Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Enn bólar ekkert á kalda loftinu

Enn bólar ekkert á kalda vetrarloftinu. Það heldur sig enn norður við norðurskaut og fyrir vestan Grænland. Ísland og allt hafsvæðið austan Grænlands - austur til Noregs er í suðlægum og tiltölulega hlýjum vindum. Þetta sést vel á norðurhvelskortinu að neðan, en það sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um hádegi á miðvikudag. Evrópureiknimiðstöðin reiknar.

w-blogg040214a 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Lega línanna segir til um vindáttir rétt eins og jafnþrýstilínur á hefðbundnum veðurkortum. Þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kvarðinn til hægri á myndinni sýnir gildin - kortið batnar mjög sé það stækkað með smellum.

Mörkin á milli blárra og grænna lita er við 5280 metra þykkt. Skipt er um liti á 6 dekametra (60 metra) bili. Meðalþykkt við Ísland á þessum árstíma er nærri 5240 metrum - landið er hins vegar nánast allt í græna litnum og af því má ráða að hiti í neðri hluta veðrahvolfs er á kortinu meira en 2 stigum yfir meðallagi. Enda er áttin suðaustlæg í hæð - en austlægari neðst. Þegar vindur snýst með sól með hæð er hlýtt aðstreymi ríkjandi.

Hæðarhryggur er nokkuð langt fyrir austan - þótt hann sé ekki öflugur heldur hann enn á móti framsæknum háloftabylgjum úr vestri. Eins og undanfarnar 6 vikur eða svo brotna þær allar við Bretland - en skjóta um leið suðlægu lofti til norðurs yfir Ísland og langt norður í höf.

Á hungurdiskum hefur 5100 metra þykkt og lægri gjarnan verið notuð sem ígildi kaldrar vetrarveðráttu. Henni fylgir hiti vel undir meðallagi hér á landi - en hún nær þó oft til landsins og er enn oftar á sveimi rétt norðan við landið. Við getum auðveldlega talið okkur niður eftir bláu litunum og fundið svæði sem eru undir 5100 metrum. Við leitum einfaldlega (niður) að fjórða bláa litatóninum á kvarðanum.

Hann finnst ekki í nágrenni við landið - hylur norðvestasta hluta Grænlands og er ekki langt vestan við Grænland suðvestanvert. Eini staðurinn sem ber kalt loft í átt til okkar er vindstrengurinn norðaustur af Nýfundnalandi - en þar bíður hlýtt Atlantshafið og hitar loftið þannig að það verður orðið sæmilega hlýtt þegar og ef það kemst hingað.

Það er enn kalt í norðaustanverðum Bandaríkjunum - en þó er versti kuldinn talsvert norðar. Hæðarhryggurinn mikli sem olli methlýindunum mestu í Alaska hefur gefið sig - en það svæði er þó inni í græna litnum - rétt eins og Ísland - og hiti þar með yfir meðallagi. Þó er stutt í mjög kalt loft norður af Alaska og trúlegt að það eigi eftir að skjóta sér til suðurs eða suðausturs - það væri ekki lengi að því. Við sjáum þéttar jafnhæðarlínur og mikinn vind á jaðri hæðarsvæðisins - ólíkt því sem er hérna Atlantshafsmegin á norðurslóðum.

Síðustu daga hefur kuldapollurinn mikli, sá sem við höfum kallað Síberíu-Blesa, verið að skjóta litlum kuldaskotum yfir heimskautið og inn í kanadapollinn Stóra-Bola. Við sjáum tvö skot sem litlar lægðir á kortinu - önnur er nánast beint yfir norðurskautinu en hinn er kominn suður yfir norðanvert meginland Kanada. Þessi skothríð á að halda áfram og svo lengi sem ekki er miðað á Grænland erum við í góðu skjóli. Tíu daga spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sér ekkert slíkt mið.

En svo er aftur annað mál að ekki er að sjá neitt sérlega hlýtt loft stefna til landsins heldur - þannig að hin makalausa hitaflatneskja janúarmánaðar virðist ætla að halda áfram.

Þessi hitaflatneskja færði okkur þó næsthlýjasta janúar sem vitað er um á Teigarhorni - en mæliröðin þar nær allt aftur til 1873. Eru það talsverð tíðindi þótt Vesturland hafi ekki gert eins vel - hitinn í Stykkishólmi í 20. sæti (mætti nú athuga betur). Landið allt kannski í því tíunda. Tengja má á janúartíðarfarsyfirlit Veðurstofunnar.


Ýmislegt smálegt um jafnaðarmánuðinn janúar 2014

Nýliðinn janúar verður að teljast jafnaðarmánuður bæði hvað hita og loftþrýsting varðar. Hitaspönn mánaðarins, það er munur á hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita í byggð á landinu var aðeins 26,5 stig.

Við getum notað orðið „aðeins“ í þessu sambandi vegna þess að það þarf að fara aftur til janúarmánaðar ársins 1990 til að finna viðlíka (26,1 stig) og aftur til 1947 til að finna lægri tölu (23,8 stig). Vafasamt er reyndar að hægt sé að bera 1947 og 2014 saman vegna þess að hámark og lágmark var mælt á mun færri stöðvum 1947 en nú er gert - sérstaklega hámarkið.

Hæsti hiti í byggð í mánuðinum var 10,1 stig (Skaftafell þ. 24.) en sá lægsti mældist -16,4 stig (á Kálfhóli á Skeiðum þann 11.) Við sleppum hálendisstöðvum vegna þess að séu þær teknar með náum við ekki samanburði nema um 15 ár aftur í tímann.

Janúarhámarkið hefur ekki verið svona lágt síðan 1994, þá mældist hæsti hiti mánaðarins 9,4 stig (á Seyðisfirði). Byggðarlágmarkið hefur ekki verið svona hátt síðan 1990, þá mældist lægsti hitinn í mánuðinum -16,1 stig á Brú á Jökuldal.

Munur á hæsta hámarki og lægsta lágmarki var líka lítill í Reykjavík og á Akureyri. Í Reykjavík var spönnin nú 12,0 stig. Hún var jafnlítil í janúar 1987 - en annars aldrei að minnsta kosti frá 1924. Á Akureyri var spönnin nú 12,7 stig sem er miklu minna heldur en minnst er vitað um áður (16,3 stig í janúar 1990). Samfelldar útgildamælingar á Akureyri ná aftur til 1936 (nokkur ár á stangli fyrir þann tíma).

Staðalvik dagameðaltala er líka fádæma lítið á þessum tveimur stöðvum, aðeins 1,41 stig í Reykjavík (næstminnst 1950, 1,99 stig) og 1,70 stig á Akureyri (næstminnst 2,25 stig 1974). Þessi samanburður nær aftur til 1949. Reikningarnir fyrir árið í ár teljast til fljótaskriftarreikninga og tölurnar óstaðfestar.  

Loftþrýstingur í nýliðnum janúar var langt undir meðallagi. Hann var síðast lægri en nú 1993 - en reyndar ámóta lágur í janúar 2009. Þrátt fyrir þetta var lægsti þrýstingur sem mældist í mánuðinum ekkert sérstaklega lágur - en það er ekki oft sem hæsti þrýstingur janúarmánaðar hefur verið lægri en nú. Reyndar aðeins fjórum sinnum frá upphafi samfelldra mælinga á fleiri en einum stað, 1873.

Hæsti þrýstingur janúar í ár mældist í Bolungarvík þann 29., 1014,9 hPa. Lægsti hámarksþrýstingur sem vitað er um í janúar hér á landi er 1006,0 hPa 1974. Hin þrjú tilvikin eru frá 1990, 1887 og 1930.  

Vindhraði var yfir meðallagi í janúar - en ekki er ótrúlegt að áttfesta hafi verið meiri en að meðaltali. Sagt verður frá því síðar teljist ástæða til.

Febrúar fer af stað í svipuðum dúr. Þykktinni er spáð á milli 5200 og 5300 metra næstu tíu daga - mikill jöfnuður þar. Sé sú spá rétt þýðir það að hvorki verður hlýtt né kalt - og austanáttunum er líka spáð framhaldslífi allan þennan tíma, mishvössum að vísu.


Enn af hlýjum janúarmánuðum

Landsmeðalhita má reikna á ýmsa vegu. Það má nota til þess öfluga tölfræði - eða einfalt samsafn stöðvameðaltala og allt þar á milli. Við getum með góðri vissu reiknað landsmeðalhita aftur til 1930 og með sæmilegri aftur til 1880 eða þar um bil. Allt sem er lengra aftur á bak verður mest til gamans. Sömuleiðis er tveggja aukastafa nákvæmni ekki nema leikur.

Í skemmtiskyni hefur ritstjórinn reiknað út meðalhita í janúar aftur til 1874 og búið til lista yfir hlýjustu og köldustu mánuði - topp ellefu, tölur í °C. Fyrst hlýindalistinn:

röðárjanúar
119472,99
219732,37
319722,24
419872,10
519502,07
619462,06
719641,92
819921,90
920131,87
1020141,67
1119351,45

Hér er janúar 1947 í fyrsta sæti. Síðan kemur parið 1973 og 1972, en nýja parið 2013 og 2014 er í níunda og tíunda sæti. Svo er frekar langt niður í 11. sætið - þar er janúar 1935.  

Við vitum eitthvað um hita allra janúarmánaða á 19. öld - nema 1802 og 1822. Sá fyrri var illræmdur illviðramánuður og ólíklegt að hann kæmist á þennan lista. Sömuleiðis er 1822 einnig ólíklegur til afreka. Það er aðeins einn mánuður fyrir 1874 sem örugglega á heima í einhverju toppsæti. Reyndar gæti hann vel hafa verið sá hlýjasti þeirra allra. Við þekkjum meðalhita sæmilega á þremur stöðvum 1847, í Reykjavík, í Stykkishólmi og á Akureyri og á öllum þessum stöðvum er mánuðurinn hlýrri en allir aðrir janúarmánuðir fyrr og síðar.

Svo kuldalistinn, 11 köldustu mánuðirnir frá 1874 að telja:

röðárjanúar
11918-10,25
21881-9,78
31874-8,69
41886-6,22
51979-4,93
61936-4,84
71902-4,78
81959-4,44
91920-4,37
101971-4,36
111892-4,33

Hér eru fáeinir mánuðir sem eldri veðurnörd muna vel, 1979 og 1971, og þau síðmiðaldra líka 1959 og enn muna fáein janúar 1936.  

En sé farið í eldri meðaltöl fyllist allt af köldum janúarmánuðum. Ef við förum aftur til 1823 troða svo margir mánuðir sér inn á listann að 1892 fer niður í 20. sæti og 1979 niður í það 16. Fyrstu þrjú sætin eru þó óbreytt - það eru sennilega þrír köldustu janúarmánuðir síðustu 200 ára, kannski blanda 1814 og 1808 sér í leikinn sé farið alveg aftur til aldamótanna 1800, en 1802 og 1822 vitum við ekki um eins og áður er getið.


Hlýr janúar

Janúar sá sem nú er liðinn reyndist hlýr. Eiginlega ætti að segja mjög hlýr því ritstjóranum sýnist í fljótheitum að hann sé í 12. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga bæði í Reykjavík og á Akureyri. Það eru hins vegar ekki alveg sömu janúarmánuðirnir sem eru í 11 efstu sætunum á stöðvunum tveimur. Janúar í fyrra var hlýrri í Reykjavík heldur en nú - en ívið kaldari á Akureyri.

Þá er spurningin hvað febrúar gerir. Þegar til lengri tíma er litið er samhengi hita mánaðanna tveggja ekkert og um langa hríð á síðari hluta 20. aldar fylgdust þeir verr að heldur en t.d. janúar og mars. Í fyrra voru bæði janúar og febrúar mjög hlýir og saman tókst þeim að búa til eina allrahlýjustu ársbyrjun sem um getur hér á landi - mars olli vonbrigðum hvað hita varðar og flestir mánuðir eftir það þótt hitinn tæki vissulega góða spretti í júní og júlí.

Janúar í ár verður einnig merkilegur fyrir það að hiti skyldi ekki fara niður fyrir frostmark á Vattarnesi (milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar). Ekki var það þó hlýjasti staður landsins að meðaltali í janúar - meðalhiti var hærri á einum tíu stöðvum. Mánaðarlágmarkið var +0,4 stig. Það hefur ekki gerst áður að frostlaust hafi verið á íslenskri veðurstöð allan janúar.

Í Seley (ekki langt undan) fór lágmarkshitinn niður í frostmark, nákvæmlega. Á vegagerðarstöðinni í Hvalnesi fór hiti lægst niður í +0,1 stig. Lágmarkið á Stórhöfða (sem var með í keppninni þar til í gær - fimmtudag) fór lægst í -1,5 stig. Í fljótu bragði (allt í fljótubragðaham seint á föstudagskvöldi) sýnist það vera hæsta lágmark á Stórhöfða í janúar - fyrsti mælingajanúar þar var 1922.

Nú - en þess má líka geta að á tveimur stöðvum varð aldrei frostlaust í mánuðinum - hvar skyldi það hafa verið? Jú, á Þverfjalli í Ísafjarðarsýslu (ekki viss hvort það er Vestur-Í eða Norður-Í), þar fór hitinn hæst í -0,6 stig og í Sandbúðum þar sem mánaðarhámarkshitinn mældist -0,1 stig. Og svo fór hiti aldrei upp fyrir frostmark á Gagnheiði, hámarkið var 0,0 stig. Ef út í það er farið var lægsta lágmark á Gagnheiði furðuhátt, -8,5 stig, á Þverfjalli -9,0 - það er líka há tala.

Jafnhiti var mestur við strendur Austurlands, munur á hæsta hámarki og lægsta lágmarki minnstur á Fonti á Langanesi, 6,5 stig. Hitaspönn var mun meiri inn til landsins, mest á Þingvöllum þar sem munaði 23,3 stigum á mánaðarútgildum.

Allt í allt var janúar jafnaðarmánuður hvað hita varðar - og trúlega vindstefnu líka. En önnur saga er af úrkomunni, rosaleg eystra - meiri en 600 mm á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð en lítil vestanlands - hversu lítil sjáum við ekki með öryggi fyrr en frumgögn berast frá þeim stöðvum sem ekki hafa náð að skila skeytum daglega.

Svo er það snjóhulan - ábyggilega óvenjulítil víða um land þótt klakar úr fyrri mánuði hafi verið sérlega þrálátir. Dýr varð spilliblotinn sem kom ofan í kuldakastið mikla snemma í desember. Að sjálfsögðu er ekki hægt að kenna honum einum um öll beinbrotin (mörg hundruð?) og trúlega þúsundir marbletta - en svona er það.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 169
  • Sl. sólarhring: 213
  • Sl. viku: 1948
  • Frá upphafi: 2347682

Annað

  • Innlit í dag: 144
  • Innlit sl. viku: 1676
  • Gestir í dag: 140
  • IP-tölur í dag: 135

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband