Enn bólar ekkert á kalda loftinu

Enn bólar ekkert á kalda vetrarloftinu. Það heldur sig enn norður við norðurskaut og fyrir vestan Grænland. Ísland og allt hafsvæðið austan Grænlands - austur til Noregs er í suðlægum og tiltölulega hlýjum vindum. Þetta sést vel á norðurhvelskortinu að neðan, en það sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um hádegi á miðvikudag. Evrópureiknimiðstöðin reiknar.

w-blogg040214a 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Lega línanna segir til um vindáttir rétt eins og jafnþrýstilínur á hefðbundnum veðurkortum. Þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kvarðinn til hægri á myndinni sýnir gildin - kortið batnar mjög sé það stækkað með smellum.

Mörkin á milli blárra og grænna lita er við 5280 metra þykkt. Skipt er um liti á 6 dekametra (60 metra) bili. Meðalþykkt við Ísland á þessum árstíma er nærri 5240 metrum - landið er hins vegar nánast allt í græna litnum og af því má ráða að hiti í neðri hluta veðrahvolfs er á kortinu meira en 2 stigum yfir meðallagi. Enda er áttin suðaustlæg í hæð - en austlægari neðst. Þegar vindur snýst með sól með hæð er hlýtt aðstreymi ríkjandi.

Hæðarhryggur er nokkuð langt fyrir austan - þótt hann sé ekki öflugur heldur hann enn á móti framsæknum háloftabylgjum úr vestri. Eins og undanfarnar 6 vikur eða svo brotna þær allar við Bretland - en skjóta um leið suðlægu lofti til norðurs yfir Ísland og langt norður í höf.

Á hungurdiskum hefur 5100 metra þykkt og lægri gjarnan verið notuð sem ígildi kaldrar vetrarveðráttu. Henni fylgir hiti vel undir meðallagi hér á landi - en hún nær þó oft til landsins og er enn oftar á sveimi rétt norðan við landið. Við getum auðveldlega talið okkur niður eftir bláu litunum og fundið svæði sem eru undir 5100 metrum. Við leitum einfaldlega (niður) að fjórða bláa litatóninum á kvarðanum.

Hann finnst ekki í nágrenni við landið - hylur norðvestasta hluta Grænlands og er ekki langt vestan við Grænland suðvestanvert. Eini staðurinn sem ber kalt loft í átt til okkar er vindstrengurinn norðaustur af Nýfundnalandi - en þar bíður hlýtt Atlantshafið og hitar loftið þannig að það verður orðið sæmilega hlýtt þegar og ef það kemst hingað.

Það er enn kalt í norðaustanverðum Bandaríkjunum - en þó er versti kuldinn talsvert norðar. Hæðarhryggurinn mikli sem olli methlýindunum mestu í Alaska hefur gefið sig - en það svæði er þó inni í græna litnum - rétt eins og Ísland - og hiti þar með yfir meðallagi. Þó er stutt í mjög kalt loft norður af Alaska og trúlegt að það eigi eftir að skjóta sér til suðurs eða suðausturs - það væri ekki lengi að því. Við sjáum þéttar jafnhæðarlínur og mikinn vind á jaðri hæðarsvæðisins - ólíkt því sem er hérna Atlantshafsmegin á norðurslóðum.

Síðustu daga hefur kuldapollurinn mikli, sá sem við höfum kallað Síberíu-Blesa, verið að skjóta litlum kuldaskotum yfir heimskautið og inn í kanadapollinn Stóra-Bola. Við sjáum tvö skot sem litlar lægðir á kortinu - önnur er nánast beint yfir norðurskautinu en hinn er kominn suður yfir norðanvert meginland Kanada. Þessi skothríð á að halda áfram og svo lengi sem ekki er miðað á Grænland erum við í góðu skjóli. Tíu daga spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sér ekkert slíkt mið.

En svo er aftur annað mál að ekki er að sjá neitt sérlega hlýtt loft stefna til landsins heldur - þannig að hin makalausa hitaflatneskja janúarmánaðar virðist ætla að halda áfram.

Þessi hitaflatneskja færði okkur þó næsthlýjasta janúar sem vitað er um á Teigarhorni - en mæliröðin þar nær allt aftur til 1873. Eru það talsverð tíðindi þótt Vesturland hafi ekki gert eins vel - hitinn í Stykkishólmi í 20. sæti (mætti nú athuga betur). Landið allt kannski í því tíunda. Tengja má á janúartíðarfarsyfirlit Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alúðarþakkir, Trausti, fyrir áhugaverða umfjöllun.

Auðvitað skiptir það Íslendinga höfuðmáli að sem minnst bóli á köldu lofti á veturna. Þó svo að samantekt Veðurstofu Íslands sýni það svart á hvítu að sl. janúarmánuður var -0,2°C kaldari (varla að maður þori að nefna það vegna undirliggjandi hættu á að efna til "lesendadeilna um páfadóm í loftslagsvísindum") þá má síðuhöfundur eiga það að hann hefur reynt sitt ýtrasta til að skrifa kuldann niður, smbr. eftirfarandi fyrirsagnir bloggpistla í janúar 2014:

1. Hlýindi síðustu daga

2. Enn á hlýju hliðinni

3. Um frostleysu í janúar (og fleiri mánuðum)

4. Mjór fleygur af (ekki svo) köldu lofti

5. Af háum lágmarkshita

6. Hvar er kalda loftið?

7. Þriðja (misheppnaða?) kuldaásóknin úr vestri (í þessum mánuði)

8. Hlýr janúar

9. Enn af hlýjum janúarmánuðum

10. Enn bólar ekkert á kalda loftinu

Árið 2013 var kaldasta árið á þessari öld. Nú stefnir í enn meiri kulda. Hvar er hlýja loftið Trausti?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 4.2.2014 kl. 21:57

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já þetta er nú meiri kuldinn! Það er búið að vera svo kalt að jafnvel hefur farið niður fyrir frostmark í höfuðborginni stöku sinnum þegar verst lætur - og það í janúar.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.2.2014 kl. 23:25

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Og ekki byrjar febrúar betur. Hitinn hefur varla farið yfir 6 stig það sem af er mánuði og stöðugt verið að spá kólnandi.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.2.2014 kl. 23:46

4 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Það mætti snúa spurningunni við Hilmar, og spyrja þig hvar var kalda loftið í janúar 2014 á Íslandi?

Pálmi Freyr Óskarsson, 5.2.2014 kl. 03:34

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Trausti bloggar um veðrið eins og það er og ef það væri kalt, þá myndi hann blogga um kuldan og það mun hann eflaust gera næst þegar veðrið sveiflast í þá áttina. Hann er samt ekki að blogga um hnattræna hlýnun - Trausti gerir það ekki, eins og þú ættir að vera búinn að átta þig á, Hilmar.

Höskuldur Búi Jónsson, 5.2.2014 kl. 09:11

6 identicon

Það skal ítrekað, en ekki ofsagt, að ég ætla mér ekki þá dul að efna til "lesendadeilna um páfadóm í loftslagsvísindum" á Hungursíðunum hans Trausta. En rétt skal auðvitað vera rétt, jafnvel þó maður þurfi í leiðinni að leiðrétta meintan jarðvísindamann:

"Hilmar. Fimmtán ár eru allt of stuttur tími til að hægt sé að ræða breytingar á meðalhita. Það er svosem hægt að reikna það út - en svarið er ekki marktækt - þótt athyglisvert sé. Taki maður mark á slíkum reikningum er svar við spurningu 1 nei, hann hefur hækkað miklu meira eða um 0,9 stig. Það gera um 7 stig á öld sýnist mér - ekki lítur það vel út. Svar við spurningu 2 er því já - svo aldeilis. Við vonum samt að enginn taki mark á þessum tölum - þær eru úr samhengi. Við getum hins vegar með sæmilegri samvisku endurtekið það sem sífellt þarf að endurtaka: Leiðin upp úr kuldaskeiðinu 1965 til 1995 var mjög brött - miklu brattari heldur en hægt er að reikna með að hnattræn hlýnun sé (vonandi). Því er einfaldlega óhjákvæmilegt að það dragi mjög úr þessari gríðarlegu hlýnun hér um slóðir og alls vegna -- vonandi fáum við einhver kaldari ár á næstunni sem geta dregið úr vaxandi áhyggjum okkar af hlýnuninni hnattrænu.

Trausti Jónsson, 13.7.2013 kl. 00:28"

"Ágúst - þegar ég tala um flatan feril eftir 2005 á ég ekki við að leitnin sé lítil heldur fremur það að hitinn hangir ofan við 4 stig nánast látlaust, en fer heldur ekki yfir 5. Á fyrra hlýindaskeiði fór hiti oft yfir 4 stig, jafnvel 5, en aldrei svona lengi í einu. Var hins vegar að sífellt að detta niður í 3 til 3,5 á milli toppanna. Núverandi ástand er mjög óvenjulegt, 12 ár með landsmeðalhita um eða yfir 4 stigum - náttúran hefur aldrei séð slíkt á mælitímabilinu öllu (í 200 ár) - það var helst á hafísárunum svonefndu sem hreyfingar voru líka litlar - en þá á milli 2 og 3 stiga. Hinar venjubundnu sveiflur eru miklu stærri heldur en undirliggjandi hnattræn hlýnun. Á norðurslóðum ríkir sú einkennilega staða að þótt búist sé við því að hnattræn hlýnun verði þar hvað mest á heimsvísu er þar jafnframt erfiðast að sýna fram á að hún eigi sér stað. Hilmar. (1) og (5), sjá pistil dagsins í dag. (2) Óbyggðastöðvar eru nýtt fyrirbrigði, að klúðra saman hálendi og láglendi eyðileggur möguleika á hitasamfellu sem nær til lengri tíma en síðustu 15 ára. Við litum á hálendisstöðvarnar síðar - ef þrek ritstjórans endist. (3) Frumgögnin eru í töflu í gagnagrunni Veðurstofunnar. Síðustu 4 dagar eru alltaf aðgengilegir. (4). Hér er sífellt verið að taka fram að leitni yfir skemmri tímabil er marklaus. Þar að auki segir leitni yfir langan tíma nákvæmlega ekki neitt um framtíðina - meira að segja sú sem stendur í 100 ár. Leitni er fyrst og fremst reiknuð til greiningar - menn leita skýringa á liðnum hitabreytingum - skýringa er leitað til að sjá betur í gegnum tilviljanasuðið. Leitnin frá 2003 til 2004 er þannig að hefði hún haldið áfram væri meðalhití á landinu nú kominn niður í um -20 stig. Nenna menn að þrasa um slíkt? Að reikna leitni frá 2003 til 2013 er jafnmarklaust.

Trausti Jónsson, 2.10.2013 kl. 02:12"

"Ágúst ég hef fylgst dálítið með ástandinu í Alaska frá því þeir upplifðu hlýnunarþrepið stóra 1976. Áratugasveiflur eru þar mjög miklar rétt eins og hér og víðar á norðurslóðum, miklu stærri heldur en almenn hnattræn hlýnun. Þótt sumum finnist það hljóma öfugmælalega er erfiðast að staðfesta hnattræna hlýnun á þeim stöðum sem búist er við að hún verði mest. Hilmar. Það er ekki verið að boða óðahlýindi - heldur eru margir þeirra sem efast um hlýnandi veðurfar að fullyrða að ekkert nema óðahlýnun geti sannað að hlýnun sé að eiga sér stað. Ég segi enn og aftur að hlýnunin sé alveg nægilega hröð - vonandi að við upplifum hana ekki hraðari en hún hefur verið síðustu 130 árin. Nóg er samt.

Trausti Jónsson, 19.5.2013 kl. 01:40" 

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 12:34

7 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

...og var hann að blogga um hnattræna hlýnun þarna?
En rétt hjá þér, óþarfi að deila um þetta í sjálfu sér - á meðan þú áttar þig á því að hitinn í janúar á Íslandi er veður en ekki hnattrænar loftslagsbreytingar ;)

Höskuldur Búi Jónsson, 5.2.2014 kl. 12:41

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Fann nokkuð áhugavert fyrir veðurnörda, hægt er að skoða þróun í hitastigi víða um heim samkvæmt HadCRU á Google Earth (fyrir þá sem eru með google earth). Sjá nánari upplýsingar hér:  http://www.theguardian.com/environment/climate-consensus-97-per-cent/2014/feb/04/global-warming-google-earth-uea

Höskuldur Búi Jónsson, 5.2.2014 kl. 15:21

9 identicon

Janúarmánuður 2014 í USA:

Total Records: 5012

Snowfall: 902

High Temp: 723

Low Temp: 1163

Low Max Temp: 1660

High Min Temp: 564

> http://wx.hamweather.com/maps/climate/records/4week/us.html?cat=maxtemp,mintemp,snow,lowmax,highmin

Hvar er hlýja loftið í USA Trausti :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 5.2.2014 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 87
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 1462
  • Frá upphafi: 2351046

Annað

  • Innlit í dag: 74
  • Innlit sl. viku: 1266
  • Gestir í dag: 71
  • IP-tölur í dag: 69

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband