Fyrst uppi - síðan niðri

Þegar venjuleg lægðakerfi nálgast úr suðvestri gera þau fyrst vart við sig með klósigum og síðan bliku. Í fljótu bragði mætti ætla að suðvestanátt blási í skýjahæð - en sé fylgst nánar með skýjunum má oft sjá að þau hreyfast í raun úr norðvestri til suðausturs - í hvassri norðvestanátt. Sunnanátt í neðri lögum kemur svo löngu síðar. 

Á morgun (mánudaginn 2. febrúar) gengur mikill háloftahryggur inn yfir landið úr vestri. Honum fylgir mjög hlýtt loft efra - meira að segja niður í mitt veðrahvolf. Staðan kl. 18 síðdegis sést vel á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg020215a

Ísland er á miðri mynd - Skotland neðst til hægri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn - vindörvarnar sýna styrk hans og stefnu. Litir sýna hita, við sjáum að litirnir eru mjög þéttir yfir landinu austanverðu og þar austan við - þar er vindurinn líka mestur - meiri en 50 m/s þar sem mest er. 

Frostið er rúm -40 stig í dökkbláa litnum - en ekki nema -17 stig í þeim brúna vinstra megin á kortinu - yfir suðausturströnd Grænlands. Reiknimiðstöðin segir að háskýjabakki verði yfir Vesturlandi á þessum tíma - ekki þó víst að hann sé samfelldur vestur úr. 

Úrkomusvæðið og sunnanátt sem þessi ský boða á ekki að vera komið til okkar fyrr en á þriðjudagskvöld - eða aðfaranótt miðvikudags. Þetta er langur undirbúningstími. 

Fyrir tíma tölvuspáa gat tekið nokkuð á veðurspámenn að bíða - því niður í neðri lögum horfir öðru vísi við. Það sýnir 925 hPa kort sem gildir á sama tíma. Þá verður 925 hPa-flöturinn í um 700 til 800 metra hæð yfir landinu.

w-blogg020215b

Þetta kort er nánast eins og úr öðrum heimi. Mjög kalt loft liggur yfir landinu - nærri því eins kalt í 800 metra hæð eins var í 5,5 km hæð vestur af landinu á hinu kortinu. Við sjáum reyndar aðeins í hlýindin og sunnanáttina neðst til vinstri. 

Fyrir norðaustan land er dálítið lægðardrag sem hreyfist hratt til suðurs og gæti valdið hvössum norðanvindi á Austurlandi þegar það fer hjá. Annars er besta veður - en nokkuð kalt um landið vestanvert og jafnvel verður gott veður megnið af þriðjudeginum líka - en rétt er nú fyrir alla að fylgjast heldur með spám Veðurstofunnar þar um en taka mark á rausinu í ritstjóra hungurdiska. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 645
  • Frá upphafi: 2351206

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 578
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband