Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014
31.8.2014 | 01:27
Farið í nýju fötin
Lægðin sem kölluð er Cristobal er nú um það bil að klæðast hefðbundnum þjóðbúningi norrænna kraftlægða. Við lítum á mynd af því. Þetta er þriðji pistillinn í röð um lægðina og sennilegasta sá þokukenndasti - beðist er velvirðingar á því. Þeir lesendur sem hafa þol til að lesa þetta gætu rifjað upp fyrri pistlana tvo - hugsanlega er eitthvað samhengi að finna.
Þetta er svonefnd vatnsgufumynd. Hún sýnir hvar vatnsgufa byrgir sýn til jarðar. Mest þar sem ský eru þykk og köld - þar eru hvítir litir ráðandi. Svarti liturinn sýnir þurru svæðin - þar sést lengra niður. Rauða línan markar útjaðar kerfisins. Þetta er loft sem það er búið að lyfta upp í hæstu hæðir - upp að veðrahvörfum. Þar breiðist það út í hæðarbeygju.
Sjá má leifar hringrásar fellibylsins þar sem ör merkt bókstafnum c endar. Leifarnar eru harla litlar um sig. Kalda háloftalægðin sem einkum var fjallað um í pistlinum í fyrradag er merkt með bókstafnum L. Hún er að dragast inn í hina nýju lægð sem er að verða til rétt norðan við leifahringrásina.
Austan við nýju lægðina má sjá langan dökkan borða sem nær inn í lægðamyndunina en liggur síðan til suðurs og svo suðvesturs í haf. Þetta er þurra rifan svokallaða, þar dregst loft langt að ofan niður í átt að lægðarmiðjunni nýju og gefur henni öflugan snúning (já). Hér má einnig sjá tvö undanskot - það er eins og þau myndi göndla sem koma hver úr sínum punktinum sem örvarnar merktar u sýna. Þarna fer fram aðaluppstreymi lægðarinnar - með mikilli úrkomu og þar með dulvarmalosun - sem líka býr til lægðaiðu.
Á næstu klukkustundum mun alskapaður lægðarsnúður birtast og lægðin fer síðan að grynnast.
Síðari myndin er venjuleg hitamynd - tekin um klukkustund á undan þeirri fyrri.
Sjá má syðsta hluta Íslands efst til hægri á myndinni. Hér sést hringrás leifanna (c) og vestara undanskotið en það samanstendur hér af lest háreistra skýjaklakka sem berast úr suðri og hækka og breiða úr sér eftir því sem norðar dregur. Það austara og eldra sést ekki eins vel og á vatnsgufumyndinni - er að renna út í eitt.
Mikil úrkoma fylgir - og töluverður vindur líka - en við látum Veðurstofuna alveg um þau mál. Samkvæmt spám á þurra rifan að koma inn yfir landið suðvestanvert milli kl. 14 og 15. Ættu þá mestöll há- og miðský að sviptast burt á skammri stund og eftir sitja hrafnar (sundurtætt bólstra- og þokuský).
Síðan birtast hærri ský aftur - það væri þá norðurhluti snúðsins - við sleppum vonandi alveg við austur- og suðurhlið hans. Þar er versta veðrið.
30.8.2014 | 01:04
Hamskiptin
Hungurdiskar hafa oftar en einu sinni fjallað um hamskipti hitabeltisstorma yfir í norrænar lægðir - síðast í gær. Eins og þar kom fram er fellibylurinn Cristobal nú að undirgangast skiptin. Við notum það tækifæri til að líta á gervihnattamynd sem sýnir kerfið - klæðlítið ef svo má segja. Myndin er fengin af vef kanadísku veðurstofunnar - framhaldið sést svo vel á vef Veðurstofunnar næsta sólarhringinn rúman. Fer kerfið þá væntanlega í nýja haminn og fær svip hefðbundinnar lægðar.
En hér er myndin sem tekin er seint á föstudagskvöldi 29. ágúst.
Til hægðarauka hefur rautt L verið sett in þar sem evrópureiknimiðstöðin vill hafa lægðarmiðjuna á sama tíma. Mjög erfitt er að greina hana á þessari mynd. Á gervihnattamyndum einkennast fellibyljir af gríðarmikilli og þéttri þrumubólstrasambreiskju sem greinilega sýna hringstreymi gjarnan í kringum um skýlítinn blett - augað. Þetta mátti sjá á mynd sem fylgdi pistli gærdagsins.
Hér er búið að svipta kerfið þessum einkennum. Smávegis af bólstrum hefur verið skilið eftir þar sem lítið s hefur verið merkt á myndina. Engin háský hringa sig lengur þétt um lægðarmiðjuna og raunar er mjög lítið af háum skýjum sunnan lægðarmiðjunnar - gæti þó verið eitthvað af lágskýjum - jafnvel sjáum við alveg niður til sjávar. Þarna hlýtur að vera mikið niðurstreymi sem eyðir öllum háskýjum.
Norðan lægðarmiðjunnar eru háskýjabönd - þau hæstu eru sýnd gulbrún að lit. Þau veltast í breiðum boga í hæðarsnúningi langt yfir hringrás sjálfrar lægðarinnar. Mikill vindur er í þessum háloftahæðarhrygg og ber hann skýjaböndin hvert á fætur öðru hratt til austurs - og síðan suðausturs.
Háloftaröstin sést mjög vel á myndinni hér að neðan. Þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um vindátt og vindhraða í 300 hPa um svipað leyti og myndin.
Örvarnar sýna vindátt og vindstyrk - en (heimskauta-)röstin - þar sem vindurinn er sterkastur er sýnd með litum. Á bláa svæðinu er vindurinn milli 60 og 70 m/s. Sjá má lægðarmiðjuna merkta með tveimur litlum hringjum austur af Nýfundnalandi. Í röstinni má sjá tvo kjarna - eða skotvinda. Sá sem er fyrir suðvestan lægðarmiðjuna hefur enn ekki komið sér upp háskýjum - en þau koma.
Næsta sólarhringinn dýpkar lægðin lítið eða ekki - en síðan á hún stefnumót við kuldapoll - eins og sagt var frá í pistlinum í gær - og verður ekki endurtekið hér.
28.8.2014 | 23:04
Hugleiðingar í kringum fellibylinn Cristobal
Eitt af haustverkum veðurfræðinga í Vestur-Evrópu er að gefa fellibyljum Atlantshafsins gaum. Leifar þeirra komast alloft í námunda við bæði okkur og nágranna okkar í austri og vestri. Oftast gerist nákvæmlega ekki neitt, en stöku sinnum ummyndast hitabeltisstormarnir í myndarlegar lægðir - og rétt endrum og sinnum gerir afskaplega vond veður. Haustillviðri eru eiga þó langfæst rætur sínar að rekja til fellibylja.
Hér verður ekki (frekar en venjulega) spáð um veður hér á landi - við látum Veðurstofuna um það. Þess í stað rýnum við í nokkur kort úr garði evrópureiknimiðstöðvarinnar (og auðvitað Bolla Pálmasonar kortagerðarmeistara á Veðurstofunni). En fyrst lítum við á hitamynd af vef kanadísku veðurstofunnar (Environment Canada). Hún er tekin úr eystri jarðstöðuhnetti vesturheimsmanna kl. 17:45 í dag (fimmtudaginn 28. ágúst).
Efst má rétt sjá í suðurodda Grænlands. Nýfundnaland er ofan við miðja mynd og til vinstri er austurströnd Bandaríkjanna, suður til Suður-Karólínufylkis. Gulu og brúnu svæðin á myndinni sýna háský fellibylsins - hæst í kringum frekar óljósa miðju hans.
Kerfið er í aðalatriðum reglulegt að sjá en taka má eftir því að háloftaröst er ekki langt norður undan og rífur úr norðurhlið þess. Talan 1 er sett þar sem fellibyljamiðstöðin vill hafa Cristobal um hádegi á morgun, föstudag. Talan 2 sýnir aftur á móti hvar evrópureiknimiðstöðin setur kerfið um hádegi á laugardag (stöðvarnar tvær eru ekki alveg sammála um hvar miðjan verður þá).
Næsta kort sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi föstudags (úr spárununni kl. 12 á fimmtudag).
Enn sést rétt í suðurodda Grænlands efst á myndinni. Þarna er þrýstingur í miðju Cristobal 976 hPa (gæti verið mislestur). Litir sýna úrkomuna, hún er 30 til 50 mm á 6 klst þar sem mest er. Nyrðra úrkomubandið á myndinni er tengt heimskautaröstinni.
Fram til hádegis á laugardag hreyfist kerfið ákveðið til norðausturs. Næsta kort sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi þann dag.
Hér skulum við taka eftir því að þrýstingur hefur hækkað í lægðarmiðjunni (um 5 hPa) og jafnþrýstilínur hafa gisnað - allt er slappara. Hinn eiginlegi fellibylur er dauður. Úrkomusvæðið er býsna teygt og er nærri því eins og að ný lægðarmiðja sé að myndast í norðausturhluta kerfisins. Það gæti gerst - en reiknimiðstöðvar segja þó nei - nema danska hirlam-líkanið. Þar slitnar kerfið meira að segja í þrjá hluta - en lengra nær sú spá ekki. Hér hefur lægðin við Suður-Grænland slaknað um 11 hPa frá fyrra korti. Hún er að fyllast af frekar köldu lofti.
Fjórða mynd dagsins sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á hádegi á laugardag samtímis kortinu hér að ofan.
Margar jafnhæðarlínur hringa sig um gömlu lægðina á Grænlandshafi, hæðin í henni miðri er um 5290 metrar. Hún er líka umkringd jafnþykktarlínu - miðjuþykktin er 5340 metrar. Hringrás fellibylsleifanna nær ekki upp í 500 hPa - en gerði það sólarhring áður (ekki sýnt hér). Kerfið er samt greinilegt sem lægðardrag sem gríðarlega hlýtt loft fylgir. Þykktin er á stóru svæði meiri en 5700 metrar.
Nú gengur verkefnið út á það að koma lágri hæð gömlu lægðarinnar í tengsl við háa þykkt fellibylsleifanna. Í fullkomnum heimi stefnumóta yrði 949 hPa-lægð til ef þykktin 5700 metrar næðist alveg undir hæðina 5290 m. Til þess þarf að hafa hraðar hendur og skrúfa bút út úr 5700m þykktarsvæðinu og keyra það inn á móti háloftalægðinni. [Eins og ís er skafinn upp með skeið]. Kalda loftið í henni er þar fyrir og það þarf því jafnframt að stugga við því - helst til suðurs - þá getur það orðið það verkfæri sem klippir á hlýja loftið [ísskeiðin]. Hér skipta tímasetningar öllu máli.
Það væri að vísu með ólíkindum ef það tækist að stela bút úr 5700m þykktinni - en við borð liggur að það takist - sé að marka spá evrópureiknimiðstöðvarinnar og sjá má á síðasta kortinu.
Þetta kort ætti að vera lesendum hungurdiska kunnuglegt. Jafnþykktarlínur eru heildregnar en hiti í 850 hPa er sýndur í lit. Kortið gildir um hádegi á sunnudag (31. ágúst), sólarhring síðar en kortin tvö næst hér á undan. Við sjáum að tekist hefur að skera bút af hlýja loftinu og keyra það í stefnumót við háloftalægðina. Innsta jafnþykktarlínan sýnir 5560 metra - kannski er þykktin 5580 m í miðjunni - en 5700 metra loftið er sloppið til austurs og sést ekki á þessu korti. En 5580 m þykkt undir 5290 hæð reiknast sem 964 hPa. Ekki sem verst það.
Hvað gerist bregðist stefnumótið veit ritstjórinn auðvitað ekki. Þó má segja með nokkurri vissu að takist ekki að ná neinu hlýju lofti inni í skrúfuna gerist nánast ekki neitt. Ef það hins vegar gerist fyrr eða síðar en evrópureiknimiðstöðin nú stingur upp á gæti lægðin orðið grynnri (eða dýpri) - en þar með er ekki sagt að vindur yrði minni - þvert á móti gæti hann orðið meiri. En - við látum Veðurstofuna um að fylgjast vel með því.
Óðadýpkun lægða á sér stað þegar mikil þykkt skrúfast inn undir lága hæð veðrahvarfanna. Lægðir geta orðið alveg jafndjúpar þótt ekkert loft langt sunnan úr höfum komi við sögu - en þá verða því lægri veðrahvörf að berast að úr norðri. Það er mjög erfitt fyrir loft að komast langt að sunnan alla leið til okkar. Því veldur snúningur jarðar. Mikil losun dulvarma í fellibyljaleifum greiðir leið lofts til norðurs, hin krappa hringrás fellibyljarins gerir það líka. Lægð sem orðin er til úr leifum fellibyls er líklegri til að útvega loft [og skrúfjárn] með mikla þykkt heldur en þær venjulegu.
26.8.2014 | 01:19
Sumri lýkur í heiðhvolfinu
Að sumarlagi ríkir mikil hæð í heiðhvolfinu (ofan við 20 km hæð) og nær hún um allt norðurhvel. Hámarksstyrk nær hún kringum sólstöður eða litlu síðar - heldur afli sínu mestallan júlí en fer þá að ganga saman. Allan valdatíma hæðarinnar er austanátt ríkjandi ofan við 17 til 20 km hæð yfir Íslandi.
Það er e.t.v. fulllangt gengið að segja að stilla megi almanakið eftir skiptunum úr vestan- í austanátt á vorin - svo reglubundin eru þau. Áttaveltan síðsumars og á haustin er ekki jafn afgerandi - stundum kemur alllangt tímabil þar sem barátta stendur milli áttanna tveggja.
Þessa dagana er hæðin mikla farin að veiklast svo mjög á norðurslóðum að flatneskja er að taka við. Og einmitt í dag (mánudaginn 25. ágúst) birtist fyrsta jafnhæðarlínan í kringum lægðarmiðju. Þetta sjáum við á kortinu hér að neðan sem gildir síðdegis þriðjudaginn 26. ágúst.
Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar og sýna heildregnar línur hæð 30 hPa-flatarins, en litir hitann í fletinum. Kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað. Fyrsta haustlægðin er þarna mætt á svæðið - kringum hana liggur einmana jafnhæðarlína, merkt 2410 dekametrum, 24100 m eða 24,1 km. Næstu vikur mun lægðin smám saman festa sig í sessi.
Við Ísland er hlýjasti staður norðurhvels - hiti um -45 stig. Hitadreifingin sýnir enn sumarástand - almennt er hlýrra eftir því sem norðar dregur. Þetta mun líka breytast á næstu vikum og um síðir verður mun kaldara á heimsskautaslóðum heldur en sunnar - rétt eins og niðri í veðrahvolfi.
Ritstjórinn fyllist, sem kunnugt er, alltaf andakt við að fylgjast með gangi árstíðanna - líka í heiðhvolfinu.
25.8.2014 | 00:31
Hlýrra næstu vikuna?
Nú hefur vindur í háloftunum snúist úr norðvestri og bjartviðri um mestallt land yfir í suðvestandumbung og úrkomu um landið sunnan- og vestanvert. Góðu tíðindin eru þó þau að þessu fylgir hlýnandi veður - og þá sérstaklega um landið norðaustanvert. Veitir ekki af því þetta er eina svæðið á landinu þar sem hiti það sem af er mánuði er undir meðaltalinu 1961 til 1990 - en að vera undir því meðallagi þykir nú um stundir hinn versti löstur - meira að segja er engin ánægja þótt rétt ofan þess sé. Í sólarleysinu syðra verða nætur hlýjar.
En við lítum á meðalspákort evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga. Það verður eins og venjulega að hafa í huga að ekkert segir þar um veður einstaka daga tímabilsins - það getur verið allt annað - jafnvel þótt spáin sé rétt i heild sinni.
Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Því þéttari sem þær eru því ákveðnari er (vigur-)vindurinn. Allmikil suðvestanátt er vestan við landið - en mun hægari fyrir austan við það.
Strikalínurnar sýna meðalþykktina og við tökum eftir því að við landið leitast vindurinn við að beina til okkar hlýju lofti. Litirnir sýna vik þykktarinnar frá meðaltali ágústmánaðar. Kvarðinn til hægri skýrist mjög sé myndin stækkuð. Stærsta vikið er yfir norðaustanverðu Íslandi - 61,5 m. Þetta jafngildir því að hiti í neðri hluta veðrahvolfs sé um 3 stigum hærri heldur en að meðaltali (1981 til 2010). Verði sú raunin er góð von til þess að hitinn norðaustanlands verði í mánaðarlok ofan við meðallagið 1961 til 1990.
Annars skila jákvæð þykktarvik sér sjaldan að fullu niður til veðurstöðvanna - en gera það þó helst í skjóli fjalla, í vindi sem stendur af landi. Góð von er því til þess að hiti næstu dagana (frá og með þriðjudegi) komist yfir 20 stig norðaustan- eða austanlands - sé að marka þessa spá reiknimiðstöðvarinnar. Smávon er meira að segja til þess að við sjáum hæsta hita sumarsins á landinu. - Stillum samt þeirri von í hóf þar til áreiðanlegar veðurspár fyrir einstaka daga birtast út úr framtíðarþokunni. Við rétt rýnum í gegnum hana með þessari spá - en margt býr í þokunni og ekki alltaf það sem haldið er.
23.8.2014 | 01:03
Breyti í suðvestur
Nú hefur norðvestanáttin ráðið veðri hér á landi í nokkra daga - hún var af betri tegundinni að þessu sinni - lægðardrög hennar í veikara lagi - en niðurstreymið (skýjabaninn) í góðum gír í skjóli Grænlands. En svo virðist sem nú eigi að breyta aftur yfir í suðlægar áttir, fyrst hávestan, síðan suðvestan og sunnan.
Við lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarkort norðurhvels í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar, það gildir kl. 18 á sunnudag (24. ágúst).
Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Gulu og brúnu litirnir tilheyra sumrinu - en grænir og bláir eru kaldari. Á þessum árstíma eru næturfrost eilíf ógn í björtu veðri, en meðan þykktin heldur sig græna megin - græn/bláu-markanna þarf mjög hægan vind, flatneskju og þurrt loft til að úr frosti verði.
Á sunnudaginn er landið í gula litnum og meira af slíku á leiðinni. Við erum þarna að komast inn í vestsuðvestanátt á milli kuldapolls yfir Grænlandi og veigalítils hæðarhryggs sem teygir sig til austurs rétt fyrir sunnan land. Kuldapollurinn er ekki af ógnandi gerðinni - en mun þó grafa sig til suðurs við Grænland vestanvert og snúa vindi til suðvesturs strax á mánudag. Útlit er fyrir að við verðum síðan einhvern tíma á hlýju hliðinni í þeirri suðvestan- og sunnanátt. Kannski að landið norðaustanvert njóti góðs af og þar hlýni svo um munar. Fullmikil bjartsýni?
Almennt er hringrásin á norðurhveli ekki kominn út úr sumarástandinu - en það ætti að gerast alveg á næstunni. Vindsnúningur er yfirvofandi í heiðhvolfinu - fyrstu merki hallandi sumars þar. Við lítum e.t.v. á þann snúning einhvern næstu daga.
22.8.2014 | 01:09
Þurr spá (eða nærri því) í 48 klukkustundir
Nýliðinn dagur (fimmtudagur 21. ágúst) var óvenjuheiður á öllu landinu. Telst svo til að hann sé í fjórða sæti heiðra ágústdaga á (óopinberum) lista hungurdiska sem nær til tímans frá 1949 til okkar daga. Ekki er talið líklegt að morgundagurinn (föstudagur 22. ágúst) geri það jafngott því reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir því að há- og miðskýjabreiða komi úr norðri og fari suður yfir landið. En lítið verður um lágský að sögn.
Til gamans skulum við líta á úrkomuspá harmonie-líkansins fyrir næstu tvo daga. Sýnir það uppsafnaða úrkomu í líkaninu frá því kl. 18 á fimmtudag til kl. 18 á laugardag (23.ágúst). [Smávilla er í hausnum - fimmtudagurinn er sá 21. en ekki 22. eins og stendur á kortinu - svona er að stunda pistlaskrif rétt um miðnættið].
Skemmst er frá því að segja að kortið er nærri því alveg autt. Skúra er vart í suðurhlíðum suðurjöklanna, Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls - og við Vatnajökul. Evrópureiknimiðstöðin er nærri því sammála - en setur þó smáskúrir á byggðir í Vestur-Skaftafellssýslu á sama tímabili.
Dagar sem eru alveg þurrir um land allt eru mjög sjaldséðir - koma ekki alveg á hverju ári og eru aðeins stöku sinnum fleiri en einn á ári.
Þegar athugað verður hvort spáin rætist verður að hafa í huga að úrkomusólarhringur Veðurstofunnar nær frá því kl. 9 til kl. 9 næsta dag. Svo viðbúið er að raunveruleikinn hitti ekki svona vel í [spáð er rigningu á laugardagskvöld]. En gaman er að sjá spá um tvo (nærri því) alveg þurra sólarhringa - auð veðurkort geta átt birtingu skilið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2014 | 01:04
Flatneskjan
Nú eru vindar hægir við landið - enda er þrýstisviðið mjög flatt. Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á morgun, fimmtudaginn 21. ágúst sýnir vel flatneskjuna.
Það er mjög flöt hæð við landið - á að heita að hún sé vestan við það á þessu korti. Þar fyrir vestan er dálítið lægðardrag meðfram austurströnd Grænlands - strikalína hefur verið sett í dragið þannig að von sé til þess að lesendur sjái það. Ívið öflugri hæð er svo við Baffinsland. Greinileg lægð er yfir Skotlandi á leið suðaustur og ítrekar deyfð blautra daga í kringum Norðursjó.
Í háloftunum er áttin ennþá norðvestlæg í kringum okkur. Það þýðir að veðurkerfi koma yfir Grænland - það eru bara nær engin á leiðinni. Nær engin - jú, smálægðardrag fer hér yfir á föstudagskvöld/aðfaranótt laugardags - og annað síðdegis á laugardag. Svo virðist sem vindur í háloftunum snúist til suðvesturs eftir það og aukast úrkomulíkur vestanlands umtalsvert við þá breytingu.
En sólin? Við eigum alla vega betri möguleika á að sjá hana í norðvestanháloftaáttinni heldur en þeirri sem blæs úr suðvestri - hvað sem allri flatneskju sjávarmálsþrýstingsins líður.
20.8.2014 | 01:04
Venjulegra loft
Hlýindin miklu sem setið hafa yfir Grænlandi austanverðu og hafinu milli Íslands og Grænlands virðast nú vera að hörfa. Það má ekki minna vera en við kveðjum þau með einu korti. En í dag (þriðjudaginn 19. ágúst) fékk landið suðaustanvert smáskammt að ofan þegar hitinn komst í 22,2 stig á Kirkjubæjarklaustri. Í gær (mánudag) komst hiti í 19 stig í austurhverfum Reykjavíkur - en erfitt er að ná upp hita við Faxaflóa þegar eitthvað hallast í vestur. Gærdagurinn varð einnig hlýjasti dagur ársins í 750 metra hæð yfir sjávarmáli á Þverfjalli nærri Ísafirði þegar hiti þar komst í 13,9 stig. Ekki hátt - en samt.
Fyrra kort dagsins sýnir þykkt og einnig hita í 850 hPa-fletinum kl. 18 í dag (þriðjudag).
Jafnþykktarlínur eru heildregnar, sú hæsta sýnir 5640 metra - óskaþykktina sjálfa - hringa sig um dálítið svæði (meira en hálft Ísland að stærð) við suðurodda Grænlands. Þar má sjá að hiti í 850 hPa - í rúmlega 1500 metra hæð yfir sjávarmáli - er 18 stig. Þetta er talsvert hærra en nokkru sinni hefur mælst í 850 hPa hér við land. Mættishitinn í 850 hPa er því hátt í 33 stig þar sem mest er. Já, svona nokkuð gæti gerst við Ísland - líkurnar eru þó talsvert minni en við Grænland - þar sem fjallgarðurinn mikli (og jökullinn þar með) er duglegri við að ná lofti niður úr miðju veðrahvolfinu heldur en hálendi Íslands.
En á móti kemur að ef við fengjum svona þykkt og hita yfir okkur - eru bæði mun fleiri veðurstöðvar til að skrásetja hitann og yfirborð Íslands er almennt mun hlýrra heldur en yfirborð í fjörðum Grænlands - þar sem ísjakar sigla víða um og kæla sjávaryfirborðið. Myndi kannski duga okkur í 27 til 30 stig. En fyrir nokkrum dögum mældist hiti í Kristjánssundi við Hvarf 22,6 stig. Það er almennt frægur kuldakjálki - eins og veðurfréttaþrælar sjötta og sjöunda áratugarins muna auðvitað allir.
En nú víkur þetta loft fyrir kaldara úr norðri. Lægðardrögin koma hvert á fætur öðru yfir Grænland og fara til suðurs og suðausturs í nágrenni við Ísland. Í kjölfar þeirra fylgja kuldapollar - mjög misstórir. Kuldapollur morgundagsins (miðvikudags 20. ágúst) er á kortinu milli Jan Mayen og Grænlands. Ekki er hann svo mjög kaldur, innsta jafnþykktarlínan er 5340 metrar og hiti í 850 hPa er lægstur -3 stig. Almennt ekki svo alvarlegt. Nægir þó út af fyrir sig í næturfrost í heiðríku veðri og þurrbrjósta á sléttlendi og í kuldaskálum landslagsins.
Á fimmtudaginn kl. 18 á þykktarkortið að líta svona út:
Hér er allt venjulegra. Raunar telst hitinn við Suður-Grænland enn mjög góður - en svalara er yfir Íslandi - þó ekkert alvarlega. Síðra er, að ekki er útlit fyrir að raunveruleg hlýindi nálgist okkur aftur á næstunni - nema evrópureiknimiðstöðinni skjátlist - og það gerist svosem alloft.
19.8.2014 | 01:49
Afmæli
Einu sinni á ári á hungurdiskabloggið afmæli - í þetta sinn er það fjögurra ára. Byrjaði upp úr þurru 19. ágúst 2010, er orðið eldra en væntingar stóðu til og lafir eitthvað áfram. Í tilefni dagsins gætu lesendur litið á færslur ágústmánaðar 2010 - þá var aðallega fjallað um nokkur gömul rit um veðurfræði á íslensku. Fæstir munu hafa lesið þessa pistla.
Til þessa munu pistlarnir vera orðnir 1280 - það þýðir að 161 vantar upp á að pistlast hafi verið einu sinni á dag að jafnaði (87,6% daga). Þetta er örlítið skárra dagahlutfall en hjá dagblöðunum.
Fyrr í sumar fór af stað afleggjari á fjasbók - þar má oft sjá tölur dagsins - en auðvitað er óvíst hversu lengi afleggjari sá lifir - rétt eins og aðalstofninn. Hópurinn er opinn og geta meðlimir sett inn færslur tengdar veðri eða þá skýja- eða himinmyndir á eigin spýtur. Þar má einnig bera fram spurningar tengdar veðri - en viðamikilla svara er samt ekki að vænta.
https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010