Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015
18.2.2015 | 01:43
Hitafar á Kjalarnesi í dag (þriðjudag 17. febrúar)
Í dag var einkennilegt hitafar á Kjalarnesi í nágrenni Reykjavíkur. En lítum fyrst á spákort harmonie-líkansins um hita á landinu um miðnæturbil nú í kvöld (þriðjudag 17. febrúar).
Ekki þarf að horfa lengi á þessa mynd til að sjá að ýmislegt einkennilegt er á seyði. Sjá má bletti víðsvegar um hálendið þar sem líkanið segir að frostlaust sé - jafnvel þótt yfirleitt sé töluvert frost. Meðfram norðvesturbrún Vatnajökuls er svæði þar sem hiti fer upp í 3,3 stig - og frostleysurönd er meðfram norðurbrún Dyngjujökuls. Sömuleiðis er ámóta blettur við norðvestanverðan Hofsjökul.
Um Suðurlandsundirlendið liggja skörp hitaskil á milli upp- og lágsveita. Þetta er nú hálfótrúlegt allt saman - en samt gæti verið eitthvað til í þessu. Kl. 23 var hitinn við Hágöngur -0,2 stig, en -7,3 í Veiðivatnahrauni á sama tíma.
Hér tekst á hlýtt loft í nokkur hundruð metra hæð yfir landinu og kalt loft sem annað hvort þarf að ryðja burt - eða blanda saman við hlýja loftið. Þegar svona stendur á - og hvessir er hlýja loftið líklegast til að láta vita af sér hlémegin fjalla.
Og þannig stóð á á Kjalarnesi í dag (þriðjudag 17. febrúar). Myndin sýnir hita á þremur stöðvum frá því kl. 15 til kl. 22.
Blái ferillinn sýnir hita á Skrauthólum, sá rauði við Blikdalsá skammt sunnan við Hvalfjarðargöng og sá græni á við stöðina nærri Móum (hún heitir yfirleitt Kjalarnes).
Frost er á öllum stöðvunum fram til kl. 18:30 - þá fer hiti upp fyrir frostmark við Blikdalsá - og í frostmark við Skrauthóla skömmu síðar. Ekki hlánaði á Kjalarnesi fyrr en klukkan að verða tíu í kvöld.
Eins og sjá má fór hitinn í rúm 9 stig við Blikdalsá um kl. 20 - á sama tíma var frost við Móa. Mesti samtímamunur ver 9,8 stig. Hvasst var á báðum stöðvum - sem gerir stöðuna enn sérkennilegri. Stöðin við Móa var í vindstreng sem lá í kalda loftinu - nokkuð aðþrengdu við suðurhlíðar Esju - í hríðarbyl. Ritstjórinn sá vart út úr augum þegar hann ók heimreið sína nærri Úlfarsá um svipað leyti.
Vindurinn við Blikdalsá virðist hafa komið beint niður Blikdalinn án þess að blandast svo mjög til hliðanna. Þar hefur loftið hlýnað um ein 8 stig á leið ofan af Esju. Ekki svo löngu síðar hefur loftið í kring farið að blandast upp í hlýja loftið - þá kólnaði um 2 til 3 stig við Blikdalsá - en fór að hlýna á Skrauthólum og loksins við Móa líka.
Harmonie-líkanið er að sýna eitthvað þessu líkt - hvort það hittir í á nákvæmlega réttum stöðum á réttum tíma er svo annað mál. En það er mjög í minni frá unglingsárum ritstjórans að meðan ófærð og hríð ríkti í austanátt í Reykjavík gat verið rigning og hláka í Borgarnesi - og stöku sinnum öfugt væri áttin aðeins norðlægari.
Þetta veður á Kjalarnesi nú í kvöld var vafalítið hættulegt umferð. Að aka inn og út úr hríðarveðri og hláku sitt á hvað skapar alls konar hættu sem tengist skyndilegri hálku eða ísingu á vegi - nú eða á bílnum og framrúðunum. Skafrenningurinn sést þó, en ísingin miklu síður og hún getur þar að auki verið óvænt og sýnst óskiljanleg. Vonandi hafa engir lent illa í því.
17.2.2015 | 01:53
Grænlandsstrengir
Í dag (mánudaginn 16. febrúar) hefur landið sunnan- og vestanvert fengið að finna fyrir útsynningsstroku að vestan. Eitthvað af loftinu er sennilega komið vestan yfir Grænland - en það er ekki mjög algengt. En við leggjum ekki í að greina það í smáatriðum. Við vitum hins vegar að líkan evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir fallvind við Austur-Grænland vestur af Íslandi.
Kortið hér að neðan sýnir vind líkansins í 100 metra hæð yfir sjávarmáli kl.18 í dag.
Rauðbleiku litirnir sýna vind á bilinu 24 til 32 m/s, þeir brúnu aftur á móti vind sem er meiri en 32 m/s. Tölurnar í hvítu kössunum sýna líklegar vindhviður - en í þeim gulu má sjá mestu hviðu (eins og líkanið sér hana). Hér liggur vindstrengurinn alveg þvert á Grænlandsströnd.
Á miðvikudagsmorgni kl.9 (eftir rétt rúman einn og hálfan sólarhring) er lægðin sem var milli Vestfjarða og Grænlands alveg farin - en ný komin langleiðina í hennar stað.
Sú lægð er búin að hreinsa kalda loftið sem fyrir var af svæðinu - en það berst í þrengslum í gríðarlegum vindstreng sem nú liggur langsum meðfram austurströnd Grænlands. Fárviðri (gulbrúnir litir) er á stóru svæði. Á Íslandi er hins vegar aftur kominn nýr útsynningur - eftir landsynning þriðjudagskvöldsins - vonandi vægari en sá sem plagaði í dag.
Við vonum auðvitað að við sleppum alveg við þennan illa streng - evrópureiknimiðstöðin gefur von um að svo verði - því þegar lægðin nýja mjakast austur - léttir á þrengslunum og kalda loftið í þeim fer suður um og endar sem vestanátt fyrir sunnan land. - Jú, norðaustanáttin kemur hingað - en ekki af miklu afli - það tekur lengri tíma að ná í nýjar birgðir af kulda í nýjan vindstreng að norðan - og nýja lægð til að þrengja að honum.
16.2.2015 | 01:23
Lægðagangurinn heldur áfram - en ...
Lægðagangurinn heldur áfram svo langt sem séð verður - en eitthvað er verið að tala um að næstu lægðir, frá og með þriðjudegi (17. febrúar), séu líklegri til að fara fyrir sunnan landið - að vísu eftir viðkomu vestan við það. Ekkert skal þó um það fullyrt hér. Þetta gæti þýtt að úrkomusamara verði norðaustanlands heldur en verið hefur að undanförnu. En, nei, það verður ekki úrkomulaust syðra þrátt fyrir það.
Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi á þriðjudag. Þá verður útsynningur mánudagsins alveg genginn niður. Bærilegt veður á landinu, en suðaustanhvassviðri skammt undan.
Við sjáum að lægðasvæðið er gríðarstórt - lægðin sem er í fararbroddi hefur slitið sig frá afgangnum - sem dólar síðan á eftir. Það þýðir að erfitt er að búa til harða vestanátt fyrr en allt kerfið er komið norður fyrir - í sameiningu. Óvíst er að það takist - en miðvikudagur og fimmtudagur duga varla til að hreinsa þetta stóra kerfi alveg austur af - út af okkar borði.
En nákvæmar spár lengra fram í tímann en tvo daga eru næsta tilgangslitlar í stöðu sem þessari.
15.2.2015 | 02:03
Milljón
Í dag (laugardaginn 14. febrúar) fór tala flettinga á bloggi hungurdiska upp fyrir milljón. Fyrst var ætlunin að reyna að halda út í þrjú ár - en úthaldið hefur nú staðið í fjögur ár og sex mánuði. Pistlarnir orðnir 1432 að tölu. Skyldi nú vera nóg komið?
14.2.2015 | 01:29
Mikill órói
Og enn blotar - og frýs svo aftur - og - og .. Ekkert lát er á umhleypingunum. Lægðin sem verður við landið á laugardag (14. febrúar) og sunnudag er djúp. Reiknimiðstöðvar eru þó ekki alveg vissar um hversu djúp hún verður. Það flækir mjög málið að lægðin er ekki ein á ferð - heldur er önnur sem dregur hana uppi og reynir að sameinast þeirri fyrri.
Þessi lægðasameining hefur þann kost að útsynningurinn sem ætti að fylgja fyrri lægðinni strax á laugardagskvöld kemur ekki - fyrr en nærri sólarhring síðar. Nema að það sé einmitt ókostur? Þetta stendur þó mjög glöggt.
En blotinn er mikill - kortið hér að neðan sýnir hámark hlýindanna um miðnætti á laugardagskvöld.
Jafnþykktarlínur eru heildregnar - en hiti í 850 hPa-fletinum er sýndur í lit. Þykktarmynstrið yfir landinu er flókið - kaldara er áveðurs (í uppstreyminu) en hlýrra norðan fjalla þar sem niðurstreymi er mest.
En þetta fýkur fljótt hjá. Meginspurningin er hversu seint síðari lægðin kemur að landinu. Því síðar sem það gerist því líklegra er að töluverð snjókoma fylgi kuldaskilunum - einkum þá um landið vestanvert. - Sameinist lægðirnar hins vegar beint vestur af landinu fara kuldaskilin hratt hjá og hann gengur strax í útsynning með hefðbundnum éljum. Hvor kosturinn er skárri er smekksatriði - einkum snjór - eða einkum hálka - gjörið svo vel.
En útsynningurinn er svo ansi kuldalegur - eins og kortið að neðan sýnir. Það gildir kl. 18 síðdegis á mánudag. Élin gætu orðið efnismikil eftir að Grænlandshaf hefur reynt að hita loftið upp undir frostmark.
Hlýja loftið er hér alveg horfið - langt norður í Ballarhaf - hugsanlega rignir á Svalbarða (það vill örugglega enginn þar um slóðir). Við sjáum hvernig klær kuldabola falla niður af Grænlandi og reyna að krækja sig austur fyrir sunnan Hvarf. Þykktin sem var meiri en 5460 metrar um einum og hálfum sólarhring áður er nú komin niður í 5080 yfir miðju landi - fall um 380 metra eða meira, 19 stiga hitafall (og e.t.v. meira þar sem mest verður). - Æ.
En - rúmum sólarhring síðar á þykktin að vera komin aftur upp fyrir 5300 metra - svo greinir reiknimiðstöðvar að - eins gott - það gefur von. En að sögn mun hiti verða í meðallagi næstu tíu daga - jú, meðaltalið af -10 og +10 er núll. Þetta er mikill órói.
13.2.2015 | 01:18
Þurrt loft
Loft var óvenjuþurrt vestanlands í dag (fimmtudaginn 12. febrúar). Rakamælingar eru að vísu ónákvæmar - og sérlega ónákvæmar í miklu frosti. Á sjálfvirkum mæli á Hafnarmelum fór daggarmarkið niður í -29,6 stig - og í Reykjavík lægst niður í -18,8 stig. Í raun og veru er nákvæmni mælinganna ekki mikil - og við trúum þeim varlega - rakamælirinn á Hafnarmelum sýndi lægst 10 prósent raka - varla líklegt, - en rétt rúm 30 prósent í Reykjavík - sem gæti verið nærri lagi.
Væntanlega hefur víða verið þurrt innandyra - jafnvel óþægilega. Gamall rakamælir í stofu ritstjóra hungurdiska fór þó ekki neðar er 30 prósent - raunverulega hefur rakastigið verið nokkru lægra. Fyrir mörgum árum fór sami mælir niður í 16 prósent - í miklu frosti og sólskini í mars - en þá var hann ungur og sprækur - en ekki stirður og gamall - og ritstjórinn yngri en hann er nú.
Venjulega er rakamælingum ekki mikill gaumur gefin - og þurrkurinn í dag hefði e.t.v. farið að mestu fram hjá ritstjóranum hefði honum ekki verið spáð og það mjög greinilega.
Kortið hér að neðan sýnir rakastig eins og harmonie-líkan Veðurstofunnar vildi hafa það kl. 21 nú í kvöld (fimmtudag).
Gulu og brúnu litirnir sýna lágt rakastig. Lægsta talan sem ritstjórinn finnur er 16 prósent - ekki langt frá Grindavík. Mælir vegagerðarinnar við Festarfjall sýndi 18 prósent kl. 19. Kannski er bara nokkuð vit í mælingunni þegar allt kemur til alls?
Líkanið segir að enn þurrara sé uppi í 925 hPa-fletinu í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Það álit má sjá á kortinu hér að neðan.
Dekksti gulbrúni liturinn sýnir hvar raki er minni en 10 prósent. Nokkuð ótrúlegt?
Þegar þurrt loft birtist er það oftast vegna niðurstreymis úr efri lögum. Við getum ekki fylgt því máli eftir hér að öðru leyti en því að líta á lóðréttar hreyfingar lofts í 700 hPa á sama tíma - kl. 21 fimmtudagskvöldið 12. febrúar - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting, hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða í 700 hPa-fletium (í um 3 km hæð). Litirnir sýna þrýstilóðstreymi. Bláu litirnir sýna uppstreymi - en þeir brúnu niðurstreymi. Mælieiningin er harla framandleg ,Pa/s, - pasköl á sekúndu. Í uppstreymi verður loft fyrir þrýstilækkun - þess vegna eru bláu tölurnar negatífar - en í niðurstreymi öfugt. Talan 10 Pa/s er ekki fjarri 1 m/s upp- eða niðurstreymi.
Yfir landinu er mjög stórt svæði þar sem öflugt niðurstreymi er ríkjandi, um 0,1 m/s (já það er mikið). Í niðurstreyminu hækkar hiti og þar sem rakainnihald breytist ekki hlýtur rakastigið að lækka.
Með því að rýna í kortið má e.t.v. finna ástæðu niðurstreymisins - og gætu djarfir lesendur reynt það - en við látum slíkar æfingar alveg eiga sig að þessu sinni - enda yrði um getgátur að ræða - og klukkan orðin allt of margt.
12.2.2015 | 02:26
Öfugt
Eitt þeirra veðurorða sem sjá má á gömlum bókum og dagbókarfærslum er hornriði - og er eitt þeirra orða sem skýrir sig að miklu leyti sjálft - eftir að búið er að skýra það. Sveinn Pálson læknir og náttúrufræðingur skilgreindi hornriða svo: Það er, að skýin dregur upp frá vestri, og þó blæs á austan eða norðaustan. Margir fara þó mun frjálslegar með hugtakið heldur en Sveinn. Ritstjóri hungurdiska vill gjarnan koma því inn í nútímaveðurmál - en vill samt ekki trampa um of á hinni hreinu skilgreiningu Sveins á skítugum skónum.
Hann kallar samt ástand þegar vindur blæs úr mismundandi áttum í misjöfnum hæðum riðið. Önnur ástæða fyrir því að segja að loft eða ástand sé riðið er sú að þá mynda jafnhæðarlínur og jafnþykktarlínur horn á milli sín þannig að úr verður net - og má þá sjá riða (möskva) - eins og í hefðbundnum netum.
Sértilvik er þegar vindur blæs úr öfugum áttum uppi og niðri - það kallar ritstjórinn öfugsniða - sem er hrá þýðing á alþjóðaorðinu reverse shear.
Eftir þennan langa (og illskiljanlega) inngang er komið að dæmi dagsins. Við sjáum fyrst spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um vindhraða í 100 metra hæð föstudaginn 13. febrúar kl. 6. Munum að töluverðu getur munað á vindhraða í 100 metra hæð og í hefðbundnum 10 metrum mælimastranna.
Lægð er suður af landinu og mikill vindstrengur af austnorðaustri á milli hennar og lands - og nær alveg upp að landi. Þetta eru að nokkru leyti hefðbundin hitaskil, sunnan við þau er suðaustanstrekkingur. Oftast er hægt að ganga út frá því að vindur í hlýjum geirum - sé af svipaðri átt niðri og í háloftunum. Það er hann líka í þessu tilviki.
Við gætum búist við því að háloftavindur yfir austnorðaustanstrengnum sé líka suðaustlægur - en það er hann ekki í þessu tilviki (ekki enn) heldur er hann af suðvestri. Þetta sést vel á 500 hPa-kortinu hér að neðan sem gildir á sama tíma og sýnir sama svæði.
Ef við rýnum í kortið má sjá að þar er nærri því allstaðar hlýtt aðstreymi - vindur ber hlýrra loft með sér bæði að sunnan og vestan. Lendi hlýtt aðstreymi eins og það sem þarna kemur að sunnan á móts við kalt skerpir á suðvestanáttinni uppi - og norðaustanáttinni niðri - þá yrði norðaustanhríð á Suðurlandi. Slíkt veðurlag er alltaf illt og athyglisvert. Þegar suðaustanáttin nær landi hlánar.
Reyndar er það svo að þessu sinni að við virðumst eiga að sleppa við hríðina því hlýja aðstreymið að (suð)vestan valtar yfir allt skömmu síðar en þetta kort gildir og færir okkur hláku í stað hríðar.
En það er raunveruleg óvissa um það hversu langt austnorðaustanhríðin nær - kannski sleppur landið allt?
En látið þetta ritstjórahjal ekki rugla ykkur - fylgist heldur með spám Veðurstofunnar.
11.2.2015 | 01:30
Endurskipulagning
Næstu tvo daga (miðvikudag og fimmtudag 11. og 12. febrúar) virðist verða uppi smáendurskipulagning á skítkastinu yfir Norður-Atlantshafi - auðvitað til þess að það geti svo haldið áfram.
Undanfarna daga höfum við verið í námunda við kjarna heimskautarastarinnar - fyrst í hlýindunum suðaustan hans - svo beint undir honum - og loks í dag í norðvesturjaðrinum. Gengið hefur á með snörpum éljum um landið vestanvert í allhvassri vestanátt. Skortur hefur verið á köldu lofti fyrir norðan okkur þannig að vestanátt háloftanna hefur náð til jarðar - við setjum það í gæsalappir - en það er samt nokkurn veginn þannig.
Stöðuna í dag (þriðjudag 10. febrúar) má sjá á kortinu að neðan. Það er 300 hPa kort evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar - við erum í kringum 8,5 til 9 km hæð yfir sjávarmáli (merkingin er í dekametrum, 1 dam = 10 metrar). Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða - almennt er heimskautaröstin nokkuð breið - en yfir Íslandi þrengist hún og myndar eindreginn kjarna - sumir segja skotvind - sem litirnir afmarka. Í dekkri bláa litnum er vindhraðinn meiri en 60 m/s.
Þessi kjarni er smám saman að þokast til austnorðausturs - og út úr kortinu. Við Nýfundnaland er næsta lægðakerfi í undirbúningi - við sjáum tvo (eða þrjá) kjarna. Sá nyrsti er í lægðabeygju, en sá syðri (og lítillega öflugri) er í hæðarbeygju.
Fyrir tíma tölvuspáa var mjög erfitt að ráða í hvað úr svona nokkru yrði - hvað gerist þegar bylgjur af mismunandi bylgjulengdum og beygjum lenda saman. En þótt þetta sé sérgrein reiknilíkananna vilja þau samt misreikna sig - meira að segja aðeins fáa daga fram í tímann. En hér að neðan má sjá líklegt framhald í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Við erum nú komin fram á á fimmtudagsmorgunn kl. 6. Hér má sjá að mjög hefur hert á vindi í nýju lægðinni. Kjarninn orðinn fjólublár - vindhraði 90 m/s - jafnframt er bylgjan orðin býsna kröpp. Það var kennt hér á árum áður að væri rastarkjarni (vindhraðahámark) bakvið (vestan- eða norðanmegin) bylgjuna myndi hún líklega grafa sig niður sem kallað er. Þá er átt við að hún komist aldrei norður á bóginn hjálparlaust.
Sé það rétt í þessu tilviki ætti lægðin sem fylgir bylgjunni aldrei að komast til Íslands. Við myndum þá missa lægðina til austurs eða jafnvel suðausturs og fá einn eða tvo aukadaga í fríi frá skakinu. En reiknimiðstöðvar hafa skakast með þessa ákveðnu lægð fram og til baka í spánum undanfarna daga -.
Rétt er að ræða málið ekki frekar á þessum vettvangi fyrr en fullt samkomulag hefur náðst (eða þagga það í hel - eins og háttur er hérlendis - og furðu oft árangursríkt - þegar vandræði eru annars vegar). En eftir að þessi bylgja er frá virðist vera sátt um að stöðugur og ör lægðagangur haldi áfram svo langt sem séð verður.
10.2.2015 | 01:37
Köld vestanátt
Eftir hlýja suðvestanátt tekur köld vestanátt við. Neðri hluti veðrahvolfs er oftast vel hrærður við slíkar aðstæður og hitinn þess vegna e.t.v. ekki alveg jafnlágur og búast mætti við - miðað við kuldann í háloftunum. Sjór vestur af landinu er hlýr og hitar kalt loft baki brotnu hvort sem það er komið að sunnan fyrir Grænland - eða að einhverju leyti yfir það.
Skilakerfi heimskautarastarinnar hreinsast frá - í bili - nokkuð langt austur fyrir land - en vindur er samt býsna stríður í háloftunum og sér til þess að viðhalda vestan- eða suðvestanáttinni eins og sjá má á kortinu hér að neðan.
Kortið sýnir vindátt (örvar) og vindhraða (litir) í 100 metra hæð um hádegi á miðvikudag (11. febrúar). Lengst til hægri má enn sjá til hlýindanna - kuldaskilin eru rétt sunnan við Færeyjar. Við Ísland eru tvær smálægðir - nokkuð snarpar. Þær hreyfast báðar til austnorðausturs og eru fullar af éljabökkum eða stökum éljum. Það er einkum sunnan við þær sem vindur nær sér upp - en norðaustanáttin á Grænlandssundi er veik - aldrei þessu vant. Rétt er að minna á að vindur í 100 metra hæð er að öðru jöfnu nokkru meiri en niður í venjulegri 10 metra mælihæð.
Næsta kort sýnir þykktina og hita í 850 hPa-fletinum á sama tíma (hádegi á miðvikudag 11. febrúar).
Jafnþykktarlínur eru heildregnar - en hiti í 850 hPa er sýndur í lit (kvarðinn batnar við stækkun). Það vekur athygli hversu þéttar jafnþykktarlínurnar eru - en samt er áttin vestlæg yfir Íslandi og aðeins veik norðaustanátt í Grænlandssundi. Þykktarmunur yfir landið frá norðvestri til suðausturs er um 140 metrar.
Það jafngildir um 18 hPa - og væri logn í 500 hPa þýddi það þrýstivind á bilinu 25-30 m/s af norðaustri á landinu - og leiðindaveður satt best að segja. En suðvestanátt háloftanna gerir meira en að jafna þetta út - rétt tæplega svo í Grænlandssundi (þar er þrátt fyrir allt norðaustanátt við yfirborð).
Rétt er að benda á að smálægðirnar tvær sjást á þykktarkortinu sem öldur á jafnhæðarlínunum.
Þessi tími (hádegi á miðvikudag) er valinn vegna þess að þá á útbreiðsla kalda loftsins að vera í hámarki. Það er 4980 metra jafnþykktarlínan sem gengur yfir Jökulfirði og frostið í 850 hPa er -16 til -18 stig í 850 hPa yfir landinu norðvestanverðu. Tölur sem þessar eru mun algengari í norðanátt heldur en í vestanátt eins og nú og gefa tilefni til mikilla élja - en vonandi sleppum við flest með skrekkinn.
En þetta er allt hverfult. Til að sjá það betur lítum við á norðurhvelskort sem sýnir 500 hPa-hæð og þykkt kl. 18 þennan sama miðvikudag (11. febrúar).
Ísland er rétt neðan við mitt kort. Mesti kuldi norðurhvels er nú á slóðum Stóra-Bola, við Baffinsland og önnur kuldamiðja er við norðausturhorn Grænlands. Hæðin sem færði okkur hlýindin hefur hörfað austur til Þýskalands. Við sjáum fjölmargar efnilegar bylgjur á heimskautaröstinni. Allar þær sem eru á milli okkar og Klettafjalla skipta máli fyrir veður hér á landi næstu daga og viku.
Sú næsta er á kortinu rétt austan við Nýfundnaland og hafa spár um örlög hennar verið gríðarlega misvísandi síðustu daga - og enn er varla ljóst hvað hún gerir hér við land. Gæti e.t.v. farið alveg fyrir og þar með framlengt kuldann hér - gæti líka valdið (sjaldséðri) norðaustan- eða austanhríð á Suðurlandi - en gæti líka valdið góðri hláku á föstudag - ?
Það er líka sjálfsagt að benda á að kuldinn vomir enn yfir norðurhluta Bandaríkjanna - erfiðir tímar framundan hjá spámönnum norðausturstrandarinnar - og lægðin kalda við Tyrkland er mjög illvíg - einhverjir nefndu að þar væri spáð mikilli snjókomu í fjallabyggðum. - Nú og ábyggilega snjóar mikið í Japan - þar eru menn þó betur búnir til slíks heldur en víða annars staðar.
9.2.2015 | 01:23
Kuldinn nálgast (?)
Það bar til tíðinda í dag (sunnudaginn 8. febrúar) að hiti komst í 17,4 stig á Dalatanga. Þetta heggur nærri íslandsmeti í febrúarhita - en ekki samt alveg.
Það opinbera er 18,1 stig - einnig frá Dalatanga (1998) en ein tala er til hærri, 18,3 stig (2005) en hefur ekki hlotið náð úrskurðarráðs um veðurmet (sem hefur reyndar ekki verið stofnað). Um þessi mál var fjallað í pistli á hungurdiskum 14. febrúar 2011 - [ritstjórinn þóttist viss um að það hefði verið 2013 - en svona er tíminn fljótur að líða].
En nú eru mestu hlýindin að líða hjá og stutt er í kalt loft - þó því gangi illa ð komast til landsins.
Kortið sýnir hæö 925 hPa-flatarins (í 600 til 700 metra hæð yfir landinu í dag - heildregnar línur), hita í fletinum (litir - kvarðinn batnar sé kortið stækkað) og vind sem sýndur er með hefðbundnum vindörvum.
Hlýr strókur stendur austur af landinu þar sem sjá má töluna 9,0 stig. Hér sést greinilega að hann er tengdur niðurstreymi - af völdum landsins. Frostmarkið er á mörkum gulu og grænu litanna og við sjáum af legu vindörva og lita lengst til vinstri á kortinu að vindurinn er að bera kaldara loft í átt til okkar.
Það gengur þó hægt - en síðdegis á morgun (mánudaginn 9. febrúar) verður staðan sú sem sýnd er á kortinu hér að neðan.
Þarna má sjá að lægðarbylgja fyrir vestan land hefur hægt á framrás kuldans - þannig að bláu litirnir eru ekki komnir miklu lengra en þeir voru í dag - en gulir litir þó nánast horfnir af landinu. Töluverð óvissa fylgir lægðarbylgjunni - vonandi sleppum við þó við hvassviðri (umfram það sem verið hefur) af hennar völdum.
Síðasta kortið sýnir stöðuna kl 18 á þriðjudaginn (10. febrúar).
Jæja, nú virðist vera komið frost - og reyndar er mjög stutt í mjög kalt loft. Fjólublái liturinn byrjar hér við -16 stig. Ekki stendur til að við fáum þetta kalda loft suður um heiðar - en það gæti svosem snert norðurströndina á miðvikudaginn.
Framhaldið er svo verulega óráðið - en flestir virðast þó sammála um að hlýindin snúi aftur - um síðir. En ætli kuldinn á miðvikudag (og fimmtudag og föstudag???) sjái ekki til þess að koma meðalhitanum aftur niður úr topp tíu austanlands.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 13
- Sl. sólarhring: 156
- Sl. viku: 1934
- Frá upphafi: 2412598
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 1687
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010