Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Austanúrkomuhnútar

Þegar ritstjóri hungurdiska var að spá veðri hér á árum áður þótti honum austan- eða norðaustanátt með samátta lægðarbeygju í háloftunum alltaf erfið viðfangs. Jú, það mátti ganga að úrkomu austanlands nokkuð vísri - en spár um úrkomu, nú, eða þurrk, voru líkar happdrætti. Og margar urðu hauspokaspárnar. 

Kannski er þetta þannig enn - það ætti að vera þurrt á Vestur- og Suðurlandi en er það ekki endilega. Snúningur vinds með hæð er merki um að heiðarleg veðurkerfi séu á ferðinni - en þegar vindátt er svipuð uppi og niðri er verra við að eiga. 

Þannig er þetta þessa dagana. Það er austan- og norðaustanátt og eiginlega ætti að vera alveg þurrt suðvestanlands og jafnvel bjart veður - en er það bara ekki - alla vega ekki samfellt.

Kortið sýnir spá hirlam-líkansins um sjávarmálsþrýsting, 6 klst úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum um hádegi á laugardag (9. ágúst). Kortið verður talsvert skýrara sé það stækkað.

w-blogg080814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Allmikið lægðarsvæði er milli Íslands og Bretlandseyja - í kringum það snúast minni lægðir og úrkomuhnútar - flestir þeirra þurfa að koma við hér á landi. Einn gekk hjá í dag (fimmtudag) og olli rigningu víða um landið sunnanvert - annar kemur á morgun (föstudag) - hvar og hve mikið rignir úr honum er ekki gott að segja - laugardagshnútinn má á kortinu sjá við Suðausturland. Svo er lítil lægð við Vestur-Noreg - hún á á stefna hingað með sína úrkomu á sunnudag. Hvað svo verður eftir það látum við liggja á milli hluta.

En hvað með það - rigningin er ekki samfelld - og enginn sérstakur kuldi er í lofti - þótt almennt sé spáð heldur kaldara veðri næstu daga en var í dag (fimmtudag) og í gær (miðvikudag). Það má sjá af legu 0 stiga jafnhitalínunnar í 850 hPa yfir landinu (rauð strikalína). Heimskautaloftið sem angraði okkur fyrir nærri viku er nú víðs fjarri - til allrar hamingju. Sjá má lítinn -5 stiga hring ekki fjarri Svalbarða.  

Og það telst til tíðinda í sumar að úrkoman í Reykjavík það sem af er mánuði er enn undir meðallagi (en ekki nema rétt svo).  


Vendipunkturinn - nú hallar til vetrar

Á morgun (föstudag) er 8. ágúst. Svo vill til að það er að meðaltali hlýjasti dagur ársins á landinu á árunum 1949 til 2013 (mannaðar stöðvar). Munur á hita einstakra daga er þó svo lítill að tilviljun ræður hvaða dagur það er á tímabilinu frá því um 20. júlí til 10. ágúst sem fær þennan heiðurssess. Einnig er það misjafnt eftir stöðvum og landsvæðum. 

En svo hittist nú sem sagt á að það er 8. ágúst sem blasir við okkur sem sá hlýjasti á myndinni hér að neðan (grár ferill).

w-blog070814c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti kvarðinn til vinstri sýnir landsmeðalhita, en lárétti kvarðinn mánuðina - mánaðamerkið er sett við 15. hvers mánaðar.

Nú hallar því til vetrar í hitanum. Rauði ferillinn sýnir þrýstióróa frá degi til dags. Hann er eins konar mælikvarði á lægðaganginn - eða umsvif heimskautarastarinnar. Þau eru einmitt í lágmarki líka fyrstu dagana í ágúst. Á tímabilinu 1949 til 2013 var lágmarkið þann 3. ágúst - það hefði alveg eins getað verið sá 8. En nú hallar hér einnig til vetrar.

Fyrr í sumar (á sólstöðum 21. júní) var hér fjallað um árstíðasveiflu vindhraðans. Þeir sem vilja geta rifjað það upp hér.

En þótt vendipunkti sé náð er langt í frá að sumarið teljist búið - veðurstofuháttur segir það endast út september - en það er í raun mjög misjafnt. 

Maður fyllist samt einhvers konar andakt við vendipunktinn - rétt eins og við sólstöðurnar.  


Hámarkshiti það sem af er sumars (heldur lélegur víðast hvar)

Það má vekja athygli hversu lágur hæsti hiti ársins til þessa er á landinu - sem og á mjög mörgum einstökum veðurstöðvum - miðað við hversu hlýtt hefur annars verið í sumar. En það hefur verið mjög skýjað í sumar - líka fyrir norðan. 

Hæsti hiti á landinu til þessa eru 23,3 stig sem mældust á Húsavík 23. júlí. Hiti hefur ekki komist upp í 20 stig nema á rúmum þriðjungi allra veðurstöðva (hálendi og útnes meðtalin). 

Mjög lausleg (og eftir því ónákvæm) skyndikönnun gefur til kynna að almennar líkur á að hæsti hiti á árinu falli á ágúst (eða síðar) séu ekki nema um 30% að meðaltali á stöðvunum. 

Listi yfir hámarkshita ársins (það sem af er) á öllum sjálfvirkum stöðvum er í viðhengi og geta nördin velt sér upp úr honum.

Þar má m.a. sjá að lægsta hæsta hita ársins, á stöðinni á Brúarjökli - þar hefur hiti ekki komist ofar en í 11,1 stig. Það var 7. maí (já). Þverfjall er næstlægst með 12,6 stig, reyndar bæði í júní og júlí. Í þriðja neðsta sæti er vegagerðarstöðin á Öxi með 13,8 stig.

Á láglendi vekur hinn slaki árangur Reykjanesbrautar athygli, þar er hæsti hiti ársins til þessa ekki nema 15,3 stig - sem mældust 8. og 12. júní - svipaður hiti og hæstur er á ýmsum fjallvegum. Í Seley hafa ekki mælst nema 15,5 stig - en það kemur ekki svo mjög á óvart.  Keflavíkurflugvöllur er í 16,9 stigum, sömu daga og „toppurinn“ hjá Reykjanesbrautinni. 

Sjálfvirka stöðin í búrinu á Veðurstofutúninu hefur hæst komist í 17,1 stig, en hin sjálfvirka stöðin á sama stað í 19,2 stig - en Reykjavíkurflugvöllur í 18,1. 

Austanlands eru Hallormsstaður (23,0 stig) og Egilsstaðaflugvöllur (22,9 stig) með hæstu tölurnar, Sámsstaðir hins vegar á Suðurlandi (22,6 stig) og Vatnsskarðshólar með 22,5 stig - sem er óvenjugóður árangur á þeim stað. 

Seljalandsdalur á hæsta hitann á Vestfjörðum, 20,0 stig, og Gjögurflugvöllur er litlu lægri með 19,9 - sem er óvenjugóður árangur eins og á Vatnsskarðshólum - ekki eru allir bældir.  

Þótt austanáttin þessa dagana sé ekki sérlega hlý - er hún samt þannig að nái sól að skína gæti hæsti hiti ársins á einhverjum af stöðvunum birst fyrirvaralítið - sérstaklega á það við um slöppustu staðina. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýindin í sumar (í neðri hluta veðrahvolfs)

Júní- og júlímánuður voru hlýir víðast hvar á landinu. Júní var alveg sérstaklega hlýr, sá hlýjasti sem vitað er um í Stykkishólmi allt frá því mælingar hófust þar haustið 1845. Júlímánuður var blandaðri, hann var vel ofan við meðallagið 1961 til 1990 um land allt, en undir meðallagi síðustu tíu ára um allt vestanvert landið. Hann var hins vegar sá hlýjasti sem vitað er um í Grímsey - allt frá upphafi mælinga þar 1874. 

Júlímánuður var ekki bara skiptur á landsvísu heldur einnig þannig að fyrri hluta mánaðarins sat mjög þrálát háloftalægð yfir landinu og hélt hlýju lofti frá landinu að mestu. Síðari hluti mánaðarins var öllu hagstæðari hvað hita varðar - þótt rigningin gæfi sig lítið.  

En við skulum líta á kort fyrir júní og júlí þar sem aðaláherslan er á þykktarvik - það er að segja hversu mikið hiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur vikið frá meðallaginu 1981 til 2010. Eins og venjulega er sá hiti mældur í metrum - því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. 

Fyrst júní:

w-blogg050814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í júní eins og evrópureiknimiðstöðin hefur greint hana. Einingin er dekametrar (1 dam = 10 metrar). Strikalínurnar sýna meðalþykktina í dekametrum. Litirnir sýna vik þykktarinnar frá meðallagi. Á bláu svæðunum eru vikin neikvæð - þar hefur verið kaldara heldur en að meðallagi - sjá má merki kuldakastsins mikla sem gerði um miðjan mánuðinn í Norður-Noregi, Finnlandi og Eystrasaltslöndum í bláu litunum. 

Ísland er hins vegar þakið gulum og brúnum litum - þar var hiti í neðri hluta veðrahvolfs meiri en að meðaltali. Gróflega er reglan sú að 20 metrar samsvara 1 stigi. Stærsta vikið er við Norðaustur-Grænland, rétt tæpir 60 metrar (3 stig). Einnig má taka eftir því að suðvestanátt ríkti í háloftunum þennan mánuð - enda rigndi vel á Suðvesturlandi.

En svo júlí:

w-blogg050814b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér ræður lægðin mikla sem lá við stjóra við landið fyrri hluta mánaðarins mestu. Henni fylgdi kalt loft - eins og vera ber. En þó er vikið ekki nema 14 metrar þar sem mest er - eða um -0,7 stig ef við tökum okkar vafasömu þumalfingurreglu bókstaflega. Hiti á veðurstöðvum var þó meiri heldur en þykktin ein gefur til kynna. Tvennt kemur þar til. Í júlí er kalt loft mjög óstöðugt yfir landinu (vegna sólaryls) - og í óstöðugu lofti er hlýrra heldur en þykktin ein sýnir. Þessi skýring gæti átt við hluta landsins. Hitt er að sjónum undan Norður- og Austurlandi er nokkuð sama um hver hiti er í háloftunum. Þar ráða ríkjum grunnstæð, en öflug hitahvörf. Nú var sjávarhiti langt yfir meðallagi undan Norðurlandi (og allstaðar við landið nema á smábletti við Austfirði). Hitahvörfin hafa því ekki verið nærri því eins öflug og venjulega. 

Á myndinni sjáum við hlýindin í Skandinavíu mjög vel - hiti í Noregi var reyndar enn hærri heldur en þykktartölurnar einar gefa til kynna (rétt eins og hér) og júlímánuður sá langhlýjasti sem vitað er um frá upphafi mælinga. Hann var það líka sums staðar í Svíþjóð (þó ekki á landsvísu þar). Þykktarvikin benda einnig til þess að mjög hlýtt hafi verið á Vestur-Grænlandi og á Nýfundnalandi. Þar á reyndar það sama við og við sjávarsíðuna hér á landi að vikin ráðast mest af sjávarhita svo og því hvort vindur stendur af landi eða upp á land. 

Hann var líka hlýjasti júlímánuður sem vitað er um á Jan Mayen - rétt eins og í Grímsey. Furðulegir hitar. 


Austanáttarvika?

Nú er kuldinn að hverfa aftur norður í haf og angrar okkur vonandi ekki aftur alveg á næstunni. Ekki er nú samt útlit fyrir hlýindi næstu daga. Landið verður í hægri austanátt - sem verður heldur sterkari við jörð en í háloftunum - að sögn reiknimiðstöðva. Kortið að neðan nær yfir mestallt norðurhvel norðan við 30. breiddarstig, Ísland er rétt ofan við miðja mynd.

w-blogg040814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn en hann blæs samsíða línunum með lægðir á vinstri hönd. Þykktin er sýnd með litum, kvarðinn batnar við stækkun. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Grænir (og bláir) litir eru kaldari en þeir gulu og brúnu. Ísland er rétt á mörkum gula og græna litarins - og telst það viðundandi á þessum árstíma - en ekki meira en það. 

Mikil háloftalægð er suðvestur í hafi og beinir til okkar austlægum áttum. Enn fáum við ekki frið fyrir lægðarbeygjunni - þess vegna er varlegt að gera ráð fyrir alveg þurru veðri. Úrkomusvæði koma hvert á fætur öðru suðaustan- og austanað, flest eru þó veigalítil - ef trúa má reiknimiðstöðinni.

Mikil hlýindi eru enn yfir Norðurlöndum - þar er þykktin á kortinu yfir 5640 metrum - svo mikla þykkt sjáum við næstum aldrei hér við land (en vonumst samt eftir henni á hverju sumri). Enn er verið að slá hitamet í Eystrasaltslöndum og séu spár réttar gætu fleiri met fallið bæði þar og í Skandinavíu. 

Kuldapollarnir yfir Norðuríshafi eru öflugir - en fyrirferðarlitlir og enn mun bráðnun halda áfram. Sólarylurinn verður veigaminni með hverjum deginum - svo fer að lokum að ísinn hættir að bráðna nema þar sem vindur flæmir hann út í hlýrri sjó - sem náð hefur að vera auður um einhverja hríð.  


Norðankuldinn í hámarki (en hörfar síðan)

Þótt sæmilegur hiti hafi haldist suðvestanlands í sólinni yfir hádaginn - finna væntanlega flestir fyrir því hvað andinn er kaldur. Enda hefur kuldi langt norðan úr íshafi náð alveg til landsins. Sem dæmi má nefna að hámarkshiti á veðurstöðinni á Gagnheiði var +0,1 stig í dag. 

Það er eiginlega ekki hægt að sleppa því að sýna mynd evrópureiknimiðstöðvarinnar af þykktinni og hitanum í 850 hPa-fletinum á hádegi í dag.

w-blogg020814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Litirnir gefa hita í 850 hPa-fletinum til kynna. Allt undir -2 stigum telst óvenjulegt um mánaðamótin júlí/ágúst. Enn snarpari kuldapollur var þó á ferð í kringum 25. júlí 2009 - þá urðu miklar skemmdir á kartöflugrösum í næturfrostum. Það sem bjargar málinu sennilega nú er að jörð er mjög rök - það hækkar daggarmark í neðstu 1 til 2 metrunum og kemur í veg fyrir að hitinn lendi í „frjálsu falli“ í björtu veðri. - Auk þess er víða skýjað - það bjargar miklu. 

Mjög kalt var fyrstu daga ágústmánaðar í fyrra (2013) - en sá kuldapollur var vægari hvað þykkt varðaði en hiti í 850 hPa varð ámóta lágur yfir landinu og hann er nú. Landsmeðallágmarkshiti aðfaranótt 1. ágúst í fyrra var 4,9 stig - en 4,4 nú. Það var hins vegar aðfaranótt þess 7. sem var köldust yfir landið í heild í kuldakastinu þá, meðallágmarkið var aðeins 3,4 stig. Í fyrra náði sumarið sér varla á strik eftir kuldakastið. Vonandi gengur betur í ár.

Spár gera nú ráð fyrir því að kuldinn hörfi þegar líður á helgina og  hættan verði þá að mestu liðin hjá. 


Hlýindin við norðurströndina

Sennilega eru hlýindin sem ríkt hafa við norðurströndina einna mestu veðurtíðindi það sem af er sumri hér á landi. Júní og júlí hafa báðir verið sérlega hlýir. Það er greinilegt á línuritinu hér að neðan. Það sýnir meðalhita júní- og júlímánaða í Grímsey allt aftur til 1874.

w-blogg010814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lóðrétti ásinn markar hita en en sá lárétti árin. Við sjáum að 2014 er meir en einu stigi ofan næsthæsta meðaltalið (júní og júlí 1933). Það er mjög óvenjulegt að nánast engin keppni sé um efsta sætið. Velta má vöngum yfir ástæðunum. Svipað er uppi á teningnum á öðrum stöðvum í nágrenninu, t.d. á Mánárbakka (endanlegar tölur liggja ekki fyrir þar) þar sem mánuðirnir tveir eru líka þeir langhlýjustu sem um getur. 

Mánuðirnir tveir hafa verið hlýir um land allt - en ekki þó út úr kortinu eins og í Grímsey og nágrenni. Þar eru fyrstu sjö mánuðir ársins auðvitað þeir hlýjustu sem vitað er um, 0,3 stigum hlýrri en mest er vitað um áður. 

Þetta gefur okkur þó enga fullvissu um að afgangur ársins verði hlýr - ekki einu sinni afgangur sumarsins.  

Oft má finna ýmsa veðurmola á fjasbókarsíðu hungurdiska:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 188
  • Sl. sólarhring: 394
  • Sl. viku: 2013
  • Frá upphafi: 2350749

Annað

  • Innlit í dag: 171
  • Innlit sl. viku: 1799
  • Gestir í dag: 169
  • IP-tölur í dag: 168

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband