Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Hreinsar frá

Norðaustanstrengurinn sem plagað hefur suma landsmenn í dag (sunnudaginn 2. nóvember) er nú að ganga niður. Lægðin sem honum stýrir er að grynnast og fjarlægjast. Við tekur hæðarhryggur sem ráða mun veðri mánudags og  þriðjudags - að mestu.

En ekki eru allir hæðarhryggir hreinir og inni í þessum á að myndast dálítið úrkomubelti sem reiknimiðstöðvar eru að vísu ekki alveg sammála um - en lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á þriðjudaginn 4. nóvember.

 w-blogg031114a

 Hér má sjá hæðarhrygginn - greinilega. En úrkomubakki liggur inn á Suðurland og teygir sig raunar suður úr kortinu (sem batnar sé það stækkað). Jafnþrýstilínur eru heildregnar og gráar, en fjólubláar strikalínur sýna hita í 850 hPa-fletinum. Það er -10 jafnhitalínan sem liggur í hlykkjum yfir landið frá vestri til austurs. Þetta er ekkert sérlega kalt - en gefur samt til kynna frost í neðri sveitum.

Ef vel er að gáð má sjá að -5 stiga jafnhitalínan teygir sig til norðurs utan um úrkomubakkann. Litirnir gefa til kynna úrkomuákefð, dekksti græni liturinn í bakkanum sýnir 1,5 til 3,0 mm úrkomu á 3 klst. Þetta er nokkuð - fari bakkinn hægt yfir. 

Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða. Vindur er hægur í kringum bakkann - austan hans er vindur af austri - en óráðinn eða af suðri vestan við. Inni í bakkanum má sjá bæði krossa og þríhyrninga, krossarnir segja að úrkoman sé snjókoma [krossar eru yfir Suðurlandi] - en þríhyrningarnir að hún sé af klakkauppruna - verði til í óstöðugu lofti - jafnvel éljaklökkum. 

Svo er spurning hvað úr verður. Reiknimiðstöðin getur sér þess til að 12 tímum síðar hafi snjóað 5 til 10 cm á höfuðborgarsvæðinu - eigum við að trúa því? Síðan er áframhaldið rigning - með alvörulægð. Bandaríska veðurstofan er á álíka róli - segir um 25 mm úrkomu eiga að falla í Reykjavík á þriðjudag og miðvikudag.

Það er sennilega þess virði að fylgjast með þróuninni - hvort hungurdiskar gera það er svo annað mál. Veðurstofan gerir það örugglega - fylgist með spám hennar.   


Frostleysa

Ekkert frost mældist í byggðum landsins í júní og júlí í sumar (2014). Við nánari eftirgrenslan kom í ljós að þetta er harla óvenjulegt og ekki hafa tveir samliggjandi sumarmánuðir verið frostlausir í byggð hér á landi síðan í júlí og ágúst 1950. Þá var stöðvakerfið talsvert gisnara heldur en nú er og líkur á frostlausum mánuði því meiri af þeim sökum einum heldur en nú er. 

Við borð lá þó að júlí yrði ekki frostlaus - frost mældist nefnilega aðfaranótt 1. ágúst. En frostlausa syrpan í ár reyndist þó vera 64 daga löng. Eins og oft hefur verið fjallað um á hungurdiskum áður valda stöðugar breytingar á stöðvakerfinu því að dagasyrputímaraðir eru aldrei alveg skotheldar. Þegar á heildina er litið hefur stöðvum fjölgað á síðustu 20 árum - en á móti kemur að samsetning kerfisins hefur breyst. Hlutur mannaðra athugana fer sífellt minnkandi. Mannaða kerfið verður ekki eins fiskið á landshámörk og lágmörk eins og það var - en það sjálfvirka veiðir betur og betur (þar til það verður skorið niður líka).

Lesendur verða ekki þreyttir á kerfasamanburði að þessu sinni (það hefur verið gert oft áður), en við skulum líta á tímaraðir og fleira smálegt.

Lengsta byggðarhláka ársins 

Daglega gagnaröðin er sæmilega samræmd aftur til 1961. Á því tímabili skilaði sumarið 2014 lengsta samfellda hlákutímanum, (64 dagar), en 2007 þeim stysta (11 dagar). Enga leitni er að sjá og ekkert samband við sumarmeðalhita heldur. 

Ekki sérlega marktækt met í sumar, en met samt í metaheimi. Spyrja má fleiri spurninga. Hversu margir dagar í röð hafa mest verið frostlausir í byggð á landinu í janúar? Svar: 4 dagar í janúar 1973. En febrúar? Svar: 3 dagar í febrúar 1965. Mars?  4. dagar 1964. Desember? 4 dagar 1977. 


Október undir meðallagi

Eins og fram hefur komið í frétt á vef Veðurstofunnar (og á fjasbókarsíðu hungurdiska) var meðalhiti í nýliðnum október undir meðallaginu 1961 til 1990 bæði í Reykjavík og á Akureyri. Þetta eru mikil viðbrigði frá því sem verið hefur hingað til í ár. En neikvæðu vikin eru ekki stór - rétt svo að þau nái að vera neikvæð og var hiti raunar ekki undir meðallagi um land allt. Sé landsmeðalhiti reiknaður kemur í ljós að hann var þó neikvæða megin við strikið, vikið er -0,06 stig, sem er ómarktækt neikvætt.

En í keppnisgreinum og metingi látum við aukastafi skipta máli. Hér að neðan er fjallað um talningu neikvæðra mánaða á landinu frá 2001 til 2014. Fyrst skal þess getið að öll árin 13 sem liðin eru eru ofan meðalhitans 1961 til 1990 (og reyndar nokkur síðustu ár 20. aldar líka). 

w-blogg021114a 

Hér er talið hversu margir mánuðir hvers árs hafa verið undir meðallagi. Flestir voru neikvæðu mánuðirnir í fyrra (2013), fjórir - oftast hafa þeir verið tveir á ári (7 sinnum), þrisvar 1 og tvisvar 3. Engin mánuður var undir meðallagi árið 2003. Alls eru mánuðirnir 27 á 14 árum (tveir gætu enn bæst við). 

Neikvæðnin raðast misjafnt á almanaksmánuðina 12.

w-blogg021114b

Janúar, júlí og ágúst hafa aldrei verið undir meðallagi á landinu í heild í þessi 14 ár. Október hins vegar fimm sinnum. Um sérkennilega hegðun hans var fjallað á dögunum í sérstökum pistli hungurdiska (6. október). Næstneikvæðastir hafa febrúar og maí verið. 

Hegðan hitans síðustu 14 árin segir auðvitað lítið sem ekki neitt um framtíðina. Ekkert bendir þó enn til þess að lát sé á hlýindunum miklu sem nú hafa staðið á annan áratug hér á landi.  


Norðaustanáttin í Grænlandssundi

Kortið hér að neðan sýnir algenga stöðu. Það gildir kl. 12 á hádegi sunnudaginn 2. nóvember. Mikill vindstrengur liggur úr norðaustri suðvestur um Grænlandssund. Hann er kaldastur í miðju - en hlýrra er til beggja handa. 

w-blogg011114a 

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna hæð 925 hPa-flatarins - (samkvæmt spá evrópureiknimiðstöðvarinnar). Hann er í um 600 metra hæð nyrst á Vestfjörðum. Litir sýna hita í fletinum. Bláu litirnir í Sundinu eru þrír, sá dekksti sýnir frost á bilinu -8 til -10 stig. Fjórði blái liturinn kemst víst ekki lengra að þessu sinni (sé að marka spána) því hlýtt sjávaryfirborð hitar loftið baki brotnu. 

Að sögn er munur á sjávarhita og 925 hPa-hitans um 15 stig þar sem mest er. Hiti fellur um 1 stig á hverja hundrað metra í vel hrærðu lofti. Vindurinn sem hér er um 25 til 30 m/s sér um hræruna. Þetta bendir til þess að um 9 stiga munur sé á sjávarhitanum og því lofti sem næst því liggur (15 - 6). Að sögn líkansins skilar þessi munur (og vindur) hátt í 300 W á fermetra skynvarmaflæði frá sjó í loft. 

Svona (meðal annars) tapar sjórinn sumarvarmanum viðstöðulítið - en varmatap á sér einnig stað við uppgufun og varmageislun. Á sunnudaginn - þegar kortið gildir - segir líkanið að sjávaryfirborðið í Sundinu tapi meir en 200 W á fermetra við uppgufun. Loftið tekur við þessum varma. Ritstjórinn hefur ekki upplýsingar um geislunarjafnvægið - en það er neikvæðast (sjávaryfirborðinu) í björtu veðri. Skynvarminn fer beint í að hækka hita loftsins - en hvar dulvarminn losnar er ómögulegt að segja - kannski í skúrum eða éljum sunnan til á Grænlandshafi?

Nú - eins og sjá má nær strengurinn hér inn á landið norðvestanvert og rétt fyrir ferðamenn og aðra sem háðir eru veðri að fylgjast með spám Veðurstofunnar. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 78
  • Sl. sólarhring: 227
  • Sl. viku: 1043
  • Frá upphafi: 2420927

Annað

  • Innlit í dag: 71
  • Innlit sl. viku: 920
  • Gestir í dag: 71
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband