Köld vestanátt

Eftir hlýja suðvestanátt tekur köld vestanátt við. Neðri hluti veðrahvolfs er oftast vel hrærður við slíkar aðstæður og hitinn þess vegna e.t.v. ekki alveg jafnlágur og búast mætti við - miðað við kuldann í háloftunum. Sjór vestur af landinu er hlýr og hitar kalt loft baki brotnu hvort sem það er komið að sunnan fyrir Grænland - eða að einhverju leyti yfir það. 

Skilakerfi heimskautarastarinnar hreinsast frá - í bili - nokkuð langt austur fyrir land - en vindur er samt býsna stríður í háloftunum og sér til þess að viðhalda vestan- eða suðvestanáttinni eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

w-blogg100215a

Kortið sýnir vindátt (örvar) og vindhraða (litir) í 100 metra hæð um hádegi á miðvikudag (11. febrúar). Lengst til hægri má enn sjá til hlýindanna - kuldaskilin eru rétt sunnan við Færeyjar. Við Ísland eru tvær smálægðir - nokkuð snarpar. Þær hreyfast báðar til austnorðausturs og eru fullar af éljabökkum eða stökum éljum. Það er einkum sunnan við þær sem vindur nær sér upp - en norðaustanáttin á Grænlandssundi er veik - aldrei þessu vant. Rétt er að minna á að vindur í 100 metra hæð er að öðru jöfnu nokkru meiri en niður í venjulegri 10 metra mælihæð.  

Næsta kort sýnir þykktina og hita í 850 hPa-fletinum á sama tíma (hádegi á miðvikudag 11. febrúar).

w-blogg100215b

Jafnþykktarlínur eru heildregnar - en hiti í 850 hPa er sýndur í lit (kvarðinn batnar við stækkun). Það vekur athygli hversu þéttar jafnþykktarlínurnar eru - en samt er áttin vestlæg yfir Íslandi og aðeins veik norðaustanátt í Grænlandssundi. Þykktarmunur yfir landið frá norðvestri til suðausturs er um 140 metrar.

Það jafngildir um 18 hPa - og væri logn í 500 hPa þýddi það þrýstivind á bilinu 25-30 m/s af norðaustri á landinu - og leiðindaveður satt best að segja. En suðvestanátt háloftanna gerir meira en að jafna þetta út - rétt tæplega svo í Grænlandssundi (þar er þrátt fyrir allt norðaustanátt við yfirborð). 

Rétt er að benda á að smálægðirnar tvær sjást á þykktarkortinu sem öldur á jafnhæðarlínunum. 

Þessi tími (hádegi á miðvikudag) er valinn vegna þess að þá á útbreiðsla kalda loftsins að vera í hámarki. Það er 4980 metra jafnþykktarlínan sem gengur yfir Jökulfirði og frostið í 850 hPa er -16 til -18 stig í 850 hPa yfir landinu norðvestanverðu. Tölur sem þessar eru mun algengari í norðanátt heldur en í vestanátt eins og nú og gefa tilefni til mikilla élja - en vonandi sleppum við flest með skrekkinn. 

En þetta er allt hverfult. Til að sjá það betur lítum við á norðurhvelskort sem sýnir 500 hPa-hæð og þykkt kl. 18 þennan sama miðvikudag (11. febrúar).

w-blogg100215c

Ísland er rétt neðan við mitt kort. Mesti kuldi norðurhvels er nú á slóðum Stóra-Bola, við Baffinsland og önnur kuldamiðja er við norðausturhorn Grænlands. Hæðin sem færði okkur hlýindin hefur hörfað austur til Þýskalands. Við sjáum fjölmargar efnilegar bylgjur á heimskautaröstinni. Allar þær sem eru á milli okkar og Klettafjalla skipta máli fyrir veður hér á landi næstu daga og viku. 

Sú næsta er á kortinu rétt austan við Nýfundnaland og hafa spár um örlög hennar verið gríðarlega misvísandi síðustu daga - og enn er varla ljóst hvað hún gerir hér við land. Gæti e.t.v. farið alveg fyrir og þar með framlengt kuldann hér - gæti líka valdið (sjaldséðri) norðaustan- eða austanhríð á Suðurlandi - en gæti líka valdið góðri hláku á föstudag - ?

Það er líka sjálfsagt að benda á að kuldinn vomir enn yfir norðurhluta Bandaríkjanna - erfiðir tímar framundan hjá spámönnum norðausturstrandarinnar - og lægðin kalda við Tyrkland er mjög illvíg - einhverjir nefndu að þar væri spáð mikilli snjókomu í fjallabyggðum. - Nú og ábyggilega snjóar mikið í Japan - þar eru menn þó betur búnir til slíks heldur en víða annars staðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 38
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 529
  • Frá upphafi: 2343291

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 481
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband