vart við sig með klósigum og síðan bliku. Í fljótu bragði mætti ætla að suðvestanátt blási í skýjahæð - en sé fylgst nánar með skýjunum má oft sjá að þau hreyfast í raun úr norðvestri til suðausturs - í hvassri norðvestanátt. Sunnanátt í neðri lögum kemur svo löngu síðar.
Á morgun (mánudaginn 2. febrúar) gengur mikill háloftahryggur inn yfir landið úr vestri. Honum fylgir mjög hlýtt loft efra - meira að segja niður í mitt veðrahvolf. Staðan kl. 18 síðdegis sést vel á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Ísland er á miðri mynd - Skotland neðst til hægri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn - vindörvarnar sýna styrk hans og stefnu. Litir sýna hita, við sjáum að litirnir eru mjög þéttir yfir landinu austanverðu og þar austan við - þar er vindurinn líka mestur - meiri en 50 m/s þar sem mest er.
Frostið er rúm -40 stig í dökkbláa litnum - en ekki nema -17 stig í þeim brúna vinstra megin á kortinu - yfir suðausturströnd Grænlands. Reiknimiðstöðin segir að háskýjabakki verði yfir Vesturlandi á þessum tíma - ekki þó víst að hann sé samfelldur vestur úr.
Úrkomusvæðið og sunnanátt sem þessi ský boða á ekki að vera komið til okkar fyrr en á þriðjudagskvöld - eða aðfaranótt miðvikudags. Þetta er langur undirbúningstími.
Fyrir tíma tölvuspáa gat tekið nokkuð á veðurspámenn að bíða - því niður í neðri lögum horfir öðru vísi við. Það sýnir 925 hPa kort sem gildir á sama tíma. Þá verður 925 hPa-flöturinn í um 700 til 800 metra hæð yfir landinu.
Þetta kort er nánast eins og úr öðrum heimi. Mjög kalt loft liggur yfir landinu - nærri því eins kalt í 800 metra hæð eins var í 5,5 km hæð vestur af landinu á hinu kortinu. Við sjáum reyndar aðeins í hlýindin og sunnanáttina neðst til vinstri.
Fyrir norðaustan land er dálítið lægðardrag sem hreyfist hratt til suðurs og gæti valdið hvössum norðanvindi á Austurlandi þegar það fer hjá. Annars er besta veður - en nokkuð kalt um landið vestanvert og jafnvel verður gott veður megnið af þriðjudeginum líka - en rétt er nú fyrir alla að fylgjast heldur með spám Veðurstofunnar þar um en taka mark á rausinu í ritstjóra hungurdiska.
1.2.2015 | 00:47
Suðvestanátt framundan?
Umhleypingarnir munu víst halda áfram að loknu þessu stutta hléi sem nú stendur (laugardagskvöld 31. janúar). Að sögn reiknimiðstöðva munu þeir þó verða með öðru bragði heldur en hingað til í vetur. Breytingin sést vel á korti evrópureiknimiðstöðvarinnar hér að neðan.
Kortið sýnir meðalsjávarmálsþrýsting næstu tíu daga og vik frá meðallagi febrúarmánaðar 1981 til 2010. Vikin eru sýnd með litum, rauðu litirnir sýna svæði þar sem þrýstingur er yfir meðallagi, en en þeir bláu svæði þar sem hann er undir því.
Gríðarmikið jákvætt vik á miðju fyrir sunnan land, í því miðju er þrýstingurinn +20 hPa yfir meðallagi. Þetta þýðir að búast má við því að suðvestanátt verði ríkjandi hér á landi - sé að marka spána. Hingað til hefur þrýstingur lengst af verið frekar lágur - en nú á að skipta um. Það verður spennandi að sjá hvort þetta ástand endist lengur - og hvort háþrýstingurinn færist nær okkur en hér er sýnt - eða við lendum aftur í lágþrýstingi.
Sé þetta rétt munu lægðarmiðjur líklega ganga til norðurs meið vesturströnd Grænlands en senda hvert lægðardragið á fætur öðru til Íslands. Sunnanstrekkingur er á undan lægðardrögunum en vestanhvassviðri á eftir þeim. Við gætum líka lent í hlýjum geirum lægða með suðvestanrigningu og súld - í stað hefðbundinna útsynningsélja - en austanlands yrðu þá margir dagar alveg þurrir að kalla - og margir hlýir.
Vindur í háloftunum verður gríðarmikill mestallan tímann og hlýtt verður að meðaltali í neðri hluta veðrahvolfs. Niðri við sjávarmál verða hlýindi ekki jafn eindregin og er hita í 850 hPa spáð nærri meðallagi tímabilið allt - en sveiflur þó miklar frá degi til dags.
Meðalspá er bara meðalspá - veður einstaka daga er oftast allt annað - og þar að auki geta reikningar sem þessir brugðist illa.
En komi umskiptin byrjar lægðagangurinn nýi á þriðjudag.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 43
- Sl. sólarhring: 146
- Sl. viku: 1964
- Frá upphafi: 2412628
Annað
- Innlit í dag: 43
- Innlit sl. viku: 1717
- Gestir í dag: 42
- IP-tölur í dag: 41
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010