Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013

Botninn sleiktur

Eins og getið var um á þessum vettvangi fyrir nokkrum dögum var dægurlágmarksmet fyrir byggðir landsins slegið aðfaranótt þess 1. ágúst. Aðfaranótt þess 5. var landslágmarksmet þess dags jafnað þegar hiti á sjálfvirku stöðinni á Grímsstöðum fór niður í -1,6 stig. Þetta síðara met lá reyndar vel við höggi því það er ívið hærra heldur en met þeirra daga sem næst liggja.

Síðastliðna nótt (aðfaranótt þriðjudags þ.6.) fór lágmarkshitinn býsna neðarlega í Reykjavík, mældist 4,2 stig á mönnuðu stöðinni. Það er óvenjulágt lágmark í Reykjavík í fyrri hluta ágústmánaðar og mun t.d. vera það lægsta á þessum ákveðna degi í meir en 60 ár og ekki langt frá dægurmeti mannaðra en það er 3,8 stig - frá flatneskjusumrinu 1921. Ágúst það ár á líka dægurlágmarksmet í Reykjavík þann 8. og þann 10. auk þess 6.

Á sjálfvirku stöðinni á Veðurstofutúni fór lágmarkshitinn reyndar niður í 3,9 stig - nærri því niður í metið, sama lágmark mældist á hinni sjálfvirku stöðinni á Túninu. Á sjálfvirku stöðinni á flugvellinum fór lágmarkshitinn niður í 2,2 stig.

Óvenjuþurrt var í Reykjavík nóttina köldu og daggarmark undir -2°C, frost var við jörð sums staðar í borginni. Þegar þetta er skrifað rétt eftir miðnætti á þriðjudagskvöldi er hitinn á veðurstofutúni kominn niður í 7,5 stig - það sama og var sólarhring áður - og enn er léttskýjað. Daggarmark er hins vegar um +5 stig - það dregur úr líkum á því að jafnkalt verði í nótt og þá fyrri - nema að nýtt og þurrara loft streymi niður úr heiðalöndunum umhverfis borgina.


Augun hvarfla oft til norðurskautsins

Þessa dagana hvarfla augu ritstjórans oft í átt til norðurskautsins og kuldans sem þar er á ferðinni. Minnst var á hann fyrir nokkrum dögum og í dag lítum við á annað norðurslóðakort sem sýnir sama kulda nema hvað hiti í 850 hPa-fletinum er í forgrunni (litafletir) ásamt sjávarmálsþrýstingi (heildregnar línur). Kortið er úr smiðju evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl. 18 þriðjudaginn 6. ágúst.

w-blogg080813a

Örin bendir á Ísland. Á ljósgræna svæðinu við norðaustanvert Ísland er hitinn í 850 hPa á bilinu -2 til -4 stig (í um 1500 metra hæð). Þetta er kaldasta svæði kortsins utan heimskautaslóða. Lítill ámóta kaldur blettur er við vestanverðan Hudsonflóa - en hann á að hverfa þaðan. Óvenju hlýtt er nú yfir kanadísku heimskautaeyjunum - þar er ábyggilega mikill gangur á ísbráðnun.

Á móti er óvenju kalt í Norðuríshafinu og ísbráðnun minni en vænta mætti miðað við undanfarin ár - ekki er þó útséð um það. Athuganir við sjávarmál benda þó til þess að hiti við sjávarmál sé víðast hvar við frostmark. Djúp lægð er yfir Íshafinu - en þó mun minni heldur en risalægðin sem þar gekk yfir um þetta leyti í fyrra og sendi bráðnandi ís út og suður.

Nú er spurningin hvort þessi norðurslóðakuldi telst til leifa síðasta vetrar - eða hvort hér er næsti vetur að byrja að gera vart við sig.


Köld vika framundan?

Heldur er hann kaldur þessa dagana. Þegar þetta er skrifað á sunnudagskvöldi 4. ágúst er hiti ekki langt ofan við frostmark víða á hálendinu og þótt kuldinn mildist ugglaust eitthvað um miðja vikuna er ekki að sjá nein hlýindi framundan.

Landshámarkshitinn komst samt í 20,5 stig í Skaftafelli í dag - þannig að þetta er ekki alslæmt. Hitavísarnir tveir sem hungurdiskar vitna oft til (mættishiti í 850 hPa fletinum og 500/1000 hPa þykkt) gefa til kynna að líklegur landshámarkshiti mánudags verði 3 til 4 stigum lægri heldur en í dag. Staðbundnar aðstæður raska þó stundum spám af þessu tagi og þær má ekki taka of alvarlega. - En veður er alla vega kólnandi fram á aðfaranótt þriðjudags - en eftir það telja reiknimiðstöðvar að lítillega hlýni aftur.

Hér var fyrir fáeinum dögum minnst á að dægurlágmarkshitamet fyrir byggðir landsins hafi verið slegið aðfaranótt þess 1. þegar frostið fór í -2,4 stig á Brúsastöðum í Vatnsdal.

Við lítum nú á töflu. Fyrstu tveir dálkarnir eiga við mánuð (ágúst) og dag en síðan koma fjórir talnadálkar sem merktir eru með bókstöfunum a til d. Dálkurinn sem merktur er a sýnir lægsta hita sem mælst hefur í byggð viðkomandi ágústdag og b lægsta hita landsins að meðtöldu hálendinu. Gögnin að baki þessum tveimur dálkum ná bæði til sjálfvirkra og mannaðra stöðva. Hér sjáum við að aðfaranótt þess 5. liggur best við nýju meti, mesta frost sem mælst hefur þá nótt er -1,6 stig en meira frost hefur mælst aðra daga.

mándagur abcd
81-2,4-2,514,615,5
82-3,0-3,014,617,5
83-2,7-2,715,016,1
84-2,7-2,714,417,5
85-1,6-1,613,515,7
86-3,0-3,013,115,8
87-2,6-2,813,715,0
88-2,0-2,512,114,5
89-2,5-2,513,815,3
810-4,5-6,513,814,8
811-4,4-4,412,815,2

Síðari dálkarnir tveir sýna hins vegar lægsta landshámarkshita þessa sömu daga. Fyrri dálkurinn, sá sem merktur er með bókstafnum c, nær til mannaðra stöðva aftur til 1949 (aðeins þó skeytastöðvar fyrir 1961). Við sjáum að allt undir 15 stigum er óvenjulegt. Síðari dálkurinn (merktur d) sýnir lægsta landshámark hvers dags á sjálfvirkum stöðvum. Eðlilegt er að bera tölurnar þar saman við þær hámarkshitatölur sem daglega má fylgjast með á vef Veðurstofunnar. Hér sést að allt undir 16 stigum er óvenjulegt.

Hver skyldu landslágmörk og landshámörk verða næstu daga?


Dagur og nótt (sunnudagur)

Skynvarmi er ekki meðal vinsælustu viðfangsefna hungurdiska - nema hjá ritstjóranum sjálfum. Ef trúa má opinberum teljurum dettur lesturinn niður þegar orðinu sést bregða fyrir. En það er ekki bara rjómi á dagskrá.

Lítum á tvö kort úr framleiðslu harmonie-veðurlíkansins. Það fyrra sýnir vind og reiknað skynvarmaflæði milli lofts og yfirborðs kl. 4 í nótt - aðfaranótt sunnudagsins 4. ágúst. Það síðara sýnir það sama kl. 16 síðdegis sama dag.

w-blogg040813a

Vindurinn er sýndur með hefðbundnum vindörvum en skynvarmaflæðið er í litum, einingin er wött á fermetra. Gömlu ljósaperurnar eru ágæt leið til að átta sig á stærðinni. Kvarðinn batnar mjög sé myndin stækkuð. Grænir litir sýna hvar varmaflæðið er úr lofti til jarðar. Yfirborð landsins kólnar mjög á skýlitlum nóttum og það kælir síðan loftið. Á myndinni er þetta fyrst og fremst að gerast um landið sunnanvert. Norðanlands er skýjað og hitamunur dags og nætur því miklu minni.

En rauðu litirnir sýna varmaflæði frá yfirborði til lofts. Á þessari mynd er það mest þar sem kalt landloftið rennur út yfir sjóinn. Það er einungis við Austfirði sem sjórinn er svo kaldur að loftið heldur áfram að kólna eftir að út á hann er komið. Athugið að kortið segir ekkert um hita loftsins heldur eingöngu varmaflæði. Takið eftir því að flæði er úr sjó í loft bæði á Faxaflóa og á Selvogsbanka, þó talsverður munur sé á gildunum. Hámarkið undan Mýrum er 110 wött á fermetra en ekki nema 38 við Bakkafjöru.

Á síðari myndinni hefur margt snúist við. Kortið gildir kl. 16 síðdegis.

w-blogg040813b

Allt landið gefur frá sér varma - nema rendur á sunnanverðum Vatnajökli og Mýrdalsjökli austanverðum. Sólin hefur hitað yfirborð landsins - langmest þar sem léttskýjað er - en líka þar sem geislar hennar eru skertir af skýjum.

Litur Selvogsbanka er hér orðinn grænn - sjórinn kælir hlýtt loftið af landi, hæsta (neikvæða) talan er -60 wött á fermetra en Faxaflói er enn rauðleitur. Þar er hlýnunin yfir Mýrum og Borgarfirði ekki nægileg til þess að hún skili nægilega miklu til loftsins þannig að það geti hitað sjóinn á flóanum. Það er sjórinn sem hitar loftið. Vindurinn ræður þar miklu en hann auðveldar varmaskipti að mun.

Hafa verður í huga að hér er um reiknað kort að ræða og ekki vitað hvernig það rímar við raunveruleikann á hverjum stað - væntanlega getur skeikað miklu.

Áfram er spáð svölu veðri - helst að sunnlendingar sem koma sér fyrir sunnan undir vegg geti við unað.


Nóttin kalda

Ágúst byrjar mjög kuldalega - eftir að júlí hafði náð sér upp úr volæðinu á frábærum endaspretti. Nánari fréttir af júlí má finna í frétt á vef Veðurstofunnar.

Frost mældist á 12 veðurstöðvum fyrstu nótt mánaðarins, þar af fjórum í byggð (sjá lista í viðhengi). Mest mældist það á Brúsastöðum í Vatnsdal, -2,4 stig. Það reynist vera dægurmet, hiti hefur aldrei mælst jafnlágur í byggð aðfaranótt 1. ágúst. Jökulheimar eiga -2,5 stig sem landsmet þennan dag. það var 1965.

Bjartviðri komandi nætur (aðfaranótt föstudagsins 2. ágúst) býður líka upp á lágan hita. Sérlega þurrt er víða um landið vestanvert og það eykur líkur á næturkulda. Þykktin er þó hærri en var síðastliðna nótt - það hjálpar eitthvað. Möðrudalur á lægsta lágmark 2. ágúst, -3,0 stig sem mældust 1986.

Kuldapollurinn yfir norðurskautinu sem gaf tilefni til  pistils í gær virðist ætla að senda okkur tvo kuldaskammta í næstu viku (ekki gott það) - en spár svo langt fram í tímann riðlast oft þannig að við höfum leyfi til að vona hið besta.

Rétt er að geta þess að nú stendur silfurskýjatíminn sem hæst. Í gær (aðfaranótt miðvikudags) mátti sjá góða sýningu milli kl. 1 og 2 (kannski aðeins lengur) - en skýin eru ekki alveg jafn áberandi nú í kvöld (hvað sem síðar verður). Silfurský sjást oft á lofti hér á landi á tímabilinu 25. júlí til 17. ágúst. Tímabil þeirra er lengra - en hér er allt of bjart þegar sól er lengst á lofti til að hægt sé að sjá þau - síðan hverfa þau snögglega einn daginn um miðjan ágúst þegar hlýna fer í miðhvörfunum (í um 90 km hæð). Það er ein margra ábendinga um að sumri sé farið að halla.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kuldi við norðurskautið

Háloftakuldapollurinn við norðurskautið virðist ekkert vera að gefa sig. Hann er talsvert kaldari heldur en á sama tíma í fyrra. Hæð 500 hPa-flatarins er meir en 200 metrum undir meðallagi í pollinum - en ritstjórinn hefur ekki alveg á tilfinningunni hversu algengt það er á þessum árstíma. Rétt er þess vegna að ræða ekki meira um það að svo stöddu.

En kortið nær yfir megnið af norðurhveli suður um 30. breiddarstig og gildir um hádegi á föstudag 2. ágúst. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin sýnd í lit. Munum að hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Kvarðinn á myndinni batnar mjög við stækkun.

w-blogg010813a

Á föstudaginn hefur hiti hér á landi aðeins jafnað sig eftir kuldann sem nú í nótt og á morgun (fimmtudag) ríkir um mikinn hluta landsins. Megnið af landinu er á gulu svæði en það sýnir sumarhita (lágan að vísu).

Mikil hlý tunga flæðir norður um Evrópu vestanverða, svo sýnist sem 5700 metra jafnþykktarlínan nái norður til Danmerkur - það telst mjög mikil þykkt á þeim slóðum. Þetta hlýja loft fer hjá í alskýjuðu veðri og sennilega rigningu þannig að hitinn fer ekki nærri því eins hátt og yrði ef sólar nyti. Það er helst að aðfaranótt laugardags verði óvenjuhlý. Síðan kólnar aftur.

Annars bar það til tíðinda í gær að hiti í Maniitsoq/Sukkertoppen á Grænlandi fór í 25,9 stig. Að sögn dönsku veðurstofunnar er þetta hæsti hiti sem mælst hefur á Grænlandi það tímabil sem gagnagrunnstaflan sem miðað er við nær til. Það er frá og með 1958. Eitthvað rámar ritstjórann í eldri og hærri grænlenskar tölur, en meðan danska veðurstofan upplýsir okkkur ekki betur um það látum við gott heita.

Á vef dönsku veðurstofunnar er nú einnig frétt um danska norðurljósaleiðangurinn á Akureyri veturinn 1899 til 1900 og má þar sjá margar góðar og skemmtilegar myndir sem teknar voru í kampavínsleiðangri akureyringa á Súlur nú á dögunum. Tilefnið var sýning Minjasafnsins á myndum sem gerðar voru í danska leiðangrinum. Í nýlegum fréttum af leiðangrinum og sýninguna er oftast talað um Dönsku veðurfræðistofnunina - það er að vísu nákvæm þýðing nafnsins - en alsiða er hér á landi að tala um Dönsku veðurstofuna. Veðurstofa Íslands tók við athugunum af þeirri dönsku 1920.

Veðurstofan birtir væntanlega yfirlit um júlímánuð á morgun (fimmtudag), en hiti komst yfir meðallagið 1961 til 1990 hér í Reykjavík, en var talsvert undir meðalagi síðustu ára.

Í síðari hluta mánaðarins mældist hiti 20 stig eða meir í fjórtán daga í röð - sem verður að teljast mjög gott. En í dag, miðvikudaginn 31. júlí, komst hiti ekki svo hátt - og aðeins ein stöð náði hæsta hita sumarsins. Það var Tálknafjörður þar sem hitinn komst í 16,7 stig, vonandi að þar komist hann enn hærra í ágúst.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 34
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1955
  • Frá upphafi: 2412619

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1708
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband