Enn af hlýjum janúarmánuðum

Landsmeðalhita má reikna á ýmsa vegu. Það má nota til þess öfluga tölfræði - eða einfalt samsafn stöðvameðaltala og allt þar á milli. Við getum með góðri vissu reiknað landsmeðalhita aftur til 1930 og með sæmilegri aftur til 1880 eða þar um bil. Allt sem er lengra aftur á bak verður mest til gamans. Sömuleiðis er tveggja aukastafa nákvæmni ekki nema leikur.

Í skemmtiskyni hefur ritstjórinn reiknað út meðalhita í janúar aftur til 1874 og búið til lista yfir hlýjustu og köldustu mánuði - topp ellefu, tölur í °C. Fyrst hlýindalistinn:

röðárjanúar
119472,99
219732,37
319722,24
419872,10
519502,07
619462,06
719641,92
819921,90
920131,87
1020141,67
1119351,45

Hér er janúar 1947 í fyrsta sæti. Síðan kemur parið 1973 og 1972, en nýja parið 2013 og 2014 er í níunda og tíunda sæti. Svo er frekar langt niður í 11. sætið - þar er janúar 1935.  

Við vitum eitthvað um hita allra janúarmánaða á 19. öld - nema 1802 og 1822. Sá fyrri var illræmdur illviðramánuður og ólíklegt að hann kæmist á þennan lista. Sömuleiðis er 1822 einnig ólíklegur til afreka. Það er aðeins einn mánuður fyrir 1874 sem örugglega á heima í einhverju toppsæti. Reyndar gæti hann vel hafa verið sá hlýjasti þeirra allra. Við þekkjum meðalhita sæmilega á þremur stöðvum 1847, í Reykjavík, í Stykkishólmi og á Akureyri og á öllum þessum stöðvum er mánuðurinn hlýrri en allir aðrir janúarmánuðir fyrr og síðar.

Svo kuldalistinn, 11 köldustu mánuðirnir frá 1874 að telja:

röðárjanúar
11918-10,25
21881-9,78
31874-8,69
41886-6,22
51979-4,93
61936-4,84
71902-4,78
81959-4,44
91920-4,37
101971-4,36
111892-4,33

Hér eru fáeinir mánuðir sem eldri veðurnörd muna vel, 1979 og 1971, og þau síðmiðaldra líka 1959 og enn muna fáein janúar 1936.  

En sé farið í eldri meðaltöl fyllist allt af köldum janúarmánuðum. Ef við förum aftur til 1823 troða svo margir mánuðir sér inn á listann að 1892 fer niður í 20. sæti og 1979 niður í það 16. Fyrstu þrjú sætin eru þó óbreytt - það eru sennilega þrír köldustu janúarmánuðir síðustu 200 ára, kannski blanda 1814 og 1808 sér í leikinn sé farið alveg aftur til aldamótanna 1800, en 1802 og 1822 vitum við ekki um eins og áður er getið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Vissi það að 2014 næði upp i topp ten!

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.2.2014 kl. 12:16

2 identicon

Fin siða

hildur bjorg eydal (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 12:21

3 identicon

Kærar þakkir Trausti fyrir markverða samantekt.

Þá er það staðfest að janúar 2014 er -0.2°C kaldari en janúar 2013. Enn virðist því vera að > k ó l n a < á Íslandi :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 12:48

4 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Er Vestmannaeyjarbær inn í þessu, Trausti? Ef ekki þá vantar 2 heitustu staðina. Eða breytir það kannski litlu í þessum útreikningum?

Hilmar, þessi -0,2°C er frekar léleg smámunasemis"rök" fyrir þinn málstað.

Pálmi Freyr Óskarsson, 2.2.2014 kl. 17:26

5 identicon

Nú vil ég auðvitað ekki efna til "lesendadeilna um páfadóm í loftslagsvísindum" enda næsta víst að síðuhaldari eyðir snemmendis umfjöllunum/ummælum sem halla á boðaða max 6°C meðalárshlýnun á Íslandi á þessari öld.

Hitt er svo ljóst að 0,2°C hitamismunur er þriðjungur af óðahnatthlýnuninni skelfilegu sem sumir segja að hafi verið að herja á jarðarbúa sl. 100 ár, af meintum manna völdum :D

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.2.2014 kl. 20:27

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hilmar: Af hverju ertu að rugla saman hita í janúar á Íslandi og hnattrænum hita - gerirðu ekki greinarmun þar á?

Höskuldur Búi Jónsson, 2.2.2014 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 73
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 1671
  • Frá upphafi: 2350948

Annað

  • Innlit í dag: 66
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband