Hreinsar frá

Norðaustanstrengurinn sem plagað hefur suma landsmenn í dag (sunnudaginn 2. nóvember) er nú að ganga niður. Lægðin sem honum stýrir er að grynnast og fjarlægjast. Við tekur hæðarhryggur sem ráða mun veðri mánudags og  þriðjudags - að mestu.

En ekki eru allir hæðarhryggir hreinir og inni í þessum á að myndast dálítið úrkomubelti sem reiknimiðstöðvar eru að vísu ekki alveg sammála um - en lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á þriðjudaginn 4. nóvember.

 w-blogg031114a

 Hér má sjá hæðarhrygginn - greinilega. En úrkomubakki liggur inn á Suðurland og teygir sig raunar suður úr kortinu (sem batnar sé það stækkað). Jafnþrýstilínur eru heildregnar og gráar, en fjólubláar strikalínur sýna hita í 850 hPa-fletinum. Það er -10 jafnhitalínan sem liggur í hlykkjum yfir landið frá vestri til austurs. Þetta er ekkert sérlega kalt - en gefur samt til kynna frost í neðri sveitum.

Ef vel er að gáð má sjá að -5 stiga jafnhitalínan teygir sig til norðurs utan um úrkomubakkann. Litirnir gefa til kynna úrkomuákefð, dekksti græni liturinn í bakkanum sýnir 1,5 til 3,0 mm úrkomu á 3 klst. Þetta er nokkuð - fari bakkinn hægt yfir. 

Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða. Vindur er hægur í kringum bakkann - austan hans er vindur af austri - en óráðinn eða af suðri vestan við. Inni í bakkanum má sjá bæði krossa og þríhyrninga, krossarnir segja að úrkoman sé snjókoma [krossar eru yfir Suðurlandi] - en þríhyrningarnir að hún sé af klakkauppruna - verði til í óstöðugu lofti - jafnvel éljaklökkum. 

Svo er spurning hvað úr verður. Reiknimiðstöðin getur sér þess til að 12 tímum síðar hafi snjóað 5 til 10 cm á höfuðborgarsvæðinu - eigum við að trúa því? Síðan er áframhaldið rigning - með alvörulægð. Bandaríska veðurstofan er á álíka róli - segir um 25 mm úrkomu eiga að falla í Reykjavík á þriðjudag og miðvikudag.

Það er sennilega þess virði að fylgjast með þróuninni - hvort hungurdiskar gera það er svo annað mál. Veðurstofan gerir það örugglega - fylgist með spám hennar.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 59
  • Sl. sólarhring: 103
  • Sl. viku: 1434
  • Frá upphafi: 2351018

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 1243
  • Gestir í dag: 50
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband